6.7.2006 | 20:12
George W. Bush sextugur

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er sextugur í dag. Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir stjórnmálaferil og ævi þessa 43. forseta Bandaríkjanna frá árinu 1776, hins umdeilda stjórnmálamanns frá Texas sem tókst að sigra tvennar forsetakosningar og náði kjöri með sögulegum hætti tvívegis á ríkisstjórastól heimafylkis síns í Texas á tíunda áratugnum. Bush hefur setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúm fimm ár og verið umdeildur í verkum sínum, allt frá sögulegum kosningasigri hans í nóvember 2000. Hann hefur verið í forystu mesta stórveldis heims á miklum umbrotatímum í alþjóðastjórnmálum seinustu árin.
Spennandi tímar eru framundan í bandarískum stjórnmálum - í nóvember verða þingkosningar, sem verða enn einn prófsteinninn á stöðu þessa 43. forseta Bandaríkjanna og flokks hans. Nú er forsetinn orðinn sextugur og vert að óska honum til hamingju með afmælið á þessum sumardögum. Afmælisárið hefur ekki verið neinn dans á rósum fyrir hann pólitískt. Endalaus verkefni og pólitískar áskoranir eru altént framundan í pólitíska andrúmsloftinu sem við honum blasir í Washington. Fyrst og fremst horfir hann til þingkosninganna og reynir að tryggja samherjum sínum lykilvöld þar áfram - völd sem skipta stjórn hans líka höfuðmáli seinustu misseri forsetaferils hans.
Ég hvet alla til að lesa þennan pistil minn um George Walker Bush.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2006 | 23:56
Málverk sett upp aftur í Höfða

Dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var einn merkasti stjórnmálamaður í sögu íslenskra stjórnmála á 20. öld. Að mínu mati er hann merkasti stjórnmálamaður aldarinnar á Íslandi og sá sem markaði merkustu sporin við mótun hins íslenska lýðveldis. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans. Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma. Bjarni var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Hann var vinnusamur stjórnmálamaður sem skildi eftir sig merkilegt dagsverk í stjórnmálum.
Fyrir nokkrum dögum var málverk Svölu Þórisdóttur af Bjarna aftur sett upp í Höfða, funda- og móttökuhúsi Reykjavíkurborgar. Málverkið var fjarlægt fyrir rúmum áratug í kjölfar valdatöku R-listans einhverra hluta. Myndin af Bjarna setti svip á leiðtogafundinn í Höfða fyrir tveim áratugum er Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev hittust á sögulegum fundi sem markaði þáttaskil við endalok kalda stríðsins. Hún prýddi fréttamyndir af fundinum um allan heim enda var hún á vegg í fundaherbergi leiðtoganna. Það vakti undrun margra er myndin af Bjarna var tekin niður, enda var hann borgarstjóri í Reykjavík og markaði þáttaskil í lýðveldissögunni með forystu sinni og verkum í stjórnmálum. Myndin var reyndar sett upp í nokkrar vikur fyrir áratug er leiðtogafundarins var minnst en tekin niður fljótlega aftur.
Það er gleðiefni að myndin sé komin á þann stað sem hún á að vera. Það er reyndar með ólíkindum hversu mjög NFS hefur tekist að gera að umfjöllunarefni að myndin sé sett aftur á sinn stað, þar sem hún var til fjölda ára áður en að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hugnaðist að taka hana niður og reyna með því að slá einhverjar pólitískar keilur. NFS hefur talað um stóra málverkamálið með kostulegum hætti. Það er svosem merkilegast af öllu að NFS reyni að gera veður af þessu í gúrkutíðinni sem nú geisar í fjölmiðlum og er áberandi á NFS núna þegar að ekkert er að gerast, annað en heimsókn Bush, fyrrum forseta, hingað til lands.
Það er ánægjulegt að til valda í Reykjavík sé komið fólk sem metur söguna og telur við hæfi að standa vörð um að varðveita sem mest fundastað leiðtoganna árið 1986 og allt þar í kring, þ.m.t. málverk Svölu af Bjarna.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2006 | 23:32
Patrik Smári

Litli frændi, Patrik Smári, dafnar svo sannarlega vel. Patrik Smári er sonur Völu, systurdóttur minnar, og Þóris kærasta hennar - hann fæddist 29. mars sl. og hefur síðan svo sannarlega verið mikill gleðigjafi í fjölskyldunni okkar. Gat ekki stillt mig um að setja eina flotta og nýja mynd sem Vala frænka tók af Patrik nú seinustu daga og láta hana fylgja með hér á vefnum mínum í dag.
Patrik Smári
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2006 | 23:07
Spenna og fjör á boltasumri
Það líður að lokum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Þýskalandi. Það hefur verið sannkölluð veisla að fylgjast með boltanum í sumar - eins og venjulega á slíkum stórmótum. Ég hef horft á nær alla leikina í keppninni en misst af nokkrum á ferðalaginu seinustu dagana. Fannst mér verst að missa af leikjunum tveim á laugardag. Þá voru þarfari hlutir á dagskránni og ekki var síðra að sleikja sólskinið austur á fjörðum. Sýn hefur haldið utan um mótið með glæsibrag að mínu mati - skilað öllum leikjum af sér með fagmannlegum hætti og sinnt vel pælingunum um boltann og keppnina. Jafnframt hafa verið skemmtilegir gestir hjá þeim fyrir og eftir leiki og boltasparkið krufið bæði frá áhugamannahliðinni sem og hinni fagmannlegu. Það er alltaf gaman af því.
Hápunktur í umfjöllun Sýnar er vafalaust þátturinn 4-4-2 sem hefur verið á dagskrá alltaf að kvöldi keppnisdags kl. 21:00. Þar hafa Þorsteinn J. og Heimir Karlsson farið yfir boltann með skemmtilegum hætti og frá öllum mögulegum hliðum. Þar hefur verið mjög flott umfjöllun og allir getað notið hennar, hvort sem viðkomandi eru forfallnir áhugamenn um boltaíþróttina frá a-ö eða sófaspekúlantar. Skemmtilegir molar tengdir keppninni hafa verið þar áberandi. Útkoman er ómissandi þáttur í önnum keppninnar og hef ég alltaf reynt að fylgjast með honum. Þátturinn var fyrst settur á í keppninni fyrir fjórum árum en þá var Snorri Már Skúlason með Þorsteini J. í þættinum. Mér finnst þátturinn mun betri núna en þá. Umsjónarmennirnir eiga svo sannarlega heiður skilið fyrir góða stjórn á áhugaverðum þætti.
Ég stend þannig núna, eins og fleiri, að öll mín uppáhaldslið eru dottin út úr keppninni. Sárt fannst mér að sjá á eftir Brössum en ég hafði fyrirfram spáð þeim sigri, eða öllu heldur vonast til að þeir myndu komast lengra. Það var reyndar merkilegt að bæði Brassar og Argentínumenn skyldu detta út í átta liða úrslitum. Englendingar komust í átta liða úrslit eins og 1998 og 2002 en svo ekki söguna meir. Ég hélt með Þjóðverjum eftir að örlög Brassanna voru kunn. Þeir duttu svo út í gær fyrir Ítölum í mögnuðum leik í Dortmund. Þar skoruðu Ítalir tvö mörk í blálokin í framlengingu. Taldi ég að stefndi í enn eina vítaspyrnukeppnina þar sem Jens Lehmann myndi brillera, rétt eins og gegn Argentínu á föstudaginn, en svo fór svo sannarlega ekki. Vonir Þjóðverja gufuðu upp skjótt og eftir standa vonbrigði á heimavelli í Þýskalandi.
Frakkar slógu út meistara Brassa á laugardaginn í Frankfurt mér og fleirum til vonbrigða. Í kvöld tryggðu Frakkar sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Portúgölum í München. Það er því orðið ljóst að Frakkar og Ítalir keppa til úrslita á sunnudaginn í Berlín. Á laugardaginn munu svo Þjóðverjar og Portúgalir keppa um bronsið í Stuttgart. Það eru átta ár síðan að Frakkar urðu heimsmeistarar síðast - þá á heimavelli í París í sögulegum leik þar sem þeir lögðu Brassana. Þeir léku þann leik eftir á laugardaginn. Frakkar léku illa framan af móti og fáir spáðu þeim alla leið í úrslitaleikinn. Það hefur þó gerst. Tólf ár eru síðan að Ítalir komust síðast í úrslitaleik. Þeir töpuðu fyrir Brössum í úrslitaleiknum í Bandaríkjunum árið 1994 - töpuðu í vítaspyrnukeppni sem mörgum er enn fersk í minni.
Ef ég á að giska um stöðuna eins og nú er orðið ljóst tel ég að Ítalir verði heimsmeistarar og að Þjóðverjar taki bronsið. Ítalir eru orðnir hungraðir í alþjóðlegan fótboltatitil - svo mikið er víst. Þeir urðu síðast heimsmeistarar fyrir 24 árum - árið 1982 og sigruðu þá Vestur-Þjóðverja. Ítalir höfðu aldrei tapað fyrir Þjóðverjum á heimsmeistaramóti þegar að þeir sigruðu þá í gær og það breyttist ekki. Ítalir hafa orðið heimsmeistarar þrisvar: árin 1934, 1938 og 1982. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður að fjögur Evrópulið keppi í fjögurra liða úrslitum. Eins og fyrr segir eru vonbrigðin mikil í S-Ameríku en spútniklið Brassa og Argentínumanna eru farin úr keppninni. Vonbrigðin eru líka mikil á heimavelli í Þýskalandi, enda voru heimamenn farnir að telja sitt lið líklegt til að fara alla leið. Sviplegt fall þeirra í gær var þeim þungt áfall.
En nú tekur lokaspretturinn við. Tveir æsispennandi leikir eftir og verður áhugavert að fylgjast með þessum lokaleikjum í keppninni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)