31.5.2005 | 22:08
Engin fyrirsögn

Það er algjörlega óhætt að fullyrða að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi á sunnudag hafi verið pólitískt áfall fyrir Evrópusambandið og ekki síður Jacques Chirac forseta Frakklands. Í ítarlegri bloggfærslu minni í gær fór ég í löngu máli yfir niðurstöður kosningarinnar og afleiðingar hennar. Óhætt er að fullyrða að þær séu kjaftshögg fyrir Chirac forseta og mótandi fyrir forsetaferil hans, allavega næstu tvö árin, fram að næstu forsetakosningum. Allt frá því að niðurstaðan lá fyrir á sunnudagskvöldið til dagsins í dag hafði forsetinn setið ásamt nánustu samstarfsmönnum sínum og ráðherrum og farið yfir stöðuna og reynt að vinna úr þeirri flækju sem komin var á frönsk stjórnmál og stjórnina samhliða afgerandi afstöðu Frakka í kosningunni. Ekki var þetta ferli neinn hamingjudans fyrir forsetann og hann varð að horfast í augu við erfiðar ákvarðanir. Eitthvað varð að gera til að svara tapinu, en hann sjálfur ætlaði ekki að fara á sverðið - fórna sér vegna þessa áfalls sem stjórnin hafði orðið fyrir.
Niðurstaðan var auðvitað augljós og blasti við seinustu vikur. Hún varð þó endanlega ljós sem staðreynd strax eftir að útgönguspárnar birtust. Það var auðvitað það að Jean-Pierre Raffarin varð að víkja sem forsætisráðherra Frakklands. Hafði hann verið mjög óvinsæll undir lok valdaferilsins og beðið mikið afhroð í byggðakosningunum í fyrra. Þá blasti við að hann yrði látinn víkja. Chirac ákvað að það yrði ekki og hann sat áfram enn um sinn. En nú varð hann að fara. Eftir fund Raffarin með Chirac forseta í morgun baðst hann formlega lausnar frá embættinu, eftir þriggja ára valdaferil. Á sömu stund og Raffarin sat fundinn með Chirac komu flutningabílstjórar að Hotel Matignon, embættisbústað forsætisráðherrans, og hófu að flytja búslóð hans og Anne-Marie, eiginkonu hans, burt og héldu með hana að einkaheimili þeirra í París. Skömmu eftir að fundi forsetans og Raffarin lauk var formlega tilkynnt að Dominique de Villepin innanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra, yrði næsti forsætisráðherra. Hann hefur lengi verið náinn samstarfsmaður forsetans og varð heimsþekktur fyrir andstöðu sína við Íraksstríðið. Að loknum fundi hans og Chiracs hélt hann að Hotel Matignon og tók þátt í kveðjuathöfn starfsfólks embættisins fyrir Raffarin-hjónin.
De Villepin bíður ekki öfundsvert hlutverk í forsætisráðherratíð sinni. Honum hefur verið falið það verkefni að skapa brú aftur á milli hægriflokkanna og þjóðarinnar. Sú brú rofnaði endanlega á sunnudag í þeirri mynd sem verið hefur seinustu ár. Chirac þarf að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar tapsins á sunnudag. Hann felur de Villepin það embætti og athygli vekur að Nicholas Sarkozy tekur við embætti de Villepin sem innanríkisráðherra og kemur aftur í stjórnina. Hann vék þaðan eftir að hann varð leiðtogi stjórnarflokksins á síðasta ári. Má telja öruggt að Chirac leiti nú meira til hægri og finni sér ný sóknarfæri. Það þurfa hann og franskir hægrimenn að gera ef þeir ætla að halda völdum eftir þetta mikla og stingandi afhroð. En ESB og forystumenn þar eru enn að ná áttum eftir þetta rothögg sem Frakkar veittu þeim á sunnudag. Á morgun kjósa svo Hollendingar. Má búast við að niðurstaða þeirra kosninga verði ekki síður rothögg og spurning hvort stjórnarskrárgemlingurinn sé tiltækur eftir seinna höggið í sömu vikunni.

Flokksstofnanir hægriflokkanna í Þýskalandi, CDU og CSU héldu sameiginlegan fund í gærmorgun og völdu þar forystumann hægriblokkarinnar í komandi kosningum og ræddi baráttutaktík væntanlegra kosninga í september. Hafa hægriflokkarnir sameinast um bandalag í kosningunni eins og jafnan áður. Eftir fundinn héldu leiðtogar flokkanna, þau Edmund Stoiber og Angela Merkel, blaðamannafund. Í upphafi fundarins tilkynnti Stoiber um þá sameiginlegu niðurstöðu hægriflokkanna að Angela Merkel myndi leiða baráttu þeirra í kosningunum. Hún verður því kanslaraefni hægriblokkarinnar í komandi kosningum, verður hún fyrsta þýska konan sem leiðir kosningabaráttu annars af stóru flokkunum í Þýskalandi.
Mætir hún í kosningabaráttunni sem meginandstæðingi sínum, Gerhard Schröder kanslara. Framundan er því hörð og snörp kosningabarátta. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Líst mér mjög vel á þá niðurstöðu mála að dr. Angela Merkel leiði kosningabaráttu hægrimanna í Þýskalandi. Vænti ég þess að hún leiði hægrimenn alla leið og til valda í þýska þinginu í Berlín. Miklar vonir eru bundnar við hana og forystu hennar. Menn ætlast til þess að hún vinni - eins og staðan hefur verið seinustu ár er markið ekki sett á neitt annað. Vinstristjórnin hefur ekki staðið undir væntingum almennings í landinu: staðan hefur ekki batnað þar þrátt fyrir fögur fyrirheit kanslarans og stuðningsmanna hans.
Og Merkel er rétti leiðtoginn til verka, hún vonandi sigrar með glæsibrag í haust. Viðeigandi var að Stoiber tilkynnti valið á Merkel. Hann leiddi kosningabaráttuna fyrir þrem árum og tapaði mjög naumlega. En nú var tími Merkel kominn. Það var glæsilegt hvernig Stoiber vann þetta núna og vék til hliðar sjálfviljugur til að tryggja bæði einingu og samstöðu hægriblokkarinnar um leiðtogann. Ljóst er að hún hefur nú afgerandi umboð til forystunnar. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í Merkel. Hún er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða kanslarans. Henni hefur tekist á nokkrum árum að styrkja ímynd sína og vinsældir hennar hafa aldrei verið meiri. Segja má að jafnaðarmenn standi nú ráðþrota frammi fyrir því að hægrimenn hafa sameinast fljótt og örugglega að baki Angelu Merkel. Menn eru búnir að ákveða leiðtogann og slagurinn er hafinn. Tími Angelu mun vonandi koma í haust. Þá verður hægristefnan að nýju aðalsmerki þýskra stjórnmála!
Seinustu daga hefur birst langur og ítarlegur greinaflokkur um einkavæðingu ríkisbankanna á árinu 2002 og aðdragandann að því ferli öllu. Þar fer Sigríður Dögg Auðunsdóttir yfir söguna. Segja má að greinaflokkurinn sé umfangsmikill og hafi vakið athygli, um fátt hefur verið meira rætt seinustu dagana. En já, er eitthvað nýtt í þessum greinum? Hvað þá helst? Er þetta ekki helst samtíningur gamalla tíðinda? Það tel ég vera. Margir eru að deila á að stjórnmálamenn taki ákvarðanir. Varla kemur það fólki að óvörum. Í raun eru það stjórnmálamenn sem taka lokaákvarðanir um slík stórmál - það eru engin ný tíðindi. En í grunninn er þetta allt mál sem Ríkisendurskoðun og lykilstofnanir hafa farið yfir með ítarlegum hætti. Þetta er allt flókið ferli sem farið hefur verið í gegnum og árið 2002 voru margar ákvarðanir teknar. Vissulega má takast á um það hvort rétt hafi verið að selja bankana. Það var umdeild ákvörðun, á því leikur enginn vafi. En hún var rétt, ég studdi sölu bankanna fyrir formlega sölu þeirra, gerði það þegar þeir voru seldir svo loksins og er enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að selja þá. Enda hefur nú sést að þeir hafa styrkst mjög mikið frá sölunni. Þeir öðluðust nýtt líf, án ríkistengslanna.
En það er mikið gert með það þessa dagana að tekist hafi verið á innan stjórnarinnar um einkavæðingarferlið. Við erum að tala um tvo flokka og lykilmál seinustu ára. Það má við því búast að áherslur þeirra séu ólíkar. Það eru alltaf einhver átök þegar verið er að vinna saman niðurstöðu sem báðum aðilum hentar. Við sjáum átök orðið í hverri viku í R-listanum um málefnin. En að lokum eru allir sáttir þar og berja saman niðurstöðu. Það er eðli stjórnmála að tekist sé á innan meirihluta um leiðir til að ná niðurstöðu. Þessi stjórn hefur setið í áratug; tekist á við mörg stórmál og leyst þau. Auðvitað hafa menn í tveim ólíkum flokkum ekki alltaf verið sammála, skárra væri það nú. En menn hafa leyst ágreiningsefnin og farið heilir frá þeim. Þessi greinaflokkur er mjög athyglisverður, ég hef lesið allar greinarnar og haft gaman af. Þetta er eins og að lesa bók eftir Arnald, spenna og dramatík í hverju orði. Eftir stendur auðvitað að það er stjórnmálamanna að taka lykilákvarðanir. Það gera ekki embættismenn í nefnd. Stjórnmálamenn eru kosnir til að leiða mál - kosnir til að bera ábyrgð á mikilvægum málum. Það er bara þannig. En þessi greinaflokkur er ágætur svona í hágúrkunni þessa dagana, eða er það ekki bara? En hann boðar ekkert nýtt.

Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Ég er algjörlega búinn að fá nóg af þessu ástandi, svo ég tali alveg prívat og persónulega. Það er með ólíkindum að fólki hér sé boðið upp á þessi vinnubrögð. Að mínu mati á að loka þessu tjaldsvæði tvær stærstu helgar sumarsins - algjörlega einfalt! Í gær tjáði sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur og íbúi við tjaldsvæðið, sig um málið í fréttum. Tek ég algjörlega undir skoðanir hans. Þetta ástand er ekki fólki bjóðandi. Það gengur ekki að íbúum hér í hverfinu sé boðið upp á ástand af þessu tagi. Dóp- og áfengisneyslan þarna og ólifnaðurinn er slíkur að erfitt er að finna honum hæfileg orð. Það sem er þó verst er að visst fólk ætlar ekkert að læra af þessu sukksvalli sem boðið er upp á. Nú er svo komið að verið er að reisa girðingu utan um tjaldsvæðið, sem minnir mann óneitanlega á að þetta er ekki lengur tjaldsvæði - minnir mann mun frekar á afgirtan dýragarð. En ég spyr bara ósköp einfaldlega: er þetta ástand fólki bjóðandi? Ég segi nei!

Abdul Kalam forseti Indlands, er í opinberri heimsókn hér á Íslandi þessa dagana. Hefur hann farið víða frá því að hann kom til landsins á sunnudag og rætt við marga. Í gærmorgun var formleg móttökuathöfn að Bessastöðum og eftir það héldu forsetarnir sameiginlegan blaðamannafund. Í gær hitti Kalam nemendur Háskólans á fundi í náttúrufræðahúsinu Öskju, var gestur á fundi um viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara, heimsótti Norrænu eldfjallastöðina og Stjórnstöð almannavarna og lagði hornstein að nýrri byggingu lyfjafyrirtækisins Actavis. Mikla athygli vakti að Kalam kom hingað á sunnudag, sólarhring áður en formleg dagskrá hófst. Bauð hann vísinda- og fræðimönnum til kvöldverðar á sunnudeginum og ræddi þar málefni landsins og kynnti sér stöðu mála. Er það einsdæmi hérlendis að þjóðarleiðtogi komi fyrr til landsins en formleg dagskrá hefjist. Í gærkvöldi buðu svo forsetahjónin Kalam til hátíðarkvöldverðar í Listasafni Reykjavíkur. Segja má að sá málsverður hafi verið sögulegur. Þar voru einungis á borðum grænmetisréttir, enda er Kalam grænmetisæta og borðar því ekki kjöt. Er þetta í fyrsta skipti í sögu íslenska forsetaembættisins sem kjötréttir eru ekki á borðum í hátíðarkvöldverði.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, hefur nú tilkynnt að Landbúnaðarstofnun verði á Selfossi. Þessi ákvörðun ráðherrans lyktar af kjördæmapoti og því að heimamaðurinn ráðherrann sé að setja þessa stofnun í sitt hérað og vinna í haginn fyrir sjálfan sig. Í mínum augum er þetta ekkert annað en vildargreiðsla ráðherrans til stuðningsmanna sinna í landbúnaðarhéruðum kjördæmisins sem hann vinnur fyrir. Það vita það allir að meginþorri fylgis Guðna er í sveitunum í kringum Selfoss, það er grunnur hans pólitísku tilveru. Það að Landbúnaðarstofnun sé þar staðsett er því partur af því að ráðherrann vinni í haginn fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra blómlegra landbúnaðarsvæða landsins. Það er bara þannig. Að mínu mati hefði verið réttast að þessi nýja stofnun hefði komið í Skagafjörð eða Eyjafjörð. Eyjafjörður er blómlegasta landbúnaðarsvæði landsins, það verður fróðlegt hvernig ráðherrann ver þetta þegar hann á leið næst hingað á fund. Það verður ekki öfundsvert hlutverk, enda virðast rök hans fyrir valinu hafa ráðist af því að hafa þetta sem næst Brúnastöðum.
Saga dagsins
1884 John Harvey Kellogg kynnir kornflögur - Corn Flakes urðu vinsælasti morgunmatur sögunnar
1952 Dwight D. Eisenhower lætur af störfum sem hershöfðingi - hann varð forseti landsins ári síðar
1973 Richard M. Nixon forseti Bandaríkjanna, og Georges Pompidou forseti Frakklands, hittust á leiðtogafundi í Reykjavík og ræddu heimsmálin á Kjarvalsstöðum. Báðir voru þeir komnir að lokum valdaferils síns. Pompidou lést úr krabbameini 2. apríl 1974 og Nixon varð að segja af sér embætti, fyrstur forseta Bandaríkjanna, þann 9. ágúst 1974 vegna hins umfangsmikla Watergate-hneykslis
1991 Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að deildaskipting hafði verið afnumin - starfaði í tveim málstofum, efri og neðri, í 116 ár. Fyrsti forseti Alþingis eftir sameiningu var Salome Þorkelsdóttir
1997 Ísland lenti í fimmta sæti á HM í handbolta í Japan - var besti árangur okkar Íslendinga á HM
Snjallyrðið
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.
Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.
Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vor í Eyjafirði)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2005 | 07:59
Engin fyrirsögn

Frakkar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Allar skoðanakannanir seinustu viku kosningabaráttunnar höfðu gert ráð fyrir sigri andstæðinga stjórnarskrárinnar. Segja má þó að sigur andstæðinganna hafi verið mun meira afgerandi en gert hafði verið ráð fyrir. Síðustu kannanir höfðu bent til þess að staðan væri 52-48 andstæðingunum í vil og bjuggust stjórnmálaskýrendur við að hvað sem er gæti gerst. Það fór svo að 55% felldu stjórnarskrána en 45% samþykktu hana. Kjörsókn var rúmlega 70% og kusu fleiri Frakkar í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú en fyrir þrettán árum þegar kosið var um Maastricht-samninginn. Þessi úrslit eru í senn bæði áfall fyrir Jacques Chirac forseta Frakklands, og Evrópusambandið í heild sinni. Forsetinn hafði lagt mikið undir með því að efna til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu og treyst á að almenningur myndi samþykkja stjórnarskrána, þrátt fyrir andstöðu við hana.
Það fór á aðra lund og eflaust nagar forsetinn sig í handarbökin fyrir að hafa ekki farið með stjórnarskrána fyrir þjóðþingið eins og mörg önnur Evrópulöndin. Með því hefði hann getað klárað málið fljótt og örugglega en dalað vissulega í vinsældum. Eftir stendur hann nú eftir þessar veikari að velli að öllu leyti. Það var klukkan 22:00 að staðartíma í gærkvöldi (20:00 að íslenskum tíma) sem fyrstu tölur birtust og útgönguspár fjölmiðlanna voru þá kynntar ennfremur opinberlega. Allt frá fyrstu mínútu var staðan ljós. Munurinn var það mikill að enginn vafi lék á niðurstöðunni. Stjórnarskránni var hafnað með nokkuð afgerandi hætti. Hálftíma eftir að fyrstu tölur voru kynntar, eða klukkan 22:30 að staðartíma flutti Chirac forseti, ávarp til almennings. Bar hann sig vel þrátt fyrir tapið en það duldist engum sem á ávarpið horfði að forsetinn var vonsvikinn með úrslitin og skal engan undra. Þessi úrslit eru án nokkurs vafa mesta pólitíska áfall litríks og langs stjórnmálaferils Chiracs forseta.

Þetta er aðeins í annað skipti sem franskur forseti bíður ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið 1969 beið Charles De Gaulle forseti, mikinn persónulegan og pólitískan ósigur er tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að kvöldi kjördags brást De Gaulle, kempan mikla sem leitt hafði Frakkland í gegnum stríðið og verið öflugasti stjórnmálamaður landsins á 20. öld, við með því að boða afsögn sína af forsetastóli. Pólitískir andstæðingar hans stóðu eftir orðlausir. Öllum að óvörum sté þessi aldni forystumaður af stól sínum og fór. Á hádegi daginn eftir hafði svo afsögn hans tekið gildi og hann hafði yfirgefið Elysée-höll í hinsta skipti. Þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi yfirgaf stjórnmálasviðið hljótt en þó með snörpum hætti. Er hann lést ári síðar var hans minnst sem eins öflugasta pólitíska leiðtoga landsins, en árinu áður var hann óvinsæll og hafði beðið sögulegt tap. Hann var vissulega forseti á umbrotatímum og því ekki svo gott að jafna saman frægu tapi De Gaulle og endalokum stjórnmálaferils hans við þetta tap Chiracs.
Þrátt fyrir mikið tap er Chirac ekki að fara neitt. Hinn 73 ára gamli forseti hefur upplifað marga slæma tíma og oft komist í hann krappan á fjögurra áratuga löngum stjórnmálaferli. En þetta tap er hið versta á ferli hans og fullyrða má að hann nái ekki að rétta úr kútnum og verði lamaður á valdastóli fram að næstu kosningum. Segja má að franskir kjósendur hafi sent honum rauða spjaldið í þessum kosningum og lýst yfir vantrausti á verk hans og ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ári biðu stjórnarflokkarnir afhroð í byggðakosningunum og misstu völdin í mörgum af lykilfylkjum sínum. Þá var uppi orðrómur um að Chirac myndi bregðast við með því að skipta um forsætisráðherra og víkja Jean-Pierre Raffarin úr embætti. Hann gerði það ekki og stólaði á að Raffarin myndi takast að styrkja sig og stjórnina þrátt fyrir deilurnar vegna breytingarinnar umdeildu á vinnulöggjöfinni. Það hefur ekki gerst, fylgi stjórnarinnar hefur lítið aukist og Raffarin er orðinn óvinsælli nú en hann var á sínum tíma. Það blasir við að tapið nú sé ekki síður vantraust almennings á stjórnina og verk hennar.

Fullyrða má að pólitísk framtíð Raffarin sé ráðin. Honum verði fórnað til að vinna í haginn fyrir forsetann. Hefur blasað við nokkurn tíma að pólitísk örlög hans ráðist af kosningunni um stjórnarskrána. Chirac forseti hefur ekki í hyggju að víkja sjálfur og mun stefna að því að klára kjörtímabil sitt. Þessi úrslit eru það afdráttarlaus að fullyrða má að þau séu rothögg fyrir ríkisstjórn Raffarin og forsetann sjálfan. Umboð beggja er vart lengur til staðar. Það er eiginlega með ólíkindum hvað Chirac hefur tekist illa að halda glæsilegu umboði sínu eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Í báðum kosningunum stóð Chirac eftir með pálmann í höndunum. Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með glæsilegum hætti. Í fyrri umferð kosninganna hafði Lionel Jospin forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalistaflokksins, mistekist að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum hafði það verið þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen sem varð mótherji Chiracs í seinni umferðinni. Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að.
Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Raffarin tók við embætti í júní 2002. Þá var hann afburðavinsæll og sterkur að velli. Nú er hann aðeins svipur hjá sjón og ljóst að hann verður látinn gjalda fyrir þetta tap. Hann verður blóraböggullinn fyrir Chirac. Þó er algjörlega ljóst að forsætisráðherraskipti breyti litlu fyrir stöðuna. Kjósendur eru ekkert síður að senda Chirac rauða spjaldið og vilja breytingar. Þetta er ekki ólíklegt því og var í kosningunni um Maastricht fyrir 13 árum er munaði nær engu að sáttmálanum yrði hafnað vegna óvinsælda François Mitterrand. Er ljóst að Chirac stendur mjög höllum fæti vegna tapsins. Er merkilegt hvernig hann hefur misst stuðning landsmanna á þessum þrem árum eftir sögulegan sigur sinn og hægriflokkanna.

Gríðarlegur fögnuður braust út á Bastillutorginu í París er úrslitin urðu ljós í gærkvöldi. Andstæðingar stjórnarskrárinnar héldu þar mikla sigurhátíð og fögnuðu sigrinum af miklum krafti. Ekki er það óeðlilegt. Þetta er stór sigur almennings á Evrópusambandinu og reglugerðafarganinu þar. Fólkið tók afstöðu og tók stjórnarskrárferlið í sínar hendur. Það er mjög ánægjulegt. Eftir þessa niðurstöðu er stjórnarskráin í lausu lofti og ljóst að stjórnarskrárferlið allt er komið í annað ferli og alls óvíst hver örlög þess verður. Enginn vafi er á því að jarðskjálfi leikur eftir þessa niðurstöðu í stjórnkerfi bæði Frakklands og Evrópusambandsins. Óhætt er að fullyrða að Evrópusambandið hafi ekki gengið í gegnum meiri kreppu í sögu sinni. Og ekki er víst að vandræðin séu að baki. Á miðvikudag munu Hollendingar ganga að kjörborðinu og taka afstöðu til stjórnarskrárinnar. Allar skoðanakannanir benda til þess að þeir hafni stjórnarskránni. Hafni Hollendingar henni eins og Frakkar eru allar líkur á að þar með verði saga stjórnarskrárinnar sé öll.
Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni Hollendingar eins og Frakkar er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis Hollendinga tekur við flókið og erfitt ferli. Hinsvegar er afstaða Frakka mesta áfall sem mögulega gat riðið yfir ESB. Með þessu hefur ein meginþjóð sambandsins hafnað tilögunum frægu og í raun sett málið allt út af sporinu. Á því leikur enginn vafi. Viðbrögð forystumanna ESB og leiðtoga þjóðanna sem leiða starfið þar bar öll merki vonbrigða í gærkvöldi. Sem er engin furða. Öll vinna seinustu ára að stjórnarskránni og forystuferli sambandsins hefur verið sett á ís. Ekkert er þar lengur öruggt. Synjun Frakka sem lykilþjóðar þar setur allt starf þess í vafa og erfitt er að spá í framtíðina. Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Hollendingar eiga næsta leik og beðið verður eftir niðurstöðu mála þar.

Mér fannst merkilegt að sjá afneitunina sem kom fram í gær í orðum forseta ESB, krataþingmannanna á Evrópuþinginu og forsætisráðherra Lúxemborgar sem leiðir nú starf ESB fram á sumarið. Þar töluðu allir eins og þetta væri bara eins og hvert annað tap og hvert annað vandamálið að vinna úr. Að mínu mati er það ekki svo. Það er merkilegt að sjá að Össur Skarphéðinsson alþingismaður og fyrrum formaður Samfylkingarinnar, er öllu raunsærri í orðavali um úrslitin en flokksbræður hans um Evrópu alla. Staðan er einfaldlega sú að málið er allt í vandræðum og ekkert lengur öruggt. Enda segir Össur í skrifum sínum: "Drögin að stjórnarskrá Evrópusambandsins verða annaðhvort söltuð um langa hríð og síðan breytt verulega áður en lagt er í næsta ferðalag með þau, eða stjórnarskráin verður einfaldlega send rakleiðis í líkhúsið. Það er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við eftir að Frakkar höfnuðu stjórnarskránni með afgerandi hætti í gær. Í því sambandi skiptir óskhyggja þeirra forystumanna ESB sem töpuðu í kjörkössum Frakklands engu máli." Orð að sönnu - gleðiefni að sjá svona skrif hjá fyrrum leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna.
Í gærkvöldi fór Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, yfir stöðu mála í ítarlegum pistli á vef sínum. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir kosningarnar í Frakklandi hefur almennt verið kveðið svo fast að orði, að sigur nei-liðsins, sérstaklega ef hann yrði afgerandi, þýddi hið sama og dauði stjórnarskrárinnar í núverandi mynd. Sé munurinn 10% á jái og neii er um afgerandi neitun að ræða. Þegar minniháttar ríki fella eitthvað ESB-skjal í þjóðaratkvæðagreiðslu er beðið um tíma og síðan kosið aftur, þegar talið er víst, að já-liðinu hafi aukist fylgi, eða samið er um takmarkaða aðild viðkomandi ríkis að einhverju samstarfi á vettvangi ESB. Öðrum augum er litið á Frakka og þess verður áreiðanlega langt að bíða að póltíska-elítan, sem fór fyrir já-liðinu í Frakklandi vilji aftur láta á það reyna, hvort afstaða hennar nýtur hylli almennings eða ekki." Þetta er alveg rétt hjá Birni, í raun kjarni málsins að mínu mati. Staða stjórnarskrárinnar er þannig að málið er strandað. Frakkar höfnuðu henni afdráttarlaust og settu málið af sporinu. Hvernig menn ná áttum eftir það er svo næsta spurning. Forystumenn ESB og franskra stjórnmála eiga erfitt með að horfast í augu við það en verða að gera það nú.

Um miðjan þennan mánuð hafði Chirac setið á valdastóli í áratug. Ekki er hægt að segja að hann hafi getað fagnað þeim áfanga. Hann lagði allt sitt af mörkum til að stjórnarskrárin færi í gegn og yrði samþykkt. Ávarpaði hann þjóðina þrisvar til að reyna að hafa áhrif á afstöðu almennings. Hann hafði ekki erindi sem erfiði. Tap hans er mikið. Eins og fyrr segir er þetta mesta pólitíska krísa Chiracs á löngum valdaferli og hefur hann þó oft átt við ramman reip að draga. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Þrátt fyrir mikinn sigur í forsetakosningunum fyrir þrem árum er ljóst að hann hefur misst umboð almennings. Chirac hefur í gegnum tíðina verið með ímynd baráttumannsins og talinn hafa níu líf eins og kötturinn þegar kemur að pólitískri forystu. Forsetanum hefur alltaf tekist að koma standandi niður úr hverju fallinu á eftir öðru, þrátt fyrir að blásið hafi á hann. Honum tókst fyrir áratug að vinna forsetaembættið í þriðju atrennu sinni að því.
Ljóst er eftir þetta mikla tap að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að ósigur hans hefur mikil áhrif á arfleifð hans og næstu ár á valdastóli. Hætt er við að þeir 23 mánuðir sem framundan eru til forsetakosninga verði honum erfiðir. Chirac-isminn sem svo hefur verið kallaður er alvarlega skaddaður eftir vantraust fransks almennings á forsetanum og pólitískri forystu hans, bæði í Evrópumálunum og í innanríkismálum. Nú er það forsetans að bregðast við þessu mikla tapi. Ljóst var af ræðu hans í gærkvöldi að hann ætlar sér að fara rólega í næstu skref. Tapið er mikið og áfallið er honum erfitt verkefni að vinna úr. Telja má öruggt að forsetinn víki af valdastóli í næstu kosningum. Þó er erfitt að afskrifa Chirac eftir tapið, en aldrei hefur blásið eins á hann og nú og ljóst að hann hefur aldrei verið veikari að velli. En við fáum brátt að sjá hvernig hann vinnur úr stöðunni, væntanlega í kjölfar ráðherrahrókeringa og breytinga í stefnuáherslum.

Hvert stefnir svo Evrópusambandið á þessum maídegi eftir þennan gríðarlega jarðskjálfta á svæði þess? Menn eru að meta skemmdirnar og eflaust eru margir postularnir þar innbyrðis komnir í heljarinnar áfallahjálp. Sumir forystumennirnir þar neituðu lengi vel að horfast í augu við það að Frakkar myndu fella. Nú verða þeir að vakna og horfast í augu við að stjórnarskrármálið er komið af sporinu og blasir við að Hollendingar felli. Það að Frakkar felli er þó lykiláfallið. Það er meiriháttar kjaftshögg. Annars var merkilegast að heyra viðbrögð Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands. Hann var eiginlega eini leiðtoginn þarna sem var raunsær í gær og talaði hreint út. Hann leit svo á að úrslitin leiddu til óvissuskeiðs innan sambandsins. Taldi hann ESB þurfa að fara í vissa naflaskoðun.
Það blasir við að það sé rétt. En það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarás næstu daga eftir þessi þáttaskil málsins. Pólitíska forystan í Frakklandi verður undir smásjá allra fjölmiðla næstu daga og ESB-elítan eftir kosningarnar í Hollandi á miðvikudag. Þar ræðst væntanlega hvað gerist. Felli þeir erum við án vafa að horfa á skipbrot vinnuferlisins að stjórnarskrárpælingunum. Þá er útilokað væntanlega að Bretar fari í þjóðaratkvæði og allur grunnur málsins mun væntanlega annaðhvort bresta alveg eða allavega kikna eitthvað af þunga málsins. Við fylgjumst öll spennt með jarðskjálftavirkninni á heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.
Saga dagsins
1431 Jóhanna af Örk brennd á báli - var þá 19 ára gömul. Jóhanna var gerð að dýrlingi 16. maí 1920
1768 Eggert Ólafsson lögmaður og skáld, drukknaði í slysi á Breiðafirði. Hann var þá 42 ára að aldri
1851 Jón Sigurðsson var kjörinn forseti Kaupmannahafnardeildar Hins Íslenska bókmenntafélags -
Jón var lengi áberandi í starfinu þar og gegndi hann embættinu allt til dauðadags í desember 1879
1984 Sett voru stjórnskipunarlög á þingi sem kváðu á um fjölgun alþingismanna landsins úr 60 í 63
2001 Roland Dumas fyrrum utanríkisráðherra Frakklands og einn nánasti pólitíski samstarfsmaður François Mitterrand fyrrum forseta Frakklands, dæmdur til fangavistar vegna pólitískrar spillingar
Snjallyrðið
Do what you feel in your heart to be right - for you'll be criticized anyway. You'll be damned if you do, and damned if you don't.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2005 | 08:04
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um góðar skipulagstillögur sjálfstæðismanna í Reykjavík sem gera ráð fyrir byggð á eyjunum við borgina. Tillögurnar hafa vakið verðskuldaða athygli og opnað á umræðu um skipulagsmál. Greinilegt er að R-listinn er gríðarlega fúll, sem von er auðvitað, með stöðu mála. Þau hafa misst frumkvæðið í þessum efnum til Sjálfstæðisflokksins. Sárindi þeirra og gremja leyna sér ekki. R-listinn er orðinn svo upptekinn af því að berja í sprungurnar sínar að þau hafa gleymt hinum almenna kjósanda og eru heillum horfin í einhverjum fílabeinsturni að því er virðist. Það sem vekur þó mikla athygli mína er að Steinunn Valdís gefur í skyn aðra stundina að hugmyndinni að skipulaginu sé stolið frá sér og á næsta augnabliki að þetta sé afleit hugmynd sem leiði til hækkunar á lóðaverði og sé því afleit. Þetta fer vart saman. Hvar og hvenær hefur R-listinn annars komið með hugmyndir í þá átt að byggt verði á Geldinganesi, Engey og Akurey? Já, eða þá bara mögulega í Viðey? Þeir eru að tala um að umræða hafi verið uppi um byggð jafnvel (takið eftir nota bene orðinu jafnvel) á Örfirisey og unnið þannig. En lengra nær framtíðarsýn þeirra ekki. Ennfremur vík ég að málefnum Vatnsmýrarsvæðisins og flugvallar í borginni.
- í öðru lagi fjalla ég um leiðaraskrif Morgunblaðsins á föstudag, þar sem blaðið talar fyrir uppstokkun í forystusveit stjórnmálanna. Skrif Moggans skilur eftir sig fleiri spurningar en nokkru sinni svör. Þegar litið er á nokkra punkta er enn erfiðara að skilja þessi skrif. Hvað hefur gerst í stjórnmálum á kjörtímabilinu sem nú er rétt rúmlega hálfnað, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, nefnum nokkur atriði - strax dettur mér í hug einir fimm punktar sem varpa ljósi á málið. Í fyrsta lagi: við upphaf kjörtímabilsins var samið um forsætisráðherraskipti er 15 mánuðir yrðu liðnir af kjörtímabilinu. Í öðru lagi: ákveðið var að nýr menntamálaráðherra tæki við á gamlársdag 2003. Í þriðja lagi: ákveðið var að umhverfisráðuneytið færi til Sjálfstæðisflokks og vegna þess kom Sigríður Anna Þórðardóttir inn í stjórn 15 mánuðum eftir kosningar. Í fjórða lagi: gefið var í skyn er Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrastól sinn fyrir tæpu ári að ráðherrahrókering yrði í Framsóknarflokki ekki seinna en árið 2006. Og síðast en ekki síst voru ákveðin forsetaskipti í þinginu sem gert er ráð fyrir að fari fram í októbermánuði. Það er því engin furða að þessi skrif veki furðu.
- í þriðja lagi fjalla ég um aðalfund Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem haldinn var í vikunni. Þar var kjörin ný stjórn fyrir næsta starfsár, sannkallaðan vinnuvetur á kosningaári. Verð ég formaður félagsins áfram næsta starfsárið. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Það mun bæta alla vinnu okkar í félaginu og starfið í heild sinni að hafa eignast vef. Hann er nauðsynleg upplýsingaveita til fólks, þarna koma fram skoðanir okkar á málum og fréttir af starfinu, þegar við á. Með tilkomu vefsins opnum við á tengsl við fólk utan félagsins, almennan lesanda og opnum leið inn í félagið fyrir þá sem ekki eru í því en vantar tengsl til að fara inn í starfið.
Að lokum fjalla ég um tveggja ára afmæli sunnudagspistlanna minna og heimasíðunnar í þeirri mynd sem lesendur þekkja hana. Það var þann 1. júní 2003 sem vefur minn í þessari mynd opnaði og fyrsti sunnudagspistillinn birtist þar.

Í gær opnaði forseti Íslands nýja Kristjánsstofu í Byggðasafninu Hvoli á Dalvík. Hún er til minningar um dr. Kristján Eldjárn þriðja forseta Íslenska lýðveldisins. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna. Er mjög ánægjulegt hversu kröftuglega Dalvíkingar standa vörð um að heiðra minningu þessa merka Svarfdælings.

Þau stórmerku tíðindi áttu sér stað að kvöldi föstudags að hin heimsþekkta klukka, Big Ben í London, hætti að ganga í tæpan einn og hálfan tíma. Þessi ein frægasta klukka heims hefur aðeins örsjaldan áður stoppast alveg og verið að margra mati talin áreiðanlegri en allt annað. Hvað sem á bjáti, alltaf sé Big Ben rétt. Er almennt talið að miklum hita í borginni sé um að kenna en þar hefur hitinn farið yfir 30 stig. Það var klukkan 22:07 að staðartíma á föstudagskvöldið sem klukkan stoppaðist. Hún fór aftur í gang skömmu síðar en stoppaði aftur á 22:20 og varð þá stopp samfellt í einn og hálfan tíma. Voru viðgerðarmenn þá komnir og komu þeir klukkunni af stað aftur og stilltu hana. Big Ben er tæplega 150 ára gömul og er eitt helsta tákn London-borgar. Nokkrar undantekningar eru þó á þessu þar sem klukkunni hefur seinkað og stundum stoppað alveg. Frægasta dæmi þess að hún hafi stoppað var árið 1962 er klukkan varð stopp vegna ísingar. Big Ben gekk alla seinni heimsstyrjöldina þrátt fyrir að sprengjuregn þýska flughersins hafi verið yfir borgina. Big Ben dregur nafn sitt af 13 tonna bjöllu sinni, er var nefnd eftir Sir Benjamin Hall sem reisti Big Ben.

Stefnir, blað Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur nú komið út. Er það að þessu sinni í ritstjórn Snorra Stefánssonar og Kristins Más Ársælssonar. Mikið af spennandi efni er í blaðinu. Þar er ítarleg grein eftir Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra, er ber heitið: Hugleiðingar frá höfuðborg hins bjarta norðurs um íbúalýðræði. Þar fer Kristján Þór yfir íbúalýðræði og hugtök á bak við það með góðum hætti. Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, fara í athyglisverðri grein yfir þjónustu sveitarfélaganna og ný skref í þeirri þjónustu. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, fjallar um tískuhugtök vinstrimanna. Ásta Möller fyrrum alþingismaður, fjallar um stjórnsýslu í grein sinni. Atli Harðarson heimspekingur, skrifar svo athyglisverða grein um lýðræði og almannavilja. Síðast en ekki síst meðal áhugaverðra efna er grein Jóns Hákons Halldórssonar um ferð okkar SUS-ara til Cato Institute og spjall okkar við dr. Tom Palmer í ferð okkar til Washington í október 2004. Þetta er því í senn bæði áhugavert og spennandi blað. Það var mjög gaman að lesa það, ég hvet alla til að fá sér það.

Leikárinu hjá Leikfélagi Akureyrar er nú lokið. Ljóst er nú að um glæsilegt starfsár hefur verið að ræða. Staða Leikfélagsins, sem til nokkurra ára, hefur verið afar slæm, er á góðri uppleið. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á leikárinu hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Er um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma er afgangur af rekstrinum. Er leikfélagið nú hálfnað við að greiða upp þann mikla skuldahalla sem safnast hafði þar upp. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Magnúsi Geir hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Hátt í 17.000 manns sáu sýningar LA á leikárinu. Enginn vafi er á að söngleikurinn Óliver hafi verið aðalaðdráttaraflið í vetur og komust færri að en vildu að lokum. Þetta er því glæsilegt starfsár sem nú er á enda. Það er fagnaðarefni fyrir okkur unnendur leiklistar í bænum að sjá hversu mikið leikhúsið er að rétta úr kútnum.
Saga gærdagsins
1972 Edward VIII deyr í Frakklandi, 77 ára að aldri. Edward varð konungur Englands í janúar 1936, en varð að segja af sér krúnunni í desember sama ár til að geta gifst unnustu sinni, Wallis Warfield Simpson. Hún var tvífráskilin og þingið og þjóðkirkjan sættu sig ekki við ráðahaginn. Frá afsögn sinni til dauðadags bjó Edward í útlegð í Frakklandi og sleit nær öllu sambandi við fjölskyldu sína, en hafði undir lok ævi sinnar mikil samskipti við Karl ríkisarfa, frænda sinn. Edward og Wallis hvíla í Windsor
1978 Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fellur - vinstriflokkar ná meirihluta í fyrsta skipti
1983 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli - gosið var frekar máttlítið og stóð aðeins ekki lengi
1994 R-listinn vinnur kosningasigur í borgarstjórnarkosningum - listinn hefur setið við völd síðan
1999 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 2003
Saga dagsins
1886 Lyfjafræðingurinn John Pemberton kynnir fyrsta sinni nýjan svaladrykk að nafni Coca Cola sem slær í gegn í fyllingu tímans. Coca Cola varð vinsælasti gosdrykkur sögunnar og alþjóðlegt tískutákn
1917 John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, fæðist í Brookline - Kennedy var kjörinn forseti árið 1960 og sat í embætti allt til dauðadags, þann 22. nóvember 1963, er hann féll í Dallas í Texas fyrir byssukúlum tilræðismanns. Morðið á Kennedy forseta er ráðgáta og hefur aldrei verið upplýst
1947 Flugvél er var á leið frá Reykjavík til Akureyrar ferst við Hestfjall í Héðinsfirði - 25 manns fórust, þ.á.m. Garðar Þorsteinsson alþingismaður. Um er að ræða mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar
1953 Edmund Hillary og Tenzing Norgay ná fyrstir manna á tind hins 8.847 m. fjalls, Mount Everest
1999 Selma Björnsdóttir varð í öðru sæti í Eurovision söngvakeppninni með lag sitt All Out of Luck - lagið hlaut 146 stig, 17 stigum færra en framlag Svía. Er besti árangur Íslands í keppninni til þessa
Snjallyrðið
There is nothing on this earth more to be prized than true friendship.
Thomas Aquinas heimspekingur (1225-1274)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2005 | 20:58
Engin fyrirsögn

Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í gær gerði Jacques Chirac forseti Frakklands, úrslitatilraun til að sannfæra kjósendur um að samþykkja stjórnarskrána í ávarpi til þjóðarinnar frá forsetabústaðnum í Elysée-höll á besta sjónvarpstíma. Ef marka má skoðanakannanir í dag hefur ávarp forsetans lítil áhrif á kjósendur. Fjölda óákveðinna kjósenda hefur fækkað til muna seinustu dagana eftir því sem kosningabarátta já og nei-sinna í baráttunni hefur verið að ná hámarki. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun t.d. Le Figaro í dag eru 45% Frakka hlynnt stjórnarskránni en 55% eru henni andvígir. Tap já-sinna virðist því vera handan við hornið.
Seinustu daga hafa allar kannanir ólíkra fjölmiðla verið að segja sömu söguna - stjórnarskránni verði hafnað og það jafnvel með nokkrum mun. Annars ber að taka könnunum með vara. Til dæmis spáðu flestir því árið 1992 að Maastricht-sáttmálinn yrði samþykktur með nokkrum mun en er á hólminn kom stóð hann mjög tæpt. Það munaði aðeins prósentustigi að Frakkar hefðu fellt hann og sett það ferli allt út af sporinu. Þá barðist forveri Chirac á forsetastóli, François Mitterrand, mjög fyrir Maastricht og náði með miklu harðfylgi að halda velli í málinu. En þrátt fyrir það veðja flestir nú á tap stjórnarskrársinna, sem muni leiða til pólitískrar uppstokkunar án vafa í Frakklandi. Tap á sunnudag yrði verulegt pólitískt áfall fyrir Chirac forseta, sem hefur barist af krafti fyrir málinu og lagt mikið í sölurnar. Hann hefur þó lagt mikla áherslu á að hann muni ekki segja af sér embætti, þó stjórnarskráin yrði felld í kosningunum. Fullyrða má að tapi hann verði hann lamaður í embætti verulega fram að bæði næstu þing- og forsetakosningum í landinu.
Ljóst er að stjórnarskráin stendur víðar veikt að velli. Framundan er svo næst kosning í næsta mánuði í Hollandi um hana. Við blasir að hún verði þar felld. Allar kannanir þar gera ráð fyrir að rúm 60% landsmanna muni hafna henni. Það stefnir því í mjög eindregna útkomu úr kosningunni þar. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis þessara tveggja landa tekur við flókið og erfitt ferli fyrir ESB að vinna og ekki síður pólitísk kreppa heima fyrir hjá ráðandi öflum. Eins og fyrr segir á Chirac mikið undir því hvort stjórnarskráin verði felld eður ei. Er það talið hafa úrslitaáhrif á um það hvort hann fari fram í forsetakosningunum eftir tvö ár, en hann hefur ekki enn viljað loka á þann möguleika. Þó er talið öruggt að tapist kosningarnar á sunnudag neyðist Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, til að segja af sér, en hann hefur verið í því embætti frá árinu 2002. En nú er kosningabaráttunni lokið og málið í höndum Frakka. Verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði. Hver sem niðurstaðan verður mun hún hafa veruleg áhrif á því hvernig frönsk stjórnmál spilast á næstunni og hafa lykiláhrif á forsetaferil Chiracs.

Þessar hugmyndir sjálfstæðismanna eru mjög í takt við athyglisverða hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar, sem hann setti fram um byggð á eyjunum í heimildarmynd sinni, Reykjavík í nýju ljósi, árið 2001. Þar kynnti hann þetta ásamt fleiri framsæknum hugmyndum. Hrafn vakti mikla athygli þá með hugmyndum og hreyfði við mörgum og gerði hið besta í stöðunni, kom af stað líflegri umræðu um skipulagsmál í borginni. Segja má að lykilspurningin sem Hrafn kom með þá hafi verið hvort það sé rétt stefna að því að byggja upp í sveit endalaust og dreifa byggðinni í allar áttir, þegar nægt byggingarland blasir við t.d. á eyjunum við borgina. Þar eiga sóknarfærin að vera - það á að vera vinnuplanið. Lýsti ég mig sammála mati Hrafns í grein sem ég ritaði fyrir fjórum árum er myndin var gerð. Mun ég bráðlega setja þá grein á netið og gera hana aðgengilega, svo fólk geti kynnt sér skoðun mína á því þá. Það er við hæfi í ljósi þess að hugmyndin hefur nú að nýju öðlast líf. Hef ég lengi verið talsmaður þess að byggt verði á þessum eyjum, sérstaklega þá auðvitað Geldinganesinu, sem hefur auðvitað lengi verið baráttumál okkar sjálfstæðismanna í borgarmálunum.
Það er gott hjá sjálfstæðismönnum að opna umræðuna af krafti og koma með markvisst innlegg í þessa átt. Hið besta er einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lætur ekki hér við sitja og ætlar að vinna málið áfram af miklum krafti. Borgarstjórnarflokkurinn ætlar að gefa íbúum kost á að hafa áhrif á þessar hugmyndir með því að efna til íbúaþings í júní, funda í öllum hverfum borgarinnar og opna hugmyndabanka um skipulagsmál á vef sínum. Eftir stendur þó í annars spennandi og markvissum tillögum eitt stórt og mikið gap í skipulagsmálum borgarinnar. Það er auðvitað Vatnsmýrin, vettvangur innanlandsflugsins, meginátapunktur væntanlegra borgarstjórnarkosninga í skipulagsmálum að mínu mati. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tjái stefnu sína af krafti í þeim málum. Eins og flestir vita (og ég lýsti í ítarlegum pistli þann 22. apríl sl.) vil ég að áfram verði flugvöllur innan borgarmarkanna. Ef fórna á Vatnsmýrarsvæðinu verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.

Allt frá því að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um útnefningu John Bolton aðstoðarutanríkisráðherra á sviði vopnaeftirlits, í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á blaðamannafundi þann 7. mars sl. hefur verið tekist á af krafti um þá skipan mála. Hefur ferlið sífellt þyngst eftir því sem liðið hefur á. Deilt hefur verið um fortíð Bolton og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin hefur verið upp dökk mynd af honum og á það minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni hefur aukist jafnt og þétt. Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að staðfesta skipan forsetans á Bolton í embættið og það stefnir í að það verði krappur dans að ná því í gegn. Svo gæti jafnvel farið að hann hljóti ekki náð fyrir augum þingmeirihlutans. Virðast repúblikanar ekki vera heilir í stuðningi við hann. Það sást best þann 12. maí þegar utanríkismálanefnd þingsins vísaði tilnefningu Boltons til öldungadeildarinnar án þess að mæla með honum. Þrátt fyrir að repúblikanar hafi afgerandi meirihluta í deildinni, 55 sæti á móti 45, er alls óvíst að hann fái samþykki. Vaxandi þrýstingur er nú á Bush að draga tilnefninguna til baka. Væntanlega verður kosið um Bolton í næstu viku og mun þá koma í ljós hvort skipan verði staðfest eða hafnað hreinlega.

Þingkosningar verða í Þýskalandi í september. Öflug kosningabarátta er því framundan þar. Í ítarlegum pistli mínum í dag á íhald.is fjalla ég um þýsk stjórnmál. Kosningarnar munu fara fram ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er Gerhard Schröder kanslari, tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í kosningunum mun hann væntanlega mæta Angelu Merkel leiðtoga CDU. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnarandstöðu. Hún hefur verið áberandi í stjórnmálum allt frá níunda áratugnum og þykir vera pólitísk fósturdóttir Helmut Kohl. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því týpa framakonunnar. En ég fer nánar yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, hefur nú hafið formlega kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í þingkosningunum í New York. Munu kosningarnar fara fram í nóvembermánuði 2006. Hefur Clinton setið á þingi frá sigri sínum á repúblikanum Rick Lazio í nóvember 2000. Tók hún við þingsætinu af Daniel Patrick Moynihan í janúar 2001. New York hefur jafnan verið mjög traust vígi demókrata hvað varðar þingkosningarnar. Öðru hefur gilt með ríkisstjórastólinn þar og borgarstjórastólinn í borginni. Nú hafa repúblikanar þau sæti bæði en demókratar bæði öldungadeildarsæti borgarinnar. Ef marka má nýjar skoðanakannanir í New York er Hillary ekki eins sterk og var á miðju kjörtímabilinu, er hún mældist með allt að 70% fylgi. Er hún með rúm 50% í nýrri könnun. Sóknarfæri repúblikana eru því til staðar fái þeir réttan og öflugan frambjóðanda. Nú hefur lögfræðingurinn Edward Cox tilkynnt framboð sitt þar fyrir repúblikana. Ekki eru margir sem kannast við nafnið, en Cox er þó vel tengdur inn í pólitík. Hann er eiginmaður Triciu Nixon Cox, dóttur Richard Nixon fyrrum forseta Bandaríkjanna. Er ekki vitað mikið um möguleika hans, en hann á án vafa mjög traustan grunnstuðning til framboðs. Er ljóst að Hillary mun leggja allt í sölurnar til að vinna kosningarnar í New York, enda er sigur þar algjör forsenda þess að hún geti boðið sig fram í forsetakjöri að þrem árum liðnum.
Hemmi Gunn hefur aldeilis hitt í mark með þætti sínum Það var lagið. Endurkoma Hemma á sjónvarpsskjáinn hefur vakið mikla athygli. Þjóðin virðist skemmta sér konunglega ef marka má nýjustu áhorfskannanir. Þættirnir hafa verið vel heppnaðir. Það er greinilega mikill áhugi á svona tónlistargetraunaþætti. Það sem er þó best að þetta sameinar þjóðina við tækin. Fólk sest saman fyrir skjáinn, syngur saman og á góða stund. Þetta er þéttur og góður pakki. Hemmi er konungur skemmtunar í sjónvarpi seinustu áratugina og ánægjuefni að hann sé kominn á skjáinn á ný. Allavega eru þetta skemmtileg föstudagskvöld með Hemma Gunn.
Saga dagsins
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - Alexander sat á valdastóli allt til dánardags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (er tók við völdum af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - brúin hefur alla tíð verið helsta tákn San Francisco
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, lést í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - hafði verið forsætisráðherra frá stofnun Indlands 1948. Dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar Indlands. Indira og Rajiv féllu bæði fyrir morðingjahendi
1983 Hús verslunarinnar formlega vígt - reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic þáv. forseti Serbíu, og fleiri leiðtogar landsins ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var svo framseldur til Haag og bíður dóms fyrir glæpi sína
Snjallyrðið
Whatever else history may say about me when I'm gone, I hope it will record that I appealed to your best hopes, not your worst fears; to your confidence rather than your doubts. My dream is that you will travel the road ahead with liberty's lamp guiding your steps and opportunity's arm steadying your way.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2005 | 15:40
Engin fyrirsögn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kynnti þann 10. maí sl. hugmyndir sínar um að efla löggæsluna almennt hér í bænum. Gerðu tillögur hans ráð fyrir því að lögreglumönnum á Akureyri yrði fjölgað um fjóra. Jafnframt var gert ráð fyrir því að samhliða þessu myndu fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu verða leystir undan föstum vöktum. Með þessu var löggæsla hér á Akureyri og Norðausturlandi öllu efld til muna. Samhliða þessari ákvörðun var tilkynnt að athafnasvæði sérsveitarmannanna myndi ekki verða bundið við umdæmi sýslumannsins á Akureyri. Þetta er mjög jákvætt og gott skref óneitanlega sem stigið var með þessu. Skrautlegt hefur þó verið að fylgjast með því í skrifum Samfylkingarmanna hér á Akureyri að þar sé reynt að þakka Láru Stefánsdóttur varaþingmanni, þessa ákvörðun ráðherra.
Það er nú bara svo að dómsmálaráðherra er með þessu að framkvæma áætlun frá því um áramót 2003/2004 um stækkun sérsveitarinnar með því að fjölga lögreglumönnum hér á Akureyri um 4 og losa þannig um sérsveitarmennina. Það tengist auðvitað ekki fyrirspurn Láru á þingi á þessu ári. Ekki koma þessi vinnubrögð Samfylkingarinnar svosem á óvart, en eru óneitanlega allsérstök svo ekki sé nú meira sagt. Muna lesendur annars ekki hvernig Samfylkingin kom fram við dómsmálaráðherra í þinginu á sínum tíma þegar rætt var um málefni sérsveitarinnar? Þessi málatilbúnaður Samfylkingarinnar er einfaldlega til marks um, að flokkurinn er alltaf að reyna að eigna sér verk annarra - verk, sem varaþingmaðurinn og flokkurinn var á móti á sínum tíma. Ekki er það svosem neitt nýtt eða tíðindi í sjálfu sér, en það er orðið óþolandi að fylgjast með þessari tækifærismennsku Samfylkingarinnar.
Fyrir þá sem ekki muna eftir umræðunum á þingi í mars 2004 er rétt að rifja málið eilítið upp. Í sunnudagspistli mínum þann 7. mars 2004 fór ég yfir það sem gerst hafði í málefnum sérsveitarinnar og umræðunni um málið. Björn hafði kynnt hugmyndir um eflingu hennar og lögreglunnar almennt í marsbyrjun, í vikunni áður en pistillinn var ritaður. Þá var grunnur þessa máls kynntur og þær hugmyndir til eflingar sérsveitinni sem hefur svo verið unnið eftir alla tíð síðan. Sjálfur hafði Björn farið yfir málefni sérsveitarinnar í ítarlegum pistli á vef sínum þann 6. mars 2004. Þessi umræða var mjög beinskeytt og barst inn í sali þingsins. Þar var fremstur í flokki gagnrýnenda tillagna Björns um styrkingu sérsveitarinnar og löggæslunnar, þingmaðurinn Helgi Hjörvar. Réðst Helgi að ráðherranum með skætingi og útúrsnúningum. Sakaði hann Björn um að með tillögum sínum væri hann að vinna að gömlu gæluverkefni og bernskudraumi um her í landinu. Þeir sem vilja kynnast málinu betur geta lesið pistla okkar Björns frá þessum tíma. Samfylkingarmenn hér í bænum geta þá vonandi kynnt sér vinnubrögð Helga betur og skrifað um þau, en því sem hann var að berjast gegn á þingi í mars 2004 var unnið eftir þegar menn voru að styrkja lögregluna hér í bænum.

Þetta verður Umferðarstofu vonandi væn lexía. Reyndar tel ég þá hafa unnið mikinn skaða með nýjustu auglýsingaherferðum sínum og hafa slegið rangar nótur í annars mikilvæga baráttu. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. En menn verða að halda sig á vissum grunni, það er alveg einfalt. Sérstaklega fannst mér þeim takast að feta réttu brautina í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og á meðan voru sýndar myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila.
Nú seinustu vikur hefur birst okkur nýjasta herferð Umferðarstofu þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál! Bestar af auglýsingum Umferðarstofu að undanförnu eru sérstaklega tvær einfaldar auglýsingar en mjög einbeittar í tjáningu án ofsa eða hvassleika. Um er að ræða auglýsingar sem bera heitið Dáinn og Hægðu á þér.

Carrie Underwood fór með sigur af hólmi í bandarísku stjörnuleitinni og var því kjörin poppstjarna Bandaríkjanna árið 2005. Carrie er 22 ára gömul og kemur frá smábænum Checotah í Oklahoma. Hún bar sigurorð af keppinaut sínum í úrslitaþættinum, Bo Bice, en hann er 29 ára gamall frá bænum Huntsville í Alabama. Carrie er sveitasöngkona en Bo er eldheitur rokkari. Sigur Carrie var ágætlega afgerandi, hún hlaut um 6% fleiri atkvæði en Bo. Tæp 70 milljón manns greiddi atkvæði í símakosningunni, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fyrirfram þóttu bæði standa mjög sterkt að vígi og eiga góðar sigurlíkur. Bæði höfðu þau vaxið mjög sem söngvarar í gegnum ferli keppninnar seinasta hálfa árið og hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim á seinustu mánuðum. Það er enginn vafi á því að þátttaka í svona keppni jafnast á við margra ára söngnám og þjálfun í sviðsframkomu. Fyrir sigur í keppninni fær Carrie plötusamning, líkt og fyrri sigurvegarar keppninnar, þau Kelly Clarkson, Ruben Studdard og Fantasia Barrino. Fyrsta smáskífa hennar verður með laginu Inside Your Heaven, sem samið var sérstaklega fyrir sigurvegara keppninnar, en báðir keppendur sungu í úrslitaþættinum. Carrie hefur sagst ætla að helga sig country-tónlistinni, þar séu rætur hennar og uppruni sem söngkonu og hún verði trú því. Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig henni og Bo gangi á tónlistarbrautinni eftir keppnina.

Liverpool varð í gærkvöldi Evrópumeistari í knattspyrnu með sigri á AC Milan í lstanbul - í leik sem lengi verður í minnum hafður. Óhætt er að segja að sigur Liverpool í Meistaradeild Evrópu fari á spjöld sögunnar, enda einstakt að lið nái að vinna sig upp úr stöðunni 3-0 í hálfleik og vinna. Þetta er í ellefta skipti sem breskt lið vinnur titilinn, hið fimmta sem Liverpool vinnur hann. Leikurinn var vægast sagt mögnuð skemmtun og algjört augnakonfekt. AC Milan komst í 3-0 strax í fyrri hálfleik og benti þá flest til þess að þeir myndu hljóta titilinn. Liverpool var enda arfaslakt í fyrri hálfleik. Þeir komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og náðu tökum á leiknum. Á rúmlega sex mínútum og frábærum kafla í leiknum náðu þeir að jafna leikinn. Því var auðvitað gripið til framlengingar. Ekkert mark var skorað en Dudek markmaður Liverpool varði tvö skot AC Milan-manna og var bjargvættur Liverpool. Vítaspyrnukeppni tók svo við eftir framlenginguna. Enn og aftur kom þar Dudek til bjargar og varði tvö víti. Enginn vafi að Dudek sé sá sem hafi tryggt liðinu þennan titil. Sú undarlega staða er uppi að Liverpool getur ekki varið titilinn að ári. Þeir urðu fimmtu í deildinni heima og fá því ekki sæti. Óneitanlega súr niðurstaða og skyggir á glæsilegan árangur liðsins í gærkvöldi. Allavega er hægt að segja að Liverpool hafi sannað kraft sinn, svo um munar.

Indverski kvikmyndagerðarmaðurinn Ismail Merchant lést í gær, 68 ára að aldri. Merchant var einn af öflugustu kvikmyndagerðarmönnum Breta á 20. öld og stóð að mörgum helstu lykilmyndum Breta seinustu áratugina. Hann vann að mörgum þeirra helstu með Bandaríkjamanninum James Ivory. Óhætt er að fullyrða að samstarf þeirra hafi fætt af sér marga af helstu gullmolum kvikmyndagerðar seinustu áratuga. Samstarf þeirra tvímenninga við handritshöfundinn Ruth Prawer Jhabvala var mjög farsælt og hlutu þau saman fjölda verðlauna fyrir glæsilegar kvikmyndir á áttunda og níunda áratugnum. Ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi verka Merchant. Hann hafði til að bera það sem þurfti til að skapa ógleymanleg meistaraverk að mínu mati: það var allt í senn næmt auga fyrir útliti kvikmyndar og listrænni tjáningu. Verk hans og Ivory urðu að algjöru augnakonfekti. Merchant/Ivory er án vafa eitt af betri tvíeykjum kvikmyndasögunnar og eftir standa stórbrotin meistaraverk á borð við The Remains of the Day, Howards End og A Room with a View. Þessar myndir voru aðeins toppurinn á glæsilegum samstarfsferli þeirra. Nú þegar Merchant hefur kvatt þennan heim verður okkar hugsað til verka þeirra félaga, sem höfðu áhrif á kvikmyndagerð og það hvernig við metum þessa miklu list.

Fékk í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni. Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni." Jahérna hér, segi ég nú bara. :)
Saga dagsins
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, hlaut vígslu til embættis biskups að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson ljóðskáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri - Jónas var ennfremur einn af brautryðjendum rómantísku stefnunnar á Íslandi með smásagnaritun í blaðinu Fjölni. Jarðneskar leifar Jónasar voru fluttar heim á árinu 1946 og jarðsettar að Þingvöllum
1968 Hægri umferð formlega tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir þriðja kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í alþingiskosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið
Fræg yfirlýsing ISG um að hún ætli ekki í þingframboð 2003 - 26. maí 2002
Snjallyrðið
Remember, always give your best. Never get discouraged. Never be petty. Always remember, others may hate you. But those who hate you don't win unless you hate them. And then you destroy yourself.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2005 | 15:08
Engin fyrirsögn

Allt virðist loga í illdeilum innan R-listans. Er þetta sífellt að verða algengara og hversdagslegra að þar sé allt á kafi í innri valdaerjum og deilum um meginatriði í málefnum borgarinnar. Þessar vikurnar eiga sér stað samningaviðræður um áframhaldandi samstarf Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eftir að þessu kjörtímabili lýkur. Eftir þrjá borgarstjóra á jafnmörgum árum er R-listinn óneitanlega orðinn frekar tuskulegur og stendur mun veikar að velli en oft áður. Ekkert sameiningartákn er meginpunktur listans eins og var lengi vel. Þegar að formaður Samfylkingarinnar var borgarstjóri var henni stillt upp án prófkjörs í áttunda sætið, meira að segja þrátt fyrir prófkjör R-listaflokkanna 1998. Hún stóð einfaldlega til hliðar og þurfti ekkert að leggja á sig að fara í slíkt. Enda hverjum ætli hefði dottið í hug að borgarstjórinn þeirra þyrfti að fara í prófkjör. Hún var auðvitað undanþegin því, meðan frambjóðendurnir urðu að fara í slíkt. Þetta er auðvitað alveg kostulegt.
Ég tel að R-listinn hafi í raun dáið í þeirri mynd sem við höfum þekkt hann í valdatíð hans fyrir hálfu þriðja ári þegar að formaður Samfylkingarinnar hrökklaðist frá borgarstjóraembætti vegna trúnaðarbrests við samstarfsfólk sitt. Síðan hafa menn samið um tímabundnar ráðstafanir til að klára kjörtímabilið. Eftirmaðurinn varð að segja af sér vegna hneykslismála og nýji borgarstjórinn, sá þriðji á innan við þrem árum, var valin vegna þess að hún var lægsti samnefnari hópsins. En nú er R-listinn að því er virðist endanlega vera að fuðra upp í innri hnútuköstum og leiðindum þessa dagana. Svo virðist vera þessa dagana í samningaviðræðunum að helst muni bera á milli vegna skiptinga á sætum á lista, ekki eru það málefnin. En það sem er að gerast innan R-listans núna segir allt um stöðu mála á því heimili. Þetta er eins og að horfa á hjónaband sigla í þrot. Og þessa dagana erum við að horfa framan í nýjustu erfiðleikana á þessu vandræðaheimili borgarstjórnarmeirihlutans. Annars er R-listinn með blæ hjónabands sem hefur þjónað tilgangi sínum. Það vill þó enginn flytja út eins og við segjum og hjónin dankast saman þetta af gömlum vana. Og hvað annað en orkumálin, sem er klassískt deilumál innbyrðis í R-listanum, er það sem nú ber á milli flokkanna.
Afturhald alls íslensks afturhalds, VG, hefur nú ákveðið að vera andsnúin á vettvangi borgarkerfisins, innan borgarstjórnar og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, raforkusölu til stóriðju. Það er því ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn í heild er ekki sá bógur að standa við fyrri áform í þá átt að OR selji álveri í Helguvík raforku. Í fréttatíma í gærkvöldi lét Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, að því liggja að afstaða VG skipti ekki máli í raun því að þá myndi bara koma til meirihluti með Sjálfstæðisflokknum innan stjórnar Orkuveitunnar, því að þeir styðji eflaust slíka ákvörðun. Þessi ummæli Alfreðs hleyptu mjög illu blóði í vinstri græna og þeir sendu frá sér ályktun í morgun þar sem þeir fara yfir málið. Telja þeir að afstaða Alfreðs sé ekki til annars fallin en að spilla viðræðum um framtíð R-listans og setja framtíð samstarfsins í uppnám. Segja þau ummæli Alfreðs hótanir um að slíta meirihlutanum og stofna nýjan. Hann geri lítið semsagt úr þeirra skoðunum. Og hverju svarar Alfreð. Hann segir að fyrri orð standi og gerir lítið með tal VG. Með öðrum orðum: hann kemur bara og segir við VG: Fariði bara ef þið þorið! Einfalt mál. R-listinn sem verið hefur alla tíð samnefnari flokka og fólks um að halda sem lengst í völdin veikist sífellt.

Klárlega vill Valgerður álver í sitt kjördæmi, það dylst varla neinum. En ekki getur hún tekið af skarið. Það er jákvætt svosem að hún hafi fært það skref yfir til bæjarstjórans hér á Akureyri. Ekki kvarta ég yfir því. En Valgerður hefur greinilega með framgöngu sinni sært Suðurnesjamenn og greinilega þá einna helst framsóknarmenn á þeim slóðum. Ekki er Hjálmari Árnasyni þingmanni framsóknarmanna frá Keflavík, sama um hvernig flokkssystir hans heldur á málum. Hann er þó jafnan þekktur fyrir að vera úrræðagóður. Ekki get ég neitað því að ég hafi brosað út í eitt þegar ég heyrði af því í morgun að Hjálmar hefði fengið ráðherrann í óopinbera heimsókn til Keflavíkur og henni kynnt staða mála þar. Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fór með ráðherranum og Hjálmari í Helguvík og sýndi henni þar staðhætti og aðstæður. Óneitanlega skondið. En menn bregðast skjótt við og framsóknarmenn þar öðrum mönnum fremur við að reyna að hafa stjórn á orðum og framsetningu ráðherrans í þessu máli. Valgerður hefur greinilega sært flokksbræður sína á Suðurnesjunum og reynir nú að hafa þá góða og gerir svo lítið að ferðast til Helguvíkur til að heilla Hjálmar. Húmor, ekki satt?


Aðalfundur Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var haldinn í Kaupangi á Akureyri í gærkvöldi. Fundurinn fór mjög vel fram. Í upphafi fundar flutti ég skýrslu fráfarandi stjórnar. Þar fór yfir síðasta starfsár og þau verkefni sem blöstu við í upphafi nýs starfsárs. Að því loknu gerði Sindri Guðjónsson gjaldkeri, grein fyrir fjármálum félagsins. Á fundinum tók ný stjórn við félaginu. Ég gegni áfram formennsku í Verði næsta starfsárið. Með mér í stjórn munu sitja á næsta starfsári: Bergur Þorri Benjamínsson, Hanna Dögg Maronsdóttir, Henrik Cornelisson, Jóna Jónsdóttir, Sindri Alexandersson og Sindri Guðjónsson. Á fundinum var Jóna kjörin varaformaður, Bergur Þorri gjaldkeri og Sindri Guðjónsson ritari. Í varastjórn voru kjörnir: Atli Hafþórsson, Júlíus Kristjánsson og Sigurgeir Valsson. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Því er mikilvægt að þessi vefur okkar hefur nú opnað - góður vettvangur okkar í pólitískri baráttu.

Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur opnað heimasíðu sína að nýju með nýju og glæsilegu útliti. Einar Kristinn hefur verið með vef á netinu í þrjú ár. Hann hefur verið þar með öflug skrif og tekið virkan þátt í að tjá sig á netinu. Þar heldur hann úti vönduðum og líflegum upplýsingavef um sig og störf sín. Í nýjasta pistli sínum á vefnum fjallar hann um landsfund Samfylkingarinnar og formannsskiptin í flokknum. Frábær skrif, sem vert er að mæla með. Þar segir hann orðrétt: "Landsfundurinn var flugeldasýning, sem við fylgdumst með af mis miklum áhuga. Nú er þeirri sýningu lokið. Þegar rýnt er í raunveruleikann blasir við mynd sem er öllu ókræsilegri. Flokkur sem er lemstraður af innanflokksátökum. Flokkur sem er með málefnalega veika stöðu. Og flokkur sem greinilega leggur áherslu á að tala sig út úr vandræðum sínum. Formaðurinn grípur síðan til gamalkunnugs ráðs. Reynir að bægja athyglinni frá vandræðunum með aumkunarverðu tali um klíkurnar í landinu. Sama tilbrigðið og reynt var í Borgarnesi forðum tíð með hörmulegum árangri. Og þetta leyfir sér að segja sá stjórnmálamaður, sem einmitt þessa dagana liggur undir harkalegu ámæli félaga sinna í R-listanum, fyrir klíkuskap og flokksvæðingu borgarkerfisins í Reykjavík."

Í dag eru 76 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust. Er flokkurinn varð 75 ára fyrir ári ritaði ég ítarlegan pistil í tilefni þess sem ég minni á nú.

Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun Paris Match eru 46% Frakka hlynntir stjórnarskránni en 54% andvígir. Hefur forskot andstæðinganna stigvaxið seinustu vikuna. Ljóst er að andstæðingarnir séu með mikið forskot í Hollandi, en þar á að kjósa um stjórnarskrána í næsta mánuði. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Verður fróðlegt að sjá hvað Frakkar gera á sunnudag og Hollendingar í framhaldi af því. Á þessari stundu stefnir flest í sigra andstæðinga stjórnarskrárinnar. Slík niðurstaða hefði gríðarleg áhrif og myndi auðvitað ganga frá þeirri stjórnarskrá sem er verið að kjósa um.
Í dag birtist á Íslendingi pistill eftir mig og vin minn, Berg Þorra Benjamínsson gjaldkera Varðar, um aðgengismál fatlaðra. Þótti okkur félögum rétt að fjalla um þessi mál og vekja á þeim athygli.
Saga dagsins
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum - undirbúningur að stjórnarskrá
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - þá sameinuðust Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn
1958 Steinn Steinarr, er var eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir stórhuga geimferðaráætlun ríkisstjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna sem lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - Thurmond sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, var þá aldargamall
Snjallyrðið
The best preparation for good work tomorrow is to do good work today.
Elbert Hubbard rithöfundur (1859-1915)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2005 | 17:39
Engin fyrirsögn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sigraði í frelsisdeild Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldin var í vetur. Í fréttatilkynningu SUS segir orðrétt: "Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er sigurvegari Frelsisdeildar SUS veturinn 2004-2005 og hlaut hann að launum veglegan farandbikar í hádegisverði sem Samband ungra sjálfstæðismanna efndi til í Valhöll í dag. Mikil spenna var á lokakafla þingsins og skaust Björn í toppsætið í lokaumferð Frelsisdeildarinnar, en Pétur H. Blöndal hafði lengst af setið á toppnum. Pétur lenti í öðru sæti, einungis tveimur stigum á eftir Birni.
Björn er sá þingmaður sem tókst að gera flest jákvæð frumvörp að lögum, en Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson lögðu fram flest góð frumvörp, eða átta hvor. Ekkert þeirra varð að lögum. Það er reyndar áhugavert að engum þingmanni, sem ekki gegnir ráðherraembætti, tókst að koma eigin frumvarpi í gegnum þingið. Besta einstaka þingmálið er tvímælalaust breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem Geir H. Haarde, fjármálaráðherra lagði fram og fékk samþykkt.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hlaut flest mínusstig og endaði í síðasta sæti deildarinnar. Á nýafstöðnu þingi kaus enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins gegn þeim málum, sem dómarar Frelsisdeildarinnar álíta að feli í sér frelsisskerðingu. Rétt er þó að geta þess að í sumum tilfellum sátu þingmenn hjá. Fjórir þingmenn enduðu í mínus eftir tímabilið. Að lokum er vert að geta þess að gerðar voru breytingar á stigagjöf fyrir þetta keppnistímabil til þess að gefa betri mynd af raunverulegum árangri þingamanna í baráttunni gegn járnkló ríkisvaldsins."
Þetta er glæsilegur árangur hjá Birni. Segja má ennfremur að frelsisdeildin sé ánægjulegur vettvangur hjá okkur í SUS til að verðlauna þá þingmenn flokksins sem standa sig vel og vinna af krafti. Í fyrra sigraði Sigurður Kári í samskonar frelsisdeild sem var þá til af hálfu Heimdallar. En eftir stendur að gott er að verðlauna þá þingmenn sem vinna vel og eru öflugir í störfum sínum. Björn hefur verið jafnan þekktur fyrir að vera vinnusamur og uppsker vel fyrir það.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2005 | 15:27
Engin fyrirsögn

Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, hefur tilkynnt að Þjóðverjar muni ganga að kjörborðinu og kjósa þing í september. Er það ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafðnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er hann tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn er gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum.
Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Eftir tapið um helgina er Schröder því nauðugur sá kostur að leita álits kjósenda, mun fyrr en hann hefði þurft að gera að öllu eðlilegu. Samkvæmt könnunum nú bendir allt til öruggs sigurs hægrimanna í næstu kosningum. Einn er þó galli þýskra hægrimanna - og hann nokkuð stór. Þeir hafa ekki enn getað með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir hægriblokkina í komandi þingkosningum. Lengi hefur stefnt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri og ekki tekist að ná völdum fyrir þrem árum. Mörgum þótti hann þá orðinn of gamall og virka þreytulegur og vilja því að annar leiðtogi leiði baráttu hægrimanna að þessu sinni. Eru uppi öflugar raddir þess efnis að Merkel fái að taka slaginn og skora kanslarann á hólm í þessum kosningum. Er það óneitanlega bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt.
Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 64 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Stefnir allt í að samstaða muni nást í þessari viku um að Merkel leiði hægriblokkina. Verða hægrimenn að leysa þessi mál fyrir lok mánaðarins og hefja kosningabaráttuna formlega og með leiðtoga til taks sem taki við embætti kanslara fari kosningar í takt við kannanir. Að mínu mati hefur Merkel þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með þýsku netfréttunum þessa dagana, enda nóg um að vera nú.

Síðast var þessari aðferð til að rjúfa þing og boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins beitt árið 1983. Hægrimaðurinn Helmut Kohl varð kanslari án kosninga árið 1982 er slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi jafnaðarmanna og frjálslyndra demókrata og þeir fóru í samstarf með hægrimönnum í CDU/CSU. Þá missti Helmut Schmidt völdin og Kohl tók við eftir vantraustskosningu innan þingsins. Kohl vildi sjálfur hljóta umboð þjóðarinnar til verka og boðaði vantraust um eigin stjórn árið 1983 og kusu þingmenn hægriblokkarinnar gegn eigin stjórn til að knýja á kosningar. Þær vann Kohl með nokkuð afgerandi mun og hann hélt völdum og sat á valdastóli lengst allra í Þýskalandi, eða í 16 ár, eða þar til jafnaðarmenn komust til valda árið 1998 undir forystu Schröder. Enginn vafi leikur á því að Schröder ætlar að nota þetta fyrirkomulag til að snúa taflinu sér í vil og treystir á að hægriblokkin komi sér ekki saman um leiðtoga og verði ósamstíga í kosningabaráttunni. Hann ætlar að reyna á samstöðu stjórnarandstöðunnar til að tryggja sjálfan sig í sessi og reyna með því að halda völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Lítil gleði er innan herbúða Jafnaðarmannaflokksins með þessa ákvörðun, enda stendur flokkurinn illa í könnunum og samstarfsflokkur þeirra, Græningar horfa með hryllingi til kosninga í ljósi nýlegra hneykslismála tengdum leiðtoga þeirra, Joschka Fischer utanríkisráðherra, og ljóst að þeir standa mjög höllum fæti.

Orðrómur er nú uppi í vissum fjölmiðlum um að kratahöfðinginn og fyrrum ráðherrann Guðmundur Árni Stefánsson verði sendiherra í Svíþjóð og hætti því afskiptum af stjórnmálum samhliða því. Greinilegt er að Guðmundur Árni telur fullreynt með pólitíska framtíð sína og sér sæng sína útbreidda innan Samfylkingarinnar í kjölfar þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur nú verið kjörin formaður flokksins. Guðmundur Árni studdi fyrrum formann flokksins í kosningunni og hefur gagnrýnt harkalega vinnubrögð Ingibjargar Sólrúnar í framtíðarnefndinni. Hann telur því fullreynt með pólitíska stöðu sína þar og leitar annað og verður væntanlega sendiherra ef þessi orðrómur er réttur. Guðmundur Árni var lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra. Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994.
Guðmundur Árni varð varaformaður Alþýðuflokksins árið 1994 en tapaði svo í formannskjöri í flokknum árið 1996 fyrir Sighvati Björgvinssyni. Láti Guðmundur Árni af þingmennsku og hætti í stjórnmálum verður Rannveig Guðmundsdóttir aftur leiðtogi Samfylkingarinnar á kragasvæðinu. Rannveig tapaði leiðtogastöðunni á þessum slóðum til Guðmundar Árna fyrir seinustu kosningar í prófkjöri. Þótt ótrúlegt megi virðast var það í fyrsta skiptið sem Guðmundur Árni leiddi framboðslista fyrir þingkosningar. Rannveig og Guðmundur Árni hafa um langt skeið eldað grátt silfur, fyrst hjá Alþýðuflokknum og svo hjá Samfylkingunni. Eftir að hafa sagt af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994 tók Rannveig við embætti félagsmálaráðherra af Guðmundi Árna. Þau buðu sig bæði fram í kjölfarið í prófkjör Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem haldið var í janúar 1995 og einnig tókust þau á um leiðtogastól Samfylkingarinnar í kjördæminu fyrir kosningarnar 1999; í bæði skiptin hafði Rannveig sigur. Töp Guðmundar Árna í þessum tveim prófkjörum veiktu mjög stöðu hans. Sigur hans síðast styrkti hann aftur svo til muna og flest benti til þess að hann gæti orðið ráðherraefni fyrir Samfylkinguna. Greinilegt er að sigur Ingibjargar gerir út af við feril hans.

Í þessari viku er nákvæmlega ár til sveitarstjórnarkosninga. Það er kominn kosningaskjálfti í umræðuna greinilega. Þess sést helst stað í Reykjavík. Þar er kosningabaráttan eiginlega að hefjast. Farið er að ræða um hvernig listar framboðanna í Reykjavík verði skipaðir og með hvaða hætti. Viðræður flokkanna sem mynduðu R-listann fyrir seinustu kosningar eru farnir að ræða saman um framhald samstarfsins. Þó virðist vera sem að menn strandi þar nú helst á því hvernig átta efstu sæti listans verði valin. Samfylkingin vill í ljósi góðs gengis í borginni í þingkosningum 2003 og skoðanakannana hljóta betri sess en áður. Vilja þeir fjögur af átta efstu sætunum, en síðast höfðu flokkarnir þrír hver tvö sæti, en tveir voru stimplaðir sem óháðir: Ingibjörg Sólrún og Dagur B. Eggertsson. Greinilegt er að stífla er komin í viðræðurnar um hvernig þetta verði leyst og greinilegt að engin samstaða er um að Samfylkingin fái þennan sætafjölda. Hjá Sjálfstæðisflokknum er baráttan að hefjast og bendir flest til þess að prófkjör verði um listann, væntanlega í nóvember. Um helgina var Gísli Marteinn í Moggaviðtali og er hann greinilega að stefna á eitt af efstu sætunum og nokkrir borgarfulltrúar stefna hærra en síðast. Ljóst er ennfremur að leiðtogi flokksins stefnir á þann stól áfram. Það eru því spennandi tímar framundan þar.

Opinberri heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, og eiginkonu hans, Dorrit Moussaieff, til Kína lauk formlega í gær. Fóru þau víða um landið og kynntu sér stöðu mála þar. Í byrjun ferðarinnar ræddi forsetinn við kínverskan starfsbróður sinn og mun hann hafa tekið upp mannréttindamál í því spjalli, ef marka má orð forsetans. Er það gott mál, eiginlega ekki nema sjálfsagt sé litið á skelfileg mannréttindabrot kínversku kommúnistastjórnarinnar. Í gærkvöldi var mjög athyglisvert viðtal í fréttum við forsetann í Sjóvík, sjávarútvegsvinnslu í Kína. Þar varð honum tíðrætt um að Íslendingar hefðu gott af því að kynna okkur kínversk vinnubrögð og atvinnustarfsemi. Mér varð eiginlega að orði: bíddu nú hægur, er ekki unnið þarna brjálæðislega langan vinnudag og fólk eiginlega keyrt áfram af fítonskrafti án tillits til vinnureglugerða og þessháttar. Eða ég veit ekki betur, var ekki þáttur um það í Sjónvarpinu í vetur? Mig minnir það. Og þetta er forseti Íslands að ljúka lofsorði yfir og vill að við lærum af því. Alveg kostuleg ummæli og framsetning. Er ekki nema von að íslenskum almenningi verði orðafátt þegar litið er yfir þessi ummæli og svo kostulegan talsmáta forsetafrúarinnar um demanta. Maður veit ekki alveg í hvaða hugarheimi þetta fólk er í.

Í gærkvöldi var fundur í Kaupangi sem bar heitið: Rabbað saman eftir þinglok. Gestir fundarins voru alþingismenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og ennfremur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Fóru Halldór og Arnbjörg yfir málefnin í pólitíkinni í ítarlegum framsögum og þau mál sem hæst standa í Norðausturkjördæmi nú um stundir. Kristján Þór fjallaði um sameiningarmál sveitarfélaga og stöðu stóriðjumála á Norðurlandi. Eftir framsögur svöruðu þau spurningum fundargesta. Að fundi loknum og góðu spjalli var boðið upp á góðar veitingar og málin voru rædd fram eftir kvöldi.
Í dag birtist svo pistill eftir mig á Íslendingi um pólitískt veganesti og klíkutal Ingibjargar Sólrúnar. Eru þau skrif viðeigandi eftir landsfund Samfylkingarinnar um helgina. Viðeigandi að fara aðeins yfir þau mál.
Saga gærdagsins
1555 Páll IV kjörinn leiðtogi rómversk-kaþólsku kirkjunnar - sat á páfastóli í 4 ár. Hann lést 1559
1934 Bankaræningjarnir Clyde Barrow og Bonnie Parker drepin í Louisiana - voru þekkt útlagapar
1949 Lýðveldi formlega stofnað í Þýskalandi - markaði endalok endurreisnarinnar eftir seinna stríð
1998 Friðarsamkomulag sem kennt var við föstudaginn langa, samþykkt í þjóðaratkvæði á N-Írlandi
2003 Fjórða ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tók formlega við völdum á Bessastöðum - Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu eftir þingkosningarnar 2003 að vinna saman þriðja kjörtímabilið í röð. Flokkarnir hafa starfað saman allt frá apríl 1995. Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við forsætisráðherraembættinu í stjórninni af Davíð, 15. september 2004
Saga dagsins
1153 Malcolm IV verður konungur Skotlands - Malcolm ríkti í Skotlandi allt til dauðadags árið 1165
1626 Peter Minuit kaupir Manhattan eyjuna í New York - sem nú er einn stærsti hluti borgarinnar
1883 Brooklyn-brúin vígð formlega - brúin tengir saman hverfin Manhattan og Brooklyn í New York
1941 Breska herskipið Hood, sem var eitt af stærstu, sekkur um 250 sjómílum vestur af Reykjanesi
1973 Einn fjölmennasti mótmælafundur aldarinnar í Reykjavík - 30.000 manns mótmæla formlega flotaíhlutun Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 200 mílur, 1972 - baráttan varð hörð
Snjallyrðið
An eye for eye only ends up making the whole world blind.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2005 | 21:09
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um sigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar. Segja má að sá sigur hafi verið stór og mikill og öflugt veganesti fyrir hana inn í pólitíkina er hún tekur sæti á þingi í haust. Í pistlinum fjalla ég um það sem við blasir hjá Ingibjörgu Sólrúnu eftir sigurinn og ekki síður Össuri Skarphéðinssyni sem tapaði formannsstólnum eftir fimm ára starf í þágu Samfylkingarinnar. Merkilegt var að líta á fjölmiðlana í dag, eftir þennan sigur Ingibjargar Sólrúnar á svila sínum. Í Fréttablaðinu er Sigríður Auðunsdóttir með langa fréttaskýringu um sigur hennar. Þar vekur athygli að hún kemur með þær niðurstöður að Ingibjörg Sólrún sé farsæll leiðtogi og hafi verið þekkt fyrir að sjá pólitíska stöðu vel fyrir og geta dæmt hana.
Mér varð við þessi skrif hugsað til hinna örlagaríku daga um jólaleytið 2002 þegar R-listinn logaði vegna þingframboðs Ingibjargar Sólrúnar. Hvar var nú stöðumatið hennar farsæla þegar sú ákvörðun var kynnt? Eitthvað fataðist þessari konu flugið þá. Það er því engin furða að sumir Samfylkingarmenn séu lítt ánægðir með þau skipti að Össuri sé hent út eftir grasrótarstarf sitt og Ingibjörgu fært keflið með þessum hætti. Einnig var Elín G. Ólafsdóttir fyrrum borgarfulltrúi Kvennalistans, í Silfri Egils í dag og þar varð henni tíðrætt um stefnu og staðfestu Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum. Hún sagði að hún hefði skýra rödd og skýr markmið. Já, gott og vel, varð mér eiginlega að orði við þessi ummæli og varð hugsað til flugvallarmálsins. Hvar voru skýra röddin og skýru markmiðin hennar Ingibjargar Sólrúnar þá? Ekki varð ég var við þau, en ég tók eftir ákvarðanafælnum leiðtoga mun frekar. Sem þorði nota bene ekki að styggja neinn með skoðun sinni.
- í öðru lagi fjalla ég um álvershugmyndir á Norðurlandi í ljósi stofnunar nýrrar hreyfingar okkar Norðlendinga í stóriðjumálum og yfirlýsinga bæjarstjóra. Kristján Þór hefur nú tjáð sig um þessi mál og nefnt þar að Húsavík verði fyrsti kostur okkar í fjórðungnum. Ég tek undir það mat hans. Ég tel að við verðum að ná grunnpunkti í þessi mál, grunnpunkti um samstöðu í því. Það getum við vonandi gert með þessu. Komi álver til sögunnar í Þingeyjarsýslu verður þó margt fleira að koma þar með. Fyrir það fyrsta nefni ég göng um Vaðlaheiði. Þau eru forsenda þess að álver komi fyrir austan heiði. Það er viss meginpunktur þess að sú samstaða náist. Menn hér vilja þann samgöngukost, sem myndi breyta mjög mörgu. En eins og fyrr segir tel ég rétt að menn fari að tala af samstöðu og sameinuðum krafti. Það er nauðsynlegt til að snúa megi málinu okkur í vil - niðurstaðan verði okkur í senn jákvæð og farsæl. En eftir stendur eftir vikuna sú niðurstaða að ég hlakka til þess að taka þátt í starfi þessara nýstofnuðu samtaka og mun stoltur síðar meir verða af því að vera stofnfélagi í þeim. Spennandi tímar eru framundan í þessu máli!

Söngkonan Helena Paparizou sigraði í gærkvöldi í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hún söng af hálfu Grikklands lagið My Number One. Helena hefur áður keppt af hálfu Grikkja í keppninni. Hún varð í þriðja sæti í keppninni árið 2001. Í öðru sæti varð Chiara Siracusa frá Möltu, en hún söng lagið Angel. Í því þriðja varð rúmenska söngkonan Luminita Anghel sem söng lagið Let Me Try. Uppáhaldslögin mín að þessu sinni voru hið norska með Wig Wam (sem varð í níunda sæti) og lagið frá Moldavíu með ömmu gömlu þenjandi trommuna. Alveg frábær. :) Það var Victor Yuschenko forseti Úkraínu, sem afhenti sigurverðlaun keppninnar til Helenu og lét um svo mælt á úkraínsku að þetta væru sigurlaunin - en ennfremur verðlaunin sem sameinuðu Evrópu alla. Keppnin var kostuleg, sérstaklega stigatalningin. Það er greinilega mottó stigagjafarinnar að eiga góða nágranna. Get ekki betur séð. Mikla athygli vekur vissulega að í neðstu fjórum sætunum voru Þjóðverjar, Spánverjar, Bretar og Frakkar. Semsagt stórkanónur í sögu keppninnar. Þessi lönd eiga samkvæmt hefð fast sæti í keppninni því þær greiða mest til keppninnar. Í gærkvöldi var svo upplýst um röðina í forkeppninni. Selma var víðsfjarri því að komast áfram í úrslitin. Hún lenti á sögulega kunnuglegum slóðum fyrir okkur Íslendinga. Jú, þú átt kollgátuna, lesandi góður. Hún lenti í sextánda sæti! Talandi um slæma tölu. :)

Óhætt er að fullyrða að þýski Jafnaðarmannaflokkurinn hafi orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum í sambandsþingkosningunum í Nordrhrein-Westfalen í dag. Flokkurinn galt þar afhroð og missti völdin eftir langan valdaferil til hægrimanna í CDU. Sögulega séð eru þetta jafnaðarmönnum vonbrigði, enda hafa jafnaðarmenn ríkt þarna frá árinu 1966, eða í 39 ár. Fljótlega eftir að úrslitin urðu ljós ávarpaði Gerhard Schroeder kanslari, fjölmiðlamenn í kanslarabústaðnum í Berlín og tilkynnti að ríkisstjórn sín hefði ákveðið að flýta þingkosningum í landinu um eitt ár. Þær verða væntanlega í septembermánuði, en kjörtímabilið er ekki búið fyrr en í september 2006. Endanleg ákvörðun verður þingsins en við blasir að þar sé meirihlutavilji við kosningar. Í raun hefur ríkisstjórnin verið með nauman meirihluta allt kjörtímabilið og hún því mjög veik í sessi í heild sinni. Greinilegt er að það er ekki Schröder mjög að skapi að boða til þessara kosninga en hann er svo til tilneyddur að gera það eins og staðan er orðin. Hann verður að leita eftir öðru umboði enda staðan orðin verulega veik. En hvort hann nái að tryggja sér þriðja kjörtímabilið í haust er svo stóra spurningin.

Um helgina fór ég í bíó á þriðja hlutann í myndaröðinni um Stjörnustríð (Star Wars). Var gaman að fá að sjá þessa mynd og loka því hringnum um þessa frægu og goðsagnakenndu ævintýrasögu kvikmyndanna á seinni árum. Í myndinni sjáum við hvernig að Anakin Skywalker verður að hinum illa og myrka Svarthöfða (Darth Vader) sem við kynntumst fyrir grimmd sína og kuldalegheit í eldri myndunum. Magnaðasta sena myndarinnar er bardagasena Anakins og Obi Wan Kenobi og fræg vinslit þeirra. Er óhætt að fullyrða að þetta atriði sé eitt táknrænasta kvikmyndaatriði seinni ára. Var það stóri molinn í söguna sem vantaði en bardaga þeirra hafði oft verið lýst. Er ekki ofsögum sagt að ég hafi haft mikinn áhuga á að fá þennan stóra bita í heildarmyndina, svo hún verði skýr og ein heild að lokum. Alla tíð hefur sagan um Stjörnustríð heillað mig mjög. Þegar ég var yngri voru gömlu myndir kvikmyndabálksins nær algjörlega í guðatölu hjá manni. Þessar myndir hef ég getað horft á hreinlega aftur og aftur. Það var því gaman að fara í bíó og ljúka loks hringnum í sögunni miklu.

Seinustu daga hefur Laura Welch Bush forsetafrú Bandaríkjanna, verið á ferðalagi í Jerúsalem og Jeríkó og farið um staðina. Í dag veittust bæði múslímar og gyðingar að forsetafrúnni þar sem hún var á ferð sinni á Vesturbakkanum. Var það gert af gyðingum til að krefjast þess að njósnaranum Jonathan Pollard, sem situr í fangelsi í Bandaríkjunum, skyldi látinn laus úr haldi. Mun hópur manna hafa gert hróp að forsetafrúnni við innganginn í Klettamoskuna í Jerúsalem. Var sagt við hana af Palestínumönnum að hún væri ekki velkomin. Greinileg ólga er á þessu svæði og biturleiki og hatur gegnumsýrir allt. Þetta er því döpur og ömurleg staða sem blasir við óneitanlega. Greinilegt er að bundin er mikil von við friðarviðræðurnar sem hafnar eru að nýju. Nauðsynlegt er að þær skili nýjum tímum og bjartari fyrir íbúana á svæðinu.
Saga dagsins
1133 Sæmundur fróði lést, 77 ára að aldri - Sæmundur bjó lengst af ævinnar í Odda á Rangárvöllum
1339 Mikill jarðskjálfti reið yfir á Suðurlandi - eignatjón varð mikið í skjáltanum og nokkrir létu lífið
1921 Fyrstu hljómsveitartónleikarnir haldnir hérlendis - markaði mikil tímamót í íslensku tónlistarlífi
1982 Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að hafa verið í fjögur ár í minnihluta þar - Davíð Oddsson varð borgarstjóri og sat til 1991 - meirihlutinn féll 1994
2004 Felipe krónprins Spánar, gekk að eiga hina landsþekktu spænsku sjónvarpskonu Leticiu Ortiz
Snjallyrðið
My formula for living is quite simple. I get up in the morning and I go to bed at night. In between, I occupy myself as best I can.
Cary Grant leikari (1904-1986)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2005 | 14:31
Engin fyrirsögn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, var kjörin formaður Samfylkingarinnar í póstkosningu flokksmanna. Sigur Ingibjargar Sólrúnar var afgerandi og glæsilegur. Kosningaþátttakan í formannskjörinu var 60%, 12.007 gild atkvæði bárust í póstkosningunni. Ingibjörg Sólrún hlaut 7.997 atkvæði, eða um tvo þriðju greiddra atkvæða, 67%, og Össur Skarphéðinsson 3.970, eða um þriðjung, 33%. Ingibjörg Sólrún flutti eftir að úrslit lágu fyrir ræðu og þakkaði þar flokksmönnum stuðninginn og traustið, og kvaðst meta mjög traust flokksmanna í kjörinu. Lagði hún mikla áherslu á gott samstarf við Össur og stuðningsmenn hans og lagði áherslu á kosningabaráttuna fyrir næstu þingkosningar. Er nú ljóst að Ingibjörg Sólrún sem tekur sæti á þingi þann 1. ágúst nk. mun leiða kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir næstu þingkosningar.
Þessi úrslit komu ekki á óvart og ekki voru tölurnar fjarri því sem ég hafði búist við í prósentum sett fram. Ingibjörg Sólrún vann sigur í kosningunni, en veganesti hennar er mikið. Hún setur allt í næstu kosningar, enda fær hún ekki annan séns. Þetta veit hún og þetta vita flokksmenn. Össur Skarphéðinsson tók ósigri með fádæma glæsibrag. Á stund ósigurs sannaði Össur hversu gríðarlega öflugur ræðumaður hann er. Hann flutti að mínu mati bestu ræðu ferils síns er úrslitin voru kynnt og það á þeirri stund sem hann missti formannsstólinn, eftir fimm ára starf af hans hálfu. Hann talaði blaðlaust og af krafti, gott ef ekki mikilli sannfæringu frá hjartanu og sannaði kraft sinn sem karakters. Sú ræða var öflug og eiginlega sagði hún mér margt um bakgrunn hans. En tap er tap, en greinilegt er að Össur ætlar sér að halda áfram í pólitísku baráttunni.
Það er raunalegt fyrir alla stjórnmálamenn að tapa, en viðbrögð þeirra við tapinu segja mest um karakterinn. Össur hefur vaxið mjög af þessari baráttu. Þó hann hafi tapað er hann meiri karakter að henni lokinni. Því allt sem hann gerir er gert frá hjartanu. Þannig þurfa stjórnmálamenn að vera. Það er gott að næsta kosningabarátta verður spennandi og öflug. Til er ég í öfluga kosningabaráttu. Það er öllum gott að hafa skýrar og afdráttarlausar línur og við sjálfstæðismenn erum ánægðir með að vita hver á að leiða annars undarlega fleytu Samfylkingarinnar í næstu kosningum. Skiljanlegt er að Ingibjörg Sólrún hafi látið til skarar skríða núna í slaginn og lét reyna á stöðu sína með þessum hætti. Það hefur blasað við í tvö ár, eða allt frá því að Ingibjörg fór í misheppnað varaþingmannsframboð og missti yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum frá sér eftir klúðurslega framgöngu vegna ákvörðunar um framboð til þings sem leiddi til þess að hún missti trúnað samstarfsmanna sinna í R-listanum og varð að segja af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, í svo til beinni útsendingu fjölmiðla í kostulegri atburðarás í Ráðhúsinu.
26. ágúst 2003 lýsti Ingibjörg Sólrún yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum og kynnti jafnframt þá ákvörðun sína að stefna að framboði til formennsku á flokksþingi 2005. Í stað þess að leggja þegar til við að ná fullum völdum í flokknum beið hún álengdar, varð varaformaður hans og stefndi að formannsframboði síðar. Össur varð formaður flokksins áfram og hefur sýndi í aðdraganda þessa landsfundar ekki á sér neitt fararsnið af sjálfsdáðum. Hann fór í kjörið og ætlaði ekki að víkja af stóli til að tryggja Ingibjörgu forystusess, umfram það sem varð í alþingiskosningunum 2003. Allt frá því Ingibjörg varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði formaður Samfylkingarinnar. Eftir að taka fimmta sætið á framboðslista flokksins í RN, varð hún jafnframt forsætisráðherraefni flokksins. Hún var andlit flokksins í allri kosningabaráttunni og stefnan var sett á þrennt; koma ISG á þing, gera Samfylkinguna að stærsta flokk landsins og fella ríkisstjórnina. Ekkert af þessu gekk eftir. Ingibjörg Sólrún var valdalaus eftir kosningar og náði ekki kjöri á þing, var varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi.
Það er vissulega martröð hvers þess sem vill vera í forystu í landsmálapólitík. Formaður flokksins tók skýrt fram daginn eftir kosningar að hann færi fram til formennsku á ný. Forsætisráðherraefnið var slegið af í beinni sjónvarpsútsendingu og formaður Samfylkingarinnar, bauð formanni Framsóknarflokksins forsætið ef til samstjórnar flokkanna kæmi. Svo fór ekki, stjórnarsamstarfið var áfram við völd og Samfylkingin áhrifalaus í landsmálapólitíkinni. Ekkert að því sem stefnt var að gekk eftir. Segja má að niðurstaða mála eftir kosningar hafi verið Össuri áfall en Ingibjörgu meiriháttar áfall. Staða Össurar var þó sterkari en Ingibjargar sem hefur allt síðan mátt lifa við algjört valdatómarúm. Staða Ingibjargar eftir kosningarnar var því ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg telur það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir fram til formennsku. Þetta er barátta um völd og áhrif og ekkert er gefið eftir.
Það var skiljanlegt að Ingibjörg vildi leggja í þetta núna, áður en hún fuðraði endanlega upp. Hún uppskar sigur úr baráttunni og tefldi á rétt vað. En nú ræðst hvort hún leiðir þennan flokk til einhverra áhrifa. Það er alltaf svo að það er kjósenda að velja pólitíska framtíð þjóðarinnar. En nú eru komnar skýrar línur. Samfylkingin hefur hafnað forystu Össurar og haldið á vit pólitískrar vegferðar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er að mínu mati vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur og vinstrilituð stefna í íslenskum stjórnmálum. Það opnar skýr sóknarfæri fyrir okkur sjálfstæðismenn - sóknarfæri sem við bæði munum nýta og eigum að tefla fram til að tryggja okkur áframhaldandi forystu í landsmálum. Næsta kosningabarátta verður spennandi - í þeim kosningum ætlum við okkur að sýna Ingibjörgu Sólrúnu og hennar liði að Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur verið það í tæpa átta áratugi - og verður ávallt!
Saga dagsins
1991 Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra Indlands, myrtur í sprengjutilræði hryðjuverkasamtaka Tamíl tígra, á kosningaferðalagi í Tamil Nadu héraðinu - Gandhi tók við embætti forsætisráðherra í kjölfar morðsins á móður sinni Indiru Gandhi sem verið hafði í forystu indverskra stjórnmála í tvo áratugi. Rajiv sat á forsætisráðherrastóli 1984-1989 og stefndi allt í að hann kæmist aftur til valda
1997 Þrír Íslendingar komust á tind Mount Everest, hæsta fjalls heims, sem er 8.848 metrar á hæð
2000 Söngkonan Björk Guðmundsdóttir valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir túlkun sína á Selmu Jezkova í kvikmyndinni Dancer in the Dark í leikstjórn Danans Lars Von Trier
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Gielgud deyr í London, 96 ára að aldri - Sir John var einn af bestu leikarum Breta á 20. öld og hlaut mörg verðlaun á löngum ferli. Hann hlaut óskarinn árið 1982
2003 Davíð Oddsson tilkynnir að hann muni láta af embætti forsætisráðherra, þann 15. september 2004 - hann var forsætisráðherra samfellt árin 1991-2004 og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991
Snjallyrðið
Humor is also a way of saying something serious.
T. S. Eliot ljóðskáld (1888-1965)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2005 | 03:04
Engin fyrirsögn

Það er alveg óhætt að fullyrða að Íslendingar, sem margir áhugamenn um Eurovision um allan heim, hafi orðið orðlausir í gærkvöldi við að horfa á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Eftir glæsilegan flutning sinn á laginu If I Had Your Love í forkeppninni í Eurovision í gærkvöldi féll Selma Björnsdóttir úr leik og náði ekki að verða meðal þeirra 10 sem tryggðu sér sæti úr forkeppninni í lokakeppnina á laugardagskvöldið. 25 lög voru leikin og að því loknu tók við símakosning um hver þeirra fengi sæti í úrslitunum. Eftir hléið voru tíu umslög opnuð með nöfnum þeirra landa sem höfðu komist áfram. Eins og fyrr segir var Ísland ekki þar á meðal. Þau lönd sem komust áfram voru: Ungverjaland, Rúmenía, Noregur, Moldavía, Ísrael, Danmörk, Makedónía, Króatía, Sviss og Lettland. Niðurstaðan var því mikil og sár vonbrigði. Sérstaklega sárnaði mér fyrir hönd Selmu og stelpnanna.
Atriðið okkar var þeim mjög til sóma. Þær slógu ekki feilnótu og unnu sitt verk mjög fagmannlega og skiluðu sínu með glæsilegum hætti. Selma Björnsdóttir getur farið stolt frá þessu verkefni, þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Hún hefur sannað á seinustu árum hversu fjölhæf og glæsileg söngkona hún er. Selma varð í öðru sæti í keppninni fyrir sex árum, í Jerúsalem í Ísrael í maímánuði 1999, með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck. Lagið sem hún söng í keppninni nú var stórglæsilegt. Góð melódía og grípandi og mikið var vandað til þess og það var vel úr garði gert að öllu leyti. Útkoman að þessu sinni er því í senn óskiljanleg og sjokkerandi. Það er öllum ljóst, það sést vel ef skoðaðar eru aðdáendavefsíður, að það urðu margir mjög undrandi um allan heim á þessari útkomu og því að Selma Björnsdóttir kæmist ekki úr forkeppninni og á úrslitakvöldið með þetta flotta lag. Segja má að undrun sé meðal helstu sérfræðinga keppninnar með að íslenska lagið og það hollenska skyldi ekki hljóta brautargengi í úrslitakeppnina. Þegar litið er á hvaða lög komust áfram á kostnað Selmu Björnsdóttur vaknar óneitanlega spurning um tónlistarsmekk Evrópubúa. Ekki síður um fyrirkomulag keppninnar. Ég hallast að því að þetta fyrirkomulag sé okkur ekki mjög til góða. Þessi keppni og allt fyrirkomulag þessa vals og seinustu árin hefur leitt til þess að öll umgjörðin sé breytt.

Fyrir keppnina hafði Selma varað við of mikilli bjartsýni og sagt okkur að vera hóflega bjartsýn. Allan tímann tók ég eftir þessu. Reyndar er hún Selma mjög orðvör og raunsæ og sér stöðuna vel út. Hún sá er hún mætti til leiks í Kænugarði að útlit keppninnar og fyrirkomulag hennar var orðið gjörbreytt og landslagið í kringum dæmið hafði breyst mjög. Er eiginlega svo að mér var farið að gruna undir lokin að hún væri viss um að þetta yrði erfiður róður, vegna fjölda austantjaldsþjóðanna og pólitíkinni í valinu er á hólminn kemur. En svona er þetta víst, en spurningin vaknar hvort að við náum að hífa okkur upp af þessum botni síðar. Ég efast eiginlega stórlega um það. Efast um að við náum þeim krafti í keppninni til að ná okkur af þessum stalli sem við höfum náð. Það er þó betra að segja aldrei um hlutina. En óneitanlega vekur það manni ugg í brjósti að við náum ekki að hífa okkur í úrslitakeppnina með glæsilegum flutningi Selmu á þessu góða lagi. Hversu meira þarf en þetta til að komast áfram, er sú spurning sem situr eftir hjá mér, er ég lít yfir þessa forkeppni. En þetta er bara svona og breytist ekki úr þessu. En ég veit að Selma gerði sitt besta og hún lagði sig alla fram og rúmlega það. Hún getur verið stolt af sínu, þó ég viti að hún sé vonsvikin með árangurinn. Við erum öll með trega í hjarta yfir þessum örlögum hjá okkar góða hópi.Formannskjörinu í Samfylkingunni er nú formlega lokið. Skilafrestur á atkvæðum í kjörinu rann út kl. 18:00 í gær. Er fresturinn rann út höfðu á tólfta þúsund atkvæði borist til kjörstjórnar. Er það aðeins rétt rúmlega helmingur atkvæða sem sendur var út vegna kjörsins. Í aðdraganda formannskjörsins sjálfs gengu nokkur þúsund manns í flokkinn til að kjósa. Það vekur óneitanlega athygli að þrátt fyrir þennan fjölda nýs fólks skili ekki fleiri seðlinum til baka en raun ber vitni. Það er þetta sem vekur mesta athygli. Hefði ég persónulega almennt átt von á að minnsta kosti 15.000 atkvæði myndu skila sér til baka. Landsfundur Samfylkingarinnar hefst svo formlega í dag. Mun fundurinn hefjast í Egilshöll kl. 13:00 með ávarpi Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar, en hann lætur af því embætti á landsfundinum.
Atkvæði í formannsslagnum verða talin á morgun og mun kjöri formanns verða lýst formlega kl. 12:01. Þá mun það ráðast hvort að Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði formaður Samfylkingarinnar næstu tvö árin. Segja má að samfylkingarmenn séu að velja leiðtoga flokksins í næstu kosningum í þessu kjöri, en fullvíst má telja að það þeirra sem tapar formannsslagnum dragi sig mjög til hliðar fyrir hinu. Þegar og úrslit hafa verið kynnt í formannskjörinu og nýkjörinn formaður hefur ávarpað fundinn er komið að varaformannskjöri. Öruggt má telja að úrslit formannskjörsins hafi áhrif á þá kosningu en fundarmenn velja varaformanninn. Þegar hafa þingmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson og Lúðvík Bergvinsson lýst yfir framboði til varaformennskunnar og ekki útilokað að við muni jafnvel bætast á landsfundinum. Báðir tilheyra þeir yngri hluta þingflokks Samfylkingarinnar. Lúðvík hefur setið á þingi í áratug, en Ágúst Ólafur var kjörinn á þing í síðustu alþingiskosningum. Vissulega myndi kjör Ágústs Ólafs marka þáttaskil, en með því yrði hann fulltrúi nýrrar kynslóðar í fremstu víglínu flokks á Alþingi. Ágúst Ólafur er jafngamall mér og vissulega yrði ánægjulegt að sjá fulltrúa sinnar kynslóðar í forystu þessa stærsta flokks stjórnarandstöðunnar. Vissulega er Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG, á sama aldri og við Ágúst Ólafur, en hún situr þó ekki á þingi. Verður fróðlegt að sjá hvor þeirra hljóti hnossið í kjörinu á morgun.

Paul Martin forsætisráðherra Kanada, og minnihlutastjórn Frjálslynda flokksins í landinu, tókst í gærkvöldi að halda völdum með því að sigra í vantraustskosningu á kanadísku þinginu. Ekki var sigurinn mikill, en einu atkvæði munaði hvort stjórnin félli eða héldi völdum. Tæpara mátti það því vart vera hjá Martin og stjórn hans. Eftir kosninguna í þinginu voru atkvæðin jöfn og fór þá svo að forseti þingsins greiddi oddaatkvæðið með stjórninni, enda er hann þingmaður Frjálslynda flokksins. Segja má að vendipunktur alls málsins hafi verið innganga Belindu Stronach þingmanns kanadíska Íhaldsflokksins, í Frjálslynda flokkinn fyrr í vikunni. Er hún nú orðin ráðherra í stjórn Martins og Frjálslynda flokksins. Það er því algjörlega ljóst að atkvæði hennar veitti Frjálslynda flokknum oddastuðning sem svo varð að eins sætis meirihluta með atkvæði þingforsetans. Það er því ljóst að stjórnin er hólpin fram á veturinn. Það er þó ljóst að staðan öll er mjög brothætt og má lítið út af bera hjá forsætisráðherranum. Bakgrunnur málsins er eins og ég hef rakið hér áður að Martin og stjórn hans hafa verið sökuð um spillingu. Er málið sérstaklega erfitt fyrir Martin, því um er að ræða mál frá fjármálaráðherratíð hans fyrir nokkrum árum. En það er greinilegt að staðan róast nú eftir þetta, en búast má við meiri öldugangi á stjórnina þegar vetrar.

Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um tilvistarkreppu breska Íhaldsflokksins á seinustu árum og stöðu hans eftir seinustu þingkosningar í Bretlandi, þann 5. maí sl. Ennfremur fer ég yfir mikilvæga punkta úr sögu Íhaldsflokksins seinustu tvo áratugina og það hvernig staða þeirra hefur verið frá brotthvarfi Margaret Thatcher. Í pistli fyrir hálfum mánuði á sama vettvangi hafði ég áður farið yfir kosningaúrslitin frá víðum grunni og þótti því viðeigandi að skrifa um þetta málefni nú. Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu, samhliða því að Michael Howard víkur af leiðtogastóli flokksins síðar á þessu ári. Í flokknum þarf nú að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Breskum íhaldsmönnum vantar verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrir nokkrum vikum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. En ég hvet lesendur til að líta á skrifin, þar fer ég nánar yfir þessi mál.

Í kvöld verður skellt sér í bíó að sjá þriðja hlutann í myndaröðinni um Stjörnustríð (Star Wars). Er þetta seinasti hlutinn að undanfaranum að trílógíunni frægu sem gerð var 1977-1983. Með þessu er því hringnum lokað og sagan verður að heild og forsaga seinni hluta sögunnar kemur fram að fullu og myndirnar sex ein heild. Er þessi mynd lokapunktur sögunnar af því hvernig Anakin Skywalker varð að hinum illa og myrka Svarthöfða (Darth Vader) sem við kynntumst fyrir grimmd sína og kuldalegheit í eldri myndunum. En það vantar enn stærsta púslið í heildina: sagan af því hvernig hann varð að þessu skrímsli, en hann hafði áður verið boðberi hins góða og verið þjálfaður af Obi Wan Kenobi til góðra verka. En einhversstaðar fór hann verulega út af sporinu og í þessari mynd kemur loks svarið við gátunni miklu. Er ekki ofsögum sagt að ég hafi mikinn áhuga á að fá þennan stóra bita í heildarmyndina, svo hún verði skýr og ein heild að lokum. Alla tíð hefur sagan um Stjörnustríð heillað mig mjög. Þegar ég var yngri voru gömlu myndir kvikmyndabálksins nær algjörlega í guðatölu hjá manni. Þessar myndir hef ég getað horft á hreinlega aftur og aftur. Það verður því gaman að fara í bíó í kvöld og ljúka loks hringnum í sögunni miklu.

Síðustu daga hefur stór og mikill borgarísjaki verið á reki um Eyjafjörð. Hann hefur undanfarna daga verið í kringum Hrísey og er kominn nokkuð nærri landi. Þetta er tignarleg sjón að sjá jakann og gerði ég mér ferð úteftir eitt kvöldið í vikunni eftir fund og leit á jakann. Hefur svona sjón ekki sést nokkuð lengi. Um aldamótin rak jaka að Hrólfsskeri og var það ekki síður tignarleg sjón. Er þessi þó mun glæsilegri og voldugri. Var hann mestur í umfangi hvítasunnudagana, er hann rak inn fjörðinn. Hann hefur rýrnað mjög seinustu daga, enda vinnur sólin á honum og hitinn er auðvitað meiri nær landi en utan við fjörðinn. Má búast við að hann hverfi á næstu vikum er hitna tekur enn meir. En þetta er vissulega merkilegt að sjá borgarísjaka svo nærri landi og sést ekki oft hér í firðinum. Seinustu daga hefur mikill straumur fólks verið úteftir til að líta á jakann, enda merkur viðburður sem um er að ræða. Þessi flotta mynd Kristins Árnasonar af jakanum talar sínu máli vel.
Saga gærdagsins
1536 Anne Boleyn, önnur eiginkona Henry VIII var afhöfðuð - var dæmd til dauða fyrir framhjáhald
1950 Farþegaskipið Gullfoss kom til landsins - skipið var notað í siglingum hingað til landsins til 1973
1974 Valéry Giscard d'Estaing kjörinn forseti Frakklands - hann sat á forsetastóli allt til ársins 1981
1990 Húsdýragarðurinn í Laugardal í Reykjavík, opnaður formlega af Davíð Oddssyni þv. borgarstjóra
1994 Jacqueline Bouvier Kennedy Onassis fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, deyr í New York, 64 ára að aldri - fyrri maður Jacqueline, John Fitzgerald Kennedy, var forseti Bandaríkjanna árin 1961-1963
Saga dagsins
1920 Vinna við Flóaáveituna hófst - þetta voru mestu áveituframkvæmdir hérlendis allt fram að því
1944 Þjóðaratkvæðagreiðsla um lýðveldisstofnunina hófst, en hún stóð alls í fjóra daga. Kjörsóknin varð 98,4%, sem mun vera einsdæmi hérlendis. 97,5% samþykktu sambandsslitin við Danmörku en 95% lýðveldisstjórnarskrána. Lýðveldi var svo formlega stofnað á Lögbergi á Þingvöllum þann 17. júní 1944
1979 Íslenskt mál, þáttur Gísla Jónssonar, birtist í fyrsta skipti í Morgunblaðinu. Þættir Gísla voru vikulega í Morgunblaðinu í 22 ár, eða allt þar til Gísli lést árið 2001. Þættir hans í blaðinu urðu 1138
1986 Sex af forráðamönnum Hafskips hf. voru handteknir og þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald meðan verið var að rannsaka meint brot þeirra. Fimm árum síðar voru flestir þeirra sýknaðir af sakargiftum
2000 Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, og kona hans, Cherie Blair, eignast soninn Leo - fæðing hans markaði tímamót, var í fyrsta skipti í 150 ár sem sitjandi forsætisráðherra Breta eignaðist barn
Snjallyrðið
At home, you always have to be a politician; when you're abroad, you almost feel yourself a statesman.
Harold Macmillan forsætisráðherra Bretlands (1894-1986)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2005 | 07:25
Engin fyrirsögn

Til fjölda ára hefur verið draumur margra hér á Norðurlandi að til sögunnar komi stóriðja hér í fjórðungnum. Við hér í Eyjafirði höfum mörg hver lengi barist fyrir þessu. Segja má að allt frá því að ég fór að fylgjast með stjórnmálum fyrir mörgum árum hafi þetta verið baráttumál. Man ég vel að fyrir þingkosningarnar 1991 var mikil umræða um þessi mál, en áður höfðum við barist fyrir því að fá stóriðju hingað við Dysnes í Eyjafirði ásamt Reyðarfirði en við bæði lotið í lægra haldi fyrir Keilisnesi. Ekkert varð nú af því álveri og það varð aðeins hugmyndin og vonin ein. Undir lok tíunda áratugarins hófst umræða um stóriðju að nýju og þá varð Reyðarfjörður fyrir valinu. Eftir mikinn mótvind lengi vel náðust loks samningar við Alcoa um byggingu álvers þar og þann 15. mars 2003 náðist lokatakmarkið. Sá dagur var sannkallaður sigurdagur þeirra Austfirðinga sem barist höfðu til fjölda ára og jafnvel áratuga fyrir álveri við Reyðarfjörð.
Sögu þessa máls rakti ég alla mjög ítarlega í löngum pistli í nóvember 2004. Fullyrði ég að sú barátta hefði ekki skilað árangri nema vegna baráttuanda Austfirðinga og samstöðu. Fyrir það fyrsta markaðist vegurinn rétta leið af því að sveitarfélög á svæðinu sameinuðust og stofnuð voru samtök Austfirðinga, Afl fyrir Austurland, sem vann að málinu og var sannkallað leiðarljós fólksins í baráttunni og var allt í senn málsvari almennings og baráttuafl þeirra í málinu. Þessi samtök voru ófeimin í baráttunni og leiddu vagninn að mjög miklu leyti. Það besta við þetta félag var einmitt að það var stofnað af fólkinu og málsvari fólksins, að minnsta kosti þess öfluga meirihluta Austfirðinga sem studdi álver og virkjun á Austfjörðum og vildi byggja upp stóriðju til að tryggja undirstöður mannlífs þar af krafti. Þótt ótrúlegt megi virðast var engin samstaða um þessa uppbyggingu. Listaspírur á höfuðborgarsvæðinu og afdalakommar víðsvegar um landið og á Austfjörðum auðvitað barðist hatrammlega gegn þessari hugmynd. Sigur vannst að lokum - uppbyggingin á Austfjörðum nú er vonandi góð lexía fyrir þá sem börðust gegn þessari hugmynd.
Ég er stuðningsmaður þess að stóriðja komi hingað í fjórðunginn. Ég vil helst að þessi stóriðja rísi við Dysnes hér í firðinum. Lykilatriði er þó að hún komi í fjórðunginn. Ég hef aldrei farið leynt með þessa skoðun mína og ég veit sem er að við erum mörg hér á svæðinu sem styðjum þessa hugmynd. Nú er komið að okkur að taka til okkar ráða, bindast samtökum og tjá okkar skoðun af krafti og á réttum vettvangi. Við fetum í fótspor Austfirðinganna og stofnum samtök utan um þessa hugmynd og ætlum okkur að tala af krafti í málinu. Í gærkvöldi voru þessi samtök stofnuð á fundi á Hótel KEA. Aðalsalur Hótelsins var sneisafullur tíu mínútum fyrir fundinn og er fundurinn hófst var hvert sæti skipað. Þessi fundur var mjög gagnlegur. Hann hófst með ávarpi fundarstjóra, Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra. Að því loknu tóku við ítarleg erindi um málið. Meðal þeirra sem töluðu voru, Ásgeir Magnússon forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins, sem fór yfir grunnpunkta málsins, Einar Rafn Haraldsson kynnti starf Afls fyrir Austurland á sínum tíma, Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sem kynnti stöðu mála fyrir austan með öflugum hætti, Magnús Þór Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sem fjallaði um ávinning stóriðju fyrir fjórðunginn, og Bjarni Már Gylfason hagfræðingur, er fór yfir efnahagslegar staðreyndir um álver á Íslandi.
Fundinum lauk með því að stofnfélagar fundarins sem höfðu skráð sig mörkuðu stefnu félagsins og kusu því tíu manna stjórn. Við blasir að tilgangur félagsins verði að stuðla að uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og að vatns- og gufuafl á Norðurlandi verði nýtt og beislað í því skyni. Félagið leggur höfuðáherslu á að kynna kosti Eyjafjarðar sem heppilegs staðar fyrir stóriðju. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa fyrir opinni umræðu um málið og með útgáfu á kynningarefni. Eins og við vitum vel er hér í fjórðungnum mikið af óbeislaðri orku, bæði í fallvötnum og í jarðvarma. Mun það því auðvitað verða meginstefna þessa nýja félags okkar sem styðjum stóriðjuhugmyndir hér að beita sér fyrir því að þessi orka verði beisluð og nýtt til eflingar atvinnulífs. Á stofndegi þessara samtaka okkar bárust svo þær gleðilegu fréttir að álfyrirtækið Alcoa hefði lýst yfir áhuga á að byggja álver á Norðurlandi og hefur sent stjórnvöldum formlegt erindi þessa efnis. Nú er komið að okkur að berjast fyrir því að næsta álver komi til sögunnar hér fyrir norðan og nú höfum við þann vettvang til baráttunnar sem okkur hefur skort.
Ég hlakka til þess að taka þátt í starfi þessara samtaka og mun stoltur síðar meir verða af því að vera stofnfélagi í þeim. Spennandi tímar eru framundan í þessu máli!

Virðing (Respect) er að segja má lykilorð þessarar ræðu. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að auka virðingu innan samfélagsins á þriðja kjörtímabilinu undir forystu sinni og ætlar að leggja til atlögu með miklum krafti gegn glæpastarfsemi og óspektir. Endurbætur á samfélagsþjónustu eru framarlega á stefnuskránni. Þar stendur hæst ný gerð persónuskilríkja, ný viðurlög við trúarníði eða hvatningu til þess og ítrekað er að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram um stjórnarskrá Evrópusambandsins á næsta ári, eins og áður hafði verið lofað af forsætisráðherranum. Einnig kom fram að ríkisstjórnin vill að öllu leyti banna reykingar á mörgum opinberum stöðum, hún vill grípa til forvarna gegn sjúkdómum sem kalla á sjúkrahússinnlögn og styrkja skólakerfið til muna. Segja má að fyndnast af öllu við þessa ræðu sé að forsætisráðherrann noti Respect sem leiðarljós og meginstef. Eins og flestir vita bauð George Galloway fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins í Skotlandi, sig fram gegn hinni þeldökku Oonu King í Bethnal Green og náði að fella þessa stuðningskonu Blair-stjórnarinnar af þingi og hefndi fyrir það að hann var rekinn úr flokknum vegna Íraksmálsins. Hann gagnrýndi Blair mjög og notaði sem meginkosningaslagorð orðið Respect. Mikil kaldhæðni í þessu hjá Blair að nota þetta slagorð nú.

Í gær var áratugur liðinn frá því að Jacques Chirac tók formlega við embætti forseta Frakklands. Chirac hefur til fjölda ára verið einn litríkasti stjórnmálamaður Frakklands og verið mikið í sviðsljósinu. Hann var leiðtogi franska Gaullistaflokksins til fjölda ára og leiddi starf hans af miklum krafti. Hann var forsætisráðherra Frakklands tvívegis: í fyrra skiptið 1974-1976 og aftur 1986-1988. Hann var borgarstjóri í París í tæpa tvo áratugi, frá árinu 1977 og gegndi embætti allt til ársins 1995 er hann var kjörinn forseti. Hann var borgarstjóri samhliða forsætisráðherraembættinu í tvö ár á níunda áratugnum en lét af því embætti eftir að hann beið lægri hlut í forsetakosningum árið 1988 fyrir François Mitterrand. Var það ekki í fyrsta skiptið sem hann gaf kost á sér, hann hafði áður verið í framboði 1981 og tapað þá áður fyrir Mitterrand. Hann gaf kost á sér til embættisins þriðja sinni árið 1995 og var kjörinn í kosningunum sem fram fóru 7. maí og tók hann við embætti 17. maí 1995 og hefur því setið í áratug á valdastóli. Í kosningunum 1995 sigraði hann Lionel Jospin. Eftir óvæntar þingkosningar 1997 sem Chirac boðaði til, til að styrkja hægristjórn sína komst Jospin til valda, þvert á stefnuna framan af. Neyddist Chirac til að deila völdum með Jospin í fimm ár.
Í forsetakosningunum 2002 áttust þeir aftur við en þá datt Jospin út í fyrri umferð öllum að óvörum, en þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen komst áfram í seinni umferðina. Pólitískum ferli Jospin lauk því með dramatískum hætti, ekki alveg með þeim takti sem hann hafði átt von á. Chirac var endurkjörinn forseti í seinni umferðinni og vann Le Pen með miklum yfirburðum. Ef marka má orðróminn er búist við að Chirac dragi sig í hlé árið 2007 er seinna tímabilinu lýkur. Kjörtímabil forseta er nú fimm ár í stað sjö áður og styttist því óðum í forsetakosningar. Hann er 73 ára gamall og því vart búist við að hann fari fram eftir tvö ár til annars fimm ára kjörtímabils. Menn tala almennt um að Nicholas Sarkozy fyrrum ráðherra, fari þá fram og benda kannanir til þess að hann yrði kjörinn forseti færi hann fram. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Ljóst er að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að væntanleg kosning um stjórnarskrá ESB þann 29. maí ræður miklu um pólitíska framtíð hans. Ljóst má vera að Chirac reyni allt þessa dagana til að fá Frakka til að styðja stjórnarskrána. Er ekki laust við að vakni upp sú tilhugsun að hann sé í sömu sporum og forveri hans var 1992 í Maastricht-málinu.

Í dag eru 85 ár liðin frá fæðingu Jóhannesar Páls II páfa. Hann lést fyrr á þessu ári eftir að hafa verið trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og sat á páfastóli allt til dauðadags, 2. apríl 2005. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Píus IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli VI og varð með því einn af forystumönnum Vatikansins. Hann var svo kjörinn páfi ellefu árum síðar. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Við andlát hans í síðasta mánuði skrifaði ég ítarlegan pistil um ævi Jóhannesar Páls II og feril hans.

Líf kanadísku ríkisstjórnarinnar hefur hangið á bláþræði seinustu vikur, en hún hefur í raun verið minnihlutastjórn allt frá þingkosningunum í landinu í júní í fyrra. Eftir að þingið samþykkti ekki stuðningsyfirlýsingu við stjórnina í síðustu viku hefur þinghald verið í gíslingu. Hægrimenn í þinginu og aðrir flokkar á þinginu tóku yfir stjórn þess og samþykktu að ljúka þingfundum og kröfðust að boðuð yrði kosning um traust til stjórnarinnar samhliða kosningu um fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á fimmtudag. Hefur Paul Martin forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda flokksins, samþykkt það. Blasað hefur við að stjórnin myndi falla þar, þó naumt sé vissulega á munum. Í gær urðu svo þau stórtíðindi að Belinda Stronach sem er einn virtasti þingmaður Íhaldsflokksins, hafi sagt sig úr flokknum og gengið til liðs við frjálslynda. Belinda tapaði leiðtogaslag í flokknum í fyrra fyrir Stephen Harper og hefur síðan verið í órólegu deildinni innan flokksins. Telja má nær öruggt að þessi vistaskipti hennar muni bjarga ríkisstjórninni frá falli. Hefur Martin launað henni stuðninginn með því að skipa hana í embætti þróunarmálaráðherra. Stronach er 39 ára gömul og hefur lengi verið talin meðal efnilegustu stjórnmálamanna Kanada og hefur hún löngum vakið athygli fyrir afdráttarlausa framkomu og að vera einn öflugasti forystumaður stjórnarandstöðunnar. Fullyrða má að vistaskipti hennar muni styrkja Frjálslynda flokkinn til muna.

Í dag er mánuður liðinn frá því að frænka mín, Hugrún Stefánsdóttir, var jarðsungin frá Akureyrarkirkju. Þann dag birtist minningargrein eftir mig um hana í Morgunblaðinu, sem ég hef nú sett inn á heimasíðu mína. Hugrún frænka var mér alla tíð mjög kær. Allt frá því ég man eftir mér hefur hún verið stór hluti minnar tilveru, eða okkar í fjölskyldunni. Hún var elst barna langafa og langömmu, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns og skipstjóra hér á Akureyri, og eiginkonu hans, Gíslínu Friðriksdóttur. Segja má að tengslin milli hennar, Hönnu ömmu minnar og Kristjáns bróður þeirra hafi haldið í gegnum þykkt og þunnt. Þau voru og hafa alla tíð verið ótrúlega samhent. Ég held að ég eigi aldrei eftir að kynnast samhentari systkinum. Amma, Huja og Benni maður hennar og Kiddi frændi og Stína kona hans voru alla tíð sem eitt.
Fjölskyldan mín sem jafnan er kennd við æskuheimili ömmu að Strandgötu 43 er og hefur alla tíð verið mjög samhent og þar skipta fjölskylduböndin öllu máli. Hugrún frænka var samnefnari fjölskyldunnar alla tíð að mínu mati, hún var alltaf til staðar. Það framlag hennar fyrir mig og okkur öll skiptir mig miklu máli og það gleymist mér aldrei. Nær alla ævi sína var hún heilsuhraust og kraftmikil, alltaf forystukona í félags-, trúar- og menningarstarfi. Seinustu þrjú árin barðist hún við hinn óvægna Alzheimer-sjúkdóm. Það var mér sárt að horfa á þessa öflugu konu hverfa inn í móðu þessa sjúkdóms og glata í senn reisn sinni og glæsileika. En dauðinn er ekki verstur þegar svo er komið. Þá er hann lausn frá lífi sem er ekki lengur þess virði að lifa því. En eftir standa minningar, sem gleymast ekki. Eins og einn mætur maður sagði getur fólk dáið en minningar ekki.
Saga dagsins
1804 Napoleon Bonaparte skipaður keisari í Frakklandi af franska þinginu - hann ríkti í landinu með hléum allt til ársins 1815, er hann tapaði völdum í kjölfar frægrar orrustu við Waterloo. Hann lést í útlegð á eyjunni St. Helenu árið 1821. Saga Napóleon er goðsagnakennd, þrátt fyrir ólán undir lokin
1920 Jóhannes Páll II páfi fæðist í Wadowice í Póllandi - hann sat á páfastóli í 27 ár, allt frá árinu 1978 til dauðadags, 2. apríl 2005 - aðeins 2 páfar sátu lengur sem trúarleiðtogar kaþólskra en hann
1933 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, undirritar hinn víðþekkta New Deal samning
1985 Dagur ljóðsins var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti að frumkvæði Rithöfundasambands Íslands
2000 Nýtt hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson, kom til landsins - smíðað í Chile og var 70 metra langt
Snjallyrðið
No one would remember the Good Samaritan if he'd only had good intentions - he had money, too, of course.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2005 | 08:22
Engin fyrirsögn

Stóra stundin er að renna upp í Kiev í Úkraínu. Eftir tvo sólarhringa verður þar haldin forkeppni Eurovision-söngvakeppninnar. Þetta er í fimmtugasta skiptið sem keppnin er haldin. Á fimmtudagskvöldið munu 25 lönd keppa um 10 laus sæti á úrslitakvöldinu sem verður að kvöldi laugardags. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland þarf að fara í undankeppni til að komast í úrslitin. Á síðasta ári var fulltrúi okkar í keppninni, skólabróðir minn og æskufélagi, Jón Jósep Snæbjörnsson frá Akureyri, og söng hann lagið Heaven. Lagið lenti í 19. sæti og því var sæti á úrslitakvöldinu ekki tryggt og þurftum við að fara í forkeppnina að þessu sinni. Í fyrra var þetta fyrirkomulag fyrst notað, enda þátttökulöndin orðin þá mjög mörg og þótti þetta fyrirkomulag betra. Á laugardagskvöldið munu 24 lög keppa um sigur í keppninni. Fulltrúi Íslands í keppninni er Selma Björnsdóttir og flytur hún lag Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og Vignis Snæs Vigfússonar við ljóð Lindu Thompson, If I Had Your Love.
Lagið er mjög gott og öflugt, grípandi melódía og litrík. Er ég ekki í vafa um að það eigi eftir að ná langt og reyndar hittir það alveg dúndur beint í mark að mínu mati. Selma flytur lagið af miklu öryggi og reyndar er þetta eitt af allra bestu lögum okkar í keppninni til þessa, að mínu mati. Selma er öllu vön þegar að Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Að lokum munaði sautján stigum á Selmu og Charlotte Nilsson sem vann keppnina með laginu Take Me To Your Heaven. Enn situr í okkur Íslendingum að hafa tapað svo naumlega, enda var lag Selmu auðvitað mun betra að okkar mati. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni.

Grunnatriði Íslendinga næstu dagana í keppninni er að ná að komast úr undankeppninni og á úrslitakvöldið á laugardag. Það er þannig er litið er á veðbankana og netspárnar að okkur er nær undantekningalaust spáð góðu gengi. Sumir spá okkur jafnvel sigrinum. Tek ég undir með Selmu að það eru mjög háleitar spár vissulega. Við eigum að leggja allt kapp á að komast upp úr undankeppninni og fá farseðil á lokakvöldið. Það er það markmið sem þarf að nást til að pælingar um sigur og velgengni almennt geti ræst. Náist það markmið er ekki ólíklegt að sigur gæti unnist eða svipaður árangur og í Jerúsalem fyrir sex árum. Seinustu laugardagskvöld hef ég verið að fylgjast með hinum lögunum í keppninni og heyrt skemmtilegar lýsingar norrænu dómaranna á þeim. Fulltrúi Íslands í þáttunum var Eiríkur Hauksson söngvari, sem keppti fyrir Íslands hönd árið 1986 og svo fyrir Noreg, þar sem hann býr nú, árið 1991. Ennfremur var þar hin sænska Charlotte Nilsson Perelli, sem vann Selmu fyrir sex árum. Lögin eru mjög misjöfn núna en okkar lag er kraftmikið og öflugt, allavega betri en flest lögin að mínu mati. Vonandi er að því muni ganga vel og komist allavega úr forkeppninni.

Á hvítasunnudag var Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, staddur hér á Akureyri og viðstaddur opnun sýningar í Listasafninu. Jafnframt fór hann svokallaðan listahring um landið með menntamálaráðherra og borgarstjóra til að fagna Listahátíð á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Forsetinn var ekki fyrr kominn til Reykjavíkur en honum var ekið til Keflavíkur þar sem hann fór upp í flugvél til Peking, án Dorritar. Þar hófst svo síðdegis í dag opinber heimsókn hans til Kína. Óhætt er að fullyrða að forseti fari þar víða yfir. Er þetta í fyrsta skipti í áratug sem íslenskur forseti fer til landsins. Vigdís Finnbogadóttir forseti, fór í opinbera heimsókn til Kína haustið 1995. Fór hún þá á kvennaráðstefnu í landinu, sem vakti athygli vegna vel þekktra mannréttindabrota stjórnvalda þar. Sú för varð mjög umdeild og tekist á um mannréttindaáherslur Vigdísar. Leiddi sú ferð til harðrar gagnrýni hér heima á hana og sagði Vigdís síðar að það hefðu verið mestu vonbrigði forsetaferils síns að finna fyrir látunum hér heima.
Nú er Ólafur Ragnar í för með viðskiptajöfrum sem eru að nema þar lönd og íslenskum ferðamönnum sem eru að kynna sér landið. Í dag fer forsetinn í Höll alþýðunnar og mun hann hitta þar Hu Jintao forseta Kína. Auk þess að fara um Peking mun forsetinn halda til borganna Shanghai og Qingdao. Í Shanghai verður undirritaður samstarfssamningur milli Viðskiptaháskólans á Bifröst og Shanghai-háskóla. Í Qingdao mun forsetinn meðal annars heimsækja frystihús og hitta fulltrúa íslenskra fyrirtækja í borginni. Heimsóknin mun standa allt fram á sunnudag. Vonandi mun forsetinn á fundi með Jintao í dag tala mjög ítarlega um mannréttindamál og mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda. Í senn má segja að saga kommúnistastjórnarinnar sé blóði drifin og ógeðfelld. Ekki þarf að fjölyrða mikið um stöðu mála þar. Algjört einræði og skoðanakúgun á sér stað í Kína og því við hæfi að einræðisöflunum þar sé mótmælt með táknrænum og afgerandi hætti. Ég vona að forsetinn þori að tala hreint út um mannréttindi í Kína við ráðamenn þar.

Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur tilkynnt að hann hafi í hyggju að láta af leiðtogembættinu fyrir lok ársins og lýst yfir því að hann telji rétt að víkja fljótlega til að nýr leiðtogi geti markað sér áherslur sínar og stefnu tímanlega fyrir næstu kosningar. Á sunnudagsmorgun var Howard í ítarlegu spjalli við Sir David Frost í morgunspjallþætti BBC. Þar talaði hann hreint út. Hann sagði að flokknum hefði mistekist með öllu að ná sambandi við kjósendur í þingkosningunum fyrr í mánuðinum. Telur hann flokkinn eiga erfitt verk fyrir höndum en langt í frá vonlaust. Það sé hægt að ná saman samhentum og öflugum flokki, en aðeins ef rétt verði á haldið og flokknum stýrt á nýjar brautir. Að mati hans þarf flokkurinn að vera öflugri í hægristefnu sinni og verða meiri málsvarar ferskra tækifæra í hægrimennsku nútímans. Flokkurinn þurfi í senn bæði að breyta áherslum í takt við það sem venjulegir Bretar vilja og takast að finna sömu bylgjulengd og kjósendur vilja. Jafnframt lýsti hann því yfir að breyta þyrfti reglum flokksins við leiðtogakjör en Howard vill að gamla kerfið verði tekið upp, þ.e. að þingmenn flokksins velji leiðtogann. Ljóst er að margir muni sækjast eftir leiðtogastöðunni og þar muni þingmenn til fjölda ára og nýjir þingmenn leitast eftir forystu flokksins: fulltrúar bæði gamla og nýja tímans. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma.

Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á hina yndislegu ítölsku kvikmynd, La Vita é Bella. Í myndinni segir af Guido Orefici, fátækum ungum manni sem hefur þann hæfileika að geta gert alla káta í kringum sig. Hann hittir draumadísina sína, Doru, oft og mörgum sinnum í gegnum eintómar tilviljanir en hún er trúlofuð hreint óþolandi leiðindaskarfi og á brátt að giftast honum. Honum tekst loks að vinna hjarta hennar og þau giftast. Þar með er farið yfir nokkur ár í lífi þeirra og næst er við sjáum þau hafa nokkur ár liðið og hafa þau þá eignast son. Þetta er undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og þar sem Guido er gyðingur er hann sendur ásamt syni sínum í útrýmingarbúðir nasista. Þessi litla en stórbrotna perla er hiklaust ein besta kvikmyndin sem gerð var á síðasta áratug. Ítalski grínistinn Roberto Benigni fer á kostum í hlutverki lífs síns, Guido, sem hann hlaut óskarinn fyrir, en hann leikstýrði myndinni líka. Myndin hlaut þrenn óskarsverðlaun; fyrir leik Benigni, bestu kvikmyndatónlistina (glæsileg tónlist Nicola Piovani) og sem besta erlenda kvikmyndin 1998. Þessi mynd er allt í senn fyndin, mannbætandi og jákvæð fyrir hjartað. Hún fær hjörtu okkar til að slá í takt við það sem hún boðar og fær okkur öll líka til að hlæja um leið og hjarta okkar, áhorfandans, finnur sársauka tímabilsins og þær hörmungar sem fólk þurfti að þola um allan heim á þessum tíma. Ég vona því að sem flestir geti notið boðskaparins sem hún boðar - það að lífið er tvímælalaust dásamlegt!

Brátt dregur til tíðinda í formannsslag Samfylkingarinnar. Á laugardag verður tilkynnt hvort að Össur eða Ingibjörg Sólrún verði formaður flokksins næstu tvö árin. Eins og við má búast eru formannsefnin að tjá sig um málin og láta reglulega frá sér heyra á vefsvæðum sínum. Um helgina var Össur að rita um skákmót og för forsetans til Kína. Hann er venju samkvæmt að fjalla um helstu málefni samtímans. Um helgina sá ég á vef Ingibjargar Sólrúnar pistil eftir hana sem hún hafði ritað og bar heitið "Pólitík snýst um fólk". Titillinn segir margt um innihaldið. Ég er ekki sammála þessu mati, að mestu leyti finnst mér pólitík snúast um stefnu og áherslur. Hafi fólk í stjórnmálum ekki stefnu eða áherslur til starfa er það bitlaust eða allavega að litlu gagni. Eða það er mitt mat að fólk, þó ágætt sé, verði að hafa skýra grunnstefnu og markmið til að geta verið farsælir stjórnmálamenn. Stefna og hugsjónir eru grunnur þessa að mínu mati. Þarna er kannski kominn grundvallarmunur á ISG og mörgum öðrum í stjórnmálum sem telja stefnuna megingrunn stjórnmálastarfsins og þess að unnið sé að mikilvægum málum. Eða ætli það ekki bara? Ég held það.
Saga gærdagsins
1920 Benedikt XV tilkynnir opinberlega að Jóhanna af Örk hafi formlega verið tekin í dýrlingatölu
1929 Óskarsverðlaunin, verðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, afhent í fyrsta skipti í Los Angeles - verðlaunin voru fyrstu árin afhent í maí en svo lengst af verið afhend í febrúar eða mars
1942 Fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Ólafs Thors tekur við völdum - hún sat í sjö mánuði. Ólafur varð fimm sinnum forsætisráðherra á löngum stjórnmálaferli sínum, oftar en nokkrir aðrir leiðtogar
1952 Bandarísk flugvél fórst í miklu slysi í norðanverðum Eyjafjallajökli - með vélinni létust 5 manns
1966 Tískuverslunin Karnabær opnuð í Reykjavík - hún hafði mjög mikil áhrif á tískustrauma hérlendis
Saga dagsins
1724 Mývatnseldar hefjast - þeir stóðu í rúmlega 5 ár. Í þeim varð til gígurinn Víti sem er við Kröflu
1814 Noregur fær formlega stjórnarskrá - 17. maí hefur alla tíð síðan verið þjóðhátíðardagur landsins
1841 Tómas Sæmundsson prestur, lést 33 ára gamall - Tómas var einn hinna þekktu Fjölnismanna
1995 Jacques Chirac tekur við forsetaembætti í Frakklandi - hann var endurkjörinn í kosningum 2002
1997 Alþingi Íslendinga samþykkir ný lögræðislög - sjálfræðisaldur hækkaði með því úr 16 árum í 18
Snjallyrðið
Try not to become a man of success, but rather try to become a man of value.
Albert Einstein vísindamaður (1879-1955)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2005 | 20:54
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um inngöngu Gunnars Örlygssonar í Sjálfstæðisflokkinn en hann hefur nú sagt skilið við Frjálslynda flokkinn, sem hann var kjörinn á þing fyrir í þingkosningunum 2003. Fer ég yfir meginpunkta þess sem leiddi til þess að Gunnar tók þessa ákvörðun og það sem helst stendur eftir í umræðu seinustu daga um átökin um stefnuáherslur Frjálslynda flokksins og deilur milli Gunnars og forystumanna frjálslyndra. Með þessu stækkar því þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og sitja nú því 23 þingmenn af hálfu flokksins. Þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar eykst samhliða þessu, nú styðja 35 þingmenn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stað 34 áður. Samhliða þessu fækkar auðvitað stjórnarandstöðuþingmönnum og eru þeir nú 28. Greinileg gremja er innan stjórnarandstöðunnar með þann liðsauka sem við sjálfstæðismenn fáum með innkomu Gunnars í Sjálfstæðisflokkinn. Það er svosem varla undrunarefni í ljósi þess að tilfærsla jafnvel eins þingsætis getur haft áhrif á nefndakapalinn er þing kemur saman að nýju í haust. Með þessu auðvitað rýrnar þingflokkur Frjálslynda flokksins um fjórðung og þar eru því þrír þingmenn eftir nú. Þeim munar eflaust um hvert þingsætið á þeim bænum.
- í öðru lagi fjalla ég um væntanlegan landsfund Samfylkingarinnar, en það er nú tæp vika í að úrslit í formannskjöri flokksins verði kynnt formlega. Á ýmsu hefur gengið seinustu daga. Stuðningsmenn formannsefnanna keppast við að tala fyrir sínu formannsefni og baráttan hefur tekið á sig ýmsar myndir seinustu vikur og mánuði í baráttu svilanna fyrir formannsstólnum. Á dögunum spurðist út að framsóknarkonan Helga Jónsdóttir borgarritari, hefði gengið í flokkinn til að styðja ISG, en það mætti hvergi koma fram. Er eiginlega fyndnast við uppljóstrunina um inngöngu Helgu í Samfylkinguna til málamynda til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu að með henni kemur umræða ISG-liða um að verið væri að smala sjálfstæðismönnum í flokkinn til að hygla Össuri að þau hafa gert það sama með því að safna framsóknarmönnum í flokkinn. Er greinilegt að þessi taktík liðsmanna Ingibjargar Sólrúnar og baráttutaktur þeirra hefur tekið snarlega beygju og hætt hefur verið að tala um þessa hluti. Skiljanlega, enda hefur Ingibjörg Sólrún og hennar kosningamiðstöð greinilega smalað til sín fólki úr öðrum flokkum og ekki beitt neinum öðrum aðferðum en Össur og stuðningsmannasveit hans hefur verið sökuð um. Skondið, ekki satt?
- í þriðja lagi fjalla ég um athyglisvert svar utanríkisráðherra á þingi í vikunni sem sannaði með afgerandi hætti það að ESB-sinnar hafa vaðið mjög í staðreyndavillum lengi vel til að reyna að tala fyrir aðild að reglugerðasambandinu mikla í Brussel. Upplýst var að 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsreglugerða undanfarinn áratug hefðu verið tekin inn í EES-samninginn. Þessi svör koma sem merkileg andstæða við allt tal stuðningsmanna ESB-aðildar, um að Íslendingar innleiði 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins inn í íslenskt kerfi. Þetta hafa þingmenn t.d. Samfylkingarinnar haldið fram til fjölda ára og vissir fræðimenn af þeirra hálfu hafa leikið sig frjálsa og óháða við að tjá þessa skoðun. Nú kemur svo ljóslifandi í ljós að þetta er langt í frá rétt og menn eru að fara með staðleysur sem halda þessu fram sem gert hefur verið.

Það hefur verið notalegur og góður dagur hér á Akureyri í dag, á hvítasunnudegi. Veðrið hefur verið milt og sólríkt, en gola er þó yfir. Ég tók daginn snemma og fékk mér göngutúr í Kjarnaskógi og hjóltúr samhliða því. Þægileg hreyfing samhliða því auðvitað og hið besta er að þessi tími gefur manni stund til íhugunar um marga hluti. Þetta er því holl stund með sjálfum sér á sál og líkama. Á tólfta tímanum hófst við Listasafnið hér í bænum opnunarhóf sýningarinnar Hoist sem standa mun næstu vikur í Listasafninu. Þar sýna þau Gabríela Friðriksdóttir og Matthew Barney verk sín og er sýningin hluti af Listahátíð 2005. Samhliða opnunarhófinu lentu hér í bænum tvær fullar flugvélar af fólki og voru þar margir gestir komnir norður vegna Listahátíðar. Komu gestirnir beint upp að safni. Voru þeir að koma frá Ísafirði, héldu því næst til Egilsstaða og Seyðisfjarðar og enda svo daginn nú í kvöld í Vestmannaeyjum. Sannkölluð hringferð því á þessum degi.
Í hópnum var Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Var gestum og þeim sem áttu leið um boðið upp á léttan hádegisverð í sumarblíðunni í Listagilinu og var þar um margt rætt. Myndin hér að ofan var tekin af Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi og Sigrúnu Björku Jakobsdóttur bæjarfulltrúa og formanni menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, þar sem þær voru að ræða málin. Sýningin er mjög glæsileg og hvet ég alla bæjarbúa sem aðkomufólk sem á leið um bæinn til að líta á hana. Um helgina hefur jafnframt verið árleg vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16. Er unnið gott og gagnlegt starf í skólanum og var gaman að líta á verkin sem eru til sýnis á þessari sýningu. Skólinn varð þrítugur á síðasta ári og hefur hann verið mikilvægur þáttur menningarlífsins og verið leiddur farsællega af vini mínum, Helga Vilberg skólastjóra.

Er sýningunni lauk var kominn tími til að fara upp í Víðilund og heilsa upp á Hönnu ömmu. Hún kom seint í gærkvöldi heim frá Vestfjörðum, þar sem Kór aldraðra var í söngferðalagi. Var kórinn með tvo tónleika um helgina fyrir vestan, á Ísafirði og Bolungarvík. Amma hefur verið í kórnum frá stofnun árið 1988 og var formaður hans í þrettán ár, og leiddi því lengi starf hans. Hún hefur nú hætt því en syngur enn með. Amma, sem verður 85 ára í ágúst, er full af krafti og þrótti og segja má að tómstundastarfið sé hennar líf og yndi og hún hefur gaman af söngnum, enda til fjölda ára verið í kór. Allavega er hún amma sannkölluð kjarnakona og er aðdáunarvert að mínu mati hversu hress hún er miðað við aldur. Ég er og verð alla tíð stoltur af henni. Það er ekki laust við að maður vonist til að verða svona hress í ellinni. Síðdegis fórum við svo í fermingarveislu að Hlíðarbæ í Hörgárbyggð, en Sigríður Ásta, stjúpdóttir Kristmundar bróður míns, var fermd í dag. Var þar góð og skemmtileg veisla.
Í kvöld fórum við svo saman út að borða á Greifanum. Það er alltaf gaman að fara út að borða og fá sér góðan mat þar. Er ekkert betra en að fara þar og fá sér góðan mat, þar er góð þjónusta og klassamatur í forgrunni. Svo má auðvitað ekki að lokum gleyma því að ég fór seinnipartinn í gær í leikhús og sá í Samkomuhúsinu sýningu Þjóðleikhússins, Græna landið, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Sýningin hlaut fjórar tilnefningar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, á síðasta ári. Þessi sýning er vönduð og vel gerð. Fara Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld á kostum í hlutverkunum. Góð sýning, góð ferð því í leikhúsið eftir hádegið í gær. Það má því með sanni segja að ég hafi átt góða helgi, eigum við ekki að segja að þetta hafi verið menningarlega sinnuð helgi.
Saga gærdagsins
1943 Ólafur Ragnar Grímsson fæðist á Ísafirði - Ólafur var lengi einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins og hart deilt um störf hans. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1996
1998 Söngvarinn og leikarinn Frank Sinatra deyr í Los Angeles, 82 ára að aldri - Sinatra var alla tíð mjög umdeildur en óhikað má telja hann einn besta söngvara aldarinnar og þann sem einna mestan svip setti á tónlistarsögu aldarinnar. Hann söng nær allt til dauðadags og gaf út meistaralega gerða plötu skömmu fyrir andlátið sem sló í gegn, hún skartaði dúettum hans með þekktum söngvurum
1998 Jóhanna Sigurðardóttir talaði í rúma fimm klukkutíma á Alþingi - lengsta ræða þingsögunnar
2000 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, deyr, 62 ára að aldri - hann tók formlega við embætti forsætisráðherra Japans árið 1998 og var mjög vinsæll meðal landa sinna. Það kom mjög óvænt er hann fékk heilablóðfall á skrifstofu sinni þann 2. apríl 2000. Obuchi var í dái á sjúkrahúsi í Tokyo í rúman mánuð. Hann kom til Íslands í júnímánuði 1999, heimsókn hans bætti samskipti landanna
2004 Friðrik krónprins Danmerkur, gengur að eiga hina áströlsku Mary Donaldson, við, bæði í senn, glæsilega og hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn - þau eiga von á sínu fyrsta barni síðar á þessu ári
Saga dagsins
1941 Alþingi Íslendinga samþykkir að fresta þingkosningum um allt að fjögur ár vegna hernámsins
1952 Fiskveiðilögsaga Íslendinga var færð úr þremur sjómílum í fjórar - breytt næst sex árum síðar
1967 Fyrsta sjónvarpsleikrit á dagskrá RÚV, Jón gamli, eftir Matthías Johannessen ritstjóra, frumsýnt
1972 Geðtruflaður maður skýtur í bakið á George Wallace ríkisstjóra Alabama, sem þá var í framboði til embættis Bandaríkjaforseta, á kosningafundi í Laurel í Maryland. Hann lamaðist fyrir neðan mitti
1991 Edith Cresson verður fyrsti kvenforsætisráðherra Frakklands - Cresson sat í rúmt ár á valdastóli
Snjallyrðið
A man is a success if he gets up in the morning and gets to bed at night, and in between he does what he wants to do.
Bob Dylan tónlistarmaður (1941)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2005 | 19:18
Engin fyrirsögn

Benedikt XVI páfi tilkynnti í morgun að brátt hæfist ferlið sem leiða muni til þess að forveri hans, Jóhannes Páll II yrði tekinn í tölu blessaðra. Það er fyrsta skrefið í áttina að því að hann verði tekinn í dýrlingatölu. Páfi getur veitt undanþágu þess efnis að ferlið hefjist, en allajafna verða að líða að minnsta kosti fimm ár frá láti viðkomandi aðila til að hann geti verið tekinn í heilagra manna tölu. Allt frá því að Jóhannes Páll II lést þann 2. apríl hafa raddir verið háværar um að hann yrði tekinn í dýrlingatölu og mikið verið þrýst á að það yrði gert. Við útför hans þann 8. apríl sl. krafðist almenningur þess með spjöldum og með því að kalla upphátt dýrlingsheiti að hann yrði tekinn í tölu heilagra. Eins og vel kom fram í sunnudagspistli mínum þann 10. apríl er ég þeirrar skoðunar að taka eigi páfann í tölu heilagra. Það var það merkilegasta við páfann að hann var öflugri en bæði embætti hans og boðskapurinn sem hann tjáði. Það geislaði af honum og hann var litríkur og öflugur fulltrúi trúarinnar á páfastóli. Þess vegna verður hans og verka hans ávallt minnst.
Við hæfi var að tilkynnt væri á þessum degi að þetta ferli myndi hefjast og ákvörðun um það liggi fyrir. Í dag eru 24 ár liðin frá því reynt var að ráða Jóhannes Pál II af dögum á Péturstorginu. Litlu munaði að páfaferli hans lyki þá. Hann var skotinn fjórum skotum og barðist fyrir lífi sínu í skurðaðgerð á sjúkrahúsi í Róm í rúma tíu tíma. Það var tyrkneskur múslimi, Mehmet Ali Agca, sem skaut hann. Náði hann heilsu aftur og vakti mikla athygli er hann fór til tilræðismanns síns í fangelsið og fyrirgaf honum. Það er að mínu mati rökrétt að hann verði tekinn í heilagra manna tölu. Fáir trúarleiðtogar sögunnar hafa haft meiri áhrif á gang sögunnar og samtíma sinn en hann. Aðeins tveir sátu lengur á páfastóli en hann: St. Peter og Pius IX. Jóhannes Páll páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum, þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri yfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók alls 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár. Það er því enginn vafi á því í mínum huga miðað við þennan feril og áhrifamátt hans í sögu seinustu áratuga, sérstaklega við að berja niður kommúnismann, að hann eigi að taka í dýrlingatölu.

Mun umræða um mögulega misnotkun á félagaskrá hafa hafist eftir að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar gerðu athugasemdir í kjölfar þess að þeir hafi fengið sendar auglýsingar í síma og tölvupósti frá kosningaskrifstofu Össurar. Sérstaklega hefur verið í umræðunni sú staðreynd að Helga Jónsdóttir borgarritari, sem hefur alla tíð verið í Framsóknarflokknum og var lengi í starfi þar og var lengi náin samstarfskona forvera núverandi formanns flokksins og dóttir fyrrum þingmanns hans, gekk í flokkinn til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu. Hefur það verið upplýst og komið fram í fjölmiðlum eftir þetta. Mun ólga hafa komið upp innan stuðningsmannasveitar Ingibjargar í ljósi þess að Helga fékk senda auglýsingu frá starfsstöð Össurar og boð um að mæta í pylsupartí. Leiddi þetta til umræðu um leka úr flokksskrá sem varð til þess að Söndru var sagt upp. En já, þetta er dýrt pylsuboð fyrir marga í Samfó greinilega, eða eru það kannski framsóknarkonur? Segja má að uppsögn Söndru og það að póstur hennar var lesinn komi nokkuð skondið, eins og ein vinkona mín benti á, í ljósi þess að Samfylkingin gagnrýndi það ákvæði fjarskiptalaganna þar sem lögreglu er heimilt að fá upplýsingar um hver sé á bak við tiltekna ip-tölu án dómsúrskurðar.
Gott og vel, en á sama tíma og Samfylkingin gagnrýnir þetta ákvæði þá er hún með nefið ofan í tölvupósti starfsmanns síns og les póstinn án þess að starfsmanninum sé gerð grein fyrir því fyrr en eftir á. Nefndi nokkur orðið tvískinnungur? Eða er Samfylkingin eitthvað heilagri í heild sinni en gagnrýni hennar á aðra?

Halldór Blöndal stjórnaði þingfundi við þinglok á miðvikudagskvöldið. Eins og ég sagði frá í gær bendir flest til þess að þetta hafi verið seinasti þingfundurinn undir farsælli stjórn Halldórs. Eins og fram kom ennfremur í gær hugnast mér ekki þau skipti sem framundan eru í haust og ákveðin voru í raun fyrir tveim árum. En það verður að koma í ljós hvort breytingar verða á í þessum efnum í haust, er nær dregur. Ég vil að Halldór sitji áfram í þessu embætti. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið stolt af forystu hans í stjórnmálum.
Ég hef í raun alltaf dáðst af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið. Það hefur sannað sig að sú ræða var kraftmikil og öflug, flutt af manni sem var annt um þingið og ekki síður virðingarstöðu þess. Bendi á tengla á þá ræðu og aðra sem hann flutti í júlí 2004 hér neðar. Þá ritaði ég ítarlegan pistil til að tjá mig um það mál. Í gær ritaði Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, pistil á vef sinn um Halldór við þinglokin. Þar skrifar hann um mat sitt á Halldóri. Það eru merkileg skrif og athyglisverðar lýsingar, skemmtileg skrif í raun, sem ég bendi á hér með.
Til varnar virðingu Alþingis - 1. október 2004
Hildur Vala Einarsdóttir hefur heillað íslensku þjóðina algjörlega upp úr skónum á nokkrum mánuðum, algjörlega unnið hug og hjörtu landsmanna. Hún vann Idol - stjörnuleit með glæsibrag í marsmánuði, sté aldrei feilspor í keppninni og var án nokkurs vafa allan tímann sú sem var fremst allra keppandanna. Segja má að hún hafi sífellt náð meiri frama seinustu vikurnar, eftir sigurinn í keppninni. Hún tók tímabundið við stöðu Ragnhildar Gísladóttur sem söngkonu vinsælustu hljómsveitar allra landsmanna, Stuðmönnum, og hefur staðið sig vel á þeim vettvangi og sannað getu sína. Svo blasir við núna að á skömmum tíma hefur henni tekist að verða sá tónlistarmaður landsins sem hefur selt flest lög á tónlist.is frá upphafi. Þetta er glæsilegur árangur miðað við hennar stutta feril. Á þriðjudag gaf hún út fyrstu plötu sína sem ber nafn hennar og hefur fagmannlega ásýnd. Á henni eru tólf lög, róleg og notaleg lög.
Keypti ég mér plötuna í gær og hlustaði vel á hana, enda hafði ég ákveðið fyrir margt löngu að kaupa mér plötu hennar þegar hún kæmi út. Hildur Vala er á ljúfu nótunum á plötunni. Þar tekur hún falleg lög sem falla vel að flauelsmjúkri rödd hennar. Sérstaklega fannst mér hún ná miklum hæðum með flutningi sínum á hinu fallega lagi Bítlanna, smellinum ódauðlega For No One, og ennfremur Songbird, Dark End of the Street og Sálarlaginu fallega, Í fylgsnum hjartans. Best er hún þó í upphafslagi plötunnar, lagi hinnar kanadísku Joni Mitchell, Both Sides Now, lag sem ég hef alltaf hrifist mjög að. Ekki má svo gleyma hinu fallega lagi Stefáns Hilmarssonar, Líf, sem hún söng svo glæsilega í úrslitum Idolsins í mars. Hinsvegar saknaði ég Trúbrotssmellsins Án þín, sem hún söng einnig í keppninni og skil ég hreinlega ekki að það skuli vanta. En í heildina er þetta ljúf og notaleg plata sem sýnir okkur að ný stjarna er fædd. Glæsileg plata - flott söngkona.

Tæpur mánuður er nú liðinn síðan að nýr páfi, Benedikt XVI, var kjörinn til forystu í rómversk - kaþólsku kirkjunni. Leikur enginn vafi á því að hann mun feta sömu slóð til forystu á páfastóli og hinn vinsæli forveri hans. Þessa dagana er páfinn að koma sér vel fyrir í íbúðinni sem fylgir embættinu og er á efstu hæð Postulahallarinnar í Páfagarði. Í þeirri byggingu eru skrifstofur embættisins og heimili þess sem gegnir embættinu. Ekki þurfti páfi að fara langt til að flytja en hann bjó áður hinu megin við Péturstorgið, enda var hann leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins áður en hann var kjörinn páfi. Í skrifum á vef BBC er að finna lýsingar á flutningi hans í íbúð páfa. Þar kemur fram að hann hafi flutt með sér nýjungar í vistarverur páfaembættisins. Hann flutti nefnilega með sér vandað píanó sitt og ketti sína, en fram til þessa hafa dýr verið að mestu bönnuð í Postulahöllinni. Páfi er þekktur fyrir að vera píanisti og sest oft við flygilinn og leikur þar fögur tónverk meistara klassískrar tónlistar og er sérstaklega mjög annt um verk þeirra snillinga, Mozart og Bach. Píanó páfa er nú komið í herbergið þar sem páfi ávarpar við gluggann til mannfjöldans sem er á Péturstorginu. Verða herbergi íbúðar páfa endurinnréttuð í sumar að fullu, en á meðan mun páfi dveljast í sumaraðsetri embættisins að Castelgandolfo á Ítalíu. Eins og fyrr segir tekur páfi með sér ketti sína í Postulahöllina. Mun hann vera fyrsti páfinn sem er með gæludýr frá nítjándu öld.

Á þessu ári eru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Hefur þeirra tímamóta verið minnst með ýmsum hætti á árinu. Í afmælisvikunni í janúar var haldið málþing til minningar um hann í Ketilhúsinu og ennfremur hátíðartónleikar með Karlakór Akureyrar - Geysi í Glerárkirkju, þar sem sungin voru lög við ljóð Davíðs. Í gærkvöldi var haldin kvöldvaka honum til heiðurs í Ketilhúsinu. Þar flutti Samkór Svarfdæla mjög fjölbreytilega dagskrá í tali og tónum. Voru þar lífleg og góð söngatriði og ennfremur fluttir þættir úr ævi skáldsins og frá ferli hans. Kórinn tók þar fjölda laga og var um skemmtilega og góða dagskrá að ræða. Var þar flutt nýtt lag Guðmundar Árnasonar við ljóð Davíðs, Hrafnamóðir. Davíðsvakan var samstarfsverkefni menningarmálanefndar Akureyrar og Samkórs Svarfdæla. Var um að ræða góðan menningarviðburð, til heiðurs skáldinu okkar Eyfirðinga, Davíð frá Fagraskógi.
Saga dagsins
1776 Gefin var út konungleg tilskipun um póstferðir á Íslandi - fyrsta ferðin var farin í febrúar 1782
1888 Brasilía afnemur þrælahald með öllu - markaði mikil þáttaskil í mannréttindamálum í landinu
1894 Ásgeir Ásgeirsson fæddist í Kóranesi að Mýrum. Ásgeir var einn af helstu stjórnmálamönnum landsins áður en hann varð forseti Íslands, sat sem þingmaður í þrjá áratugi og var forsætisráðherra 1932-1934. Ásgeir var ennfremur forseti sameinaðs Alþingis og bankastjóri Útvegsbanka. Hann var forseti Íslands 1952-1968 og naut mikillar hylli landsmanna. Ásgeir lést þann 15. september 1972
1966 Undirritaðir voru samningar um kaup ríkisins á Skaftafelli í Öræfum - varð með því þjóðgarður
1981 Jóhannesi Páli II páfa, sýnt banatilræði er hann blessaði mannfjöldann á Péturstorginu - var skotinn fjórum sinnum en slapp naumlega lifandi frá árásinni. Jóhannes Páll II sat á páfastóli í tæp 27 ár, frá októbermánuði 1978, til dánardags, 2. apríl 2005, og markaði hann sér sess sem friðarpostuli
Snjallyrðið
Rows and flows of angel hair
And ice cream castles in the air
And feather canyons everywhere
I've looked at clouds that way.
But now they only block the sun
They rain and they snow on everyone
So many things I would have done
But clouds got in my way.
Oh but now old friends they're acting strange
And they shake their heads
And they tell me that I've changed
Well something's lost but something's gained
In living every day.
I've looked at life from both sides now
From win and lose and still somehow
It's life's illusions I recall
I really don't know life at all
Joni Mitchell söngkona og textahöfundur (1943) (Both Sides Now)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2005 | 14:48
Engin fyrirsögn

Á tólfta tímanum í gærkvöldi las Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, upp forsetabréf um að fundum Alþingis yrði frestað til loka septembermánuðar. Fram kom við starfslok þingsins að þessu sinni að 101 lög og 19 þingsályktunartillögur hafi verið samþykktar á þessum þingvetri, sem var hinn 131. í röðinni. Fjöldi afgreiddra mála er nokkru minni en venja er til, enda um lítið átakaþing að ræða í raun. Seinasta starfsdag þingsins voru mál á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði var á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvorsins. Meðal þeirra mála sem voru samþykkt á síðasta fundi þingsins voru ný samkeppnislög og fjarskiptalög. Hraðinn var mikill undir lokin og var fjöldi mála afgreiddur með leifturhraða. Spyrja má sig að því hvort fyrirkomulag starfa þingsins sé ekki orðið úrelt. Að mínu mati á að lengja starfstíma þingsins. Það eigi að koma saman undir lok ágúst eða byrjun september og starfa fram í júní, hið minnsta. Segja má að núverandi starfskerfi þingsins sé mjög gamaldags og í takt við liðna tíma. Því á að mínu mati því að breyta og hafa þingið lengur að störfum og koma í veg fyrir svona flýtivinnslu á málum í gegnum þingferlið. Tel ég að breyta eigi vinnuferlinu fyrir lok þessa kjörtímabils og lengja því starfstímann.
Halldór Blöndal forseti Alþingis, stýrði sennilega sínum síðasta þingfundi í gærkvöldi. Flest bendir til þess að hann muni láta af forsetaembættinu við upphaf næsta þingvetrar, þann 1. október. Við þinglok í gærkvöldi færðu þingmenn, bæði stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, honum kveðjur og þingmenn risu úr sætum til heiðurs Halldóri áður en þinghaldi lauk. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þeirra sem sitja á þingi. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mjög mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999 er hann varð forseti þingsins. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni og umbjóðendur sína í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað í. En samkvæmt ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá maímánuði 2003 er stefnt að því að Sólveig Pétursdóttir taki við forsetaembættinu í haust. Fer ég ekki leynt með þá skoðun mína að ég tel það ekki góða ákvörðun að hann láti af forsetaembættinu í haust. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Er í raun ekki endanlega ljóst hvort kemur til forsetaskiptanna og tel ég réttast að af þeim verði ekki.

Ég fagna því mjög að Gunnar Örn hefur gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það er auðvitað hans fyrir hvaða flokk hann vill vinna. Ef hann vill vinna í takt við stefnu flokksins og þær hugsjónir sem hann stendur fyrir fagna ég nýjum liðsmanni. Það er ekkert nema jákvætt. Gunnar er auðvitað ekki á þingi í umboði kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Það var Frjálslyndi flokkurinn sem bauð hann fram á sínum tíma og lýsti yfir stuðningi við hann og fortíð hans og allt sem því tengdi og gerði það líka eftir kosningar. Ekki ætla ég að dæma verk hans fyrir aðra, nú er hann kominn í annan flokk vegna þess að hann telur sig greinilega ósáttan við megingrunn þess flokks sem hann var í. Ég þekki ekki alla sögu hans í Frjálslynda flokknum og hann verður að eiga við sig hvernig hann skilur við fyrrum samherja þar, en ég skil vel að hann vilji ekki vinna þar lengur. En það verður svo að ráðast hvernig hann vinnur á nýjum vettvangi innan þingsins og hvernig hann vinnur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hinsvegar er það svo að Gunnar verður ef hann ætlar í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leita umboðs flokksmanna og vinna í þeirra nafni. En fyrir það fyrsta er það svo að ég fagna öllum sem vilja vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vilja vinna á grunni sjálfstæðisstefnunnar. Ég hef enga trú á öðru en að samstarf þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Gunnars muni ganga vel.

Þingstörfum er lokið á Alþingi Íslendinga á þessu löggjafarþingi. Mál hafa verið á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði verið á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvorsins. Á þriðjudagskvöld var komið að hinum árlegu eldhúsdagsumræðum í þinginu. Þar gerðu þingmenn upp veturinn og þau málefni sem hæst standa. Segja má að umræðurnar hafi lítið nýtt boðað í umræðuna og menn voru að mestu í þeim meginpunktum sem verið hafa í umræðunni. Engar kosningar eru framundan og því er rólegt yfir stjórnmálaheiminum og stefnir í rólegt pólitískt sumar, allavega miðað við hið seinasta. Mikið var rætt um þau tímamót að sex áratugir eru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og margir fjölluðu um samgöngumál í ljósi kostulegrar sólóbreytingartillögu eins þingmanns stjórnarflokkanna. Munurinn á efnistökum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga voru sem dag og nótt. Stjórnarliðum varð tíðrætt um góðærið í samfélaginu, stækkandi þjóðarköku í eldhúsi Íslendinga og mikla velsæld almennings en stjórnarandstaðan klifaði á að hér væri misskipting gæða, algjört ráðherraræði ríkjandi, skortur á mannréttindum. Það var því mislit umfjöllunin í umræðunni og menn ekki alveg sammála um meginpunkta tilverunnar.
Fyrstur í umræðunum talaði Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. Meginstefið hans var að ríkisstjórnin færi illa með völd sín. Hann fullyrti að stofnunum væri lokað vegna geðþóttaákvarðana ráðherra og forystumanna í stjórnmálum og ráðherraræði væri þar ríkjandi yfir. Nefndi hann í þessu samhengi Þjóðhagsstofnun, Mannréttindaskrifstofuna og sagði að nú stæði yfir aðför að Samkeppnisstofnun. Fór hann mikinn er hann fjallaði um stjórnarflokkanna og greinilegt að formannsslagurinn í Samfylkingunni var Össuri ofarlega í huga er hann talaði af miklum innlifunarkrafti. Reyndar má segja að umfjöllun Össurar um ráðherraræði og það að lagðar séu niður stofnanir hljómi nokkuð ankanalega er litið er á það sem Siv Friðleifsdóttir nefndi í umræðunni er Veiðistjóraembættið var flutt hingað norður til Akureyrar í umhverfisráðherratíð Össurar. Ganga þar sögur um að ráðherraræði Össurar hafi flutt stofnunina norður og verið um það rituð löng grein í Moggann fyrir skemmstu. Ekki ætla ég að dæma þau skrif en þau koma sér ekki vel í því samhengi sem Össur nefnir í ræðu sinni.

Að mínu mati fór Bjarni Benediktsson alveg á kostum í ræðu sinni síðar um kvöldið. Þar talaði hann að mestu blaðlaust og af innlifun um málefnin sem skipta máli og kom með ferska og góða innsýn í hugsjónapólitík þá sem Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja enn meiri rækt við. Hafði ég mjög gaman af því að hlusta á Bjarna og þann boðskap sem hann hafði fram að færa. Það er varla vafi á því í mínum huga að Bjarni hefur styrkst mjög allt frá því að hann kom inn á þing fyrir tveim árum. Þá voru deilur um að setja hann í fimmta sæti í kraganum og ekki allir á eitt sáttir. Sú gagnrýni hefur þagnað og eftir stendur að Bjarni hefur eflst mjög. Hann sannaði sig í fjölmiðlamálinu í fyrra og hefur verið öflugur í störfum sínum. Segja má að hann hafi vaxið mjög af verkum sínum og forystu í mikilvægum málum. Ræða hans í gær var kjarnmikil, bæði í flutningi sem innihaldi. Þar kom fram viss meginpunktur í stefnumótun sem ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni nota vel á næstu árum í að tjá hægristefnu til komandi ára. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, flutti ennfremur mjög góða ræðu og fór yfir góða og gagnlega punkta í henni.
Skrautlegt var að hlusta á Ögmund Jónasson. Svartagallsglamrið var þar algjörlega allsráðandi. Það var helst á honum að skilja að hér væri allt að fara fjandans til og eymdin væri máluð á alla veggi. Það er með algjörum ólíkindum að hlusta á svona Svarta Pétra tala út og suður um málin með svört gleraugu á augunum, sem ekkert sést út úr. Var hann á sama grunni í umræðunum og í eldhúsdagsumræðunum fyrir ári. Þá sem nú kepptist hann og aðrir þingmenn flokksins við að níða niður allt það góða sem komið hefur með væntanlegum virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka með endalausu svartagallsrausi. Ögmundur sá reyndar ástæðu fyrir ári til að hvetja fólk til að reisa álverinu og virkjuninni níðstangir sem víðast og herða á neikvæðum ummælum gegn framkvæmdunum og uppbyggingunni fyrir austan. Það er merkilegt að einn þingmannanna sem talaði í umræðunum er málsvari kjördæmis Austfirðinga, en málflutningurinn kemur ekki á óvart. Hann hefur oft heyrst vel en undarlegt er að hert sé á honum þegar jákvæð staða mála blasir við. Einu lífslexíur vinstri grænna eru úr sér gengnar kommaþulur sem engir aðrir vilja kannast við í dag.

Í ræðu sinni fór Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, vel yfir stöðu mála og gerði gott grín að vinstri grænum. Hann sagðist hafa saknað eins orðs í ræðu Ögmundar er hann vék talinu að seinni heimsstyrjöldinni - hann hefði ekki heyrt hann nota orðið Stalín þegar saga stríðsins var rakin af Ögmundi. Góður punktur hjá Guðna, enda hefur frægðarsól Stalíns fölnað hratt seinustu hálfu öldina. Guðni sagði vinstri græna tala eins og álfa út úr hól, sagðist hann halda að þeir gerðu það að mestu að gamni sínu. Sagði Guðni að þjóðarkakan í eldhúsi Íslendinga hefði stækkað á þeim áratug sem ríkisstjórn stjórnarflokkanna hefur setið. Guðni taldi Framsóknarflokkinn ennfremur þurft að þola ómaklega gagnrýni, slægð, róg og illmælgi í fjölmiðlum og frá andstæðingum sínum. Guðni mælti af krafti og gerði gott grín að andstæðingunum og sagði með hæðnisglott á vör að flokkur sinn væri enn með sitt nafn og kennitölu og hefði ekki þurft að fleygja hvoru tveggja í skyni vinsældastjórnmála. Engum blandaðist hugur hvert þessu var beint. Arnbjörg Sveinsdóttir flutti góða ræðu, sem ég hef áður fjallað um hér á vefnum og er hún nú aðgengileg á heimasíðu minni.
Segja má að þessar umræður hafi verið líflausar að mestu og ekki rismiklar í eðli sínu. En það er vissulega alltaf gaman af góðum pólitískum skoðanaskiptum og heyra áherslumuninn á ræðumönnum. Að þessu sinni var hann mjög mikill - annaðhvort væri allt á réttri leið eða allt að fara hins verra til. Það var ekkert millibil. Eflaust eru tvær sýnir sem blasa við ræðumönnum, en í mínum huga leikur enginn vafi á að þjóðfélagið stefnir rétta átt og við höfum það mjög gott. Staða ríkisins er góð og það er góðæri í samfélaginu. Sú svarta mynd sem stjórnarandstaðan málaði í umræðunum er ekki raunsæ er á heildarmyndina er litið. Vissulega er alltaf svo að eymdin og volæðið er mikil þegar fólk er í stjórnarandstöðu en hefur aðra mynd af tilverunni sem það vill skapa á eigin forsendum. En vissulega hefur löng seta í stjórnarandstöðu undarleg áhrif, jafnvel á hið mætasta fólk. En við getum með sanni sagt að við séum á réttri leið. Myndin er ekki eins svört og sumir vilja vera láta. En eldhúsdagsumræðan var alveg ágæt og fínt að fylgjast með henni, venju samkvæmt.
Saga dagsins
1882 Íslenskar konur fengu ótvíræðan en þó í raun takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakjörs
1935 Golf var leikið í fyrsta skipti á Íslandi er sex holu golfvöllur var vígður í Laugardal í Reykjavík
1937 George VI Englandskonungur krýndur - hann sat á valdastóli í tæp sextán ár, árin 1936-1952
1949 Sovétríkin aflétta að fullu vega- og flugbanni sem gilt hafði til Berlínar - það hafði gilt í rúmt ár
1994 John Smith leiðtogi breska Verkamannaflokksins, deyr úr hjartaslagi í London, 55 ára að aldri - hann hafði leitt flokkinn í 2 ár. Fráfall hans kom snöggt og var reiðarslag fyrir flokkinn og þjóðina, en búist hafði verið við því að hann myndi leiða kratana til sigurs í næstu kosningum og talið öruggt að hann yrði næsti forsætisráðherra. Eftirmaður hans varð Tony Blair og leiddi hann flokkinn til sigurs
Snjallyrðið
True love never dies with the death of those we love if the love is really true. It lives beyond the existence of live. It never slips really away. The matter of the heart does not fade away with the passing.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2005 | 13:15
Engin fyrirsögn

Eldhúsdagsumræður voru á Alþingi í gærkvöldi. Vegna ferðar minnar til Austurlands í dag og á morgun gefst mér ekki tími fyrr en að því loknu að fjalla um umræðurnar. Í umræðunum flutti Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, öfluga og góða ræðu. Ég birti ræðu Arnbjargar á heimasíðu minni í dag og ennfremur hér. Ég mun fjalla ítarlega um umræðurnar er heim kemur frá Egilsstöðum.
Jákvæð forysta - kraftmikil verkefni
"Í lýðræðislegu samfélagi skiptum við okkur í stjórnmálaflokka. Við skiptum okkur í stjórnmálaflokka m.a. með tilliti til skattamála. Þegar við horfum til starfa þessa vetrar hljótum við að vera sammála um það að þar rísa hæst þær ákvarðanir sem teknar voru um skattalækkanir. Þau verk eru meðal þess ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í. Hér er um hápólitískt mál að ræða, skattalækkanir eru það sem við sjálfstæðismenn höfum gert að stefnu okkar. Þegar sterk forusta Sjálfstæðisflokksins hefur leitt til þess að efnahagsmál og ríkisfjármál eru með þeim hætti sem nú er, er lag til að lækka skatta.
Við höfum stækkað þjóðarkökuna svo að svigrúm var til að ráðast í það verk. Tekjuskattur og erfðafjárskattur lækkaður, sérstakur tekjuskattur og eignarskattur aflagður, jaðarskattar þar með stórlækkaðir. Hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka. Nefnd stjórnarflokka vinnur að lækkun matarskatts. Hvaða afleiðingar hafa þessar ákvarðanir fyrir íbúa landsins? Að meðaltali 4,5% hækkun ráðstöfunartekna allra heimila í landinu, reyndar mun meiri hækkun hjá barnafólki og fólki með lágar eða millitekjur, allt upp í 12% hækkun ráðstöfunartekna.
Hér er einnig um mikinn ávinning að ræða hjá eldra fólki sem bar þungann af öllum eignarskattinum. Nú er eignarskatturinn endanlega lagður af og kemur vonandi aldrei aftur. Hér er enn fremur um mikinn ávinning að ræða hjá námsmönnum. Endurgreiðsluhlutfall námslána frá LÍN var lækkað um 1% sem hefur mikil áhrif á hag námsmanna. Allt eru þetta heildstæðar aðgerðir til að bæta hag almennings í landinu. Þetta er hægt að gera án þess að gengið sé á þjónustu velferðarþjóðfélags okkar.
Takið eftir: Hrakspár stjórnarandstöðunnar hafa ekki gengið eftir, hrakspár um að ríkissjóður og efnahagslífið þyldu ekki þessar ráðstafanir, þvert á móti. Að undanförnu hefur verið unnið að verkefni um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem felur í sér verkefnaflutning til sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og skoðun á tekjum þeirra. Tekjustofnanefnd skilaði af sér tillögum sem samþykktar hafa verið hjá ríkisstjórn og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögurnar gera ráð fyrir 9,5 milljarða ávinningi fyrir sveitarfélögin í landinu á næstu þremur árum og 1,5 milljarða varanlegum ávinningi. Var í tillögunum sérstaklega litið til þeirra sveitarfélaga sem veikar standa.
Hér er um mikilvægt mál að ræða og mun hafa grundvallarþýðingu fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu. Þegar horft er að öðru leyti til byggðamála má segja að flestar þær ákvarðanir sem teknar eru af landstjórninni hafi áhrif á landsbyggðina. Svoleiðis á það líka að vera. Við sjáum stórstígar breytingar í samfélaginu á Austurlandi í kjölfar ákvarðana og framkvæmda við virkjun og stóriðju á Austurlandi, ekki einungis við framkvæmdir tengdar virkjun eða stóriðju, heldur einnig framkvæmdir og uppbyggingu í skólakerfinu, heilsugæslunni, samgöngum og ótal fleiru. Því hljótum við öll að fagna, hver svo sem afstaða okkar er að öðru leyti til framkvæmda af þessu tagi.
Á þessu ári verða tekin í notkun jarðgöng á Austurlandi sem gera Miðausturland að sterku atvinnusvæði. Fáskrúðsfjarðargöng munu eiga eftir að hafa grundvallarþýðingu í byggðaþróun á Austurlandi. Jarðgöng í gegnum Almannaskarð er mikið framfaraspor í samgöngumálum okkar Íslendinga. Erfiður farartálmi er horfinn af hringveginum og einnig er ljóst að af umhverfisástæðum hefði aldrei náðst sátt um að fara aðra leið.
Næst verður ráðist í Héðinsfjarðargöng sem boðin verða út í haust. Þau göng hafa verið dregin inn í umræðuna að undanförnu með undarlegum hætti. Héðinsfjarðargöngum er ætlað að styrkja byggð við utanverðan Eyjafjörð. Einungis 10 mínútna akstur verður á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Göngin munu hafa þá grundvallarþýðingu að atvinnusvæði verður sameinað. Þjónusta ýmiss konar sem rekin er á báðum stöðum mun verða sameinuð og þar með efld. Sparnaður verður í fjárfestingum, t.d. í skóla- og íþróttamannvirkjum.
Það er auðvelt í pólitísku dægurþrasi að gera eina framkvæmd að skotspæni, og íbúa þeirra svæða sem fjærst liggja höfuðborginni en það er langt frá því að vera stórmannlegt. Athafnasamir sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi hafa unnið að hugmyndum um Vaðlaheiðargöng. Ekki munu líða mörg ár þangað til við sjáum til upphafs framkvæmda þar. Ýmis verkefni bíða einnig á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Ég fjölyrði hér um jarðgangaframkvæmdir sökum þess að slíkar framkvæmdir hafa grundvallarþýðingu fyrir þær byggðir sem næst liggja en ekki síður fyrir samgöngukerfið í landinu í heild.
Framfarir fylgja framkvæmdum. Við Íslendingar hljótum alltaf að vera á verði um það hvernig við eigum að nýta auðlindir okkar. Það liggur fyrir að á Norðurlandi eru miklar orkuauðlindir sem á næstu árum verða teknar ákvarðanir um hvernig eigi að nýta. Það þýðir að það er eins gott að á Alþingi verði stjórnarmeirihluti sem getur tekið ákvarðanir í því efni. Stjórnarandstaðan hér á þingi, vinstri vængurinn, stjórnarandstaða jafnsundurþykk sjálfri sér og raun ber vitni, er ekki það afl sem gæti staðið hér í framfaramálum af því tagi.
Hagur fjölskyldna og fyrirtækja hefur verið bestur þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í stafni - svo verður áfram."

Þingstörfum mun ljúka í dag. Í dag var samgönguáætlun samgönguráðherrans samþykkt og breytingartillögum Gunnars Birgissonar við hana var vísað frá. Það hefur sannað sig vel og innilega seinustu daga að Gunnar var landlaus í þessu máli. Það gat enginn skrifað upp á tillögur hans né stutt þær áfram, ef frá er talin vinkona hans úr Kópavogi úr Samfylkingunni. Það er ánægjuefni fyrir okkur að sólómennska Gunnars náði ekki fram að ganga og menn geta litið í aðrar áttir. En eftir stendur vissulega enn í mínum huga hvernig Gunnar hefur komið fram. Segja má að sú framkoma verði geymd en ekki gleymd okkur hér í Norðausturkjördæmi.
Saga dagsins
1921 Vökulögin samþykkt á þingi - höfðu gríðarleg áhrif til hins betra fyrir sjómenn
1955 Kópavogur fær kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 3.000 manns en nú tæp 30.000
1971 The Daily Sketch, elsta dagblað Bretlands, stofnað 1909, kemur út hinsta sinni
1981 Reggae söngvarinn heimsfrægi Bob Marley, deyr úr krabbameini, 36 ára að aldri
1985 50 knattspyrnuáhugamenn láta lífið er eldur kviknar á leik í Bradford á Englandi
Snjallyrðið
The one thing sure about politics is that what goes up comes down and what goes down often comes up.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2005 | 19:53
Engin fyrirsögn

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í blaðinu í dag eru 69,7% landsmanna á móti gerð Héðinsfjarðarganga, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Svo virðist vera sem að meirihluti sé á móti göngunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Satt best að segja koma þessar niðurstöður mér ekki á nokkurn hátt á óvart. Ég bjóst í raun við svona niðurstöðu. Það hefur nefnilega verið svo að með ólíkindum hefur verið að fylgjast með þeirri einhliða og ótrúlegu neikvæðu umræðu sem verið hefur uppi um þetta mál að nær öllu leyti. Nefna má hana aðför að okkur hér. Mjög hvimleitt hefur verið að sjá vinnubrögð og talsmáta fólks sem tjáð hefur andstöðu gegn þessum samgöngubótum og að því er virðist samgönguframkvæmdum almennt á landsbyggðinni. Sem Eyfirðingi hefur mér hreinlega blöskrað þær köldu kveðjur sem við hér á svæðinu, og þá sérstaklega Siglfirðingar, höfum fengið yfir okkur í umræðunni um þessi mál.
Einkennist sá talsmáti og vinnubrögð af undarlegum efnistökum viðkomandi aðila. Það hef ég þó séð vel er ég hef fengið viðbrögð andstæðinganna við netskrifum mínum um þessa framkvæmd að þeir sem hæst tala gegn framkvæmdinni hafa ekki kynnt sér stöðu mála. Oftast nær er það svo að fólkið sem hæst talar hefur ekki farið á staðina eða varla vit á því hver grunnur þess og tilverunnar á svæðinu sé. Það er afskaplega hvimleitt að takast á við svona úrtölulið að mínu mati. En það er nauðsynlegt, enda skiptir þessi framkvæmd okkur máli hér. Ég hef fundið það vel eftir skrif mín á netinu og á öðrum stöðum að fólk sem talaði gegn göngunum og skrifum mínum hafði engin rök á bak við sig í málinu nema þá það að þetta væri dýrt. Samgöngur, góðar samgöngur, eru alltaf dýrar. Það er vissulega alveg rétt. En þær verða að koma til eigi að haldast blómleg byggð í landinu. Það geta jú ekki allir landsmenn búið á höfuðborgarsvæðinu og alið manninn þar á sama blettinum.
En góðar samgöngur opna möguleika, efla svæðin. Göng um Héðinsfjörð eflir mitt heimasvæði sem heild. Í dag lagði svo Gunnar Birgisson fram á þingi sérsniðna samgönguáætlun sína og hafði uppi framsögu um hana. Eins og ég hef áður sagt hér hef ég megna skömm á tækifærismennsku og vinnubrögðum Gunnars í þessu máli að undanförnu. Það er varla hægt orðið að líta á hann sem pólitískan samherja eftir þá aðför sem hann hefur nú uppi gegn okkur hér og þessu stóra máli, máli sem í senn er grunnmál hvað varðar innkomu Siglufjarðar í Norðausturkjördæmi og því að tengja bæinn við Eyjafjörð. Ég hef enga trú á því að hann nái ósvinnu sinni í gegn. Ég legg allt mitt traust á að forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu það heilir er kemur að umræðu í þinginu og lokaafgreiðslu um samgönguáætlun ráðherra að standa við loforðin sem okkur voru gefin hér fyrir tveim árum. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á að vegið verði að byggðunum hér með þeim hætti sem mælst er til með sólómennsku þingmannsins að sunnan. Við hér fyrir norðan viljum að orð standi og verði meira en orðin tóm. Viljum að kosningaloforðin verði efnd - einfaldara verður það ekki!

Þetta hafa þingmenn t.d. Samfylkingarinnar haldið fram til fjölda ára og vissir fræðimenn af þeirra hálfu hafa leikið sig frjálsa og óháða við að tjá þessa skoðun. Nú kemur svo ljóslifandi í ljós að þetta er langt í frá rétt og menn eru að fara með staðleysur sem halda þessu fram sem gert hefur verið. Tölurnar tala sínu máli mjög greinilega. Þetta fólk hefur sagt hvert ofan í annað að betra væri að ganga bara í Evrópusambandið til að geta haft áhrif þar. Með þessu er því auðvitað komið í ljós að þessi áróður er aðeins blekking og Íslendingar væru ekki að stimpla gerðir ESB í þeim mæli, sem haldið hefði verið fram á Alþingi eða í samfélaginu af ESB-sinnum. Segja má að þessi svör séu upplýsandi og gagnlegt að fá þær fram í dagsljósið með þessum hætti. Þetta eru mjög merkilegar upplýsingar sem þarna liggja fyrir.
Með þessu hrynur algjörlega til grunna tal sumra "spekinganna" um að löggjafarstarf í EES-löndunum væri að mestu ljósritun af gerðum og ákvörðunum ESB. Var kostulegt að hlusta á Björgvin G. Sigurðsson í umræðu gærdagsins. Hann sagði þar að gott væri að fá þetta fram en engu að síður ættum við nú að sækja um aðild, svona af því bara að það er kannski bara svo flott og skemmtilegt. Það eru engin rök á bakvið aðildarhjal ESB-sinnanna lengur. Nú þegar þessari "röksemd" hefur verið hnekkt fækkar óneitanlega hinum fögru skjallorðarullum um þetta reglugerðafarganasamband sem ESB er. Undir lok umræðunnar í gær átti Sigurður Kári ummæli dagsins. Hann sagði þessi fleygu og góðu orð: "Þetta eru mikil tíðindi og um leið og ég þakka hæstvirtum utanríkisráðherra fyrir svarið þá held ég að það sýni svo ekki verði um villst að röksemdir þeirra, sem telja að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, eru jafnvel vitlausari en hugmyndin sjálf". Svo sannarlega orð að sönnu hjá Sigga Kára.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kom til Akureyrar í dag og kynnti þar hugmyndir sínar um að efla löggæsluna almennt hér í bænum. Gera tillögur Björns sem hann kynnti hér í dag ráð fyrir því að lögreglumönnum á Akureyri verði fjölgað um fjóra. Jafnframt er gert ráð fyrir því að samhliða þessu muni fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu þar verða leystir undan föstum vöktum. Með þessu er löggæsla hér á Akureyri og Norðausturlandi öllu efld til muna. Samhliða þessari ákvörðun hefur verið tilkynnt að athafnasvæði sérsveitarmannanna muni ekki verða bundið við umdæmi sýslumannsins á Akureyri, en þeir starfa undir hans stjórn. Er þeim ætlað að sinna verkefnum þar sem helst er talin nauðsyn til hverju sinni. Í því mun felast t.d. það að sinna verkefnum í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi, aðgerðir gegn fíkniefnasölum og handrukkurum á Norður- og Austurlandi og annarri skipulagðri glæpastarfsemi ásamt almennri löggæslu. Þessi ákvörðun er mjög mikið gleðiefni og er nauðsynleg í ljósi frétta um vaxandi eiturlyfja- og ofbeldisvanda hér í bænum og á starfsvæði lögreglunnar. Á því verður að taka með markvissum hætti og efla starf lögreglunnar og styrkja stoðir hennar. Með þessari ákvörðun er dómsmálaráðherra að taka mynduglega á málum og ber að lofa mjög þessa ákvörðun hans sem styrkir mjög lögregluna hér almennt. Gleðileg ákvörðun fyrir okkur hér á Akureyri.

George W. Bush varð í gær fyrsti forseti Bandaríkjanna sem kemur í opinbera heimsókn til Georgíu. Þessi heimsókn Bush til hins forna Sovétlýðveldis markar þau þáttaskil að vestræn samvinna milli Bandaríkjanna og Georgíu eru orðin staðreynd. Bush og stjórn hans studdi mjög við bakið á lýðræðisþróuninni í landinu, sem átt hefur sér stað seinustu árin. Hann studdi mjög valdaskiptin í landinu í nóvember 2003 er Eduard Shevardnadze, sem setið hafði á forsetastóli þar frá 1992, var steypt af stóli í friðsælli uppreisn, sem jafnan hefur verið kölluð Rósabyltingin vegna rólegheitanna sem fylgdu henni, sem leiddi til valdatöku Mikhail Saakashvili. Með nærveru sinni var því Bush að lýsa yfir stuðningi við verk nýju stjórnarinnar. Bush var fagnað mjög er hann kom til landsins og fékk notalegar og jákvæðar móttökur. Hann ávarpaði mannfjölda við útiskemmtun í höfuðborginni Tbilisi. Þar kom vel fram að hann teldi Georgíu vera gott dæmi um að von væri um umbætur í Mið-Austurlöndum. Kom fram að Bandaríkin hefðu verið, og yrðu svo lengi sem umbætur sér þar stað, bandamaður Georgíu. Hefur Saakashvili nú óskað eftir Jalta ráðstefnu, 60 árum eftir hina sögulegu ráðstefnu þar, þar sem bandalag nýrra evrópskra lýðræðisríkja kæmi saman og gerði upp fortíðina. Segja má að Bush hafi sjaldnar verið betur tekið á erlendum vettvangi á ferli sínum en í þessari för til Georgíu.

Verulega er nú farið að syrta í álinn fyrir Paul Martin forsætisráðherra Kanada, og minnihlutastjórn hans. Vofir nú yfir henni vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar í kjölfar þess að upplýst var um spillingu sem upplýst var í Frjálslynda flokknum, flokki Martin, sem stjórnað hefur landinu allt frá árinu 1993. Peningaþvætti og fjárspilling er meðal þeirra þátta sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið sakaður um. Martin hét því nýlega í sjónvarpsávarpi að allir í flokknum, einnig hann, myndu gangast undir rannsókn. Almenningur í Kanada virðist hafa misst alla trú á forystu flokksins og þeir sem hafa trúað honum, þrátt fyrir umræðuna, hafa misst trúna á forystu Martin, eftir að sannanir voru nýlega afhjúpaðar um tengsl flokksins vegna spillingarmálanna. Martin er sérlega tengdur málinu enda var hann fjármálaráðherra þegar spillingin á að hafa átt sér stað árið 2002. Í kosningunum í fyrra munaði hársbreidd að stjórnin félli en Martin hefur ríkt síðan í minnihlutastjórn, sem hefur verið varin vantrausti af smærri flokkum. Nú er staðan orðin þannig að þeir eru orðnir tvístígandi og stjórnin riðar til falls. Skv. könnunum er stjórnin með sögulegt lágmarksfylgi og persónufylgi Martin er hrunið. Hann reynir því allt nú til að forðast kosningar, en við blasir að ef vantraust verði lagt fram falli stjórnin, enda ekki með meirihluta.

Í gærkvöldi var góður fundur hjá okkur um jafnréttismál og farið einnig yfir forvarnar- og fjölskyldumál. Góður og gagnlegur fundur og fínt spjall. Er heim kom á ellefta tímanum horfði ég, enn einu sinni, á kvikmyndina To Kill a Mockingbird. Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki frá árinu 1962. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Háklassískt meistaraverk - heilsteypt saga um mannréttindi, lífsvirðingu og síðast en ekki síst réttlæti.
Saga dagsins
1940 Hernámsdagurinn - Bretar hernema Ísland. Mest voru um 25.000 breskir hermenn hérlendis - Bandaríkjamenn tóku ári síðar við hlutverki Breta og hafa allt frá því séð um varnarhlutverk landsins
1940 Sir Winston Churchill tekur við embætti sem forsætisráðherra Bretlands - hann leiddi Breta í gegnum seinni heimsstyrjöldina en féll af valdastóli 1945. Varð aftur forsætisráðherra á tímabilinu 1951-1955 er hann hætti þátttöku í stjórnmálum, þá áttræður að aldri. Churchill lést í janúar 1965
1981 François Mitterrand kjörinn forseti Frakklands. Hann sigraði Valéry Giscard d'Estaing sitjandi forseta, í kosningum. Mitterrand sat á forsetastóli í 14 ár. Hann lést úr krabbameini í janúar 1996
1994 Nelson Mandela verður forseti S-Afríku - stjórn Afríska þjóðarráðsins tók þá einnig við völdum. Mandela sat á forsetastóli í S-Afríku allt til ársins 1999. Eftirmaður hans á valdastóli var Thabo Mbeki
2000 Haraldur Örn Ólafsson nær fyrstur Íslendinga á Norðurpólinn - kl. var 21:28 að kvöldi þegar Haraldur hringdi heim til Íslands til að tilkynna að hann hefði náð á leiðarenda. Fyrstur ræddi Davíð Oddsson þáv. forsætisráðherra, við Harald. Fyrstu orð Haraldar í samtalinu: Ég er á toppi tilverunnar!
Snjallyrðið
A politician needs the ability to foretell what is going to happen tomorrow, next week, next month, and next year. And to have the ability afterwards to explain why it didn't happen.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2005 | 16:35
Engin fyrirsögn

Það blasir við flestöllum eftir úrslit þingkosninganna í Bretlandi í síðustu viku að pólitísk staða og valdarými Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur rýrnað til muna. Þetta er að koma sífellt betur í ljós þessa dagana. Þannig er nú mál með vexti að í ítarlegum pistli mínum á föstudag um úrslitin fjallaði ég ítarlega um þessa breyttu stöðu og að forsætisráðherranum myndi reynast erfitt að hafa stjórn á mannskapnum, einkum andstöðuöflunum á síðasta kjörtímabili og halda völdunum með sama hætti og áður. Strax á föstudag fékk ég tölvupóst frá krata í íslenska flokkalitrófinu þar sem reynt var í löngu máli að hnekkja skrifum mínum og koma með punkta í þá átt að þetta væri nú ekki rétt hjá mér. Þar var sagt að sigur Blair væri nokkur og forysta hans biði ekki skaða af naumari meirihluta og breyttum forsendum. Í svari til baka endurtók ég fyrri skrif og minnti á grunnpunkta alls málsins. Þeir eru skýrir og tala sínu mál alveg vel. Það þarf svosem ekki mig til að sýna fram á stöðu mála, en ég skal fúslega segja þá aftur og aftur við kratana ef þeim er það ómögulegt að sjá ljósið við enda ganganna.
Um helgina hefur allt sem ég sagði er ég greindi úrslitin á föstudag verið staðfest með afgerandi hætti. Ekki af mér (það virðist ekki þurfa pólitíska andstæðinga kratanna til að tjá staðreyndir málsins) heldur þingmönnum breska Verkamannaflokksins sjálfum. Það þarf ekki aðra en andstöðuöflin innan Verkamannaflokksins, sem hafa setið á sér í kosningabaráttu seinustu vikna, til að tjá stöðu mála. Aðeins þrem dögum eftir kosningasigur Verkamannaflokksins komu nefnilega lykilforystumenn þessa óánægjuhóps innan flokksins í fjölmiðla og tjáðu sig. Þeir vilja að Blair víki af valdastóli eins fljótt og auðið má vera og að Gordon Brown verði færð völdin. Það er einfaldlega strax allt að sjóða upp úr milli forsætisráðherrans og óánægjuaflanna sem nú hefur í ljósi rýrnandi meirihluta í breska þinginu, örlög forsætisráðherrans að mestu í höndum sér og getur ráðið í raun stefnumótun hans og forystu næstu árin. Það þarf jú ekki nema 35-40 þingmenn kratanna að leggjast á sveif með minnihlutanum til að allt sé komið í gíslingu hjá Blair með að ná málum í gegn. Enda nú koma þau öll fram í fjölmiðlum, t.d. þau Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra, Frank Dobson fyrrum heilbrigðisráðherra, Clare Short fyrrum þróunarmálaráðherra, og þingmennirnir John Austin og Jeremy Corbyn, og öll eiga þau það sameiginlegt að geta nú minnt á sig og andstöðuna og tala nú bara hreint út. Staða Blairs er orðin mjög veik og á ekki eftir að batna auðvitað.
Blair þegir gagnrýnina af sér en hefur sent nokkra ráðherra út af örkinni til að verja sig. Nægir þar að nefna David Blunkett, sem nú hefur verið endurskipaður í stjórnina. Svo talaði í dag Alastair Campbell einn helsti spunameistari Blair, og sagði að forsætisráðherrann ætlaði sér að sitja út kjörtímabilið. En hvað svo sem segja má um þessa gæðinga Blair sem nú stíga fram til að verja hann, má öllum vera ljóst hversu staða hans hefur breyst. Það sást strax á kosninganótt og staðfestist enn þessa seinustu daga þegar þeir sem eiga harma að hefna gegn Blair snúa aftur fram á sviðið og minna á sig og andstöðu sína og það sem meira er afl sitt í baráttunni. Þau hafa nefnilega núna þann slagkraft sem þeim hefur skort til að höggva í Blair og veikja hann endanlega. Við eigum eftir að sjá svona sundrungu og óánægju koma fram oftar fram í umræðuna en verið hefur og með mun óvægnari hætti. Nú er rætt um það í innsta hring Blair að hann ætli sér að víkja árið 2008. Hann ætli að tilkynna afsögn í júlí það ár, en nýr leiðtogi verði svo kjörinn undir lok ársins. Er talað um að miða valdaskiptin í desember 2008. Varla er það tilviljun, en ef Blair situr enn í embætti þann 26. nóvember 2008 slær hann met Margaret Thatcher. Að því stefnir hann vissulega - en nær hann því? Það ræðst væntanlega brátt.

Mér fannst eiginlega fyndnast að sjá skrif Elínar G. Ólafsdóttur um daginn þar sem hún allt að því nefnir Guð og Ingibjörgu á nafn í sömu andrá. Þessi persónudýrkun eins og sést í herbúðum ISG er með ólíkindum. Þetta kemur skemmtilega fyrir í ljósi þess að vinstrimennirnir hafa sakað okkur í Sjálfstæðisflokknum um óeðlilega persónudýrkun. Væri eflaust vel við hæfi að Samfylkingarfólkið liti í eigin barm áður en þeir saka okkur sjálfstæðismenn framar um persónudýrkun eftir skrif seinustu vikna. Fyndnast af öllu lofinu fannst mér skrif Jóns Björnssonar fyrrum félagsmálastjóra hér á Akureyri og síðar í Reykjavíkurborg. Hann segir svo á vef ISG: "Ég vann með Ingibjörgu Sólrúnu í fimm ár og hef ekki lent í öðru eins. Hún er sprettharðari en hrygna, víðsýnni en haförn og þolnari en hreindýr. Hún hefur mörg hundruð gígabæta minni. Veikleikar hennar eru bæði fáir og ómerkilegir. Svo er hún skynsöm, réttsýn og heiðarleg og tekur örugglega ekki nema í mesta lagi eitt feilspor á ævinni. Hún á að stjórna Samfylkingunni, Íslandi og helst allri Evrópu - ekki spurning." Þvílíkt lof, það er eiginlega svo að eftir lestur þessara skrifa er rétt að hlæja vel og innilega. Það voru allavega mín viðbrögð fyrst við þessu.
Er svo orðið komið að vefur ISG með orðum stuðningsmanna hennar er farið að minna mig á veisluhald þar sem maður situr til borðs með rjómatertusneið sem vellur yfir af rjóma: semsagt fullmikið af hinu góða. Greinilegt er að skjallið og oflofið um ISG eru farin að virka öðruvísi á almenning. Fólk sér að þar er talað um manneskju með svo fögrum hætti að það hvarflar að fólki að glansmyndin sé sett fram til að hylja sprungur og veikleika á öðrum sviðum. Altént er skjallið gríðarlegt og þessi skrif Jóns Björnssonar hafa valdið meiri hlátri meðal almennra stjórnmálaspekúlanta en margt annað sem sagt hefur verið og ritað um þennan slag. Þessi skrif eru bara fyndin, enda eru svo kostuleg að nær öllu leyti. Enda er það svo að of mikið skjall getur endað sem háð eða húmorískur brandari. Eða hvað finnst þér um þessi skrif Jóns, lesandi góður? Eru þau ekki kaldhæðni af bestu sort eða skjall sem minnir mann á grínfarsa sem er svo fyndinn að það er ekki annað hægt en að skella uppúr?

Hætt hefur verið við að afgreiða frumvarp menntamálaráðherra til laga um Ríkisútvarpið fyrir sumarleyfi þingsins. Jafnframt verður hætt við lagasetningu nýrra vatnalaga en hinsvegar verða ný samkeppnislög afgreidd fyrir þinglok í þessari viku. Fagna ég því mjög að ætlunin sé að salta frumvarp um RÚV fram á haustið. Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum þann 20. mars tel ég sem hægrisinnaður einstaklingur þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verður að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að leggja fram frumvarp á sínum vegum sem styrkir enn frekar grundvöll RÚV og það sem það byggir á. Það er full þörf á að stöðva málið og íhuga grunn þess betur og síðast en ekki síst ræða það samhliða lagasetningu um eignarhald fjölmiðla. Þetta tvennt er samtengd að verulegu leyti og á að vinnast saman. Var það auðvitað ólíðandi að RÚV hafi verið undir sérhatti í vinnsluferli málsins. En það er vonandi að menn liggi vel yfir þessum málum í sumar og geri eitthvað róttækt í málum RÚV þá, eitthvað annað en lagt er til í þessu framsóknarglúrna frumvarpi menntamálaráðherrans.

Ég horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Thirteen Days. Það er pólitísk úrvalsmynd eins og þær gerast bestar, byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um þrettán sögulega daga í októbermánuði 1962 er alheimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 náðu Bandaríkín og Sovétríkin ekki samkomulagi sín á milli um það hvernig ætti að ganga frá málefnum heimsins sem var í sárum eftir hið langa og mannskæða stríð. Fór svo að það skall á heiftúðug milliríkjadeila milli þessara stórvelda, hið svokallaða kalda stríð sem helgaðist af því að ríkin gripu ekki til vopna gegn hvoru öðru. Þessi saga gerist eins og fyrr segir í október 1962 en þá var kalda stríðið í hámarki. Bæði Bandaríkin og Sovétríkin höfðu þá vígbúist af kappi og reyndu ákaft að fylgjast með öllu því sem hinn aðilinn gerði. Njósnir urðu sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi ríkjanna og þegar bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu (sem var hertekin af kommúnistanum Fidel Castro árið 1959) ætlar allt um koll að keyra því þeim er beint að Bandaríkjunum, vöggu kapitalismans í heiminum.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, er á báðum áttum um hvað eigi að gera í málinu en ákvörðunin um næstu aðgerðir er hans, enda er forseti Bandaríkjanna einn valdamesti maður heims. Hershöfðingarnir vilja að forsetinn heimili að ráðist verði tafarlaust inn í Kúbu og eyjan verði hertekin með valdi, en það gæti þýtt hörð viðbrögð Sovétmanna og endað í heljarinnar kjarnorkustyrjöld stórveldanna. Ef Kennedy forseti aðhefst ekkert í málinu er hins vegar sá möguleiki vel fyrir hendi að stór hluti þjóðarinnar yrði þurrkaður út á einu augnabliki. Líf milljóna jarðarbúa eru þannig sett á herðar Kennedys Bandaríkjaforseta og fylgjumst við gaumgæfilega með 13 magnþrungnum dögum í lífi John Fitzgerald Kennedy forseta og ráðgjafa hans, sem reyna að komast að þeirri niðurstöðu sem bjargar mannkyninu frá eilífri glötun. Hörkuvel leikin og vönduð úrvalsmynd leikstjórans Roger Donaldson sem segir meistaralega frá þessum magnþrungnu dögum í mannkynssögunni sem voru áhrifamiklir bæði fyrir forsetatíð Kennedys og ekki síst heimsbyggðina alla. Þessa verða allir með snefil af pólitískum áhuga að sjá.

Skemmtiþáttur Gísla Marteins Baldurssonar, Laugardagskvöld, var á dagskrá Sjónvarpsins í síðasta skipti um helgina. Eftir 110 þætti á þriggja ára tímabili var komið að leiðarlokum þáttarins. Hefur Gísli í þáttunum rætt við rúmlega þúsund manns og þangað hafa komið vinsælustu tónlistarmenn landsins og skemmt þjóðinni. Segja má með sanni að þátturinn hafi sameinað þjóðina, en þegar mest var horfðu rúm 70% landsmanna á þáttinn á laugardagskvöldi. Margir hápunktar í ferli þáttanna standa uppúr þegar hann hættir göngu sinni. Persónulega fannst mér besta viðtalið í þeim vera opinskátt viðtal Gísla Marteins við Davíð Oddsson í nóvember, þar sem þeir ræddu um veikindi Davíðs á síðasta ári og breytingar á persónulegum högum hans samhliða forsætisráðherraskiptum nokkrum vikum áður. Það var virkilega gott viðtal. Svo er ofarlega í huga viðtal Gísla Marteins í september við Önnu Pálínu Árnadóttur söngkonu, sem lést örfáum vikum síðar úr krabbameini, langt um aldur fram. Margt fleira mætti nefna af löngum ferli þáttanna sem verið hafa flaggskip Sjónvarpsins. Mun Gísli hafa í hyggju nú að snúa sér að fullu að stjórnmálaþátttöku í borginni, enda kosningar á næsta ári. Vona ég að honum muni ganga vel á nýjum vettvangi.

Í dag var haldin minningarathöfn í Moskvu til að minnast þess að sex áratugir eru liðnir frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar komu saman rúmlega 60 þjóðarleiðtogar og var fulltrúi Íslands við athöfnina Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Að athöfninni lokinni var haldið móttaka í Kreml þar sem hann hitti því flesta af helstu leiðtogum heims. Meðal þeirra voru Vladimir Putin forseti Rússlands, George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, Jacques Chirac forseti Frakklands og Junichiro Koizumi forsætisráðherra Japans. Mun Halldór þar hafa rætt við Bush forseta og kom þar fram að sögn Halldórs að Bush hefði á leið sinni til athafnarinnar flogið yfir Ísland og hann séð vel til landsins. Bush mun hafa tjáð Halldóri ennfremur að hann væri að lesa kanadíska bók um sögu þorsksins, þar sem m.a. er greint frá þorskastríðum Íslendinga og Breta til fjölda ára á 20. öld. Merkilegt það. Hér fyrir ofan er skrautleg mynd frá því er leiðtogarnir hittust á NATÓ fundinum í febrúar.
Saga dagsins
1593 Skjaldarmerki með afhöfðuðum þorsk með kórónu var formlega tekið í notkun - notað til 1903
1855 Friðrik VII Danakonungur gefur út formlega tilskipun sem lögleiðir að fullu prentfrelsi á Íslandi
1955 Vestur Þýskaland gengur formlega í NATÓ - tíu árum eftir endalok síðari heimsstyrjaldarinnar
1974 Sverrir Hermannsson talaði samfellt í rúma fimm tíma á þingi - það met var í gildi allt til 1998
1978 Aldo Moro fv. forsætisráðherra Ítalíu, finnst látinn í sendiferðabíl í Róm - honum hafði verið rænt nokkrum vikum áður af öfgasamtökum vinstrimanna og haldið í gíslingu. Hann var þá 61 árs
Snjallyrðið
Nú næðir vindur og nóttin kemur
og nú er friður í hjarta þér,
þú átt að vita það öðru fremur
að englar Drottins, þeir vaka hér.
Úti vindurinn vex og dvínar,
hann vekur öldur við kalda strönd
og ber um himininn bænir þínar
þær berast áfram um draumalönd.
Á meðan birta í brjósti lifir
þá bið ég Guð minn að vernda þig,
ég bið um ást fyrir allt sem lifir
og englar Drottins, þeir styðja mig.
Í myrkri finnur þú máttinn dofna
á meðan vindur um landið fer.
Þín augu lokast, þú ert að sofna
og englar Drottins, þeir fylgja þér.
Þorvaldur Friðriksson (1923-1996) (Englar Drottins vaki)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2005 | 22:27
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um stöðuna í breskum stjórnmálum eftir sögulegan kosningasigur Verkamannaflokksins á fimmtudag. Segja má að kosningasigurinn hafi komið til þrátt fyrir tilvist Tony Blair en ekki vegna hans eins og í fyrri tveim kosningum. Úrslit kosninganna leiða til breytinga, bæði hvað varðar forystu flokksins og ásýnd hans á næstunni. Með þrengri aðstöðu Blair til að stjórna landinu í ljósi naumari meirihluta í þinginu og þess að vinstrihlið flokksins hafi meiri völd til að setja hann í spennitreyju í erfiðum málum blasir við að vinstrihliðin verði meira áberandi á Verkamannaflokknum næstu árin, seinustu ár Blair á valdastóli. Það er ljóst að sá sem leiðir Verkamannaflokkinn á þessu kjörtímabili verður að vera maður málamiðlana, geta sætt ólík sjónarmið og farið bil beggja í bæði stefnumótun og stjórnmálaforystu. Þessa týpu sjáum við klárlega í fjármálaráðherranum Gordon Brown. Ekki er Blair við fyrstu sýn þessi týpa sem getur haldið af krafti saman um ólíkar hliðar þingflokks sem hefur bæði naumari þingmeirihluta og er margbrotinn. Nú, í fyrsta skipti, í átta ára valdatíð þessa flokks reynir á hvernig hann geti tekist á við innri ólgu.
- í öðru lagi fjalla ég um sérsniðna samgönguáætlun Gunnars Birgissonar alþingismanns, sem hann hefur nú lagt fram á Alþingi. Lítur hún út sem sólóleikur að sunnan í augum okkar úti á landi. Það er mikið umhugsunarefni að maður sem tekur um næstu mánaðarmót við bæjarstjórastarfinu í Kópavogi skuli líta á samkomulag, sem gert var á milli ríkisins og sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð árið 2003, hvorki vera pappírsins virði né skipta máli að neinu leyti. Ég leyfi mér að efast um að hann eigi marga stuðningsmenn í röðum sveitarstjórnarmanna í þessu máli. Hvernig sem ég lít á málið get ég ekki séð annað en að þetta mál allt snerti samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það er algjörlega á hreinu. Ég hef áður lýst yfir andstöðu við hugmyndir Gunnars í þessa átt og hika ekki við, nú þegar tillagan er komin fram og hefur verið kynnt af honum í fjölmiðlum seinustu daga, að ítreka fyrri afstöðu og það af krafti.
- í þriðja lagi fjalla ég um niðurstöður í hugmyndasamkeppninni Akureyri í öndvegi sem voru kynntar við hátíðlega athöfn í gær. Það er mat mitt að íbúaþingið hér á Akureyri, þann 18. september 2004, sem varð upphafspunktur þessa verkefnis, hafi verið mjög þarft og leitt af sér heilsteypt og gott ferli fyrir okkur öll hér í bænum. Marka niðurstöður hugmyndasamkeppninnar farsælan grunn að því að það að skapa draumamiðbæinn sem við viljum fá. Módelið að honum má í raun finna í öllum hugmyndunum sem voru verðlaunaðar. Með því að spinna saman kosti allra tillagnanna erum við komin með draumamódelið okkar að glæsilegum miðbæ.

Eftir að hafa leitt Verkamannaflokkinn til sigurs í bresku þingkosningunum á fimmtudag og tryggt sér forystu í ríkisstjórn landsins þriðja kjörtímabilið í röð fór Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, að morgni föstudags á fund Elísabetar II Englandsdrottningar, og þáði umboð hennar til að mynda ríkisstjórn í landinu. Að fundi þeirra loknum ávarpaði Blair fréttamenn við embættisbústað sinn að Downingstræti 10. Í ræðu sinni við það tilefni sagðist hann hafa hlustað á bresku þjóðina og dregið lærdóm af úrslitum þingkosninganna, sem leiddu til þess að meirihluti flokksins rýrnaði mjög verulega. Sagði hann verkefni framundan markast af mikilvægi þess að bregðast við kröfum bresku þjóðarinnar um áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika, bætt menntakerfi, bætta heilbrigðisþjónustu og aðra opinbera þjónustu. Svaraði hann ekki spurningum fréttamanna en sat fyrir ásamt fjölskyldu sinni við myndatöku fyrir utan embættisbústaðinn, en sama dag fagnaði hann 52 ára afmæli sínu. Síðdegis á föstudag stokkaði hann svo upp stjórn sína. Litlar breytingar eru á meginráðherraskipan en athygli vekur að David Blunkett, sem neyddist til þess að segja af sér embætti innanríkisráðherra í desember í fyrra vegna hneykslismáls, snýr aftur í stjórnina sem atvinnu- og lífeyrismálaráðherra. Þá verður John Reid varnarmálaráðherra í stað Geoff Hoon sem er lækkaður í tign og verður forseti breska þingsins.

Michael Howard boðaði á föstudag afsögn sína sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Sagðist hann vera of gamall til að leiða flokkinn í næstu þingkosningum og telja mikilvægt að fram færi leiðtogakjör fyrr en síðar svo eftirmaður hans geti undirbúið flokkinn fyrir þær kosningar. Sagðist hann myndu sitja í leiðtogastólnum þar til flokkurinn hefur ákveðið hvenær og hvernig nýr leiðtogi verði kjörinn. Nefndi hann þar mikilvægi þess að fyrirkomulag leiðtogavalsins yrði breytt, en það hefur vakið deilur seinustu ár. Að mínu mati hefur Howard staðið sig vel í því verkefni að sameina flokkinn til verka. Hann er eins og ég sagði í umfjöllun minni um kosningarnar á föstudag samhentari nú en lengi og menn eru sameinaðir í að vinna saman sem ein heild. Hinsvegar vantar verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. En þáttur Howard í þessu verkefni að efla flokkinn til framtíðar og verkefna á komandi árum hefur verið ómetanlegt. En það verður annars leiðtoga að leiða ferlið vonandi á sigurbraut í næstu kosningum. Vonandi verða íhaldsmenn heppnir í vali á skipstjóra, þeim eina rétta sem þeir verða að öðlast til að geta öðlast fyrri mátt og styrk.

Í dag eru 60 ár liðin frá því að herir Þjóðverja gáfust formlega upp og þriðja ríkið samdi frið við Bandamenn. Stríðinu í Evrópu var lokið - að baki var sex ára langt stríð sem hafði áhrif á alla heimsbyggðina og markaði sár í líf margra sem aldrei gréru að fullu. Löngum hildarleik var lokið og fögnuður var mikill um allan heim á þessum degi. Íslendingar fögnuðu þessu eins og allir aðrir, enda höfðu landmenn mátt þola nokkrar þrengingar og fjöldi íslenskra sjómanna hafði farist í átökunum árin á undan. Á friðardaginn flutti Sveinn Björnsson forseti Íslands, ávarp frá svölum Alþingishússins. Við sama tilefni, á sama stað, flutti Ólafur Thors forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eftirminnilega ræðu, sem varð ein af minnisstæðustu ræðum stjórnmálaferils hans og er enn í minnum höfð fyrir glæsilega túlkun Ólafs. Í Dómkirkjunni var haldin hátíðarguðþjónusta þar sem Sigurgeir Sigurðsson biskup, (faðir hr. Péturs Sigurgeirssonar, síðar biskups) flutti predikun. Lúðrar skipa voru þeyttir og í gleðivímu slepptu margir fram af sér beislinu, ekki síst breskir sjóliðar sem voru í höfn. Dagsins var því einnig minnst vegna óláta sem brutust út í Reykjavík. Til áfloga kom milli hermanna og bæjarbúa og þurfti lögreglan að grípa í taumana. Um allan heim í dag er þessara tímamóta sem áttu sér stað á þessum degi fyrir sex áratugum minnst og hetjanna sem féllu í valinn í þessum grimmdarlega hildarleik er minnst með virðingu.

Ég fór austur um síðustu helgi. Þá var mér færður að gjöf geisladiskur með lögum eftir móðurbróður minn, Þorvald Friðriksson á Eskifirði. Valdi frændi var alla tíð mjög virkur í félagsmálum á Eskifirði, rétt eins og öll börn hans, og einkum þeim þáttum sem tengdust tónlistinni. 13 ára gamall fór hann að leika á harmonikku og gerði það til æviloka, en hann lést í október 1996. Valdi spilaði mjög oft á dansleikjum víða um Austurland, allt frá Álftafirði til Norðfjarðar. Hann var alltaf tilbúinn að leggja lið og draga fram nikkuna þegar á þurfti að halda, hvort sem var á böllum eða við önnur tækifæri. Valdi var einnig góður söngmaður, hann samdi fjölmörg lög, bæði dans- og sönglög. Öll eiga lögin það sameiginlegt að hitta beint í hjartastað. Var við útför hans frumflutt síðasta lagið sem hann gerði, Englar drottins vaki. Var mjög mikilvægt að gefa út diskinn til að skemmta fólki með góðum lögum Valda og til að varðveita þau. Frændi minn, Ellert Borgar Þorvaldsson skólastjóri í Reykjavík og sonur Valda, syngur öll lögin á disknum. Diskurinn er þó fyrst og fremst gefinn út til að minnast heiðursmannsins Valda á Eskifirði. Það er við hæfi að hans sé minnst með því að tryggja að falleg lög hans verði ávallt aðgengileg.
Saga dagsins
1860 Kötlugos hófst af krafti - næst gaus 58 árum síðar, árið 1918. Ekki hefur gosið frá þeim tíma
1894 Eimskipið Á. Ásgeirsson kom til landsins - varð fyrsta vélknúna skipið er var í eigu Íslendinga
1945 Sex ára langri heimsstyrjöld lýkur - friði var fagnað mjög um allan heim með alheimsfriðardegi
1978 David Berkowitz játar að hafa myrt sex manns í New York sumarið 1977 - meðan að hann lék lausum hala gekk hann undir nafninu Son of Sam. Var hann síðar dæmdur í sexfalt lífstíðarfangelsi
1984 Sovétríkin tilkynnir að það muni ekki taka þátt í Ólympíuleikum í Los Angeles í Bandaríkjunum
Snjallyrðið
Frá því sögur hófust hefur ekki nokkur fregn fært jafnmörgum mönnum í senn jafnmikla gleði sem þessi fagnarboðskapur er í einni svipan hefur flogið um allar byggðir víðrar veraldar. Friður í Evrópu! Ekkert nema friður á jörðu var mikilvægara.
Ólafur Thors forsætisráðherra (1892-1964) - ræða á friðardeginum 1945
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)