Halldór hættir - ný ríkisstjórn tekur við

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum laust eftir hádegið. Þar kvöddu þrír ráðherrar ríkisstjórn landsins og í staðinn komu aðrir þrír sem aldrei áður hafa verið í ríkisstjórn. Á fundinum lét Halldór Ásgrímsson af forsætisráðherraembætti. Brotthvarf hans úr ríkisstjórn markar endalok stjórnmálaferils hans en hann hefur nú verið í ríkisstjórn samtals í rúm 19 ár og hefur aðeins dr. Bjarni Benediktsson verið lengur ráðherra en hann. Það eru vissulega þáttaskil þegar að Halldór hverfur úr ríkisstjórn, enda hefur hann verið ein helsta burðarás þessarar ríkisstjórnar sem annar flokksleiðtoginn sem myndaði fyrsta ráðuneyti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar árið 1995. Samstarf flokkanna hefur verið mjög traust og leikur enginn vafi á því að sterk pólitísk tengsl Halldórs og Davíðs mörkuðu undirstöðu vel heppnaðs samstarfs.

Nú eru bæði Davíð og Halldór horfnir á braut úr ríkisstjórn og nokkur þáttaskil blasa nú sérstaklega við í skugga formannsskipta í Framsóknarflokknum. Nú er það nýrra forystumanna að stjórna samstarfinu og leikur enginn vafi á því að Geir er vel að forsætinu kominn, enda hefur hann nú verið ráðherra samtals í heil átta ár og nýtur bæði mikilla vinsælda og trausts landsmanna. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er nú orðinn starfsaldursforsetinn í ríkisstjórninni en hann er eini ráðherrann frá upphafsári núverandi samstarfs, árið 1995, sem er enn í ríkisstjórn. Hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom aftur í stjórnina að loknu rúmlega árshléi og þá sem dómsmálaráðherra. Næstlengst hefur setið Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Allnokkrar mannabreytingar hafa orðið á kjörtímabilinu en það helgast auðvitað verulega af því að margir ráðherranna hafa ákveðið að hætta þátttöku í stjórnmálum, flestir þeirra eftir langan stjórnmálaferil.

Engar breytingar verða nú hjá okkur sjálfstæðismönnum á ráðherraliði, utan þess að Sigríður Anna hættir eins og flestir vita. Inn koma Magnús Stefánsson, Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz. Magnús er vel kominn að því að verða félagsmálaráðherra - hann var lengi sveitarstjórnarmaður og hefur verið þingmaður nær samfellt frá árinu 1995. Hann var reyndar utan þings 1999-2001 en kom inn við brotthvarf Ingibjargar Pálmadóttur úr stjórnmálum. Hann er leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Jónína Bjartmarz hefur verið á þingi frá því að Finnur Ingólfsson hætti í stjórnmálum og varð seðlabankastjóri við árslok 1999. Hún hefur lengi verið talin vænlegt ráðherraefni og oft verið spáð að hún komi inn í stjórn. Jón Sigurðsson tekur svo sæti í ríkisstjórn og verður fimmti ráðherrann frá fullveldisstofnun sem ekki er þingmaður samhliða því.

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde

Stærstu tíðindi þessa ráðherrakapals tengjast einmitt Jóni Sigurðssyni og svo auðvitað Valgerði Sverrisdóttur. Jón kemur inn í stjórn við merkilegar aðstæður. Mikið er talað um, eins og ég minntist á hér fyrr í vikunni, að hann verði eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli. Það verður allavega að teljast klókt fyrir Halldór að velja Jón til ráðherrastarfa - bæði er hann tengdur innstu kjörnum flokksins bæði fyrr og nú og hefur ólíka skírskotun og margir þingmenn flokksins. Hann er ekki tengdur neinum innanflokkserjum og er vissulega mjög traustur maður og fer í verkefni síns ráðuneytis í skugga mikilla átaka um stórmál. Það mun mikið reyna á hann og vissulega verður mjög fylgst með honum í sínum verkum, enda er hann ráðherra utan þings og hefur því bæði allt aðra stöðu en ella. Verði hann formaður síns flokks mun hann fá aðra vigt en ella í pólitísku samhengi. Það verður því mikið fylgst með verkum Jóns á ráðherrastóli.

Valgerður Sverrisdóttir er nú orðin fyrsta konan á utanríkisráðherrastóli. Hún er fyrsta konan í sögu landsins sem situr við borðsendann, nær forsetanum, á ríkisráðsfundi. Hennar staða er því söguleg og vert að óska henni til hamingju til það. Mörgum er þó sennilega spurn um hvernig utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir muni verða. Hún er mun Evrópusinnaðri en tveir forvera sinna og hefur ekki útilokað aðildarviðræður og talaði sérstaklega opinskátt í þeim efnum á flokksþingi Framsóknarflokksins í ársbyrjun 2005 og studdi umdeilda tillögu þar um að flokkurinn hefði ESB-aðild sem stefnu að loknu þessu kjörtímabili. Valgerður mun ekki verða áberandi í varnarviðræðunum eins og fram hefur komið og fylgja þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra, áfram. Valgerður hefur jafnan þótt vera ákveðin og það gustar af henni. Það verður vissulega merkilegt að sjá hvernig henni muni vegna í ráðuneyti og hverjar áherslur hennar verða.

Eins og fyrr segir verða að mínu mati allnokkur þáttaskil núna þegar að Halldór Ásgrímsson víkur af ráðherrastóli og úr hringiðu íslenskra stjórnmála, enda hefur hann verið í forystusveit lengur en ég man eftir mér. Hann varð fyrst ráðherra árið 1983 og hefur verið formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980. Að baki er því langur stjórnmálaferill. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og á að baki meira en þriggja áratuga þingsetu. Íslendingar, sem standa á þrítugsaldri eða eru yngri, muna ekki eftir íslenskum stjórnmálum án Halldórs Ásgrímssonar. Það er því alveg ljóst að nokkur þáttaskil blasa nú við þegar að hann hverfur úr sviðsljósi stjórnmála. Það er alveg greinilegt af fréttaviðtölum dagsins að Halldór og Sigurjóna, eiginkona hans, hlakka mjög til að geta lifað sínu lífi án stjórnmálanna. Í góðu viðtali á NFS í dag talaði Sigurjóna um þessar breytingar og mátti greina að hún væri alsæl með þessa stöðu mála.

Halldór Ásgrímsson

Það mátti greina mikinn létti á Halldóri Ásgrímssyni í dag er hann hætti sem ráðherra. Það er langt síðan að hann hefur verið eins glaður og hress að mínu mati. Það var sem þungu fargi af honum létt. Hvernig svo sem sagan mun meta forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar er það hiklaust mitt mat að stjórnmálaferill hans hafi bæði verið langur og glæsilegur - hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum í ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.


Hnossgæti kvikmyndasögunnar

Bogie og Bergman í Casablanca

Á plássinu mínu á Myspace var ég að skrifa niður uppáhaldskvikmyndirnar mínar. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður og fór að rita þær helstu - listinn varð auðvitað alltof langur. Allar eiga þessar myndir sameiginlegt að ég á þær og hef alltaf gaman af. Þetta eru algjörar perlur - þeir sem eitthvað þekkja mig sennilega vita að ég er sérstaklega hrifinn af gullaldarmyndum sögunnar. Þetta eru myndir af öllum skeiðum, þó að hinar eldri njóti sín frekar sennilega. Læt listann hérmeð gossa á bloggið mitt.

The African Queen, All About Eve, Annie Hall, Apocalypse Now, Ben-Hur, The Big Sleep, Bonnie And Clyde, The Bridge On The River Kwai, Casablanca, Chinatown, Vertigo, Citizen Kane, City Lights, Dr. Strangelove, E.T., Easy Rider, The Godfather I og II, The Gold Rush, Breakfast at Tiffany´s, Gone With The Wind, The Graduate, The Grapes of Wrath, High Noon, It Happened One Night, Jaws, The Kid, Lawrence of Arabia, The Maltese Falcon, Midnight Cowboy, Mr. Smith Goes to Washington, North By Northwest, Notorious, On The Waterfront, One Flew Over The Cuckoo's Nest, Psycho, Raging Bull, Rear Window, Rebecca, Fight Club, Kill Bill I og II, Rebel Without a Cause, Roman Holiday, Schindler's List, Shane, Singin' In The Rain

Some Like It Hot, The Seven Year Itch, Stagecoach, Star Wars (pakkinn), A Streetcar Named Desire, Sunset Boulevard, Taxi Driver, To Kill A Mockingbird, Top Hat, 2001: A Space Odyssey, Vertigo, West Side Story, The Wizard of Oz, Alien, Lord of the Rings (pakkinn), The Apartment, Mystic River, The Deer Hunter, Fargo, The French Connection, From Here to Eternity, GoodFellas, The Hustler, Manhattan, Network, Pulp Fiction, The Silence of the Lambs, To Be or Not to Be, Lost in Translation, The Usual Suspects, La Vita é Bella, The Insider, Shawshank Redemption, American Beauty, Airplane!, American History X, All the King's Men, Crouching Tiger - Hidden Dragon, The Sixth Sense

JFK, Born on the Fourth of July, Crimes and Misdemeanors, Hannah and her Sisters, Five Easy Pieces, Missing, Forrest Gump, All the President´s Men, Braveheart, As Good as it Gets, Pink Panther (pakkinn), Giant, East of Eden, The Pianist, Il Postino, Casino, The Great Dictator, Key Largo, L.A. Confidential, The Matrix, Patton, Four Weddings and a Funeral, Saving Private Ryan, The Shining, Good Night and Good Luck, Munich, Walk the Line, Million Dollar Baby, Sideways, Quiz Show, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, In the Name of the Father, Collateral, The Killing Fields, A Few Good Men, Bananas, Kramer vs. Kramer

Back to the Future, Die Hard, Beetlejuice, Batman, Memento, Edward Scissorhands, Holiday, Jackie Brown, Raiders of the Lost Arc, Vertigo, Apocalypse Now, The Sting, Sin City, Raising Arizona, The Big Lebowski, Terminator, Magnolia, Ed Wood....

Einhverju gleymi ég en þetta eru myndir sem mér finnst ómissandi og þessar eru allar í safninu mínu. Þeir sem vilja fara á plássið mitt á MySpace smelli á þennan tengil. Það fyrsta sem mætir þeim sem þangað líta fyrir utan myndina af mér er saxófónstefið yndislega úr Taxi Driver - síðasta kvikmyndatónverk meistara Bernard Herrmann. Algjört hnossgæti þetta flotta stef.


Halldór hættir sem forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun taka við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Mun Halldór Ásgrímsson þá láta af embætti eftir að hafa leitt ríkisstjórn landsins samfellt í 21 mánuð. Hann varð forsætisráðherra þann 15. september 2004, er Davíð Oddsson hætti sem forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu í embættinu. Mun Halldór láta af formennsku Framsóknarflokksins á flokksþingi hans um miðjan ágústmánuð og hætta þá þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferil. Mun staða mála innan ríkisstjórnar nú verða eins og fyrir forsætisráðherraskiptin árið 2004: Framsóknarflokkur tekur að nýju við utanríkis- og umhverfisráðuneyti og Sjálfstæðisflokkur fær forsætið. Eftir breytingarnar verða því báðir flokkar að nýju með sex ráðherra.

Geir H. Haarde verður sextándi forsætisráðherra Íslands á lýðveldistímanum. Geir nam í Bandaríkjunum. Hann hefur BA-próf í hagfræði frá Brandeis-háskóla, ennfremur MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá Johns Hopkins-háskóla og að auki MA-próf í hagfræði frá Minnesota-háskóla. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1981-1985. Geir hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1987. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1998 og kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1999. Geir varð formaður flokksins og utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum haustið 2005. Allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa með þessu setið á forsætisráðherrastóli. Enginn hefur gegnt embættinu lengur en Davíð Oddsson árin 1991-2004.

Enginn vafi leikur á því að þáttaskil verða við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Halldór hefur setið á þingi nær samfleytt frá árinu 1974. Hann var á þingi fyrir Austurlandskjördæmi 1974-1978 og aftur 1979-2003. Frá 2003 hefur hann verið alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður, en hann færði sig um set við kjördæmabreytinguna. Halldór varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Halldór hefur setið í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og varð að lokum forsætisráðherra allt frá haustinu 2004.

lesa meira af pistli á vef SUS


Svanfríður verður bæjarstjóri á Dalvík

Svanfríður Inga Jónasdóttir

Meirihlutaskipti urðu í bæjarstjórnum um allt land í gær á fyrsta fundi sveitarstjórna sem kjörnar voru 27. maí sl. Í gær tók því nýr meirihluti Framsóknarflokks og J-lista óháðra við völdum í Dalvíkurbyggð af fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sá meirihluti féll í kosningunum en óhætt er að segja að hann hafi fengið þar nokkurn skell. Fyrir því eru margar ástæður sjálfsagt en ég get ekki neitað því að árangur Sjálfstæðisflokksins í Dalvíkurbyggð var langt frá því viðunandi og uppstokkun blasir þar við. Ég vona að félögum mínum þar gangi vel í verkum sínum næstu fjögur árin og komi sterkir og öflugir til næstu kosninga. Á fundinum í gær var Svanfríður Inga Jónasdóttir, fyrrum alþingismaður, ráðin bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð til næstu tveggja ára. Þá verður auglýst eftir bæjarstjóra - frá þeim tíma og út kjörtímabilið verður ráðið í starfið skv. tilnefningu Framsóknarflokks.

Bjarnveig Ingvadóttir, oddviti Framsóknarflokks, verður forseti bæjarstjórnar, en Anna Sigríður Hjaltadóttir, fulltrúi óháðra, verður formaður bæjarráðs. Ég gæti eflaust sagt margt um þennan meirihluta, enda hef ég mínar skoðanir á honum sem ég tel að flestir viti nokkuð vel um. En ég ætla að geyma það til betri tíma. Ég ætla fyrst og fremst að sjá til hvernig þessum meirihluta muni ganga við verk sín. Svanfríður hefur oft viljað verða bæjarstjóri og tekst það nú. Er það svosem ekki óeðlilegt enda hlaut framboðslistinn sem hún leiddi afgerandi flest atkvæði og gott umboð. Það er því eðlilegt að hún fái tækifæri til að gegna þessu embætti. Það er þó greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð, sem hafnaði henni sem bæjarstjóraefni við slit eldri meirihlutans árið 2004 og leiddi til þess að hann var endurreistur, treystir henni ekki meira en svo að hún verði bæjarstjóri aðeins hluta kjörtímabilsins, þó algjörlega ný sé í embættinu.

Ég þekki Svanfríði Jónasdóttur mjög vel. Hún var til fjölda ára kennari minn í Dalvíkurskóla, bæði fyrir og eftir að hún var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu. Ég veit sem er að hún er vinnusöm og metnaðarsöm um þau verkefni sem hún vinnur að. Hún var afbragðskennari og ég tel að hennar besta hilla í lífinu hafi verið kennslan enda naut hún sín vel í þeim geira, áður en hún tók sæti á Alþingi. En nú verða þáttaskil hjá Svanfríði enn eina ferðina. Það er vonandi að fyrrnefndir mannkostir hennar nýtist vel í þeirri virðingarstöðu sem hún hefur verið kjörin til. Málefnasamningur meirihlutaflokkanna lofar góðu enda fullur af fögrum fyrirheitum, eins og vinstrimanna er von og vísa jafnan.

Það verður fróðlegast vissulega að sjá hvort að þessir listar geti stjórnað af krafti og af ábyrgð næstu fjögur árin í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar. Fyrst og fremst vil ég óska Svanfríði til hamingju með embættið og óska henni heilla í verkefnum sínum næstu tvö árin.


Nýr meirihluti tekur við á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum í bæjarstjórn Akureyrar í dag á fyrsta fundi sínum á kjörtímabilinu. Fundurinn var líflegur og voru skiptar skoðanir uppi á málefnasamningi meirihlutaflokkanna og fóru fulltrúar minnihlutans: Jóhannes G. Bjarnason, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir yfir skoðanir sínar í ítarlegu máli og voru um margt mjög ósátt og nefndu þar til fjölda atriða. Það er svosem eðlilegt og ekkert nýtt að minnihluti sé ósáttur við meirihlutann. Það eru eðli stjórnmála. Starfsaldursforseti, Oddur Helgi Halldórsson, stýrði fundi framan af enda sá bæjarfulltrúi sem lengst hefur þar setið, eða seinustu 9 árin. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna, var síðan kjörin forseti bæjarstjórnar og tekur hún við af Þóru Ákadóttur sem var forseti frá árinu 2002. Ég vil óska Sigrúnu Björk innilega til hamingju með forsetatignina.

Kristján Þór Júlíusson var endurráðinn bæjarstjóri á fundinum. Hann hefur nú verið bæjarstjóri á Akureyri samfellt í heil átta ár og er níundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarbæjar. Hann hefur nú gegnt embættinu lengst frá því að Helgi M. Bergs var bæjarstjóri hér í áratug, 1976-1986. Tveir aðrir, Magnús Guðjónsson og Bjarni Einarsson, voru bæjarstjórar í níu ár samfellt. Lengst á bæjarstjórastóli í sögu sveitarfélagsins hafa setið fyrstu tveir bæjarstjórarnir, þeir Jón Sveinsson og Steinn Steinsen. Jón sat í 15 ár, 1919-1934, en Steinn sat í heil 24 ár, 1934-1958. Bæjarstjóratal má finna hér. En þessi fundur var um margt helst formlegur og aðeins fór fram kjör í eina nefnd, bæjarráð. Hinar nefndir bíða til næsta fundar þann 20. júní. Kjör í bæjarráð af okkar hálfu hlutu Sigrún Björk Jakobsdóttir og Elín Margrét Hallgrímsdóttir.

Framundan eru væntanlega lífleg fjögur ár í bæjarstjórn og verður áhugavert að fylgjast með verkum meirihlutans og þeim sem leiða munu sveitarfélagið á þessu kjörtímabili.


Valdaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Valdaskipti urðu í borgarstjórn Reykjavíkur á fyrsta fundi borgarstjórnarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þá tók nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völdum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, var kjörinn borgarstjóri í Reykjavík til næstu fjögurra ára og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, var kjörin forseti borgarstjórnar. Er þetta í fyrsta skipti sem tveir flokkar starfa saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 1982 og leitt borgarstjórnarflokk hans frá árinu 2003. Hanna Birna hefur setið í borgarstjórn frá árinu 2002. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokks, verður formaður borgarráðs og formaður íþrótta- og tómstundaráðs og mun verða í forsvari Faxaflóahafna. Gísli Marteinn Baldursson verður formaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, formaður samgöngu- og umhverfisráðs og formaður stjórnkerfisnefndar.

Formennska í öðrum nefndum mun skiptast milli fimm borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og varaborgarfulltrúa Framsóknarflokks. Kjartan Magnússon verður formaður menningar- og ferðamálaráðs. Júlíus Vífill Ingvarsson verður formaður menntaráðs. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir mun taka við formennsku í leikskólaráði og Jórunn Frímannsdóttir verður formaður velferðarráðs. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, verður formaður framkvæmdaráðs. Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, tekur við formennsku í Orkuveitu Reykjavíkur af Alfreð Þorsteinssyni sem hefur gegnt formennsku í orkufyrirtækjum borgarinnar frá árinu 1994, alla valdatíð R-listans sáluga. Guðlaugur var stjórnarmaður í Orkuveitunni allan borgarfulltrúaferil sinn 1998-2006. Sjálfstæðismenn fara með formennsku í stjórn Orkuveitunnar fyrri hluta tímabilsins og framsóknarmenn í stjórn Faxaflóahafnar. Þetta snýst við eftir 2 ár.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, kynntu málefnasamning Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á blaðamannafundi í dag. Sérstaka athygli vekur í málefnasamningi flokkanna að boðuð er að ákvörðun um legu Sundabrautar verði tekin á þessu ári, hafin verði strax vinna við skipulag nýrra hverfa í Geldinganesi, Úlfarsfelli, Örfirisey og Vatnsmýri hefjist strax og stefnt er að sérstöku hreinsunar- og fegrunarátaki í hverfum borgarinnar í sumar. Stefnt er að auki að undirbúningi byggingar 300 nýrra leigu- og þjónustuíbúða fyrir eldri borgara á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir að áætlun um bætta heimaþjónustu og fjölgun dagvistarrýma liggi fyrir í haust og undirbúningur verði hafinn að umtalsverðri fjölgun hjúkrunarrýma á kjörtímabilinu. Það er því óhætt að segja að verkin séu nú látin tala og framundan gott kjörtímabil fyrir borgarbúa undir styrkri stjórn nýs meirihluta.

Það er ánægjulegt að lesa málefnasamning meirihlutaflokkanna, enda eru þar skýr verkefni og skýrar leiðir boðaðar í því sem framundan er. Kjörorð hins nýja meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur er: Hugsum stórt, horfum langt og byrjum strax!. Þetta eru góð orð sem veganesti inn í öfluga vinnu og greinilegt að nýjir og spennandi tímar eru framundan í Reykjavíkurborg undir styrkri stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra í Reykjavík, og félaga hans í meirihlutanum.

Málefnasamningur meirihlutans í Reykjavík


Valdatíma R-listans lokið í Reykjavík

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Kjörtímabili borgarstjórnar Reykjavíkur lauk í gær eins og allra annarra sveitarstjórna landsins. Eins og flestir vita rennur umboð sveitarstjórna ekki út fyrr en 15 dögum eftir sveitarstjórnarkosningar. Þá lauk formlega borgarstjóraferli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ljóst var alla kosningabaráttuna að hún yrði ekki borgarstjóri áfram að kosningum loknum. Hún varð borgarstjóri við mjög merkilegar aðstæður í desember 2004 við afsögn Þórólfs Árnasonar, sem hrökklaðist frá vegna olíumálsins margfræga, en hann hafði verið markaðsstjóri ESSO á dögum samráðsins umdeilda. Steinunn Valdís var eini borgarfulltrúinn innan R-listans sem gat orðið samstaða um sem borgarstjóra þá. Hún gegndi embættinu í átján mánuði. Hún sóttist eftir leiðtogastöðu Samfylkingarinnar í prófkjöri í febrúar 2006 en tapaði, rétt eins og Stefán Jón Hafstein, fyrir Degi B. Eggertssyni. Mikla athygli vakti að báðum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar var hafnað fyrir óháðum borgarfulltrúa R-listans.

Það skal fúslega viðurkennt að Steinunn Valdís stóð sig um margt ágætlega á borgarstjórastóli. Hún vann til dæmis sem borgarstjóri við mjög erfiðar aðstæður seinustu mánuði valdaferilsins, enda öllum ljóst að hún væri hvorki borgarstjóraefni Samfylkingarinnar né leiðtogi flokksins lokasprettinn og hafði ekki umboð til verka að loknu kjörtímabilinu óháð því hvaða meirihluti færi með völd. Það hafði ekki gerst í 24 ár að borgarstjóri þurfti að búa við slíkan pólitískan veruleika, eða frá því að Egill Skúli Ingibergsson, embættismaður sem borgarstjóri sat í vinstrimeirihlutanum 1978-1982. Það var öllum ljóst alla kosningabaráttuna að Egill Skúli yrði ekki áfram borgarstjóri. En þetta var einsdæmi miðað við að Steinunn Valdís hefur verið borgarfulltrúi í tólf ár og því vissulega pólitískur borgarstjóri. Það verður að segjast alveg eins og er að henni tókst vel að vinna úr málum þrátt fyrir þessar undarlegu og um margt sögulegu aðstæður í borginni.

Nú er saga R-listans öll og valdatíma hans er lokið. Nú er líka borgarstjóralaust í Reykjavík en valdatíma Steinunnar Valdísar lauk eins og fyrr sagði á miðnætti á laugardagskvöldið. Nú er Helga Jónsdóttir borgarritari, starfandi borgarstjóri. En það breytist allt á morgun er nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekur við völdum og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tekur við embætti borgarstjóra. Vilhjálmur Þ. þekkir borgarmálin vel - hann er starfsaldursforseti borgarstjórnar og átt þar sæti allt frá árinu 1982. Það verður fróðlegt að sjá hann taka til verka eftir valdatöku nýs meirihluta. Þá loksins verður sterkur og öflugur borgarstjóri í Reykjavík með skýrt og öflugt umboð til fjögurra ára, en slík staða hefur ekki verið uppi síðan að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var steypt af stóli innan R-listans fyrir rúmum þrem árum.


Meirihlutaskipti í bæjarstjórn framundan

Bæjarfulltrúar meirihlutaflokkanna

Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur við völdum í bæjarstjórn Akureyrar á morgun á fyrsta fundi tímabilsins. Eins og venjulega stýrir starfsaldursforseti fundi og kosinn er bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar. Nú horfir svo við að Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi L-listans, er starfsaldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar. Hann kom fyrst í bæjarstjórn árið 1997 sem aðalmaður af hálfu Framsóknarflokksins, eftir að hafa verið fyrsti varamaður þeirra í bæjarstjórn 1994-1997. Þá var Framsókn með fimm bæjarfulltrúa og ráðandi stöðu - það er óhætt að segja að þeir dagar séu liðnir. Árið 1998 urðu slit milli aðila - flokksmenn vildu ekki stilla Oddi Helga upp í öruggt sæti. Hann fór því í sérframboð á eigin vegum undir merkjum Lista fólksins og gerði það einnig í kosningunum 2002 og 2006. L-listinn fékk einn mann 1998, tvo árið 2002 en missti annan manninn nú og helming fylgisins.

Á föstudag kynntu bæjarfulltrúar meirihlutaflokkanna málefnasamning Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem samþykktur var á flokksfundum kvöldið áður. Það er mjög margt spennandi framundan sé miðað við þennan málefnasamning. Þar kemur m.a. fram ný nefndaskipan þar sem gert er ráð fyrir að jafnréttis- og fjölskyldunefnd ásamt áfengis- og vímuvarnarnefnd verði sameinaðar í fjölskylduráð sem einnig mun fara með tómstundamál; stofnuð verður ný nefnd, umhverfisnefnd, sem fer með sorpmál og málefni núverandi náttúruverndarnefndar; menningarmálanefnd verður lögð niður en menningarmál ásamt málefnum sem tilheyra kynningar- og markaðssetningu, atvinnumálum og ferðaþjónustu verða sett undir Akureyrarstofu. Stjórn Akureyrarstofu verður skipuð fimm fulltrúum bæjarstjórnar. Starfsemi og skipulag stofunnar verður nánar útfært í samvinnu við hagsmunaaðila á Akureyri.

Í málefnasamningnum eru skilgreind meginmarkmið meirihlutaflokkanna. Aðgerðaáætlun fyrir framkvæmd samningsins verður unnin í september. Þar verða einstök verkefni skilgreind, tímasett, kostnaðarmetin og þeim forgangsraðað. Merkilegast að mínu mati er að Akureyrarbær mun draga sig út úr Sorpsamlagi Eyjafjarðar b/s og stofna hlutafélag ásamt fyrirtækjum til að annast sorpförgun, bygging íþróttahúss við Giljaskóla, markviss lækkun leikskólagjalda (þau hafa verið þau lægstu hér og verða áfram), skattar lækkaðir á atvinnurekstur með lækkun holræsagjalds á árinu 2007, almenningssamgöngur verða gjaldfrjálsar frá 2007, bæði hjá Strætis­vögnum Akureyrar og í Hríseyjarferju, bærinn mun beita sér fyrir því að vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hefjist árið 2007 og unnið verður að því ásamt ráðuneyti að lengja flugbraut Akureyrar­flugvallar og að hér verði útflutningsflughöfn.

Mér líst vel á verkefnin framundan og tel að framundan sé sterkur og öflugur meirihluti í bæjarstjórn sem mun keyra málin áfram og tryggja öfluga og sterka forystu fyrir sveitarfélagið. Það er svo sannarlega gleðiefni.

Málefnasamningur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar


Óvænt pólitísk innkoma Jóns Sigurðssonar

Jón Sigurðsson

Enginn vafi leikur á því að stærstu tíðindin í ráðherrakapal Framsóknarflokksins sé innkoma Jóns Sigurðssonar, seðlabankastjóra, inn í forystusveit Framsóknarflokksins. Jafnvel fyrir nokkrum dögum, í hita og þunga innanflokksátakanna í Framsóknarflokknum, hefði fáum órað fyrir því að Jón Sigurðsson kæmi fram á sviðið og yrði ráðherra í öflugu ráðuneyti sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vissulega er. Það er þó öllum ljóst að Jón Sigurðsson er alinn upp innan samvinnukerfisins og hefur verið víða í forystusveit innan flokksins en ávallt algjörlega á bakvið tjöldin. Jón er náinn persónulegur vinur Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, og skólabróðir hans, og var ráðgjafi Steingríms Hermannssonar meðan hann var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra á sínum tíma. Jón var í innra starfi ungliðahreyfingar flokksins og varaformaður SUF um tíma og mjög áberandi í innri verkefnum í flokkskjarnanum.

Þegar að Jón Sigurðsson var skipaður í embætti seðlabankastjóra haustið 2003 var lítið tekist á um það og nokkur samstaða um þá ákvörðun Davíðs Oddssonar að skipa Jón til verka. Jón hafði mjög farsælan feril að baki og verið algjörlega óumdeildur sem seðlabankastjóri og þekktur fyrir grandvarar og íhugular athugasemdir um viðskiptamálin og staðið sig vel að mjög mörgu leyti í því sem öðrum verkefnum. Í öllum störfum hans í Seðlabankanum í þrjú ár hefur hann verið talinn fagmaður á sviðinu og ekki verið með neinum hætti dregið þar inn í fyrri stjórnmálastörf hans fyrir Framsóknarflokkinn og eða flokksvist hans fyrir Framsóknarflokkinn. Það er greinilegt mat Halldórs Ásgrímssonar og þingflokks Framsóknarflokksins að sækja hann til verka í ráðuneytið vegna þekkingar sinnar. Ég tel að hans innkoma muni í senn bæði styrkja Framsóknarflokkinn og ljá deilumálum í þessu ráðuneyti annan blæ en verið hefur.

Það er enginn vafi að það styrkir Jón Sigurðsson í forystusveit Framsóknarflokksins að koma þar inn til verka algjörlega nýr. Að því leiðir að Jón hefur nákvæmlega engar tengingar inn í þær valda- og átakaerjur sem staðið hafa innan flokksins um langt skeið. Það sást enda vel er stjórnarandstaðan talaði um innkomu Jóns að þar gátu þeir ekkert illt fundið og hann hefur nákvæmlega enga pólitíska fortíð sem andstæðingar ríkisstjórnar og Framsóknarflokks geta fundið til að hamra á. Mikil neikvæðni hefur verið um góð verk í ráðuneytinu sem Jón tekur bráðlega við og að mörgu leyti ráðist að Valgerði Sverrisdóttur með frekar lágkúrulegum og óverðskulduðum hætti. Nú fer Valgerður eins fjarri þessum málum og mögulegt getur orðið og lykilmál ráðuneytisins persónugerast í nýjum ráðherra - sem enga fortíð hefur í innanflokkserjum Framsóknarflokksins og kemur nýr til verka úr farsælum verkefnum.

Á laugardaginn voru Guðjón Arnar Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Lúðvík Bergvinsson gestir Þórhalls Gunnarssonar og Sigmars Guðmundssonar í aukafréttatíma þar sem fréttir komu um ráðherrahrókeringarnar. Þar kjaftaði á þeim hver tuska áður en fregnir komu um ráðherrakapal Framsóknarflokksins. Minntu þeir í neikvæðu blaðri sínu mjög greinilega á hina nöldrandi tvímenninga á svölunum í Prúðuleikurunum sem allt hafa á hornum sér og eru gegnumsýrðir í neikvæðnisblaðri. Er vissulega raunalegt fyrir menn eins og þá að hýrast endalaust í stjórnarandstöðu en t.d. hefur Steingrímur verið í stjórnarandstöðu í 20 af þeim 23 árum sem hann hefur setið á Alþingi Íslendinga. Í viðtalinu var nöldrað fram og til baka um stólaskiptingar og öll vandræði R-listans sáluga greinilega gleymd í þeim pælingum. Er fréttin um ráðherratign Jóns Sigurðssonar, seðlabankastjóra, varð ljós mátti greina óróa í nöldurpúkunum.

Í gær var Jón Sigurðsson gestur Róberts Marshall í ítarlegu viðtali í þættinum Pressunni á NFS. Mér fannst Jón koma verulega vel fyrir þar og tala af skörungsskap og eiginlega finnst mér hann færa stjórnmálin á annað plan með innkomu sinni. Hann hefur gríðarlega mikla þekkingu á mörgum verksviðum og nýtur virðingar langt út fyrir Framsóknarflokkinn með verkum sínum. Það læðist mjög að manni sá grunur að Jón Sigurðsson sé ekki bara að koma inn til verka í ríkisstjórn sem bráðabirgðaráðherra fram til næstu kosninga. Hann ætlar að segja af sér embætti seðlabankastjóra og láta af því og víkur af braut þeirra verkefna. Mér finnst það blasa mjög við að hann ætlar að koma til verka á nýjum vettvangi af fullum krafti. Tel ég augljóst eftir viðtalið í gær að hann muni sækjast eftir formennsku í Framsóknarflokknum og leiðtogastöðu Halldórs Ásgrímssonar í Reykjavík norður.

Verði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins, eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás seinustu daga blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það er klókt af Halldóri Ásgrímssyni að velja Jón Sigurðsson til verka, enda hann engum tengdur í innri valdaátökum innan Framsóknarflokksins og getur boðað nýja tíma fyrir flokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur tengingar til hins gamla Framsóknarflokks og getur fært þeim nýja forystu á mikilvægum tímum.

Það er því ljóst að mínu mati að innkoma Jóns Sigurðssonar í ráðherrahóp Framsóknarflokksins boðar mikil tíðindi - það er vel þess vert að fylgjast með þeim næstu mánuðina. Verði Jón formaður í sínum flokki blasa sannkölluð þáttaskil þar við. Það er held ég öllum ljóst.


Valgerður verður utanríkisráðherra

Valgerður Sverrisdóttir

Er ráðherrakapall Framsóknarflokksins opinberaðist að fullu í dag varð ljóst að Valgerður Sverrisdóttir verður utanríkisráðherra og lætur af embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hún hefur gegnt í hálft sjöunda ár. Það er sögulegt að Valgerður verði utanríkisráðherra, enda verður hún fyrsta konan sem gegnir því embætti hérlendis. Ennfremur verður Valgerður fyrsta konan í lykilráðuneyti ríkisstjórnar Íslands. Hér fyrr í vikunni spáði ég því að Valgerður yrði sá ráðherra Framsóknarflokksins sem myndi veljast til setu í þessu lykilsæti flokksins. Það gekk eftir og kemur held ég fáum í raun á óvart, þó að flestir hafi eflaust talið að fjármálin kæmu í hlut flokksins. Þótti mér þó alltaf líklegra að þeir fengju utanríkismálin og þar yrði Valgerður valin til verka. Hún hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka.

Valgerður Sverrisdóttir er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Hún hefur alla tíð verið náin pólitískur samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar og fullyrða má að enginn hafi staðið nær honum innan þingflokks Framsóknarflokksins á stjórnmálaferli hans en hún - jafnvel mun frekar en Finnur Ingólfsson. Þessi þrjú mynduðu nýtt valdabandalag í flokknum undir lok formannsferils Steingríms Hermannssonar og létu vaða í þá átt að gera flokkinn að sínum. Það gerðu þau svo sannarlega eftir að Steingrímur hætti og fór í Seðlabankann á sínum tíma og Halldór varð formaður. Henni var alla tíð treyst fyrir lykilembættum þar: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og sú önnur, síðar þingflokksformaður og loks viðskiptaráðherra - þar varð hún fyrsta konan á stóli rétt eins og nú verður raunin í utanríkisráðuneytinu.

Á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum á fimmtudaginn, eftir að Halldór hefur horfið á braut úr forystusveit ríkisstjórnar, mun Valgerður taka sæti við borðsendann gegnt Geir H. Haarde verðandi forsætisráðherra, og við hlið Ólafs Ragnars Grímssonar. Engum dylst að þetta er hápunktur hennar ferils fram að þessu og markar tilfærsla hennar í þetta ráðuneyti endanlega staðfestingu þess hversu mjög Halldór treystir Valgerði Sverrisdóttur. Valgerður og Halldór hafa verið eins og systkin í stjórnmálum. Það hefur alltaf mátt treysta því að þegar að Valgerður talar af krafti um pólitík er hún að óma áherslur og skoðanir Halldórs. Hún hefur allt frá því að hún tók sæti á þingi árið 1987 verið lykilstuðningsmaður Halldórs og ötull baráttumaður hans. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Spurt hlýtur að vera nú hvort upphefð hennar leiði til formannsframboðs.

Valgerður hefur verið þingmaður okkar hér í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt kom hún alltaf fram sem sigurvegari. Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Hún vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu. Hún hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára.

Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Eftir stóð Halldór Blöndal sigursæll sem leiðtogi kjördæmisins - það var gleðileg kosninganótt fyrir okkur en framsóknarmenn sátu eftir fúlir í gömlu lykilvígi. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Valgerður var mjög skapvond þessa kosninganótt og sagði í viðtali við Gísla Sigurgeirsson á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki gott af því að fá svona góða útkomu er við blasti og ætti enga innistæðu fyrir því. Var hún mjög þung á brá og skaut í allar áttir svo frægt varð.

Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Henni tókst að klúðra málum austur í Mývatnssveit svo eftir var tekið og Mývetningar höfðu á orði að Valgerður myndi sennilega ekki sjást þar fyrr en færi að styttast í næstu kosningar. Margt fleira mætti telja t.d. útboð við viðgerðir á varðskipunum sem sliguðu mjög Slippinn. En það er ekki pláss til að telja allt upp sem fólk talar um hér. En nú er spurning hvernig Framsóknarflokknum gengur í Norðausturkjördæmi að ári. Ef marka má kannanir hefur flokkurinn tapað miklu fylgi og sér sennilega ekki fyrir endann á því. Það verður fróðlegt hvort söguleg upphefð Valgerðar nú breytir stöðunni fyrir hana.

Valgerður Sverrisdóttir er eins og fyrr sagði mikil kjarnakona að mínu mati. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins. Það má spyrja sig að því nú hvort utanríkisráðherrann Valgerður Sverrisdóttur hafi metnað og áhuga til forystustarfa í Framsóknarflokknum er fóstbróðir hennar í stjórnmálum yfirgefur forystu flokksins. Það kemur bráðlega í ljós.

Ég vil óska Valgerði Sverrisdóttur til hamingju með utanríkisráðherraembættið og óska henni allra heilla í verkum sínum í ráðuneytinu.


Ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni

Geir H. Haarde verðandi forsætisráðherra

Tilkynnt var í dag um skipan ráðherra í ríkisstjórn frá og með 15. júní nk. er Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, lætur af embætti forsætisráðherra. Formenn flokkanna gengu hratt og örugglega frá því verki að loknum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við embætti forsætisráðherra og verður sextándi forsætisráðherrann á lýðveldistímanum. Geir var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1981-1985. Hann hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1987. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1998 og kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1999. Hann varð formaður flokksins og utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum haustið 2005. Mikið gleðiefni er að formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, taki að nýju við forsætinu.

Miklar breytingar verða á ráðherrastólum af hálfu Framsóknarflokksins. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tekur við embætti utanríkisráðherra af Geir H. Haarde. Hún verður fyrsta konan sem gegnir því embætti. Valgerður hefur setið á þingi frá árinu 1987 og verið iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá brotthvarfi Finns Ingólfssonar úr stjórnmálum í árslok 1999. Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri, verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra í stað Valgerðar. Hann verður fyrsti maðurinn til að gegna ráðherraembætti án þess að vera þingmaður frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra 1988-1991. Jón hefur til fjölda ára verið virkur í starfi Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hann og verið seðlabankastjóri frá árinu 2003. Mikill orðrómur er um hlutverk Jóns í stjórnmálum, en við öllum blasir að hann er traustur og öflugur maður sem nýtur virðingar langt út fyrir raðir Framsóknarflokksins.

Jón Kristjánsson hættir sem ráðherra á sama tíma og Halldór Ásgrímsson og lætur af embætti félagsmálaráðherra. Jón tilkynnti jafnframt um það að hann ætli ekki að gefa kost á sér í þingkosningum að ári en verður óbreyttur þingmaður til næsta vors. Magnús Stefánsson tekur við embætti félagsmálaráðherra í stað Jóns. Sæunn Stefánsdóttir mun taka sæti á þingi við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. Sigríður Anna Þórðardóttir víkur úr ríkisstjórn og fær Framsóknarflokkurinn því að nýju umhverfisráðuneytið. Jónína Bjartmarz mun taka við því ráðuneyti. Óbreytt skipting verður að hálfu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, utan þess að Sigríður Anna fer út úr stjórn og Geir verður forsætisráðherra. Það eru mikil vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn að missa Sigríði Önnu úr ríkisstjórn. Hún hefur unnið af heilindum og af krafti alla tíð í þeim verkefnum sem henni hefur verið treyst fyrir.

Þessi ríkisstjórn er mynduð á sama grunni og fjórða og síðasta ráðuneyti Davíðs Oddssonar, sem sat frá vori 2003 til haustsins 2004. Styrkleikar flokkanna eru eins nú og var í stjórnarmyndun vorið 2003, utan þess að Gunnar Örlygsson fór úr Frjálslynda flokknum og kom til liðs við okkur sjálfstæðismenn. Það er að mörgu leyti eðlilegt að snúa til þess kerfis og ljúka kjörtímabilinu með þeim hætti og það hófst. Það eru mikil vonbrigði eins og fyrr segir að missa Sigríði Önnu úr ríkisstjórn, en það skrifast vissulega á þessar hrókeringar og afturhvarf til þess hvernig hlutirnir voru fyrir 15. september 2004. Mér finnst mikill sjónarsviptir af Sigríði Önnu Þórðardóttur úr ríkisstjórn við þessi ráðherraskipti.

Fyrir mestu er að nú hafi náðst full samstaða um ráðherraskipan að loknum forsætisráðherraskiptum og tel ég stöðu mála mjög viðunandi hvað varðar stjórnarsamstarfið sem slíkt. Þar hefur allri óvissu um skipan ráðherra verið eytt og öllum ljóst hvað tekur þar við eftir brotthvarf Halldórs. Eftir stendur óvissa um forystu Framsóknarflokksins - sem er mál framsóknarmanna og engra annarra. Verður fróðlegt að sjá hvernig staða Framsóknarflokksins verður að loknu flokksþingi í ágúst þar sem ný forysta mun taka við flokknum.


Andi sáttagjörðar á yfirborðinu í Framsókn

Halldór Ásgrímsson

Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman til fundar kl. 16:00 í dag. Fundarefnin voru aðallega tvenn: ákvarðanataka um tímasetningu flokksþings og umræða um stöðu flokksins í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, um að hætta í stjórnmálum eftir þriggja áratuga stjórnmálaferil. Það dylst engum að flokkurinn hefur logað í óeiningu og átökum í mjög langan tíma, en þau náðu hámarki þó í kjölfar þess að Halldór tilkynnti ákvörðun sína á Þingvöllum á mánudag, annan dag hvítasunnu. Fá sem engin fordæmi eru fyrir svo rosalegum innri átökum þar sem gengu yfir í vikunni. Við sjálfstæðismenn höfum horft á þessi hjaðningavíg framsóknarmanna í fjölmiðlum og verið undrandi yfir stöðunni. Aðalspurningin hvað okkur varðaði sneri að því hvort Framsóknarflokkurinn væri tækur til að vera í ríkisstjórn nú um stundir. Lengst af vikunnar var erfitt að svara þeirri spurningu játandi, enda flokkurinn greinilega klofinn í herðar niður.

Í gærkvöldi hittust Halldór og Guðni Ágústsson á heimili Halldórs í Breiðholti til að fara yfir stöðu mála. Lauk þeim fundi með fullum sáttum þeirra á milli. Þeir kynntu þar þá sameiginlegu tillögu sína að flýta flokksþingi og það yrði haldið þriðju helgina í ágústmánuði, helgina 18. - 20. ágúst nk. Á fundinum var ennfremur þingflokkurinn og lýsti hann yfir stuðningi við tillögu þeirra. Niðurstaða fundarins var sú að hvetja til sátta í flokknum og vinna áfram á þeim forsendum að ná yfirhöndinni yfir þá óeiningu sem öllum var ljós. Hún var ekki bara að veikja flokkinn, heldur einnig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hefur unnið að mörgum framfaramálum frá 1995. Enginn vafi er á því að gott samstarf Halldórs og Davíðs Oddssonar fyrrum forsætisráðherra, hafi verið burðarás samstarfsins. Í skugga formannsskipta í Framsóknarflokknum lék vafi á að sá stöðugleiki væri til staðar og farið var að ræða um þingkosningar fyrr en ella vegna stöðunnar.

Blasir við að framsóknarmenn hafi ákveðið að slíðra sverðin og reyna að landa málinu með farsælli lausn innbyrðis. Annað var ekki í stöðunni fyrir þá. Fundurinn fór enda mjög vel fram og þar var sáttatónn í loftinu. Sást það vel í viðtölum við bæði Guðna Ágústsson og Siv Friðleifsdóttur, sem skipa forystu flokksins með Halldóri, að þar voru komnar á sættir. Hvort þær sættir séu bara til málamynda eður ei kemur fljótlega í ljós. Formaður flokksins flutti langa ræðu á þessum fundi og fór yfir stöðu mála. Þar lagði hann út af trausti og samheldni - án þessa tveggja gæti Framsóknarflokkurinn ekki lifað áfram og sótt fram í kosningum að ári. Greinilegt er að honum sárnar mikill trúnarbrestur innan forystu flokksins, sem von er. Mér fannst Halldóri mælast vel. Það er alveg ljóst að bestu ræður ferils síns hefur Halldór flutt í hópi félaga sinna. Halldór hefur leitt Framsóknarflokkinn með nokkrum krafti og haft mjög sterkt umboð til þess verkefnis.

Halldór talaði til flokksmanna og landsmanna allra með heilsteyptum hætti. Hann talaði af næmleika og tilfinningu, einkum undir lokin er hann þakkaði flokksmönnum fyrir samstarf og trúnað í gegnum árin. Hvað svo sem segja má um Halldór og forystuhæfileika hans er aldrei hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur. Mér sýnist reyndar endir ferilsins ráðast nú að miklu leyti að því hvernig til tekst á næstu vikum - þeim tíu vikum sem eru til flokksþings Framsóknarflokksins er hann mun láta formlega af formennsku í Framsóknarflokknum. Eigi þessi flokkur að vera samstarfshæfur fyrir Sjálfstæðisflokkinn þarf þar að vera almennilegt andrúmsloft og hann þarf að líta út sem samstarfshæft stjórnmálaafl en ekki pólitískur vígvöllur - sem er því miður sú mynd sem hefur blasað við stjórnmálaáhugamönnum.

Það virðist vera sem svo að nú ríki meiri samhljómur innan Framsóknarflokksins en var lengi vel vikunnar og sáttatónn til staðar. Hvort að það er bara tilbúningur til að halda stjórnarsamstarfinu saman og mokað aðeins yfir mestu sárin mun ráðast fljótlega. Forystumenn flokksins vissu auðvitað að ef þeir gætu ekki landað sínum málum almennilega og með sannfærandi hætti yrðu þingkosningar í sumar eða snemma í haust. Þeir leystu sín mál með það að leiðarljósi. Væntanlega mun ný ríkisstjórn taka við völdum fyrir lok helgarinnar og þá verður að ráðast hvort að Framsóknarflokkurinn getur staðið undir þeim skyldum sem hann hefur axlað seinustu árin í ljósi breytinga innan flokksins. Þetta veltur allt á traustu yfirbragði.

Það er ljóst að hafi Framsóknarflokkurinn ekki styrk til að feta sig í þá átt með sannfærandi hætti næstu 10 vikurnar er hann ósamstarfshæfur með öllu. Það er bara svo einfalt. En nú verðum við að sjá hvernig Framsóknarflokknum reiðir af í framhaldi miðstjórnarfundar. Næsta verkefnið er að ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde taki við völdum. Vonandi munu framsóknarmenn leysa hratt og örugglega það verkefni að velja ráðherra í hana er formaður þeirra heldur á braut og víkur úr ríkisstjórn eftir tæplega 20 ára setu í ríkisstjórn lýðveldisins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig flokknum reiðir af í ríkisstjórn án hans.


Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hafin

HM 2006

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst í dag með glæsilegri opnunarhátíð í München í Þýskalandi. Horst Köhler forseti Þýskalands, setti keppnina formlega. Keppnin mun standa í mánuð - allt frá deginum í dag til sunnudagsins 9. júlí nk. en þá fer fram úrslitaleikur keppninnar í höfuðborginni Berlín. Opnunarleikur keppninnar fór fram á FIFA World Cup-leikvanginum í München - þar leiddu heimamenn og Costa Rica saman hesta sína. Þjóðverjar unnu góðan sigur í leiknum 4-2. Philip Lahm skoraði fyrsta mark keppninnar. Paulo Wanchope jafnaði metin fyrir Costa Rica. Klose skoraði svo tvö mörk í röð fyrir Þjóðverja og undir lokin minnkaði Wanchope muninn. Torsten Frings innsiglaði sigur Þjóðverja með glæsilegu marki undir lok leiksins. Það er því óhætt að segja að þessi byrjun lofi góðu um framhaldið enda var þessi leikur sannkölluð markaveisla. Pólland mætir Equador í kvöld og er það síðari leikurinn í A riðli.

Það er óhætt að segja að segja að keppnin hafi hafist með miklum krafti. Var þetta virkilega lifandi og skemmtilegur leikur. Aldrei í sögu HM hafa fleiri mörk verið skoruð í opnunarleik. Gestgjafarnir Þjóðverjar hafa lengi verið öflugir í knattspyrnu og átt litríka sögu með góðum leikmönnum og eftirminnilegum töktum í fyrri heimsmeistarakeppnum. Þrisvar hafa Þjóðverjar unnið heimsmeistaratitilinn - árin 1954, 1974 og 1990. Þjóðverjar kepptu síðast til úrslita um titilinn við Brasilíumenn á HM árið 2002 á alþjóðaleikvanginum í Yokohama í Japan. Leikurinn var spennandi og litríkur og lauk með sigri Brassanna 2-0. Ég hef alltaf haft gaman af því að fylgjast með fótbolta og fylgst með sögu heimsmeistarakeppninnar vel í gegnum árin. Sérstaklega eftirminnileg í mínum huga er keppnin árið 1994 í Bandaríkjunum. Þá voru margir ógleymanlegir og góðir taktar - virkilega flott mót. Svo er keppnin 1990 eftirminnileg fyrir margra hluta sakir.

Ég hef alltaf stutt Brasilíu af krafti en haft veikan blett líka fyrir Þýskalandi. Svo geta knattspyrnuáhugamenn aldrei komist hjá því að hafa smá taugar til Englands, þó að þeir hafi ekki verið mjög sigursælir á HM frá árinu 1966 á heimavelli. Ég keypti mér fyrir nokkrum árum vandaða sögu keppninnar á DVD og það hefur verið áhugavert að líta á efnið aftur núna í aðdraganda HM að þessu sinni. Það er óhætt að segja að Sýn haldi vel utan um pakkann og þar er allt eins fullkomið í umfjöllun og það getur orðið. Fótboltaáhugamenn fengu svo sannarlega gott start með opnunarleiknum og vonandi mun keppnin öll verða jafnlifandi og skemmtileg og þessi leikur var - enda sannkölluð markaveisla í honum.


Meirihlutasamstarf í bæjarstjórn samþykkt

Sjálfstæðisflokkurinn

Í kvöld kl. 20:00 kom fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri saman í Kaupangi til að ræða úrslit sveitarstjórnarkosninganna 27. maí sl. og ræða málefnasamning Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, sem myndað hafa meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010. Var góður andi hjá okkur á fundinum og ánægjulegt að hitta góða samherja og ræða pólitík við þá, en nóg er að frétta úr pólitíkinni í kjölfar kosninganna. Í upphafi fundar fór Björn Magnússon, formaður fulltrúaráðsins, yfir úrslitin og þau atriði sem mestu skipta tengt því. Því næst kynnti Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi flokksins, málefnasamning meirihlutaflokkanna og skiptingu formennsku í nefndum og ráðum Akureyrarbæjar á kjörtímabilinu, í ítarlegu máli og fór yfir úrslit kosninganna og þau verkefni sem framundan væru í þessu meirihlutasamstarfi.

Samþykkti fulltrúaráðið einróma málefnasamning nýs meirihluta. Munu meirihlutaskipti fara fram með formlegum hætti á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar á þriðjudaginn en kjörtímabili þeirrar bæjarstjórnar sem setið hefur frá árinu 2002 mun ljúka formlega á sunnudaginn, 15 dögum eftir kosningar. Þá mun Framsóknarflokkurinn hverfa úr meirihluta og í staðinn mun Samfylkingin taka sæti í meirihluta með okkur í Sjálfstæðisflokknum. Mikil samstaða var í okkar fólki á fundinum. Var farið vel yfir samninginn og alla þætti samkomulagsins og góð viðbrögð hjá okkur. Svaraði Kristján Þór þeim spurningum sem fyrir lágu og tóku nokkrir fundarmanna til máls á fundinum. Tel ég að bæjarfulltrúar flokkanna hafi unnið vel og líst vel á þennan málefnasamning. Það er auðvitað fagnaðarefni að þessir tveir stærstu flokkar í bæjarstjórn taki höndum saman og vinni af krafti saman að þeim verkefnum sem við blasa.

Ég tel að þessi meirihlutasamningur sé til góða fyrir flokkana báða og ekki síður sveitarfélagið. Með þessari meirihlutamyndun er tryggt að sterkur meirihluti stýrir Akureyrarbæ á nýju kjörtímabili og hægt er að fara í verkefnin af krafti. Ég ætla að vona að samstarf flokkanna tveggja verði mjög gott. Það eru mörg verkefni framundan og styrkleikamerki fyrir báða flokka að tryggja að Akureyrarbær fái styrka stjórn þessara stærstu flokka innan bæjarstjórnar. Fundurinn gekk vel og var gaman að hitta góða félaga og ræða málin. Var boðið upp á veitingar að fundi loknum og sá Helga Ingólfs um veitingarnar af sinni alkunnu snilld. Þetta var gott kvöld í góðra vina hópi.


Að fundinum loknum nú seint í kvöld hélt ég í síðbúna kvöldgöngu í Kjarnaskógi. Það hefur verið dagleg rútína hjá mér að ganga 2,2 kílómetra á kvöldin en nú hefur sá rúntur tvöfaldast enda hef ég að undanförnu gengið tvo hringi af þessu tagi. Þetta er hressandi og gott - það er alltaf gott að fara í skóginn og fá sér góðan göngutúr. Það hefur verið yndislegt að sjá hvernig að sumarblærinn hefur náð tökum á skóginum. Það er farið að verða mjög sumarlegt og fuglasöngur ómar um skóginn og fuglarnir svífa um. Góð útivist í góðu veðri er óviðjafnanleg - það er virkilega notalegt að fara þessa góðu gönguleið daglega og sjá um leið fallega tóna sumarsins ná yfirhöndinni.


Stendur Framsóknarflokkurinn í lappirnar?

Forysta Framsóknarflokksins

Óhætt er að segja að seinustu dagar hafi verið stormasamir í íslenskum stjórnmálum og stefnir í að framundan sé heitt pólitískt sumar, rétt eins og 2004 en með öfugum formerkjum. Það er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með stöðunni innan Framsóknarflokksins. Þar virðist hver höndin vera upp á móti annarri og vandræðagangurinn er svo mikill að erfitt er að hafa yfirsýn yfir allt sem gengur á. Ráðherrar flokksins lýsa vantrausti hvorn á annan, deilt er um tímasetningu flokksþings Framsóknarflokksins og formannsslagur virðist að hefjast í skugga trúnaðarbrests formanns og varaformanns Framsóknarflokksins. Eins og ég benti á í gær virðist Framsóknarflokkurinn í mikilli upplausn og þar ríkir hörð og köld valdabarátta - þar eru menn þegar farnir að horfa til þess hvernig pólitískum völdum verði skipt í kjölfar brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórn og forystu flokksins. Virðist sem fátt sé heilagt í þeim pælingum öllum.

Í skugga svo mikilla væringa og deilna sem við öllum blasir innan samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands þarf að greina stöðuna í þá þætti sem skipta máli. Að mínu mati eru hér í gangi tvær atburðarásir. Í fyrra lagi eru þau mál sem snúa að Framsóknarflokknum - ég lít á að flokksþingsmál Framsóknarflokksins og leiðtogakjör þeirra í kjölfar afsagnar Halldórs Ásgrímssonar sé sérmál og það er þeirra mál. Í seinna lagi er ríkisstjórnin og skipun ráðherra í hana í kjölfar afsagnar forsætisráðherrans. Það liggur ljóst fyrir að Halldór ætlar að fara frá sem ráðherra og það þarf að manna stjórnina að því loknu. Ef það getur ekki gengið hratt og örugglega hljótum við sjálfstæðismenn að meta flokkinn ekki stjórntækan og hljótum að velta því fyrir okkur að láta landsmenn taka afstöðu til flokkanna að nýju og greiða atkvæði um stöðu mála. Þetta er afskaplega einfalt í mínum huga og um seinna atriðið snýst málið nú hina næstu daga.

Í skugga annarra átaka er framsóknarfólk nú farið að rífast um tímasetningu flokksþings og innri mál í kjölfar afsagnar Halldórs. Það er mál Framsóknarflokksins og engra annarra. Það er þeirra að velja ráðherra sína. Það getur enginn gert fyrir þá. Ég tel að það sé afgerandi skoðun sjálfstæðismanna að ríkisstjórn Geirs verði að taka við í síðasta lagi á mánudaginn næsta, helst á laugardag eða sunnudag. Við sjáum það vel þessa dagana að Framsóknarflokkurinn er í algjöru rusli. Þar virðist ekki vera samstaða um eitt né neitt og meira að segja er þetta fólk farið að rífast núna um tímasetningu flokksþings þegar að aðalmál þeirra nú á að vera að manna ríkisstjórnina hratt og örugglega og velja ráðherra sína í kjölfar afsagnar Halldórs Ásgrímssonar. Þetta mun allt ráðast á næstu dögum. Það er óhugsandi að Sjálfstæðisflokkurinn bíði lengur en fram að lokum helgarinnar að mínu mati. Það þarf að binda enda á alla óvissu.

Geir H. Haarde tjáði sig um stöðu mála á mánudagskvöld hafandi fengið þau skilaboð frá forystumönnum Framsóknarflokksins að sátt væri í málinu milli aðila innbyrðis í forystunni. Það virðist alls ekki vera og ekki seinna en við lok fundarins á Þingvöllum hafði varaformaðurinn strunsað í burtu reiður og öllum ljóst að sáttin þar væri engin. Í mínum huga lítur málið þannig út að Framsóknarflokkurinn verður að sýna fram á það með afgerandi hætti að loknum miðstjórnarfundi sínum að hann sé stjórntækur áfram í skugga úlfúðar og innri átaka innan flokksins. Geti menn ekki bundið enda á óvissu sína varðandi ráðherramál fljótt og örugglega hljóta sjálfstæðismenn að verða hugsi yfir stöðu mála.

Ef að Framsókn getur ekki staðið í lappirnar með ráðherramál sín með sóma hljóta kosningar til Alþingis að taka bráðlega við. Fyrir því er vilji meirihluta þingmanna ef ekki semst um mál með þeim hætti að klára þá ellefu mánuði sem eru til kosninga. Það er alltaf erfitt að keyra snögglega á kosningar svosem enda gefst lítill tími til undirbúnings. Í október 1979 urðu stjórnarslit vegna innri krísu í stjórn Ólafs Jóhannessonar og þá voru kosningar boðaðar fyrstu helgina í desember, sex vikum eftir stjórnarslit. Það er því hægt að vinna hratt og örugglega ef Framsóknarflokkurinn getur ekki axlað sína ábyrgð og staðið í lappirnar.

Mér sem sjálfstæðismanni líst engan veginn á stöðuna í Framsóknarflokknum og tel óhugsandi að við eyðum sumrinu í að horfa á Framsóknarflokkinn hrynja niður innanfrá. Það er þá vænlegra að huga að kosningum til að leysa úr þeim brýnu verkefnum sem blasa við í landsstjórninni. Það verður Sjálfstæðisflokknum til gæfu að stýra málum rétta leið ef til glundroða kemur og ég tel (og finn) á viðbrögðum félaga minna um allt land að við viljum taka hratt og örugglega af skarið komi til ástands.


Upplausn og valdabarátta í Framsóknarflokknum

Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir

Greinileg valdabarátta blasir við innan Framsóknarflokksins í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, um að biðjast lausnar frá embætti sínu og að hætta í stjórnmálum. Hægt er að líkja ástandinu innan flokksins við upplausn og í raun blasir fátt annað öruggt við en það að Halldór er að hætta og ætlar sér að sitja fram að flokksþingi. Ekki er vitað hver tekur við forystu flokksins og þaðan af síður er ljóst hver mun taka sess Halldórs sem forystumanns flokksins innan ríkisstjórnar er hann lætur af ráðherraembætti. Allt er á huldu um það hver mun taka við lykilráðuneyti af hálfu Framsóknar á næstunni. Þegar að talað er um lykilráðuneyti er auðvitað talað um utanríkis- eða fjármálaráðuneytið. Þessi tvö ráðuneyti auk forsætisins eru lykilráðuneyti sem máli skiptir hverjir skipa. Við blasir að átök gætu orðið um það hver tekur við ráðuneyti af þessari vigt fyrir Framsókn.

Eins og allir vita hafa litlir kærleikar verið á milli Halldórs og Guðna Ágústssonar varaformanns flokksins og landbúnaðarráðherra. Það kristallast vel nú í því tómarúmi sem við blasir innan Framsóknarflokksins. Greinilegt er að valdabarátta þeirra hefur náð nýjum hæðum. Við blasir að samkomulag hafði náðst milli þeirra um að víkja úr stjórnmálum á sama tíma og skapa flokknum ný tækifæri til að hefjast upp til vegs og virðingar að nýju með nýrri pólitískri forystu. Guðni sneri frá því samkomulagi og hann talar nú sem formannsefni væri og hefur greinilega mikinn áhuga á að taka við forystu flokksins af Halldóri. Greinileg ólga blasir við milli þessara lykilforystumanna flokksins í kjölfar þessa og ljóst er að Guðni telur sig algjörlega óbundinn fyrra samkomulagi og telur sig hafa bæði sóknarfæri og stuðning til að takast á hendur það verkefni að leiða flokkinn.

Deilur milli Guðna og Halldórs hafa staðið mjög lengi, lengst af bakvið tjöldin. Þó að þeir hafi setið saman á þingi frá 1987 hafa þeir markað sér stöðu þar með mjög ólíkum hætti. Það olli úlfúð í Suðurlandskjördæmi, pólitíku heimavígi Guðna, þegar að hann var ekki valinn sem ráðherra að loknum kosningunum 1995. Fjórum árum síðar var Guðni loks valinn í ríkisstjórn og hefur síðan verið landbúnaðarráðherra. Guðni varð varaformaður Framsóknarflokksins á landsfundi árið 2000 og tók við embættinu af Finni Ingólfssyni. Halldór studdi ekki Guðna til varaformennsku, heldur Jónínu Bjartmarz. Þeir hafa oft eldað grátt silfur í málefnaáherslum en nær ávallt bakvið tjöldin. Undantekning þessa var flokksþingið 2005 þar sem þeir tókust á fyrir opnum tjöldum um Evrópumál - málefni sem þeir eru algjörlega ósammála um og tvær mjög ólíkar fylkingar eru þar um þetta hitamál stjórnmálanna.

Enginn vafi leikur á því að Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er einn af allra nánustu pólitísku trúnaðarmönnum Halldórs Ásgrímssonar. Það má treysta því að þegar að Valgerður talar af krafti um pólitík er hún að óma áherslur og skoðanir Halldórs. Hún hefur allt frá því að hún tók sæti á þingi árið 1987 verið lykilstuðningsmaður Halldórs og hún var ötull baráttumaður hans þegar að EES-málið reið yfir og viss hluti flokksins, Halldórsarmurinn, gerði uppreisn gegn Steingrími Hermannssyni í málinu við samþykkt þess árið 1993. Skömmu síðar tók Halldór við flokknum af Steingrími og Valgerður hlaut sterkan sess innan hans allt frá upphafi og varð þingflokksformaður hans árið 1995 og svo ráðherra við brotthvarf Finns Ingólfssonar í árslok 1999. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson.

Það vakti óneitanlega verulega athygli þegar að Valgerður birtist á Morgunvakt Rásar 1 eldsnemma í gærmorgun í beinskeyttu viðtali um stöðu mála í kjölfar afsagnar Halldórs. Þar sagðist hún ekki geta stutt Guðna Ágústsson til formennsku og gæti ekki treyst honum. Kom þar fram enn einu sinni og sennilega með mest afgerandi hætti fram að þessu biturð og gremjan milli þeirra. Það er langt frá því ný saga að litlir kærleikar séu milli Guðna og Valgerðar - heiftin milli þeirra á sér langa og flókna forsögu. Það er alveg ljóst að orð Valgerðar í þessu viðtali bergmála skoðanir Halldórsarmsins í flokknum. Þar er mikil heift ríkjandi vegna þess sem fólk í þeim armi telur svik Guðna á heiðursmannasamkomulagi milli hans og Halldórs um að þeir hætti báðir til að tryggja flokknum nýja forystu. Greinilegt er að ekkert traust og engin samstaða ríkir meðal helstu forystusveitar flokksins.

Í gær varð endanlega ljóst að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hyggur ekki á endurkomu í íslensk stjórnmál. Telur hann greinilega forsendur fyrir innkomu sinni brostnar með öllu enda hafði verið talað um að hann myndi leiða nýja forystu að Halldóri og Guðna gengnum í forystunni. Finnur sér fram á formannsslag í Framsóknarflokknum og hefur hvorki áhuga né metnað til að standa í hjaðningavígum og að berast á banaspjótum í pólitísku starfi flokksins í allt sumar og fram á haust hið minnsta. Er ljóst að Finnur var formannsefni Halldórsarmsins. Nú hefur það breyst allt og við tekur að velta fyrir sér hver muni hljóta stuðning Halldórs til formennsku. Greinilegt er að Halldór og hans nánasta stuðningsmannasveit mun aldrei sætta sig við Guðna Ágústsson sem nýjan formann Framsóknarflokksins.

Mér finnst það blasa við að Guðni Ágústsson hefur bæði metnað og áhuga fyrir formannssæti Framsóknarflokksins. Í löngu Kastljósviðtali í gærkvöldi fór hann yfir stöðuna í pólitíkinni. Guðni stóð sig vel í því viðtali og sást vel á allri framkomu hans og tali að hann hefur ákveðið að taka slaginn og er farinn að undirbúa möguleg átök um formannsstólinn. Í viðtalinu sást að mínu mati ný útgáfa af Guðna Ágústssyni. Hann talaði rólegar en venjulega og var bindislaus með efstu skyrtutöluna fráhneppta. Það sást á tali hans og fasi að hann er að sækjast eftir frekari frama í stjórnmálum og vill leiða flokkinn sinn. Að mörgu leyti hefur Guðni gríðarlega sterka stöðu í þeim formannsslag sem framundan er. Ég tek undir mat margra að öll vötn í Framsóknarflokknum falla nú til Brúnastaða. Það leikur enginn vafi á því að Guðni hefur sterka stöðu víða í flokkskjarnanum.

Valgerður Sverrisdóttir hlýtur að hafa metnað og áhuga ennfremur til forystu nú þegar að ljóst er að stjórnmálaferli Halldórs lýkur bráðlega og að Finnur Ingólfsson mun ekki snúa til baka á hið pólitíska svið. Eins og staðan er núna hlýtur hún að teljast sterkasti kandidat Halldórsarmsins svokallaða. Hún hefur rétt eins og Guðni á að skipa löngum stjórnmálaferli. Hún hefur vissulega marga kosti fram að færa fyrir flokkinn á þessum þáttaskilum eins og Guðni. Þó að Valgerður sé oft á tíðum gríðarlega hörð og ákveðin er hún mjög vinnusöm og keyrir hlutina áfram. Það er enginn vafi á því að hún lætur enga stjórna sér og sést vel á skrifum á vef hennar að þar fer mjög ákveðin forystukona í stjórnmálum. Hún hefur líka komist þangað sem hún er á eigin verðleikum. Ég hef alltaf virt mjög Valgerði í pólitísku starfi hér nyrðra, þó ég sé oft á tíðum ósammála henni.

Að óbreyttu blasa við vandamál hjá flokknum. Það verður varla flokksþing fyrr en í septembermánuði og fram að því virðist forysta flokksins í lausu lofti og varla styrkir það flokkinn að fráfarandi formaður hans situr á sínum stóli í allt sumar og á meðan er vaðandi formannsslagur með allri þeirri hörku sem því fylgir. Mun Halldór stýra af hálfu Framsóknarflokksins myndun nýrrar stjórnar og leggur fram ráðherralista sem tekur gildi við brotthvarf hans. Það verður fróðlegt að sjá hver fær stöðu Halldórs sem forystumaður í lykilráðuneyti. Það er sterkur orðrómur um það að Valgerður Sverrisdóttir fái lykilráðuneyti en Guðni sitji eftir og verði jafnvel sviptur sínum ráðherrastól. Við blasir því mikið uppgjör innan flokksins og fjarri því að eitthvað tal um samstöðu í flokknum sé raunin eins og margir forystumanna hans létu í veðri vaka eftir yfirlýsingu Halldórs á Þingvöllum.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallar um brotthvarf þessa eins af eftirmönnum sínum á forsætisráðherrastóli í vel rituðum leiðara í blaðinu í morgun. Halldór og Þorsteinn voru samtíðarmenn í forystusveit íslenskra stjórnmála, þó ekki hafi þeir leitt flokka sína á sama tímabili. Þeir voru um langt skeið áhrifamenn í íslenskum stjórnmálum og voru saman í ríkisstjórn lengi. Mér telst til að þeir hafi verið saman ráðherrar samtals í sjö ár: þ.e.a.s. í stjórn Steingríms Hermannssonar 1985-1987, stjórn Þorsteins sjálfs 1987-1988 og síðar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1995-1999 og unnu lengi saman í pólitískum verkefnum. Það er greinilegt að Þorsteinn ritar um Halldór af virðingu og minnir á að óvissa um framtíðarforystu Framsóknarflokksins skaðar mjög og að óvissan sé mesti óvinurinn.

Það eru orð að sönnu og enginn vafi á því að upplausnin sem nú blasir við á æðstu stöðum Framsóknarflokksins veikir ríkisstjórn landsins verulega í aðdraganda væntanlegra kosninga og eiginlega vekur furðu að þessi óvissa eigi að vera allt fram að síðsumri og framundir haustmál. Ef þetta er það sem koma skal innan Framsóknarflokks og ef þetta á að vera það sem sést frá forystusveit flokksins næstu mánuðina verður að spyrja sig hvort að Framsóknarflokkurinn sé fær til að vera í forystusveit ríkisstjórnar. Hann er sem flakandi sár og verulega stórar spurningar blasa við samstarfsflokknum hvort Framsóknarflokkurinn sé það stöðugur að geta verið í forystusveit landsmála með innri valdabaráttu algjörlega spilaða í fjölmiðlahasar.

Það blasa miklir átakatímar við á mörgum vígstöðum og þáttaskil í stjórnmálum verða óumflýjanleg ef þetta ástand verður viðvarandi næstu mánuðina að mínu mati. Í grunninn séð finnst mér að pólitísk arfleifð Halldórs Ásgrímssonar standi heil eftir enda hefur hann leitt mörg farsæl mál og verið maður stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Það mun leiða til mikils skaða fyrir Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina ef samstarfsmenn hans ætla að ganga frá öllum þeim stöðugleika sem einkenndi pólitíska forystu Halldórs með innri hjaðningavígum í forystu flokksins næstu mánuðina.


Bubbi Morthens fimmtugur

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens fagnar í dag fimmtugsafmæli sínu með afmælistónleikum í Laugardalshöll. Í dag hefur Rás 2 helgað Bubba alla tónlistardagskrá sína. Ævistarf Bubba Morthens í íslenskri tónlist er stórglæsilegt - eftir hann liggja margar táknrænar og glæsilegar perlur sem um aldur og ævi verða órjúfanlegur hluti af íslenskri tónlistarsögu. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi tónlistar Bubba. Það leikur enda enginn vafi á því að enginn núlifandi íslenskur tónlistarmaður hefur afrekað meiru og hann er einn af bestu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina.

Í kvöld mun Stöð 2 sýna beint frá afmælistónleikum Bubba. Þar mun hann spila mörg af sínum eftirminnilegustu lögum og munu allar hljómsveitir ferils Bubba mæta og taka lagið. Ég ætla svo sannarlega að horfa á þá glæsilegu tónlistarveislu.

Það er við hæfi að óska meistaranum til hamingju með afmælið og glæsilegan feril.


Halldór segir af sér - forsætisráðherraskipti

Halldór Ásgrímsson

Á fallegu sumarkvöldi í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum tilkynnti Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í gærkvöldi um þá ákvörðun sína að biðjast lausnar sem forsætisráðherra lýðveldisins og hætta í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga viðburðaríkan stjórnmálaferil. Halldór Ásgrímsson hefur verið aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára og verið einn af þeim sem mestu hafa ráðið um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Væntanlegt brotthvarf hans markar því nokkur þáttaskil fyrir Framsóknarflokkinn og auðvitað ríkisstjórnina, enda hefur hann verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks allt frá því að hún var mynduð fyrir ellefu árum, í apríl 1995.

Ljóst er nú að Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, muni taka við forsætisráðherraembættinu við þessar miklu breytingar og við blasa allnokkrar breytingar á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Brotthvarf Halldórs leiðir til þess að flokkarnir verða að mynda nýtt ráðuneyti og ljóst að hrókeringar verða allnokkrar á ráðherrum og verður áhugavert að fylgjast með hvernig ríkisstjórnin lítur út þegar að Halldór lætur af ráðherraembætti. Mikið gleðiefni er að formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnmálaflokks landsins, taki við forsæti í ríkisstjórn landsins að nýju. Geir tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Davíð Oddssyni fyrir sjö mánuðum og var varaformaður flokksins 1999-2005. Geir H. Haarde er þekktur fyrir verk sín og störf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987, var fjármálaráðherra árin 1998-2005 og hefur verið utanríkisráðherra frá september 2005.

Það eru auðvitað mjög merkilegt að sjá afsögn forsætisráðherra af þessu tagi og við þessar aðstæður sem við blasa nú. Atburðarásin hefur verið gríðarlega hröð í flokknum seinustu dagana og blasað við frá föstudeginum að stefndi í stórtíðindi. Vissulega má segja að forysta Framsóknarflokksins hafi misst stjórn á atburðarásinni að allnokkru leyti, enda hafði Halldór aðeins kynnt nánustu vinum og pólitískum samstarfsmönnum þessa persónulegu ákvörðun sína um að hverfa úr stjórnmálum en þau tíðindi láku beint í fjölmiðla. Engum dylst að afhroð Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum undir lok maímánaðar er meginástæða þess að hann ákveður að víkja nú og skapar rými fyrir nýja forystu í flokknum í aðdraganda væntanlegra þingkosninga eftir tæpt ár, en kosningar verða í síðasta lagi í byrjun maímánaðar 2007.

Halldór hefur verið mjög lengi í forystu Framsóknarflokksins. Hann hefur verið varaformaður og formaður frá árinu 1980, eða í 26 ár, ráðherra í tæpa tvo áratugi og þingmaður nær samfellt frá árinu 1974, en hann varð þingmaður þá aðeins 27 ára að aldri. Hann varð forsætisráðherra þann 15. september 2004 og tók við af Davíð Oddssyni, sem á glæsilegum stjórnmálaferli leiddi ríkisstjórn samfleytt í rúmlega 13 ár. Með því að verða húsbóndi í Stjórnarráðinu náði Halldór hápunktinum á sínum stjórnmálaferli. Það verður þó seint sagt að forsætisráðherraferill Halldórs Ásgrímssonar hafi verið einhver sæla fyrir hann. Árið 2005 var mjög erfitt pólitískt fyrir Halldór og Framsóknarflokkinn. Bæði voru mikil innri vandamál innan flokksins og hann mældist með lítið persónulegt fylgi og þurfti að berjast við erfiða umræðu vegna sölunnar á ríkisbönkunum.

Það verður að segjast alveg eins og er að Halldóri tókst aldrei að festa sig í sessi í forsætisráðherratíð sinni. Að mörgu leyti koma þessi tíðindi ekki að óvörum, þó vissulega séu þau mikil og boði gríðarleg þáttaskil á mörgum vígstöðvum stjórnmálanna. Við Framsóknarflokknum blasir erfið sigling og ekki ljóst hver muni leiða flokkinn inn í væntanlegar kosningar - nýjar áskoranir í pólitískri baráttu. Við væntanlegum formanni Framsóknarflokksins blasa mikil verkefni. Flokkurinn er í miklum öldudal og greinilegt er að Halldór hefur ekki treyst sér til að halda af krafti inn í komandi kosningar og fundið að flokkurinn hlyti ekki meðbyr með sig við stjórnvölinn. Hvernig brotthvarf hans ber hinsvegar að með svo snöggum hætti í upphafi sumars vekur mikla athygli og eru margar spurningar uppi um stöðuna í innsta valdakjarna flokksins.

Greinilegt er að mikil ólga hefur verið innan Framsóknarflokksins í aðdraganda þess að Halldór tilkynnti um afsögn sína. Orðrómur þess efnis að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, myndi verða eftirmaður Halldórs leiddi til skjálfta innan flokksins og greinilegt að Guðni Ágústsson var ekki sáttur við stöðu mála. Þó að Finnur hafi vissulega verið mjög öflugur stjórnmálamaður og lykilmaður í forystu flokksins lengi vel framan af formannstíð Halldórs vekur athygli að formaðurinn fráfarandi vildi ekki að Guðni Ágústsson yrði sjálfkrafa formaður. Hann mun enda ætla sér að gegna embættinu fram til flokksþings sem haldið verður síðsumars og því verður Guðni ekki sjálfkrafa formaður. Vel kom fram í tali Halldórs á blaðamannafundinum að hann vildi að bæði hann og Guðni myndu víkja nú. Það varð ekki og greinileg ólga er þeirra á milli eftir atburði helgarinnar.

Óneitanlega stendur Guðni Ágústsson vel að vígi í væntanlegum leiðtogakapli flokksins og ljóst af viðbrögðum hans í gærkvöldi að hann var ekki sáttur við framgöngu mála hjá Halldóri og orðalag hans á blaðamannafundinum. Það verður vissulega spennandi að sjá hverjir muni gefa kost á sér til formennsku á flokksþingi. Ef marka má tal Halldórs Ásgrímssonar er það vilji hans að Finnur Ingólfsson komi aftur í stjórnmálin og taki við flokknum á flokksþinginu. Er ekki ólíklegt að fleiri hafi áhuga á formennskunni og má búast við spennandi kosningu þegar kemur að því að velja þann sem leiða mun Framsóknarflokkinn í kjölfar brotthvarfs Halldórs og inn í væntanlegar þingkosningar. Við þeim blasir ennfremur það verkefni að tryggja flokknum nýtt líf í pólitískri tilveru og finna ný sóknarfæri enda virðist flokkurinn í rúst að mjög mörgu leyti.

Það blasa mörg þáttaskil við Framsóknarflokknum á 90 ára afmælisári hans. Formaður flokksins til tólf ára og sitjandi forsætisráðherra hefur boðað brotthvarf sitt af hinu pólitíska sviði og ljóst að verði ekki miklar áherslubreytingar með væntanlegu formannskjörinu muni halla mjög á gamalgróna stöðu flokksins sem missti mikið fylgi víða um land, jafnvel í sögufrægum vígum á borð við Akureyri og Kópavog, í sveitarstjórnarkosningunum. Það verður ekki horft framhjá þeim sögulegu tíðindum sem verða er Halldór Ásgrímsson hverfur úr forystu flokksins eftir langa setu í forystusveit hans - hann ákveður að stíga til hliðar og reyna að marka flokknum nýtt líf með breyttri forystu. Það mun ráðast á næstu vikum og mánuðum hvort að forystuskipti innan flokksins marki honum ný sóknarfæri á þeim kosningavetri sem framundan er.

Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli sínum og mikil þáttaskil verða innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins við brotthvarf hans, enda hefur Halldór verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá myndun hennar árið 1995. Það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni innan ríkisstjórnar og flokksins í kjölfar þessara tíðinda. Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins og leikur enginn vafi á því að þessi ákvörðun Halldórs leiðir til mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum.

Grein á vef SUS - 060606


Halldór Ásgrímsson hættir í stjórnmálum

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti um afsögn sína sem forsætisráðherra og að hann myndi víkja af hinu pólitíska sviði á blaðamannafundi við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum um níuleytið í kvöld að loknum fundi landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins. Þar tilkynnti Halldór að hann hefði rætt um það við Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks yrði mynduð undir forsæti Geirs. Mun Halldór leiða þær viðræður fyrir hönd Framsóknarflokksins. Halldór mun verða áfram formaður Framsóknarflokksins fram að flokksþingi sem haldið verður síðsumars þar sem ný forysta flokksins verður kjörin. Halldór sagðist ætla að nota tímann fram að flokksþinginu til að hvetja sitt fólk til dáða fyrir þingkosningar, sem haldnar verða næsta vor.

Orðrómur hefur verið um það frá því á föstudag að Halldór hefði í hyggju að biðjast lausnar og hætta í stjórnmálum í kjölfar slæmrar útkomu Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í síðasta mánuði. Mikil þáttaskil verða við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Halldór hefur setið á þingi nær samfleytt frá árinu 1974. Hann varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Halldór hefur setið í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra frá 2004. Aðeins Bjarni Benediktsson hefur setið lengur í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson.

Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum og mikil þáttaskil verða innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins við brotthvarf hans, enda hefur Halldór verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995. Það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni innan ríkisstjórnar og flokksins í kjölfar þessara tíðinda. Nú tekur væntanlega við að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins og leikur enginn vafi á því að þessi ákvörðun leiðir til mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum.


Gremja innan Samfylkingarinnar

ISG

Sumarþingi lauk á laugardag með eldhúsdagsumræðum. Það var mikill hraði undir lok þingstarfa og mörg mál fóru í gegn þó að stórmál á borð við nauðsynlegar breytingar á Ríkisútvarpinu hafi setið eftir, sem er auðvitað alveg með ólíkindum. Svo virðist vera að hraðinn hafi verið svona mikill undir lokin því að Framsóknarflokkurinn vildi þingið heim sem fyrst áður en að forystuskipti verði innan flokksins. Reyndar virðist sem að mikil valdabarátta sé innan flokksins um hver eigi að taka við formannsembættinu en útlit er fyrir að henda hafi átt Guðna Ágústssyni samhliða brotthvarfi Halldórs. Virðist lítið fararsnið á Guðna og hljóta að teljast meiri líkur en minni á að hann muni sækjast eftir formennskunni. Það er eðlilegt að hann hafi áhuga á henni nú þegar að forystusætið er innan seilingar. Eins og forystumál Framsóknar horfa nú við áhugamönnum um stjórnmál blasir við að þar séu mikil átök bakvið tjöldin og þingið hafi farið heim fyrr en ella vegna innri vandamála í flokki forsætisráðherrans.

Í eldhúsdagsumræðu á laugardag flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mikla ádrepu og málaði stöðuna eins dökkum litum og hægt er að draga fram. Það var alveg með hreinum ólíkindum að hlusta á neikvæðnina og niðurdrepandi velgjuna í formanni Samfylkingarinnar. Engu var líkara en allar heimsins áhyggjur hvíldu á henni. Það er engin furða að neikvæðni sé í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir kosningarnar fyrir viku. Berin eru vissulega súr fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu að kosningunum loknum. Þar var víða lagt mikið undir og víðast hvar um landið verður Samfylkingin undir. Sé Akureyri og Hafnarfjörður tekin frá blasir við slæm staða flokksins á sveitarstjórnarstiginu. Flokkurinn missir völdin svo dæmi sé tekið: í Reykjavík, Akranesi, Húsavík, Árborg, Siglufirði og Ólafsfirði, og Hveragerði. Sameinaðir samkrullslistar með Samfylkinguna innanborðs fengu háðuglega útreið víða um land ennfremur.

Hvert sem litið er blasir við vond staða. Þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð formaður Samfylkingarinnar var stefnt að öflugum sigrum um allt land. Ári síðar er staða flokksins verri en fyrir seinustu þingkosningar og er engan veginn á þeirri siglingu sem vonast var til. Formaður og varaformaður flokksins bregðast við þessum tölum með því að stinga höfðinu í sandinn. Ólíkt þeim er Össur Skarphéðinsson, forveri ISG á formannsstóli, í rusli og ritar um hvítasunnuhelgina á vef sinn krónólógíu um úrslitin og talar þar um útreið í Reykjavík sem er auðvitað raunin. Mikla athygli mína vakti að lesa pistil eftir Ágúst Ólaf Ágústsson varaformann Samfylkingarinnar, í vikunni þar sem hann fór yfir úrslit kosninganna með stórundarlegum hætti. Mér fannst það kostulegt að lesa þar þá söguskýringu hans að meirihluti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri væri fallinn. Hann nefnir aðeins Sjálfstæðisflokkinn í því samhengi.

Ég ætla að vona að maður í hans stöðu viti að Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum fjórum bæjarfulltrúum á meðan að Framsóknarflokkurinn galt sögulegt afhroð í þessum bæ og tapaði miklu fylgi - vegna þess féll meirihlutinn. Það er ekki furða að Samfylkingunni farnist illa með svona einstaklinga við stjórnvölinn eins og þennan varaformann. Mér fannst sérstaklega athyglisvert að sjá hversu mikið afhroð Samfylkingarinnar í Reykjavík varð. Sama hversu mikið Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur reyna að fegra stöðuna blasir við að Degi misheppnaðist að gera kosningabaráttunni að sinni. Borgarfulltrúum flokksins var fórnað af formanni flokksins í prófkjöri þar sem kjörið var borgarstjóraefni til að efla Dag B. Eggertsson, óháðan borgarfulltrúa R-listans sem var handvalinn af ISG til verka, og hljóta niðurstöðurnar að vera vonbrigði fyrir forystu flokksins.

Það er engin furða að formaður Samfylkingarinnar sé geðill með stöðu mála hjá flokknum. Hvernig geta úrslit þessara kosninga flokkast sem annað en áfall fyrir flokkinn. Framundan eru þingkosningar eftir ellefu mánuði. Verði tölur eitthvað í takt við þetta þar myndi blasa við nokkurra þingmanna tap Samfylkingar eftir fjölda ára vist í stjórnarandstöðu. Slík staða, ef af yrði, myndi ekki verða túlkað með neinum öðrum hætti en sem afhroð fyrir formann flokksins. Annars er merkilegt að sjá landakortið með stöðu meirihluta um allt land sem NFS sýndi í gær. Hún sýnir ekkert rautt landslag Samfylkingar svo mikið er víst. Einu lykilstaðirnir þar sem flokkurinn verður í forystu á eigin vegum eru Hafnarfjörður, Hornafjörður, Akureyri og Skagafjörður. Þegar að litið er á landakortið skilst gremja Ingibjargar Sólrúnar sífellt betur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband