4.4.2006 | 23:51
Umfjöllun um kosningarnar hafin á fullu

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Þær verða í lok næsta mánaðar, laugardaginn 27. maí - 53 dagar eru því til kosninga. Utankjörfundarkosning er þegar hafin, hófst formlega á mánudaginn. Lokaundirbúningsvinna kosningabaráttunnar á sér stað þessa dagana - framboðslistar eru á flestum stöðum þegar tilbúnir og helstu áherslur liggja fyrir á flestum stöðum. Þó er enn rúmur mánuður eftir af framboðsfrestinum og verður ekki ljóst endanlega fyrr en þann 6. maí hversu mörg framboð verði í framboði í sveitarfélögum landsins. Það blasir við auðvitað nú þegar að lykilbaráttan hefst vart fyrr en eftir páskahátíðina og því verði mesta púðrið í baráttunni seinustu 40 dagana, en þann 18. apríl eru 40 dagar til kosninga. Nú fer að styttast í að staða mála í kosningabaráttunni verði sýnilegri á stöðu mála utan Reykjavíkur, þar sem búist er við mestu átökunum um völdin og reyndar má segja að krafturinn hafi verið mestur fram að þessu í kosningaslagnum í borginni.
Það styttist ennfremur nú í að við fáum að sjá skoðanakannanir í sveitarfélögunum utan Reykjavíkur. Eins og við er að búast finnst mér sérstaklega fróðlegt að sjá kannanir á stöðu mála hér á Akureyri. Ég lenti nýlega í könnun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri á fylgi flokkanna hér í bæ og bíð því spenntur eftir að sjá könnunina. Væntanlega kemur hún á næstu dögum. Verður mjög athyglisvert að sjá þar helstu stöðu mála eins og hún er nú eftir prófkjörin en öll fimm framboðin sem náðu kjöri í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 hafa gengið frá framboðslistum sínum og stutt í að málefnaskrár allra framboða liggi fyrir og með því hefjist formleg kosningabarátta. Hefð er fyrir því hér og almennt á landsbyggðinni að kosningabaráttan sé stutt og snörp og taki fljótt af. Hefjist rétt rúmum mánuði fyrir kosningar og sé tekin með miklum krafti undir það síðasta. Það er reyndar fátt sem jafnast á við það að vinna undir álagi og vera í þessu brasi frá morgni fram á kvöld.
Í kvöld hófst formlega kosningaumfjöllun NFS með borgarafundi á Akranesi og kynningu á þeim framboðum sem þegar hafa gengið frá skipan á framboðslista sína. Fannst mér mjög áhugavert að kynna mér pólitíkina á Skaganum og ekki var verra að sjá skoðanakönnun á fylgi flokkanna en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur og mjög nærri hreinum meirihluta. Var fínt að heyra staðreyndir um stöðu mála í bænum og kynna sér kosningabaráttuna þar og væntanlega átakapunkta baráttunnar. Er greinilegt að mikill metnaður er lagður í kosningaumfjöllun NFS. Það er tekið á málefnum stærstu sveitarfélaganna og farið yfir lykilpunkta á hverjum stað. Jafnframt er svo kynnt ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun hefur gert í hverju sveitarfélagi. Mjög áhugaverður pakki og verður spennandi að fylgjast með þessu.
