Útitafl sjálfstæðismanna á Ráðhústorgi

Mælirinn sýndi tvær gráður á Ráðhústorginu - norðanvindurinn næddi um áhorfendur þegar að sjálfstæðismenn héldu útitafl sitt í gær. Þar var létt og notaleg stemmning - allir hressir og létu kuldann ekkert á sig fá. Taflmennirnir voru sprelllifandi og sjá mátti frambjóðendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ýmist í hvítum eða svörtum treyjum á taflborðinu. Þeir létu sig ekki muna um að skipta um hlutverk í augnablik og gerast taflmenn í rúman hálftíma.

Í skákinni kepptu þeir Friðrik Ólafsson stórmeistari og fyrrum skrifstofustjóri Alþingis, sem tefldi fyrir D-listann og Gylfi Þórhallsson, skákmeistari Akureyrar sem tefldi fyrir Skákfélag Akureyrar. Unnsteinn Jónsson frambjóðandi, hafði veg og vanda af skipulagningu og Halldór Blöndal leiðtogi flokksins í kjördæminu, var skákmönnum til halds og trausts á meðan að Kristján Þór stýrði leikmönnum af snilld á sjálfu taflborðinu - sérgerðu á Torginu.

Til hliðar stóðu stuðningsmenn framboðsins í kuldanum og fylgdust með. Skemmtu allir sér konunglega og höfðu gaman af. Að loknu taflinu skelltu kaldir skákáhugamenn og stuðningsmenn D-listans sér á kosningaskrifstofuna þar sem Oktavía, Sigrún Óla og Gulla Sig biðu með heitar vöfflur og ekta kakó. Frábær stemmning í gær og fjölmenni á skrifstofunni og var gaman að spjalla yfir kakóbolla og vöfflu. :)


Þáttaskil framundan í Verkamannaflokknum

John SmithTony Blair

Í dag eru 12 ár liðin frá andláti breska stjórnmálamannsins John Smith. Það eru eflaust ekki allir stjórnmálaáhugamenn á Íslandi sem vita til fulls hver John Smith var. Hann var forveri Tony Blair á leiðtogastól breska Verkamannaflokksins. Hann hafði einungis leitt Verkamannaflokkinn í tvö ár er kom að snögglegu andláti hans. Hann hafði af flestum verið talinn við andlátið á hápunkti stjórnmálaferils síns og við blasti að hann myndi leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í þingkosningum. Það varð hans hlutskipti að taka við flokknum eftir að Neil Kinnock sagði af sér leiðtogastöðunni í kjölfar tveggja ósigra í þingkosningum. Tap Verkamannaflokksins í kosningunum 1992 varð sögulegt en í öllum skoðanakönnunum var flokkurinn með marktækt forskot en mistókst að vinna sjálfar kosningarnar.

Úrslitin kölluðu á breytingar í flokknum en tryggðu áframhaldandi stjórnarforystu Íhaldsflokksins undir forystu John Major, sem tekið hafði við lyklavöldum að Downingstræti 10 tveim árum áður er Margaret Thatcher missti stjórnina á Íhaldsflokknum eftir 11 ára forsætisráðherraferil. Verkamannaflokkurinn gekk í kjölfar þessa í gegnum allsherjar naflaskoðun. Skipt var um meginlínur, lykilpunkta, stefnuplan og síðast en ekki síst leiðtoga. Það varð skotans John Smith að móta þessa leið. Hann byrjaði þá vinnu sem fólst í því að gera Verkamannaflokkinn að vinstrisinnuðum miðjuflokk - kastað var fyrir borð lykilpunktum gamla Verkamannaflokksins. Segja má því að valdaferill Margaret Thatcher og sterk staða Íhaldsflokksins hafi breytt breskum stjórnmálum umtalsvert.

Er John Smith varð leiðtogi Verkamannaflokksins varð flokkurinn að nýju tákni. Smith hafði reyndar verið lengi einn af forystumönnum hans og hafði setið á þingi allt frá árinu 1970 og verið viðskiptaráðherra 1978-1979 í ríkisstjórn James Callaghan. Verkamannaflokkurinn missti völdin í þingkosningunum 1979 og varð eyðimerkurganga hans löng. Verkefni Smiths varð innan flokksins að binda enda á þá göngu og gerði hann sér grein fyrir því hvert þyrfti að stefna til að leiða til þáttaskila í breskum stjórnmálum. Hann hóf vinnuna að því að koma flokknum til öndvegis og athygli vakti er hann hóf að skera á tengslin við vinstrisinnaðasta hluta flokksins til að minnka áhrif verkalýðsfélaganna innan hans. Smith virtist á sigurbraut og mældist flokkurinn ávallt með ráðandi stöðu í könnunum á þessum tíma.

Mitt í þessum umskiptum kom að snögglegu fráfalli hans. Hann hafði verið hjartveikur til fjölda ára og fengið hjartaslag árið 1988 en samt ekki verið metinn í áhættuhóp. Hann hvarf því snögglega af hinu pólitíska sviði. Fráfall hans varð reiðarslag fyrir Verkamannaflokkinn og bresku þjóðina, en búist hafði verið við því að hann myndi leiða flokk sinn til sigurs í næstu kosningum og talið öruggt að hann yrði næsti forsætisráðherra. Flokkurinn varð sem lamaður eftir fráfall hans. Það kom í hlut Margaret Beckett (núverandi utanríkisráðherra Bretlands) að taka við leiðtogastöðu flokksins tímabundið, enda var hún varaleiðtogi flokksins. Í leiðtogakjöri flokksins í júlí 1994 kom, sá, og sigraði Tony Blair þáv. talsmaður flokksins í innanríkismálum - það varð hans að láta hið nýja upphaf sem markað var af John Smith verða að veruleika.

Allir vita eftirleikinn. Verkamannaflokkurinn vann bresku þingkosningarnar 1997 og Tony Blair varð forsætisráðherra Bretlands. Íhaldsflokkurinn galt afhroð og 18 ára valdatíð flokksins lauk í skugga kosningaósigurs sem varð svo gríðarlegur að John Major sagði af sér leiðtogastöðu flokksins og hvarf úr kastljósi stjórnmálanna. Síðan hafa fjórir leiðtogar leitt flokkinn og eyðimerkurganga hans er að verða ískyggilega lík þeirri sem Verkamannaflokkurinn varð að feta allt þar til að John Smith og Tony Blair leiddu Verkamannaflokkinn til þess stórveldis sem það hefur verið í breskum stjórnmálum í áratug. Á valdatíma Verkamannaflokksins hefur Tony Blair staðið vörð um arfleifð sína og verk á leiðtogastóli. Á móti kemur að persóna og stjórnmálaleg forysta John Smith hafa fallið í skuggann og margir gleymt þeim manni sem markaði upphafið að sigurbraut flokksins - umbreytingarskeiðinu mikla.

Tólf árum eftir fráfall John Smith blasa ný þáttaskil við breska Verkamannaflokknum - ný pólitísk staða er að skapast. Það leikur enginn vafi á því að tekið er að fjara undan Tony Blair í breskum stjórnmálum. Svo virðist vera að slappt gengi Verkamannaflokksins í sveitarstjórnarkosningum hafi veikt stöðu hans verulega. Undanfarna daga hefur komið vel fram vilji órólegu deildarinnar í flokknum að Blair tímasetji brotthvarf sitt úr pólitík. Áður hefur hann sagst hætta á kjörtímabilinu og ekki gefa kost á sér í næstu þingkosningum eftir sigur í þrennum kosningum og níu ára umdeildan en óneitanlega sögulegan forsætisráðherraferil. Nú vill þessi hópur vinstrisinnuðustu þingmanna flokksins að hann taki af skarið og ljúki öllum vangaveltum með yfirlýsingu um málið.

