Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Kristín Ingólfsdóttir

Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, tók í dag við embætti rektors Háskóla Íslands. Hún er fyrsta konan til að gegna embætti rektors skólans í 94 ára sögu hans. Hún sigraði Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild skólans, í rektorskjöri í skólanum í mars. Tekur Kristín við rektorsembættinu af forvera sínum í embætti, Páli Skúlasyni. Sigur Kristínar í mars var mjög sögulegur, úrslitin mörkuðu þáttaskil í sögu skólans. Það var óneitanlega sögulegt að kona hafi verið kjörin til forystu í skólanum og taki nú við forystu hans. Tekur Kristín við embættinu af Páli Skúlasyni á vissum kaflaskiptum í sögu hans. Nýtt og merkilegt umhverfi blasir við skólanum núna og það verður verkefni hennar að vinna að þeim þáttaskilum sem framundan eru að vissu leyti. Í kosningabaráttu sinni bauð hún sig fram sem fagmann á sínu sviði í starfi innan skólans og öflugan þátttakanda í innri uppbyggingu náms þar. Kristín bauð sig ekki fram á forsendum kyns, þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem býður sig fram í forystu hans með þessum hætti. Öll hennar kosningabarátta var á forsendum þess að hún væri hæf til þess að leiða skólann og hefði reynslu fram að færa. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar og forystu á vettvangi skólans á komandi árum.

Annie Hall

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Cheers (Staupasteinn)

Skjár 1 hefur undanfarnar vikur rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu hér í denn, sællar minningar. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993. Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi. Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að horfa á þættina, nú frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Grafarþögn

Seinustu vikurnar hef ég verið að rifja upp kynni mín af spennusögum Arnaldar Indriðasonar. Undanfarið hef ég lesið aftur Bettý og Mýrina. Seinustu dagana hef ég verið að lesa að nýju Grafarþögn, sem að mínu mati er ein af allra bestu bókum Arnaldar. Í sögunni er sögð sagan af því er mannabein finnast í grunni nýbyggingar í útjaðri Reykjavíkur og líkur benda til að glæpur hafi verið framinn. Beinin virðast vera nokkurra áratuga gömul og sérfræðingar eru fengnir til að grafa þau upp en samtímis hefur lögreglan leit að fólki sem gæti vitað eitthvað um málið. Beinafundurinn leiðir þau Erlend, Sigurð Óla og Elínborgu, nokkra áratugi aftur í tímann til sögu af konu einni og fjölskyldu hennar. Hér kemur við sögu fjölskylduharmleikur á fyrri hluta 20. aldar og leyndardómar fortíðarinnar verða grafnir upp með beinafundinum. Lengst af er beinafundurinn erfitt púsluspil en að lokum skýrist myndin og verður heildstæð frásögn af liðnum tíma og gömlu máli sem er enn í nútímanum skuggamynd í huga þeirra sem vita sannleikann. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa hinar bækur Arnaldar.

Fjarar undan leiðtogum :)

Tekið er að fjara mjög undan bresku leiðtogunum Blair og Howard. Ljóst er auðvitað að báðir eru á útleið í breskum stjórnmálum á kjörtímabilinu og leiða ekki flokka sína í næstu kosningum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru fljótir að teikna pólitíska stöðu þeirra með hnyttnum hætti. :)

Saga dagsins
1936 Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, gefin út - varð ein vinsælasta skáldsaga aldarinnar og varð uppistaðan í einni bestu kvikmynd aldarinnar, sem bar sama nafn og gerð var á árinu 1939.
1968 Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, kjörinn forseti Íslands, með 67,3% greiddra atkvæða - hann sigraði mótframbjóðanda sinn, dr. Gunnar Thoroddsen sendiherra, með miklum yfirburðum.
1984 Skáldkonan Lillian Hellman, deyr, 79 ára að aldri - Lillian var án vafa ein fremsta skáldkona Bandaríkjanna á 20. öld. Meðal bestu ritverka hennar eru ritin Little Foxes og Watch on the Rhine.
1992 Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tekur sæti í bresku lávarðadeildinni.
2002 Brasilía vinnur heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu, eftir afgerandi sigur á Þjóðverjum í S-Kóreu.

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal prófessor (1886-1974) (Ást)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í gær vegna Íraksmálsins og fór yfir stöðu mála. Skv. skoðanakönnunum hefur málið aldrei verið óvinsælla en nú og forsetinn er að mælast með minnsta persónufylgi sitt í skoðanakönnunum í langan tíma. Í ræðu sinni sagði forsetinn að þær fórnir sem færðar hefðu verið í stríðinu gegn hryðjuverkaöflum í heiminum væru þess virði. Kom fram að ekki stæði til að mati hans og stjórnar sinnar að Bandaríkin breyttu um stefnu í málinu. Eins og vel kom fram í nýjustu könnun CBS-sjónvarpsstöðvarinnar fara efasemdir bandarísks almennings um réttmæti stríðsins mjög vaxandi. Bush sagði að það væri skiljanlegt að málið reyndi á þolrif Bandaríkjamanna en það sem til þyrfti væri tími, en ekki breytingar á stefnu málsins. Tek ég undir mat forsetans. Bandaríkjamenn verða að leiða ferlið allt til enda, en ekki bara að hluta. Eins og fram hefur komið er að nást árangur í landinu í kjölfar kosninganna í janúar en þetta tekur allt sinn tíma. Eins og kom fram hjá Bush stendur bandaríski herinn frammi fyrir óvini sem hefði gert Írak að þungamiðju hryðjuverkastríðsins sem háð hefur verið. Demókratar voru lítt hrifnir með ræðuna og kom fram í máli helstu leiðtoga þeirra í þinginu að forsetinn vissi ekkert hvert hann væri að fara. Repúblikanar í þinginu tóku hinsvegar undir ræðu forsetans og sögðu stefnu stjórnarinnar hina einu réttu.

Ronald Reagan

Ronald Reagan fyrrum forseti Bandaríkjanna, er merkilegasti Bandaríkjamaður sögunnar ef marka má niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar í Bandaríkjanna. Tæplega tvær og hálf milljón Bandaríkjamanna mun hafa tekið þátt í könnuninni sem America Online og Discovery Channel stóðu fyrir. Sex forsetar Bandaríkjanna voru á meðal tíu efstu í kjörinu. Þeirra á meðal var George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sem varð í sjötta sæti. Kannanir af svipuðum toga hafa verið haldnar í öðrum löndum. T.d. var Charles De Gaulle var valinn í Frakklandi, Konrad Adenauer í Þýskalandi og Sir Winston Churchill í Bretlandi. Ronald Reagan fæddist 6. febrúar 1911. Hann ávann sér frægð fyrst í stað sem leikari og var um tíma forseti SAG-leikarasamtakanna. Hann hætti leik í byrjun sjöunda áratugarins og hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn og náði kjöri. Sat hann á stóli ríkisstjóra í 8 ár, til ársins 1975. Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Sat hann í embætti í tvö kjörtímabil, átta ár. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Reagan tilkynnti í yfirlýsingu í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer. Hann lést 5. júní 2004.

A Streetcar Named Desire

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton

Í ferð minni til Bandaríkjanna í október 2004 keypti ég bókina American Evita: Hillary Clinton's Path to Power. Þar er fjallað um feril Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanns í New York og fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamanns og eiginkonu stjórnmálamanns. Ekki er síður beint sjónum að persónulegu hliðinni á manneskjunni. Þetta er mjög athyglisverð og vönduð bók. Reyndar er jafnvel erfitt fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál að kortleggja Clinton-hjónin og persónur þeirra til fulls. Er í bókinni að finna mjög merkilegar lýsingar á þeirri krísu sem hjónaband þeirra gekk í gegnum vegna Lewinsky-málsins á tímabilinu 1998-1999, þegar almenn umræða um það var sem mest. Er mjög merkilegt reyndar að bera saman þessa bók og sjálfsævisögu Hillary, Living History. Báðar eru áhugaverðar en óneitanlega er meira krassandi í fyrrnefndu bókinni og fara þar yfir ýmsa hluti sem Hillary skautar allhressilega yfir, eins og t.d. framhjáhald hennar og eiginmannsins og stöðu tilvistar hjónabands þeirra í kjölfarið. Er merkilegt einnig að kynnast miklum skapköstum Hillary, sem eru allverulega til staðar. Semsagt; spennandi og áhugaverð bók um ævi tveggja stjórnmálamanna sem ætti að henta vel öllum alvöru stjórnmálaáhugamönnum.

Friður eða hvað? :)

Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru alveg magnaðir að sjá pólitísku stöðuna með hnitmiðuðum hætti. Hér lýsa þeir ástandinu við Persaflóann nokkuð vel. :)

Saga dagsins
1952 Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri og fyrrv. forsætisráðherra, kjörinn forseti Íslands. Ásgeir hlaut 48% greiddra atkvæða í kosningunum og sigraði þar naumlega sr. Bjarna Jónsson dómkirkjuprest.
1974 Isabel Peron tekur við embætti forseta Argentínu, af eiginmanni sínum, Juan Peron, vegna veikinda hans. Hún tók formlega við embættinu við lát hans 1. júlí. Henni var komið frá völdum í valdaráni árið 1976 og var ríkisstjórn hennar sökuð þá um mikla óstjórn og glundroða í Argentínu.
1980 Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands - hún hlaut tæp 34% greiddra atkvæða og sigraði Guðlaug Þorvaldsson sáttasemjara, naumlega. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum forsetakosningum. Sögulegur áfangi í jafnréttisbaráttu.
1996 Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður, kjörinn forseti Íslands, með 41% greiddra atkvæða.
2003 Óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn deyr, í Old Saybrook í Connecticut, 96 ára að aldri. Á 60 ára leikferli sínum hlaut hún fjórum sinnum óskarsverðlaun og var ennfremur tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik. Árið 2001 var Katharine Hepburn kjörin besta leikkona tuttugustu aldarinnar af hinu virta bandaríska kvikmyndariti Empire.

Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)


Engin fyrirsögn

Samband ungra sjálfstæðismanna
75 ára


Samband ungra sjálfstæðismanna

Í gær voru 75 ár liðin frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Rúmu ári áður, eða hinn 25. maí 1929 var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Nokkur félög ungliða í flokknum eru eldri en bæði Sjálfstæðisflokkurinn og SUS. Heimdallur var t.d. stofnaður 16. febrúar 1928. Það er fyrsta stjórnmálafélag ungliða hérlendis. Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var stofnað 10. febrúar 1929, nokkrum mánuðum fyrir stofnun flokksins. Fleiri félög voru komin til sögunnar áður en SUS var formlega stofnað á Þingvöllum 27. júní 1930. Fyrsti formaður SUS var Torfi Hjartarson, síðar tollstjóri og ríkissáttasemjari, og gegndi hann formennsku í fjögur ár. Með honum í fyrstu stjórn SUS voru Sigríður Auðuns, Ísafirði, Kristján Steingrímsson, Akureyri, Árni Mathiesen, Hafnarfirði og Guðni Jónsson, Reykjavík. Í varastjórn voru Gunnar Thoroddsen, Jóhann Möller, Sigurður Jóhannsson, Guðmundur Benediktsson og Thor Thors.

Í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna hafa 23 einstaklingar gegnt formennsku. Lengst á formannsstóli í sögu SUS hafa setið Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson frá Mel. Báðir voru þeir formenn í sex ár samfleytt. Jóhann varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra við fráfall dr. Bjarna Benediktssonar sumarið 1970. Áður hafði hann verið lengi borgarfulltrúi, ráðherra og þingmaður flokksins. Hann var um tíma ennfremur formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Magnús frá Mel var lengi alþingismaður og ráðherra og var forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Eyjafjarðarsýslu og Norðurlandskjördæmi eystra til fjölda ára. Undir lok stjórnmálaferils síns var hann varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Alls hafa verið haldin 37 sambandsþing frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þau eru jafnaði haldin á tveggja ára fresti. Næsta sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Í stjórn SUS sitja 27 einstaklingar og 14 eru til vara.

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Fór ég suður um helgina til að fagna afmæli SUS með góðum félögum. Afmælinu var fagnað með ýmsum hætti. Á sunnudag var afmæliskaffi í Valhöll þar sem haldið var formlega upp á þennan merka áfanga í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Flutti Hafsteinn Þór Hauksson formaður, þar stutta ræðu. Heiðursgestur við þetta tilefni, Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður og fyrrum formaður SUS, flutti þar hátíðarávarp. Fór hann yfir punkta í sögu SUS og minnti á grunnstefnu flokksins og SUS í gegnum tíðina: baráttuna fyrir frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Í gær, á afmælisdeginum, héldum við í stjórn SUS svo til Þingvalla og héldum hátíðarstjórnarfund í Hvannagjá, þar sem SUS var formlega stofnað 75 árum áður. Heiðursgestur á fundinum var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður SUS, og flutti hann ávarp. Á þessum hátíðarstjórnarfundi voru samþykktar tvær ályktanir.

Sú fyrri hljómar svo: "Í dag, hinn 27. júní 2005, eru 75 ár liðin síðan Samband ungra sjálfstæðismanna var stofnað í Hvannagjá á Þingvöllum af ungum sjálfstæðismönnum hvaðanæva að af landinu. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur ávallt staðið vörð um hugsjónina um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi einstaklinga og atvinnulífs. Sú hugsjón hefur ætíð reynst vel. Sjálfstæðismenn skoða því sögu sína stoltir og þurfa ekki að fela hana eða flýja, líkt og önnur stjórnmálaöfl hafa þurft að gera. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna óskar sjálfstæðismönnum um land allt til hamingju með daginn og færir öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg í starfi ungra sjálfstæðismanna í gegnum tíðina innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf. Baráttunni fyrir frelsi lýkur hins vegar aldrei þótt árangurinn hafi verið góður hingað til. Í framsæknu þjóðfélagi spretta sífellt upp ný viðfangsefni er kalla á lausnir í anda sjálfstæðisstefnunnar. Ungir sjálfstæðismenn strengja þess heit að taka áfram þátt í þeirri baráttu og víkja hvergi frá hugsjónum um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi til orðs og athafna."

Sú seinni hljómar svo: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að á 75 ára afmæli sambandsins og í tilefni þeirra tímamóta að 90 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi hlutu kosningarétt sé viðeigandi að minnast þeirrar konu sem fyrst kvenna varð borgarstjóri í Reykjavík og settist fyrst kvenna í ríkisstjórn á Íslandi. Auður Auðuns var atkvæðamikil stjórnmálakona sem hafði raunveruleg áhrif á íslenskt samfélag. Hún ruddi braut jafnréttis með framgöngu sinni og verður ævinlega minnst fyrir glæsilega og skörulega framkomu. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna vill kanna möguleika á því að ráðist verði í uppbyggingu minnisvarða um Auði Auðuns í þakklæti fyrir þau störf sem hún vann, þjóð sinni og Sjálfstæðisflokknum til heilla." Tvær glæsilegar ályktanir og vel við hæfi á þessum tímamótum að hvatt sé til þess að stytta sé reist af frú Auði, til að heiðra hennar merka framlag í stjórnmálabaráttu og minna á sögulegan sess hennar í íslenskum stjórnmálum.

Blómsveigur lagður að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann flokksins

Að fundinum loknum héldu stjórnarmenn í SUS að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Björnsdóttur eiginkonu hans, og dótturson þeirra, Benedikt Vilmundarson. Þau létust hinn 10. júlí 1970 er forsætisráðherrabústaðurinn að Þingvöllum brann. Lögðu Hafsteinn Þór og Þorbjörg Helga blómsveig að minnisvarðanum við þetta tilefni. 35 ár eru í sumar frá þessum skelfilega atburði er dr. Bjarni, Sigríður og Benedikt létust. Þótti okkur við hæfi að minnast forystu dr. Bjarna í íslenskum stjórnmálum og starfa hans í þágu Sjálfstæðisflokksins og Sambands ungra sjálfstæðismanna á afmælisdegi SUS. dr. Bjarni er sá stjórnmálamaður 20. aldarinnar sem er í mestum metum hjá mér. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans. Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma.

Dr. Bjarni Benediktsson var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Forysta hans var Sjálfstæðisflokknum mikilvæg. Það mun vonandi aldrei gleymast hversu mikilvægur forystumaður dr. Bjarni var okkur sjálfstæðismönnum. Hann markaði stór skref í stjórnmálasögu landsins að mínu mati. Allir þeir sem kynna sér stjórnmálaferil dr. Bjarna komast fljótt að því hversu öflugur hann var, hann var sá forystumaður íslenskra stjórnmála á 20. öld sem hafði mest áhrif á að móta lýðveldinu Íslandi framtíðarstefnuna, færa Ísland fyrstu skrefin í átt að forystu í eigin málum og móta utanríkisstefnu landsins, sem hefur haldist að mestu óbreytt síðan. Íslenskt stjórnmálalitróf varð litlausara við snögglegt og ótímabært fráfall hans fyrir 35 árum. Brátt kemur út ævisaga hans sem mun rekja æviferil dr. Bjarna í ítarlegu máli. Verður ánægjulegt að lesa þá bók. Við minnisvarðann flutti Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, stutt ávarp og minntist dr. Bjarna.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Afmælisins verður minnst næstu vikuna með sérstökum hátíðarpistlum á vef SUS þar sem nokkrir fyrrum formenn SUS rita hugleiðingar sínar í tilefni afmælisins. Þegar hafa birst góðar greinar eftir Ásgeir Pétursson fyrrum bæjarfógeta og sýslumann, og Árna Grétar Finnsson hæstaréttarlögmann. Hvet ég alla til að lesa þau skrif og þá pistla sem framundan eru á vefnum. Í sunnudagspistli um helgina fjallaði ég ítarlega um afmæli SUS og fór þar yfir það sem ég tel mestu skipta þegar saga SUS er skoðuð og þegar litið er inn í framtíðina.

Saga dagsins
1914 Franz Ferdinand hertogi, myrtur ásamt eiginkonu sinni, Sophie, af Gavrilo Princip, í Sarajevo. Morðið á þeim leiddi til upphafs deilna og að lokum varð upphafspunktur fyrri heimsstyrjaldarinnar.
1919 Versalasáttmálinn formlega undirritaður - með því lauk fyrri heimsstyrjöldinni sem stóð í 5 ár.
1991 Margaret Thatcher tilkynnir að hún gefi ekki kost á sér í bresku þingkosningunum 1992 eftir
33 ára þingferil - Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands í nóvembermánuði 1990.
1997 Mike Tyson dæmdur úr leik í hnefaleikabardaga við Evander Holyfield, í kjölfar þess að hann bítur bita úr eyra hans. Tyson og Holyfield voru að keppa um heimsmeistaratitil í boxi í þungavigt.
2001 Slobodan Milosevic fv. forseti Júgóslavíu, framseldur til stríðsglæpadómstóls í Haag í Hollandi.

Snjallyrðið
Moon river, wider than a mile,
I'm crossing you in style someday,
Oh, dream maker, you heartbreaker,
Wherever you're goin',
I'm goin' your way.

Two drifters, off to see the world,
There's such a lot of world to see,
We're after the same rainbow's end
Waitin' round the bend
My Huckleberry friend,
Moon river and me.
Johnny Mercer tónskáld (1909-1976) (Moon River)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 75 ára afmæli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Fer ég yfir sögu SUS og Sjálfstæðisflokksins sem fagnaði 75 ára afmæli sínu á síðasta ári. Jafnframt minni ég á mikilvægi þess að við ungliðarnir í flokknum vinnum vel saman að þeim verkefnum sem blasa við á komandi árum í aðdraganda tveggja kosninga sem að mínu mati þurfa að vinnast samhent og sameinað í okkar röðum. Hefur það alltaf verið grunnur míns starfs í flokknum að sjálfstæðismenn horfi fram á veginn en ekki til baka. Markmið okkar á að vera nú sem ávallt að vinna að heill Sjálfstæðisflokksins og gera allt það sem mögulega getur styrkt hann til framtíðar og eflt hann sem stærsta flokk landsins og tryggir forystu hans í landsmálum og á vettvangi sveitarstjórna um allt land. Með öflugri og virkri ungliðahreyfingu er unnið stórt skref í þá átt að heilla sífellt fleiri til fylgilags við sjálfstæðisstefnuna, sem er nú sem ávallt fyrr hin eina rétta stefna í íslenskum stjórnmálum.

- í öðru lagi fjalla ég um pólitísku krísuna í ESB. Segja má að þetta sé einhver mesta og flóknasta pólitíska kreppa sem orðið hefur innan Evrópusambandsins frá stofnun þess. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Sú krísa margfaldaðist á leiðtogafundinum er ekki samdist um næstu skref í málinu. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Það er reyndar svo merkilegt að enn er til fólk hér á landi sem er hlynnt því að verða hluti af þessu bandalagi kaos og reglugerða. Reyndar ber lítið á þeim þessar vikurnar þegar mestu lætin ganga þarna yfir. Er það svosem skiljanlegt, enda varla við því að búast að nokkur tali fyrir því að verða hluti af þessu meðan vandræðin eru svo yfirgnæfandi og áberandi sem raun ber vitni þessar vikurnar.

- í þriðja lagi fjalla ég um skrautlegar fréttir af þotulífinu sem einkennir nú forsetaembættið og PR-mennsku forsetans í þágu vissra einstaklinga. Og ekki minnkuðu spurningarnar þegar að forsetinn var eins og PR-fulltrúi í breskum sjónvarpsþætti um Baug nýlega. Sýnd voru brot úr þessum þætti á Stöð 2 í vikunni og var merkilegt að fylgjast með því. Þar birtist maður sem kallaður er gamall nágranni, sjálfur forsetinn sem bjó eins og Bónusfeðgar á Seltjarnarnesi. Ég get ekki sagt annað en að kómískt hafi verið að sjá þetta brot úr þættinum. Segja má að mér hafi verið hugsað til þess að forsetinn væri einn PR-fulltrúi þessa fyrirtækis seinustu ár, sem hæst bar með sögulegum blaðamannafundi á Bessastöðum fyrir ári síðan. Fyrir hverja annars breytti Ólafur Ragnar annars eðli þessa forsetaembættis á undarlegum forsendum?


Pólitíska ræman
The War Room

Heimildarmyndin The War Room er ein besta pólitíska mynd seinni tíma. Hún fjallar mjög nákvæmlega um kosningabaráttu Bill Clinton þáv. ríkisstjóra í Arkansas, gegn George H. W. Bush þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 1992. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Er myndin mjög fróðleg og veitir skemmtilega innsýn í forsetakosningarnar 1992 þar sem Clinton vann sigur á Bush í spennandi kosningabaráttu. Voru þá kosningar háðar á nýstárlegan máta og eru áhorfendur í návígi við helstu atburðarás í innsta hring Clintons í kosningabaráttunni. Kynnist áhorfandinn vel með þessu vinnubrögðum og strategíu kosningaspekúlanta í bandarískum forsetakosningum, þar sem valdamesti maður heims er kjörinn beinni kosningu. Margt hefur breyst á þeim 13 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur allir vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um kosningabaráttuna og birta þar skrif eftir sig.

Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta háð á okkar tímum án notkunar Internetsins sem umfangsmikils fjölmiðils. Árið 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum út með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar og hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestan hafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Árið 1992 var staða Bush tekin að daprast eftir að hann náði sögulegu hámarki í skoðanakönnunum eftir Persaflóastríðið. Kosningabaráttan snerist að mestu leyti um efnahagsmál er á hólminn kom en ekki utanríkismál þar sem forsetinn var sterkastur fyrir. Ekki bætti úr skák að hann hafði gengið á bak orða sinna í mikilvægasta kosningaloforði sínu 1988, að hækka ekki skatta. Þekkt var frægt slagorð hans þá: Read my lips - no new taxes! Var þetta óspart spilað í kosningabaráttunni 1992 og frægt varð þegar gert var rapplag með þessum orðum og þau spiluð aftur og aftur. Þetta varð loforðið sem varð Bush að miklu leyti að falli. Kosningabaráttan varð í heildina mjög hörð og óvægin.

Myndin er góð heimild um þessa kosningabaráttu og kemst áhorfandinn í innsta kjarna kosningabaráttu Clintons og fylgist með mikilvægum augnablikum í kosningaslagnum. Þessi mynd er því í senn nauðsynlegur hluti stjórnmálasögunnar fyrir áhugamenn um pólitík og áhugaverð lýsing á pólitískum kosningaslag þar sem tekist var á um allt eða ekkert með ósvífnum hætti. Hvet ég alla þá sem unna bandarískri pólitík og lykilpunktum þessarar sögulegu kosningabaráttu árið 1992 að horfa á þessa mynd.

Saga gærdagsins
1244 Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslendinga var háð á Húnaflóa. Bardaginn var háður á milli tveggja voldugra ætta, Sturlunga (undir forystu Þórðar kakala) og Ásbirninga (undir forystu Kolbeins unga).
1809 Danski ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen tók sér öll völd á Íslandi og lét fangelsa Trampe stiftamtmann og fleiri. Hann lýsti sig verndara landsins og hæstráðanda til sjós og lands. Hann sat á valdastóli í tæpa tvo mánuði. Enskur skipstjóri batt loks enda á valdaferil Jörundar þann 22. ágúst.
1985 Reynir Pétur Ingvarsson vistmaður á Sólheimum í Grímsnesi, lauk styrktargöngu sinni hringinn í kringum landið til styrktar starfinu á Sólheimum - gangan var 1.411 km. og tók hún rúmlega mánuð.
1988 Vigdís Finnbogadóttir endurkjörin forseti Íslands - hún sigraði Sigrúnu Þorsteinsdóttur með yfirburðum í kosningu og hlaut tæplega 93% greiddra atkvæða. Var það í fyrsta skipti sem sitjandi forseti Íslands fékk mótframboð og varð að heyja kosningabaráttu. Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands í júní 1980 og sat Vigdís í embætti samfleytt í 16 ár, eða allt til 1. ágúst 1996.
1990 Elísabet II Englandsdrottning og Filippus hertogi af Edinborg, komu í heimsókn til Íslands.

Saga dagsins
1855 Gufuskip kom til Reykjavíkur í fyrsta skipti, það var danska gufuskipið Thor. Rúmlega tveim árum síðar kom fyrsta gufuskipið til Akureyrar. Það var þrímastrað dampskip að nafni H.M.S. Snake.
1885 Öxar við ána, ljóð Steingríms Thorsteinssonar við lag Helga Helgasonar, var flutt í fyrsta skipti við upphaf Þingvallafundar. Öxar við ána er án nokkurs vafa eitt fremsta ættjarðarljóð Íslendinga.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og lætur hin fleygu orð, Ich bin ein Berliner, falla. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi síðar á sama ári.
1990 Popptónlistarmaðurinn Bob Dylan hélt ógleymanlega rokktónleika í Laugardalshöll í Reykjavík.
2003 Strom Thurmond fyrrum öldungadeildarþingmaður, deyr, 100 ára að aldri. Thurmond sat í öldungadeild Bandaríkjaþings lengur en nokkur þingmaður, í rúma hálfa öld eða nær til dauðadags.

Snjallyrðið
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er yndislegt um vor,
í björtu veðri er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor

Er sólin heit í heiði
baðar haf og dali og fjöll.
Í háum hamraborgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll

Um háreist hamraskörðin
hoppa lömb í frið og spekt.
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er óviðjafnanlegt.
Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður (1940) (Að sigla inn Eyjafjörðinn)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Vegurinn um Lágheiði milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um umferðarmál á íhald.is. Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Fer ég annars ítarlega yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Cinema Paradiso

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri - við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig og tónlist meistara Ennio Morricone í myndinni er sérstaklega eftirminnileg, eins og öll hans verk. Uppúr stendur Love Theme sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar, hvorki meira né minna. Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna.

Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en það var svo sjónvarpið sem drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Mikil kaldhæðni. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni - hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd. Þessa verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá! Ólýsanlega góð kvikmynd.

Hrísey

Sumarferð okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi verður farin um næstu helgi, laugardaginn 2. júlí. Að þessu sinni munum við halda út í Hrísey og skemmta okkur vel saman. Þar verður borðað saman, farið í skoðunarferð um eynna, sungið saman og haft það notalegt í góðra vina hópi. Hvet ég alla sjálfstæðismenn í kjördæminu til að skrá sig í ferðina og skella sér með okkur í þessa ferð. Það er alltaf gaman að hitta flokksfélaga sína og eiga skemmtilega stund. Alltaf er gaman að fara til Hríseyjar. Nú er reyndar eyjan orðin hluti af Akureyrarbæ, en ár er nú um helgina frá því að sameining Akureyrar og Hríseyjar var samþykkt með afgerandi hætti. Það verður því notalegt og gott fyrir okkur akureyska sjálfstæðismenn að taka á móti flokksfélögum okkar í kjördæminu út í eyju, í sveitarfélaginu okkar eftir viku. Ég hlakka til að sjá mæta félaga þar á góðri stund.

ESB-krísunni vel lýst :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian hafa verið iðnir við að tjá stöðuna þar með skondnum grínteikningum. Þessi mynd hér er engin undantekning frá því og hún segir sína sögu sjálf. :)

Saga dagsins
1000 Kristin trú var lögtekin á Alþingi á Þingvöllum - átök höfðu verið milli kristinna og heiðingja um þessar breytingar en Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði, úrskurðaði þá að allir menn skyldu verða kristnir og friður yrði að ríkja milli þessara tveggja hreyfinga. Sátt náðist loks um þá niðurstöðu.
1865 Keisaraskurði var beitt í fyrsta skipti af Jóni Hjaltalín - barnið lifði aðgerðina en móðirin ekki.
1886 Góðtemplarar stofnuðu Stórstúku Íslands til að berjast einkum fyrir bindindi á áfenga drykki.
1934 Gunnar Thoroddsen var kjörinn til þingsetu - Gunnar var þá 23 ára gamall og er hann yngstur þeirra sem hafa hlotið kjör til þings - Gunnar varð einn af virtustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Hann varð á löngum ferli borgarstjóri, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra og loks varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var forsætisráðherra 1980-1983. Gunnar lést haustið 1983.
1994 Jóhanna Sigurðardóttir sagði af sér embætti félagsmálaráðherra, vegna pólitísks ágreinings við Jón Baldvin Hannibalsson en hún hafði tapað formannskjöri innan Alþýðuflokksins við Jón skömmu áður. Afsögn Jóhönnu leiddi til klofnings flokksins, myndunar nýs flokks Jóhönnu, Þjóðvaka, og að lokum endaloka stjórnarsetu Alþýðuflokksins í apríl 1995. Klofningurinn skaðaði Jón og Jóhönnu.

Snjallyrðið
Hér sit ég einn og sakna þín.
Með sorg í hjarta drekk ég vín.
Og mánaljósið líkfölt skín
á legubekkinn minn.
Og aleinn sit ég þar í þetta sinn.

Hve ást þín mig á örmum bar.
Hve innileg vor gleði var,
er saman tvö við sátum þar,
svo saklaus, góð og hrein,
sem fuglar tveir, er syngja á sömu grein.

Og alltaf skal ég að því dást,
að enn skuli mitt hjarta þjást
af sömu þrá og sömu ást,
þótt sértu farin burt,
þótt sértu farin fyrir löngu burt.

Hún þykir fágæt þessi dyggð.
Ég þekki enga slíka tryggð.
En tíminn læknar hugans gryggð
og hylur gömul sár,
en sumum nægir ekki minna en ár.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Tryggð)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Baldurshagi

Þessa dagana er hafin af fullum krafti jarðvegsvinna á Baldurshagareitnum svokallaða hér á Akureyri. Þar munu brátt rísa tvær sjö hæða blokkir. Vinna við að taka grunn annarrar blokkarinnar er komin langt á veg. Það var í lok síðasta árs sem bæjarstjórn Akureyrar ákvað að hafna upphaflegri tillögu sem gerði ráð fyrir 12 hæða húsi á Baldurshagareitnum. Seinasta árið hefur málefni Baldurshagareitsins verið eitt helsta umræðuefnið í bæjarmálum hér. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni, á fundi þann 5. október sl. samþykkti svo bæjarstjórn tillögu umhverfisráðs um breytingu á aðalskipulagi svæðisins umhverfis Baldurshaga sem gerði ráð fyrir að breyta óbyggðu svæði og almennu útivistarsvæði í íbúðarsvæði. Fór tillagan þá á borð Skipulagsstofnunar til athugunar. Í desember samþykkti svo bæjarstjórn eins og fyrr segir að hætta við byggingu 12 hæða húss og þess í stað kæmi á teikniborðið tvær sjö hæða blokkir. Niðurstaða málsins liggur nú fyrir og erum við hér í hverfinu því farin að horfa á byrjun framkvæmda á reitnum.

Hart hefur verið tekist á um málið. Í margra augum var um mikið tilfinningamál að ræða, hvort reisa ætti fjölbýlishús þar sem nú stendur lítið, gamalt íbúðarhús með nafninu Baldurshagi. Það er og hefur alla tíð verið grunnatriði að minni hálfu í málinu að byggt skuli á þessum reit. Deila mátti hinsvegar um lögun þess húss sem á teikniborðinu var og hvort það hentaði inn í byggðamyndina í nánasta nágrenni, en óneitanlega stakk hugmyndin í stúf við annað í hverfinu og var þónokkuð áberandi. Hef ég búið nokkurn tíma nú í Þórunnarstrætinu og tel rétt að byggja á þessum reit. Eins og fram hefur komið er mikill áhugi fyrir því að búa á þessum stað. Ekki þarf að undrast það, stutt er í verslanir og miðbæinn. Um er að ræða hjarta bæjarins. Allir þeir sem koma á þetta svæði skilja vel af hverju fólk vill búa svo nálægt miðbænum og þjónustukjarnanum á Glerártorgi. Sjálfur bý ég á þessu svæði og tel þetta besta staðinn í bænum. Miðbærinn er í göngufjarlægð, stutt er í verslanir og alla þjónustu. Þannig að ekki undrast ég af hverju byggt er á þessu svæði og ekki er ég heldur hissa á því að íbúðirnar í þessum fjölbýlishúsum seljist svo vel sem raun ber vitni.

En þessu máli virðist nú lokið. Vinnuvélar eru komnar hér á reitinn rétt fyrir neðan þar sem ég bý og væntanlega er stutt í að þetta gamla hús hverfi. Vissulega er eftirsjá af svo gömlu húsi sem sett hefur svip á sögu bæjarins og hér á Brekkunni. En í stað þess að horfa upp á húsið drabbast niður og reitinn ekki síður mun nú þar rísa öflug byggð, tvö glæsileg fjölbýlishús sem munu ekki síður setja svip sinn á svæðið hér. Ég fagna því að þessi hús munu brátt rísa.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórn Varðar kom saman til fundar á þriðjudagskvöld, til þess að ræða málefni Sambands ungra sjálfstæðismanna, en sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Á fundinum samþykkti stjórnin eftirfarandi yfirlýsingu:

"Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir stuðningi við framboð Borgars Þórs Einarssonar til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Vörður hvetur unga sjálfstæðismenn um land allt til að vinna sameinuð af krafti að undirbúningi komandi sveitarstjórnar- og alþingiskosninga sem framundan eru á næsta starfstímabili SUS. Með samstöðu að leiðarljósi og því að vinna sameinuð að þeim verkefnum sem framundan eru munum við ná að uppskera vel fyrir flokk okkar. Ungliðar í Norðausturkjördæmi stefna að því að vinna sameinuð á næstu tveim árum að undirbúningi þessara kosninga með stofnun kjördæmasambands ungliða í flokknum á kjördæmisþingi flokksins í september."

Framundan er eins og fyrr segir í þessari yfirlýsingu stjórnar félagsins stofnun kjördæmasambands ungliða í Norðausturkjördæmi. Það mun að mati okkar í stjórninni skapa mikilvægan samstarfsvettvang fyrir öll ungliðafélögin í kjördæminu til þess að vinna að sameiginlegum verkefnum af krafti en umfram allt í sameiningu. Þar þarf að vinna sameinuð að undirbúningi tveggja gríðarlega mikilvægra kosninga sem þurfa að vinnast bæði sameinað og samhent. Hér þarf að taka til hendi og efla starfið og það verður að vinnast með samhentum hætti. Það er von mín að ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins beri gæfa til að vinna sameiginlega að þeim verkefnum sem mestu skipta. Ég hef alla tíð unnið í Sjálfstæðisflokknum af heilindum og með það að leiðarljósi að vinna flokknum gagn, skrifað þar greinar og unnið af krafti að þeim verkefnum sem skipt hafa flokkinn miklu máli.

The China Syndrome

Ég horfði í gærkvöldi á kvikmyndina The China Syndrome. Vel gerð kvikmynd sem vann hug og hjörtu kvikmyndaaðdáenda árið 1979, og var ennfremur tilnefnd til sex óskarsverðlauna. Í henni er sagt frá tilraun yfirmanna kjarnorkuvers í Kaliforníu til að hylma yfir bilun í verinu en sjónvarpsfréttamenn komast brátt á snoðir um að eitthvað mikið sé að. Sérlega spennandi og vönduð dramatísk mynd í bland með stórkostlegum leik allra aðalleikaranna sem hittir beint og ákveðið í mark. Sérlega áhrifarík stórmynd sem er ekki einungis fagur velluboðskapur heldur raunsæ og ákveðin í allri túlkun og setur fram blákaldar staðreyndir um hörmungar sem myndu hljótast af (mögulega eða jafnvel) væntanlegu kjarnorkuslysi og af eyðileggingarmætti kjarnorkunnar og af vita vonlausu samsæri yfirmanna kjarnorkuversins til þess að reyna að þegja málið í hel. Myndin verður enn áhrifameiri vegna þess hversu látlaus hún er í uppbyggingu og framsetningu. Til dæmis er engin kvikmyndatónlist í myndinni. Lokahluti myndarinnar er mjög áhrifaríkur og í heildina má segja að myndin sé þrælpólitísk og einlæg allt í gegn.

Hér fara þau öll á kostum óskarsverðlaunaleikarnir: Jack Lemmon, Jane Fonda og Michael Douglas. Lemmon er stórfenglegur í hlutverki hins samviskusama og úrræðagóða yfirmanns í kjarnorkuverinu. Stjörnuleikur hjá einum af bestu leikurum seinustu aldar. Glansar í erfiðu hlutverki. Ekki er Fonda síðri í hlutverki hinnar gallhörðu og úrræðagóðu sjónvarpsfréttakonu, og vinnur hún sífellt betur á með hverri þraut. Eitt af bestu hlutverkum hennar. Douglas er sterkur í hlutverki hins traustlynda og vinnufúsa sjónvarpsupptökumanns. Það er semsagt úrvalsleikur sem ekki síst einkennir og mótar þessa úrvalsmynd. Þau eru öll mjög sannfærandi og gera það að verkum að myndin er sífellt spennandi og vel úr garði gerð. Lokamínúturnar eru mjög spennandi og eru með áhrifaríkustu lokamínútum í kvikmynd. Myndin fékk aukið vægi þegar alvöru kjarnorkuslys átti sér stað tæpri viku eftir frumsýningu myndarinnar, á Þriggja mílna eyju, og orsakaði að myndin setti sýningarmet yfir frumsýningavikuna, sem hélst allt þar til stjörnustríðsmyndin The Empire Strikes Back var frumsýnd, árið eftir. Sterk og öflug mynd - fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Bob Woodward - Plan of Attack

Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkilega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President?s Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Pólitísk krísa í ESB :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru oft fljótir að sjá meginpunkta stjórnmálanna með gamansömum hætti. Það tókst þeim svo sannarlega í þessari kostulegu mynd. :)

Saga gærdagsins
1906 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Billy Wilder fæðist í Póllandi - Wilder lést í marsmánuði 2002.
1939 Mesti hiti sem þá hafði mælst á Íslandi, 30,5°C, mælist í Berufirði - metið stóð allt til 1976.
1941 Nasistar ráðast inn í Sovétríkin - þeir náðu fyrst miklum árangri þar en hörfuðu síðan frá.
1963 Páll VI kjörinn páfi í kosningu kardinála í Róm - hann sat á páfastóli til dauðadags árið 1978.
1987 Óskarsverðlaunaleikarinn og dansarinn Fred Astaire deyr í Los Angeles, 88 ára að aldri.

Saga dagsins
1926 Jón Magnússon forsætisráðherra, deyr sviplega á Norðfirði, 67 ára að aldri. Hann hafði fylgt Kristjáni 10. Danakonungi í ferð um Norður- og Austurland. Jón varð fyrst forsætisráðherra 1917 og sat til 1922 og frá 1924 til dánardags. Eftirmaður Jóns á forsætisráðherrastóli varð Jón Þorláksson.
1974 Mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri, 29,4°C - þetta met í hita hér á Akureyri stendur enn.
1977 Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal opnaður - var reistur í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar.
1985 Boeing 747 flugvél springur í loft upp yfir Írlandi - 329 manns létu lífið í þessu mikla flugslysi.
1995 Björgunarþyrlan TF-Líf kom til landsins - koma hennar markaði þáttaskil í björgunarmálum hér.

Snjallyrðið
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheima-spil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld á Akureyri (1835-1920) (Leiðsla)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Jacques Chirac og Tony Blair

Eins og allir vita sem fylgjast með stjórnmálum ríkir kreppa innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að engin samstaða náðist milli helstu forysturíkja sambandsins á leiðtogafundi ESB í Brussel í síðustu viku. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Í viðtölum að loknum fundinum kenndi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, þeim Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, um að vera fasta í fortíðinni við að ræða vandamál ESB. Á móti kenndu þeir Blair um að hafa verið ófáanlegur til samstarfs um þeirra mikilvægustu verkefni. Djúpstæður ágreiningur er því milli leiðtoganna þriggja um næstu skref innan Evrópusambandsins. Algjör pólitísk krísa er því í stöðunni.

Segja má að ágreiningur milli leiðtoganna þriggja sé ekki nýr af nálinni. Þeir tókust harkalega á í Íraksstríðinu fyrir tveim árum þegar að breska ríkisstjórnin fylgdi þeirri bandarísku að málum. Þá ríkti kalt stríð milli Blair og leiðtoganna tveggja sem stóðu sameinaðir gegn stríðinu og ákvörðunum Blair og Bush. Seinustu mánuði hafði aftur byggst brú milli landanna þriggja og samstarfið skánað til muna. Svo virðist vera sem að synjun Frakka hafi leitt til versnandi samskipta og kuldalegri að nýju. Segja má að átökin hafi kristallast í ágreiningi leiðtoganna þriggja fyrir opnum tjöldum á fundinum og á blaðamannafundum eftir að ljóst varð að ekkert samkomulag hafði náðst. Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, sagði reyndar eftir fundinn að í Evrópu væru tvær fylkingar. Nefndi hann þær með þeim hætti að þeir skiptust eftir því hvort menn vildu Evrópusamband sem gæti tekist á við framtíðina, eða hvort menn vildu Evrópusamband sem væri fast í fortíðinni. Ágreiningurinn er því mjög djúpstæður og sést best af því hvernig menn túlkuðu fundinn með gjörólíkum hætti og voru ósammála algjörlega um megingrundvöll þess sem framundan væri.

Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Evrópusambandið er að upplifa sína mestu krísutíma í háa herrans tíð. Samstaða er ekki um framtíðina og tekist á um megingrundvöll Evrópusamstarfsins fræga. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Akureyri

Notaleg dagskrá var í bænum á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Var mjög þægilegt að labba um bæinn og líta á dagskrána. Fékk ég heimsókn frá vini mínum um helgina og áttum við mjög gott spjall og þægilega stund hérna og litum á stemmninguna í bænum. Að kvöldi 17. júní fórum við á kvöldvöku sem haldin var til heiðurs skáldum bæjarins í brekkunni við Sigurhæðir, hús sr. Matthíasar Jochumssonar prests og skálds. Örn Ingi Gíslason stjórnaði athöfninni. Þar var ávarp um skáld bæjarins flutt af Erlingi Sigurðarsyni forstöðumanni Sigurhæða, flutt voru falleg ljóð skálda bæjarins, falleg tónlist og hagyrðingar komu með skondnar vísur. Hápunkturinn var þegar Óskar Pétursson söngvari, flutti lag Jóhanns Ó. Haraldssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi: Sigling inn Eyjafjörð. Söng hann það án undirleiks. Óskar er einn af bestu söngvurum okkar Akureyringa í dag og sannaði hann það með kraftmiklum flutningi sínum án undirleiks á þessu fallega lagi við glæsilegt ljóð Davíðs. Þetta var annars hin notalegasta helgi hér fyrir norðan.

Á morgun hefst Listasumar 2005 með setningarathöfn í miðbænum. Kl. 13:00 hefst alþjóðlega leiklistarhátíðin "Leikum núna" með opnunarsýningu. Á Ráðhústorginu kl. 14.30 verður formleg opnun á leiklistarhátíðinni þar sem verndari hátíðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, flytur opnunarræðu. Formleg setning Listasumars 2005 verður í Ketilhúsinu kl. 16 í boði breska sendiráðsins á Íslandi. Ávörp munu þar flytja þau Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi. Á dagskránni verða einnig tónlistaratriði þar sem fram koma: Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari, flytja létta klassíska tónlist, María Gunnarsdóttir söngkona, og Eiríkur Stephensen gítarleikari, flytja leikhústónlist frá ýmsum þjóðlöndum. Kaldo Kiis tónlistarmaður og Margot Kiis söngkona, flytja létt djass og dægursveiflu. Það verður notaleg athöfn semsagt í miðbænum og skemmtilegt að fylgjast með upphafi Listasumars að þessu sinni, sem ávallt fyrr.

The Remains of the Day

Horfði í gærkvöldi á bresku úrvalsmyndina The Remains of the Day. Myndin er byggð á samnefndri bók Kazuo Ishiguro. Um framleiðslu og leikstjórn sá tvíeykið Merchant (sem er nýlega látinn) og Ivory, mennirnir sem stóðu að meistaraverkunum Howards End og A Room with a View en Ruth Prawer Jhabvala skrifaði handritið að þeim myndum, rétt eins og þessari. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem bæði vildi eiga hann og þótti í raun vænt um hann.

Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu, en á meðan er rifjuð upp saga hans og starfsfólksins á Darlington Hall, en konan sem hann hyggst hitta er fröken Sally Kenton, en hún starfaði sem ráðskona á hefðarsetrinu undir stjórn hans á þeim tíma sem áður er lýst, þ.e.a.s. árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Stevens varð þá ástfanginn af henni, en þorði ekki að segja henni hug sinn, en hún giftist öðrum manni. Hún hefur nú skilið við eiginmann sinn og hyggst Stevens reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar... Frábær mynd. Handrit, tónlist, sviðsetningin og leikstjórnin er frábær, en aðall hennar er leikur aðalleikaranna. Sir Anthony Hopkins er frábær í hlutverki hins skyldurækna yfirþjóns á hefðarsetrinu og hefur hann sjaldan leikið betur. Emma Thompson er einnig stórkostleg í hlutverki ráðskonunnar fröken Kenton. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Semsagt; einstök kvikmynd sem ég mæli eindregið með að þeir kynni sér sem ekki hafa séð hana. Hún er meistaravel gerð og stórfenglega leikin af tveimur einstökum leiksnillingum.

Fall Berlínarmúrsins 1989

Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins þann 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.

9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta októberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.

Tony Blair í aðalhlutverki í ESB :)

Um mánaðarmótin tekur Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, við forsæti í ESB. Eins og flestir vita var mjög deilt á leiðtogafundi ESB í síðustu viku. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á vegtyllu Blair innan ESB og stefnu hans er fram kom á leiðtogafundinum. :)

Saga dagsins
1959 Sigurbjörn Einarsson vígður biskup. Hann sat á biskupsstóli allt til 1981, lengst allra á öldinni.
1973 Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, var stofnaður - hann nær allt frá Dettifossi niður að Ásbyrgi.
1991 Perlan í Öskjuhlíð, útsýnis- og veitingahús Hitaveitu Reykjavíkur, var formlega tekið í notkun.
1999 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, kom í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur af öllum forsætisráðherrum landsins - Keizo Obuchi lést af völdum heilablóðfalls ári síðar, þá 62 ára að aldri.
2000 Síðari Suðurlandsskjálftinn ríður yfir - hann mældist 6,6 stig á Richter. Fyrri jarðskjálftinn var 17. júní 2000. Mikið tjón varð víða á Suðurlandi vegna þessara hamfara og skemmdust hús á Hellu.

Snjallyrðið
Loks eftir langan dag
lít ég þig, helga jörð.
Seiddur um sólarlag
sigli ég inn Eyjafjörð.
Ennþá á óskastund
opnaðist faðmur hans.
Berast um sólgyllt sund
söngvar og geisladans.

Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um umræðu seinustu daga um það hvort að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi verið vanhæfur í einkavæðingarferli ríkisbankanna vegna tengsla sinna við fyrirtækið Skinney-Þinganes á Hornafirði. Það fyrirtæki er eitt þeirra sem eiga fyrirtækið Hesteyri sem er stærsti hluthafinn í Keri sem var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma. Stjórnarandstaðan réðist að Halldóri vegna málsins og Ríkisendurskoðun sá ástæðu til að kanna málið. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var kynnt í byrjun vikunnar. Er það mat Ríkisendurskoðunar að Halldór hafi ekki verið vanhæfur. Fjalla ég ítarlega um umræðuna um málið, niðurstöðu minnisblaðs Ríkisendurskoðunar um það og stöðu þess nú. Ekki má leika neinn vafi á því hvort forsætisráðherra hafi verið hæfur í málinu. Því er ekki óeðlilegt að lögfræðileg athugun fari fram. Mér þykir sem ekki hafi öllum spurningum í málinu verið svarað. Það er best fyrir Halldór sjálfan að málið sé klárað með ákveðnum hætti og ætti varla að vera erfitt að kanna lögfræðilega túlkun málsins.

- í öðru lagi fjalla ég um mótmæli virkjunarandstæðinga sem réðust að ráðstefnugestum í Reykjavík með grænlituðu skyri og mótmæltu almennt stóriðju. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Merkilegt var að sjá Elísabetu Jökulsdóttur og Geir Jón Þórisson í Kastljósviðtali í vikunni. Þar talaði Elísabet með þeim hætti að eðlilegt væri að grípa til svona aðgerða til að tjá skoðanir sínar og sá ekkert athugavert við vinnubrögðin. Mátti helst skilja á henni að brjóta mætti lög og gera hvað sem væri til að mótmæla í þessu máli. Engin mörk væru á því. Þessar skoðanir Elísabetar eru með ólíkindum. Ég hef jafnan haft lítið álit á málflutningi andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Geir Jón kom með rétta punktinn er hann spurði Elísabetu beint út hvort það væri þá innan markanna sem hún setti sér jafnvel að valda öðru fólki tjóni beint með því að tala gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri við Reyðarfjörð. Fer ég yfir málið og skoðanir mínar á stóriðjuandstæðingunum almennt.

- í þriðja lagi fjalla ég á kvenréttindadeginum um 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í dag eru liðnir níu áratugir frá því að Kristján 10. konungur Danmerkur og Íslands, undirritaði lög sem veittu konum á Íslandi, eldri en 40 ára, rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þetta er því merkilegur dagur í sögu landsins og ekki síður merkilegur dagur í sögu jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þá öðluðust íslenskar konur mikilvægt skref til jafnréttis. Ég vil í tilefni dagsins óska konum til hamingju á kvenréttindadeginum með 90 ára afmæli kosningaréttar þeirra. Það er við hæfi að minnast tímamótanna.


Pólitíska ræman
All the King's Men

Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélagi og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki.

Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn. Ég mæli með því að allir sem hafi áhuga á stjórnmálum horfi á þessa úrvalsmynd.

Saga dagsins
1915 Kvenréttindadagurinn - Kristján 10. Danakonungur, staðfesti breytingar á stjórnarskránni sem gerði ráð fyrir að konur fengju kosningarétt og kjörgengi sem fyrst miðaðist við 40 ára og eldri.
1960 Keflavíkurgangan - hernámsandstæðingar efndu til fyrstu mótmælagöngunnar frá herstöðinni í Keflavík til Reykjavíkur. Keflavíkurgöngurnar, er voru aðhlátursefni NATO-sinna, voru mjög umdeildar.
1987 Útvarpshúsið við Efstaleiti í Reykjavík var tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Útvarpshúsið hafði verið 9 ár í byggingu og var ekki endanlega tilbúið fyrr en árið 2000 er Sjónvarpið flutti þangað.
1996 Fyrsta einkanúmerið, Ísland, var sett á bifreið Árna Johnsen þáv. alþingismanns. Hann hafði verið helsti baráttumaður þess að fólk gæti keypt sér númer á bifreið sína með áletrun að eigin vali.
1999 16 manna hópur fór á 2 gúmmíbátum og 3 kajökum niður Jökulsá á Brú, eftir Dimmugljúfrum.

Snjallyrðið
Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Brosir laut og leiti,
ljómar fjall og hjalli.
Lækur vætu veitir,
vökvast bakka halli.
Geislar sumarsólar
silungsána gylla
þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra (1861-1922) (Hraun í Öxnadal)


Engin fyrirsögn

Gleðilega þjóðhátíð

Íslenski fáninn

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946)


Davíðshús

Í dag verður Davíðshús opnað að nýju eftir gagngerar endurbætur. Það var á lýðveldisárinu 1944 sem Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, fluttist í þetta hús sem hann hafði reist sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Ætla ég að taka þátt í hátíðarhöldunum hér á Akureyri í dag og lít í Davíðshús og skoða það eftir þessar miklu breytingar. Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi kveðskapar Davíðs frá Fagraskógi. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Eitt fallegasta ljóð Davíðs frá Fagraskógi er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Saga dagsins
1811 Jón Sigurðsson forseti, fæddist við Hrafnseyri við Arnarfjörð - Jón forseti varð sjálfstæðishetja Íslendinga og leiddi þjóðina fyrstu skrefin í átt að fullu sjálfstæði sínu. Hann lést 7. desember 1879.
1911 Háskóli Íslands stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og helgaður minningu hans.
1941 Alþingi Íslendinga kaus Svein Björnsson fv. sendiherra, sem fyrsta og eina ríkisstjóra Íslands.
1944 Lýðveldi stofnað á Lögbergi á Þingvöllum - Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Stjórnarskrá lýðveldisins var ennfremur samþykkt. Ísland hafði með því tekið forystu í eigin málum.
1994 50 ára afmælis hins íslenska lýðveldis var minnst með glæsilegri lýðveldishátíð á Þingvöllum.

Snjallyrðið
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Matthías Jochumsson skáld og prestur (1835-1920) (Lofsöngur)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Reykjavíkurflugvöllur

Í gær sendi stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar út frá sér ályktun þar sem skorað er á samgönguráðherra að taka upp viðræður við Reykjavíkurborg um sölu á landi ríkisins sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á. Einnig skorar félagið á ráðherra að vinna að því að finna heppilega staðsetningu fyrir nýjan innanlandsflugvöll í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Fáist ásættanlegt verð fyrir það landsvæði sem núverandi flugvöllur stendur á telur stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar einboðið að nýta þá fjármuni sem þannig fást til þess að reisa nýjan flugvöll og bæta samgöngur höfuðborgarinnar við aðra landshluta s.s. eins og með lagningu hálendisvegar yfir Kjöl. Það er ánægjulegt að stjórn Sjálfstæðisfélagsins hafi skoðanir og tjái þær með þessum hætti í þessari ályktun. Það er ekkert nema hið besta mál að það sé öflugt í að tjá sig um hitamálin. Þessi ályktun er innlegg okkar sjálfstæðismanna fyrir norðan í beitta umræðu um þessi mál. Hið eina rétta vissulega er að taka frumkvæðið í þeirri umræðu og benda á þennan kost í stöðunni.

Það er enginn vafi á því að mínu mati að okkar rétti punktur er að koma með útspil af þessu tagi. Ef Reykjavíkurborg er tilbúin til að borga fyrir landið sem völlurinn er á, segjum rúma 20 milljarða er það hluti sem er fjarri því hægt að líta framhjá. Með því er hægt að vinna að nýjum flugvelli. Það sem við erum með þessari ályktun að gera er að opna nýja umræðu. Vilji Reykjavík losna við völlinn geta þeir keypt landið þar sem völlurinn er og vinna með landið eins og það vill. Þá er hægt að nota þá peninga til uppbyggingar samgangna úti á landi og stokka upp hlutina með því. Ef Reykvíkingar hafa ekki áhuga á að sinna sínu hlutverki er sjálfsagt að velta þessu fyrir sér. Þetta er í raun það sem ég hef sagt allan tímann; Vatnsmýrin er ekki grunnpunktur málsins, sjálfur hef ég talað um höfuðborgarsvæðið allan tímann. Það er bara þannig. En það er auðvitað þannig að það er ekkert mál að færa stjórnsýsluna annað hafi menn ekki áhuga á að halda vörð um hlutverk Reykjavíkur til fjölda ára. Við hér fyrir norðan getum alveg tekið við nýjum verkefnum samhliða breyttri stöðu.

Í dag svaraði svo samgönguráðherra þessari ályktun okkar hér fyrir norðan. Segist hann ekki ætla að selja land ríkisins þar sem völlurinn er. Er hann nú sem fyrr á móti hálendisvegi. Það er merkilegt að heyra yfirlýsingar hans um hálendisveginn, en við sáum vel á fundi okkar með honum í mars að hann er mjög andsnúinn honum, a.m.k. á þessum tímapunkti. Telur hann okkur vera komna langt fram úr okkur. Það tel ég ekki vera, þetta er aðeins liður í umræðu sem þarna kemur fram. Annars verður merkilegast að sjá hvað gerist í málefnum vallarins í kosningabaráttunni sem framundan er í borginni. Völlurinn hlýtur þar að vera kosningamál, eitt helsta mál kosningabaráttunnar á næsta ári. Það er við hæfi að við hér úti á landi minnum á skoðanir okkar og það sem við erum að pæla í málunum. Það er því ekkert nema gott mál að stjórn félagsins hafi tjáð sig af krafti með þessum hætti.

Forsetahjónin auglýsa Skyr Smoothie

Í dag berast af því fréttir í Séð og heyrt og á Stöð 2 að Dorrit Moussaieff forsetafrú, hafi þegið boð um að ferðast með einkaþotu Baugs til að vera við tískusýningu Mosaic Fashion Group í London. Séð og heyrt birtir ekki aðeins frásögn af þessu heldur birtir að auki myndir af einkaflugvélinni á Reykjavíkurflugvelli. Á einni af myndunum má sjá Toyota Landcruiser jeppa sem mun vera í eigu forsetaembættisins, sem sótti forsetafrúna á völlinn. Með henni í för voru Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, og unnusta hans Ingibjörg Pálmadóttir. Þessi frétt er mjög merkileg. Að mínu mati ber það vott um dómgreindarleysi af hálfu forsetafrúarinnar að þiggja flugferð í boði Baugs, segja má að það sé eiginlega siðleysi á háu stigi. Fyrir rúmu ári voru miklir átakatímar hérlendis og þá var minnt á tengsl forseta Íslands við Baug. Eins og sést á þessum kærleikum milli forsetaembættisins og Baugs var það á rökum reist. Það blasir við.

Ég tel Dorrit vera fulltrúa forsetaembættisins. Hún er maki forseta Íslands, hún er hluti af þessu embætti. Það er bara þannig, það breytir því ekkert. Ég hefði talið að svona gæti vart gerst en það hefur nú gerst og er staðfest með myndum í Séð og heyrt og umfjöllun blaðsins sem staðfestir fréttina auðvitað. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þetta mjög harkalega. Þetta er á verulega gráu svæði. Mér finnst að forseti eða maki hans eigi ekki að þiggja neitt úr hendi fyrirtækja eða einstaklinga með þessum hætti, t.d. far með flugvél eða neitt slíkt. Forseti er vel launaður og ég get ekki skilið af hverju eiginkona hans eigi að vera að ferðast með auðjöfrum eða einstaklingum sem eiga einkaflugvélar. Þetta er því bara eins og hver önnur sporsla. Annars er þetta bara leitt mál og ég skil ekki að fólk í svona stöðu þiggi svona ferð með þessum hætti. Þetta opnar margar spurningar um tengsl Baugs við íslenska forsetaembættið, við sitjandi forseta seinustu árin.

Nordica-hotel

Í gær handtók lögreglan í Reykjavík þrjá einstaklinga sem höfðu ruðst inn á alþjóðlegu álráðstefnuna á Nordica hotel. Þar slettu þeir grænum vökva á ráðstefnugesti og urðu valdir að milljónatjóni í ráðstefnusalnum. Hefur nú komið í ljós að þar var um að ræða súrmjólk með grænu litarefni. Eins og ég sagði frá í gær var svokölluð Náttúruvakt með mótmæli þarna á mánudag þar sem þjóðfánar við hótelið voru dregnir í hálfa stöng og fundargestum afhent kynningarefni þar sem mótmælt er friðsamlega álveri við Reyðarfjörð og virkjun við Kárahnjúka. Náttúruvaktin stóð þó ekki að þessum mótmælum heldur voru þarna á ferð þrír umhverfisverndarsinnar, tveir útlendir og einn íslenskur. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessum mótmælum og hversu fólk er tilbúið til að ganga langt fyrir málstað sinn. Gengur þetta auðvitað algjörlega út í öfgar. Það er eiginlega spurning um hvernig fólk er á geði sem gengur svona langt. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Er að mínu mati kominn tími til að þetta umhverfisverndarlið hugsi hlutina til enda, því veitti ekki af því.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti

Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Við hér við Þórunnarstrætið og bæjarbúar almennt vorum búin að fá alveg nóg. Nú hefur verið tilkynnt að tjaldstæðið verði eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Samhliða þessu verður gæsla efld og aðgengi breytt. Jafnframt mun eftirlitið aukast með tilkomu girðingu í kringum svæðið. Ég tel tjaldsvæði á þessum stað barn síns tíma. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að það leggist af, enda ekki fólki bjóðandi í miðri íbúðabyggð. Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er hið besta mál. Það er hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ sé óregla á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar hefur verið. Með þessu hefur verið tekið fyrir það, en betur má ef duga skal.

The Pirates of the Caribbean

Í gærkvöldi horfði ég á hina frábæru ævintýramynd The Pirates of the Caribbean. Er litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow sem tekur höndum saman við Will Turner til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann, dóttur ríkisstjórans Weatherby Swann og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa. Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. En Depp á einfaldlega þessa mynd og leiðir leikarahópinn af krafti í gegnum ævintýrin sem fyrir augu ber. Myndin er virkilega skemmtileg, handritið kemur áhorfandanum oft mjög á óvart með því að fara í óvæntar áttir. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Einstök skemmtun - sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Saddam í yfirheyrslunni :)

Saddam var í yfirheyrslu nýlega. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því. :)

Saga dagsins
1864 Arlington-þjóðargrafreiturinn í Washington var vígður - herkirkjugarður þar sem stríðshetjur og leiðtogar eru grafnir. Þar var t.d. John Fitzgerald Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, jarðsettur.
1926 Kristján 10. konungur Danmerkur, kom í fyrsta skipti í opinbera heimsókn hingað til Íslands.
1954 UEFA knattspyrnusamtökin voru stofnuð í Basle í Sviss - þau eru forystusamtök í knattspyrnu.
1996 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald deyr í Los Angeles - Ella, sem var 79 ára að aldri er hún lést, var talin ein besta söngkona 20. aldarinnar og var rómuð fyrir fagra og þýða jazzrödd sína.
2001 Um 6000 manns komu saman á rokktónleikum þýska rokkbandsins Rammstein í Laugardalshöll.

Saga morgundagsins
1877 Blaðið Ísafold var prentað í fyrsta skipti - Ísafoldarprentsmiðja var með því formlega stofnuð.
1909 Vatnsveita Reykjavíkur tekur til starfa - vatni úr Elliðaám var þá hleypt á dreifikerfi borgarbúa.
1944 Alþingi Íslendinga samþykkir formlega lýðveldisstofnun á Þingvöllum sem fram fór daginn eftir.
1992 Umdeild bók um Díönu prinsessu af Wales gefin út í Bretlandi - Díana og Karl prins skildu síðar sama ár, en lögskilnaður þeirra varð formlega að veruleika 1996. Díana lést í bílslysi 31. ágúst 1997.
1999 Ný kjördæmaskipan samþykkt á Alþingi. Breytt kjördæmaskipan gerði ráð fyrir 6 kjördæmum í stað 8 áður en sama fjölda þingmanna - lögin urðu að veruleika með þingkosningum 10. maí 2003.

Snjallyrðið
Hví ég græt og burt er æskan bjarta
bernsku minnar dáin sérhver rós.
Það er sárt í sínu unga hjarta
að sjá hve slokkna öll þín skærstu ljós.
Ó hve feginn vildi ég verða aftur
vorsins barn og hérna leika mér.
Nú er lamað þrek mitt, þrotinn kraftur
þunga sorg á herðum mér ég ber.

Hvað þá gráta gamla æskudrauma,
gamla drauma bara ór og tár.
Láttu þrekið þrífa stýristauma.
Það er hægt að kljúfa lífsins ár.
Kemur ekki vor að liðnum vetri?
Vakni ei nýjar rósir sumar hvert?
Voru hinar fyrri fegri betri?
Felldu ei tár en glöð og hugrökk vert.

Þú átt gott þú þekkir ekki sárin,
þekkir ei né skilur hjartans mál.
Þrek er gull en gull eru líka tárin,
guðleg svölun hverri þreyttri sál.
Stundum þeim er þrekið brýnt og kraftur
þögul höfuð féllu tár um kinn.
En sama rósin sprettur aldrei aftur,
þótt önnur fegri skreyti veginn þinn.
Guðmundur Guðmundsson skáld (Þrek og tár)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Seinustu vikur hefur umræða hafist að nýju um söluna á ríkisbönkunum fyrir þrem árum. Það er merkilegt að þetta sé enn umræðuefni er svo langt er frá liðið. Fyrir nokkru birtist greinaflokkur í Fréttablaðinu um málið og nú seinustu daga hefur verið tekist á um hvort að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi verið vanhæfur í málinu vegna tengsla sinna við fyrirtækið Skinney-Þinganes á Hornafirði. Það fyrirtæki er eitt þeirra sem eiga fyrirtækið Hesteyri sem er stærsti hluthafinn í Keri sem var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma. Erfði Halldór hlut í Skinney-Þinganesi við fráfall foreldra sinna og bróðursonur hans er forstjóri þess og tvö systkini hans sitja í stjórn fyrirtækisins. Hefur stjórnarandstaðan látið hörð orð falla og talað um að forsætisráðherra hafi verið vanhæfur og átt að víkja sæti vegna þess á sínum tíma. Hafa mörg hvöss orð fallið og mikil læti verið seinustu dagana vegna þess. Í kjölfar umræðu um málið í síðustu viku hóf Ríkisendurskoðun rannsókn á hæfi forsætisráðherra í söluferli ríkisbankanna vegna þessara tengsla sem um ræðir. Var það rétt ákvörðun og til marks um að kerfið virkaði með þeim hætti að farið væri yfir þetta fljótt og örugglega.

Í gær boðaði Halldór svo til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Boðað var til fundarins með skömmum fyrirvara. Boð um hann barst til fjölmiðla laust fyrir hálffimm og hófst hann laust eftir fimm. Þar kynnti forsætisráðherra niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar það mat að forsætisráðherra hafi verið hæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum. Halldór tók því af skarið og kynnti sjálfur niðurstöðuna. Eflaust er það vegna þess að málið skiptir pólitískan feril hans miklu og hefði honum varla verið sætt í forystusveit stjórnmála ef Ríkisendurskoðun hefði komist að annarri niðurstöðu. Þessi niðurstaða er afdráttarlaus, það er mat Ríkisendurskoðunar að Halldór hafi ekki verið vanhæfur. Er farið ítarlega yfir málið hvað varðar aðkomu Halldórs að því fyrir þrem árum í skýrslunni. Er hún athyglisverð lesning. Reyndar er mikilvægt að hún er afdráttarlaus og þar kemur fram afgerandi mat á því að hann hafi verið hæfur. Halldór sagði er hann svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir að hafa lesið niðurstöður skýrslunnar að hann hefði aldrei efast um hæfi sitt í málinu.

Fram kom þó það mat hans að honum hefði sárnað umfjöllun fjölmiðla um málið og hann ætlaðist til þess að fjölskylda hans yrði látin í friði vegna þessa máls. Eins og fram kemur í skýrslunni var forsætisráðherra í veikindaleyfi 14. október til 26. nóvember 2002. Hann greindist með krabbamein það haust og var frá vegna þess nokkrar vikur og því ekki beinn þátttakandi að ferlinu meðan á veikindaleyfinu stóð. Kemur reyndar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þótt hann hefði ekki verið í veikindaleyfi hefði hann ekki verið vanhæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Það er því ljóst að Ríkisendurskoðun telur Halldór ekki með nokkru móti geta talist vanhæfur til að fjalla um söluferlið. Er það mín skoðun persónulega eftir að hafa farið yfir þetta mál og kynnt mér skýrsluna að Halldór hafi ekki verið vanhæfur í málinu. Hinsvegar eru þessi tengsl óheppileg, einkum og sér í lagi fyrir Halldór sjálfan. Auðvitað vaknar spurning um vanhæfi í svona stöðu. En eftir stendur þó að ég tel að Halldór hafi ekki staðið óeðlilega að málum. Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Halldóri í stjórnmálum tel ég hann heiðarlegan og grandvaran stjórnmálamann sem vinni verk sín af heilindum.

Greinilegt er að stjórnarandstöðunni hugnaðist ekki niðurstaðan. Það mátti skilja á þeim fulltrúum hennar sem hafa tjáð sig að Ríkisendurskoðun sé aðeins marktæk sé niðurstaðan þeim í hag. Að mínu mati er Ríkisendurskoðun marktæk stofnun sem skiptir miklu máli í stjórnkerfinu. Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og stendur að mínu mati fyrir trúverðugleika og hlutlægni. Hún skiptir sköpum. Það er merkilegt að hlusta á suma stjórnmálamenn í andstöðuhópnum sem tala með þeim hætti að Ríkisendurskoðun gangi erinda tiltekinna manna og ekkert sé að marka verk hennar og skýrslu t.d. í dag sem fyrr er lýst. Ég tel þessa niðurstöðu ríkisendurskoðanda fullnægjandi, enda er hlutverk hans með þeim hætti að honum á að treysta. Merkilegt er að sjá t.d. nýkjörinn formann Samfylkingarinnar og þingmenn stjórnarandstöðunnar sem talað hafa um niðurstöðuna. Þar er talað um Ríkisendurskoðun með hreint ótrúlegum hætti. Það virðist ekkert að marka hana að þeirra mati því niðurstaðan varð þeim ekki hliðholl. Reyndar virðist klofningur vera innan Samfylkingarinnar um þetta mál, enda sagði einn þingmaður flokksins í spjallþætti á Stöð 2 í gærkvöldi að Ríkisendurskoðun nyti trausts hans. Um það eru ekki allir Samfylkingarmenn sammála.

Eins og fram kemur réttilega í skýrslunni var meginhlutverk ráðherranefndar um einkavæðingu sem Halldór átti sæti í að hafa yfirstjórn með einkavæðingarferlinu. Þeirra var ekki að taka ákvarðanirnar um afgreiðslu einstakra mála, stjórnsýsluákvarðana í málinu. Það er því ljóst að ríkisendurskoðandi segir í niðurstöðum sínum að heimildin til að selja hlutbréf í bönkunum hafi verið í höndum Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Segja má því að forsætisráðherra standi mun sterkari eftir er þessi skýrsla liggi fyrir. Allavega var mikilvægt að yfir þessi mál yrði farið og mat Ríkisendurskoðunar kæmi fram í ljósi frétta seinustu daga og vikna. Hvað stjórnarandstaðan gerir nú er þetta liggur fyrir er svo næsta umhugsunarefni. Það verður að ráðast á næstu dögum og vikum hvert framhald málsins, ef framhald verði þ.e.a.s. eftir afgerandi niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, stofnunar sem vinnur í umboði þingsins. Hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Ríkisendurskoðun og hlutverki hennar og tek því niðurstöðunni með þeim hætti.

Saddam HusseinSaddam Hussein

Í gær var birt opinberlega myndband þar sem Saddam Hussein fyrrum forseti Íraks, er yfirheyrður. Ekki var neitt hljóð á myndunum en greinilegt að þar á Saddam orðaskipti við fulltrúa dómsyfirvalda í Írak sem spyr hann spurninga. Samkvæmt upplýsingum sem gefnar voru upp var hann er upptakan var gerð spurður spurninga um fjöldamorð á íbúum smábæjarins Dujail árið 1982, en það var skömmu eftir að Saddam hafði þar verið sýnt banatilræði. Saddam er mjög einbeittur að sjá á myndunum. Hann baðar út höndum og brýnir raustina og spyr til baka af miklum krafti. Hann er á myndbandinu í dökkum jakkafötum og fráhnepptri hvítri skyrtu án bindis. Er þetta í fyrsta skipti sem einræðisherrann fyrrverandi sést opinberlega frá því að breska dagblaðið The Sun birti myndir af honum nýlega þar sem hann var á brókinni einni fata. Er ekki vitað hvernig blaðið fékk þær umdeildu myndir, en ljóst að leki þær komi frá liðsmanni í bandaríska hernum sem vinnur í fangabúðunum þar sem Saddam dvelst. Sú myndbirting leiddi til mikilla deilna um réttindi stríðsfanga og talin hafa verið neyðarleg fyrir Saddam og leitt til reiði meðal araba.

Réttarhöld munu væntanlega hefjast yfir Saddam innan tveggja mánaða. Er hann sakaður um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu. Lögmenn Saddams hafa nú krafist þess að réttarhöldin yfir honum verði ekki í Írak, heldur öðru landi sem tengist honum ekki. Hefur þá helst verið rætt um Svíþjóð, Haag eða Vín. Sænsk yfirvöld hafa þegar boðist til að leyfa Saddam að afplána dóm sinn í Svíþjóð. Biljana Plavsic fyrrum forseti Bosníu-Serba afplánar nú ellefu ára fangelsisdóm sinn í Svíþjóð, en hún var dæmd fyrir stríðsglæpi í stríðinu í Júgóslavíu á tíunda áratugnum. Saddam er hvergi banginn og algjörlega ófeiminn við að sýna skap sitt og forna stjórnsemistakta. Hann kemur mjög svipað fyrir og 1. júlí 2004 er hann kom í fyrsta skipti fyrir dómara. Hann telur sig enn vera þann sem valdið hafi og ráði lögum og lofum. Það er varla undrunarefni. Í 24 ár var Saddam Hussein meðhöndlaður sem Guð í Írak og hafði slíka stöðu að orð hans voru aldrei véfengd. Það hljóta að vera viðbrigði fyrir slíkan mann að vera kominn í stöðu hins grunaða og þurfa loks að svara til saka fyrir þá glæpi sem hann fyrirskipaði og stóð fyrir.

Þegar talað er um refsingu til handa Hussein kemur vart nema tvennt til greina: dauðadómur eða lífstíðarfangelsi. Ég hef jafnan verið mjög andsnúinn dauðarefsingu og talið ekkert réttlæta beitingu hennar nema um væri að ræða fjöldamorðingja eða einræðisherra sem hafa kúgað og svívirt þjóð og misnotað hana. Saddam Hussein ætti að passa vel í þessum flokki, enginn deilir um eðli viðurstyggilegra glæpaverka hans og stjórnarinnar sem hann leiddi. Það er því ómögulegt að útiloka dauðarefsingu til handa Saddam, algjörlega útilokað. Hinsvegar tel ég hana ekki æskilega, það væri mun nær að láta þennan fyrrum einræðisherra sitja í fangaklefa til dauðadags.

Michael Jackson

Bandaríska poppgoðið Michael Jackson var í gærkvöldi sýknaður af öllum þeim tíu ákæruatriðum sem á hann höfðu verið bornar um kynferðislega misnotkun og áreitni við 13 ára strák. Hefði Jackson verið sakfelldur fyrir öll tíu ákæruatriðin hefði hann átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi. Það tók kviðdóminn viku að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hann starfaði til föstudags en kom svo að nýju saman í dag. Eftir stutta vinnu í dag lá niðurstaðan fyrir. Réttarhöldin voru mjög langvinn, stóðu vel á fjórða mánuð og mörg vitni höfðu verið kölluð fyrir réttinn. Réttarhöldin yfir Jackson sem er einn af vinsælustu poppsöngvurum seinustu áratuga í Bandaríkjunum voru harðskeytt og beitt. Ljóst var að niðurstaðan hefði úrslitaáhrif á framtíð Jacksons. Hefði hann tapað málinu hefði tónlistarferli hans nær örugglega verið lokið og heilsa hans hefði án vafa beðið hnekki af langri fangavist. Jackson hefur látið mjög á sjá seinustu ár og er aðeins orðinn skugginn af tónlistarmanninum sem sigraði heiminn með plötunum Thriller og Bad á níunda áratugnum. En nú er þetta mál að baki og fróðlegt að sjá hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir þennan umdeilda söngvara.

All about my mother (Todo Sobre Mi Madre)

Í gærkvöldi horfði ég á spænsku óskarsverðlaunamyndina Todo sobre mi madre (All about my mother), sem er ein besta mynd leikstjórans Pedro Almodóvar. Myndir hans (t.d. Women on the Verge of a Nervous Breakdown og High heels) hafa fyrir margt löngu öðlast sess í evrópskri kvikmyndamenningu. Í þessari mynd segir frá hjúkrunarkonunni Manuelu sem verður fyrir því mikla áfalli að missa 18 ára son sinn í hræðilegu bílslysi. Þegar hún er að fara í gegnum eigur hans verður henni ljóst að hans æðsta ósk í lifanda lífi var að fá að kynnast föður sínum sem Manuela hafði yfirgefið áður en hann fæddist. Þetta verður til þess að Manuela ákveður að leggja land undir fót og freista þess að hafa uppi á barnsföður sínum. Sú leit á eftir að snúast upp í merkilega lífsreynslu fyrir Manuelu. Stórfengleg mynd - ekta spánskt portrett sem lýsir þjóðarsálinni og lífsmynstrinu og ennfremur örlögum venjulegra manneskja sem lenda í mikilli sálarkreppu og eiga í virkilegum erfiðleikum og eiga erfitt með að halda áfram en finna réttu leiðina og kynnast lífinu með nýjum hætti útfrá nýjum forsendum. Að mínu mati er Todo sobre mi madre besta mynd Almodóvars. Þetta er heilsteypt og manneskjuleg mynd - mynd með tilfinningu.

Alcoa

Í gær hittu forystumenn sveitarfélaganna hér fyrir norðan, Akureyrar, Húsavíkur og Skagafjarðar, fulltrúa Alcoa og iðnaðarráðuneytisins í Reykjavík. Þar var rætt um næstu skref í stóriðjumálum hér fyrir norðan. Er mjög ánægjulegt að sveitarfélögin hafa náð grunni til að ræða málin saman á og að málið hafi þokast áfram - rétta leið. Það er allavega mjög gott að umræður séu komnar af stað í þessum efnum með viðkomandi aðilum. Í gær bárust svo þær fréttir að A-Húnvetningar hafi nú áhuga á stóriðju, sem vekur athygli. Það er svosem varla furða að flestallar byggðir hafi áhuga á stóriðju í sitt hérað. Í gær var svo haldin ráðstefna um áliðnað á Nordica-hóteli í Reykjavík. Athygli vöktu þar mótmæli svokallaðra náttúruvina, velþekktra vinstrigrænna öllu heldur. Mótmælin fólust að mestu í þögulli mótmælastöðu við hótelið en ennfremur gerðu viðkomandi sér lítið fyrir og fóru að fánastöngum við hótelið þar sem þjóðfánar voru við hún og drógu þá niður í hálfa stöng. Ekki er hægt að segja að þessi verknaður kommanna hafi verið þeim til sóma, enda bar hann vitni um barnaskap á miklu stigi.

Saga gærdagsins
1870 Gránufélagið stofnað á Akureyri, til að efla innlenda verslun - það sameinaðist KEA árið 1912.
1922 Gengisskráning íslensku krónunnar hófst - íslenska krónan hafði áður fylgt dönsku krónunni.
1941 Sigurður Jónsson kaupmaður, gaf ríkinu Bessastaði á Álftanesi - varð með því forsetabústaður.
1971 Viðreisnarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, féll eftir rúmlega tólf ára valdasetu.
1973 Undirritað samkomulag um frið í Víetnam, eftir mjög blóðuga styrjöld í landinu í tæpan áratug.

Saga dagsins
1940 Þjóðverjar hernema París - sókn nasista í seinna stríðinu var ekki stöðvuð að fullu fyrr en í Sovétríkjunum árið 1942. Eftir það misstu þeir hvert vígið eftir annað, þar til veldi þeirra féll 1945.
1949 Þyrlu flogið á Íslandi í fyrsta skipti - hún var aðallega notuð til björgunarstarfa og strandgæslu.
1975 Norræna kom til Seyðisfjarðar í fyrsta skipti - ferjusamgöngur milli Íslands og Færeyja hefjast.
1982 Samið um vopnahlé í Falklandseyjastríði Breta og Argentínumanna - 800 manns létust á þeim mánuðum sem átökin stóðu en Bretar unnu stóran sigur í samningunum um vopnahlé og náðu sínu fram undir forystu Margaret Thatcher sem hikaði hvergi á meðan átökunum stóð og sannaði afl sitt.
1998 Sjálfstæðisflokkurinn tekur sæti í meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar - Kristján Þór Júlíusson tekur við embætti bæjarstjóra. Kristján var áður bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði. Í kosningum í maí 1998 hafði flokkurinn unnið sinn stærsta sigur þar, hlotið rúm 40% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa.

Snjallyrðið
Í daganna rás hef ég draumanna notið
um dáðríkast mark sem ég aldrei fæ hlotið.
Þeir yljuðu mér þó ef stóð ég í ströngu.
og stríðið mér léttu á ævinnar göngu.

Og eins er í vetrarins myrkasta veldi
að vorþráin sterk fer um hjarta mitt eldi.
Ég angan þess finn þó að úti sé myrkur,
þess yndi í fjarska er huganum styrkur.

Þótt ár hafi liðið og týnzt út í tómið,
þá tær vakir minning um fegursta blómið.
Því ennþá í ljóma þá vitjar mín vorið.
Það vekur og gleður og léttir mér sporið.
Helgi Seljan fyrrum alþingismaður (1934) (Vordraumur)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um ráðstefnu stjórnarskrárnefndar um helgina. Ráðstefnunni var ætlað að leggja grunn að upplýstri umræðu um stjórnarskrána og umbætur á henni og kalla eftir hugmyndum að breytingum. Fer ég yfir stöðu mála og kynni erindi SUS sem lagt var fram á ráðstefnunni og ennfremur mínar skoðanir á þessu ferli og þeim breytingum sem ég tel að eiga verði sér stað á stjórnarskránni. Hvet ég fólk til að fara yfir erindi SUS og mat okkar á þessi mál. Hvað mig persónulega snertir hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að breyta verði embætti forseta Íslands og rammanum utan um það, eigi það að vera til áfram. Að mínu mati er rétt eftir það sem gekk á í samskiptum forseta og Alþingis á síðasta ári að breyta mörgum köflum stjórnarskrárinnar, einkum stjórnarskrárþáttum tengdum embætti forseta Íslands. Það getur ekki gengið að ég tel lengur að sá skuggi sé yfir störfum Alþingis Íslendinga að einn maður geti með geðþóttavaldi stöðvað af mál sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings til fjögurra ára, samþykkir með réttmætum hætti. Það er skoðun mín nú sem ávallt fyrr að forseti eigi ekki að hafa það vald sem 26. greinin gefur í skyn að hann hafi.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í ESB í stjórnarskrárferlinu. Nú hafa Bretar ákveðið að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá ESB, eftir að Frakkar og Hollendingar höfðu fellt hana í slíkum kosningum. Mikil stjórnmálakrísa blasir við ESB nú í aðdraganda leiðtogafundar ESB í næstu viku. Blasir við að Frakkar hafi hjálpað Blair og stjórn hans, enda hefði tap í slíkri kosningu á næsta ári getað orðið pólitískur banabiti hans. Lengi vel hefur Blair sagt að Bretland myndi veikjast verulega innan ESB ef þjóðin hafnaði tillögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þó ljóst að hann þarf ekkert að hugsa meira um þetta mál. Kosningunni hefur verið frestað. Frakkar og Hollendingar hafa bjargað honum úr erfiðri og vandræðalegri stöðu, enda hefði staða hans veikst til muna ef hann hefði tapað kosningu, enda veiktist þingmeirihluti hans mjög í þingkosningunum fyrir rúmum mánuði. Það er því hætt við að breska stjórnin og forystumenn hennar horfi bjartsýn fram á veginn án þess að þurfa að hafa pólitískar áhyggjur af þessu máli.

- í þriðja lagi fjalla ég um óráðsíuna í Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig fyrirtækinu hefur verið beitt í sukk og áhættufjárfestingar í hin ólíklegustu gæluverkefni seinustu ár undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, innan R-listans. Alfreð hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug. Fer ég yfir verk hans á ýmsum sviðum og spyr vinstrimenn í borginni hvort þeir ætli sér að kjósa Alfreð til valda aftur ef sameiginlegt framboð verður við lýði og tryggja með því áhrif hans í sukkinu áfram. Hann situr í umboði allra þeirra sem styðja hina flokkana þarna inni - gleymum því ekki!


Pólitíska ræman
Nixon

Á sunnudögum í sumar mun ég skrifa um eina kvikmynd sem tekur með einum hætti eða öðrum á pólitísku efni. Það er við hæfi á sunnudegi að nota tækifærið og skrifa um eina mynd tengda pólitík með ítarlegum hætti. Ef þið viljið sjá skrif um einhverja mynd eða koma með komment á þessi skrif sendið mér þá tölvupóst.

Í kvikmyndinni Nixon fjallar óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone um feril Richard Nixon 37. forseta Bandaríkjanna. Jafnvel þótt hann hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stone er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna í júnímánuði 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér embætti í ágúst 1974, fyrstur bandarískra forseta.

En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Hann fer inn í karakterinn, við sjáum hvernig hann mótast úr smástrák í litlum bæ og til þess manns sem síðar varð valdamesti maður heims. Æska hans var blandin gleði en einnig sárum trega. Hann var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Nixon bar þess merki alla tíð að vera beiskur en eitilharður baráttumaður, hann lét ekki undan nema hann nauðsynlega þyrfti til. Við fylgjumst með honum í myndinni allt frá því er hann óx úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972.

Richard Nixon eftir afsögn sína

Meginpartur myndarinnar er hneykslismálið sem kaldhæðnislega hófst helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu.

Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Anthony Hopkins túlkar Nixon af stakri snilld í þessari mynd. Þó hann sé hvergi nærri alveg eins og Nixon í öllum töktum eða fasi verður hann samt Nixon með merkilegum hætti. Mörgum þótti skotið hátt yfir markið þegar hinn breski leikari með sinn ekta breska hreim var valinn til að leika hinn hrjúfa forseta með áberandi suðurríkjaframburð sinn. En Hopkins er enginn venjulegur leikari og túlkar forsetann með mikilli snilld. Frábær leikur hjá ótrúlegum leikara. Joan Allen fer á kostum í lágstemmdri rullu en stórbrotinni engu að síður er hún túlkar Pat Nixon. Hún var alltaf hinn þögli félagi forsetans, hún var við hlið hans í blíðu og stríðu allt til loka. Þau leika hjónin með miklum bravúr. Þau passa vel saman og fúnkera þannig. Þó hjónaband þeirra hafi oft verið stormasamt var það alltaf ástríkt.

Richard M. Nixon (1913-1994)

Það sést vel á myndinni að hún er verulega gloppótt sögulega séð. Sumum hlutum er sleppt í frásögninni af ævi Nixons eða hreinlega skáldað í eyðurnar. Því ber að taka sagnfræði Stone með mikilli varúð. Þrátt fyrir þennan stóra galla er myndin góð. Henni tekst umfram allt að lýsa persónu Nixons. Hún var margbrotin, svo vægt sé til orða tekið. Segja má að hann hafi verið hið minnsta þrjár persónur, eða svo segja þeir sem stóðu honum næst: sá blíði, sá íhuguli og sá veruleikafirrti. Sá þriðji hafi eyðilagt feril hans, sá annar hafi íhugað um framtíðina þegar ferillinn var orðinn það skaddaður að honum varð ekki bjargað og sá fyrsti hafi tekið stjórnina við að gera upp ferilinn við lokin. Undir lokin hafði Nixon tekist að endurheimta orðspor sitt, var orðinn fyrirlesari og virtur álitsgjafi á málunum. Forysta hans í utanríkismálum verður það sem hans verður minnst fyrir utan við Watergate og sá vettvangur var honum gjöfull undir lokin.

Öllu er þessu lýst vel í myndinni að mínu mati. Hún tekur vel á meginpunktum ævi Nixons. Stone er oft óvæginn, tekur Nixon og karakter hans og kafar algjörlega inn í rótina. Það er bæði honum og arfleifð hans mikilvægt. Þó skotið sé mjög glaðlega og oft glannalega er þessi mynd nauðsynleg viðbót í umfjöllun um ævi Nixons. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen og Paul Sorvino. Öll skila þau sínu vel og eftir stendur hin besta mynd. Allavega ómissandi mynd fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálasögu 20. aldarinnar og því hver var aðdragandinn að afsögn Nixons af forsetastóli og ekki síður hvernig hann varð stjórnmálamaður í fremstu röð en glutraði því frá sér með eigin afglöpum.

Sir Anthony Hopkins og Joan Allen í Nixon

Er merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans og Watergate. En þessi mynd er mikilvægur þáttur í ævi þessa manns og hana verða allir að sjá. Umfram allt vegna þess að þetta er sýn pólitísks andstæðings Nixons á hann. Það sést umfram allt að hún er eftirminnileg þrátt fyrir að vera sagnfræðilega fjarri því rétt að öllu leyti. En þrátt fyrir það er hún ómissandi, allavega fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni og ekki síður forsetatíð þessa eina forseta Bandaríkjanna sem hefur sagt af sér þessu valdamesta embætti heims.

Saga dagsins
1935 Huey Long öldungadeildarþingmaður, flytur lengstu ræðu í sögu þingsins - hún stóð í 15 tíma.
1987 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og skorar á Mikhail Gorbatsjov að stuðla að falli múrsins - hann féll 9. nóvember 1989 og hafði þá staðið í 28 ár.
1991 Boris Yeltsin kjörinn forseti Rússlands - var umdeildur þjóðarleiðtogi en náði þó að ávinna sér virðingu vestrænna þjóðarleiðtoga. Yeltsin sagði svo af sér 31. desember 1999 til að tryggja vænlega stöðu valins eftirmanns síns, Vladimir Putin, sem tók við forsetaembætti og var kjörinn í mars 2000.
1994 Nicole Brown Simpson og Ron Goldman voru myrt með hrottalegum hætti við heimili hennar í Los Angeles. Fyrrum eiginmaður Nicole, O.J. Simpson, var sakaður um morðin og réttað yfir honum í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva - var umdeilt er hann var sýknaður af ákærunum í október 1995.
2003 Óskarsverðlaunaleikarinn Gregory Peck deyr á heimili sínu í Los Angeles, 87 ára að aldri - Peck var einn besti leikari sinnar kynslóðar og átti glæsilegan feril og túlkaði fjölda svipmikilla karaktera.

Snjallyrðið
The long and winding road
that leads to your door,
will never disappear.
I've seen that road before
It always leads me here.
Leads me to your door.

The wild and windy night
that the rain washed away.
Has left a pool of tears,
crying for the day.
Why leave me standing here
let me know the way.

Many times I've been alone
and many times I've cried.
Any way you'll never know
the many ways I've tried.
But still they lead me back
to the long winding road.

You left me standing here
a long long time ago.
Sir Paul McCartney tónlistarmaður (1942) (The Long and Winding Road)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Reyðarfjörður

Hæstiréttur staðfesti í gær þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að ógilda úrskurð umhverfisráðherra, sem staðfesti í apríl 2003 þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að álver Alcoa í Reyðarfirði þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Í dómi sínum vísar rétturinn hinsvegar frá kröfum Hjörleifs Guttormssonar fyrrum iðnaðarráðherra, um að ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis álversins yrði ógilt. Samhliða því var hafnað kröfu Hjörleifs um að sú ákvörðun umhverfisráðherra yrði ógilt að vísa frá kæru Hjörleifs varðandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfið. Það er ekki hægt að segja annað en að þessi dómur sé nokkur vonbrigði, fyrir okkur sem höfum stutt ötullega uppbygginguna á Austfjörðum og tekið pólitískan slag um þau mál víða og skrifað um málið, til stuðnings Austfirðingum. Hinsvegar er þetta hvergi nærri eins slæmur úrskurður og kom frá Héraðsdómi Reykjavíkur í janúarmánuði. Dæmt er gegn Hjörleifi í nokkrum liðum og niðurstaðan hvergi nærri eins slæm og í fyrri úrskurði. Því ber að sjálfsögðu að fagna.

Þessi niðurstaða hefur engin teljanleg áhrif á dæmið. Framkvæmdir halda að sjálfsögðu áfram fyrir austan af krafti. Í þessum dómi er eins og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, hefur bent á svo réttilega ekki verið að fella úr gildi starfsleyfið sjálf. Ég sé því eins og ráðamenn og tengdir aðilar ekki annað í stöðunni en haldið verði áfram framkvæmdum. Hinsvegar muni nýtt umhverfismat þá auðvitað fara fram. Þessi niðurstaða kemur nær eingöngu til vegna þess að formskilyrði hafi ekki verið fullnægt. Í þessum dómi er ekkert fjallað um gildi leyfa sem stjórnvöld hafa veitt. Þau eru því auðvitað enn í fullu gildi. Þessi staða mála mun því ekki tefja þær framkvæmdir sem hafnar eru. Eins og fram kom á vefnum í vikunni fór ég austur á firði um sjómannadagshelgina. Var mjög ánægjulegt að kynna sér uppbygginguna sem þar á sér stað - á öllum sviðum. Þar ríkir nú bjartsýni í stað svartsýni og gleði í stað kvíða. Því er ekki hægt að lýsa með nógu öflugum orðum að fara austur núna.

Hvet ég alla sem þetta lesa til að fara austur í sumarfríinu og kynna sér þessi mál og þá uppbyggingu sem á sér stað. Það er mikið gleðiefni að fylgjast með henni.

James Stewart og Grace Kelly í Rear Window

Horfði í gærkvöldi á Rear Window, hið frábæra meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, frá árinu 1954. Hitch var meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Þessi mynd er skólabókardæmi um það. Í Rear Window segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í vinnuslysi, neyðist því til að vera heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum. Uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Þær einu sem virðast trúa honum eru kærastan hans Lisa og sjúkranuddarinn Stella, en það er ekki nóg. Hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hafi verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.

Hér gengur bókstaflega allt upp til að skapa ómótstæðilegt og klassískt meistaraverk sem er eitt af bestu verkum meistara Hitchcock. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum ferils síns í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina hreinlega uppi, hann er á skjánum allan tímann. Er hreint út sagt frábært að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann hér vonda kallinn, en hann var helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason. Þessa mynd verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá. Það verður upphafið að góðum kynnum að sjá þessa.

Skipulagstillögur D-listans

Í dag birtist ítarlegur pistill eftir mig á íhald.is. Í honum fjalla ég um mál málanna í kosningabaráttunni sem framundan er í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar: skipulagsmálin. Fjalla ég þar um góðar tillögur sjálfstæðismanna, úrræðaleysi R-listans í málunum og mikilvægi þess að stefna í aðrar áttir. Undir lok pistilsins fjalla ég um málefni flugvallar í Vatnsmýrinni. Undanfarin ár hefur R-listinn boðað að hann eigi að fara. Á sama tíma vinnur borgarstjóri að því ásamt samgönguráðherra að samgöngumiðstöð í borginni sem gerir ráð fyrir nýrri flugstöð samhliða því. Samkomulag þessa efnis var undirritað fyrr á þessu ári, er fól í sér að gera úttekt á vellinum sem grunn að því að ákveða örlög hans. Eftir sem áður er stefnt að samgöngumiðstöðinni á Vatnsmýrarsvæðinu. Stefnir svo meirihluti borgarstjórnar að alþjóðlegri samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar: án þess að vita hvort þar verði flugvöllur eður ei. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessu ferli. Merkilegt er að meirihluti borgarstjórnar geti ekki bara talað hreint út. Vill hann flugvöll áfram í Reykjavík eða ekki? Bendi á þennan pistil - endilega lesið hann!

Mýrin

Pólitíska stússið er að verða komið í sumarfrí hjá mér. Þó eru stöku sinnum pólitískir fundir og stúss sem þarf að sinna og væntanlega mun maður ræða pólitík í sumar þegar maður hittir félaga og vini á ferð um landið. Plönuð er vikuferð austur á firði í sumar og það verður gott að taka því rólega þar í nokkurn tíma. En seinustu dagana hef ég verið að lesa bækur, eins og venjulega myndi einhver segja. Hef verið að rifja upp kynni mín af Mýrinni. Það er alveg frábær bók, eitt af meistaraverkum Arnaldar Indriðasonar. Segir frá eldri manni sem finnst myrtur í íbúð sinni í Norðurmýri í Reykjavík. Þegar íbúð hans er rannsökuð kemur í ljós gömul ljósmynd í skrifborðsskúffu. Myndin leiðir lögregluna inn í liðna tíma í ævi hins látna - liðna tíma sem geyma gamla sögu, fjölskylduharmleik og glæp fyrir nokkrum áratugum. Þessi bók var það fyrsta sem ég las eftir Arnald fyrir nokkrum árum. Sökkti ég mér það í bókina að ég las hana upp til agna í einum rykk. Þessi bók er algjört meistaraverk. Hana verða allir að lesa, þeir lesendur mínir sem hafa ekki enn litið á hana: lesið hana. Þið hin: lesið hana aftur. Tær snilld. :)

Sumar á Akureyri

Sumarið er loks komið hingað í Eyjafjörðinn. Sólin skín og tilveran er virkilega fögur á þessum degi. Hitinn er talsverður og margir úti að fá sér ís og sleikja sólina samhliða því. Það er vægast sagt kominn tími til að við fáum alvöru sumarblíðu. Vorið hefur verið frekar kalt og byrjun sumarsins verulega slæm. Hefur verið hálfgerður haustbragur á veðrinu seinustu vikur. Ekta gluggaveður eins og við segjum, smásól en kalt úti. En nú er sumar og sól. Spáð er um 20 stiga hita um helgina og því ástæða til að grilla og hafa það gott í góðra vina hópi og njóta góða veðursins hér fyrir norðan. Á þessum fallega degi er ekki hægt annað en að vera hress og bjartsýnn á framtíðina. Hafið það gott um helgina.

Saga dagsins
1940 Þjóðverjar hernema Noreg - Hákon konungur og öll konungsfjölskyldan var sett í stofufangelsi.
1967 Sex daga stríðinu í Miðausturlöndum lýkur formlega - Ísrael og Sýrland semja um vopnahlé.
1986 5000 króna seðill settur í umferð hérlendis - var prýddur með mynd af Ragnheiði Jónsdóttur.
2000 Hafez al-Assad forseti Sýrlands, deyr í Damaskus, 69 ára að aldri. Hann var forseti í tæpa þrjá áratugi, eða allt frá árinu 1971. Bashar al-Assad sonur hans tók við völdum í landinu við dauða hans.
2001 Konur fluttu í fyrsta skipti ávörp við sjómannadagshátíð í Reykjavík - sjávarútvegsráðherra og fulltrúum útgerðarmanna var ekki boðin þátttaka þá vegna lagasetningar á sjómenn skömmu áður

Saga morgundagsins
1928 Fyrsta áætlunarflugið milli Akureyrar og Reykjavíkur - flogið fyrst með sjóflugvélinni Súlunni, en hún tók fimm farþega. Var þá ekki annað hægt en að lenda á sjófletinum við bæinn. Flugvöllur reis við Akureyri loks árið 1952. Nú, 77 árum síðar, er flogið á milli Akureyrar og Reykjavíkur 7 sinnum á dag og sætaframboðið í flugferðunum er auðvitað allnokkuð ríflegra nú á okkar dögum en var 1928.
1935 Auður Auðuns lauk lögfræðiprófi fyrst íslenskra kvenna - Auður varð fyrst kvenna borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra, einnig var Auður lengi borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.
1987 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til þriðja kosningasigurs síns í þingkosningum í Bretlandi - hún var eini stjórnmálamaður Bretlands á 20. öld sem afrekaði að vinna þrjár kosningar í röð. Thatcher sat á valdastóli til nóvember 1990 og Íhaldsflokkurinn vann fjórðu kosningarnar 1992.
2001 Timothy McVeigh tekinn af lífi í alríkisfangelsinu í Terre Haute í Indiana - hann var dæmdur til dauða fyrir sprengjutilræðið við stjórnsýslubygginguna í Oklahoma í apríl 1995, þar sem margir fórust.
2004 Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, var jarðsunginn við tignarlega athöfn í dómkirkjunni í Washington. Um kvöldið var hann jarðsettur við sólsetur við forsetabókasafnið í Simi-dal í Kaliforníu.

Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (Í fjarlægð)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Kiljan Laxness (1902-1998)

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á þá kröfu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, um að máli sem Auður Sveinsdóttir Laxness, ekkja nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, höfðaði gegn honum fyrir höfundalagabrot skyldi vísað frá dómi vegna þess að annmarkar hafi verið á máltilbúnaði stefnanda. Mikið hefur á seinustu árum verið rætt og ritað um nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness. Allt frá andláti hans í febrúar 1998 hefur Halldór verið áberandi bæði í ræðu og ekki síst á riti. Hefur þetta verið áberandi einkum seinustu þrjú árin, en fyrir seinustu jól og eins árið 2003 hafa komið út ítarlegar og umdeildar ævisögur um Halldór eftir Hannes Hólmstein. Mun seinasta ritið væntanlega koma út í nóvember og lýkur þá umfjöllun Hannesar Hólmsteins um skáldið. Fjölskylda skáldsins var mjög andvíg því frá upphafi að Hannes ritaði um Halldór. Reyndi hún að hindra aðgang hans að skrifum skáldsins með því að loka bréfasafni hans næstu þrjú árin. Einungis Halldóri Guðmundssyni og Helgu Kress prófessor var veittur aðgangur að því.

Eins og flestir vita er Hannes umdeildur vegna skoðana sinna, hann hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar. Væntanlega vegna þess tók fjölskylda skáldsins þá ákvörðun að loka bréfasafninu og gat ekki sætt sig við það að hann ritaði um ævi hans. Um er að ræða þjóðskáld Íslendinga, að mínu mati merkasta rithöfund 20. aldarinnar, og hann settur á þann stall af vissum hópi þannig að ekki megi skrifa um hann nema af útvöldum. Mikið var rætt og ritað um fyrsta bindið eftir Hannes. Margir höfðu á því skoðanir, eins og gefur að skilja, enda bók skrifuð af umdeildum manni um enn umdeildari mann í sögu landsins. Athygli vakti þó jafnan að þegar spekingarnir sem dæmdu bók Hannesar fyrir ári voru spurðir að því hvort viðkomandi hefðu lesið bókina sem málið snýst um kom fram að svo var ekki. Var fróðlegt að margir höfðu skoðun á ritinu en ekki lesið það eða kynnt sér ítarlega áður en það felldi dóma yfir því. Það er merkileg umræða sem geisað í samfélaginu vegna þessara bóka. Sjálfur hef ég ósjaldan lent í spjalli við fólk um það.

Merkilegt er að það fólk sem gagnrýnt hefur skrif Hannesar sem mest hefur ekki lesið bækurnar. Það er hreint óþolandi að eiga umræðu um þessi mál við fólk sem ekki hefur kynnt sér bækurnar og farið yfir þær nákvæmlega. Ég hef lesið þau bæði, og það af miklum áhuga. Sérstaklega þótti mér annað bindið, Kiljan, sem kom út í fyrra mjög gott og umfangsmikið. Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Sú bók spannaði 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Allt rennur þetta ljúflega saman og fullyrði ég að þetta er ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur næstu jóla og útgáfu þriðja og seinasta hlutans sem mun fjalla um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998.

Skrifar Hannes að mínu mati af mikilli virðingu um skáldið. Ég hvet alla þá sem ekki hafa lesið ritið og hafa býsnast sem mest yfir því og farið hátt í tali en ekki enn lesið það að gera það einmitt. Í bókunum er farið ítarlega yfir ævi merks manns og ritað um hann af virðingu. Allavega hef ég ekki enn heyrt gagnrýni á ritun Hannesar um Laxness á þeim forsendum að rangt sé farið með eða illa staðið að umfjöllun um ævi Halldórs Kiljans Laxness, nóbelsskáldsins frá Gljúfrasteini. Það segir svo sannarlega sína sögu að mínu mati.

Clint Eastwood og Rene Russo í In the Line of Fire

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina In the Line of Fire. Hörkugóð og vel leikin úrvalsmynd, frá árinu 1993, sem segir frá Frank Horrigan, sem er lífvörður forseta Bandaríkjanna. Hann er í sögubyrjun kominn á sjötugsaldurinn og hefur ótvírætt umfangsmikla reynslu í starfi sínu eftir tæplega þrjátíu og fimm ára starf í leyniþjónustunni sem lífvörður forsetans. Hefur hann í raun aldrei jafnað sig á því að hafa mistekist að vernda John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, sem myrtur var í Dallas í Texas, 22. nóvember 1963. En allt í einu hefur samband við hann maður sem hefur í hyggju að myrða yfirmann Franks, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem er nú í hörðum kosningaslag um lyklavöldin í Hvíta húsinu og er undir í baráttunni er sagan hefst. Er Frank áttar sig á að honum er alvara leggur hann til atlögu gegn skaðvaldinum.

En spurningin að lokum er óneitanlega tvíþætt: tekst Frank að bjarga lífi forsetans eða tekst tilræðismanninum að myrða hann og mistekst Frank rétt eins og í Texas hinn heita vetrarmorgun er JFK féll fyrir morðingjahendi. Clint Eastwood er alveg frábær sem hinn einmana leyniþjónustumaður sem lifir kyrrlátu lífi, sinnir vinnu sinni en fær sér einn kaldan bjór og hlustar á og spilar jazz utan vinnutíma. John Malkovich hefur aldrei verið betri en hér í hlutverki tilræðismannsins, Mitch Leary. Hann er alveg stórfenglegur í túlkun sinni, meistaralega góður er hann tjáir hið brenglaða eðli Leary. Hér gengur allt upp: frábær leikur, vandað handrit og meistaraleg leikstjórn (þjóðverjans Wolfgang Petersen). Rúsínan í pylsuendanum er svo hin frábæra tónlist meistara Ennio Morricone. Semsagt: hörkugóð og ógleymanleg hasarmynd sem fær áhorfandann til að gleyma stað og stund og tryggir spennandi kvöldstund.

Akureyrarkirkja

Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju, hefur sagt starfi sínu lausu. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt það og sannað að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af miklum krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Allir þeir sem kynna sér verk hennar í þeim málefnum og almennt varðandi samskipti við fólk vita að Jóna Lísa er ákveðin en um leið traust og hefur starfað með miklum sóma að þeim verkum sem skipta máli. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg, en þá bók skrifaði hún eftir sviplegt lát manns hennar, Vignis Friðþjófssonar. Það er bók sem er öllum lexía að lesa. Einnig hefur hún ritað margt almennt um mörg málefni. Vil ég nota tækifærið til að þakka sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttur góð störf í þágu okkar hér í Akureyrarsókn.

Skipulagstillögur D-listans

Í dag heldur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík íbúaþing um tillögur sínar í skipulagsmálum. Jafnframt er þar fólki gefið tækifæri til að koma með sínar hugmyndir og ábendingar á tillögurnar í málefnavinnu sem þar fer fram. Þetta ferli sjálfstæðismanna er þeim mjög til sóma. Með þessu gefst fólki, hinum almenna kjósanda, færi á að segja sínar skoðanir og vera aktívir þátttakendur í að móta betri borg. Er alveg ljóst að fara þarf nýjar leiðir í skipulagsmálum sem fleiri málaflokkum á komandi árum. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil hefur skilað nægum verkefnum og fjölda úrlausnarefna sem þarf að leysa. Þeir sem kynna sér þessi mál sjá ekkert nema ókláruð verkefni og áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Þessari vinnu sjálfstæðismanna, vinnu að betri borg, lýkur ekki í dag með þessu íbúaþingi - öðru nær. Framundan eru svo fleiri íbúaþing, fundir um skipulagsmálin í öllum hverfum borgarinnar, á næstu mánuðum. Er gott að Sjálfstæðisflokkurinn fer þessa leið við að vinna málin. Enda er ekki furða að R-listinn sé í fýlu með stöðu mála.

Orkuveita Reykjavíkur - Royal Alfreð Hall

Það líður varla orðin sú vika og eða bara dagur að ekki sé hægt að finna að óráðsíunni í Orkuveitu Reykjavíkur. Í gær skrifaði ég um það. Í dag er mikil ástæða til að vekja máls á því enn eina ferðina. Í fréttum í gær kom fram að kostnaður við frágang á lóðum fyrirtækisins við Réttarháls og Bæjarháls væri rúmlega 250 milljónir króna en upphafleg fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir að kostnaður yrði vel innan við 100 milljónir króna. Í dag sendir svo forstjóri OR frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að heildarkostnaðurinn muni vera nálægt 300 milljónum króna. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Og svo sendir auðvitað stjórnarformaðurinn forstjórann í fjölmiðla. Enda ekki þægilegt að face-a svona umfjöllun með góðu. Skal heldur engan undra - þetta er óverjandi rugl og óráðsía. Enda heldur Alfreð sér saman vegna þessa, enda ekki beinlínis fallinn til vinsælda þessi hallargarður Orkuveituguðsins.

Saga dagsins
1880 Hornsteinn lagður að Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík - þinghúsið var svo vígt ári síðar.
1970 Hussein Jórdaníukonungur, sleppur naumlega lifandi úr banatilræði - konunginum, sem ríkti í Jórdaníu í hálfa öld, var oft sýnt banatilræði. Hussein konungur lést úr krabbameini í febrúar 1999.
1975 Sjónvarpað í fyrsta skipti beint frá breska þinginu - nú er almennt sýnt frá breska þinginu og BBC sýnir fyrirspurnartíma forsætisráðherra, þar sem tekist er á, alla miðvikudaga á stöðvum sínum.
1983 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til stærsta sigurs síns í kosningum í Bretlandi - Thatcher sat á valdastóli í rúm 11 ár, til nóvember 1990, og Íhaldsflokkurinn leiddi stjórn til 1997.
2002 Hálfrar aldar valdaafmæli Elísabetar II Englandsdrottningar, fagnað með hátíðum um Bretland.

Snjallyrðið
There are places I remember all my life,
Though some have changed,
Some forever, not for better,
Some have gone and some remain.

All these places had their moments
With lovers and friends I still can recall.
Some are dead and some are living.
In my life I've loved them all.

But of all these friends and lovers,
There is no one compares with you,
And these memories lose their meaning
When I think of love as something new.

Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before,
I know I'll often stop and think about them,
In my life I'll love you more.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (In My Life)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Reykjavík

Nú þegar ár er til sveitarstjórnarkosninga blasir við að skipulagsmálin muni verða aðalmál kosningabaráttunnar í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Enginn vafi leikur á því að ferskar hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi byggð á eyjunum við borgina og markviss sýn til næstu áratuga í þeim efnum hafi tekið umræðuna á nýtt plan. Það er enda engin furða að borgarfulltrúum R-listans hafi sviðið það mjög að hafa misst frumkvæðið og aflið í umræðunni frá sér. R-listinn hefur núna stjórnað borginni í ellefu ár, sem er vissulega mjög langur tími. Hvað stendur eftir í málefnum borgarinnar skipulagslega séð eftir þrjú kjörtímabil R-listans? Ekki er það mikið. Staðan er þannig að mörg verkefni standa eftir óleyst og margt í því sem skiptir máli er í hreinu klúðri. Skipulagsmálefni borgarinnar eru í óttalegu fokki, hreint út sagt. Hvernig er staðan á Vatnsmýrinni? Allt í veseni, nákvæmlega ekkert hefur gerst nema eymdarákvarðanir undir forystu þeirra. Málið er alveg í rusli.

Það klúður segir margt um stöðuna bæði innan R-listans og varðandi forystu þeirra í skipulagsmálum. Það eru algjörar bútasaumslausnir á öllum stigum, forysta vinstrimanna í Reykjavík hefur skilað af sér nægum verkefnum sem R-listinn hefur ekki verið bógur að leysa. Nú koma borgarfulltrúar R-listans svo fram einn af öðrum í fjölmiðla þessa dagana til að svara tillögum sjálfstæðismanna - ferskum hugmyndum inn í nýja tíma. Og hverjar eru lausnir R-listans? Engar í heildina. Það kemur einn borgarfulltrúinn með eina tillögu, annar með aðra og svona koll af kolli. R-listinn er ekki samhentur í skipulagsmálunum. Í gær kom Stefán Jón fram algjörlega að því er virtist prívat og persónulega fram með hugmyndir um byggð í Vatnsmýrinni og ennfremur hringveg um miðborgarsvæðið með tengingu frá Vatnsmýrarbyggðinni yfir á Álftanes. Gott og vel, en er þetta stefna R-listans? Ef svo er fór það framhjá mér.

Þessar tillögur virkuðu á mig bara eins og prívatvinnsla nafna míns sem unnið hafði verið við eldhúsborðið heima. R-listinn eftir ellefu ára valdasetu og forystu í skipulagsmálum borgarinnar allan þann tíma er ekki samhentur og þar liggur vandinn í málinu. Skipta þarf um áherslur og fólk í forystu málaflokksins. Það vantar nýja sýn - ferska sýn til framtíðar. Sú sýn er í tillögum sjálfstæðismanna um byggð á eyjunum og því að tryggja samstöðu um Vatnsmýrina. En fyrst og síðast þarf að tryggja flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Hvort hann sé í Vatnsmýri er ekki úrslitaatriði. Ef fórna á Vatnsmýrarsvæðinu verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.

Þorskur

Ja sei sei, nú berast þær fréttir frá Færeyjum að færeyski þorskstofninn sé hruninn og alþjóða hafrannsóknarráðið leggi til að dregið verði úr sókn um 50% á næsta fiskveiðiári. Í fréttum sem borist hafa hingað til lands hefur yfirmaður fiskirannsókna í Færeyjum sagt að um sé að kenna ofveiði vegna rangar veiðistefnu sem byggð sé á fiskveiðiráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings. Það er einmitt það já, varð mér að orði þegar ég heyrði þessar fréttir. Er það ekki sami maður og sama kerfi og einn íslenskur stjórnmálaflokkur, einsmálsflokkur allra tíma, Frjálslyndi flokkurinn, leggur til umfram aðra að farið verði eftir hér á landi? Ég veit ekki betur en að svo sé. Frjálslyndir ganga um með veggjum núna og reyna frekar að þegja það af sér en taka á því.

Hvað ætli varaformaðurinn kjaftagleiði segi núna á sjónum þar sem hann er að drýgja þingmannstekjurnar á síldarveiðum? Ætli Frjálslyndir verði ekki að finna sér nýjan fiskifræðing núna til að trúa á? Það veit ég allavega að frjálslyndir hafa básúnað það að minnkandi þorskur hér á okkar miðum sé fiskveiðistjórnkerfi okkar að kenna en nú segja þeir sem tala að minnkandi þorskur við Færeyjar sé ekki fiskveiðistjórnkerfi þeirra að kenna. Þetta tel ég vera þversögn í málflutningi - skal engan undra!

Royal Alfreð Hall

Ekki batnar mikið óráðsían sem grasserar í Orkuveitu Reykjavíkur undir forystu R-lista vinstri manna og er leidd í þeirra umboði af Alfreð Þorsteinssyni, framsóknarjálkinum í hópnum. Seinustu árin höfum við orðið vitni að því að þetta fyrirtæki í opinberri eigu væri í að reisa sumarhúsabyggð, stundi undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og væri þátttakandi í fyrirtækjarekstri á sviði gagnamiðlunar. Allt er þetta vel kunnugt og blasir við öllum að vekji spurningar. Er vart undarlegt að spurt sé hvort opinbert fyrirtæki eigi að blanda sér í áhættufjárfestingar og sukk af þessu tagi. Ekki batnar það eins og fyrr segir, enda hefur nú kvisast út að OR sé að verða þátttakandi í því að til komi heilsuhótel á Nesjavallasvæðinu. Og auðvitað er OR þar í fararbroddi. Það er ekki nema von að sú spurning vakni hvort engin takmörk séu á ruglinu þarna. Hvað er næst eiginlega? Ætli Alfreð Þorsteinsson fari ekki brátt að fá þá flugu í hausinn að verka harðfisk og selja á opnum markaði, allt í nafni þess að það komi Orkuveitunni við. Það má svei mér þá alveg búast við því. En jæja, mín vegna má Alfreð svosem standa í Kolaportinu og selja hertan steinbít og bitaýsu. :)

Anne Bancroft (1931-2005)

Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Anne Bancroft lést í gær, 73 ára að aldri. Bancroft var ein af litríkustu leikkonum sinnar kynslóðar. Anna Maria Italiano fæddist í Bronx-hverfinu í New York þann 17. september 1931, dóttir ítalskra innflytjendahjóna. Hún ákvað ung að verða leikkona og skráði sig í leiklistarskóla eftir að grunnnámi lauk. Hún var ráðin til Twentieth Century Fox árið 1952 og skipti þá um nafn. Hún náði heimsathygli með túlkun sinni á Annie Sullivan í The Miracle Worker árið 1962 og hlaut óskarsverðlaunin fyrir leik sinn. Litríkasta hlutverk ferils hennar var frú Robinson í The Graduate árið 1967. Þar fór hún algjörlega á kostum. Frábær mynd, sem er og verður alla tíð algjör klassík. Önnur eftirminnileg hlutverk ferils hennar voru í The Turning Point, The Elephant Man, Agnes of God og The Pumpkin Eater. Hún giftist leikstjóranum og handritshöfundinum Mel Brooks árið 1964. Anne Bancroft var dýnamísk og glæsileg leikkona sem setti sterkan svip á þær myndir sem hún var í, gríðarlega sterk í túlkun alla tíð. Hún náði að gæða persónur sínar öflugu lífi og setti mark sitt á kvikmyndasögu 20. aldarinnar.

Hildur Vala

Á mánudag var ég beðinn af góðu fólki um að velja þau tíu lög sem stæðu mér næst og ég myndi grípa til - lög er stæðu mér nærri í hjartanu. Listinn varð til á þrem mínútum. Margt komst þar ekki á blað skiljanlega. Það er oft erfitt að velja og hafna. En ég tel listann góðan. Allavega eru þetta lög sem ég tel mér mikils virði. Þetta er fjölbreytt val og litríkt, blanda innlends sem erlends og stuðsins og alvarleikans í hjartarótinni minni. En hér er listinn:

Afgan - Bubbi Morthens (partýlag allra tíma - mjög sterkt lag)
The Final Countdown - Europe (stuðlagið sem hittir í mark)
Du Hast - Rammstein (eldhresst rokklag sem tengir mig á liðið tímabil)
Tvær stjörnur - Megas (fær mann til að hugsa um lífið og tilveruna)
In My Life - The Beatles (stendur mjög nærri hjartanu mínu)
God Only Knows - The Beach Boys (alltaf heillandi og hugljúft)
Fallegur dagur - Bubbi Morthens (kemur mér í gott skap)
Songbird - Hildur Vala (róandi og einstaklega fallegt)
Jokerman - Bob Dylan (sterkt lag sem hefur alltaf höfðað til mín)
Stairway to Heaven - Led Zeppelin (gríðarlega öflugt lag)

Næst inn:
Nína - Stefán og Eyfi (hugljúfara verður það ekki - beint frá hjartanu)
Intermezzo - Pietro Mascagni (sannar tilfinningar í gegn - og það án allra orða)
Hjá þér - Sálin (lag sem fær mig til að hugsa um hluti sem eru mér nærri)
Imagine - John Lennon (öflugt lag um hluti sem skipta mjög miklu máli - snilld)
Both Sides Now - Hildur Vala (hefur áhrif á mig sem ég get ekki lýst)
Love Theme (Cinema Paradiso) - Ennio Morricone (alvöru tilfinningar án orða)
Won't Go Back - Jet Black Joe (lag sem fékk mig til að halda áfram frá sáru tímabili)
It Must Have Been Love - Roxette (öflugt lag sem færir mér merkilega tilfinningu)
Bridge Over Troubled Water - Simon og Garfunkel (glæsilegt, fullt af tilfinningum og næmri túlkun)
You'll be in my heart - Phil Collins (gríðarlega sterkt lag með tilfinningu)

Saga gærdagsins
1904 Íslandsbanki, hinn eldri, tók til starfa - bankanum var lokað í kjölfar gjaldþrots í febrúar 1930.
1905 Konungssamband Noregs og Svíþjóðar var afnumið - Hákon VII verður fyrsti konungur Noregs.
1942 Japanir eru sigraðir í sjóorrustu um Midway eyju í Kyrrahafi - orrustan stóð í 3 sólarhringa.
1977 Elísabet II Englandsdrottning, fagnar 25 ára valdaafmæli sínu - Elísabet hefur ríkt allt frá 1952.
1981 Ísraelska stjórnin fyrirskipar að kjarnorkuvinnslustöð í Írak sé eyðilögð - óttast hafði verið um að í vinnslustöðinni væru Írakar að vinna að atómsprengjum til að ráðast að nágrannalöndum sínum.

Saga dagsins
1783 Skaftáreldar hófust með eldgosi úr Lakagígum - það er eitt mesta eldgos sögunnar á Íslandi.
1866 Kanadíska þingið kemur saman í fyrsta skipti í Ottawa - Kanada er undir stjórn frá Englandi.
1968 James Earl Ray handtekinn fyrir morðið á Martin Luther King - hann lést í fangelsi árið 1999.
1982 50 breskir hermenn farast í loftárás argentínska hersins á tvö birgðaskip á Falklandseyjum.
1986 Kurt Waldheim fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kjörinn forseti Austurríkis - kjör hans í embættið varð umdeilt enda var haldið fram að hann hefði verið í liði nasista í seinna stríðinu.

Snjallyrðið
Ég les allar bækur
og Dylan hlusta á,
best er þó að gleyma
þegar ljósið fellur frá.

Forðum gat ég flogið
draumum mínum í,
nú verð ég að bera
þann þunga sem blý.

Tíminn er vinur þinn
lifðu alltaf rétt,
því ástin getur aldrei
orðið gömul frétt.

Ég á engan skjöld - ég á ekkert sverð
ég verð bara einmana þegar þú ferð.
Tíminn er vinur þinn - lærðu að lifa rétt
því ástin getur aldrei orðið gömul frétt.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (1956) (Ástin getur aldrei orðið gömul frétt)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Jack Straw les yfirlýsinguna í breska þinginu

Eins og allir vita sem fylgjast með stjórnmálum ríkir kreppa innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum í síðustu viku. Allt frá því þessi niðurstaða varð ljós hefur verið beðið viðbragða frá Bretum. Hvort þeir myndu fresta þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð hafði verið í síðasta lagi vorið 2006 eða haldið yrði fast við fyrri ákvarðanir. Í dag tilkynnti Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, að breska stjórnin hefði ákveðið að slá á frest að setja lög um atkvæðagreiðsluna. Það er því ljóst að kosningunni hefur verið frestað og alls óvíst að staðfestingaferlið haldi áfram í Bretlandi með þeim hætti sem ákveðið hafði verið fyrir rúmlega ári. Fram kom í ítarlegri ræðu Straw í breska þinginu að óvissan sem nú ríkti væri of mikil til að Bretar myndu halda áfram ferli sínu í málinu óbreyttu. Höfnun Frakka og Hollendinga væru umhugsunarverð skilaboð sem þyrfti bæði tíma og umhugsun til að vinna úr. Sagði hann að bíða þyrfti þess að leiðtogar allra landanna kæmu saman og færu yfir stöðuna. Það er algjörlega ljóst að þessi yfirlýsing ráðherrans dragi mjög úr líkum þess að stjórnarskráin nái í land.

Fyrirfram var ljóst að til þess að stjórnarskráin myndi ná fram að ganga þyrftu öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja hana, annaðhvort með samþykki þjóðþings eða í gegnum þjóðaratkvæði. Ljóst var því að ef eitt ríki hafnaði stjórnarskránni, t.d. eitt af hinum stóru, leiddi það til pólitísks uppnáms innan sambandsins og átaka. Það hefur svo sannarlega gerst með synjun Frakka og Hollendinga, enda um að ræða tvö af sex stofnríkjum EBE, forvera EB og ESB. Hart var deilt um það í Bretlandi seinustu ár hvort þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram um stjórnarskrána þar. Lengi vel var stjórnin andsnúin slíku formi og sögðu kosningu óþarfa. Notaði hún lengi vel sem rök fyrir afstöðu sinni að tilkoma hennar myndi ekki hafa í för með sér neinar umtalsverðar breytingar á eðli Evrópusambandsins. Svo fór vorið 2004 að Tony Blair forsætisráðherra neyddist til að skipta um skoðun og ljá máls á þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þrýstings innan Verkamannaflokksins. Blasir við að Frakkar hafi hjálpað Blair og stjórn hans, enda hefði tap í slíkri kosningu á næsta ári getað orðið pólitískur banabiti hans.

Var enginn vafi á því að forsætisráðherrann lagði mikið undir með því að bakka í apríl 2004 og ljá máls á því að breska þjóðin ákveddi örlög stjórnarskrárinnar hvað sig varðaði og fram færi kosning. Hann var til jafnvel í að leggja sig og feril sinn að veði. Það að hann ákvað að bíða með kosninguna fram yfir þingkosningarnar á þessu ári staðfesti það. Lengi vel hefur Blair sagt að Bretland myndi veikjast verulega innan ESB ef þjóðin hafnaði tillögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þó ljóst að hann þarf ekkert að hugsa meira um þetta mál. Kosningunni hefur verið frestað. Frakkar og Hollendingar hafa bjargað honum úr erfiðri og vandræðalegri stöðu, enda hefði staða hans veikst til muna ef hann hefði tapað kosningu, enda veiktist þingmeirihluti hans mjög í þingkosningunum fyrir rúmum mánuði. Það er því hætt við að breska stjórnin og forystumenn hennar horfi bjartsýn fram á veginn án þess að þurfa að hafa pólitískar áhyggjur af þessu máli eins og staðan er orðin.

Jacques Chirac og Gerhard Schröder

Um helgina hittust þeir Jacques Chirac forseti Frakklands, og Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, á sellufundi í Berlín. Ekki er hægt að segja að fundur þeirra hafi markast af gleði og léttu spjalli um daginn og veginn. Öðru nær. Um var að ræða neyðarfund til að ræða málefni Evrópusambandsins í ljósi þeirrar miklu krísu sem þar er komin upp vegna þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskrá ESB. Fagnaðarfundir voru með leiðtogunum. Er Schröder og eiginkona hans, Doris, hittu Chirac við dyr kanslarabústaðarins í Berlín föðmust þau mjög innilega að frönskum hætti og leiðtogarnir áttu mjög öflugt faðmlag. Ræddu þau málin yfir kvöldverði og sátu leiðtogarnir síðan tveir að spjalli í kanslarabústaðnum og fóru yfir stöðuna. Það er alveg ljóst að erfiðar ákvarðanir blasa við lykilleiðtogum ESB-ríkjanna. Stjórnarskráin þeirra veglega og langdregna er farin út af sporinu og virðist algjörlega í andaslitrunum og við bætist að staðfestingarferli hinna landanna sé andvana fætt, enda hafa tvær þjóðir hafnað þegar í raun þýddi synjun einnar endalok málsins eða annað vinnuferli.

Á fundinum náðu þeir fullri samstöðu um að samræma aðgerðir sínar í stjórnarskrármálinu fyrir leiðtogafundinn í Brussel þann 16. júní nk. Voru þeir sammála því að reyna að lagfæra þann skaða sem orðinn er vegna þess að Hollendingar og Frakkar synjuðu stjórnarskránni staðfestingar. Hvöttu þeir í yfirlýsingu til þess að aðildarlöndin héldu staðfestingarferlinu áfram og léti nei-in tvö í síðustu viku ekki hafa áhrif á sig. Þeir vilja því að ekkert breytist og löndin líti framhjá synjun tveggja stofnríkja EBE á stjórnarskrá ESB. Það hefur eins og tíðindi dagsins bera með sér strax farið út af sporinu, enda hafa Bretar þegar frestað ákvörðun um kjördag fyrir kosninguna þar í landi. Það verður því seint sagt að samstaða sé innan ESB-landanna um næstu skref. Það er því alveg ljóst að mikil stjórnmálaleg kreppa skekur ESB. Jafnframt er mikil afneitun í gangi vegna vandans. Það sjá allir sem líta á stöðuna að stjórnarskráin er verulega sködduð. Væntanlega verða ákvarðanir um nánasta framhald málsins teknar á leiðtogafundinum í næstu viku. Það verður mjög fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði.

Eskifjörður

Um hádegið á laugardag hélt ég héðan frá Akureyri austur í Fjarðabyggð. Var ég viðstaddur fund á Reyðarfirði seinnipart laugardags. Að honum loknum voru ýmis málefni rædd og farið yfir stjórnmálastöðuna í góðu spjalli. Eftir fundinn fékk ég mér að borða með nokkrum vinum og áttum við virkilega góða stund saman. Kvöldinu lauk svo með því að fara á sjómannadagsballið á Eskifirði. Þar spilaði Sálin fyrir dansi. Þar var eins og nærri má geta mikið fjör og góð stemmning. Hitti ég þar marga ættingja mína og var þetta virkilega gott kvöld. Eins og fólk væntanlega veit er ég að hluta ættaður að austan og því alltaf gaman að fara og eiga þar góða stund með góðu fólki. Að morgni sunnudagsins fór ég í nokkrar heimsóknir til ættingja. Klukkan 13:00 fór ég svo í messu í Eskifjarðarkirkju. Þar þjónaði fyrir altari frændi minn, sr. Davíð Baldursson prófastur, og þar flutti hann kraftmikla predikun. Eftir messuna var stutt athöfn við minnismerki sjómanna á staðnum. Að því loknu hélt ég yfir á Reyðarfjörð og hitti þar frændfólk mitt á staðnum. Seinnipartinn mælti ég mér mót við vin minn og áttum við gott spjall áður en ég hélt heimleiðis um áttaleytið. Þetta var stutt en mjög skemmtileg austurferð í hópi góðra ættingja og vina.

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens fagnar í dag 49 ára afmæli sínu og 25 ára tónlistarafmæli með afmælistónleikum, alls þrem talsins, í Þjóðleikhúsinu. Jafnframt gefur hann út tvær plötur á afmælisdeginum. Heita þær Ást og Í 6 skrefa fjarlægð frá paradís? Sú fyrri er poppuð en hin er með rólegri lögum. Þær voru unnar saman sem eitt verk af hálfu Bubba og Barða Jóhannssonar í Bang Gang. Hvor plata um sig inniheldur 11 ný lög. Bubbi hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Í fyrra samdi hann að mínu mati sitt besta lag til fjölda ára, sannkallaðan gullmola. Er ég að tala um lagið Fallegur dagur. Sannkölluð perla. Fyrir nokkrum vikum gaf hann út annað lag, Þú. Þau eru bæði á rólegu plötunni. Í gær var svo frumflutt annað nýtt lag á tónlist.is sem ber heitið Ástin getur aldrei orðið gömul frétt. Hlustaði ég á það í morgun, enn ein perlan. Ég tel að Bubbi sé eiginlega að toppa sig með samstarfinu við Barða. Flott lög á þessum nýju plötum.

Silvía nótt

Um helgina heyrði ég mikið talað um nýjasta þáttinn á Skjá einum, þáttinn með Silvíu nótt, og þegar ég kom heim í gærkvöldi ákvað ég að horfa á hann á vefsjónvarpi S1. Þetta er skemmtilega steiktur þáttur. Ég verð að viðurkenna að ég hló alveg eins og vitlaus maður yfir þessu, algjörlega absúrd þáttur. Fyndnast var þegar gellan tók þingmennina Ágúst Ólaf og Kolbrúnu í viðtal. Viðtalið við Ágúst Ólaf var alveg kostulegt. Hann fór þvílíkt í kerfi í viðtalinu hjá henni og var verulega vandræðalegur og kunni ekkert að tækla hana og hennar viðtalstækni. Alveg ótrúlega fyndið að sjá þetta. Greinilegt er að verið sé að stuða áhorfandann, við höfum séð svona týpur áður með Ali G og Johnny National. Silvía nótt er auðvitað bara tilbúinn karakter í túlkun persónu og eftir því er stungið á mörg kýli og hætt við að sumir annaðhvort fíli algjörlega þáttaformið eða einfaldlega hati það. En fyrst og fremst á maður að taka þessum þætti sem brandara. Hann er ekkert meira en það.

Saga dagsins
1584 Prentun Guðbrandsbiblíu lauk á Hólum í Hjaltadal - biblían var gefin út í tæpum 500 eintökum.
1800 Alþingi var afnumið með konunglegri tilskipun - þingið var endurreist að nýju þann 1. júlí 1845.
1938 Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti - alla tíð verið hátíðisdagur um allt land.
1944 D-dagurinn - stórsókn hers bandamanna gegn her Þýskalands hófst. Blóðugum bardaganum lauk með sigri bandamanna og var það upphafið að endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar tæpu ári síðar.
1968 Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður, deyr á sjúkrahúsi í Los Angeles, 42 ára að aldri. Daginn áður hafði hann verið skotinn af palestínskum manni eftir að hafa fagnað sigri í forkosningu í Kaliforníu. Hann þótti sigurstranglegastur í forsetakjörinu sem framundan var - dauði hans kom sem þruma framan í bandarísku þjóðina. Robert Kennedy lét eftir sig eiginkonuna, Ethel, og 11 börn, það yngsta fæddist skömmu eftir lát hans. Robert var jarðsettur í Arlington-kirkjugarðinum í Washington.

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)


Engin fyrirsögn

Ronald Reagan
1911-2004


Ronald Reagan (1911-2004)

Ár er í dag liðið frá andláti Ronald Reagan 40. forseta Bandaríkjanna. Á langri ævi sinni auðnaðist honum að verða táknmynd Bandaríkjamannsins sem kom sjálfum sér á framfæri á hinn týpíska bandaríska hátt: varð ríkur, kvikmyndastjarna og að lokum valdamesti maður heims á vettvangi stjórnmála. Ronald Wilson Reagan fæddist í smábænum Tampico í Illinois-fylki í Bandaríkjunum, þann 6. febrúar 1911. Reagan ólst upp á millistéttarheimili, næstelstur af börnum hjónanna John Edward Reagan og Nelle Wilson Reagan. Faðir hans starfaði sem skókaupmaður. Árið 1920 eftir flutninga víða um Illinois, settist fjölskyldan að í bænum Dixon. Hann hóf nám í skólanum í Dixon og lauk þar grunnskólaprófi. Árið 1926 vann hann við sumarstörf sem strandvörður við Rock River. Árið 1928 hóf hann nám í Eureka háskólanum í Illinois og kláraði þar viðskiptanám árið 1932. Reagan byrjaði í upphafi fjórða áratugarins að vinna sem íþróttafréttamaður í Illinois og varð t.d. kynnir á leikjum Chicago Cubs. Hlotnaðist honum fyrst frægð á þeim árum og gekk þá almennt undir nafninu Dutch.

Árið 1936 hélt hinn ungi Reagan til Los Angeles í Kaliforníu, staðráðinn í að ná að koma sér á framfæri sem leikari. Hann náði í samning hjá Warner Bros. kvikmyndafyrirtækinu í kjölfarið og fluttist alfarinn til Kaliforníu. Á leikferli sínum sem spannaði tæpa þrjá áratugi, lék hann aðallega í b-myndum og fékk ennfremur aukahlutverk í betri myndum. Hann hafði þægilega sviðsframkomu og þótti glæsilegur leikari og öðlaðist heimsfrægð fyrir leikframmistöðu sína í nokkrum þeirra. Lék hann alls í 50 kvikmyndum á ferli sínum, misjöfnum að gæðum, sagði hann síðar að hann hefði verið Errol Flynn B-myndanna. Ein þekktasta kvikmynd Reagans var Knute Rockne All American, þar sem hann lék hlutverk George "The Gipper" Gipp. Upp frá því hlaut hann gælunafnið Gipper, sem honum féll alla tíð vel við. Að auki er hans helst minnst fyrir leik sinn í Bedtime for Bonzo, This is the Army, Kings Row og Hellcats of the Navy. Árið 1940 giftist hann óskarsverðlaunaleikkonunni Jane Wyman og áttu þau saman tvö börn, Michael og Maureen (hún lést í ágúst 2001 úr krabbameini). Jane og Ronald skildu árið 1948.

Ronald Reagan (1911-2004)

Reagan var kjörinn forseti leikarasamtakanna Screen Actors Guild of America (SAG) árið 1947 og var hann framarlega í flokki forystumanna leikara á þeim tíma sem ráðist var að þeim leikurum sem sakaðir voru um að vera á mála hjá Kommúnistaflokknum, og í gangi voru yfirheyrslur í þinginu vegna þeirra ásakana. Var Reagan virtur sem forystumaður SAG og þótti vaxa mjög af framgöngu sinni þar. Til marks um það var hann í miklum metum alla tíð í Hollywood og frægt varð að Óskarsverðlaunahátíðinni 1981 var frestað um sólarhring, 30. mars 1981, er honum var sýnt banatilræði og var þá um tíma vart hugað líf. Eftir skilnað Ronalds og Jane hélt hann áfram leik. Í byrjun sjötta áratugarins kynntist hann leikkonunni Nancy Davis. Þau gengu í hjónaband, þann 4. mars 1952. Var sambúð þeirra mjög farsæl og fylgdi Nancy honum í blíðu og stríðu þar til yfir lauk. Léku þau saman í einni kvikmynd, Hellcats of the Navy. Reagan öðlaðist með forystustörfum sínum fyrir leikarasamtökin mikla frægð og varð kraftmikill forystumaður þeirra. Í byrjun sjöunda áratugarins ákvað hann að hætta kvikmyndaleik og hella sér af fullum krafti út í stjórnmál.

Reagan gekk árið 1962 í Repúblikanaflokkinn og vann af krafti í starfi þeirra í Kaliforníu alla tíð síðan. Hann vakti þjóðarathygli á flokksþingi Repúblikana árið 1964 þegar hann mælti fyrir kjöri Barry Goldwater í sjónvarpsútsendingu. Þótt Goldwater hafi tapað kosningunum eignuðust repúblikanar nýtt foringjaefni með því í Reagan. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn. Hann náði kjöri sem 33. ríkisstjóri fylkisins og tók við embætti í ársbyrjun 1967. Sat hann á stóli ríkisstjóra í tvö kjörtímabil, til ársins 1975, en hann gaf þá ekki kost á sér til endurkjörs. Stefndi Reagan allt frá ríkisstjórakjörinu að því að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Hann gaf kost á sér fyrsta skipti til embættisins árið 1968 en tapaði í forkosningum fyrir Richard Nixon. Hann gaf aftur kost á sér á ný í forsetakosningunum 1976 en beið þá ósigur í forkosningunum fyrir Gerald Ford forseta. Þótti engan veginn sjálfgefið þá að Ford yrði forsetaefni flokksins, þó hann sæti á forsetastóli, enda hafði hann tekið við sem varaforseti við afsögn Spiro Agnew árið 1973 og orðið forseti við afsögn Nixons í ágúst 1974.

Ronald Reagan (1911-2004)

Ford tapaði forsetaembættinu í forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter. Það opnaði leiðina fyrir Reagan að sækjast eftir embættinu árið 1980 í kosningaslag við Carter. Kosningaslagur Reagans og Carter var harður og sóttu þeir harkalega að hvor öðrum. Það lá fljótt fyrir á kosninganótt í nóvember 1980 að Reagan hafði náð kjöri og gjörsigrað Carter, með mun meiri yfirburðum en hafði verið spáð. Var hann á sjötugasta aldursári er hann náði kjöri og varð því elstur allra þeirra sem náð hafði kjöri í embættið. Hann hafði ekki setið nema tvo mánuði í embætti er honum var sýnt banatilræði, þann 30. mars 1981. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington spítalann til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í aðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvölinn. George Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans, en hann náði sér þó aldrei að fullu af sárum sínum.

Hann hafði djúpstæð áhrif bæði á heimavelli og á alþjóðavettvangi á átta ára valdaferli sínum. Vegna farsællar forystu hans leið Kalda stríðið undir lok. Tókst honum að semja við Sovétmenn um verulega fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Mikilvægasta skrefið í átt að afvopnun stórveldanna náðu Reagan og Mikhail Gorbatsjov Sovétleiðtogi, á leiðtogafundi sínum í Reykjavík í október 1986. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum Reagans forseta. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Reagan lét af embætti þann 20. janúar 1989. Þá flutti hann til Los Angeles og hóf að fara um heiminn til að flytja erindi á ráðstefnum og var fyrirlesari við háskóla víðsvegar um allan heim.

Nancy og Ronald Reagan

Reagan tilkynnti í yfirlýsingu í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer, sem leggst á heilafrumur og veldur minnisleysi. Í tilfinningaþrunginni yfirlýsingu sinni til bandarísku þjóðarinnar á þeim tímapunkti dró hann sig í hlé og kvaddi í raun þjóðina. Upp frá þeim tíma hélt hann sig á heimili sínu í Los Angeles og naut umönnunar eiginkonu sinnar Nancy og nánustu fjölskyldu þar til yfir lauk 5. júní 2004. Við andlát hans var Reagan minnst fyrir glæsilegan stjórnmálaferil og þá miklu mannkosti sem hann hafði. Var staðfest með viðbrögðum Bandaríkjamanna við láti hans hversu gríðarlega sterk staða hans var í sögu landsins. Þeim sem vilja kynna sér verk hans og forystu fyrir Bandaríkin á átta ára forsetaferli bendi ég á hina góðu bók President Reagan: The Role of a Lifetime eftir Lou Gannon. Er það gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans.

Reagan leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Minningin um manninn sem sigraði kommúnismann mun ávallt lifa.

Nancy Reagan leggur blóm á leiði manns síns - 5. júní 2005



Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi um þá kreppu sem Evrópusambandið er komið í eftir að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í vikunni. Úrslitin í Frakklandi voru mikið högg fyrir Jacques Chirac forseta og stokkaði hann upp ríkisstjórn sína. Fer ég yfir stöðu mála í frönskum stjórnmálum eftir þessa sögulegu synjun Frakka á ESB-samstarfinu. Staðan er þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Þó er ljóst að mjög hefur dregið af hinu mikla og langa plaggi, stjórnarskrá ESB, og framtíð hennar er komin í mikinn vafa. Ekki síður er Evrópusambandið að upplifa sína mestu krísutíma í háa herrans tíð. Það ætti að ráðast fljótlega hvort stjórnarskráin muni bresta alveg eða bara kikna af þunga málsins og menn leggi í annað vinnuferli - aðra atlögu að því að endurlífga plaggið miklu. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

- í öðru lagi fjalla ég um uppljóstrun Mark Felt fyrrum aðstoðarforstjóra FBI, á því að hann hafi verið Deep Throat, heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu í byrjun áttunda áratugarins. Felt er nú 91 árs að aldri og aðeins eru þrjú ár síðan hann skýrði fjölskyldu sinni frá því að hann væri heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972 við fráfall J. Edgar Hoover. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Er ánægjulegt að öll atriði málsins liggi fyrir og nú sé vitað hver heimildarmaðurinn var. Þrem áratugum eftir lok málsins var kominn tími til að hulunni sé svipt af þessum meginpunkti málsins: hver það var sem veitti upplýsingarnar sem svipti hulunni af Watergate-málinu sem leiddi til afsagnar forseta landsins í fyrsta og eina skiptið. Fer ég yfir Watergate-málið og söguleg áhrif þess og fjalla eilítið um persónu Nixons.

- í þriðja lagi fjalla ég um val þýsku hægriblokkarinnar á dr. Angelu Merkel sem leiðtoga sínum í þingkosningunum í september. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Líst mér mjög vel á þá niðurstöðu mála að dr. Angela Merkel leiði kosningabaráttu hægrimanna í Þýskalandi.

Saga dagsins
1878 Thor Jensen kom fyrst til Íslands og gerðist verslunarþjónn við Hrútafjörð. Hann varð einn af umfangsmestu kaupsýslumönnum landsins á 20. öld og hafði mjög mikil áhrif - Thor lést árið 1947.
1944 Bandamenn ná völdum í Róm - íbúar í borginni fagna gríðarlega þessum gleðilegu tíðindum.
1963 John Profumo varnarmálaráðherra Bretlands, segir af sér embætti sínu vegna hneykslismáls - hneykslið, auk innri valdabaráttu, leiddi til falls hægristjórnarinnar í Bretlandi í kosningum árið eftir.
1968 Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður, skotinn á framboðsfundi á hóteli í Los Angeles.
2004 Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, deyr á heimili sínu í Los Angeles, 93 ára að aldri - Reagan varð langlífastur allra forseta landsins og sá elsti (sjötugur) til að ná kjöri í forsetaembætti.

Snjallyrðið
Því allt sem var
er með henni farið burt frá þér,
sem fugl að hausti horfinn er.
Eins og sólin heit í sumarhjarta
er sökk í myrkrið svarta.

En ég veit,
að sólin vaknar á ný,
handan vetrarins, þú mátt trúa því.
Og ef þú opnar augu þín
muntu sjá hana þíða sorg úr hjarta þínu.
Karl Mann (Hjartasól)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Richard Nixon

Seinustu dagana hefur Watergate-málið verið að nýju í fréttum vegna þess að nú er vitað hver heimildarmaðurinn frægi Deep Throat var en hann veitti The Washington Post upplýsingarnar sem leiddu til þess að málið spann upp á sig. Því lauk að lokum með afsögn Richard Nixon forseta Bandaríkjanna. Það var lengi sannfæring Nixon að Mark Felt aðstoðarforstjóri FBI, væri Deep Throat. Þetta kom fram allt frá upphafi á hinum frægu spólum sem urðu Nixon að lokum að falli, en þær innihéldu einkasamtöl hans við nánustu samverkamenn hans. Þar reyndist Nixon sannspár, en Felt neitaði í 33 ár sannleikanum. Það er alveg ljóst að án gagnanna sem Felt veitti The Washington Post hefði málið aldrei náð alla leið. Það hóf ferli málsins. Lengi hefur mér þótt merkilegt að fylgjast með stjórnmálaferli Nixons. Fyrr í vetur las ég bókina RN: The Memoirs of Richard Nixon. Það er góð bók, sem veitir fágæta innsýn inn í pólitískan feril hans. Er alveg merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans, Watergate og forsetatíðina, sem var mjög umdeild.

Nixon var merkilegur persónuleiki, það er merkilegast að komast að því í allri umfjöllun um hann hversu ótraustur hann var og allt að því taugaveiklaður og andlega bæklaður. Hann var mikill skapmaður og var fljótur að missa stjórn á sér. Nánustu samstarfsmenn hans lýsa seinasta ári forsetaferils hans sem púðurtunnu fyrir hann persónulega. Eftir stendur að hann áorkaði miklu í embættistíð sinni, en mörg merkustu verk hans hafa gleymst vegna Watergate-málsins. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður 20. aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Margir vita varla enn hver hann var í raun þessi maður sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér, að lokum. Nixon var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum.

Hef ég jafnan dáðst af því hvernig hann kom sér áfram og hélt dampi þrátt fyrir mörg áföll lengst af. Hann varð öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972. Hann stjórnaði landinu í gegnum mikla og erfiða pólitíska tíma og vann sér sess með því. Merkilegast af öllu á hans ferli þykir mér hvernig honum tókst að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao árið 1972. Áhrif þessa fundar gætir enn, þau opnuðu tengslin yfir að nýju. Watergate-málið voru klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem að lokum urðu honum að falli. En ég hvet alla aðdáendur stjórnmála til að lesa þessa bók, eða sjá kvikmyndina um Watergate-málið eða heimildarþætti um hið fræga mál vegna fréttanna þessa dagana.

Ráðhús Reykjavíkur

Með ólíkindum hefur verið að fylgjast seinustu árin með óráðsíunni sem viðgengst innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð Þorsteinssyni borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, innan R-listans. Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum í vikunni að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn. Ekki er hægt að sjá að uppbygging af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum sé gert að taka þátt í honum. Er þetta fráleitt fyrsta málið sem Orkuveitunni stendur nærri sem horfir undarlega við. Nægir að nefna undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Vegna þessa þótti SUS við hæfi að gefa stjórnarformanninum á framsóknarbásnum Monopoly-spilið margfræga. Var það við hæfi enda snýst það um að fjárfesta í götum, húsum og hótelum. Það er ágætis skilaboð sem send eru með því.

Ekki hafði liðið löng stund frá því að Jón Hákon Halldórsson framkvæmdastjóri SUS, hafði farið með spilið í rándýrt hús Orkuveitunnar, sem gárungar nefna Royal Alfreð Hall, að það var endursent. Með því fylgdi orðsending sem hafði ennfremur verið send til allra fjölmiðla. Þar kastar Alfreð til baka og kemur með háðsglósur til SUS en svarar auðvitað í engu málefnalegri aðfinnslu okkar með gjöfinni. Ekki kemur það mjög á óvart. Alfreð Þorsteinsson er einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug. Það er þarfaverk að benda honum á verk sín. Það að hann endursendi spilið er gott dæmi um að hann getur ekki horfst í augu við verk sín. En það væri enn betra að spyrja aðra innan R-listans hvort það ætli sér að kjósa Alfreð til valda aftur ef sameiginlegt framboð verður og tryggja með því áhrif hans áfram. Hann situr í umboði allra þeirra sem styðja hina flokkana þarna inni - gleymum því ekki!

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í gær undirrituðu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Sigurður Hallgrímsson arkitekt, fyrir hönd Arkþings ehf, hönnunarsaming um húsnæði menningarhúss og tónlistarskóla á Akureyri. Eins og fyrr hefur verið ákveðið verður menningarhúsið í miðbæ Akureyrar, við gatnamót Geislagötu og Strandgötu. Þann 7. apríl 2003 undirrituðu Kristján Þór og Tómas Ingi Olrich þáverandi menntamálaráðherra, samning milli ríkisins og Akureyrarbæjar um byggingu menningarhúss í bænum. Í kjölfar þess var efnt til hönnunarsamkeppni vegna hússins og skilaði dómnefnd niðurstöðum sínum á menningarvöku á afmæli bæjarins í ágúst í fyrra. Í október var ákveðið að staldra aðeins við og huga betur að forsendum málsins. Byggingarnefnd var falið að nota tímann til að styrkja ákvarðanatökuna með frekari athugunum á kostnaði við bygginguna og rekstur hússins. Er nú ætlað að Tónlistarskólanum á Akureyri verði fundinn staður til framtíðar á þriðju hæð hússins. Bæjarstjórn Akureyrar hefur nú ákveðið að ráðast í byggingu menningarhússins. Stefnt er að því að það verði tilbúið til notkunar fyrir árslok 2007. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi.

ESB

Í dag birtist ítarlegur pistill minn á vef Heimdallar þar sem ég fer yfir Evrópumálin í ljósi þess að Hollendingar og Frakkar hafa hafnað stjórnarskrá Evrópusambandsins. Mikil pólitísk óvissa vofir yfir Evrópusambandinu vegna stöðunnar. Nú hefur forsætisráðherra Lúxemborgar, sem er í forystu ESB-starfsins þetta starfstímabilið, sett embætti sitt að veði fyrir samþykkt stjórnarskrárinnar heima fyrir. Annars blasir mjög erfið staða við leiðtogum ESB og framundan eru margir neyðarfundir meðal leiðtoganna til að fara yfir stöðuna. Til dæmis munu leiðtogar Frakklands og Þýskalands funda um helgina í Berlín. Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Þó er ljóst að mjög hefur dregið af hinu mikla og langa plaggi, stjórnarskrá ESB, og framtíð hennar í vafa. Það ætti að ráðast fljótlega hvort stjórnarskráin muni bresta eða bara kikna af þunga málsins og menn leggi í annað vinnuferli - aðra atlögu að því að endurlífga plaggið. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Clint Eastwood í hlutverki Dirty Harry

Seinustu vikur hef ég verið að rifja upp kynni mín af kvikmyndunum um Dirty Harry. Skjár einn hefur fært okkur þessar perlur með Clint Eastwood á skjáinn seinustu vikurnar. Þetta eru með betri spennumyndum síðustu aldar og Eastwood túlkar aðalsöguhetjuna, harðjaxlinn Harry Callahan, mjög vel. Er mjög gaman að sjá myndirnar með þessum eitilharða lögreglumanni í morðdeild lögreglunnar í San Francisco. Alltaf finnst mér sú fyrsta (Dirty Harry) langbest og þar er ferskasta spennan og flottasti hasarinn. Dirty Harry hefur markað skref í sögu spennumyndanna og segja má að ófáir karakterar seinni tíma spennumyndasögu hafi fetað í fótspor hans og fengið marga bestu eiginleika hans til að krydda sig upp. Eftirlíkingarnar eru ófáar og oft sér maður í góðum spennumyndum vitnað í Dirty Harry-myndirnar með ýmsu tagi í framsetningunni. Það segir allt um Dirty Harry og túlkun Clint Eastwood. Ómissandi myndir fyrir spennufíkla, þær verða allir að sjá.

Saga dagsins
1844 Síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum drepnir á syllu við Eldey, sem er suðvestur af Reykjanesi.
1932 Ríkisstjórn undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar tekur við völdum - stjórn Ásgeirs sat í rúm 2 ár. Ásgeir sat lengi á þingi og var ennfremur bankastjóri. Hann var kjörinn forseti Íslands sumarið 1952.
1989 Jóhannes Páll II páfi kemur í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur allra páfa. Ferð hans var því söguleg. Jóhannes Páll II sat á páfastóli í 27 ár, allt frá október 1978 til dauðadags þann 2. apríl 2005.
1989 Ayatollah Khomeini erkiklerkur og trúarleiðtogi Írans, lést, 89 ára að aldri - hafði ríkt frá 1979.
2001 Óskarsverðlaunaleikarinn Anthony Quinn lést í Boston, 86 ára að aldri - var einn af þekktustu leikurum síns tíma og eftirminnilegur fyrir margar túlkanir. Hlaut óskarinn tvisvar á sjötta áratugnum.

Saga morgundagsins
1917 Pulitzer - blaðamannaverðlaunin frægu afhent í fyrsta skipti, við hátíðlega athöfn í New York.
1940 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, sigurviss eftir að tókst að verja Dunkirk.
1959 Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, stofnað - sett á fót til að hafa forystu í málefnum fatlaðra.
1989 Kosningabandalagið Samstaða vinnur kosningasigur í fyrstu frjálsu þingkosningunum í Póllandi.
1989 Her og lögregla einræðisstjórnarinnar í Kína ráðast að mótmælendum stjórnarinnar á torgi hins himneska friðar í Peking. Námsmenn höfðu þar mótmælt og kröfðust lýðræðisumbóta í landinu. Að minnsta kosti hundruðir manna, sennilega þúsundir, létu lífið er stjórnin sigaði skriðdrekum á fólkið og murkaði úr því lífinu. Atburðarás dagsins var sýnd í beinni útsendingu út um allan heim - leiddi til einangrunar Kína frá samfélagi siðaðra þjóða um allan heim og andstöðu mannréttindasamtaka. 16 árum síðar leyfir kínverski kommúnistaflokkurinn enga sjálfstæða stjórnmálastarfsemi og hneppir alla andófsmenn sem tjá aðrar skoðanir en stjórnin samþykkir, í fangelsi eða þá rekur þá úr landi. Margir í Kína hafa horfið sporlaust vegna skoðana sinna og talið fullvíst að stjórnin standi að hvarfi þeirra.

Snjallyrðið
Nú skil ég stráin, sem fönnin felur
og fann þeirra vetrarkvíða.
Þeir vita það best, sem vin sinn þrá,
hve vorsins er langt að bíða.

Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu,
og svo kom hinn langi vetur.
Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó,
að vorið, það má sín betur.

Minningin talar máli hins liðna,
og margt hefur hrunið til grunna.
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.

En svo fór loksins að líða að vori
og leysa mjallir og klaka.
Ég fann, að þú varst að hugsa heim
og hlaust að koma til baka.

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma
með heita og rjóða vanga,
því sólin guðar á gluggann minn,
og grasið er farið að anga.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú skil ég stráin)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Bessastaðir

Í dag, 2. júní, er ár liðið frá því að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, boðaði til blaðamannafundar að Bessastöðum. Þar las hann yfirlýsingu, umdeilda yfirlýsingu, sem markaði þáttaskil í sögu íslenska forsetaembættisins. Deilt hafði verið í samfélaginu mánuðina á undan af meiri krafti en áður í samtímasögu okkar. Ólafur Ragnar hafði fengið frá þinginu umdeild fjölmiðlalög til staðfestingar eða synjunar. Í 60 ára sögu forsetaembættisins höfðu þau fimm sem setið höfðu á forsetastóli nokkrum sinnum íhugað að synja lögum staðfestingar en það hafði aldrei gerst. Á hinum heita júnídegi tilkynnti forsetinn um þá ákvörðun sína að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni beitti forseti Íslands hinni umdeildu 26. grein stjórnarskrárinnar og synjaði með því um samþykki sitt lagafrumvarpi sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings hafði samþykkt. Kaflaskipti höfðu átt sér stað í samskiptum Alþingis Íslendinga og forseta lýðveldisins.

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag rek ég í löngu máli forsögu þess að forseti synjaði lögunum staðfestingar og áhrif ákvörðunar forseta á þeim tímamótum að ár er nú liðið frá því að hann kynnti ákvörðun sína. Hvernig sagan mun í framtíðinni dæma þessa ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar og þau þáttaskil sem urðu á forsetaembættinu með ákvörðun hans mun koma í ljós í nánustu framtíð. Við blasir að þessi ákvörðun verði það sem helst standi upp úr á forsetaferli Ólafs Ragnars sem hefur setið á forsetastóli núna í tæpan áratug og situr sitt þriðja kjörtímabil. Hver framtíð forsetaembættisins verður mun tíminn leiða í ljós - eflaust ræðst það mikið af því hver verði eftirmaður Ólafs Ragnars Grímssonar og hvernig embættið þróist við þau forsetaskipti sem væntanlega verða á komandi árum er Ólafur Ragnar víkur af stóli. En embættið hefur breyst á þessu ári frá ákvörðun hans um að synja lögunum. Það er algjörlega einfalt mál.

Hvort það er svo góð eða slæm þróun má vissulega deila um. Eftir stendur öðruvísi forsetaembætti og umdeildara, forseti sem allavega er ekki sameiningartákn hinnar íslensku þjóðar. Hvort eftirmanni núverandi forseta takist að breyta því er svo stóra spurningin sem ekki fæst svarað strax. Við verðum að velta henni fyrir okkur fram að lokum forsetaferils Ólafs Ragnars Grímssonar. En ég hvet lesendur til að líta á þennan pistil og fara yfir málið með mér. Ég taldi mikilvægt að fara yfir það og segja mína skoðun á því og ekki síður rekja sögu málsins frá upphafi og taka fyrir meginpunkta þess alls.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Í gær birtist ný skoðanakönnun Gallup. Þar kemur fram að 38% landsmanna styðji Sjálfstæðisflokkinn, 34% Samfylkinguna, 15% VG, 8,5% Framsóknarflokkinn og 5% Frjálslynda flokkinn. Þetta er merkileg niðurstaða sem þarna kemur fram. Helstu tíðindin eru auðvitað þau að Framsóknarflokkurinn er að fá sína döprustu mælingu í Gallup könnun til þessa. Hann mælist aðeins með hálft níunda prósent og virðist algjörlega heillum horfinn. Lægst áður í mælingu Gallup hafði Framsókn farið í febrúar er flokkurinn var að fá 10% slétt. Nú fer hann undir það mark og sekkur dýpra en nokkru sinni áður. Þessi skoðanakönnun og niðurstöður hennar hlýtur að vera hið þyngsta veganesti inn í sumarið fyrir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Flokkurinn virðist alveg í tætlum og koma illa undan vetrinum, svo vægt sé til orða tekið. Framsóknarflokkurinn hefur annars sjaldan virkað stjórnlausari en einmitt í vetur. Hann virðist óvenjulega illa samhentur og þar ber sífellt meir á innbyrðis valdatafli og látum milli hópa. Oft fer það pent fram en hefur líka orðið mjög áberandi.

Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra í haust. Flest virðist ganga honum í óhag, hver könnunin eftir annarri hefur birst í vetur og fram á vorið sem sýnir dalandi persónufylgi hans og hann hefur virkað mjög veiklulegur pólitískt að undanförnu. Þessi dapra mæling hlýtur að vera honum og hans nánustu samstarfsmönnum, spunameisturunum margfrægu, umhugsunarefni. Þeir fara varla glaðbeittir í sumarfríið með svona sögulegt lágmark á bakinu. Hvernig spinna spunameistararnir Halldór upp eftir þessar tölur? Í vetur var lofað reglulegum blaðamannafundum til að róa menn niður vegna Íraksmálsins og forsætisráðherrann kom í kostulegt drottningarviðtal við Brynhildi Ólafsdóttur í Ráðherrabústaðnum yfir vatnsglösum og teljósum. Ætli spunarokkarnir fari ekki núna að starta upp blaðamannafundunum fyrir átta prósent forsætisráðherrann?

Jan Peter Balkenende

Það fór eins og alla grunaði. Hollendingar fetuðu í fótspor Frakka og felldu með afgerandi hætti stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. 63% kjósenda höfnuðu stjórnarskránni en 37% sögðu já. Kjörsókn var dræm, aðeins rúm 62% komu á kjörstað og tóku afstöðu til stjórnarskrárinnar. Jan Peter Balkenende forsætisráðherra Hollands, var mjög vonsvikinn er hann ávarpaði þjóðina í gærkvöldi er úrslit kosningarinnar voru orðin ljóst. Hann hafði reynt af miklum krafti að fá landsmenn til að styðja stjórnarskrána í kosningunum og lagt mikið í baráttuna. Þrátt fyrir tap já-sinna í Hollandi er ekki búist við pólitískri uppstokkun þar eins og gerðist í Frakklandi með forsætisráðherraskiptum í ríkisstjórn landsins og innbyrðis ráðherrahrókeringum. Balkenende sem hefur verið forsætisráðherra Hollands frá árinu 2002 er talinn munu sitja áfram við völd og láti ekki þetta tap á sig fá. Áfallið kosninganna lendi því lóðbeint á ESB sjálfu.

Kjörtímabil hans er hálfnað og ekki líklegt talið að hann muni efna til kosninga eða grípi til einhverra aðgerða vegna þessa. Balkenende sagði er úrslitin lágu fyrir að skilaboð kjósenda í Hollandi hafi verið með þeim hætti að auðvelda verði almenningi þátttöku við mótun Evrópu og ríkisstjórnin muni beita sér í þá átt. Þessi úrslit í Frakklandi og Hollandi vekur upp spurningar um framtíð stjórnarskrárinnar. Á hún sér líf eftir tap í þessum kosningum í tveim stofnríkjum sambandsins? Getur stjórnarskráin fúnkerað áfram eftir að hún var felld í Frakklandi? Þetta eru auðvitað lykilspurningar. Það er alveg ljóst að um er að ræða mikið og þungt högg í Evrópusambandið. Þar munu menn eiga í erfiðleikum með að vinna málið áfram. Afneitun þeirra sem þar ráða ríkjum er þó algjör og ráðleysið er mikið á þeim bænum ennfremur. Nú tekur vinna úr flækjum við þar. En við blasir að stjórnarskrá ESB er algjörlega í andaslitrunum. Hún er dauð, það verður væntanlega staðfest fljótlega.

All the President's Men

Eins og ég sagði frá í gær er nú loks búið að ljóstra upp hver Deep Throat, hinn frægi heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu, var. Mark Felt aðstoðarforstjóri FBI, var hinn frægi heimildarmaður fréttarinnar, sá sem spilaði lykilhlutverkið. Markar þessi uppljóstrun mikil þáttaskil - nú loks er málinu öllu lokið. Í gærkvöldi horfði ég á hina frábæru kvikmynd All the President's Men, sem rekur alla sögu málsins. Þar er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons forseta í innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna. Velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og vel leikin mynd með Robert Redford og Dustin Hoffman í aðalhlutverkum. Er ein af uppáhaldsmyndum mínum - ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana. :)

Bettý

Seinustu daga hef ég verið að rifja upp kynni mín af spennusögu Arnaldar Indriðasonar, Bettý. Þar er sögð einkar spennandi saga af ungum lögfræðingi sem situr í fangelsi af völdum háskakvendisins Bettýar, og hvernig lögfræðingurinn reynir að snúa sig útúr þeim svikavef sem Bettý hefur spunnið. Bettý er ung og glæsileg kona, gift forríkum útgerðarmanni á Akureyri, sem ræður lögfræðinginn til að sjá um erlenda samninga fyrir sig. Og áður en varir er lögfræðingurinn kominn á kaf í flókna atburðarás. Í þessari mögnuðu spennusögu er hægt að finna einn athyglisverðasta viðsnúning sem ég hef upplifað í spennusögu, en sagan tekur mjög merkilegan hring þegar rúmlega helmingur hefur verið lesinn. Góð flétta í óvenjulegri spennusögu frá meistara Arnaldi. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa t.d. Röddina, Mýrina og Grafarþögn, sem er án vafa demanturinn í öllum skrifum Arnaldar. Þessar bækur ætla ég allar að rifja upp næstu vikurnar.

Saga dagsins
1934 Dalvíkurskjálftinn, einn stærsti jarðskjálfti við þéttbýli hérlendis, reið yfir Eyjafjörð og olli miklum skemmdum á húsum á Dalvík. Ekkert manntjón varð í skjálftanum sem mældist 6,2 á Richter.
1941 Hafnaboltaleikmaðurinn Lou Gehrig, deyr úr hrörnunarsjúkdómi, 38 ára að aldri. Einn þekktasti hafnaboltamaður sögunnar og hann varð að hætta íþróttaiðkun langt um aldur fram vegna veikinda sinna. Saga Lou Gehrig var sögð í kvikmyndinni The Pride of the Yankees. Gary Cooper lék Gehrig.
1953 Elísabet II Englandsdrottning var krýnd við athöfn í Westminster Abbey dómkirkjunni í London.
1997 Timothy McVeigh dæmdur til dauða fyrir sprengjuárásina á stjórnsýslubygginguna í Oklahoma. Vitorðsmaður hans Terry Nichols, hlaut lífstíðarfangelsisdóm. McVeigh var tekinn af lífi 11. júní 2001.
2004 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, tilkynnir á blaðamannafundi á Bessastöðum að hann hafi ákveðið að staðfesta ekki fjölmiðlalögin, sem Alþingi samþykkti þann 24. maí 2004, og myndi því vísa þeim þannig í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var í fyrsta skipti í sögu hins íslenska forsetaembættis sem forseti synjaði lögum frá lýðræðislega kjörnu þingi um samþykki sitt. Um sumarið ákvað ríkisstjórnin að afturkalla fjölmiðlalögin og því varð engin þjóðaratkvæðagreiðsla.

Snjallyrðið
Við brjóst mitt hún hljóð og helsjúk lá,
sem hafði sungið um ástir og þrá.
Nú féllu henni tár um bleika brá;
nú blæddi henni, ástinni minni.
- Þá grét ég í síðasta sinni.

Þá söng ég guði mitt síðasta lag;
þá særði hann og bað hvert mitt hjartaslag
að lofa henni ennþá að lifa einn dag
og leika sér, ástinni minni.
- Þá bað ég í síðasta sinni.

Svo hætti það sjúka hjartað að slá,
sem hafði sungið um ástir og þrá.
Svo lagði ég hana líkfjalir á
og laut nið'r að ástinni minni.
- Þá kyssti ég í síðasta sinni.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Í síðasta sinni)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband