31.5.2006 | 18:38
Skemmtilegt sumar framundan

Það er loksins komið sumar á Akureyri eftir kuldahret skömmu fyrir kosningar. Það er því loksins viðeigandi útivistar- og grillveður komið. Það varð visst tómarúm í mínu lífi rétt eins og allra annarra sem unnu að kosningunum þegar að þeim var lokið. Mikil vinna og törn var seinustu vikuna og unnið allan daginn af miklum krafti. Nú er baráttan búin og framundan hversdagslífið. Fólk er misjafnlega sátt við úrslitin hér eins og gengur. Nú standa meirihlutaviðræður af krafti og beðið niðurstaðna í því hvernig sá meirihluti líti út sem taki við stjórn bæjarins er kjörtímabili fráfarandi bæjarstjórnar lýkur formlega um miðjan næsta mánuð. Það hefur verið í mörg horn að líta hjá mér seinustu daga þrátt fyrir að kosningarnar séu afstaðnar. Þá fá vinir og ættingjar meiri tíma en áður og það er viss tilhlökkun í mér yfir þeim sumarvikum sem framundan eru. Ég ætla mér að fara víða í sumar og hafa gaman af. Fyrirhuguð er utanlandsferð og ferðir um landið.
Það er mjög gaman að fara í Kjarnaskóg núna öll kvöld og fá sér góðan göngutúr. Þar er 2,2 kílómetra gönguleið um skóginn sem virkilega notalegt er að fara. Ég fer þessa leið nú á hverjum degi. Það verður ánægjulegt næstu vikur að sjá skóginn taka við sér og fara í sumarklæðin. Það er enda fátt skemmtilegra en að sjá náttúruna taka á sig sumarblæ. Aðstaðan í Kjarnaskógi er öll til fyrirmyndar. Ég hef oft stundað það að fá mér góðan göngutúr um skóginn og slappa af um leið - það er fátt betra til afslöppunar en að fá sér góðan göngutúr og er leiðin um Kjarnaskóg tilvalin. En nú er ég semsagt staðráðinn í að labba þessa rúmu tvo kílómetra á hverjum degi. Í gær fór ég leiðina eftir kl. 21:00 enda þá nýkominn úr fimmtán ára afmæli Andreu og Berglindar. Þar voru tertur og glæsilegar veitingar eins og Hönnu er von og vísa - svo sannarlega viðeigandi að fara þessa góðu gönguleið strax að því loknu.
Ég ætla að vona að þetta sumar verði gott. Því ætla ég að eyða í útivist og ferðalögum að miklu leyti. Það er ágætt að taka sér gott frá pólitíkinni og það hyggst ég gera. Því má búast við að meiri áhersla verði lögð á kvikmyndir og pælingar án stjórnmála í sumar. Stöku sinnum skýt ég að pólitískum pælingum. Það má búast við átakalitlu pólitísku sumri og ágætt að taka því rólega í sumar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2006 | 17:40
Hægrisveifla um allt land í sveitarstjórnarmálum