Í vikunni reyndi Blair að snúa vörn í sókn með blaðamannafundi í Downingstræti 10 þar sem hann svaraði andstæðingum sínum innan flokksins fullum hálsi. Hann neitaði þar af krafti að verða við þessari beiðni og storkaði andstæðingum sínum. Annaðhvort ættu þeir að hjóla í hann ef þeir væru ósáttir eða sætta sig við að hann hefði verið kjörinn af þjóðinni til sinna verka fyrir rúmu ári. Umboð sitt væri skýrt þetta kjörtímabilið. Það hefur vakið mikla athygli seinustu daga að nú hefur Blair breytt tali sínum varðandi einn veigamikinn þátt. Í fyrsta skipti segist hann nú láta af embætti vel fyrir lok tímabilsins svo að eftirmaður sinn gæti tekið sinn tíma í að setja sinn svip á flokkinn og ríkisstjórnina. Þetta er í fyrsta skipti sem Blair talar ekki með þeim hætti að hann muni sitja tímabilið á enda.

Þetta er skýr áherslubreyting og gefur til kynna sátt til óánægjuaflanna um að hann muni hætta fyrr en seinna, væntanlega hefur hann í hyggju að hætta eftir tíu ára valdaafmælið í maí 2007 og fela Gordon Brown völdin. Það er þó alls óvíst hvort þessi sátt dugi fyrir Blair til að halda völdum. Hvort skaðinn sé orðinn meiri en lagað verði að óbreyttu. Það er augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður. Hér er greinilega um að ræða einvígi milli hægri- og vinstrilínanna innan flokksins. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári.

Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Athygli hefur vakið að Gordon Brown fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur. Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil. Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins.

Fyrir einum og hálfum áratug skoraði Michael Heseltine á hólm Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins í leiðtogakjöri. Afsögn Geoffrey Howe og trúnaðarbrestur hans og Thatcher veiktu mjög stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð. Svo fór að Heseltine tókst að safna nægum stuðningi til að koma í veg fyrir sigur Thatcher í fyrstu umferð og hún sagði af sér embætti þann 22. nóvember 1990 og varð undir í innri slag. Hinsvegar varð Heseltine undir í næstu umferð og varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins. Heseltine varð þekktur sem maðurinn sem lagði Thatcher en mistókst að ná í mark pólitískt. Hann varð aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn John Major undir lok valdatíma flokksins en varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins.

Minnugur þess að Heseltine varð sögulega ekki metinn neins eftir áhættu sína horfir Gordon Brown til þess að betra sé fyrir hann að Tony Blair fái að skilja við bresk stjórnmál sæll og glaður. Hann veit að sinn tími er handan við hornið en það gæti allt breyst komi til harðvítugs uppgjörs milli hans og forsætisráðherrans. Þá gæti arfleifð þeirra beggja og flokksins skaðast verulega. Það er því engin furða að Brown hiki við. Hinsvegar er öllum ljóst að hann vill að Blair hætti sem fyrst, helst innan árs svo að hann fái góðan tíma til að undirbúa sig og flokkinn fyrir kosningarnar næstu - einvígið við David Cameron og Íhaldsflokkinn. Í fyrsta skipti frá leiðtogakjöri John Smith fyrir einum og hálfum áratug er Íhaldsflokkurinn í sókn. Svo virðist vera sem að pólitískt veldi Verkamannaflokksins sé að líða undir lok.

Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný könnun YouGov sem sýnir flokkinn með lægsta fylgi sitt í könnunum þeirra í fjórtán ár, frá árinu 1992 eftir kosningaósigur Kinnocks. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn hefur 29% og Frjálslyndir demókratar hafa 20%. Það er því óhætt að segja að landslagið sé breytt. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að blaðamannafundur Blairs hafi slegið á mestu gagnrýnina en ekki bundið enda á hana. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil. Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli.

Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi í sumar. Hvort að Tony Blair lætur af embætti sjálfviljugur eða fer frá Downingstræti 10 sneyptur eins og Margaret Thatcher getur orðið ráðandi þáttur í því hvort að það pólitíska veldi sem John Smith lagði grunninn að á skömmum leiðtogaferli sínum líði undir lok eða lifi áfram undir nýrri forystu innan Verkamannaflokksins. Hvað við tekur eftir valdaferil Blairs er stór spurning sem við fáum bráðlega svar við væntanlega.


Skemmtileg kosningavinna

XD ÁFRAM

Það eru 16 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Lokaspretturinn kominn af stað og í mörg horn að líta. Þessa dagana erum við sjálfstæðismenn á kosningaskrifstofunni að vinna frá morgni til kvölds og miklar annir. Það er oft sagt að það sé skemmtilegast að vinna undir álagi. Tek ég undir það - er í raun fátt sem jafnast á við það að vera í svona vinnu. Þegar að maður hefur áhuga á stjórnmálum er fátt betra. Ég hef alltaf haft orð á mér fyrir það að vera mikill áhugamaður um stjórnmál og því er kosningavinna mjög viðeigandi fyrir mig. Gæti ég varla hugsað mér að sitja heima í önnum kosningabaráttu og sleppa því að vera partur af hópnum sem vinnur verkin. Það hef ég enda aldrei gert og alltaf verið virkur í kosningavinnu í aðdraganda kosninga.

Á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri, er umfjöllun um kosningarnar komin á fullt og mikið af spennandi efni sem þar er að finna tengt kosningunum og félagsstarfinu almennt. Bendi fólki á að líta á það. Það eru framundan spennandi tvær vikur - mikil vinna og fjör. Það verður gaman að vera á fullu í baráttunni á lokasprettinum og taka virkan þátt í pólitík fyrir þann flokk sem er heimili manns í stjórnmálabaráttu. Það hefur verið ánægjulegt að vinna á kosningaskrifstofunni alla kosningabaráttuna og vera þar í samskiptum við flokksfólk og heyra í því yfir kaffibolla og rabba stöðu mála. Mjög skemmtilegur tími. Munum svo - fram til sigurs eftir 16 daga!


Líður að lokum kjörtímabilsins

Ráðhúsið við Geislagötu

Það er komið að lokum kjörtímabilsins í sveitarstjórnarmálum. Í dag var haldinn í Ráðhúsinu við Geislagötu síðasti fundur þeirrar bæjarstjórnar Akureyrar sem kjörin var 25. maí 2002. Í þeim kosningum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn fjóra fulltrúa kjörna, Framsóknarflokkurinn hlaut þrjá, Listi fólksins hlaut tvo og VG og Samfylkingin hlaut hvor um sig einn fulltrúa kjörin. Í bæjarstjórn á tímabilinu hafa allir bæjarfulltrúar setið sín fjögur ár, sem er annað en kjörtímabilið á undan þegar að miklar breytingar áttu sér stað innan flestra framboða en tímabilið 1998-2002 sátu t.d. tveir bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins af fimm kjörtímabilið á enda. Kjörnir bæjarfulltrúar á þessu tímabili voru: Kristján Þór Júlíusson, Þóra Ákadóttir, Þórarinn B. Jónsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Jakob Björnsson, Gerður Jónsdóttir, Jóhannes Bjarnason, Oddur Helgi Halldórsson, Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir.

