4.9.2006 | 22:18
Sterk nærvera Davíðs Oddssonar

Um fátt hefur verið meira rætt í dag en gott viðtal við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, í Sunnudagskastljósi Evu Maríu Jónsdóttur hjá RÚV í gærkvöldi. Mér fannst notalegt að sjá Davíð aftur í hlutverki viðmælanda í dægurmálaþætti. Ég verð fúslega að viðurkenna að ég hef saknað Davíðs úr umræðunni. Það var verulegur sjónarsviptir af Davíð úr stjórnmálunum og hefur verið tómarúm í pólitísku umræðunni alla tíð frá því að hann tilkynnti um ákvörðun sína um að hætta á sögulegum blaðamannafundi í Valhöll fyrir ári, 7. september 2005. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum.
Það var áhugavert að sjá viðtal Evu Maríu við Davíð. Mér líst reyndar vel á Sunnudagskastljósið hennar. Það á greinilega að vera notalegt og gott sunnudagskvöld með einum viðmælanda, innihaldsríkt og gott viðtal. Eva María er lagin að stýra góðum viðtölum, enda bæði mannlegur og beittur spyrill, skemmtileg blanda í raun. Það er gleðiefni að Eva María sé komin aftur með spjallþátt á prime time sjónvarpstíma. Hún á hvergi annarsstaðar heima en með alvöru þátt á alvöru tíma. Viðtalið við Davíð Oddsson var já áhugavert. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum, á auðvelt með að láta skoðanir sínar í ljósi með áberandi hætti og var umdeildur stjórnmálamaður allan sinn litríka feril. Það eru of fáar svona afgerandi týpur í stjórnmálum í dag að mínu mati, það eru of margir litlausir karakterar á þingi - þetta segi ég sem stjórnmálaáhugamaður.
Það var aldrei leiðinlegt að spá í stjórnmálunum meðan að Davíð Oddsson var áberandi á þeim vettvangi. Það er reyndar áhyggjuefni að mikið af yngra fólki í stjórnmálum velur sér annan starfsvettvang vegna þess að það er meiri snerpa og kraftur í atvinnulífinu, kannski líka meiri tækifæri og það er betur borgað. Mér finnst stjórnmálin hafa verið litlaus eftir að Davíð fór og fagnaði því að sjá hann aftur, hann er í essinu sínu þegar að hann talar um þjóðmál, þetta skipti var engin undantekning á því. Davíð hefur þá náðargáfu að hafa mikla nærveru, sem slíkur getur hann fangað athygli fólks víða að sama hvað hann er að tala um. Þar ræður miklu sterkur húmor hans og frásagnargáfa. Honum hefur enda meira að segja tekist að gera tal um stýrivaxti og verðbólgu áhugaverða í augum MeðalJóns eins og mín.
Mér finnst aðallega skemmtilegt að sjá hversu rosalega sterk viðbrögð pólitískra andstæðinga sinna gegnum tíðina Davíð Oddsson getur vakið, þó að hann gegni engum trúnaðarstörfum í íslenskum stjórnmálum nú. Það er enginn sem hefur eins sterka nærveru og getur stuðað jafnmarga og hann. Þetta er alveg einstaklega skemmtilegt að sjá. Davíð Oddsson var engum líkur að ná að vekja umræðu í samfélaginu og var lykilmaður í pólitíkinni hérna svo lengi að fáir ná hans töktum. Gaman af þessu, segi ég bara. Ég sé að margir vinstrimenn eru stuðandi argir eftir viðtalið og reyna að ná sér niður með því að tala um Davíð og segja hann kominn aftur í stjórnmálin. Sérstaklega athyglisvert fannst mér að sjá Ingibjörgu Sólrúnu talandi í þessa átt, en hún hefur verið eins og vængbrotinn fugl eftir að Davíð hætti.
Það hefur alltaf verið erfitt fyrir vinstrimenn að sætta sig við að Davíð Oddsson hefur málfrelsi eins og ég og þú - svo og allir aðrir í þessu landi. Þegar hann var í stjórnmálum gat hann stuðað andstæðinga sína svo mjög að þeir alveg umpóluðust og urðu rauðir af illsku. Þetta er náðargáfa og Davíð hefur hana enn ef marka má viðbrögðin við spjallinu. Hann var þarna enn og aftur í essinu sínu. Væntanlega hefði hann gengið lengra ef hann væri enn stjórnmálamaður. En ég verð alveg að viðurkenna að mér finnst ekkert óeðlilegt að hann hafi skoðanir, það var verið að sumu leyti að ræða mál úr valdatíð hans og stöðu þeirra núna og farið yfir ýmis atriði að auki. En það hefur reyndar alltaf verið með Davíð að hann er umdeildur. Það mun verða svo lengi sem hann lifir, sama þó hann væri í öðru starfi eða sestur í helgan stein.
Það var snjallt hjá Evu Maríu og Þórhalli Gunnarssyni, ritstjóra Kastljóss, að opna Sunnudagskastljós vetrarins með því að fá Davíð til viðtals. Það er eðlilegt að Kastljós velji sér viðmælendur sem tryggt er að fólk vilji horfa og hlusta á. Það er alveg greinilegt að þeim tókst það með vali á Davíð sem fyrsta gestinum í Sunnudagskastljós Evu Maríu, enda vart um annað rætt í dag en þetta viðtal í gærkvöldi. Það er svo sannarlega mál málanna og enn og aftur minnir Davíð Oddsson á sig og hversu auðveldlega hann getur snúið stjórnarandstöðunni um fingur sér og spunnið fyrir hana umræðuvefinn.
Það er enda enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson stuðar enn pólitíska andstæðinga sína í gegnum tíðina þó að hann hafi skipt um vettvang og yfirgefið stjórnmálin. Hann hefur alltaf verið þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum. Svo er enn, það er svo sannarlega vel.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2006 | 00:39
Haustar að hjá Blair í Downingstræti 10

Það er ekki hægt að segja annað en að breski Verkamannaflokkinn minni stjórnmálaskýrendur þessar vikurnar hreinlega á hinn blóðugasta vígvöll. Armar flokksins takast á orðið fyrir opnum tjöldum og án nokkurs hiks um pólitíska framtíð Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem leitt hefur flokkinn nú í rúm tólf ár. Í maí í vor voru níu ár liðin frá sögulegum kosningasigri flokksins. Þá varð Tony Blair húsbóndi í Downingstræti 10 eftir að hafa leitt flokk sinn til valda eftir 18 ára stjórnarandstöðu. Er Blair kom í Downingstræti 10 sem forsætisráðherra að loknum fundi með drottningu var hann hylltur af mannfjölda sem þar var saman kominn. Blair þótti þá táknmynd heiðarleika og nýs upphafs í breskum stjórnmálum. Hann naut mikils fylgis lengi vel og þótti hafa níu líf sem slíkur á valdaferlinum. Nú er öldin önnur.
Ef marka má fréttir í dag eru andstæðingar forsætisráðherrans innan þingflokks Verkamannaflokksins orðnir óþreyjufullir. Þess hafa sést skýr merki að forsætisráðherrann ætlar sér ekki að fara frá strax, þrátt fyrir vilja margra í gagnstæða átt. Í vor lýsti forsætisráðherrann því yfir í fyrsta skipti að hann hefði ekki hug á að sitja út allt kjörtímabil sitt, en áður hafði hann margoft lýst yfir að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil í stjórnmálum. Hefur verið tekist á um það seinustu mánuði hvenær að Blair muni hætta og þrýst á tímasetningu frá honum. Nú talar Blair með þeim hætti að hann verði við völd fram á næsta ár og hafi alls ekki í hyggju að hætta fyrir maímánuð 2007, þegar að áratugur er liðinn frá valdatöku flokksins. Það er augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður.
Tony Blair er orðinn óvinsæll og markvisst hefur hallað undan fæti hjá honum frá þingkosningunum í Bretlandi í fyrravor, er hann tryggði flokknum völdin þriðja kjörtímabilið í röð. Hann hefur enda verið í miklum átökum við andstæðinga sína innan flokksins sem hafa sterkari stöðu nú en áður. Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann orðið gerspilltan sem ómast í skoðanakönnunum. Skv. þeirri nýjustu telja yfir 70% landsmanna stjórn Blairs jafnspillta og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda. Í nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu.
Innan flokksins hefur lengi staðið einvígi milli hægri- og vinstriaflanna. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Tony Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári. Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Munu raddir þess efnis að hann verði að taka af skarið aukast til muna nú og nú þegar hafa allt að 80 þingmenn (óánægjuarmurinn) ljáð máls á að senda opið formlegt bréf til Blair með þessari ósk.
Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann vera við völd og mun hann geta komið málum sínum í gegn? Forsætisráðherrann varð fyrir miklu áfalli í vor, sennilega því mesta á 25 ára stjórnmálaferli sínum, þegar að flokkurinn beið afhroð í byggðakosningum og missti rúmlega 300 sveitarstjórnarfulltrúa sína. Hann svaraði tapinu með umfangsmikilli uppstokkun á stjórn sinni og setti hann t.d. Jack Straw og Charles Clarke út og gerði Margaret Beckett að utanríkisráðherra, fyrst kvenna, og John Reid að innanríkisráðherra. Í fyrra náði flokkurinn varnarsigri í þingkosningum. Það tókst þá með því að senda Gordon Brown með forsætisráðherranum á kosningafundi og sýna þá saman. Með því var skýrt auglýst að Blair var ekki lengur segull flokksins.
Það er öllum ljóst að óánægjan með forsætisráðherrann innan flokks og utan er opinber og dylst ekki lengur, þó lengi hafi henni verið haldið niðri. Það gat ekki gengið eftir seinustu þingkosningar er þingmeirihluti flokksins rýrnaði það mikið að óánægjuarmurinn var kominn í oddastöðu. Athygli hefur vakið að Gordon Brown, fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur. Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil.
Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins (Michael Heseltine skoraði Margaret Thatcher á hólm í leiðtogakjöri íhaldsmanna 1990). Gordon Brown skynjar að það verði ekki flokknum né honum til heilla að taka flokkinn yfir með þeim hætti sem sumir fylgismanna hans vilja. En kannski kemur að því að hjá því verði ekki komist.
Öllum er ljóst að það styttist óðum í að Blair verði að láta af embætti. Hvort að það gerist með innri uppreisn, eins og var í tilfelli Margaret Thatcher árið 1990, eða með því að hann víki sjálfviljugur er stóra spurningin. Framundan eru spennandi tímar, sem fyrr, í breskum stjórnmálum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2006 | 23:50
Formælingar og bölsögur á Hrafnabjörgum
Fram að þessum þætti taldi ég Jóhannes Jónsson eiginlega heiðursmann, sem þrátt fyrir vissar ógöngur ætti virðingu skilda og hefði þá reisn fyrir sig að bera að geta rakið af stillingu sögu sína og ógöngur. Það var greinilega mjög mikið ofmat á einum manni. Svona hatur og kom fram í þætti Sigríðar Arnardóttur er engum til framdráttar, allra síst þessum manni. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en eiginlega sorakjaft, svo slæmt var orðalagið. Kostulegast af öllu fannst mér þegar að hann gagnrýndi dómsmálaráðherra fyrir að uppnefna fjölmiðlaveldið sem hann á hlut í en gagnrýndi svo embættismann hjá embætti Ríkislögreglustjóra með uppnefningum fyrir það eitt að sinna sínu starfi. Að auki talaði hann um að snúa "vissa" einstaklinga úr hálsliðnum.
Þetta er sönn lágkúra og ekki neinum manni til sóma. Það er enda svo að þeir embættismenn sem Jóhannes er að níða með orðalagi sínu geta ekki komið í fjölmiðla sjálfir og varið sig starfs síns vegna. En mér fannst þetta þungt sjónvarpsefni og lágkúrulegt í alla staði - hafi mér fundist Jóhannes Jónsson fara illa að ráði sínu í fyrri þættinum skaut hann endanlega yfir markið í þeim seinni. Hér á mínu heimili sat fólk gapandi af undrun yfir orðalaginu og heiftinni sem sást. Og þetta er talið áhorfanlegt sjónvarpsefni rétt rúmlega 19:00 á sunnudagskvöldi. Þvílíkt og annað eins, segi ég bara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.3.2008 kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2006 | 21:01
Sunnudagspistill - 3. september 2006
.jpg)
Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Steingrímur J. Sigfússon talaði til vinstri á flokksráðsfundi VG um helgina og í þá átt að vinstriöflin ættu að taka höndum saman í kosningabandalagi fyrir kosningarnar að vori til höfuðs stjórnarflokkunum sem hafa verið við völd í þrjú kjörtímabil. Ekki virðist boðið hafa heillað aðra leiðtoga vinstrisins sem eru að reyna varfærnislega að færast undan því. En með því tókst Steingrími að ná forskoti á t.d. Samfylkinguna fyrir kosningarnar.
- Það hallar sífellt á Tony Blair og virðist andstaðan við hann innan flokks hans aukast með degi hverjum. Það haustar að á pólitískum ferli hans og búast má við að valdabaráttan þar fari brátt að verða flokknum þung.
- Formaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar eru nú á kostulegu ferðalagi á milli fjölmiðlanna. Farið er yfir þetta ferðalag flokksforystunnar og hversu lítið er um hana talað opinberlega.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2006 | 20:19
Hjúskapartal til vinstri
Um helgina hélt Vinstrihreyfingin - grænt framboð flokksráðsfund sinn. Flokkurinn er ekki gamall eins og flestir stjórnmálaáhugamenn vita. Hann var stofnaður skömmu fyrir þingkosningarnar 1999 og hefur allt frá stofnun verið leiddur af Steingrími J. Sigfússyni. VG og Samfylkingin urðu til í kjölfar endaloka gömlu vinstriflokkanna, en það mistókst eins og flestir vita að steypa þeim saman í algjöra samfylkingu vinstrimanna eins og margir stefndu að lengi vel. Í kosningunum 1999 hlaut VG sex þingmenn kjörna en hann missti einn þingmann í kosningunum 2003. Það var flokknum mikið áfall, eins og gefur að skilja. Síðan þá hefur Steingrímur J. mildast mjög í afstöðu sinni til Samfylkingarinnar og er nú að því er virðist til í hvað sem er til að mynda stjórn með Samfylkingunni. Metur það sjálfsagt sinn eina raunhæfa kost að því að komast til valda.
Skilaboð formanns VG á fundinum voru þau að vinstriflokkarnir ættu að fylkja sér saman í kosningabandalag til höfuðs stjórnarflokkunum sem leitt hafa landsstjórnina í þrjú kjörtímabil. Allt þetta lyktar einna helst af því að Steingrímur J. vilji komast í ríkisstjórn og ná einhverjum völdum. Skiljanlega er Steingrímur J. orðinn hundleiður á stjórnarandstöðu. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1983, rúm 23 ár. Í tvo áratugi af þessum tíma hefur hann verið í stjórnarandstöðu. Hann var aðeins í stjórnarliðinu árin 1988-1991 en þá var hann eins og flestir vita landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Á landsfundinum biðlaði Steingrímur J. mjög kröftuglega til Samfylkingarinnar, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eins og fyrr segir. Það gerði hann reyndar líka á landsfundi flokksins í október í fyrra.
Það virðist vera sama vinstra ákallið núna. En þó er staðan nokkuð breytt nú frá því sem var í október 2005, og reyndar í síðustu alþingiskosningum. Fylgi flokkanna mælist í könnunum Gallups nær hið sama. Þeir standa á pari í fylgismælingu. Þetta hefði þótt órafjarri eftir kosningarnar vorið 2003, þegar að Samfylkingin hlaut 20 þingsæti en VG hlaut 5, fimmtán sætum minna. Í könnun Gallups sem birt var á föstudag munaði aðeins tæpum þrem prósentustigum á flokkunum. Það sást enda í Kastljósi á föstudagskvöldi að Össur Skarphéðinsson var ekki brattur þar. Hann var ekki sáttur með fylgi Samfylkingarinnar og stöðu flokkanna, enda hefði kosningabandalag flokkanna nú það í för með sér að þeir yrðu væntanlega jafningjar í samstarfinu, en Samfylkingin ekki ofjarl VG, eins og svo lengi var.
Það hlýtur að jafnast á við martröð fyrir þá að vakna upp við svona fylgistap undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og að vera nú á pari við kommana í VG. Það var ekki draumsýn þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til forystu í Samfylkingunni fyrir rúmu ári. Það er reyndar spurningin hvort enn muni halda áfram að minnka munurinn eða hvort VG hreinlega muni toppa Samfylkinguna. Mér sýnist að Steingrímur J. sé fyrst og fremst að reyna að skora keilur og senda boltann yfir á Samfylkinguna. Enda sást það vel á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar eftir þetta fræga boð á föstudag að hún er ekki áfjáð í samstarf. Minnti hún á að VG hefði ekki viljað fylkja liði í Samfylkinguna um árið og hefði ennfremur bundið enda á hið langlífa R-listasamstarf í borginni sem ríkti þar í 12 ár.
Ingibjörg Sólrún er greinilega ekkert sérstaklega ginnkeypt í samstarf, enda myndi það væntanlega ekki þýða yfirburði Samfylkingarinnar og yrðu þeir væntanlega á pari þar, rétt eins og í öllum skoðanakönnunum þessar vikurnar. Það er svo einfalt. VG er mun brattari nú en í fyrra. Þá var það örvænting sem skein á bakvið tal um vinstristjórn og samstarf til vinstri. Nú er hann að kasta boltanum upp til að taka frumkvæðið í baráttunni. Hann er að stilla sér sem talsmanni samstarfs en vilji Samfylkingin ekki vinna með þeim á jafnræðisgrundvelli sé þessi möguleiki ekki endilega fyrsti kostur VG að vori eftir kosningarnar. Þetta er snilldarleikur hjá Steingrími J. og mjög athyglisverður að öllu leyti. Hann er með þessu að kasta athyglinni yfir á Samfylkinguna og mun kenna henni um að hafa klúðrað vinstrasamstarfi hafni þau þessu boði hans.
Eins og hann hefur réttilega bent á útilokaði Samfylkingin fyrir kosningarnar 2003 að tala til vinstri fyrir kosningarnar og þá var ekkert bandalag og ekkert rætt beint um samstarf. Steingrímur J. er því bara að búa í haginn fyrir sig og sína stöðu að kosningum loknum. Hann sér að lítill vilji er fyrir beinu bandalagi til vinstri og vill reyna að fá það skýrt frá Samfylkingunni sem vill halda öllu opnu. Reyndar þarf engan að undra þó að Steingrímur J. sé vígreifur þessar vikurnar. VG eflist sífellt og virðist hagnast mjög á stefnuleysi Samfylkingarinnar. Steingrímur virðist vera vinsælasti leiðtoginn á vinstrivæng stjórnmálanna skv. mati landsmanna og hefur markað sér sess sem slíkur í huga mjög margra stjórnmálaáhugamanna. Samfylkingunni hefur fatast flugið og nægir að líta á skoðanakannanir Gallups til að sjá hrapið hjá flokknum.
Spurning er hvernig vinstrisinnað bónorðið fari að lokum í Ingibjörgu Sólrúnu. Eins og fyrr segir fannst mér að hún væri ekki mjög ginnkeypt í þennan ráðahag og vildi skiljanlega hugsa sig aðeins betur um. Spurning er hvort að þau séu ekki samferða á vegferðinni til fortíðar þau Steingrímur og Ingibjörg. Mér hefur löngum fundist það. Ingibjörg Sólrún telur hinsvegar fátt gott berast sér frá vinstrislagsíðu stjórnmálalitrófsins. Sennilega skynjar hún að þar liggja ekki sóknarfærin. Afdönkuð vinstristefna að hætti VG er ekki það sem hún vill í raun, þó að það gæti tryggt henni völdin. En það gætu orðið dýrkeyptir samningar fyrir hana. Það er því varla undarlegt að Ingibjörg Sólrún horfi á allar aðstæður og hagnaðinn af bónorðinu mælt í áhrifum, völdum og pólitískum eignum áður en hún samþykkir að fara í eina sæng með Steingrími J.
Það myndi styrkja Sjálfstæðisflokkinn verulega ef að vinstrimenn myndu fylkja liði, enda tel ég að landsmenn vilji ekki vinstristjórn og vinstristefnu til valda. Fari svo að vinstriöflin stemmi sig saman tökum við því brosandi, vitandi það að kjósendur vita hvað þeir hafa nú í góðri stöðu þjóðfélagsins heilt yfir. En væntanlega mun óeining vinstrimanna halda áfram, það er mun líklegra að óeining þeirra verði þeim svo erfið að þeir geti ekki stemmt sig af og horft saman til verkefnanna á kosningavetri. Hvorugur vill festa sig hinum og þeir vilja halda öllu opnu. Óeining vinstrimanna er rómuð og það er gaman að fylgjast með henni, nú sem ávallt áður.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2006 | 17:21
Sögupistlar - umfjöllun um Geir

Í gær birtist á vef SUS ítarlegur pistill minn um Geir Hallgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins og SUS. Um er að ræða fyrsta pistilinn sem birtist á vef SUS, sem er undir minni ritstjórn, í vetur um sagnfræðileg efni. Á laugardögum á vetur á sus.is mun verða farið í sögubækurnar og rifjað upp ýmislegt eftirminnilegt, farið yfir æviágrip frægra forystumanna Sjálfstæðisflokksins og eða atburði í sögu flokksins sem eftirminnilegir teljast. Í fyrsta pistlinum er fjallað um ævi og stjórnmálaferil Geirs leiddi flokkinn á miklum átakatímum í sögu hans. Pistillinn birtist áður 16. desember 2005, en þann dag hefði Geir orðið áttræður. Fannst mér við hæfi að birta þennan pistil fyrstan.
Á næstu vikum munum við í ritstjórn vefsins birta pistla undir þessum flokki á laugardögum og er áhugavert að blanda pólitískri sögu tengdri flokknum saman við umfjöllun um pólitík dagsins í dag. Eftir viku mun ég fara yfir fjölmiðlamálið anno 2004 og viku síðar verður fjallað um stjórnarslitin 1988, þegar að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, sprakk, allt að því í beinni útsendingu í sjónvarpi með sögulegum hætti. Framundan eru svo fleiri pistlar og áhugaverð umfjöllun. Hafi lesendur eitthvað efni sem þeir vilja fá í þennan greinaflokk eða hugmyndir af einhverju skuli þeir endilega senda mér tölvupóst.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2006 | 14:41
Gott viðtal við Björn

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur gefið kost á sér í annað sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar, sem er leiðtogastóll í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Björn varð leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður sl. haust þegar að Davíð Oddsson lét af þingmennsku og hætti í stjórnmálum eftir sögulegan og glæsilegan stjórnmálaferil sinn. Björn hefur jafnan verið öflugur í stjórnmálum og þekktur fyrir að tala af krafti um menn og málefni og vera vinnusamur stjórnmálamaður og tala einbeitt á vef sínum.
Í dag var Björn í ítarlegu og efnisríku viðtali hjá Helga Seljan, frænda mínum, á NFS. Þar fóru þeir yfir fjölda mála og áttu gott spjall, sem ég hvet alla stjórnmálaunnendur til að horfa á.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)