14.8.2006 | 16:34
Kristinn H. minnir á sig með ritaraframboði

Í dag sendi Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, frá sér fréttatilkynningu um framboð sitt til embættis ritara flokksins. Kristinn H. hefur verið umdeildur innan raða flokksins. Hann gekk í Framsóknarflokkinn árið 1998, en hann hafði fram að því verið alþingismaður Alþýðubandalagsins, en ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999 en varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 og skipaði það sæti á lista flokksins. Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár.
Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn. Hann var tekinn aftur í sátt í febrúar 2005 og hann tók sæti þá í tveim nefndum, en öllum varð ljóst að þær sættir voru aðeins til málamynda í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna í sama mánuði.
Trúnaðarbresturinn milli Kristins og forystunnar hafði óneitanlega skaðað flokkinn, enda auðvitað mjög fátítt, allt að því einsdæmi, að sitjandi þingmaður hafi verið tekinn af sakramentinu og sviptur öllum þingnefndum sínum. Er það enda mjög stór hluti þingmennskunnar að sitja í nefndum og án þess verður þingmaðurinn auðvitað mjög utangarðs í starfinu í þinginu. Lék ekki vafi á því að Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, vildi ná sáttum við Kristin H. til að styrkja stöðu sína fyrir flokksþingið og reyna að lægja öldurnar. Hafði komið upp mikil óánægja innan flokksfélaga í Norðvesturkjördæmi með þessa ákvörðun forystu þingflokksins og ljóst að ólga var uppi. Sást þetta vel á frægu fundaferðalagi formannsins um Vestfirði í janúar 2005 þar sem ákvörðunum þingflokks var andmælt.
Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987. Því fannst alltaf sem að Ólafur Ragnar væri boðflenna í Alþýðubandalaginu (enda gamall framsóknarmaður) og hefði stolið flokknum þeirra. Hann væri ekki sannur kommi, sem er og rétt.
Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. gefi kost á sér til ritarastarfa í flokknum. Í starfslýsingu ritara Framsóknarflokksins er m.a. formennska í flokksstjórn Framsóknarflokksins. Það fer væntanlega um fylgismenn Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins, og formannskandidatsins Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, við þessi tíðindi og varla vekja þau gleði í þeim herbúðum eftir allt sem á milli þeirra hefur farið. Ég ímynda mér allavega að lítið gleðibros sé á Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, yfir framboði Kristins H. til ritarastarfa. Öllu líklegra er að Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson séu sæl með þetta framboð og þau séu öll í framboðsblokk.
Það er alveg ljóst, eins og ég hef margoft tekið fram, að spennandi flokksþing er framundan hjá framsóknarmönnum. Þegar eru tvö framboð komin sitt í hvoru lagi í formanns- og varaformannsembættið og nú það þriðja í ritarann, en fyrir eru í þeim slag Birkir Jón Jónsson, alþingismaður (skýr valkostur Halldórsarmsins svokallaða), og Haukur Logi Karlsson, fyrrum formaður SUF, en hann er systursonur eiginkonu Guðna Ágústssonar. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikinn stuðning Vestfirðingurinn umdeildi í flokksstarfi framsóknarmanna fær í ritarakjörinu.
Það er altént algjörlega ljóst að nái Kristinn H. Gunnarsson kjöri í þetta valdamikla embætti í öllu innra starfi Framsóknarflokksins munu vindar blása um ýmsar grónustu valdastofnanirnar, vegna fyrri árekstra hans við ýmsa af helstu forystumönnum flokksins.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2006 | 08:47
Framsókn á pólitískum krossgötum


Sumarið hefur verið tímabil sviptinga innan Framsóknarflokksins. Flokksþing framsóknarmanna hefst á föstudag og þar mun Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, kveðja íslensk stjórnmál eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn í pólitíkinni með yfirlitsræðu sinni. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, munu takast á um formennsku flokksins og má búast við spennandi kosningu um það hvort þeirra muni taka við af Halldóri og leiða flokkinn á kosningavetri.
Ég fjalla um Framsóknarflokkinn og stöðu mála þar við forystuskipti og spennandi leiðtogakjör í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag. Þar fer ég yfir væntanlegar kosningar um öll helstu lykilembætti flokksins, en þetta er í fyrsta skipti í sögu flokksins sem alvöru kosningabarátta er um öll embættin þrjú í einu og í fyrsta skipti frá árinu 1944, er Hermann Jónasson felldi Jónas frá Hriflu af formannsstóli, sem tekist er á af alvöru um sjálft formannsembættið í flokknum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2006 | 08:26
Skemmtileg mynd úr kosningabaráttunni

Félagi minn sendi mér um daginn mynd sem var tekin á fjölskylduskemmtun Sjálfstæðisflokksins þann 26. maí sl. - daginn fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þann dag voru miklar annir hjá okkur sem vorum í kosningabaráttunni. Fjölskylduhátíðin var haldin í miðbænum venju samkvæmt þann dag, en á miðbæjarsvæðinu voru nær öll framboðin með skemmtun og skemmtilega viðburði, sem er hefð við lok baráttunnar. Jónsi spilaði og söng fyrir okkur ásamt fleiru tónlistarfólki í blíðunni þennan fallega sólardag og við grilluðum svo fyrir gesti og gangandi.
Á þessari mynd er ég greinilega í miklum önnum ásamt Oktavíu Jóhannesdóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni, en það er sennilega ekki alveg tölu komið á það hversu margar pylsur ég setti á þennan dag. Þetta var notalegur og góður dagur. Nú er rúmur mánuður síðan að ég hætti sem formaður flokksfélags hér í bænum og það hefur verið alveg verulega notalegt að hafa það rólegt og þurfa ekki að spá að neinu leyti í pólitísku verkefnin hér í bænum nema þá bara á þessum bloggvef mínum og vera laus við skyldurnar sem fylgja formennskunni.
Það verður að ráðast nú á næstu vikum hvort að ég hafi áhuga á að vera í stjórn hinna flokksfélaganna tveggja hér í bænum sem ég er félagsmaður í en það styttist nú mjög bráðlega í aðalfundi þeirra. Það er vissulega spennandi kosningavetur framundan og ég mun svo sannarlega dekka hann vel á þessum bloggvef og heimasíðunni minni, pistlavettvangnum, sem er nú komin úr stuttu sumarfríi en þar munu birtast sunnudagspistlar í allan vetur, venju samkvæmt.
Ég er pólitískur áhugamaður og hef áhuga á að vera ekki bara þögull áhugamaður heima í stofu, eins og flestir ættu að vita sem eitthvað þekkja til mín.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2006 | 23:18
Castro verður áttræður í kyrrþey

Í dag er Fidel Castro áttræður. Einhverntímann hefði verið slegið upp veislu af minna tilefni en því á Kúbu. En svo ber við að á áttræðisafmæli leiðtogans fræga er ekkert að gerast. Í byrjun þessa mánaðar gerðist það í fyrsta skipti á valdaferli Castros og stjórnar hans í þessi 47 ár valdaferilsins að hann hefur orðið að afsala sér völdum, tímabundið reyndar, vegna veikinda sinna. Castro varð að gangast undir skurðaðgerð og hefur ekki birst opinberlega í sjónvarpi eftir þau veikindi. Engin er því hátíðin í einræðisríkinu á þessum degi. Enn merkilegra en að Castro sjáist ekki er áberandi fjarvera bróður hans, Raul Castro, sem er starfandi forseti í veikindum bróður síns.
Það að vera ráðandi í stjórnmálum snýst að mörgu leyti um það að koma vel fram. Betur en margir aðrir veit Fidel Castro þetta. Hann hefur stjórnað með sýnilegu valdi á Kúbu í tæpa hálfa öld, þar sem stormandi boðskapur hans hefur skipt sköpum fyrir hann að hafa haldið völdum og getað ríkt þar þetta lengi. Að því kemur á ævi hans sem og allra annarra að halla tekur undan fæti. Það vekur því auðvitað verulega mikla athygli á áttræðisafmæli þessa einræðisherra á Kúbu, þar sem engar kosningar eða sýnilegt fjölflokkakerfi er leyft, að engar sjónvarpsmyndir berast af honum eða neitt, aðeins örfáar ljósmyndir.
Framkoma í stjórnmálum á okkar fjölmiðlatímum snýst oftast nær um það hvernig fólk kemur fram. Komi það ekki fram eða er fjarverandi hlýtur kastljósið að beinast að fjarverunni. Í landi eins og Kúbu snýst allt um að sýna fram á vald sitt. Það hefur Castro gert og gerði margoft meðan að hann var veikur fyrir nokkrum árum er hann féll illa á opinberri samkomu og lærbrotnaði. Það vekur því athygli að það sem sjáist til Castro á afmælinu séu myndir af honum alvarlegum á svip í adidas jogging-galla (talandi um sannkallaða kaldhæðni) og greinilega fölan á brá. Varla gera þær neitt nema auka á allar spurningarnar um veikindin.
Í raun minnir þetta mig á það þegar að reynt var að halda því leyndu fyrir alheiminum um mjög langan tíma að Boris Yeltsin væri alvarlega hjartveikur og eða að Leonid Brezhnev var lokaður af til að loka á allar sögusagnir um heilsufar hans og að hann væri í raun orðinn ófær um daglega stjórn í landi sínu. Það er mjög erfitt að vera yfirgnæfandi í lokuðu samfélagi eins og Kúbu, með einræði og engum alvöru kosningum, þar sem leiðtoginn er heilsuveill og sá sem með völdin á að fara á meðan sést ekki heldur.
Það er því varla undrunarefni að það gerist fyrr en síðar að reynt sé að loka á orðróminn. En það vekur athygli á þessum merku tímamótum á ævi leiðtoga Kúbu að ekki séu sýndar sjónvarpsmyndir af honum og hlýtur að vekja verulega margar spurningar, jafnt fyrir þá sem hafa vanist einræði og einum leiðtoga, án kosninga, til áratuga og þeirra sem fylgjast með einræðinu fjarri eymd kommúnismans, sem enn ómar í ríki einræðisherrans.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2006 | 21:06
Steingrímur J. horfir glaðlegur til hægri

Kosningavetur í íslenskum stjórnmálum er greinilega brátt að hefjast. Pólitíska umræðan er að verða beittari þessa dagana og menn farnir að undirbúa það sem framundan er. Um næstu helgi verður nýr formaður Framsóknarflokksins kjörinn og forysta flokksins þar að auki. Má búast við miklum breytingum innan Framsóknarflokksins í kjölfar flokksþingsins. Sjálfstæðisflokkurinn virðist sigla lygnan sjó og mælist með um 20% meira fylgi en næststærsti flokkurinn. Staða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, virðist mjög sterk og nýtur hann mikilla vinsælda landsmanna. Samfylkingin virðist hafa veikst mjög í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og minnkað allnokkuð. Á meðan eflist hinn vinstriflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, verulega og kom hann t.d. mun betur út úr sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Það er því ekki undrunarefni að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hafi verið vígreifur og hress í viðtali á Pressunni í dag við frænda minn, Helga Seljan. Steingrímur virðist vera vinsælasti leiðtoginn á vinstrivæng stjórnmálanna skv. mati landsmanna og hefur markað sér sess sem slíkur í huga mjög margra stjórnmálaáhugamanna. Samfylkingunni hefur fatast flugið og nægir að líta á skoðanakannanir Gallups til að sjá hrapið hjá flokknum. Ingibjörgu Sólrúnu hefur mistekist að leika eftir það sem hún gerði innan R-listans og landsmenn virðast hvorki skilja upp né niður á hvaða pólitísku vegferð hún eða flokkurinn sem hún leiðir er á. Að mörgu leyti virðist ógæfa Samfylkingarinnar vera að þróast upp í velgengni VG og það er greinilegt að Steingrímur J. er að nýta sér vandræði Samfylkingarinnar sér í vil.
Ég hjó eftir einu mjög mikilvægu í tali Steingríms J. Sigfússonar í spjallinu á NFS. Það var að hann útilokar ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn að vori og sagðist t.d. hafa fundið mestan samhljóm með tali Bjarna Benediktssonar, alþingismanns, í þriggja manna spjalli í byrjun þáttarins, þar sem hann var með Birni Inga Hrafnssyni og Björgvini G. Sigurðssyni. Steingrímur er mikill skynsemismaður í stjórnmálum, þó vissulega að hann tali fyrir umdeildum skoðunum. Hann gerir sér grein fyrir því að Samfylkingin er sífellt meir að verða laskaðri kostur fyrir VG og hann sér það í hendi sér að ekki mun koma til neins rauðgræns bandalags með hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Hann bæði sér það og skilur að Samfylkingin vill hafa alla kosti opna í pólitísku stöðunni og gerir það líka.
Staða mála er þannig þessar vikurnar að Samfylkingin og VG standa nær á pari í skoðanakönnunum og yfirburðastaða Samfylkingarinnar á vinstrivængnum sé á bak og burt. Staða VG virðist vera mun skárri á þessum tímapunkti fyrir kosningar en var fyrir kosningarnar 2003. VG toppaði reyndar í könnunum sumarið 2001, í lágpunkti Samfylkingarinnar, en nú virðist VG vera að styrkjast mjög í upphafi sjálfs kosningavetrarins, sem er mjög athyglisvert. VG lítur því varla lengur á sig sem litla bróður Samfylkingarinnar heldur jafnaldra hans, sem hann og er. Með því má telja líklegt að VG vilji sækja sömu áhrif í ríkisstjórn (og sama fylgi auðvitað) sem Samfylkingin er að mælast með á þessum tímapunkti.
Það að Steingrímur J. gefi svo sterklega í skyn að hann horfi til hægri og hann gerði í dag færir stjórnmálaáhugamönnum heim sanninn um það að VG haldi öllum dyrum opnum og telji samstarf við sjálfstæðismenn vænlegt. Í senn sannfærir þessi staða vinstrimanna, sem vilja nú horfa til hægri í skugga þess að stjórnarflokkarnir mælast með meirihlutafylgi í könnunum, fólk um það að þessir flokkar sjái ekki fram á það að geta starfað saman í stjórn og jafnframt um það að VG ætli ekki að beygja sig undir stjórn Samfylkingarinnar í einhverju vinstrabandalagi.
Óeining vinstrimanna er rómuð og það er gaman að fylgjast með henni, nú sem ávallt áður.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2006 | 21:46
Fjölmenni á Fiskideginum mikla á Dalvík

Rúm 35.000 manns komu saman í góðu veðri hér á Dalvík í dag, þar sem haldinn var í sjötta skiptið bæjarhátíð Dalvíkurbyggðar, Fiskidagurinn mikli. Var ég þeirra á meðal, en ég hef dvalið þar um helgina í notalegu andrúmslofti og notið alls þess sem þar hefur verið boðið upp á, en einn helsti aðall hátíðarinnar að þar er allt ókeypis. Á annað hundrað þúsund matarskammtar voru grillaðir, en fólk gæddi sér á saltfiskvöfflum (frábærri nýjung sem sló í gegn), bleikju, þorski, saltfiski, rækju, síld, asískri fiskisúpu, hrefnukjöti, rækjukokkteil, fiskborgurum og hráum laxi, svo aðeins fátt eitt sé nefnt af því sem boðið var upp á. Sérstaklega fannst mér bleikjan, súpan, vöfflurnar og þorskurinn bera af. Láta má nærri að meira en tólf tonn af fiski hafi verið á boðstólum í dag. Eins og fyrr segir var þetta allt í ókeypis í boði fiskverkenda í Dalvíkurbyggð.
Stemmningin var engu lík út á Dalvík á þessum glæsilega degi. Hef ég sjaldan séð annan eins mannfjölda á Dalvík og þar var í dag. Veðrið var eins og best er á kosið: blíða og gott veður, stöku sól, einkum í hjarta og sál viðstaddra. Eru aðstandendur Fiskidagsins mikla mjög heppnir með veður, en í öll sex skiptin hefur verið gott veður við hátíðarhöldin og mjög ánægjulegt andrúmsloft yfir Dalvíkinni. Þar hefur aldrei rignt á Fiskidegi! - og gerði það ekki heldur þetta árið, sem betur fer. Var ótrúlegur fjöldi bíla í bænum og var bílum lagt út um allt, upp á grasbletti, við verslanir, íbúðarhús og ótrúlegustu stöðum. Var bílafjöldinn það mikill að bílum var lagt allnokkuð langt frá hátíðarsvæðinu og þurfti fólk því margt hvert sem eftir hádegið kom að ganga nokkurn spöl á svæðið. Þessi dagur var því alveg stórkostlegur.
Meðal þeirra mörgu sem sóttu Dalvíkinga heim um helgina voru forsetahjónin. Forseti Íslands flutti ávarp á hátíðarsviðinu á þriðja tímanum. Í ávarpinu fjallaði hann um öflugan sjávarútveg á Eyjafjarðarsvæðinu og hversu sterk sjávarútvegsfyrirtæki væru þar. Lauk hann miklu lofsorði á öfluga fiskvinnslu í Dalvíkurbyggð og hrósaði heimamönnum fyrir þetta glæsilega framtak sem Fiskidagurinn er. Góð dagskrá var á hátíðarsviðinu allan tímann sem hátíðarhöldin stóðu á hafnarsvæðinu. Rúnar Júlíusson, Ína Idol, fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna tóku lagið við mikinn fögnuð, sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur á Dalvík, hélt stutta útimessu, Arngrímur Jóhannsson sýndi listflug í háloftunum, karlakór Dalvíkur söng nokkur lög og ennfremur söng Dalvíkurinn Matti (í Pöpum) Fiskidagslagið svonefnda, sem Friðrik Ómar Hjörleifsson og Gunnar Þórisson sömdu fyrir fyrsta Fiskidaginn árið 2001.
Í gærkvöldi var Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, á svæðinu og var hann t.d. heiðursgestur karlakórsins á tónleikum þá. Hitti ég mikinn fjölda góðra vina á hátíðarsvæðinu í dag. Suma hefur maður ekki hitt til fjölda ára. Átti ég langt spjall við marga þarna og fórum við yfir málin yfir matnum og eða í biðröðinni eftir meiri mat. Þetta var sólríkur unaðsdagur á hafnarsvæðinu. Venju samkvæmt stjórnaði Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík og fv. alþingismaður, athöfn þar sem aðili tengdur sjávarútvegi í Dalvíkurbyggð var heiðraður. Að þessu sinni voru skipstjórarnir Helgi Jakobsson og Sigurður Haraldsson heiðraðir fyrir glæsileg framlög sín í þágu sjávarútvegs á Dalvík. Flutti Svanfríður ræðu við þetta tilefni, en við náðum að hittast í mannfjöldanum í dag og spjalla saman, en Svanfríður var kennarinn minn til fjölda ára og þekkt fyrir þau störf sín í huga þeirra sem voru í Dalvíkurskóla í hennar tíð.
Að auki hitti ég gömul skólasystkini, flokkssystkin víða að, ættingja og fjölda vina og marga fleiri - um margt var spjallað. Tíminn var ekki lengi að líða og um fimmleytið lauk hátíðinni með ræðu framkvæmdastjórans, Júlíusar Júlíussonar, sem að vanda stóð sig alveg gríðarlega vel við yfirstjórn og skipulagningu þessa merka viðburðar. Jafnframt leit ég svo að sjálfsögðu til mágs míns, Skarphéðins Ásbjörnssonar, sem venju samkvæmt var með fiskasýningu á hátíðarsvæðinu. Diddi er þekktur veiðimaður og hefur safnað mörgum tegundum. Alltaf fjölgar í safninu hans og að þessu sinni sýndi hann um 200 fisktegundir í körum á hátíðarsvæðinu. Það litu margir til hans og Línu systur í dag. Hann hefur sýnt þessari söfnun mikla elju og verið fastur hluti hátíðarhaldanna allt frá byrjun árið 2001. Vel gert hjá honum eins og venjulega.
Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, eins og ég skrifaði hér í gærkvöldi. Það sanna vel viðtökur landsmanna allra við deginum og mannfjöldinn sem kom til Dalvíkur í dag. Alltaf fjölgar þeim sem koma til Dalvíkur og fá sér góðan fisk að borða og kynna sér Dalvík í leiðinni. Þetta var ánægjulegur dagur á Dalvík í dag. Þangað var gaman að koma og ég þakka kærlega skipuleggjendum og aðstandendum hátíðarinnar fyrir að veita okkur góða og ánægjulega skemmtun í dag. Það verður gaman að koma aftur hingað að ári!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2006 | 01:34
Yndisleg stemmning á Dalvík

Á morgun verður Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í sjötta skiptið. Sú hefð hefur skapast að á öðrum laugardegi í ágústmánuði er haldin þessi glæsilega bæjarhátíð við höfnina á Dalvík. Fiskidagurinn hefur tekist með eindæmum vel þau fimm ár sem hann hefur áður verið haldinn. Árið 2001 komu um 7.000 manns á hátíðarsvæðið, 2002 voru þeir um 15.000, 2003 voru þeir um 23.000 talsins, 2004 voru þeir rúmlega 25.000 og í fyrra 30.000. Í fyrra var stemmningin sérstaklega notaleg og brakandi blíða var allan daginn - allir voru sælir þennan dag og gæddu sér á góðum sjávarréttum. Enn ein hefðin hefur skapast í kringum fiskidaginn en það er súpukvöldið nú daginn fyrir fiskidaginn. Það er skemmtilegt upphaf að hátíðinni og góð hefð sem með því er komin til sögunnar.
Í kvöld opnuðu íbúar í um 40 íbúðarhúsum í Dalvíkurbyggð heimili sín fyrir gestum og gangandi. Þeim var boðið upp á súpu og virkilega notaleg stemmning skapast. Það var mjög ánægjulegt að fara í kvöld labbitúr um bæinn og kynna sér það sem er að gerast. Fór ég seinnipartinn í dag og var langt fram á kvöld á labbi um bæinn og að líta á stemmninguna. Allsstaðar er fólki tekið með höfðingsskap, því boðið upp á góðan mat og notalegt andrúmsloft. Þar sem ég stoppaði við að smakka súpu var yndislegt að vera, spiluð tónlist og spjallað um heima og geima. Alveg yndislegt. Forsetahjónin hafa ákveðið að heiðra hátíðina með nærveru sinni og voru þau á labbi um bæinn og smökkuðu t.d. fiskisúpu í kvöld hjá Herborgu Harðardóttur, frænku forsetans, sem býr í Mímisvegi á Dalvík.
Ég bjó í nokkur ár á Dalvík og á þar góða vini, bæði frá árunum í skólanum þar og svo fólk sem ég kynntist í gegnum lífið og tilveruna. Allt alveg yndislegt fólk og það er gott að maður á góðar tengingar þangað - það finn ég alltaf vel þessa helgi sem þessi bæjarhátíð er. Það er svo margt fólk sem vill að maður komi í heimsókn og vill ræða við mann og metur mann mikils. Það er ómetanlegt. Allsstaðar hitti ég fólk sem maður þekkir og það var um margt að spjalla, suma hittir maður alltof sjaldan og aðrir eru traustir vinir sem maður er reglulega í sambandi við.
Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist á Dalvík á þessum degi að byggja upp yndislega stemmningu og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af.
Bendi lesendum að sjálfsögðu á heimasíðu Fiskidagsins mikla og kynna sér dagskrá og atburðina um helgina. Að lokum vil ég auðvitað hvetja alla, sem eiga tök á því, til að skella sér til Dalvíkur á morgun og njóta lífsins og yndislegrar stemmningar þar.
Frétt um súpukvöldið
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2006 | 19:18
Siv gefur kost á sér til formennsku

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins, tilkynnti í dag, á 44. afmælisdegi sínum, formlega um framboð sitt til formennsku í Framsóknarflokknum. Allt frá því að Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson tilkynntu um framboð sín til varaformennsku í Framsóknarflokknum hefur verið beðið eftir því að Siv tilkynnti um hvað hún hyggðist gera. Það hefur blasað við í nokkrar vikur að Siv væri alvarlega að íhuga formannsframboð og síðustu daga hefur stefnt í að hún væri búin í raun að gera upp hug sinn og biði aðeins eftir rétta tímanum til að kynna ákvörðunina. Í gær birtist grein eftir Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúa, í Fréttablaðinu þar sem hann lýsti yfir stuðningi við hana og skoraði á hana til framboðs og hið sama hafa stjórnir ýmissa flokksfélaga tilkynnt um nú síðasta sólarhringinn.
Siv Friðleifsdóttir, sem er eins og fyrr segir 44 ára í dag, hefur verið lengi framarlega í forystusveit Framsóknarflokksins. Hún var kjörin formaður Sambands ungra framsóknarmanna árið 1990, fyrst kvenna. Sama ár leiddi hún Neslistann, sameiginlegt framboð minnihlutaaflanna á Seltjarnarnesi, ásamt Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, síðar forsetafrú. Siv náði aldrei að höggva í hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi en henni tókst hinsvegar að vekja athygli á sér í forystu flokksins. Þegar að Steingrímur Hermannsson hætti í stjórnmálum árið 1994 til að verða seðlabankastjóri losnaði leiðtogastóll flokksins í Reykjaneskjördæmi. Siv og Hjálmar Árnason gáfu kost á sér í leiðtogaslaginn. Eftir harða baráttu þeirra náði Siv að sigra hann og leiddi svo flokkinn í þingkosningunum 1995. Hún og Hjálmar hlutu bæði kjör í kosningunum 1995.
Siv Friðleifsdóttir varð umhverfisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vorið 1999 en hún hafði sýnt áhuga á ráðherrastól fjórum árum áður, en ekki fengið. Siv var áberandi sem umhverfisráðherra og tókst að verða einn af mest áberandi ráðherrum flokksins. Frá árinu 2001 hefur hún haldið úti vef sínum, www.siv.is, og skrifað þar með mjög áberandi hætti um einkalíf sitt og stjórnmálastörf sín. Kjósendur hennar og stjórnmálaáhugamenn hafa þar fylgst með verkum hennar. Ennfremur hefur hún tekið myndir og birt á vefnum og vakið athygli fyrir lífleg efnistök. Hún missti ráðherrastól sinn í uppstokkun í ríkisstjórninni haustið 2004 er Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Deilt var mjög um þá ákvörðun og sú skoðun verið áberandi að það hafi haft úrslitaáhrif um að flokkurinn hafi lent í miklum ólgusjó.
Siv varð heilbrigðisráðherra í uppstokkun innan ríkisstjórnarinnar í mars 2006 þegar að Árni Magnússon hætti í stjórnmálum, en hann hafði allt frá alþingiskosningunum 2003 verið talinn líklegur eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli. Siv Friðleifsdóttir hefur verið ritari Framsóknarflokksins allt frá árinu 2001 þegar að forveri hennar í embættinu, Ingibjörg Pálmadóttir, hætti í stjórnmálum. Það er ekki hægt að segja annað en að Siv hafi lagt mikið af mörkum í flokksstarfi Framsóknarflokksins. Hún hefur enda sem ritari flokksins verið formaður flokksstjórnar Framsóknarflokksins og leitt allt innra starf hans. Forysta hennar í flokksstarfinu hefur verið nær óumdeilt og hún hlýtur að leggja þau verk sín öll, sem og verk í ríkisstjórn af hálfu flokksins, í dóm flokksmanna nú. Er ekki undarlegt að hún fari í þessa kosningu.
Með þessu er semsagt ljóst að Siv Friðleifsdóttir og Jón Sigurðsson munu takast á um formennsku í Framsóknarflokknum. Er mikið talað um það, og varla undarlegt, að bandalög hafi myndast til forystustarfa í flokknum. Siv og Guðni séu saman í kosningabandalagi og hinsvegar þau Jón og Jónína. Að sjálfsögðu segist Siv ekki vera í bandalagi við aðra um forystustörfin innan flokksins en það hlýtur að vera nokkuð augljóst að þær fylkingar sem tekist hafa á í flokknum nú um nokkurra ára skeið takist nú á um forystu Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem hefst eftir rúma viku. Sá slagur mun verða spennandi og það hefur stefnt í hann mjög lengi, en það verður nú hlutskipti Sivjar að fara í framboð gegn óskakandidat fráfarandi flokksformanns til forystu.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningar fara á flokksþinginu sem verður eflaust mjög mikið átakaþing um forystusess. Framsóknarflokkurinn er eins og allir sjá að ganga í gegnum miklar breytingar. Öflugur forystumaður hans í um þrjá áratugi er að hverfa af hinu pólitíska sviði og þáttaskil blasa því við hjá Framsóknarflokknum. Hvort sem að Jón eða Siv leiða flokkinn á þeim kosningavetri sem brátt hefst má fullyrða að flokkurinn þarf að fara í verulega uppstokkun til að ná að endurheimta sína stöðu að þingkosningum loknum eftir níu mánuði.
Það skiptir þó auðvitað máli að mati flestra flokksmanna hvor aðilinn muni vinna og leiða flokkinn. Það má væntanlega búast við spennandi og jöfnum kosningum, væntanlega þeim mest spennandi í sögu Framsóknarflokksins allt frá árinu 1944 er Hermann Jónasson felldi Jónas Jónsson frá Hriflu, sitjandi formann, af formannsstóli.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2006 | 14:59
Spenna framundan í frönskum stjórnmálum

Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með frönskum stjórnmálum að breytingar eru framundan. Að vori verða forseta- og þingkosningar í Frakklandi og margt bendir til þess að þáttaskil verði í báðum kosningunum. Kjörtímabili hins 74 ára gamla forseta Frakklands, Jacques Chirac, lýkur að vori og bendir flest til þess að hinn umdeildi hægrileiðtogi muni taka þá ákvörðun að láta gott heita og gefa ekki kost á sér til endurkjörs í þriðja skiptið eftir að hafa setið á forsetastóli í ellefu ár, eða allt frá árinu 1995. Chirac hefur upplifað marga slæma tíma og oft komist í hann krappan á fjögurra áratuga löngum stjórnmálaferli. Segja má að franskir kjósendur hafi sent honum rauða spjaldið í kosningunni um stjórnarskrá ESB í júní 2005 þar sem vilji hans beið hnekki með mjög áberandi hætti. Brást hann við tapinu með því að fórna forsætisráðherra sínum, Jean-Pierre Raffarin.
Chirac hefur ekki endurheimt þann styrkleika sem hann tapaði í kosningunum umdeildu fyrir rúmu ári og verður væntanlega sem lamaður þjóðarleiðtogi fram að kosningum. Óvinsældir hans hafa aukist til mikilla muna og það er af sem áður var þegar að Chirac tókst með glæsibrag að tryggja sér annað kjörtímabilið árið 2002. Það er eiginlega með ólíkindum hvað Chirac hefur tekist illa að halda glæsilegu umboði sínu eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Í báðum kosningunum stóð Chirac eftir með pálmann í höndunum. Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með glæsilegum hætti. Í fyrri umferð kosninganna hafði Lionel Jospin, forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalistaflokksins, mistekist að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum hafði það verið þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen sem varð mótherji Chiracs í seinni umferðinni.
Lionel Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að. Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Jean-Pierre Raffarin varð forsætisráðherra. Þá var hann afburðavinsæll og sterkur að velli. Eftir tapið í fyrra var hann orðinn svipur hjá sjón. Stjórnin varð undir og honum því sparkað. Tók Dominique de Villepin við embættinu en honum hefur aldrei tekist að verða öflugur forystumaður og þótt með eindæmum mistækur, t.d. í hinni frægu deilu um vinnulöggjöfina.
Nú stefnir í forsetakosningar. Flestir ganga að því sem gefnu að Chirac hætti. Hann er orðinn veiklulegur og sést hefur á síðustu mánuðum að heilsa hans er tekin að dala. Hann hefur væntanlega hvorki úthald né áhuga á að halda í annað fimm ára kjörtímabil. Ef marka má kannanir hafa Frakkar ennfremur takmarkaðan áhuga á honum nú. Chirac hefur mistekist að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar tapsins í fyrra. Hann fól de Villepin það verkefni en honum hefur ekkert gengið. Enginn vafi leikur á því að Nicholas Sarkozy, innanríkisráðherra, hefur verið pólitískur andstæðingur forsætisráðherrans og þeir margoft eldað grátt silfur. Sarko, eins og hann er almennt kallaður, telst óskabarn hægrimanna fyrir kosningarnar og mælist langvinsælastur þeirra nú og mun væntanlega takast að verða kandidat hægriblokkarinnar.
Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur á honum í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í fyrra. Töldu bæði hann og de Villepin að Sarkozy myndi ekki geta staðið undir því að vera innanríkisráðherra. Það hefur ekki minnkað vinsældir hans að vera í því ráðuneyti og hann virðist langvinsælasti stjórnmálamaður Frakka á hægrivængnum þegar að haldið er inn í kosningaveturinn. Chirac hafði væntingar um að de Villepin gæti notað forsætið sem stökkpall í forsetaframboð en svo fór ekki - hann hefur skaddast á því og það verulega, enda þótt klaufalegur. Sarko virðist geta leikandi létt tryggt sér framboðsstandard og það jafnvel án atbeina forsetans sem hefur dalað í vinsældum eins og fyrr segir.
Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna. Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur.
Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal hafa nefnt nafn Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra, sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fram fer nú í haust. Jospin er fimm árum yngri en Chirac forseti. Lítið hefur farið fyrir honum eftir tapið kostulega fyrir fjórum árum, sem skaddaði pólitískan feril Jospins og batt enda á forsætisráðherraferil hans. Hann hefur sagst tilbúinn í framboð en aðeins að því gefnu að góð samstaða myndist um sig, rétt eins og árin 1995 og 2002. Nú er engin samstaða um Jospin og andstæðingar hans innan flokksins (stuðningsmenn Royal) segja fjarstæðu að honum takist að vinna kosningar nú fyrst honum tókst það ekki sem sitjandi forsætisráðherra árið 2002. Flest bendir því til að Royal fái útnefningu flokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið.
Það stefnir í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá. Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verða harðir, eins og sést vel af umræðunni og sérstaklega vekur athygli nákvæm umfjöllun um einkalíf forsetaefnanna Royal og Sarkozy.
Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum og sérstaklega má búast við að forkosningar valdablokkanna í franskri pólitík verði beitt og harkaleg. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í frönskum stjórnmálum. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2006 | 17:13
Beðið eftir Siv

Eftir tíu daga verður nýr formaður Framsóknarflokksins kjörinn á flokksþingi á Hótel Loftleiðum í Reykjavík. Þá lýkur tólf ára litríkum formannsferli Halldórs Ásgrímssonar, sem hefur setið á Alþingi í yfir þrjá áratugi, var ráðherra nær samfellt í tvo áratugi og hefur verið formaður eða varaformaður flokksins í 26 ár. Litríkum stjórnmálaferli er að ljúka en við Framsóknarflokknum blasir ný framtíð undir forystu þess sem verður kjörinn í stað Halldórs Ásgrímssonar. Eins og ég greindi frá á vef mínum fyrir nokkrum dögum hefur aðeins Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, boðað alvöru formannsframboð og eins og horfir nú tíu dögum fyrir flokksþingið virðist hann hafa mjög góða stöðu. En mjög deildar skoðanir virðast uppi um Jón og margir hafa undrast gamaldags framkomu hans í sjónvarpsviðtölum seinustu vikurnar.
Í sumarbyrjun hefði fáum órað fyrir eða látið sér detta í hug að segja það opinberlega að seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson yrði jafnvel eftirmaður Halldórs á formannsstóli og eða að hann yrði ráðherra í ríkisstjórn Íslands. En sú varð raunin og nú stefnir allt í að hann verði formaður þessa gamalgróna stjórnmálaflokks sem fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Enn bíða stjórnmálaáhugamenn eftir ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur. Núna þegar að örfáir dagar eru til formannskjörs hefur hún ekki tekið endanlega ákvörðun um hvert hún stefni. Ákvörðun hennar mun hafa lykiláhrif á það í hvaða átt stjórnmálaferill hennar mun þróast. Hún hefur leitast eftir því að vera í forystu jafnréttisumræðu flokksins og hlýtur að vilja marka sér sess sem lykilforystukona flokksins við þau forystuskipti sem við blasa nú.
Í dag ritar Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, grein í Fréttablaðið. Þar skorar hann á Siv Friðleifsdóttur að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum og rekur feril hennar og afrek í stjórnmálum. Athygli vekur að hann lýsir þeim tímapunkti að hún missti ráðherrastól sinn í ráðherrahrókeringum haustið 2004 er Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra sem örlagaatburði í þeirri óheillasögu sem yfir flokkinn hefur dunið. Með því er varaborgarfulltrúinn ennfremur að segja að Halldór hafi keypt forsætisráðherrastólinn dýru verði og ein mestu pólitísku mistök flokksformannsins og forsætisráðherrans fyrrverandi hafi verið að skipta Siv Friðleifsdóttur út af taflborði flokksins í ríkisstjórn. Það eru merkileg orð og jafnvel eru þau sögð að sönnu, enda hefur flokkurinn verið í öldudal alla tíð síðan.
Nú bíða framsóknarmenn eftir því hvort alvöru átök verði um formennsku Framsóknarflokksins við þau þáttaskil að Halldór Ásgrímsson yfirgefur hið pólitíska svið. Siv Friðleifsdóttir er sú eina sem úr þessu getur veitt Jóni Sigurðssyni einhverja alvöru keppni um formannsstólinn. Siv hefur verið ráðherra nær samfellt frá árinu 1999 og verið alþingismaður af hálfu hans frá árinu 1995. Ef marka má þessa grein er mikið þrýst á Siv að fara í framboð og væntanlega er líklegra en ekki að hún láti slag standa.
Fari svo að Siv skelli sér í formannsframboð verður alvörubarátta um það hver muni leiða Framsóknarflokkinn inn í væntanlegan kosningavetur og í þá kosningabaráttu sem framundan er, en í þeirri baráttu gætu örlög flokksins ráðist og hvort honum tekst að rífa sig upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið mjög lengi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 23:23
Atvinnumótmælendur grípa í síðustu hálmstráin

Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka á Austurlandi og mótmælt þar væntanlegri virkjun á Kárahnjúkum og álveri við Reyðarfjörð. Framan af voru þessi mótmæli friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Fólk kom vissulega á framfæri skoðunum sínum og það með hófsömum hætti að mestu leyti. Það er eðli þjóðmálaumræðu að uppi séu ólíkar skoðanir og ólík sýn meðal fólks á hitamál samtímans - eins og flestir vita er þetta eitt mesta hitamál hérlendis á seinustu árum. En fullyrða má að vinnubrögð atvinnumótmælendanna seinustu daga hafi farið yfir strikið. Mótmælendur hafa að undanförnu hlekkjað sig við vinnuvélar, málað ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og ennfremur verið með óásættanlega framkomu við starfsfólk þarna.
Lögreglan greip í kjölfar þessara síendurtekinna afskipta af framkvæmdum til sinna ráða og lét fjarlægja búðir mótmælenda. Minnir staðan að þessu sinni hjá mótmælendunum á það sem gerðist á sömu slóðum fyrir ári. Um það og tengd mál skrifaði ég ítarlegan pistil á vefritið íhald.is fyrir nákvæmlega ári. Þær skoðanir sem ég lét þar í ljósi eru óbreyttar og ég er sama sinnis um þessi mótmæli, sem áttu að vera friðsamleg en gengu að lokum yfir allt sem eðlilegt telst. Eftir stendur enn og aftur sú staðreynd að lögregla á að grípa til sinna ráða þegar að mótmælendur vaða sífellt og æ ofan í æ inn í þá stöðu að atvinnumótmælendur haldi í algjöru leyfisleysi inn á vinnusvæði og hindri með því störf þeirra einstaklinga sem bæði eru í fullum rétti við að vinna sína vinnu og eru þar aðeins í þeim tilgangi að starfa við löglegar framkvæmdir.
Eins og fyrr segir eru framkvæmdir við virkjun og álver á Austurlandi umdeildar. Eftir stendur þó sú veigamikla staðreynd að þær eru fullkomlega löglegar og hafa hlotið sína staðfestingu. Alþingi Íslendinga samþykkti með afgerandi meirihluta allar framkvæmdir sem þar eiga sér stað og þær eru fullkomlega löglegar eins og fyrr segir. Lýðræðislega kjörinn meirihluti þjóðþingsins okkar staðfesti allt ferlið og það er því mjög ankanalegt að sjá mótmælendur að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdirnar. Andstæðingar álvers og virkjunar fyrir austan hafa verið mjög áberandi við að tjá skoðanir sínar og hafa bæði fengið tækifæri og lýðræðislegar leiðir til að tjá skoðanir sínar. Málið hefur hlotið endanlega staðfestingu og það er ekkert eftir að deila um - þeirra sjónarmið urðu undir. Þessar framkvæmdir eru staðreynd sem engu fær breytt.
Ég lít svo á að lögreglan fyrir austan sé að vinna sína vinnu. Sýslumaður fyrirskipaði að búðirnar skyldu fjarlægðar og því var framfylgt á grundvelli 15. greinar lögreglulaga frá árinu 1996. Það er vonlaust fyrir okkur áhorfendur að ætla að úthrópa lögregluna fyrir að vinna sitt verk. Það fólk sem er að tjá þau sjónarmið sem fyrir löngu urðu undir bæði í samfélaginu og á Alþingi Íslendinga verða að sætta sig við stöðu mála. Löglegar framkvæmdir verða að hafa sinn gang. Það er mjög einfalt mál. Mér finnst kostulegt að fylgjast með því unga fólki sem mótmælir fyrir austan og spyr mig hreinlega að því hvort það hafi ekkert annað þarfara að gera en að reyna að hindra löglegar framkvæmdir. Kostulegast af öllu er þó að sjá Ragnar Aðalsteinsson reyna að gera sig breiðan í einhliða fjölmiðlablaðri byggt á orðum þeirra sem fyrir austan voru.
Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna sem eru að vinna að þessu verkefni fyrir austan og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið. Kostulegast af öllu er að þetta fólk sé að mótmæla orðnum hlut og framkvæmdum sem hafa staðið í þrjú ár. En já það er margt undarlegra í henni veröld en hvað annað.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 17:34
Örlagadagur á stjórnmálaferli Joe Lieberman

Á þessum degi fyrir sex árum var mikill örlagadagur í lífi öldungadeildarþingmannsins Joe Lieberman frá Connecticut. Þá tilkynnti Al Gore, þáv. varaforseti Bandaríkjanna, að hann hefði valið Lieberman sem varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum 2000. Með því komst hann á spjöld sögunnar, enda var Lieberman fyrsti gyðingurinn í forystu forsetaframboðs annars af stóru stjórnmálaflokkunum. Þrátt fyrir að gagnrýna Bill Clinton, þáv. forseta, harkalega í málaferlunum fyrir sameinuðum þingdeildum vegna máls Monicu Lewinsky árið áður hafði hann hlotið náð fyrir augum forystu Demókrataflokksins. Kosningabaráttan var jöfn og æsispennandi. Að lokum fór það svo að Gore og Lieberman urðu að gefast upp. Þar munaði aðeins hársbreidd að Lieberman yrði fyrsti gyðingurinn á varaforsetastól landsins.
8. ágúst 2006 verður klárlega ekki síður örlagadagur í lífi þessa 64 ára þingmanns. Nú berst hann fyrir pólitísku lífi sínu eftir að hafa setið í öldungadeildinni í tæp 18 ár. Í dag fer fram forval demókrata í Connecticut. Fram til þessa hefur Lieberman átt auðvelt með að vinna tilnefningu flokksins til endurkjörs en nú stefnir í spennandi kosningadag. Lieberman var endurkjörinn síðast árið 2000, er kjörtímabili hans lauk. Hann ákvað að halda fast við þingframboð sitt þá þrátt fyrir að vera í kjöri með Al Gore. Mörgum fannst hann í raun gefa það út með því að ekki væri öruggt með að Gore myndi vinna. Fannst mörgum að hann hefði niðurlægt Gore. Vík varð milli þeirra þegar í baráttunni og Gore studdi frekar Howard Dean en Lieberman í forvali demókrata fyrir forsetakjörið 2004.
Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans. Svo fór að lítt kunnur viðskiptamaður að nafni Ned Lamont ákvað að gefa kost á sér. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu. Á nokkrum mánuðum hefur allt breyst. Nú mælist Lamont með forskot á Lieberman, fyrir nokkrum dögum var forskotið orðið 13% en hefur aftur minnkað nú seinustu dagana. Lieberman eyðir nú fé á báða bóga í baráttu sína fyrir því að halda velli. Hann er að berjast fyrir pólitísku lífi sínu og baráttan virðist svo jöfn að ómögulegt er um að spá hvor vinni. Flestir gera sér því grein fyrir að stórtíðindi gætu orðið í Connecticut í dag.
Lieberman hefur flaggað mörgum góðkunningjum sínum í forystu flokksins í baráttunni. Bill Clinton fór í fylkið til að styðja hann og ennfremur hafa margir félagar hans í öldungadeildinni mætt til að styðja hann af krafti. Lieberman gerir sér hinsvegar fulla grein fyrir því að ef honum tekst ekki að ná útnefningu flokksins í dag muni stuðningur þeirra gufa algjörlega upp, enda hafa flest þeirra sagst munu virða val demókrata á frambjóðanda í dag. Lieberman hefur reyndar sagst ætla að bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi nái hann ekki að hljóta kjör flokksins og sagt eðlilegt að íbúar fylkisins geti sagt álit sitt á verkum sínum þrátt fyrir að hann myndi jafnvel ekki vinna útnefningu flokksins.
Undanfarnar vikur hafa andstæðingar Joe Lieberman í stuðningsmannahópi Ned Lamont leitað að öllu neikvæðu varðandi Lieberman, tengt Íraksstríðinu og fleiru, og kynnt vel fyrir íbúum fylkisins og skaðað sterka stöðu þingmannsins. Eitt af því sem hefur farið víða er mynd af Lieberman og Bush forseta frá því að sá síðarnefndi flutti stefnuræðu sína fyrr á árinu. Á leið sinni að ræðupúltinu í salnum þar sem báðar þingdeildir voru samankomnar gekk Bush til Liebermans, faðmaði hann og virtist kyssa hann á kinnina. Myndin af þessu atviki hefur verið stækkuð og er nú notuð miskunnarlaust af Lamont og hans fólki undir yfirskriftinni: Bush´s best friend.
Það er reyndar kaldhæðnislegt að notað sé á Lieberman að vera hægrimaður í vinstriflokki og stimplað á hann að vera einhver aðdáandi Bush. Staðreyndin er enda sú að hann átti í lagadeilum við hann með Al Gore í 36 daga til að reyna að hnekkja sigri Bush í forsetakosningunum 2000 (hársbreidd frá varaforsetaembættinu) og svo keppinautur hans innan Demókrataflokksins í kosningunum 2004, þó að honum mistækist að vinna útnefningu flokksins þá studdi hann John Kerry ötullega gegn George W. Bush þá. En nú virðist aðdáun flokksmanna á hinum reynda Lieberman eitthvað hafa dalað og hann berst baráttu lífsins fyrir því að halda því sem hann hefur haft í bandarískri pólitík í um tvo áratugi.
Sex árum eftir örlagadaginn sem markaði hann sem vænlegt varaforsetaefni er hann að berjast yfir því að halda yfirráðum á valdastöð sinni í bandarískri pólitík. Hvort sem hann sigrar eða tapar í slagnum er þetta örlagadagur á hans ævi. Annaðhvort vinnur hann útnefningu flokksins til endurkjörs eða tapar stöðu sinni inni í flokkskjarnanum og þarf að byrja upp á nýtt. Tapi Lieberman kosningunni í dag mun stjórnmálaferill hans laskast gríðarlega og svo gæti farið að hann stæði nær einn á báti. Það eru mjög athyglisverð örlög manns sem fyrir sex árum var hylltur á flokksþingi demókrata í Los Angeles sem varaforsetaefni flokksins.
Það verður spennandi að sjá hver örlög Liebermans verða er talið verður í kvöld. Hvort sem verður má fullyrða að 8. ágúst sé örlagadagur í lífi þessa reynda stjórnmálamanns sem hefur upplifað gleði og baráttu á þessum degi á pólitískum ferli sínum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2006 | 23:57
Hugleiðingar við lok "fjölskylduhátíðar"

Það er langt liðið á mánudagskvöld og verslunarmannahelgin sögufræga er liðin enn eitt árið. Ég sit hér heima seint um kvöld og blogga hér í stofunni heima hjá mér og horfi á rökkrið úti, sem er enn einn vitnisburður þess að sumri tekur brátt að halla. Það er óhætt að segja að þessi helgi hafi verið nokkuð söguleg fyrir Akureyri. Mannfjöldamet var slegið hér um helgina - í bænum voru um 20.000 manns gestkomandi og niðurstaðan því fjölmennasta útihátíð um verslunarmannahelgina til þessa. Við hér á Akureyri getum vissulega verið stolt af því að fólk vilji koma til Akureyrar og kynna sér bæjarbraginn hér og skemmta sér - það er alltaf gott að fá fjölskyldufólk hingað í sumarfríinu. Margir sem hingað komu um helgina voru að skemmta sér og voru með fjölskylduna sína og höfðu gaman af lífinu og tilverunni.
En það eru skuggahliðar á flestöllum skemmtunum. Þegar að ég var yngri var hér útihátíðin Halló Akureyri um verslunarmannahelgi og allir sem upplifðu hana kenna hana við sukk og svínarí af flestu tagi. Ég var einn þeirra sem fékk mér í glas á þeirri skemmtun og hafði gaman af lífinu og tilverunni, hef því verið ungur og hress. Það er enda vissulega fátt skemmtilegra þegar að maður er yngri en að sletta úr klaufunum og hafa gaman af því að lifa - í huga ungs fólks á þessum aldri snýst allt um að lifa hátt. Það vita allir sem hafa verið unglingar. Ég get þó ekki neitað því að Halló Akureyri fór full hátt og við græddum lítið nema illt umtal og leiðindi á þeim strúktúr að hátíð sem þá var. Svo fór enda að menn viku að braut hátíðar af því tagi og tekið var upp annað og fjölskylduvænna form.
Seinustu árin hefur því fjölskylduhátíðin Ein með öllu verið hér í bænum og þeir vankantar sem fylgdu Halló Akureyri voru sniðnir af einn af öðrum. Eftir stóð betri hátíð, hátíð fjölskyldunnar, sem við gátum verið meira stolt af. Í fyrra fannst mér hátíðin fara virkilega vel fram og ég var stoltur af þeim sem héldu utan um hátíðina og t.d. gladdist ég mjög með að menn leystu eilífðarvandamálið með tjaldsvæðið hér í götunni en það var orðin hefð að þessa helgi vall þar yfir rusl og ósómi. Tekið var annars til hendinni: lögreglan var styrkt, dagskráin fjölskyldulegri og stuðningshópar fengu sess í skipulagningunni. Ég held að bæjarbúar hafi sjaldnar verið sáttari við hlutina en eftir hátíðina í fyrra, þá var umtalið gott og við töldum okkur hafa fundið hið rétta form.
Nú þegar að þessi helgi er liðin stöndum við frammi fyrir nokkuð áleitnum spurningum - við verðum að spyrja okkur hvað sé að gerast í raun og veru? Höfum við eitthvað sofnað á verðinum? Höfum við aftur fengið á okkur sukkstimpilinn sem fylgdi Halló Akureyri? Erum við að sigla í sömu átt og við reyndum að forðast áður? Mér fannst sukkið hér um helgina fara yfir allt: ég hef oft verið á ferð í bænum og skemmtistöðunum en aldrei séð aðra eins óreglu og ólifnað (sérstaklega á mjög ungu fólki) eins og þá blasti við. Ungmennadrykkjan var óhófleg og fór yfir öll fyrri mörk. Það er eiginlega varla hægt að tala um fjölskylduhátíð finnst mér. Þegar að við horfum á aðra eins unglingadrykkju, nauðgunartilraunir, fjölda eiturlyfjamála og óhófleg skemmdarverk á eigum bæjarbúa verðum við að hugsa hlutina upp á nýtt.
Ég er enginn dýrlingur svosem en ég get sagt frá hlutunum eins og þeir blasa við mér. Ég spyr mig margra spurninga eftir þessa hátíð. Ég varð vitni að ýmsum slagsmálum um helgina og undraðist hörkuna í sumum. Slysadeildin fylltist og þar varð meira að segja að hafa gæslu til að vernda starfsfólkið fyrir drukknum ólótaseggjum sem komnir voru þar til að gera að sárum sínum eftir átök í ölæði og sukki. Þegar að ég kom heim seint um eina helgarnóttina voru hörkuslagsmál hér rétt hjá heimili mínu í Þórunnarstrætinu. Það var ekki fjarri sanni að maður héldi að maður væri kominn í Kínahverfið þar sem slagsmál og ósómi eru daglegt brauð. Fíkniefnamálin eru skelfilega mörg, svo mörg að maður hreinlega verður að hugsa um á hvaða leið við séum.
Ég hitti útlend hjón á ferðalagi í bænum í versluninni við Byggðaveg, en ég fór þangað til að versla mér inn það sem vantaði með grillsteikinni í gær. Við áttum langt spjall inni í búðinni. Þau komu frá Þýskalandi og voru mjög hugsi. Þau spurðu mig að fyrra bragði um hvort að útihátíð á borð við þessa væri reglulegur viðburður hér í bænum. Þau voru nokkuð hissa þegar að ég sagði þeim að svona hátíð væri alltaf fyrstu helgina í ágústmánuði ár hvert og hún væri kennd við verslunarmenn. Fyrir það fyrsta voru þau hissa að verslanir væru opnar á fríhelginni þeirra og þau spurðu mig meira út í bæjarbraginn. Eftir samtalið varð ég allnokkuð hugsi og ég fann á þeim að þau höfðu hugleitt að fara en sögðust væntanlega vera lengur fyrst þau höfðu heyrt að óreglan og sukkið í miðbænum færi brátt að taka enda.
Það er alveg ljóst að fylleríið í bænum náði hámarki þessa helgina og menningin sem ríkti á götum bæjarins er líða tók á nóttina var ekki beint fögur og fátt fjölskyldulegt við hana. Það er slæmt að skemmdir séu á eigum fólks í bænum og allra verst er ef þessi hátíð er að verða vettvangur dópsala. Þessi hátíð í ár var engan veginn eins áferðarfalleg og ég átti von á og mér fannst fátt fjölskylduvænt við það sem sást í miðbænum þegar að líða tók á kvöldin. Dópsalan var víst skelfileg og þegar yfir 60 tilfelli skráð, við sluppum því miður ekki við þann óþverra sem nauðgunartilfelli eru og líkamsárásirnar voru margar og aldrei meira að gera á slysadeildinni. Verst af öllu er greinileg dópsala um helgina en eins og vel sést á umræðunni eru ungmenni hér auðveld bráð þeim óþverrum sem þann markað stunda.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar Akureyrarbæjar, fer yfir þessa helgi í athyglisverðum pistli á Íslendingi, vef Sjálfstæðisflokksins hér í bæ, nú í dag. Þann pistil las ég með áhuga og fannst gott að vita að bæjarfulltrúi hér á Akureyri fylgist vel með stöðunni og skrifar um hana. Það eru alltof fáir bæjarfulltrúar sem skrifa á netið. Ella Magga hefur lengi verið á móti því að hafa útihátíð um verslunarmannahelgina með þessu tagi og varaði sérstaklega við stöðunni fyrir helgi. Gagnrýni hennar þar átti rétt á sér og mér finnst margt af því sem hún varaði sérstaklega við hafa gengið eftir um helgina. Það er vissulega gott að fá góða gesti í bæinn en því miður kom nokkur fjöldi af svörtu sauðunum með sem settu óorð á annars góða hátíð.
Við verðum að hugsa ráð okkar áður en við ákveðum að halda svona hátíð aftur. Ef við gerum það verðum við að stokka hana verulega upp og laga af þessa vankanta og reyna að tryggja að bærinn breytist ekki í sukkstöð og vettvang dópviðskipta og hreins og beins ólifnaðar eins og því miður alltof mikið var af hér um helgina. Ég vil að Akureyri standi undir nafni sem fjölskyldubær en fái ekki á sig stimpil óreglu og sukks - en alltof mikið var af slíku hér um helgina og því miður það eina sem var fréttnæmt héðan. Það þarf að fara yfir allar hliðar hátíðarinnar og velta framhaldinu mjög vel fyrir sér.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2006 | 19:57
Styttist í pólitíska kveðjustund Halldórs

Tveir mánuðir eru nú liðnir síðan að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um þá ákvörðun sína í kvöldsólinni við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum að hætta þátttöku í stjórnmálum og láta af embætti forsætisráðherra. Undir lok næstu viku mun Halldór formlega láta af formennsku í Framsóknarflokknum og kveðja stjórnmálin með yfirlitsræðu sinni. Má búast við kraftmikilli og öflugri ræðu, enda er þetta síðasta verk Halldórs í stjórnmálum og kveðja hans til þess flokks sem hann hefur starfað fyrir til fjölda ára, en Halldór hefur verið annaðhvort formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980. Frá því að Halldór lét af embætti forsætisráðherra hefur lítið farið fyrir honum og hann ekki veitt nein viðtöl og hefur verið á hringferð um landið til að kveðja formlega trúnaðarmenn Framsóknarflokksins.
Enn sem komið er telst Jón Sigurðsson eini aðilinn sem gefið hefur kost á sér til formennsku Framsóknarflokksins sem telst eiga raunhæfa möguleika. Fáum blandast reyndar hugur um að hann hefur stuðning flokksmanna um allt land og hefur líka breiðan stuðning úr báðum fylkingum flokksins að því er virðist. Reyndar hafa tveir menn að auki, Lúðvík Gizurarson og Haukur Haraldsson, tilkynnt um framboð sín ennfremur. Fáir taka þó framboð þeirra trúanleg og litið á þau sem grín umfram allt. Sérstaklega er fyrrnefndur Haukur skondinn en hann virðist í framboðinu af alvöru þó að það læðist að manni sú hugsun að hann sé ekki alveg með hlutina á hreinu innan flokksins. En það er gaman af honum þrátt fyrir allt og ekki veitir nú framsóknarmönnum af að hafa eitthvað til að hlæja af.
Mörgum að óvörum ákvað Guðni Ágústsson, varaformaður, að fara ekki í formannsframboð og gefa áfram kost á sér sem varaformaður. Flestir höfðu áður talið að hann myndi skella sér í slaginn og standa og falla með niðurstöðunni. Enn bíða menn hinsvegar þess hvað Siv Friðleifsdóttir hyggst gera og hlýtur yfirlýsing hennar að koma í þessari viku, enda nú aðeins ellefu dagar til stefnu. Hún fer í framboð, það sjá allir, en fólk hlýtur að spyrja sig að því á hvað hún muni stefna. Enginn vafi er á því að Jónína Bjartmarz er á fullu í sínu varaformannsframboði. Hún og vinkona hennar, Anna Kristinsdóttir, voru staddar hér við fyrstu skóflustungu menningarhússins og blandaðist engum hugur um hversvegna þær stöllur voru staddar þar á nákvæmlega þeirri stundu.
Þó að aðeins 11 dagar séu þar til að flokksþing Framsóknarflokksins hefjist er erfitt í raun að spá um stöðuna. Ég tel þó orðið nánast öruggt að Jón Sigurðsson verður næsti formaður Framsóknarflokksins og að Guðni vinni Jónínu í varaformannskjöri. Jónína var fljót á sér að skella sér í slaginn og hefði sennilega ekki lagt í hann nema að telja sig vera að slást um lausan stól. Ákvörðun Guðna breytti mörgu fyrir hana og hún þarf að sækja í Guðna og fella hann, sem verður erfitt verkefni. Hún gæti þó unað sæl við stöðuna ef hún tapar naumt. Verði ósigurinn mikill mun hún eiga erfitt uppdráttar í kosningum að vori með annað afgerandi tapið í varaformannskjöri á bakinu. Guðni græðir svo auðvitað á því að vera kandidat utan af landi og með skýr tengsl í landbúnaðarkjarnann.
Það eru margar spennandi pælingar í þessu þrátt fyrir allt og ein pælingin er sú að Siv sækist áfram eftir ritaranum og bíði á hliðarlínunni eftir því að sinn tími komi. Önnur pælingin er að hún sæki í Jón og reyni að sjá hvar styrkur hennar liggur og hvernig staða hennar er innan flokksins. Hvort svo sem verður ofan á má fullyrða að fróðlegt verði að fylgjast með eftirmanni Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli flokksins á kosningavetri. Sérstaklega mun ég fylgjast vel með kveðjuræðu Halldórs, en hún verður væntanlega yfirgripsmikið uppgjör hans við langan stjórnmálaferil sinn en Halldór Ásgrímsson hefur verið í innsta hring íslenskra stjórnmála í yfir tvo áratugi og var lengi lykilmaður í forystu þjóðmálanna.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2006 | 14:01
Fólksfjöldamet slegið á Akureyri

Fólksfjöldamet á Akureyri hefur verið slegið nú um helgina á útihátíðinni Ein með öllu, sem haldin er hér í bænum nú um verslunarmannahelgina. Það er alveg óhætt að segja að mikið fjör hafi verið hér um helgina og við varla séð annað eins. Tæplega 17.000 manns búa hér á Akureyri en vel rúmlega sá fjöldi hefur verið hér um helgina að auki og því hefur fjöldinn í bænum rúmlega tvöfaldast. Óhjákvæmilegt er að slíkum fjölda á þessari helgi fylgi óregla, drykkja og villilíferni. Finnst mér reyndar það meira þetta árið en sum hin fyrri. Það er enda alveg augljóst að erfitt er að hafa stjórn á öllum þessum fjölda og varla hlaupið að því. Mun staða mála eftir helgina leiða til þess að menn fara yfir hátíðina og endurskilgreina hana og ekki veitti af því að stokka upp ýmsa gjaldaliði hennar eitthvað.
Utan fyllerís og frétta af þeirri óreglu allri er allt gott að frétta héðan. Allt virðist hafa að mestu farið vel fram ef litið er framhjá unglingadrykkju og líkamsárásum. Ég var í bænum allt föstudagskvöldið og skemmti mér langt fram á nótt. Var mikil stemmning á miðbæjarsvæðinu og man ég ekki annan eins mannfjölda og þá var saman kominn á svæðinu milli Sjallans og Hótels KEA. Hitti ég mikinn fjölda af góðu fólki og hingað heim hefur komið mikill fjöldi ættingja og vina. Þetta hefur því hvað mig varðar verið virkilega góð helgi og kvarta ég ekki beint en eins og fyrr segir er eflaust orðið rétt að spá í sumum hliðum hátíðarinnar og sníða suma vankanta af sem hafa nú komið í ljós. Við getum annars verið glöð með að fólk hafi valið það að koma hingað norður til að skemmta sér.
Enn eitt árið er Akureyri vinsælasta útihátíð verslunarmannahelgarinnar - það sýnir sig og sannar að hingað vill fólk koma þessa helgina og virðumst við vera með tvöfalt fleiri gesti en næstvinsælasta hátíðin. Það styrkir stöðu bæjarins að mörgu leyti og veitingamenn og aðrir aðilar geta varla annað en verið ánægðir, enda hefur verið biðröð á veitingastaði og verslanir bæjarins þessa helgina. Í gær fór ég t.d. í 10-11 í Kaupangi og þar þurfti ég að standa í nokkurra mínútna röð sem hefur aldrei gerst áður. Annars hefur þetta verið fín helgi og sérstaklega hlakkar mér til kvöldsins en þá munum við syngja saman á fullu í brekkusöng og svo verður flott flugeldasýning í kjölfar þess.
Þar sem ég bý rétt hjá íþróttavellinum munum við í fjölskyldunni koma saman hér fyrir og eftir sönginn og skemmta okkur vel. Þetta er alltaf skemmtileg helgi og það er auðvitað gleðiefni að Akureyri sé vinsælasti áfangastaðurinn fyrir fólk víðsvegar um land enn eina verslunarmannahelgina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2006 | 18:03
Verslunarmannahelgin að skella á

Verslunarmannahelgin er að skella á. Þessi mesta ferðahelgi ársins hentar vel til þess að slappa vel af heima eða að ferðast um landið og kynna sér útihátíðirnar og skemmta sér vel. Margir verða á faraldsfæti og hingað norður er kominn nokkur fjöldi fólks, eins og venjulega, á fjölskylduhátíðina Ein með öllu. Að þessu sinni ætla ég að dveljast hér heima á Akureyri og njóta lífsins vel, enda fjöldi vina og ættingja á svæðinu.
Það er viðeigandi að kanna vel menningarlífið í bænum, sleikja sólina og skemmta sér vel í hópi ættingja og vina. Á sunnudagskvöldið er svo ómissandi liður í hátíðahöldum helgarinnar, brekkusöngurinn á Íþróttavellinum. Þar tökum við öll, bæjarbúar sem og gestir okkar, lagið saman og eigum notalega og ljúfa stund saman í kvöldrökkrinu. Svo má ekki gleyma því að á sunnudaginn verður grillað ekta lambakjöt. Uppskrift að notalegri og góðri helgi.
Óska öllum lesendum góðrar skemmtunar um helgina, hvar svo sem þið eruð stödd.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2006 | 19:03
Kostulegt stefnuflökt í minnkandi flokki

Stundum veit maður ekki alveg hvert í ósköpunum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að fara í sinni pólitík né síður hvaðan hún er að koma. Ég var að horfa áðan á viðtal við hana í kvöldfréttum NFS í gærkvöldi - enn eitt kostulegt viðtalið er svosem frekar hægt að segja. Í stuttu máli sagt var hún þar enn einu sinni að reyna að búa til kosningamál úr þeirri lítt spennandi tilhugsun að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það er svosem ekkert nýtt að Samfylkingin tali fyrir þessu tvennu og er varla frétt nema í gúrkutíðinni á hásumri. Það sem mér fannst miklu frekar frétt var sú yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar að Samfylkingin myndi ekki setja aðild að ESB sem skilyrði að ríkisstjórnarmyndun.
Sagði Ingibjörg Sólrún í viðtalinu við Herdísi Sigurbergsdóttur að það gengi ekki fyrir flokkinn að gera kröfu um það þar sem Samfylkingin sé ein um þessa stefnu. Þetta var alveg hlægilegt - í raun gat hún enda sagt að Samfylkingin hefði engan áhuga á að berjast fyrir málinu. Á tyllistundum hefur sá söngur hljómað að Samfylkingin sé málsvari ESB og tali fyrir kratastefnu Jóns Baldvins í Evrópumálum meðan að hann var utanríkisráðherra. Í raun má segja nú að málið sé skraut á flokknum en eitthvað sem ekkert er að marka. Það er að vissulega ánægjulegt fyrir okkur að formaður Samfylkingarinnar telji sig ekki geta náð þessu í gegn og þori ekki að leggja í slag um það.
Það er ekki furða að Ingibjörg Sólrún sé að fuðra upp pólitískt og tekið sé að hitna undir formannsstól hennar, þegar að mið er tekið af stefnuflökti hennar. Það virðist vera algjörlega vonlaust fyrir hana og flokkinn að einblína á mál - mynda sér stefnu og standa við hana í gegnum þykkt og þunnt. Í þá 15 mánuði sem hún hefur verið formaður hefur hvorki gengið né rekið í flokknum og hann tapað markvisst fylgi. Nú hefur hún setið á þingi í nákvæmlega ár og staðan virðist ekki beysin. Það yrði altént mikil pólitísk tíðindi ef svo færi að VG myndi standa á pari við Samfylkinguna eftir næstu kosningar, en munurinn milli flokkanna minnkar sífellt.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir Samfylkingarfólk að horfa upp á stöðuna og vera að horfast í augu við að talið um tvo turna er bara þvæla og að VG sé farið að naga á hælana á þeim flokki sem átti lengi vel að vera pólitískt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hlegið að því markmiði núna og Ingibjörg Sólrún virðist vera í miklum erfiðleikum. Væntanlega fer að líða að því að menn fari að velta því fyrir sér hver muni leysa hana af hólmi á formannsstóli flokksins, enda mun hún varla geta setið lengi sem formaður fari svo að Samfylkingin tapi fylgi og þingsætum frá kosningunum 2003.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2006 | 18:06
Rjómablíða á gömlu góðu Akureyri

Það hefur verið alveg unaðslegt að vera lítið fyrir framan tölvuna seinustu dagana og njóta sumarsins í hitabylgjunni sem nú er hér á gömlu góðu Akureyri. Það var svo gott veðrið hér í gær að leitun er að öðru eins seinustu árin hreinlega sagt. Í dag var hitinn litlu minni - svo fór að ég sólbrann í dag og þurfti í fyrsta skiptið til fjölda ára að grípa til sólvarnar eftir að hafa fengið mér tveggja tíma göngutúr í bænum fyrir og eftir hádegið.
Þetta var alveg frábær dagur og við erum öll í sæluvímu hér. Þegar er fjöldi fólks tekinn að streyma til Akureyrar til að vera á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu sem stendur alla helgina. Góð dagskrá framundan og besta veðrið verður að sjálfsögðu hér. Var reyndar að koma heim eftir göngutúrinn og hitti þegar fjölda vina og kunningja að sóla sig í bænum og við kaffihúsin að fá sér hressingu.
Ekki til mörg lýsingarorð svosem til að lýsa veðrinu og stemmningunni hér. Ætli ég láti meistara Bubba ekki það eftir en lagið hans Fallegur dagur frá árinu 2004 er unaðslega gott og hittir í hjartastað. Flottur texti - skothelt lag.
Veit ekki hvað vakti mig
vill liggja um stund
togar í mig tær birtan
lýsir mína lund
Þessi fallegi dagur
þessi fallegi dagur
Íslenskt sumar og sólin
syngja þér sitt lag
þú gengur glöð út í hitann
inn í draumbláan dag
Þessi fallegi dagur ...
Mávahvítt ský dormar dofið
inn í draum vindsins er það ofið
hreyfist vart úr stað
konurnar blómstra brosandi sælar
sumarkjólar háir hælar
kvöldið vill komast að
Þessi fallegi dagur ...
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2006 | 23:25
N4 blæs til nýrrar sóknar í fjölmiðlun á Akureyri

Fyrr í kvöld horfði ég á nýjan og vandaðan magasínþátt á nýrri akureyskri sjónvarpsstöð sem ber heitið N4. Hún tekur við af Aksjón, sem hefur allt frá árinu 1997 verið með sjónvarpsefni héðan frá Akureyri, sýnt t.d. frá bæjarstjórnarfundum í Ráðhúsinu að kvöldi fundardags og verið með dagskrárgerð utan fréttaþáttarins Kortér sem var sýndur hvern dag kl. 18:15 og eftir það á klukkustundafresti. Nú heyrir Aksjón semsagt sögunni til og hinn lífseigi og áhugaverði þáttur Kortér ennfremur. Aksjón hefur staðið sig mjög vel en fyrirheit nú gefin um að N4 verði enn öflugri.
Var þetta fínn þáttur sem ég hafði gaman af að sjá nú í kvöld. Gefin eru góð fyrirheit af eigendum N4 um meiri dagskrárgerð en var á Aksjón, sem er mikið gleðiefni fyrir okkur öll hér sem viljum fréttir af því sem er að gerast hér á svæðinu og vandaða dagskrárgerð utan hinu beinu frétta. N4 sér NFS fyrir fréttum af þessu svæði og er Björn Þorláksson sérstaklega í því verkefni að miðla fréttum héðan suður um heiðar fyrir NFS-stöðina sem miðlar fréttum nær allan sólarhringinn með bravúr. Hlutur okkar í fréttum þar er meiri en áður altént.
Í fyrsta fréttaþættinum á N4 nú í dag var mjög áhugavert viðtal við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra, sem var áður í beinni á NFS í hádeginu í dag. Þar vék hann að mörgu sem í gangi hefur verið og fannst mér sérstaklega ánægjulegt að heyra ummæli hans um björgunarþyrlur, en við hér fyrir norðan viljum fá eina þeirra hingað norður, eins og vel hefur komið fram. Ennfremur fór hann yfir væntanlega fjölskylduhátíð sem verður haldin hér í bænum næstu dagana. Hér ríkir sannkölluð hitabylgja og verður fjölmenni væntanlega í bænum.
Ræddu Björn og Kristján Þór saman í hitanum í Strandgötunni og var þetta hið fróðlegasta viðtal. Sagði Kristján Þór vonir okkar sjálfstæðismanna standa til þess að sjálfstæðismaður yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins að vori. Það er markmið sem við öllum vilja standa vörð um og mikilvægt er að tryggja að framboðslisti flokksins að vori verði vandaður og sigurstranglegur - vel valið á hann, vonandi með prófkjöri, svo að þau markmið sem við öllum viljum að rætist verði að veruleika.
En já, til hamingju N4 með nýtt upphaf í fréttaþjónustu og dagskrárgerð hér á svæðinu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2006 | 17:43
Draumur um menningarhús á Akureyri rætist

Í gær var mikill gleðidagur hjá okkur Akureyringum. Þá tók Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, fyrstu skóflustunguna að menningarhúsi í miðbænum á byggingarreitnum á uppfyllingunni við Torfunesbryggju. Í sjö ár hefur verið rætt um menningarhús á landsbyggðinni, þ.á.m. hér og við höfum fylgst með hugmyndinni allt frá byrjun árið 1999 er hugmyndin var kynnt á teikniborði Björns Bjarnasonar, þáv. menntamálaráðherra, formlegrar undirritunar um framkvæmdina í menntamálaráðherratíð Tómasar Inga Olrich árið 2003 og að lokum til gærdagsins þegar að formleg endalok vinnsluferlisins varð að veruleika. Nú er komið að því að draumurinn rætist formlega og nú mun húsið rísa - það mun verða til árið 2008.
Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira. Jafnframt er gert ráð fyrir að Upplýsingamiðstöð ferðamanna verði í húsinu, sem og veitingasala.
Það var notaleg og góð stemmning við þetta gleðilega tilefni og margir samankomnir þar. Hitti ég marga góða félaga og vini og ræddi lengi við þá. Var sérstaklega ánægjulegt að hitta Tómas Inga Olrich, sendiherra og fyrrum menntamálaráðherra, og eiginkonu hans Nínu Þórðardóttur og ræða við þau, en nokkuð er um liðið síðan að ég hitti Tómas Inga síðast. Svo er auðvitað alltaf virkilega notalegt að hitta Þorgerði Katrínu vinkonu mína og ræða stjórnmálin við hana - í þetta skiptið fylgdu til hennar góðar hamingjuóskir frá mér með þann merka áfanga sem hún náði með því að verða fyrsta konan í forsæti ríkisstjórnar á fundum hennar.
Þarna voru margir góðir gestir altént og gæddum við okkur á dýrindistertum þarna sem var í lagi menningarhússins. Þetta var notaleg og góð stund - mikið gleðiefni fyrir alla sanna menningarunnendur á Norðurlandi. Þetta er altént stór stund fyrir okkur Akureyringa sem fögnum því að menningin blómstri, því það mun hún svo sannarlega gera í þessu húsi sem brátt rís.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)