Myndaður var meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að kosningum loknum. Kristján Þór var bæjarstjóri, Þóra forseti bæjarstjórnar og Jakob varð formaður bæjarráðs. Eins og fyrr segir sátu allir bæjarfulltrúar tímabilið á enda sem hefur ekki gerst hér í bæjarmálunum um langt skeið. Það bar þó auðvitað til í árslok 2005 að Oktavía Jóhannesdóttir sagði skilið við Samfylkinguna og gekk til liðs við okkur í Sjálfstæðisflokknum. Samhliða því missti Samfylkingin sinn eina fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar og hefur því seinasta hálfa ár kjörtímabilsins ekki átt neinn málsvara á bæjarstjórnarfundum. Það er auðvitað mjög sögulegt að jafnaðarmannaflokkur af tagi Samfylkingarinnar eigi ekki nú um stundir neinn bæjarfulltrúa. Síðan að Oktavía fór til okkar hafa fulltrúar Samfylkingarinnar fjölmennt á áhorfendabekki bæjarstjórnar og fylgst með í fjarlægð. En væntanlega mun það breytast í kosningunum eftir 18 daga.

Nokkrir bæjarfulltrúar sátu sinn síðasta bæjarstjórnarfund í dag og sumir segja alfarið skilið við bæjarmálin. Þau þáttaskil verða samhliða kosningunum í lok mánaðarins að þrír af fimm leiðtogum framboðslista í kosningunum 2002 hverfa úr bæjarstjórn að kosningum loknum. Það eru Jakob Björnsson, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir. Jakob er aldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar og hefur setið þar samfleytt í sextán ár og verið leiðtogi Framsóknarflokksins í tólf ár af þeim. Hann var bæjarstjóri hér á Akureyri kjörtímabilið 1994-1998 - sem var síðasta gullaldarskeið flokksins í bæjarmálunum en það tímabilið átti flokkurinn fimm menn í bæjarstjórn. Það er af sem áður var segir eflaust einhver núna. Jakob flutti kveðjuræðu undir lok fundarins í dag og minntist þar á að hann hefði setið vel á sjöunda hundrað bæjarráðsfunda og rúmlega 300 bæjarstjórnarfundi að auki þessi 16 ár.

Oktavía Jóhannesdóttir er ennfremur á útleið í bæjarstjórn, allavega að sinni. Á tímabilinu hef ég kynnst Oktavíu bæði sem pólitískum samherja og andstæðingi. Mér hefur alltaf líkað vel við Oktavíu þó ekki höfum við alltaf verið sammála. Ég er þeirrar gerðar að ég vil meta það fólk sem leggur vinnu og áhuga í stjórnmál. Það sést fljótt hvort fólk er í stjórnmálum af áhuga eður ei. Ég hef kynnst því að Oktavía er feykilega vinnusöm og gerir ávallt sitt besta. Það má alltaf treysta því að hún setji sig vel inn í málin og hafi áður en hún fer yfir stöðu málaflokksins sem hún fjallar um kynnt sér hann vel. Ennfremur kveður Valgerður Bjarnadóttir nú bæjarstjórn er þetta kjörtímabil kveður. Hún ákvað að segja skilið við bæjarmálin eftir að hafa orðið undir í leiðtogaslag innan síns flokks. Þó að við höfum oft orðið ósammála met ég að hún er trú sínum hugsjónum. Ennfremur kveður Marsibil Fjóla bæjarmálin nú eftir fjögurra ára setu.

Þóra Ákadóttir sem verið hefur forseti bæjarstjórnar Akureyrar allt kjörtímabilið sat í dag sinn síðasta bæjarstjórnarfund. Þóra hefur verið í forystusveit okkar sjálfstæðismanna í tvö kjörtímabil. Hún tók sæti í bæjarstjórn fyrir fimm árum er Valgerður Hrólfsdóttir lést eftir erfið veikindi. Það var okkur áfall að missa hana, en hún tapaði erfiðri baráttu fyrir ólæknandi sjúkdómi, langt um aldur fram. Þóra hefur síðan verið enn meira áberandi í forystunni og varð svo forseti bæjarstjórnar er Sigurður J. Sigurðsson hætti í bæjarmálum síðla árs 2001 og skipaði hún annað sætið á lista okkar í kosningunum 2002. Þóra hefur sinnt þessum forystuverkum með glæsilegum hætti - hún kom inn í bæjarmálin í sigursveitinni 1998 - þegar við unnum af krafti fyrir forystuskiptum. Hún kom í bæjarstjórn svo á erfiðum tímamótum fyrir flokkinn. Hún hefur stýrt bæjarstjórn með tignarlegum hætti og sett svip á fundi bæjarstjórnar.

Ég vil þakka öllum þeim bæjarfulltrúum sem sátu í dag sinn síðasta fund í bæjarstjórn Akureyrar fyrir góð verk sín í þágu Akureyrarbæjar. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir á grunnpunktum stjórnmálanna eigum við öll það sameiginlegt að vilja hag þessa sveitarfélags sem mestan. Það stefnir í miklar breytingar á bæjarstjórn eftir átján daga og verður fróðlegt að sjá hverjir muni taka sæti þeirra sem víkja á braut. Fyrst og fremst vil ég sem formaður sjálfstæðisfélags á Akureyri þakka Þóru Ákadóttur fyrir öll góðu samskiptin á þessum árum sem við höfum átt saman í flokksstarfinu hér nú þegar að hún lætur af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn hér á Akureyri. Hún er heiðurskona sem hefur verið forréttindi að vinna með - við njótum krafta hennar áfram en með öðrum hætti.


Blair reynir að snúa vörn í sókn

Tony Blair

Það leikur enginn vafi á því að tekið er að fjara undan Tony Blair í breskum stjórnmálum. Svo virðist vera að slappt gengi Verkamannaflokksins í byggðakosningum hafi veikt stöðu hans verulega. Undanfarna daga hefur komið vel fram vilji órólegu deildarinnar í flokknum að Blair tímasetji brotthvarf sitt úr pólitík. Áður hefur hann sagst hætta á kjörtímabilinu og ekki gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Nú vill þessi hópur vinstrisinnuðustu þingmanna flokksins að hann taki af skarið og ljúki öllum vangaveltum með yfirlýsingu um málið. Í dag hélt forsætisráðherrann blaðamannafund í Downingstræti 10 og svaraði andstæðingum sínum innan flokksins fullum hálsi. Hann neitaði þar af krafti að verða við þessari beiðni og storkaði andstæðingum sínum. Annaðhvort ættu þeir að hjóla í hann ef þeir væru ósáttir eða sætta sig við að hann hefði verið kjörinn af þjóðinni til sinna verka fyrir rúmu ári. Umboð sitt væri skýrt þetta kjörtímabilið.

Síðdegis hitti Blair svo þingflokkinn á fundi í þinghúsinu í Westminster og fór þar yfir stöðu mála. Mun það hafa verið átakafundur og tekist á um stöðu mála. Það vakti mikla athygli í dag að Blair hafði breytt tali sínum varðandi einn veigamikinn þátt. Í fyrsta skipti sagðist hann myndu láta af embætti vel fyrir lok tímabilsins svo að eftirmaður sinn gæti tekið sinn tíma í að setja sinn svip á flokkinn og ríkisstjórnina. Þetta er í fyrsta skipti sem Blair talar ekki með þeim hætti að hann muni sitja tímabilið á enda. Þetta er skýr áherslubreyting og gefur til kynna sátt til óánægjuaflanna um að hann muni hætta fyrr en seinna, væntanlega eftir tíu ára valdaafmælið í maí 2007 og fela Gordon Brown völdin. Það er þó alls óvíst hvort þessi sátt dugi fyrir Blair til að halda völdum. Hvort skaðinn sé orðinn meiri en lagað verði að óbreyttu. Það er altént augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður.