Hef heyrt í dag talað um óánægju víða með hversu snemma NFS fer af stað. Það er ekkert undrunarefni að þeir fari af stað. Það eru 50 dagar til kosninga og baráttan er komin á fullt og utankjörfundarkosning hafin. Flestir eru eins og fyrr segir komnir með lista og hafi þeir ekki komið fram eru menn að klára þetta fyrir páska. Það geta enda varla verið mörg framboð sem bíða með listaskipan fram yfir páskana. Seinustu 40 dagarnir verða aðalbaráttan eins og fyrr segir - dagarnir eftir páskahátíðina. Annars líst mér eins og fyrr segir vel á umfjöllun NFS og verður áhugavert að kynna sér pólitíkina í landsbyggðarsveitarfélögunum næstu vikurnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 20:40
Kvikmyndaskoðun ríkisins lögð niður

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur lagt fram á þingi frumvarp um að leggja niður Kvikmyndaskoðun ríkisins. Í kjölfar þess verður það í valdi útgefenda kvikmynda, tölvuleikja og sjónvarpsefnis að meta hvort efnið sé heppilegt fyrir börn undir 16 ára aldri. Það er svo sannarlega gleðiefni að þetta skref sé stigið. Er enda enginn vafi á því að núverandi fyrirkomulag beri öll einkenni ritskoðunar. Eins og flestir vita hafa tveir fyrrum menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins talað fyrir því að þetta skref yrði stigið en ekki náðist þá samstaða. Björn Bjarnason talaði fyrstur menntamálaráðherra flokksins fyrir málinu og vék að því í pistli á vef sínum árið 2001. Það kom í hlut eftirmanns Björns, Tómasar Inga Olrich, að fylgja málinu eftir í kjölfar ráðherraskipta í menntamálaráðuneytinu í marsbyrjun 2002. Lagði Tómas Ingi fram frumvarp þessa efnis skömmu eftir að hann tók til starfa sem ráðherra.
Í greinargerð með frumvarpi Tómasar Inga Olrich árið 2002 var vísað til þess að vernd skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis hefðu verið styrkt í sessi hér á landi með heildarendurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995. Þar sagði: "Samkvæmt viðurkenndri skýringu á 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, nær vernd tjáningarfrelsis nú til hvers konar tjáningar án tillits til efnis og þess forms, sem tjáning birtist í. Meðal annars nær vernd tjáningarfrelsis til kvikmynda." Þá kom ennfremur fram að önnur ástæða fyrir flutningi frumvarpsins hafi verið að sú almenna stefna sem mörkuð hafi verið að opinber eftirlitsstarfsemi sé ekki umfangsmeiri en þörf sé á. Með frumvarpinu fylgdu tveir samningar sem fylgiskjöl. Fyrri samningurinn var á milli Félags kvikmyndahúsaeigenda og SMÁÍS - samtaka myndbandarétthafa en sá síðarnefndi á milli fjölmiðlarisanna á ljósvakamarkaði, Ríkisútvarpsins og Norðurljósa. Var frumvarp Tómasar Inga mjög umfangsmikið og mikil vinna lögð í það.
En frumvarpið fór ekki í gegn fyrir lok ráðherraferils Tómasar Inga. Samstaða náðist ekki endanlega milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu þess og það dagaði því miður uppi. Í kjölfar þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við ráðherraembætti fór vinnan af stað aftur og hefur hún nú skilað því að frumvarp liggur fyrir og samstaða um að það verði að lögum með fljótvirkum hætti. Ætti að geta náðst þverpólitísk samstaða vonandi um þessa stöðu mála, enda vandséð hver vill halda lífinu í ritskoðunarbákni eins og Kvikmyndaskoðun ríkisins. Verður reyndar fróðlegt að fylgjast með tali stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hvort þar séu einhverjir þeir afturhaldssinnar til sem vilja hafa uppi óbreytt kerfi í þessum efnum. Enginn vafi er á því að þetta frumvarp er gleðiefni fyrir okkur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Við höfum til fjölda ára barist fyrir því að þessi breyting verði samþykkt og við höfum margoft ályktað um það.
Í dag sendi stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá sér eftirfarandi ályktun um málið: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fagnar framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um að leggja niður Kvikmyndaskoðun og aflétta þannig ritskoðun af hálfu hins opinbera á kvikmyndum. SUS fagnar sérstaklega því viðhorfi sem fram kemur í frumvarpinu að opinber eftirlitsstarfsemi skuli ekki vera umfangsmeiri en þörf er á. Með frumvarpinu er leitast við að minnka hið opinbera bákn, dregið er úr forræðishyggju, almenningi er gefið aukið frelsi í eigin málum og grundvallarmannréttindi einstaklingsins eru virt. Sambærilegt frumvarp var lagt fram af þáverandi menntamálaráðherra vorið 2002 en náði ekki fram að ganga. SUS skorar eindregið á þingmenn að veita frumvarpinu brautargengi að þessu sinni."
Þessi ályktun er mjög öflug og góð og tjáir vel skoðanir mínar á málinu. Hef ég lengi verið mjög afgerandi þeirrar skoðunar í starfinu innan SUS að þessi breyting verði gerð á. Við í SUS gleðjumst auðvitað yfir því að þessi áfangi hafi náðst og samkomulag liggi fyrir um afgreiðslu frumvarpsins á milli stjórnarflokkanna. Sjálfsagt er að hrósa Þorgerði Katrínu fyrir að leggja frumvarpið fram.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 02:04
Nixon

Ég var á löngum fundi í kvöld og er heim kom horfði ég á kvikmyndina Nixon. Þar fjallar óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone um feril Richard M. Nixon 37. forseta Bandaríkjanna. Jafnvel þótt hann hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stone er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna í júnímánuði 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér embætti í ágúst 1974, fyrstur bandarískra forseta.
En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Hann fer inn í karakterinn, við sjáum hvernig hann mótast úr smástrák í litlum bæ og til þess manns sem síðar varð valdamesti maður heims. Æska hans var blandin gleði en einnig sárum trega. Hann var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Nixon bar þess merki alla tíð að vera beiskur en eitilharður baráttumaður, hann lét ekki undan nema hann nauðsynlega þyrfti til. Við fylgjumst með honum í myndinni allt frá því er hann óx úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972.
Meginpartur myndarinnar er hneykslismálið sem kaldhæðnislega hófst helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu.
Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Anthony Hopkins túlkar Nixon af stakri snilld í þessari mynd. Þó hann sé hvergi nærri alveg eins og Nixon í öllum töktum eða fasi verður hann samt Nixon með merkilegum hætti. Mörgum þótti skotið hátt yfir markið þegar hinn breski leikari með sinn ekta breska hreim var valinn til að leika hinn hrjúfa forseta með áberandi suðurríkjaframburð sinn. En Hopkins er enginn venjulegur leikari og túlkar forsetann með mikilli snilld. Frábær leikur hjá ótrúlegum leikara. Joan Allen fer á kostum í lágstemmdri rullu en stórbrotinni engu að síður er hún túlkar Pat Nixon. Hún var alltaf hinn þögli félagi forsetans, hún var við hlið hans í blíðu og stríðu allt til loka. Þau leika hjónin með miklum bravúr. Þau passa vel saman og fúnkera þannig. Þó hjónaband þeirra hafi oft verið stormasamt var það alltaf ástríkt.
Það sést vel á myndinni að hún er verulega gloppótt sögulega séð. Sumum hlutum er sleppt í frásögninni af ævi Nixons eða hreinlega skáldað í eyðurnar. Því ber að taka sagnfræði Stone með mikilli varúð. Þrátt fyrir þennan stóra galla er myndin góð. Henni tekst umfram allt að lýsa persónu Nixons. Hún var margbrotin, svo vægt sé til orða tekið. Segja má að hann hafi verið hið minnsta þrjár persónur, eða svo segja þeir sem stóðu honum næst: sá blíði, sá íhuguli og sá veruleikafirrti. Sá þriðji hafi eyðilagt feril hans, sá annar hafi íhugað um framtíðina þegar ferillinn var orðinn það skaddaður að honum varð ekki bjargað og sá fyrsti hafi tekið stjórnina við að gera upp ferilinn við lokin. Undir lokin hafði Nixon tekist að endurheimta orðspor sitt, var orðinn fyrirlesari og virtur álitsgjafi á málunum. Forysta hans í utanríkismálum verður það sem hans verður minnst fyrir utan við Watergate og sá vettvangur var honum gjöfull undir lokin.
Öllu er þessu lýst vel í myndinni að mínu mati. Hún tekur vel á meginpunktum ævi Nixons. Stone er oft óvæginn, tekur Nixon og karakter hans og kafar algjörlega inn í rótina. Það er bæði honum og arfleifð hans mikilvægt. Þó skotið sé mjög glaðlega og oft glannalega er þessi mynd nauðsynleg viðbót í umfjöllun um ævi Nixons. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen og Paul Sorvino. Öll skila þau sínu vel og eftir stendur hin besta mynd. Allavega ómissandi mynd fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálasögu 20. aldarinnar og því hver var aðdragandinn að afsögn Nixons af forsetastóli og ekki síður hvernig hann varð stjórnmálamaður í fremstu röð en glutraði því frá sér með eigin afglöpum.
Er merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans og Watergate. En þessi mynd er mikilvægur þáttur í ævi þessa manns og hana verða allir að sjá. Umfram allt vegna þess að þetta er sýn pólitísks andstæðings Nixons á hann. Það sést umfram allt að hún er eftirminnileg þrátt fyrir að vera sagnfræðilega fjarri því rétt að öllu leyti. En þrátt fyrir það er hún ómissandi, allavega fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni og ekki síður forsetatíð þessa eina forseta Bandaríkjanna sem hefur sagt af sér þessu valdamesta embætti heims.
Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins.
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar.
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik.
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki og gegndi embættinu tvívegis.
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga.
Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2006 | 23:52
Flokksráðsfundur á Akureyri um helgina

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn hér á Akureyri um helgina. Þar koma saman flokksráðsfulltrúar, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðendur til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Ég er í flokksráðinu, kjörinn af hálfu SUS, og svo auðvitað formaður aðildarfélags, svo að ég sit auðvitað flokksráðsfundinn. Það er svo sannarlega okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins.
Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 60 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að flokksfélagar hittist um helgina til að bera saman sínar bækur um stöðu mála. Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, höfum unnið að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það hefur verið mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður.
Stefnir í að rúmlega 200 manns sitji fundinn svo að það er greinilegt að fundurinn verður vel sóttur. Hann mun án nokkurs vafa marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan um helgina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2006 | 00:52
Vandræðagangur Samfylkingarinnar í Reykjavík

Það er öllum ljóst að 12 ára valdatíð R-listans lýkur í vor en menn deila um hvað taki við að kosningum loknum. Ef marka má kannanir mælist Sjálfstæðisflokkurinn með meirihlutafylgi og rokkar á milli þess að hafa átta og níu borgarfulltrúa. Samfylking mælist svo næsthæst en samstarfsflokkar hennar innan R-listans skrapa botninn: VG mælist þó inni á meðan að Framsókn virðist heillum horfin. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir VG og Framsókn hversu dræmt þau mælast eftir samstarfið við Samfylkinguna sem virðist hafa tekið meginþorra gamla R-listafylgisins, sem þó virðist á allnokkru flökti. Það blasir við öllum sem sjá kannanir í borginni að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur yfirburða. Haldi sjálfstæðismenn í borginni rétt á málum og vinni baráttuna af krafti næstu átta vikurnar sem framundan eru til kosninga munu þeir uppskera vel. Það er enginn vafi að það háir vinstriframboðunum að hafa skugga R-listans á eftir sér.
R-listinn hefur runnið sitt skeið og það hafa líka margir úreltir stjórnmálamenn sem þar enn sitja í nafni listans og eru að verja erfið mál. Enginn vafi er á því að lóðaklúðrið við Úlfarsvatn hefur skaðað vinstriflokkana. Það var enda besta dæmi klúðursins að Dagur B. Eggertsson vildi ekki ræða málið í debatt á sjónvarpsstöðvum við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga D-listans. Það hefur svo verið merkilegt að sjá Samfylkinguna eftir prófkjör flokksins í febrúar. Þar sigraði Dagur B. sem verið hafði óháður borgarfulltrúi á R-listanum þau Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, og Stefán Jón Hafstein leiðtoga Samfylkingarinnar innan R-listans með yfirburðum. Ekki komu þó femínistarnir í Samfylkingunni með rauðsokkuna Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi hlaupandi fram býsnandi sér yfir því að konu á borgarstjóraferli yrði hafnað með þessum hætti. O nei þær voru víst margar hverjar, konurnar í kringum ISG, að styðja Dag gegn Steinunni. Já, það er víst margt skondið í henni veröld.
Sá eini sem virtist reiður en brosti í gegnum tárin var Stefán Jón sem tapaði leiðtogastólnum og varð þriðji - gremja hans varð öllum sýnileg sem með fréttum fylgdust. Til að kóróna yfirtöku óháðra á Samfylkingunni varð Björk Vilhelmsdóttir, flóttakona frá VG, í fjórða sætinu. Segja má því að framboð Samfylkingarinnar í vor verði einskonar smotterísútgáfa af R-listanum sáluga - enda þarna fulltrúar ólíkra villuráfandi stjórnmálamanna sem flýja sökkvandi skip R-listans sem geispaði golunni í fyrrasumar. Eins og flestir vita er R-listinn nú talinn minnst aðlaðandi pólitíska vörumerkið um þessar mundir. Er það ekki furða í ljósi þess hversu viðskilnaður R-listans sáluga við borgina er, nú þegar valdaferlinum er að ljúka. Þar er allt í kaldakoli og látið reka á reiðanum. Reyndar er nú sú sérkennilega staða komin upp að borgarstjórinn í Reykjavík hefur verið pólitískt aftengd. Hún mun vissulega sitja til vors og gegna sínum störfum út kjörtímabilið en auðvitað ekki lengur.
Eins og allir vita sem fylgst hafa með borgarmálum hefur R-listinn dregið lappirnar hvað varðar Sundabraut. Talað hefur verið út og suður og í allar aðrar mögulegar áttir um brautina og hvar hún eigi að vera staðsett. Virðist enn vera á reiki hvað þessi villuráfandi meirihluti vill gera. Reyndar var það nú svo að nokkuð löngu áður en Ingibjörgu Sólrúnu var sparkað af borgarstjórastóli að hún talaði fyrir því að Sundabraut yrði komin í markvisst ferli fljótlega. Ingibjörg Sólrún er svo sannarlega löngu farin af borgarstjórastóli og tveir komið í hennar stað og ekkert vitað með stöðu mála nema þá það að meirihlutaflokkarnir eru ósammála. Það er svo sannarlega með ólíkindum að sjá nú seinustu vikurnar Samfylkinguna gera Sundabrautina að kosningamáli nú undir forystu Dags B. á þeim forsendum að hún verði tvær akreinar en ekki fjórar eins og allir viti bornir menn hafa talið. Virðist þetta tal Dags falla lítt í kramið innan samstarfsmanna hjá R-listanum sáluga.
Það er með ólíkindum að heyra stefnuflöktið í Degi B. Eggertssyni hvað varðar Sundabrautina. Er hann nú að reyna allt til að koma standandi frá því tali sínu að hafa hana með tveim akstursbrautum en ekki fjórum eins og almennt hefur verið talað um. Það var t.d. mjög kostulegt að sjá hann boða til borgarafundar til að reyna að útskýra sínar hugmyndir, eins og það var orðað. Sýnt var frá fundinum í beinni á NFS-fréttastöðinni og greinilegt á öllu að þar átti að tala og tala með fagurgalabrag til að reyna að koma standandi frá klúðrinu. Fulltrúar íbúasamtaka komu fram með ályktun af sinni hálfu sem voru sem köld vatnsgusa framan í formann skipulagsnefndarinnar. Það er ekki furða að Samfylkingin reyni allt sem hún geti þessa dagana að bjarga sér frá þessu klúðri leiðtoga síns. Merkilegt hefur verið að hvorki borgarstjórinn í Reykjavík eða fráfarandi leiðtogi Samfylkingarinnar hafa tjáð sig með neinum hætti um tal Dags.
Það er engin furða miðað við þetta stefnuflökt Samfylkingarinnar að sjá í könnunum að borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórn í borginni. Er það vel. Það er vonandi að borgarbúar tjái þá andstöðu af krafti þann 27. maí nk. Ef marka má nýjustu kannanir verður sigur Sjálfstæðisflokksins staðreynd í lok næsta mánaðar - þá fær borgin loksins sterka og samhenta stjórn - stjórn sem tekur á málum eftir ráðleysi vinstrimanna seinustu árin. Í grunninn séð verður enda kosið um það í Reykjavík hvort að borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum - fá betri borg - eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum.
Ef marka má kannanir vilja borgarbúar þá breytingu. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni. Nú er mikilvægt að tryggt verði að sigur Sjálfstæðisflokksins í lok næsta mánaðar verði eins glæsilegur og mögulegt má vera - með því verður vinstriöflunum sem ráðið hafa í borginni í tólf ár komið frá völdum með myndarlegum og öflugum hætti.
Saga dagsins
1882 Bergur Thorberg landshöfðingi, tilkynnir um stofnun sameiginlegrar geymslu fyrir skjalasöfn æðstu embætti Íslendinga. Með þessari ákvörðun var lagður grunnurinn að Þjóðskjalasafni Íslands.
1975 Bobby Fischer heimsmeistari í skák, sviptur titlinum í kjölfar þess að hann tilkynnti að hann myndi ekki keppa um hann við Anatoly Karpov á forsendum FIDE - Fischer varð heimsmeistari árið 1972 í kjölfar sögulegs skákeinvígis við Boris Spassky í Reykjavík. Fischer sneri aftur og keppti við Spassky í Júgóslavíu 1992 til að minnast hins sögulega einvígis í Reykjavík. Með því að keppa þar braut Fischer gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á hendur Júgóslavíu og var hann á flótta undan bandarískum yfirvöldum í 12 ár. Hann var handtekinn í Japan árið 2004, vegna þess að hann hafði ekki gild skilríki. Íslensk stjórnvöld björguðu Fischer úr vandræðum sínum með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara í mars 2005. Kom hann til landsins eftir langa ferð frá Japan þann 24. mars 2005 og hefur síðan búið hér á Íslandi.
1978 Leikkonan Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í samnefndri kvikmynd meistara Woody Allen - Keaton er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og hefur hún átt margar góðar leikframmistöður á ferlinum og þykir jafnvíg á bæði dramatísk og gamansöm hlutverk.
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavíkurborg með ströngum skilyrðum.
2001 Grænmetisskýrslan kynnt - innflytjendur grænmetis og ávaxta voru sektaðir um 105 milljónir króna fyrir samráð um verðlagningu.
Snjallyrðið
When freedom does not have a purpose, when it does not wish to know anything about the rule of law engraved in the hearts of men and women, when it does not listen to the voice of conscience, it turns against humanity and society.
Jóhannes Páll II páfi trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2006 | 22:09
Sunnudagspistill - 2. apríl 2006

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Eftir um 60 daga ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir landsins. Spennan eykst og við búið að mesta púðrið í slagnum verði þá 40 daga sem verða í slagnum eftir páskahátíðina. Framboðslistar liggja víðsvegar fyrir þó að enn sé rúmur mánuður í að framboðsfrestur renni út. Fjalla ég um stöðu mála sérstaklega í Reykjavík, þar sem viðbúið er að mesta spennan verði í vor enda ljóst að R-listinn heyrir sögunni til og að ekki sé neitt flokkabandalag fyrir kosningar í boði. Eins og staðan er nú stefnir í sigur Sjálfstæðisflokksins og afhroð samstarfsflokka Samfylkingarinnar innan R-listans sáluga
- Vinsældir George W. Bush fara sífellt minnkandi og raddir um uppstokkun í innsta kjarna hans hafa verið háværar. Í vikunni sagði Andrew Card starfsmannastjóri Hvíta hússins, af sér eftir að hafa gegnt embættinu í rúmlega fimm ár. Það er greinilegt að repúblikanar eiga undir högg að sækja í Bandaríkjunum núna og allt reynt til að auka fylgi flokksins fyrir komandi þingkosningar. Fjalla ég um Andrew Card og feril hans við hlið George W. Bush en hann hefur verið persónulegur vinur hans í tvo áratugi.
- Í dag er ár liðið frá andláti Jóhannesar Páls II páfa. Fjalla ég um ævi hans og páfaferil í tilefni þess.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2006 | 11:48
Ár liðið frá andláti Jóhannesar Páls II páfa

Í dag er ár liðið frá því að Jóhannes Páll II páfi lést í Vatíkaninu í Róm. Með því lauk sögulegum og litríkum ferli eins svipmesta trúarleiðtoga heimsins á 20. öld. Jóhannes Páll II sat á páfastóli í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var ákaft syrgður dagana eftir lát sitt og minnst um allan heim. Seinustu vikur á ævi páfans hafði verið sýnt hvert stefndi en heilsu hans hafði jafnt og þétt farið aftur og ljóst seinustu dagana að páfinn lægi banaleguna. Sýnt þótti þann 1. apríl 2005 að endalokin nálguðust. Það var svo kl. 19:37 að íslenskum tíma þann 2. apríl sem páfinn skildi við.
Andlát páfa eftir svo langan tíma í forystu kaþólsku kirkjunnar þótti auðvitað tímamót. Jóhannes Páll páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.
Þegar að endanlega þótti sýnt að kvöldi föstudagsins 1. apríl 2005 að páfinn væri dauðvona og ætti skammt eftir settist ég niður og skrifaði minningarorð um páfann. Betrumbætti ég þann texta mjög daginn eftir. Þegar að tilkynnt var um látið á laugardagskvöldinu setti ég textann inn með örlitlum viðbótum. Sennilega var ég einna fyrstur í heiminum til að birta ítarleg minningarorð um páfann í kjölfar láts hans ef fréttavefirnir eru undanskildir. Enda var ítarleg umfjöllun mín þegar komin á vefinn kl. 20:17 eða 40 mínútum eftir lát páfans. Daginn eftir helgaði ég páfanum sunnudagspistil minn - var það í fyrsta skipti fram að því sem einum manni var helgaður algjörlega sá pistill. Þar fór ég yfir ævi hans og páfaferil í ítarlegu máli og bætti í raun við hina ítarlegu bloggfærslu kvöldið áður. Á útfarardegi hans, þann 8. apríl, ritaði ég ítarlegan pistil um páfann og áhrif hans. Útför hans varð sú fjölmennasta í sögunni.
Allt frá láti páfans hefur fólk minnst hans með hlýhug. Kemur þetta vel í ljós nú í dag er ártíðar hans er minnst. Um allan heim er hans minnst í dag. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Met ég eins og flestir mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum.
Jóhannes Páll II páfi var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati.
Umfjöllun BBC um Jóhannes Pál II páfa
Jóhannesar Páls II páfa minnst um allan heim
Fjallað um síðustu klukkustundirnar í lífi páfans
Saga dagsins
1725 Eldgos hófst í eldfjallinu Heklu í Haukadal og með fylgdu skjálftar.
1928 Jóhanna Magnúsdóttir hlaut lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna - Jóhanna starfrækti lyfjaverslun sína í rúm 33 ár.
1974 Leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Harry Stoner í Save the Tiger - hann hlaut óskarinn áður fyrir túlkun sína á óbreyttum Pulver í Mister Roberts árið 1954. Lemmon var einn af bestu leikurunum í kvikmyndasögu 20. aldarinnar og varð rómaður fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Jack Lemmon lést úr krabbameini í júnímánuði 2001.
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar, breskt yfirráðasvæði við S-Atlantshaf - leiddi þessi innrás Argentínumanna til hernaðar Breta gegn þeim. Lauk þeim hernaðarátökum með fullnaðarsigri breska hersins.
2005 Jóhannes Páll II páfi lést í Vatíkaninu í Róm, 84 ára að aldri, eftir mikil veikindi - Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar.
Snjallyrðið
When you wonder about the mystery of yourself, look to Christ, who gives you the meaning of life. When you wonder what it means to be a mature person, look to Christ, who is the fulfillness of humanity. And when you wonder about your role in the future of the world look to Christ.
Jóhannes Páll II páfi trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)