Um allt land er verið að mynda meirihluta í sveitarstjórnum og mikil vinna uppi við að ná samkomulagi milli ólikra framboða um það hvernig sameiginlega sé hægt að ná samhljómi. Sögulegasta meirihlutamyndunin verður að sjálfsögðu í Reykjavík. Það hefur aldrei gerst fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn myndi meirihluta með öðrum flokki í borginni. Ennfremur er þetta fyrsta skiptið sem tveir flokkar taka höndum saman. Ég tel þetta góðan meirihluta sem mun vinna af krafti að því að nýr tími renni upp í höfuðborginni. Það sást vel á blaðamannafundi fulltrúa flokkanna síðdegis í gær fyrir utan heimili Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar verðandi borgarstjóra, að góður hugur er í fólkinu og þau eru sameinuð í því verkefni að boða nýtt upphaf í stað gamla vinstritímans undir merkjum R-listavaldabandalagsins sem heyrir nú sem betur fer sögunni til. Væntanlega mun Hanna Birna Kristjánsdóttir nú verða forseti borgarstjórnar - vel hefur komið fram að Björn Ingi framsóknarleiðtogi verði formaður í borgarráði.
Það eru mikil sárindi meðal minnihlutaflokkanna þriggja: Samfylkingar, VG og Frjálslyndra. Mikil eru sárindi Ólafs F. Magnússonar sem var í óformlegum viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Upp úr þeim viðræðum slitnaði. Það var mat sjálfstæðismanna að samhentari meirihlutamynstur væri í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Það er frekar kostulegt að hlusta á Ólaf F. tala um viðræðuslitin sem ígildi endaloka hjónabands. Saman gekk ekki og auðvitað hélt Sjálfstæðisflokkurinn áfram að fara yfir kosti. Það er bara þannig þegar mynda þarf starfhæfan meirihluta að þá þarf að skanna stöðuna vel og finna ákjósanlega samstarfsflokka sem geta stýrt af krafti. Frjálslyndir sýndu það og sönnuðu að þeir eru ekki beint hentugir í málamiðlunum í borgarmálunum og því fór sem fór. Það er eðlilegt að þeir séu ekki sáttir með hlutskipti sitt í þriggja flokka minnihluta þar sem hlutur þeirra verður mjög rýr.
Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir munu leiða minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og væntanlega skipta minnihlutafulltrúum í nefndum og ráðum milli sín á meðan að frjálslyndir sitja hjá aðeins með áheyrnarfulltrúa. Samfylkingin missir með þessari meirihlutamyndun eitt öflugasta vígi sitt í stjórnmálum. Í hádeginu í dag var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiðtogi R-listans í þrem kosningum og núverandi formaður Samfylkingarinnar, gestur Kristjáns Más í hádegisviðtalinu á NFS. Þar var Ingibjörg Sólrún að reyna að tala af stillingu um nýja meirihlutann. Mikla athygli hennar vöktu þau ummæli að viðræður Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefðu aðeins snúist um völd en engin málefni. Þetta eru undarleg orð frá formanni þess flokks sem var mest áberandi í umræðum um áframhaldandi líf valdabandalags R-listans í fyrra sem snerust bara um stólaskiptingar. Berin eru vissulega sýr fyrir ISG. En það er gleðiefni að þessi meirihluti taki brátt við í borginni.
Í Kópavogi hefur verið myndaður meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks undir forystu Gunnars Birgissonar. Mun hann verða bæjarstjóri áfram næstu fjögur árin. Í dag sagði Gunnar formlega af sér þingmennsku en hann hefur ekki verið á þingi frá því að hann varð bæjarstjóri og mun Sigurrós Þorgrímsdóttir nú verða alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í hans stað. Á Akranesi hefur verið myndaður meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Frjálslynda flokksins og mun Gísli S. Einarsson verða bæjarstjóri á Akranesi. Það eru svo sannarlega gleðileg tíðindi. Á Ísafirði hefur meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verið endurmyndaður undir farsælli forystu Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra. Í Norðurþingi stefnir í meirihluta sömu flokka og blasa við endalok vinstrimeirihlutans á Húsavík sem nú er hluti af stóru sameinuðu sveitarfélagi. Í Fjallabyggð munu sömu flokkar væntanlega vinna saman.
Nú stefnir í meirihlutamyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér á Akureyri og Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Árborg. Líst mér vel á það ef sú niðurstaða verður raunin. Sérstaklega líst mér vel á að Sjálfstæðisflokkurinn vann hreina meirihluta mjög víða. Á Seyðisfirði er bærinn blár í bak og fyrir og ástæða til að óska góðum félögum í bæ þingflokksformannsins okkar til hamingju með stöðu mála. Í Hveragerði er glæsileg staða og greinilegt að Aldís og fólkið hennar hefur unnið vel og úrslitin góð í samræmi við það. Í Eyjum er staðan eins blá og hún getur orðið og glæsilegur sigur niðurstaðan þar. Sá mæti maður, Elliði Vignisson, verður þar bæjarstjóri. Mér hefur alltaf verið hlýtt til þeirra í Eyjum og vil því senda þeim góðar kveðjur með stöðu mála.
Merkilegast finnst mér þó hversu lítið fjölmiðlar fjalla um glæsilega sigra flokksins víða um land. Þar liggja stór tíðindi þessara kosninga og því skondið að heyra talað um vinstrisveiflu með fjölda hægrimeirihluta (hreinna meirihluta) víða um land. Þar liggja megintíðindin og væri ágætt ef einhver gæti bent fjölmiðlamönnunum á þá hægrisveiflu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 21:09
Meirihlutamyndun á Akureyri

Í gær hófust meirihlutaviðræður fyrrum minnihlutaflokka í bæjarstjórn Akureyrar: Samfylkingar, Vinstri grænna og Lista fólksins. Þá settust bæjarfulltrúar framboðanna þriggja niður og fóru yfir stöðu mála. Það gerðu þeir ennfremur í dag. Í kjölfar þessara viðræðna ákvað Samfylkingin að slíta viðræðunum. Það kom mér vissulega ekkert á óvart í kjölfar falls meirihlutans um helgina að þessi öfl færu að ræða saman, þó að ég hefði alla tíð verið viss um það að þær myndu sigla í strand. Fyrir því er auðvitað ein ástæða. Mér þótti alltaf mjög fjarstæðukennt að þau tvö öfl sem bættu við sig mönnum í kosningunum myndu fara að vinna í meirihluta upp á náð og miskunn Odds Helga Halldórssonar. Framboð hans, Listi fólksins, tapaði umtalsverðu fylgi og einum manni í kosningunum. Hefði þessi meirihluti verið myndaður hefði hann haft líf meirihlutans í höndum sér og blóðmjólkað oddastöðu sína mjög kröftuglega.
Það er því engin tíðindi fyrir mig að Samfylking kasti þessum kosti fyrir borð og horfi aftur í áttina til okkar í Sjálfstæðisflokknum. Í aðdraganda kosninganna og að kvöldi kjördags ræddu leiðtogar flokkanna um möguleikana á samstarfi þeirra. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa mjög sterkt umboð til að ræða meirihlutamyndun og vinna saman á þessu nýja kjörtímabili. Þetta eru stærstu pólitísku öflin í bænum og eru með sjö bæjarfulltrúa af ellefu. Það deilir því enginn um það að yrði slíkur meirihluti myndaður yrði hann verulega sterkur. Það er því vissulega mjög í anda kosningaúrslitanna að þessi kostur sé sá sem líklegastur er til árangurs. Eins og ég hef bent á hefur þriggja flokka meirihluti eða stærri ekki verið myndaður á Akureyri frá árinu 1982 og af mjög augljósum ástæðum. Það er enda alltaf erfiðara að þoka góðum málum áfram í margra framboða meirihluta en tveggja flokka öflugum meirihluta.
Nú er því staðan sú að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ræðast við um meirihlutamyndun. Hvort að þær viðræður skili árangri og góðum sjö manna meirihluta skal ósagt látið. Að mörgu leyti tel ég þetta vænlegasta kostinn og í raun þann sem mest ómar tilfinningu bæjarbúa fyrir því hverjir skuli vera við völd. Það deilir enginn um það að Framsóknarflokkurinn og Listi fólksins töpuðu mjög í þessum kosningum og því afskaplega ósennilegt að þeir verði í meirihluta á kjörtímabilinu. Væntanlega mun krafturinn í Framsóknarflokknum á þessu tímabili fara í innri uppstokkun og endurreisn grunnstykkis flokksins. En nú halda meirihlutaviðræður áfram og við fylgjumst öll hér á Akureyri með þeim af nokkrum áhuga.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 20:04
Nýr meirihluti myndaður í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri í Reykjavík og mun taka við embætti af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þann 15. júní nk. á fyrsti fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Reykjavíkurborgar sem tveggja flokka meirihluti er myndaður í borgarstjórn. Með þessu er endi bundinn á tólf ára valdaferil félagshyggjuflokkanna í borginni í nafni R-listans. Hann bauð vissulega ekki fram í kosningunum og flokkarnir sem að honum stóðu náðu ekki meirihluta saman og því var Sjálfstæðisflokkurinn í oddastöðu. Mun Björn Ingi Hrafnsson leiðtogi Framsóknarflokksins, verða formaður borgarráðs. Er ánægjuefni að meirihluti hafi nú verið myndaður í borginni og sérstaklega hljótum við sjálfstæðismenn að fagna því að leiða borgarmálin að nýju eftir langt hlé.
Vilhjálmur Þ. hefur verið borgarfulltrúi í 24 ár, eða allt frá árinu 1982 og gjörþekkir því borgarmálin. Hann hefur leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2003 er Björn Bjarnason varð dómsmálaráðherra og vann góðan sigur í prófkjöri flokksins í nóvemberbyrjun 2005 - hlaut þar gott umboð. Vilhjálmur stýrði á tólf ára valdaferli flokksins, 1982-1994, mjög öflugum nefndum og verkefnum og hefur alla tíð verið áberandi í borgarmálunum. Það er mjög gleðilegt að hann verði nú borgarstjóri í Reykjavík og er svo sannarlega ástæða til að óska Vilhjálmi Þ. til hamingju með þessa farsælu niðurstöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Það var verkefni hans að stýra meirihlutamyndun, enda vissu allir að ekki yrði R-listadraugurinn endurvakinn að þessu loknu og lítill áhugi á því. Nú er því litið í aðrar áttir og myndaður traustur og öflugur meirihluti sem leggur til atlögu við verkefnin og gerir góða borg enn betri.
Ég vil óska góðum félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík innilega til hamingju með að vera nú loks aftur komin í forystu borgarmálanna og vona að þau vinni af krafti fyrir því að breyta borginni í það forystusveitarfélag sem hún á ávallt að vera - en hefur ekki verið í stjórnartíð vinstriflokkanna. Það er gleðiefni að vinstristjórn í borginni heyrir nú sögunni til. Það verður verkefni Vilhjálms Þ. og Sjálfstæðisflokksins að leiða borgina inn í nýja tíma. Ég mun fylgjast með þeim af miklum áhuga að því að vinna af krafti í þágu borgarbúa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 12:56
Umfjöllun um úrslit kosninganna

Í ítarlegum pistli á vef SUS fjalla ég um úrslit sveitarstjórnarkosninganna 2006 um allt land með ítarlegum hætti. Víða var mikil spenna á kosninganótt með stöðu mála og á nokkrum stöðum þurfti að vaka lengi eftir að línur skýrðust á meðan að á öðrum stöðum urðu línur strax nokkuð ljósar eða afgerandi með fyrstu tölum. Merkileg úrslit komu upp á fjölda staða og víða féllu meirihlutar og tekur nú við vinna við að mynda nýja meirihluta áður en að nýjar sveitarstjórnir taka formlega við þann 11. júní nk. er umboð fráfarandi sveitarstjórna rennur formlega út. Bendi ég lesendum á þennan pistil minn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2006 | 13:21
Meirihlutinn fellur á Akureyri