Blair sótti fram á blaðamannafundinum. Hann svaraði gagnrýnisröddum fullum hálsi og lét allt vaða. Hér er greinilega um að ræða einvígi milli hægri- og vinstrilínanna innan flokksins. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári. Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Athygli hefur vakið að Gordon Brown fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur.

Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil. Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins. Fyrir einum og hálfum áratug skoraði Michael Heseltine á hólm Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins í leiðtogakjöri. Afsögn Geoffrey Howe og trúnaðarbrestur hans og Thatcher veiktu mjög stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð. Svo fór að Heseltine tókst að safna nægum stuðningi til að koma í veg fyrir sigur Thatcher í fyrstu umferð og hún sagði af sér embætti þann 22. nóvember 1990 og varð undir í innri slag. Hinsvegar varð Heseltine undir í næstu umferð og varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins.

Heseltine varð þekktur sem maðurinn sem lagði Thatcher en mistókst að ná í mark pólitískt. Hann varð aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn John Major undir lok valdatíma flokksins. Minnugur þess að Heseltine varð sögulega ekki metinn neins eftir áhættu sína horfir Gordon Brown til þess að betra sé fyrir hann að Tony Blair fái að skilja við bresk stjórnmál sæll og glaður. Hann veit að sinn tími er handan við hornið en það gæti allt breyst komi til harðvítugs uppgjörs milli hans og forsætisráðherrans. Þá gæti arfleifð þeirra beggja og flokksins skaðast verulega. Það er því engin furða að Brown hiki við. Hinsvegar er öllum ljóst að hann vill að Blair hætti sem fyrst, helst innan árs svo að hann fái góðan tíma til að undirbúa sig og flokkinn fyrir kosningarnar næstu - einvígið við David Cameron og Íhaldsflokkinn.

Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný könnun YouGov sem sýnir flokkinn með lægsta fylgi sitt í könnunum þeirra í fjórtán ár, frá árinu 1992. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn hefur 29% og Frjálslyndir demókratar hafa 20%. Það er því óhætt að segja að landslagið sé breytt. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að blaðamannafundur Blairs hafi slegið á mestu gagnrýnina en ekki bundið enda á hana. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil. Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli.

Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi í sumar.


Líf og fjör í kosningabaráttunni

XD ÁFRAM!

Kosningabaráttan er algjörlega komin á fullt og í mörg horn að líta þessa dagana. Í dag eru 19 dagar til stefnu - styttist óðum í kjördag. Var kominn snemma í morgun á kosningaskrifstofu okkar sjálfstæðismanna í Kaupangi og tók til við verkefnin þar. Það er mjög skemmtilegur andi hjá okkur þar núna þegar að styttist í kjördag. Við sem vinnum uppfrá að verkefnunum erum samhentur og góður hópur sem erum einbeitt í því að vinna að því að sigur okkar verði sem mestur í kosningunum. Í hádeginu í dag var fjölmennur súpufundur með iðnaðarmönnum í Kaupangi og mikið líf og fjör þar. Flutti Kristján Þór kraftmikla og góða ræðu við það tilefni og fór yfir stöðu mála í byggingageiranum hér í valdatíð okkar á meðan að viðstaddir gæddu sér á ljúffengri súpu og góðu brauði.

Það er ekki amalegt að vinna á kafi í kosningabaráttu - enda alltaf gaman af pólitík. Það er sérstaklega gaman að hafa Sigrúnu Óla sem vinnufélaga í Kaupangi, en hún sér um eldhúskrókinn okkar - býður upp á morgunverð og sér til þess að brauðbásinn sé ávallt fullur af kræsingum og það sé heitt á könnunni. Í dag leit mikill fjöldi fólks í kaffi og var ánægjulegt að fara yfir stöðuna í pólitíkinni. Það var sérstaklega notalegt að taka sér pásu seinnipartinn í góðu spjalli við gestina sem voru hjá okkur og fara yfir stöðu mála. Það er samdóma mat þeirra sem ég hef hitt að við höfum góða stöðu og við sækjum af krafti í lokasprettinn. Það er ágætt að benda óákveðnum kjósendum á það hvort það vilji frekar öfluga stjórn okkar sjálfstæðismanna í bænum eða sundurleita stjórn minnihlutaaflanna.

Það eru 19 dagar eftir og við höldum í þetta saman og af krafti. Hvet alla til að kíkja við og fá sér kaffi hjá okkur í kosningamiðstöðinni og fara yfir pólitíkina. Þeir sem vilja spjall um pólitík og heitan og góðan kaffibolla skulu endilega líta við hjá okkur - þar er opið frá morgni til kvölds og alltaf allt á fullu. Við erum að allan daginn núna og höfum gaman af álaginu og skemmtuninni sem fylgir kosningavinnunni. Sjáumst hress!


Framboðsfrestur liðinn

Akureyri

Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 27. maí sl. rann út í gær, en þá voru þrjár vikur til kosninganna. Hér á Akureyri stefnir nú í spennandi lokasprett kosningabaráttunnar og öll framboð komin á fullt. Sex framboð skiluðu inn gildum pappírum hér á Akureyri í gærmorgun og verða því öll í boði þann 27. maí. Um er að ræða framboð Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Lista fólksins og Framfylkingarflokksins. Öll framboðin nema það síðastnefnda buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum 2002. Stefnir því í svipaðar kosningar og verið hefur og lítið um breytingar sé framboð Framfylkingarflokksins undanskilið. Það er framboð ungs fólks á Akureyri og er leitt af Hólmari Erni Finnssyni.

Að margra mati greinilega vantar rödd ungs fólks í forystu bæjarmálanna. Það vekur allavega athygli að framboð ungs fólks takist að koma á fót framboðslista og safna meðmælendum með þeim hætti sem krafist er. Það hefur ekki gerst hér áður á Akureyri að ungt fólk bjóði fram sérstaklega og vekur mikla athygli. Eftir prófkjör flokkanna hér fyrr á árinu var spurt víða hvort ungu fólki væri ekki treyst til stjórnmálaforystu og í framboð innan stóru flokkanna. Allavega vöktu prófkjörsúrslit marga til umhugsunar um þau mál. Hvort það hafi leitt eitt og sér til þessa framboðs skal ósagt látið en væntanlega hefur það haft áhrif um það að sumt þetta fólk vill sækja fram á eigin vegum og vera með framboð sem sérstaklega eigi að höfða til ungliðanna. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim muni ganga.

Það hefur verið rólegt yfir kosningabaráttunni hér. Eins og allir vita sem verið hafa hér í kringum kosningar er aðalbaráttan hér seinasta mánuðinn og einkum síðustu 20 dagana. Tel ég að þetta verði snörp og öflug kosningabarátta. Aðalátakapunktarnir virðast vera fáir, enda er stjórnarandstaðan hér frekar vopnlítil sem vart er undarlegt sé litið á stöðu sveitarfélagsins. Hjá okkur sjálfstæðismönnum hafa margir litið við á kosningaskrifstofuna og þar er góð stemmning. En nú liggur fyrir hverjir eru andstæðingarnir í þessum kosningum og pólitíska landslagið verður lítið breytt í þessum kosningum. Öll framboðin sem voru síðast fara fram aftur og eitt bætist við að auki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig lokasprettur kosningabaráttunnar spilast og hver úrslit verða eftir 20 daga.


Kveðjufundir Steinunnar Valdísar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Það eru 20 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Lokaspretturinn er víðast kominn á fullan skrið. Mörgum þykir baráttan hafa verið litlaus en frambjóðendur eru á ferð og flugi eins og vera ber. Mesti fókusinn á kosningabaráttuna er í Reykjavík. Þar sýna kannanir að Sjálfstæðisflokkurinn er á sigurbraut og vinstrimeirihlutinn sé á hverfanda hveli. Það gerist nú í fyrsta skipti í 24 ár að borgarstjórinn í Reykjavík er ekki í baráttu um að halda starfinu sínu eftir kosningar. Egill Skúli Ingibergsson borgarstjóri á vinstritímanum 1978-1982 var ráðinn sem embættismaður og framkvæmdastjóri hjá Reykjavíkurborg og allir vissu í aðdraganda kosninganna að Egill Skúli væri ekki borgarstjóraefni og hyggði ekki á áframhaldandi vist á borgarstjórastóli. Allir vissu að Davíð Oddsson og Árni Sigfússon voru borgarstjóraefni er þeir börðust fyrir því að verja embætti sín í þrem kosningum 1982-1994 og auðvitað var Ingibjörg Sólrún borgarstjóraefni R-listans í þrem kosningum. Annað er upp á teningnum nú.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir á aðeins rétt rúman mánuð eftir í embætti borgarstjóra. Það er öllum ljóst að hún getur ekki haldið embætti sínu í kjölfar þessara kosninga. Það sést vel á öllum kynningarmálum Samfylkingarinnar að Steinunn Valdís heldur sér mjög til hlés og lætur Degi B. Eggertssyni eftir sviðsljósið. Enn frekar má þetta segja um Stefán Jón Hafstein, fráfarandi leiðtoga flokksins innan R-listans, sem varla sést í kosningabaráttunni. Skilin eru skýr og kosningabaráttan er spiluð af Degi og á þeim línum sem hann vill. Samfylkingarfólk í Reykjavík vildi ekki að Steinunn Valdís yrði borgarstjóraefni og leiðtogi flokksins í kosningunum 27. maí nk. Henni og Stefáni Jóni Hafstein var hafnað í prófkjörinu og nýliða innan flokksins var lyft til skýjanna. Það er greinilegt á mörgum innan Samfylkingarinnar að þeir telja nú að vitlaust hafi verið valið í því prófkjöri og ekki hafi réttar áherslur farið í gegn. Þar hafi verið veðjað á rangan hest.

Hefði Samfylkingin í Reykjavík hugsað taktískt fyrir þeim áherslum sem ætti að skila þeim á sigurbraut í þessum kosningum hefðu þeir valið Steinunni Valdísi til forystu. Það vakti mikla athygli að flokksfélagar hennar skyldu hafna henni eftir öll hennar verk, ekki bara fyrir Samfylkinguna heldur R-listann sem heild. Reyndar má segja að það hafi verið formaður flokksins sem hafi hafnað borgarfulltrúum flokksins og sótt inn lækninn myndarlega sem talar tóma steypu - talar svo háfleygt að almenningur skilur ekki. Það sýna kannanir og það sýnir umræðan í þessari kosningabaráttu. Degi hefur mistekist að ná til fólks og Samfylkingin spilar baráttuna að mestu leyti í vörn - sækir ekki fram að neinu ráði og hefur heldur engin mál fram að færa. Ég held að Steinunn Valdís hefði verið betri kostur fyrir þá. Hún var eina manneskjan sem samstaða náðist um í borgarstjórastól þegar að Þórólfur hrökklaðist burt og vann ótrúlega vel úr vondri stöðu R-listans.

Núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna fer Steinunn Valdís um hverfi borgarinnar og fundar með borgarbúum. Þeir fundir verða vart túlkaðir öðruvísi en sem kveðjustund borgarstjórans fráfarandi með borgarbúum. Steinunn Valdís er að hætta sem borgarstjóri og verður óbreyttur borgarfulltrúi eftir kosningarnar síðar í mánuðinum. Hvíslað er um að hún stefni á þingframboð að ári og það geri einnig Stefán Jón Hafstein. Það kemur ekki neinum á óvart að heyra þennan orðróm og þau gera ekkert til að slá á hann. Það stefnir allt í skipbrot vinstrimeirihlutans eftir 20 daga í borgarstjórnarkosningum. Það búast fáir við því að borgarstjórinn fráfarandi ætli sér að verða aukapersóna í borgarstjórnarflokki leiddum af Degi B. Eggertssyni. Henni bíða tækifæri í landsmálum og væntanlega stefnir hún á þau mið með haustinu. Hvernig er hægt að túlka fundaferð hennar um borgina nú öðruvísi en sem kveðjufundi borgarstjóra sem á ekki séns á að verja sess sinn?

Það er einmitt þannig sem ber að túlka það. Vissulega er Steinunn Valdís frambjóðandi í þessum kosningum en nefnið mér borgarstjóra í Reykjavík sem hefur sætt sig við það að vera óbreyttur borgarfulltrúi í minnihluta eftir að hafa verið borgarstjóri og stefni á hærri markmið á þeim velli í náinni framtíð? Þeir eru fáir. Við megum enda svo sannarlega búast við því að þeir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sem flokksmenn höfnuðu til leiðtogavistar í borgarmálunum stefni brátt yfir Vonarstrætið í gamla grálitaða húsið við Austurvöll. Steinunn Valdís er allavega mjög líkleg til frama í landsmálum þegar að þau þáttaskil hafa átt sér stað að hún hefur pakkað niður á borgarstjóraskrifstofunni eftir mánuð og yfirgefur forystusæti sitt þar. Hún hlýtur að leita á önnur mið - söguleg dæmi eru engin enda fyrir því að fyrrum borgarstjórar hjakki lengur á þessum vellinum en þarf.

Enda hví ætti sá sem hefur verið borgarstjóri að vera varaskeifa einhvers sem hefur verið í flokknum í örfáa mánuði?


Burt með sorpritið!

DV

Rúm vika er nú liðin frá því að DV leið undir lok sem dagblað. Sannaðist þar endanlega gjaldþrot sorpblaðamennskunnar sem þar hafði verið iðkuð í rúm tvö ár. Sú brotlending var harkaleg og hvöss - duldist engum. Enn er DV gefið út sem helgarblað. Kom það í fyrsta skipti út sem slíkt í dag - ekki er byrjunin góð. Í umfjöllun í blaðinu í dag er fjallað um innflutning á eiturlyfjum og birt með skrifunum mynd af Elsu Guðrúnu Jónsdóttur frá Ólafsfirði sem er Íslandsmeistari í skíðagöngu kvenna, en hún tengist málinu ekki með neinum hætti. Fjallað er innflutning á 140 grömmum af kókaíni til landsins og stúlka á nítjánda ári sögð hafa smyglað því inn í smokkum sem faldir voru í leggöngum hennar. Stúlkan er nafngreind og tvær myndir fylgja fréttinni. Önnur er af umræddri stúlku en stærri myndin er af Elsu Guðrúnu.

Í dag sendi Skíðasamband Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem fréttaflutningur DV er harðlega gagnrýndur. Skíðasambandið harmar í yfirlýsingunni að ein helsta afrekskona landsins skuli vera bendluð við málið með því myndbirtingu af þessu tagi. Fyrirsögnin er enda: "Skíðastúlka með kókaín innvortis". Í kvöld reyndi Páll Baldvin Baldvinsson ritstjóri DV, að verja þessa myndbirtingu en harmaði mistökin auðvitað. Skýringuna sagði hann vera þá að þegar nafn hinnar grunuðu í eiturlyfjamálinu væri slegið inn á leitarsíðu á netinu væri rangt nafn með myndinni. Hann sagðist í viðtali í kvöld biðjast afsökunar en tók fram því næst að DV hyggðist birta leiðréttingu í næsta blaði að viku liðinni. Hann tók sem ritstjóri ábyrgð á birtingunni með þessum hætti. Afsakanir hans voru lélegar og klénar - voru fyrir neðan allar hellur.

Að mínu mati er hið sorglega rit DV endanlega komið í ruslið við þetta. Ekki er byrjun helgarblaðsins góð. Ég held að þetta lið sem þarna sé með þessu nær algjörlega búið að fyrirgera rétti sínum til að vinna við blaðamennsku. Ég hvet eigendur þessa blaðs að henda því endanlega. Burt með þetta sorprit!!


Mikil uppstokkun í bresku ríkisstjórninni

Tony Blair

Nokkrum klukkutímum eftir að ljóst varð að breski Verkamannaflokkurinn beið afhroð í sveitarstjórnarkosningum hefur Tony Blair forsætisráðherra, stokkað rækilega upp í ríkisstjórn sinni. Það blasti við að taka þyrfti til en flokkurinn missti tæplega 300 sveitarstjórnarfulltrúa sína um allt Bretland. Blair hefur oft stokkað upp í stjórn sinni en aldrei á níu ára forsætisráðherraferli sínum hefur hann tekið eins rækilega til í innsta kjarnanum og nú blasir við. Tveir ráðherrar eru settir á klakann og sparkað úr stjórninni og einn missir veigamikið hlutverk. Hinn umdeildi Charles Clarke innanríkisráðherra, sem bar ábyrgð á því að erlendum glæpamönnum var ekki vísað úr landi missir stól sinn og Jack Straw utanríkisráðherra, missir embætti sitt og verður forseti neðri deildar þingsins. John Prescott aðstoðarforsætisráðherra, missir veigamikinn sess sem ráðherra sveitarstjórnarmála.

Engum kom á óvart að Clarke yrði fórnað en hann var orðinn gríðarlega óvinsæll undir lokin og búinn að missa stuðning almennings og forsætisráðherrans ennfremur. Hann reyndi þó framan af að verja hann en lætur hann gossa nú eftir afhroðið í kosningunum. Clarke verður óbreyttur þingmaður nú en hann mun hafa hafnað veigaminna ráðuneyti á einkafundi með Blair snemma í morgun. Mörgum að óvörum missir Straw sæti sitt í utanríkisráðuneytinu en hann hefur gegnt embættinu samfellt nú í fimm ár, eða frá þingkosningunum í júní 2001. Straw tekur við hinu verulega veigaminna embætti þingleiðtoga í neðri deildinni. Það er vissulega ráðherraígildi en hinsvegar svo mikil stöðulækkun að eftir er tekið. Söm verða því örlög Straw og forvera hans, Robin Cook, sem varð þingleiðtogi er Blair sparkaði honum í hrókeringunni fyrir fimm árum. Cook sagði af sér því embætti með hvelli vegna Íraksstríðsins, sem olli flein milli hans og Blairs allt þar til að Cook lést í fyrra.

Í kjölfar þessa verður utanríkisráðuneytinu skipt í tvennt og munu tveir ráðherrar sinna verkum þess. Það þykja tíðindi að Margaret Beckett umhverfisráðherra, verði utanríkisráðherra. Hún tekur enda við embættinu fyrst kvenna. Flestir höfðu talið að hún væri á útleið úr breskum stjórnmálum enda verið lengi í pólitík. Hún var varaleiðtogi flokksins í leiðtogatíð John Smith 1992-1994, en hann varð bráðkvaddur þann 12. maí 1994. Beckett var starfandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins í tvo mánuði í sumarið 1994 eða þar til að Blair var kjörinn leiðtogi formlega. Beckett verður áberandi á næstunni í hinu nýja embætti sínu og er þekkt fyrir að vera trygg Blair. Geoff Hoon, sem var varnarmálaráðherra 1999-2005, mun sinna hinum hluta utanríkismálanna og verða ráðherra Evrópumála. John Reid varnarmálaráðherra, verður innanríkisráðherra í stað Clarke og við varnarmálunum tekur Des Browne aðstoðarfjármálaráðherra.

Ruth Kelly sem verið hefur menntamálaráðherra frá því í desember 2004 (tók við af Charles Clarke þar) verður ráðherra sveitarstjórnarmála og opinberrar stjórnsýslu í stað John Prescott og mun Alan Johnson viðskipta- og iðnaðarráðherra, verða menntamálaráðherra og Alastair Darling tekur við viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu af Johnson. Niðurstaðan er því mjög umfangsmikil uppstokkun sem vekur verulega athygli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Til dæmis stendur nú John Prescott eftir sem ráðherra án verkefna í raun, en það helgast af því að Blair þorir ekki að fórna honum, enda er hann honum mikilvægur. Þrátt fyrir vont hneykslismál er Prescott enn inni í stjórninni og varaleiðtogi flokksins. Blair getur ekki ráðið af krafti nema með hann sér við hlið. Reyndar blasir við eftir þetta að Blair heldur öllum andstæðingum fjarri sér með lykilfólk sitt sér við hlið.

Með þessu er Tony Blair að reyna að dreifa athyglinni frá skelfilegri útkomu flokksins í sveitarstjórnarkosningunum. Með því að láta hnífinn ganga á milli vekur hann athygli fyrir það að vera óvæginn og sýnist með því refsa jafnvel nánum samverkamönnum. Enda er niðurstaðan í dag sú að Blair fórnar lykilmönnum sínum til að halda völdum sjálfur. Það er ekki óeðlilegt að það heyrist nú að ástæða tapsins í gær sé Tony Blair sjálfur. Það sé forysta hans og hann sem stjórnmálamaður sem hafi beðið ósigur umfram allt í gær.

Það er greinilegt að mikil þreyta er komin í Blair og breskir kjósendur hafa fengið nóg af honum. Það má búast við því að uppreisnarandi rísi brátt innan órólega armsins í Verkamannaflokknum - talað verði fyrir breytingum. Jafnvel Gordon Brown fjármálaráðherra, talaði með þeim hætti í morgun að stokka þyrfti umtalsvert upp innan flokksins. Allir vissu hvert þeirri gagnrýni var beint. Það vita enda allir að Brown hefur til fjölda ára horft löngunaraugum til forsætisráðherraembættisins og viljað verða eftirmaður Blairs.

Enginn vafi leikur á að það fjarar hratt núna undan forsætisráðherranum og þrátt fyrir að hann hafi látið hnífinn ganga í marga lykilmenn stjórnar hans og fórnað þeim er honum kennt um stöðu mála. Öllum er ljóst að það styttist óðum í að hann verði að láta af embætti. Hvort að það gerist með innri uppreisn, eins og var í tilfelli Margaret Thatcher árið 1990, eða með því að hann víki sjálfviljugur er stóra spurningin. Við fáum eflaust svar við henni á næstu vikum.


Pólitískt kjaftshögg fyrir Tony Blair

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, varð fyrir gríðarlegu pólitísku áfalli, sennilega því mesta á 25 ára stjórnmálaferli sínum, í gær þegar að ljóst var að Verkamannaflokkurinn hefði beðið afhroð í sveitarstjórnarkosningum í landinu. Missti flokkurinn rúmlega 250 sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu og er orðinn smáflokkur á sveitarstjórnarstiginu. Það er af sem áður var segja eflaust sumir. Lengi vel framan af níu ára valdaferli flokksins í forystu ríkisstjórnar Bretlands drottnaði hann yfir sveitarstjórnarstiginu. Flokkurinn missti nokkuð fylgi í seinustu sveitarstjórnarkosningum vorið 2004 en afhroðið nú er heilu verra en það sem þá blasti við. Eins og við má búast eru þetta aftur á móti bestu kosningar Íhaldsflokksins í Bretlandi frá árinu 1992 og er flokkurinn mjög að styrkjast undir forystu David Cameron og bætir við sig rúmlega 250 sveitarstjórnarfulltrúum og er nú orðið langstærsta aflið í sveitarstjórnarmálum landsins.

Þessi kosningaúrslit eru án nokkurs vafa sem blaut vatnstuska framan í Blair og Verkamannaflokkinn. Það leikur enginn vafi á því að þáttaskil eru að verða í breskum stjórnmálum. Valdaferill Tony Blair mun bráðlega líða undir lok og ný ásýnd koma á Verkamannaflokkinn. Það sjá allir að Blair er orðinn akkilesarhæll flokksins en er ekki lengur segull flokksins á kjósendur. Gullaldarskeið forsætisráðherrans hefur án nokkurs vafa lokið með þessum úrslitum. Þessi mikli ósigur Blairs kemur nákvæmlega ári eftir þriðja sigur hans og flokksins í þingkosningum - sigur sem markaði súrsæt þáttaskil fyrir hann, hann varð fyrsti leiðtogi flokksins til að leiða hann til þriggja sigra í þingkosningum en hinsvegar rýrnaði meirihluti stjórnarinnar svo að órólega deildin innan hans var með oddastöðu í mikilvægum málum. Síðan hefur Blair verið allt að því í gíslingu þessara afla innan Verkamannaflokksins - það blasir alveg við.

Má búast við að umræðan magnist nú enn frekar um það nú hvort Blair muni sitja til loka kjörtímabilsins. Margoft hefur forsætisráðherrann staðfest að þetta væri hans síðasta kjörtímabil og hann myndi hætta innan þess tímaramma. Hefur verið tekist á um það seinustu mánuði hvenær að Blair muni hætta og þrýst á tímasetningu frá honum. Munu raddir þess efnis að hann verði að taka af skarið aukast til muna nú. Enginn vafi leikur á því að stjörnuljómi hans er farinn og segullinn á almenning er annar maður, fjármálaráðherrann Gordon Brown. Segja má að um lengri skeið sé Brown orðinn forsætisráðherraefni kratanna, en Blair sitji eftir til hliðar sem leiðtoginn sem sé að fara að hætta eða sé þarna en sé þarna meira punt og skraut.

Við blasir nú að til að halda velli eitthvað lengur verði Blair að stokka með róttækum hætti upp stjórn sína. Það verður tilkynnt um þá uppstokkun strax í dag. Er ekki ósennilegt að Blair muni reyna að klippa á vandræðatalið se verið hefur á fullu seinustu vikurnar. Enginn vafi leikur á að lykilástæða taps Verkamannaflokksins í þessum kosningum eru ýmis hneykslismál sem ráðherrar flokksins hafa flækst í - nægir þar svo sannarlega að nefna John Prescott og Charles Clarke. Má búast við að hitnað hafi verulega undir þeim báðum nú. Blair ætlar sér ekki að stranda í sumarveðrum stjórnmálanna í Bretlandi en að óbreyttu eru afgerandi líkur á að svo fari. Honum verður kennt um afhroð flokksins nú og stefnir í raun allt í það að þingmenn flokksins telji hann orðinn til trafala frekar en hitt og honum verði einfaldlega því skóflað í burtu vilji hann ekki fara sjálfviljugur.

Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherraferli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Ef hann situr til loka kjörtímabilsins án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í tólf ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður - hann verður 53 ára á morgun - en hann er þó orðinn mjög pólitískt mæddur. Pólitískt afhroð Verkamannaflokksins nú mun flýta verulega fyrir endalokum valdaferils Tony Blair. Afgerandi líkur eru á því að hann verði alfarinn úr Downingstræti 10 fyrir upphaf laufvindanna í haust.

Umfjöllun SKY um kosningarnar í Bretlandi


Velheppnaður pizzufundur ungliða í Kaupangi

XD ÁFRAM!

Í hádeginu í dag var haldinn á kosningaskrifstofunni okkar vel heppnaður pizzufundur fyrir ungliða. Þar mættu vel á annað hundrað ungliðar úr MA og þáðu pizzu og gos. Vorum við ungliðar í stjórn á fullu við að þjóna nemendunum í MA og halda utan um þetta allt saman. Var ég á fullu í gosdeildinni. Spjallaði ég við marga ungliða og fórum við yfir málið. Við Steingrímur Páll, ungliði frá Vopnafirði í MA, settumst svo niður eftir mesta hasarinn í pizzudeildinni og ræddum fram og til baka um stjórnmál. Var það mjög gott spjall og gaman að kynnast öflugum ungum manni með mjög mikinn áhuga á stjórnmálum. Flutti Kristján Þór ræðu við þetta tilefni og kynnti áherslur flokksins fyrir þessar kosningar. Það var góð stemmning semsagt hjá okkur í dag í Kaupangi. Vil þakka öllum sem komu fyrir skemmtilega stund saman.

23 dagar til kosninga og kosningabaráttan er algjörlega komin á fullt og kosningavinna frá morgni til kvölds. Mjög gaman. :)


Í minningu Lilju

Lilja Guðmundsdóttir nemi og frambjóðandi á lista VG hér á Akureyri lést á mánudaginn, þann 1. maí, aðeins tvítug að aldri. Lilja var að mínu mati mikil hetja. Hún barðist lengi við erfiðan sjúkdóm með ótrúlegum krafti. Persónulegur styrkur hennar í baráttunni við krabbann var öllum ljós sem með fylgdust. Mér fannst það glæsilegt hjá Lilju, mitt í veikindum sínum, að gefa kost á sér í prófkjör VG fyrr á árinu - tala fyrir pólitískum skoðunum sínum af krafti og ná góðum árangri. Skipaði hún sjötta sæti listans og hafði komið af krafti inn í kosningabaráttuna og verið áberandi með mörgum hætti. Snögglegt fráfall hennar í skugga veikindanna er mikill harmleikur og okkur öllum sorglegt sem þátt tökum í kosningabaráttunni hér. Það er sjónarsviptir að svo öflugri stelpu á borð við Lilju. Ég vil votta fjölskyldu hennar, vinum og félögum innan VG innilega samúð mína vegna andláts hennar. Minning hennar mun lifa.


Lifnar yfir grálituðum L-listanum

Oddur Helgi

Lengi hefur áhugafólk um stjórnmál á Akureyri undrast stöðu Lista fólksins sem leitt er af Oddi Helga Halldórssyni bæjarfulltrúa. Það er svosem ekki um það deilt að Oddur Helgi er vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár, og hlaut meira fylgi en lengi var spáð fyrir um. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála.

Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en t.d. Samfylkingin sem finnur sér skotfæri í fjölda mála og lætur meira á sér kræla, þó ekki hafi þau um nokkurt skeið þó átt fulltrúa í bæjarstjórn. Athygli hefur vakið að undanförnu fylgishrun Lista fólksins. Kemur það okkur sem fylgjumst með pólitík ekki á óvart enda er Listi fólksins lítið sýnilegt sem pólitískt afl. Oddur Helgi hefur oft bókað hjásetu í mikilvægum málum og komið með mjög undarlegar bókanir. Þó að Oddur Helgi mælist með þessum hætti sem sést hefur að undanförnu er þó varhugavert að afskrifa hann. Honum hefur tekist í tveim kosningum að byggja með undraverðum hraða maskínu til verka og komið sér inn í bæjarstjórn og bætti svo verulega við kjörfylgi sitt 1998 síðast.

Í dag las ég yfir stefnuskrá L-listans fyrir þessar kosningar en hún var kynnt í dag. Er mjög merkilegt að sjá hvað skoðanalaust fólk verður fullt af skoðunum rétt fyrir kosningar. Það er enda ekki furða þó að maður rekist á fólk úti í bæ sem ég veit að hefur stutt hann og er hugsi. Þegar að ég spyr hvað sé að frétta af L-listanum segir það sumt hvert: "Hversvegna ætti ég að kjósa Odd? Hann hefur ekki gert neitt." Það er ekki furða þó að sumir sem stutt hafa Odd sé orðið langþreytt á honum og framboðinu. Enda hvaða mál hefur Oddur lagt fram á tímabilinu og fyrir hverju hefur hann talað? Fátt verður um svör sé L-listafólkið spurt að þessu. Ef marka má stefnuskrá virðist þetta stefnulausa fólk milli kosninga bara hafa skoðanir rétt fyrir kosningar. Það vekur vissulega athygli.

L-listinn virðist bara vera lifandi kortéri fyrir kosningar. Það höfum við séð 1998 og 2002 - enn og aftur nú. Þetta er því ekkert nýtt svosem - við höfum sér þetta allt áður. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort að Listi fólksins og Oddur Helgi persónulega nái eitthvað að klóra í bakkann í þessum sveitarstjórnarkosningum eftir 24 daga.


Góð kosningaumfjöllun NFS

NFS

Í kvöld fylgdist ég með borgarafundi NFS á Ísafirði. Þar voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar á fylgi framboðanna þriggja fyrir kosningarnar eftir 25 daga. Þar eru í boði Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Í-listinn, sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, Frjálslynda flokksins og VG. Í stuttu máli sagt boðar könnunin þar mikil pólitísk tíðindi. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mælist þar fallinn og Í-listinn mælist með hreinan meirihluta, 5 bæjarfulltrúa af níu. Missa báðir meirihlutaflokkarnir þar mann. Það er vissulega mjög merkileg mæling á Ísafirði sem við blasir þarna. Sjálfstæðismenn hafa enda ráðið þarna för allt frá sameiningunni árið 1996 og áður á Ísafirði frá 1994 og sumpart lengur. Lengi vel var Ísafjörður rautt vígi kratanna en þær línur riðluðust með frægu sérframboði Hannibals Valdimarssonar árið 1971. Stefnir í spennandi kosningar fyrir vestan.

Mér finnst NFS eiga hrós skilið fyrir góða umfjöllun sína um þessar kosningar. Þeir hafa haldið líflega borgarafundi í stærstu sveitarfélögum landsins og kynnt landsmönnum pólitísku stöðuna. Með þessum þáttum hefur fólk getað metið betur stöðu mála víðar en bara í Reykjavík. Vissulega eru þessir þættir þeirra ekki gallalausir en þeir eru þó snörp og málefnaleg umfjöllun um hitamál kosninganna á landsbyggðinni og nauðsynleg kynning á pólitík í stórum sveitarfélögum. Þar kemur fram ekki bara pólitíkin heldur staða sveitarfélagsins svo að kjósandinn hefur stöðuna algjörlega á tæru í miðjum átökum um hitamálin. Svo mega þeir eiga það þeir Sigmundur Ernir og Egill að þeir hika ekki við að spyrja hvasst og það er tekið eftir þeirra spurningastíl. Það sem mér finnst helst að þáttunum er hversu knappir þeir eru en tala mætti mun ítarlegar um pólitíkina en raun ber þar vitni.

Það hefur lengi verið sagt að hlutverk Ríkisútvarpsins sé að tryggja eðlilega umræðu, t.d. um stjórnmál og vera til staðar fyrir landsmenn. Ekki er hægt að segja að RÚV fari vel af stað í umfjöllun um þessar kosningar eftir tæpar þrjár vikur og má frekar fullyrða að þar sé doði í umfjölluninni. Á meðan að RÚV sefur er NFS á fullu og sinnir því hlutverki RÚV að halda uppi góðri þjóðmálaumræðu. Umfjöllun RÚV um sveitarstjórnarkosningar er með daprara móti núna. Því getur enginn neitað. Undrunarefni er að RÚV sé ekki ferskara í umfjöllun og meira áberandi, enda mjög stutt í kjördag.


Tony Blair reynir að snúa vörn í sókn

Tony Blair

Níu ár eru í dag liðin frá því að Tony Blair tók við embætti forsætisráðherra Bretlands eftir sögulegan kosningasigur Verkamannaflokksins sem batt enda á 18 ára valdaferil Íhaldsflokksins. Óhætt er að fullyrða að valdaferill Blairs hafi verið stormasamur og hann hafi sannað mjög vel á þessum tíma að hann hefur haft níu líf kattarins í pólitík. Lítið er um hátíðarhöld á níu ára valdaafmælinu. Forsætisráðherrann hóf snemma í morgun kosningaferðalag um byggðir landsins vegna sveitarstjórnarkosninganna á fimmtudag. Þar stefnir allt í afhroð flokksins og reynir Blair nú allt sem hann getur til að halda fylgi flokksins stöðugu í miðjum önnum hneykslismála og vaxandi óvinsælda sem skekja stöðu flokksins sem leiðandi afls í breskum stjórnmálum. Fari sem horfir í skoðanakönnunum núna mun Verkamannaflokkurinn verða fyrir sínum mesta skelli í sveitarstjórnarkosningum í fjóra áratugi á fimmtudag.

Tony Blair má vart við skelli í kosningunum á fimmtudag. Staða hans sem þjóðarleiðtoga og ríkisstjórnar hans versnar sífellt. Óvinsældir Blairs og stjórnarinnar eru orðnar það miklar að botninum er náð. 2/3 landsmanna vilja að Blair segi af sér sem fyrst og 3/4 landsmanna telja stjórn Verkamannaflokksins spillta. Skilaboð forsætisráðherrans á kosningaferðalagi á níu ára valdaafmæli sínu er að landsmenn horfi til verka flokksins seinustu níu árin en einblíni ekki á hneykslismál seinustu daga. Engum blandast hugur um að bæði John Prescott aðstoðarforsætisráðherra, og Charles Clarke, innanríkisráðherra, eiga undir högg að sækja í kjölfar hneykslismála, sem ég fjallaði um í ítarlegum pistli á föstudag. Búist er við uppstokkun í ríkisstjórn Verkamannaflokksins á föstudag að kosningunum loknum. Úrslit þeirra munu eflaust ráða því hversu mörgum verður hent þar út. Verði skellurinn stór megi búast við að bæði Prescott og Clarke hrökklist frá.

Tony Blair virkaði mjög þreytulegur þegar að hann ávarpaði stuðningsmenn Verkamannaflokksins í Blackpool í morgun. Það blasti við á svipbrigðum hans að hann telur sig eiga mikið verk fyrir höndum. Ef marka má skoðanakannanir er fylgi flokksins víða í sveitarstjórnum að hruni komið og blasir við afhroð. Blair reynir að snúa vörn í sókn. Hvort að honum tekst það er stóra spurningin þessa stundina. Hinsvegar hefur hann ekki langan tíma. Innan við 48 klukkustundir eru til kosninganna og tíminn orðinn naumur svo vægt sé til orða tekið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband