21.8.2006 | 22:54
Ný söguleg hlið á farsælu samstarfi

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lauk stjórnmálaferli sínum á föstudag með því að minnast sérstaklega á það að myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995 hefði verið merkasta verk sitt í stjórnmálum. Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, enda blasir við öllum að um er að ræða mjög farsælt og gott stjórnarsamstarf. Flestir þekkja sögu þess. Það hefur nú staðið samfellt í 11 ár og er það öðru fremur til marks um hversu farsællega flokkarnir hafa starfað saman að þjóðarheill og leitt farsæl mál til lykta með samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins næsta vor muni hún slá met viðreisnar.
Lengi vel hefur það verið mat sagnfræðinga og stjórnmálaáhugamanna að stjórnin hafi verið mynduð sem fyrsti kostur eftir að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat við völd á árunum 1991-1995, eftir kosningarnar 1995 og því aldrei reynt á möguleika á vinstristjórnarmynstri. Í kveðjuræðu Halldórs á föstudag kom það fram í fyrsta skipti, með afgerandi hætti, að Framsóknarflokkurinn hefði eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir, en ríkisstjórnin hélt velli, boðist til að mynda vinstristjórn undir sínu forsæti með Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Það hefði Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, ekki ljáð máls á og valið Sjálfstæðisflokkinn sem sinn fyrsta kost rétt eins og eftir kosningarnar 1991. Með öðrum orðum: rætt var um vinstristjórn og Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðræðum um þann möguleika.
Allir vita hvað tók við: Jón Baldvin fór í viðræður við Davíð Oddsson, þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, um að halda samstarfinu áfram. Davíð mat það svo ekki starfhæft samstarf enda höfðu flokkarnir naumasta mögulega meirihluta, 32 þingsæti. Eins og hlutirnir höfðu spilast innan Alþýðuflokksins kjörtímabilið á undan var það rétt mat, en flokkurinn logaði eins og Róm stafnanna milli á þeim tíma. Við tóku viðræður sjálfstæðismanna við framsókn og náðust samningar fljótt og vel. Aldrei eftir það reyndi á vinstristjórnarsamstarf en þegar þarna var komið sögu var auðvitað Jón Baldvin flúinn á vit Halldórs sem vildi ekki við hann tala frekar en Ólaf Ragnar, síðar forseta lýðveldisins. Niðurstaðan varð þessi. Lengi vel var hin einfalda söguskýring að þessi tvö mynstur (D+A og D+B) hefðu verið á borðinu en nú vita menn að rætt var um vinstrisamstarf.
Það hefði verið fróðlegt hvernig íslensk stjórnmálasaga undir lok 20. aldarinnar og byrjun þeirrar 21. hefði orðið ef mynduð hefði verið vinstristjórn. Aldrei hefði Kárahnjúkavirkjun verið sett á teikniborðið, aldrei hefði verið einkavætt og frjálsræðið víða orðið mun minna. Flest af okkur sem viljum frjálsræði og farsælt þjóðfélag hefðum ekki viljað slíka pólitíska sögu og það er því í senn gleðiefni og farsælt að svona hafi farið og þessi stjórn hafi verið mynduð. Hún hefur verið farsæl. 11 ár samstarfs flokkanna hefur verið mjög öflugt tímabil. Það er t.d. enginn vafi á því í mínum huga að þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála.
Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum.
Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar. Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar, sem telst ekkert annað en mikið gleðiefni. Nú þegar stendur fyrir dyrum uppbygging iðnaðar á Austurlandi, sem mun styrkja austfirskar byggðir til muna.
Þetta samstarf byggðist mjög lengi upp á farsælu samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í forystusveit. Nú hafa þeir báðir hætt þátttöku í stjórnmálum. Í stað þeirra leiða nú Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, samstarfið. Ég tel að kjör Jóns hafi styrkt þetta stjórnarsamstarf og tel mjög vænlegt að hugsa til þess að það muni halda áfram að loknum næstu kosningum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að samstarf flokkanna muni halda áfram muni stjórnarsamstarf flokkanna halda velli í þingkosningum næsta vor, en það er ekki útilokað sé miðað við skoðanakannanir sem sýna að staða stjórnarinnar hafi styrkst seinustu mánuði að nýju.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2006 | 21:53
Átök um forystu Samfylkingarinnar í NA
Það er greinilegt að það er komið líf í framboðsmál Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þegar virðist nokkuð ljóst að þingmenn flokksins í kjördæminu, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, hefðu áhuga á að halda sínum sess á framboðslistanum fyrir komandi kosningar og liggur t.d. algjörlega fyrir að Kristján vill halda leiðtogastól sínum. Fyrirfram þótti mér líklegt að einhverjir hefðu áhuga á að leggja í hann, en hann vann stólinn nokkuð auðveldlega í prófkjöri flokksins í október 2002 eftir að Svanfríður Jónasdóttir, þáv. alþingismaður og síðar bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, ákvað að hætta þingmennsku og sinna öðrum verkefnum. Einar Már keppti reyndar við Kristján um að leiða listann en Kristján naut yfirburðarstuðnings og þurfti lítið fyrir sigrinum að hafa í raun.
Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt hvað Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hyggðist fyrir. Lengi vel taldi ég að hún myndi jafnvel vilja fara alla leið og mynda leggja í Möllerinn af fullum þunga, berjast fyrir því að Akureyringur leiddi lista Samfylkingarinnar. Lára þykir hafa margt til brunns að bera og kom t.d. inn með nokkrum krafti (og óvænt) í prófkjörinu fyrrnefnda og náði fjórða sætinu og varð á eftir Örlygi Hnefli Jónssyni. Svo þegar að því kom að leggja listann fram á kjördæmisþingi var ákveðið af uppstillingarnefnd að hækka Láru upp á kostnað Þingeyingsins Örlygs Hnefils við litla gleði stuðningsmanna hans. Svo fór því að Lára varð þriðja og munaði litlu er á hólminn kom að hún næði kjöri á þing. Lengi vel kosninganætur í maí 2003 var Lára inni en undir lokin felldi Birkir Jón hana út.
Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Lára um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í annað sæti framboðslista flokksins í komandi kosningum, en ekki leggja í leiðtogaframboð. Það stefnir því flest í að hún og Norðfirðingurinn Einar Már berjist um annað sætið. Reyndar má fullyrða að austfirskir samfylkingarmenn séu vart sáttir við að láta eftir þingsæti sitt, enda verður að teljast óraunhæft að Samfylkingin fái þrjá þingmenn hér næst ef marka má sorgarsögu þeirra í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður flokksins fyrir rúmu ári. Þar hefur lítið sem ekkert gengið um verulega langt skeið og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi verið meira rætt um sorgarsögu Ingibjargar Sólrúnar en mikið mætti analísa sjálfsagt um mikið fall pólitísks ferils hennar. Pressan á flokksforystuna eykst væntanlega núna þegar að Framsókn hefur klárað sín mál.
Mikið er rætt um Smára Geirsson, sem til fjölda ára var aðalmaðurinn í sveitarstjórnarpólitíkinni í Norðfirði og Fjarðabyggð, en hann er nú ekki lengur leiðtogi Fjarðalistans. Reyndar hefur Fjarðalistinn reynt að fjarlægja sig eins mikið Samfylkingunni og þeir geta. Margoft í kosningabaráttunni í Fjarðabyggð í vor strikaði leiðtogi (og ekki síður frambjóðendurnir allir) Fjarðalistans yfir tengsl við flokka og reyndi með því að tryggja Smára kosningu, en hann var í fjórða sæti og hafðist með herkjum inn. Spurning er hvort Smári sjálfur vilji fara á þing og fari í prófkjör Samfylkingarinnar. Þegar stefnir allavega í slag milli Láru og Einars Más um annað sætið að öllu óbreyttu. Væntanlega mun Lára benda á ágæta stöðu flokksins á Akureyri og benda á mikilvægi þess að Samfylkingin á Akureyri eigi sér fulltrúa í forystusveit.
En það horfa fleiri Akureyringar til framboðs fyrir Samfylkinguna. Það vakti athygli mína að heyra af því í gær að Benedikt Sigurðarson, fyrrum stjórnarformaður KEA og skólastjóri í Brekkuskóla, sem var mikið í fréttum á síðasta ári vegna starfsloka Andra Teitssonar, þáv. kaupfélagsstjóra, vegna deilna um fæðingarorlof, hafi áhuga á fyrsta sæti flokksins í kjördæminu. Sagði hann í fréttum RÚVAK að skorað hefði verið á sig og hann að hugleiða málin. Benedikt fer væntanlega því í þingframboð fyrst svona yfirlýsingar eru gefnar. Benedikt er mágur Sigríðar Stefánsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa á Akureyri og formannsframbjóðanda í Alþýðubandalaginu árið 1987 sem tapaði nokkuð stórt fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni, síðar forseta Íslands, en Sigríður er nú deildarstjóri hjá Akureyrarbæ. Telur Benedikt þingframboð vænlegt nú, enda ekki lengur stjórnarformaður KEA.
Það má búast við hörðum slag hjá Samfylkingunni og væntanlega hafi fleiri en þessi hug á að fara fram í prófkjöri Samfylkingarinnar sem verður væntanlega fyrir jól, sennilega á svipuðum tíma og prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri var haldið í fyrra, en mig minnir að það hafi verið í nóvemberbyrjun. Væntanlega er Samfylkingin bara að spila um tvö þingsæti, sé staða mála flokksins á landsvísu metin sem heild, svo að væntanlega verður baráttan hörð og sýnt að sótt verður að þingmönnunum tveim úr nokkuð mörgum áttum og þegar t.d. ljóst að tekist verður á um leiðtogasætið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2006 | 23:43
Er Hillary farin að horfa til ársins 2008?

Um fátt er meira rætt í Bandaríkjunum þessa dagana en að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ætli í forsetaframboð á árinu 2008. Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi þessi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Þó svo að enn séu rúm tvö ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Við blasir þó að Hillary er talin svo sterk fyrirfram að fari hún fram fái hún útnefninguna nærri á silfurfati.
Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri, og vald forsetans með því þegar tekið að þverra.
Völd og áhrif Bush forseta ráðast reyndar nú umfram allt á því hvernig þingkosningarnar fara í nóvember. Missi repúblikanar völdin í annarri eða báðum deildum Bandaríkjaþings mun hann verða nær vængstýfður heima fyrir það sem eftir lifir forsetaferilsins. Þó að repúblikanar haldi völdum má búast við að hann lendi í vandræðum, enda er það almennt svo með forseta sem er að ljúka seinna tímabilinu að þeir eru veikir, enda ljóst að hvorki þurfa þeir að fara aftur í kosningar né heldur þurfa þingmennirnir á forsetanum að halda og hópast að baki þeim sem fara fram í næsta forsetakjöri. Nákvæmlega þetta gerðist með Bill Clinton, sem reyndar hafði þingið á móti sér meginhluta síns forsetaferils. Bush forseti mun altént leggja allt í sölurnar að halda þinginu sín megin og koma í veg fyrir að Íraksstríðið skaði flokkinn.
Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð innan Repúblikanaflokksins. Nægir þar að nefna George Pataki, ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist og John McCain. Margir fleiri eru nefndir. Enginn skortur verður á repúblikönum í kosningaslaginn þegar að Bush og Cheney hætta. Búast má við að allsherjar uppstokkun verði á Repúblikanaflokknum í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Eins og fyrr segir getur Bush ekki farið fram aftur og því líklegt að frambjóðandi með aðrar áherslur en forsetinn leiði flokkinn og í raun muni flokkurinn stokka sig og því verði í reynd ekki kosið um valdatíma forsetans. Það er reyndar greinilegt að repúblikanar reyna að fjarlægja sig forsetanum nokkuð en passa sig þó á að styggja hann ekki og nota því mikla reynslu hans.
En aftur að Hillary og demókrötum. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Aðeins eru fimm og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Meðan að hneykslismálin geisuðu vegna Monicu Lewinsky sat hún á sér, vitandi það að færi hún frá forsetanum myndi það skaða hana ekki síður en hann. Hillary var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Það þótti mikil pólitísk dirfska fyrir hana að leggja í framboð árið 2000 og hún leggja mikið undir. En hún tefldi rétt og henni tókst að byggja upp eigin feril er ferli makans lauk.
Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði. Það hlýtur að kitla hana að verða fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Greinilegt er að maður hennar vill að hún fari fram og leggji í slaginn.
Skorað var á Hillary að gefa kost á sér þegar árið 2004. Þá fór hún ekki fram, vitandi að framboð þá hefði að öllum líkindum skaðað hana verulega. Hún lofaði enda New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan á sínum tíma. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár er hún náði kjöri. Ein skemmtilegasta pólitíska auglýsing seinni tíma var reyndar í kosningunum 2000 í NY, af hálfu Rick Lazio, keppinautar hennar. Þar var mynd af Hillary skælbrosandi og svo barni í vöggu. Fyrir neðan kom hinn kaldhæðnislegi texti: "This baby has lived longer in New York than Hillary Clinton". Alveg mergjuð auglýsing en kom þó engan veginn í veg fyrir öruggan sigur Hillary í NY.
Enginn vafi leikur á því að Hillary verður endurkjörinn öldungadeildarþingmaður í New York. Hennar bíður lítil keppni í kosningunum og hún hlýtur þegar að vera farin að hugsa handan janúarmánaðar þegar að næsta kjörtímabil öldungadeildarinnar hefst formlega. Reyndar má búast við því að bráðlega eftir svokallaðar MidTerm election í nóvember hefjist keppnin um Hvíta húsið. Það er ekki svo rosalega langt til forsetakosninga og venjulega hefst undirbúningur og keppni bakvið tjöldin þegar að þingdeildirnar koma saman í janúar eftir miðtímabilskosningarnar. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton.
Þegar litið er til mögulegra andstæðinga Hillary, fari hún fram, er oftast litið á þá sem eru augljósastir í stöðunni, þeirra sem hafa reynslu af því harki sem fylgir forsetaframboði í Bandaríkjunum. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore, fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir George W. Bush í hinum æsispennandi og jafnframt sögulegu forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards, sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Enn heyrast kjaftasögur um að John Kerry hefði jafnvel áhuga á framboði aftur, en víst má telja að margir telji ólíklegt að Kerry takist að vinna árið 2008 fyrst honum mistókst það árið 2004 þó að hann reyndi að hamra á Íraksstríðinu og stöðu mála þar. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða varla bógar í það.
Það vita reyndar allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur Demókrataflokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í júlí 2004, þar sem Kerry var útnefndur til verka sem frambjóðandi flokksins gegn Bush í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Kannanir sýna enda að hún gæti neglt útnefninguna nokkuð auðveldlega leggi hún í slaginn. En það eru áhættur á veginum, sérstaklega fyrir fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem gæti skaðast tapi Hillary fyrir repúblikana. Þó er enginn vafi að framboð kitlar Hillary. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.
Og stjörnuljóminn einn gæti alveg borið þessa miðaldra konu í borg háhýsanna alla leið í Pennsylvaniu-götu í Washington eftir nokkur ár - hver veit annars. Ljóst er allavega að æsispennandi tímar eru framundan í bandarískri pólitík.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2006 | 15:13
Hver er Jón Sigurðsson?

Það er greinilegt eftir flokksþing framsóknarmanna að rykið hefur sest í öllum stympingunum í flokksforystunni þar seinustu árin, ólgan milli forystu flokksins og grasrótarinnar er ekki eins hörð og áður. Það hefur verið kosið milli manna og eftir stendur flokkur sem getur skartað forystu þar sem eru ólíkar áherslur og fylkingar með sinn fulltrúa. Allir geta farið tiltölulega sáttir heim, þó sumir hafi orðið að skúffa eigin framavonum um sinn. Reyndar verður væntanlega staldrað við það að tveir karlmenn eru í æðstu sveit embætta, en eftir stendur að þessi blanda getur sætt ólík sjónarmið. Þó að Siv Friðleifsdóttir, öflug forystukona innan Framsóknarflokksins, hafi lotið í gras í formannskjöri leikur enginn vafi á því að hún stendur sterkar eftir en fyrir. Hún tók rétta áhættu, góð útkoma hennar í formannskjörinu tryggir henni auðvelda leið í æðstu sveit flokksins að vori.
Stóra spurningin eftir flokksþingið snýst um þann mann sem aðeins á tíu vikum hefur tekist að leggja flokkinn að fótum sér, komast þar til forystu, bjóða sjálfan sig fram sem kost sáttar og samstöðu og stendur eftir sem flokksleiðtogi í elsta stjórnmálaflokki landsins. Hver er Jón Sigurðsson? Þetta er spurning sem flestir stjórnmálaáhugamenn spá mikið í núna og satt best að segja vita ekki til fulls hvernig skal svara. Eftir stendur sextugur flokkshollur maður, sem ávallt hefur fórnað sér fyrir flokkinn í verkefni og ábyrgðarfullt innra starf á bakvið tjöldin, í fylkingarbrjósti og er orðinn flokksformaður eftir Halldór Ásgrímsson, sem hafði á sér ímynd klettsins í hafinu lengst af en var undir lokin orðinn akkilesarhæll flokks sem virðist fara sífellt minnkandi í pólitísku litrófi. Stóra spurningin er hvert mun Jón Sigurðsson fara með þennan flokk og hvernig mun hann installera sína forystu.
Ég verð að viðurkenna að ég varð að hugsa mig um allnokkra stund í júníbyrjun þegar að ég heyrði skoðanir manns sem ég þekki vel og met mikils í minni fjölskyldu, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn hér á Akureyri, er hann sagði að Jón Sigurðsson væri sennilega kandidatinn sem Halldór horfði til að redda málunum, þegar að allt var farið fjandans til í flokkskjarnanum, svo maður tali hreina og beina íslensku. Skyndilega mundi ég eftir Jóni Sigurðssyni, seðlabankastjóra, sem hafði í formannstíð Steingríms og Halldórs verið kallaður til, ævinlega til skítverka sem þurfti að leggja í að laga - hann var alltaf í að redda málunum. Ég mundi þá aðeins eftir Jóni sem grandvörum en athugulum bankastjóra en fór í það verkefni að tína upp brot um manninn. Ég sá að þarna var kominn maður flokkshollustu, maður sem hugsaði sem svo, hvað get ég gert fyrir flokkinn minn? Hann væri æðri sér.
Þegar að ég fór að hugsa til Jóns Sigurðssonar í sumarbyrjun hugsaði ég nokkur ár aftur í tímann. Það var til þáttaraðar Viðars Víkingssonar um Samband íslenskra samvinnufélaga, helstu valda- og kjarnastofnun Framsóknarflokksins í áratugi. Í þessum þætti, sem bar á sér allt bragð minningargreinar um stórveldið sem féll og endaði sem hver annar munaðarleysingi sem allir vildu þvo sig af, birtist Jón Sigurðsson, samvinnumaðurinn sem þekkti sögu SÍS. Í morgun tók ég mig til og spólaði mig inn í þáttinn, enda á ég þá eins og margt annað gott sjónvarpsefni. Þar sem ég horfði á þættina birtist mér maður sem var miðpunkturinn á gullaldartíma þessa kerfis, var partur af því og samherji allra þeirra sem héldu um málin innan SÍS. Hann var vinur Vals Arnþórssonar (manns sem var samviska SÍS alla sína starfsævi, reddaði málum) og félaga hans. Jón virkaði þarna á mig sem samviska þessa tíma.
Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón er hluti þessarar gömlu fortíðar. Síðar bjargaði hann peningahítinni í kringum tímaritaútgáfu Tímans (sem var að draga flokkinn til glötunar fjármálalega) og bjargaði Byggðastofnun úr skítahaugnum sem stóð eftir formannstíð Kristins H. Gunnarssonar þar inni. Þar kom hann vinkonu sinni og Halldórs, henni Völlu frá Lómatjörn, til bjargar. Þar var hann reddarinn. Það er því svosem varla stórt undrunarefni þó að margir eldri flokksmenn sem voru staddir á Hótel Loftleiðum hafi hugsað sem svo: "Æi hann Jón á nú þetta inni hjá okkur - hann hefur alltaf reddað okkur og býður okkur að rífa okkur nú enn eina ferðina upp úr skítnum". Ég held að margir flokksmenn gömlu hugsunar og samvisku flokksins hafi einmitt hugsað svona. Svo við tölum mannamál að þá er meginþorri þeirra sem mæta á fundi svona flokksmaskínu Framsóknar einmitt partur af þessari fortíð líka.
En nú er Jón orðinn formaður flokksins, hann er ekki aðeins flokksformaður smáflokks sem sumir vilja kalla sem svo til að niðurlægja þá, hann er skyndilega orðinn einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er Jón orðinn lykilmaður í íslenskri pólitík. Hann á risavaxið verkefni fyrir höndum. Annaðhvort verður hann bjargvættur flokksins (enn eina ferðina) eða mun verða maðurinn sem verður brennimerktur sem afgangsmistök fyrrum flokksformanns sem hugsaði til Jóns á þeirri stundu er draga þurfti flokkinn upp úr þeim skít sem hann sjálfur skildi eftir en hann gat hvorki né treysti sér í að moka til fulls. Hann var með mann til verksins - mann sem treysti sér í að redda málunum.
En hver er pólitík Jóns Sigurðssonar, þessa nýja og valdamikla leiðtoga? Fæst þekkjum við hann sem stjórnmálamann - nú verður hann vessgú að mæta á hið pólitíska svið og standa sig sem slíkur. Ég held t.d. að hann og Geir Haarde, forsætisráðherra, geti náð vel saman og tel kjör hans boða gott fyrir þetta farsæla stjórnarsamstarf. Ég verð að viðurkenna að auki því sem fyrr er sagt að ég mundi eftir Jóni Sigurðssyni sem einum nánasta samherja Halldórs í stefnumótun innan flokksins. Það var hann sem mótaði stefnutal Halldórs um ESB, hann var helsti ráðgjafi Halldórs í efnahagsmálum og svo miklu meira. Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón Sigurðsson var maðurinn á bakvið tjöldin í allri stefnumótun Halldórs. Er því nokkuð óeðlilegt að meta stöðuna sem svo að Jón haldi áfram þar sem Halldór skildi við er hann kvaddi flokkinn á föstudag?
Það eru margar spurningar í hausnum á mér er ég horfi á sextugan mann taka kjöri sem flokksformaður, mann sem hefur aldrei verið miðpunktur stjórnmálabaráttu og stígur fram á sviðið sem sáttasveinn flokksins, reynir að redda því sem aflaga hefur farið. Fyrst og fremst vil ég sjá hvernig pólitíkus Jón verði. Ég hef óljósar hugmyndir um það en grunar margt. Það er um að gera að gefa þessum sáttasemjara flokksins tækifæri á að sanna sig. Hann allavega hefur athygli okkar allra.
Það segir mér svo hugur að hann muni ekki rugga bátnum en haldi nú í það verkefni að sameina það sundraða og skaddaða fley sem Framsóknarflokkurinn er orðið í íslenskum stjórnmálum. Það verður svo sannarlega áhugavert að vera pólitískur áhorfandi á þessum kosningavetri. En já nú verður Jón Sigurðsson að sanna sig. Það er ekki öfundsvert að vera hann, enda hefur hann risavaxið verkefni og erfitt í höndunum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2006 | 21:47
Ný forysta til verka í Framsóknarflokknum

29. flokksþingi Framsóknarflokksins lauk síðdegis í dag. Þetta var stutt flokksþing hjá Framsóknarflokknum, aðeins rétt um sólarhringur. En nóg var þar þó af verkefnum. Tilgangur þess var fyrst og fremst að velja flokknum nýja forystu og greinilega til að hefja nýja sókn eftir mikla niðursveiflu í pólitískri umræðu seinustu ár og mánuði, en flokkurinn mælist aðeins með um eða rétt yfir 10% fylgi í skoðanakönnunum. Halldór Ásgrímsson kvaddi stjórnmálin á flokksþinginu og sagði skilið við forystu flokksins eftir aldarfjórðung á formanns- og varaformannsstóli. Á mánudag mun hann láta af þingmennsku og halda í aðrar áttir eftir um margt sögulegan stjórnmálaferil sinn. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var kjörinn eftirmaður hans og mun takast á hendur það verkefni að leiða flokkinn í gegnum erfiðan kosningavetur. Næg verkefni bíða hans í forystu flokksins.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, vann endurkjör á varaformannsstóli og sigraði Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, með nokkrum yfirburðum. Guðni lagði mikið undir í kjörinu, enda lagði hann ekki í formannsslaginn við Jón Sigurðsson. Hann mat stöðuna rétt og sá að landsbyggðarkjarni hans myndi skipta sköpum hvort sem að Jón eða Siv yrðu kjörin til verka á formannsstóli. Hvað svo sem segja má um Guðna má reyndar fullyrða með nokkurri vissu að hann sé hinn ekta framsóknarmaður að flestra mati og víst er að stjórnmálin væru nokkuð litlaus án hans, en hann hefur oftar en ekki vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í pólitík og hnyttinn talsmáta um menn og málefni stjórnmálanna. Það er mitt mat að Guðni hafi lesið rétt í spilin og lagt rétt undir. Hvað svo sem segja má um ákvörðun hans að leggja ekki í formannsslaginn má fullyrða að hann haldi sínum pólitísku völdum eftir brotthvarf Halldórs.
Fyrirfram var ljóst fyrir þetta flokksþing að tekist yrði á um ritaraembættið, enda höfðu fjórir mjög góðir kostir komið þar fram. Svo fór ekki er á hólminn kom. Öllum varð ljóst eftir kjör í formanns- og varaformannsembættið að Framsóknarflokkurinn þyrfti að tefla konu fram til ritarastarfans. Það fór því svo að alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson stigu til hliðar og hvöttu flokksmenn til að velja konu. Fyrirfram hafði ein kona, Sæunn Stefánsdóttir varaþingmaður og pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar á ráðherrastóli, gefið kost á sér til embættisins. Greinilegt var með fyrrnefndum yfirlýsingum að samstaða myndi að mestu nást um hana. Sæunn hlaut um 75% atkvæða og örugga kosningu en Haukur Logi Karlsson hlaut um 15%. Hefði kona valist til formanns- eða varaformannsembættisins hefðu mál eflaust farið á annan veg en Sæunn tefldi rétt eins og Guðni er til þingsins kom.
Framsóknarflokkurinn stendur nokkuð breyttur eftir að loknu þessu sögulega flokksþingi sínu. Halldór Ásgrímsson er horfinn af velli og ný forysta tekur við flokknum af honum. Jón Sigurðsson hlaut gott umboð til formennsku, sama má segja um þau Guðna og Sæunni sem hlutu góða kosningu til sinna miklu verka á kosningavetri. Það blandast engum hugur eftir þetta flokksþing að þar fæddist ný pólitísk stjarna á sama tíma og lífsreyndur flokksmaður varð flokksformaður, sem fáum hefði órað fyrir jafnvel fyrir aðeins örfáum mánuðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum Jóns Sigurðssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins og ekki síður Sæunnar Stefánsdóttur sem ritara flokksins. Bæði eru að koma ný inn til verka í forystusveit og munu verða áberandi á Alþingi næstu mánuðina og væntanlega í kosningabaráttunni.
Sæunn Stefánsdóttir er greinileg ný pólitísk stjarna. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum hefðu fáir spáð því að hún hlyti hinn valdamikla sess sem ritaraembættið er innan Framsóknarflokksins. Ritarinn stjórnar öllu innra starfi flokksins og er formaður landsstjórnar hans. Sæunn mun á mánudag taka formlega sæti á Alþingi er Halldór Ásgrímsson lætur af þingmennsku eftir langa þingsetu, en hann er sem kunnugt er starfsaldursforseti Alþingis. Það er skemmtileg tilviljun að þingsæti Halldórs erfist til ungrar konu, forystukonu innan flokksins. Halldór var 26 ára þegar að hann tók sæti á Alþingi árið 1974 og Sæunn Stefánsdóttir er 27 ára þegar að hún kemur nú inn í þingflokk og forystusveit Framsóknarflokksins. Allra augu verða á henni í verkum sínum og má fullyrða að þar fari framtíðarkona innan flokksins, sem eigi eftir að láta til sín taka.
Að síðustu: margir hafa sent mér póst og haft samband við mig um þessi miklu skrif um Framsóknarflokkinn og haft áhuga á það hversu vel ég fjalla um leiðtogakjör í litlum stjórnmálaflokki. Ástæðan fyrir því að ég fjalla um þessi mál er einföld. Ég hef áhuga á stjórnmálum, ég hef áhuga á því að spá í pólitík. Því fær ekkert breytt að Framsóknarflokkurinn er áhrifamikill flokkur, þrátt fyrir minnkandi fylgi greinilega seinustu mánuði, og hann hefur verið flokkur áhrifa í stjórnmálasögu landsins alla tíð. Ég lít á þennan vef sem vettvang stjórnmálapælinga minna. Ég fjalla vel um þessi mál því að mörgu leyti hef ég ávallt metið Framsóknarflokkinn nokkurs, hann er stofnun í stjórnmálalitrófi landsins og verið áberandi þar alla mína ævi. Það er því eðlilegt að ég hafi áhuga á forystumálum hans og vilji skrifa um þau.
Ég verð enda ekki var við annað en að allra flokka fólk hafi áhuga á að analísa þá stöðu sem þar er. Það gildir það sama um stjórnmálaáhugamenn í öllum flokkum, þar á meðal mig, og svo auðvitað fræðimenn víða sem fylgjast með stöðu mála. Ég fer ekki leynt með það að ég hef alla mína ævi verið ósammála Framsóknarflokknum að mörgu leyti og haft aðra skoðun á fjölda hitamála en fram hafa komið innan hans og forystumanna hans í öll þau ár sem ég hef fylgst með stjórnmálum. En þeir sem ætla sér að fylgjast með stjórnmálum og ætla að reyna að komast hjá því að horfa til Framsóknarflokksins í pólitískum pælingum og spámennsku á opinberum vettvangi á sama tíma ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Ég fell ekki í þá gryfju, hreint út sagt. Þetta er flokkur með sögu, einkum valdasögu, sem er merk.
En já, spennandi tímar eru framundan í íslenskum stjórnmálum. Nú hafa Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson báðir horfið á braut og yfirgefið stjórnmálin eftir mjög langa og farsæla stjórnmálaforystu í ríkisstjórn landsins og Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson hafa tekið við forystu stjórnarflokkanna nokkrum misserum fyrir alþingiskosningar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að stjórnarsamstarfið gangi undir forystu þeirra á þessum kosningavetri og hvort að þetta langlífa stjórnarsamstarf lifi lengur en fram að kosningum. Það yrði sögulegt ef að það yrði áfram við völd. Fyrst og fremst er merkilegt að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki velja öflugar konur til forystu, en þeim gafst tækifærið en nýttu það ekki. En þær standa sterkar eftir, einkum Siv sem fékk góða kosningu þrátt fyrir tap.
En við stjórnmálaáhugamönnum blasir ný forysta Framsóknarflokksins. Það verður hennar hlutverk umfram allt að lægja öldur í sundruðum og ósamstilltum flokki og tryggja að hann komi ekki sem laskað fley að landi í kosningunum. Þeirra bíður mikið og erfitt verkefni, það má fullyrða það með nokkrum sanni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2006 | 11:57
Jón kjörinn formaður Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann er þrettándi formaður Framsóknarflokksins frá stofnun flokksins árið 1916, fyrir 90 árum. Jón sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, í formannskjörinu. Hann hlaut 412 atkvæði eða tæp 55%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 336 atkvæði eða rúm 44%. Jón tekur við formennsku flokksins af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem nú hættir í stjórnmálum eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil og tólf ára setu á formannsstóli. Er úrslitin voru kynnt á Hótel Loftleiðum á tólfta tímanum var Halldór hylltur fyrir störf sín í þágu flokksins, en hann hefur verið í forystusveit flokksins í aldarfjórðung.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, verður sextugur á miðvikudag, hann er fæddur 23. ágúst 1946. Jón varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra í júní þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í ríkisstjórn. Hann varð með því fyrsti maðurinn til að gegna ráðherraembætti án þess að vera þingmaður frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra 1988-1991. Jón hefur til fjölda ára verið virkur í starfi Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hann og var seðlabankastjóri 2003-2006. Það vakti mikla athygli að hann ákvað að fórna öruggum seðlabankastjórastól fyrir óvissu stjórnmálanna.

Ég vil óska Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, til hamingju með kjörið. Hann vann nokkuð góðan sigur þrátt fyrir harða baráttu um embættið. Það verður hans hlutverk að taka við þessum elsta flokk landsins núna þegar að stjórnmálaferli Halldórs Ásgrímssonar er lokið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóni gangi á formannsstóli á næstu mánuðum, er landsmenn fá betur að kynnast stjórnmálamanninum Jóni Sigurðssyni, en aðeins eru tveir mánuðir síðan að hann fór í stjórnmálin, eins og fyrr segir.
Fróðlegt verður að sjá hvar Jón fari fram að vori, enda öllum ljóst að formaður Framsóknarflokksins verður ekki utanþings lengur en fram að næstu kosningum. Það verður verkefni Jóns að leiða flokkinn á kosningavetri og í gegnum næstu alþingiskosningar. Fullyrða má að þar muni örlög flokksins ráðast og hvort að hann nái að snúa vörn í sókn. Altént er öllum ljóst að með formannskjöri Jóns Sigurðssonar verður áferðarbreyting á flokknum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2006 | 08:49
Flokkur á krossgötum velur nýjan formann


Halldór Ásgrímsson hefur nú kvatt forystusveit Framsóknarflokksins og yfirgefið íslensk stjórnmál eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil. Í dag er komið að því að eftirmaður hans sem formaður flokksins verði kjörinn á flokksþinginu á Hótel Loftleiðum, svo og kosið um það hverjir gegni embættum varaformanns og ritara. Kjörið hefst nú í morgunsárið og kl. 11:00 verður því formlega lýst yfir hvort að Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, verði næsti formaður Framsóknarflokksins, sá þrettándi í röðinni í 90 ára sögu flokksins. Jón og Siv eru mjög ólík og er því hægt að fullyrða með mikilli vissu að breytingar verði á flokknum sama hvort þeirra muni sigra og taka við keflinu af Halldóri Ásgrímssyni.
Í sumarbyrjun hefði fáum dottið í hug að seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson yrði jafnvel eftirmaður Halldórs á formannsstóli og eða að hann yrði ráðherra í ríkisstjórninni og fórnaði öruggum bankastjórastól sínum fyrir óvissa framtíð stjórnmálanna. Kom innkoma hans flestum stjórnmálaáhugamönnum á óvart, enda situr Jón ekki á Alþingi og hafði aldrei verið kjörinn fulltrúi flokksins á opinberum vettvangi stjórnmála. Hlaut hann mjög stórt ráðuneyti og vakti athygli hversu mikla trú fráfarandi formaður og þingflokkurinn höfðu á honum. Jón nýtti sér tómarúmið eftir að Halldór fór úr ríkisstjórn til að tilkynna formannsframboð sitt snemma og kom greinilega varaformanninum Guðna Ágústssyni það mjög að óvörum að hann lagði ekki í baráttu við hann. Jón hefur lengi verið í innra starfi flokksins og því þekktur þar, en ekki mikið utan hans. Verði hann kjörinn bíður hans það verkefni að kynna sig og sínar áherslur fyrir þjóðinni.
Siv Friðleifsdóttir hafði verið nefnd sem formannsefni í flokknum í allt sumar og beðið var eftir ákvörðun hennar mjög lengi. Hún tilkynnti framboð sitt seint, á afmælisdegi sínum, þann 10. ágúst sl. Mörgum fannst hún vera lengi að taka ákvörðun og veita Jóni of mikið forskot. Siv er þó auðvitað ólík Jóni sérstaklega að því leyti að hún hefur helgað sig stjórnmálum í sextán ár, eða allt frá því að hún var kjörin formaður SUF, fyrst kvenna, árið 1990. Hún varð bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi sama ár, sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi árið 1995, fór þá á þing, varð umhverfisráðherra árið 1999 og heilbrigðisráðherra árið 2006. Hún var utan stjórnar í tvö ár og hefur ófriðarbálið innan flokksins oft verið rakið til þess að hún missti sæti sitt. Hún lagði í formannsslaginn viss um gott gengi og taldi sig ekki þurfa langan tíma, enda myndu verk hennar fyrir flokkinn til fjölda ára tala sínu máli fyllilega.
Má búast við að formannskjörið geti orðið mjög jafnt og spennandi, svo virðist enda sem að spennan innan flokksins um að hvort þeirra muni leiða þennan elsta flokk landsins hafi aukist sífellt eftir því sem nær dró. Jón var framan af talinn hafa óyfirstíganlegt forskot og talinn vera með pálmann í höndunum en innkoma Sivjar hefur breytt stöðunni og hún sífellt bætt við sig fylgi eftir því sem liðið hefur að formannskjörinu. Eru menn því ekki vissir um hvernig fari. Jón virðist hafa sterka stöðu víða um land, en sama má segja auðvitað um Siv ennfremur, enda er hún víða með sterk tengsl, enda hefur hún sem ritari flokksins í fimm ár leitt innra starf hans og verið formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins.
Er erfitt að kortleggja stöðu Jóns, en þó eru deildar meiningar um pólitíska innkomu hans svo snögglega og telja margir það vera greinilegt útspil fráfarandi formanns til að reyna að tryggja að eftirmaður hans verði svokallaður bráðabirgðaformaður og auðvelt verði að koma einhverjum öðrum fylgismanni hans í formannsstólinn, t.d. Birni Inga Hrafnssyni, til valda síðar meir með auðveldum hætti. Sigri Siv má búast við að hún verði enginn bráðabirgðaformaður, enda er hún aðeins 44 ára gömul og því heilum 16 árum yngri en Jón Sigurðsson. Mjög deildar skoðanir virðast vera uppi víða, innan flokks sem utan, um Jón og margir hafa undrast gamaldags framkomu hans í sjónvarpsviðtölum seinustu vikurnar.
Það stefnir í spennandi kosningu um embætti varaformanns, rétt eins og um embætti flokksformannsins. Verður fróðlegt að sjá hvort að Guðni Ágústsson, sem verið hefur þingmaður frá árinu 1987, ráðherra frá árinu 1999 og varaformaður í rúm fimm ár, muni halda velli á sínum stóli, þrátt fyrir að hann hafi ekki lagt í formannsslaginn þó auðvitað augljós kostur væri, þrátt fyrir illindi milli hans og fráfarandi formanns. Atlaga Jónínu Bjartmarz að honum hefur vakið athygli og mun pólitísk framtíð Guðna ráðast af úrslitunum. Svo verður spennandi að sjá hver vinnur ritaraembættið, þar sem fjórir eru í kjöri, og verður með því í forystu alls innra starfs flokksins sem formaður landsstjórnar flokksins.
Það má búast við spennandi og jöfnum kosningum á þessu flokksþingi, væntanlega þeim mest spennandi í sögu Framsóknarflokksins allt frá árinu 1944 er Hermann Jónasson felldi Jónas Jónsson frá Hriflu af formannsstóli, eftir tíu ára formannsferil hans. Það voru mikil þáttaskil fyrir flokkinn sem fólust í því uppgjöri og brennimerktu flokkinn til fjölda ára eftir það og hafði víðtæk áhrif á heila kynslóð flokksmanna með mörgum hætti, enda hafði Jónas verið einn stofnenda og hugmyndafræðinga flokksins. Framsóknarflokkurinn var byggður á samvinnuhugsjóninni og hefur verið flokkur landbúnaðarins. Nú blasir við að hann verður að marka sér nýtt líf og nýja tilveru á pólitískum krossgötum í upphafi nýrrar aldar.
Það blasir við að mikið verkefni blasir við þeim einstakling sem hlýtur kjör sem formaður Framsóknarflokksins í dag. Það verður hlutverk nýs formanns að leiða flokkinn inn í væntanlegan kosningavetur og í þá kosningabaráttu sem framundan er, en í þeirri baráttu gætu örlög flokksins ráðist og hvort honum tekst að rífa sig upp úr þeirri miklu lægð sem hann hefur verið mjög lengi. Hvort sem að Jón eða Siv leiða flokkinn í gegnum kosningarnar má fullyrða að flokkurinn þarf að fara í verulega uppstokkun til að ná að endurheimta sína fyrri stöðu að þingkosningum loknum eftir níu mánuði.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 21:11
Tilfinningarík kveðjustund Halldórs

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, sagði skilið við íslensk stjórnmál og kvaddi flokksfélaga sína formlega með ítarlegri yfirlitsræðu við setningu flokksþings Framsóknarflokksins síðdegis í dag. Það sást á orðum og fasi Halldórs að komið var að kveðjustund, endalokum hans í forystu Framsóknarflokksins, flokks sem hann hefur helgað starfskrafta sína í þrjá áratugi. Þetta var í senn ræða tilfinninga og styrkleika, en ekki uppgjörs, merkilegt nokk. Halldór fór yfir sviðið allt á þeirri stund að hann yfirgefur stjórnmálaforystu þess flokks sem hann hefur verið í fylkingarbrjósti í aldarfjórðung. Hann fór yfir langan stjórnmálaferil sinn og gerði upp við þau mál sem hann taldi rétt að fara yfir. Mikla athygli vakti að hann notaði ekki kveðjustundina til að gera upp við innanflokkserjurnar innan Framsóknarflokksins undir lok tólf ára formannsferils hans, sem svo mjög settu svip á stormasaman forsætisráðherraferil hans.
Mér fannst Halldóri mælast mjög vel á þessari kveðjustund, sem í senn markar þáttaskil bæði fyrir Framsóknarflokkinn og íslensk stjórnmál, enda hefur Halldór verið áhrifamaður í pólitíkinni hér í nokkra áratugi og sett svip á alla þjóðmálaumræðu, alla mína ævi og gott betur en það. Það er alveg ljóst að bestu ræður ferils síns hefur Halldór Ásgrímsson flutt einmitt við tækifæri sem þetta, í hópi félaga sinna, þeirra sem hafa stutt hann til þeirrar stjórnmálaforystu sem hann helgaði sér í árafjöld. Halldór hefur leitt Framsóknarflokkinn með nokkrum krafti og haft mjög sterkt umboð til þess verkefnis, þrátt fyrir vissa augljósa erfiðleika undir lokin. Halldór talaði til flokksmanna og landsmanna allra á kveðjustund með heilsteyptum hætti. Hann talaði af næmleika og tilfinningu, einkum undir lokin er hann þakkaði flokksmönnum fyrir samstarf og trúnað í gegnum árin.
Ein mestu vatnaskilin á pólitískum ferli Halldórs Ásgrímssonar voru alþingiskosningarnar 1995, fyrstu kosningarnar sem Halldór leiddi Framsóknarflokkinn. Í þeim kosningum vann flokkurinn nokkurn sigur, hlaut 15 þingsæti og var með mjög vænlega stöðu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hélt velli og ákveðið var að láta reyna á þann valkost. Í fyrsta skipti kom það fram nú, ellefu árum síðar, í kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar að Framsóknarflokkurinn hefði að þeim kosningum loknum boðið A-flokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags samstarf, sem hefði vænlega orðið undir forsæti Halldórs. Alþýðuflokkurinn afþakkaði það og hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Eins og allir vita ákvað Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar síðar að slíta samstarfinu og ganga til samninga við Framsóknarflokkinn. Úr varð sögulegt samstarf í íslenskri stjórnmálasögu sem enn er við völd.
Það er enginn vafi á því í mínum huga að í sögubókum framtíðarinnar verður stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks metið farsælt og það hafi skipt íslenskt þjóðarbú miklu. Farsæl forysta flokkanna hafði mikil áhrif til hins góða. Stjórnmálaforysta Davíðs Oddssonar og Halldórs í því samstarfi var öflug og setti mark á íslensk stjórnmál, og verður lengi í minnum höfð. Það eru mikil þáttaskil nú þegar að þeir báðir hafa sagt skilið við stjórnmálin en ég tel að verk þeirra muni standa lengi enn og verða áberandi. Það hafði ekki komið fram áður að Framsóknarflokkurinn hefði leitast eftir vinstristjórn fyrir ellefu árum. En flokkarnir náðu svo saman og mynduðu grunninn að þessu öfluga samstarfi, sem stefnir nú óðfluga í að verða langlífasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar. Það hefur skipt sköpum fyrir heill og hag landsins. Þar skipti framlag Halldórs mjög miklu máli.
Það var gleðilegt að heyra Halldór lýsa því yfir að hann teldi það hafa skipt mjög miklu máli að hafa myndað stjórn flokkanna tveggja fyrir ellefu árum. Það eru vissulega þáttaskil þegar að Halldór hverfur úr pólitík, enda hefur hann verið ein helsta burðarás þessarar ríkisstjórnar sem annar flokksleiðtoginn sem myndaði fyrsta ráðuneyti flokkanna á sínum tíma. Samstarf flokkanna hefur verið mjög traust og leikur enginn vafi á því að sterk pólitísk tengsl Halldórs og Davíðs mörkuðu undirstöðu vel heppnaðs samstarfs og þeirra áhrifa gætir enn þó aðrir hafi tekið við forystu í samstarfinu. Mér fannst alla tíð þeir vera mjög ólíkir leiðtogar en þeir sameinuðust mjög vel í verkefnum og náðu alltaf að sætta ólík sjónarmið tveggja stjórnmálaflokka, með ólík sjónarmið á jafnvel lykilmálum stjórnmálanna. Sáttin milli þeirra og flokkanna fólst í því að gera alltaf hið besta fyrir Ísland. Heildarhagsmunir landsins sameinuðu flokkana.
Ræða Halldórs var eins og fyrr segir virkilega góð. Það var athyglisvert að fylgjast með henni. Að mörgu leyti kom hún mér á óvart, sumu leyti ekki. Það kom mér nokkuð undarlega fyrir sjónir að Halldór skyldi ekki gera að fullu upp innri átök innan flokksins og skilja við flokkinn með öll mál uppi á borðinu og allar flækjur leystar. Það ákvað hann að gera ekki en skírskota þess þá frekar til pólitískra álitamála dagsins í dag, sem sum hver ráku flein á æðstu staði flokksins. Eitt þessara mála er óneitanlega Íraksstríðið sem varð Halldóri þungbært á árinu 2005. Hann nefndi það ekki beint en með skírskotun í eina átt, áralöngu varnarsamstarfi við Bandaríkin, vék hann að því. Lýsti hann vonbrigðum sínum með einhliða ákvarðanir Bandaríkjanna í þeim efnum. Sagðist hann ekki hægt að treysta Bandaríkjunum lengur í einu og öllu og sagði oftrú á þau hafa verið mistök. Með því má skilja að hann telji að ákvörðun um að treysta þeim í Íraksstríðinu hafi verið mistök.
Halldór fór yfir í ítarlegu máli stöðu landsins á þessum tímamótum að hann kveður stjórnmálin og benti á að á 90 ára afmæli sínu væri Framsóknarflokkurinn elsti flokkur landsins, sá sem lengst hefði komið fram undir eigin merkjum. Lengi vel hefur Framsóknarflokkurinn verið flokkur landbúnaðarins og að mörgu leyti hefur mér þótt verst að hann hafi lengi staðið vörð um úrelt landbúnaðarkerfi. Í ræðunni vék Halldór að nýlegri skýrslu Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, um matvælaverð. Það gladdi mig mjög að heyra formann Framsóknarflokksins taka undir hvað þurfi að gera og hann horfist í augu við framtíðina. Halldór er maður að meiri að mínu mati að hafa sagt að það verði að fella niður vörugjöld og breyta innflutningsvernd landbúnaðarvöru. Framsóknarflokkurinn hefur lengi viljað halda í kerfi, kerfisins vegna. Það er tímamótayfirlýsing að heyra þetta frá flokksþingi framsóknarmanna og Halldór á hrós skilið fyrir sín orð.
En já það er komið að pólitískum leiðarlokum hjá Halldóri Ásgrímssyni. Hann fór víða í þessari löngu ræðu og fór yfir mörg mál sem hafa verið áberandi en hann vék ekki að innri málum Framsóknarflokksins sem settu svip á forsætisráðherraferil hans og að mörgu leyti gerðu út af við hann. Ég hef oft sagt að þar hafi fleiri en Halldór brugðist innan flokksins, ég tel að allir í forystu hans hafi brugðist vegna innri ólgu, sú ólga skaðaði stjórnarforsæti flokksins svo mjög að hún rann þeim úr greipum. En þessi ræða Halldórs var full af þeim stíl sem einkenndi hann sem ræðumann á löngum stjórnmálaferli. Hann hefur verið þjóðernissinnaður stjórnmálamaður og notað kraftmikinn kveðskap Einars Benediktssonar mjög í ræðum sínum. Þessi var engin undantekning og fannst mér honum takast vel upp í vali á kveðskap, sem með táknrænum hætti sögðu meira en hann gaf í skyn á vissum stöðum.
Framsóknarflokkurinn stendur á pólitískum krossgötum nú þegar að Halldór Ásgrímsson hefur stigið niður af hinu pólitíska sviði, sem hefur verið vinnustaður hans og vettvangur í rúmlega þrjá áratugi. Hvað svo sem segja má um Halldór Ásgrímsson og forystuhæfileika hans er aldrei hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur. Enginn deilir enda um það að Halldór hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli sínum og var lykilþátttakandi í farsælum verkum öflugrar ríkisstjórnar á breytingatímum í íslensku þáttaskil við lok aldar og upphaf annarrar aldar.
Nú felur Halldór flokk sinn í hendur öðrum leiðtoga og yfirgefur stjórnmálaforystuna að loknu löngu dagsverki. Það verður fróðlegt að sjá hver pólitísk arfleifð Halldórs Ásgrímssonar verði í sögubókum framtíðarinnar. Að mörgu leyti mun hún ráðast af verkum annarra, hvernig eftirmanni hans tekst að höndla flokksformennsku við brotthvarf Halldórs. Að vissu leyti er tómarúm eftir innan Framsóknarflokksins að þessari kveðjustund lokinni. Altént má fullyrða að kveðjustundin hafi verið tilfinningarík og hafi að mörgu leyti lýst vel þeim manni sem var að kveðja. Halldór hefur verið maður tilfinninga og kvaddi sem slíkur.
Við blasa breytingar í lífi þess manns sem nú kveður og mun á mánudag, er hann segir af sér þingmennsku eftir þrjá áratugi á Alþingi Íslendinga, yfirgefa starfsvettvang sinn allt frá unglingsaldri. Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Halldóri Ásgrímssyni, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir í heilan aldarfjórðung.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 10:25
Halldór Ásgrímsson kveður íslensk stjórnmál

29. flokksþing Framsóknarflokksins verður sett á Hótel Loftleiðum kl. 17:00 í dag. Í upphafi flokksþingsins mun Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, flytja yfirlitsræðu sína. Ræðan markar endalok þriggja áratuga stjórnmálaferils Halldórs, sem verið hefur formaður Framsóknarflokksins allt frá árinu 1994, var varaformaður flokksins 1980-1994, ráðherra nær samfellt í tvo áratugi og alþingismaður nær samfellt allt frá árinu 1974. Framundan eru mjög mikil þáttaskil innan Framsóknarflokksins og í íslenskum stjórnmálum enda hefur Halldór verið aðalleikari í pólitíkinni til fjölda ára og verið mjög áberandi sem forystumaður flokks síns og verið í miðpunkti pólitískrar umræðu til fjölda ára. Á kveðjustund í dag meðal flokksmanna má búast við að hann fari yfir sinn umdeilda og litríka feril til fjölda ára í ítarlegu máli.
Það má vissulega margt segja um pólitískan feril Halldórs Ásgrímssonar nú þegar að hann líður undir lok. Halldór hefur helgað flokk sínum og innra starfi hans krafta sína í mjög langan tíma. Ævistarf Halldórs liggur í stjórnmálum og þó að skiptar skoðanir séu um hann má fullyrða að hann hafi unnið íslenskum stjórnmálum nokkuð gagn og verið ötull í stjórnmálabaráttu. Allan þann tíma sem ég hef fylgst með stjórnmálum hef ég talið Halldór Ásgrímsson mann orða sinna, gegnheilan og vandaðan mann sem ávallt hefur viljað gera sitt besta fyrir íslenska þjóð og reynt með góðmennsku sinni að leggja góðum málum lið og unnið þeim fylgilags og stuðnings með ýmsum hætti. Hann hefur verið duglegur forystumaður að mínu mati, fyrst og fremst tel ég að sagan muni meta hann sem grandvaran og heiðarlegan mann sem tryggði ásamt Davíð Oddssyni styrka stjórn landsins til fjölda ára.
Halldór hefur verið einn af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins á þessum langa ferli sínum, en við öllum blasir að hann hefur haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag með forystu sinni. Ungum voru honum falin forystustörf innan flokks síns, hann varð þingmaður 26 ára gamall og var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins 33 ára að aldri. Hann varð með því sjálfsagt ráðherraefni og aldrei lék vafi á því að hann væri framtíðarforingi flokks síns og var hann metinn krónprins Steingríms Hermannssonar nær alla formannstíð hans. Hann varð svo sjálfkrafa formaður flokksins við brotthvarf Steingríms úr stjórnmálum, er hann varð seðlabankastjóri árið 1994, og hlaut eftir það alltaf yfir 80% atkvæða á flokksþingi framsóknarmanna. Alla formannstíð sína var hann öflugur forystumaður flokksins og naut mikils stuðnings til forystu.
Það er fjarri lagi hinsvegar að ég hafi alltaf verið sáttur við Halldór Ásgrímsson. Það komu tímar þar sem ég var svo sannarlega ósammála honum og afstöðu flokks hans, enda er stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað fjarri því alveg eins í öllum grunnatriðum. Framsóknarmenn voru stundir mjög óbilgjarnir í samningum og kröfðust mikils. Ég fer ekkert leynt með það að ég tel t.d. að Framsóknarflokkurinn með Halldór í forsæti hafi gengið of langt með því að krefjast forsætis í ríkisstjórninni að loknum kosningunum 2003. Ég tel að Halldór hafi aldrei náð tökum á forsætinu, þar réðu mörg mál og einna mest innanflokkserjur innan flokks hans undir lok formannsferilsins. Innri átök á heimaslóðum gerðu það að verkum að Framsóknarflokkurinn höndlaði ekki forsætið. Ég tel þó að fleiri þættir en Halldór einn hafi ráðið úrslitum um hvernig fór fyrir stjórnarforsæti flokksins.
Ég er einn þeirra sem bíð eftir þessari kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar í íslenskum stjórnmálum með mikilli eftirvæntingu. Fjölmiðlamenn jafnt og stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með hverju einasta orði hans í þessari ræðu sem verður kveðja hans til þess flokks sem hann hefur starfað fyrir allt frá unglingsárum og studdi hann til forystusess í íslenskum stjórnmálum í aldarfjórðung. Sérstaklega tel ég merkilegast að sjá hvernig að Halldór skilur við flokkinn í þeim sárum sem hann er í við lok formannsferilsins. Það blandast engum hugur um að Halldór yfirgaf stjórnmálin sár og vonsvikinn með hvernig til tókst á tæplega tveggja ára forsætisráðherraferli sínum. Endalokin voru engan veginn eins gleðileg og hann stefndi að. Halldór mun eiga erfitt með að stíga af hinu pólitíska sviði í dag nema að gera að fullu upp vonbrigði sín við lok stjórnmálaferilsins og afgreiða þau mál, þó sár séu.
Það má því búast við súrsætri kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar á Hótel Loftleiðum síðdegis í dag. Þrátt fyrir öll vonbrigðin undir lokin getur Halldór þó yfirgefið stjórnmálin hnarreistur að mínu mati. Hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Fróðlegt verður að sjá í hvaða átt flokkurinn þróast í pólitík næstu mánaða og hver muni leiða hann nú þegar að Halldór yfirgefur hið pólitíska svið. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum á ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 09:12
Krissi bróðir fertugur í dag

Stóri bróðir, Kristmundur Sævar Stefánsson, er fertugur í dag. Ég vil nota tækifærið hér og óska Krissa innilega til hamingju með daginn. Hafðu það gott í dag Krissi minn!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 22:47
Rökþrot atvinnumótmælandanna

Sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega virkjun og álveri á Austurlandi. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Við höfum orðið vitni að slíkum aðferðum á Austurlandi í þessari viku, þegar að hópur erlendra atvinnumótmælenda sem hefur rekið hingað og reynt að þröngva lágkúrulegum aðferðum upp á fólkið fyrir austan réðist inn á skrifstofur Hönnunar á Reyðarfirði og klifraði upp í tughæða byggingakrana á Alcoa-vinnusvæðinu við Reyðarfjörð. Þessar aðgerðir dæma sig sjálfar - svo og rökþrot þessa fólks.
Af hverju mótmælir þetta fólk ekki sé það ósátt við álverið með friðsamlegum hætti utan girðingar byggingarsvæðisins en fer fram með þessum hætti í stað þess? Það var hið eina rétta af Alcoa að kæra mótmælendur og fara þá leið með málið. Þessar aðgerðir sanna fyrir fólki að þessi mótmæli útlendinganna eru komin út í drastískar aðgerðir sem varla teljast eðlilegar. Hvernig geta íslenskir umhverfissinnar t.d. varið verklag þeirra sem brutu sér leið inn í Hönnun og komu fram með afskaplega lágkúrulegum hætti við starfsfólk þar? Mér dettur ekki í hug annað en að skrifa gegn svona vinnubrögðum og ófriðlegum mótmælum fólks sem hefur sýnt það og sannað að það getur ekki mótmælt nema með því að grípa til svona ráða, en hafa sagst á einum tímapunkti vera með friðsamleg mótmæli.
Er það rétt leið séu menn ósáttir við verk af svona tagi og telja framkvæmdir ólöglegar að brjóta sér leið inn á byggingarsvæði og klifra upp í tugmetra háa byggingakrana? Hvað halda andstæðingar álversins að myndi gerast t.d. ef að fólk sem byggi við hliðina á blokkarbyggingu sem það væri ósátt við og hefði mótmælt á opinberum vettvangi og væri í augnablikinu að rísa reyndi að stöðva framkvæmdirnar t.d. með því að klifra upp í byggingakranann með mótmæli og hlekkjaði sig fast þar? Ég er ansi hræddur um að slíku fólki yrði lítið jákvætt ágengt. Það að fara fram með þeim hætti og var í gær er eitthvað sem telst ekki eðlilegt í mínum bókum. Finnst einhverjum svona aðgerðir réttlætanlegar og eðlilegar? Stórt er spurt en ég efast um að almenningur sé innst inni hlynntur skoðanaflóði atvinnumótmælenda af þessu tagi.
Það hefur vel sést síðustu daga að Austfirðingar vilja ekki svona vinnubrögð og hafa látið skoðanir sínar á því vel í ljósi. Það er mjög ankanalegt að sjá þessa erlendu atvinnumótmælendur, sem eru að reyna að pikka sér fæting og traðka á austfirsku samfélagi með framferði sínu, reyna að þröngva sér inn á vinnustaði og láta ófriðlega undir yfirskini friðsamlegra mótmæla sem við öllum blasir að eru fjarri sanni. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan, nú hina síðustu daga. Öllu sómakæru fólki sem virðir skoðanir fólks með friðsamlegum hætti varð nóg boðið af vinnubrögðum þessa fólks.
Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara erlendu atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú hefur lögreglan tekið á málinu og lagðar hafa verið fram ákærur á hendum atvinnumótmælendunum. Það er alveg ljóst í mínum huga að þegar að atvinnumótmælendur eða öfgasinnar í umhverfismálum eru farnir út í skemmdarverk og ofbeldisaðgerðir eru engin rök eftir í málinu af þeirra hálfu. Það hefur sannast svo ekki verður um villst með vinnubrögðum þeirra seinustu vikurnar. Rökþrot þeirra er algjört. Eða hvað segja annars vinnubrögð þessa fólks okkur? Ég bara spyr lesandi góður.
Fyrir nákvæmlega ári kom sama staða upp austur á fjörðum. Þá minnti ég á skoðanir mínar í þessum pistli sem á vel við nú í ljósi nýjustu atburða austan úr Fjarðabyggð.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 22:09
Geir tekur boði um austfirska skoðunarferð

Fyrir nokkrum dögum ritaði Ómar Ragnarsson grein í Morgunblaðið og bauð þar formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, þrem ráðherrum Framsóknarflokks og nokkrum fjölmiðlamönnum formlega skoðunarferð um Kárahnjúkasvæðið undir sinni leiðsögn. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hringdi í gærkvöldi í Ómar og þáði boð hans til sín og Þorgerðar Katrínar en ennfremur fyrir hönd allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Er það að mínu mati rétt ákvörðun hjá Geir að þiggja þetta boð og rétt skilaboð sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins senda með því að fara á svæðið og skoða náttúruna þar. Boð Ómars var rausnarlegt og vart um annað að ræða en að því yrði tekið og rétt ákvörðun af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að fara austur.
Varla mun þessi ferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar þó breyta miklu um stöðu mála. Framkvæmdir við virkjun við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði eru langt á veg komnar og sér fyrir endann á þeim. Þær hafa farið rétta leið og hlotið lögformlega staðfestingu sem við öllum blasir. En það er auðvitað mjög mikilvægt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þiggi þetta boð og skoði náttúruna undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar. Það verður þeim aðeins fræðandi og jákvæð upplifun hvernig staða mála er og hvernig svæðið er. Ferðin breytir þó auðvitað engu um þær ákvarðanir sem fyrir liggja um framkvæmdir og eðlilegt að allt hafi sinn gang í því. Alþingi hefur samþykkt tilteknar framkvæmdir og mikið um þær rætt í samfélaginu, enda eitt af mestu hitamálum seinustu ára.
Ómar Ragnarsson og sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega þessum framkvæmdum. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Það eru atvinnumótmælendurnir sem við höfum séð til austan heiða í fréttum síðustu daga í fréttum af fáu góðu. En meira um það síðar í kvöld hér á blogginu mínu....
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 21:08
Svartur dagur í umferðinni

Gærdagurinn var í senn svartur og sorglegur í umferðinni. Þrír einstaklingar í blóma lífsins létust í alvarlegum umferðarslysum. Ég verð að viðurkenna að það er alveg gríðarlega erfitt að heyra svona fréttir, hafandi upplifað sjálfur sorgina sem fylgir alvarlegu umferðarslysi og láti náins vinar og ættingja. Ég þekkti ekkert til þeirra sem létust í slysunum en það nístir alltaf hjartað mitt að heyra svona fréttir. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 15 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Þetta er sorglega há tala og það er skelfilegt að verða vitni að því að nú stefnir í enn eitt stórslysaárið í umferðinni.
Þegar að ég skrifaði síðast um þessi mál var það í kjölfar sorglegra umferðarslysa í júlíbyrjun þar sem að tveir Akureyringar létu lífið. Þá voru 9 látnir í umferðinni, síðan hafa sex bæst við á rétt rúmum mánuði. Það er mjög dapurlegt að heyra fréttir af þessu tagi, enda vita allir að þessum fréttum fylgir sorg og depurð ættingja og vina sem horfa á bak fólki sem hefur verið miðpunktur ævi þeirra. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna sorglegra umferðarslysa seinustu vikurnar. Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.
Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.
Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 12:28
Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS

Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hlaut flest frelsisstig að þessu sinni í Frelsisdeild sus.is og stendur því uppi sem sigurvegari Frelsisdeildarinnar. Mikil spenna var á lokakaflanum en Pétur hafði forystuna meginhlutann, allt frá annarri umferð. Jafnir í öðru sæti urðu þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson og skammt undan voru Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson. Segja má að Pétur, Guðlaugur Þór, Sigurður Kári og Birgir hafi verið í sérflokki í deildinni á þessu þingi og í raun allir átt möguleika á sigrinum og barist um hann allt til enda. Það er því ljóst að ungu þingmennirnir hafa verið að standa sig vel á þessu þingi en að Pétur, sem setið hefur á þingi í rúman áratug, leiði hópinn, enda baráttujaxl fyrir frelsinu og hlýtur því verðugan sess að launum frá okkur ungliðunum nú.
Frelsisdeildin hóf aftur göngu sína á vef SUS í desember 2005. Deildin hafði áður verið á vefnum og tók ný ritstjórn strax í upphafi í upphafi síðasta vetrar þá ákvörðun að minni tillögu að henni skyldi haldið áfram með svipuðum hætti og verið hafði. Tekin var sú ákvörðun að ég myndi stýra deildinni og ákvað ég að velja Kára Allansson, fyrrum stjórnarmann í Heimdalli, með mér til verksins. Að mati okkar sem sitjum í ritstjórn vefs SUS er mikilvægt að hafa Frelsisdeildina. Með því förum við yfir málefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, leggjum mat okkar á málefni þingsins og dæmum hvort og þá hvernig þingmenn séu að standa sig. Það er nauðsynlegt að við leggjum okkar mat á það hvort þingmenn séu að vinna að framgangi frelsismála eða vinni að því að halda á lofti baráttumálum Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Frelsisdeildin er án nokkurs vafa öflugasta merkið af okkar hálfu til að færa þingmönnum þá kveðju að við fylgjumst með verkum þeirra og dæmum þau í þessari góðu deild. Deildinni hefur tekist að vekja athygli og þingmenn hafa unnið af krafti við að vinna að þeim málum sem mestu skipti af enn meiri krafti eftir tilkomu hennar.
Pistill SFS um Frelsisdeildina
Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS - umfjöllun
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2006 | 22:32
Minnt á afstöðu Akureyringa til þyrlumála

Eins og flestum er kunnugt óskaði bæjarstjórn Akureyrar eftir því í marsmánuði, eftir að við blöstu þáttaskil í varnarmálum landsins, að fram færu viðræður um að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar skyldi vera staðsett hér á Akureyri. Bæjarráð samþykkti einróma tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, um þetta á fundi sínum þann 23. mars sl. Á sama tíma ákvað ráðherra að skipa nefnd sem skila ætti tillögum um þyrlubjörgunarþjónustu hérlendis. Nýlega lá skýrsla nefndarinnar fyrir. Það er skemmst frá því að segja að bæjarstjórn Akureyrar var ekki virt svo mikið sem svars í vinnslu skýrslunnar. Eru þessi vinnubrögð algjörlega með hreinum ólíkindum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, enda töldum við Akureyringar fyrirfram að allavega yrðu málin rædd við forystumenn sveitarfélagsins.
Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag lagði Kristján Þór Júlíusson fram svohljóðandi ályktun sem samþykkt var samhljóða og að mestu án umræðu: "Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir undrun á niðurstöðu skýrslu dómsmálaráðherra um "Þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi - tillögur að framtíðarskipulagi" sem kynnt var í júlí sl. og vísar til bókunar bæjarráðs frá 23. mars sl. þar sem óskað var eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs þjóðarinnar. Bæjarstjórn leggur áherslu á að vandað sé til undirbúnings á yfirtöku Íslendinga á þessu mikilvæga verkefni.
Taka þarf tillit til öryggis allra landsmanna og sjófarenda á svæðinu kringum landið sem er skilgreint sem starfssvæði þyrlubjörgunarsveitarinnar. Nauðsynlegt er að skipulag björgunarmála sé þannig að björgunar- og viðbragðstími sé sem stystur. Jafnframt er áríðandi að hafa í huga að siglingar flutningaskipa um norðurskautssvæðið eru að aukast og krefjast frekari viðbúnaðar á þessu viðkvæma svæði. Með vísan til ofangreindra raka telur bæjarstjórn bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að a.m.k. ein björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri.
Mér finnst það í senn undarlegt og til skammar fyrir viðkomandi starfshóp að svara ekki einu sinni þeim óskum sem til hennar var beint um að ræða um stöðu mála. Er ekki hægt að segja annað en að skýrslan sé mjög höfuðborgarmiðuð og vekur athygli hversu þröngt sjónarhorn hennar er. Er vægt til orða tekið að kalla skýrslu starfshópsins samstarfsverkefni kerfiskalla um að halda hlutunum í horfinu og horfa á hagsmuni málsins aðeins frá einum miðpunkti, sem er auðvitað Reykjavík. Veldur þessi skýrsla vonbrigðum og fær altént algjöra falleinkunn héðan norðan heiða og þessi ályktun bæjarstjórnar. Það er algjör krafa okkar að staða mála verði stokkuð upp og horft til þess að hér verði björgunarþyrla.
Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun.
Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að efla þarfLandhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun. Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla.
Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Gæslan hefur verið efld, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og með ólíkindum að ábendingar okkar um að ræða málin séu virtar að vettugi og hlýtur að vekja athygli hversu höfuðborgarmiðuð vinna kerfiskallanna fyrir sunnan er.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2006 | 14:46
Nýtt hlutverk landsföðurins umdeilda

Um þessar mundir er tæpt ár liðið frá því að Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll um þá ákvörðun sína að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu síðar sagði hann af sér ráðherraembætti og þingmennsku og eftirmaður hans á formannsstóli var kjörinn á landsfundi í október. Nokkrum dögum síðar varð Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.
Nú er það hlutverk Davíðs Oddssonar að koma öðru hverju í fjölmiðla og kynna okkur horfur í efnahagslífinu, kynna okkur stöðu mála og spá um hvert stefna beri. Flestir, bæði stjórnarsinnar sem og stjórnarandstæðingar, hafa fylgst með því betur en áður hvað sagt sé við Kalkofnsveg og þegar að Davíð fer í viðtal fangar hann athygli stjórnmálaáhugamanna. Reyndar er það nú svo að það er mun skemmtilegra að fylgjast með efnahagsumræðunni en áður. Enda er það svo að Davíð er snillingur í að koma fyrir sig orði og tjá sig um helstu málin og getur með hnyttnum og öflugum hætti talað um málin og fangað með því bæði athygli almennings og talað máli sem almenningur skilur. Þetta tekst honum meira að segja í Seðlabankanum þegar að hann talar um gengishalla, verðbólgu, stofnfjárvexti, stýrivexti og hvað þau öll heita annars þessi hugtök sem meðaljóninum gengur illa almennt að skilja.
Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn þingmaður flokksins orðaði það svo skemmtilega. Gleymi ég því aldrei er hann hélt ræðu í Valhöll í fyrra skömmu áður en hann hélt í leyfi til Flórída. Var tekið við hann viðtal og var það fréttaefni í marga daga eftir að hann fór út.
Ég hef mjög gaman af að fylgjast með Davíð tala um verksvið hans í dag. Það er einkum vegna þess að honum tekst með alveg kostulegum hætti að flétta pólitískum álitaefnum inn í tal sitt um efnahagsmálin og koma með skoðanir sínar þar inn í, reyndar svo listilega fléttað að hlusta þarf með næmleika og áhuga á það sem hann segir. Ég var einmitt að horfa á gott viðtal Heimis Más Péturssonar við Davíð sem var á NFS í hádeginu en það var tekið í sumarblíðunni fyrir utan Seðlabankann. Þar fór hann yfir stöðu mála. Það er einhvernveginn svo að ég fylgist meira með tali seðlabankastjóra nú en áður. Kannski er það vegna þess að hinir fyrri voru ekki eins lifandi í tali um málin og fóru ekki eins vítt yfir stöðuna. Með fullri virðingu fyrir Birgi Ísleifi Gunnarssyni verð ég að viðurkenna að ég hafði aldrei sérstaklega gaman af að heyra hann tala um þessi mál.
En Davíð hefur þetta og það er gaman að hlusta á hann.... og mikið innilega er ég sammála honum með Íbúðalánasjóð. Það var flott komment og mjög nauðsynlegt. Sérstaklega fannst mér Davíð komast vel að orði um gengismálin í marsmánuði og orða stöðu mála þá með mjög skemmtilegum hætti. Hann sagði að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni í efnahagsmálunum og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Svona tala ekki nema menn sem hafa mikla yfirsýn og hafa þá listigáfu að geta talað og náð athygli allra með því í leiðinni.
Það er enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson mun vekja athygli þjóðarinnar í störfum sínum, enda einn af umdeildustu stjórnmálamönnum lýðveldissögunnar og þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum, og jafnvel glæða enn meira áhuga landsmanna á efnahagsmálum. Það er allavega ljóst að hann orðar stöðu efnahagslífsins með mjög litríkum hætti og landsmenn fylgjast með af enn meiri áhuga en áður.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2006 | 20:23
Birkir Jón og Sæunn takast á í ritarakjöri

Eftir sex daga mun Sæunn Stefánsdóttir, sem var pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar 2003-2006, taka sæti Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins, á Alþingi Íslendinga. Það er vissulega mjög merkilegt að kona um þrítugt taki sæti í stað Halldórs og er eiginlega mjög til marks um þá uppstokkun sem er að eiga sér stað innan Framsóknarflokksins við þær miklu breytingar sem fylgja því að Halldór hætti í stjórnmálum. Nú hefur Sæunn komið fram í fjölmiðlum í dag og lýst formlega yfir framboði sínu í embætti ritara flokksins á flokksþinginu um helgina. Er hún sú fjórða sem gefur kost á sér til þess embættis, en fyrir í þeim slag eru alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson og Haukur Logi Karlsson, fyrrum formaður SUS. Stefnir því auðvitað í mjög spennandi slag um það embætti eins og önnur.
Það vekur mikla athygli að Sæunn sem er auðvitað mjög nýleg í pólitík hafi ákveðið framboð af þessu tagi. Sérstaklega er athyglisvert að Sæunn, sem hefur verið mjög áberandi stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í formannskjörinu um helgina fari fram og það gegn Birki Jóni, sem var varaformaður SUF í tíð Sæunnar þar í stjórn. Ennfremur vita allir að Sæunn og Dagný Jónsdóttir, alþingismaður hér í kjördæminu, eru mjög nánar vinkonur og hafa t.d. notað mjög svipaða frasa til að reyna að tala máli Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í spjallþáttum og í skrifum á netinu. Má leiða getum af þessu öllu að Dagný styðji framboð Sæunnar Stefánsdóttur til ritaraembættisins en ekki Birki Jón, sem hefur verið félagi hennar í ungliðastarfinu (hann var varaformaður hennar í SUF á sínum tíma) og í þingstörfunum.
Ég verð að viðurkenna að ég taldi mjög lengi framan af að Birkir Jón Jónsson væri óskoraður fulltrúi Halldórsarmsins, og jafnframt þeirra sem styðja Jón til formennsku, í ritarakjörinu en er farinn að efast nokkuð um það. Það má mun frekar telja Sæunn til náinna samstarfsmanna Jóns innan hans arms í þessu kjöri. Það er allavega ekki samstaða um Birki Jón til verka í þessum armi og reyndar vakti mikla athygli að Birkir Jón, Siv og Guðni héldu sameiginlegan framboðsfund í gærkvöldi með flokksfélögum á Ísafirði. Þau komu saman til fundarins með sömu flugvél og er um fátt meira talað í dag en að Siglfirðingarnir Siv og Birkir Jón séu í samstarfi nú, enda líti Birkir Jón svo á að Sæunn sé ritaraefni Jónsmanna. Það vekur allavega athygli að vinkona Dagnýjar og sem er líka nátengd Jóni Sigurðssyni fari fram gegn Birki til ritarans.
Það virðist erfitt að lesa í fylkingarnar innan Framsóknarflokksins, enda mikill hreyfingur með fólki sem eykst með hverjum frambjóðandanum sem stígur fram á sviðið þessa síðustu daga fyrir flokksþingið. Þó tel ég að það megi fullyrða það að Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson séu í nánu samstarfi um að vinna fyrir flokksþingið. Heyrst hafa enda sögur um það að Guðni sé að smala sínu fólki í Suðurkjördæmi til fylgilags við framboð Sivjar og sú smölun sé víðtækari. Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er líka stuðningsmaður Sivjar og leggur eitthvað á sig fyrir hana að reyna að ná í stuðning, einkum í kraganum og á sínum gömlu slóðum fyrir vestan. Það er allavega skýr fylkingabarátta um formennskuna og greinilegt að þeir sem hafa gagnrýnt Halldór Ásgrímsson opinberlega styðji Siv.
Það stefnir í spennandi helgi hjá framsóknarmönnum og eldfima kosningu þar sem tekist er á af krafti. Það er mjög nýtt fyrir framsóknarmenn að sjá kosningu um öll embætti sín á flokksþingi og hefur aldrei gerst áður. Sérstaklega stefnir í spennandi kosningu um ritarann. Ungliðar flokksins sameinast greinilega ekki um Birki Jón sem ritara og tekist á mjög víða, enda mjög ólíkir kandidatar komnir þar fram. Fyrst og fremst verður þó spennan um formennsku flokksins og má búast við að úrslitin í því kjöri hafi veruleg áhrif á það hvernig raðast í hin forystuembættin tvö. Svo gæti farið að flokkurinn myndi fara í gegnum mikla uppstokkun um helgina og við blasi gjörólík forysta við stjórnmálaáhugamönnum á laugardaginn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2006 | 19:47
Fer Jakob í þingframboð að vori?

Um fátt er nú meira rætt hér í bænum í pólitísku umræðunni en það hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri hér á Akureyri, fari í þingframboð fyrir Framsóknarflokkinn að vori. Segja má að orðrómurinn um þetta hafi magnast mjög eftir að Jakob hætti í bæjarstjórn Akureyrar nú í vor. Þegar að hann ákvað að fara ekki í prófkjör flokksins hér í bæ fyrr á árinu varð öllum ljóst að hann væri að stefna að vistaskiptum í sinni pólitík. Jakob var aldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar á síðasta kjörtímabili. Hann sat í bæjarstjórn í 16 ár og var leiðtogi Framsóknarflokksins í 12 ár af þeim. Hann var bæjarstjóri á Akureyri á árunum 1994-1998, en í tíð hans vann flokkurinn einn sinn besta kosningasigur, árið 1994, er hann hlaut fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu. Jakob sat vel á sjöunda hundrað bæjarráðsfunda og rúmlega 300 bæjarstjórnarfundi á þessum 16 árum sínum í forystu bæjarmálanna.
Jakob hefur áður reynt að fara í landsmálin en þá gekk það miður vel fyrir hann. Jakob tók þá ákvörðun eftir að hann missti bæjarstjórastólinn í bæjarstjórnarkosningunum 1998 að stefna á þingið. Sóttist hann eftir fyrsta sæti listans í prófkjöri flokksmanna og barðist við Valgerði Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra, um forystuna. Náði hann aðeins fjórða sætinu í prófkjörinu og tapaði því stórt gegn Valgerði. Mikil barátta var þeirra á milli og harkan var nokkuð mikil í slagnum. Valgerður taldi aðför forystumanns flokksins á Akureyri gegn sér mjög harkalega og fyrirgaf hana í raun aldrei. Jakob tók fjórða sætið á framboðslistanum. Flokkurinn hlaut afhroð í þessum síðustu þingkosningum í NE og aðeins einn mann kjörinn, forystukonuna Valgerði Sverrisdóttur. Árangur listans olli framsóknarmönnum mjög víða miklum vonbrigðum.
Það hefur aldrei farið leynt að framsóknarmenn á Akureyri hafa viljað fá þingmann og barist mjög ákveðið fyrir því. Í aðdraganda síðustu þingkosninga var Þórarinn E. Sveinsson, fyrrum bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, þeirra valkostur í þingframboð en hann hlaut aðeins fimmta sætið á framboðslista flokksins og varð fyrir vonbrigðum í forkosningu á kjördæmisþingi flokksins í janúar 2003. Nú er Þórarinn E. fluttur til Kópavogs og ólíklegt að hann fari fram hér og eða að flokksmenn hér vilji tefla honum fram, þó að hann sé fyrsti varamaður flokksins í kjördæminu. Hljóta margir að horfa þá til Jakobs, enda hann hættur í bæjarmálunum hér og hefur væntanlega á sér annað yfirbragð en var í prófkjörinu margfræga árið 1999 þegar að hann hjólaði í Valgerði, en stuðningsmönnum hennar líkaði mjög illa hvernig hann kom fram við hana.
Það er mikið talað um það hér hvort að Valgerður og Jakob gætu t.d. slíðrað sverðin og grafið gömlu stríðsöxina fari Jakob fram í forkosningu flokksmanna fyrir næstu þingkosningar. Jakob græðir vissulega á því nú að vera ættaður frá Vopnafirði og hafa tengingar bæði norðan og austan heiða í þessu víðfeðma kjördæmi. Fari svo að Dagný Jónsdóttir láti af þingmennsku, eins og mjög víða er orðað, hlýtur að þurfa einstakling sem getur sótt sér stuðning austur fyrir. Reyndar hefur ekkert heyrst öruggt um það hvort að Dagný hætti með Jóni Kristjánssyni að vori en mikið er pískrað um þann orðróm. Dagný var aðalatkvæðabeita framsóknarmanna hér í síðustu þingkosningum en hún hefur hinsvegar valdið mörgum vonbrigðum og engan veginn verið sú öfluga forystukona sem margir framsóknarmenn hér bjuggust við að hún yrði.
En það blasir við öllum að Jakob er byrjaður að þreifa fyrir sér og minna á sig. Hann er allavega mjög áberandi þrátt fyrir að hafa vikið úr bæjarmálunum og var t.d. á fullu að tala við fólk við menningarhúsgleðina um daginn. Mikla athygli vakti viðtal akureysku fréttastöðvarinnar N4 við Jakob þar sem farið var yfir forystukapal flokksins í ljósi brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar. Sýnist manni af tali hans að hann sé frekar stuðningsmaður Sivjar Friðleifsdóttur en Jóns Sigurðssonar. Reyndar eru margir framsóknarmenn hér á Akureyri ósáttir við hvernig flokksforystan vann seinustu árin og telur afhroð flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor tengjast beint óvinsældum fráfarandi formanns og verka hans.
Staða Framsóknarflokksins hér á Akureyri hefur aldrei verið verri en einmitt nú. Jakob getur sjálfur algjörlega fríað sig ábyrgð á slæmu gengi flokksins hér í vor, enda kom hann lítið sem ekkert nálægt framboði flokksins í vor. Hann gæti því væntanlega farið fram án þess að vera með það á bakinu. Allavega dylst engum það að Jakob sýnir á sér framboðssnið og má telja líklegra en ekki að hann stefni á að reyna að komast á þing, enda tækifærin til staðar sé það rétt að Dagný Jónsdóttir fari ekki í þingframboð að vori.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2006 | 17:39
Ólga innan forystu Samfylkingarinnar

Ég, eins og sennilega svo miklu fleiri, hef nokkuð gaman af að fylgjast með hinum kostulega bloggvef Orðinu á bloggkerfi Moggans. Þar birtast hinar kostulegustu analísur á mönnum og málefnum daginn út og inn. Mikið er þar pælt í stjórnmálum, sem er varla undrunarefni í upphafi kosningavetrar, sem stefnir í að verða mjög spennandi og skemmtilegur. Helst virðast hinir nafnlausu álitsgjafar vera að spá í pólitískum málefnum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en stöku sinnum er þar spáð í málefnum vinstri grænna. Það vekur verulega athygli að aldrei birtast þar analísur um Samfylkinguna, sem ætti þó aldeilis að vera ástæða til í því pólitíska andrúmslofti sem við blasir þessa dagana þar sem Samfylkingin minnkar stöðugt í skoðanakönnunum og mikil valdabarátta stendur innan jafnvel forystusveitar flokksins sjálfs.
Miklar sögur ganga um það hverjir halda úti þessum vef. Lífseigasta sagan er sú að Andrés Jónsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, pólitískrar ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, sé potturinn og pannan á vefnum ásamt fleiri ungliðum úr Samfylkingunni og Framsóknarflokki. Ekki ætla ég að fella endanlegan dóm yfir því hverjir hinir nafnlausu álitsgjafar séu en það hlýtur óneitanlega að teljast trúanleg saga að Samfylkingarungliðar séu ráðandi á vefnum þegar litið er á það að ekkert er analísað um ólguna innan forystusveitar Samfylkingarinnar. Þær sögur hafa gengið nú í nokkrar vikur að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, og þau varla orðið tali við hvort annað. Sögur af því virðast þó ekki ná að rata á "Orðið".
Um fátt hefur verið rætt meira seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé. Frægar eru sögurnar af stirðu samstarfi formannsins og þingflokksformannsins Margrétar Frímannsdóttur. Enn verri virðist samkomulagið milli Ingibjargar og Ágústs. Þær sögur eru lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur, sem ekki hafa verið í pólitík áður, til framboðs í prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni til að reyna að slá hann út. Hafa nöfn Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, og Sigríðar Arnardóttur, morgunsjónvarpskonu, verið lífseig í því skyni. Reyndar hefur margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi.
Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi. Virðist heiftin þar á milli vera litlu minni en á milli Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar innan Framsóknarflokksins. Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík.
Það verður allavega sífellt skiljanlegra, hafandi heyrt fréttirnar af þessari ólgu, að Samfylkingin sé í þessum miklu vandræðum og sífellt að minnka í skoðanakönnunum og standi nú nær á pari við VG. Fall Samfylkingarinnar og stjórnmálaferils ISG er analísa útaf fyrir sig fyrir alla sem fylgjast með stjórnmálum. Enn fróðlegra verður að sjá hvort að þeir á Orðinu sjá frétt í þessum óeirðum innan forystusveitar Samfylkingarinnar á næstu vikum, en það hefur ekki fram að þessu talist frétt í þeirra augum þrátt fyrir að þar logi allt eins og Róm forðum.
Það þarf reyndar að bíða mjög lengi eftir þessum pælingum ef satt reynist að eftirmaður Ágústs Ólafs Ágústssonar á formannsstóli Ungra jafnaðarmanna og náinn pólitískur trúnaðarmaður hans sé að stjórna analísingunum á vefnum. Reyndar má spyrja sig að því hversu trúverðugt það sé að formaður ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks bloggi nafnlaust á netinu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2006 | 16:39
Árni horfir til forystuhlutverks í Suðrinu

Ein lífseigasta pólitíska sagan í sumar er hvort að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, muni færa sig til og sækjast eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Með því að sækjast eftir því væri hann að gefa leiðtogastólinn í kraganum í raun eftir til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hlýtur að teljast líkleg til að vilja leiða framboðslistann í sínu kjördæmi og vera vænleg til að hljóta það sæti í prófkjöri. Árni, sem hefur setið á Alþingi í 15 ár og leitt framboðslista af hálfu flokksins í landsmálum allt frá alþingiskosningunum 1999, hlýtur að teljast öruggt ráðherraefni áfram nái hann að tryggja áhrif sín með leiðtogasetu í öðru kjördæmi. Hann hefur mikinn styrkleika og stuðning æðstu forystumanna flokksins til að vera í ríkisstjórn.
Það er ekki undarlegt að Árni sækist eftir því að fara í Suðurkjördæmið. Þar er enginn áberandi leiðtogi og ekki virðist heldur leiðtogi sem hefði styrkleika til ráðherrasetu í sjónmáli. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ætti að vera það mikið í kosningunum að vori að leiðtogi listans ætti að hafa styrkleika og stuðning til að verða ráðherra. Svo hefur ekki verið frá árinu 1999, er Þorsteinn Pálsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hætti í stjórnmálum. Árni Ragnar Árnason leiddi framboðslista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003. Árni Ragnar hafði verið veikur af krabbameini nokkurn tíma áður en hann var valinn leiðtogi og virtist hafa náð sér að fullu. Hann veiktist aftur í kosningabaráttunni og varð frá að hverfa. Hann lést fyrir nákvæmlega tveim árum, í ágúst 2004, eftir hetjulega baráttu sína.
Frá andláti Árna Ragnars hefur Drífa Hjartardóttir leitt flokkinn í Suðurkjördæmi en þá öðru sinni tókst hún á hendur það verkefni að leiða flokkinn á erfiðum tímamótum. Hún varð leiðtogi flokksins í gamla Suðurlandskjördæmi er Árni Johnsen varð að segja af sér þingmennsku sumarið 2001 vegna hneykslismála sinna. Drífa hefur staðið sig vel að mínu mati og leitt flokkinn í gegnum erfiða tíma á þessum slóðum. Fylgi flokksins í Suðurkjördæmi er mikið og það sást vel í sveitarstjórnarkosningunum í vor en flokkurinn er í forystu nær allra sveitarfélaga í kjördæminu. Það er því auðvitað með ólíkindum að flokkurinn í Suðurkjördæmi hafi ekki ráðherrastól og hlýtur það að vera markmið þeirra sem velja framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir næstu kosningar að tryggja að sá sem leiði listann sé í þeirri stöðu að teljast öruggt ráðherraefni.
Árni M. Mathiesen virðist hafa áhuga á að færa sig til og hefur sá áhugi ekki farið leynt meðal flokksmanna í Suðurkjördæmi seinustu mánuðina. Hann hefur verið ráðherra í sjö ár og leitt sjávarútvegsmálin og fjármálin af hálfu flokksins. Það er hægt að fullyrða með nokkurri vissu að hann sé öruggt ráðherraefni að vori. Það verður að ráðast hvort flokksmenn vilja fá Árna til forystu í kjördæminu. Væntanlega verður þar prófkjör, enda virðist mér á flestum sem ég þekki úr kjördæminu að þeir vilji fá uppstokkun á þingmannahópi kjördæmisins og mæla styrkleika frambjóðenda. Er það enda eðlilegast að prófkjör sé í öllum kjördæmum hjá flokknum nú, eins og ég hef áður bent á. Er mikið rætt um hvort að Árni Johnsen fari fram í Suðurkjördæmi. Tel ég eins og margir eðlilegra að hann beindi kröftum sínum að öðru á þessum tímapunkti.
Það stefnir í spennandi tíma hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hverja flokksmenn þar velja til forystu hjá sér. Að mörgu leyti hlýtur að verða spurt hvort sjálfstæðismenn hafi sterkt og vænlegt ráðherraefni í forystu framboðslista síns. Það hlýtur að teljast sterkt fyrir þá að hafa Árna M. Mathiesen í forystu framboðslista síns, enda fer þar ráðherra í sjö ár og leiðtogi kjördæmis allan þann tíma. En nú verður svo auðvitað að ráðast hvort Árni sæki sér stuðning flokksmanna til forystu og nái kjöri í það verkefni. Það verður fróðlegt að sjá.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)