Úrslit í sveitarstjórnarkosningunum 2006 hér á Akureyri lágu fyrir á öðrum tímanum í nótt. Á kjörskrá voru 12.067 manns og atkvæði greiddu 9.461, sem þýðir að kjörsókn var 78,4%. Auð og ógild atkvæði voru 183. Mikil endurnýjun blasir við í bæjarstjórn Akureyrar. 7 nýir bæjarfulltrúar taka þar sæti og aðeins fjórir verða áfram í bæjarstjórn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum. Mestu munar þar um að Framsóknarflokkurinn galt afhroð í þessu gamla höfuðvígi sínu. Flokkurinn hlaut einn bæjarfulltrúa kjörinn en hafði þrjá áður. Sjálfstæðisflokkurinn missir nokkur prósentustig en heldur sínum fjórum mönnum. Samfylkingin hlýtur þrjá bæjarfulltrúa og bætir við sig tveim. VG bætir við sig helming frá því sem þeir hlutu árið 2002 og hljóta tvo bæjarfulltrúa í stað eins áður. Listi fólksins hlýtur einn mann kjörinn en missir annan mann sinn og helming fylgisins.
Úrslitin eru sem hér segir:
B-listi Framsóknarflokks - 1.427 atkvæði, 15,08% - 1 bæjarfulltrúi (3)
D-listi Sjálfstæðisflokks - 2950 atkvæði, 31,2% - 4 bæjarfulltrúar (4)
L-listi fólksins - 906 atkvæði, 9,6% - 1 bæjarfulltrúi (2)
O-listi Framfylkingarflokks - 299 atkvæði, 3,2% - hlaut engan (0)
S-listi Samfylkingarinnar - 2190 atkvæði, 23,1% - 3 bæjarfulltrúar (1)
V-listi VG - 1506 atkvæði, 15,9% - 2 bæjarfulltrúar (1)
Bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 skipa: Kristján Þór Júlíusson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Elín Margrét Hallgrímsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson (Sjálfstæðisflokki) - Hermann Jón Tómasson, Sigrún Stefánsdóttir og Helena Þ. Karlsdóttir (Samfylkingunni) - Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir (VG) - Jóhannes Gunnar Bjarnason (Framsóknarflokki) og Oddur Helgi Halldórsson (Lista fólksins). Úr bæjarstjórn hverfa: Þóra Ákadóttir, Þórarinn B. Jónsson, Jakob Björnsson, Gerður Jónsdóttir, Valgerður Hjördís Bjarnadóttir, Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir og Oktavía Jóhannesdóttir. Miklar breytingar blasa því við nú í bæjarstjórn.
Meirihlutinn er fallinn. Eins og við blasir nú ætlar nýr meirihluti, gamli minnihlutinn, að setjast niður og ræða meirihlutamyndun. Það eru sex fulltrúar Samfylkingar, VG og Lista fólksins. Verði slíkur meirihluti að veruleika má búast við því að Oddur Helgi verði í oddastöðu og muni nota hana sér vel sem slíkur í þeirri stöðu. Í aðdraganda þessara kosninga var mjög í umræðunni að sá möguleiki gæti verið uppi að þessi þrjú öfl gætu náð meirihlutavaldi og úr yrði þriggja arma vinstristjórn. Það blasir nú við að sá kostur verði sá fyrsti í stöðunni. Það er vissulega ekki undarlegt enda féll meirihlutinn vegna afhroðs Framsóknarflokksins en við í Sjálfstæðisflokknum héldum okkar fulltrúafjölda.
Framsóknarflokkurinn á Akureyri varð fyrir miklu áfalli. Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi flokksins í fjögur ár, sem flestir töldu að myndi nú ná inn, féll í kosningunum og við blasir allsherjar endurreisn flokksins hér í þessu gamla vígi sínu. Úrslitin eru ekki bara verulegt áfall fyrir Jóa Bjarna heldur flokkinn á landsvísu og umtalsvert tákn afhroðs flokksins um allt land. En nú blasir nýr meirihluti við hér á Akureyri og það verður að ráðast hvernig sá meirihluti líti út og hvaða staða blasir við í bæjarmálunum næstu árin.
Hver svo sem sú staða verður blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsta aflið í bæjarstjórn og er öflugasta aflið í bæjarmálunum. Út frá þeirri stöðu verður byggt hvort sem við verðum í minnihluta eða meirihluta. Við erum með fjölmennasta bæjarstjórnarflokkinn - sterkasta umboðið. Afhroð Framsóknar gæti leitt til vinstrimeirihluta hér í bæ - við sjáum til hversu vel þriggja arma vinstrihausnum gengur að berja sig saman í samningaviðræðum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2006 | 18:01
Kjördagur

Ég fór á kjörstað í Oddeyrarskóla á öðrum tímanum í dag til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Það var auðvelt og gott verk. Vissulega er áróður bannaður á kjörstað en ég hélt samt sem áður með broskarlinn minn í barminum inn í kjördeildina. Þær Kolbrún og Arna voru í kjördeildinni minni, sem er sú níunda og síðasta enda bý ég í Þórunnarstræti, og átti ég við þær létt og gott spjall. Það gekk auðveldlega að setja kross við D - bókstafinn okkar. Það var lítið sem engin biðröð í kjördeildinni minni en greinilegt er að mikil kjörsókn hefur verið hér á Akureyri í dag og um hádegið höfðu þegar 20% kjósenda mætt í Oddeyrarskóla til að kjósa. Hér er sól og blíða - veður eins og best verður á kosið. Kristján Þór og Lilla mættu á kjörstað snemma og er meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni er þau mættu til að greiða atkvæði.
Klukkan 14:00 hófst kosningakaffi okkar á Hótel KEA. Þar var mikill mannfjöldi og sannkallað líf og fjör. Konurnar í Vörn, félagi sjálfstæðiskvenna, héldu utan um kaffið með glæsibrag og svignuðu borð undan ómótstæðilegum krásum. Bendi fólki á að líta á myndir frá kosningakaffinu sem segir allt sem segja þarf um stemmninguna og fólksfjöldann.
Við erum bjartsýn á gott gengi og vonum að dagurinn í dag verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. :D
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2006 | 09:27
Sveitarstjórnarkosningar í dag

Í dag er komið að sveitarstjórnarkosningum. Nú ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa fulltrúa sína í sveitarstjórnum næstu fjögur árin. Kosningabaráttan hefur verið lífleg um allt land og nú komið að því að ljóst verði hverjir ráða för í sveitarfélögum landsins. Við ungliðar viljum við lok öflugrar kosningabaráttu minna alla ungliða á að vinna af krafti í dag til að tryggja góða útkomu Sjálfstæðisflokksins um allt land.
Sjálfstæðisflokkurinn býður fram framboðslista í 38 sveitarfélögum um land allt. Ekkert annað stjórnmálaafl í sveitarstjórnarpólitík landsins býr yfir öðrum eins krafti og býður fram nándar nærri eins marga framboðslista og hann. Yfirburðir flokksins eru því miklir á sveitarstjórnarstiginu og mun svo vonandi verða á næsta kjörtímabili. Ólíkt vinstriflokkunum er Sjálfstæðisflokkurinn óhræddur um land allt að bjóða fram nær algjörlega undir eigin merkjum enda staða flokksins sterk.
Seinustu vikur kosningabaráttunnar hafa birst hér á vef SUS pistlar um kosningabaráttuna víða um land. Birst hafa pistlar um kosningabaráttuna í Reykjavík, Akureyri, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Árborg, Mosfellsbæ, Fljótsdalshéraði, Akranesi og Vestmannaeyjum. Ég vil þakka þeim sem rituðu þessa pistla kærlega fyrir sitt framlag og áhugavert innlegg á vefinn um kosningabaráttuna á þessum stöðum.
Um land allt er kraftur í Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar. Við finnum sterka stöðu bæði í skoðanakönnunum og umræðunni á stöðunum og getum farið sigurviss inn í þessar kosningar. Eftir 15 ára samfellda forystu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum og sterka forystu á sveitarstjórnarstiginu bendir flest til þess að við getum vel við unað að loknum þessum kosningum.
:D til sigurs í dag.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 23:49
Líf og fjör á lokadegi kosningabaráttunnar

Kosningabaráttunni lauk í dag með miklum krafti. Það var líf og fjör í göngugötunni í Hafnarstræti síðdegis en þá var efndum við sjálfstæðismenn til fjölskylduhátíðar D-listans. Hún var virkilega vel sótt. Ég var á fullu með frambjóðendum að setja á pylsur og gefa fólki gos. Mér telst til að ég hafi sett á vel um 80 pylsur. Þetta var alveg frábær dagur. Sólin skein og það var virkilega jákvæð og góð stemmning í fólki. Mikill fjöldi fólks kom og þáði veitingar - grillaðar pylsur og gos. Jónsi í Svörtum fötum tók lagið við góðar undirtektir og var vel fagnað. Það hefur aldrei vantað stuðið í Jónsa og hann heillaði fjöldann með flottum söng og líflegri framkomu. Bláa bandið lék líka fyrir vegfarendur og félagar í Cirkus Atlantis voru á svæðinu. Þá var börnunum boðið upp á andlitsmálningu, happdrættismiðum var dreift og dregið á staðnum um fjölda góðra vinninga.
Aðalvinningurinn, iPod, gekk ekki út en fólk varð að vera á staðnum og framvísa miða með vinningsnúmeri. Reynt var þrívegis að koma vinningnum út, en eftir tilraunirnar þrjár var ákveðið að færa Barnadeild FSA tækið og verður það væntanlega afhent á morgun, laugardag. Stemmningin var góð, líkt og verið hefur á öðrum þeim viðburðum sem Sjálfstæðismenn hafa efnt til nú í kosningabaráttunni og undirtektir gesta sem komu við í göngugötunni voru jákvæðar. Allir í fínu skapi, enda sólin farin að skína og það eykur mönnum bjartsýni á góðan árangur á morgun, á kjördag.
Í kvöld hittumst við ungliðar svo á Kaffi Akureyri og vorum með gleðskap. Horfðum við fyrst á kappræður leiðtoga framboðanna sex sem voru á sama tíma á Aksjón og skemmtum okkur svo vel á eftir yfir léttum veigum. Það var mikill mannfjöldi á Kaffi Akureyri og lífleg stemmning - það var gaman að gíra sig upp fyrir kosningarnar þar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 13:17
Stefnir í spennandi kosningar um allt land

Kosningabaráttunni er að ljúka. Komið er að seinasta deginum í alvöru kosningabaráttu. Það stefnir í spennandi úrslit um allt land á morgun. Skoðanakannanir í Reykjavík benda til þess að ekki sé víst hvort að Sjálfstæðisflokknum takist að ná hreinum meirihluta og ráða einn í borginni næsta kjörtímabilið. Ennfremur hefur nú birst ein könnun frá sem sýnir Björn Inga Hrafnsson inni en alla kosningabaráttuna fram að því hafði hann mælst úti. Skv. könnun í Fréttablaðinu í dag stefnir í svo jafnan slag í borginni að hvert atkvæði gæti í raun skipt máli. Í Kópavogi stefnir í sigur Gunnars Birgissonar og Sjálfstæðisflokksins. Í Hafnarfirði stendur Samfylkingin að því er virðist mjög vel og er baráttan greinilega um það hvort að flokkurinn nái sjöunda bæjarfulltrúanum. Í Reykjanesbæ stefnir í öruggan sigur Sjálfstæðisflokksins undir forystu Árna Sigfússonar fyrrum borgarstjóra.
Framundan eru mikilvægar kosningar á Akureyri. Eins og kannanir hafa verið að þróast á síðustu metrum baráttunnar eru blikur á lofti. Greinilegt er að vinstriöflin hér í bæ hafa eflst að nokkru leyti - sumpart á kostnað Framsóknarflokksins, sem hér á í erfiðleikum rétt eins og víða um land. Staða okkar virðist óljósari en í fyrri tveim kosningunum. Í könnun Gallups á dögunum blasti við okkur það landslag að svo gæti farið að þriggja arma (ósamstíga og valdaþyrst) vinstristjórn gæti tekið við völdum hér að loknum kosningunum. Staða mála er nú skýr. Tveir valkostir blasa við hinum almenna kjósanda í sveitarfélaginu: annaðhvort kýs hann farsæla forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, fagmanns í forystu sveitarfélaga og öflugs bæjarstjóra, í tveggja flokka samstarfi eða þá þriggja framboða vinstrilitaða stjórn. Kjósendur hafa því skýran valkost fyrir framan sig þegar að þeir líta til forystu Sjálfstæðisflokksins hér í tæpan áratug.
Við sjálfstæðismenn ætlum að hittast í göngugötunni í dag kl. 15:30 og skemmta okkur saman. Boðið verður upp á fjölbreytt tónlistar- og skemmtiatriði, m.a. mun Jónsi í Svörtum fötum mæta á svæðið, Bláa bandið og Cirkus Atlantis auk þess sem óvæntar uppákomur verða. Andlitsmálning verður fyrir börnin og fólk fær gefins happdrættismiða, en glæsilegir vinningar verða dregnir út á staðnum, m.a iPod nano og gsm-símar. Þá geta gestir satt hungur sitt með pylsum, gosdrykkjum og vatni. Sjálfstæðisfólk sem og aðrir eru hvattir til að koma við í göngugötunni síðdegis og spjalla við frambjóðendur sem verða á staðnum.
Hittumst hress í dag! :D
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 00:29
Kosningaumfjöllun um Akureyri

Í kosningapistli dagsins á vef SUS fjalla ég um kosningabaráttuna og pólitíkina hér á Akureyri í aðdraganda kosninga. Greinin er í röð fjölda annarra þar sem formenn og forystufólk ungliða víða um land fara yfir kosningabaráttuna hjá flokknum.
Kosningaumfjöllun SFS um Akureyri
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 23:22
Jónas Örn sigrar í Meistaranum
Frændi minn, Jónas Örn Helgason, vann í kvöld spurningakeppnina Meistarann á Stöð 2. Hann náði glæsilegum sigri gegn Ingu Þóru Ingvarsdóttur í þættinum en hann tók mikla áhættu undir lokin og missti stig en náði samt sem áður að vinna keppnina. Hann tók keppnina með miklu trompi og vakti athygli fyrir að vera snöggur að svara og hafa mikla kunnáttu í spurningafimninni. Jónas Örn er eins og fyrr segir náfrændi minn, en afi hans er Árni Helgason frá Stykkishólmi. Árni og mamma eru systkinabörn. Þátturinn Meistarinn var mjög spennandi og það er gott að heyra að framhald verði á þættinum næsta vetur. En þetta var flottur sigur hjá Jónasi og ég óska honum til hamingju með milljónirnar fimm og vona að strákurinn ávaxti þær vel. :)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 22:31
Sleifarlag Ríkisútvarpsins í kosningaumfjöllun

Í upphafi vikunnar tókust leiðtogar framboðslistanna sex í kosningunum hér á Akureyri á um málefni kosningabaráttunnar í Kastljósi Sjónvarpsins. Mikla athygli vakti að leiðtogarnir þurftu í miðjum klíðum seinustu viku kosningabaráttunnar að gera sér ferð suður á land til að takast á um kosningamálin. Fundurinn var enda tekinn upp í myndveri Sjónvarpsins í Efstaleiti en ekki hér á Akureyri eins og í kosningunum 1998 og 2002 þegar að fréttamenn Sjónvarpsins hér nyrðra ræddu kosningamálin hér fyrir norðan á heimavelli. Nú var Eyrún Magnúsdóttir spyrill í þættinum - manneskja sem enga sérstaka þekkingu hefur á bæjarmálum hér eða hefur sett sig af alvöru inn í málin. Það verður að segjast alveg eins og er að Eyrún stóð sig ekki vel og þátturinn var í raun hvorki fugl né fiskur. Þar var rætt um málin með nokkuð undarlegum hætti og Eyrún hafði enga alvöru yfirsýn yfir umræðuna og var þátturinn frekar slappur fannst mér.
Það er mjög undarlegt að ekki sé hægt að taka þennan þátt upp hér fyrir norðan og láta þá fréttamenn sem fjalla dags daglega um bæjarmálin í fréttum stjórna þætti af þessu tagi eins og ávallt hefur verið gert. Það vekur mikla athygli í aðdraganda þessara kosninga hvernig að NFS hefur gjörsamlega valtað yfir Ríkisútvarpið í öllu umfangi og heldur mun betur um pakkann. Það er tákn nýrra tíma að NFS fari út á land og ræði sveitarstjórnarpólitík við leiðtoga framboðslistanna á heimavelli. Ríkisútvarpið hefur gjörsamlega brugðist í þessu nú og fer ekki út á land til að ræða pólitíkina á stöðunum. Það er óneitanlega tekið eftir þessu verklagi RÚV.
Á hátíðarstundum er oft talað um menningarhlutverk RÚV og að það sé svo mikilvægt til að standa vörð um landsbyggðina. Það er því skondið að sjá að RÚV leggur sig ekki eftir því að ræða sveitarstjórnarpólitíkina á heimavelli með þeim hætti sem best hentar. Það er frekar slæmt fyrir RÚV að geta ekki staðið sig betur og auðvitað vekur þetta þá spurningu hvort að svæðisfréttamönnunum sé ekki treyst fyrir því að stjórna svona umræðu í Kastljósi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 20:12
Baráttukveðjur sendar austur

Ég er eins og flestir vita með taugar austur á land. Ég fylgist því auðvitað spenntur með því hvernig félögum mínum í Fjarðabyggð muni ganga í kosningunum á laugardag. Þar er öflugur og góður framboðslisti og mikið líf og fjör í baráttunni. Ég hef fylgst með baráttunni þeirra úr fjarska og litist vel á. Þar eru flokksmenn að berjast fyrir því að þriðji maður á lista, Jens Garðar, nái inn. Skv. könnunum er það góður möguleiki og sumar kannanir sýnt reyndar jafna stöðu Sjálfstæðisflokksins og Fjarðalistans. Aðalkosningamálið er án nokkurs vafa mikilvægi betri samgangna milli Eskifjarðar og Norðfjarðar - íbúar vilja ný göng - og öll framboð vilja þau sem fyrst. Það er auðvitað mikilvægt að tryggja að þau komi til sögunnar þegar að göng um Héðinsfjörð hafa orðið að veruleika.
Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ritar góða grein um málið í Moggann í gær og fer yfir það frá sinni hlið. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir síðustu kosningar lýsti ég því yfir, að ég mundi berjast fyrir því af alefli að í Norðfjarðargöng yrði ráðist. Niðurstaða er ekki komin í þau mál, en ég tel þau brýnust þeirra ganga, sem nú eru í
undirbúningi. Til skýringar hef ég stundum tekið dæmi af Súgandafirði og þær breytingar sem urðu vestra við jarðgangagerðina þangað. Ætli Súgfirðingar gætu hugsað sér í dag, að 630 metra fjallvegur skildi á milli þeirra og Ísafjarðar? Ætli það."
Ég tek undir þessi orð Halldórs og vona að þessi göng verði að veruleika sem fyrst til hagsbóta fyrir íbúana í hinni nýju Fjarðabyggð, enda eru gömlu Oddskarðsgöngin löngu orðin barn síns tíma. Þegar að foreldrar mínir bjuggu á Eskifirði voru deilur um legu ganganna og margir töldu þá að lega þeirra myndi verða átakamál síðar. Faðir minn vann við framkvæmdina og alltaf er gaman að ræða við hann um málið. Hann hefur reyndar sagt, sem er auðvitað rétt, að göngin hafi orðið úreld um leið og þau urðu til, enda voru þau aldrei viðunandi. Ég endurtek baráttukveðjur austur og vona að þau vinni góðan sigur á laugardag.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 11:54
Spennandi kosningabarátta á seinustu metrunum

Nóg hefur verið um að vera í kosningabaráttunni hér á Akureyri í dag og seinustu daga og baráttan komin á endasprett, enda aðeins tveir sólarhringar í að kjörstaðir opni. Margir fundir eru í gangi og svo er alltaf líf og fjör í kosningamiðstöðinni okkar í Kaupangi. Eftir hádegi í gær fórum við sem erum í kosningabaráttu flokksins á Glerártorg til að ræða við kjósendur og kynna stefnu okkar og verk flokksins á seinustu árum fyrir fólki. Voru þarna fulltrúar allavega þriggja framboða að labba um og spjalla við fólk. Við vorum fjölmenn á Glerártorgi og höfðum með okkur nægar birgðir af góðum D-mintutöflum og fersku blávatni sem mæltist vel fyrir hjá þyrstu afgreiðslufólki sem og viðskiptavinum sem gjarnan tóku með sér birgðir heim.
Það var virkilega gaman að vera þarna og spjalla við fólk, hitta marga sem maður þekkir og hefur ekki séð lengi - fara svo yfir pólitísku stöðuna við þá sem áhuga hafa á pólitík. Vatnið rann út algjörlega - fólk vildi ræða margt og var virkilega gaman að sjá hversu vel okkur var tekið. Nú er kosningabaráttan á sínum síðustu metrum og mikilvægt að ná til sem flestra kjósenda með boðskap okkar. Það urðu allir hressir við að drekka vatnið enda er blávatnið okkar fyrsta flokks. Nú eru framundan seinustu 48 klukkutímarnir og mikil vinna framundan á endasprettinum við að ræða við fólk og kynna því bæði verk okkar í átta ár við forystu og þau verk sem við ætlum að koma í framkvæmd næstu fjögur árin.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2006 | 19:35
Sjónlistaverðlaunin kynnt

Sjónlistaverðlaun verða veitt árlega frá og með árinu í ár. Í dag kynnti Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar, þau markmið sem liggja til grundvallar verðlaununum. Sex listamenn hafa verið tilnefndir til verðlaunanna, þrír fyrir myndlist: þær Hildur Bjarnadóttir, Katrín Sigurðardóttir, Margrét H. Blöndal og þrír fyrir hönnun, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir auk Margrétar Harðardóttur og Steve Christer (Studio Granda). Í haust munu tvo þeirra hljóta há peningaverðlaun auk Sjónlistarorðunnar 2006.
Á kynningarfundinum voru ráðherrarnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Halldór Blöndal alþingismaður, Ingi Björnsson útibússtjóri GLITNIS og margir fleiri. Þessi góða mynd var tekin af Halldóri, Kristjáni Þór, Þorgerði Katrínu og Sigrúnu Björk við þetta tilefni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2006 | 09:07
Undarleg afstaða Samfylkingarinnar

Afstaða Samfylkingarinnar í útboðsmálum hefur vakið nokkra furðu bæjarbúa í þessari kosningabaráttu og þykir frekar bera nokkurn vott um sovéska fortíðarhyggju en þá framsæknu nútímalegu jafnaðarstefnu sem flokkurinn vill almennt kenna sig við á hátíðarstundum. Samfylkingin vill sumsé draga stórlega úr útboðum eða jafnvel hætta þeim alveg og taka með því stórt skref í átt að alræði hins opinbera. Þessi skoðun Samfylkingarinnar kom vel fram í máli oddvitans, Hermanns Jóns Tómassonar, á fundi í framkvæmdamiðstöð Akureyrar á þriðjudagsmorgun og einnig sést hún í pistli á heimasíðu flokksins á Akureyri.
Nú fer líklega hrollur um smærri verktaka og einyrkja og viðbúið að margir þeirra leggja upp laupana ef bærinn hættir að bjóða út verk. Í framtíðinni verða væntanlega öll verk unnin af bæjarstarfsmönnum nema þeim verði úthlutað til flokksgæðinga fylkingarinnar án útboðs. Annað sem fram kom á sama fundi var að Samfylkingin ætlar að endurskoða laun starfsmanna og endurmeta á hverjum vinnustað fyrir sig. Gefið er sterklega í skyn af frambjóðendum að í vændum séu verulegar launahækkanir. Sömu vilyrði sýnist mér að megi lesa í stefnuskrá framboðsins.
Í sömu stefnuskrá kemur fram að Samfylkingin ætlar að efla þjónustu sveitarfélagsins á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum og alveg burtséð frá því hvort þörf er á því eður ei. Það er hinsvegar hvergi gert ráð fyrir auknum tekjum til að standa undir útgjaldaaukningunn og allir vita að ef eytt er meira en aflað er getur sá leikurinn einungis farið á einn veg. Það er augljóst, sýnist mér, að hér sé á ferðinni reynslulaust fólk í pólitík sem aldrei hefur komið nálægt eða borið ábyrgð á rekstri. Önnur útskýring finnst varla á ábyrgðarleysinu sem þarna kemur fram.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2006 | 23:47
Líf og fjör í kosningabaráttunni

Leiðindaveður hefur verið hér seinustu daga og sannkallað vetrarríki á hávori. Þrátt fyrir það er mikill kraftur í kosningabaráttunni nú þessa seinustu daga og unnið frá því snemma á morgnana þar til seint á kvöldin. Það er því mikið um að vera og miklar annir jafnt hjá frambjóðendum sem og þeim sem eru í kosningamiðstöðinni og sinna þeim verkum sem máli skipta í spennandi kosningabaráttu. Mér finnst vera kraftur í okkar fólki eftir skoðanakönnunina sem birtist á laugardag og við erum sammála um það að vinna sameinuð fyrir góðum árangri um helgina.
Margir hafa lagt leið sína í kosningamiðstöð okkar sjálfstæðismanna í Kaupangi. Þar er mikið rætt um pólitík og skemmtileg vinna í gangi. Þrátt fyrir kuldatíðina, á þeim tíma sem ætti að vera hvað fallegastur í tilefni vorkomu, eru margir að koma og allir sameinaðir í að tryggja góða útkomu á laugardag. Ég hvet alla sem vilja koma til okkar að líta inn og fá sér kaffi og ræða málin. Allar fréttir af kosningabaráttu og ýmsar upplýsingar eru á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna hér í bæ.
Ég bendi sérstaklega á grein mína sem birtist á Íslendingi í dag og ég hvet alla lesendur til að líta á hana.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2006 | 23:01
Sigrún Björk fertug

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, sem skipar annað sæti framboðslista okkar sjálfstæðismanna við kosningarnar á laugardag, er fertug í dag. Haldið var upp á afmælið með léttum brag yfir kaffi og afmæliskringlu í kosningamiðstöðinni í morgun. Vegna anna kosninganna heldur hún ekki upp á afmælið formlega fyrr en að kosningunum loknum. Ég vil óska Sigrúnu Björk innilega til hamingju með afmælið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2006 | 22:27
Mikil hreyfing á fylginu í Reykjavík

Í kvöld birtist þriðja raðkönnun Gallups. Staðan í henni er mjög merkileg svo ekki fastar að orði kveðið. Gríðarlegar sveiflur eru á fylgi og staðan gjörsamlega galopin. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð bæta við sig fylgi á meðan að Samfylkingin tapar miklu fylgi milli daga. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 47% og fær flokkurinn því hreinan meirihluta, 8 borgarfulltrúa af 15. Fylgi VG mælist nú 16% og fær flokkurinn 2 fulltrúa en litlu munar að flokkurinn fái þriðja fulltrúann. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 24,9% og fær flokkurinn 4 borgarfulltrúa samkvæmt því - hafði t.d. sex borgarfulltrúa tæpa á sunnudag eins og fram kom hjá mér hér í gær. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist tæp 7% og fær flokkurinn 1 fulltrúa en fylgi Framsóknarflokks mælist 4,7% og fær enn engan mann kjörinn.
Þetta eru miklar sveiflur sem þarna sjást og vekur fólk til umhugsunar um það að hvert atkvæði skiptir í raun máli. Í gær mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 45% en mældist 43% á sunnudag. Fylgi Samfylkingarinnar var í gær rúm 27% en var 32% í könnun Gallup á sunnudag. VG mældist með tæplega 15% fylgi í gær en var með 11% á sunnudag. Fylgi Frjálslynda flokksins mældist 8,1% í gær en var um 10% í sunnudag. Framsóknarflokkurinn var með 3,9 í könnun á sunnudag en mældist með 4,2% í gær. Þetta er merkileg staða og ljóst að stefnir í mjög spennandi kosninganótt um helgina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)