Samfylkingin horfir til hægri

ISG

Það er greinilegt að Samfylkingarfólk er farið að átta sig á vondri stöðu flokksins. Í gær birtist athyglisverð grein eftir Margréti S. Björnsdóttur, eina nánastu pólitísku trúnaðarmanneskju Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur innan Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu. Þar útilokar hún ekki að Samfylkingin sjái sér hag í því að vinna með Sjálfstæðisflokknum og telur það greinilega fýsilegan kost. Þetta er mjög merkilegt og eru skrif sem vekja vissulega athygli. Margrét hefur mjög lengi verið nátengd Ingibjörgu Sólrúnu og flestir sem þekkja til stjórnmála vita að hún skrifar vart grein af þessu tagi nema að þar liggi að baki vilji og stuðningur Ingibjargar Sólrúnar sjálfrar. Sérstaklega kemur þetta mjög merkilega fyrir í ljósi þess að Samfylkingin í Reykjavík útilokaði með öllu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og setti hann upp sem höfuðandstæðing sinn.

Það virðist vera sem að Ingibjörg Sólrún og hennar nánasta samstarfsfólk telji það óraunhæft að geta haldið inn í kosningaveturinn nema opna á hægrisamstarf. Má reyndar með sanni segja að Margrét endurómi skoðanir hægrikrata í flokknum í greinaskrifum sínum og virðist t.d. finna því algjörlega til foráttu að spyrða sig saman við VG. Er svosem ekki undarlegt að Samfylkingin reyni eitthvað að spyrna sér upp á við í pólitíkinni horfandi á stöðuna þannig að fylgi flokksins sé komið niður fyrir 25% og horfir í raun algjörlega til vandræða fyrir flokkinn og formanninn sem má svo sannarlega ekki við fylgistapi að vori og vera utan stjórnar. Það má fullyrða með sanni að verði Samfylkingin undir í þingkosningunum í maí 2007 muni flokksmenn telja allt fullreynt með formanninn og vilja skipta um.

Össur og ISG

Þá muni ekki einu sinni fögur goðsögn hennar sem sigursæls foringja í borginni í gamla daga ekki einu sinni hjálpa henni frá því að missa völdin. Varla fær hún enda mörg tækifæri til að byggja flokkinn upp í hæstu hæðir. Það er skiljanlegt að vandræðagangur sé innan Samfylkingarinnar og nú líti formaðurinn og hennar innsti hringur til hægri í von eftir betra veðri. Vandræðagangur flokksmanna blasa við öllum sem fylgjast með stjórnmálum. Gott dæmi er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og "vonarstjörnunnar". Sennilega hlakkar í Össuri yfir stöðu mála. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir að tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.

Eins og staðan er þessa stundina get ég ekki betur séð en að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi öll tromp á hendi og geti valið sér samstarfsflokk eftir þingkosningarnar eftir 10 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er með góða stöðu í könnunum og Geir er langvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Grein Margrétar S. Björnsdóttur, eins nánasta pólitíska trúnaðarmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sannfærir mig um það að forysta Samfylkingarinnar telji hag sínum best borgið í tveggja flokka samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Það er svo sannarlega gleðiefni að verða vitni að upphafi slíkrar áherslubreytingar.


Mikilvægi Dalsbrautar

Akureyri

Það vakti athygli mína að sjá á vef Akureyrarbæjar fundagerð bæjarráðs frá því á fimmtudag. Þar er rætt um málefni Dalsbrautar, tengibrautar yfir í Naustahverfi sem lengi hefur verið rætt um að klára til fulls en verið mjög umdeild framkvæmd og tekist var á um málið mjög í kosningunum fyrr á þessu ári. Á fyrrnefndum fundi bæjarráðs var lagt fram erindi frá áhugahópi um bætta umferð á Akureyri ásamt undirskriftalista, þar sem því er beint til bæjarráðs að breyta fyrri ákvörðun varðandi lagningu tengibrauta og hefja þegar í stað undirbúning að lagningu Dalsbrautar. Fyrr á þessu ári tilkynntu Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson, leiðtogar þáverandi bæjarstjórnarmeirihluta, um þá ákvörðun að setja Dalsbraut aftur á skipulag en setja Miðhúsabraut í forgang nú.

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir um þetta tiltekna mál að þörfin fyrir lagningu Dalsbrautar verði metin þegar Miðhúsabraut hefur verið í notkun í tvö ár. Hefur það enda verið skilningur manna að með því sé komið til móts við mismunandi sjónarmið íbúa og fagmanna í þessu máli. Meirihluti bæjarráðs sem skipaður er af Hermanni Jóni Tómassyni, Sigrúnu Björk Jakobsdóttur og Elínu Margréti Hallgrímsdóttur bókaði á fundinum að ekkert hefði komið fram sem kallaði á endurskoðun þessarar áætlunar. Ég heyrði utan af mér seinnipart viku að Samfylkingin sé orðin hógværari en venjulega hér á Akureyri. Þeir lögðu mikla áherslu á Dalsbraut í kosningabaráttu sinni og vildu að hún yrði að veruleika sem fyrst. Það virðist eitthvað hafa róast yfir Samfylkingarfólki eftir að þeir komust í meirihluta.

Ég hef talið um langt skeið mikilvægt að Miðhúsabraut eigi að setja í forgang og svo sé mikilvægt að Dalsbraut verði að veruleika sem fyrst eftir það. Finnst mér reyndar með hreinum ólíkindum að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á árunum 2002-2006, hafi ekki hraðað Miðhúsabraut af krafti. Hlýtur það að teljast einhver mestu mistök þess meirihluta og í raun með ólíkindum að ekki hafi framkvæmdir verið hafnar við þann hluta fyrr en raun ber vitni. Hlýtur hinn almenni bæjarbúi, sérstaklega sá sem býr í Naustahverfi að spyrja sig að því hversvegna ekki hafi verið ráðist fyrr í þetta verkefni. Fátt virðist um svör vegna þess. En það er auðvitað gott að nú hafi fólk reiknað saman tvo og tvo og séð mikilvægi þess að framkvæmdin verði að veruleika á þessu kjörtímabili.

Ég bý við Þórunnarstræti, eina fjölförnustu götu Akureyrarbæjar. Ég fagna því að sjálfsögðu að Dalsbraut hafi aftur verið sett inn á skipulag fyrr á þessu ári og vil ég hraða gerð hennar frá því sem þá var ákveðið. Satt best að segja hefur mér aldrei þótt það sérstaklega kræsilegt að setja alla umferð í Naustahverfið í gegnum Þórunnarstrætið og hef verið þeirrar skoðunar að Dalsbraut eigi að leggja, fyrr en seinna. Hún hefur verið inni á skipulagi allt frá árinu 1974 og kemur því engum að óvörum, hvorki bæjarbúum almennt né heldur þeim sem byggt hafa íbúðarhús sín eða byggingar af öðru tagi á þessu svæði.

Ég tel mikilvægt að Dalsbraut í þeirri mynd sem rætt hefur verið um verði að veruleika vel fyrir lok þessa kjörtímabils. Sem íbúi við Þórunnarstræti tel ég það algjörlega óhjákvæmilegt að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hraði þessari framkvæmd frá því sem áður var ákveðið.


Fundur G8-ríkjanna haldinn í Rússlandi

Vladimir Putin, George W. Bush og Laura Welch Bush

Leiðtogafundur átta helstu iðnríkjanna hófst í St. Pétursborg í Rússlandi í dag og er hann sá 32. í röðinni. Þetta er í fyrsta skipti sem fundur af slíku tagi er haldinn í Rússlandi. Hópur leiðtoga valdamestu iðnríkja heims var stofnaður árið 1975. Fyrst í stað voru sex lönd í samstarfinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og V-Þýskaland. Það var í nóvember 1975 sem þáverandi leiðtogar landanna hittust í fyrsta skipti saman í Rambouillet í Frakklandi í boði Valéry Giscard d'Estaing, þáv. forseta Frakklands, og ákveðið var að funda framvegis árlega í miðjum júlímánuði. Alla tíð síðan hafa þjóðirnar skipst á að halda fundinn og leiða starfið á fundinum. Ári síðar, 1976, bættist Kanada í hóp þjóðanna sex. Frá árinu 1991, við lok kalda stríðsins, varð Rússland hluti fundarins og varð svo fullgildur aðili í hópnum árið 1998.

Í gær komu George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, til St. Pétursborgar ásamt eiginkonu sinni, Lauru Welch Bush. Bush kom fyrstur allra leiðtoganna til fundar við gestgjafa fundarins að þessu sinni, Vladimir Putin, forseta Rússlands. Ræddust þeir við langa stund og héldu saman að því loknu blaðamannafund. Voru þeir mjög sammála um marga þætti, t.d. hvað varðar kjarnorku- og hryðjuverkamál. Fyrir fundinn hafði Bush opinberlega sagst efast um hvort lýðræði væri eðlilegt í Rússlandi og hann myndi ræða þau málefni við Pútín á fundinum. Fyrirfram var búist við átökum milli leiðtoganna um þetta mál. Óhætt er að segja að mesta athygli á blaðamannafundinum hafi vakið áberandi ummæli Pútíns um að Rússar kærðu sig ekki um lýðræði eins og það sem Írakar hafi. Þetta var klárt skot á Bush vegna fyrri opinberra ummæla hans.

Þessi ummæli forsetans komu rakleitt í kjölfar orða Bush forseta um að vilji Bandaríkjastjórnar væri bundinn við það að stuðla að lýðræðisþróun um allan heim en hann nefndi sérstaklega sem dæmi í því efni frelsi fjölmiðla og trúarhópa í Írak. Greinilegt var að stuðandi umræður höfðu orðið á prívatfundum leiðtoganna um þetta mál og fundu fjölmiðlamenn mikinn hita á milli leiðtoganna vegna þessara mála. Sagði Bush forseti að Pútín hefði verið ákveðinn á fundinum, sagst vera tilbúinn til að hlusta á skoðanir hans en jafnframt komið því skýrt til skila að hann ætlaði ekki að láta neinn segja honum hvernig hann ætti að stjórna landi sínu. Greinilegt var á öllu að viðræður leiðtoganna hefðu verið með ákveðnum hætti og hvorugur viljað láta undan. Það mátti finna á öllu andrúmslofti að þvingandi bros voru á andlitum leiðtoganna í kjölfar viðræðnanna.

Lyudmila og Vladimir Putin með dr. Angelu Merkel

Fundurinn hófst svo formlega í St. Pétursborg í morgun. Fyrirfram ákveðin dagskrá riðlaðist strax er kom að byrjun fundarins. Átök fyrir botni Miðjarðarhafs settu svip sinn á fundinn og var það meginumræðuefni leiðtoganna fyrir hádegishlé. Var það bæði það málefni sem brann mest á blaðamönnum sem eru staddir í borginni og ekki síður leiðtogunum sjálfum sem telja stöðu mála í Beirút mjög slæma. Greinilegt hefur verið á yfirbragði fundarins að Pútín forseti, hefur lagt mikla rækt við að vel tækist til og fundurinn yrði ógleymanlegur, enda í fyrsta skipti sem Rússar eru gestgjafar á leiðtogi helstu iðnríkjanna. Óvænt átök í M-Austurlöndum og hryðjuverkin í Indlandi virðast þó frekar ætla að verða aðalmál fundarins en öryggismál sem forsetinn hafði fyrirfram lagt upp með sem meginmál og það sem helst ætti að ræða.

Fundinn að þessu sinni sitja, auk Bush og Pútíns, þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, Jacques Chirac, forseti Frakklands, Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans. Fyrirsjáanlegt er að Chirac og Koizumi sitji nú sinn síðasta leiðtogafund. Koizumi mun láta af embætti í september eftir að hafa setið lengst allra forsætisráðherra í Japan. Kjörtímabili Chiracs lýkur í maí á næsta ári og er talið ólíklegt að hann gefi kost á sér til endurkjörs til annars fimm ára kjörtímabils, enda er hann orðinn 74 ára gamall og heilsu hans virðist tekið að hraka. Af þeim leiðtogum sem sitja fundinn hefur Chirac setið flesta, enda hefur hann verið forseti Frakklands í ellefu ár, allt frá því í maímánuði 1995.

Að ári verður leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims haldinn í Heiligendamm í Þýskalandi. Gestgjafi fundarins þá verður dr. Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Með því verður hún önnur konan sem er gestgjafi slíks fundar, en Margaret Thatcher var gestgjafi leiðtogafundarins í London í júlí 1984. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrá fundarins og meginatriði um hann er eindregið bent á að líta á heimasíðu hans.


Lágkúruleg myndbirting

Díana prinsessa af Wales

Í næsta mánuði eru níu ár liðin frá sviplegu andláti Díönu, prinsessu af Wales, í sorglegu umferðarslysi í miðborg Parísar. Enn er mörgum spurningum ósvarað um ástæður slyssins og stundirnar fyrir aðdraganda þess, hvað varðar bílstjórann sem keyrði prinsessuna þennan örlagaríka bíltúr og svo ekki síður þá fjölmiðlamenn sem á eftir þeim fylgdu. Löngu áður en Díana prinsessa lést var hún miðpunktur fjölmiðlaumfjöllunar og var mest myndaða kona heims er lífi hennar lauk með þessum sorglega hætti. Lengi var haft það á orði að fjölmiðlar hefðu að lokum hundelt hana í dauðann. Eins og frægt varð taldi bróðir hennar að örlög hennar hafi verið fólgin í vilja fjölmiðla að hundelta hana og reyna að ná sífellt fleiri myndum af henni sem gætu selt fleiri blöð um allan heim. Hún hafi á endanum orðið fórnarlamb fjölmiðla.

Nú níu árum eftir hið örlagaríka slys vekur athygli að ítalska tímaritið Chi telur við hæfi að birta áður óbirtar myndir sem teknar voru af Díönu örfáum mínútum eftir að hún lenti í slysinu. Myndirnar voru gerðar upptækar af frönsku lögreglunni eftir slysið, en þær voru teknar af paparazzi ljósmyndurum sem eltu prinsessuna og Dodi Al Fayed frá Ritz hótelinu. Samkomulag hafði verið gert um að myndirnar skyldu aldrei koma fyrir almenningssjónir eða verða birtar í dagblöðum eða sjónvarpi. Þetta samkomulag var reyndar svikið árið 2004 er CBS sjónvarpsstöðin birti aðra mynd en Chi birtir nú í fréttaskýringarþættinum 48 Hours. Í Chi er að finna fleiri umdeilanlega þætti málsins, t.d. ítarlegar teikningar af líki prinsessunnar eftir krufningu sem sýnir nákvæmlega áverkana sem hún hlaut í slysinu.

Með hreinum ólíkindum er hversu lágkúruleg fréttamennska nútímans er orðin, miðað við þessi vinnubrögð. Ástæða þess að myndirnar eru birtar nú er ekki sýnileg, nema þá að reyna að hafa minningu prinsessunnar að féþúfu og reyna að ýfa upp sár nánustu aðstandenda hennar. Nú hafa synir Díönu, prinsarnir William og Harry, sent út frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir fordæma ákvörðun Chi um að birta myndina af móður þeirra í andaslitrunum. Segja þeir ennfremur eðlilega skyldu sína vera að verja hana fyrir ágangi fjölmiðla og utanaðkomandi aðila. Er ekki hægt annað en vorkenna ættingjum og aðstandendum á þeim tímapunkti sem "fjölmiðlun" nær þessum sorglega lágpunkti. Það á að vera heiðarleg skylda fjölmiðla að vanhelga ekki minningu látinna eða reyna að standa vörð um virðingu þeirra sem látnir eru.

Það er skoðun mín að þessi myndbirting komi umræðu um fjölmiðla á lágan stall og í raun er ekki hægt annað en fordæma þessa myndbirtingu. Það á að vera skylda fjölmiðla að koma fram með heiðarlegum hætti og ekki gera neitt það sem augljóslega misbýður þeim sem eru í sárum eftir sorglegt andlát ættingja eða vinar. Birting myndarinnar hefur verið fordæmd í Bretlandi, meira að segja af slúðurblöðunum þar og almenningur hefur látið skoðun sína vel í ljósi. Óhætt er að fullyrða að þessi myndbirting sé ekki viðeigandi og er full ástæða til að hneykslast á dómgreindarbresti þeirra sem taka ákvörðun um að birta opinberlega myndir sem þessar. 9 ár eru liðin frá láti prinsessunnar og tímabært að leyfa henni að hvíla í friði og hætta fjölmiðlafárinu.


Helga Jónsdóttir sækir um í Fjarðabyggð

Helga Jónsdóttir

Enn á eftir að ganga frá bæjarstjóraráðningum í nokkrum sveitarfélögum. Eftir því sem mér telst til á eftir að ráða enn bæjarstjóra í Fjallabyggð (sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar), Norðurþingi (sameinuðu sveitarfélagi Húsavíkur og nágrannasveitarfélaga í Þingeyjarsýslu) og Fjarðabyggð (sameinuðu sveitarfélagi gömlu Fjarðabyggðar, Mjóafjarðar og Austurbyggðar). Framundan er því að ganga frá ráðningu á bæjarstjórum í þessum sveitarfélögum nú á sumarmánuðum. Í Fjallabyggð gegnir nú Þorsteinn Ásgeirsson, forseti bæjarstjórnar og reyndur sveitarstjórnarmaður, embætti bæjarstjóra og í Norðurþingi er Jón Helgi Björnsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, starfandi bæjarstjóri. Í Fjarðabyggð gegnir Guðmundur Bjarnason, fráfarandi bæjarstjóri, sínum störfum þar til eftirmaður er valinn.

Í öllum sveitarfélögum var auglýst eftir bæjarstjóra. Í Fjallabyggð er að búast við ákvörðun um bæjarstjóra fljótlega eftir helgina og í Norðurþingi er stutt í ákvörðun. Í dag var birtur listi 20 umsækjenda um bæjarstjóraembættið í Fjarðabyggð. Er það mjög merkilegur listi umsækjenda. Er litið er yfir hópinn má sjá nöfn á borð við: Berg Elías Ágústsson fyrrum bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Björn S. Lárusson framkvæmdastjóra hjá Bechtel, Bryndís Bjarnarson fyrrum bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ, Einar Vilhjálmsson fyrrum spjótkastara með meiru, Guðmund Helga Sigfússon forstöðumann Umhverfismálasviðs Fjarðabyggðar, Pál Björgvin Guðmundsson fjármálastjóri Fjarðabyggðar, Róbert Trausta Árnason fyrrum forsetaritara og sendiherra og Sigríði Stefánsdóttur forstöðukonu félagsþjónustusviðs Fjarðabyggðar.

En eitt nafn vekur meiri athygli en önnur í þessum 20 manna hópi. Það vekur undrun svo ekki sé meira sagt að sjá nafn Helgu Jónsdóttur, borgarritara og sviðsstjóra stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar, í þessum hópi. Það er greinilegt að Helga er á útleið úr æðstu stjórn Reykjavíkurborgar í kjölfar valdaskipta þar. Í hádeginu heyrði ég utan af mér á kaffihúsi að ein af valdamestu konunum úr borgarkerfinu væri meðal umsækjenda í Fjarðabyggð. Heyrði ég nafn Helgu nefnt en taldi það hlyti að vera vitleysa og sagði ég mun líklegra að Kristín A. Árnadóttir, náfrænka mín, sem til fjölda ára var aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar og síðar skrifstofustjóri borgarinnar væri meðal umsækjenda. Kristín er enda frá Eskifirði, en afar okkar þeir Halldór og Friðrik Árnason voru bræður. Taldi ég ekki ósennilegt að hún vildi fara austur.

En ég fékk svo staðfest skömmu síðar að hér væri svo sannarlega ekki um Kristínu að ræða heldur Helgu sjálfa. Það vekur vissulega mikla athygli að hún sæki um þarna. Hún er fædd og uppalin í pólitísku starfi innan Framsóknarflokksins og var lengi í stjórn SUF og síðar til fjölda ára einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Steingríms Hermannssonar sem aðstoðarmaður hans árin 1987-1991 sem utanríkis- og forsætisráðherra. Hún varð borgarritari í Reykjavík haustið 1994, skömmu eftir valdatöku R-listans, og hefur gegnt því embætti alla tíð síðan. Hún var stjórnarformaður Landsvirkjunar árin 1995-1997, fyrst kvenna. Hún var einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í borgarstjóratíð hennar árin 1994-2003 og hefur verið henni trú og trygg alla tíð síðan í mörgum verkefnum.

Sérstaklega var í umræðunni í formannsbaráttu Össurar og Ingibjargar Sólrúnar á síðasta ári að fyrrnefnd Helga Jónsdóttir, virk framsóknarkona alla tíð og náin pólitískur samstarfsmaður fyrrum formanns flokksins, skyldi ganga í flokkinn sérstaklega til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu og var mikil umræða innan flokksins um það. Helga sótti um embætti ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu sumarið 2004 en fékk ekki. Var Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðin af Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, til verka. Í mars 2006 komst umboðsmaður Alþingis fram með það álit sitt að ekki hefðu legið faglegar ástæður á bakvið ákvörðun ráðherrans um að velja Ragnhildi umfram Helgu Jónsdóttur.

Í álitinu kom fram það mat að verulegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð ráðherrans og illa unnið. Þetta var eftir að ráðherrann hafði vikið en Helga hafði kvartað til umboðsmannsins vegna málsins. Benti umboðsmaður á það að Helga hefði um fimmtán ára starfsreynslu á vegum opinberra aðila en Ragnhildur aðeins þrjú og hálft ár. Var málið umdeilt og mikið um það rætt. Augljóst var er ráðuneytisstjórinn var valinn sumarið 2004 að fullkomin slit hefðu orðið á milli Helgu og forystu flokksins. Segja má reyndar að hún sé ekki lengur virk í starfinu innan hans og tilheyri mun frekar Samfylkingunni.

Sú ákvörðun hennar að sækja um í Fjarðabyggð sannfærir fólk vel um að Helga vill komast burt úr borgarkerfinu nú við meirihlutaskipti og telji það ekki fýsilegt að vinna undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og hún telji rétt að halda á braut. Nú verður fróðlegt að sjá hvað þeir gera í Fjarðabyggð. Verði Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, hljóta það að teljast mikil pólitísk tíðindi og um leið myndi slíkt opna á skemmtilegar umræður um það hver yrði borgarritari í Reykjavík myndi staðan losna vegna þessa.


Guðni reynir að verja varaformennskuna

Guðni Ágústsson

Mörgum að óvörum tilkynnti Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í dag um þá ákvörðun sína að sækjast eftir áframhaldandi varaformennsku í flokknum á flokksþingi í næsta mánuði. Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður flokksins, tilkynnti um þá ákvörðun að víkja úr forystu stjórnmála hefur verið talað um hvort að Guðni sem varaformaður í nokkur ár og forystumaður innan flokksins myndi sækjast eftir formennskunni. Sú ákvörðun Guðna að leggja ekki í formannsslaginn hljóta að teljast mikil pólitísk tíðindi. Guðni hefur verið þingmaður frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá 2001. Það eru því stórfréttir að maður með hans bakgrunn í flokknum leggi ekki í formannskjör við þær aðstæður sem uppi eru.

Ég taldi aðeins fyrir nokkrum dögum útilokað að Guðni myndi sætta sig við áframhaldandi varaformennsku og myndi leggja ótrauður í formannsslag. Það hefði verið eina leið hans til að sverfa til stáls í þeirri vondu stöðu sem hann er í. Greinilegt er að Halldór Ásgrímsson ætlaði sér að láta Guðna hætta með sér í stjórnmálum. Það átti að slá hann niður og láta hann verða brottrækan frá sinni stjórnmálaforystu. Guðni snerist til varnar sinni stöðu og hafði betur en aðeins framan af. Með þeirri ákvörðun að kalla á Jón Sigurðsson til ráðherrastarfa valdi Halldór sér eftirmann með mjög greinilegum hætti og svo fór að hann lagði í formannskjörið fyrr en mörgum óraði fyrir og hefur nú þegar öðlast sterka stöðu innan flokksins og virðist njóta mikils fylgis. Guðni var sleginn niður með mikilli fléttu formannsins fráfarandi eins og ég hef áður bent á.

Guðni hefur væntanlega metið stöðuna þannig að hann gæti aldrei orðið formaður Framsóknarflokksins með þeim glans og virðingu sem hann hefði kosið. Hann hefði í besta falli unnið nauman sigur og í versta falli fengið útreið og farið sneyptur frá þeirri för. Hann hefur séð það fyrir að hann gæti væntanlega ekki unnið Jón og því aldrei leitt Framsóknarflokkinn af miklum krafti. Það er því skiljanlegt að hann reyni að taka næstbesta kostinn í stöðunni. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi að Guðni myndi frekar stíga af sínum stalli innan flokksins en að velja það að reyna við varaformennskuna áfram í þeirri stöðu sem uppi var. Greinilegt var að hópur formannsins fráfarandi hafði reynt að loka hann inni með ráðherrafléttunni í síðasta mánuði og gera hann í senn veikbyggðan og lítt sterkan til mikilla átaka.

Sú ákvörðun Jónínu Bjartmarz að gefa kost á sér til varaformennsku í flokknum áður en vitað var um hvað Guðni ætlaðist fyrir var kjaftshögg framan í Guðna. Hún hrærði verulega upp í forystukapli flokksins Það var reitt til höggs af hópi fráfarandi formanns með mjög augljósum hætti og Jónína lítillækkaði Guðna með ákvörðun sinni. Ákvörðun Guðna að leggja til atlögu við hana er þó enn merkilegri í ljósi þess að nú lítur Jónína allt í einu út sem manneskja í baráttu gegn sitjandi varaformanni. Aðstæður Jónínu hefðu verið allt aðrar hefði varaformennskan losnað með formannsframboði Guðna. Það veikir þó að mínu mati líka Guðna að leggja áfram í varaformannskjör. Eftir öll hans verk í forystu flokksins á landsvísu hlýtur það að vera Guðna áfall að verða að hætta við formannsframboð í skugga þess að geta ekki gengið að stuðningi vísum.

Guðni hefur mikið hugsað seinustu daga. Væntanlega hefur hann er á hólminn kom tekið þá yfirveguðu ákvörðun að reyna að verja varaformannsembættið í þeirri atlögu sem Halldórsarmurinn er augljóslega að sýna honum þessa dagana. Með þessari ákvörðun sendir Guðni líka almennum flokksmönnum þau skýru skilaboð að vilji þau hann ekki áfram sé hann hættur í stjórnmálum. Mér fannst líka áberandi af öllu tali hans í kvöld að hann vilji að flokkurinn sameinist sem mest um nýja forystu flokksins. Ég gat ekki séð að nein átök væri að sjá á honum almennt séð, nema þá hvað varðar það að hann ætlar að verja sitt embætti og sinn sess í forystu flokksins. Þó fannst mér enn merkilegra að hann lýsti ekki yfir beinum stuðningi við Jón Sigurðsson og fór mjög í kringum þau mál öll með yfirlýsingu um að flokksþingsins væri að velja formann.

Það er mitt mat að Guðni standi veikar eftir þessa ákvörðun. Það er þó mjög skiljanlegt mat hjá honum að leggja ekki í formannsframboð telji hann sig ekki geta orðið sterkan formann eða hafi ekki líkur á sigri í kosningunni. Það að hann ætli að verja varaformennskuna er tvíeggjað sverð fyrir hann. Guðni gæti fengið þann stimpil að hafa ekki þorað að leggja á klárinn og halda í átök á raunastundu - gefist upp í slagnum. Ennfremur gætu menn stimplað hann þannig að hann hafi ekki kraft til forystu í þeirri stöðu sem uppi sé og betra sé að skipta um varaformann vegna þess. Hann tekur allavega mikla áhættu þrátt fyrir allt og heldur í mikla óvissu. Greinilegt er enda að hópur fráfarandi formanns vill hann algjörlega burt nú.

Það má vissulega segja að hafi Guðni talið formannsframboð vonlaust hefði verið hreinlegra og stórmannlegra að ganga á dyr og halda í önnur verkefni. Það er þó ekki val hans. Hann ætlar að berjast af krafti fyrir sínu og mun eflaust leggja allt í sölurnar fyrir það. Sá slagur verður harður og fyrirséð að Jónína sé kandidat Jóns Sigurðssonar til verka. Má búast við átökum í þeirri kosningu. Þau Guðni og Jónína hafa tekist á um varaformennskuna áður. Þá fékk Jónína þriðjung atkvæða. Hennar staða er mun sterkari nú og má búast við að hún nái að veikja stöðu Guðna mjög. Það er eflaust það sem armur Halldórs stefnir að, en Halldór hefur aldrei unað Guðna forystu í flokknum og múraði hann inni til að slá á forystudrauma hans.

Það blasir við öllum að falli Guðni Ágústsson í kosningu til varaformanns á flokksþingi er hans langa ferli í stjórnmálum í raun lokið. Það sagði hann enda milli línanna sjálfur í kvöld. Hann leggur allt undir. Fái hann reisupassann yfirgefur hann sviðið. Hann verður enda aldrei sterkur forystumaður með brostinn skjöld eða bogið sverð. Það blasir við öllum sem þekkja stjórnmálin. Reyndar má nú spyrja sig hvort annað formannsefni sé í bígerð hjá Guðna og það sé úr sömu átt og hann en með ólíkan bakgrunn. Þar eigi að telja fram konunni sem bloggar og er að sönnu ímynd nútímakonunnar í stjórnmálum - þar sé kominn kandídatinn sem geti sigrað Jón Sigurðsson eða altént velgt honum verulega undir uggum.

Nú horfa allir til heilbrigðisráðherrans Sivjar Friðleifsdóttur og spyrja sig hvort hún sé formannsefni í þessari stöðu og muni skora viðskiptaráðherrann Jón á hólm. Allir bíða eftir hennar ákvörðun - hvert hún stefni. Í raun má segja að hún sé nú eina manneskjan í forystu flokksins sem geti átt möguleika í formannsslag á móti Jóni Sigurðssyni - sem sérvalinn var af Halldóri sem eftirmaður sinn. Spurningin er hvort að Siv þorir í slag við þennan augljósa krónprins Halldórsarmsins.


Kvikmyndaþrenningin um Guðfaðirinn

The Godfather

Ein besta kvikmyndaþrenning í sögu kvikmyndanna er The Godfather, magnþrungin ættarsaga Corleone-mafíufjölskyldunnar í New York. Er hún byggð á heimsþekktri sögu Mario Puzo. Alla mína ævi hafa þessar þrjár kvikmyndir heillað mig og alla sanna kvikmyndaunnendur og verið innlifun og yndisauki í kvikmyndaheiminum. Hafa þær alltaf verið meðal minna uppáhaldsmynda og maður sér þær aldrei nógu oft. Í dag kom ég því loksins í verk að kaupa mér allt safnið á DVD. Átti ég þær bara á VHS-safnútgáfunni sem var gefin út fyrir um átta árum og ákvað að stokka upp. Í nýja safninu er endurbætt útgáfa myndarinnar, aukaefni og margt annað spennandi sem ekki hefur verið áður að sjá í myndunum.

Fyrsta myndin markaði straumhvörf í kvikmyndaheiminum er hún varð frumsýnd árið 1972 og kom leikstjóranum Francis Ford Coppola svo sannarlega á kortið í Hollywood. Um var enda að ræða glæsilega mynd í uppbyggingu og útliti og þótti óaðfinnanleg úttekt á mafíulífinu í nýja heiminum, gerð með sannkölluðum stórmyndastíl í meistaralegri kvikmyndatöku. Hún hlaut fjögur óskarsverðlaun árið 1972, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir handrit og magnþrunginn leik leiksnillingsins Marlon Brando í hlutverki guðföðurins Don Vito Corleone, sem öllu stjórnar á bakvið tjöldin. Auk hans fóru Al Pacino, James Caan, Talia Shire, Robert Duvall og Diane Keaton á kostum. Í bakgrunni var svo hin magnþrungna tónlist snillingsins Nino Rota.

Tveimur árum síðar, árið 1974, gerði Coppola framhaldsmynd um Corleone fjölskylduna. Var þar um að ræða samanfléttaða sögu af því annars vegar hvernig Don Vito Corleone varð valdamikill ættarhöfðingi í mafíuheiminum í upphafi 20. aldarinnar, og hins vegar hvernig Michael sonur hans, stýrir veldi föður síns eftir dauða hans. Vakti önnur myndin ekki síðri athygli en fyrirrennarinn. The Godfather, Part II, var lofuð, jafnt af gagnrýnendum og kvikmyndaunnendum. Hún var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna og hlaut 6; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Coppola, leik Robert DeNiro og handrit Puzo og Coppola. Þriðja og síðasta myndin var gerð árið 1990 og segir frá magnþrungum endalokum mafíuveldis Corleone-ættarinnar.

Það er svo sannarlega áhugavert að sjá þetta flotta safn í þessum vandaða pakka. Framundan er svo það verkefni að losna við VHS-útgáfuna af myndunum. Vilji einhver fá pakkann fyrir mjög lítinn pening getur viðkomandi haft samband við mig


Áhugaverð mynd um Willy Brandt

Willy Brandt

Sl. sunnudagskvöld sýndi Ríkissjónvarpið fyrri hluta þýsku sjónvarpsmyndarinnar Í skugga valdsins eða "Im Schatten der Macht". Þar er seinustu mánuðum kanslaraferils Willy Brandt lýst í smáatriðum og farið yfir alla atburðarásina. Willy Brandt er í senn einn eftirminnilegasti og svipmesti stjórnmálamaður Þýskalands á 20. öld. Hann var lykilmaður í stjórnmálum V-Þýskalands í um 30 ár og valdamesti forystumaður landsins um nokkurra ára skeið. Stjórnmálaforysta hans varð bæði umdeild og áhrifarík í huga Þjóðverja. Hann var litríkur leiðtogi síns flokks og var umdeildur, bæði innan eigin raða sem og utan þeirra. Eflaust má deila um það hvort Willy Brandt var sterkur stjórnmálamaður, en menn deila varla um arfleifð hans í þýskum stjórnmálum.

Willy Brandt leiddi flokk sinn, SPD, með járnkrafti í 23 ár, árin 1964-1987 og var kanslari V-Þýskalands árin 1969-1974. Mitt í stjórnmáladeilum vegna stefnu sinnar, Ostpolitik, sem fól í sér bætt tengsl V-Þýskalands við A-Þýskaland, Pólland og Sovétríkin hlaut hann friðarverðlaun Nóbels fyrir hana árið 1971. Það varð mörgum undrunarefni að nóbelsakademían skyldi heiðra Brandt og fyrrnefnda stefnu hans og sló mjög á gagnrýni á hann. Margir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 1972, sem varð að boða til vegna falls þingmeirihlutans, en hann stóð það af sér. Brandt var heiðursformaður SPD frá lokum leiðtogaferils síns árið 1987 til dauðadags árið 1992. Willy Brandt lést úr krabbameini 8. október 1992.

Willy Brandt neyddist til að segja af sér embætti kanslara Þýskalands í apríl 1974 eftir að ljóst varð að Günter Guillaume, einn af hans nánustu pólitísku samstarfsmönnum hafði verið njósnari A-Þjóðverja og unnið fyrir leyniþjónustu A-Þýskalands, hina alræmdu Stasi, á meðan að hann vann fyrir kanslarann. Það var Brandt mjög á móti skapi að víkja vegna þess máls en sú varð þó raunin. Atburðarásin á bakvið seinustu daga hans í kanslaraembættinu var merkileg og er í senn merkilegasti tími stjórnmálaferils Willys Brandt og botninn á löngum ferli þessa stjórnmálamanns. Helmut Schmidt tók við kanslaraembættinu af Brandt. Schmidt var hægrisinnaðri en Brandt innan SPD. Stjórnin hélt þó velli óbreytt átta ár til viðbótar en hún féll svo með dramatískum hætti árið 1982.

Þrátt fyrir smánarleg endalok kanslaraferilsins leiddi Brandt SPD í þrettán ár eftir afsögnina. Honum mistókst þó að verða aftur kanslari Þýskalands en varð virtur um allan heim sem þekktur fyrirlesari og kom t.d. til Íslands í heimsókn árið 1991, skömmu fyrir andlát sitt, til að halda fyrirlestur. Lengi hefur verið deilt um það hvort njósnahneykslið árið 1974 hafi verið það alvarlegt að Brandt hefði þurft að segja af sér. Sögur hafa lengi gengið um það að umfram allt hafi farið fram uppreisn innan SPD og tekist hafði verið á um meginþætti Brandts sem stjórnmálamanns. Brandt hélt því alla tíð fram að nánir samstarfsmenn sínir innan flokksins hefðu snúið við honum baki og það umfram allt hafi leitt til þess að honum var ekki sætt áfram, ekki njósnamálið sem slíkt.

Það er alveg greinilegt að sagan í þessari fyrrnefndu sjónvarpsmynd er sett upp með þeim hætti að pólitískir hagsmunir annarra félaga hans í forystusveit SPD hafi orðið til þess að binda endi á kanslaraferil hans. Reyndar er skemmtilegt frá því að segja að Matthias, sonur Willy Brandt, leikur Günter Guillaume í þessari sjónvarpsmynd. Það olli bæði undrun og deilum. Ég hafði gaman af fyrri hluta þessarar áhugaverðu myndar og hvet alla til að horfa á þann seinni á sunnudagskvöld.


Guðni og Siv hugleiða forystuframboð

Guðni og Margrét

Forystukapallinn í Framsókn er óðum að skýrast þessa dagana. Greinilegt er að Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hefur komið miklu lífi í hann með því að gefa kost á sér til varaformennsku. Allir bíða nú eftir yfirlýsingu Guðna Ágústssonar, varaformanns flokksins. Hennar mun vera að vænta fljótlega. Það blasir við að pressan á Guðna jókst eftir að Jónína gaf kost á sér. Blasir við eins og ég sagði í gær að valkostir hans séu að hætta í stjórnmálum eða fara í formannsframboð gegn Jóni Sigurðssyni, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sýnist mér allt stefna í það að Guðni taki slaginn og fari fram. Hann getur varla annað í stöðunni, eftir að hafa verið forystumaður innan flokksins í tæplega tvo áratugi.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins, var gestur beggja dægurmálaþáttanna í kvöld. Var þar að mestu rætt um málefni Landspítala - háskólasjúkrahúss en vissulega var aðalspurning fjölmiðlamanna til Sivjar hvort hún ætli í forystuframboð. Sagði hún ekki tíma til að gefa út yfirlýsingar en sagði hana myndu koma þegar að rétti tíminn myndi renna upp. Rétt eins og Guðni er vart við öðru að búast en að Siv fari í framboð til annaðhvort formennsku eða varaformennsku. Hún hefur verið lengi áberandi í forystu flokksins og hlýtur að sækja fram til forystustarfa. Eins og ég hef bent á finnst mér blasa við að hún muni mynda bandalag með Guðna Ágústssyni og þau myndi nýtt forystuteymi saman.

Í dag var Kristinn H. Gunnarsson í fjölmiðlum, eins og svo oft áður. Nú lýsti hann yfir stuðningi við Guðna til formennsku, ef hann færi fram. Er greinilegt að hann hefur hug á einhverskonar framboði. Er ekki ólíklegt að hann gæti verið ritaraefni þeirra tveggja. Kristinn hefur lengi deilt á innra starf flokksins undir forystu fráfarandi formanns og verk flokksformannsins almennt um langt skeið. Færi hann fram til ritara með stuðningi Guðna og Sivjar væri framboð þeirra sem vilja veg Halldórsarmsins sem minnstan fullkomnaður. Eins og allir muna var Guðni lítt hrifinn sumarið 2004 með þá ákvörðun að Siv færi úr stjórn og þau hafa lengi unnið vel saman. Er mjög líklegt að þau hyggi nú á myndun eigin valdabandalags í flokknum.

Þessa stundina er Guðni Ágústsson skv. fréttum heima á Selfossi að íhuga sína stöðu. Ef marka má fréttir fjölmiðla er ákvörðun handan við hornið. 40 dagar eru til flokksþings Framsóknarflokksins. Það stefnir í spennandi tíma næstu sex vikurnar í flokknum. Það blasir við öllum að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz eru komin á fullt í forystuframboð. Það kristallaðist í orðum Sivjar Friðleifsdóttur í fjölmiðlum í kvöld að hún telur fjarri lagi að þau verði kjörin rússneskri kosningu til forystu. Þessi orð hennar afhjúpa það vel að nær öruggt er að hún hyggi á framboð til æðra embættis. Fari Guðni og Siv fram til formennsku og varaformennsku verða átök tveggja áberandi arma innan flokksins beinskeyttari og afhjúpast meira en áður hefur verið.

Birkir frændi og Guðni

Þessi frábæra mynd sem hér er efst í umfjölluninni var tekin af félaga mínum og náfrænda, Birki Erni Haukssyni á Eskifirði, af Guðna Ágústssyni og Margréti Hauksdóttur, eiginkonu hans, á hestamannamótinu í Skagafirði fyrir skemmstu. Guðni mun þar hafa skemmt sér mjög með öllum viðstöddum fram á rauðanótt. Birkir er duglegur við að taka myndir og birtir þær bæði á sínum eigin myndavef og svo á pose.is. Duglegur að mynda og skemmtilegar myndir hjá Birki. Þessi hér fyrir ofan af Guðna og Birki er sérstaklega fín, hehe :)


Minning

Sólarlag

110706 - KRS

Sól á himninum skín,
aldrei skugga minn sér
bjó hann samt til, hann fylgir mér
já eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.

Kyssast skuggar um kvöld
renna saman í eitt
leysast svo upp, í nær ekki neitt
já eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.

Leika sér skuggi og ljós
jörð, tungl og sól,
leika sér himninum á
og eiga þar skjól
Svo er stjarna á himni
sem lýsir upp eilifa nótt.

Jörðina, himnana og mig
í sandinum spor
sólina, hafið og þig
tvo skugga um vor
Eins er ástin sem ég til þín ber
- óendanleg.

Ég veit að til er svo margt
sem í fjarlægð er smátt
milljónir stjarna sem aldrei sjást
já eins er ástin sem ég til þín ber
- nær ólýsanleg.

Svo er stjarna á himni sem lýsir upp eilífa nótt
jörðina, himnana og mig - í sandinum spor.
Sólina, hafið og þig - tvo skugga um vor
eins er ástin sem ég til þín ber
- óendanleg.

Já, eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.

Magnús Þór Sigmundsson


Jónína hreyfir við forystukapli Framsóknar

Jónína Bjartmarz

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, lýsti yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum í beinni útsendingu í fréttatíma Sjónvarpsins kl. 19:00 í kvöld. Greinilegt var að Jónína hafði boðað fréttamann Sjónvarps einan á vettvang í Alþingisgarðinn og þeir sátu því einir að fréttinni um framboð hennar fyrst í stað. Var hún þar sýnd sólbrún og sælleg í flottum fötum - allt greinilega vel skipulagt og sett upp fyrir Sjónvarpið á prime time sjónvarpstíma fyrir fréttir þeirra. Eftir viðtal við Finn Beck hélt Jónína í viðtal hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósinu og þau fóru yfir ákvörðun hennar og stöðu mála.

Það er alveg greinilegt að Jónína Bjartmarz heldur í varaformannsslaginn djörf og greinilega viss um mikinn stuðning. Sögur fara af því að hún og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, séu í bandalagi í forystusveitina og stefnt sé að því að Birkir Jón Jónsson verði í framboði til ritara flokksins. Þetta er sögð vera flétta Halldórsarmsins í flokknum af kunnugum sem þekkja til valdablokkanna í flokknum. Sagði Jónína reyndar í Kastljósviðtalinu að hún hefði fengið stuðning víða að og teldi rétt að leggja af stað núna, rúmum mánuði fyrir flokksþing Framsóknarflokksins. Er mjög líklegt að það bandalag sem til sé komið sé nú í raun komið á fullt í það verkefni að sigra kosningar á flokksþingi og búist við kosningum í raun.

Siv og Guðni

Það blasir við öllum sem þekkja til stjórnmála og innviða Framsóknarflokksins að ekki er gert ráð fyrir ráðherrunum Guðna Ágústssyni og Siv Friðleifsdóttur í fléttu Halldórsarmsins margfræga í flokknum. Þar séu Jón, Jónína og Birkir Jón lögð upp í slaginn og átök framundan að öllum líkindum. Í fréttum fjölmiðla frá fyrrnefndri tilkynningu Jónínu Bjartmarz hefur verið reynt mjög að leita viðbragða Sivjar og Guðna við stöðu mála. Ekki næst í Guðna, sem er eflaust verulega þungt hugsi nú, og Siv segist vera að hugsa málin en stutt sé í að hún gefi út fyrirætlanir sínar. Það bendir flest til þess að haldi Guðni og Siv ekki samhent í það sem framundan sé blasi við sigur Jóns og Jónínu í kosningu á flokksþinginu sem verður um miðjan ágústmánuð.

Það er merkilegt svo ekki sé fastar að orði kveðið að Jónína tilkynni um varaformannsframboð áður en fyrir liggur hver hugur Guðna Ágústssonar er til málsins. Það sýnir betur en margt annað að uppi er bandalag sem hugsar ekkert um Guðna og hyggur á að leiða flokkinn án hans atbeina - blasir í raun algjörlega við. Það sást líka kristallast í yfirlýsingu hennar í Kastljósi að skipta þurfi um forystu í flokknum á þessum tímamótum vegna þess að fyrri forysta hafi verið svo ósamstæð í öllum verkum. Þetta er hvasst skot frá Jónínu til Guðna og Sivjar sem gegna embættum varaformanns og ritara nú. Eiginlega ómar Jónína þar áberandi skoðun Valgerðar Sverrisdóttur í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta.

Jón Sigurðsson

Það er ekki óeðlilegt að fullyrða það að Guðni og Siv séu þau einu sem geti ógnað stöðu Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í flokknum. Reyndar má fullyrða að staða Jóns sé orðin svo vænleg að erfitt verði að stöðva hann. Valkostir Guðna Ágústssonar í þessari erfiðu stöðu eru ekki margir. Í besta falli eru þeir þrír. Það er að hætta í stjórnmálum, gefa kost á sér til formennsku eða fara í varaformannsslag. Ég tel útilokað að Guðni vilji verða áfram varaformaður eftir brotthvarf Halldórs. Annaðhvort mun hann leggja í formannsslag eða víkja úr forystusveitinni og hætta þátttöku í stjórnmálum. Maður með hans bakgrunn sem varaformaður í öll þessi ár á í raun ekki fleiri kosti en þessa tvo.

Ég tel mjög líklegt að Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir pari sig í framboð á móti þeim tveim sem fyrir liggja nú. Guðni hlýtur að leggja til atlögu við Jón og sækjast eftir formennskunni. Hann hefur verið á þingi frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá aldamótaárinu. Það væri mikil uppgjöf að hans hálfu að víkja af braut nú og myndi túlkast sem svo að hann þyrði ekki í viðskiptaráðherrann Jón, fyrsta utanþingsráðherrann til fjölda ára og augljósan kost fráfarandi formanns til forystuembættisins. Á móti kemur að Siv hefur mikinn metnað líka og verið lengi áberandi: var formaður SUF og bæjarfulltrúi á Nesinu áður en hún varð þingmaður árið 1995 og ráðherra nær samfellt frá árinu 1999.

Það má ekki gleyma því að Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson tókust á í varaformannskjöri Framsóknarflokksins er Guðni var kjörinn varaformaður í stað Finns Ingólfssonar. Þá var Jónína frambjóðandi Halldórsarmsins og tapaði. Þá var reyndar þriðja framboðið í slagnum, en það var Ólafur Örn Haraldsson sem varð leiðtogi flokksins í Reykjavík við brotthvarf Finns Ingólfssonar en hætti svo þingmennsku í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar að fara í framboð í Reykjavík. Þá var Jónína nýkomin á þing (kom inn í stað Finns) og um margt óreynd í stjórnmálum. Enginn vafi er á að staða hennar er mjög sterk nú: hún er orðin ráðherra, er leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna og hefur styrka stoð í slagnum.

Halldór Ásgrímsson

Framundan eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Það stefnir að mínu mati í kosningar um öll lykilembætti flokksins og verulega áhugavert að sjá hvað Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir gera í stöðunni. Það er greinilegt að brotthvarf Halldórs hefur leitt til uppstokkunar innan flokksins og greinilegt að armur hans vill algjörlega nýja forystu til móts við nýja tíma. Sú nýja forysta er sett til höfuðs ráðherrunum Guðna og Siv. Það er allavega enginn vafi á því að yfirlýsing Jónínu á prime time sjónvarpstíma í kvöld hreyfir við forystukaplinum í Framsóknarflokknum til mikilla muna á örlagastundu á hásumri.


Kostulegar mótsagnir Samfylkingarinnar

ISG ásamt fleirum við álversskiltið

Í dag fjallar Vef-Þjóðviljinn með glans um Samfylkinguna, einn skrautlegasta flokk í Íslandssögunni í frábærum pistli. Einkum er þar vikið að því blaðri að Samfylkingin hafi átt þátt í EES-samningnum. Eins og vel hefur verið bent á gat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ekki stutt EES á þingi og þingflokksformaður Margrét Frímannsdóttir var á móti samningnum eins og allir aðrir kommar á þingi á þeim tíma. Kjaftæðið um stuðning Samfylkingarinnar við EES er því bara kjaftablaður. Einnig er vikið að stóriðjumálunum.

Samfylkingin sem þekktust er allra flokka hérlendis fyrir að skipta um skoðanir í takt við vindáttir stjórnmálanna, brást ekki þeirri grundvallarreglu í því máli frekar en öðrum. Lengst framanaf var flokkurinn algjörlega á móti virkjun og álveri á Austurlandi. Kaflaskil urðu á árinu 2002 þegar skoðanakannanir hófu að sýna að meirihluti landsmanna studdi virkjunina og álversframkvæmdirnar. Í kosningu um virkjunina á þingi í apríl 2002 studdu flestir þingmenn Samfylkingarinnar málið. Skömmu síðar snerist forysta flokksins algjörlega til stuðnings við helstu þætti málsins.

Dyggustu málsvarar þess allan tímann voru þó forystumenn Samfylkingarinnar í gamla Austurlandskjördæmi, og var afstaða þeirra lengi vel algjörlega andsnúin því sem Samfylkingin á landsvísu hafði um málið að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sem borgarstjóri tjáð mikla andstöðu sína og R-listans við virkjun og álver á Austurlandi. Í kjölfar þess að hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ársbyrjun 2003 snerist hún til fylgilags við málið, allt að því með óbragð í munni, enda hafði hún sem stuðningskona Kvennalistans verið andsnúin öllum meginhugmyndum um stóriðju.

Í alþingiskosningunum 2003 tjáði Samfylkingin einarðlega stuðning við álverið, einkum í Norðausturkjördæmi, þar sem helstu málsvarar framboðsins voru eitt sinn hluti af óánægjuhópnum sem börðust fyrir málinu frá upphafi, t.d. Einar Már Sigurðarson alþingismaður frá Neskaupstað. Frægt varð þegar Samfylkingarforystan var á kosningaferðalagi á Austurlandi og hélt eins og ekkert væri sjálfsagðara að skilti við væntanlegt framkvæmdasvæði og lét mynda sig við það og notuðu í kosningabaráttunni.

ISG

Það var óneitanlega ankanalegt að sjá helsta málsvara gegn stóriðju til fjölda ára, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrum borgarfulltrúa og þingmann Kvennalistans, sem aldrei studdi hugmyndir um stóriðju meðan flokkurinn var til, gera sig að málsvara stóriðju á Austurlandi sem hún neyddist til að lýsa yfir stuðningi við til að friða öfl innan Samfylkingarinnar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að stuðningur Samfylkingarinnar var alla tíð tengdur vinsældapólitík, ekkert annað lá þar að baki. Andstaða við málið lengst framanaf hjá forystunni og snögg umskipti vegna stuðnings landsmanna við málið blasa við öllum þegar fjallað verður um allt málið af sagnfræðingum framtíðarinnar.

Ólíkt Samfylkingunni var Vinstrihreyfingin - grænt framboð heiðarleg í málinu allt frá upphafi og afstaða þeirra öllum ljós frá því fyrst var farið að tala um álver á Austurlandi seinnihluta tíunda áratugarins. Flokkurinn var frá upphafi andsnúinn öllum hugmyndum um álver í Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka og flokkurinn í Norðausturkjördæmi hugsaði frekar um öll umhverfissjónarmið málsins, frekar en hagsmuni almennings, fólksins á Austfjörðum sem barðist fyrir málinu. Það var til marks um alla stjórnmálabaráttu VG sem hugsar frekar um gæsirnar til fjalla en fólkið í byggð.

En já, ég gat ekki annað en rifjað upp sagnfræðina í þessu máli og rétt eins og í EES-málinu er hún ekki forystukólfum Samfylkingarinnar í hag. Reyndar er skondið að heyra Samfylkinguna býsna sér yfir einhverri breyttri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins og ráðast að Jóni Sigurðssyni, væntanlegum formanni Framsóknarflokksins, með offorsi hafandi verið með formann Samfylkingarinnar styðjandi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn. Mótsagnir Samfylkingarinnar eru alltaf skemmtilegar - ekki satt lesandi góður?


Kvöldverðarsnæðingur í Hvíta húsinu

Ólafur Ragnar, Laura og George W. Bush og Dorrit

Í kvöld munu Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff snæða kvöldverð í Hvíta húsinu í Washington og verða þar gestir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og Lauru Bush, eiginkonu hans. Það væri áhugavert að vita um hvað forsetarnir tveir munu ræða yfir kvöldverðnum. Þar sem Ólafur Ragnar er gamall herstöðvaandstæðingur gæti það orðið áhugavert fyrir forseta Bandaríkjanna að heyra skoðanir forseta Íslands á málefnum herstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi fram til þess tíma að hann var kjörinn forseti fyrir áratug, árið 1996.

Staða varnarviðræðanna er eitthvað sem margir hér á landi hafa fylgst með af áhuga. Það ætti að vera forsetunum sannkölluð innlifun í kvöldverðarspjalli. Kannski verða þessi mál rædd þá og vonandi hefur Ólafur Ragnar ennfremur einhverjar fallegar veiðisögur að segja Bush frá veiðitúr föður forsetans til Íslands, fyrr í þessum mánuði, en hann veiddi hérlendis þá einmitt í boði fyrrnefnds Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það er ánægjulegt að sjá hversu notaleg bönd eru að myndast milli forseta Bandaríkjanna og forseta Íslands. Ætti að vera mörgum vinstrimönnum sem býsnast höfðu yfir tengslum Davíðs Oddssonar og George W. Bush í langri forsætisráðherratíð Davíðs mikið gleðiefni. Það eitt er víst að ekki mun Ólafur Ragnar ræða við forseta Bandaríkjanna um Þjóðviljagrein hans þann 7. júlí 1983 við lok opinberrar heimsóknar föður hans, George H. W. Bush, sumarið 1983 í varaforsetatíð hans.

Þá andmælti hann komu hans með harkalegum orðum í Þjóðviljanum, blaðinu sem hann ritstýrði. 23 árum síðar kom Bush eldri aftur og þá í boði sama ritstjóra Þjóðviljans. Hann gaf honum meira að segja forláta veiðistöng og flugusett með þeim orðum að hann yrði nú að veiða vel í fríinu. Það verður ekki af forseta Íslands tekið að hann skiptir fljótt um skoðanir.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, birti brot úr greininni á vef sínum fyrir nokkrum dögum. Í henni sagði m.a.: "Nú er hann farinn, CIA-forstjórinn sem fluttist í stól varaforseta. Hann gekk um með lýðræði á vörum, frelsi á tungu og bros á sjónvarpsskermi. En á fundum með íslenskum stjórnarherrum hafði hann aukinn hernað í hendi sér, kröfur um efldan stríðsrekstur, bæði hér á landi og annars staðar í veröldinni."

Ennfremur sagði í greininni: "Gesturinn Bush var nefnilega um áraraðir æðsti prestur alls hins versta í stjórnmálum veraldarinnar. Hann stjórnaði frá degi til dags háþróaðasta kerfi njósna, spillingar, valdaráns og morðsveita sem fundið hefur verið upp í veröldinni." Svo mörg voru þau orð.

Það er vonandi að vinstrimenn séu glaðir yfir kvöldverðinum í Hvíta húsinu. Það hefðu allavega einhverntíma þótt tíðindi að formaður Alþýðubandalagsins til fjölda ára sæti kvöldverðarboð í boði sonar George Bush, forseta Bandaríkjanna, á þeim tíma sem kalda stríðinu lauk. En tímarnir breytast og Ólafur Ragnar með, eins og gárunginn sagði eitt sinn.


Ítalir heimsmeistarar í knattspyrnu 2006

Ítalska landsliðið fagnar sigri

Ítalir eru heimsmeistarar í knattspyrnu eftir sigur á Frökkum í æsispennandi og mjög dramatískum úrslitaleik HM í Berlín í kvöld. Fyrirliði Ítala, hinn 33 ára gamli leikmaður Juventus, Fabio Cannavaro, tók við gullstyttunni frægu úr hendi Lennarts Johansson, hins 76 ára gamla forseta UEFA. Leiksins verður lengi minnst, enda var hann svipmikill og vettvangur mikilla tilfinninga leikmanna beggja liða. Leikurinn byrjaði af krafti með marki Zinedine Zidane, fyrirliða Frakka, úr vítaspyrnu á sjöundu mínútu leiksins. Á nítjándu mínútu jafnaði varnarmaðurinn Marco Materazzi leikinn með glæsilegu skallamarki. Engin mörk komu í seinni hálfleik og því var framlengt. Um miðja framlengingu munaði litlu að Zidane næði að bæta við öðru marki Frakkanna en Buffon varði fimlega.

Á 110. mínútu lauk knattspyrnuferli Zidane með sorglegum hætti er hann skallaði Marco Materazzi í brjóstið með harkalegum hætti. Zidane fékk rauða spjaldið í kjölfarið. Fleiri mörk voru ekki skoruð á framlengdum leiktíma. Taugar Ítala héldu betur en Frakkanna í vítaspyrnukeppninni. Ítalir skoruðu úr öllum fimm vítaspyrnum sínum en franski varamaðurinn David Trezeguet, sem varð hetja Frakka er hann skoraði gullmarkið í úrslitaleik Evrópukeppninnar árið 2000 þar sem þeir sigruðu Ítali, gerði út af við sigurvonir Frakka að þessu sinni með því að skjóta í þverslána og tryggja með því sigur Ítalanna. Tólf árum eftir að Ítalir töpuðu úrslitaleiknum á HM í Bandaríkjunum árið 1994 fyrir Brasilíu í ógleymanlegri vítaspyrnukeppni höfðu þeir því betur gegn Frökkum í ekki síður ógleymanlegri vítaspyrnukeppni. Úrslit höfðu ekki ráðist í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik á HM frá árinu 1994.

Reyndar hafa Ítalir þrisvar áður tapað titlinum á HM í vítaspyrnukeppni. Greinilegt var að þreföld ógæfa Ítala gerði þá enn einbeittari að þessu sinni og nú var sigri landað. Fótboltaáhugamenn um allan heim, einkum Frakkar og Ítalir, voru í greipum spennunnar á meðan að vítaspyrnukeppninni stóð. Fögnuður Ítala á sigurstund í Berlín í kvöld var svo sannarlega ósvikinn. Þetta er í fjórða skiptið sem Ítalir verða heimsmeistarar í fótbolta. Þeir sigruðu fyrsta sinni á HM á heimavelli í leik gegn Tékkóslóvakíu árið 1934, unnu öðru sinni á HM í Frakklandi árið 1938 í leik gegn Ungverjalandi og sigruðu svo þriðja sinni árið 1982 í æsispennandi úrslitaleik við V-Þýskaland. Saga Ítalíu í keppninni er því bæði sigrum og ósigrum mörkuð. Að þessu sinni var sigurinn verðskuldað þeirra.

Zinedine Zidane gengur af velli

Fyrir HM hafði Zinedine Zidane, fyrirliði Frakka, gefið út að hann myndi ljúka knattspyrnuferli sínum þar. Ferill Zidane er orðinn merkilegur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hann skoraði tvenn af þremur mörkum Frakka í úrslitaleiknum á HM í París árið 1998 og var þjóðhetja Frakka fyrir að tryggja liðinu sigurinn á heimavelli á ógleymanlegu heimsmeistaramóti. Hann var sterkur hlekkur í liðinu á EM árið 2000. Gengi liðsins var langt undir vonum á HM árið 2002 og öllum er ljóst hvernig fór á EM árið 2004. Nú vildi hann leika af krafti og tryggja liðinu sigur við lok eigin ferils. Zidane tryggði Frökkum sæti í úrslitaleiknum með marki sínu gegn Portúgal í leik liðanna München fyrr í vikunni. Framan af úrslitaleiknum stefndi allt í glæsileg endalok knattspyrnuferils hans.

Það breyttist allt á 110. mínútu úrslitaleiksins eins og fyrr segir. Það leikur enginn vafi á því að hann klúðraði eigin málum með ótrúlegum hætti með því að skalla Materazzi í brjóstkassann og hlaut rauða spjaldið fyrir í lok merkilegs ferils - talandi um niðurlægingu ársins. Það var táknrænt að sjá Zizou fara af leikvelli eftir þau örlög - í forgrunni er hann gekk burt var HM-styttan sögufræga sem hann hampaði fyrir átta árum. Nú var draumur hans um að lyfta styttunni úti, ferlinum lokið með sneyptum hætti og væntanlega gekk hann með dómgreindarbresti sínum í hita leiksins endanlega frá möguleikum Frakka á því að ná árangri og sigri á mótinu. Öll franska þjóðin, sem og félagar hans í landsliðinu, hljóta að kenna Zizou um hvernig fór í Berlín í kvöld. Það er því allnokkur byrði sem Zinedine Zidane þarf að bera nú.

Ítalir fagna

Eins og ég hef áður vikið að hér á vefnum höfðu öll þau lið sem ég taldi vænlegust fyrir keppnina misst af möguleikum á titlinum er kom að úrslitaleiknum. Ég hélt eins og flestir vita sem lesa vefinn með Ítölum í úrslitaleiknum. Þeir stóðu sig gríðarlega vel á þessu móti - unnu samhent og af krafti fyrir því að ná árangri. Liðsheild þeirra og samstillt maskína tryggði þeim sigur á þessu móti - það blasir alveg við. Marcello Lippi leiddi liðið til glæsilegs árangurs og getur svo sannarlega verið sáttur með glæsilegan árangur við lok mótsins. Sigur þeirra var verðskuldaður. Þjóðverjar áttu ennfremur skilið bronsið úr því sem komið var. Bæði lið unnu mjög samhent að því að ná árangri. En það er þó ekki annað hægt en að vorkenna Frökkum eftir úrslitaleikinn en þeir misstu leikinn frá sér með nokkrum afdrifaríkum mistökum, þeirra stærst varð dómgreindarbrestur Zizou.

En nú er HM lokið og tómarúm tekur við í lífi fótboltafíkla um allan heim sem í heilan mánuð hafa lifað fyrir næsta leik á HM og hlakkað til að spá og spekúlera í flottum mörkum, marktækifærum og pælingum um lið og leikmenn. Þetta hefur verið gósentíð knattspyrnumanna eins og ávallt og veislan hefur verið mjög eftirminnileg. Ég er einn þeirra sem hafa horft á nær alla leiki og haft gríðarlega gaman af þessu knattspyrnumóti - þetta hefur verið sannkölluð paradís fyrir mig sem og marga fleiri. Tek ég heilshugar undir það sem Össur Skarphéðinsson ritar um HM og alla hluti tengda því í góðum pistli á heimasíðu sinni.

Cannavaro fagnar sigriLippi fagnar sigri

Fyrst og fremst á Sýn mikið hrós skilið að mínu mati fyrir að halda utan um mótið af miklum glæsibrag og með fagmannlegum og jákvæðum hætti - þar hefur þessi mánuður orðið að ógleymanlegri gleði fyrir knattspyrnuáhugamenn um allt land. Þar hafa allir leikir og öll smáatriði þeirra verið skýrð með svo góðum hætti að unun er fyrir bæði knattspyrnufíkla sem og hreina áhugamenn heima í stofu. Sýn lagði stöðina alveg undir mótið og allar mögulegar hliðar mótsins, sem og þættir um sögu þess, voru áberandi allt mótið og löngu fyrir það. Það verður svo sannarlega ekki tekið af Arnari Björnssyni og hans fólki að þar var unnið með jákvæðum og góðum hætti að því að tryggja að leikgleði og fótboltaáhuginn bærist heim í sem flestar stofur í landinu.

Gullmolinn í allri umfjölluninni var svo samantektarþáttur leikdagsins, 4-4-2, í magnaðri umsjón þeirra Þorsteins J. og Heimis Karlssonar. Frábært í alla staði. Við sem unnum fótbolta munum svo sannarlega sakna þáttarins og svo auðvitað boltans næstu dagana. En við huggum okkur við það að aðeins tvö ár eru í EM í fótbolta og fjögur ár eru oft fljót að líða. En eftir stendur magnað mót og eftirminnilegt í alla staði. Það var svo sannarlega yndisauki á góðu sumri.


Þjóðverjar hampa bronsi á heimavelli

Þýska landsliðið

"Deutschland über alles" var lykilorð gærkvöldsins á HM í fótbolta þegar að þýska landsliðið tryggði sér bronsið og sigraði Portúgali 3:1 í mjög áhugaverðum knattspyrnuleik í Stuttgart. Það var að mínu mati aldrei vafi á því að Þjóðverjar næðu bronsinu. Þeir voru á heimavelli og þyrstir í árangur eftir að hafa tapað fyrir Ítölum fyrr í vikunni í kostulegum leik þar sem hinir ítölsku náðu sigrinum leiftursnöggt með tveim mörkum á örskotsstundu. Öll mörk leiksins voru skoruð í síðari hálfleiknum. Stjarna leiksins var hinn þýski Bastian Schweinsteiger sem skoraði tvö flott mörk fyrir Þjóðverja, á 56. og 78. mínútu. Armando Petit varð svo óheppinn að skora sjálfsmark á 61. mínútu og staðan varð skyndilega 3:0. Á 88. mínútu minnkaði svo Nuno Gomes muninn fyrir Portúgali.

Þjóðverjar voru sárir með tapið fyrir Ítölum og lögðu því mikla áherslu á sigur í gær. Þeir höfðu járnkraft og ákveðni því með sér inn á völlinn og náðu árangri. Margir Þjóðverjar voru farnir að halda fyrir nokkrum vikum að sigur á mótinu væri innan seilingar og vonbrigðin því mikil eftir leikinn á þriðjudag. Enginn vafi leikur á því að Þjóðverjar vildu árangur á þessu móti. Fyrirfram var talið ólíklegt að liðið kæmist í undanúrslit en þeim tókst það þó. Þjóðverjar hafa lengi verið stórveldi í fótboltanum og urðu heimsmeistarar árin 1954, 1974 og 1990. Fyrir fjórum árum töpuðu Þjóðverjar fyrir Brössum í úrslitaleiknum. Þá var mikill kraftur í Þjóðverjum og Michael Ballack og Oliver Kahn voru meðal helstu stjarna mótsins. Sigurinn í gær varð því sárabót fyrir Þjóðverja að þessu sinni.

Oliver Kahn

Oliver Kahn hinn skrautlegi markmaður Þjóðverja spilaði í gær kveðjuleik sinn með þýska landsliðinu. Fannst mörgum það athyglisvert fyrir mótið að Jürgen Klinsmann þjálfari, valdi Jens Lehmann sem aðalmarkmann liðsins framyfir Kahn sem var leikmaður mótsins árið 2002. Var lengi vel móts talað um mikla persónulega óvild Lehmann og Kahn, sem flestum þótti reyndar vera orðum aukin. Reyndar var öllum ljóst að Kahn var ekki sáttur við sitt hlutskipti sitjandi meginhluta mótsins á bekknum og verandi varaskeifa Lehmann. Lehmann sannaði snilli sína svo um munaði í leik Þjóðverja við Argentínu í átta liða úrslitunum. Lehmann ákvað svo að leyfa Kahn að vera í markinu í lokaleik liðsins á mótinu og fékk því Kahn að kveðja landsliðið með glans í þessum leik, sem og hann átti auðvitað vissulega skilið.

Það hefur reyndar oft verið sagt að enginn vilji skiljanlega leika um þriðja sætið á stórmóti á borð við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Þar mætast enda tapliðin í undanúrslitaleiknum og lið sem hafa þurft að lúta í gras en mætast til að útkljá hver fær bronsið. Það var ekki að sjá í gær að það þjakaði Þjóðverja og Portúgali að vera í þessum leik. Eftir allt er til einhvers vissulega að vinna þó að auðvitað vilji enginn spila til leiks um sárabætur sem bronsið er oft talið. Það er þó svo að mun skárra er að spila til bronsins en silfursins. Það vill enginn hampa silfri á svona móti. Það að vera í öðru sæti í keppnisíþrótt á borð við fótbolta hefur enda alltaf verið talin lítt áhugaverð staða til að hampa sér á. Það er þó ljóst að Þjóðverjar spiluðu mjög sannfærandi í gær og aldrei vafi á því hvort liðið myndi sigra.

Oliver Kahn og Angela Merkel

Mikla athygli á þessu móti vakti aðili utan vallar, ekki fyrrum fótboltaspilari eða þekktur knattspyrnuspekúlant heldur Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Hún vann mikinn sigur í huga og hjarta Þjóðverja með því að mæta á alla leiki og fagna öllum mörkum liðsins sem mjög sannfærandi hætti og af talsverðri innlifun. Eftirminnileg voru augnablikin er Lehmann fór á kostum í vítaspyrnukeppninni gegn Argentínu en þá stökk Merkel á fætur og fagnaði sem innlifaður fótboltasérfræðingur væri. Lengi vel var talinn meginveikleiki Angelu Merkel sem stjórnmálamanns hversu litlaus og óspennandi hún væri utan stjórnmála. Sá stimpill fór svo sannarlega af henni á þessu móti og væri ekki óeðlilegt að álíta að hennar persónulegu vinsældir sem stjórnmálamanns hefðu aukist til muna.

Það var einmitt svo Angela Merkel sem afhenti þýska liðinu sigurlaunin í gærkvöldi, bronsið sjálft. Fannst mörgum merkilegt að sjá Merkel þar í hrókasamræðum við Oliver Kahn og Jürgen Klinsmann um fótboltann og gengi liðsins á þessu móti. Fannst mörgum reyndar merkilegt í gærkvöldi að sjá Merkel í hrókasamræðum við Sepp Blatter á leiknum í gærkvöldi og umræðuefnið var fótbolti. Fyrir einhverjum misserum hefðu verið talin stórtíðindi að hinn gegnumsýrði stjórnmálamaður dr. Angela Merkel hefði rætt á opinberum vettvangi um knattspyrnuiðkun og íþróttina sem ástríðu. Það hefur hún gert þann mánuð sem keppnin hefur staðið í landinu. Með því hefur hún öðlast stuðning langt út fyrir sínar raðir og enginn vafi er að hún hefur vaxið mjög í embætti.

Í kvöld munu Ítalir og Frakkar keppa til úrslita á mótinu um sjálft meginhnoss knattspyrnuheimsins: gullstyttuna sögufrægu eftir ítalska myndhöggvarann Silvio Gazazniga sem fyrst var afhent á heimsmeistaramótinu árið 1974. Þá fór styttan til Þjóðverja. Nú stefnir í frábæran slag og telja flestir Ítali sigurstranglegri. Hvort fagnað verður í Róm eða París í kvöld er stóra spurningin nú. Allir sannir knattspyrnuáhugamenn fylgjast með af áhuga í kvöld.


Forystukapallinn í Framsókn

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra

Í ítarlegum pistli mínum sem birtist á vef Heimdallar í dag fjalla ég forystukapal Framsóknarflokksins. Eins og allir vita er nú rúmur mánuður í flokksþing Framsóknarflokksins. Þar mun Halldór Ásgrímsson láta af formennsku í flokknum eftir tólf ára formannsferil og eftirmaður hans verður kjörinn. Þegar hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt um framboð sitt. Greinilegt er af atburðarás seinustu vikna að hann er frambjóðandi Halldórsarmsins í flokknum. Hann er fyrsti utanþingsráðherrann í tæpa tvo áratugi og hefur lengi verið virkur í innra starfi hans. Þegar má heyra orðróm þess efnis að Jón verði jafnvel einróma kjörinn til verka og engin átök verði um formannsstólinn. Eins og staðan er nú bendir ansi margt til þess að sú verði raunin.

Verði Jón formaður Framsóknarflokksins eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás í þessum mánuði blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það hefur hann þegar hafið með því að færa stóriðjukúrsinn í allt aðra átt og róa hann mjög með mjög athyglisverðum yfirlýsingum sínum.
Eins og allir hafa séð með innkomu Jóns er þar kominn maður sem hefur allt að því ímynd pókerspilarans: er yfirvegaður og ákveðinn í senn. Kannski er það sú týpa sem flokkurinn þarf á að halda núna.

Lúðvík Gizurarson

Reyndar hefur nú heyrst að Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafi í hyggju að gefa kost á sér til formennsku og gaf hann reyndar út yfirlýsingu um þann áhuga sinn á miðvikudag. Mikið er grínast með þau tíðindi. Lúðvík hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum formanni Framsóknarflokksins, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra. Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Hefur málið farið fyrir dómstóla og hefur Lúðvík ekki gefið neitt eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks. Það hlýtur fyrst og fremst að vera grín af hálfu Lúðvíks að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega er Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman. Allir vita að Lúðvík Gizurarson verður ekki formaður Framsóknarflokksins og væntanlega um einn stóran húmor að ræða. Í fyrrnefndum pistli fer ég yfir fræga fléttu Halldórs Ásgrímssonar sem nefnd hefur verið um innkomu Jóns Sigurðssonar. Virðist hún ætla að ganga eftir að öllu óbreyttu. Aðeins Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson eru talin geta velgt honum undir uggum og bíða nú allir eftir ákvörðun þeirra.

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra

Í gærkvöldi var Jón Sigurðsson í löngu og ítarlegu viðtali hjá Helga Seljan, frænda mínum, í Íslandi í dag. Það var mjög merkilegt viðtal, svo ekki sé meira sagt. Helgi spurði hann þar út í stóriðjumálin en Jón hefur nú nær algjörlega vikið af braut stóriðjustefnu þeirri sem Valgerður Sverrisdóttir talaði fyrir sem iðnaðarráðherra - greinilega ætlað til þess að ljá flokknum annan blæ og hann geti með betri hætti en áður sótt það fylgi sem hann hefur misst frá sér. Ennfremur var farið yfir Evrópumál og stjórnmálaáherslur Jóns sjálfs. Er óhætt að segja að viðtalið hafi verið mjög merkilegt og Jóni mislíkað margar spurningar Helga og svarað þeim með gusti. Þetta var allavega kostulegt viðtal og var áhugavert að sjá það.

Bendi ég öllum á að horfa á viðtal Helga við Jón Sigurðsson og lesa fyrrnefndan pistil minn um forystukapalinn í Framsóknarflokknum.


Ræða og útvarpsviðtal

Stefán Fr. Stef.

Félagar og vinir hafa mikið spurt mig að því hvort ræða mín á aðalfundi Varðar, þar sem ég lét af formennsku félagsins, þann 27. júní sl. sé hvergi til á netinu. Hún birtist á Íslendingi, vef flokksins hér í bænum, daginn eftir aðalfundinn og því rétt að benda þeim sem vilja lesa á tengil á ræðuna þar. Í ræðunni fer ég yfir fjölda atriða: t.d. starf félagsins á starfsárinu, prófkjör flokksins í febrúar, útkomu flokksins í kosningunum í maí og mörg fleiri atriði mætti nefna sem að þið getið lesið nánar um.

Ræða á aðalfundi

Í gær höfðu þeir félagar Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson samband við mig fyrir þátt sinn Reykjavík síðdegis, en þeir voru með útsendingu á Café Amour í miðbæ Akureyrar í gær en Bylgjan er með húllumhæ á Akureyri næstu dagana og útiskemmtun um helgina allavega. Vildu þeir fá mig í viðtal um ýmis mál, sérstaklega fræga ályktun stjórnar Varðar árið 1999 um málefni innflytjenda og mikilvægi þess að kenna þeim íslensku, í ljósi umræðu um framboð innflytjenda. Sú ályktun leiddi til afsagnar þáverandi stjórnar Varðar. Það sem hún kynnti þá hefur síðan orðið algild stefna sem flestir tala fyrir.

Þar sem ég er ekki í bænum og verð ekki næstu daga varð úr að um símaspjall yrði að ræða og því styttra spjall en ella, enda var ég á ferð. Hef ég oft rætt í útvarpsviðtölum við þá félaga og haft gaman af. Þeir eru með langbesta síðdegisþáttinn í útvarpi og hlusta ég oft á þá. Fórum við í stuttu símaspjalli yfir þessi mál. Höfðum við gaman af þessu spjalli og létt og góð stemmning þar yfir. Þegar að Kristófer hringdi í mig og vildi ræða við mig í gær hafði ég á orði að það væri gott að skoðun stjórnar Varðar árið 1999, sem varð umdeild þá, sé svo almenn skoðun nú.

Reykjavík síðdegis í gær - set hér tengil á þáttinn í gær. Viðtalið við mig er þegar að 1 klukkutími og 20 mínútur eru liðnar af þættinum.


Sorgleg umferðarslys

Minning

Mikil sorg hefur verið heima á Akureyri seinustu daga vegna andláts Sigrúnar Kristinsdóttur og Heiðars Þ. Jóhannssonar sem létust í sorglegum umferðarslysum fyrir viku. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 9 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum sem tengjast fólki heima á Akureyri. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna láts góðs vinar og ættingja. Ég veit að margir eru í sárum heima núna og það fólk á allt stað í hjarta mér þessa erfiðu daga núna.

Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Sjötta sumarið í röð hefur VÍS hafið átak gegn umferðarslysum undir forystu Ragnheiðar Davíðsdóttur. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að baráttunni við ölvunarakstur, hraðakstur, farsímanotkun undir stýri og annars konar skort á einbeitingu sem oft leiðir til alvarlegra slysa. Ragnheiður og þau hjá VÍS eiga hrós skilið fyrir öflug skilaboð sín í þessum efnum.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.

Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð fyrir nokkrum árum þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Nýjasta auglýsingaherferðin hefur heppnast gríðarlega vel og verið góð áminning þess að fara varlega í umferðinni og ekki síður að muna að nota bílbeltin. Það eru mikilvægustu skilaboðin að mínu mati að minna á þessa sumarmánuði, enda vill oft gleymast að hugað sé að því að beltið sé á.

Í auglýsingunni sem hefur verið í fjölmiðlum í sumar er stuðst við norska auglýsingu sem vegagerðin þar í landi lét gera og fékk Umferðarstofa leyfi hjá þeim til að útfæra hugmyndina fyrir íslenskar aðstæður. Norska herferðin heitir "Heaven can wait" og hefur vakið verðskuldaða athygli. Það er ljóst að líkurnar á því að slasast alvarlega eða láta lífið í umferðinni eru margfalt sinnum meiri meðal þeirra sem ekki nota bílbelti. Í auglýsingunum er því lögð áhersla á notkun bílbelta hvort sem um er að ræða farþega eða ökumann því beltin bjarga. Það eru grunnskilaboð sem margsannað er að skipta miklu máli. Hvet alla til að sjá þessa auglýsingu.

Ég fagna þjóðarátaki Umferðarstofu og VÍS í umferðarmálum. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.


Varnarviðræður á krossgötum

F4 þotur

Varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna hófust í morgun í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra, leiðir málin af Íslands hálfu en Albert Jónsson stýrir viðræðunum. Þar er rætt um framtíð varnarsamningsins og hvernig horfa eigi til varna landsins eftir að Varnarliðið fer héðan af landi brott í haust. Óhætt er að segja að varnarviðræður seinustu ára hafi verið eitt af mest áberandi málum í stjórnmálunum á þessu kjörtímabili. Yfirvofandi hefur verið til fjölda ára að Varnarliðið færi af landi brott og er nú aðeins samið um frágang þess máls. Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum af því tagi sem við erum að verða vitni að nú enn eina ferðina hófust í raun árið 1993.

Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 höfðu formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar ekki hafist að neinu ráði þegar að til kom einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar vorið 2003 um að allur varnarviðbúnaður færi af landi brott. Þar höfðu reyndar komið til ýmsar tafir. Fyrst vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2000, hryðjuverkanna í New York og Washington 11. september 2001 og svo vegna þingkosninga hér á landi árið 2003.

Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lengi ljóst að umfang varnarliðsins í Keflavík gæti ekki minna verið en það sem samið var um árið 1994. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að endalok varnarliðsins hérlendis blasa við og því verður ekki breytt. Við stöndum frammi fyrir orðnum hlut og ekkert hægt í því að breyta. Viðræðurnar sem nú standa og hafa gert seinustu mánuði eru því aðeins að semja um orðinn hlut og hvernig búa megi við það. Að mínu mati hefur Bandaríkjastjórn komið fram með ótrúlegri óbilgirni og verið mjög ósveigjanleg í túlkun á tvíhliða varnarsamningi. Að mínu mati er vandinn í stöðunni tvíþættur: annarsvegar einhliða rof Bandaríkjanna á tvíhliða varnarsamningi og hinsvegar sofandagangur stjórnvalda til fjölda ára í málinu, sem er mjög áberandi ef farið er yfir málið.

Til fjölda ára var stólað á að Bandaríkjastjórn myndi standa við loforð sín og varnarsamninginn. Það voru draumórar einir og ekkert eftir sem heitið getur er byggir undir þennan varnarsamning. Í reynd heyrir hann sögunni til þegar að varnarviðbúnaðurinn fer af landi brott. Það má segja sem svo að utanríkisráðherrar landsins á árunum 1993-2003 hafi eytt tímanum í rangar áherslur. Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra á þeim tíma sem samið var um að þoturnar yrðu fjórar í stað tólf áður. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir er Jón Baldvin sagði á málþingi hér á Akureyri fyrir nokkrum mánuðum að stjórnvöld hefðu alltaf koðnað undir Bandaríkjastjórn í málinu. Sem betur fer var honum þar bent á að hann sem utanríkisráðherra var á fullu í því verkefni og því engu skárri en þeir sem hann þar gagnrýndi.

Á þeim tveim árum tæpum sem Sjálfstæðisflokkurinn sá um utanríkisráðuneytið í fyrsta skipti í tæpa tvo áratugi var betur gert sér grein fyrir því að engu yrði breytt í stöðunni. Varnarliðið myndi fara og aðeins væri um viðræður um frágang þess að ræða. Í reynd má þar með segja að ekkert sé eftir af hinum gamla varnarsamningi nema skuldbindingin ein um varnir. Það er þó öllum ljóst að ekki verða þær tryggðar hérlendis úr því sem komið er. Það eina rétta sem Íslendingar geta nú gert er að horfa í eigin barm og meta með því hvernig við getum sjálf tekið við sem mestum verkefnum í stöðunni. Tek ég undir hugmyndir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í nýjasta riti Þjóðmála þar sem hann fjallar um varnarmálin og kemur með gott mat á stöðuna - sem ég tek heilshugar undir. Þar koma fram athyglisverðar vangaveltur.

Ef marka má fréttir í dag gengur ekkert í viðræðunum. Það virðist enginn þungi í þeim og átakamálin virðast ekki með neinum hætti ætla að verða mýkri. Tekist er á um viðbúnað varna eftir að herinn fer og greinilega engin samstaða um hvað taka skuli við. Eins og vel hefur komið fram er ekkert vitað um hver verði framtíð Keflavíkurstöðvarinnar eða varna landsins almennt. Ég var staddur á varnarsvæðinu fyrir hálfum mánuði og gerði mér þá í fyrsta skipti almennilega grein fyrir umfangi þess og þeim verkefnum sem við blasa. Það er ekkert vitað um fjölda þátta málsins: hvort landið eða fasteignum verði skilað til íslenskra stjórnvalda, hvort þær megi nýta er Varnarliðið fer og þá hvernig þær verði notaðar, hvort greiða þurfi fyrir þær og þá hve mikið. Ekkert hefur heldur verið ákveðið um hvort Bandaríkjamenn ætli að hreinsa svæðið.

Spurningarnar eru margar og ef marka má gang viðræðnanna gengur hvorki né rekur í því að ná samkomulagi um framtíðartilhögun mála. Ég tel að nú sé komið að okkur að taka af skarið. Við getum ekki beðið endalaust eftir því að aðrir hjálpi okkur. Það er vissulega leitt að ekki hafi verið samið af viti um varnarmálin fyrr með þeim hætti að semja um viðskilnað Bandaríkjanna við landið. Það er með ólíkindum að við þurfum að "semja" um einhliða óskir Bandaríkjanna og hvernig þeir vilja haga málum. Við áttum að taka af skarið mun fyrr og ljúka málum með okkar hætti en ekki annarra. Við eigum enda að horfa til okkar þarfa á þessum krossgötum en ekki annarra.


Breytingar á nefndum bæjarins

HJT og KÞJ

Eins og allir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd var skeytt saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd var lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar var fært undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og heitir ný nefnd nú Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar og ég verð að viðurkenna að ég fylgdist nokkuð með umræðu um málið á fyrsta fundi bæjarstjórnar, sem gekk að mestu út á þessar breytingar, en fulltrúar minnihlutans voru ekki ánægðir með þessar breytingar. Þeir töluðu þar af krafti gegn því sem kynnt var í málefnasamningi flokkanna.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég er sammála að miklu leyti gagnrýni minnihlutans og skil efasemdir þeirra. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk. Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það.

Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta ekki góða ákvörðun og hef verið hugsi yfir henni. Í raun má segja að öll verkefni nýs fjölskylduráðs heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Eins og flestir vita gegni ég nú engum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn minn hér í bæ og mun ekki heldur vera í neinum nefndum fyrir bæinn á þessu kjörtímabili. Það er ágætt að geta litið yfir sviðið frá þeim slóðum og sagt sínar skoðanir á stöðu mála hreint út. Ég tel að best hefði verið fyrir nýjan meirihluta að halda sama nefndakerfi og viðhalda þeirri forystu sem mörkuð var eldri nefndum sem verða sameinaðar. Allar sinna þær mikilvægu hlutverki.

Hinsvegar verður fróðlegt að fylgjast með breyttu nefndakerfi þegar að það tekur gildi með haustinu. Ég vona að ný nefnd sinni verkum eldri nefndanna með sama krafti og hinar eldri gerðu. Það er gott fólk í þessari nýju nefnd og ég vona að þau haldi vel á málum. Hinsvegar undrast ég enn meir örlög menningarmálanefndarinnar og verð að undrast mjög að engin sé menningarmálanefndin með þeim titli sem henni ber. En það er eins og annað kannski breytingum háð, ég veit það hreinlega ekki. Eins og fyrr segir verður fróðlegt að fylgjast með þessu nefndadæmi með vetrinum þegar að breytingarnar taka gildi - þá fyrst er hægt að dæma fyrir alvöru þessa ákvörðun meirihlutans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband