23.5.2006 | 17:12
Afdráttarlaus yfirlýsing Kristjáns Þórs

Í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi spurði stjórnandi þáttarins Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra ítrekað hvort hann ætlaði að gegna starfi bæjarstjóra á Akureyri næstu fjögur árin, ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi stuðning kjósenda til að ráða því hver gegndi því embætti. Hann svaraði því afdráttarlaust játandi og sagði m.a.: "Ef ég verð bæjarstjóri á Akureyri þá verð ég ekki á þingi. Hvað er svona flókið við þetta?" Og ennfremur: "Nei, ég er ekki að hugsa um þingið. Ég er að stefna á það að vera bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, punktur."
Svo mörg voru þau orð og enginn þarf að velkjast í vafa eftir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu bæjarstjórans. Hér á eftir fer orðrétt útskrift úr þessum hluta Kastljóssins frá því í gærkvöld.
Eyrún þáttastjórnandi:
"Kristján ég ætla að byrja á þér og viðbrögðum við þessari könnun en samkvæmt henni þá er meirihlutinn fallinn. Eru þetta ekki skýr skilaboð frá Akureyringum að þeir vilji breytingar?"
Kristján Þór Júlíusson:
"Það er nokkuð ljóst að ef þetta gengur eftir þá er í spilunum nýr meirihluti og þá væntanlega nýr meirihluti til vinstri eins og kom fram hjá G. Pétri hér áðan sem samanstendur þá væntanlega af Samfylkingu, Vinstri grænum og þá Lista fólksins. Þetta eru mjög afdráttarlausar niðurstöður ef þetta gengur eftir."
Eyrún þáttastjórnandi:
"Það er eitt mál sem hefur verið mikið til umræðu og það ert þú, bæjarstjóri. Þú ert með miklu meira fylgi heldur en flokkurinn, það eru 45% Akureyringa sem vilja þig sem bæjarstjóra en Sjálfstæðisflokkurinn er með 30% fylgi. Nú veit ég ekki hver skýringin á þessu er en eitt af því sem verið hefur til umræðu er líka það að þú sért að fara að setjast á þing og sért því ekki í þessari kosningabaráttu af heilum hug. Ætlar þú þér að setjast á þing?"
Kristján Þór Júlíusson:
"Ég hef heyrt þessa umræðu sem hefur mikið komið frá fjölmiðlamönnum sem hafa verið að velta sér upp á þessu og haldið úti þáttum um þetta. Það er nú margt sem þeim hefur tekist að afreka, búa til fuglaflensu og tölvuvandann árið 2000 og svo framvegis. Það er ekkert hæft í þessu. Ég hef sagt það allan tímann að ég sé að fara í bæjarstjórnarkosningar. Það er alveg ljóst miðað við þessa könnun að þá erum við að takast á við það að Sjálfstæðismenn og þeir sem vilja sjá mig sem bæjarstjóra á Akureyri ætli að styðja Sjálfstæðismenn í kosningunum á laugardaginn og það eru alveg hreinar línur á því að ef Akureyringar sýna það með afgerandi hætti, að þeir vilji mig sem bæjarstjóra á Akureyri, þá kjósa þeir Sjálfstæðisflokkinn og að sjálfsögðu ætla ég ekki að bregðast því trausti fremur en ég hef gert síðastliðin átta ár."
Eyrún þáttastjórnandi:
"En er útilokað, svo við fáum þetta á hreint, að þú ætlir að taka sæti á Alþingi?"
Kristján Þór Júlíusson:
"Ef það gengur eftir að ég verð bæjarstjóri á Akureyri eftir kosningar, eins og ég hef margsagt að ég ætli að gera og Akureyringar styðji mig til þess verks, þá hef ég aldrei skorast undan því verki að vinna mína vinnu fyrir Akureyringa alla og ég vona svo sannarlega að það gangi eftir."
Eyrún þáttastjórnandi:
"En þú svarar ekki spurningunni."
Kristján Þór Júlíusson:
"Ef ég verð bæjarstjóri á Akureyri þá verð ég ekki á þingi. Hvað er svona flókið við þetta?"
Eyrún þáttastjórnandi:
"En nú lítur út fyrir að meirihlutinn sé að falla, ef þú verður ekki bæjarstjóri ætlar þú þá að bjóða þig fram í Alþingiskosningum?"
Kristján Þór Júlíusson:
"Ef ég verð ekki bæjarstjóri. Meginverkefni okkar Sjálfstæðismanna er að koma okkar áherslum inn í bæjarstjórn Akureyrar og fá að leiða þetta ágæta sveitarfélag áfram undir okkar forustu og ég stefni á og vil verða bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, það er einfalt mál."
Eyrún þáttastjórnandi:
"Svo þú ert ekkert að hugsa um þingkosningar."
Kristján Þór Júlíusson:
"Nei, ég er ekki að hugsa um þingið. Ég er að stefna á það að vera bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, punktur."
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2006 | 23:42
Skýrir valkostir í kosningunum á Akureyri

Í dag birti Gallup nýja könnun sína á fylgi framboðanna sex á Akureyri við sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag. Sjálfstæðisflokkurinn fær 30% og þrjá bæjarfulltrúa samkvæmt henni. Flokkurinn fékk fjóra fulltrúa í kosningunum árið 2002, um 36% atkvæða. Langflestir nefna Kristján Þór Júlíusson þegar spurt er hvern menn vilja sjá sem næsta bæjarstjóra á Akureyri, eða 45%. Framsóknarflokkurinn fær í könnuninni 15% og 2 bæjarfulltrúa en fékk 24% og 3 menn í síðustu kosningum. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 24% en flokkurinn fékk 14% í síðustu kosningum. Samkvæmt þessu fær flokkurinn 3 bæjarfulltrúa og bætir við sig tveim. Fylgi VG mælist nú 18% og tvöfaldast frá kosningunum og flokkurinn fær 2 bæjarfulltrúa samkvæmt þessu - bætir við sig einum. L-listinn fær 9% samkvæmt könnuninni og 1 bæjarfulltrúa en fékk 18% og 2 menn í kosningunum. Framfylkingarflokkurinn fær 4,2% samkvæmt könnuninni.
Þessi skoðanakönnun er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri - það er alveg ljóst að verði hún að veruleika munu stjórnarskipti blasa við hér. Hún hvetur okkur sjálfstæðismenn til að snúa bökum saman og vinna saman af krafti dagana fram til kjördags. Valkostirnir virðast vera skýrir: farsæl forysta Kristjáns Þórs í tveggja flokka samstarfi eða þriggja flokka vinstristjórn. Verði þessi könnun að veruleika blasir að mínu mati ekkert nema vinstristjórn við. Ég hvet bæjarbúa til að koma í veg fyrir vinstristjórn með atkvæði sínu á laugardag og kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Með því er tryggt að Kristján Þór verði áfram bæjarstjóri til næstu fjögurra ára. Kristján Þór gaf skýra yfirlýsingu í Kastljósi í kvöld að hugur hans stefndi á bæjarmálin og var sú yfirlýsing svo skýr að allt þingframboðstal ætti að vera úr sögunni fyrir andstæðinga okkar sem hafa dreift þeim kjaftasögum að hann sé að fara og Sigrún Björk sé á leið til útlanda.
En staðan virðist mjög skýr og valkostirnir eru ennþá skýrari. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn á laugardag og komum í veg fyrir vinstristjórn á Akureyri. Það er ljóst að bæjarbúar vilja Kristján Þór áfram sem bæjarstjóra. Eina leiðin til að tryggja það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir hans forystu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2006 | 14:17
Stefnir í spennandi kosningar í Reykjavík

Fimm dagar eru til kosninga og spennan eykst sífellt nú á lokaspretti kosningabaráttunnar. Fram til kosninga mun RÚV birta á hverjum degi kannanir frá Gallup á stöðu mála í Reykjavík. Skv. könnun sem birt var í gær hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur hreinan meirihluta en er við þau mörk með rétt um 44% fylgi. Það sannast þar hið fornkveðna að flokkurinn getur unnið kosningarnar með undir 45% fylgi með hagstæðri skiptingu fylgis smáframboðanna. Falli stór hluti atkvæða niður dauð getur sigur flokksins orðið ljós með minna fylgi en áður hefur þekkst. Í könnun gærdagsins vantar flokknum herslumuninn á að vinna og stefnir í spennandi kosningar verði staðan eitthvað í takt við þetta. Mikla athygli vekur að Framsóknarflokkurinn er enn í mikilli lægð og hefur ekkert bætt við sig. Staða þeirra er nákvæmlega sú sama og var í Fréttablaðskönnuninni á föstudag og olli undarlegum ummælum Björns Inga Hrafnssonar um stjórnarsamstarfið.
Það er greinilegt á báðum nýjustu könnunum að Frjálslyndi flokkurinn hefur bætt við sig fylgi og mælist nú með Ólaf F. Magnússon öruggan inni. Fari kosningar svona mun Ólafur F. verða í oddastöðu við myndun nýs meirihluta. Það er ekki gott að sjá hver sé ástæðan fyrir fylgisaukningu frjálslyndra, enda hefur flokkurinn ekkert verið að skora með neinum stórmálum á kjörtímabilinu. Það er alveg ljóst að innkoma Guðrúnar Ásmunsdóttur leikkonu, hefur skipt miklu máli fyrir flokkinn við að ná betur til eldri borgara, enda er Guðrún vinsæl og virt leikkona. Flokkurinn hefur reynt mjög að sækja á mið þess að vera velferðarmálaflokkur og festa sig ekki um of á kvótamálin. Ólafur F. talar með þeim hætti nú að baráttan standi um að tryggja Margréti Sverrisdóttur kjör í borgarstjórn. Það verður nú að teljast ólíklegt að baráttan standi um hana. Ég tel mjög ólíklegt að Frjálslyndir haldi þessum dampi til kjördags.
Samfylkingin hækkar sig örlítið. Mikla athygli vekur að Samfylkingin mælist með sex menn inni á rétt rúmlega 30% fylgi. Það verður því að teljast afskaplega ólíklegt að staðan sé með þessum hætti. Þegar að ég leit á tölurnar fannst mér óraunhæft að sjötti maðurinn væri þeirra. Mun líklegra er að áttundi maður Sjálfstæðisflokksins komist inn í þessari stöðu. Vekur athygli allavega að Gallup merki Sigrúnu Elsu frekar inni en Sif Sigfúsdóttur. Mjög merkilegt er hversu lítið VG bætir við sig. Virðist flokkurinn ekkert vera að hagnast á því að hafa konu sem leiðtoga framboðslistans. Er þó ljóst að Svandís Svavarsdóttir þykir hafa staðið sig vel en neista vanti í framboðið sem slíkt. Eru greinilegar raddir innan Samfylkingar sem heyrast nú um að það hefði verið betra fyrir flokkinn að tefla fram Steinunni Valdísi en Degi. Steinunn hefði í stöðunni verið öflugra borgarstjóraefni enda þykir mörgum sem að Dagur sé mistækur.
Framsóknarflokkurinn í Reykjavík á í miklum vandræðum. Flokkurinn mjakast ekkert áfram þrátt fyrir þrótt og kraft í leiðtoganum sem hefur verið duglegur að tjá sig um málefnin í baráttunni. Verði úrslit kosninganna á laugardag eitthvað í líkingu við þetta mun verulega hrikta í stoðum Framsóknarflokksins - ekki bara í borginni heldur á landsvísu enda er svipuð staða að kristallast um allt land eins og vel hefur komið fram. Það sem vekur mesta athygli mína er hvernig Björn Ingi talar þessa dagana. Hann virðist vera kominn á taugina vegna stöðunnar. Ekki er það undrunarefni. Mér, rétt eins og flestum, leikur forvitni á að vita hvað gerist innan innsta kjarna flokksins verði þessi úrslit að veruleika.
Afhroð flokksins um allt land getur enda varla skrifast á aðra en formann flokksins og lykilmenn hans, þ.m.t. leiðtogann í Reykjavík sem er hægri hönd hans í Stjórnarráðinu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2006 | 18:31
Málverkasýning Helga Vilberg

Um helgina lauk málverkasýningu félaga míns, Helga Vilberg, í Galleríi Jónasar Viðars í Listagilinu. Hún hefur staðið í hálfan mánuð og hófst laugardaginn 6. maí. Þar sýndi hann tíu ný málverk sín. Helgi hefur ekki um nokkuð skeið haldið málverkasýningu á eigin vegum. Hann hefur í þrjá áratugi verið áberandi sem skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri og mjög sýnilegur í listalífinu hér í bæ. Þessi málverkasýning hans er lifandi og fersk - þar eru falleg málverk sem vekja athygli fyrir fallegt listbragð.
Helgi og ég höfum þekkst um nokkurt skeið og unnið saman í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hér í bæ. Var mjög ánægjulegt að fara til hans á sýninguna og sjá þessi nýju verk hans. Helgi fékk mjög góðan dóm á verk sín í listagagnrýni í Morgunblaðinu á föstudag og var ánægjulegt að sjá þar jákvæð og góð ummæli um sýninguna. Ég óska Helga innilega til hamingju með velheppnaða sýningu - vonandi verður stutt í að við fáum aftur glæsilega málverkasýningu hjá honum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2006 | 15:48
Rebel Without a Cause

Í gær keypti ég mér hálfrar aldar afmælisútgáfu kvikmyndarinnar Rebel Without a Cause. Hún er í vönduðum DVD-pakka. Tveir diskar - annar með kvikmyndinni og hinn með vönduðu aukaefni um leikarana og gerð myndarinnar. Ég horfði á þennan disk í morgun og naut þessa góða efnis. Að mínu mati er Rebel Without a Cause besta kvikmynd leikarans James Dean. Hún varð sú mynd sem mest er kennd við hann og ber hæst merki hans. Eins og flestir vita lést Dean örfáum mánuðum eftir að hann lék í myndinni. Hann lést 30. september 1955 í bílslysi, aðeins 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: auk þessarar í East of Eden og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða.
Í Rebel Without a Cause lék Dean uppreisnarsinnann - sú táknmynd festi hann í sessi um ókomin ár og enn í dag hugsa flestir til Dean sem hinnar sönnu ímyndar hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns - unglingsins sem leggur til atlögu gegn eldri kynslóðunum sem honum finnst traðka á sér. Í þessari mynd lék Dean á móti Natalie Wood, einni þokkafyllstu leikkonu þessa tíma. Margar sögur gengu um samband þeirra við gerð myndarinnar. Sambandið á milli þeirra í gegnum myndina er rauði þráðurinn í sögunni. Ég hafði ekki séð þessa mynd um nokkurt skeið er ég keypti hana. Tók ég hana upp er Stöð 2 var með Dean-þema árið 1995 á þeim tíma er fjörutíu ár voru liðin frá dauða hans - en ekki horft á hana um nokkurt skeið. Þá voru allar þrjár myndirnar sýndar og veglegur heimildarþáttur um ævi hans.
Það var áhugavert að sjá þessa mynd - merkilegast finnst mér hversu vel hún hefur elst. Það má reyndar segja um allar þrjár myndir James Dean að þær eru miklar stórmyndir og algjörlega ógleymanlegar. Giant og East of Eden eru sannkallaðar eðalmyndir og ekki er þessi síðri. Merkilegast finnst mér að sjá hversu öll umgjörðin í Rebel without a Cause hefur staðist tímans tönn. Að mörgu leyti gæti hún alveg gerst í dag. Það er því svo sannarlega tilefni til að hvetja kvikmyndaunnendur til að rifja upp kvikmyndir James Dean. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara - þær höfða allavega allar til mín. Að mörgu leyti hitti hann í mark bæði sem kvikmyndakarakter í þessum þrem myndum og sem persóna. Sorglegur dauði hans spilar vissulega stóran þátt inn í arfleifð hans sem leikara.
Rebel Without a Cause er ein af stórmyndunum sem vert er að hvetja allar kynslóðir nútímans til að sjá. Hún ætti að höfða til flestra. Allavega féll ég aftur fyrir henni er ég sá hana um helgina og sérstaklega var ánægjulegt að sjá allt vandaða aukaefnið sem með fylgir. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hafi endilega samband bara og ég læt ykkur fá hana. Þetta er mynd sem passar alltaf vel við.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2006 | 12:27
Glæsilegur sigur Finna í Eurovision

Finnar komu, sáu og sigruðu í Eurovision 2006. Sigur Finnanna í Lordi var verðskuldaður og var vel fagnað á Grænugötunni í gærkvöldi í góðu Eurovision-partýi sem ég var í hjá Hönnu systur. Þar vorum við öll og horfðum á keppnina saman. Ég hélt með Finnum alla keppnina og vildi sigur þeirra - lagið þeirra var einfaldlega langbest og flottast. Einfalt mál. Hanna hélt með Carolu rétt eins og fyrir 15 árum þegar að hún vann með laginu Fangad av en Stormvind. Mér finnst lítið breytt síðan þá - hún var enn með vindinn í fangið og sömu danstaktana og árið 1991 þegar að hún sigraði Nínu okkar. En Carola er alltaf flott og lagið hennar er fínt - en ekki sigurlag þetta árið þó. Stelpurnar héldu svo allar með Rússunum og honum Diman Bilan sem var með fjári gott lag og söng sig inn í annað sætið með glæsibrag og liðugum töktum. Pabbi hélt með ballöðuíranum - hversvegna veit ég ekki. Held að hann hafi ekki þorað að viðurkenna að Finnarnir væru flottastir. :)
Sigur Finna er sögulegur - svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eftir 45 ára dapurlega göngu í keppninni og rýran hlut var komið að sigurstund Finnlands. Landið hafði aldrei áður komist efst í keppninni í stigatalningu og auðvitað aldrei komist inn á topp fimm í keppninni. Það er svo auðvitað mikil tíðindi að harðkjarnarokk sigri Eurovision. Allir sem hlusta á Lordi og lagið Hard Rock Hallelujah finna taktinn og stuðið - þetta er ekta þungarokk og afturhvarf til gullaldaráranna í harða rokkinu. Fyrir keppnina töldu Finnar Lordi vera þeim til skammar og talað var um að hann yrði að stöðva í því að fara til Aþenu. Nú hefur Lordi fært Finnum gullinn sigur í Eurovision og verður án efa hylltur sem sigurhetja þegar að hann kemur heim. Sigur Finna var ótrúlega glæsilegur. Þeir hlutu 292 stig og leiddu mest alla talninguna. Fjörutíu stigum á eftir komu Rússar, neðar voru Bosnía-Herzegóvína, Rúmenía og Svíþjóð.
Það var auðvitað alveg kostulegt að Litháenarnir í LT United skyldu verða í sjötta sæti með lagið We are the Winners. Lagið var skemmtilega kómískt og gaman af því og árangur þeirra mjög óvæntur. Lordi fékk 100 stigum meira en Carola. Það kemur mjög óvænt. Ég taldi fyrirfram að Carola myndi aldrei enda neðar en í þriðja. Það er spurning hvort að Carola hafi haldið of sigurviss til Grikklands. Annars var útsendingin í gærkvöldi mjög skemmtileg og Grikkirnir stóðu sig vel varðandi alla tæknihlið. Sigmar Guðmundsson stóð sig vel sem kynnir keppninnar og fetaði í fótspor Gísla Marteins Baldurssonar. Það getur enginn gert þetta eins vel og Gísli - sem kynnti keppnina með glans í mörg ár og hafði markað sér sess sem slíkur. Sigmar var með netta og flotta brandara og hafði greinilega búið sig vel upp af gamanmáli áður en haldið var af stað í útsendingu.
Eftir er þá sagan af Silvíu Nótt. Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna hroka og yfirlætis sem engin innistæða var fyrir. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri. Það er einsdæmi að púað sé á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt. Það er engin furða að þetta fór svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu. Ég varð hissa í fyrra þegar að Selma komst óverðskuldað ekki áfram en nú var ég ekki til hissa. Silvía Nótt eyðilagði fyrir sér þá daga sem hún dvaldi í Aþenu fyrir keppnina með framkomu sinni.
En Finnar tóku þetta með glans og þeir áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Það verður fjör í Helsinki að ári þegar að keppnin verður haldin þar í fyrsta skipti.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2006 | 17:28
Notaleg laugardagsstemmning í Kaupangi

Það er vika til kosninga og nóg um að vera. Mesti hiti og þungi kosningabaráttunnar er nú í gangi og mikið um að vera hjá okkur sem erum á fullu í kosningastarfinu. Það var létt og notaleg stemmning hjá okkur í Kaupangi í hádeginu. Þá komu yfir 100 manns til okkar í hádegismat og þáðu heimilislegan og góðan mat, grjónagraut og slátur. Oktavía, Anna Þóra, Helga, Íris Dröfn, Sigrún Óla og Magga Kristins voru á fullu í eldhúsinu og töfruðu fram þessar frábæru kræsingar. Það komu mun fleiri en við áttum von á og það var því öflug og heimilisleg stemmnign hjá okkur yfir grautnum. Það er fátt betra í hádeginu á laugardegi en að fá sér heimilislegan og þjóðlegan mat og þetta gefur okkur kraft til að halda inn í seinustu dagana. Það var mikið rætt um pólitík í hádeginu í dag.
Vinkona mín, María Marinós, tók þessa mynd af mér í Kaupangi eitt kvöldið rétt fyrir helgi en þá voru miklar annir. Birti þessa mynd bara því hún kannski sýnir umfram allt að það er allt á fullu og maður er að verða nokkuð þreytulegur. En þessi vinna er umfram allt skemmtileg og gefandi - mikil tengsl við gott fólk og skemmtilegt spjall um pólitík er meginlínan og af því er alltaf gaman. Gott laugardagshádegi var okkur gott veganesti inn í lokadagana og við munum vinna þessar kosningar sameinuð - XD ÁFRAM!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2006 | 23:17
Björn Ingi og Framsókn að fara á taugum

Nú þegar að átta dagar eru til sveitarstjórnarkosninga hefur loksins birst ný könnun á stöðunni í borginni. 20 dagar eru liðnir frá því að síðast birtist könnun þar en nú hefur Fréttablaðið birt nýja. Megintíðindi hennar eru að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæp 50% og átta menn inni. Samfylkingin dalar á milli kannana og mælist með tæp 30% - vekur athygli að flokkurinn fari undir 30% múrinn fræga sem þeir hafa oft miðað við sem sálfræðilega vont að fara undir. VG mælist með tæp 10%, Frjálslyndir eru með 7,9% og Framsókn mælist með tæp 4%. Skv. þessu hlyti Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta, eins og fyrr segir. Samfylking hlyti 5 borgarfulltrúa og VG og Frjálslyndir 1. Mikla athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn mælist í fyrsta skipti í skoðanakönnun með borgarfulltrúa, en þeir höfðu t.d. aldrei fulltrúa inni í könnunum fyrir kosningarnar 2002.
Það er ánægjulegt að sjá sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins - vonandi mun flokkurinn vinna góðan sigur eftir viku. Þetta er hvatning fyrir flokksmenn í borginni að sækja góðan sigur. Það sem vekur mesta athygli mína er auðvitað það að Samfylkingin er með fimmta mann sinn mjög veikan inni og hlýtur þessi staða að vera þeim mikið áhyggjuefni. Það er gott að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er með tæp 50% og nokkuð örugga átta menn. Allavega er Samfylkingin með sinn seinasta mann mun tæpari en áttunda mann okkar. Merkilegt að sjá að Framsóknarflokkurinn er virkilega að syngja sitt síðasta í borginni og hefur engu marktæku bætt við sig. Ég er farinn að trúa því og treysta að Framsókn þurrkist út þar. Slíkt mun aðeins styrkja Sjálfstæðisflokkinn í þessari stöðu eins og allir sjá. VG virðist ekki vera í þeim krafti sem margir töldu að yrði og merkilegt er að sjá Ólaf F. inni þarna.
Í kvöldfréttum NFS var rætt við Björn Inga Hrafnsson. Nú þegar að átta dagar eru til kosninga virðist mjög fjarlægur möguleiki á því að hann nái kjöri í borgarstjórn. Hann hefur aldrei í kosningabaráttunni mælst með nægt fylgi til að ná inn og virðast vonir hans um kjör í borgarstjórn vera að hverfa. Það sást enda vel á honum í viðtalinu í kvöld að flokkurinn er að fara á taugum í borginni - skal það engan undra. Sagði hann þar að verði niðurstaða mála með þessum hætti muni það hafa alvarleg áhrif á ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þeir vilji ekki taka á sig óvinsældir einir, er haft eftir honum í þessu viðtalinu. Þóttu mér þetta merkileg orð og til vitnis um það að framsóknarmenn eru dauðhræddir um sögulegt tap, ekki bara í höfuðborginni heldur um allt land. Það verða altént mjög söguleg tíðindi ef Framsókn á engan fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og missir öll völd sín þar.
Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík og forystumaður hans eru að fara á taugum nú þegar stefnir í valdaskipti í borginni og hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt, enda er flokkurinn við það að missa þann mikla og allt að því öfluga valdasess sem vinstriflokkarnir tryggðu honum til fjölda ára, enda sat Alfreð Þorsteinsson í öndvegi í OR og lykilnefndum, t.d. borgarráði, í yfir áratug í skjóli þeirra. Nú eru þeir dagar liðnir og dugar þeim ekki að kaupa atkvæðin með flenniauglýsingum. Þetta er auðvitað erfið staða fyrir þau og ekki virðist fortíð Alfreðs ætla að hjálpa þeim heldur í þessari baráttu. Það má velta því fyrir sér hvernig ástand verði í Framsóknarflokknum fari þar allt á versta veg eftir viku. Munu óbreyttir flokksmenn telja afhroð, ef af yrði, vænlegt til að bera inn í þingkosningar? Hvert myndu þeir leita eftir skýringum?
Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn á við mikinn innanhússvanda að stríða og þar eru margir ósáttir undir pólitískri leiðsögn Halldórs Ásgrímssonar, sem leitt hefur flokkinn í tólf ár. Fannst mér merkilegt að Björn Ingi talar um að Framsókn geti ekki sætt sig við að sjálfstæðismenn séu að vinna gegn flokknum og tala gegn honum. Finnst mér að hann ætti að tala varlega. Í síðustu þingkosningum töluðu margir framsóknarmenn með stjórnarandstöðubrag gegn Sjálfstæðisflokknum. Hæst bar þetta að mínu mati einmitt hér í Norðausturkjördæmi þar sem að ungliðarnir Dagný og Birkir Jón notuðu öll möguleg sóknarfæri til að ráðast að Tómasi Inga Olrich þáv. menntamálaráðherra, vegna ýmissa mála. Það fór ekki framhjá neinum t.d. á kosningafundum hér í kjördæminu þá að hart var sótt gegn okkur sjálfstæðismönnum og ekkert síður af framsóknarmönnum en öðrum andstæðingum okkar.
Framsóknarflokkurinn er hver annar andstæðingur okkar í pólitískri baráttu þessara lokavikna kosningabaráttu. Í kosningabaráttu er hver flokkur að berjast fyrir styrkleika sínum - flokkar ganga óbundnir til kosninga og sækjast eftir umboði á eigin vegum. Ég veit ekki af hverju við ættum eitthvað sérstaklega að verja Framsóknarflokkinn og bera hann um á himinskautum þessa daga en aðra. Það er alveg ljóst að kjósendur eru um allt land að fella dóm yfir Framsóknarflokknum og hann á við erfiða stöðu að glíma. Ég tel að Björn Ingi ætti að hugleiða það hvort að vandi flokksins sé innbyrðis en ekki búinn til af öðrum. Það eru allavega margir öflugir sveitarstjórnarmenn innan flokksins um land allt sem horfa til forystunnar með að finna sökudólg þessa vanda flokksins.
Það má líka velta því fyrir sér hvað gerist í flokknum verði þessi úrslit að veruleika. Verður byltingarástand innan flokksins áberandi eftir þessi mögulegu úrslit? Við höfum séð stöðuna í breska Verkamannaflokknum og hljótum að hugleiða hvort að Framsóknarflokkurinn og leiðtogi hans þurfi að fara í gegnum slíka innbyrðis krísu í skugga pólitísks áfalls.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2006 | 21:54
15 ára fermingarafmæli

Í dag eru 15 ár liðin frá fermingu minni í Dalvíkurkirkju. Það var sr. Jón Helgi Þórarinsson núv. prestur í Langholtskirkju, sem fermdi. Ég á mjög góðar minningar um þennan dag. Það var mikil veðurblíða og á heimili okkar, sem þá var á Dalvík, var fjölmenn og mjög eftirminnileg fermingarveisla. Veislan var sérstaklega eftirminnileg vegna þess að Hanna systir var þá kasólétt að tvíburunum sínum en var samt sem áður á fullu í verkunum í undirbúningnum og að skipuleggja veisluna. Ellefu dögum eftir veisluna fæddi hún þær Andreu og Berglind - það er því stutt í fimmtán ára afmæli stelpnanna og því verður fagnað með flottum hætti.
19. maí 1991 var að mörgu leyti minn dagur og mér líkaði vel sú athygli. Ég horfði á fermingarmyndina mína inni í stofu rétt áðan og hugsaði til baka til dagsins. Mörgum finnst fermingarmyndin sín hörmung er frá líður. Ólíkt flestum finnst mér fermingarmyndin af mér flott og er stoltur af því að hafa valið mér sígild fermingarföt og vera sígildur í tískunni - myndin er því mjög klassísk af mér. Fór ég yfir myndirnar úr veislunni áðan og var ánægjulegt að sjá þar góðar myndir af ættingjum og vinum sem hafa kvatt þennan heim. Þetta var alveg frábær dagur.
Planað er fermingarmót okkar sem fermdust þennan dag í júní og verður gaman að hitta félaga sem maður hefur ekki hitt suma hverja til fjölda ára og aðra sem maður er í góðum tengslum við enn í dag. Það verður fjör á Dalvík um miðjan júnímánuð og vonandi líflegur hittingur hjá 77 árgangnum hressilega. :D
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2006 | 10:53
Auglýsingar og stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins

Auglýsingar okkar sjálfstæðismanna á Akureyri hafa nú farið í loftið og verða sýndar víðsvegar þá rúmu viku sem er til sveitarstjórnarkosninga. Þær eru ferskar, líflegar og segja sína sögu um þá öflugu uppbyggingu sem við höfum leitt hér seinustu átta árin. Hvet alla til að horfa á auglýsingarnar okkar.
Auglýsing 1
Auglýsing 2
Auglýsing 3
Vil einnig hvetja alla til að koma til okkar í kaffi og gott spjall seinustu dagana. Hittumst öll og vinnum saman að góðum kosningasigri eftir viku. Það er alltaf gaman að koma til okkar í heitt kaffi og gott brauð og rabba um pólitíkina samhliða því.
Stefnuskrá flokksins hefur nú verið borin inn á öll heimili í bænum og hana hvet ég alla til að lesa. Þar er metnaðarfull og kraftmikil stefna fyrir bæjarbúa fyrir næstu fjögur árin. Við höfum sýnt það og sannað að við stöndum við okkar kosningaloforð og t.d. hefur stefnuskráin úr kosningunum 2002 verið efnd að nær öllu leyti. Við stöndum alltaf við okkar loforð og þekkjumst á verkunum! Endilega lestu stefnuskrána. :D

Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2006 | 23:53
Eurovision-partý hjá ungliðunum

Það eru aðeins níu dagar til kosninga og mikið fjör í kosningabaráttunni hér á Akureyri. Við erum allan daginn á fullu á kosningaskrifstofunni og mikið af fólki sem lítur í kaffispjall og heimsókn yfir daginn. Það er alveg virkilega gaman að vera á fullu í þessu starfi og eiga samleið með öllum þessa fjölda fólks sem vinnur af krafti í þágu Sjálfstæðisflokksins. Í kvöld settumst við svo saman niður ungliðarnir og horfðum saman á Eurovision á breiðtjaldi á kosningaskrifstofunni. Það var rífandi stemmning í kosningamiðstöðinni í Kaupangi yfir útsendingunni - í það minnsta þar til úrslit voru tilkynnt! Við horfðum á af áhuga og fengum okkur pizzu og létta drykki.
Á myndinni erum við Raggi, Gunnar og Baldur að fylgjast með útsendingunni og er ég greinilega að segja frá einhverju skemmtilegu meðan að ég gæði mér á pizzusneið. Þetta var skemmtilegt kvöld. Niðurstaðan er þó sú að Silvía Nótt er úr leik og á heimleið - verður ekki með á úrslitakvöldinu á laugardag. Eitthvað þyngdist brúnin á sumum þegar úrslitin lágu fyrir og ljóst að Ísland væri úr leik. Gleðin varð þess þá meiri með það að hinir finnsku þungarokksfélagar okkar í Lordi komust áfram af glans. Sátum við yfir útsendingunni allt til enda og áttum góða stund saman. Takk fyrir góða kvöldstund. :)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 22:56
Sjálfstæðismenn horfa á boltann í Nýja bíó

Við sjálfstæðismenn hér á Akureyri buðum öllum knattspyrnuáhugamönnum seinnipartinn í dag í Nýja bíó til að fylgjast með beinni útsendingu frá úrslitaleik meistaradeildarinnar í fótbolta þar sem áttust við Arsenal og Barcelona í hressilegum leik í París. Útsendingin hófst klukkan 18:00 á Sky Sports og voru þá þegar margir mættir og miklar og skemmtilegar umræður í salnum um fótbolta meðan biðin stóð eftir leiknum. Hann hófst kl. 18:45 af miklum krafti. Strax á átjándu mínútu var Lehmann markverði Arsenal vikið af velli á 18. mínútu. Sol Campbell kom Arsenal yfir á 37. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá Thierry Henry og Arsenal hafði yfir í hálfleiknum.
Börsungar voru undir lengstan hluta seinni hálfleiks en tókst að taka völdin í leiknum undir lokin. Á 76. mínútu jafnaði Samuel Eto'o metin fyrir Barcelona og Juliano Belletti skoraði annað mark Barcelona á 81. mínútu. Eftir það var sem allur vindur færi úr Arsenal og niðurstaðan varð í leikslok sigur Börsunga 2-1. Barcelona er því Evrópumeistari í fótbolta árið 2006. Var mikil gleði í Nýja bíó með úrslitin en við sem studdum Börsunga vorum eilítið fleiri í salnum. Mætingin var góð og virkilega létt og notaleg stemmning yfir leiknum. Sönn fótboltagleði var enda í boði - auðvitað var svo öllum boðið upp á popp og kók.
Var virkilega gott kvöld og ég þakka öllum fótboltaáhugamönnum sem mættu fyrir góða kvöldstund við að horfa á góðan fótboltaleik og fínar pælingar um boltann. :)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2006 | 22:38
Framboðsfundur ungliða á Akureyri

Í kvöld tóku ungliðar allra framboða á Akureyri höndum saman og boðuðu til umræðufundar um málefni ungs fólks á veitingastaðnum Parken í miðbænum. Þar voru bæjarmálin rædd og farið yfir kosningamálin í sveitarstjórnarkosningunum eftir ellefu daga. Á fundinum fluttu María H. Marinósdóttir, Baldvin Esra Einarsson, Bylgja Jóhannesdóttir, Húni Heiðar Hallsson, Hólmar Örn Finnsson og Sveinn Arnarsson framsögur um bæjarmál og sátu svo fyrir spurningum á eftir. Birgir Guðmundsson kennari í fjölmiðlafræði og blaðamaður, stýrði fundi.
Mun þetta vera í fyrsta sinn sem ungliðahreyfingar taka höndum saman hér á Akureyri og er stefnt á frekari samvinnu á komandi ári og fyrir alþingiskosningarnar. Ætlunin er að ungt fólk myndi sér skoðanir á eigin forsendum og taki afstöðu í málefnum bæjarins og samfélagsins í heild. Mér fannst þessi fundur ganga vel. Voru margar líflegar og spennandi spurningar og tekist á með drengilegum og góðum hætti um bæjarmál í aðdraganda þessara kosninga. Gekk þetta því mjög vel.
Það var gott að sjá að margir höfðu áhuga á fundinum og fjölmenni kom og fylgdist með. Var snarplega tekist á og allir ánægðir með útkomuna af fundinum. Þetta er gott fyrirheit um frekari samvinnu ungliða hér og lífleg skoðanaskipti um pólitík. Við ungliðar fórum hress og glöð af þessum fundi tilbúin í öflugan lokasprett kosningabaráttunnar hér.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2006 | 23:12
Ný skoðanakönnun á Akureyri

Það eru 12 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Kraftur er kominn í kosningabaráttuna á lokasprettinum enda sér nú fyrir endann á baráttunni í næstu viku. Mitt í önnum dagsins í dag kom ný skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér á Akureyri. Hún sýnir í stuttu máli sagt nákvæmlega sömu skiptingu bæjarfulltrúa og sama landslagið og sást í könnun NFS fyrir mánuði er borgarafundur þeirra var haldinn hér. Það sem vekur mesta athygli mína er auðvitað hversu margir taka ekki afstöðu eða hafa ekki myndað sér skoðun á því hvaða framboð skuli kjósa. 34,8% nefna Sjálfstæðisflokkinn, 22,6% nefna Samfylkinguna, 18,2% nefna Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, Framsóknarflokkurinn mælist með 13,5%, Listi fólksins hefur 8,8% og Framfylkingarflokkurinn mælist með 1,6% fylgi. Yrðu þetta úrslitin væri Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra bæjarfulltrúa, Samfylkingin hefði þrjá, VG hlyti tvo, Framsóknarflokkur og Listi fólksins hefði einn og Framfylkingarflokkurinn engan.
Sumt í þessari könnun kemur mér á óvart en annað ekki. Ég taldi að Framsóknarflokkurinn myndi ná að rétta eitthvað úr kútnum eftir erfiðleika í fyrri könnunum. Ef þetta verða úrslit kosninganna stefnir í sögulegt afhroð Framsóknarflokksins á Akureyri - en staðurinn hefur verið eitt táknrænasta og sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Fengi Framsókn aðeins einn bæjarfulltrúa á Akureyri væru það stórtíðindi og myndu tákna algjört skipbrot flokksins í þessu sterka vígi þeirra og vera til vitnis um vonda stöðu flokksins um allt land. Allsstaðar nema í Fjarðabyggð er Framsókn að mælast með afleita útkomu. Í Reykjavík hefur flokkurinn ekki mælst með mann inni alla kosningabaráttuna og í Kópavogi stefnir í að flokkurinn verði fyrir gríðarlegu áfalli. Það er því ekki að furða að framsóknarfólk hér á Akureyri verði gáttað við að sjá þessa könnun og þessa stöðu sem við blasir. Hún boðar enda fátt gott fyrir þá.
Verði þessi könnun að veruleika sýnist mér stefna í vinstrimeirihluta hér á Akureyri á næsta kjörtímabili. Flestir sem ég tala við setja ekki andlit leiðtoga vinstriarmanna saman við þessa meirihlutamyndun, enda hver myndi vilja að Hermann væri bæjarstjóri, Oddur forseti bæjarstjórnar og Baldvin formaður bæjarráðs, svo eitthvað sé nefnt um skiptingu hluta í þessu batteríi þeirra. Það er ekki kræsileg staða. Nú er það okkar sjálfstæðismanna að benda á mögulega stöðu eftir kosningar og sýna fólki að það eru betri valkostir í boði en vinstri meirihluti sem þessi könnun sýnir drögin að. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um margvísleg mál sem orðið hafa til heilla í sveitarfélaginu - við erum ánægð með okkar verk og göngum því óhrædd til þessara kosninga. Ég tek undir með Sigrúnu Björk í vinnustaðaheimsókn í morgun: "Við höfum sýnt að við náum árangri og munum áfram lofa að ná árangri, það skiptir mestu."
Nú er lokaspretturinn eftir. Þessi könnun kemur á góðum tímapunkti fyrir okkur. Nú er að slá í klárinn og landa góðum sigri eftir tólf daga, laugardaginn 27. maí og tryggja farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins ÁFRAM!
Umfjöllun um skoðanakönnun NFS í apríl 2006
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 20:24
Daufleg kosningabarátta í höfuðborginni

Mesti fókusinn í kosningabaráttunni beinist venju samkvæmt að Reykjavík. Leiðtogar framboðanna fimm, þau Vilhjálmur Þ, Björn Ingi, Dagur B, Svandís og Ólafur F, hafa verið mjög áberandi seinustu vikur við að kynna sig og málefni síns framboðs. Að mati flestra er þó kosningabaráttan í borginni frekar daufleg að þessu sinni. Minni átök og málefnaágreiningur er sýnilegur núna en var í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2002. Reyndar var sú kosningabarátta með því harðara sem sést hafði og jafnaðist á við baráttuna árið 1994 þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Sigfússon börðust á hæl og hnakka fyrir atkvæðum borgarbúa í jafnri baráttu. Síðast áttust Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún við í sönnum leiðtogaslag sem jaðraði við að vera hreint einvígi enda voru litlir kærleikar þeirra á milli og mikil heift í slagnum.
Kosningabaráttan er því gjörólík því sem var fyrir fjórum árum. Það helgast eflaust líka af því að meirihlutaaflið býður ekki lengur fram og heyrir sögunni til og þrjú framboð eru komin í stað R-listans. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa því aðra stöðu en í þrem seinustu kosningum. Það er ekki óeðlilegt að mörgum þyki baráttan í borginni dauf enda eru fá sem engin kosningamál í gangi sem hiti er um. Kosningarnar eru lítið til umræðu og lítil átök - ótrúlega lítið um að vera sé mið tekið af því að það eru aðeins 13 dagar til kosninga. Tekist hefur verið á um flugvöll á Lönguskerjum vissulega og málefni aldraða hefur verið í umræðunni. En bitmikil mál sem brenna á eru varla til staða að neinu ráði. Seinustu daga hefur aðalmálið í umræðunni verið það að Framsókn keyrði bíl sínum, sem er risavaxinn Hummer að gerð, í stæði fatlaðra og mynd náðist af því sem fór eins og eldur í sinu um netið.
Um fátt hefur verið rætt meira og ber þetta auðvitað vitni slappri málefnabaráttu í þessum kosningum. Deilt hefur verið um það skiljanlega að Steinunn Valdís fari í fundaferð sem borgarstjóri um borgina rétt fyrir kosningar, þegar að allir vita að borgarstjóraferli hennar er að ljúka. Það er ekki furða að margir séu hissa þegar að aðalumræðuefnin eru flugvöllur úti á skerjum sem virkar framtíðarsinfónía, jeppatröll Framsóknar í fatlaðrastæði og fundabrölt fráfarandi borgarstjóra. Nú þegar haldið er inn í næstsíðustu viku kosningabaráttunnar má búast við harðari línum og meira fjöri - auglýsingar í sjónvarpi fara væntanlega að verða meira áberandi og svo má búast við að tekist verði af að alvöru seinustu dagana.
Nú þegar lokaspretturinn blasir við stefnir flest í endalok vinstristjórnarinnar og valdatöku Sjálfstæðisflokksins á þessum tímapunkti en væntanlega verður harkan meiri eftir því sem fleiri kannanir koma en ískyggilega langt er orðið frá þeirri síðustu. Nú þegar að kosningabaráttan er að verða búin mun könnunum fjölga og krafturinn aukast væntanlega - enda eftir miklu að slægjast í kosningunum í Reykjavík.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 17:13
Sterk staða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallup í Hafnarfirði er Samfylkingin undir forystu Lúðvíks Geirssonar þar á sigurbraut. Skv. tölunum bætir Samfylkingin við sig manni á kostnað Sjálfstæðisflokksins. VG er mjög nærri því að ná inn manni. Eins og allir vita vann Samfylkingin stórsigur í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði og hlaut hreinan meirihluta og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Magnúsar Gunnarssonar sem leiddi sjálfstæðismenn frá árinu 1994. Lúðvík, sem leiddi Samfylkinguna, varð bæjarstjóri og hefur leitt meirihlutann af krafti á þessu tímabili. Hafnarfjörður hefur alltaf verið traust vígi jafnaðarmanna og t.d. leiddi Alþýðuflokkurinn þar meirihluta undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar 1986-1994. Niðursveifla kom í veldið árin á eftir vegna hneykslismála tengdum Guðmundi Árna en landið reis síðast.
Það er auðvitað með hreinum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði dali frá því sem síðast var. Eins og allir vita er Hafnarfjörður heimabær Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra - verður merkilegt fyrir þau að halda inn í næstu þingkosningar verði niðurstaða kosninganna í takt við þetta. Að mínu mati er ein lykilástæða á bakvið þessa niðursveiflu flokksins. Það er slöpp forysta og undarleg stefna. Það var auðvitað með hreinum ólíkindum að flokksmenn skyldu hafna Valgerði Sigurðardóttur, farsælum bæjarfulltrúa og forystukonu í nefndum bæjarins, í prófkjörinu undir lok síðasta árs. Valgerður hafði unnið af krafti og miklum heilindum fyrir flokkinn. Hún ákvað að taka ekki sæti á listanum - réði þar mestu ófrægingarherferð andstæðings hennar gegn henni persónulega í prófkjörsslagnum.
Svo er það ekki að styrkja Sjálfstæðisflokkinn í bænum að Haraldur Þór Ólason leiðtogi listans, hefur sagt skýrt að hann ætli sér ekki að axla þá ábyrgð að verða bæjarstjóri að loknum kosningum myndi flokkurinn fá til þess kraft. Hefur mér þótt lengi að það yrði sterkt hjá flokknum að bjóða Rósu Guðbjartsdóttur - kraftmikla kjarnakonu í öðru sæti listans - sem bæjarstjóraefni hans. Það virðist ekki hafa notið hljómgrunns hjá Haraldi og hans fólki. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði megi þakka fyrir að halda sér yfir þeim 40% sem þeir fengu í síðustu kosningum miðað við stöðuna. Mér hefur þótt um nokkurt skeið sem að stefndi í öruggan sigur Samfylkingarinnar og Lúðvíks. Það staðfestist í þessari könnun svo ekki verður um villst. Spennan virðist snúast um hvort að Samfylkingin fái sjö menn eða VG nái inn á kostnað þeirra. Líkur eru því miður á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðeins fjóra.
Auðvitað vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn nái sterkari stöðu en sést í þessari könnun en ég tel þó flest benda til öruggs sigurs Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sá kosningasigur leiði til þess að Lúðvík Geirsson fari í leiðtogaframboð í Kraganum að ári.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 16:41
Stefnir í afhroð Framsóknarflokksins í Kópavogi

Eitt af því sem vekur mesta athygli við komandi sveitarstjórnarkosningar er erfið staða Framsóknarflokksins um allt land. Á nær öllum stöðum þar sem birst hafa skoðanakannanir blasir við að flokkurinn er í gríðarlegri vörn og hefur misst gríðarlega mikið fylgi. Á sumum stöðum er hann að missa ráðandi stöðu sína. Það leikur enginn vafi á því að það sveitarfélag sem verið hefur í öndvegi sveitarstjórnarstjórnmála Framsóknarflokksins er Kópavogur. Skv. nýrri skoðanakönnun blasir fylgishrun við þar og í stað þriggja manna inni er flokkurinn naumlega með einn inni. Einn helsti þáttur þess er auðvitað árferðið almennt hjá flokknum eins og fyrr er nefnt. En ég tel að stóri þátturinn í fylgishruni flokksins í bænum sé auðvitað fráfall Sigurðar Geirdal sem var bæjarstjóri í Kópavogi í einn og hálfan áratug, allt til andláts síns árið 2004. Hann var meginstoð flokksins í bænum í 15 ár.
Það fór ekki fram hjá neinum að það var Sigurður sem byggði upp stórveldi flokksins þar. Flokkurinn stækkaði úr smáflokki í ráðandi afl á hans tíma og hann naut gríðarlegra vinsælda. Flokknum tókst að komast í þrjá menn í kosningunum fyrir fjórum árum. Persónulegar vinsældir Sigurðar sem bæjarstjóra og einstaklings í forystu, manns sem fólk treysti, voru auvðitað meginþáttur þess að flokkurinn dafnaði í sveitarfélagi þar sem staða hans var alltaf léleg fram að því. Nú er Sigurður horfinn á braut og svo virðist að fráfall hans þýði að flokkurinn fari aftur í sama stand og var áður en Sigurður varð leiðtogi. Verði þessi könnun að veruleika blasir við að Framsóknarflokkurinn geti þurrkast út í Kópavogi, sem yrðu vissulega stórtíðindi miðað við núverandi völd og áhrif flokksins í bænum. Ég hef reyndar alltaf talið að flokkurinn myndi eiga erfitt núna.
Fráfall Sigurðar Geirdal var Framsóknarflokknum í Kópavogi gríðarlegt áfall - áfall sem þau enn eru að jafna sig á. Sigurði tókst ekki að skilja við flokkinn með þeim hætti sem hann vildi, innri ólga og erfiðleikar tóku sig upp án hans. Flokkurinn er að mörgu leyti í miklum erfiðleikum vegna þess hversu snögglega Sigurður hvarf af pólitísku sjónarsviði. Ég lít á þessa könnun sem skiljanlega miðað við þá erfiðleika - erfiðleika sem við öllum blasa sem fylgst hafa með pólitík í Kópavogi. Nú heyrast raddir þess að Framsókn sé að tapa vegna samstarfsins við Gunnar I. Birgisson bæjarstjóra. Á það ber að minna að Framsóknarflokkurinn leiddi þennan meirihluta í 15 ár af þeim 16 sem hann hefur setið. Sigurður Geirdal og Hansína Ásta Björgvinsdóttir, leiðtogar flokksins, voru enda bæjarstjórar í einn og hálfan áratug - Sigurður í 14 af þeim (Hansína kláraði áður ákveðinn tíma Sigurðar en fyrirfram var ákveðið að hann myndi hætta í júní 2005).
Ef marka könnunina í Kópavogi í gær vill fólk að Gunnar Ingi Birgisson verði áfram bæjarstjóri. Eftir fráfall Sigurðar Geirdal er hann sterki maðurinn í bæjarmálunum og sá sem nýtur mests trausts. Það sannast er spurt er um hver eigi að verða bæjarstjóri og hvaða framboð fólk ætlar að kjósa að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess hversu öflug forysta Gunnars hefur verið á kjörtímabilinu þegar að bæjarfélagið þarfnaðist styrkrar forystu eftir snögglegt fráfall bæjarstjórans þar í einn og hálfan áratug. Ennfremur blasir við að Framsóknarflokknum í Kópavogi hefur mistekist að höfða til kjósenda og á mikið verk framundan við að vinna úr innri erfiðleikum og sundrungu sem varð eftir andlát Sigurðar Geirdal. Flokkurinn virðist í sárum og er aðallega í vandræðum nú vegna innri vandamála. Það ber því varla að skrifa algjörlega ástandið í Kópavogi á landsmálastöðu flokksins.
En þetta er auðvitað vísbending. Ef marka má þessa könnun heldur meirihlutinn en naumlega þó. Það verður fróðlegt að sjá hvort að miklar pólitískar sviptingar séu framundan í Kópavogi og haldið verði áfram á þeirri farsælu braut sem Gunnar I. Birgisson og Sigurður Geirdal leiddu á farsælu valdaskeiði sínu í Kópavogi. Sú uppbygging sem þeir leiddu saman sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag. Það verk vannst undir styrkri stjórn þessara tveggja flokka og engum blandast hugur um að framlag Gunnars í því skipti miklu máli.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 16:04
Stefnir í sögulegan sigur D-listans í Reykjanesbæ

Það stefnir allt í sögulegan stórsigur Sjálfstæðisflokksins undir forystu Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ. Ef marka má tvær kannanir undanfarna daga, á NFS og RÚV, mælist flokkurinn með um eða yfir 70% fylgi og 8-9 bæjarfulltrúa. Yfirburðir af þessum kalíber eru vægast sagt fáheyrðir. Það þótti mjög djarft árið 2002 þegar að sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ báðu Árna Sigfússon að leiða framboðslista sinn í kosningunum um vorið og verða bæjarstjóraefni flokksins. Vinsæll bæjarstjóri, Ellert Eiríksson, hafði ákveðið að hætta eftir tólf ára starf í Reykjanesbæ og Keflavík áður í samstarfi flokksins við Framsókn. Leiðtogastaðan var laus og Árni var sóttur til verkefnisins og hann flutti til Keflavíkur til að taka við þessu verkefni sem flestir töldu að yrði erfitt enda væri Árni lítið þekktur í bænum og hefði mjög litlar tengingar inn í samfélagið. Reyndin varð aldeilis önnur.
Sjálfstæðisflokkurinn vann sannfærandi sigur í kosningunum og hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Árni varð bæjarstjóri og tók við forystu flokksins af miklum krafti. Eins og allir vita markaði sá sigur ekki upphaf stjórnmálaferils Árna Sigfússonar. Hann hóf ungur stjórnmálaþátttöku sína innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sat í stjórn Heimdallar 1976-1979 og var formaður félagsins á árunum 1981-1983. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1987-1989 - forveri Davíðs Stefánssonar á þeim stóli. Árni náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1986 og leiddi allt frá upphafi kraftmiklar nefndir og var lengi í forsvari skólamálanna. Flestir töldu að Árni yrði borgarstjóri við brotthvarf Davíðs Oddssonar vorið 1991 í landsmálin. Svo fór þó ekki og Markús Örn Antonsson, sem verið hafði borgarfulltrúi árin 1970-1985, varð borgarstjóri í stað Davíðs.
Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1994 sameinuðust félagshyggjuflokkarnir í sameiginlegt framboð undir merkjum R-lista. Skoðanakannanir sýndu að framboðið myndi vinna stórsigur og mældist um tíma með um 70% fylgi. Í ljósi þeirrar stöðu ákvað Markús Örn Antonsson að segja af sér embætti borgarstjóra þann 14. mars 1994. 70 dögum fyrir borgarstjórnarkosningar, þann 17. mars 1994, tók Árni Sigfússon við embætti borgarstjóra, en hann hafði orðið annar í prófkjöri flokksins (á eftir Markúsi Erni) nokkrum vikum áður. Árni fór í slaginn og mætti þar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þingkonu Kvennalistans, sem varð borgarstjóraefni R-listans. Árna tókst að höggva nærri R-listanum en mistókst að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í kosningunum. Sigur R-listans varð mjög naumur. Árna mistókst ennfremur að leiða flokkinn til sigurs árið 1998 og tapaði þá með aðeins meiri mun en 1994.
Árni ákvað í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 1998 að láta af leiðtogastöðunni í borgarstjórnarflokknum og tók Inga Jóna Þórðardóttir við. Hann sagði sig úr borgarstjórn síðar sama ár og Kjartan Magnússon tók sæti hans. Flestir töldu að stjórnmálaferli hans væri lokið og hann varð áberandi á vettvangi stórfyrirtækja sem forstjóri. Það voru því margir hissa þegar að kallið kom frá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ um að hann leiddi flokkinn í stað Ellerts Eiríkssonar. Það er ekki hægt að segja annað en að það val hafi margborgað sig fyrir þá. Svo virðist vera nú að sameiginlegt framboð minnihlutans fái harkalega brotlendingu og nái engu flugi. Það stefnir allt í sögulegan sigur sjálfstæðismanna undir öflugri forystu Árna.
Ég sendi góðar baráttukveðjur til félaga minna í Reykjanesbæ og hvet þá til dáða og vinna að því að 27. maí verði sögulegur sigurdagur Sjálfstæðisflokksins í bænum. Frændi minn, Georg Brynjarsson, er þar kosningastjóri og heyrast góðar sögur af baráttunni þeirra sem er háð af krafti og með líflegum brag. Ég er sammála Geir H. Haarde formanni Sjálfstæðisflokksins, að kosningabaráttan í Reykjanesbæ sé góð fyrirmynd allra annarra sem flokkurinn vinnur að um allt land. Það verður ánægjulegt að sjá hversu öflugur sigur flokksins verði í sveitarfélaginu. Verði niðurstaðan eitthvað í takt við kannanir stefnir í sögulegan sigur.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2006 | 22:22
Vandræðalegur forseti leggur hornstein

Í gær lagði Ólafur Ragnar Grímsson hornstein að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Einhverntímann hefði það sennilega þótt tíðindi að fyrrum formaður Alþýðubandalagsins ætti eftir að leggja hornstein að stöðvarhúsi virkjunar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það er ánægjulegt að forseti Íslands hafi séð sér fært að fara austur og gefa með því til kynna að hann láti andúð vissra afla gegn framkvæmdinni sem vind um eyru þjóta. Hann beitti ekki 26. greininni gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma sem sagði auðvitað margt. En mörgum finnst það eflaust kaldhæðið að fyrrum leiðtogi sósíalistaflokks leggi slíkan hornstein. Kannski er þetta merki þess umfram allt að forsetinn lætur andúð vissra afla í landinu gegn þessum framkvæmdum fyrir austan ekkert á sig fá. Það er gleðiefni.
Forsetinn er að sinna embættisverkum sínum og fer sem forseti Íslands austur. Hann skrifaði undir lögin frá Alþingi á sínum tíma. Nú veit ég ekki hvort forsetinn sé samþykkur virkjun á Austurlandi en það er kannski svo að hann lætur embættisverk ekki fara eftir því hvort hann sé hlynntur því eða ekki. Forsetinn staðfesti lögin. Í forsetakosningunum 2004 var mikið rætt um það af hverju hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin vegna þess að hann fann fyrir gjá milli þings og þjóðar en ekki í þessu tiltekna máli. Hann gat aldrei svarað því sómasamlega - talaði út í eitt en fór undan í flæmingi þegar að umræðuefnið var borið upp. Það eru því margir enn að velta fyrir sér skoðunum hans. En forsetinn fer austur vegna þess að hann er þjóðhöfðingi landsins og sinnir sínum verkum.
Það verður svo að ráðast hvort fólk telur að hann sé að tala máli framkvæmdarinnar með því, sem greinilega sumum finnst í samfélaginu - þeim sem voru á móti virkjun á Austurlandi. Þeir sem kusu hann fyrir tveim árum eftir að hann staðfesti lögin á sínum tíma verða að hugsa sitt mál. Við sem kusum engan forsetaframbjóðanda síðast og sátum hjá þurfum ekki að velta þessum forseta mikið fyrir sér og hvort hann segi eitt eða geri annað. Hann var þó ekki stóriðjusinni þegar að hann var á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Veit ekkert hvar hann stendur nú. En mér fannst þó sem hann væri steinrunninn við verkið og vissi ekkert hvernig hann ætti að haga sér. Það er kannski ekkert undarlegt þegar í huga forsetans blunda eflaust enn hugsanir og gjörðir hans sem leiðtoga síns gamla flokks.
En hvað með það. Aðalatriðið á þessum degi er ekki sálarhugsanir gamals kommúnistaleiðtoga á vinstrivæng íslenskra stjórnmála sem vonandi hættir fljótlega sem forseti Íslands. Upp úr stendur auðvitað gleði Austfirðinga með uppbygginguna þar. Það er mikil samstaða og ánægja ríkjandi fyrir austan með niðurstöðu mála. Ég vil óska þeim til hamingju með þennan áfanga, nú þegar að styttist óðum í að álver við Reyðarfjörð verði að veruleika.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2006 | 18:13
Tónleikar til minningar um afa

Þann 7. maí sl. voru 110 ár liðin frá fæðingu afa míns, Friðriks Árnasonar á Eskifirði. Það er óhætt að segja að afi hafi átt merka ævi og gert margt um dagana. Er erfitt að lýsa því öllu í stuttu máli. Bendi ég á vandaða minningargrein frænda míns, Árna Helgasonar í Stykkishólmi, um afa sem birtist í Morgunblaðinu þann 1. ágúst 1990, daginn sem hann var jarðsunginn frá Eskifjarðarkirkju. Afmælis hans er minnst um helgina með tónleikum í Eskifjarðarkirkju. Fyrir þeim stendur frændi minn, Friðrik Kristinsson stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur. Því miður get ég ekki farið austur að tónleikunum vegna anna í kosningabaráttu hér norðan heiða. En ég vona að þessir tónleikar verði flottir og góðir - veit að Friðrik hefur lagt mikla vinnu í undirbúning. Vona að ættingjar mínir austan heiða og aðrir tónleikagestir hafi gaman af þessum tónleikum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)