31.8.2005 | 15:50
Engin fyrirsögn

Átta ár eru í dag liðin frá því að Díana prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Eins og frægt var sagt í blöðum er hún lést var hún mest myndaða kona sögunnar. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún giftist inn í fjölskylduna. Hún heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 24 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst Karli, ríkiserfingja Bretlands, og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.
Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og strítt jafnframt við sjálfmorðshugsanir á tímabili. Á síðasta ári voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.
Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan. Um London var blómahafið ótrúlegt, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Persónulega hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Díönu prinsessu. Það mun sennilega líða á löngu áður en ein manneskja mun hafa jafnmikil áhrif á jafnmarga og hún gerði, bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Þeim sem vilja kynna sér ævi Díönu bendi ég á bók Andrew Morton um hana frá árinu 1992 og minningabók Anthony Holden um hana, sem kom út árið 1998.

Leiðtogakjör er framundan í breska Íhaldsflokknum. Reglum vegna kjörsins hefur nú verið breytt. Nú er það þingflokkur Íhaldsflokksins og áhrifamenn innan flokksins sem velja leiðtogann. Þannig var það allt til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi af öllum flokksmönnum í póstkosningu. Reglunum hafði verið breytt árið áður og var þeim ætlað að breyta ásýnd flokksins. Er Duncan Smith var steypt af stóli innan flokksins fyrir tveim árum varð Michael Howard sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli. Hann boðaði brotthvarf sitt af leiðtogastóli eftir að Íhaldsflokknum mistókst að vinna þingkosningarnar fyrr á þessu ári og afla flokknum fleiri en 300 þingsæti. Stefnir allt í mikil átök um val á eftirmanni hans. Í gær lýsti Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Er þetta í þriðja skiptið sem hann fer fram, en hann tapaði í leiðtogakjöri árin 1997 og 2001. Hefur hann lengi verið umdeildur innan flokksins vegna skoðana hans á Evrópumálunum. Ennfremur hefur Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnt um framboð sitt. Er hann almennt talinn í vinstriarmi flokksins. Er öruggt að David Davis muni gefa kost á sér, en hann er framarlega í núverandi skuggaráðuneyti flokksins. Jafnframt bendir flest til þess að Liam Fox og David Cameron munu ennfremur gefa kost á sér. Framundan er því án nokkurs vafa mjög spennandi kjör í Íhaldsflokknum á nýjum leiðtoga flokksins.

Óhætt er að segja að Árni Þór Sigurðsson leiðtogi VG í borgarstjórn og fyrrum forseti borgarstjórnar, hafi komið mörgum á óvart í gær með því að bjóða sig fram í annað sætið á framboðslista VG fyrir væntanlegar borgarstjórnarkosningar. Hann ætlar greinilega að leggja allt undir og leggur áherslu á að VG sækist hið minnsta eftir tveim borgarfulltrúum og leggur sig að veði, hann fari þá út ef flokkurinn nær ekki þeim fjölda í borgarstjórn sem hann hefur nú innan R-listans, semsagt tveim. Nær öruggt er að Svandís Svavarsdóttir fari fram í fyrsta sætið. Svandís er vel ættuð pólitískt. Faðir hennar er Svavar Gestsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Hún er móðir Odds Ástráðssonar formanns ungra vinstri grænna. Hún er núverandi formaður VG í borginni. Engum þarf að blandast hugur um það hversu sterk hún er innan flokkskjarnans. Svo er staða Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, með öllu óljós eftir að hún varð undir á frægum félagsfundi VG um daginn. Katrín Jakobsdóttir ætlar væntanlega ekki að fara fram í borgarmálunum. Væntanlega stefnir hún á þingframboð árið 2007. Nú hefur Árni Þór minnt á sig og opnað heimasíðu á netinu. Byrjar hann með krafti með skondnum pistli um vefskrif Össurar.

Fellibylurinn Katrín gekk yfir Louisiana, Mississippi og Alabama í byrjun vikunnar og olli gríðarlegu tjóni og eyðileggingu. Talið er að Katrín sé umfangsmesti fellibylur og ofsaveður sem yfir Bandaríkin hafi gengið í manna minnum. Glundroði ríkir í New Orleans og er óttast um að mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir, hafi farist í flóðum eftir hamfarir Katrínar. Flætt hefur um meginpart borgarinnar og eyðileggingin er gríðarleg. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flýtti lokum sumarfrís síns í Crawford í Texas og hélt til Louisiana og flaug yfir hamfarasvæðin. Tjáði hann sig um málið að því loknu og lofaði yfirvöldum á svæðinu allri mögulegri aðstoð sem til þyrfti. Sagði forsetinn að náttúruhamfarirnar séu með því versta sem yfir Bandaríkin hafi dunið í manna minnum. Ljóst er að uppbyggingarstarf muni taka mörg ár, jafnvel áratugi. Ljóst er að Katrín hefur valdið mun meira eigna- og fjártjóni en aðrar náttúruhamfarir síðustu árin. Hugur allra er þessa dagana hjá íbúum suðurríkja Bandaríkjanna sem orðið hefur fyrir eignatjóni og misst aðstandendur sína í hamförunum.
Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, lætur af störfum í dag. Við blasir að nokkur þáttaskil eru framundan hjá RÚV samhliða útvarpsstjóraskiptum. Það hefur komið vel fram í fjölmiðlum eftir að tilkynnt var um skipan Páls Magnússonar í þetta embætti að hann hefur um margt ólíkar skoðanir á hlutverki RÚV og stefnu þess en forverinn. Hvaða skoðanir sem menn hafa svosem á verkum Markúsar Arnar má fullyrða að hann hafi sett mikið mark á Ríkisútvarpið. Hefur hann enda starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Eftir störf að stjórnmálum og setu í útvarpsráði var hann skipaður útvarpsstjóri árið 1985. Hann var borgarstjóri í Reykjavík í þrjú ár, 1991-1994, og varð svo aftur útvarpsstjóri árið 1997. Hefur RÚV breyst mjög á starfstíma hans og við blasa enn meiri breytingar á fjölmiðlalandslaginu. Á þessum tímamótum hjá RÚV samhliða því að Markús Örn hættir og heldur til starfa í utanríkisþjónustunni blasir nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði við eftirmanni hans.
Saga dagsins
1919 Jóhann Sigurjónsson skáld og rithöfundur, deyr í Kaupmannahöfn. Hann var þá 39 ára að aldri.
1980 Silfursjóður fannst við Miðhús á Fljótsdalshéraði - hefur verið deilt um aldur silfursins síðan þá.
1980 Verkalýðssamtökin Samstaða voru stofnuð í Póllandi - leiddi uppreisn gegn stjórn kommúnista.
1994 Írski lýðveldisherinn lýsir yfir fullu vopnahléi, eftir rúmlega 25 ára baráttu með sprengjuárásum.
1997 Díana prinsessa af Wales, deyr, í bílslysi í París. Díana prinsessa var 36 ára gömul er hún lést.
Snjallyrðið
Fyrir löngu, löngu bjó
ljúflingsmey í steini,
hjúfraði og hörpu sló
svo hljómurinn barst út að sjó
til eyrna ungum sveini;
eitthvert töfraafl hann dró
yfir skriður, holt og mó
að Ljúflingasteini.
En þó varð hörpuhljómurinn
að heitu, sáru veini;
Opna steininn ei ég má
aldrei færð þú mig að sjá
en hug minn áttu og hjartans þrá
heillavinurinn eini.
Margur er þeim að meini,
sem búa í steini.
Sveinninn hlýddi hljóður á
og hugsaði margt í leyni.
Í steininum heyrði hann hjarta slá
og utan um hann örmum brá,
kyssti hann og kreisti hold frá beini.
Margt er þeim að meini
sem eiga það, sem þeir elska mest,
inni í steini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Margt er þeim að meini)
Þakka þeim sem hafa sent komment á ljóðin sem ég hef birt á vefnum. Það er ánægjulegt að fleiri hafa haft gaman af þessum ljóðum en ég.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2005 | 08:14
Engin fyrirsögn
Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tilkynnti á fjölmennum fundi með stuðningsmönnum sínum í Iðnó á sunnudag um framboð sitt í leiðtogasæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 27. maí nk. Það er því ljóst að kosið verður milli manna hvað varðar efsta sætið, en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi, sem verið hefur leiðtogi borgarstjórnarflokksins frá árinu 2003, sækist eftir umboði flokksmanna til áframhaldandi forystu og því að leiða framboðslistann. Báðir eru Vilhjálmur og Gísli Marteinn mætir menn sem hafa unnið fyrir flokkinn af heilindum og hafa metnað til að vinna vel fyrir kjósendur. Það er auðvitað bara eðlilegt að ungir menn á borð við Gísla Martein sem hafa áhuga á stjórnmálum hafi ambisjónir fyrir sig og vilji vinna fyrir flokk sinn og kjósendur. Það er svo flokksmanna að velja á milli manna, velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum. Það er ekkert að því að menn hafi val í þeim efnum. Það er einfaldlega bara merki um lýðræði og opin vinnubrögð innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að valkostir séu uppi í stöðunni og það mun svo verða almennra flokksmanna að taka svo af skarið og velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum - til sigurs! Lykilatriði er að sjálfstæðismenn velji sér þann leiðtoga sem leitt getur flokkinn á sigurbraut.
Alveg ljóst er að Gísli Marteinn hefur á að skipa fjölmennum hópi stuðningsmanna sem samanstendur af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og eins af þeim sem vilja breytingar í borgarmálum og hafa ekki valið sér það hlutskipti að ganga í flokk. Kristallast þetta vel í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag. Þar kemur fram að flestir Reykvíkingar vilja Gísla Martein sem næsta borgarstjóra. Tæpur fjórðungur þeirra sem tóku afstöðu valdi hann. Næstur kemur Stefán Jón Hafstein, svo Vilhjálmur Þ. og loks kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Nýtur Gísli Marteinn fylgis um 24%, Stefán Jón hefur um 20%, Vilhjálmur Þ. um 18% og Steinunn Valdís hefur rétt rúm 10%. Athygli vakti að Gísli Marteinn og Stefán Jón voru saman í báðum dægurmálaspjallþáttunum í gærkvöldi og fóru yfir leiðtogaslaginn sem framundan er innan bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Greinilegt er að vinstrimenn óttast mjög leiðtogaframboð Gísla Marteins. Skýrt dæmi um þetta eru skrif Össurar Skarphéðinssonar leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formanns flokksins, í bloggfærslu sinni í gær. Það er greinilegt að menn óttast á þeim vængnum Gísla Martein og ef marka má þessa skoðanakönnun Fréttablaðsins er það varla óeðlilegt. Hann nýtur mikils fylgis.
Ég fór í Iðnó á sunnudaginn og var viðstaddur það þegar að Gísli Marteinn lýsti yfir framboði sínu, áður en ég hélt með síðdegisvél heim eftir góða helgi fyrir sunnan. Þar var jákvæð og góð stemmning. Gísli Marteinn lætur reyna á sína stöðu sem er mjög jákvætt. Nú eru örlög hans og annarra frambjóðenda sett í hendur almennra flokksmanna. Persónulega líkar mér vel við Gísla Martein og ákvörðun hans um að gefa kost á sér. Það er eðlilegt að hann láti reyna á hvar hann standi meðal flokksmanna. Það sem mér líkar best við hann er jákvæðni og málefnalegheit. Hann er jákvæður í framsetningu málefnapunkta sinna og kemur fram með góðum hætti. Þannig verður kosningabarátta sjálfstæðismanna að verða í næstu kosningum. Það sem mestu skiptir nú fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að þar sé unnið saman að því markmiði að vinna borgina. Áður velja flokksmenn forystuna - talsmenn framboðsins í kosningunum. Þar verður kosið milli manna. Að því loknu verða menn að einhenda sér í það verkefni að vinna saman og tryggja að vinstriöflunum verði komið frá. Það sem hefur verið akkilesarhæll sjálfstæðismanna í borgarmálunum undanfarin ár er sundurlyndi. Nú eru menn samhentir, vonandi, í því markmiði að snúa bökum saman. Kosningarnar á næsta ári er lykilpunkturinn - það eru átökin sem mestu skipta.
Nú skiptir mestu að sjálfstæðismenn í Reykjavík velji þann sem leiða á flokkinn til sigurs. Að mínu mati tel ég rétt að flokkurinn velji ungt fólk til forystu og komi fram með ferska ásýnd og öfluga liðsheild undir forystu yngri kynslóðarinnar í flokknum. Sögulega séð hefur það alltaf reynst best í borgarmálunum. Það blasir við ef sagan er skoðuð allt frá upphafi. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þannig eigi það að vera núna. En sjálfstæðismenn verða að vinna saman að sigrinum til að geta náð honum. Það er alveg ljóst. Framundan er spennandi prófkjörs- og kosningabarátta næstu mánuðina í borgarmálunum í Reykjavík.

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna í borgarmálunum sem kynnt var í gær nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú langmests fylgis allra framboða sem verða í kjöri í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn fengju hreinan meirihluta í borginni, eða níu borgarfulltrúa kjörna, ef marka má könnunina. Greinilegt er að endalok R-listans hafa leitt til vatnaskila í borgarmálunum. Nú skiptist fylgið sem eyrnamerkt var R-listanum upp og eftir stendur gjörbreytt pólitískt landslag í borginni í sveitarstjórnarpólitík. Það allavega blasir við þegar litið er á þessa skoðanakönnun, sem vissulega er bara vísbending en segir þó óneitanlega ansi margt. Sjálfstæðismenn hafa unnið vel á kjörtímabilinu og hafa nú hafið fundarferð um borgina. Öflugt forskot Sjálfstæðisflokksins nú kristallar það að kjósendur vilja breytingar - betri borg! Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 29,7%, eða fimm borgarfulltrúa. VG hlyti einn borgarfulltrúa kjörinn, en hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndi flokkurinn næðu manni inn í borgarstjórn. Tæp 5% segjast styðja Framsóknarflokkinn en aðeins rúm 2% segjast styðja Frjálslynda. Það er því greinilegt að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa kjörna en þeir hefðu fengið í R-listanum en missa völdin.
Mörg sóknarfæri sjást í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar litið er á þessa skoðanakönnun og pólitísku stöðuna almennt í borginni. Fyrst og fremst segir þessi könnun það að Sjálfstæðisflokkurinn á mjög góða möguleika á að vinna kosningarnar og það vinna þær með mjög öflugum hætti. Dauði R-listans segir margt um stöðu mála, en endalok þessa hræðslubandalags breytir stöðunni hvað varðar meirihlutann sem nú ríkir og greinilegt að hann á erfitt með að halda saman fram til kosninga og auðvitað með það að halda meirihlutafylginu í sundruðum framboðum. Hljóti Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreinan meirihluta er vandséð að R-listaflokkarnir vinni áfram saman, heldur keppist þeir þá við að reyna að komast í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Það stefnir allavega í mjög spennandi kosningar og uppstokkun innan flestra flokkanna hvað varðar frambjóðendur og uppröðun á framboðslista. Reyndar blasir við slagur í Samfylkingunni hvað varðar leiðtogastólinn en Stefán Jón Hafstein sem leiðir Samfylkinguna innan R-listans hefur lýst yfir framboði í leiðtogastól flokksins í kosningabaráttunni og ljóst að hann mun a.m.k. keppa við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, um þann stól. Andar greinilega mjög köldu þar á milli.
Svo er auðvitað óljóst hvað gerist með Össur Skarphéðinsson leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formann flokksins. Hann hefur komið með krafti inn í borgarmálaumræðuna og verið mjög áberandi þar. Hann hikaði ekki við að gagnrýna borgarstjórann á föstudag er hún sagði við leiðtogaframboði Stefáns Jóns að hann hefði lengi gengið með borgarstjórann í maganum. Össur tók sig til að kvöldi föstudagsins og ritaði merkilega bloggfærslu sem birtist aðfararnótt laugardagsins. Þar sagði hann að orð Steinunnar Valdísar hefðu verið ósmekkleg. Skrif Össurar vöktu verðskuldaða athygli. Eins og fyrr segir virðist ótti borgarstjórans skiljanlegur, enda nýtur hún mun minna fylgis en Stefán Jón. Tel ég að ég verði sannspár er á hólminn kemur, en ég spáði því að þau tvö sem mestu myndu tapa með dauða R-listans yrðu borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar. Sá síðarnefndi var reyndar ansi fyndinn í gær þegar hann kom í fjölmiðla eins og hinn veruleikafirrti vegna lítils fylgis Framsóknar í borginni og sagði framsóknarmenn oft hafa séð það svartara. Fátt varð þó um svör þegar spurt var um hvenær það hefði verið. Það mætti segja mér að það sé farið að fara um Alfreð innan um þjónana sína í glæsihýsi OR að Bæjarhálsi sem væntanlega verður langlífasti minnisvarði hins steindauða R-lista. Það eru flestir farnir að flýja hann.

Um síðustu helgi var ég fyrir sunnan og átti mjög góðar stundir þar. Var áhugavert að fara um borgina, hitta góða vini og eiga notalegt spjall um stjórnmál og margt fleira. Að morgni laugardags fór ég ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni, í sumarferð Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Var ferðinni heitið á Snæfellsnesið. Var góður hópur fólks með í för. Sérstaklega hafði ég gaman af að spjalla við það eldra fólk sem var með í för og fara yfir ýmis ólík mál. Fararstjórar í ferðinni voru t.d. borgarfulltrúarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kjartan Magnússon. Vorum við í þeirri rútu sem Kjartan var fararstjóri í. Var ánægjulegt að heyra lýsingar Kjartans á svæðinu en hann kynnti það sem fyrir augu bar á leiðinni með miklum glæsibrag. Var þetta mjög góður dagur og gleðilegt að fara þennan hring um Snæfellsnesið. Það er visst ævintýri að kynna sér þetta svæði og virða fyrir sér náttúrufegurðina þar. Að Arnarstapa var grillað og skemmt sér vel og spjallað um margt og mikið.
Fórum við svo að Gestastofu að Hellnum, þar sem er mjög athyglisvert og gott minjasafn. Þar kynnti Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður, okkur safnið og sögu svæðisins. Skoðuðum við svo safnið og var það mjög ánægjulegt, enda margt þar sem vekur áhuga sögufróðra. Að þessu loknu keyrðum við fyrir nesið og sérstaklega var ánægjulegt að keyra um byggðirnar þar, Ólafsvík, Hellissand og Grundarfjörð. Að því loknu var keyrt aftur til Reykjavíkur. Hef ég nokkrum sinnum áður farið um Snæfellsnesið. Eru reyndar fjögur ár síðan ég fór hringinn um nesið síðast en ég fór þá í leiðinni í heimsókn til ættingja minna í Stykkishólmi, en þar bjuggu tveir bræður mömmu og frændi minn, Árni Helgason, ennfremur, en hann og mamma eru systkinabörn. Hafði ég mjög gaman af þessari ferð og ég er ekki fjarri því að ég hafi hugleitt margt á þessari ferð, enda er Snæfellsnesið einstaklega fallegt og þar er mikil náttúrufegurð og vettvangur kyngimagnaðra atburða. Reyndar gerir Laxness því skondin skil í Kristnihaldinu og sr. Árni Þórarinsson lýsir fólkinu á svæðinu kostulega í ævisögu sinni.
Við komuna til Reykjavíkur héldum við Gunni í það að hafa fataskipti fyrir afmælishátíð SUS sem haldin var að laugardagskvöldinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Fórum við þangað saman og áttum við félagarnir mjög góða stund. Þar voru fluttar margar góðar ræður og farið var yfir sögulega punkta í merkri sögu SUS í 75 ár. Átti ég þar gott spjall við marga mæta félaga. Sérstaklega var gaman að heyra ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og Vilhjálms Egilssonar ráðuneytisstjóra og fyrrum alþingismanns og formanns SUS. Óhætt er að segja að Gústaf Níelsson útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, sem var viðstaddur afmælishátíðina og var um tíma í stjórn SUS, hafi sett svip á þessa afmælishátíð en hann ávarpaði afmælishátíðina og kom með marga skemmtilega sögulega punkta. Áttum við gott spjall en við sátum við sama borð á kvöldverðinum. Gústaf er þekktur fyrir það að tjá skoðanir sínar óhikað og var ánægjulegt að ræða málin við hann. Þetta var góð og ánægjuleg helgi.

Cherie Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, er þessa dagana stödd hér á landi. Ávarpaði hún í gærmorgun heimsfund menningarráðherra úr röðum kvenna sem haldinn er í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands, sem fyrst kvenna í heiminum var kjörin forseti heimalands síns með lýðræðislegum hætti árið 1980. Kynnti Cherie þar skýrslu World Economic Forum (Women's Empowerment: Measuring the Global Gender Gap). Er Cherie kynnti skýrsluna kom fram þar að Ísland væri í öðru sæti hvað varðaði hlut kvenna í stjórnmálaákvörðunum. Erum við í þeim efnum aðeins á eftir Svíþjóð. Getum við vel við unað við þá staðreynd mála. Aðeins er ár síðan að Cherie kom síðast til landsins. Í ágústlok í fyrra kom hún til landsins og ávarpaði ráðstefnuna Konur, völd og lögin. Jafnframt kom hún til Akureyrar í þeirri heimsókn til landsins og opnaði listsýninguna Ferð að yfirborði jarðar, á verkum hinnar bresku Boyle-fjölskyldu, á Akureyrarvöku. Kemur hún aftur til Akureyrar í þessari Íslandsför sinni. Þó að ég og Cherie deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni sem persónu. Leikur enginn vafi á því að hún á mikinn þátt í því hversu farsæll stjórnmálamaður eiginmaður hennar, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er. Að kvöldi síðastliðins sunnudags ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Cherie í Kastljósinu. Bendi ég lesendum vefsins á að líta á það viðtal.

Í áratug hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, haft heimasíðu á netinu. Allan þann tíma hefur hann tjáð þar af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vefnum er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Eru þeir ekki margir íslensku stjórnmálamennirnir sem hafa á að skipa vef með skrifum í heilan áratug þar sem efnið er óbreytt og sígilt. Sama er hægt að segja um í því tilfelli að hann hefur skrifað allan tímann af krafti. Vefur hans er safn öflugra og vandaðra skrifa um málefni samtímans á hverjum tíma. Nú hefur Björn breytt eilítið forsíðu heimasíðu sinnar og breytt aðeins umfjölluninni og skrifar nú dagbókarfærslur í bloggformi og tekur fyrir málefnin þar með öðrum hætti auk pistlaskrifa sinna vikulega. Ég óska Birni til hamingju með þessa breytingu á vefnum. Það er nú sem ávallt fyrr ánægjulegt að fylgjast með skrifum hans.
Saga gærdagsins
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum rúm 16.000 manns.
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur allra Íslendinga.
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970.
1982 Sænska óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Ingrid Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum.
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn.
Saga dagsins
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður í Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka.
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - það var loks lagt niður árið 1796.
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í rúm 10 ár.
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þá þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma.
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur allra þeldökkra manna.
Snjallyrðið
Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið það er krypplað, og ljósið er að deyja.
En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað ég vil,
og veist að ég er heima, og í náttkjól meira að segja.
Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf
til að sýna þér að ég er hvorki hrædd við þig né gleymin.
Til að segja, til að segja, til að segja að ég sef,
undir súðinni að norðan, ég er svo voðalega feimin.
Í guðsbænum þú verður að ganga ósköp hljótt,
og gæta vel að öllu, hvort nokkur fer um veginn.
Læðstu inn um hliðið þegar líða fer á nótt,
og læðstu upp að húsinu eldhúsdyramegin.
Beint á móti uppgöngunni eru mínar dyr,
elsku vinur hægt, hægt, svo stiginn ekki braki.
Og þó þú hafir aldrei, aldrei farið þetta fyrr,
þá finn ég að þú kemur, og hlusta bíð og vaki.
Gættu að því að strjúka ekki stafnum þínum við,
og stígðu létt til jarðar og mundu hvað ég segi.
Það iðka sjálfsagt margir þennan ævintýrasið,
sem aldrei geta hist þegar birta fer að degi.
Opnaðu svo hurðina hún er ekki læst,
hægt elsku vinur það er sofið bak við þilið.
Í myrkrinu, í myrkri geta margir draumar ræst,
og mér finnst við líka eiga það skilið.
Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér,
og gengur hægt um dyrnar, farðu helst úr skónum.
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér,
þei, þei, húsið er fullt af gömlum ljónum.
Það grunar engan neitt svona í allra fyrsta sinn,
og engum nema þér skal ég gefa blíðu mína.
Og þó að ég sé feimin, þá veistu vilja minn,
og veist að ég er heima, þín elsku hjartans Stína.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bréfið hennar Stínu)
Get ekki annað en birt þetta fallega ljóð, það á minningar í huga mínum og mér finnst lag Heimis Sindrasonar við ljóð meistara Davíðs undurfagurt. Enginn hefur sungið það betur að mínu mati en Herdís Ármannsdóttir úr Eyjafirðinum á plötunni Skref fyrir skref sem kom út árið 2001. Undurfagurt og tært. Þetta ljóð á stað í hjartanu á mér, það er alltaf einlægt og eitthvað svo sætt í gegn. Það er rétt eins og öll ljóð Davíðs Stefánssonar með einlægri tilfinningu sem skilar sér til þess sem þau lesa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2005 | 23:59
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi um sameiningarmálin, en kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér við Eyjafjörð eftir sex vikur. Nú hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna vegna kosningarinnar kynnt niðurstöður fjögurra vinnuhópa sinna. Koma þar fram mjög athyglisverðar tillögur. Fer ég yfir helstu niðurstöður þeirra og bendi lesendum á að kynna sér þær vel. Er framundan öflug umræða um kosti og galla sameiningar og það sem skiptir máli í þessari kosningu. Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina.
- í öðru lagi fjalla ég um þýsku þingkosningarnar sem verða eftir þrjár vikur. Eigast þar við sömu valdablokkir og jafnan áður. Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu þrjár vikurnar í þýskum stjórnmálum eigi Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú skilja rúm 10% að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn.
- í þriðja lagi fjalla ég um sumarfundi þingflokka stjórnarflokkanna í vikunni þar sem fjárlagavinnan var rædd. Fór þingflokkur okkar sjálfstæðismanna yfir mörg málefni á fundi sínum (sem haldinn var á Ísafirði) eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og gengu eins og framsóknarmenn frá útgangspunktum frumvarpsins. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.

Á sunnudögum í sumar hef ég fjallað um kvikmyndir sem fjalla um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Er nú komið að þeirri síðustu sem ég nefni að sinni. Ein besta kvikmyndin sem fjallar um pólitík, lífsins baráttu fyrir bæði í senn mannlegri tilveru og hugsjónum er óskarsverðlaunamyndin Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.
Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.
Saga dagsins
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994.
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem að Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum.
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á fjölmennum mótmælafundi í Washington.
1974 Ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar tók við völdum - stjórn Geirs sat í rúm fjögur ár.
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin í kjölfar loka einokunar ríkisins.
Snjallyrðið
Ég vil fara... fara eitthvað
langt, langt í burt,
svo enginn geti að mér sótt,
enginn til mín spurt,
engin frétt, engin saga
eyrum mínum náð.
Ég vil aldrei troða akur,
sem aðrir hafa sáð.
Ég vil fara... fara þangað
sem ég þekki engan mann,
og engin ólög ráða,
og enginn boðorð kann -
hvíla á mjúkum mosa
við hið milda stjörnuljós,
með eilífðina eina
fyrir unnustu og vin.
Ég vil þangað, sem ég heyri
minn eigin andardrátt,
og allt er undrum vafið
og ævintýrablátt
og ég get innsta eðli mitt
eitt til vegar spurt.
Ég vil fara, fara eitthvað
langt, langt í burt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég vil fara)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2005 | 04:11
Engin fyrirsögn

Eins og sést hefur á veðurfarinu undanfarna daga er farið að hausta að - óvenjusnemma vissulega en það er öllum ljóst að sumarið tekur brátt enda. Stjórnmálastarfið er víðast allt að hefjast eftir heitt sumar og ánægjuleg ferðalög víða um landið, nú eða jafnvel heiminn. Rúmur mánuður er í að þingið komi saman. Mörg mál verða þar til umræðu og við blasir að hiti verði í stjórnmálastarfi almennt vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga undir lok maímánaðar á næsta ári. Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu í gær um málefni fjárlaga. Hittust sjálfstæðismenn á Ísafirði en framsóknarmenn funduðu í borginni. Má búast við niðurstöðu fundar sjálfstæðismanna í dag, sem hafa undanfarna daga verið fyrir vestan og farið yfir fjöldamörg mál. Þarf yfir mörg málefni að fara eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og jafnan er gengið frá útgangspunktum frumvarpsins á þessum sumarfundum. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn bendir flest til þess að ekki verði gert ráð fyrir breytingum á virðisaukaskatti í vinnu við fjárlögin. Ekki virðist enn vera farið að ræða breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Eins og allir vita hafa umfangsmiklar skattalækkanir verið ákveðnar og munu þær koma til framkvæmda stig af stigi á kjörtímabilinu, eins og flokkarnir lofuðu í síðustu þingkosningum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að endurskoða eigi matarskattinn (virðisaukaskatt á matvæli) en hann er nú 14% og hugmyndir hafa verið eins og kunnugt er verið um að lækka hann niður í 7%. Ekkert slíkt mun vera á döfinni nú ef marka má fréttir. Fyrirfram ákveðnar og lögfestar tekjuskattslækkanir standa auðvitað en virðisaukaskattsbreytingarnar muni því bíða betri tíma. Eins og fram kom í fréttum í gær er gengi krónunnar hátt; víða skortur á vinnuafli, laun hækka og kaupmáttur jafnframt, aldrei hefur jafnmikið verið flutt inn af neysluvöru og á fyrri helmingi þessa árs. Allt veldur þetta þenslu og flestir efnahagssérfræðingar landsins hafa í fjölmiðlum opinberað ótta sinn við verðbólguskot á næsta ári og jafnvel hraða og mikla lækkun á genginu. Því sé ekki rétt að huga að breytingum á kerfinu nú.
Tek ég undir raddir þeirra sem svo tala. Fyrirfram ákveðnar skattalækkanir sem gera ráð fyrir 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og hækkun barnabóta um 2,4 milljarða króna eru gleðilegur áfangi sem lengi verður í minnum hafður. Þetta var sögulegur áfangi sem við öll munum njóta ríkulega á næstu árum. Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007. Um var að ræða mikið fagnaðarefni fyrir okkur ungt sjálfstæðisfólk sem höfum barist seinustu ár fyrir lækkun skatta. Voru með þessu frumvarpi stigin í senn bæði ánægjuleg og gagnleg skref til hagsbóta fyrir landsmenn, einkum hinn vinnandi mann. Rétt er að staldra við að svo stöddu - en það blasir þó við að breytingar á virðisaukaskattskerfinu er verkefni sem kemur brátt til framkvæmda. Það er verkefni sem huga þarf að fyrir lok kjörtímabilsins og vinna að með krafti.

Eins og allir vita er R-listinn dauður. Í gærkvöldi skrifuðu framsóknarmenn undir dánarvottorð R-listans með því að lýsa yfir sérframboði sínu í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar á flokksfundi sínum. Undanfarna daga hafa sögulega tengdir menn R-listanum minnst hins látna (R-listans) og farið yfir það sem eftir hann standi. Frekar er það rytjulegur samtíningur og fátt sem eftir stendur nema orðin vesen og vandræði. Blasir við að framsóknarmenn stefni að prófkjöri til að velja lista sinn. Á fundinum í gærkvöldi lýsti Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar og leiðtogi Framsóknarflokksins innan R-listasamstarfsins, allt frá árinu 2002, yfir framboði til fyrsta sætis á framboðslista flokksins fyrir kosningarnar næsta vor. Hann hefur verið ötull talsmaður R-listans og reyndi allt til að tryggja áframhaldandi framboð hans að þessu sinni, án nokkurs árangurs. Alfreð er sennilega síðasti stórlax borgarmálapólitíkur gamla hluta framsóknarmanna í borginni. Hann varð borgarfulltrúi flokksins á áttunda áratugnum, dró sig svo í hlé og kom aftur inn við stofnun R-listans árið 1994 og hefur verið borgarfulltrúi listans allan valdaferil hans. Það hafa margir deilt á störf hans undanfarin þrenn kjörtímabil, en hann hefur setið eins og allir vita í öndvegi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í nafni stjórnmálaflokkanna sem að R-listanum standa.
Nú stefnir allt í að Alfreð fái mótframboð til leiðtogastöðunnar. Eins og fram kom í fréttum í gær skora nú margir framsóknarmenn á Önnu Kristinsdóttur um að gefa kost á sér til þess sætis. Anna er dóttir Kristins Finnbogasonar, sem var einn helsti fjármálastjórnandi flokksins til fjölda ára og bankaráðsmaður flokksins í Landsbankanum allt til dauðadags árið 1991. Anna varð borgarfulltrúi R-listans árið 2002 og leysti þá af hólmi Sigrúnu Magnúsdóttur sem leitt hafði framsóknarmenn allt frá árinu 1982. Þá varð Alfreð leiðtogi framsóknarmanna. Þó munaði aðeins um 20 atkvæðum að Alfreð hefði orðið undir og tapað fyrir nýliðanum Önnu. Nú stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna. Margir eiga harma að hefna í garð Alfreðs og hyggja á leiðtogaskipti og skapa flokknum nýja ásýnd. Alfreð hikaði ekki um daginn í viðtali og sagði bara þeim sem væri á móti sér að leggja í sig, án þess að hika. Flest stefnir í að svo fari. Ennfremur er rætt um aðra kandidata og nöfn Björns Inga Hrafnssonar og Marsibilar Sæmundardóttur heyrast nefnd. Bæði eru þau af yngri kynslóðinni. Alfreð er af mörgum talinn tákn liðinna tíma. Hann ætlar þó ekki að fara sjálfviljugur og stefnir því í átök milli fylkinga sem lengi hafa barist innan borgarmálahóps flokksins um völdin.

Framkvæmdir eru fyrir löngu komnar á fullt við byggingu nýs leikskóla hér í hverfinu. Er hann hér ofar í götunni á lóðinni milli Þórunnarstrætis og Helgamagrastrætis, þar sem gamli gæsluvöllurinn var. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdununum, en byggingin tekur á sig mynd með hverjum deginum og gengur mjög vel að byggja leikskólann. Margar minningar tengjast þessu svæði en ég var á gæsluvellinum sem var þarna á svæðinu í ein þrjú ár, eða á meðan fjölskyldan átti heima hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Það var gaman þar að vera og ég kynntist mörgum góðum félögum fyrstu árin mín þar. Það er ánægjulegt (og hið eina rétta) að leikskóli fyrir þetta öfluga og góða hverfi rísi á þessum stað. Og nú hefur leikskólinn loks fengið nafn. Á fundi skólanefndar Akureyrar í vikunni var samþykkt tillaga frá Brynhildi Þórarinsdóttur þess efnis að leikskólinn við Helgamagrastræti fái nafnið Hólmasól. Er leikskólinn nefndur í höfuðið á Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði eftir því sem Landnáma segir frá. Þorbjörg hólmasól var dóttir Helga magra og Þórunnar hyrnu. Leikskólinn stendur auðvitað við götur sem nefndar eru eftir þeim og styttan fræga af landnámshjónunum er hér á klöppunum hér fyrir neðan. Lýsi ég yfir mikilli ánægju minni með þetta nafn - það er glæsilegt og mjög viðeigandi.

Frá og með deginum í dag verður stýring á nýtingu á bílastæðum hér í miðbænum á Akureyri með bifreiðastæðaklukkum í stað stöðumæla. Þegar lagt verður í bílastæðin í miðbænum er skylt að hafa bifreiðastæðaklukku á mælaborðinu sem sýnir hvenær bílnum var lagt í stæðið. Með þessum þáttaskilum heyra stöðumælar að öllu leyti sögunni til hér á Akureyri - en starfsmenn bæjarins unnu í gær við að taka þá niður. Mun heimiluð tímalengd á gjaldfrjálsa stöðu bíls í klukkustæði verða mismunandi eftir svæðum, allt frá 15 mínútum upp í eina eða tveir klukkustundir. Auk þess verður fjöldi fastleigustæða aukinn verulega. Klukkurnar eru vandaðar að allri gerð. Þær eru einskonar umslag með klukkuskífu innan í. Ofan á "umslaginu" stendur skífan út úr því til að hægt sé að stilla hana. Í "glugga" á "umslaginu" sjást tölurnar á skífunni. Mikilvægt er að klukkan sé stillt á þann tíma sem bílnum er lagt í stæðið. Á bakhlið klukkunnar er kort af miðbænum sem sýnir hvar klukkustæðin eru og þá tímalengd sem heimilt er að leggja þar án gjalds og auk þess leiðbeiningar um notkun klukkunnar. Stöðuverðir munu eftir sem áður hafa eftirlit með því að bílum sé ekki lagt lengur en heimilt er í viðkomandi bílastæði. Þetta er jákvætt og gott skref sem stigið er með þessu - öll fögnum við því að stöðumælarnir fari.

Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra - eins og ávallt er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, haldin þessa seinustu helgi ágústmánaðar. Hún hefst formlega í Lystigarðinum í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Sönghópurinn Hymnodia mun flytja lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Það er jafnan notaleg og rómantísk stemmning í garðinum þetta kvöld í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Til dæmis verður nýbygging Brekkuskóla vígð á morgun við hátíðlega athöfn. Hvet ég alla til að kynna sér vel dagskrá Akureyrarvöku. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera - óviðjafnanlegur óður til menningar í bænum. Því miður þarf ég að vera fjarri þessa helgi, í fyrsta sinn frá upphafi hennar. Mín bíður skemmtileg helgi hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Vona ég að aðrir Akureyringar njóti menningar og skemmtilegrar hátíðar um helgina.
Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.
Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.
Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.
En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2005 | 14:58
Engin fyrirsögn

Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði eftir tæpa tvo mánuði, laugardaginn 8. október nk. Er utankjörfundarkosning þegar hafin. Er umræða um sameininguna og málefni tengd henni að hefjast nú af krafti og má búast við spennandi rökræðum um kosti og galla sameiningar. Reyndar hefur að undanförnu blandast í þá umræðu málefni hitaveitu í Ólafsfirði. Seinustu mánuði hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna, sem í sitja tveir fulltrúar hvers sveitarfélags, unnið að gerð málefnaskrár sem kynnt verður íbúum Eyjafjarðarsvæðisins í aðdraganda kosninganna. Komið var á fót vinnuhópum til að vinna skýrslu um framtíðina innan nýs sveitarfélags, yrði sameining samþykkt. Vinnuhóparnir voru fjórir talsins: stjórnsýsluhópur, skólahópur, fjölskylduhópur og skipulagshópur. Hóparnir skiluðu tillögum sínum í júlí og síðan hefur stýrihópur unnið eftir vinnudrögum og mótað málefnaskrá sem nú hefur verið kynnt opinberlega á heimasíðu samstarfsnefndarinnar um sameiningu í Eyjafirði. Er stefnt að kynningarfundum í september í öllum sveitarfélögunum níu og ennfremur gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning.
Í tillögum stjórnsýsluhópsins er lagt til að sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi verði skipuð 15 bæjarfulltrúum. Það er leyfilegur hámarksfjöldi fyrir sveitarfélag af þessari stærð. Lagt er til að stjórnsýslan grundvallist á þremur fagsviðum; stjórnsýslu- og fjármálasviði, skóla- og félagssviði ásamt tækni- og umhverfissviði. Lagt er til að nefndir og ráð sveitarfélagsins verði skipaðar fimm aðal- og varamönnum. Lagt er til að umfangsmestu nefndirnar skuli aðeins skipaðar aðalmönnum í sveitarstjórn og er hér átt við bæjarráð sem jafnframt er framkvæmdaráð, stjórn fasteigna sveitarfélagsins, umhverfisráð, skólanefnd, stjórnsýslunefnd og félagsmálaráð. Formenn allra fastanefnda verða aðalmenn í sveitarstjórn. Leggur nefndin til að ný bæjarstjórn og nefndir starfi eins og bæjarkerfið hér á Akureyri, þannig að nefndir hafi heimild til fullnaðarákvörðunar. Ennfremur munu verða starfandi í sveitarfélaginu hverfanefndir undir titlinum samráðsnefndir í gömlu sveitarfélögunum. Uppi eru tvær hugmyndir um samráðsnefndir. Sú fyrri að á fyrsta kjörtímabili verði eldri sveitarstjórnir í hlutverki samstarfsnefnda. Sú seinni gerir ráð fyrir fimm manna samráðsnefndum sem kjörnar eru á almennum íbúafundi. Þær nefndir verði ópólitískar og án tengsla við stjórnmálaflokka eða framboð.
Vinnuhópur um skólamál er sammála um að leggja til að allir grunnskólar á Eyjafjarðarsvæðinu verði reknir áfram, verði sveitarfélögin sameinuð í haust. Hópurinn bendir þó á að ekki sé hægt að binda hendur sveitarstjórna í þessum efnum. Þetta er merkileg yfirlýsing. Er ég sammála því að til staðar verði að vera skólar í öllum þéttbýlisstöðunum en svo verður að ráðast með hina minni að mínu mati. Eins og við þekkjum hvað varðar Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er erfitt að lofa hvort hægt sé að reka alla skóla óbreytta eftir sameiningu. Það verður auðvitað að ráðast af hagkvæmni og skynsömum forsendum umfram allt. Eins og allir þekkja af deilunum í Dalvíkurbyggð vegna Húsabakkaskóla er þetta og verður ávallt viðkvæmt mál. En í skólamálakaflanum er farið ítarlega yfir allan grunn skólamála hér í firðinum og hvet ég fólk til að lesa hann. Í fjölskyldumálakaflanum er farið ítarlega yfir málaflokkinn og kynntar þar margar spennandi tillögur. Að lokum er það svo skipulagshópurinn þar sem spennandi stefna í skipulagsmálum er kynnt. Hvet ég lesendur til að lesa skýrslur vinnuhópanna og taka svo afstöðu til málanna eftir að kynna sér stöðuna og rökræða svo um kosti og galla hugmyndanna.
Skýrsla skólahóps
Skýrsla fjölskylduhóps
Skýrsla skipulagshóps

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er enn í sumarfríi á búgarði sínum að Crawford í Texas og hefur verið þar nærri allan mánuðinn. Bandarísku spjallþáttastjórnendurnir þreytast ekki á að koma með brandara um fimm vikna langt sumarleyfi hans. Þrátt fyrir að hann slappi af og hafi það rólegt á heimaslóðum hefur hann ekki getað komist hjá því að taka eftir þeim sem hafa fylgt honum nær alla leiðina í fríið. Ein helsta fréttin í bandarískum fjölmiðlum seinustu vikurnar hefur nefnilega verið miðaldra húsmóðir í tjaldferðalagi í Crawford. Þeir sem ekki þekkja til aðstæðna undra sig sjálfsagt á því hvernig svo megi vera. Jú, ferðalagið er engin skemmtiferð og húsmóðirin er ekki að tjalda sér til ánægju. Cindy Sheehan tæplega fimmtug kona tjaldaði til að heimta þess að fá að hitta Bush og spyrja hann um málefni bandaríska hersins í Írak. Sonur hennar féll í átökunum þar í fyrra og hún heimtar þess að fá að hitta hann augliti til auglitis og hann svari spurningunni hversvegna sonur hennar var sendur þangað til að deyja. Bush hefur neitað að hitta hana, hefur reyndar hitt hana einu sinni og rætt við hana um mál. Stephen Hadley þjóðaröryggisráðgjafi, hefur farið og rætt við Cindy en hún haggast ekki og vill hitta Bush.
Þetta er heitasta málið vestanhafs. Þó að Cindy hafi orðið að yfirgefa Crawford um helgina vegna veikinda móður sinnar heldur mótmælastaðan áfram í Texas, Bush og samstarfsmönnum hans til nokkurrar gremju. Um er nefnilega að ræða stigvaxandi mál í fjölmiðlunum. Og ekki batnar það að umfangi. Fríið fer reyndar að verða búið og hætt við að þetta fjari út. Bush er reyndar staddur nú í Idaho í stuttu leyfi til ríkisstjórans þar. Hann tjáði sig þar um málið í gær. Sagðist hann skilja afstöðu Cindy og vilja hennar til að ræða þessi mál. Hinsvegar neitaði hann því að hún væri dæmigerður fulltrúi þeirra sem hefðu misst börn sín í Írak. Hún væri í baráttu á eigin vegum en ekki hóps sem slíks. Fleiri notuðu tækifærið. Ein þekktasta þjóðlagasöngkona heims, baráttukonan heimsfræga gegn Víetnamsstríðinu, sjálf Joan Baez, fór til Texas á sunnudag og söng fyrir mótmælendur og hvatti þá áfram. Það að Bush tjái sig um málið í Idaho segir margt. Eflaust er hann orðinn dauðleiður á þeim sem eltu hann í fríið og reynir að tjá þá gremju með vægum hætti. Hinsvegar er auðvitað óneitanlega skondið að miðaldra kona í tjaldi fyrir utan búgarð forseta Bandaríkjanna sé aðalfréttaefnið vestanhafs.

Í gær fjallaði ég ítarlega um þýsku þingkosningarnar sem framundan eru. Eins og vel kom fram í þeim skrifum er kosningabaráttan hörð og spennandi þrátt fyrir að allar fylgistölur segi pólitískum áhugamönnum að spennan um úrslit þeirra sé ekki til staðar. Reyndar hefur nú forskot hægriblokkarinnar aukist og í dag munar fimmtán prósentustigum á CDU og SPD. Það er því engin furða að harka sé uppi og kanslarinn reyni allt sem hann getur til að halda sér inni í slagnum. Nú hefur reyndar skotið upp merkilegt deilumál í kosningaslagnum. Reyndar snýst það hvorki um stefnu eða persónur kanslaraefnanna. Deilt er um hið sígilda dægurlag Rolling Stones, Angie, sem allir þekkja fram og til baka. CDU hefur notað lagið sem kosningaþema á fjöldafundum og spilað þegar að kanslaraefnið Dr. Angela Merkel er kynnt. Við þetta er rokkbandið ekki sátt og þaðan af síður söngvari sveitarinnar, eilífðarpoppgoðið Mick Jagger. CDU neitar að taka lagið úr umferð og bíður því heim hættunni á kæru vegna notkunar lagsins með þessum hætti. En þetta er óneitanlega skondið mál burtséð frá stöðu baráttunnar. Reyndar þarf eins og fyrr segir mjög mikil vatnaskil að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að Angie hinna kristilegu demókrata verði fyrsti kvenkyns kanslari Þjóðverja.

Þokkagyðjan Audrey Hepburn var ein glæsilegasta leikkona 20. aldarinnar. Glæsileiki hennar kom vel fram í fjölda ógleymanlegra kvikmynda. Að mínu mati er hennar besta mynd hin óviðjafnanlega Breakfast at Tiffany's frá árinu 1961. Þar er rakin saga lífsnautnakonunnar Holly Golightly sem lifir lífinu svo sannarlega hátt í borg borganna, New York. Þegar rithöfundurinn Paul Varjak flyst í sama íbúðarhúsið og Holly laðast hún að honum. En þegar Paul tekur að kynnast hinni svokölluðu gleðidrottningu kemst hann að því að saga hennar er fjarri því himnasæla heldur hefur hún átt við mikla erfiðleika að stríða í lífinu og á sér talsverða fortíð. Þessi mynd er enn í dag ein besta heimild um þann tíðaranda sem hún lýsir. Audrey var í toppformi í þessari mynd, var aldrei betri og glæsilegri en í þessu hlutverki. Hún er mjög heillandi í túlkun sinni og nær að túlka gleði og sorgir Hollyar með bravúr. George Peppard á einnig glæsilegan leik í hlutverki Pauls. Buddy Ebsen var aldrei betri en í hinni lágstemmdu túlkun sinni á Doc Golightly, og með innkomu hans komumst við að leyndarmálum Hollyar. Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er besta kvikmyndalag 20. aldarinnar, hið undurfagra Moon River eftir Henry Mancini sem sló í gegn á sínum tíma. Þessi kvikmynd er sígilt meistaraverk og er alltaf sannur gleðigjafi - hana verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá.

Að lokum er ekki hægt að sleppa því að fjalla um það að nú hefur Ingibjörg Sólrún birt reikninga sína vegna formannskjörsins í Samfylkingunni fyrr á þessu ári. Ingibjörg Sólrún greiddi tvöfalt meira fyrir kosningabaráttu sína en mótframbjóðandi hennar og forveri á formannsstóli, Össur Skarphéðinsson. Kosningabarátta ISG kostaði tæpar 5,3 milljónir króna, framlögin voru svipað há. Eftir stóðu í bókhaldinu 70.000 krónur í plús. Merkilegast af öllu er að ekkert framlaganna er hærra en 499.000 kr. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessum hámarksupphæðum á vegum Samfylkingarinnar, enda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að fólk borgi ekki oftar en einu sinni slíka upphæð. Þessi vinnubrögð þeirra eru efni í marga brandara. Hver man ekki eftir siðareglunum frægu nú eða opna bókhaldinu? Bæði virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Skrifaði ég pistil á vef Heimdallar um þau mál, sem ég bendi lesendum á.
Saga dagsins
1903 Ríkið keypti jarðirnar Hallormsstað í S-Múlasýslu og Vaglir í S-Þingeyjarsýslu, til skógarfriðunar og skógargræðslu. Þar eru nú ræktarlegustu skógar á landinu: Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur.
1906 Símskeytasamband við útlönd hefst með formlegum hætti - fyrsti sæsíminn var um 534 sjómílur.
1968 Norræna húsið í Reykjavík vígt við hátíðlega athöfn - arkitekt hússins var Finninn Alvar Aalto.
2001 Helgi Símonarson frá Þverá í Svarfaðardal, lést, 105 ára að aldri - Helgi varð elstur allra manna.
2004 Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom til Íslands ásamt eiginkonu sinni Hillary Rodham Clinton. Var þetta fyrsta heimsókn núverandi eða fyrrum þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna í átján ár, en Ronald Reagan kom á leiðtogafund stórveldanna í Reykjavík í október 1986. Fóru Clinton-hjónin víða: t.d. í heimsókn á heimili Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, héldu að Lögbergi að Þingvöllum og fóru í miðborg Reykjavíkur að styttu Jóns forseta. Frægt varð að Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu. Clinton, sem þekktur er fyrir alþýðleika, lét ráðleggingar lífvarða sinna lönd og leið er hann fór í verslanir, heilsaði upp á fólk í miðbænum og tók t.d. í hendur fjöldamargra og heilsaði börnum.
Snjallyrðið
Langt inn í skóginn leitar hindin særð
og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,
en yfir hana færist fró og værð.
Svo fjarar lífið út.
Ó, kviku dýr,
reikið þið hægt, er rökkva tekur að
og rjúfið ekki heilög skógarvé,
því lítil hind, sem fann sér felustað
vill fá að deyja ein á bak við tré.
Um blóð, sem fyrr var bæði ungt og heitt,
mun bleikur mosinn engum segja neitt.
En þú, sem veist og þekkir allra mein,
og þú, sem gefur öllum lausan taum,
lát fölnað laufið falla af hverri grein
og fela þennan hvíta skógardraum.
Er fuglar hefja flug og morgunsöng
og fagna því, að ljómar dagur nýr,
þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr
að uppsprettunnar silfurtæru lind -
- öll, nema þessi eina, hvíta hind.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Skógarhindin)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2005 | 07:32
Engin fyrirsögn

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi þann 18. september nk. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun Dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Hatrömm kosningabarátta vinstri- og hægriblokkarinnar er jafnvel enn beittari nú en fyrir þrem árum er Gerhard Schröder kanslara, tókst naumlega að halda embætti sínu. Nú horfir enn verr fyrir honum og Jafnaðarmannaflokknum, SPD. Schröder neyddist til að boða til kosninganna í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu.
Angela Merkel, sem virðist hafa hnossið í höndunum, hefur þrátt fyrir allt átt frekar gloppótta kosningabaráttu. Henni tókst með kostulegum hætti að taka feil á nettó og brúttó í spjallþætti fyrir nokkrum vikum og tók feil á þekktum efnahagslegum hugtökum. Hún hefur jafnan þótt vera með harðneskjulegt yfirbragð en hefur verið mýkt verulega upp með aðstoð stílista og almannatengslaráðgjafa CDU. Hún græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar.
Schröder hefur reynt af krafti að snúa vörn í sókn - en átt erfitt uppdráttar. Svikin kosningaloforð og vandamál á mörgum sviðum samfélagsins eru honum mikill Þrándur í Götu. Hann er um margt með sömu loforðin nú og í kosningunum 2002. Mörgum þykir nóg komið - fullreynt sé með forystu hans. Ferskleiki hefur þó verið nokkur í baráttu hans og hafa Schröder-hjónin reynt af krafti að fara um landið og bæta stöðu flokksins og kanslarans. Fylgið virðist eitthvað vera að aukast, en það er þó miklu minna en fylgi CDU. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning eru helsti kostur hans. Á það hefur hann óspart spilað. Hefur hann virkað mun sleipari í framkomu en Merkel í þessum kosningaslag. Hún þykir hafa mun minni útgeislun - en hún talar hreint út, er með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það er þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Því hefur Schröder óspart farið fram á sjónvarpskappræður og þær fleiri en færri. Hægriblokkin hefur aðeins samþykkt eitt sjónvarpseinvígi og það skömmu fyrir kosningar. Er það til marks um að CDU telur ekki vænlegt að etja þeim tveim saman að ræða málin og stóli á fjölmiðlaframkomu Merkel á fjöldafundum þar sem hún flytur miklar og öflugar ræður og talar af krafti til almennings um svikin loforð kratanna.
Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu 26 dagana í þýskum stjórnmálum eigi Dr. Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú, er þetta er skrifað, skilja rúm tíu prósentustig að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin persónulegu stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn. Staðan er enda ekki beysin. Það er því ekki furða að Schröder og kratarnir tali minna um málefni og reyni að vega að hægrimönnum með öðrum hætti og tali um gífuryrði og svartnættishjal. Þeir reyna að stóla á gullfiskaminni kjósenda. Eins og sést á könnunum eru æ minni líkur á því að Schröder takist að sjarmera kjósendur.
En eins og fyrr segir er innan við mánuður í kjördaginn í Þýskalandi. Það ræðst því fyrr en síðar hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Framundan er harðskeyttur lokasprettur í þessum kosningaslag.

Eins og fram hefur komið í fréttum seinustu daga átti Sláturfélag Suðurlands eina tilboðið í skólamáltíðir í mötuneytinu í grunnskólanum í Dalvíkurbyggð. Því var tekið. Það þætti svosem varla í frásögur færandi nema vegna þess að maturinn verður keyrður frá Hvolsvelli til Dalvíkur, um 500 kílómetra leið, á hverjum virkum degi. Um er að ræða foreldaðan mat sem fluttur er í bökkum norður og hitaður svo upp fyrir neyslu. Því er nú varla hægt að neita að þessi tíðindi séu allmerkileg. Það eru greinilega engin vandkvæði virðist vera að keyra mat um langan veg til neyslu í mötuneytum ef þetta form gengur upp. Það eru þó vissulega vonbrigði að ekkert fyrirtæki eða aðili á Eyjafjarðarsvæðinu, nú eða hér á gervöllu Norðurlandi, bjóði í þetta tiltekna verkefni. Eðlilegast hefði mér þótt að kokkur á svæðinu hefði einfaldlega tekið að sér verkefnið eða boðið í það og styrkt hefði verið við bakið á matseld héðan á svæðinu. Það eru því auðvitað tíðindi að ekkert slíkt tilboð berist. Í flestum mötuneytum er starfandi kokkur sem eldar mat ofan í viðkomandi aðila sem þar borða.
Segja má að það marki mikil þáttaskil þegar að nemendur í skóla í Eyjafirði eru farnir að borða álbakkakeyrðan mat sunnan frá Hvolsvelli, matvinnslu SS, sem er í nokkurra hundruða kílómetra fjarlægð. Það eru tíðindi sem fá allavega mig til að hugsa um hvernig komið sé fyrir norðlenskum matvinnslufyrirtækjum.

Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Ed Wood. Í henni er sönn saga þessa eins af kostulegustu leikstjórum í Hollywood á 20. öld sögð. Snemma kom í ljós að hann bar í brjósti sér þann draum að verða kvikmyndagerðarmaður. Þegar fyrstu myndir hans bar fyrir augu gagnrýnenda var samdóma álit þeirra að verri og lélegri myndir hefðu vart verið gerðar í Hollywood. En dómarnir höfðu engin áhrif á Ed Wood, sem hélt sínu striki og safnaði um sig hópi fólks sem átti það sameiginlegt að vilja starfa með honum, þrátt fyrir algert hæfileika- og eða getuleysi. Þeirra á meðal var hinn útbrunni drykkjumaður, Bela Lugosi, en hann lék í velflestum myndum Wood og lét sér yfirleitt nægja áfengi að launum. Leikstjóri þessarar frábæru myndar er Tim Burton sem fékk brennandi áhuga á Ed Wood og lífshlaupi hans eftir að hann sá myndir á borð við Plan 9 From Outer Space og Glen or Glenda eftir Wood, og einsetti hann sér að gera mynd um þennan sérstaka mann sem lét engan segja sér fyrir verkum eða trufla sig á leið sinni að takmarkinu. Johnny Depp fer á kostum í hlutverki Wood og Martin Landau hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun á Bela Lugosi. Meistaraleg úttekt á lífi, starfi og persónu þessa litríka kvikmyndaleikstjóra sem fór á spjöld kvikmyndasögunnar sem einn af misheppnuðustu leikstjórum allra tíma.

Ítalinn Ennio Morricone er eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel's Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau. Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim.
(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum Ennio Morricone)

Eins og athugulir lesendur hafa eflaust tekið eftir hef ég birt fjölda ljóða Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi, að undanförnu. Það er engin tilviljun á bakvið það. Davíð hefur mjög lengi verið mitt uppáhaldsljóðskáld. Ljóð hans eru full af tilfinningu og þar er taug beint til þess sem les þau. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Hann allavega talar til hjartans míns - þess vegna er hann ávallt í heiðurssessi þessa vefs þegar ljóð eru annarsvegar.
Saga dagsins
1954 Steinkista Páls biskups Jónssonar, sem lést árið 1211, fannst við fornleifauppgröft í Skálholti.
1967 Íslendingar töpuðu fyrir Dönum í frægum landsleik í fótbolta í Kaupmannahöfn. Úrslitin: 14:2.
1990 Saddam Hussein birtist í íröksku sjónvarpi með gíslum - þetta atvik var fordæmt út um allan heim. Valdaferli Saddams lauk 13 árum síðar, er honum var steypt af stóli, og hann bíður nú dóms.
1990 Tilkynnt um sameiningu V-Þýskalands og A-Þýskalands - hún tók loks gildi hinn 3. október 1990.
2000 Airbus A320 flugvél frá Gulf Air ferst við Bahrain í Persaflóa - 143 manns létu lífið í flugslysinu.
Snjallyrðið
Margt er það, já margt er það,
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina,
sem enginn frá mér tekur.
Þær eru það eina,
sem ég á í þessum heimi.
Uppi í háu hömrunum
er hugurinn á sveimi.
Gott var uppi í hömrunum
í hreiðrinu mjúka.
Þangað leitar hugurinn,
er hríð og stormar fjúka.
Þangað leitar hugurinn,
er þöglar stjörnur skína.
Þær eru einu vinirnir,
sem vita um gleði mína.
Þyngri voru sporin
en því verði lýst með orðum.
Vilji minn er sá sami
og undir vængjunum þínum forðum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Söknuður)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2005 | 22:17
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um dramatísk endalok R-listans sem geispaði golunni í vikunni. Fer ég yfir málið frá nokkrum hliðum sem við blasa að séu mest áberandi þegar gert er upp merkileg endalokin á þessu langa dauðastríði sem R-listinn hefur háð seinustu árin. Jafnframt spái ég í framhaldinu, t.d. hvernig flokkunum gangi að vinna saman fram að kosningum. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa Ingibjörgu Sólrúnu af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.
- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Farið er nú að tala um raunhæfa kosti í málunum í stað hnútukasts um grunnatriði. Er það gleðiefni. Nú hefur rykið verið dustað af þriggja áratuga gamalli tillögu um völl á Lönguskerjum, sem Trausti Valsson kom manna fyrstur með, og Hrafn Gunnlaugsson færði í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Ég lýsi yfir ánægju minni með nýja stöðu málsins nú. Menn eru farnir að tala um raunhæfa kosti og raunhæft mat á grunni málsins. Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp – átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns um skipulagsmál í borginni.

Hvers vegna dillar hundur skottinu? Vegna þess að hundurinn er snjallari en skottið. Ef skottið væri snjallara mundi það dilla hundinum. Þetta er augljós sannleikur og speki sem á svo sannarlega við í Wag the Dog, hinni frumlegu, fyndnu og sérlega skemmtilegu mynd óskarsverðlaunaleikstjórans Barry Levinson. Það eru aðeins 11 dagar í forsetakosningar og tíminn því ekki heppilegur fyrir alvarlegt hneyksli þar sem forsetinn sjálfur er aðal sökudólgurinn. Ásakanir þess efnis að hann hafi beitt eina starfsstúlku Hvíta hússins kynferðislegri áreitni eru komnar fram og málið er mjög líklegt til að hafa afgerandi áhrif á siðvanda kjósendur. Til að bjarga málunum er ákveðið að kalla í Conrad Brean, en hann er svokallaður spunalæknir (spin doctor), þ.e. sérfræðingur í að hafa áhrif á almenning í gegnum fjölmiðla og fréttatilkynningar. Conrad gerir sér þegar grein fyrir alvöru málsins og til að dempa umræður um hneykslið finnur hann upp enn alvarlegri fréttir sem hafa með kjarnorkusprengju og stríð í Albaníu að gera.
Til að gera "fréttirnar" sem allra trúverðugastar flýgur hann til fundar við Hollywood-leikstjórann Stanley Motts og fær hann í lið með sér. Hlutverk hans er að framleiða í einum grænum trúverðugar fréttamyndir frá "átakasvæðinu" og koma þeim á framfæri. Þeir Stanley og Conrad verða skottið sem dillar hundinum. Og hundurinn er í þessu tilfelli öll heimsbyggðin. Wag the Dog er án nokkurs vafa ein af bestu kvikmyndum ársins 1997. Óskarsverðlaunaleikararnir Dustin Hoffman og Robert De Niro fara algjörlega á kostum í hlutverkum Motts og Brean. Hoffman var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Pólitískir klækir þeirra og vinnubrögð jafnast á við heila kennslubók í pólitíska spinnplottinu á bakvið tjöldin. Þessi mynd er fjársjóður fyrir áhugamenn um stjórnmál. Þeir sem sjá þessa kynnast mörgum trixum sem bæði eru í bókinni heilögu um áróðursklæki og eins finnast ekki nema í vinnubrögðum þeirra allra færustu í bransanum. Áhugaverð mynd - sem allir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa sannkallað gagn og gaman af.
Saga dagsins
1011 Njálsbrenna - Njáll Þorgeirsson og fjölskylda hans brennd inni á Bergþórshvoli í Landeyjum.
1238 Örlygsstaðabardagi háður í Blönduhlíð í Skagafirði - þar féll á sjötta tug manna. Bardaginn er almennt talinn einn af þeim örlagaríkustu hérlendis en í honum börðust þrjár af voldugustu ættum landsins um áhrif og völd. Kolbeinn ungi Arnórsson vann sigur í orrustunni með atbeina Gissurar Þorvaldssonar jarls. Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans féllu t.d. í bardaganum með liði sínu.
1968 Tilraun stjórnvalda í Tékkóslavakíu til að færa stjórnarfar landsins til lýðræðisáttar er kaffærð með valdaráni þarlendra fulltrúa Sovét-kommúnistanna - lýðræðislegri stjórn landsins steypt af stóli.
1983 Benigno Aquino leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum, myrtur á flugvellinum í Manila
við heimkomu til landsins, en hann hafði þá verið í útlegð í Bandaríkjunum í 3 ár. Morðið á honum efldi stjórnarandstöðuna í baráttunni gegn Marcos einræðisherra landsins. Corazon Aquino, ekkja Benignos, leiddi baráttuna og varð forseti landsins í febrúar 1986 er Marcos var loks steypt af stóli.
1991 Valdarán harðlínuaflanna í Moskvu mistekst og forystumenn valdaránsins eru handteknir - Gorbatsjov sleppt úr varðhaldi, snýr aftur til Moskvu þar sem blasir við gjörbreytt valdaumhverfi.
Snjallyrðið
Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr
hver minning um vor sumarstuttu kynni.
Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,
er innan stundar lýkur göngu minni
þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Játning)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2005 | 04:49
Engin fyrirsögn

Aðalfréttaefni vikunnar hefur verið R-listinn. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa ISG af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Ég hef fylgst með sigrum og sorgum R-listans allt frá stofnun árið 1994. Allan tímann hef ég verið mikill áhugamaður um stjórnmál og fylgst vel með borgarmálunum. Það verður seint sagt að ég hafi verið aðdáandi R-listans. Hugur hins sanna sjálfstæðismanns hefur verið kaldur í garð R-listans alla tíð. Það er því algjör óþarfi að leyna ánægju sinni með þessi sögulegu þáttaskil. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Það varð enginn hissa í raun, fjölmiðlarnir sögðu frá þessu með krafti en almenningur hafði búið sig undir þetta. Um var að ræða ferli sem allir vissu mjög lengi hvernig myndi enda. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.
Margir fylgdust með skrifum mínum um R-listann í vikunni. Sumir töldu þau vera ansi áberandi og kveinkuðu sér undan umfjölluninni. Öðrum fannst þau vel framsett og hörmuðu lítt hversu mikið ég fjallaði um hinn látna - R-listann. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim fjölda einstaklinga sem sendi mér tölvupóst vegna skrifanna. Sumir voru ósammála, fundu að hinu og þessu og komu með svarkomment, - en enn fleiri mjög sammála, og höfðu fín komment á skrifin. Það er alltaf gaman af góðum rökræðum. Það er alltaf gaman að heyra í öðru fólki og fá beint í æð skoðanir lesendanna á því sem maður er að pára niður á bloggsíðuna - þeim skoðunum sem maður hefur og vill kynna fyrir öðrum. Í því mikla hafi tölvupósta sem ég fæ dag hvern finnst mér alltaf ánægjulegast að fá póst með viðbrögðum um skrifin mín. Í gegnum það hef ég kynnst fjölda fólks. Skemmtilegast er jafnan að tala við pólitísku andstæðingana. Átti ég semsagt mörg lífleg skoðanaskipti þessa vikuna við fólk um lífið eftir R-listann. Sumt var æði fyndið - annað mátulega fróðlegt spjall um sögu og staðreyndir tengdar R-listanum. Hafði ég þónokkuð gaman af þessu. Það er auðvitað öllum frjálst að senda tölvupóst til mín og tjá sig um efnið sem hér birtist - hafi fólk á því skoðanir. Fagna ég hverjum þeim sem vill spjalla.
En já, saga R-listans er öll - þeir sem lifðu í veikri von um annað voru slegnir endanlega af laginu með ákvörðun Samfylkingarinnar um eigið framboð. Einn af þeim sem biðu og vonuðu - eins og sagði í laginu fræga - var Alfreð Þorsteinsson. Hann vonaði og beið - hélt í vonina um kosningabandalag í einhverri mynd. Í dag virtist sem hann væri búinn að átta sig og talaði hann þar í fyrsta skipti um lífið handan R-listans. Hann ætlar að halda áfram og bauð þeim byrginn sem hafa gagnrýnt hann í eigin röðum og sagði bara andstæðingunum að leggja í sig ef þeir vildu losna við hann. Alfreð hikar hvergi og ætlar sér greinilega að leggja á framboðshöfin á vegum Framsóknarflokksins í næstu kosningum. Í gær minnti Alfreð heldur betur á sig þegar að hann lagði fram tillögu í borgarráði um að hætt skyldi við umdeilda gjaldskrárhækkun á leikskóla, sem Stefán Jón Hafstein formaður borgarráðs og menntaráðs, hafði fyrr um daginn varið með kjafti og kló á fundi með fulltrúum háskólastúdenta. Það er greinilegt að kosningabaráttan er hafin. Og Alfreð er farinn að stríða samstarfsmönnum sínum innan R-listann - og minnir á sig með þessu. Engum blandast hugur um það að titringur er orðinn innan meirihlutans. Það kristallast altént í þessu.
Í dag birtist ítarlegur pistill minn um endalok R-listans á vefritinu íhald.is. Þar fer ég yfir atburði vikunnar og þessi táknrænu endalok kosningabandalagsins. Bendi ég lesendum vefsins á þau skrif. En ég endurtek enn og aftur þakkir til þeirra sem hafa kommentað til mín á skrif vikunnar um R-listann og þau ánægjulegu samskipti sem spunnist hafa útfrá því. Það er alltaf ánægjulegt að eiga góð samskipti við fólk í gegnum tölvupóst. Þeir sem hafa skoðanir á þessum nýjasta pistli - hafið endilega samband! Ég svara öllum pósti, um leið og ég les hann.

Fyrir sex árum setti Samfylkingin sér siðareglur. Gott og vel - það er þeirra valkostur og þeirra hlið á málin. Þetta var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1999. Þeim kosningum fylgdist ég vel með. Sennilega er það ein skemmtilegasta kosningabarátta sem ég hef tekið þátt í. Sjálfstæðisflokkurinn vann þá einn sinn merkilegasta kosningasigur og við sjálfstæðismenn hlutum mest fylgi allra framboða í hinu gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Það var mikil gleði aðfararnótt 9. maí 1999 þegar því var fagnað að Halldór Blöndal varð fyrsti þingmaður kjördæmisins, í þessum seinustu kosningum í kjördæminu. Sennilega er það hápunktur stjórnmálaferils Halldórs - þetta var sögulegur sigur fyrir okkur hér á þessu svæði okkar - því getur enginn neitað. En rétt eins og þetta eru ánægjulegar kosningar fyrir okkur sjálfstæðismenn - tengdar ólýsanlega gleðilegum minningum - hugsa Samfylkingarmenn til þeirra með hryllingi. Aldeilis var markið sett hátt með svokallaðri sameiningu vinstrimanna í Samfylkinguna. Ekki reið flokkurinn feitum hesti frá þeim bardaga og sleiktu sárin lengi á eftir, fyrstu árin þeirra voru mögur og eymdarleg. En já siðareglurnar komu til í aðdraganda kosninganna. Það var ein leið flokksins til að virka nútímalegur og vinna gegn óeðlilegum tengslum þingmanna flokksins.
Siðareglurnar margfrægu banna þingmönnum Samfylkingarinnar að sitja í stjórnum banka, stofnana og fyrirtækja þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum. Samfylkingin varð fyrst flokka til að marka sér siðareglur með þessu tagi - er eina stjórnmálaaflið sem það hefur gert. Gott og vel - en hvernig hefur til tekist með reglurnar, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, það er í fréttum nú sex árum síðar að flokkurinn fer ekki eftir þeim. Fjölmiðlamenn þaulleita að þessum frægu siðareglum og enginn finnur neitt. Það er eins og að ætla að leita að nál í heystakk að reyna að ramba á þessar frægu reglur. Í gærkvöldi birtist merkileg frétt í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 um það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, sem tekið hefur sæti á þingi, ætli ekki að segja sig úr stjórn Seðlabankans, þar sem hún hefur setið frá árinu 2003 (er henni mistókst að komast inn á þing í frægu þingframboði sem gekk ekki upp). Hún telur enga hagsmunaárekstra felast í því að hún sitji í stjórninni. Það segir hún þrátt fyrir að þessar siðareglur segi að þingmenn flokksins megi eins og fyrr segir ekki vera í stjórnum banka. Ver hún það með því tali að í siðareglunum sé talað um viðskipta- og fjárfestingabanka. Seðlabankinn sé hvorugt og því engin brot á siðareglunum. Það er merkilegt að heyra þessa skilgreiningu hjá formanninum.
Það er auðvitað ekki hægt annað en að hlæja af þessu máli öllu. Samfylkingin setur sér siðareglur sem enginn hefur orðið fyrir því að virða. Ekki einu sinni formaður flokksins virðir þær. Hún er ekki ein um það því að Helgi Hjörvar situr í stjórn Landsvirkjunar og hafnarráði Faxaflóa, Jón Gunnarsson er í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og Einar Már Sigurðarson í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins. Nú ver varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar þetta í fjölmiðlum með því að segja að þingflokkurinn hafi ekki tekið á þeirra máli vegna þess að þeir hafi verið tilnefndir af sveitarfélögunum. Þetta er samt sem áður mjög húmorískt, svo ekki sé meira sagt. Siðareglurnar sem varla finnast neinsstaðar eru brotnar fram og til baka af þingmönnum flokksins. En hvað ætla þeir að gera varðandi formann sinn? Þessi hlægilegi útúrsnúningur hennar á brotum á siðareglum flokksins segja margt um hvernig tekið hefur verið á þessum dæmum innan flokksins. Það er gaman að þykjast vera siðapostuli með því að setja siðareglur. En það er óneitanlega fyndið að sömu postular virði svo ekki eigin reglur. En það er vissulega undrunarefni að flokkur sem hefur sett sér svona siðareglur skuli ekki fylgja þeim eftir. Eru þetta bara puntsiðareglur sem ekki er fylgt eftir?
Viti einhver hvar þessar siðareglur er að finna á netinu væri gaman að fá tölvupóst um það - ég hef nefnilega þónokkurn áhuga á að lesa þær.

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Murder on the Orient Express. Þetta er vönduð og vel gerð úrvalsmynd byggðri á þekktri skáldkonu Agöthu Christie, sem skartar fjölda heimsþekktra leikara í aðalhlutverkum. Í þessari mynd var uppskriftin gefin að öllum Agatha Christie-spennusagnamyndunum sem fylgdu í kjölfarið, en allt frá því þetta meistaraverk kom út hefur verið gerður mikill fjöldi kvikmynda- og framhaldsþátta byggðar á þekktum sögum Christie. Hér er valinn maður í hverju rúmi og myndar ógleymanlega kvikmynd. Hercule Poirot tekur sér á hendur ferð með Austurlandahraðlestinni árið 1935 eftir að hafa leyst mál og gengur ferðin vel þar til hana fennir inni í snjóskafli á leiðinni. Er uppgötvast að einn farþeganna hefur verið myrtur á hrottalegan hátt, hefur Poirot morðrannsókn sína og uppgötvar fljótt sér til mikillar skelfingar að allir farþegar lestarinnar tengdust hinum myrta í gegnum barnsrán í kringum 1910 sem kennt var við Daisy Armstrong-málið. Nú er hann í vanda staddur og áttar sig á að allir farþegarnir höfðu nægilega ástæðu og tilefni til að hafa myrt hinn látna. Það vantar semsagt ekki fólk sem er undir grun. En spurningin vaknar - hver þeirra er morðinginn?
Það er hrein unun að fylgjast með þessari stórfenglegu kvikmynd og fylgjast með úrvalsleikaranum Albert Finney í hlutverki Hercule Poirot og fylgjast með honum fást við þetta dularfulla og undarlega morðmál áður en hann hóar hinum grunuðu saman og bendir á hina seku. Stjarna í hverju hlutverki og leikstjóri myndarinnar, úrvalsleikstjórinn Sidney Lumet, stjórnar öllu saman með velviðeigandi blöndu af húmor og spennu. Að öllum ólöstuðum er stjarna myndarinnar fyrir utan Albert Finney, óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman, sem fer hér á kostum í hlutverki Gretu, sænsks trúboða sem er farþegi í lestinni. Hún hlaut sinn þriðja og jafnframt síðasta óskar fyrir hreint magnaðan leik sinn í þessari mynd. Ennfremur má meðal leikarana nefna Lauren Bacall, Martin Balsam, Wendy Hiller, John Gielgud, Vanessu Redgrave, Sean Connery og Dame Wendy Hiller. Einnig eru hér leikararnir Anthony Perkins, Richard Widmark, Rachel Roberts, Jacqueline Bisset og Michael York. Sannkölluð stórmynd með úrvalsleikurum, vel leikstýrð og afar vel útfærð. Þeir sem hafa gaman af stórbrotnum sakamálamyndum með ekta bresku ívafi mega ekki missa af þessari. Sannkölluð klassamynd.

Enginn vafi leikur á því að John Williams sé eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (samt bara smábrot þess) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: The Music of John Williams: 40 Years of Film Music. Hann hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur samið tónlist við nær allar kvikmyndir Steven Spielberg. Allir þeir sem horft hafa á E.T., Schindler's List, Star Wars, The Deer Hunter, Indiana Jones, Jaws, Stepmom, Nixon, Born on the Fourth of July, Saving Private Ryan, Jurassic Park, Catch Me If You Can, JFK, Superman, Home Alone, og Sugarland Express (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Hann hefur hlotið óskarsverðlaun fimm sinnum fyrir verk sín og hlotið 32 tilnefningar á rúmlega þrem áratugum. Það segir allt um snilli hans á þessum vettvangi. Tónlist hans hefur kallað fram mörg svipbrigði: hann hefur skelft fólk (allir fá hroll sem sjá Jaws), snert hjartað (allir sem sjá The Deer Hunter og Schindler's List tárast yfir stefunum) og glatt fólk (tónlistin hans úr Star Wars og Superman er pjúra snilld). Hann er það núlifandi kvikmyndatónskáld sem ég ber mesta virðingu fyrir. Alltaf fagmannlegur og kemur alltaf á óvart. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem dýrka kvikmyndirnar - jafnast á við hið besta koníak. :)
(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum John Williams)

Hrós vikunnar að þessu sinni fær Húsasmiðjan. Fyrirtækið vantar fólk til starfa - náði það athygli almennings með auglýsingum sínum í dagblöðum um miðja vikuna er þeir auglýstu eftir starfskröftum - skiljanlega fyrst vantar fólk er gripið til þess ráðs. En það sem var merkilegast við auglýsinguna er það að óskað var eftir eldri borgurum til að sinna vissum störfum í fyrirtækinu. Viðbrögðin voru mjög góð - sá ég viðtal við Stein Loga Björnsson forstjóra fyrirtækisins, í vikunni í sjónvarpi þar sem hann lýsti því að fjöldi fólks hefði sótt um. Fannst mér þetta glæsilegt framtak hjá Húsasmiðjunni. Eins og allir vita er fólk á sjötugsaldri afburða starfskraftar og búa yfir enn meiri starfsorku en fólk á sama aldri fyrir nokkrum áratugum. Þetta er jú allt annað samfélag en þá. Margt fólk er afskrifað er það dettur inn á sjötugsaldurinn. Það er mjög slæmt, því eldra fólk býr yfir mikilli starfsreynslu og hefur þrek og heilsu til að taka að sér störf. Allavega gladdi þetta hjartað mitt og viðbrögðin sýna okkur hversu vel heppnað þetta var hjá Húsasmiðjunni. Þeir fá hrós í hnappagatið allavega frá mér.
Saga dagsins
1871 Alþingismenn stofnuðu Hið íslenska þjóðvinafélag, í þeim tilgangi að vekja og lífga skilning Íslendinga á því að þeir væru sjálfstætt þjóðfélag. Félagið hefur frá 1875 gefið út árlegt almanak.
1964 Bítlamyndin A Hard Day's Night frumsýnd í Tónabíói í Reykjavík - myndin sló sýningarmet um allan heim og markaði upphaf hinna gríðarlegu vinsælda bresku popphljómsveitarinnar The Beatles.
1991 Mikhail Gorbachev forseta Sovétríkjanna, steypt af stóli og hnepptur í stofufangelsi í leyfi sínu á Krímskaga, með valdaráni harðlínuaflanna í Moskvu - valdaránið fór út um þúfur tveim dögum síðar og Gorbatsjov var sleppt úr varðhaldinu og sneri aftur til Moskvu. Við heimkomuna blasti gjörbreytt pólitískt landslag við og Jeltsín forseti Rússlands, hafði fangað athygli heimsins og landsmanna með framgöngu sinni. Veldi Gorbatsjovs og Kommúnistaflokksins hrundi á nokkrum vikum og í lok ársins 1991 voru Sovétríkin svo að lokum leyst upp og Gorbatsjov missti í kjölfar þess öll sín pólitísku völd.
1993 Shimon Peres utanríkisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til landsins. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu leiðtogar þáverandi stjórnarandstöðuflokka, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðar borgarstjóri, að sitja kvöldverðarboð forsætisráðherrans, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust svo sögulegar sættir á milli Ísraels og Palestínu, í kjölfar mjög umfangsmikilla samningaviðræðna í Noregi.
1993 Íslenskir togarar hófu veiðar utan lögsögunnar, í Smugunni - upphaf allmikilla milliríkjadeilna.
Snjallyrðið
Þú varst minn vetrareldur.
Þú varst mín hvíta lilja,
bæn af mínum bænum
og brot af mínum vilja.
Við elskuðum hvort annað,
en urðum þó að skilja.
Ég geymi gjafir þínar
sem gamla helgidóma.
Af orðum þínum öllum
var ilmur víns og blóma.
Af öllum fundum okkar
slær ævintýraljóma.
Og þó mér auðnist aldrei
neinn óskastein að finna,
þá verða ástir okkar
og eldur brjósta þinna
ljós á vegum mínum
og lampi fóta minna.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vetrareldur)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2005 | 03:52
Engin fyrirsögn

Samfylkingin í Reykjavík ákvað á félagsfundi sínum í gærkvöldi að flokkurinn myndi bjóða fram á eigin vegum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, þann 27. maí nk. Með þessari ákvörðun fetar flokkurinn í fótspor Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem ákvað eigið framboð á stormasömum félagsfundi sínum á mánudagskvöldið. Nú stendur því aðeins Framsóknarflokkurinn eftir innan R-listans, það er eina aflið sem stendur að R-listanum sem hefur ekki lýst yfir eigin framboði undir flokksmerki í stað kosningabandalagsins. Það er því nokkuð ljóst að R-listinn hefur liðið undir lok og ekkert verður um sameiginlegt framboð flokka undir einum fána eins og verið hefur í borginni, af hálfu félagshyggjumanna, allt frá árinu 1994. Reyndar er Framsóknarflokkurinn, eins og fjöldi framsóknarmanna hefur bent svo réttilega á, eini flokkurinn sem hefur allan tímann verið stoð undir R-listanum. Uppstokkunin á vinstrivængnum undir lok 20. aldarinnar með endalokum A-flokkanna og stofnun Samfylkingar og VG breytti liðsskipan innan R-listans og Framsókn var allan tímann ein helsta stoðin undir valdakerfinu. Nú er bara beðið eftir tíðindum úr herbúðum framsóknarmanna og blasir auðvitað við eigið framboð á þeim bænum. Allavega verður enginn R-listi.
Eins og ég benti á í gær voru nokkrir helstu leiðtogar afgangsins af R-listanum, t.d. borgarstjóri, formaður borgarráðs og forseti borgarstjórnar, með þá skoðun uppi fyrst í stað eftir ákvörðun vinstri grænna að hinir tveir flokkarnir gætu bara haldið áfram eins og ekkert hefði gerst. Það voru auðvitað bara órar og það var afneitun vissra aðila að neita að sætta sig við stöðu mála. Í skrifum mínum í gær benti ég á að þó þessir flokkar gjarnan vildu halda áfram væri ekki til neins að berjast. Það væri borin von að ætla að ná hreinum meirihluta með þessa tvo flokka eina innanborðs gegn VG og auðvitað stóla flokkarnir tveir ekki á Frjálslynda flokkinn sem þriðju stoðina. Þetta voru bara tálsýnir fólks sem skynjaði veikari stöðu en áður með hruni hins gamalkunna R-lista. Eins og staðan er orðin verða bara flokkaframboð og þar munu flokksstofnanirnar láta einfaldlega reyna á stöðu sína. Það þarf ekki samningaviðræður um völd, plott og áhrif, til að sjá grunnstöðuna eftir þær kosningar. Þar fer fram raunhæf og eðlileg mæling á styrkleika flokkanna á eigin vegum og ennfremur hvernig þeim gengur að keppa gegn Sjálfstæðisflokknum. En með því hætta flokkarnir auðvitað á að missa valdastöðu sína.
Í tíufréttum sjónvarps í gærkvöldi var rætt við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra. Farið yfir fyrrnefnda ákvörðun Samfylkingarinnar og kosningabaráttuna framundan - við blasir auðvitað að kosningabaráttan er hafin af krafti. Þar var hún allt í einu að tjá sig í gjörólíku hlutverki en hún hefur átt að venjast í þau ellefu ár sem hún hefur setið í borgarstjórn. Hún er nú allt í einu orðin áberandi flokksframbjóðandi í borgarstjórnarkosningum en ekki lengur á vegum kosningabandalags. Það hefur eiginlega aldrei reynt á Steinunni Valdísi sem öflugan flokksframbjóðanda. Reyndar var hún fyrst í stað frambjóðandi Kvennalista og svo Samfylkingarinnar inni í R-listanum. En hún hefur fylgt R-listanum allt frá því hún fór þar fyrst fram eftir háskólanám sitt. Hefur ekki verið mjög áberandi á flokksvettvangi, ef frá er talið að hún var um tíma ritari Samfylkingarinnar. Verður fróðlegt að fylgjast með henni höndla nýtt hlutskipti sitt. Sérframboðið veikir hiklaust stöðu Steinunnar Valdísar sem hefði með áframhaldandi R-lista getað gert frekari tilkall til borgarstjórastóls eða leiðtogastöðu innan Samfylkingar í gegnum R-listann. Við blasir að nú fær hún öfluga samkeppni. Nefna mætti Stefán Jón Hafstein og Dag B. Eggertsson (reyndar hafði hann útilokað framboð nema í gegnum R-listann).
Svo má auðvitað ekki gleyma Össuri Skarphéðinssyni leiðtoga Samfylkingarinnar í RN, sem hefur verið mjög áberandi seinustu vikurnar að tala um stöðuna innan R-listans. Hann einn þorði að tala upphátt um plottviðræðurnar frægu, meðan að öðrum var sagt að þegja! Í gærkvöldi ritaði hann merkilega bloggfærslu á vef sinn um sérframboð Samfylkingarinnar og endalok R-listans sem hefur nú svo kyrfilega verið kistulagður og allir keppast við að gleyma. Ber færslan hið merkilega nafn: "Í jarðarför hjá ókunnu líki". Þar skrifar hann nýkominn af flokksfundinum og rekur atburðarás fundarins og nefnir vissa kandidata en nefnir ekkert um hvort hann hafi áhuga sjálfur. Fari Dagur ekki fram (sem Össur greinilega vill að fari í prófkjörið) blasir jafnvel við að Össur stökkvi í slaginn. Í útvarpsviðtali í gær gaf hann þeim kosti vel undir fótinn. Flest bendir til þess að Samfó hleypi óháðum inn í prófkjörið. Í gær sá ég mig tilknúinn til að rita smá athugasemd við bloggfærslu Össurar um mögulegt samstarf VG og D og benti honum á ótrúleg komment Bjarkar hinnar vinstri grænu sem sér víst svart þegar að talað er um Sjálfstæðisflokkinn. Svaraði hann um hæl og kom með merkilegt komment á það sem ég þakka hérmeð fyrir - lítið endilega á það lesendur góðir. En eftir stendur að hasarinn er hafinn í borginni - þetta verður sko hörkuslagur!

Gærkvöldið var rólegt og gott - enginn fundur aldrei þessu vant og því var ekta popp og kók-kvöld. Horfði á eðalmyndina Giant - stórfenglegt og ógleymanlegt meistaraverk frá miðjum sjötta áratugnum þar sem sagt er frá hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Hér segir frá nautgripabóndanum Jordan Benedict sem á stærsta búgarð Texasríkis, Reata, og rekur hann búið ásamt hinni kjarnmiklu systur sinni Luz Benedict í upphafi myndarinnar. Allt hans lífsmynstur tekur miklum breytingum er hann kynnist hinni auðugu Leslie Lynnton og giftist henni. Er hann snýr aftur heim með eiginkonu sína breytist líf hans til muna er hún tekur til við að stjórna fjölskyldubúinu að sínum hætti og mislíkar systur hans ráðríki eiginkonunnar. Er hún fellur snögglega frá eftir að hafa dottið af baki á hesti eiginkonu bróður síns breytist lífsmynstrið á búgarðinum og tekur Leslie þá að fullu við húsmóðurhlutverkinu á staðnum. Er Luz Benedict fellur frá kemur í ljós að hún hefur ánafnað vinnumanninum á bænum, Jett Rink, stóran landskika af búgarði óðalseigandans.
Reynir Jordan að borga honum jafnvirði skikans til að halda því innan fjölskyldunnar. Jett hafnar því og reynist skikinn luma á ofurgnótt olíulinda. Vinnumaðurinn rís úr öskustónni og reynir að ásælast völd og áhrif óðalsbóndans - upp hefst öflug valdabarátta þar sem öllum brögðum er beitt. Óviðjafnanleg kvikmynd sem lýsir hinum miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu í Texas um miðja 20. öldina á einstaklega góðan hátt. Hér er allt til að skapa ógleymanlegt meistaraverk; handritið, myndatakan og tónlistin eru frábær, en aðall myndarinnar er leikstjórn meistarans George Stevens, sem hlaut óskarinn fyrir. Leikurinn er í klassaformi. Rock Hudson var aldrei betri og glæsilegri en í hlutverki óðalsbóndans Jordan Benedict. Mercedes McCambridge er stórfengleg í hinu litla en bitastæða hlutverki kjarnakonunnar Luz Benedict og hlaut hún óskarinn fyrir. Elizabeth Taylor er eftirminnileg í hlutverki ættmóðurinnar Leslie Lynnton Benedict og skapar eftirminnilega og heilsteypta persónu sem heldur reisn sinni og glæsileika til enda. Síðast en ekki síst er James Dean frábær í síðasta kvikmyndahlutverki sínu sem hinn áhrifagjarni og valdagráðugi Jett Rink sem fellur að lokum á eigin bragði. Hann lést í bílslysi hinn 30. september 1955, örfáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk.
Hafði ég ekki séð þessa mynd í áratug þegar ég setti hana í tækið - en ég hafði keypt myndina á DVD. Var ég satt best að segja búinn að gleyma hvað þessi mynd er ótrúlega góð og sterkbyggð lýsing á Texas, fyrir og eftir breytingarnar miklu í olíubissnessnum. Þetta þriggja tíma svipmikla meistaraverk hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Að mínu mati kunnu þeir sem gerðu myndir á fyrrihluta 20. aldarinnar betur þá miklu snilld að segja frá dramatískum stórátökum og skapa hina gullnu stórmynd en arftakar þeirra (með nokkrum undantekningum þó). Það er valinn maður á hverjum pósti í þessu epíska meistaraverki og hefur myndin jafnvel batnað með aldrinum, eins og hið allra besta rauðvín. Semsagt: gullaldarklassík sem er nauðsynlegt öllum þeim sem hafa gaman af eðalmyndum kvikmyndasögunnar. Og ekki síst öllum þeim sem vilja verða vitni að seinustu töfrum hinnar gömlu kynslóðar sem gerði Hollywood að því stórveldi sem það er í dag. Ómótstæðilegt tímamótaverk - þessa verða allir að sjá (og upplifa með sínum hætti).

Eins og varla hefur farið framhjá neinum sem fylgist með þjóðmálunum og fréttunum var mál ákæruvaldsins á hendur lykileigendum og forystumönnum Baugs þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þetta er gríðarlega umfangsmikið og stórt mál og blasir við að það verði fyrir dómi næstu mánuðina. Búast má við niðurstöðu í réttinum fyrir áramótin. Fór ég í gær ítarlega yfir það sem gerst hefur í málinu seinustu dagana og fátt svosem við það að bæta. En vissulega var þetta merkileg sjón að sjá í fréttunum er Jóhannes Jónsson kom þar til réttarins ásamt börnum sínum tveim og öðrum sem ákærðir eru með honum. Þetta er mjög umfangsmikið og sögulegt mál - niðurstaða þess fyrir dómi mun hafa áhrif á hvorn veginn sem fara mun. Það blasir við. Merkilegt hefur verið að fylgjast með atburðum seinustu dagana. Baugur er greinilega með massavörn, sem fer ekki á milli mála. Þeir eru ekki að sækja fram með tali sínu og þeirra sem þeim tengjast. Þetta er gríðarleg vörn skiljanlega, enda málið mjög erfitt fyrir þá. Reyndar vekur mesta athygli hvernig komið er fram og hversu víðtæk vörnin er og þá á hvaða vettvangi. Að mestu leyti fer hún fram utan réttarsalarins virðist vera. Hefur verið merkilegt að fylgjast með framsetningu Baugs í málinu - það er ýmsu beitt.
Sérstaka athygli vakti að hinn margumtalaði Jón Gerald Sullenberger gerði sér ferð til Íslands til að vera viðstaddur þingfestingu málsins í gær. Var óneitanlega táknrænt að sjá þá fjandvini Baugsfeðga og Jón Gerald samankomna í sama herberginu í Héraðsdóminum. Táknrænt var vissulega að hann horfði framan í þá feðga allan tímann en þeir litu aldrei framan í hann til baka. Heyrðust margar skondnar sögur af þessu í pressunni í gær. Í gærkvöldi var svo Jón Gerald gestur þeirra Svansíar og Þórhalls í ítarlegu viðtali í Íslandi í dag. Þar fór hann yfir málið frá sínum bæjardyrum. Hvet ég alla lesendur vefsins til að horfa á viðtalið - hafi þeir ekki gert það. Fannst mér sérstaklega merkilegt að sjá hversu einbeittur hann var og sjálfsöruggur. Fullyrti hann að hann hafi í sínum fórum afrit tölvupósta frá ákærðu og ýmsar aðrar sannanir fyrir sínum fullyrðingum. Ef svo er þá blasir við að húsleitin hjá Baugi hafi verið fullkomlega réttlætanleg. Þar með hrynja að sjálfsögðu allar fullyrðingar Baugsfeðga um aðkomu fyrrum forsætisráðherra. Það var ekki til hik hjá honum í tali eða töktum. Einnig er ekki hægt að segja annað en að framkoma hans í réttinum hafi vakið verðskuldaða athygli. Þetta mál er stórt og mikið og verður mjög merkilegt að fylgjast með því næstu vikurnar.

Valnefnd sóknarnefndar Akureyrarprestakalls ákvað á fundi sínum á þriðjudag að mæla með sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni sóknarpresti í Ólafsvík, í stöðu sóknarprests við Akureyrarkirkju. Mun hann taka við prestsembætti í kirkjunni af sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttur sem lætur af störfum um miðjan septembermánuð. Jafnframt mælti nefndin með því að Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, skyldi hljóta nýtt embætti prests með áherslu á barna- og unglingastarf. Með þessu verða þrír prestar starfandi við Akureyrarkirkju, en þar starfar fyrir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur prestur hér frá því að sr. Þórhallur Höskuldsson lést með sviplegum hætti fyrir áratug. Sr. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt og sannað að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg. Vil ég nota tækifærið og þakka Jónu Lísu góð störf í þágu okkar hér í Akureyrarsókn.

Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi kvikmynda og ekki síður tónlistarinnar í þeim. Nýlega keypti ég mér stórfenglega safndiska með bestu verkum fjölda snillinga. Mun ég fjalla um þá næstu dagana. Fyrstnefndur er meistari Bernard Herrmann. Hann var eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda 20. aldar. Safn hans er á geislaplötunni: Bernard Herrmann's Complete Film Scores. Fremst í flokki verka hans eru tónverk í myndum Sir Alfred Hitchcock, t.d. North by Northwest, The Man Who Knew Too Much, Vertigo og Psycho. Fullyrða má að áhrifstónlist hans í seinastnefndu myndinni hafi haft mikið að segja um hversu hrollköld hún varð - hryllingurinn sést ekki en hann er fenginn fram með tónlistinni. Ennfremur átti hann tónlist í t.d. Citizen Kane, The Longest Day, Cape Fear, Laura og The Ghost and Mrs. Muir. Seinasta tónverk BH var saxófónstefið ódauðlega í Taxi Driver. Herrmann varð bráðkvaddur á aðfangadag 24. desember 1975, örfáum klukkutímum eftir að saxófónstefið var tekið upp undir stjórn hans. Þessi geislaplata er fágæt perla með mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndastefum sögunnar á einum og sama staðnum. Allir sem hlusta á verkin og sjá myndirnar ennfremur finna áhrifamátt tónlistarinnar. Það er á við hið allra besta rauðvínsstaup að hlusta á verk þessa mæta snillings. Herrmann var einn af þeim bestu - enginn vafi á því.
(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum Bernard Herrmann)
Saga dagsins
1786 Reykjavík, Eskifjörður og Grindavík fengu kaupstaðarréttindi - landsmenn voru þá um 40.000.
1964 S-Afríku var úthýst af Ólympíuleikunum vegna aðskilnaðarstefnu landsins - það fékk svo aftur inngöngu að leikunum árið 1992 eftir að aðskilnaðarsstefnunni hafði verið úthýst og Nelson Mandela hafði verið sleppt úr varðhaldi yfirvalda eftir tæplega þriggja áratuga fangelsisvist á Robben-eyjunni.
1986 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar minnst með veglegum hátíðarhöldum - 70-80.000 manns voru
þá í miðborginni og borðuðu m.a. stærstu tertu sem bökuð hafði verið hérlendis, 200 metra langa.
1996 Menningarnótt var haldin í fyrsta skipti í Reykjavík, á 210 ára afmælisdegi Reykjavíkurborgar.
2004 Gylfi Þ. Gíslason fyrrum ráðherra og prófessor við HÍ, lést, 87 ára að aldri. Gylfi var formaður Alþýðuflokksins 1968-1974 og sat á þingi fyrir flokkinn 1946-1978. Hann var menntamálaráðherra landsins, lengur en nokkur annar, samfleytt í fimmtán ár, 1956-1971, og iðnaðarráðherra 1956-1958. Hann var forseti Alþingis á hátíðarfundi þingsins á Þingvöllum sumarið 1974, er fagnað var 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Gylfi ritaði mörg athyglisverð rit um hagfræði og stjórnmál, sérstaklega er eftirminnileg bók hans um viðreisnarárin, 1959-1971, sem kom út 1993, en Gylfi Þ. sat sem ráðherra viðreisnarstjórnarinnar allan valdaferil hennar. Einnig var Gylfi Þ. höfundur margra þekktra sönglaga.
Snjallyrðið
Við sjáum að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær
og faðmi jörðina alla.
Svo djúp er þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englarnir tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng,
svo brjóstið þitt fái svala.
Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,
svo blaktir hann síðasti lífsins loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt
og svanur á bláan voginn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við dánarbeð)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2005 | 06:19
Engin fyrirsögn

Ljóst er eftir atburði gærdagsins að R-listasamstarfið heyrir sögunni til. Í gærmorgun vöknuðu samstarfsmenn vinstri grænna innan R-listans við þá ákvörðun félagsfundar VG að slíta samstarfinu og að flokkurinn bjóði fram á eigin vegum í kosningunum á næsta ári. Merkilegt var að fylgjast með viðbrögðum innan Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins við dauða R-listans. Fremst í flokki þeirra sem hörmuðu R-listann voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, Stefán Jón Hafstein formaður borgarráðs, og Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar. Fram kom í ummælum þeirra að þau útilokuðu ekki áframhaldandi samstarf Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar, þó að VG væri búið að ákveða sérframboð. Ekki er þó hægt að segja annað en að tal þeirra hafi virkað örvæntingarfullt. Það blasir enda við að þeir tveir stjórnmálamenn sem mestu tapa með endalokum R-listans eru borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar, sem eru frekar völt í sessi innan flokka sinna og treystu á áframhaldandi samstarf til að halda velli. Steinunn Valdís sem er sitjandi borgarstjóri, var auðvitað eini borgarfulltrúinn sem naut sameiginlegs stuðnings innan hópsins til að verða borgarstjóri í nóvember 2004 og hefur verið borgarfulltrúi allt frá árinu 1994 er R-listinn var stofnaður. Hennar staða er þó ótrygg ef Samfylkingin fer fram á eigin vegum.
Alfreð Þorsteinsson hefur verið að því er segja má verið til í næstum hvað sem er til að R-listinn myndi bjóða fram í fjórða skiptið. Staða hans innan Framsóknarflokksins er ótrygg, enda hefur ekki farið á milli mála að það andar köldu milli hans og Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Var Alfreð meira að segja svo áfjáður í að listinn héldi velli að hann lét þau boð út ganga að Framsóknarflokkurinn gæti sætt sig við að Samfylkingin fengi fjóra borgarfulltrúa, en hinir flokkarnir tvö hvert. Með því var Alfreð semsagt tilbúinn til að segja að flokkurinn væri til í að víkja frá hinni þekktu jafnræðisreglu. VG vildi ekki þola það sem leiddi til endaloka R-listans. Greinilegt er að Alfreð er svo jafnvel til í næstum hvað sem er til að halda áfram, þó að VG hafi boðað sérframboð. Hann talar nú af krafti um að flokkarnir tveir haldi áfram, eins og ekkert hafi gerst. Slíkt tal Alfreðs og fleiri er mjög fjarstæðukennt og taka fáir mark á því. R-listinn sem heild hefur markast af pólitískum grunnpunktum vinstrimennsku og allir sjá að með brotthvarfi VG fer stór biti í púslinu. Reyndar var Alfreð vandræðalegur er hann ræddi þetta í fréttaviðtali á Bylgjunni í gær og sagði að samstarfið gæti haldið áfram en finna yrði því nýtt nafn. Almennt innan flokkana er tal hans, Stefáns Jóns og Steinunnar Valdísar talið lýsa örvæntingu umfram allt.
Ekki síður hefur síður verið merkilegt að heyra í Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa vinstri grænna, er rætt hefur verið við hana um stöðu mála. Eins og allir vita vildi hún áframhaldandi R-lista, lagði fram tillögu um það á fundi félagsmanna og varð þar undir. Í gærkvöldi var rætt við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2 um stöðu mála. Þar kom hún með alveg ótrúlega yfirlýsingu um Sjálfstæðisflokkinn og þá sem styðja flokkinn í borgarmálum. Hún sagðist sjá svart þegar hún heyrði minnst á flokkinn og jafnframt að það hræðilegasta sem gæti gerst væri það að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda í borginni. Hún sagðist aldrei myndu vilja meirihlutasamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins. Í gær skrifaði Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, um þessi dramatísku endalok R-listans og gerir þar mikið úr því að VG sé að stökkva frá borði. Þar gefur hann í skyn að jafnvel sé framundan meirihlutasamstarf milli Sjálfstæðisflokks og VG í vetur, fyrir kosningar. Allir sem heyrðu tal Bjarkar Vilhelmsdóttur í þessum fréttatíma sjá að það eru órar Össurar að halda að flokkarnir myndi meirihluta meðan Björk er borgarfulltrúi. En það merkilegasta við þvæluna í Björku og fordómana í garð rúmlega 40% borgarbúa sem kosið hafa D-listann er að hún staðfestir að R-listinn hefur alla tíð verið hræðslubandalag gegn Sjálfstæðisflokknum, og hefur haldið saman í gegnum allar þvælurnar á kjörtímabilinu, tengdar tveim borgarstjóraskiptum, vegna þess.
Eins og sást ennfremur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi átti Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, erfitt með að leyna ánægju sinni með skipbrot R-listans. Í viðtali við Þóru Arnórsdóttur sagði hann að endalok R-listans væru góður endir á vondu ferli. Eru það svo sannarlega orð að sönnu hjá Davíð sem var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, 1982-1991, borgarfulltrúi í tvo áratugi, 1974-1994, og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í ellefu ár, 1980-1991. En eftir stendur nú þegar farið er yfir stöðu mála að R-listinn heyrir sögunni til og flokkaframboð taka við í kosningunum að ári. Segja má að kosningabaráttan sé þegar hafin af krafti og fróðlegt hvernig hinum gatslitna meirihluta R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur gangi að vinna saman eftir þessi slit kosningabandalagsins og stjórna þessu stærsta sveitarfélagi landsins í gegnum harðskeytta kosningabaráttu næstu níu mánuðina.

Í dag verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál ákæruvaldsins á hendur lykileigendum og forystumönnum Baugs. Ákærur voru birtar í málinu hinn 1. júlí sl. og ákærur í málinu voru birtar á föstudag í breska blaðinu Guardian og á laugardag birti Fréttablaðið þær með útskýringum sakborninga og viðtali við tvo þeirra. Sex hafa verið ákærð í málinu: þau Jóhannes Jónsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir, Tryggvi Jónsson, Stefán Hilmar Hilmarsson og Anna Þórðardóttir. Dómari í málinu mun verða Pétur Guðgeirsson en tveir aðstoðardómarar verða honum til aðstoðar. Er um að ræða eitt viðamesta dómsmál sem fyrir réttinn hefur komið en málsskjöl munu vera um 20.000 blaðsíður og því yfir margt að fara. Sakborningum málsins, einkum Jóhannesi og Jóni Ásgeiri, er gefið að sök t.d. umboðssvik og fjárdráttur auk þess sem þeir eru taldir hafa gerst brotlegir við lög um bókhald, tolla, skatta og hlutafélög. Brot af slíku tagi geta varðað allt að sex ára langri fangelsisvist. Eins og fyrr segir fóru feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir yfir stöðu mála í viðtölum við Fréttablaðið, blað í þeirra eigu, á laugardaginn og réðust þar harkalega að Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, en hafa auðvitað engar sannanir fyrir tali sínu.
Í gærkvöldi tjáði Jón Ásgeir sig svo um þetta mál í ítarlegu viðtali við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Fór hann þar yfir það frá öllum hliðum og er lesendum vefsins bent á viðtalið til að heyra hans hlið á því, hafi þeir ekki séð það. Ekki hef ég í hyggju að tjá mig um hálfkveðnar vísur hans. Deilt hefur verið seinustu daga um birtingu Fréttablaðsins á ákærunum og sitt sýnist hverjum um það. Fór ég yfir skoðun mína á málinu og ýmsar hliðar þess í ítarlegum sunnudagspistli um helgina. Egill Helgason fjölmiðlamaður, tjáði sig um málið í pistli á vef sínum og var harðorður í garð starfsfélaga sinna innan 365, á blaðinu. Í gær tjáði Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, sig um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Í viðtalinu við Össur segir hann að Fréttablaðið hafi ekki staðist þá prófraun sem Baugsmálið hafi verið, þar sem það vék í því máli frá sínum eigin siðareglum. Sérstaklega hafi það verið skaðlegt fyrir blaðið í ljósi þess að eigendur blaðsins hafi átt í hlut. Þessi ummæli Össurar eru fróðleg, en skiljanleg í ljósi þess að hann er gamalreyndur fjölmiðlamaður og var ritstjóri þriggja blaða á nokkuð löngum ferli. Áður hefur Þorbjörn Broddason prófessor, sagt blaðið komið á hálan ís og vinnubrögð þess samrýmist ekki góðri blaðamennsku.
Eftir viðtalið við Jón Ásgeir, skrifar Össur um það svo á vef sínum: "Einu sinni í viðtalinu steytti á botni. Það var þegar Jón Ásgeir var að útskýra gleðisnekkjuna margfrægu. Mér var í fyrsta lagi ómögulegt að skilja afhverju Gaumur hefði átt að lána Sullenberger peninga til að kaupa sér snekkju - einsog var skýring Jóns Ásgeirs - og í öðru lagi átti Sigmar að reiða gaffalinn á loft þegar Jón Ásgeir sagðist allt eins hafa getað rúmað árlegar 7-8 milljóna greiðslur fyrir notkun snekkjunnar innan risnunnar sem hann hafði frá Baugi á þeim árum. En er það virkilega svo að endurskoðendur skrifi upp á slíka risnu án þess að blikna?" Síðar segir Össur: "Davíð hefur heldur betur látið þjóðina vita af stækri andúð sinni á Jóni Ásgeiri og Baugsveldinu - en það er af og frá að hann hafi verið opinberlega að terrorísera Hæstarétt að niðurstöðu einsog í ofangreindum málum. Hann gæti auðvitað trúað Jóni Steinari fyrir því yfir viskíglasi hvernig honum fyndist að Hæstiréttur ætti að dæma - en ef einhver maður á jarðríki mun ekki fá að koma nálægt þessu máli í Hæstarétti er það Jón Steinar. Og ég hef enga trú á að það hefði nokkur áhrif jafnvel þó Jón Steinar reyndi að koma sjónarmiðum þeirra vinanna að í samtölum við hina dómarana." Hvet alla til að lesa þennan pistil Össurar - mjög merkileg skrif.

Er ég kom heim eftir fund í gærkvöldi horfði ég á hina einstöku American Beauty. Þekur allan tilfinningaskalann og er í senn kómísk gamanmynd og tragísk ádeila sem lýsir hnignun hinnar týpísku amerísku vísitölufjölskyldu sem virðist á yfirborðinu fullkomið fyrirbæri en er undir niðri rotin í gegn. Eftir því sem áhorfandinn kemst nær kjarna Burnham-fjölskyldunnar kemur æ betur í ljós að líf þeirra er innantómt og ómögulegt og að hjónin (sem feta framabrautina í lífsgæðakapphlaupinu) þola ekki hvort annað. Fjölskyldan er full af hatri og fyrirlitningu fyrir hverju öðru. Dóttirin þolir ekki foreldrana og hjónin Lester og Carolyn Burnham lifa í gersamlega ástlausu hjónabandi og finna ekki til nokkurrar einustu gleði þegar þau umgangast hvort annað. Eiginmaðurinn fellur í framhaldi af því fyrir vinkonu dóttur sinnar (sannkölluðu lambakjöti) og eiginkonan finnur sér einnig viðhald. Lester reynir að endurheimta eitthvað af þeim töpuðu og mannlegu tilfinningum sem honum finnst lífið fela í sér. Það mun reynast fjölskyldunni örlagaríkt og gjörbreyta lífi þeirra. Kevin Spacey og Annette Bening fara á kostum í hlutverkum hjónanna. Spacey hlaut óskarinn fyrir stjörnuleik - hlaut myndin óskarinn sem besta myndin 1999, fyrir leikstjórn Sam Mendes, handrit Alan Ball og myndatöku Conrad L. Hall. Ógleymanleg svört kómedía. Hún er ein af þessum myndum sem verða táknmyndir síns tíma og að lokum ódauðlegir gullmolar.

Í gær kom bæjarstjórn saman til síns fyrsta fundar að loknu löngu sumarleyfi. Var síðast fundur í bæjarstjórn hinn 14. júní sl. Jafnframt er þetta fyrsti fundur í bæjarstjórnarsalnum í Ráðhúsinu að Geislagötu 9 eftir gagngerar endurbætur á salnum. Þar hefur nú verið skipt um húsgögn og parket komið á gólfið í stað teppis. Segja má að bæjarstjórnarsalurinn í Geislagötunni hafi verið nær algjörlega eins til fjölda ára og innréttingar þar með svipuðum hætti allt frá því að fundir hófust þar á fjórðu hæðinni, er Ráðhúsið var tekið í notkun á sjöunda áratugnum. Nú eru þar komin ný og glæsileg húsgögn og allt annar bragur á aðstöðunni að mínu mati. Er gleðiefni að sjá nýjar innréttingar í salnum og ferskari ásýnd hans. Horfði ég á fundinn venju samkvæmt á Aksjón í gærkvöldi. Eins og ávallt stjórnaði Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, fundinum af krafti. Voru fá mál á dagskrá fundarins. Helst var þar rætt um endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar. Kynnti Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, stefnuna í ítarlegu máli og fór yfir stöðu mála í framsögu sinni og ennfremur í svörum við spurningum og áliti annarra bæjarfulltrúa. Samþykkti menningarmálanefnd endurskoðaða stefnu á fundi sínum hinn 7. júlí og samþykkti bæjarstjórn hana eftir nokkrar umræður í gær.

Á fundi stjórnar Varðar, undir minni stjórn, í gærkvöldi var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt: "Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur að tryggja beri samkynhneigðum sama rétt til fjölskylduþátttöku og gagnkynhneigðum. Í því felst t.d. að breyta þarf lögum um staðfesta samvist þannig að samkynhneigðum pörum verði heimilað að frumættleiða börn og heimila þarf konum í staðfestri samvist að fara í tæknifrjóvgun. Fagnar stjórn félagsins því að ríkisstjórnin muni á haustþingi leggja fram frumvarp til að jafna rétt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra til fyrrnefndra atriða."
Saga dagsins
1933 Flugkappinn Charles Lindbergh kom til Reykjavíkur frá Grænlandi, ásamt konu sinni, Anne Morrow. Þau flugu norður og austur um land og fóru frá Eskifirði til Færeyja, 23. ágúst. Lindbergh flaug fyrstur manna án millilendingar yfir Atlantshafið í maí 1927. Lindbergh lést hinn 26. ágúst 1974.
1945 Indónesía hlýtur fullt sjálfstæði frá Hollandi, eftir að hafa barist fyrir sjálfstæðinu til fjölda ára.
1987 Rudolf Hess, er var einn nánasti samstarfsmaður Hitlers, sviptir sig lífi í Spandau fangelsinu.
1988 Mohammad Zia ul-Haq leiðtogi Pakistans, ferst í flugslysi - talið var að hann hafi verið myrtur.
1998 Bill Clinton forseti Bandaríkjanna, viðurkennir að hafa átt í kynferðislegu ástarsambandi við lærlinginn Monicu Lewinsky í sjónvarpsávarpi til bandarísku þjóðarinnar. Clinton hafði þangað til neitað sambandinu og fræg var ótvíræð yfirlýsing hans á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, hinn 26. janúar 1998. Í kjölfar yfirlýsingar forsetans var honum stefnt fyrir þinginu, öðrum forsetanum í sögu landsins, en var sýknaður. Clinton sat á forsetastóli samfellt í 8 ár og lét af embætti 20. janúar 2001.
Snjallyrðið
Á fenjamýrum gróa strá og stör,
sem stormar kaldir næða um og sveigja,
uns rosar haustsins rætur þeirra feyja,
og regnið lamar þrá og æskufjör.
En yngri gróður erfir sömu kjör,
og allir verða sama stríð að heyja,
því öllum var það áskapað að deyja,
svo allt er lífið sífelld jarðarför.
Við storminn mega stofnar háir glíma,
þó stráin falli. Allt hefur sinn tíma.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Lífsstríðið)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2005 | 07:03
Engin fyrirsögn

Samþykkt var á fjölmennum flokksfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík í gærkvöldi að flokkurinn myndi bjóða fram á eigin vegum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, þann 27. maí nk. Þessi ákvörðun markar söguleg þáttaskil, enda slítur flokkurinn með þessu samstarfi sínu við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn í kosningabandalagi R-listans. Með þessu blasir endanlega við að R-listinn heyri sögunni til. Eftir mörg högg í gegnum tíðina og margar veltur á langri leið blasa loks við endalok R-listans og um leið nýtt landslag í borgarmálunum í komandi kosningum. Það er nú ljóst að endalok þessa kosningabandalags andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum verður ekki umflúið. Deilt var harkalega á fundinum um þessi mál. Fyrir fundinum lágu bæði tillaga stjórnar flokksfélags VG í borginni um að slíta samstarfinu og bjóða fram á eigin vegum og eins önnur frá Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, um að halda áfram samstarfinu innan R-listans. Voru fluttar þar margar ræður og ef marka má fréttir varð að slíta umræðum á ellefta tímanum þegar að margir biðu enn eftir að fá að tala og var kurr í sumum vegna þess. Gengið var til atkvæða og fór svo að fyrrnefnda tillagan hlaut 68 atkvæði en sú síðarnefnda 28 atkvæði. Vilji fundarmanna var því mjög skýr og heldur VG nú á eigin vegum inn í kosningabaráttuna.
Mikil þáttaskil fylgja þessum endalokum R-listasamstarfsins. R-listinn bauð fram þrisvar sinnum: í kosningunum 1994, 1998 og 2002 og var í upphafi stofnað sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Við uppstokkun á vinstrivængnum komu Samfylking og VG inn auk Framsóknarflokks. Sýnt þótti seinustu daga hvert stefndi vegna R-listans. Slitnað hafði uppúr samningaviðræðum flokkanna á fimmtudagskvöldið og þótti ljóst að VG myndi á félagsfundinum stíga skrefið til fulls og gefa samstarfið upp á bátinn. Þetta hafði heyrst á tali vinstri grænna í borginni og ekki síður samstarfsmanna þeirra. Þrátt fyrir að tillagan um að binda enda á þátttöku VG í R-listanum væri samþykkt með afgerandi mun voru mikil átök á milli borgarfulltrúa flokksins um stöðu mála. Árni Þór Sigurðsson leiðtogi flokksins og fyrrum forseti borgarstjórnar, studdi með afgerandi hætti tillöguna um sérframboð flokksins en eins og fyrr segir lagði Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, fram tillögu um áframhaldandi samstarf og varð undir í kosningunni með nokkrum mun. Verður reyndar fróðlegt í kjölfar þessa að sjá hvað Björk muni gera, en hún hefur verið stóryrt seinustu daga vegna stöðu mála.
Það hafði blasað við nær allt kjörtímabilið að R-listinn ætti sér ekki lífsgrundvöll nema út kjörtímabilið. Í kjölfar ákvörðunar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að gefa kost á sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna í Reykjavík í desember 2002 nötraði R-listinn og þar fór allt í háaloft. Þá bjargaði Ingibjörg Sólrún listanum með því að segja af sér embætti. Ingibjörg hafði verið sameiginlegt leiðtogaefni allra flokkanna í kosningunum þrennum og hafði lofað fyrir kosningarnar 2002 að fara ekki í þingframboð árið 2003. Það loforð sveik hún sem leiddi til sífellt erfiðari vinnuanda innan R-listans. Í kjölfarið varð Þórólfur Árnason borgarstjóri, en VG var alla tíð á móti honum en samþykkti hann með semingi við afsögn Ingibjargar Sólrúnar til að halda völdum sínum og áhrifum. Flokkurinn notaði svo tækifærið til að losa sig við Þórólf í nóvember 2004 er umræðan um skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaganna kom fram, sem benti til þátttöku Þórólfs í því. Neyddist hann til að segja af sér vegna andstöðu VG. Leiddu þessi tvennu borgarstjóraskipti til erfiðleika innan R-listans en hann þraukaði í gegnum það og náði saman um að redda stöðunni fyrir horn. VG var þó orðið langþreytt á stöðunni innan R-listans og slítur samstarfinu nú með hvelli.
Nú þegar að endalok R-listans eru orðinn veruleiki vaknar óneitanlega sú spurning hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur. Enn eru níu mánuðir til kosninga. Það verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með því hvernig flokkunum þremur gengur að vinna saman sem ein heild eftir þessi sögulegu þáttaskil. Það er þó víst að kosningabaráttan í Reykjavík er hafin með þessari ákvörðun félagsfundar vinstri grænna. Framundan eru nú flokkaframboð flokkanna sem hafa myndað R-listann og má búast við átökum þeirra á milli, jafnt um atkvæðin og svo það hverjum það hafi verið að kenna að R-listinn, sem stjórnað hefur borginni í rúman áratug, leið undir lok þrátt fyrir að vera meirihlutaaflið í borgarmálunum. Það gæti orðið mjög hart í ári meðal rústanna innan R-listans ef fram heldur sem horfir. Þegar að harðvítug kosningabarátta er hafin meðal flokkanna þriggja og keppni um atkvæðin hefst getur allt gerst. Það má því alveg búast við lamaðri pólitískri forystu næstu mánuðina. Hún hefur reyndar ekki verið beysin seinustu mánuðina og árin, eða eftir öll borgarstjóraskiptin, en það stefnir skiljanlega í mun meiri átök. Framundan er allavega mjög öflug kosningabarátta í höfuðborginni.

Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, flutti hátíðarávarpið að þessu sinni á Hólahátíð sem haldin var að Hólum í Hjaltadal sl. sunnudag. Árlega er forystumanni á vettvangi þjóðmála boðið þangað til að ávarpa hátíðina og hefur ræðan oft verið áberandi í fjölmiðlum í kjölfarið. Í fyrra flutti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, góða ræðu þar sem bar heitið: "Hnigna tekr heims magn?" og ég birti sem gestapistil á vef mínum á sínum tíma. Í ræðu sinni að þessu sinni varð Vigdísi tíðrætt um málrækt. Sagði hún að aukinni fátækt í íslensku máli mætti einna helst líkja við landeyðingu og landrof. Kom fram það mat hennar að hún hefði ekki áhyggjur af tökuorðum í íslensku máli en hefði sífellt meiri áhyggjur af auknum áhrifum ensks máls í setningaskipan og notkun óþarfa aukasagna í töluðu máli. Er þetta þörf ábending hjá Vigdísi forseta. Það blasir við að staða mála er orðin nokkuð áhyggjuefni og umhugsunarvert hvert stefnir hvað varðar okkar fallega og einstaka tungumál. Áhrif utanaðkomandi þátta er farið að setja mark sitt æ meir á daglegt tal yngri kynslóða. Þessu taka allir eftir sem eiga einhver samskipti við ungt fólk. Það er mikilvægt að fólk sé virkt í að verja íslenskt mál - það er svo mikilvægt grunnstoðum tilveru okkar að íslenskt mál haldi velli.
Vigdís forseti hefur alla tíð verið öflugur baráttumaður fyrir málefnum sem hafa sameinað þjóðina. Hjartans mál Vigdísar á 16 ára forsetaferli hennar voru náttúruvernd og málvernd. Í þessu tvennu gátu allir landsmenn sameinast. Hún valdi sér baráttumál sem sameinuðu þjóðina. Barátta hennar fyrir verndun menningararfsins og íslenskrar tungu, sem er heilagast af öllu sem við eigum, hefur skipt sköpum. Man ég fyrst eftir Vigdísi er hún kom hingað til Akureyrar í opinbera heimsókn árið 1981. Hún vakti þá (sem ávallt síðar) í mínum huga mikla athygli fyrir það hversu alþýðleg og blátt áfram hún var í sínum verkum. Þá sem síðar á forsetaferlinum gróðursetti hún tré og minnti með því á það að hvert tré skiptir máli og að náttúran skiptir máli. Forysta hennar í þeim efnum hefur sérstaklega verið farsæl og einnig eitt jákvæðasta baráttumál hennar að hvert sem hún fór um landið gróðursetti hún alltaf tvö tré: eitt fyrir strákana og eitt fyrir stelpurnar eins og hún sagði jafnan: tvö tré fyrir framtíðina. Mikilvægasta barátta Vigdísar á opinberum vettvangi er þó forysta hennar í málefnum íslensks máls. Alla tíð hefur hún verið þar áberandi, alltaf virk í að tjá mikilvæga punkta til hins góða hvað varðar eflingu málsins.
Vigdís kunni á forsetaferli sínum þá list að skilja að forsetaembættið og dægurþras stjórnmálanna. Hún var yfir dægurþrasið hafin og náði að vera traustverðugur fulltrúi allra. Það er umfram allt lykillinn að því hversu farsæl forsetatíð hennar og verk almennt í þágu allra landsmanna eru, í huga allra landsmanna, bæði þegar litið er yfir forsetaferilinn og ekki síður þegar tjáð sig er um persónu hennar. Verk hennar og forysta í embættinu sameinuðu þjóðina að baki heilsteyptri konu. Er Vigdís varð 75 ára fyrr á þessu ári ritaði ég pistil um hana sem ég bendi á hérmeð fyrir lesendur vefsins.



Eins og kunnugt er mun Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og fyrsti varaforseti Alþingis, láta af þingmennsku þann 1. september nk. Sama dag tekur hann til starfa í utanríkisráðuneytinu við undirbúning þess að hann verður sendiherra í Svíþjóð frá og með 1. nóvember nk. Blasti því við að fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, Ásgeir Friðgeirsson ráðgjafi, tæki við þingmennsku, en Rannveig Guðmundsdóttir tekur að nýju við leiðtogahlutverkinu sem hún tapaði til Guðmundar Árna í prófkjöri árið 2002. Í gær tilkynnti svo Ásgeir að hann afþakkaði þingmennskuna og heldur í starf sitt sem almannatengslaráðgjafi Björgólfsfeðga og fleiri aðila. Óneitanlega vaknar spurning: er þarna kannski komið skýrt dæmi um að þingmennskan sé jafnvel ekki heillandi starf og annað virki meira heillandi? Það hlýtur að vera í huga Ásgeirs fyrst hann afþakkar þingsæti sem hann þó barðist fyrir í prófkjöri. Þetta vekur spurningar um hvort áhugi fólks á pólitískum störfum hafi minnkað. Að mínu mati er svo ekki, en það er vissulega mjög fróðlegt þegar fólk hafnar tryggu þingsæti og áhrifum sem því fylgir í pólitík. Í stað Ásgeirs, sem þarf að segja sig að fullu af listanum, tekur sæti á þingi Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri í Mosfellsbæ. Hann hefur áður tekið sæti á þingi, t.d. í veikindaforföllum Katrínar Júlíusdóttur.

Kom seint heim í gærkvöldi eftir nokkra fundi. Það var kærkomið að tylla sér í hægindastólinn góða og horfa á góða úrvalsmynd. Ákvað ég að horfa á meistaraverkið Taxi Driver - sem er ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt meistarans Martin Scorsese á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Hér segir frá leigubílstjóranum Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að bland geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy, en þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára gömlu vændiskonu, brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður fullsaddur á öllum ósómanum í borginni. Robert De Niro er hreinlega stórfenglegur í hlutverki Travis og vinnur þar stærsta og mikilvægasta leiksigur ferils síns. Senuþjófur myndarinnar er þó Jodie Foster sem fer þarna á kostum í sínu fyrsta alvöru kvikmyndahlutverki. Semsagt óviðjafnleg tímamótamynd sem er skemmtilega flókin á allan hátt. Rúsínan í pylsuendanum er svo tónlist meistara Bernard Herrmann. Sem ávallt fyrr er saxófónstefið fræga ómótstæðilegt. Það varð hans seinasta verk á löngum og glæsilegum ferli. Ógleymanlegt meistaraverk - sjáið það!

Á föstudaginn fékk ég veglega bókasendingu í póstinum - pantaði ég nokkrar bækur á Amazon, þeim frábæra vef. Var mjög ánægjulegt að fá pakkann. Um helgina leit ég á bækurnar og gaf mér góðan tíma í þær í rólegheitum. Fyrir nokkrum árum keypti ég ævisögu Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sem er í tveim bindum. Það er mögnuð lesning. Nú keypti ég mér bókina The Collected Speeches of Margaret Thatcher - mjög flott ræðusafn frú Thatcher. Það er mjög áhugavert að kynna sér góðar ræður hennar. Hún var einstakur stjórnmálamaður. Er maður kynnir sér feril hennar og verk á valdastóli, bæði sem forsætisráðherra í 11 ár og leiðtoga Íhaldsflokksins í 15 ár, sér maður öfluga konu á valdastóli sem markaði skref í söguna og tókst að breyta landslagi stjórnmálanna heima fyrir. Auðvitað breytti hún Íhaldsflokknum og grunni hans, en í raun ekki síður Verkamannaflokknum. Enda geta allir sem þekkja til breskra stjórnmála tekið undir það mat mitt að Verkamannaflokkurinn á níunda áratugnum og sá sem hefur stjórnað Bretlandi nú í tæpan áratug eiga nær ekkert sameiginlegt. Frú Thatcher breytti grunni stjórnmálanna - enda segja margir gárungar að Blair sé eins og pólitískur fóstursonur hennar.
Saga dagsins
1920 Sveinn Björnsson, 39 ára forstjóri Brunabótafélags Íslands, skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Sveinn varð fyrsti og eini ríkisstjóri Íslands árið 1941 og var svo kjörinn fyrsti forseti Íslands af Alþingi á lýðveldishátiðinni á Þingvöllum, hinn 17. júní 1944. Hann sat á forsetastóli allt til dauðadags, 25. janúar 1952. Sveinn mótaði því skiljanlega öðrum fremur hið íslenska forsetaembætti.
1941 Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, kom til Reykjavíkur í eins dags heimsókn. Hann var þá að koma af fundi með Franklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, á herskipi undan ströndum Nýfundnalands. Heimsókn Churchill vakti mikla athygli. Þetta var eina skiptið sem hann kom hingað.
1963 Guðrún Bjarnadóttir, tvítug stelpa úr Njarðvík, kjörin ungfrú alheimur á Long Beach í Flórída.
1977 Bandaríski rokksöngvarinn Elvis Presley bráðkvaddur á heimili sínu í Memphis í Tennessee, 42 ára að aldri. Presley varð einn vinsælasti söngvarinn á 20. öld og markaði þáttaskil með einstökum söngtakti sínum. Áhrifamikil rokktónlist Presley hafði allmikil áhrif á tónlistarstefnu fjölda kynslóða.
1994 GSM-farsímakerfi Landssímans formlega tekið í notkun - í upphafi var símakerfið gert fyrir 4000 notendur en í árslok 2004 eru þeir orðnir 220.000. Nú eiga rúmlega 3/4 hlutar landsmanna farsíma.
Snjallyrðið
Þó flogin sé hún framhjá óskastundin,
og frelsið væri æðsta krafa mín,
er ennþá gott að gista helgilundinn,
og ganga þar í sporin þín.
Þá finn ég aftur fegurð þeirra daga,
sem fyrr en varði urðu stjörnukvöld,
og gagnstætt öllum greinum dóms og laga
slá gleymsku yfir hálfa öld.
Þá veröld ég í vitund minni geymi,
sem var mér kærust, bæði fyrr og nú,
og í þeim mikla, undraverða heimi
er engin kona - nema þú.
Svo máttug var hún, eina óskastundin,
að ennþá birtist draumaveröld mín,
er maður gistir helgilundinn
og gengur einn í sporin þín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Eftirmæli)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2005 | 20:36
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um væntanleg endalok R-listans, sem nú riðar til falls sem framboðsafl þriggja flokka í Reykjavík. Spái ég í þá stöðu sem uppi er innan rústanna í R-listanum er við blasir að þrenn flokkaframboð leysi þetta eina félagshyggjuframboð af hólmi, sem boðið hefur fram í þrennum kosningum frá árinu 1994. Beini ég sjónum mínum að því hvað taki við og hvað sé þess valdandi að R-listinn virðist vera að líða undir lok. Ræður þar að mestu persónurígur og innri valdaátök. Enginn er jú málefnaágreiningurinn. R-listinn er fyrir löngu orðinn þurrausinn. Hugmyndafræðilega snýst hann bara um völd og það hvernig skipta eigi þeim. Málefnin eru algjörlega komin í skottið – algjörlega gleymd nema þegar á að heilla kjósendur kortéri fyrir kjördag með gömlum endurvinnanlegum loforðum í takt við eitthvað nýtt. Það hefur þetta fólk getað gert seinustu tvö skiptin og sett svo óvinsælu frambjóðendurna í geymsluna fram að kjördag. En nú virðist R-listinn vera að geispa golunni.
- í öðru lagi fjalla ég um spunamennsku Baugs sem kynnti ákæruatriðin gegn sér í Fréttablaðinu með sérstökum hætti. Eins og allir vita sem lesa Fréttablaðið og þekkja umræður um fjölmiðla á Íslandi eru feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir ekki ókunnir blaðinu og rekstri þess. Þeir eiga jú allstóran hluta í blaðinu og meiru til á fjölmiðlamarkaði. Egill Helgason skrifaði í gær mjög athyglisverðan en stuttan pistil um þetta mál á vef sinn. Hann fer hörðum orðum um Fréttablaðið og vinnubrögðin þar. Engin furða í því. Tek ég undir með honum er hann kallar þetta versta dómgreindarbrest sem sést hafi í íslenskum fjölmiðli. Það sést sífellt betur og betur hversu gríðarleg mistök það voru að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem deilt var gríðarlega um á síðasta ári, varð ekki að lögum.
- í þriðja lagi fjalla ég svo um umhverfisverndarterroristana sem verið hafa í fréttum og sumir kalla mótmælendur. Á föstudag gerði einn viðkomandi sér lítið fyrir og spreyjaði ókvæðisorð á þinghúsið og stöpulinn að styttu Jóns Sigurðssonar forseta, og reyndar fleiri mannvirki í miðbænum. Þetta er dæmi um vinnubrögð þessa fólks sem því miður virðist búin með öll málefnaleg rök í baráttu sinni og beitir afli með ótrúlegum hætti. Lögreglan á hrós skilið fyrir sín vinnubrögð og hvernig hún hefur komið fram í málinu, að mínu mati.

Í kvikmyndinni Primary Colors er sögð saga bandaríska forsetaframbjóðandans Jack Stanton, sem er ríkisstjóri í suðurríkjafylki í Bandaríkjunum, og hinnar framagjörnu eiginkonu hans, Susan. Er áhorfandinn kemur inn í söguna blasir við að Stanton háir erfiða kosningabaráttu þar sem margt er honum þungt í skauti. Hann er fjarri því sá sem leiðir baráttuna og þarf nauðsynlega á meiri afli að halda til að eflast á lokasprettinum til að tryggja sér útnefningu flokks síns. Hann ákveður að breyta taktík baráttunnar og fær til liðs við sig litríkan hóp sérfræðinga á sviði pólitíkur og almannatengsla. Þar fara fremst í flokki Richard Jemmons og Libby Holden, sem eru öll vön í alvöru kosningabaráttu og þekkja frambjóðandann frá fornu fari. Ennfremur er blökkumaðurinn Henry Burton ráðinn til starfa. Fljótlega eftir komu þeirra inn í baráttuna eflist Stanton og sigurmöguleikar hans vaxa dag frá degi í kosningabaráttu sem virðist í raun vera keppni um það að geta atað andstæðinginn meiri auri. Við sjáum Stanton og einkalíf hans með augum Burton sem er sögumaður myndarinnar - maður sem trúir á hið góða og er talsmaður réttlætis gegn ranglæti. Hann sér fljótt að Stanton er gæddur mjög miklum persónutöfrum og er annt um alþýðu fólks, kjósendurna, og telur að hann sé sá eini rétti í kosningaslagnum.
En það er flagð undir fögru skinni - Burton kemst að því áður en langt er liðið á baráttuna að oft geta persónuleikabrestir leynst innan um kosti tilverunnar - mannlegu yfirburðina í fari mannsins. Hann sér að Stanton er ekki allur þar sem hann er séður er óþægileg hneykslismál fara að skjóta upp kollinum, einkum um prívatlíf hans. Að því kemur að Burton fer stórlega að efast um tilveru frambjóðandans og persónuna og veltir því fyrir sér hvort hann eigi að vinna fyrir siðferðislega glataðan mann sem þó virðist hafa stefnumál á hreinu og mannlega ásýnd í gegnum kosningamál sín. Þetta er stórfengleg kvikmynd, sem sló algjörlega í gegn er hún var frumsýnd árið 1998. Áhorfandinn þarf reyndar ekki að horfa lengi á myndina þegar að hann áttar sig á því hvaða kosningabaráttu er lýst í myndinni og hver forsetaframbjóðandinn er. Allir sjá að hér er lýst forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1992 og forsetaframbjóðandinn er að sjálfsögðu enginn annar en Bill Clinton þáv. ríkisstjóri í Arkansas, sem var kjörinn forseti Bandaríkjanna í þeim kosningum, þvert á margar spár í upphafi. Sagan er í smáatriðum nær algjörlega eins og hjá Clinton og atburðir baráttunnar 1992 koma hér ljóslifandi fram að miklum hluta.

Handrit myndarinnar er í einu orði sagt perla. Elaine May samdi handritið og byggði það á bókinni Primary Colors sem kom út fyrir forsetakosningarnar 1996. Höfundurinn var í upphafi nafnlaus og var lengi um það deilt hver hann væri. Eftir að höfundurinn gerði þau afdrifaríku mistök að skilja eftir skrifaðar athugasemdir við kvikmyndahandrit myndarinnar sem komst í hendur utanaðkomandi aðila varð ljóst að blaðamaðurinn Joe Klein var höfundurinn. Þekktist rithönd hans og það varð almannarómur að Klein, sem starfað hafði sem kosningaráðgjafi Clintons árið 1992 væri höfundurinn. Hann er blaðamaður á The New York Times. Skrifaði hann bókina sem lýsingu á því sem hann kynntist í fari Clintons forseta og eru lýsingar allnákvæmar sem koma fram í bókinni af því sem hann komst að í starfi sínu. Burton er því skrifaður eftir honum, enda sögumaður þess sem gerist. Um leið og bókin kom út vissu menn hver frambjóðandinn væri og er myndin var frumsýnd varð öllum ljóst hverjir væru persónurnar og hvaða pólitísku átökum væri lýst. Sjá áhorfendur Clinton-hjónin ljóslifandi komin í Stanton-hjónunum, hann sem kvennabósa með gríðarlega útgeislun og hana sem framagjarnan stjórnmálaplottara. Bæði eru þau tilbúin til að gera allt til að ná á leiðarendann.
Myndin er í einu orði sagt stórfengleg. Mike Nichols leikstýrir myndinni af miklu öryggi og nær að yfirfæra glæsilega og táknræna bók með vott af úrvalsgríni og pólitískri plotttilveru stjórnmálaheimsins, með stórfenglegum hætti. Ennfremur gerir Nichols stólpagrín að Clinton og leikur sér með hann fram og til baka sem persónu í myndinni eftir bókinni - segja má að hann geri hann bæði að skúrki sem hefur ekki stjórn á kynlífshegðunum sínum og snillingi í mannlegum samskiptum sem nær að heilla kjósendur með framkomu sinni, þrátt fyrir alla gallana. Bæði er nauðsynlegt til að myndin heppnist og það gerir hún og vel það. Útkoman er ein besta og áhugaverðasta pólitíska kvikmynd seinni ára. Leikurinn er einnig mikið rós í hnappagat myndarinnar. John Travolta fer algjörlega á kostum í hlutverki ríkisstjórans og verður bara Clinton - flóknara verður það ekki. Snilldarleikur, með betri leikframmistöðum hans. Emma Thompson er frábær sem pólitíski framaplottarinn Susan og Billy Bob Thornton er stórfenglegur sem pólitíski klækjameistarinn Richard Jemmons, sem kann öll brögðin í bókinni og gott betur.
Senuþjófur myndarinnar er þó að sjálfsögðu Kathy Bates sem á snilldartakta í hlutverki áróðursmeistarans Libby Holden - sem hefur bæði munninn fyrir neðan nefið og er ófeimin við að beita öllum mögulegum og ómögulegum brögðum til að hlutirnir gangi upp fyrir Stanton. Er þetta hiklaust með betri leikframmistöðum þessarar stórkostlegu leikkonu, og hlaut hún tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir stórleik sinn. En þetta er óviðjafnanleg kvikmynd fyrir alla þá sem unna stjórnmálum og þekkja til andrúmsloftsins í bandarískum stjórnmálum, þar sem öllum brögðum er jafnan beitt, hversu slæm svo sem þau kunna að verða fyrir andstæðinginn. Hvet alla stjórnmálaáhugamann að sjá þessa hafi þeir ekki séð hana - þeir sem hafa séð hana hafa gott af því að horfa á hana reglulega. Þetta er og hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þessi mynd er alveg paradís fyrir stjórnmálaáhugamenn og þá sem unna bandarískum stjórnmálum. Sannkölluð eðalmynd.
Saga dagsins
1784 Suðurlandsskjálftar - miklir landsskjálftar urðu á þessum degi og einnig tveimur dögum síðar í Rangárvallasýslu og í Árnessýslu. Rúmlega hundrað bæir hrundu til grunna, fjöldi fólks var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi. Þetta eru taldir mestu jarðskjálftar sem orðið hafa hér á Íslandi. Talið er að sá stærsti hafi verið 7,5 stig á Richtersskala. Flest húsanna í Skálholti skemmdust þá mjög illa.
1951 Bandaríski fjölmiðlakóngurinn William Randolph Hearst lést, 88 ára að aldri - Hearst var einn umfangsmesti blaðaútgefandi í Bandaríkjunum á 20. öld. Hearst var fyrirmyndin að blaðakónginum Charles Foster Kane í Citizen Kane, ógleymanlegri stórmynd Orson Welles, sem lék ennfremur Kane.
1982 Akureyrardeild Ríkisútvarpsins, RÚVAK, tók formlega til starfa - þetta var fyrsta svæðisútvarpið.
1982 Furstahjónin af Mónakó, Grace Kelly og Rainier III, komu í opinbera heimsókn til Íslands. Með þeim í för voru börn þeirra, Karólína og Albert. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo, mánuði síðar, 14. september 1982, 52 ára gömul. Rainier ríkti í Mónakó til æviloka, í apríl 2005.
2000 Rafmagnslaust var í Útvarphúsinu við Efstaleiti í rúma hálfa klukkustund vegna skemmdarverks á rafmagnstöflu. Útsendingar Útvarps og Sjónvarps féllu niður á meðan, enda virkaði vararafstöð ekki.
Snjallyrðið
Ég bið um þá líkn í stutta stund,
sem ljóðinu flugið veitir,
bræðir klakann úr kaldri lund
og kvölum í söngva breytir.
Týnd er sú veröld, sem var mér kær,
og vorlaufið græna bliknað.
En mörg hefur stjarna mild og skær
í móðunni bláu kviknað.
Varla hræðist sá veðraský,
sem vorið í fjarska eygir.
Stráin hrökkva í stormagný,
sem stórviðinn aðeins sveigir.
Þó veturinn herði vilja sinn
og vofur um hjarnið sveimi,
þá glæðir það innsta muna minn,
sem mest er í þessum heimi.
Þeir kunna að finna karlmannslund
í kveðjusöngvunum mínum,
sem aldrei dreymir um óskastund
í ormagarðinum sínum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Óskastundin)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2005 | 06:16
Engin fyrirsögn

Flest bendir nú til þess að R-listi félagshyggjumanna, sem boðið hefur fram í þrennum borgarstjórnarkosningum í Reykjavík (árin 1994, 1998 og 2002), bjóði ekki fram í fjórða skiptið, í byggðakosningunum í maímánuði á næsta ári. Í gærkvöldi slitnaði upp úr samningaviðræðum um áframhaldandi samstarf Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokksins, undir merkjum R-listans og hefur nefndin skilað af sér umboði sínu til flokksstofnanna í borginni. Málið er því á byrjunarreit og fært í hendur flokksmanna innan félaganna. Flest bendir því til þess á þessari stundu að R-listinn heyri sögunni til að loknu þessu kjörtímabili og í stað þess muni flokkarnir þrír bjóða fram undir eigin merkjum. Þessi niðurstaða markar viss þáttaskil, enda hefur samstarf flokkanna aldrei áður staðið jafntæpt í undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar frá árinu 1994. Þá var R-listinn stofnaður sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Þá náði R-listinn, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur alþingismanns Kvennalista, táknrænum sigri og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokksins sem setið hafði í tólf ár samfellt, undir forystu Davíðs Oddssonar, Markúsar Arnar Antonssonar og Árna Sigfússonar (sem hafði tekið við borgarstjórahlutverkinu 75 dögum fyrir kosningar 1994).
Fyrir síðustu kosningar var flokkalitrófið allt breytt frá R-listanum gamalgróna árið 1994 og umrót hafði orðið á vinstrivængnum og sameinuðust flokkarnir þrír sem eftir stóðu um að halda samstarfinu áfram sem kosningabandalagi. Samið var fyrir allar þrjár kosningarnar um skiptingu allra embætta og nefndaformennsku, ef kosningabandalagið myndi sigra kosningarnar. Í öll þrjú skiptin var Ingibjörg Sólrún í áttunda sæti listans, baráttusætinu, og var því sett á mörkin, sem þýddi það auðvitað að ef ekki yrði meirihluti stæði Ingibjörg Sólrún utangarðs og þyrfti ekki að starfa þar í minnihluta nema að takmörkuðu leyti. Aldrei þurfti Ingibjörg Sólrún að fara í prófkjör til að verja stöðu sína eða keppa við aðra um áttunda sætið. Hún fékk það sérpantað og var í öll þrjú skiptin sameiningartákn allra flokkanna og utan kvóta þeirra. Síðast var hún stimpluð sem fulltrúi óháðra ásamt Degi B. Eggertssyni lækni. Því urðu mikil læti þegar að Ingibjörg Sólrún tilkynnti um þingframboð sitt fyrir Samfylkinguna í desember 2002 (hálfu ári eftir kosningar). Samstaðan um hana sem leiðtoga var brostin og var henni steypt af stóli innan listans og sagði af sér embætti borgarstjóra. Flestir þekkja söguna sem síðan hefur staðið, en á þrem árum hafa setið þrír borgarstjórar í nafni R-listans. Átökin hafa verið sífellt meiri bakvið tjöldin.
Merkilegt var allan tímann að fylgjast með þessum viðræðum innan samninganefndar flokkanna um áframhaldandi samstarf. Allan tímann snerust viðræðurnar um völd og áhrif - því að skipta niður mögulegum áhrifum og völdum eftir kosningar - deila niður borgarfulltrúasætunum átta, ef meirihluti myndi vinnast í nafni framboðsins. Málefnin voru algjörlega utangarðs og gleymd öllum. Viðræðurnar voru valdaplott par excellance - einfalt mál. Nú stefnir allt í það að R-listinn (þetta fræga hræðslubandalag vinstrimanna í borginni) heyri sögunni til er þessu kjörtímabili lýkur. Með því verða að sjálfsögðu mikil þáttaskil í stjórnmálunum í borginni. Svo var reyndar að skilja á Degi B. Eggertssyni, óháða borgarfulltrúanum (þeim eina sem eftir er eftir að hinn óháði fulltrúinn varð formaður Samfylkingarinnar) í gærkvöldi að hann hefði ekki hug á framboði nema að R-listinn héldi áfram samstarfi sínu. Greinilegt er að Dagur er að reyna að þrýsta saman flokkunum þrem og beita áhrifum sínum fyrir áframhaldandi samstarfi. En þó Dagur sé læknir er erfitt fyrir hann að blása lífi í lík. R-listinn hefur verið lík að því er segja má allt frá því að Ingibjörgu Sólrúnu var hent fyrir borð sem leiðtoga samstarfsins. Síðan hefur allt þarna innanborðs verið gert með hverri reddingunni á reddingu ofan. Nú virðast menn vera hættir að tjasla í sprungurnar og hver er orðinn sjálfum sér næstur.
Þáttaskil eru að verða í sveitarstjórnarpólitíkinni í höfuðborginni okkar. R-listinn heyrir brátt sögunni til (reyndar verður fróðlegt hvernig þetta hræðslubandalag uppsöfnunar skulda og svikinna loforða verði dæmt í sögubókum framtíðarinnar) og við taka flokkaframboð í borginni á víðum kalíber í fyrsta skipti í 16 ár. Það verður fróðleg kosningabarátta sem verður háð þá. Reyndar má sjá forsmekk þess hvernig Samfylkingin mun hamast þar á VG. Þeir verða sakaðir um að hafa drepið líkið, alltsvo R-listann. Segja má að Mörður Árna hafi slegið tóninn í spunahjali Samfylkingarmanna í Íslandi í bítið í gærmorgun. Á meðan R-listinn gufar endanlega upp og hverfur út í myrkrið horfir Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík á eymd og volæði innan R-listaflokkanna, þar sem klaufalegustu samningaviðræður seinni tíma áttu sér stað, dæmdar til að mistakast. Eins og sést hefur á nýlegum skoðanakönnunum á Sjálfstæðisflokkurinn góða möguleika á því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn og velta vinstriflokkunum úr sessi (veita þeim langþráð frí eftir kjötkatlasuðuna í Orkuveitunni og fleiri stöðum). Spennandi tímar eru framundan í borgarmálunum - það er algjörlega á hreinu!

Eins og flestir vita hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir alþingismaður, verið merkilega lítið áberandi í stjórnmálaumræðunni í sumar. Áttu margir von á henni mjög sterkri í þjóðmálaumræðuna eftir afgerandi sigur hennar í formannskjörinu í Samfylkingunni í maímánuði. Hún tók svo sæti á þingi um síðustu mánaðarmót er Bryndís Hlöðversdóttir sagði af sér þingmennsku og hélt til starfa að Bifröst. Kom hún reyndar öflug til leiks er hún lýsti yfir formannsframboði sínu í Samfylkingunni í febrúar og opnaði þá heimasíðu á netinu. Var vefurinn að mestu þekktur fyrir háfleygar stuðningsyfirlýsingar borgarstarfsmanna í lykilstöðum og margra stuðningsmanna hennar vítt um landið. Jafnframt notaði Ingibjörg Sólrún vefinn í kosningabaráttu sinni til að ná til flokksmanna og skrifaði stöku sinnum pistla þar inn til lesenda, eins og margir stjórnmálamenn hafa ákveðið að gera, til að ná til kjósenda sinna. Eftir landsfund Samfylkingarinnar birtist ein grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu þar sem hún þakkaði stuðninginn í formannskjörinu. Það var í lok maímánuðar. Síðast þegar ég sá vefinn í sínu gamla formi hinn 19. júlí var sama grein ennþá efst - eftir tvo mánuði. Þá hafði ekkert nýtt efni birst og ekki hafði formaðurinn notað vefinn áfram sem samskiptaleið við flokksmenn sína.
Um síðustu helgi vildi svo til að ég ætlaði að líta á vefinn, en komst að því að hann er ekki lengur til. Er slóðin ingibjorgsolrunis er slegin inn er manni vísað yfir á vef Samfylkingarinnar. Með öðrum orðum - hinn frægi tæknivæddi vefur Ingibjargar Sólrúnar er horfinn af sjónarsviðinu eftir að hafa verið til staðar í innan við hálft ár. Þetta er merkilegt í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er skráð fyrir léni sem gildir til 17. febrúar 2006. Það er mjög merkilegt að hún noti það ekki. Það er greinilegt að ISG hefur bailað á þessu með sama hætti og þegar að hún skráði lénið isg.is fyrir þingkosningarnar 2003, sem varð aldrei meira en kynningarmynd þar sem sagt væri að ISG ætlaði að opna vef. Er lénið varð ársgamalt lokaði það - enda rann það bara út: engin endurnýjun eða neitt. Það er spurning hvort ingibjorgsolrun.is bíði sömu örlög. Fyrir okkur sem notum netið til að tala til fólks er merkilegt að sjá flokksleiðtoga sem á lén og hefur verið með prívatvefsetur gefast upp í miðri ánni og noti ekki þá tækni sem hún hóf sjálf að nota. Vefur þarf að vera ferskur eigi hann að vera góður. Án þess að uppfæra reglulega verður vefurinn eins og uppþornuð á. Kannski er það vandamálið hjá ISG? Tímaskortur við að rita og tala til fólks á léni sem viðkomandi þingmaður á. Spyr sá sem ekki veit.

Þórarinn B. Jónsson stjórnarformaður Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, tók í gær fyrstu skóflustunguna að fyrsta snjóframleiðslukerfi hérlendis, hér í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Þetta markar ánægjuleg skref í málefnum skíðasvæðisins uppfrá. Nú verður hægt að hefjast handa við að leggja veitukerfi uppeftir sem mun verða alls um 2.600 metrar að lengd. Í gegnum veitukerfið er áætlað að hægt verði að dæla rúmlega 80 sekúndulítrum af vatni. Mun það koma úr mikilli tjörn sem grafin verður nokkru sunnan við skíðasvæðið. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka fyrir vetrarvertíðina í fjallinu og er þá ekkert að vanbúnaði að hefja fulla snjóframleiðslu. Eins og fram hefur komið þarf snjórinn að vera í það minnsta tveggja til þriggja stiga kaldur en eftir því sem meiri kuldi er því meira verður hægt að framleiða af snjó. Þetta er gleðilegt skref eins og fyrr segir, enda hefur verið erfitt að halda uppi eðlilegu starfi upp í fjalli hin seinustu ár vegna snjóleysis, sem hefur skaðað mjög undirstöður vetraríþróttamiðstöðvarinnar okkar. En nú ætti sá vandi að vera að mestu leyti úr sögunni - stefnt er svo að því að skíðasvæðið opni í byrjun desembermánaðar.

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina To Catch a Thief, verk meistara Sir Alfred Hitchcock. Jafnan er spennan í hámarki og hárfínn húmor fylgir með sem aukahlutur í myndum Hitchcocks. Að þessu sinni er það hið gagnstæða - spennumyndin er með áberandi gamansömu ívafi. Fjallar myndin um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja, John Robie, sem er saklaus til að finna hinn seka en flestir telja hann hinn seka. Góð ráð eru því dýr fyrir hann. Í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Grace Kelly og fara þau á kostum í hlutverkum Robie og Frances Stevens, sem flækist í atburðarásina sem dóttir einnar af þeim konum sem lendir í klóm ræningjans. Grace, sem að mínu mati er fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances. Hún var aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það. Leikstjórinn var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún hætti leik og giftist Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Kaldhæðnislegt var að slysið átti sér stað á sömu slóðum og hið hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í myndinni. Myndin stendur alltaf fyrir sínu, sannkallað augnakonfekt og ávallt gleðigjafi.

Í síðustu viku hóf Sjónvarpið endursýningar á vönduðum heimildarþætti Helga H. Jónssonar fréttamanns, sem fjallar um hernám Íslands í seinni heimsstyrjöldinni árið 1940 og stríðsárin almennt. Á þessu ári eru einmitt 65 ár liðin frá því að breski herinn gekk á land hér á Íslandi. Þessir góðu þættir Helga voru fyrst sýndir árið 1990, í tilefni hálfrar aldar afmælis hernámsins. Þeir innihalda fjölda viðtala við stjórnmálamenn, breska hermenn sem dvöldu á Íslandi og Íslendinga sem upplifðu þessa tíma um miðja 20. öldina. Þessir þættir varpa ljósi á íslenskt þjóðfélag við upphaf og á árum síðari heimsstyrjaldar og er stórmerkileg heimild um merkilegan þátt í sögu síðustu aldar. Á ég þessa þætti á spólu en hef samt sem áður gaman af að horfa á þá nú einn af öðrum á þriðjudagskvöldum. Hvet ég alla lesendur til þess að horfa á þessa frábæru þætti - þetta er vönduð og vel gerð sagnfræðiúttekt á stríðsárunum hér á Íslandi.
Saga dagsins
1755 Jarðbor var notaður í fyrsta skipti hér á Íslandi, við Laugarnes í Reykjavík. Þeir Eggert Ólafsson
og Bjarni Pálsson stóðu að baki þessum jarðborunum og voru þeir með þessu að rannsaka jarðhita.
1918 Fyrsta hjóladráttarvélin kom til landsins - hún kom með Gullfossi og var vélin Avery gerðar.
1957 Fyrstu stöðumælarnir í Reykjavík, á annað hundrað, teknir í notkun - gjaldið: 1 króna á 15 mín.
1975 Þrír Vestmannaeyingar klifu Þumal, 120 metra háan tind - hann hafði áður verið talinn ókleifur.
1982 Bandaríski leikarinn Henry Fonda lést, 77 ára að aldri. Skömmu fyrir andlát sitt, í mars 1982, hafði Fonda hlotið óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Norman Thayer í myndinni On Golden Pond. Það var síðasta kvikmyndahlutverk Fonda á löngum og glæsilegum leikferli og varð hans eini óskar.
Snjallyrðið
Hví sölna rósir sumargrænna engja?
Hví sogast brimið upp að hverju nausti?
Til sólar beinist söngur vorra strengja,
er syrtir nótt og líða fer að hausti.
Við erum stödd á stormsins vegamótum.
Hann storkar jörð og skýjabólstra hleður.
En eldar brenna undir hjartarótum
og einhvern tíma lægir þessi veður.
Að kvöldi dags er kveikt á öllum stjörnum,
og kyrrðin er þeim mild, sem vin sinn tregar,
og stundum er skýla jöklar jarðarbörnum,
og jafnvel nóttin lýsir þeim til vegar.
Í klakabrynju getur nóttin munað,
að minnstu fræin urðu vaxinn gróður,
og sálir dreymt um nýjan ástarunað,
um ungan fugl og laufgað skógarrjóður.
Er fagurhvelið birtist innri augum,
er eins og ljósið tengi gamla vini.
Svö drögum andann, djúpt og hjartað laugum
í döggvum himins, söng og stjörnuskini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Að haustnóttum)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2005 | 06:12
Engin fyrirsögn

Þó svo að enn séu rúm þrjú ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Næstu forsetakosningar verða reyndar sögulegar, enda er ljóst að þær verða hinar fyrstu frá 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George W. Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri. Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð. Nægir þar að nefna George Pataki ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist, John McCain og Elizabeth Dole. Margir fleiri eru nefndir.
Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Hún hefur um nokkurn tíma haft áhuga á embættinu. Aðeins eru fjögur og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Hún hefur síðan markað sér sinn eigin stjórnmálaferil. Hún var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Hillary er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún sá að forsetaframboð á árinu 2004 hefði skaðað sig, enda lofaði hún New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár.

En nú líður að lokum kjörtímabilsins og Hillary er viss vandi á höndum. Henni langar í forsetaembættið og hefur áhuga á því að komast á spjöld sögunnar sem fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna - á því leikur enginn vafi. En farartálmi er á leið hennar, þó að allar skoðanakannanir sýni að hún myndi nú vinna útnefningu flokksins í næstu kosningum með nokkuð auðveldum hætti. Hún þarf nefnilega að hljóta endurkjör í öldungadeildarþingkosningunum í New York í nóvember á næsta ári til að eiga raunhæfan séns á að starta alvöru forsetaframboði. Tap í New York myndi gera út af við ambisjónir hennar um Hvíta húsið. Um þessar mundir eru Clinton-hjónin í sumarleyfi einhversstaðar í Evrópu - öldungadeildin er í mánaðarlöngu sumarfríi sínu, venju samkvæmt. Það er alveg ljóst að þau hjón ræða fátt meira en þingframboðið á næsta ári. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum þótt hún hlyti endurkjör. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir Bush í hinum æsispennandi forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða ekki bógar í það.
Í aðdraganda öldungadeildarþingkosninganna í New York hefur Hillary ekkert viljað tala um hvort hún sækist eftir kjöri til sex ára í borginni. Loforðið sem hún gaf borgarbúum er hún sóttist fyrst eftir þingsætinu nær ekki til næsta kjörtímabils. Hún talar með óljósari hættu um næsta tímabil sitt. Nýlega gaf Jeanine Pirro, klár og flott kona - lögfræðingur í New York, kost á sér sem þingkandidat repúblikana. Hún sló í gegn er hún kom með það slagorð að Hillary ætlaði að nota kjósendur í borginni sem stökkpall á æðri svið og ætlaði ekki að þjóna þeim út tímabilið. Henni tókst að fá athygli á kommentið - svo var Jay Leno, grallarinn sá, flottur þegar hann sagði með bros á vör að Hillary væri eins og allir aðkomumenn í New York að reyna að komast þaðan burt. Skiljanlegt er að Hillary vilji engu lofa nú - sé litið á skoðanakannanir sem gefa til kynna að útnefningin sé nærri pöntuð fyrir hana. Það vita enda allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur flokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í fyrra, þar sem Kerry var útnefndur í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Það er enginn vafi að rauði dregillinn verður til taks fyrir Hillary á næsta flokksþingi haldi hún þingsætinu. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.

Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, verður jarðsunginn á morgun í Edinborg, borginni sem hann unni svo mjög - hinni einu sönnu höfuðborg Skotlands, en Cook var Skoti fram í fingurgóma. Hann varð bráðkvaddur í hálöndum Skotlands á fjallgöngu á laugardag. Þótti það af mörgum vera merkileg staðreynd að hann skyldi kveðja þar, í miðpunkti náttúrufegurðar Skotlands. Hefur nú komið í ljós að hann lést af hjartasjúkdómi, en um tíma var jafnvel talið að hann hefði látist af fallinu í hlíðum fjallsins við áfallið. Sl. laugardag skrifaði ég um Cook og fór yfir feril hans og ævi. Mörgum fannst það merkilegt hef ég heyrt, vitandi af því að við vorum ósammála um margt í pólitíkinni og í vissum lykilmálum undanfarin ár. Þó að ég hafi oft verið ósammála Cook í stjórnmálum dáðist ég í senn bæði af karakternum og ræðusnilld hans. Hún var vissulega rómuð, enginn vafi leikur á því að Cook var einn mesti ræðusnillingur sinnar kynslóðar í breskum stjórnmálum. Mun Gordon Brown fjármálaráðherra, flytja ræðu við útför Cook. Þykir það merkilegt í ljósi deilna þeirra á árum áður, en báðir eru þeir Skotar og þekktir fyrir meting sinn á bakvið tjöldin en þeir unnu þó til fjölda ára saman í pólitík. Höfðu þeir tekið upp nánara samstarf í seinni tíð.
Athygli hefur svo vakið að Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur ákveðið að vera ekki viðstaddur jarðarför Cook á morgun. Fór hann í sumarfrí á föstudag, en sendi frá sér yfirlýsingu vegna andláts Cook á laugardeginum, eftir að tilkynnt var um fráfall hans opinberlega. Ekki hefur farið leynt að þeir deildu harkalega fyrir og eftir upphaf Íraksstríðsins. Lét Cook sannfæringuna ráða og sagði sig úr ríkisstjórninni vegna þátttöku Breta í stríðsátökunum. Eftir það ríkti kalt stríð milli þeirra innan flokksins. Athygli vakti að Blair sagði í yfirlýsingu sinni á laugardag að Cook hefði verið framúrskarandi stjórnmálamaður með mikla hæfileika. Mörgum kom yfirlýsingin spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að Blair setti hann af sem utanríkisráðherra og lækkaði hann í tign og hafði ráðist harkalega að honum eftir afsögnina fyrir tveim árum. Það eru vissulega stórtíðindi að Blair haldi áfram fríinu eins og ekkert hafi gerst og fari ekki einu sinni dagpart til Skotlands og fylgi Cook hinsta spölinn, einum af lykilmönnum hans í kosningasigrinum fyrir áratug. John McCririck, vinur Cooks, sagði reyndar með hvössum hætti að það væri merkilegt að Blair gæti ekki farið til Edinborgar, en að Margaret Thatcher hefði fylgt Sir Edward Heath til grafar í síðasta mánuði, þó þau hefðu verið svarnir óvinir til fjölda ára. Já það er greinilega ólga með ákvörðun Blairs.

Bandaríska leikkonan Barbara Bel Geddes lést á mánudag úr krabbameini, 82 ára að aldri. Barbara var mikilsvirt leikkona og átti að baki langan feril, einkum á sviði og í kvikmyndum. Þekktust varð Barbara þó án nokkurs vafa fyrir algjörlega ógleymanlega túlkun sína á ættmóðurinni Ellie Ewing í sjónvarpsþáttaflokknum Dallas á níunda áratug síðustu aldar. Barbara fæddist í New York, 31. október 1922. Hún varð heimsfræg fyrir stórfenglega túlkun sína á Katrin Hudson í kvikmyndinni I Remember Mama árið 1948. Fyrir leik sinn í myndinni hlaut hún tilnefningu til óskarsverðlauna. Ennfremur er hún eftirminnileg kvikmyndaaðdáendum fyrir leik sinn í myndunum Panic in the Streets og Caught. Barbara öðlaðist frægð fyrir að túlka fyrst allra hlutverk Maggie í Cat on a Hot Tin Roof, er leikritið var fært upp í fyrsta skipti á Broadway árið 1956, og fór ennfremur á kostum í sviðsútgáfu leikritsins Mary, Mary árið 1961. Árið 1958 sló hún aftur í gegn, þá fyrir túlkun sína á Midge Wood í kvikmyndinni Vertigo, stórfenglegu meistaraverki leikstjórans Sir Alfred Hitchcock. Barbara hvarf að mestu úr sviðsljósinu í upphafi sjöunda áratugarins, til að annast eiginmann sinn Windsor Lewis, er hann veiktist af krabbameini. Skömmu fyrir lát hans, árið 1972, greindist hún með brjóstakrabbamein, sem hún sigraðist á.
Barböru bauðst árið 1978 hlutverk ættmóðurinnar Ellie Ewing í þættinum Dallas - sem varð hennar þekktasta hlutverk á ferlinum. Hún öðlaðist sess í huga og hjarta fólks um allan heim fyrir túlkun sína á þessari einbeittu og viljasterku konu sem var höfðingi öflugs fjölskylduveldis í olíubransanum og hélt ættinni saman í gegnum áföll og innri átök. Hún var í senn sál og hjarta þáttarins. Ógleymanleg er túlkun hennar á raunum Miss Ellie er hún greinist með krabbamein og missir sviplega eiginmanninn Jock. Hún öðlaðist sess í sögu leikinna þátta í sjónvarpi er hún hlaut bæði Emmy og Golden Globe-verðlaunin fyrir túlkun sína á Ellie árið 1981, fyrir túlkun í fyrrnefndum atriðum. Er hún eina sápuóperuleikkonan sem hefur hlotið bæði verðlaunin. Hún þurfti að taka frí frá hlutverkinu vegna hjartaáfalls árið 1984, en sneri aftur eftir að hafa náð sér af veikindunum. Barbara lék Ellie í 12 ár og hætti í þáttunum árið 1990, ári áður en þeir hættu, og hvarf með því úr sviðsljósi leiklistarinnar. Í mörg ár var Dallas stór hluti af tilveru Íslendinga - hver man ekki eftir miðvikudagskvöldunum í eldgamla daga yfir þessum þætti? Þetta er einfaldlega bara þáttur sem maður ólst upp með - þeir voru aðalþátturinn í fjöldamörg ár. Allir sem muna eftir gullaldardögum Dallas minnast Barböru Bel Geddes með hlýjum hug er hún nú kveður.
Eins og vel kom fram í pistli mínum um umferðarmál í júnímánuði hef ég ekki verið allskostar ánægður með nýlegustu auglýsingaherferðir Umferðarstofu. Þær voru of aggressívar og ónærgætnar og misstu marks. Hef ég farið yfir þetta áður og bendi þeim á að lesa pistilinn sem ekki vita hvað ég meina og hver gagnrýnin var - það kemur þar allt mjög vel fram. Nú sé ég hinsvegar ástæðu til að tjá mig um nýjustu auglýsingaherfð Umferðarstofu, sem hófst fyrir tæpum mánuði. Þar er kominn sá tónn sem ég vil að verði ráðandi af þeirra hálfu. Það er nærgætin framsetning en samt sem áður ákveðin og vel fókuseruð á það sem barist er fyrir - umferðaröryggi og því að reyna að fækka umferðarslysum. Það er best gert með einbeittri en mannlegri framsetningu. Það tekst þeim með miklum glæsibrag í þessari auglýsingaherferð. Hef ég séð allar auglýsingarnar inni á vef Umferðarstofu og hvet aðra til að líta á þær. Ég get ekki annað en hrósað þeim sem unnu þessar auglýsingar fyrir að hafa haft þær með þeim brag sem þær eiga að vera. Þetta er að mínu mati gott dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast - látlaus en þó mjög áhrifamikil og kemur gríðarlega mikilvægum boðskap til skila.

Óhætt er að segja að flóran af eyfirskum fréttavefum hér í firðinum sé orðin mjög blómleg í þessum mánuði. Eins og fram hefur komið hér hjá mér opnaði fyrir viku fréttavefurinn Dagur, sem fjallar um fréttir á svæðinu og færir okkur ferska umfjöllun um málin út með firði og býður upp á góð skrif um málin. Í gær opnaði svo nýr og glæsilegur fréttavefur sem fókuserar að mestu á Akureyri og færir okkur fréttir hér úr bænum og heldur uppi góðri þjóðmálaumræðu af svæðinu og tekur einnig fyrir marga mikilvæga þætti. Þessi vefur lofar mjög góðu. Ritstjóri hans er gamalkunnur Akureyringur, Helgi Már Barðason, og verður ánægjulegt að fylgjast með þessum vef vaxa og dafna og fjalla um bæjarmálin, vonandi um ókomin ár. Óska eigendum og starfsmönnum vefsins til hamingju með framtakið - það verður gaman að fylgjast með honum og Degi á næstunni.
Saga dagsins
1794 Sveinn Pálsson, 32 ára læknir, gekk á Öræfajökul - það var í fyrsta skiptið sem það var gert.
1938 Baden-Powell, upphafsmaður skátahreyfingarinnar, kom til Reykjavíkur á heimsfund skáta.
1956 Bandaríski málarinn Jackson Pollock ferst í bílslysi, 44 ára að aldri - var einn af umtöluðustu listmálurum í listasögu Bandaríkjanna. Fjallað var um æviferil hans í kvikmyndinni Pollock árið 2000.
1973 Austurstræti í Reykjavík var gert að göngugötu - gatan var svo opnuð aftur að hluta árið 1991.
1991 Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Pelé kom til landsins og hitti unga íslenska fótboltamenn.
Snjallyrðið
Snert hörpu mína himinborna dís
svo hlusti englar Guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.
Úr furutré sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.
Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt
um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís
og hlustið englar Guðs í paradís.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Kvæðið um fuglana)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2005 | 20:55
Engin fyrirsögn

Í dag er 31 ár liðið frá því að Richard Nixon lét af embætti forseta Bandaríkjanna, eftir að hafa setið í embættinu í fimm og hálft ár. Afsögnin markaði mikil söguleg þáttaskil - með þessu varð Nixon fyrsti forseti Bandaríkjanna sem sagði af sér þessu valdamesta embætti heims. Hann varð að segja af sér embættinu vegna Watergate-málsins. Málið hafði komið upp í miðri kosningabaráttu hans fyrir endurkjöri árið 1972, en forsetanum og nánustu samstarfsmönnum tókst að hylja spor sinna manna fram yfir kosningarnar. Að þeim loknum varð umræðan áberandi og stig af stigi magnaðist málið uns því lauk með því óumflýjanlega, afsögn forsetans. Þáttaskil í málinu markaðist af tvennu - án þess hefði forsetinn aldrei þurft að láta af embætti að mínu mati. Annarsvegar var það tilvist Deep Throat sem veitti The Washington Post upplýsingarnar sem leiddu til þess að málið spann upp á sig og opinberaðist lið fyrir lið. Hinsvegar eru það auðvitað segulbandsspólurnar af samtölum Nixons við nánustu samstarfsmenn sína. Forsetaskrifstofan í Hvíta húsinu var á þeim tíma hleruð og með opinberun samtalanna komst endanlega í ljós með óyggjandi hætti að forsetinn vissi af málinu allt frá upphafi og tók þátt í yfirhylmingunni allan tímann, með hreint ótrúlegum hætti. Enn þann dag í dag eru spólurnar stórmerkileg heimild um hugarheim forsetans.
Án segulbandsspólanna og þess að hinn frægi heimildarmaður TWP hefði komið til sögunnar blasir við að Nixon hefði þraukað til enda. Þetta voru sönnunargögnin sem mögnuðu upp málið. Um leið og umheimurinn heyrði svo segulbandsspólurnar var enginn vafi lengur til staðar á því hvenær Nixon vissi af Watergate-innbrotinu. Enda var hann þátttakandi í því að reyna að breiða yfir málið allt frá byrjun. Enda reyndi Nixon með þrautseigju að halda í spólurnar og beitti ýmsum rökum fyrir sér í því að þær skyldu ekki verða opinberaðar. Hann barðist við dómstóla og lykilstofnanir kerfisins fyrir því að halda spólunum leyndum og dómur hæstaréttar í júlí 1974 leiddi til þess að segulböndin urðu að fullu opinberuð. Með því kom sönnunin sem leiddi til þess að þingið samþykkti að ákæra forsetann fyrir afglöp í embætti og það að hindra framgang réttvísinnar. Nixon hafði um tvo kosti að velja í byrjun ágústmánaðar 1974 og það mjög slæma báða. Annarsvegar var að segja af sér embætti forsetans sjálfviljugur og með þeirri reisn sem þó var eftir fyrir hann eða að verja sig fyrir þinginu í ákæruréttarhöldum fyrir opnum tjöldum - sem var auðvitað óverjandi verkefni pólitískt og persónulega, meira að segja fyrir gamlan pólitískan ref eins og Nixon. Afsögn varð því niðurstaðan.
Það voru óneitanlega þung spor fyrir Nixon að kveðja með þessum hætti. Þó má fullyrða að kveðjuávarp hans til þjóðarinnar og starfsmanna forsetaembættisins í austursal Hvíta hússins hafi verið tilfinningaþrungnasta ræða ferils hans. Persónulega þykir mér að það hafi verið hátindur ræðuferils hans - það var tignarlegasta ræða ferils hans, eins kaldhæðið og það hljómar. Kunnugir hafa sagt að Nixon hafi verið á barmi taugaáfalls seinustu daga embættisferilsins. Hann var í verulegu ójafnvægi og var eins og tifandi tímasprengja. Nánustu samstarfsmenn hans óttuðust um tíma að hann myndi svipta sig lífi vegna málsins. Svo mikið er víst að margar sálarflækjur fyrri tíma tóku sig upp í þrengingunum á pólitískum ferli forsetans sem fylgdu Watergate-málinu. Segja má að forsetinn hafi verið orðinn pólitískt lamaður vegna málsins. Seinasta árið sem hann sat í embætti var málið sem ský yfir höfði hans og undir lokin var honum orðið ómögulegt að gegna embættinu, enda var embættiskerfið og forsetaembættið sem slíkt gjörsamlega undir fargi mistaka forsetans. Allir sem kynna sér bækur um ævi forsetans og málið sjá í hvaða flækjum forsetinn átti við að glíma og hve þungt farg málið var orðið.
Lengi hefur mér þótt merkilegt að kynna mér stjórnmálaferil Nixons. Á síðasta ári las ég bókina RN: The Memoirs of Richard Nixon. Það er góð bók, sem veitir fágæta innsýn inn í pólitískan feril hans. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans, Watergate og forsetatíðina, sem var mjög umdeild. Nixon var merkilegur persónuleiki, það er merkilegast að komast að því í allri umfjöllun um hann hversu ótraustur hann var og allt að því taugaveiklaður og andlega bæklaður. Hann var mikill skapmaður og var fljótur að missa stjórn á sér. Nánustu samstarfsmenn hans lýsa seinasta ári forsetaferils hans sem púðurtunnu fyrir hann persónulega. Eftir stendur að hann áorkaði miklu í embættistíð sinni, en mörg merkustu verk hans hafa gleymst vegna Watergate-málsins. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður 20. aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Margir vita varla enn hver hann var í raun þessi maður sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér, að lokum.
En í lok þessarar umfjöllunar um málið hvet ég alla aðdáendur stjórnmála til að lesa þessa fyrrnefndu bók um Nixon, eða sjá kvikmyndina All the President's Men sem fjallar um Watergate-málið og það hvernig Bernstein og Woodward flettu ofan af málinu öllu. Svo jafnast ekkert auðvitað á við góða og vandaða heimildarþætti um þetta sögufræga mál. Á sunnudaginn skrifaði ég nokkuð ítarlega samantekt um kvikmyndina, sem er að mínu mati einstök heimild um málið og ekki síður fréttamennsku hinnar stóru fréttar - lítið á þá umfjöllun ef þið viljið sjá skrif um hana og tengd atriði. Eftir stendur að þetta er eitt merkilegasta pólitíska hneyksli seinustu áratuga og það er endalaus áskorun að kynna sér það betur og ekki síður kafa ofan í hugarheim þeirra sem stóðu þá í eldlínunni, einkum hins títtnefnda forseta sem komst í sögubækurnar með því að segja af sér þessu valdamikla embætti á þessum degi fyrir 31 ári.

Í gær voru tveir mánuðir í kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Hér í Eyjafirði mun fara fram viðamesta sameiningarkosningin í þessu ferli af hálfu félagsmálaráðuneytisins. Kosið verður um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði, að Grímsey undanskilinni. Eins og nærri má geta er þetta ansi stór og mikil kosning og skiptar skoðanir um það hvort Akureyri eigi að sameinast sveitahreppunum, þéttbýlisstöðunum út með firði og Siglufirði. En nú er farið að styttast mjög í kjördag og ekki annað viðeigandi en að fara að taka umræðuna fyrir og skrifa um málið. Utankjörfundarkosning er enda við það að fara að hefjast - hún mun hefjast formlega eftir helgina. Það er því sú stund að fara að renna upp að almenningur verði að taka afstöðu til málsins. Það sem vantar upp á klárlega er umræða um kosti og galla svo viðamikillar sameiningar. Að störfum hefur verið að undanförnu sameiningarnefnd sem í eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju sveitarfélagi á svæðinu. Fer nú að líða að því að hún kynni starf sitt og hvernig hún ætli að halda á málinu. Lítil kynning hefur farið fram, en opnuð hefur verið heimasíða um málið og gefinn út kynningabæklingur. Formaður nefndarinnar er vinkona mín, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi hér á Akureyri.
Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur áþreifanlegir gallar. Ég vil að nefndin fjalli vel um málið, betur en gert hefur verið, og tel rétt að óska eftir nákvæmari kynningu á málinu áður en ég tek persónulega afstöðu til þess. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina. Einnig má deila um það hvort þessi kosning fari fram á heppilegum tíma. Persónulega var ég andvígur því að hafa kosninguna svona seint á árinu. Það eru kosningar til sveitarstjórna framundan eftir rúma 9 mánuði og það er óþægilegt fyrir allt skipulag þeirra að vera að vefjast með þessa kosningu á undan sér framundir árslok jafnvel, ef ferlið fer í aðra umferð - sem óhjákvæmilegt verður að mínu mati. Svo er óneitanlega galli, og mun að mínu mati skaða grunn málsins verulega, að heyra af því að Ólafsfirðingar hafi selt hitaveitu sína kortéri fyrir þessa kosningu.
Það gerir mig allavega fráhverfari sameiningu að heyra af því að sveitarfélög út með firði séu farin að selja eigur sínar til að geta útdeilt peningunum eftir sínu höfði eða koma þeim til hliðar fyrir hugsanlega sameiningu. Ráðslag bæjarstjórnarmeirihluta vinstrimanna á Ólafsfirði að selja hitaveituna akkúrat nú vekur margar spurningar og gæti vel sett málið allt út af sporinu. Spurningar vakna: afhverju nú? - afhverju liggur á að selja hitaveituna tveim mánuðum fyrir kosningar? - hvaða skilaboð eru Ólafsfirðingar að senda okkur hér í firðinum með þessari ákvörðun á þessum tímapunkti? Það veitir ekki af því að Stefanía Traustadóttir bæjarstjóri út á Ólafsfirði, og hennar fólk þar í meirihlutanum sem situr við völd þar, segi hvað knýr þau áfram til að gera þetta akkúrat nú. Að minnsta kosti tel ég að þessi ákvörðun minnki líkurnar á sameiningu - hversvegna drífa menn í þessu nema vegna þess að þeir sjá fram á sameiningu og vilja selja dýrasta hnossið í skartgripaskríninu fyrir væntanlega sambúð. Eða hvað? Svör óskast utan úr Ólafsfirði.

Um fátt hefur verið meira rætt seinustu daga en brotthvarf Andra Teitssonar úr framkvæmdastjórastól KEA. Hafa málavextir eins og þeir voru kynntir á föstudag verið gagnrýndir harkalega. Benedikt Sigurðarson stjórnarformaður Kaupfélags Eyfirðinga, tjáði sig um fæðingarorlofið með mjög undarlegum hætti á föstudag og vöktu svör hans þá fleiri spurningar, svo margar að hann sá sér ekki annað fært en að mæta í sjónvarp og svara fyrir sig í gærkvöldi. Var hann gestur beggja dægurmálaspjallþáttanna og fór yfir stöðuna. Vel kom fram í viðtölunum að hann missteig sig verulega með ummælunum á föstudag. Það vakti hinsvegar enn meiri athygli að hann talaði í viðtölunum með þeim hætti að ekki mætti rekja brotthvarf Andra til fæðingarorlofsins margumtalaða. Greinilegt er að Andri er ekki sama sinnis, enda vísar hann bara til fyrri yfirlýsinga. Orð virðist vera á móti orði í þessum efnum. En greinilegt er að einhver trúnaðarbrestur hefur komið til í málinu. Svo er greinilega hiti vegna málsins innan stjórnar KEA. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir stjórnarmaður í KEA og fyrrum bæjarfulltrúi, hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna ummæla Benedikts og fleiri stjórnarmenn sætta sig ekki við orðalag hans. Það er greinilega mikil ólga í KEA vegna þessa máls - eftir stendur þó að þetta mál hefur skaðað KEA mjög verulega.

Í gærkvöldi horfði ég á gullmolann Some Like it Hot í leikstjórn Billy Wilder. Það var árið 1959 sem Wilder og I.A.L. Diamond gerðu handritið að þessari kvikmynd, sem er hiklaust ein af eftirminnilegustu gamanmyndum seinustu aldar. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að mafíumorði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera tónlistarkonur í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem ávallt fyrr í hlutverki söngkonunnar í kvennabandinu, Sugar Kane Kowalczyk, í myndinni. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, eitt af allra bestu verkum Billy Wilders. Þessi mynd er og verður alla tíð sannkallaður gleðigjafi. Þeir sem hafa ekki séð hana verða að sjá hana - þeir sem hafa séð hana verða að sjá hana fljótt aftur. Á þessari mynd fær maður aldrei leið á.

Síðustu vikurnar hefur Jón Karl Helgason séð um þætti á Rás 1 á laugardagssíðdegi þar sem hann ræðir við alþingismenn allra flokka um hugsjónir þeirra, bakgrunn og pólitíska áhrifavalda. Þættirnir bera enda heitið: Hugsjónir og pólitík. Hef ég hlustað núna á alla þættina og haft af þeim mikið gaman. Þeir eru fróðlegir og fjallað er vel um bakgrunn þingmannanna. Þar er farið yfir hvort flokkar eða þingið sé vettvangur fyrir hugsjónafólk í pólitík og hvort þeirra hugsjónir eigi erindi í stjórnmálalitrófið. Um helgina ræddi Jón Karl við Drífu Hjartardóttur leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Var það mjög gott spjall og ánægjulegt að heyra skoðanir Drífu á þessum efnum. Hvet ég alla til að hlusta á þættina. Þeir eru klukkan 16:10 á laugardögum og endurteknir að kvöldi mánudags kl. 23:00.
Saga dagsins
1851 Við lok þjóðfundarins í Reykjavík hrópuðu þingmenn allir einum rómi: Vér mótmælum allir!
1945 Bandaríski herinn varpar kjarnorkusprengjum á borgina Nagasaki í Japan - rúm 73.000 létust.
1969 Leikkonan Sharon Tate myrt á hrottafenginn hátt af Charles Manson og samverkamönnum.
1974 Richard Nixon lætur af embætti forseta Bandaríkjanna á hádegi að staðartíma - Gerald Ford varaforseti Bandaríkjanna, tekur við embætti og sver embættiseið sem 38. forseti Bandaríkjanna. Ford er eini forseti og varaforseti Bandaríkjanna sem ekki hefur verið kjörinn af bandarísku þjóðinni til setu í þessi æðstu valdaembætti landsins. Hann varð varaforseti 1973 við afsögn Spiro Agnew og tók við forsetaembættinu er Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-málsins. Áður en Ford varð varaforseti sat hann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings 1949-1973 og var leiðtogi repúblikana
í deildinni 1965-1973. Hann sat á forsetastóli út kjörtímabil Nixons, sem átti tvö og hálft ár eftir af seinna kjörtímabili sínu. Umdeilt varð mjög er hann náðaði Nixon skömmu eftir forsetaskiptin og olli óvinsældum hans. Ford tapaði forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter fv. ríkisstjóra í Georgíu.
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir að stjórnvöld styrkji rannsóknir á stofnfrumum.
Snjallyrðið
Ég nefni nafnið þitt,
og næturhúmið flýr,
því ljóma á loftið slær
hið liðna ævintýr.
Ég nefni nafnið þitt,
og nýja heima sé;
þar grær hið villta vín,
þar vagga pálmatré.
Ég nefni nafnið þitt,
og nóttin verður hlý.
Ég heyri klukknaklið
frá kirkju í Assisi.
Þú kemur móti mér
í minninganna dýrð.
Í sólskini og söng
er sál mín endurskírð.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég nefni nafnið þitt)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2005 | 16:57
Engin fyrirsögn

Bandaríski fréttaþulurinn Peter Jennings er látinn, 67 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í New York í gærkvöldi. Jennings hafði barist við lungnakrabbamein seinustu mánuðina og kvaddi hann sjónvarpsáhorfendur í byrjun apríl í hinsta sinni, áður en hann hóf baráttu sína við sjúkdóminn og gekkst undir lyfja- og geislameðferðir. Þó að vitað væri að Jennings væri mjög veikur kom andlát hans mörgum að óvörum. Bandarískir sjónvarpsáhorfendur urðu flestir mjög hissa þegar að andlát Jennings var tilkynnt í beinni útsendingu á ABC-sjónvarpsstöðinni, vinnustað Jennings, laust eftir miðnættið að staðartíma. Það var vinnufélagi hans og góðvinur, Charles Gibson, sem tók við hlutverki hans tímabundið sem fréttaþulur á ABC, sem las fréttina um lát hans. Óhætt er að segja að þáttaskil fylgi andláti hins trausta fréttastjórnanda sem var andlit fréttastofu ABC í rúma tvo áratugi. Hann var í flestra huga táknmynd heiðarlegrar og traustrar fréttamennsku og var virtur um allan heim fyrir störf sín. Á löngum fréttamannsferli fjallaði hann um stærstu fréttir samtímans með trúverðugum hætti og ávann sér ævarandi sess með því. Andlát hans markar því þáttaskil í bandarískri fjölmiðlun og breytir ásýnd hennar.
Peter Jennings fæddist í Toronto í Kanada, hinn 29. júlí 1938. Fréttir og fréttamennska voru rauður þráður hjá Peter Jennings alla ævi. Faðir hans var fréttastjórnandi CBC (Canadian Broadcasting Corporation) allt frá því það var stofnað á þriðja áratugnum. Hann var þekktur og virtur fyrir störf sín að fréttamennsku. Aðeins 9 ára gamall hóf Peter að stjórna barnaþætti á stöðinni, Peter's People. Hann lauk ekki námi en dembdi sér út í fréttastörf eftir skyldunám og að hafa unnið um tíma sem bankastarfsmaður. Hann vann fyrstu árin sem slíkur hjá CBC en fluttist til Bandaríkjanna árið 1964 og hóf þá störf hjá ABC-sjónvarpsstöðinni, þar sem hann vann allt til dauðadags, en hann var kanadískur ríkisborgari allt til ársins 2003. Árið 1965 var Peter ráðinn til að vera einn af fréttaþulum ABC Evening News, en hætti því tveim árum síðar, staðráðinn í að vinna sér meiri sess sem fréttaskýrandi og hóf aftur störf við venjulega vinnu frétta. Hann sá um erlendar fréttir lengst af og varð heimsþekktur er hann fjallaði um gíslatökuna á ólympíuleikunum í München árið 1972. Árið 1977 var Jennings ráðinn sem forstöðumaður erlendra frétta hjá ABC (Chief foreign correspondent) og varð þá einn af aðalfréttaþulum ABC ásamt Frank Reynolds og Max Robinson.
Peter Jennings var ráðinn sem aðalfréttaþulur ABC eftir skyndilegt fráfall Reynolds. Allt frá því að hann tók við starfinu hinn 5. september 1983 allt til dauðadags var Jennings andlit fréttaþjónustu ABC. Hann var lykiltalsmaður fréttaþjónustunnar og ekki síður mjög áberandi á vettvangi fréttanna. Var hann í rúma tvo áratugi einn af þrem mest áberandi fréttaþulum aðalstöðva Bandaríkjanna, ásamt Tom Brokaw og Dan Rather. Á rúmu ári hefur þessi fræga þrenning fréttaþula horfið af skjánum. Brokaw hætti á NBC í desember 2004 og Rather hætti á CBS í mars 2005. Þrátt fyrir að þeir væru keppinautar voru þeir vinir utan fréttavettvangsins og hafa bæði Brokaw og Rather minnst hans í dag. Í byrjun apríl á þessu ári tilkynnti Jennings sjálfur í beinni útsendingu um veikindi sín og að hann tæki sér frí frá störfum. Hvarf hann af skjánum með ógleymanlegum hætti með tignarlegum flutningi yfirlýsingar sinnar sem bæði var blönduð af trega og gríni. Jennings var ekki bara fréttaþulur að mínu mati. Við andlát hans er minnst eins svipmesta fréttaskýranda 20. aldarinnar - heiðarlegs og trausts fréttamanns sem setti mark sitt á samtíð sína. Framlag hans til fréttaþjónustu Bandaríkjanna og ekki síður heimsins mun verða lengi í minnum haft.
Eins og ég hef vel fjallað um seinustu dagana var Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í fimmta skiptið á laugardag. Var þetta alveg stórfenglegur dagur - virkilega gaman og mikil skemmtun, eins og venjulega. Rúmlega 30.000 manns voru viðstödd þetta stærsta matarboð ársins. Var mannfjöldinn slíkur að vart hefur annað eins sést. Eru flestir á því að þetta sé eitt stærsta matarboð sem haldið hefur verið hérlendis. Það eru allavega tíðindi þegar á fjórða tug þúsunda manns mætir saman á einn stað og það hafnarsvæði í 1500 manna bæ á landsbyggðinni. Þetta er mikill sigur fyrir Dalvíkinga og viðurkenning á því að hugmynd þeirra sem störtuðu verkefninu var ekki glötuð eða út í bláinn þó margir hafi í upphafi talið vonlaust að byggja stemmningu upp í kringum fiskrétti og ætla að gefa allt hráefnið. Þetta er verkefni sem hefur heppnast alveg gríðarlega vel. Fyrst og fremst tel ég að Júlíus Júlíusson sem hefur stýrt verkefninu allt frá upphafi með krafti hafi sannað að þetta sé hægt og fyrst og fremst eiga hann og eigendur fyrirtækjanna sem gefa matinn hrós fyrir þessa frábæru hugmynd og að hafa allan tímann haft trú á að hún væri möguleg og gæti heppnast. Án kraftsins í Júlla hefði þetta verkefni að mínu mati aldrei náð landi. Hann er einstakur í skipulagningu.
En já laugardagurinn var fallegur í orðsins fyllstu merkingu. Sólin og gleðin var aðalsmerki dagsins - hef ég verið viðstaddur í öll skiptin en þetta var langbest heppnaðasti Fiskidagurinn og til marks um hversu vel þetta hefur nú verið fest í sessi og hefur eflt upp stemmninguna í kringum Dalvík. Eins og sjá má af þessari mynd hér að ofan, sem tekin var á laugardag, var mannfjöldinn gríðarlegur, enda ekki á hverjum degi sem á fjórða tug þúsunda manna koma saman á einum stað í Eyjafirði. Þessi mynd segir meira en mörg orð um stemmninguna og gleðina sem allsstaðar voru yfir öllu. Sérstaklega gaman hafði ég af því að fara í siglingu með Sæfara, sem var þarna á svæðinu. Farið var smásiglingu um fjörðinn, voru siglingar á hálftímafresti allan daginn. Svo var virkilega gaman að fylgjast með listflugi Arngríms í Atlanta og ekki síður labba svo auðvitað um svæðið. Þar hitti maður ótrúlegasta fólk alveg og átti gott spjall. En mannfjöldinn var mikill og eftir stendur ekkert nema ánægja og gleði í hjarta og huga eftir þennan góða dag. Ég vil óska Dalvíkingum öllum til hamingju með þennan góða og velheppnaða dag - hann er svo sannarlega kominn til að vera!

Andri Teitsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri KEA, eftir að hafa starfað þar í tvö ár, eða frá árinu 2003. Óhætt er að segja að yfirlýsing um starfslok Andra hafi verið óvænt, enda hefur Andri verið að standa sig vel í starfi og gert margt gott þar. Hættir Andri störfum vegna þess að hann fékk ekki að fara í fæðingarorlof, sem er þó lögbundið bæði fyrir karla og konur. Eins og fram hefur komið eiga Andri og kona hans von á tvíburum, og fór hann fram á níu mánaða fæðingarorlof. Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga taldi óheppilegt að Andri tæki sér svo langt leyfi og varð sameiginleg niðurstaða að hann léti af störfum. Þetta er merkilegt mál og vekur margar spurningar um afstöðu KEA. Sérstaklega var svo merkilegt að heyra í stjórnarformanninum, Benedikt Sigurðarsyni, þar sem hann túlkaði fæðingarorlofslögin með þeim hætti að þau ættu bara við almenna starfsmenn. Þetta er ótrúleg tímaskekkja sem birtist hjá KEA. Auðvitað falla allir undir lög í landinu, sama hvort um er að ræða almenna starfsmenn eða yfirmenn þeirra. Það er ekki nema von að fólk verði gapandi hissa yfir vinnubrögðum KEA og spurt sé að því hvaða skilaboð þetta séu til handa konum á framabraut sem sækjast eftir yfirmannsstörfum hjá fyrirtækjum, ja t.d. KEA. Það er óhætt að segja að stjórn KEA valdi okkur miklum vonbrigðum í jafnréttismálum. Þvílík vinnubrögð!

Rúm tvö ár eru nú liðin síðan Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi, nýjasta hverfi bæjarins. Síðan hefur hverfið byggst upp og fjöldi húsa risið þar. Áætlað hefur verið að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verði þar 6-8.000 manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður orðið fullbyggt. Hverfið mun skiptast upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Fyrsta byggingin sem ráðist var í, í hinu nýja hverfi, var glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, Naustatjörn, sem tekinn var í notkun 18. ágúst 2003, áður en fyrstu íbúar hverfisins fluttu inn. Var ráðist í byggingu hans áður en tekin var fyrsta skóflustungan að íbúðarhúsi á svæðinu. Þetta var að öllum líkindum einsdæmi í byggingu íbúðarhverfa hérlendis. Nýr grunnskóli mun rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu hefur verið lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir. Nú berast svo þær fréttir að borist hafi 193 umsóknir frá einstaklingum og byggingarfyrirtækjum um lóðir undir 430 íbúðir í næsta vinnuhluta hverfisins, en umsóknarfresturinn rann út í lok júlí. Á morgun verður dregið úr 92 umsóknum um 17 einbýlishúsalóðir þar. Þetta er mjög ánægjulegt að heyra - gaman að fylgjast með uppbyggingu þessa nýjasta hverfis í bænum.
Á föstudag hóf göngu sína nýr eyfirskur þjóðmála- og fréttavefur sem ber nafnið Dagur. Að honum standa eigendur héraðsfréttablaðanna Norðurslóð og Bæjarpósturinn í Dalvíkurbyggð. Er vefnum fyrst og fremst ætlað að þjóna Eyjafjarðarsvæðinu og ætlað að vera frétta- og upplýsingaveita svæðisins á netinu. Er þetta ánægjulegt og mjög jákvætt framtak, einkum nú í aðdraganda sameiningarkosningar hér í firðinum þann 8. október nk. Þá verður kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í firðinum utan Grímseyjar. Ritstjórn vefsins skipa hjónin Svanfríður Inga Jónasdóttir fyrrum alþingismaður og kennari á Dalvík, og Jóhann Antonsson, og ennfremur þeir Hjörleifur Hjartarson og Halldór Ingi Ásgeirsson. Jóhann var einn þeirra sem stofnuðu Norðurslóð árið 1978 - sem verið hefur alla tíð einn öflugasti prentmiðill í firðinum. Hitti ég þau hjón Jóhann og Svanfríði um helgina á Fiskideginum og áttum við Svanfríður mjög notalegt spjall um vefinn. Mér hefur svo verið sýndur sá heiður að eiga fyrstu greinina sem birtist í undirdálkinum Sarpurinn (þar sem áður birt efni er kynnt). Er það grein mín um fjölskylduhátíðina hér heima um versló og birtist á Íslendingi. Ég óska Jóhanni og Svanfríði innilega til hamingju með þennan góða og glæsilega vef.
Saga dagsins
1863 Robert E. Lee hershöfðingi, sagði af sér embætti sínu eftir tapið í baráttunni um Gettysburg - Jefferson Davis forseti samb.ríkjanna, hafnaði beiðni hans og Lee sat áfram. Hann lést árið 1870.
1959 Matthías Johannessen, 29 ára blaðamaður, ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins - hann var ritstjóri blaðsins í rúma fjóra áratugi, til loka ársins 2000, og hafði þá verið blaðamaður og ritstjóri í hálfa öld.
1963 Eitt frægasta lestarrán sögunnar framið í Bretlandi - lestin á milli Glasgow og Euston var rænd við Buckinghamshire af sex mönnum - ræningjarnir náðust allir, að lokum Ronnie Biggs á árinu 2001.
1974 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í sjónvarpsávarpi um afsögn sína. Hún tók svo formlega gildi á hádegi daginn eftir. Nixon varð fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem sagði af sér embætti. Nixon baðst lausnar vegna Watergate-málsins. Hann átti þá að baki áratugalangan stjórnmálaferil. Nixon var kjörinn í fulltrúadeildina árið 1946 og svo öldungadeildina árið 1950. Hann var varaforseti Bandaríkjanna 1953-1961 en tapaði í forsetakjöri í nóvember 1960 fyrir John F. Kennedy. Nixon var kjörinn forseti Bandaríkjanna 5. nóvember 1968 og var endurkjörinn árið 1972. Eftir afsögn sína tókst Nixon að byggja sér upp feril sem sérfræðingur í utanríkismálum og náði að nýju virðingarsess undir lok ævi sinnar. Richard Nixon lést 22. apríl 1994. Nixon afþakkaði viðhafnarjarðarför (state funeral).
2001 Leikarahjónin Tom Cruise og Nicole Kidman skilja - Cruise og Kidman voru gift í rúman áratug.
Snjallyrðið
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Til eru fræ)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2005 | 22:49
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um svar Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, við spurningum leiðtoga Samfylkingarinnar og VG í bæjarstjórn Akureyrar við umdeildri lífskjarakönnun Gallups. Fer ég yfir málið og skoðun mína á áberandi fjölmiðlaframkomu leiðtoga Samfylkingarinnar, sem hefur nær ein tjáð sig um málið af minnihlutafulltrúunum í bæjarstjórn. Ekki hafa minnihlutaleiðtogarnir Oddur Helgi Halldórsson og Valgerður Hjördís Bjarnadóttir verið áberandi í viðtölum vegna þess eða komið fram með sama hætti og leiðtogi Samfylkingarinnar. Það segir ansi margt auðvitað um það hvernig málið er allt vaxið og til marks ekki síður um innbyrðis ólgu innan Samfylkingarinnar, þar sem leiðtoginn í síðustu kosningum hefur verið skoraður á hólm af varamanni sínum í bæjarstjórn. Vissulega má ræða þessi mál og fara yfir þau frá ólíkum hliðum en framganga fulltrúa Samfylkingarinnar hefur farið yfir öll mörk og yfirlýsingagleðin ekki síður. En staða mála á þeim bænum fær mann til að skilja þá yfirlýsingagleði. Þegar fólk er í kapphlaupi við að vekja á sér athygli gerir fólk oft ýmislegt til að komast í viðtöl og ná kastljósi fjölmiðlanna. Á tímum nútímafjölmiðlunar geta nefnilega viðtöl á réttum stöðum breytt stöðu leiðtoga flokks sem hefur fengið mótframboð og oft er ýmsum hráskinnavinnubrögðum beitt í því skyni. Þessu höfum við kynnst vel hér seinustu vikurnar.
- í öðru lagi fjalla ég um Fiskidaginn mikla sem haldinn var í fimmta skiptið á Dalvík í gær. Var ég þar staddur í blíðviðri í fjölmennasta matarboði ársins ásamt rúmlega 30.000 manns. Þetta var alveg stórfenglegur blíðviðrisdagur á Dalvík og fer ég í pistlinum yfir það sem gerðist á deginum og stemmninguna sem þar var. Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist að byggja upp jákvæða, notalega og góða stemmningu á Dalvík á þessum degi.
- í þriðja lagi fjalla ég um birtingu álagningarskrár, sem helst kemur fram með útgáfu tekjublaðs Frjálsrar verslunar. Minni ég á þá skoðun mína að ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega eða leyfa opinbera birtingu þessara gagna með þeim hætti sem um ræðir. Að mínu mati eru fjárhagsmálefni einstaklinga án nokkurs vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari.

Í kvikmyndinni All the President's Men er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974. Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.
Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post.
Í kvikmyndinni All the President's Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt af krafti að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.
Að mínu mati besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína. Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Þið sem hafið séð hana - sjáið hana aftur! Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana.
Saga dagsins
1727 Eldgos hófst í Öræfajökli, hið síðara á sögulegum tíma. Eldgosið stóð í tæpt ár en var öflugast fyrstu dagana. Svo mikið öskufall var að ekki sást fyrst munur á degi og nóttu. Því fylgdi vatnsflóð.
1772 Útilegumennirnir Fjalla-Eyvindur (Jónsson) og Halla (Jónsdóttir) voru handtekin á Sprengisandi og færð til byggða í Mývatnssveit. Eyvindur slapp fljótlega en frelsaði Höllu skömmu síðar. Eyvindur og Halla eru þekktustu útilegufólk Íslandssögunnar, en þau dvöldust víða á hálendinu í tvo áratugi.
1997 Fyrsti íslenski geimfarinn, Bjarni Tryggvason, fór í geimferð með Discovery, er skotið var á loft frá Canaveral-höfða á Flórída - ferðin tók tólf sólarhringa. Bjarni, sem er ættaður frá Svarfaðardal, fæddist í Reykjavík en flutti til Kanada sjö ára gamall. Bjarni kom í heimsókn til Íslands árið 1998.
1998 Bandarísku sendiráðin í Kenýu og Tansaníu eru sprengd í loft upp í hryðjuverkaárás al-Qaeda, hryðjuverkasamtaka Osama Bin Laden. Um 200 manns létu lífið í árásunum. al-Qaeda gerði einnig síðar mannskæðar hryðjuverkaárásir á Bandaríkin, Spán og Bretland. Þeirra táknrænust var árásin á New York og Washington hinn 11. september 2001 er farþegaflugvélum var rænt og þeim svo flogið á valin skotmörk. Tvær þeirra flugu á World Trade Center og ein á Pentagon. Tvíburaturnununum var grandað í árásunum. Árásir í farþegalestunum í Madrid og London árin 2004 og 2005 vöktu skelfingu.
2000 Flugvél á leið frá Vestmannaeyjum fórst í Skerjafirði. Þrír létust samstundis en þrír lifðu slysið sjálft af. Þeir létust allir á næstu vikum og mánuðum. Var mannskæðasta flugslys hérlendis frá 1987.
Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.
Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.
Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2005 | 21:56
Engin fyrirsögn
í blíðviðri á Dalvík

32 - 35.000 manns komu saman í blíðskaparveðri á Dalvík í dag, þar sem haldinn var í fimmta skiptið Fiskidagurinn mikli. Var ég þeirra á meðal, en ég fór úteftir á ellefta tímanum. Á annað hundrað þúsund matarskammtar voru grillaðir, en fólk gæddi sér á ufsa, laxi, þorski, saltfiski, rækju, síld, fiskisúpu, hrefnukjöti, rækjukokkteil, fiskborgurum og hráum laxi, svo aðeins fátt eitt sé nefnt af því sem boðið var upp á. Sérstaklega fannst mér ufsinn, laxinn og saltfiskurinn bera af. Láta má nærri að ellefu tonn af fiski hafi verið á boðstólum í dag. Allt var ókeypis í boði fiskverkenda í Dalvíkurbyggð. Stemmningin var engu lík út á Dalvík á þessum glæsilega degi. Hef ég aldrei séð annan eins mannfjölda á Dalvík og þar var í dag. Veðrið var eins og best er á kosið: sól og rjómablíða. Varla sá ský á himni. Eru aðstandendur Fiskidagsins mikla mjög heppnir með veður, en í öll fimm skiptin hefur verið gott veður við hátíðarhöldin og mjög ánægjulegt andrúmsloft yfir Dalvíkinni. Var ótrúlegur fjöldi bíla í bænum og var bílum lagt út um allt, upp á grasbletti, við verslanir, íbúðarhús og ótrúlegustu stöðum. Var bílafjöldinn það mikill að bílum var lagt allnokkuð langt frá hátíðarsvæðinu og þurfti fólk því margt hvert sem eftir hádegið kom að ganga nokkurn spöl á svæðið. Þessi dagur var því alveg stórkostlegur.
Meðal þeirra mörgu sem sóttu Dalvíkinga heim í dag var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Flutti hann ávarp á hátíðarsviðinu á þriðja tímanum. Í ávarpinu fjallaði hann um öflugan sjávarútveg á Eyjafjarðarsvæðinu og hversu sterk sjávarútvegsfyrirtæki væru þar. Lauk hann miklu lofsorði á öfluga fiskvinnslu í Dalvíkurbyggð og hrósaði heimamönnum fyrir þetta glæsilega framtak sem Fiskidagurinn er. Fjallaði hann ennfremur um mikilvægi sjávarútvegsrannsókna og vék máli sínu sérstaklega að þeim rannsóknum sem fram fara hér í firðinum. Góð dagskrá var á hátíðarsviðinu allan tímann sem hátíðarhöldin stóðu á hafnarsvæðinu. Papar tóku lagið við mikinn fögnuð, sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur á Dalvík, hélt stutta útimessu (væntanlega þá fjölmennustu hérlendis), Arngrímur Jóhannsson sýndi listflug í háloftunum, Edda Björgvinsdóttir tók gott atriði úr leikritinu Alveg brilljant skilnaður, karlakór Dalvíkur söng nokkur lög og fjöldi hljómsveita héðan úr firðinum og víðsvegar um landið tóku lagið, svo fátt eitt sé nefnt. Svo fluttu að sjálfsögðu Dalvíkingarnir Friðrik Ómar Hjörleifsson og Matthías Matthíasson Fiskidagslagið svonefnda, sem Friðrik Ómar og Gunnar Þórisson sömdu fyrir fyrsta Fiskidaginn árið 2001.

Hitti ég mikinn fjölda góðra vina á hátíðarsvæðinu. Suma hefur maður ekki hitt til fjölda ára. Átti ég langt spjall við marga þarna og fórum við yfir málin yfir matnum og eða í biðröðinni eftir meiri mat. Þetta var sólríkur unaðsdagur á hafnarsvæðinu. Venju samkvæmt stjórnaði Dalvíkingurinn Svanfríður Inga Jónasdóttir fyrrum alþingismaður og kennari á Dalvík, athöfn á hátíðarsviðinu þar sem aðili eða aðilar tengdir sjávarútvegi í Dalvíkurbyggð eru heiðraðir fyrir framlag sitt til þróunar í sjávarútvegi eða til vaxtar og viðgangs Dalvíkurbyggðar. Árið 2001 hlaut viðurkenninguna Hilmar Daníelsson fiskútflytjandi, árið 2002 var það Snorri Snorrason skipstjóri og útgerðarmaður sem var heiðraður, árið 2003 var Þórlaug Kristinsdóttir fiskverkakona heiðruð og í fyrra Gunnar Aðalbjörnsson frystihússtjóri. Að þessu sinni heiðraði nefnd Fiskidagsins alla þá sem stunduðu útræði frá Böggvisstaðasandi og lögðu með því dugnað sinn, áræði og kraft til grundvallar byggð á Dalvík. Það var Árni Lárusson, sjómaður á tíræðisaldri sem enn stundar sjóinn á trillu sinni, sem afhjúpaði minnisvarða sem hannaður var af Jóhannesi Hafsteinssyni til minningar um sjómennina sem lögðu grunninn að tilvist Dalvíkur.
Áttum ég og Svanfríður gott spjall á hátíðarsvæðinu eftir heiðrunarathöfnina. Ræddi ég ennfremur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar, sem stödd var á Dalvík í heimsókn hjá Svanfríði og eiginmanni hennar, Jóhanni Antonssyni. Fórum við yfir nokkur mál í góðu spjalli. Þó að við Svanfríður deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum eða séum sammála um allt í stjórnmálum ræðum við alltaf saman þegar að við hittumst og förum yfir málin. Svanfríður var um nokkurn tíma kennari minn og hef ég alltaf metið hana mikils, burtséð frá stjórnmálum. Ræddum við nokkuð um hitamál stjórnmálanna og ekki síður nýjan þjóðmálavef, Dag, sem Svanfríður og Jóhann standa að ásamt fleirum. Er það glæsilegur vettvangur frétta og umræðu á Norðurlandi - fagna ég tilkomu hans. Ennfremur ræddi ég lengi við sjávarútvegsráðherrann. Að auki hitti ég gömul skólasystkini, flokkssystkin víða að, ættingja og fjölda vina og marga fleiri - um margt var spjallað. Tíminn var ekki lengi að líða og um fimmleytið lauk hátíðinni með ræðu framkvæmdastjórans, Júlíusar Júlíussonar, sem að vanda stóð sig gríðarlega vel við yfirstjórn og skipulagningu þessa merka viðburðar.
Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist að byggja upp jákvæða, notalega og góða stemmningu á Dalvík á þessum degi og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af. Alltaf fjölgar þeim sem koma til Dalvíkur og fá sér góðan fisk að borða og kynna sér Dalvík í leiðinni. Þetta var ánægjulegur dagur á Dalvík í dag. Þangað var gaman að koma og ég þakka kærlega skipuleggjendum og aðstandendum hátíðarinnar fyrir að veita okkur góða og ánægjulega skemmtun í dag. Það verður gaman að fara að ári!
1946-2005

Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, er látinn, 59 ára að aldri. Hann varð bráðkvaddur í fjallgöngu í hálöndum Skotlands í dag. Hann hné niður á göngu sinni á fjallið Ben Stack, þar sem hann var á ferð ásamt eiginkonu sinni, Gaynor. Var hann fluttur á sjúkrahús í Inverness í Skotlandi, þar sem hann var úrskurðaður látinn. Viðbrögð Breta urðu á einn veg - andlát Robin Cook kemur öllum að óvörum. Hann var heilsuhraustur, að því er virtist, var áberandi í breskum stjórnmálum og hafði tvíeflst í stjórnmálabaráttu sinni og unnið enn einn stórsigurinn í kjördæmi sínu í kosningunum í maí. Á klukkutímunum eftir að lát hans spurðist út gáfu allir helstu stjórnmálamenn Bretlands út yfirlýsingu vegna andláts hans. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, gaf út yfirlýsingu þar sem segir að Cook hafi verið framúrskarandi stjórnmálamaður sem hafi verið prýddur í senn bæði miklum gáfum og hæfileikum á sínu sviði. Nánustu samstarfsmenn Cook innan flokksins til fjölda ára, þeir Gordon Brown, John Prescott og Jack Straw, gáfu ennfremur út hjartnæmar yfirlýsingar þar sem þeir minnast félaga síns og segja þeir lát hans vera mikið áfall fyrir bresk stjórnmál og Verkamannaflokkinn. Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, sagði í yfirlýsingu sinni að Cook yrði saknað úr hringiðu breskra stjórnmála.
Robin Cook fæddist í Bellshill í Skotlandi, hinn 28. febrúar 1946. Hann nam enskar bókmenntir við Edinborgar-háskóla, áður en hann fór í stjórnmálabaráttu. Hann var kjörinn á breska þingið fyrir Edinborg árið 1974. Var hann þingmaður kjördæmisins til ársins 1983 en var þá kjörinn á þing fyrir Livingston og sat á þingi fyrir kjördæmið allt til dauðadags. Var Robin Cook þekktur fyrir það hversu vel hann vann fyrir umbjóðendur sína og lagði alla tíð áherslu á að hann væri aldrei það upptekinn að hann gæti ekki rætt við kjósendur í kjördæmi sínu og unnið að erindum þeirra og verkefnum. Hann hlaut fljótt frægð fyrir mælsku sína og fimni á pólitískum vettvangi. Hann tók sæti í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins árið 1983 og sat á fremsta bekk þingliðs flokksins samfellt í tvo áratugi. Hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins árið 1997, er flokknum tókst að komast til valda eftir 18 ára stjórnarandstöðu. Hann var áberandi í embætti sínu, í ráðherratíð hans tóku Bretar þátt í íhlutunum í Kosovo og Sierra Leone og Cook var áberandi í flokki erlendra þjóðarleiðtoga í þeim málum. Í miðjum klíðum þess varð fjölmiðlamál heima fyrir þegar að hann fór frá eiginkonu sinni til þriggja áratuga, Margaret, og tók saman við ritara sinn, Gaynor Regan, árið 1999.

Veiktist hann nokkuð í sessi pólitískt vegna þess máls, en þótti styrkja stöðu sína að nýju með fjölmiðlaframkomu sinni á erlendum vettvangi í lykilmálum. Það kom því mörgum í opna skjöldu er hann missti utanríkisráðuneytið í uppstokkun forsætisráðherrans eftir hinn afgerandi kosningasigur Verkamannaflokksins í júní 2001. Cook missti stól sinn til samherja síns í flokknum til langs tíma, Jack Straw. Í staðinn var hann lækkaður í tign og gerður að leiðtoga þingsins. Sú staða er í Bretlandi ráðherraígildi og því sat hann áfram í ríkisstjórn og tilheyrði innsta valdakjarna flokksins. Engum leyndist þó vonbrigði Cook með niðurstöðuna. Honum lenti saman við Blair í aðdraganda ákvörðunar um þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu árið 2003. Hann tjáði eindregna afstöðu sína gegn stríðinu og tók snerrur við Blair innan stjórnarinnar. Var mikið talað um átökin milli þeirra bakvið tjöldin. Þegar að allt stefndi í að stríðið yrði staðreynd tók Cook hatt sinn og staf. Hann sagði af sér formlegum valdaembættum sínum innan innsta kjarnans í leiftrandi ræðu (sem lengi verður í minnum höfð) í breska þinginu hinn 18. mars 2003 (daginn fyrir upphaf stríðsins). Hann tók sæti á aftari bekkjum þingsalarins og var þar allt til loka. Ekki greri um heilt milli hans og Blair og tilheyrði hann eftir það órólegu deildinni innan flokksins, sem fékk meira vægi eftir kosningarnar í vor.
Sjónarsviptir er að Robin Cook er hann er kvaddur nú alltof snemma. Hans verki í stjórnmálum var ekki lokið að flestra mati. Þótti allt stefna í að hann gæti orðið ráðherraefni og forystumaður innan flokksins að nýju er Blair léti af embætti og hætti í stjórnmálum á komandi árum. Spáð hafði verið um hvaða stöður biðu hans og margir höfðu spáð honum að nýju stóli utanríkisráðherrans í ráðuneyti Gordon Brown á komandi árum. Aldrei hefur farið leynt að Brown var ekki sáttur við brotthvarf vinar síns á sínum tíma úr utanríkisráðuneytinu og harmaði hann með áberandi hætti hlutskipti hans, þó þeir hafi sjálfir reyndar deilt um tíma en samið frið. Merkum stjórnmálaferli þessa kraftmikla skoska hugsjónamanns í pólitík lauk snögglega. Er hann yfirgefur sviðið með þessum sviplega hætti er ljóst að fráfall hans er gríðarlegt áfall fyrir Verkamannaflokkinn. Cook var einn af mest áberandi forystumönnum flokksins, þó hann hafi talað frá aftari bekkjunum seinustu tvö árin. Það sem var aðall Robin Cook var að hann var hugsjónamaður, allt til enda. Hann setti sér markmið og vann að þeim óhikað allt til enda. Hann vann í anda þeirra gilda sem hann taldi mikilvægastar allt til enda. Ég tel að sagan muni meta hann mest þannig, er á hólminn kemur.
Saga dagsins
1880 Fyrsti maðurinn, William Kemmler, líflátinn í rafmagnsstól, fyrir að myrða konu sína með exi.
1907 Lárus Rist fimleikakennari, syndir yfir Eyjafjarðarál, alklæddur (í sjóklæðum) - þótti mikið afrek.
1945 Bandaríkin varpa kjarnorkusprengju á borgina Hiroshima í Japan. Talið er að 140.000 manns hafi látist í sprengingunni, eða helmingur borgarbúa. Árásin var aðferð Bandaríkjanna til að þvinga Japani til uppgjafar og ljúka með því seinni heimsstyrjöldinni. Uppgjöf Japana tók loks gildi 14. ágúst 1945.
2000 Þorgeirskirkja við Ljósavatn í S-Þingeyjasýslu vígð - til minningar um Þorgeir Ljósvetningagoða.
2005 Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, verður bráðkvaddur í fjallgöngu í Skotlandi - hann var 59 ára gamall er hann lést. Hann sat á breska þinginu frá 1974 til dauðadags. Cook varð utanríkisráðherra Bretlands við valdatöku Verkamannaflokksins árið 1997 og sat á þeim stóli í fjögur ár. Hann varð þá leiðtogi þingsins, en sagði af sér vegna andstöðu sinnar við Íraksstríðið árið 2003.
Snjallyrðið
Komið allir Caprisveinar
komið, sláið um mig hring
meðan ég mitt kveðju kvæði
um Catarinu litlu syng.
Látið hlæja og gráta af gleði
gítara og mandólín.
Catarina, Catarina,
Catarina er stúlkan mín.
En nú verð ég að kveðja Capri
og Catarinu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar,
einn, um næsta sólarlag.
Grátið með mér gullnu strengir,
gítarar og mandólín.
Ó, Catarina, Catarina,
Catarina, stúlkan mín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Capri Catarina)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2005 | 18:43
Engin fyrirsögn

Í byrjun vikunnar hélt George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í sitt reglubundna sumarfrí á búgarð sinn í Crawford í Texas. Er hann og fjölskylda hans vön að dvelja þar allan ágústmánuð, meðan að deildir Bandaríkjaþings eru í sumarleyfi. Hefur frí forsetans jafnan verið umdeilt og varð frægt hvernig að kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore gerði því skil í kvikmynd sinni, Fahrenheit 9/11. Það er auðvitað fjarri lagi að forsetinn sitji auðum höndum í Texas meðan fríið á sér stað. Hann sinnir skylduverkum og fær reglulegar skýrslur frá leyniþjónustunni og alríkislögreglunni um stöðu mála. Á mánudaginn, áður en fríið hófst, skipaði forsetinn John Bolton sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Gerðist það án samþykkis öldungadeildarinnar, en staðfestingarferli vegna valsins á Bolton hafði staðið þar í nokkra mánuði og demókratar reynt að koma í veg fyrir skipan hans í embættið. Bush hefur forsetavald til að skipa menn í embætti tímabundið og getur það átt við í þessu tilfelli vegna þess að þingið er farið í sumarleyfi. Mun skipun Bolton gilda a.m.k. til janúarmánaðar 2007, er nýkjörið þing kemur saman eftir þingkosningar sem fram fara í nóvember 2006. Hann getur því setið allavega í eitt og hálft ár.
Bush sætti ákúrum demókrata vegna vals síns á Bolton og voru margir öldungadeildarþingmanna flokksins harðorðir í garð hans í kjölfarið. Bush hefur nú hinsvegar haldið á brott frá átakalínum þessa máls og Bolton er mættur til starfa í New York, eftir að hafa beðið í hálft ár eftir að fá staðfestingu þingsins. Verður fróðlegt að fylgjast með störfum þessa umdeilda sendiherra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem hann hefur svo oft gagnrýnt opinberlega. Er þingið kemur saman að loknu leyfinu hefst staðfestingarferli vegna skipunar forsetans á John G. Roberts í hæstarétt Bandaríkjanna. Munu yfirheyrslur þingnefndarinnar í öldungadeildinni yfir Roberts hefjast 6. september. Bendir flest til þess að hann muni hljóta staðfestingu þingsins fyrir lok september og ekki verði mikil læti yfir staðfestingarferlinu. Hefur Roberts átt fundi með valdamiklum þingmönnum að undanförnu. Þó eru nokkrir demókratar staðráðnir í að spyrja dómaraefnið krefjandi spurninga um mikilvæg mál. Má búast við ábúðarmiklum og fræðilegum spurningum um lagaleg álitaefni, en líkurnar á því að Roberts verði hafnað af þinginu teljast verulega litlar. En Bush er semsagt kominn til Texas í 36 daga frí - dæmigert vinnufrí að sögn Hvíta hússins, enda fer forseti Bandaríkjanna aldrei í algjört frí.

Á morgun verður Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í fimmta skiptið. Sú hefð hefur skapast að á laugardegi í byrjun ágústmánaðar er haldinn fiskidagurinn mikli við höfnina á Dalvík. Fiskidagurinn hefur tekist með eindæmum vel þau fjögur ár sem hann hefur áður verið haldinn. Árið 2001 komu um 7.000 manns á hátíðarsvæðið, 2002 voru þeir um 15.000 og 2003 voru þeir um 23.000 talsins. Í fyrra komu tæplega 30.000 manns til Dalvíkur og stemmningin því alveg einstaklega góð. Á grillinu verða fjöldi rétta í veglegum skömmtum í álpappír. Er um að ræða ufsa í grillsósu, útvatnaðan saltfisk í mexikó-marineringu, lax í hvítlaukssúrsætrisósu og þorskur í sweet chili-sósu. Ennfremur verður í boði brauð, rækjukokteill, síld úr tunnu með heimabökuðu rúgbrauði, skelrækjur úr Eyjafjarðarál, harðfiskur með smjöri, fiskisúpa og síðast en ekki síst fiskborgarar af lengsta grilli (8 metra langt) norðan alpafjalla. Fisknum verður svo skolað niður með rúmlega tveimur vörubílsförmum af gosdrykkjum og í desert verða 3.000 lítrar af kaffi og 11.000 íspinnar. Verða í boði um 130.000 matarskammtar milli 11:00 og 17:00, þann tíma sem dagskráin mun standa.
Búast má við miklu stuði á Fiskideginum. Dagskrá mun verða á sviði á hátíðarsvæðinu milli 11:00 og 17:00. Meðal atriða er flutningur lags Fiskidagsins, sem er flutt af Matta í Pöpum og Friðriki Ómari, heiðrun sem Svanfríður Jónasdóttir fyrrum alþingismaður (og Dalvíkingur) stendur fyrir, ávarp sjávarútvegsráðherra, karlakór Dalvíkur tekur lagið, fjöldi hljómsveita kemur fram og er eflaust hápunkturinn þegar að Papar stíga á svið og taka nokkur lauflétt lög. Dagskráin er löng og ítarleg. Driffjöðurin í þessu öllu og stjórnandinn er þúsundþjalasmiðurinn Júlíus Júlíusson á Dalvík. Hann stjórnar þessu af miklum krafti. Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist á Dalvík á þessum degi og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af. Að sjálfsögðu fer ég til Dalvíkur þennan dag - ég hvet alla til að fara sem eiga möguleika á því.

Á stjórnarfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna í vikunni voru samþykktar tvær ályktanir: Sú fyrri hljóðar svo: "Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur nýjan útvarpsstjóra, Pál Magnússon, til að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Þar með myndi skapast aukið svigrúm fyrir einkarekna ljósvakamiðla. Ungir sjálfstæðismenn telja ekki koma til greina að ,,bæta" Ríkisútvarpinu upp tekjutapið með auknum álögum á landsmenn. Nýr útvarpsstjóri ætti fremur að skera niður í rekstrinum, til dæmis með því að tryggja að RÚV sinni ekki verkefnum sem einkareknir fjölmiðlar sinna nú þegar. Í framhaldinu væri eðlilegt að RÚV hætti rekstri Rásar 2. Jafnframt er mikilvægt að horfið verði frá öllum hugmyndum fráfarandi útvarpsstjóra um að fjölga enn ríkissjónvarpsstöðvum. Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn þá skoðun sína að ríkisvaldið hætti rekstri fjölmiðla og RÚV verði selt."
Seinni ályktunin hljóðar svo: "Ungir sjálfstæðismenn fagna því að sala Símans sé orðin að veruleika. Með sölunni hefur ríkisstjórninni tekist að framkvæma mikilvægan áfanga í stefnuskrá sinni og eitt af helstu baráttumálum ungra sjálfstæðismanna um langt skeið. Brýnt er að haldið verði áfram á þessari braut. ÁTVR, Landsvirkjun og Ríkisútvarpið eru dæmi um fyrirtæki sem betur væru komin í eigu framtakssamra einkaaðila en hjá hinu opinbera. Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu á að söluandvirði Símans verði varið skynsamlega, svo sem í niðurgreiðslu skulda og lækkun skatta, en ekki í pólitísk gæluverkefni." Nú hefur svo 38. sambandsþing Sambands ungra sjálfstæðismanna verið formlega auglýst. Það verður haldið að Hótel Stykkishólmi helgina 30. september til 2. október 2005.

Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um atvinnumótmælendurna fyrir austan og rökþrot þeirra sem kemur fram í aðgerðum þeirra að undanförnu. Í pistlinum segir svo: "Atvinnumótmælendur höfðu þá komið til sögunnar. Útlendingar á heimshornaflakki á höttunum eftir mótmælum – mótmælanna vegna greinilega. Það var enda mjög ankanalegt að sjá þetta fólk komið hingað til sögunnar í atburðarásina heilum tveim árum eftir að framkvæmdir voru hafnar við Kárahnjúka. Það var eins og fólkið væri ekki með á staðreyndir málsins, ekki með á grunn þess sem þarna hefði verið að gerast. Það hefði verið nær að mótmælendurnir hefðu komið fyrir tveim árum, þegar vinna var að hefjast við Kárahnjúka frekar en núna. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan." Hvet alla til að lesa pistilinn, það hefur alltaf verið svo að ég hef haft ákveðnar skoðanir á stóriðju á Austurlandi og stutt hana eindregið. Austfirska taugin er sterk í mér og ég styð austfirðinga heilshugar og hef gert alla tíð.

Að lokum í færslu dagsins má ég til að hrósa Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, fyrir öfluga framkomu hans á blaðamannafundi í dag í Downingstræti 10. Þar sagði hann að enginn vafi léki á því að lög í landinu yrðu hert vegna hryðjuverkanna í landinu í síðasta mánuði og hryðjuverkaógnarinnar almennt í landinu. Jafnframt sagði hann að hann og ríkisstjórn Verkamannaflokksins væri tilbúin til að aðlaga mannréttindalög að breyttum aðstæðum í landinu og breyta með því lögum sem varða mannréttindi standi þau í vegi fyrir hugmyndum um að yfirvöldum verði veitt heimild til að vísa einstaklingum úr landi telji þau þá ekki stuðla að þjóðarhag. Á blaðamannafundinum tilkynnti forsætisráðherrann að að lögum yrði breytt í því skyni að heimilt yrði að vísa þeim úr landi sem myndu hvetja til ofbeldis eða tala máli hryðjuverkaaflanna. Þetta er gott hjá Blair og rétt skref sem er ekki annað hægt en að hrósa honum fyrir að taka. Það verður að taka á ógninni með einbeittum hætti.
Saga dagsins
1796 Brynjólfur Sveinsson biskup, lést, sjötugur að aldri - var einn merkasti biskup í lútherskum sið.
1873 Stefán Guðmundur Guðmundsson, 19 ára Skagfirðingur, hélt ásamt fjölda annarra Íslendinga vestur um haf - hann tók sér upp nafnið Stephan G. Stephansson við komuna út. Stephan varð eitt besta ljóðskáld Íslendinga á 19. öld og orti fjölda ljóða um ættjarðarást og lífið í nýjum heimkynnum, fjarri föðurlandinu. Stephan orti allt til dauðadags 1927. Ljóðasafn Stephans hlaut nafnið Andvökur.
1875 Hjálmar Jónsson skáld, Bólu-Hjálmar, lést í beitarhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði, 78 ára að aldri. Bólu-Hjálmar var stórbrotið skáld en átti jafnan við mjög mikið andstreymi að stríða í lífinu.
1962 Bandaríska leikkonan Marilyn Monroe lést, 36 ára að aldri - Marilyn, er hét réttu nafni Norma Jean Baker, fannst látin á heimili sínu, væntanlega eftir að hún hafði tekið alltof stóran skammt af svefnlyfjum. Réttarlæknir úrskurðaði að um sjálfsmorð væri að ræða. Lengi hefur verið deilt um það hvort leikkonan var myrt. Ef einhver leikkona á skilið það að hljóta titil sem kyntákn kvikmyndanna, kemur aðeins Marilyn til greina. Hún var allt í senn: kynþokkafull og fögur, varnarlaus, viðkvæm, tælandi og lokkandi. Hún var táknmynd ljóskunnar á 20. öld, en líf hennar var sambland martraða og drauma, sorgar og gleði, sigra og skipbrota. Marilyn lék á ferlinum í fjölda ógleymanlegra kvikmynda.
2000 Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Alec Guinness lést, 86 ára að aldri - Guinness var einn af virtustu leikurum Breta á 20. öld. Leikaraferill hans spannaði 60 ár og varð hann þekktastur fyrir leik sinn í leikritum Shakespeare og sem Obi-Wan Kenobi í Star Wars-kvikmyndunum. Guinness lék á ferli sínum ólík hlutverk, allt frá Hamlet til gamanpersóna. Sir Alec hlaut óskarsverðlaunin árið 1957 fyrir ógleymanlega túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai. Hann var aðlaður 1959.
Snjallyrðið
I may not always love you
But as long as there are stars above you
You never need to doubt it
I'll make you so sure about it.
God only knows what I'd be without you!
If you should ever leave me
Though life would still go on believe me
The world could show nothing to me
So what good would living do me.
God only knows what I'd be without you!
Brian Wilson tónlistarmaður (God only knows)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2005 | 19:44
Engin fyrirsögn

Í morgun svaraði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, spurningum Oktavíu Jóhannesdóttur og Valgerðar Hjördísar Bjarnadóttur leiðtoga Samfylkingar og VG í bæjarstjórn Akureyrar, sem þær lögðu fram vegna lífskjarakönnunar Gallups fyrr á árinu. Lagði Kristján Þór fram svar sitt á fundi bæjarráðs í Ráðhúsinu við Geislagötu í morgun og fór þar fram umræða um svörin. Í ítarlegu svari bæjarstjóra við spurningum Oktavíu og Valgerðar er svarað þeim sex spurningum sem þær lögðu fyrir hann. Í lok svarsins kemur viðauki við svörin frá bæjarstjóra. Í svarinu kemur fram að það hafi verið ákvörðun IMG Gallup að spyrja eftir viðhorfum þeirra sem lentu í úrtakinu til framboðanna í bæjarstjórn Akureyrar. Nú hefur IMG Gallup svo sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er undir svar bæjarstjórans á Akureyri og sagt að tillaga að því að nota fylgi við stjórnmálaflokka hér í bæ sem greiningarbreytu hafi komið frá ráðgjöfum IMG Gallup. Við undirbúning þessarar könnunar mun, að sögn IMG Gallup, hafa verið höfð til hliðsjónar spurningalisti sem Gallup í Noregi mun hafa notað við bæjarfélagsrannsóknir þarlendis, sem gerðar hafa verið frá 1992 í rúmlega 70 sveitarfélögum.
Í lok svarsins segir bæjarstjóri svo: "Rétt er að undirstrika að allt frá því að Akureyrarbær lét framkvæma fyrstu lífskjarakönnunina hefur verið mikil samstaða um nauðsyn og gagnsemi þessa verkefnis meðal bæjarfulltrúa og þeirra starfsmanna sem um þessi mál fjalla. Niðurstöður þeirra lífskjarakannana sem Akureyrarbær gerði á árunum 2000 og 2002 hafa reynst afar mikilvægar sem upplýsingagjafar og stjórntæki fyrir bæjarstjórn, nefndir, starfsmenn og stofnanir bæjarfélagsins. Þær hafa verið nýttar með jákvæðum hætti til að bæta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði bæjarbúa. Umræða undangenginna vikna hefur hins vegar að mínu mati skaðað þennan kjarna málsins og gefið afar villandi mynd af markmiðum bæjarfélagsins með gerð slíkrar rannsóknar á búsetuskilyrðum á Akureyri. Þetta verkefni hefur verið gert tortryggilegt á allra handa máta með makalausri umræðu um að fjármunir skattborgaranna væru nýttir í þröngum pólitískum tilgangi. Ég tel þetta verkefni til muna mikilvægara fyrir bæjarfélagið en svo að það eigi að týnast í slíkri pólitískri sýndarmennsku. Í því ljósi og einnig þegar þess er gætt í hvaða farveg umræðan fór er eflaust farsælla að láta ógert að nota fylgi við stjórnmálaflokka sem bakgrunnsbreytu við úrvinnslu lífkjararrannsókna fyrir Akureyrarbæ."
Lífskjararannsóknin mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar við Geislagötu og á Amtsbókasafninu - bæjarbúar geta farið þangað og séð niðurstöður hennar. Merkilegt var svo að heyra fullyrðingu Oktavíu Jóhannesdóttur í svæðisfréttum í dag þar sem hún segir að það hafi komið úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins að upplýsingunum hafi verið haldið leyndum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir hjá þessum bæjarfulltrúa. Þó að Oktavía hafi verið í meirihlutasamstarfi við Kristján Þór og okkur sjálfstæðismenn á síðasta kjörtímabili hef ég enga trú á að hún hafi sambönd inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins og viti hvað gerist á fundum okkar. Það verður bara alveg að segjast eins og er að ég tel Oktavíu ekki vera marktæka að segja frá þeim fundum. Þetta er einfaldlega bara einn liður í pólitískri baráttu hennar þessa dagana. Reyndar væri það heiðarlegast fyrir þennan bæjarfulltrúa að tala hreint út og segja hvaðan hún hafi þessar upplýsingar. Ég veit að Oktavía er komin í harðan slag á heimavelli sínum við samherja sína, en hún þarf ekki að blanda okkur sjálfstæðismönnum í hann!

Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka og mótmælt þar væntanlegri virkjun og álveri á Austurlandi. Framan af voru þessi mótmæli mjög friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Svo fór að mótmælendurnir beittu afli gegn framkvæmdunum: hlekkjuðu sig við vinnuvélar, máluðu ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og voru einnig með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu. Lögreglan greip til sinna ráða og þeim var úthýst þaðan eftir að Prestssetrarsjóður felldi úr gildi leyfi fyrir tjaldbúðunum. Með því fór fólkið - en ekki langt, það hélt í staðinn í Skriðdal með tjaldbúðirnar. Það hefur greinilega ekki farið þeim að fara úr sviðsljósinu og þau hafa þurft að minna á sig enn á ný. Í dag skriðu þrettán einstaklingar (meðal þeirra einn íslendingur), sem dvalist hafa í tjaldbúðunum í Skriðdal, undir girðingu sem er í kringum vinnusvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði og komust óséðir að þremur 40 metra háum byggingakrönum. Þrír klifruðu upp í kranana og á einn þeirra var festur borði með áletruninni, "Alcoa græðir - Íslandi blæðir".
Eins og við er að búast greip lögregla til sinna ráða og handtók mótmælendurna. Tók reyndar nokkurn tíma að ná þeim mótmælendum sem voru í krananum en þeir síðustu komu niður um fimmleytið, eftir að lögregla hafði sótt þá upp með valdi. Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara bresku atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú verður bara lögreglan að taka á þessu með þeim eina hætti sem fær er. Það getur engan veginn gengið að atvinnumótmælendur sem flakka um heiminn og pikka sér upp fæting hvar sem þeir stinga niður fæti reyni að eyðileggja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan. Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna á staðnum og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið.

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Ordinary People. Þar er fjallað með snilldarlegum hætti frá því uppgjöri sem fylgir snögglegu andláti náins ættingja eða ástvinar og ekki síður því umróti sem á sér stað í innri sálarrótum við það uppgjör. Sögð er saga Conrad Jarrett sem lendir í slysi ásamt bróður sínum, Jordan Jarrett, á siglingu á báti í miklu óveðri. Báturinn ferst og Jordan drukknar í slysinu. Eftir situr Conrad með sálarflækjurnar sem allir lenda óhjákvæmilega í, í sömu aðstæðum: afhverju dó hann en ekki ég - hefði ég getað gert eitthvað til að bjarga viðkomandi - og síðast en ekki síst: heldur lífið áfram eftir svona áfall? Conrad reynir eftir slysið að svipta sig lífi, enda hefur hann ekki getað fengið sérfræðiaðstoð við að vinna úr vandanum. Foreldrar hans neita að horfast í augu við vandann sem Conrad á við að glíma. Móðirin, sem dýrkaði Jordan og hefur aldrei átt skap saman við Conrad, kennir honum um dauða hans og milli þeirra ríkir kalt stríð innan veggja heimilisins en faðirinn horfir þögull á, vanur að láta eiginkonuna stjórna heimilinu og sjálfum sér í leiðinni. Að því kemur að Conrad lendir í annarri sálarkreppu og fer það svo að hann hlýtur í gegnum skólann meðferð hjá sálfræðingi til að hjálpa honum að vinna úr vanda hans.
Sálfræðingurinn Tyrone C. Berger sér fljótt að mikill vandi steðjar að Conrad. Hann er í sjálfsmorðshugleiðingum, getur ekki unnið úr innri sálarflækjum og á í stórum vanda með innri fjölskylduaðstæður sínar. Hann sér að kaldur múr er milli hans og móður hans, sem var vondur fyrir en versnaði stórum með láti eldri bróðurins. Hann leggur því til atlögu við vandann og reynir að liðsinna Conrad í baráttu hans við að komast í gegnum áfallið. Þessi mynd er í einu orði sagt stórfengleg. Hún tekur á málefni sem oft hefur verið feimnismál að ræða en margir lenda í að lokum: uppgjöri við dauðsfall. Það getur farið fram með ýmsum hætti. Timothy Hutton á sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki Conrads og nær með snilldarbrag að túlka sálarflækjur hans og vandræði við að vinna úr þessum mikla vanda og áfalli sem fylgir dauðsfalli. Hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir leik sinn - myndin hlaut fern verðlaun, t.d. sem besta kvikmynd ársins 1980. Einnig fara Mary Tyler Moore og Donald Sutherland á kostum í hlutverkum foreldranna. Besta atriði myndarinnar er þegar að Conrad og móðir hans ná fyrst að tala heilt út um vandann á milli þeirra - svipmynd úr því sést að ofan. Vönduð mynd um lífsins flækjur sem vert er að mæla með. Það er mikil lífslexía að sjá þessa mynd.

Í dag var kynnt nýtt skipulag Og fjarskipta sem taka mun gildi þann 1. október nk. Verður nýtt nafn móðurfélagsins Dagsbrún hf. Vekur nafnið athygli, enda var í tæpa öld starfrækt verkalýðsfélag í Reykjavík með þessu táknræna nafni. Mun Eiríkur S. Jóhannsson verða forstjóri Dagsbrúnar en Árni Pétur Jónsson verður forstjóri Og Vodafone í stað Eiríks. Gunnar Smári Egilsson mun halda áfram sem forstjóri 365 miðla, dótturfélags Dagsbrúnar. Þótti mér þetta nafnaval skondið og verð ég fúslega að viðurkenna að ég gat ekki varist hlátri þegar ég heyrði að Eiríkur (sem er fyrrum forstjóri Kaldbaks og kaupfélagsstjóri KEA) væri orðinn höfðingi í Dagsbrún (fylgir þar væntanlega í kjölfar ekki ómerkari manna en Eðvarðs Sig og Guðmundar jaka). En að öllu gríni slepptu er rétt að spyrja hvort allir starfsmenn Baugsmiðlanna og Og Vodafone verði á Dagsbrúnartöxtum. :)

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, mun setja í kvöld handverkssýninguna á Hrafnagili. Hún verður haldin um helgina og lýkur að kvöldi sunnudags. Sýningin hefur sífellt þróast í gegnum árin og Eyjafjarðarsveit lítur nú svo á að tilgangur með Handverkshátíð sé ekki einungis að endurvekja áhuga þeirra ríku handverkshefðar sem áður var til staðar heldur einnig að skapa handverksfólki vettvang til að sýna og falbjóða vöru sína sem og að standa að ýmiss konar fræðslu tengdri handverki. Þema sýningarinnar er að þessu sinni "hafið" og því auðvitað við hæfi að sjávarútvegsráðherrann setji sýninguna. Umgjörð og dagskrá sýningarinnar ber þess keim að hafið er þema hennar. Hef ég jafnan farið á handverkssýninguna - mun ég að sjálfsögðu fara um helgina og kynna mér það sem þar er boðið upp á. Þessi sýning er ómissandi þáttur í tilveru okkar hér í firðinum.
Saga dagsins
1796 Hannes Finnsson biskup, lést, 57 ára að aldri - Hannes var Skálholtsbiskup í 19 ár, frá 1777.
1875 Danski rithöfundurinn og skáldið Hans Christian Anderson lést, sjötugur að aldri. Anderson var einn þekktasti rithöfundur Norðurlanda og samdi fjölda ógleymanlegra bóka og fjöldamörg góð ljóð.
1900 Elizabeth Bowes-Lyon fæddist - hún giftist Albert Bretaprins árið 1923. Saman eignuðust þau tvær dætur: Elizabeth og Margaret. Albert varð konungur Englands árið 1936 og tók hann sér titilinn George VI. Hann var konungur í 16 ár, eða allt til dauðadags árið 1952. Elísabet, dóttir þeirra, tók við krúnunni. Frá því var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var jafnframt vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar og var alla tíð rómuð fyrir tignarlegan glæsileika. Hún lést í Royal Lodge í Windsor, 30. mars 2002, 101 árs. Elísabet var jarðsett við hlið eiginmanns síns í St. Georgs kapellu.
1907 Ungmennafélag Íslands var stofnað - fyrsti formaður UMFÍ var Jóhannes Jósefsson glímukappi.
1982 Enska knattspyrnuliðið Manchester United lék við Val í vináttuleik á Laugardalsvelli í Reykjavík - United vann leikinn 5:1. Daginn eftir vann United svo KA í leik hér á íþróttavellinum á Akureyri, 7:1.
Snjallyrðið
Who knows how long I've loved you,
You know I love you still,
Will I wait a lonely lifetime,
If you want me to I will.
For if I ever saw you,
I didn't catch your name,
But it never really mattered,
I will always feel the same.
Love you forever and forever,
Love you with all my heart;
Loved you whenever we were together,
Love you when we're apart.
And when at last I find you,
Your song will fill the air,
Sing it loud so I can hear you,
Make it easy to be near you,
For the things you do endear you to me,
you know I will.
I will.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (I Will)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)