Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Blöndal forseti Alþingis

Alþingi verður sett á morgun við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Þáttaskil eru í þinginu nú þegar að það kemur saman á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna. Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.

Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum ráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þingmanna. Segja má að Halldór hafi verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Þessi kosningabarátta er í mínum huga og annarra sem tók þátt þá tengdar gleðilegum minningum. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel á þessum sex árum.

Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.

Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því. Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans. Halldór stóð vörð um þetta á forsetastóli í þinginu.

Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum. En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.

Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.

Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum - á kosningavetri.

John G. Roberts sver embættiseið

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gær skipan John G. Roberts í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hlaut 78 atkvæði þingmanna, 22 greiddu honum ekki atkvæði sitt. Allir 55 þingmenn repúblikana studdu Roberts og 23 þingmenn demókrata studdu hann í kjörinu. Roberts sór embættiseið sem 17. forseti réttarins við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu síðdegis í gær. Það kom mér mest á óvart hversu margir demókratar studdu Roberts. Taldi ég að þeir yrðu innan við 70 þingmennirnir sem myndu styðja hann. Staða hans er mjög sterk og var allan tímann, meðan á staðfestingarferlinu stóð og til enda. Bush tókst að skipa íhaldsmann til starfans, en svo gjörsamlega clean að hann rann alveg í gegn. Andstaðan varð er á hólminn kom næstum því engin. Staða hans er því sterk. Nú hefur Roberts tekið við valdataumunum í réttinum. Arfleifð hans mun verða gríðarlega merkileg. Hann er ungur af forseta að vera, aðeins fimmtugur, og getur mótað hæstarétt Bandaríkjanna til fjölda áratuga og sett ævarandi mark á þjóðfélagið. Það eru allavega nokkur þáttaskil sem verða nú er Roberts er orðinn leiðtogi þessa áhrifamikla réttar. Nú er komið að næstu skipan í réttinn. Þar verða að ég tel mun meiri átök um skipan eftirmanns Söndru Day O'Connor, sem lætur brátt af embætti.

Það var án nokkurs vafa ein merkasta arfleifð Ronald Reagan að tilnefna Söndru til setu í hæstarétti árið 1981. Hún varð ekki aðeins fyrsta konan sem tók sæti í réttinum, heldur einn áhrifamesti dómari í seinni tíma sögu landsins og t.d. haft áhrif í þýðingarmiklum málum og oft haft oddaatkvæðið milli ólíkra stefna innan réttarins, verið semsagt milli íhaldsmannanna og liberal-istanna. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush muni skipa í hennar stað. Þar verða átökin að mínu mati - enda um að ræða eftirmann hins klassíska swing vote í réttinum. En þáttaskil hafa orðið í réttinum og nýr leiðtogi tekinn þar við völdum. John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og hann á að baki glæsilegan fræðimannsferil og sem dómari og lagasérfræðingur. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist.

Stykkishólmur

Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið í Stykkishólmi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu á Hótel Stykkishólmi, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson fráfarandi formaður SUS, setur þingið og flytur skýrslu stjórnar. Björn Ásgeir Sumarliðason formaður Sifjar, f.u.s. í Stykkishólmi, mun flytja stutt ávarp að því loknu. Eftir það er farið yfir reikninga félagsins. Eftir það fer fram kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfanefndar og kjörnefndar. Kl. 20:15 verður fundur með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á hótelinu. Að því loknu fer fram móttaka í boði Sifjar á hótelinu. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í grunnskólanum og afgreiðsla ályktana hefst seinnipartinn, eftir að lagabreytingar hafa verið teknar fyrir. Annaðkvöld verður hátíðarkvöldverður og dansleikur á hótelinu. Heiðursgestur verður Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Á sunnudag fer fram afgreiðsla ályktana og kosning formanns og stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund í Hólminum. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

James Dean

Hálf öld er í dag liðin frá því að bandaríski leikarinn James Dean lést í bílslysi, 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða. Í tilefni þess að hálf öld er nú liðin frá því að þessi ungi og heillandi leikari féll frá vil ég hvetja lesendur til að horfa á myndirnar þrjár sem skörtuðu honum í aðalhlutverki. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara.

Saga dagsins
1148 Bæjarbruni á Mýrum, Hítardalsbrenna - mannskæðasti bruni í sögu landsins. Rúm 70 fórust.
1946 Alþjóðlegur dómstóll í Nurnberg í Þýskalandi finnur 22 háttsetta nasista seka um stríðsglæpi.
1955 Leikarinn James Dean ferst í bílslysi í bænum Cholame í Kaliforníu, 24 ára að aldri. Dean lék á skömmum leikferli sínum í þrem stórmyndum: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant, sem
var frumsýnd skömmu eftir lát hans. Dean varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar fólks um allan heim. Almennt talin hin eina sanna ímynd hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns.
1966 Ríkissjónvarpið hóf útsendingar - dagskráin hófst formlega með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Fyrst í stað var sjónvarpað tvo kvöld í viku og þá tvær til þrjár klukkustundir í einu.
1996 Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem stóð í rúman hálfan mánuð. Eldstöðin sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn saman í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mjög mannvirki. Er þetta talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld. Einungis, Kötlugos 1918, Heklugos 1947 og Surtseyjargos 1963, voru stærri en gosið.

Snjallyrðið
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Þó að liggi leið mín um langan veg
aldrei augnanna þinna eldi gleymi ég.

Þau minna á fjallavötnin fagurblá,
fegurð þá einn ég á.
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (Bláu augun þín)

Undurfagurt ljóð við eitt fallegasta dægurlag landsins á tuttugustu öld.


Engin fyrirsögn

Klukkið - fimm staðreyndir um SFS
Stefán Friðrik Stefánsson

Sá siður er nú algengur í bloggheimum að klukka hinn og þennan vin sinn eða félaga í netheimum og fá þá til að tjá sig á persónulegu nótunum. Þetta er í senn bæði undarlegur og stórskemmtilegur leikur sem þarna er um að ræða. Í gær gerðist það að Friðbjörn Orri Ketilsson klukkaði mig á sínum góða bloggvef. Tek ég að sjálfsögðu áskoruninni. Ég nefni því hér fimm atriði varðandi mig sem eru á sumra vitorði - en ekki allra.

1. Ég er ættaður að hluta til að austan. Fáir sem þekkja mig tengja mig þó við Austfirðina. Frá því að ég man eftir mér hefur mér verið mjög annt um Austfirðina og farið þangað oft og ræktað vina- og fjölskyldubönd þangað. Í sumar fór ég þangað oftar en nokkru sinni, bæði vegna flokksstarfa og persónulegra tengsla við góðan vin. Þá lærði ég þá list að slappa vel og innilega af í austfirsku fjallalofti og horfa á austfirska náttúrufegurð með öðrum augum en oft áður. Það er virkilega gaman að fara austur í sumarblíðunni og njóta kyrrðar og fegurðar svæðisins. Ekki er síðra að fara að vetrarlagi og horfa á vetrartóna austfirskra byggða speglast í sjónum. Þeir sem hafa ekki farið austur verða að skella sér. Ég ætla mér að fara þangað oft á næstu árum!

2. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður. Á fleiri hundruð kvikmynda og nýt þess í botn að horfa á yndislegar kvikmyndir - það er sannkölluð list. Sérstakan áhuga hef ég á gömlum perlum kvikmyndasögunnar. Þegar ég fór til Bandaríkjanna fyrir tæpu ári voru vinir mínir og kunningjar flestir að fara í búðir í verslunarmiðstöðum til að kaupa utan á sig föt eða spá í einhverjum slíkum hlutum. En ekki Stefán Friðrik Stefánsson, ónei - ég fór inn í aðal DVD-verslunina á staðnum og sökkti mér ofan í eðalmyndir, sem eru sumar hverjar ekki til hérna heima. Kom vel hlaðinn úrvalsmyndum út - ef eitthvað er ástríða mín eru það kvikmyndir og menningin á bakvið þær - frá a-ö. Sumir segja svo að það sé skemmtilegt að horfa á myndir með mér - veit ekkert um það, en vona það þó. :)

3. Ég er mikill áhugamaður um matseld. Hef mjög gaman af því að elda, þ.e.a.s. þegar ég fæ matargesti eða hef einhverja í kringum mig. Það er fátt leiðinlegra en að elda bara fyrir sjálfan sig, hreint út sagt. En þegar ég fæ gesti hef ég mjög gaman af að töfra fram eitthvað gott. Það er viss list að elda og njóta góðs matar - mesta listin er stemmningin á bakvið matreiðsluna. Uppáhaldsmaturinn minn er hiklaust kjöt og karrý - ég var mjög stoltur af sjálfum mér þegar að amma mín hafði kennt mér listina á bakvið þá matreiðslu fyrir margt löngu og enn stoltari sennilega þegar ég eldaði það í fyrsta skipti - algjörlega einn. Það er ekkert betra en góður matur. :) Enn betra er að geta eldað og bjargað sér sjálfur að því leyti og kunna eitthvað meira en bara að sjóða egg. :)

4. Margir ættingjar mínir segja að ég hafi erft persónulega eiginleika langafa míns, Stefáns Jónassonar skipstjóra og útgerðarmanns á Akureyri. Stærsti kosturinn er gamansemi og kaldhæðni. Ég get verið mjög gamansamur og maður brandaranna þegar svo ber undir - eins og langafi Stefán. Hann gat verið hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og mér er sagt að ég geti verið mjög fyndinn þegar svo ber undir. Svo virðist ég líka hafa það frá honum að geta tekið miklar snerrur í skapköstum og svara oft fyrir mig með hvössum hætti ef að mér er sótt. Einhverjir kalla það galla - ég er ekki þeirrar skoðunar. Skap er gott þegar svo ber undir. Það er að mínu mati stór kostur að geta varið sig þegar að manni er sótt - af krafti. Svo hef ég það líka frá langafa að geta talað óendanlega mikið og vera mjög íhaldssamur - eru þetta ekki allt kostir? :)

5. Ég þarf varla að taka það fram að ég hreinlega elska Akureyri og allt sem tengist Eyjafirði - þeim stað sem ég hef búið á nærri alla mína ævi. Fáir vita hinsvegar að ég er mikill unnandi sólarlags í Eyjafirði. Það er ekkert skemmtilegra að vori en að fara út að Ólafsfjarðarmúla, gangamunanum í göngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, og horfa þar á fagra tóna eyfirsks vors. Ég held hreinlega að það jafnist ekkert á við það að standa þar og horfa á sanna fegurð. Ja, nema þá að lesa um sanna eyfirska fegurð í ljóðanna töfrum meistara Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi - þess ljóðskálds sem ég met manna mest.

Miðnætursól í Eyjafirði - sumarið 2005

Hér að ofan er stemmningsmynd úr Eyjafirðinum sem tekin var í júlí 2005 - þetta er fallegt sjónarhorn. En að lokum þarf ég auðvitað að klukka nokkra aðila í bloggheimum sem ég vil heyra frá. Sennilega eru flestallir búnir að fá boð um að gera það. En wtf hvað með það - ég ætla að klukka Þorstein Magnússon, Gylfa Ólafsson og Hrafnkel A. Jónsson á Egilsstöðum.

Saga dagsins
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - þá var sent fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng.
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - Auður Eir vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997.
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls I páfa. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga. Hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli í 27 ár, árin 1978-2005.
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáverandi borgarstjóra.
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Nefndin lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra.

Snjallyrðið
Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður,
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður
verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja
eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja
að sumarið líður allt of fljótt.

Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur hjá blómunum,
er rökkvar, ráðið stjörnumál,
gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niðrað strönd.
Fundið stað,
sameinað
beggja sál.

Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Ég gái út um gluggann minn.
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig alls staðar,
þá napurt er.
Það næðir hér
og nístir mig.
Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari (1945-1978) (Söknuður)

Virkilega fallegt ljóð - það varð ódauðlegt í flutningi höfundar, skömmu áður en hann lést sviplega.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Þáttaskil urðu í íslenskri stjórnmálasögu í gær þegar að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét af ráðherraembætti og þingmennsku. Með því lauk í raun stjórnmálaferli Davíðs. Hann mun þó gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum fram að landsfundi um miðjan októbermánuð. Eftir að teknar höfðu verið hefðbundnar myndir af nýrri ríkisstjórn héldu nýjir ráðherrar á nýja vinnustaði sína og tóku þar við lyklavöldum. Davíð Oddsson tók á móti eftirmanni sínum í utanríkisráðuneytinu. Er óhætt að segja að Geir hafi fengið nóg af lyklum og fylgihlutum við að taka við húsbóndavaldinu á Rauðarárstígnum. Þaðan fór Geir á sinn gamla vinnustað og afhenti Árna lyklavöldin þar. Eitthvað þótti fólki það fátæklegri skipti, enda bara einn lykill um að ræða. Var skondið þegar að Geir tók fram með gleðisvip að þetta væri nú fátæklegt þarna í fjármálaráðuneytinu. Þaðan fór svo nýr fjármálaráðherra yfir í sjávarútvegsráðuneytið og afhenti eftirmanni sínum, Einari Kristni, völdin þar. Vakti Einar reyndar athygli á því að kippan að ráðuneytinu væri merkt Slysavarnarfélaginu og fannst honum það skondið mjög. En svona gekk rúnturinn á milli ráðuneytanna í miðbænum. Mikil þáttaskil fylgdu þessum tilfærslum og breytingum öllum. Eftir lyklaskiptin hafði einn litríkasti stjórnmálamaður landsins seinustu áratugina yfirgefið ríkisstjórn landsins eftir langan og mjög farsælan feril.

Í gærkvöldi var Davíð svo gestur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Kastljósinu. Var farið þar víða yfir og um margt rætt. Var það virkilega áhugavert spjall. Hafði ég gaman af að horfa á þetta viðtal. Þar var Davíð algjörlega í essinu sínu: fyndinn, rólegur og með skarpa sýn á þjóðmálin, eins og ávallt. Er enginn vafi á því að Davíð er fremsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf hans að mínu mati. Í mínum huga er hann fremsti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Valdaskeið hans er enda gríðarlega öflugur tími og hann leiddi það tímabil af miklum krafti og var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill og hann var í þann eina og hálfa áratug sem Davíð leiddi hann. Nú er það þeirra sem taka við völdunum innan flokksins að tryggja að flokknum farnist vel á komandi árum. Tryggja að við náum að stýra þjóðarskútunni af krafti við breyttar forsendur. Breytingum fylgja ný tækifæri - svo er í þessu tilfelli sem öðrum.

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé samhentur. Þetta á ekki síður við um ungliðahreyfingu flokksins. Þetta hef ég haft alla tíð að markmiði og er tilbúinn til að vinna með öllum þeim sem vilja styrkja og efla Sjálfstæðisflokkinn. Við eigum að vinna saman að mikilvægum verkefnum - við sem erum í þessum flokki og höfum valið okkur þar pólitískt heimili eigum að tryggja að okkur farnist vel. Það gerum við fyrst og fremst með því að styrkja flokkinn til komandi verkefna - tveggja kosninga á næstu árum. Að því mun ég vinna, nú sem ávallt áður. Í gær sendi stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skeyti til Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, og þakkaði honum forystu sína af hálfu flokks og þjóðar á undanförnum áratugum. Þótti okkur rétt að kveðja Davíð með þessum hætti og vildum ennfremur þakka honum persónulega í nafni okkar og félagsins fyrir farsæla forystu við þau þáttaskil að hann lætur af ráðherraembætti og forystu í Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Benediktsson

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist lausnar úr stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra, sem skipuð var í byrjun ársins. Var hann varaformaður nefndarinnar og hafði verið mjög áberandi í störfum hennar undanfarna mánuði. Nú þegar Geir er orðinn forystumaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn og tekur bráðlega við formennsku flokksins er rétt af honum að fela öðrum verk sín í nefndinni. Í stað Geirs hefur verið skipaður í nefndina Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar Alþingis og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Auk Bjarna sitja í nefndinni þau Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, sem er formaður, Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Eins og fram hefur komið er miðað að því að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nefndin vinni að, verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt hefur verið að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóriLogi Bergmann Eiðsson

Það er óhætt að segja að mikil tíðindi séu að eiga sér stað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Brátt munu fréttamiðlar 365 breytast með tilkomu Fréttavaktarinnar, fyrstu íslensku fréttastöðvarinnar. Verður sent út þar samfellt í um tuttugu klukkutíma á dag fréttum og fréttatengdu efni. Með nýrri stöð og öðrum áherslum í fréttastefnu og útsendingum á fréttum þarf meiri mannskap. Það kom mörgum á óvart í gær að heyra af því að Logi Bergmann Eiðsson varafréttastjóri Sjónvarpsins, hefði verið ráðinn einn af aðalfréttalesurum 365, bæði á Stöð 2 og Fréttavaktinni. Er honum ennfremur ætlað að stjórna fréttatengdum þáttum á næstunni hjá fyrirtækinu. Kom þetta mörgum að óvörum einkum í ljósi þess að í síðustu viku var tilkynnt að Logi Bergmann myndi ritstýra nýjum dægurmálaþætti Sjónvarpsins, Opið hús, sem hefur göngu sína þann 10. október nk. og mun leysa Kastljósið, Ópið og Mósaík af hólmi. Í dag var svo tilkynnt að Þórhallur Gunnarsson, sem var umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð 2, stýri dægurmálaþætti Sjónvarpsins. Í dag var svo ennfremur tilkynnt að Þórir Guðmundsson hefði verið ráðinn varafréttastjóri Stöðvar 2, en hann var fréttamaður Stöðvar 2 í áratug, 1986-1996. Nóg af breytingum á fjölmiðlamarkaði semsagt.

Angela Lansbury í hlutverki Jessicu Fletcher

Eflaust muna allir vel eftir Jessicu Fletcher, sakamálarithöfundinum í Cabot Cove í Maine, sem bæði rannsakaði sjálf morðmál og skrifaði um þau með listilegum hætti. Hún var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar heitið Murder, She Wrote. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í rúman áratug, árin 1984-1996. Jessica var túlkuð með stórfenglegum hætti af bresku leikkonunni Angelu Lansbury. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Jessicu fylgdu manni í mörg ár. Á ég þónokkurn fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá, rétt eins og þættina um Matlock, sem ég minntist á um daginn. Þetta voru bestu sakamálaþættir síns tíma. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Í gærkvöldi fór ég í geymsluna eftir að hafa rifjað upp stundirnar með Matlock og horfði á nokkra þætti af Morðgátu, eins og þættirnir hétu hér heima á Íslandi. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Blair séð í skondnu ljósi

Í gær hélt Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins. Áttu margir von á að Blair myndi þar tilgreina hvenær hann myndi láta af leiðtogaembætti og hætta í stjórnmálum. Fyrir liggur að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum eftir fimm ár en hefur ekki sagt heldur neitt um hvenær hann hættir nákvæmlega. Ræðan sem margir töldu að yrði uppgjör og tímasetning fyrir tilkynningu um að hætta varð að öflugri og beittri stefnuræðu næstu ára. Ræðan var allavega ekki með vott af svanasöng hjá Blair. Mikið hefur verið rætt um hvenær að Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, muni taka við af Blair en greinilegt er að það gerist ekki strax. Skopmyndateiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á ræðunni, eins og sést hér að ofan.

Saga dagsins
1988 Ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum - var fyrsta vinstristjórnin
í sögu landsins sem mynduð var án þingkosninga. Stjórn Steingríms sat með breytingum allt til 1991.
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 manns fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við því.
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001.
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984.
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999.

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)

Ein af ljóðaperlum Davíðs frá Fagraskógi - virkilega fallegt ljóð.


Engin fyrirsögn

Davíð lætur af ráðherraembætti -
þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum


Davíð Oddsson

Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét í dag af ráðherraembætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Jafnframt lét Davíð af þingmennsku í dag. Er hann yfirgaf Bessastaði á fjórða tímanum í dag var lokið merkum ferli Davíðs sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hægt er að fullyrða að nýtt pólitískt landslag blasi við nú þegar að Davíð lætur af ráðherraembætti. Hann hefur enda seinustu áratugina verið miðpunktur íslenskra stjórnmála. Davíð hefur setið í ríkisstjórn frá 30. apríl 1991. Hann var forsætisráðherra samfellt í þrettán ár, allt til 15. september 2004 og hefur síðan setið sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins, en flokkarnir hafa unnið saman í ríkisstjórn frá vorinu 1995. Davíð mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans eftir rúman hálfan mánuð. Með þessum þáttaskilum sem áttu sér stað í dag lýkur þriggja áratuga löngum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar. Mikil þáttaskil eru fólgin í því að hann láti af ráðherraembætti. Hann setið í ríkisstjórn samfellt í tæpan einn og hálfan áratug og verið forystumaður ríkisstjórnar af hálfu flokks síns allan þann tíma. Hann hefur ennfremur þann einstaka árangur í íslenskri stjórnmálasögu að baki að hafa setið samfellt í embættum borgarstjóra og ráðherra í 23 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu.

Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagt hefur til verka og notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin.

Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins. Við sem höfum alist upp við forystu Davíðs og unnið í Sjálfstæðisflokknum til fjölda ára undir forystu hans erum honum mjög þakklát fyrir störf hans og forystu. Það verða mikil þáttaskil nú þegar stjórnmálaferli hans lýkur. Íslenskt samfélag gjörbreyttist í þrettán ára forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Til sögunnar komu ný tækifæri - ný sóknarfæri hér á Íslandi. Það er til marks um hversu farsæll Davíð hefur verið að hann hefur samfellt setið í 23 ár sem borgarstjóri og ráðherra. Hann hefur notið stuðnings kjósenda og haft traust þeirra í gegnum öll verkefni þessara ára og pólitísku forystuna sem hann hefur veitt. Við þessi miklu þáttaskil vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Takk Davíð!

Geir H. Haarde utanríkisráðherra

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum í dag. Geir hefur gefið kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í október og er alveg ljóst að hann mun taka við forystu flokksins af Davíð á landsfundi. Geir er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hafði verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár er hann lét af því embætti í dag. Nú hefur Geir semsagt tekið við embætti utanríkisráðherra og tekið við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður fróðlegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum, nú þegar hann tekur við utanríkismálunum og fljótlega við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem óneitanlega bíður hans er hann tekur við forystu Sjálfstæðisflokksins af farsælasta foringja okkar flokksmanna, Davíð Oddssyni.

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna M. Mathiesen í dag. Einar Kristinn er mjög reyndur stjórnmálamaður og hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing í kosningunum árið 1991 og hefur setið þar síðan, til ársins 2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi og síðan fyrir Norðvesturkjördæmi. Hann sat sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tvö ár, frá vorinu 2003 til gærdagsins. Hann var formaður samgöngunefndar Alþingis 1995-1999, formaður sjávarútvegsnefndar 1999-2003 og formaður efnahags- og viðskiptanefndar í nokkra mánuði árið 2003 og hefur setið í fjölda þingnefnda. Einar Kristinn hefur verið áberandi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til fjölda ára og notið mikils trausts í störfum sínum. Það er tímabært að hann taki sæti í ríkisstjórn og er viðeigandi að hann gegni sjávarútvegsráðuneytinu, vegna þekkingar sinnar á málaflokknum. Það eru vissulega þáttaskil að Vestfirðingur taki við ráðuneytinu en það hefur ekki gerst síðan að Matthías Bjarnason gegndi embættinu á áttunda áratugnum. Ég vil nota tækifærið og óska Einari góðs í störfum sínum í ráðuneytinu.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra

Árni M. Mathiesen tók í dag við embætti fjármálaráðherra af Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árni hefur verið á þingi til fjölda ára. Hann sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi árin 1991-2003 og frá þeim tíma fyrir Suðvesturkjördæmi. Hann hefur verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á kragasvæðinu frá árinu 1999, en þá vann hann spennandi prófkjör flokksins í hinu gamla Reykjaneskjördæmi. Er hann sonur Matthíasar Á. Mathiesen fyrrum ráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Var Matthías fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar árin 1974-1978. 27 árum eftir að Matthías lætur af embætti fjármálaráðherra tekur því sonur hans við embættinu. Eru þeir fyrstu feðgarnir sem gegna embætti fjármálaráðherra. Verður fróðlegt að fylgjast með Árna í störfum sínum í ráðuneytinu. Í næstu viku er komið að fyrsta lykilverkefni hans í embætti, en hann mun þá leggja fram fjárlagafrumvarp ársins 2006 og mæla fyrir því á þingi. Ég vil nota tækifærið og óska Árna til hamingju með fjármálaráðherrastólinn og óska honum heilla í verkum sínum á nýjum vettvangi. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum í nýju hlutverki við að kynna fjárlögin í næstu viku.

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður

Á þingflokksfundi í Valhöll í gær var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörin formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í stað Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, sem gegnt hefur formennsku í þingflokknum frá vorinu 2003. Arnbjörg hefur setið á þingi í áratug. Hún var alþingismaður Austurlandskjördæmis árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004. Arnbjörg er mjög vinnusöm og hefur unnið af krafti, verið í fjölda nefnda og leitt fjölda verkefna af hálfu flokksins þann áratug sem hún hefur setið á þingi. Abba nýtur mikils trausts innan flokksins og meðal þingmanna í þingflokknum. Það sannast með þessu vali. Ég fagna því að henni sé treyst fyrir formennsku í þingflokknum okkar. Hún á það svo sannarlega skilið. Abba er heilsteypt og traust kona sem ég hef unnið með í nokkurn tíma hér í kjördæminu. Fagna ég mjög því að hún leiði þingflokkinn næstu árin. Óska ég henni innilega til hamingju með þetta.

Saga dagsins
1968 Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London - varð einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar.
1981 Sr. Pétur Sigurgeirsson, 62 ára sóknarprestur á Akureyri og vígslubiskup á Hólum, kjörinn biskup Íslands. Pétur hlaut aðeins einu atkvæði fleira í biskupskjöri en sr. Ólafur Skúlason. Pétur gegndi embætti biskups allt til ársins 1989, en þá var Ólafur Skúlason kjörinn eftirmaður hans sem biskup.
1996 Talibanar ná fullri stjórn í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og hengdu Mohammad Najibullah fyrrum forseta landsins, og samverkamenn - stjórn Talibana var svo felld af Bandaríkjamönnum 2001.
1998 16 ára viðburðaríkum valdaferli Helmut Kohl sem kanslara Þýskalands lýkur formlega, er Gerhard Schröder tekur við embætti kanslara í Þýskalandi. Kristilegi demókrataflokkurinn tapaði í þingkosningum fyrir Sósíaldemókrataflokki Schröders. Kohl hætti í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum.
1999 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, datt af hestbaki og axlarbrotnaði þegar hann var í útreiðartúr með vinkonu sinni, Dorrit Moussaieff - þau giftust á sextugsafmæli hans, 14. maí 2003.

Snjallyrðið
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar.
Þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar,
gef mér kærleik - gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi Drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér,
ljóma í sálu minni.
Gísli Gíslason frá Uppsölum í Selárdal (1907-1986) (Lífsins kærleikur)

Fallegt ljóð eftir einbúann Gísla frá Uppsölum sem varð landsfrægur þegar að Ómar Ragnarsson gerði sjónvarpsþátt um hann á níunda áratugnum. Ljóð frá hjartanu - innstu rót tilverunnar.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um helgina. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars lét á kjördæmisþinginu af formennsku í kjördæmisráðinu. Hann var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi eystra og fyrsti formaður í kjördæmisráðinu í hinu nýja Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2001. Í stað Gunnars var Guðmundur Skarphéðinsson á Siglufirði kjörinn formaður kjördæmisráðsins. Guðmundur var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur verið gjaldkeri stjórnar kjördæmisráðsins í Norðausturkjördæmi frá stofnun þess árið 2001. Á kjördæmisþinginu stofnuðum við ungliðar í Norðausturkjördæmi kjördæmisfélag okkar. Var ég kjörinn fyrsti formaður þess. Framundan eru þar mörg mikilvæg verkefni, eins og ég minnti á í ræðu sem ég flutti á kjördæmisþinginu.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni umsóknar Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég lít svo á að þetta mál sé komið á miklar villigötur - og var það orðið illa strandað og vandræðalegt fyrir. Möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. Við eigum að horfa í aðrar áttir - og eyða milljarði af peningum okkar í eitthvað þarfara en lobbýisma og flottræfilshátt í auglýsingabransa.

- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu okkar sjálfstæðismanna í borginni, í kjölfar nýrrar skoðanakönnunar. Mælist flokkurinn þar með rúmlega 56% fylgi. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum.


Kjördæmisþing að Mývatni

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldið í Skjólbrekku í Mývatnssveit um helgina. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Fundarstjóri var Hrafnkell A. Jónsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Fljótsdalshéraði og var Anna Blöndal stjórnarmaður í fulltrúaráðinu hér á Akureyri, fundarritari. Í stjórn kjördæmisráðs voru kjörin Guðmundur Skarphéðinsson, Gunnar Ragnars, Jónas Þór Jóhannsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Jón Helgi Björnsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var Guðmundur kjörinn formaður í stað Gunnars Ragnars sem áfram verður í stjórn. Var ég endurkjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins, en ég tók þar sæti á kjördæmisþinginu fyrir tæpu ári. Mun ég því verða virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni, eins og verið hefur. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Halldórs Blöndals forseta Alþingis.

Heiðursgestur okkar var Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Flutti hann ræðu á kjördæmisþinginu og talaði um þau verkefni sem framundan eru í flokksstarfinu. Jafnframt fjallaði hann um mál málanna á þessum degi sem hann kom á okkar fund: Baugsmálið og birtingu tölvupósta í Fréttablaðinu og umfjöllun um tengd málefni. Var mjög ánægjulegt fyrir okkur að fá Kjartan Gunnarsson til okkar á kjördæmisþingið og heyra í honum um það sem framundan er. Var mjög gaman að ræða við hann og fara yfir stöðu mála hvað varðar flokksstarfið og tengd málefni. Eins og öllum er kunnugt mun Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, láta af ráðherraembætti og þingmennsku á þriðjudag. Hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í formannsstól Sjálfstæðisflokksins á landsfundi eftir þrjár vikur. Á fundinum fjölluðu ræðumenn um feril Davíðs og verk hans í stjórnmálum. Er við hæfi að við minnumst verka hans í þágu flokksins við þau þáttaskil að hann hættir í stjórnmálum. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Þetta kjördæmisþing var eins og öll hin fyrri að því leyti.

Á kjördæmisþinginu flutti ég ávarp og fór yfir þau mál sem ég taldi mikilvægast að fara yfir. Gerði ég í upphafi að umfjöllunarefni að þáttaskilin í flokknum mörkuðu mikil tímamót en í þeim fælust viss tækifæri til að efla flokkinn og sækja fram á nýjum forsendum. Minntist ég á það að framundan væru tvær kosningar – mikilvægt væri að þær myndu vinnast vel og sameinaðar af krafti af okkar hálfu. Tilkynnti ég í ræðu minni um þá ákvörðun formanna ungliðafélaga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að stofna ungliðahreyfingu flokksins í kjördæminu. Er það mikilvægt verkefni – það skiptir lykilmáli að efla tengslin milli svæðanna í kjördæminu og vinna af miklum krafti í öllu flokksstarfinu. Sóknarfærin liggja að sjálfsögðu í því að virkja ungt fólk til verka og hafa vettvang til að vinna saman á kjördæmavísu. Var ég kjörinn fyrsti formaður ungliðahreyfingar flokksins í Norðausturkjördæmi. Með mér í stjórn sitja formenn annarra ungliðafélaga í kjördæminu og stjórnarmenn kjördæmisins í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Verður Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs í S-Múlasýslu, varaformaður stjórnarinnar, Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir formaður Lagarins á Fljótsdalshéraði, er gjaldkeri, og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir formaður Óðins á Seyðisfirði, var valin ritari.

Hlakkar mér mjög til að vinna með þeim og öðrum sem sæti eiga í stjórn í þeim verkefnum sem framundan eru í starfinu. Það skiptir okkur mjög miklu máli að hafa þennan vettvang til verka og geta þar unnið saman, talað saman og sinna þeim lykilmálum sem við teljum mikilvægt að leggja áherslu á. Fann ég á fundinum hversu fólk var ánægt með þessa ákvörðun okkar forystufólks ungliðanna í Norðausturkjördæmi. Næg verkefni eru framundan – kraftmikil vinna sem ég vil taka þátt í og við öll. Við viljum efla heildina okkar og teljum okkur sýna öðrum flokksmönnum gott fordæmi með því að taka upp öflugt samstarf og fara í þau verkefni sem blasa við. Rúmlega eitt og hálft ár eru til þingkosninga í mesta lagi – kosið verður væntanlega í maímánuði 2007. Við erum til í slaginn – viljum vinna af krafti og teljum mikilvægt að taka saman höndum. Stofnun þessa félags er okkar leið til að segja flokksmönnum, ekki bara hér í kjördæminu, heldur um allt land að ungliðahreyfingin skipti máli. Hún verði að vera virk og kraftmikil og umfram allt frjór vettvangur öflugs starfs í Sjálfstæðisflokknum á komandi árum – sem ávallt áður í 75 ára sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Áttum við mjög góða kvöldstund svo eftir málsverðinn. Í dag er góðvinur minn, Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs, tvítugur og héldum við vel upp á það á hótelinu í gærkvöldi. Var gaman að ræða saman eftir matinn við Gunnar Ragnar, Arnbjörgu, eiginmann hennar Garðar Rúnar Sigurgeirsson, og góðvinkonu mína Guðlaugu Sigurðardóttur, sem hefur verið virk í flokksstarfinu hér á Akureyri til fjölda ára. Vægt er til orða tekið að veðrið hafi verið kalt á þessum haustdegi að Mývatni. Ekki var neitt svosem að færðinni austur í Mývatnssveit. Hægt að fara Víkurskarðið þá og allt að mestu leyti ágætt. Meðan að fundurinn stóð kom snjóbylur og kalsaveður. Var því gott að geta bara gist að Hótel Seli og haft það gott þar um kvöldið. Er haldið var svo af stað í gærmorgun var kominn vænn snjór þarna fyrir austan.

Gekk brösuglega fyrir okkur Gunnar Ragnar að komast aftur til Akureyrar. Vorum við í samfloti með Öbbu, Garðari Rúnari og Gullu á leiðinni til baka. Víkurskarðið var þá orðið ófært og fara varð fyrir Dalsmynnið, eins skemmtilegt og það er, eða hitt þó heldur. Nú er leitt að Vaðlaheiðargöngin séu ekki komin til sögunnar - en þau eru komin á kortið sem betur fer og verða brátt að veruleika. En það gekk vel að komast heim, þó seinlegt væri. Merkilegt að það sé bara 25. september og komin þessi kuldatíð. En í heildina var helgin hin allra besta.

Snjallyrðið
Hver dagur lífs míns langur er,
en loksins þegar kvölda fer
ég kem hér inn.
Og hver einn smæsti hlutur hér
er helgidómur sem með þér,
ég keypti eitt sinn.

Þinn andi býr í öllu hér
og um þig talar hlutur hver
sitt þögla mál.
Blái stóllinn bekknum hjá
og blómið gluggasyllunni á
og brotin skál.

Þín mynd við mér brosir,
þó burtu sért þú.
Ó svo björt er þín minning:
hún lýsir mér nú.
Að sumri okkar samleið þraut
og sólin skein er hvarfstu á braut,
en samt varð kalt.

Svo þokast áfram árin löng,
en alltaf man ég gamlan söng
um ást og trú.
Iðunn Steinsdóttir rithöfundur (Myndin af þér)

Hugljúft ljóð - lagið við ljóðið varð ódauðlegt í túlkun Vilhjálms Vilhjálmssonar.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups hlyti Sjálfstæðisflokkurinn 56,1% atkvæða og 9 borgarfulltrúa kjörna ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum var fyrir fimmtán árum er Davíð Oddsson leiddi flokkinn sem borgarstjóri í sínum þriðju kosningum til afgerandi sigurs, er hann hlaut rúm 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa kjörna. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni. Samfylkingin fengi 27,8% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur 11,4% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn með fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson í forystu og mælist með tæp þrjú prósent. Frjálslyndir hafa tæp 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju kjörinn borgarfulltrúa.

Þessi könnun er nokkuð öflug - 1.270 borgarbúar í úrtakinu og svarhlutfall rúm 60% Aðeins tæp 10% neituðu að svara, 21,5% voru óákveðin. Var könnunin kynnt fyrst á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar voru mætt til að ræða könnunina, þau Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Vilhjálmur Þ. var skiljanlega mjög ánægður með tölurnar og sagðist þakklátur Reykvíkingum fyrir stuðninginn sem fram kæmi í könnuninni. Greinilegt var að borgarstjórinn var verulega fúl með tölurnar þarna í morgunsárið og átti mjög erfitt með að leyna gremju sinni. Það er svosem skiljanlegt að hún sé fúl með þá stöðu sem komin er upp, og mælist í hverri könnuninni á eftir annarri. Var hún með hinar og þessar fýlubombur á lofti vegna stöðunnar. Er ekki fjarri því að hún neiti að horfast í augu við þá einföldu staðreynd málsins að borgarbúar séu búnir að fá einfaldlega nóg af stjórn vinstriaflanna sem unnu saman í rúman áratug undir merkjum R-listans, sem nú hefur liðið undir lok. Fólk vill breytingar - uppstokkun á stöðu mála. Það er ekkert undrunarefni þegar litið er á "afrek" valdaferils R-listans. Það blandast allavega engum hugur sem sér þessa könnun að borgarbúar eru að kalla á breytingar við stjórn borgarinnar.

Merkilegast af öllu er að heyra komment þeirra sem leitt hafa flokkana sem myndað hafa R-listann. Þau hafa jafnan verið glaðhlakkaleg en eru vandræðaleg nú. Kostulegastur er Alfreð Þorsteinsson sem sagði varðandi könnunina að kosningabaráttan væri ekki hafin að fullu. Þetta er vandræðalegt komment - enda er baráttan um borgina þegar hafin og prófkjör framundan hjá VG og Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem segja að slagurinn sé ekki hafinn eru þeir sem þora ekki að hefja slaginn væntanlega. Verkin eftir R-listann eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag.

Forrest Gump

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Forrest Gump. Horfði ég á hana í gærkvöldi mér til gamans. Einstök og hugljúf mynd sem er ein af bestu kvikmyndum tíunda áratugarins að mínu mati - á sér ljúfar minningar í huga mér. Hún hlaut sex óskarsverðlaun árið 1994, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Tom Hanks hlaut sinn annan óskar fyrir túlkun sína á söguhetjunni. Frammistaða Hanks í hlutverki Forrests er einstök í þessari rómuðu kvikmynd leikstjórans Roberts Zemeckis, en hún hlaut metaðsókn og orkaði dýpra á áhorfendur en nokkur önnur kvikmynd á fyrri hluta áratugarins. Tónlist Alan Silvestri í myndinni er unaðslega falleg. Forrest Gump lifir á miklum umbrotatímum sem umbreyta lífi hans; úr bækluðum drengstaula í ruðningsstjörnu, úr hetju í Víetnam í rækjujöfur, frá heiðrunarathöfn forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í faðm Jennyar, stúlkunnar sem hann elskar. Forrest er holdgervingur tiltekins tímabils 20. aldarinnar; sakleysingi á reiki meðal þjóðar sem er að glata sakleysi sínu. Í hjarta sínu skynjar hann það sem er takmarkaðri greind hans um megn. Siðgæðisáttaviti hans bendir ætíð í rétta átt. Sigrar Forrests eru okkur öllum innblástur. Forrest Gump er tvímælalaust í hópi lykilmynda kvikmyndasögu seinustu áratuga. Sagan af Forrest Gump og ævi hans er einstök - hana verða allir að sjá.

Andy Griffith í hlutverk Ben Matlock

Eflaust muna allir vel eftir Ben Matlock, lögfræðingnum sérvitra í blágráu jakkafötunum í Atlanta í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum. Hann var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar einfaldlega heitið Matlock. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í áratug, árin 1986-1995. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Matlock fylgdu manni í mörg ár. Á ég fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Með hlutverk Matlocks fór leikarinn Andy Griffith. Gæddi hann karakterinn alveg mögnuðu lífi - fór á kostum í hlutverkinu. Á miðvikudagsmorgun fjallaði Akureyringurinn Helgi Már Barðason ritstjóri vefritsins akureyri.net, um þættina í þætti sínum Pipar og salt, og lék tónlist tengda Andy Griffith og þáttunum hans. Vakti það upp vissar minningar og ég dró gamla Matlock-þætti fram úr geymslunni og rifjaði upp þessa merkilegu þætti. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag er ár liðið síðan ég tók við formennsku í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það hefur gengið vel á þessu ári - og höfum við unnið vel saman í þeim stjórnum sem ég hef leitt þetta árið. Verkefnin eru næg framundan, brátt hefst formlegur undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna hér. Það fer allt á fullt að loknum sameiningarkosningum að fara í þau mál. Verkefnið sem er framundan er stofnun kjördæmisfélags ungliða Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þau verða stofnuð á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Mývatnssveit á morgun. Höfum við formenn ungliðafélaganna í kjördæminu ákveðið að stefna að stofnun þessa félags - með því fáum við öflugan og góðan vettvang til samstarfs á vegum kjördæmastarfsins í aðdraganda tveggja kosninga, bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Hlakka ég til samstarfsins við ungliða um allt kjördæmið og góðs samstarfs í þeim verkefnum sem mestu skipta hér.

Dagskrá kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi - 24. september 2005

Úrslit þýsku kosninganna séð í skondnu ljósi

Þjóðverjar gengu að kjörborðinu á sunnudag. Niðurstaðan varð pattstaða þar sem ekkert augljóst stjórnarmynstur blasir við og báðir leiðtogar stóru flokkanna, Merkel og Schröder, gerðu tilkall til kanslarastólsins. Pólitísk kreppa er í Þýskalandi eftir kosningarnar. Skopmyndateiknarar Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því.

Saga dagsins
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var þá goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar.
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 manns um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorunum og lýðveldið Ísland stofnað ári síðar.
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum.
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Peron, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976.
1994 Minnismerki var afhjúpað formlega á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hlutann á þjóðveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Snjallyrðið
Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.
Á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur sólin aldrei niður í sæ.

Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja
og hreimur sætur fyllir bogagöng
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Gígjan)

Fallegt ljóð - tært og sætt í gegn.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Er þetta í síðasta skipti sem Davíð kemur fyrir allsherjarþingið og flytur þar ræðu, en hann hættir eins og flestir vita þátttöku í stjórnmálum nú í haust. Lætur hann af embætti utanríkisráðherra á þriðjudag og hættir formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi um miðjan næsta mánuð. Í ræðu sinni fór Davíð yfir fjölda mála. Tók hann mun vægar til orða hvað varðar málefni umsóknar Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gerði fyrir tæpri viku er hann ávarpaði allsherjarþingið. Kom fram í máli Davíðs að Ísland hefði sýnt áhuga á þátttöku í Öryggisráðinu árin 2009-2010 en nefndi ekki framboðið beint eða lagði áherslu á það. Er það mikið ánægjuefni að Davíð hafi verið varfærnari en Halldór í ræðu sinni í New York. Davíð hefur seinustu daga óhikað tjáð andstöðu við umsókn okkar, en ekki sagst hafa talið rétt að taka ákvörðun um það enda sé hann að hætta þátttöku í stjórnmálum. Er það mitt mat að Davíð hefði átt að taka ákvörðunina strax í vor, enda þá þegar vitað að málið væri komið í verulegar ógöngur og séð fram á andstöðu við málið innan stjórnarflokkanna, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins.

Tjáði hann reyndar efasemdarraddir í vor þegar að hann flutti þinginu skýrslu sína um utanríkismál og var orðinn mjög efins um framboðið undir lok ráðherraferilsins. Í ræðu sinni lýsti Davíð yfir vonbrigðum með að ekki hefði náðst samstaða um fjölgun ríkja í öryggisráðinu og umfangsmikla endurreisn SÞ, en mjög hefur hallað á hana sem stofnun seinustu árin vegna hneykslismála og fjárhagsvandræða. Var Davíð ekki að hika við að tjá áhyggjur sínar um að engin niðurstaða stæði eftir vatnið. Kom fram í máli hans að skjalið sem samþykkt var í lok fundar hafi verið mjög útvatnað og sagði Davíð að þrátt fyrir að flest gildi sem fram komi í stofnsáttmálanum séu staðfest í lokaskjalinu þá væri það skoðun íslenskra stjórnvalda að mannréttindum og ábyrgð ríkja, eða leiðtoga þeirra, gagnvart borgurum sínum hafi ekki verið gerð nægilega góð skil. Hann sagði íslensk stjórnvöld telja alþjóðasamfélagið bera ábyrgð gagnvart ríkjum sem bregðast borgurum sínum, ríki þar sem framin eru mannréttindabrot á borgurum eða þjóðarmorð. Sagði Davíð að Öryggisráðið og aðrar stofnanir hafi þá lykilskyldu umfram allt að bregðast við slíkum brotum gegn borgurum.

Í ræðu Davíðs kom fram að íslensk stjórnvöld styðji stofnun lýðræðissjóðs Sameinuðu þjóðanna og muni leggja í hann fé. Davíð lýsti einnig yfir stuðningi Íslands við endurbætur á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Segja má að ræðan hafi verið eitt síðasta embættisverk Davíðs sem utanríkisráðherra og forystumanns í stjórnmálum, en eins og fyrr segir lýkur ráðherraferli Davíðs í næstu viku og þátttöku hans í stjórnmálum lýkur brátt. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi hans úr stjórnmálum - hinsvegar verður lítil breyting á utanríkisstefnu þjóðarinnar með nýjum utanríkisráðherra.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Greinilegt er á tíðindum síðustu daga að staða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur veikst verulega innan síns eigin flokks. Kemur þetta vel fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu á mánudag. Innsti kjarni stuðningsmanna flokksins finnst Halldór hafa veikst og hafi lítið samráð við þingflokk og forystu í stórmálum. Kristallast þessi óánægja vel í máli málanna þessa dagana í pólitíkinni hér heima: umsókn Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010. Það blandast engum hugur um það eftir atburði seinustu daga að deilt er um málið innan Framsóknarflokksins. Það hefur komið vel fram seinustu daga. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins þykir þeim að Halldór eigi að víkja af forystu flokksins og þar þurfi að stokka upp. Koma þessar efasemdarraddir um forystu Halldórs engum á óvart. Á því ári sem hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands hefur hann sífellt veikst sem forystumaður Framsóknarflokksins. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að myndi verða mesti hápunktur stjórnmálaferils hans. Flokkurinn hefur gengið í gegnum hvert áfallið á þessu síðastliðna ári: hann mælist ekki vel í skoðanakönnunum og persónulegt fylgi við Halldór er í sögulegu lágmarki hvað varðar vinsældir forsætisráðherra Íslands.

Best kom veik staða Halldórs fram við lok flokksþings Framsóknarflokksins í mars er forysta flokksins var kjörin. Þá hlaut Halldór rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en á síðasta flokksþingi fyrir það. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlaut lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins. Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár.

Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins (sem virðast jafnvel koma úr innsta hring) telja þeir að Halldór eigi að víkja fyrir kosningar og kjósa eigi nýja forystu vel fyrir alþingiskosningarnar 2007. Eru þetta merkileg ummæli - og til marks um veikari stöðu Halldórs í forystu flokksins.

Jóhannes Jónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi ákærum í svokölluðu Baugsmáli vegna galla á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Eins og við er að búast voru verjendur ánægðir með niðurstöðuna en forsvarsmenn ákæruvaldsins lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar. Úrskurður héraðsdóms byggir m.a. á því að ekki sé nægilega skilgreint hvernig sakborningar eiga að hafa brotið af sér, hvernig þeir eiga að hafa auðgast á brotum og hugsanlega valdið öðrum tjóni. Lýst sé ýmsum peningafærslum og ráðstöfunum sakborninga en þær þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar. Ákæruvaldið hefði þurft að lýsa með skýrara hætti hvernig sakborningar eiga að hafa dregið sér fé eða slegið eign sinni á það. Margar aðrar athugasemdir eru gerðar við málatilbúnað ákæruvaldsins og varða þær 4 af 6 sakborningum. Bent er á að ákærðu verði að fá að vita hvað þeim sé gefið að sök til að geta varið sig og dómari verði sömuleiðis að vita um hvað málið snúist svo hann geti lagt á það dóm. Þessi niðurstaða er mikill áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og kemur sem mikið högg á það eftir að rannsókn hefur staðið í nokkur ár og miklu til kostað til að rannsaka málið. Þetta er auðvitað áfall fyrir þá sem lögðu málið fram - því verður ekki neitað.

Ekki er hægt að segja að niðurstaðan komi algjörlega á óvart. Dómendur höfðu fyrir nokkru gert alvarlegar athugasemdir við 18 af 40 ákæruliðum málsins. Niðurstaðan sem varð ljós í gær er með þeim hætti að verulegur hluti ákærunnar og atriða tengdum henni sé svo gallaður að ekki verði komist hjá því að vísa málinu í heild frá dómi. Hæstiréttur getur fellt úrskurð Héraðsdóms úr gildi og sagt dómnum að taka málið til efnismeðferðar, jafnvel að hluta til, það fer eftir kröfugerð ákæruvaldsins. Það verður merkilegt að sjá niðurstöðu málsins. Standi þessi dómur er ekki séð hvernig litið verði á það öðruvísi en sem rothögg á embætti Ríkislögreglustjóra. Standi þessi úrskurður þar er alveg ljóst að menn geta ekki sætt sig við að forystumenn hjá Ríkislögreglustjóra sitji áfram í embættum sínum. Svo einfalt er það bara. Áfellisdómurinn yrði svo mikill að ekki yrði framhjá honum gengið með æðstu forystumenn embættisins þar. Það er þó auðvitað réttast að niðurstöðu Hæstaréttar sé beðið. Það er reyndar svo að t.d. Össur Skarphéðinsson er farinn á taugum í málinu ef marka má kostuleg skrif og vill ekki bíða lokaniðurstöðu. Það er merkilegt að fylgjast með skrifum hans. Niðurstaðan kemur í Hæstarétti - fyrr ekki.

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir vinkonu mína, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur, en við höfum til fjölda ára starfað saman í flokksstarfinu hér á Akureyri. Þar skrifar Ella Magga um málefni Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið aðalmálið í fréttum og pólitískri umræðu í Reykjavík seinustu vikur og verður sennilega framyfir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Er ég mjög sammála skrifum hennar og mati á málinu og hvet fólk til að lesa grein hennar, sem birtist ennfremur í dag á Íslendingi, vef flokksins hér á Akureyri. Þar segir t.d.: "Eins og umræðan um flugvöllinn hefur verið virðist sem reykvíkingar hafi gefið það frá sér að Reykjavík verði áfram höfuðborg landsins þar sem nálægð flugvallarins við opinberar þjónustustofnanir landsmanna veitir nauðsynlegt öryggi og sparar dýrmætan tíma og orku fólks. Flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni er ekki einagrað mál heldur órjúfanlegt umræðu um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins og opinbera stjórnsýslu þess sem nánast öll er í Reykjavík. En vissulega má hugsa sér breytingar á því."

Kristinn H. Gunnarsson

Seinustu daga hefur verið mikil umræða um merkilegan pistil eftir Kristin H. Gunnarsson alþingismann Framsóknarflokksins. Í pistlinum greinir Kristinn H. með nokkuð athyglisverðum hætti fylgissveiflur Framsóknarflokksins og beitir til þess svokölluðum kynjasjónarmiðum. Kristinn H. hefur ekki verið ófeiminn að gagnrýna forystu Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili og minnt nokkuð á sig. Eftir að hann missti þingflokksformennsku flokksins sumarið 2003 hefur hann verið nokkuð óþægur ljár í þúfu fyrir forystu flokksins og frægt varð er hann var tekinn með öllu út úr nefndum flokksins á þingi fyrir ári. Hann var svo síðar settur aftur í nefndir er líða tók á veturinn - sem var leið forystunnar til að semja frið við órólegu deildina í flokknum. Í pistlinum segir Kristinn að flokkurinn sé að missa fótfestu sína meðal kvenna og rekur það með merkilegum hætti. Bendi lesendum á þennan pistil - hann er nokkuð merkileg lesning í ljósi skrifanna um forsætisráðherrann hér ofar.

Saga dagsins
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu um 80 karlar fengið skírteini.
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út - í kjölfarið á því kom Hringadróttinssaga út.
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri - hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum.
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd.
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu.

Snjallyrðið
Í dag eru allir svanir í sárum,
söngurinn breyttur í þagnarmál,
héla á steinum, blóð á bárum,
banvænt eitur í hverri skál.
Grasið er sölnað og ilmur enginn,
allir bátar settir í naust.
Að sævardjúpi er sólin gengin,
sumarið liðið og komið haust.

Í dag eru tár í allra augum,
allir með grátt og hélað hár,
tryggðir feigar, brestir í baugum,
barmur jarðar eitt opið sár.
Af liminu blöðin fölnuð falla,
fjúk í lofti og veðragnýr.
Skuggarnir vefjast um allt og alla.
Angistin heltekur menn og dýr.

Í dag er söngvarinn dauðahljóður,
í djúpið hrunin hver skýjaborg.
Enginn á föður, enginn móður,
enginn neitt - nema þögla sorg.
Hver von er drukknuð í brimi og bárum,
hver bátur settur og lokuð naust.
Í dag eru allir svanir í sárum,
sumarið liðið og komið haust.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haust)

Ljóð með tilfinningu og sál - ein af ljóðaperlum Davíðs sem manna best orðaði sannar tilfinningar.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Angela MerkelGerhard Schröder

Það leikur enginn vafi á því eftir þingkosningarnar í Þýskalandi á sunnudag að gríðarleg pattstaða er komin upp í pólitíkinni þar. Hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta atkvæða og stjórn jafnaðarmanna og græningja sem setið hefur frá árinu 1998 er fallin. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU, að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Það blandast engum hugur um það að það voru gríðarleg vonbrigði fyrir Merkel og hægrimenn að ná ekki forystunni með afgerandi hætti, eftir gott gengi seinustu vikurnar. Úrslitin eru viss ósigur fyrir hægriblokkina - því verður vart neitað. Hinsvegar hefur Merkel sterkari stöðu en aðrir flokksleiðtogar eftir kosningarnar. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, var brosmildur er úrslitin lágu fyrir og var ekkert að sýna neina minnimáttarkennd. Lýsti hann yfir með glott á vör að andstæðingunum hefði mistekist það verkefni sitt að koma sér frá völdum, þeir hefðu einsett sér að taka völdin og fella stjórnina en þeir hefðu ekki haft erindi sem erfiði. Þeir hafi ekki hlotið umboð almennings.

Það er vissulega rétt hjá Schröder að hægrimönnum mistókst að vinna þann kosningasigur sem þeim var nauðsynlegur til að taka völdin með trompi. Hinsvegar eru hægrimenn í betri stöðu en kratarnir til að taka við eftir þessar kosningar. Það blandast engum hugur um það að Schröder tapaði þessum kosningum, þó vissulega hafi honum tekist á lokasprettinum að hljóta betri úrslit en spáð hafði verið. Stjórn græningja og jafnaðarmanna sem mynduð var eftir kosningasigur vinstriaflanna árið 1998 og var endurmynduð eftir nauman sigur þeirra árið 2002 er enda fallin. Það er í hróplegu ósamræmi við úrslitin að Schröder ríki áfram eins og ekkert hafi gerst. Það verður enda ekki séð svo auðveldlega hvernig hann ætlar sér að sitja áfram við völd í Þýskalandi. Óvissuþátturinn hvað varðar kanslarann er auðvitað hvort að honum tekst að mynda aðra stjórn undir sínu forsæti með samstarfi við aðra flokka. Þar er ekki um marga að ræða. Helst eru það frjálslyndir demókratar og Vinstriflokkurinn. Báðir flokkarnir hafa með öllu hafnað samstarfi við Schröder á hans skilmálum. Ekki þarf að undrast að samstarf vinstriflokksmanna og krata sé útilokað snarlega. Flokkurinn er enda leiddur af Oskari Lafontaine fyrrum flokksleiðtoga kratanna og kanslaraefni þeirra árið 1990.

Schröder og Lafontaine voru leiðtogatvíeyki kratanna í kosningunum 1998 og tókst Jafnaðarmannaflokknum að vinna þær kosningar með Schröder sem kanslaraefni en Lafontaine sem leiðtoga. Hann varð fjármálaráðherra í vinstristjórn Schröders eftir kosningarnar. Sambúð þeirra var þó skammlíf. Ári síðar sagði Lafontaine af sér ráðherratigninni og hætti sem flokksleiðtogi - eftir rokna rimmu við kanslarann og harðvítug valdaátök bakvið tjöldin. Lafontaine fór síðar úr flokknum og hefur nú tekist að stimpla sig inn með nýja flokknum og vakti að nýju á sér athygli. Þeir sem þekkja til samskipta Lafontaine og Schröders vissu allan tímann að þeir gætu ekki myndað stjórn saman. Schröder hefur enda jafnan séð svart á seinustu árum er Lafontaine er annarsvegar og sagði margoft í kosningabaráttunni að samstarf milli þeirra og hvað þá flokkanna væri ekki í stöðunni. En það er von að spurt sé nú - hver vann og hver fær að stjórna landinu? Svarið er eins og fyrr segir mjög óljós. Segja má að aðeins tvennt sé raunhæft. Fyrri kosturinn er samstjórn kristilegra demókrata, græningja og frjálslyndra demókrata (sem unnu sinn stærsta kosningasigur í þessum kosningum með um 10% fylgi). Þetta hefur þótt ólíklegt mynstur og hafa græningjar tekið fálega í hann - en hann er samt enn til staðar.

Seinni kosturinn er svo auðvitað stóra samsteypa (grosse koalition) stjórn kristilegra og krata. Það virkar rökréttast og eðlilegast í stöðunni. En þetta er ekki svo einfalt - bæði Schröder og Merkel gera tilkall til kanslaraembættisins og vilja ekki una hinu að hljóta hnossið. Það gæti því hæglega komið þarna upp mikið þrátefli. Verði engin stjórn komin til sögunnar eftir þrjár kosningar um kanslara í þinginu og tilraunir við minnihlutastjórn verður að kjósa aftur. Væntanlega gæti það verið lausnin úr þessu þrátefli sem við blasir, ef ekkert mun ganga. Þetta er döpur staða í Þýskalandi sem við blasir. Það er enda alveg ljóst eftir þessar kosningar að það er mikilvægt að mynda sterka og samhenta stjórn í Þýskalandi. Það eru mikil vonbrigði að hægrimönnum hafi ekki tekist að mynda slíka stjórn. Það þarf að taka til hendinni og fara í þau verkefni sem blasa við eftir sjö ára vinstristjórn. Mikilvægt er að kraftur sé í nýrri stjórn. Án slíks afls er framundan mikill glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Angela Merkel talaði af krafti í kosningabaráttunni um svikin loforð vinstristjórnarinnar. Það blasir enda við að stjórn Schröders hefur algjörlega mistekist að stjórna af krafti og eftir valdatíð hennar blasa við eintóm verkefni og það sem meira er svikin loforð.

En hvernig vinna menn þessi verk af krafti í þeirri stöðu sem uppi er? Það er von að stórt sé spurt. Hver verður kanslari Þýskalands á þessum brothættu tímum í þýskum stjórnmálum - fáir vita svarið enda vilja báðir flokksleiðtogar stóru flokkanna fá hnossið. Hinsvegar blasir við viss naflaskoðun hjá báðum flokkunum enda mistókst báðum leiðtogunum að ná til kjósenda og fá skýrt umboð þeirra til að leiða þjóðina. Þar er lykilvandinn í stöðunni - það blasir við. Gríðarleg pattstaða er komin upp í þýskri pólitík – sem verður merkilegt að fylgjast með hvernig verði leyst úr á hinu pólitíska sviði.

Hópurinn á bakvið Everybody Loves Raymondi

Emmy-sjónvarpsverðlaunin voru afhend í Shrine-Auditorium í Los Angeles aðfararnótt sunnudags. Með þeim er verðlaunað helsta sjónvarpsefni í Bandaríkjunum sl. ár. Flestum að óvörum kom bandaríski gamanþátturinn Everybody Loves Raymond á óvart og hlaut verðlaunin sem besti gamanþátturinn. Þátturinn lauk göngu sinni eftir níu farsæl ár í vor og áttu fáir von á að hann myndi ná að sigra öfluga keppinauta, á borð við t.d. Desperate Housewifes og Arrested Development sem hafa hlotið mun meira umtal og athygli fjölmiðla seinustu mánuðina. En er á hólminn kom sló Ray þeim algjörlega við. Enda urðu margir hissa í salnum er úrslitin voru tilkynnt. Þetta er mikið gleðiefni, enda hef ég verið mikill unnandi þáttana um Ray Barone og fjölskyldu hans til fjölda ára. Ekki laust við að maður muni sakna þeirra - algjört eðalsjónvarpsefni. Sjónvarpsþátturinn Lost hlaut verðlaunin sem besta dramaþáttaröðin. Kemur það fáum á óvart - að mínu mati er Lost með betri dramaþáttum í sjónvarpi hin seinni ár. Stórfenglegir og spennandi þættir - gríðarlega vel gerðir. Er mikill unnandi þeirra og hef ekki misst einn einasta þátt úr. Mörgum að algjörum óvörum kom sjónvarpsmyndin Warm Springs (sem fjallar um Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna og ævi hans) á óvart og vann verðlaunin sem besta sjónvarpsmyndin og sló við t.d. The Life and Death of Peter Sellers.

Fyrir leik í sjónvarpsmyndum hlutu verðlaunin þau Paul Newman, Geoffrey Rush, S. Epatha Merkerson og Jane Alexander. Verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki í dramaþáttum hlutu Patricia Arquette fyrir Medium og James Spader fyrir Boston Legal. Verðlaunin fyrir aukaleik í dramaþáttum hlutu William Shatner fyrir Boston Legal og Blythe Danner fyrir Huff. Fyrir besta leik í aðalhlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Felicity Huffman fyrir Desperate Housewifes og Tony Shalhoub fyrir Monk. Fyrir besta leik í aukahlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Brad Garrett og Doris Roberts fyrir Everybody Loves Raymond. The Amazing Race var svo valinn besti raunveruleikasjónvarpsþátturinn, þriðja árið í röð. Hápunktur kvöldsins var þegar að fréttahaukarnir Peter Jennings, Dan Rather og Tom Brokaw voru heiðraðir fyrir framlag sitt til fréttamennsku í gegnum tíðina, en þeir voru aðalfréttaþulir á ABC, CBS og NBC til fjölda ára. Á síðastliðnu ári hafa þeir allir horfið á skjánum. Fluttu Brokaw og Rather flotta þakkarræðu og minntust þar Jennings, sem lést fyrr á þessu ári úr krabbameini, 67 ára að aldri. Samkvæmt venju var þetta flott verðlaunahátíð og gaman að fylgjast með glaumnum og glysinu í Hollywood.

Ásta Möller

Í næstu viku tekur Ásta Möller sæti á Alþingi í stað Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Verður Ásta 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Ásta tók fyrst sæti á Alþingi eftir alþingiskosningarnar árið 1999 og sat á þingi allt það kjörtímabil. Hún náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 2003. Hún hefur tekið nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu, enda fyrsti varamaður flokksins í RN. lengst í veikindaforföllum Davíðs sumarið 2004 og þingveturinn 2004-2005 er Davíð var að jafna sig eftir veikindin. Ásta hefur verið áberandi talsmaður flokksins í heilbrigðismálum, enda hjúkrunarfræðingur að mennt og á að baki langan feril við kennslu og hjúkrun. Hún var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999. Ásta var kjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna fyrr á þessu ári. Hún er fjórtánda konan sem gegnir þar formennsku. Verður áhugavert að fylgjast með störfum Ástu á þingi á næstu árum. Hef ég á seinustu árum fylgst vel með pólitískum verkum Ástu og fagna því mjög að hún fari aftur á þing, enda glæsilegur fulltrúi flokksins í mörgum lykilmálum sem flokkurinn þarf að fókusera sig vel á, á komandi árum. Ég óska henni góðs gengis í störfum sínum á þingi.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, var jarðsunginn í dag. Hann lést í síðustu viku, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Eftirlifandi eiginkona Bessa er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum. Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti. Hans verður minnst fyrir ógleymanlegan hlátur og fyrir að skemmta mörgum kynslóðum Íslendinga með sjarma sínum og yndisleika. Guð blessi minningu þessa mikla heiðursmanns.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Kynningarferli vegna sameiningarkosninganna hér við Eyjafjörð eftir tæpar þrjár vikur er formlega hafið. Fyrsti kynningarfundur sameiningarnefndarinnar var á Siglufirði í gærkvöldi. Framundan eru svo fjöldi funda í firðinum. Sá síðasti verður hér á Akureyri að kvöldi 4. október nk. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður sameiningarnefndar, var í löngu viðtali á Aksjón í gærkvöldi og kynnti málið. Í gærmorgun voru svo Sigrún Björk og Hólmgeir Karlsson oddviti í Eyjafjarðarsveit, gestir Kristjáns Sigurjónssonar í ítarlegu viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins. Bendi ég lesendum á það viðtal og ennfremur á heimasíðu sameiningarnefndar. Svo hefur Sigrún Björk skrifað greinar um málið seinustu daga í blöðin og vefrit hér í firðinum. Framundan er ítarlegt kynningarferli sem lýkur með kosningunni þann 8. október nk.

Saga dagsins
1519 Portúgalski landkönnuðurinn Ferdinand Magellan leggur af stað í langa ferð sína um heiminn.
1900 Ofsaveður gekk yfir landið - meira en 30 manns fórust í veðrinu, þar af drukknuðu 18 manns á Arnarfirði. Kirkjurnar á Urðum og Upsum í Svarfaðardal fuku af grunnum sínum og brotnuðu í spón.
1946 Fyrsta kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin - kvikmyndahátíðir eru haldnar þar á hverju ári.
1979 Flóttamenn frá Víetnam, alls 34, komu til landsins - stærsti hópur útlendinga sem hingað kom.
1995 Ný brú, yfir Jökulsá á Dal, var formlega tekin í notkun. Hún er 125 metra löng og 40 metra há.

Snjallyrðið
Þó jörðin sé frosin og fokið í gömul skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt fagurt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Hin innsta lífsins þrá getur eld til guðanna sótt.
Ein auðmjúk bæn getur leyst hinn hlekkjaða fanga.
Svö fögnum við þá - og fljúgum þangað í nótt,
þar sem frelsið ríkir, og sígrænir skógar anga.

Á hvítum vængjum fljúgum við frjáls og ein,
og fram undan blika skógar og draumaborgir.
Í útsæ loftsins laugum við okkur hrein.
Í logandi eldi brennum við okkar sorgir.
Við fljúgum þangað, sem friðlausir eiga skjól.
Þar fagnar okkur heilagur griðastaður.
Í veröld austan við mána og sunnan við sól
á söngvarinn skjól - þar er hann frjáls maður.

Til óskalandsins fljúgum við saman frjáls og ein.
Þar fáum við öllu jarðnesku böli að gleyma.
Á vegi þínum á jörð er steinn við stein.
Í stjörnuborgum söngvanna áttu heima.
Þú elskar ljóðin, lifir í anda hans.
Ég lofsyng nafn þitt, helga þér veröld mína.
Mín vígða brúður, drottning míns draumalands.
Í drottins nafni krýp ég við fætur þína.

Með þig í faðminum flýg ég burt í nótt.
Nú finn ég gleðinnar töfra um hjartað streyma.
Að elska er að hafa eld til guðanna sótt
og opnað þeirra fegurstu sólarheima.
Þó jörðin sé frosin og fokið í hin gömlu skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við fljúgum þangað)

Þetta er svo innilega fallegt ljóð - ein af perlum meistara ljóðanna orða frá Fagraskógi.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um pólitísku stöðuna í Þýskalandi í kjölfar þingkosninganna þar. Óhætt er að segja að pattstaða sé komin upp því að hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta. Stefnir því í stjórnarkreppu, nema þá að stóra samsteypa (grosse koalition) komi til sögunnar. Velti ég fyrir mér stöðunni og fer yfir úrslitin og önnur merkileg atriði sem rétt er að fjalla um. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU (kristilegra demókrata) að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Hinsvegar hefur Merkel engu að síður mjög góða stöðu og fær væntanlega umboð til að mynda stjórn. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, er þó ekki í þeim hugleiðingum að bakka sjálfviljugur frá sæti sínu og verður fróðlegt að sjá hvað taki við á næstu dögum.

- í öðru lagi fjalla ég um John G. Roberts sem hefur verið skipaður forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Hefur hann komið fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og svarað spurningum. Blasir við að hann verði staðfestur í embættið fyrir lok mánaðarins. Fjalla ég um Roberts og málefni tengd skipan hans. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar, sem fara á fram 28. september nk. Enginn þorir að draga feril hans í efa. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót. Það er ljóst að með skipun Roberts í forsetastól hæstaréttar hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni.

- í þriðja lagi fjalla ég um umsókn okkar í Öryggisráð SÞ og atburðarás vegna þess máls seinustu daga. Forsætisráðherra hefur lýst formlega yfir framboðinu með ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Andstaða við málið hefur magnast upp seinustu mánuðina innan stjórnarflokkanna. Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Ég get ekki annað en ítrekað andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn.


Kristján Eldjárn forseti
1916-1982


Kristján Eldjárn forseti

Lengi hef ég haft mikinn áhuga á að fræðast um söguna og sögulega punkta úr ævi merkra Íslendinga. Í síðustu viku veiktist ég og þurfti að vera heima vegna þess. Endurnýjaði ég kynni mín af ævisögum Gylfa Gröndal um fyrstu forsetana þrjá - stórfenglegar bækur. Sérstaklega hefur mér alltaf þótt gaman að lesa bókina um Svarfdælinginn Kristján Eldjárn og forsetaferil hans, þar sem vitnað er í dagbókarskrif hans. Las ég bókina aftur - fyrsta af þessum þremur að þessu sinni. Kristján hefur alltaf að mínu mati verið einn fremsti forseti þjóðarinnar - sannkallaður heiðursmaður sem var sameiningartákn í embættinu. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982.

Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna - eitthvað sem við höfum svo sannarlega saknað frá því að Vigdís Finnbogadóttir hætti sem forseti.

Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að Gunnari Thoroddsen frátöldum. Hann er eini af þeim þrem forsetum landsins sem látnir eru sem hvílir ekki að Bessastöðum, heldur hvílir hann í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík. Fékk ég ævisögu Kristjáns í jólagjöf um jólin 1991 - eflaust er það mjög til marks um karakter minn og áhugamál. Meðan að skólafélagar mínir fengu bók á borð við Tár, bros og takkaskór, las ég svona eðalbækur. Tel ég mig hafa grætt mikið á því og hafa áhugasvið mín ekki breyst í áranna rás.

Hvet ég alla til að lesa þessar góðu bækur og kynna sér vel og ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.

Saga dagsins
1851 Dagblaðið New York Times kom út í fyrsta skipti - umdeilt blað vegna fréttamennsku sinnar.
1961 Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ferst í flugslysi í Rhodesíu, 56 ára að aldri. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels eftir andlát sitt, í virðingarskyni við umfangsmikið framlag hans til friðar í heiminum, en hann var á leið til Kenýa til að taka þátt í friðarviðræðum þegar hann lést. Aldrei hefur komið fyllilega í ljós hvort flugvél Hammarskjolds fórst vegna slyss eða var grandað.
1968 Portúgalska knattspyrnuliðið Benfica keppti við boltalið Vals á Laugardalsvellinum í Reykjavík. Áhorfendur voru 18.243, en það var vallarmet á vellinum allt til 18. ágúst 2004 þegar Ísland sigraði Ítali. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en meðal leikmanna Benfica var hinn víðfrægi Eusebio.
1970 Tónlistarmaðurinn Jimi Hendrix, lést í London, 27 ára gamall. Hann var einn fremsti gítarleikari 20. aldarinnar - rokkgoðsögn í lifanda lífi, sem ávann sér sess í sögu tónlistarinnar á örstuttum ferli.
1997 Viðskiptajöfurinn Ted Turner sem átti til dæmis CNN, gaf Sameinuðu þjóðunum 1 billjón dala.

Snjallyrðið
Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Dans gleðinnar)

Fallegt ljóð Akureyrarskáldsins Kristjáns frá Djúpalæk - tært og sætt í gegn.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ávarpaði aðfararnótt föstudags allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, sem fundar nú þessa dagana. Í ræðu sinni lýsti forsætisráðherra því yfir formlega að Ísland yrði nú í fyrsta skipti í framboði til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, tímabilið 2009-2010. Kom yfirlýsing Halldórs mjög á óvart, enda hafði almennt verið talið að ákvörðun í málinu myndi bíða fram yfir ráðherraskipti í utanríkisráðuneytinu eftir tíu daga. Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sem lætur af ráðherraembætti þann 27. september nk. hafði lýst því yfir í vikunni að hann væri hlynntur því að hætta við framboðið en teldi rétt að eftirmaður hans á ráðherrastóli, Geir H. Haarde, myndi taka ákvörðunina er hann tæki til starfa í utanríkisráðuneytinu. Svo virðist vera sem að Halldór hafi ekki talið rétt að bíða þess og tekið af skarið fyrr. Er að mínu mati mjög óeðlilegt að Halldór lýsi þessu yfir og láti málið og endanlegt ákvörðunarvald ekki vera í höndum utanríkisráðherra, þar sem það á að vera. Þykja mér vinnubrögð forsætisráðherrans langt í frá til sóma og ekki til sæmdar forsætisráðherranum að koma fram með þessum hætti. Hef ég annars aldrei hikað við að tjá andstöðu mína við þessa umsókn í öryggisráðið og hefur andstaða mín sífellt aukist eftir því sem ég hef kynnt mér málið betur. Er þetta að mínu mati ein þvæla í gegn.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Sólómennska forsætisráðherra við þetta steindauða mál vekur mikla furðu, en rétt er á það að benda að um er að ræða gæluverkefni hans til nokkurs tíma. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.

Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til vegna minnkandi möguleika okkar á sætinu). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður, í ljósi andstöðu við málið innan beggja stjórnarflokkanna.

Þorgerður Katrín í karlmannsgerviIngibjörg Sólrún í karlmannsgervi

Óhætt er að segja að ný auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur hafi hitt í mark. Um er að ræða herferð undir yfirskriftinni: Ekki láta útlitið blekkja þig! Auglýsingarnar varpa ljósi á um hvað launamunur kynjanna snýst í raun og veru. Þær tala í raun enda sínu máli. Í auglýsingunum sjáum við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Gísla Martein Baldursson og Egil Helgason í nýju ljósi - öðrum kynjahlutverkum. Gísli Marteinn birtist sem glæsileg ljóska, Ingibjörg Sólrún sem reffilegur embættismaður, Þorgerður Katrín sem verkamannstýpa og Egill sem miðaldra kona, þó frekar stórgerð. Þetta eru snilldarlega gerðar auglýsingar. Þeim tekst bæði að vekja á sér athygli vegna þess hversu frumlegar og góðar þær eru. Umfram allt vekja þær þó athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Hann verður að hverfa, færa verður stöðu mála til nútímans. Kynbundinn launamunur er óeðlilegur. Þessar auglýsingar eru mjög góðar og hefja nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vekur athygli á þörfu málefni með kraftmiklum og lifandi hætti. VR á mikið hrós fyrir þetta framtak að mínu mati. Síðast en ekki síst er svo mjög skemmtilegt að sjá fyrirsæturnar í nýju ljósi - í senn bæði fyndnu og sem vekur til umhugsunar.

John G. Roberts

Yfirheyrslum yfir John G. Roberts tilnefndum forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, lauk í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag. Lauk þá ítarlegu spurningaferli í garð Roberts og flutti hann að því loknu lokaorð til nefndarmanna. Í kjölfarið komu fyrir nefndina fulltrúar ýmissa þrýstihópa og samtaka sem vilja tjá sig um skipan hans í forsetastól hæstaréttar, og eru bæði andvígir honum og meðmæltir. Brátt styttist svo í formlega atkvæðagreiðslu um hann. Er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu eigi síðar en 28. september. Rétturinn kemur saman að loknu réttarhléi þann 3. október og því alveg ljóst að Roberts verður tekinn við starfinu fyrir þann tíma. Er nú helst efasemdir um það hversu margir demókratar muni kjósa Roberts í kosningunni. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar og ekki reynt að tefja undirbúning þess að hún fari fram eigi síðar en 28. september. Það segir ansi margt um stöðu mála. Enginn þorir að draga feril hans í efa og nær allir ljúka lofsorði á störf hans. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót.

George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina að kvöldi fimmtudags frá miðborg New Orleans í Louisiana. Miklar skemmdir urðu í borginni í kjölfar fellibylsins Katrínar og mikil eyðilegging blasir þar við. Mjög hefur verið deilt á vinnubrögð í kjölfar fellibylsins og deilt hefur verið harkalega sérstaklega á forsetann. Meirihluti Bandaríkjamanna telur skv. skoðanakönnunum að forsetinn hafi ekki staðið sig í málinu og óvinsældir hans hafa aukist mjög. Í ávarpinu talaði Bush til landsmanna og útskýrði málið og fór yfir það. Viðurkenndi hann þar að öll stig stjórnkerfisins hefðu brugðist eftir hamfarirnar. Fram kom í máli forsetans að vandinn sem fylgt hefði í kjölfar fellibylsins hefði reynst yfirþyrmandi fyrir þunglamalegt kerfi almannavarna landsins sem þyrfti stórlega að bæta. Hann tók fram að ábyrgðin á mistökunum væri að lokum sín, enda væri hann forseti landsins. Jafnframt tók hann fram að það væri hans að finna lausnina á vandanum. Í ávarpinu tók forsetinn af öll tvímæli um það að borgin skyldi endurreist. Mjög góður rómur var gerður að ræðu forsetans og virðist sem honum hafi tekist í senn bæði að laga almenningsálitið og ná forystu í málinu að nýju eftir vandræðin.

Kosningaveggspjöld í Þýskalandi

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi á morgun. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til nokkuð öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í gær fór ég yfir þýsku þingkosningarnar og málefni kosningabaráttunnar sem nú er að ljúka. Það ræðst á sunnudagskvöldið hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með allt þar til að úrslitin koma í ljós. Þýsk stjórnmál eru enda skemmtilega heillandi.

Saga gærdagsins
1908 General Motors-bílafyrirtækið formlega stofnað - er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum.
1936 Franska hafrannsóknaskipið Pourquoi paz? strandaði í miklu fárviðri við Straumfjörð á Mýrum. 38 manns fórust í slysinu, þeirra á meðal vísindamaðurinn Jean Charcot. Aðeins einn komst lífs af.
1942 Kvikmyndin Citizen Kane var frumsýnd í Gamla bíói - almennt talin ein besta mynd aldarinnar.
1963 Lyndon B. Johnson varaforseti Bandaríkjanna, kom í opinbera heimsókn til Íslands og var vel fagnað. Rúmum tveimur mánuðum eftir heimsókn sína hingað til Íslands, varð Johnson 36. forseti Bandaríkjanna. Hann tók við embætti í kjölfar morðsins á John F. Kennedy forseta, í Dallas í Texas.
1977 Óperusöngkonan Maria Callas deyr í París, 53 ára gömul - ein af bestu söngkonum aldarinnar.

Saga dagsins
1717 Gos hófst í Kverkfjöllum við norðanverðan Vatnajökul - mikið hlaup varð í Jökulsá á Fjöllum.
1980 Anastasio Somoza Debayle fyrrum forseti Nicaragua, myrtur í Asunción í Paraguay. Debayle
var seinasti þjóðarleiðtogi landsins úr hinni alræmdu Somoza-fjölskyldu sem ríkti í landinu 1936-1979.
Í kjölfar þess að Debayle missti völd sín flúði hann í útlegð til Bandaríkjanna. Debayle var myrtur
af útsendurum Sandinista-stjórnarinnar í Nicaragua, sem tók við völdum eftir fall Somoza-veldisins.
1984 Brian Mulroney tók við embætti forsætisráðherra í Kanada - hann sat á valdastóli allt til 1993.
1992 Landsbanki Íslands tók yfir allar eignir Sambands íslenskra samvinnufélaga, upp í gríðarlegar skuldir Sambandsins til bankans. Í kjölfarið mátti heita að starfsemi SÍS, sem verið hafði stórveldi í íslensku þjóðlífi megnið af 20. öldinni, lyki. SÍS er þó enn til og starfar að litlu leyti hér á Akureyri.
2001 José Carreras hélt tónleika í Laugardalshöll - söng ásamt Diddú fyrir fullu húsi og var vel fagnað.

Snjallyrðið
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Steinn Steinarr skáld (1908-1958) (Tíminn og vatnið)

Eitt af bestu ljóðum Steins. Hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér - táknrænt og öflugt ljóð.


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson á
forsætisráðherrastóli í eitt ár


Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Í dag er ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð hafði þá setið á forsætisráðherrastóli samfellt í rúm þrettán ár. Samhliða þessu tók Davíð við embætti utanríkisráðherra af Halldóri, sem þá hafði verið á þeim stóli í tæpan áratug. Ljóst var á þessum degi fyrir ári að Halldór hefði mikla reynslu til að takast á hendur þetta mikla verkefni að verða verkstjóri í ríkisstjórn Íslands. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og hefur setið á þingi í þrjá áratugi. Halldór hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, í ár sem forsætisráðherra, rúm 9 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra. Það var til marks um traust persónulegt samstarf Davíðs og Halldórs að þeir skiptust á embættum í stjórn flokkanna, sem setið hefur í áratug, án átaka eða togstreitu um valdastóla. Eftirsjá var af Davíð úr forystusæti ríkisstjórnarinnar, enda er hann mun öflugri stjórnmálamaður en Halldór. Mörgum sjálfstæðismönnum þótti enda mjög súrt í broti að miklu minni flokkur tæki við forsæti í ríkisstjórn landsins. Það hefði farið best á því auðvitað að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði leitt stjórnina, enda forystumaður mun stærri stjórnmálaflokks, með miklu öflugra umboð kjósenda.

En nú þegar að Halldór hefur setið sem forsætisráðherra í ár er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Hvernig hefur þetta fyrsta ár Halldórs í embættinu verið? Mörgum dettur eflaust í hug orðin vandræðagangur og erfiðleikar. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi haldið allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór mjög. Halldór fetar aðrar leiðir og ekki er laust við að gæti þar áhrifa frá Blair og vinnubrögðum hans í almennri umræðu. Í pólitík sinni undanfarin ár hefur hann safnað að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs tekst Halldóri oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp koma stór mál eru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir eru virkir í netskrifum innan flokksins og eru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygir sig því víða.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart var sótt að Halldóri á fyrri hluta ársins vegna ýmissa mála. Eins og flestir vita er þekkja til mælinga á persónufylgi forsætisráðherra landsins í gegnum árin hefur Halldór hlotið óvenjuslæma útreið í könnunum. Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sem forsætisráðherra sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning í skoðanakönnunum, en var vissulega umdeildur. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Er greinilegt að Halldór hefur brugðist við þessum könnunum og dapri stöðu í mælingum meðal landsmanna með markvissum hætti, annað er að minnsta kosti ekki hægt að sjá hjá spunasérfræðingunum hans. Þeir hafa sótt fram fyrir hönd Halldórs og staðið vörð um stöðu hans á opinberum vettvangi.

Athygli vakti fyrr á árinu er spunameistarar hans tilkynntu að Halldór myndi feta í fótspor forsætisráðherra Bretlands og halda blaðamannafundi reglulega til að ræða málin við fjölmiðlamenn. Fátt hefur komið út úr því. Reyndar sagði Halldór á frægum blaðamannafundi í júní vegna umræðunnar um tengsl hans við Skinney-Þinganes vegna sölunnar á Búnaðarbankanum að það væri fyrsti reglulegi blaðamannafundurinn hans. Síðan hefur mjög lítið gerst. Innan Framsóknarflokksins hefur ástandið verið eldimt, það hefur blasað við enda hefur hitnað mjög yfir yfirborði flokksins. Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir ári. Flest virðist hafa gengið honum í óhag. Komu viss grunnátök í flokknum vel fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Sérstaklega átti þetta við um Evrópumálin. Þar var tekist á með mjög ákveðnum hætti. Hefur verið merkilegt að sjá forystumenn flokksins takast á um málið og tjá ólíka sýn til ESB. Að lokum fór svo á flokksþinginu að ESB-stefna flokksins sem átti að vera mjög afgerandi varð mjög útvötnuð og sagði nær ekkert nýtt. Voru það mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn aðildar innan flokksins.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Við lok flokksþingsins var Halldór endurkjörinn formaður flokksins. Hlaut hann rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en síðast. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlýtur lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Ekki var um að ræða átakaþing hjá flokknum hvað varðar kosningar forystumanna, þeir voru endurkjörnir með yfirgnæfandi hætti, en hlutu þó veikara umboð en síðast. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins.

Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár. Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson.

Saga dagsins
1959 Nikita Khrushchev verður fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna er kemur í heimsókn til Bandaríkjanna.
1964 Breska æsifréttadagblaðið The Sun kemur út fyrsta sinni - markaði þáttaskil í fréttamennsku.
1972 Ásgeir Ásgeirsson fyrrv. forseti Íslands, lést, 78 ára að aldri. Ásgeir var til fjölda ára einn af helstu stjórnmálamönnum landsins, áður en hann varð forseti landsins. Hann sat sem þingmaður í þrjá áratugi og var forsætisráðherra 1932-1934. Ásgeir var ennfremur forseti sameinaðs Alþingis og bankastjóri Útvegsbankans. Hann var forseti Íslands 1952-1968 og naut mikillar hylli landsmanna á löngum forsetaferli sínum. Eiginkona Ásgeirs, Dóra Þórhallsdóttir, lést úr hvítblæði í september 1964.
1973 Gústaf Adolf VI Svíakonungur, lést í Stokkhólmi, níræður að aldri - var konungur Svía frá 1950.
2004 Davíð Oddsson lætur af embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands - hann hafði þá setið í embætti forsætisráðherra frá 30. apríl 1991, eða í 4886 daga, lengur en nokkur annar Íslendingur. Davíð tilkynnti í september 2005 um að hann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum. Hann mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum í október og hættir sem utanríkisráðherra nú í septembermánuði.

Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast,
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)

Fallegt ljóð hjá meistara Einari - segir allt sem segja þarf. Mikil speki í þessu.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Hús Sameinuðu þjóðanna í New York

Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta leitt til umræðu um hvort að draga eigi umsóknina til baka eður ei. Er ljóst að ekki hefur verið samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Athygli vakti í janúarmánuði er Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tjáði eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Sagði hann þá kostnað við hana geta farið yfir einn milljarð króna þegar allt væri talið með. Tilkynnti þá skoðun sína að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ætti að draga umsóknina til baka. Hef ég alla tíð verið mjög andsnúinn þessari umsókn, eins og ég hef margoft ítrekað í skrifum mínum. Við hjá SUS höfum margoft ályktað ennfremur gegn umsókninni. Skrifaði ég ítarlegan pistil um málið þann 7. febrúar sl. og fór þá yfir umræðuna vikurnar á undan. Í pistlinum bar ég fram þá ósk að Davíð myndi beita sér í þá átt að hætta við þessa umsókn með formlegum hætti.

29. apríl sl. flutti Davíð skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til öryggisráðsins. Síðan þá og eins eftir ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa miklar efasemdir verið uppi um þetta mál. Nú er framundan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og verða íslensk stjórnvöld að taka endanlega ákvörðun í málinu, hvort þeir fara út í kosningabaráttu af þessu tagi, fyrir þingbyrjun 3. október nk. Í dag tilkynnti Davíð að hann myndi ekki taka þá ákvörðun áður en hann léti af embætti utanríkisráðherra þann 27. september nk. Það kemur því í hlut Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, sem tekur við embætti af Davíð að taka hina endanlegu ákvörðun um framhald málsins. Verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu hann muni taka til málsins að lokum. Finnst mér það rétt hjá Davíð að færa valdið í hendur eftirmanns síns. Davíð er að fara að hætta störfum í stjórnmálum og kveður ráðuneytið brátt og því hið eina rétta að Geir taki ákvörðunina. Eins og fyrr segir hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.

Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Geir muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður.

Gerhard SchröderAngela Merkel

Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á sunnudag. Munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar hefur aukist að nýju seinustu daga. Stefnir nú allt í frekar afgerandi sigur hægriaflanna og það að Angela Merkel verði kanslari, fyrst þýskra kvenna. Gerhard Schröder kanslara, hafði tekist eftir sjónvarpseinvígi milli hans og Merkel í seinustu viku að auka fylgi jafnaðarmanna en nú hefur munurinn aukist aftur. Skv. nýjustu könnunum gætu hægriflokkarnir myndað starfhæfa ríkisstjórn undir forsæti Merkel. Að því stefnir hún. Schröder hefur lagt nótt við dag til að breyta stöðunni en líkur hans minnka sífellt eftir því sem nær dregur. Svo gæti þó farið að hægriflokkarnir nái ekki starfhæfum meirihluta, sem myndi leiða til hinnar svonefndu stóru samsteypu (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Hvernig sem fer virðist allt stefna í að Merkel taki við og ákveði framhaldið. Er öllum ljóst að Schröder yrði vart í stjórn undir forsæti hennar og er því spurning hvernig flokkur hans færi út úr slíku samstarfi. Reyndar er Schröder ekki leiðtogi flokksins, heldur aðeins kanslaraefni hans. Hvernig sem fer stefnir í líflegan lokasprett og spennandi kosningakvöld þegar úrslitin koma endanlega í ljós.

John G. Roberts

Seinustu dagana hefur John G. Roberts tilnefndur forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, setið fyrir svörum hjá dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Þar hefur hann fengið fjölda spurninga um lagaleg álitaefni og málefni tengd persónu hans. Er óhætt að fullyrða að farið hafi verið yfir ólík málefni, allt frá smáatriðum sem hann hefur ritað um persónuleg viðhorf og lagaleg álitaefni til háfræðilegra málefna tengdum stórmálum sem fyrir hæstarétt hafa farið á undanförnum áratugum. Hef ég fylgst smávægilega með spurningaferlinu og séð brot af því á vef CNN. Er óhætt að segja að þetta séu ítarlegar yfirheyrslur og fátt sem framhjá fer í því öllu saman. Sérstaklega hafa fulltrúar demókrata í nefndinni saumað að Roberts og viljað heyra meira um skoðanir hans á fjölda málefna. Hefur Roberts komið mjög á óvart að flestra mati í þessum yfirheyrslum með því að virka með á alla hluti og vel reiðubúinn að eiga við þaulreynda þingmennina. Er enginn vafi á því að hann verður staðfestur sem forseti réttarins innan skamms tíma. Reyndar lýkur yfirheyrslunum formlega á morgun og þá tekur við bein kosning fyrir öldungadeildinni. Þar verður Roberts að hljóta rúmlega 50 atkvæði til að verða staðfestur. Er algjörlega ljóst að hann fær þann stuðning og gott betur. Ekki er búist við mikilli andstöðu er á hólminn kemur.

Easy Rider

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Easy Rider, sígilda og næstum sagnfræðilega gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Í myndinni er sögð saga af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja upp í ferð til að skoða gervalla Ameríku. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. er George Hanson, lögfróður drykkjurútur, sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson er ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Það hlutverk færði honum frægð og frama og frelsaði hann undan samstarfi hans við B-myndaleikstjórann Roger Corman, en B-myndirnar voru ódýrar fljótheitamyndir sem gerðar voru til að fylla upp í þegar A-myndir voru sýndar með annarri mynd. Heldur afar vel sínum upphaflega sjarma og er enn í dag meistaraleg úttekt á þessum róstursama áratug þegar blómabörnin voru uppá sitt besta. Ætti að vera flestum ágæt upprifjun eða upplifun.

Brynjólfur Sveinsson

Á hverjum degi meðhöndlum við flestöll þúsund króna seðil. Eins og flestir vita prýðir þann seðil mynd af Brynjólfi Sveinsson biskup að Skálholti. Brynjólfur á sér mjög merka sögu, svo vægt sé til orða tekið. Í dag opnaði hr. Karl Sigurbjörnsson biskup, ítarlegan vef um Brynjólf og sögu hans. Hvet ég alla lesendur vefsins til að líta á hann og kynna sér betur þennan merka mann og lesa umfjöllunina sem þar er að finna. Er hún bæði góð og fróðleg.

Saga dagsins
1950 Flugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu á Vatnajökli - 6 manna áhöfn komst lífs af í slysinu.
1982 Dr. Kristján Eldjárn fyrrv. forseti Íslands, deyr á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, 65 ára að aldri, eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð í Ohio. Kristján þótti táknmynd alþýðleika og virðugleika á forsetastóli, en hann gegndi forsetaembættinu með mjög farsælum hætti í tólf ár, árin 1968-1980.
1982 Grace Kelly furstaynja af Mónakó, deyr af völdum heilablóðfalls í kjölfar bílslyss, 52 ára að aldri. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Country Girl árið 1955. Grace hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún giftist Rainier III fursta af Mónakó, árið 1956. Rainier sat áfram á valdastóli eftir lát konu sinnar. Hann lést í aprílmánuði 2005.
1996 Vestfjarðagöngin, milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar vígð - þau eru 9 km. löng.
2003 Sænskir kjósendur höfnuðu aðild landsins að myntbandalagi Evrópu, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Snjallyrðið
Ljúfasta stundin
er löngu horfin
og liðið að hausti.
Skjálfa viðir,
en skipið fúnar
skorðað í nausti.

Og sorgin læðist
í svörtum slæðum
um sölnuð engi.
Blöðin hrynja
í bleikum skógum
á brostna strengi.

Löng er nóttin
og nístingsköld
við niðandi ósa.
Hjartað stinga
hélaðir þyrnar
heilagra rósa.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haustkveðja)

Ein af perlum Davíðs frá Fagraskógi - fallegt og táknrænt ljóð.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Eyjafjörður

Heitasta málið í umræðunni hér í Eyjafirði þessa dagana eru sameiningarmálin. Eftir tæpan mánuð, þann 8. október nk. verður kosið um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði. Mikið er rætt um þessi mál hér og hefur maður orðið mjög var við það að fólk telur vanta meiri umræðu um kosti og galla sameiningar og beina kynningu á málinu. Í gærkvöldi héldum við sjálfstæðismenn á Akureyri fund um sameiningarmálin í Kaupangi. Var ég fundarstjóri á fundinum og flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður sameiningarnefndar sveitarfélaganna níu, framsögu um málið. Fór hún þar yfir málið frá mörgum hliðum og kynnti stöðu mála frá sjónarhóli nefndarinnar sem hún hefur stýrt. Að lokinni framsögu Sigrúnar Bjarkar voru miklar umræður um málið, margar spurningar og líflegt spjall. Er greinilegt að fólk hefur áhuga á málinu og vill heyra meira um meginpunkta þess, sem eðlilegt er. Bráðlega fara svo af stað kynningarfundir á málinu. Hefjast þeir 19. september nk. á Siglufirði og lýkur kynningarferlinu með stórum fundi hér á Akureyri þann 4. október nk. Gefst þar kjósendum tækifæri á að spyrja um málið frá öllum hliðum og fara yfir stöðuna. 3. október nk. verður svo haldinn kynningarfundur um málið á Dalvík og verður gestur þess fundar Árni Magnússon félagsmálaráðherra, og fyrrum sveitarstjórnarmaður í Hveragerði.

Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla þessara mála. Á því eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina. Einnig má deila um það hvort þessi kosning fari fram á heppilegum tíma. Persónulega var ég andvígur því að hafa kosninguna svona seint á árinu. Það eru kosningar til sveitarstjórna framundan eftir rúma 9 mánuði og það er óþægilegt fyrir allt skipulag þeirra að vera að flækjast með þessa kosningu á undan sér framundir árslok jafnvel, ef ferlið fer í aðra umferð - sem óhjákvæmilegt verður að mínu mati. Ég er eftir að hafa velt málinu mikið fyrir mér eindreginn stuðningsmaður þess að sameining fari fram. Ýmis hagræðing fer fram samhliða sameiningunni og ennfremur verður svæðið ein og styrk heild umfram allt. Það er mjög mikilvægt að styrkja meginlínurnar með því að sameina kraftana og vinna vel saman.

Hinsvegar tek ég undir með mörgum andstæðingum sameiningar að það er rangt af yfirvöldum að framkvæma svona kosningu víða á sama tímapunkti. Það á að vera innri ákvörðun sveitarfélaga hvort að þau vilji sameinast eða taka upp nánari samvinnu í stórum málum. Gott dæmi er sameiningar hér í firðinum á undanförnum árum. Þær hafa komið fram vegna þess að sveitarfélögin hafa viljað vinna saman. Árið 1993 var kosið um allt land um tillögur þáverandi félagsmálaráðherra um sameiningu sveitarfélaga. Kosið var um að sameina allan Eyjafjörð í eitt sveitarfélag. Þessi tillaga var felld með miklum mun allsstaðar nema á Akureyri. Þá var svo róttæk tillaga ekki tímabær. Á seinasta áratug hafa sameiningar orðið milli sveitarfélaga á svæðinu. Dalvík, Árskógsströnd og Svarfaðardalur sameinuðust í Dalvíkurbyggð árið 1998, árið 2002 sameinuðust Skriðuhreppur, Hörgárdalshreppur og Glæsibæjarhreppur í Hörgárbyggð og í fyrra sameinuðust Akureyrarbær og Hríseyjarhreppur. Ljóst er að þróunin stefnir í þá átt að fjörðurinn verði að lokum eitt sveitarfélag, en það gæti gerst í lengri skrefum en þau sem stíga á með kosningunni 8. október.

En fyrst og fremst verður þetta ekki fengið fram með valdboði, heldur því að sveitarfélögin vilji stíga skrefið. Það er grunnpunktur að mínu mati. En kynningarferlið heldur áfram - við fylgjumst spennt með því, erum hér öll áhugasöm um að heyra meira um málið og kynningu á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga hér við Eyjafjörð.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, er látinn, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Fyrsta hlutverk hans í leikhúsinu var er hann var nemi og tók þátt í opnunarsýningu Þjóðleikhússins, Íslandsklukkunni, árið 1950. Lék hann í rúmlega tvö hundruð hlutverkum á glæsilegum ferli við Þjóðleikhúsið. Hann þótti jafnvígur á alvöru sem gráglettið gaman og fór á kostum í gamanleikritum, söngleikjum og alvarlegum leikritum og fjölmörgum barnaleikritum. Hann er ódauðlegur fyrir túlkun sína á Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi. Á ég það leikverk á spólu - sannkallaður fjársjóður. Ennfremur þykir mér ógleymanleg túlkun hans í fjölda sjónvarpsleikrita og kvikmynda. Sem sviðsleikara verður hans væntanlega helst minnst fyrir Skugga-Svein, Húsvörðinn, Andorra, Lukkuriddarann, Gæja og píur, Kabarett, Pilt og stúlku, Bílaverkstæði Badda; svo aðeins nokkur séu nefnd. Undir lok ferilsins fór hann á kostum í fjölda hlutverka í gamanverkum.

Ógleymanleg er túlkun hans á Guðjóni Ísdal í Manni í mislitum sokkum, árið 1997. Eitt af hans seinustu verkum á sviði var Fjögur hjörtu. Hann lék þar ásamt félögum sínum Rúrik Haraldssyni, Árna Tryggvasyni og Gunnari Eyjólfssyni. Var þetta síðasta sviðsverk Rúriks, sem lést árið 2003. Gleymi ég aldrei skemmtilegri kvöldstund hér á Akureyri sumarið 1998 er þeir félagar komu norður með sýninguna. Ógleymanleg kvöldstund með sönnum snillingum. Ennfremur má minnast á fyrstu sjónvarpsauglýsinguna, sem fór í loftið er Sjónvarpið hóf útsendingar árið 1966. Þar fór Bessi Bjarnason á kostum við að auglýsa Kórónajakkaföt, sem þóttu hið flottasta þá. Sú auglýsing er alveg stórfengleg. Bar ég alltaf mikla virðingu fyrir Bessa sem leikara, hann var í mínum huga hinn eini sanni gamanleikari. Hitti alltaf í mark með túlkun sinni og setti mark sitt á þau verk sem hann tók þátt í. Man ég vel eftir því þegar að ég hitti Bessa í verslun í Reykjavík, aðeins sjö ára gamall. Þá þótti mér sem ég hefði hitt guðlega veru. Bessi var enda Mikki refur í mínum augum - og eflaust flestra af minni og eldri kynslóðum. Eftirlifandi eiginkona Bessa Bjarnasonar er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum.

Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti.

Jens Stoltenberg

Það fór eins og flesta grunaði. Hægristjórnin í Noregi féll í þingkosningunum í gær. Var mjótt á munum en þó meiri munur en helstu spekingar höfðu spáð fyrir kjördag. Þáttaskil verða því í norskum stjórnmálum. Rauðgræna bandalagið hefur hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður - en það hafði ákveðið fyrir kosningar að starfa saman fengi það meirihluta á þingi. Öllum er þó ljóst að bandalagið mun starfa saman og Jens Stoltenberg leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, verður forsætisráðherra Noregs, öðru sinni. Hann var forsætisráðherra Noregs árin 2000-2001. Þó að Stoltenberg geti verið glaður með að komast til valda aftur er sigurinn óneitanlega nokkuð súrsætur. Jafnaðarmenn fá tæp 33%, sem eru önnur lökustu kosningaúrslit flokksins frá því á öðrum áratug. Sögulegu lágmarki flokksins var náð með þingkosningunum árið 2001, þegar fylgið fór undir 25%, sem þótti skelfilegur árangur. Skal það engan undra, enda hefur Jafnaðarmannaflokkurinn verið í forystu norskra stjórnmála meginpart seinustu aldar. Með þessum úrslitum lýkur forsætisráðherraferli prestsins og hægrimannsins Kjell Magne Bondevik. Stjórn hans sat nær óslitið í átta ár. Verður merkilegt að fylgjast með norskum stjórnmálum nú við valdaskiptin.

Á Glerártorgi

Fimm ár eru nú liðin frá því að verslunarmiðstöðin Glerártorg opnaði hér á Akureyri. Mikil og öflug fyrirtæki eru þar í verslunarrekstri og mikill fjöldi leggur þangað leið sína á hverjum degi. Það hefur svo sannarlega sýnt sig og sannað að bygging verslunarmiðstöðarinnar var gott skref. Segja má að miðpunktur verslunar í bænum hafi fært sig þangað. Nú eru komnar fram metnaðarfullar hugmyndir um að stækka verslunarmiðstöðina að Glerártorgi um helming. Með endalokum Skinnaiðnaðar gefst tækifæri á að stækka Glerártorg. Nú hefur Smáratorg sem á verslunarmiðstöðina gert tilboð í hús Skinnaiðnaðar. Eigendur hússins er Akureyrarbær auk lífeyrissjóða og Landsbankans. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist. Óneitanlega verður enn líflegra yfir svæðinu og verslun þar verði stækkunin að veruleika. Blasir það við öllum að sóknarfæri eru til að stækka verslunarmiðstöðina og efla hana.

Góð plata félaganna á Baggalút

Fastur liður í vefrúntinum á hverjum degi er hinn óborganlegi vefur félaganna á Baggalút. Stórskemmtilegur og flottur vefur með góðu gríni. Allavega hentar hann vel mínum húmor. Nýlega gáfu þeir félagar út plötuna Pabbi þarf að vinna... sem er með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Keypti mér plötuna um daginn, enda hafði ég heyrt nokkur lög hljóma í útvarpinu, t.d. titillagið sem sungið er af Rúnari Júlíussyni. Hvet alla til að fá sér plötuna og skemmta sér vel yfir henni. Pottþétt skemmtun.

Saga dagsins
1948 Margaret Chase Smith var kjörin fyrst kvenna á bandaríska þingið - Margaret varð fyrsta konan í sögu landsins sem kjörin var bæði í fulltrúadeild og öldungadeild bandaríska þingsins í þingsögunni.
1981 Borgarfjarðarbrúin var vígð - með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness umtalsvert.
1982 Málaferli hefjast gegn foreldrum barns sem sökuð eru um að hafa myrt barn sitt, en þau sögðu að hafi verið drepið af villidýri - umdeilt mál sem gerð var kvikmynd um. Foreldrarnir unnu í málinu.
1993 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat leiðtogi Palestínuaraba, skrifa undir samning um frið í Mið-austurlöndum. Samningurinn var virtur að mestu í upphafi og friður komst á, en friðarferlið fór út af sporinu eftir morðið á Rabin árið 1995 og ríkisstjórnarskipti í Ísrael árið eftir.
2001 Iain Duncan Smith, lítt þekktur þingmaður Íhaldsflokksins, kjörinn leiðtogi flokksins - Duncan Smith var umdeildur innan flokksins meðan hann leiddi hann og var felldur af leiðtogastóli árið 2003.

Snjallyrðið
We'll meet again,
Don't know where,
Don't know when,
But I know
We'll meet again
Some sunny day.

Keep smiling through
Just like you
Always do
Till the blue skies
Drive the dark clouds
Far away.
Ross Parker tónlistarmaður (We'll Meet Again)

Allir þeir sem hafa séð myndina Dr. Strangelove þekkja lagið og ljóðið. Undurfallegt og sætt ljóð - með sannri tilfinningu.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Varðskip

Tilkynnt var um skiptingu Símapeninganna í síðustu viku. Ríkið fékk tæpa 67 milljarða fyrir Símann og framundan eru næg verkefni sem blasa við sem andvirði þeirra fer í. Ánægjulegast er að stór skerfur andvirðisins fer í að greiða niður skuldir ríkisins. Ennfremur fagna ég því mjög að Landhelgisgæslan fái vænan hluta: í nýja björgunarþyrlu og varðskip. Eru það þörf og góð verkefni. Ennfremur er ánægjulegt að Sundabraut komi loks til sögunnar. Hinsvegar deila menn um ágæti hátæknisjúkrahússins ef menn ætla að fara að færa flugvöllinn jafnvel burt úr borginni. Vonandi heldur hann sér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að skipan máli verði með þeim hætti. Það er allavega ekki vænlegt skref að ætla að byggja upp hátæknisjúkrahús og ætla svo jafnvel að færa völlinn til Keflavíkur. Er mikilvægt að menn íhugi vel mikilvægi flugvallar á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég hef svo margoft tekið fram. En aftur að varðskipunum. Í síðustu viku kom varðskipið Ægir til landsins frá Póllandi eftir gagngerar endurbætur. Eins og allir vita var tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar tekið í endurbætur á Ægi og Tý. Eins og allir vita sem fylgjast hafa með skrifum mínum á þessu ári var ég einn þeirra sem harmaði mjög þá ákvörðun.

Við sjálfstæðismenn á Akureyri vorum allavega verulega ósátt við það að tilboði Slippstöðvarinnar hér á Akureyri í verkið var ekki tekið og sendum við í Verði ályktun frá okkur um málið. Óhætt er að fullyrða að þessi ákvörðun hafi orðið okkur Akureyringum mjög mikil vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt. Vakti mikla furðu og undrun að ekki hafi verið samið við Slippstöðina, hér á Akureyri, um breytingar og endurbætur á varðskipunum. Tilboð pólverjanna hljóðaði upp á 275 milljónir og var 13 milljónum króna lægra en tilboðið frá Slippstöðinni. Við blasti enda að munurinn á tilboðunum væri það lítill að hann myndi ekki einu sinni ná að dekka þann kostnað sem fylgdi því að flytja verkið úr landi. Þótti mér með ólíkindum að hlusta á rökstuðning Ríkiskaupa í málinu á þeim tímapunkti, en ég hef í engu skipt um skoðun. Að mínu mati var með ólíkindum að ekki hafi verið reynt að efla íslenskan skipa- og málmiðnað með þeim hætti sem best hentar, þegar svo stórt verkefni var um að ræða. Vakti þessi ákvörðun margar spurningar í stöðunni á þeim tímapunkti og ekki síður nú. Sú sem helst stendur eftir er þessi: hvað olli því að Ríkiskaup tók þann kostinn að horfa að öllu leyti framhjá kostnaði við flutning skipanna, uppihaldi starfsmanna og tengda þætti sem óhjákvæmilega fylgir?

Var ekki rétt að staldra aðeins við og taka þann þátt betur inn í dæmið áður en svo stór ákvörðun er tekin. Er rétt að minna á að fyrir nokkrum árum voru sömu varðskip send í endurnýjun til Póllands. Í það skiptið varð viðgerðin á Tý um 60% dýrari en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Hvað varðar Ægi fór kostnaðaráætlun þá 90% yfir það sem stefnt var að. Búast hefði mátt við að sú lexía hefði orðið stjórnvöldum og Ríkiskaupum dýrkeypt og mótað afstöðu til málsins fyrr á árinu. Sú varð ekki raunin. Eins og heyrst hefur í fréttum er staða Slippstöðvarinnar frekar slæm og horfir þunglega, en vonandi ná menn höndum saman um að laga það sem að er. Var ekki til að bæta stöðuna að horfa á þetta stóra og mikla verkefni fara héðan frá Akureyri út til Póllands. En ég endurtek mikilvægi þess að Símapeningarnir fari í mikilvæg verkefni og tek fram mikla ánægju mína með það að gert sé ráð fyrir nýju varðskipi og nýrri björgunarþyrlu.

John G. Roberts með fjölskyldu sinni

Eins og kom fram hér á vefnum í síðustu viku hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilnefnt John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, í stað William H. Rehnquist sem lést fyrir rúmri viku. Í sumar hafði Bush tilnefnt Roberts sem dómara við réttinn í stað Söndru Day O'Connor. Sú skipan hefur verið dregin aftur og mun Bush fljótlega tilnefna annað dómaraefni en Sandra mun gegna embætti þar til eftirmaður hefur verið staðfestur í þinginu. Í dag kom Roberts fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hefst staðfestingarferli vegna skipunar hans í forsetastólinn. Er þetta í fyrsta skipti í ellefu ár sem slíkt ferli hefst fyrir þinginu. Roberts þykir vera óumdeildur og er ekki búist við miklum og bitrum átökum vegna skipunar hans. Er það eflaust vegna þess að hann verður ekki svokallað swing vote eins og áður stefndi í, hefði hann tekið við af Söndru. Enginn í þinginu hefur þorað að draga feril hans, hið minnsta jafnvel, í efa og ljúka allir lofsorði á störf hans. Búast má við að hann fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. En hinsvegar minnka sífellt líkurnar á hvassyrtu staðfestingarferli. Eru flestir spekingarnir vestanhafs farnir að spá því að Roberts muni fljúga með hraði inn í forsetastól réttarins og mæti lítilli mótspyrnu er á hólminn komi.

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í varaformannskjöri og styður Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ennfremur hefur Bjarni Benediktsson lýst yfir stuðningi við Þorgerði Katrínu. Var yfirlýsing Árna merkileg í ljósi þess að hann er leiðtogi síns kjördæmis og hefur setið mun lengur á þingi en Þorgerður Katrín og ennfremur verið lengur í ríkisstjórn en hún. Leggur Árni greinilega ekki í slag við Þorgerði Katrínu um varaformennskuna. Það er vissulega mjög merkilegt að Árni styðji Þorgerði Katrínu til varaformennsku á þeirri forsendu einni að hún sé kona. Árni nefndi enda engin önnur atriði sem ástæðu fyrir því að hann styður Þorgerði Katrínu. Mér virðist það vera svo að Árni sé annaðhvort orðinn lítillátur maður með aldrinum eða hefur misst pólitíska frumkvæðið í kjördæminu til Þorgerðar Katrínar með atburðum seinustu daga. Mér er það allavega stórlega til efs að hann muni leiða lista flokksins í kjördæminu verði Þorgerður Katrín varaformaður og fari aftur fram í kraganum. Það getur varla svo verið komið að fólk verði forystumenn flokka sinna eingöngu vegna kynferðis síns – allavega undrast ég það ef svo er. Það hlýtur að vera svo að annað ráði en kynjasjónarmið, þó það sé auðvitað gott og blessað að konur hafi metnað fyrir sér. Fyrri verk og pólitísk forysta hljóta að vera ráðandi þáttur.

Jens Stoltenberg og Kjell Magne Bondevik

Þingkosningar eru í Noregi í dag. Skv. skoðanakönnunum í Noregi stefnir allt í spennandi kosningar og erfitt að spá hvort að vinstri- eða hægriarmurinn komist til valda að þeim loknum. Þó spá flestir spekingar að vinstristjórn komist til valda í landinu eftir kosningarnar, undir forsæti Jens Stoltenberg leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Fari svo mun óhjákvæmilega hægristjórn Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra, falla. Stjórnin hefur setið nær óslitið frá árinu 1997. Stoltenberg var reyndar forsætisráðherra í rúmt ár, 2000-2001, en tapaði seinustu þingkosningum árið 2001. Seinustu vikurnar hefur reyndar munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar minnkað nokkuð. Skyndilega er orðinn fræðilegur möguleiki á því að Bondevik haldi völdum. Líkurnar á því minnka vissulega í ljósi þess að Carl I. Hagen og Framfaraflokkurinn vilja helst breyta til. Stjórnin hefur minnihluta á þinginu og þarf algjörlega að stóla sig á Hagen og flokk hans. Hætti hann stuðningi við stjórnina árið 2000 sem leiddi til falls hennar fram að kosningunum sem hægriflokkarnir unnu og mynduð var á ný stjórn í takt við fyrri hægristjórn. Búast má við spennandi kjördegi og talningu atkvæða. Bondevik hefur að flestra mati tekist að bæta verulega við sig og náð vopnum sínum. En nú er spurt: tekst honum að snúa stöðunni við? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Jóna Lísa ásamt sóknarbörnum

Séra Jóna Lísa kvaddi sóknarbörn hér á Akureyri í gær með messu í Akureyrarkirkju. Var það notaleg og góð stund. Fjöldi fólks mætti í kirkju til að kveðja Jónu Lísu. Hún lætur af embætti á fimmtudag og heldur til annarra starfa. Eftir messuna var kaffi og veitingar í boði í Safnaðarheimilinu, fjöldi fólks þáði það boð. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson tekur svo við störfum í kirkjunni fyrir vikulok og ásamt honum Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, sem tekur við nýju starfi æskulýðsprests. Með því þjóna þrír prestar við kirkjuna í stað tveggja áður. Svavar Alfreð heldur auðvitað áfram sínum störfum sem aðalprestur við kirkjuna. Séra Jónu Lísu eru færðar góðar kveðjur við starfslokin, er hún heldur nú til útlanda í ný verkefni. Nýjum presti er óskað góðs í sínum störfum fyrir sóknarbörn í Akureyrarprestakalli.

Saga dagsins
1974 Haile Selassie keisara Eþíópíu, steypt af stóli í valdaráni hersins. Keisaradæmið aflagt með því.
1977 Steve Biko, sem leiddi baráttu blökkumanna gegn valdhöfum í Suður-Afríku, deyr í varðhaldi.
1997 Skotar samþykkja með yfirgnæfandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að koma upp heimastjórn í Edinborg - Donald Dewar verður fyrsti forystumaður heimastjórnar - Dewar lést snögglega árið 2000.
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stríði gegn hryðjuverkum, eftir árásir á BNA.
2003 Sveitasöngvarinn Johnny Cash, ein helsta goðsögnin í sveitatónlistinni, deyr, 71 árs að aldri.

Snjallyrðið
When I think of angels
I think of you.
And your flaming red hair
and the things that you do.

I heard you had left
no it couldn't be true.
When I think of angels
I think of you.

Gods speed to you angel
wherever you go.
Although you have left
I want you to know;

My heart's full of sorrow
I won't let it show.
I'll see you again
when it's my time to go.
Kristján Kristjánsson (KK) tónlistarmaður (When I Think of Angels)

Gríðarlega fallegt ljóð eftir KK. Engin orð fá lýst þessu - þetta talar sínu máli. Sannkölluð snilld.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um brotthvarf Davíðs Oddssonar úr íslenskum stjórnmálum. Davíð hefur jafnan verið talinn maður óvæntra tíðinda í íslenskum stjórnmálum. Hann kom flestum á óvart á miðvikudag með því að tilkynna að hann tæki við embætti seðlabankastjóra og myndi víkja úr ríkisstjórn og af þingi fyrir lok mánaðarins og léti af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í næsta mánuði. Fer ég yfir mat mitt á þessari ákvörðun Davíðs. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Í pistlinum lýsi ég yfir stuðningi við Geir H. Haarde sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Fer vel á því að hann verði eftirmaður Davíðs á formannsstóli.

- í öðru lagi fjalla ég um væntanlegan varaformannsslag í Sjálfstæðisflokknum. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hafa lýst yfir framboði sínu. Lýsi ég yfir stuðningi mínum við Kristján Þór í pistlinum. Eins og flestir ættu að vita höfum við Kristján Þór verið samherjar í pólitík hér í Eyjafirði til fjölda ára og ég styð hann því auðvitað heilshugar til þessa embættis. Annars tel ég flokknum hollt að fram fari hressileg átök um varaformennskuna, sem nú er laus í kjölfar tíðinda vikunnar, en að landsfundi loknum muni flokksmenn svo auðvitað sameinast að baki kjörinni forystu. Við brotthvarf Davíðs Oddssonar er mikilvægt að við stöndum saman vörð um arfleifð stjórnmálaferils hans og sjálfstæðisstefnuna, grunnstefnu okkar hægrimanna sem styðjum flokkinn, sem okkur er öllum svo kær.


Fjórum árum eftir 9/11

World Trade Center

Í dag, 11. september, er þess minnst að fjögur ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas.

Á þessum fjórum árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Ætlun hryðjuverkamannanna var að sundra þjóðarsál Bandaríkjanna og vega að henni. Árásirnar þjöppuðu hinsvegar landsmönnum saman og efldi þjóðerniskennd þeirra. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú í landinu, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag. Árásirnar reyndu mikið á ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og hann persónulega. Þær settu gríðarmikið mark á fyrra kjörtímabil hans og stefnu ríkisstjórnarinnar og öll áhersluatriði í valdatíð hans.

Árásin á New York og Washington, 11. september 2001, var ekki bara aðför að Bandaríkjunum heldur vestrænu samfélagi almennt. Með þeim hætti var þeim voðaverkum svarað og stuðningur mikill um allan heim við þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfar þessa sorgardags þegar hryðjuverkasamtök réðust á ógeðfelldan hátt að vestrænum háttum. Enginn vafi er á því að þessi atburður hefur breytt algjörlega gangi heimsmála og leitt til atburða sem kannski sér ekki fyrir endann á. Atburðir 11. september 2001 og eftirmáli, urðu áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku.

Saga dagsins
1944 Fyrstu hermenn Bandamanna komast inn í Þýskaland. Veldi nasista hrundi svo loks í apríl 1945.
1964 Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, lést úr hvítblæði, 71 árs að aldri. Hún var fædd 23. febrúar 1893. Dóra var systir Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra. Hún giftist Ásgeiri Ásgeirssyni árið 1917. Hann var forsætisráðherra 1932-1934 og var kjörinn forseti Íslands árið 1952. Frú Dóra, sem var forsetafrú í tólf ár, vakti athygli fyrir glæsileika sinn og tignarlega framkomu hvar sem hún fór. Ásgeir sat á forsetastóli áfram eftir andlát Dóru, en lét af embætti árið 1968. Ásgeir lést í september 1972.
1973 Salvador Allende forseta Chile, steypt af stóli í blóðugri uppreisn hersins. Hann lést í átökum
í forsetahöllinni. Augusto Pinochet hershöfðingi, varð leiðtogi Chile og ríkti hann allt til ársins 1990.
2001 Hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum - hryðjuverkamenn ráðast á New York og Washington með því að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á valin skotmörk. Tveim flugvélum var flogið á World Trade Center og einni á Pentagon. Tvíburaturnarnir (WTC) hrundu til jarðar og Pentagon varð mjög illa úti.
2003 Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, deyr á sjúkrahúsi af völdum sára sem hún hlaut er vitfirringur réðst að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í miðborg Stokkhólms, daginn áður.

Snjallyrðið
Æ, ljúfast var að vaka ástin mín
vetrarnætur dimmar við brjóstin þín
þegar kalt er í veðri og vindurinn hvín
þá vekur fölur máninn börnin sín.

Hversu ljúft var að hlæja og gera grín
grafa sig undir þitt hvíta lín
og opna þitt heita hjartaskrín
hverfa loks þangað sem ástin skín.

Í húminu svala ég ligg og læt mig dreyma
leyfi sorginni að vaka í mínu hjarta
og sakna hlýju þinna handa.

Og fyrri tíðar myndir í myrkrinu svarta
magnast hverju sinni er ég anda.
Ég er orðinn of gamall til að gleyma.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Sonnetta)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Í gær tilkynntu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, formlega um framboð sín til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Það stefnir því í spennandi kosningu um varaformannsstólinn. Auk þeirra blasir við að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og verðandi fjármálaráðherra, sækist eftir varaformennsku, en hann er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann og Þorgerður Katrín koma bæði úr Hafnarfirði og sama kjördæmi. Það er því alveg ljóst að fari Árni fram er þetta óneitanlega liður í valdabaráttu í kraganum. Það hafa allir séð stjörnu Þorgerðar Katrínar rísa nokkuð hratt í kjördæminu á síðustu árum. Hún kom flestum á óvart með því að verða fjórða í prófkjöri í Reykjaneskjördæmi árið 1999. Í sama prófkjöri sigraði Árni og varð leiðtogi kjördæmisins. Listinn hélt sér hvað varðaði fjögur efstu sætin í kosningunum 2003, eftir kjördæmabreytinguna og sami hópur leiddi listann í hinu nýja Suðvesturkjördæmi. Það fór ekki framhjá neinum að Þorgerður Katrín vildi þá prófkjör og ætlaði sér að sækja fram og komast ofar á lista. Hún hlaut svo að kosningunum loknum embætti menntamálaráðherra og hefur verið áberandi í stjórnmálum á þessu kjörtímabili.

En Þorgerður Katrín hefur ekki verið eina rísandi stjarnan úr kraganum, sem hefur skyggt á leiðtogann Árna úr Hafnarfirðinum að undanförnu. Þar hefur einnig komið til leiks hinn 35 ára gamli Bjarni Benediktsson sem var í fimmta sæti listans í kosningunum 2003 og kom nýr á þing mörgum að óvörum, en hann hafði fram að því lítið tekið þátt í starfi flokksins. Hann kemur af Engeyjarætt eins og fleiri mætir menn. Faðir hans er Benedikt Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem um tíma var stjórnarformaður Eimskips. Afabróðir Bjarna var Dr. Bjarni Benediktsson, einn farsælasti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á 20. öld og formaður flokksins í níu ár, 1961-1970. Frændur Bjarna eru t.d. Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Bjarni hefur á þessu kjörtímabili komið mjög sterkur til leiks. Hann tók við formennsku í allsherjarnefnd árið 2003 af Þorgerði Katrínu er hún varð menntamálaráðherra. Þar hefur hann verið mjög áberandi og kom t.d. mjög vel fram í hinu umdeilda fjölmiðlamáli í fyrra. Vakti hann mikla athygli fyrir glæsilega frammistöðu í fjölmiðlum og hefur síðan verið sífellt oftar nefndur sem leiðtogaefni flokksins á komandi árum. Nú er mjög rætt um það hvort hann gefi kost á sér til varaformennskunnar og hafi áhuga á frekari frama, rétt eins og Þorgerður Katrín. Því unir vart Árni.

Eins og ég lýsti yfir í gær mun ég styðja Kristján Þór í þessu varaformannskjöri. Hef ég þekkt hann til fjölda ára og unnið með honum í fjölda verkefna innan flokksins. Vil ég að reyndur maður með þekkingu á fjölbreyttum sviðum taki við varaformennskunni. Í mínum huga er Kristján Þór slíkur maður. Hann er fæddur og uppalinn í sjávarplássi, þekkir því tilveruna og hefur starfað að sjávarútvegi og komið nálægt sveitarstjórnarpólitík. Reynsla hans er mikil. Eins og hann lýsti yfir í gær vill hann taka að sér þetta verkefni. Hann hefur langan feril að baki sem talar sínu máli. Varaformennskan er laus og enginn á hefðarrétt á henni. Að mínu mati á Kristján Þór fullt erindi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið þekktur fyrir pólitíska forystu, er fljótur að taka ákvarðanir, er metnaðarfullur fyrir hönd síns sveitarfélags og sinnir þeim verkefnum sem hann tekur að sér með metnað að leiðarljósi. Á ferli sínum í sveitarstjórnarpólitík hefur Kristján Þór öðlast mjög mikilvæga reynslu að mörgum þáttum mannlífsins. Er ég á þeirri skoðun að þekking hans á þessum málefnum eigi fullt erindi í forystusveitina og hann sé réttur maður í þetta embætti. Því er hárrétt hjá honum að gefa kost á sér til þessa verkefnis sem varaformennskan er.

Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir

Fimmtudaginn 15. september nk. mun séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju, láta formlega af störfum sem prestur okkar í Akureyrarprestakalli. Á sunnudaginn mun hún kveðja sóknarbörn sín með kveðjumessu í Akureyrarkirkju. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt það og sannað, að mínu mati allavega og eflaust margra fleiri, að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af miklum krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Allir þeir sem kynna sér verk hennar í þeim málefnum og almennt varðandi samskipti við fólk vita að Jóna Lísa er ákveðin en um leið traust og hefur starfað með miklum sóma að þeim verkum sem skipta máli. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg, en þá bók skrifaði hún eftir sviplegt lát manns hennar, Vignis Friðþjófssonar. Það er bók sem er öllum lexía að lesa. Einnig hefur hún ritað margt almennt um mörg málefni og haldið fjölda fyrirlestra.

Valnefnd sóknarnefndar Akureyrarprestakalls ákvað á fundi sínum í síðasta mánuði að mæla með sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni sóknarpresti í Ólafsvík, í stöðu sóknarprests við Akureyrarkirkju. Mun hann taka við prestsembætti í kirkjunni af sr. Jónu Lísu í næstu viku er hún hættir störfum. Sama dag mun Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, taka formlega við nýju embætti prests með áherslu á barna- og unglingastarf. Með þessu verða þrír prestar starfandi við Akureyrarkirkju, en þar starfar fyrir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur prestur hér frá því að sr. Þórhallur Höskuldsson lést með sviplegum hætti fyrir áratug. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi Jónu Lísu úr starfinu úr sókninni. Hún hefur verið áberandi í starfinu sem þar hefur verið og mikill og öflugur leiðtogi þess með Svavari Alfreð. Segja má með sanni ennfremur að störf hennar sem prests hér hafi markað þónokkur þáttaskil. Hún var fyrsta konan sem var starfandi sóknarprestur í Akureyrarkirkju og reyndar hér á staðnum almennt í langri sögu kirkju á Akureyri. Fjöldi góðra presta hafa leitt safnaðarstarfið hér og er hún svo sannarlega ekki síður litrík en forverar hennar. Þáttaskil verða nú hjá Jónu Lísu en hún hefur í hyggju að breyta til og dvelja á Spáni í vetur við ýmis verkefni.

Hvet ég öll sóknarbörn í Akureyrarprestakalli til að fara í kirkju á sunnudaginn í kveðjumessuna. Þar mun kór Akureyrarkirkju og stúlknakór kirkjunnar syngja undir stjórn Björns Steinars Sólbergssonar og Eyþórs Inga Jónssonar. Eftir messu verður svo boðið upp á kaffiveitingar í Safnaðarheimilinu. Vil ég nota tækifærið og þakka Jónu Lísu góð störf í þágu okkar hér í sókninni og jafnframt óska nýjum presti velfarnaðar í störfum sínum hér á Akureyri á næstu árum.

Angela Merkel

Rúm vika er í þýsku þingkosningarnar. Spenna virðist nú komin í kosningabaráttuna. Dregið hefur saman milli vinstri- og hægriblokkarinnar eftir sjónvarpseinvígið á sunnudag þar sem Angela Merkel og Gerhard Schröder tókust á um málefni kosningabaráttunnar og verk vinstristjórnarinnar seinustu sjö árin. Hefur fylgi Jafnaðarmannaflokksins aukist eilítið og ef úrslit kosninganna verða með þeim hætti sem nú sýnir geta hægriflokkarnir ekki myndað meirihlutastjórn. Því kæmi til stóra samsteypa (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Yrði slík stjórn mynduð eftir þeim tölum sem kannanir sýna núna yrði Merkel kanslari engu að síður. Schröder kanslari, þarf meira fylgi til að haldast inni í leiknum og að bæta við sig um sex til sjö prósentustigum á lokasprettinum. Þannig að hann er enn fjarri því takmarki sínu að halda starfinu þriðja kjörtímabilið í röð. En það er ekki lengur eins fjarlægur möguleiki og var fyrir nokkrum vikum. Það getur vissulega allt gerst. Það stefnir því allt í spennandi kosningabaráttu á lokavikunni sem framundan er. Átakapólarnir eru allavega vel ljósir en svo gæti farið að þeir þyrftu að starfa saman eftir kosningarnar.

Viktor Yushchenko og Yulia Tymoshenko

Fyrir nokkrum mánuðum var barist af hörku í Úkraínu um völdin. Spennandi forsetakosningar höfðu farið fram og eftir þær var forsætisráðherrann Viktor Yanukovych, frambjóðandi ráðandi afla, úrskurðaður sigurvegari. Það sætti mótframbjóðandinn Viktor Yushchenko sem var forsætisráðherra landsins á árunum 1999-2001, sig ekki við og mótmælti harðlega ásamt stuðningsmönnum sínum á torginu í höfuðborginni Kænugarði. Endinn þekkja allir. Kosningarnar voru endurteknar og Yushchenko var kjörinn forseti með miklum yfirburðum. Einn helsti stuðningsmaður hans í þeim miklu átökum var hin baráttuglaða Yulia Tymoshenko. Í kjölfar valdatöku Yushchenko varð Yulia forsætisráðherra landsins. Þau voru mjög öflug saman í baráttunni fyrir sigri Yushchenko og Yuliu var launaður stuðningurinn með afgerandi hætti. En nú er friðurinn milli þeirra búinn. Í gær rak forsetinn ríkisstjórnina til að reyna að binda endi á deilur innan hennar. Þar hafa Yulia og Petro Porochjenko fyrrum formaður þjóðaröryggisráðs Úkraínu, deilt af krafti og mikil valdabarátta verið bak við tjöldin. Nú talar Yulia með þeim hætti að sælan milli hennar og forsetans sé á enda. Blasir við að hún fari fram á eigin vegum í þingkosningunum í mars á næsta ári. Ef svo verður mun staða forsetans veikjast verulega og mikil óvissa skapast í úkraínskum stjórnmálum.

Fáskrúðsfjarðargöng

Í dag var stór stund í sögu Austfjarða. Þá voru formlega tekin í notkun göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Er um mikla samgöngubót að ræða, en vegurinn um Vattarnesskriðurnar er svo sannarlega barn síns tíma. Með þessum þáttaskilum opnast ennfremur möguleikinn á sameiningu sveitarfélaga, en kosið verður um sameiningu t.d. Fjarðabyggðar og Austurbyggðar eftir tæpan mánuð. Ennfremur verður þetta ennfremur eitt atvinnusvæði. Álver Alcoa verður til eftir um tvö ár og því er ljóst að möguleikarnir eru miklir á þessu svæði, samhliða bæði nýjum atvinnutækifærum og ekki síður þessum góða samgöngukosti sem opnar ný og spennandi tengsl milli byggðanna fyrir austan. Hef ég oft farið austur á þessu ári og notið þess að kynna mér enn betur mannlífið þar og kynnast fólki á svæðinu. Það hefur verið mjög ánægjulegt, en ég er svosem ekki ókunnur Austfjörðunum, verandi ættaður frá Eskifirði að hluta og með góð tengsl í Fjarðabyggð. Vil ég nota tækifærið og óska Austfirðingum innilega til hamingju með þessi göng. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur þeim og er því einn af þeim sem fagna mjög með heimamönnum. Þetta er sannkallaður gleðidagur!

Davíð Oddsson

Eins og allir vita er Davíð að hætta í stjórnmálum og ætlar sér að fara í Seðlabankann fyrir vetrarbyrjun. Það eru mikil þáttaskil samhliða því, eins og sést hefur á skrifum mínum seinustu daga. Gat ekki annað en ort eina stutta og rólega vísu um það að hann færi í bankann.

Solla og Dabbi fallast faðma í
seðlabankahúsinu fagra
sitja brátt fundi saman í
musteri peninga dýrra

Saga dagsins
1208 Víðinesbardagi var háður í Hjaltadal í Skagafirði - í honum féllu 12 manns, t.d. Kolbeinn ungi.
1877 Þingeyrarkirkja vígð - kirkjan var talin eitt veglegasta hús sem reist var á Íslandi á sínum tíma.
1926 Sjónvarpsstöðin NBC, The National Broadcasting Corporation, var formlega stofnuð í New York.
1976 Mao Zedong formaður, leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína, deyr í Peking, 82 ára að aldri.
2001 Ahmed Shah Massoud leiðtogi Norðurbandalagsins, myrtur í Afganistan, var þá 48 ára að aldri.

Snjallyrðið
Ástin vill þér vera nær
augun mild og tær
ástin syngur rökkursöng
kvöldin köld og löng;
þú sem ert mér fjær.

Þrái aðeins eina þig
nóttin dimm kyssir mig,
rúmið kalt engin þú
ég og mín veika trú;
þú sem ert mér fjær.

Finn ekki leiðina heim
er orðinn einn af þeim
tilheyri rótlausri hjörð
með engar rætur í jörð.

Borgin með sín svörtu tjöld
vokir yfir gríma köld
tjörnin frosin tunglið grátt
tíminn býður enga sátt;
þú sem ert mér fjær.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú sem ert mér fjær)


Engin fyrirsögn

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri,
í varaformannsframboð


Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Fyrr í dag gaf Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kost á sér í varaformanninn og stefnir því í kosningu milli þeirra á landsfundi flokksins sem verður í Reykjavík dagana 13. - 16. október nk. Búast má alveg við fleiri framboðum. Kristján Þór hélt blaðamannafund á Hamarskotsklöppum við styttu Helga magra og Þórunnar hyrnu á Akureyri á þriðja tímanum í dag þar sem hann tilkynnti formlega um framboð sitt. Eiginkona Kristjáns Þórs er Guðbjörg Ringsted og eiga þau fjögur börn. Hann fæddist á Dalvík árið 1957 og var nokkurn tíma kennari við grunnskólann og stýrimannaskólann á staðnum. Kristján Þór Júlíusson hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann varð bæjarstjóri á Dalvík, aðeins 29 ára að aldri, árið 1986 og sat þar að hálfu meirihluta Sjálfstæðisflokksins og vinstrimanna. Sjálfstæðisflokkurinn á Dalvík varð aldrei sterkari og öflugri en á þeim tíma sem hann var bæjarstjóri að hálfu flokksins og aldrei hefur Dalvík verið öflugri en á þeim tíma. Árið 1994 yfirgáfu Kristján Þór og fjölskylda hans Dalvík og hann tók við bæjarstjórastarfi á Ísafirði, sem hann gegndi til ársins 1997.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 1998 sneri Kristján Þór aftur með fjölskyldu sína á heimaslóðir. Var ákveðið að hann yrði bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í þeim kosningum og leiddi hann framboðslista okkar. Var sótt fram af krafti. Slagorð kosninganna varð: Kraftur í stað kyrrstöðu! Var það jákvæð, skemmtileg og ánægjuleg kosningabarátta. Deyfð og stöðnun höfðu einkennt Akureyri á kjörtímabilinu sem þá var að ljúka og slagorðið og krafturinn í framboðinu hittu svo sannarlega í mark. Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum, hlaut tæp 43% og fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu sem sæti eiga í bæjarstjórn. 9. júní 1998 tók Kristján Þór við embætti bæjarstjóra hér á Akureyri og hefur gegnt því starfi síðan og leitt okkur sjálfstæðismenn með farsælum árangri. Í síðustu kosningum árið 2002 hélt flokkurinn þeim sess aðrar kosningarnar í röð að vera stærsti flokkurinn. Er það vissulega sögulegur árangur í þessu fræga vígi Framsóknarflokksins sem til fjölda ára var stærsti flokkurinn hér. Á þessum tveim kjörtímabilum okkar hefur staða Akureyrar styrkst til mikilla muna: íbúum hefur fjölgað og ýmsar glæsilegar verklegar framkvæmdir hafa einkennt uppbygginguna sem við sjálfstæðismenn höfum leitt í bænum.

Mun ég að sjálfsögðu kjósa Kristján Þór til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi. Kynntist ég honum fyrst er ég flutti til Dalvíkur um miðjan níunda áratuginn héðan frá Akureyri. Síðan hef ég metið Kristján Þór mjög mikils. Hann varð farsæll stjórnmálamaður skömmu síðar, varð ungur bæjarstjóri og sannaði styrk sinn í því starfi og stýrði Dalvíkurbæ með miklum krafti og hefur endurtekið leikinn bæði á Ísafirði og hér á Akureyri sem pólitískur leiðtogi okkar sjálfstæðismanna. Faðir Kristjáns Þórs, Júlíus Kristjánsson, hefur verið góðvinur minn ennfremur til fjölda ára og met ég mjög mikils tengsl mín við fjölskyldu hans. Það er sjálfsagt mál að Kristján Þór reyni á stöðu sína og hvernig hann standi á þessum tímapunkti innan flokksins. Stóll varaformanns flokksins er laus í kjölfar þess að Davíð Oddsson tilkynnti í gær að hann myndi láta af formennsku á landsfundi flokksins í október. Nú er framundan spennandi varaformannskjör sem verður athyglisvert að fylgjast með.

Punktar dagsins
Davíð Oddsson

Eins og allir vita hefur Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nú tilkynnt brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum. Mikil þáttaskil fylgja því að Davíð víki af þingi og úr ríkisstjórn fyrir lok þessa mánaðar. Jafnframt er ljóst af ákvörðun hans að sækjast ekki eftir endurkjöri á formannsstól Sjálfstæðisflokksins að miklar breytingar verða á forystu flokksins og ásýnd hans. Mörgum kom á óvart að Davíð skyldi víkja úr stjórnmálum á þessum tímapunkti til að taka við embætti seðlabankastjóra. En það þarf engan að undra að Davíð vilji breyta til og stefna á ný verkefni. Hann hefur verið í forystusveit íslenskra stjórnmála í tæp 25 ár, sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri í Reykjavík, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og að lokum utanríkisráðherra. Eins og ég fór yfir í gær er stjórnmálaferill hans glæsilegur og mun hans verða minnst fyrir sína kraftmiklu pólitísku forystu, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjóðina, í forsæti flokks og ríkisstjórnar. Davíð kynnti þessi þáttaskil með sínum hætti á blaðamannafundinum í Valhöll í gær. Hann talaði af krafti og kom glæsilega fyrir, eins og hans er von og vísa. En miklar breytingar fylgja brotthvarfi hans, það blasir við.

Í gær birtist pistill minn um þessi stórtíðindi á vefritinu íhald.is. Þakka ég þeim sem skrifuðu mér vegna þeirra skrifa. Taldi ég rétt að skrifa eilítið um þann merka stjórnmálaferil sem Davíð hefur átt og það framlag sem hann hefur unnið í þágu flokksins okkar. Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum munum aldrei geta þakkað honum nægilega fyrir sína góðu forystu. En ég vona að þessi pistill hafi verið jafneinlæglegur og hann átti að vera í garð þessa mikla forystumanns okkar. Það var merkilegt að sjá í gær viðbrögð formanna stjórnarandstöðuflokkanna við þessum pólitísku stórtíðindum. Öll lofuðu þau mjög pólitískt starf hans og karakterinn Davíð Oddsson. Er það engin furða, enda væri sá stjórnmálamaður eða stjórnmálaspekingur í mikilli afneitun ef hann viðurkenndi ekki styrk Davíðs sem stjórnmálamanns og merk verk hans á þeim vettvangi. Sérstaklega var áhugavert að heyra í formanni Samfylkingarinnar, sem þrátt fyrir orrahríðir við Davíð, talaði mjög glæsilega um verk hans og forystu. Enda er varla annað hægt. Hann er einfaldlega það öflugur hluti af stjórnmálasögu landsins seinustu áratugina að það blasir við öllum sem fylgjast með útlínum og meginpunktum stjórnmálanna, bæði í nútímanum og eins áður fyrr, sögulega hornsteina stjórnmálasögu okkar.

En það er vissulega líf eftir Davíð Oddsson, þó öll söknum við hans mjög úr forystunni. Nú er það verkefni okkar sem eftir stöndum að halda uppi merki hans í stjórnmálum og standa vörð um pólitísku verkefnin sem framundan eru og eins þau miklu verk sem hann hefur leitt til þessa. Pólitísk verkefni taka aldrei enda, alltaf eru áskoranir framundan á veginum - verk að vinna. Vissulega verður eilítið öðruvísi að starfa innan Sjálfstæðisflokksins í pólitísku starfi eftir að formannsferli Davíðs Oddssonar lýkur. En flokkurinn hefur haldið velli í tæpa átta áratugi og leitt íslensk stjórnmál sem stærsti flokkur landsins. Þannig var það áður en Davíð Oddsson kemur til sögunnar og þannig verður það nú þegar að hann fer úr forystusveitinni eftir sín góðu verk. Sjálfstæðisstefnan sem grunnpunktur flokksins sameinar okkur og á grunni hennar sækjum við fram á komandi árum, í tveim mikilvægum kosningum. En það er alltaf sjónarsviptir af sterkum mönnum - eftirsjá þegar að litríkir menn sem sett hafa svip á samtíð sína taka þá ákvörðun að hætta störfum að stjórnmálum og takast á hendur önnur verkefni. Það á svo sannarlega við um þann öfluga stjórnmálamann sem Davíð Oddsson er.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra

Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins í október. Hann tilkynnti þetta í Valhöll í gær í kjölfar þess að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Það kemur engum á óvart að Geir hafi áhuga á formennsku í flokknum við þessi þáttaskil. Hann er mjög reyndur stjórnmálamaður. Geir hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hefur verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár. Það er því mjög eðlilegt að hann sækist nú eftir því að leiða flokkinn og verða eftirmaður Davíðs Oddssonar. Styð ég hann heilshugar í því verkefni. Hefur Geir unnið mjög ötullega að flokksstarfinu úti á landi í varaformannstíð sinni. Hann hefur sótt fundi á vettvangi kjördæmanna og hann hefur nokkrum sinnum verið gestur okkar hér ásamt eiginkonu sinni, Ingu Jónu Þórðardóttur, í sumarferðum okkar.

Fyrir mánaðarmót verður Geir utanríkisráðherra og tekur við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður merkilegt að fylgjast með honum í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Geir verður einn í kjöri á landsfundinum eftir mánuð og mun hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Það verða engin átök um formennskuna og við munum öll sameinast að baki Geir og styðja hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem væntanlegs formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem bíður hans er hann tekur við forystunni af farsælasta foringja okkar sjálfstæðismanna, Davíð Oddssyni.

Jarðarför William H. Rehnquist

William Rehnquist forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, var jarðsunginn í Washington í gær. Hann lést að kvöldi laugardags eftir erfiða baráttu við krabbamein, áttræður að aldri. Hann hafði setið í hæstarétti Bandaríkjanna í 33 ár, frá árinu 1972, og verið forseti réttarins í tæpa tvo áratugi, frá árinu 1986. Jarðarförin þótti mjög látlaus. Hafði Rehnquist sjálfur afþakkað viðhafnarjarðarför (state funeral) sem hann átti rétt á sem forseti hæstaréttar. Aðeins forsetar landsins og réttarins hafa rétt á slíku. Fór athöfnin fram í St. Matthew's kapellu í Washington. Fluttu James Rehnquist (sonur hins látna), George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Sandra Day O'Connor hæstaréttardómari (sem var náin vinkona Rehnquist og ennfremur skólafélagi hans og síðar vinnufélagi í réttinum í 24 ár), og Antonin Scalia hæstaréttardómari, ræður við athöfnina og minntust hans. Fyrir athöfnina hafði kista Rehnquist legið á viðhafnarbörum í viðhafnarsal hæstaréttar í rúman sólarhring. Einn líkmanna við útförina var John G. Roberts sem skipaður hefur verið eftirmaður Rehnquists á forsetastól hæstaréttar, en hann hafði verið aðstoðarmaður hans í réttinum um tíma á níunda áratugnum. Eftir útförina var kista Rehnquists flutt í Arlington-kirkjugarð þar sem greftrun fór fram.

Helgi magri og Þórunn hyrna

Skóladeild Akureyrarbæjar hefur nú auglýst eftir tilboðum í rekstur nýja leikskólans hér á Brekkunni, sem hlotið hefur heitið Hólmasól. Leikskólinn, sem er við Helgamagrastræti, er nefndur eftir Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem talið er að fæðst hafi í Eyjafirði, en hún var dóttir landnámshjónanna Helga magra og Þórunnar hyrnu. Stendur skólinn einmitt við götur sem heitir í höfuðið á þeim Helgamagrastræti og Þórunnarstræti. Er gleðiefni að rekstur leikskólans sé boðinn út og annað rekstrarform komi í leikskólamálum. Er ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdum á byggingasvæðinu, en leikskólinn rís nú mjög hratt og tekur sífellt á sig mynd. Verður hann tilbúinn á fyrrihluta næsta árs.

Saga dagsins
1779 Bjarni Pálsson landlæknir, lést, sextugur að aldri. Bjarni var landlæknir allt frá 1760 til æviloka.
1891 Ölfusárbrú vígð - var fyrsta hengibrú landsmanna og ein mesta verklega framkvæmd landsins.
1943 Bandamenn ná formlega völdum á Ítalíu - veldi Benito Mussolini hafði hrunið þá fyrr um árið.
1975 Dagblaðið "frjálst, óháð dagblað" kom út í fyrsta skipti - blaðið sameinaðist Vísi í DV árið 1981.
1987 50 króna mynt kom til sögunnar - samhliða því var formlega hætt útgáfu 50 krónu seðils.

Snjallyrðið
Þú ert eins og vindurinn og kælir mig niður,
þú ert eins og sumarið hiti og friður,
þú ert eins og vorið björt og fríð,
í skugga þínum ég brosi og bíð.

Þú ert eins og vatnið kitlandi svalt,
þú ert eins og stálið blikandi kalt,
þú ert eins og silkið svo undurmjúkt,
sál mín af ást til þín er sjúk.

Þú bara ert
- og það nægir mér.

Þú ilmar sem hafið þungt og sætt,
ilmar eins og barnið sem er nýfætt,
þú ilmar sem öspin eftir rigninganótt
hjarta mitt slær taktfast og rótt.

Þú ert eins og moldin frjó og góð,
þú ert full af lífi og eldmóð,
þú ert eins og barnið og spyrð um allt,
í skugga þínum er alltaf svalt.

Þú ert eins og tunglið og togar í mig,
þú ert eins og eldur og ég elska þig,
þú ert spör á orðið sem ég þrái að heyra,
ég bragðaði á þér og ég vil meira.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú ert)

Mikið innilega er þetta fallegt ljóð hjá meistara Bubba. Sætt og ljúft í gegn - eitt af glæsilegum ljóðum við falleg lög Bubba á nýju plötunum hans.


Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson hættir formennsku
í Sjálfstæðisflokknum


Davíð Oddsson

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi hans sem haldinn verður dagana 13. - 16. október nk. Ákvörðun Davíðs markar mikil þáttaskil. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann felldi Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í spennandi kosningu á landsfundi. Með því mörkuðust önnur þáttaskil í lífi Davíðs Oddssonar, en hann hafði verið borgarstjóri í Reykjavík samfellt í 9 ár, 1982-1991, er hann varð forystumaður flokksins í landsmálunum og sat í borgarstjórn árin 1974-1994. Davíð varð forsætisráðherra eftir kosningasigur flokksins árið 1991 og leiddi stjórn með Alþýðuflokki til ársins 1995 og með Framsóknarflokknum til ársins 2004. Leiddi hann því ríkisstjórn Íslands samfellt 1991-2004, eða í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur í stjórnmálasögu landsins. Hann hefur svo verið utanríkisráðherra frá 15. september 2004. Á þrettán ára forsætisráðherraferli hans urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar, lækkunar skatta, og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum.

Á blaðamannafundinum í Valhöll tilkynnti Davíð að hann myndi taka við embætti seðlabankastjóra og verður formaður bankastjórnar þann 20. október nk., en eins og Davíð benti á er það afmælisdagur eiginkonu hans, Ástríðar Thorarensen. Davíð Oddsson mun víkja úr ríkisstjórn og láta af þingmennsku fyrir Reykvíkinga þann 27. september nk. Þann dag er boðaður ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar mun Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, taka við embætti utanríkisráðherra af Davíð. Árni M. Mathiesen tekur við embætti fjármálaráðherra af Geir og eftirmaður Árna á stóli sjávarútvegsráðherra verður Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður. Við þessar miklu breytingar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Við sæti Davíðs Oddssonar á þingi tekur Ásta Möller formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, sem sat á þingi árin 1999-2003 og hefur verið fyrsti varamaður flokksins í RN síðan. Eru þetta mjög umfangsmiklar breytingar sem eiga sér stað með brotthvarfi Davíðs á forystu flokksins og lykilmannskap hans. Stóll formanns þingflokksins losnar við þessa uppstokkun. Flest bendir til þess að Arnbjörg Sveinsdóttir taki við formennsku í þingflokknum, enda varaformaður nú. Ákvörðun um það verður tekin í næstu viku.

George W. Bush og Davíð Oddsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Dr. Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði sér spor í íslenska stjórnmálasögu sem aldrei munu gleymast.

Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið hans helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem segir til verka og hefur notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Styrkleiki hans sannaðist einna helst að mínu mati á síðasta ári þegar að hann veiktist snögglega. Hann kom hnarreistur frá þeirri glímu og sýndi enn og aftur styrkleika sinn og kraft sem stjórnmálamanns. Hann kom fram í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar og sagði sjúkrasöguna með sínum hætti: glæddi alvarlega sögu léttum undirtóni.

Davíð Oddsson

Á síðasta ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum. Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin.

Davíð er án vafa maður allra ára í stjórnmálum. Hann er sá stjórnmálamaður sem bæði hefur verið elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Þrátt fyrir nokkra harkalega mótvindi og það að honum hafi oft verið sótt og hann veikst mjög illa undir lok stjórnmálaferilsins stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í lok verksins á sviði stjórnmálanna, sterkur og öflugur. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef í gegnum störf mín þar kynnst svo Davíð sjálfum og ekki síður kynnst í návígi hversu góður og farsæll leiðtogi hann hefur verið. Það er algjörlega óhætt að fullyrða að ég hafi borið mikla virðingu fyrir honum. Forysta hans hefur enda verið okkur mjög heilladrjúg og farsæl.

Davíð Oddsson

Í dag, 7. september 2005, á þeim degi sem fyrir liggur að Davíð Oddsson hættir í stjórnmálum og lætur af forystu Sjálfstæðisflokksins eftir farsælan feril, hefur hann verið formaður flokksins í 5.295 daga. Aðeins Ólafur Thors hefur verið formaður flokksins lengur. Við sem störfum í Sjálfstæðisflokknum getum litið um öxl yfir fjórtán ára formannsferil Davíðs Oddssonar og þrettán ár hans í forsæti ríkisstjórnar Íslands með stolti. Hann hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og leiddi okkur öll rétta leið. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta vannst undir forystu Davíðs Oddssonar.

Ég fer ekki leynt með það að ég vonaði allt til enda að Davíð Oddsson myndi gefa kost á sér áfram. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Við þessi miklu þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Davíð hættir í stjórnmálum - pistill SFS á íhald.is



Snjallyrðið
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.

Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Angela Merkel og Gerhard Schröder

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi eftir tæpar tvær vikur. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands, og leysa af hólmi Gerhard Schröder kanslara, sem setið hefur á valdastóli frá árinu 1998 og leitt ríkisstjórn sósíalista og græningja. Í kosningunum 2002 tókst kanslaranum naumlega að halda völdum á lokaspretti kosningabaráttunnar, eftir að hafa verið undir í skoðanakönnunum nær alla baráttuna. Vonast hann til að endurtaka leikinn nú, en staðan er enn erfiðari fyrir hann nú en þá. Stefnir því í það að hann missi völdin núna, ef ekkert breytist. Hægrimenn eru greinilega staðráðnir í því að endurtaka ekki nú sömu mistökin á lokasprettinum 2002 er þeir leyfðu hinum fjölmiðlavæna kanslara að stela sviðsljósinu. Angela hefur skipt um útlit, er komin í fagrar dragtir og hefur fengið sér glæsilega hárgreiðslu og talar af enn meiri fítonskrafti en nokkru sinni áður. Greinilegt er að Schröder getur ekki einvörðungu treyst á persónuþokkann og kosningabrosin og reynir því að snúa út úr málefnalegum punktum andstæðinganna með ýmsum hætti.

Á sunnudagskvöldið mættust Merkel og Schröder í kappræðum að bandarískum hætti í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni RTL. Þar var farið yfir kosningabaráttuna og átakapunkta hennar. Þau voru bæði í hörkuformi og skiptust á skotum sín á milli. Fyrirfram hafði verið álitið að Merkel myndi standa mun verr að vígi, enda almennt talin hafa nokkuð harða ásýnd og vera mun fjarlægari í framkomu í sjónvarpi en kanslarinn. Fyrir þrem árum þegar að Schröder mætti Edmund Stoiber þáverandi kanslaraefni hægrimanna, var mikið rætt um aldursmuninn milli þeirra, enda var hinn gráhærði Stoiber (maður reynslunnar) mun eldri ásýndum en kanslarinn dökkhærði með þaulæfða kosningabrosið. Þá var mikið reyndar talað um hvort kanslarinn litaði á sér hárið til að halda sér unglegum sem leiddi til málshöfðunar kanslarans í garð slúðurblaðs. Stoiber tapaði naumlega kosningunum reyndar, en væntanlega má skrifa það á það að hann var eldri en Schröder og mörgum fannst hann orðinn einum of gamall, eins hlægilegt og það er að segja um mann sem hefur mikla reynslu til að bera. Merkel kom eitilhörð til leiks á sunnudagskvöldið, staðráðin í að sanna sig og taka frumkvæðið í kappræðunum og reka af sér slyðruorðið um að hún væri lakari í kappræðum en kanslarinn. Hún sýndi kanslaranum þá hörku sem þurfti.

Angela kom kraftmikil til leiks og sannaði kraft sinn. Það greinilega fékk á kanslarann hversu vel undirbúin hún var og vel inni í málunum. Hún svaraði öllu sem hann sagði með krafti og endurtók lykilorðin: atvinnuleysið hefur minnkað í valdatíð þinni - hagvöxturinn hefur dalað - Þýskaland hefur liðið fyrir vinstriáherslur, og klikkti út með því að horfa í áttina til kanslarans og segja: Það hefur ekkert staðist af því sem þú hefur lofað. Kanslarinn átti sína spretti og var mjög öflugur á köflum. Mörgum fannst þó fyndið að sjá hvernig Merkel stóð álengdar meðan kanslarinn talaði og leit til hans augum í takt við kennslukonuna sem horfir ábúðarfull á nemandann. Henni tókst það sem margir höfðu talið að hún myndi flaska á, að ná frumkvæði og halda dampi gegn fjölmiðlastjörnunni Schröder. Mörgum fannst merkilegt að fylgjast með lokaorðum Merkel í kappræðunum. Var greinilegt að hún hafði sótt í smiðju Ronald Reagan fyrrum forseta Bandaríkjanna, og lokaorðum sem hann flutti í kappræðum við Jimmy Carter fyrir forsetakosningarnar 1980. Spurði Merkel líkt og Reagan fyrir 25 árum hvort kjósendur væru vel stæðir eftir valdatíð vinstrimanna og hvort þeir væru sáttir við stjórnvöld. Var hún einbeitt í tali og kom mörgum á óvart með frammistöðu sinni.

Angela Merkel sem eins og fyrr segir verður væntanlega næsti kanslari Þýskalands græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar. Það ræðst bráðlega hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og Angela er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á kosningaspár.

Guðmundur Árni Stefánsson

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra, lét af þingmennsku í síðustu viku. Hann sat á þingi í tólf ár, fyrir Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Guðmundur Árni hafði við afsögn sína af þingi þann merka sess að vera seinasti formaður Alþýðuflokksins, sem enn er til á pappírunum en rann inn í Samfylkinguna árið 2000. Í ítarlegu viðtali við Árna Þórarinsson í Morgunblaðinu sl. sunnudag fór Guðmundur Árni yfir stjórnmálaferil sinn og mikilvæga punkta sem hann nefnir er hann gerir upp árin tólf á þingi. Fannst mér merkilegt að lesa þetta viðtal. Í því segir hann hreint út að kosningabarátta Samfylkingarinnar 2003 hafi verið misheppnuð, þrátt fyrir fylgisaukningu, og að leiðtogatvíeyki flokksins í kosningunum, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson hafi klikkað í forystu sinni í kosningunum. Hann sakar þau hreinlega um reynsluleysi í viðtalinu. Kemur greinilega fram að Guðmundur Árni vildi stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir kosningar og segir að reynsluleysi leiðtogatvíeykisins með því að ætla að hlaupa til Framsóknar eftir kosningar og bjóða þeim strax forsæti í mögulegri stjórn flokkanna hafi eyðilagt möguleika flokksins á stjórnarsetu. Er ekki hægt að taka orð hans í viðtalinu öðruvísi en sem harkalega gagnrýni á þau sem leiddu flokkinn fyrir og eftir kosningarnar 2003.

Það er greinileg eftirsjá hjá Guðmundi Árna er hann hættir í stjórnmálum. Hann ítrekar að hann hafi verið í stjórnmálum til að hafa áhrif og hafi ekki áhuga á starfi í stjórnarandstöðu endalaust og vilji því reyna á nýjar lendur. Hann hefur misst áhugann og pólitíska kraftinn og skiptir um starfsvettvang vegna þess. Eins og allir vita var Guðmundur Árni lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra. Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994. Í viðtalinu víkur Guðmundur Árni að því máli og segir að innan Alþýðuflokksins hafi menn barist gegn sér á þeim tíma og hann hafi ekki getað treyst á lykilmenn sem veittust harkalega að honum þegar á reyndi. Er greinilegt að í hans huga er sú rimma geymd en ekki gleymd.

En það sem mér finnst athyglisverðast við viðtalið við Guðmund Árna er að hann ræðst bæði að ISG og Össuri. Það er greinilegt að mjög djúpstæðar deilur hafa verið milli þessara þriggja innan Samfylkingarinnar og grunnt á því góða. Það sást t.d. mjög vel í eftirlaunamálinu er þáverandi formenn stjórnarandstöðuflokkanna stóðu að samkomulagi sem þeir hrökkluðust frá með skottið á milli lappanna vegna innri ágreinings. Össur lét ISG stjórna sér í þeim hasar, Steingrímur J. flúði á fjöll og Guðjón Arnar fór í frí til Kanarí. Sigurjón Þórðarson greiddi svo atkvæði gegn frumvarpi sem hann var sjálfur flutningsmaður að, eins og margir muna. Menn eru enn að reyna að átta sig á þeim merkilega viðsnúningi goðans. Guðmundur Árni stóð við sitt sem Samfylkingin hafði samþykkt í sínum þingflokki, en aðrir hrökkluðust þar frá. En þetta er áhugavert viðtal - uppgjör manns sem til fjölda ára var áberandi í íslenskum stjórnmálum. Maður sem sennilega upplifði á ferlinum bæði hátind og botn pólitískrar þátttöku, pólitíska sæta sigra og beiska pólitíska ósigra. Í raun hef ég alltaf borið virðingu fyrir Guðmundi Árna og metið hann einna mest þeirra krata sem eftir eru úr gamla Alþýðuflokknum og reyndu fyrir sér í Samfylkingunni, með misjöfnum árangri.

Bendi ég lesendum vefsins á að líta á bók hans, Hreinar línur, sem er að finna á vef hans. Í þeirri bók fer hann yfir pólitískan feril sinn fram að afsögninni árið 1994 og fer vel yfir átökin sem fylgdu afsögninni. Þessi bók er ágætislesning fyrir alla pólitíska áhugamenn að mínu mati. En það var mjög áhugavert að lesa Moggaviðtalið við Guðmund Árna, nú er hann skiptir um starfsvettvang og gerir upp fyrri pólitísk málefni áður en hann flýgur til Stokkhólms í ný verkefni í utanríkisþjónustunni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í gærkvöldi var aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri. Fundurinn var mjög fjölmennur og var ánægjulegt að hitta flokksfélaga sem komu þar saman og eiga þar gott spjall um málin. Fundarstjóri á fundinum var Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður og fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Fundarritari var Anna Fr. Blöndal fyrrum formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Í upphafi fundar flutti Björn Magnússon formaður, skýrslu stjórnar fulltrúaráðsins. Að því loknu kynnti Eygló Birgisdóttir gjaldkeri stjórnarinnar, reikninga fulltrúaráðsins, með ítarlegum hætti. Að því loknu var komið að kosningu til stjórnar. Björn Magnússon var sjálfkjörinn til formennsku í fulltrúaráðinu. Hefur hann leitt fulltrúaráðið frá árinu 2000 og mun því leiða fulltrúaráðið á kosningavetrinum sem framundan er.

Fjögur framboð bárust svo til setu í aðalstjórn fulltrúaráðsins, en kosið er um tvö sæti, utan formanns sem kjörinn er sérstaklega. Kjör í stjórn fulltrúaráðsins hlutu Anna Fr. Blöndal og Eygló Birgisdóttir. Ásamt þeim og Birni sitja í stjórn fulltrúaráðs formenn sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þau eru auk undirritaðs sem er formaður Varðar, Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, Helga Ingólfsdóttir formaður Varnar, og Gísli Aðalsteinsson formaður Sleipnis. Varamenn voru kjörnir Anna Þóra Baldursdóttir, Gísli Jónsson og Jóhanna H. Ragnarsdóttir. Jafnframt var kjörin kjörnefnd vegna sveitarstjórnarkosninganna sem framundan eru og kosið í kjördæmisráð af hálfu fulltrúaráðsins, en kjördæmisþing verður í Mývatnssveit laugardaginn 24. september nk. Að fundi loknum var boðið upp á veitingar og eins og venjulega skipulagði Helga okkar Ingólfsdóttir það af sinni stöku snilld.

Kenneth Clarke

Eins og allir vita er leiðtogakjör framundan í breska Íhaldsflokknum. Verður það væntanlega í nóvember sem kjörið fer fram og mun Michael Howard þá formlega hætta sem leiðtogi eftir að hafa setið á þeim stóli í tvö ár. Þegar hafa Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, David Davis, Liam Fox og David Cameron gefið kost á sér í leiðtogahlutverkið. Stefnir því allt í harðan og spennandi slag um leiðtogastöðuna. Í gær var birt skoðanakönnun BBC um fylgi leiðtogaefnanna meðal landsmanna. Þar hefur Ken Clarke algjöra yfirburði yfir aðra kandidata. Segjast 40% Breta vilja að Clarke taki við leiðtogahlutverkinu. Aðeins 10% nefna David Davis og 4% nefna Malcolm Rifkind. Það er greinilegt að ráði landsmenn verði Clarke leiðtogi á þessum tímapunkti. Stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna og verður spennandi að fylgjast með þeim átökum. En því er ekki að neita að staða Clarke er gríðarlega sterk, hann er maður sem hefur reynsluna og kraftinn sem þarf til að leiða. Menn staldra hinsvegar við aldur hans, en hann er 65 ára gamall. Svo er og hefur lengi verið deilt um afstöðu hans til Evrópumálanna. En framundan er leiðtogakjör í Íhaldsflokknum þar sem kúrsinn í stefnu og leiðtogasveit verður mörkuð.

Greifinn

Á sunnudagskvöldið fór ég ásamt góðum félögum út að borða. Eins og svo oft áður varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu. Að mínu mati jafnast enginn veitingastaður hér í bæ á við Greifann. Flottur matur, góð þjónusta, þægilegt andrúmsloft - hvað er hægt að hafa þetta betra? Alltaf ánægjulegt að fara þangað og fá sér góðan mat. Geri það reglulega. Svo jafnast auðvitað ekkert á við pizzurnar frá Greifanum. Dettur ekki í hug að panta pizzur annarsstaðar - svo góðar eru þær. Fyrsta flokks staður og matur. Allir sem koma til Akureyrar verða að fara þangað og við sem hér búum höfum gott af því að hvíla potta og pönnur eitt og eitt kvöld og fá okkur að borða þar. :)

Saga dagsins
1943 Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, kom út - hún varð ein vinsælasta bók landsins á 20. öld.
1948 Júlíana Hollandsdrottning, tekur við embætti - hún var drottning til 1980. Júlíana lést 2004.
1972 Allir gíslarnir 9 sem haldið hafði verið föngnum á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, létust - reynt var að frelsa gíslana úr haldi mannræningjanna (palestínskra hermdarverkamanna) en það mistókst.
1997 Díana prinsessa af Wales, var jarðsungin í Westminster Abbey-dómkirkjunni í London. Milljónir manna um allan heim fylgdust með afhöfninni, sem þótti mjög tilfinningamikil og hjartnæm. Díana var síðar um daginn jarðsett á eyju á miðri landareign fjölskyldu sinnar, Althorp, í Northampton-skíri.
1998 Japanski kvikmyndaleikstjórinn Akira Kurosawa lést í Tokyo í Japan - hann var 88 ára að aldri.

Snjallyrðið
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin,
því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðinn.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.
Magnús Þór Jónsson (Megas) skáld (Tvær stjörnur)


Engin fyrirsögn

John G. Roberts skipaður forseti hæstaréttar

John Roberts og George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna í stað William H. Rehnquist sem lést á laugardag. Rehnquist hafði verið í hæstarétti frá árinu 1972 og verið forseti hans í 19 ár, eða frá árinu 1986. Ef Roberts verður staðfestur af þinginu verður hann 17. forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Fyrr í sumar skipaði Bush forseti, Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hafði í réttinum allt frá árinu 1981. Nú hefur sú tilnefning verið dregin til baka og mun forsetinn brátt tilkynna annað dómaraefni sem kemur í stað Söndru. Með þessu er tryggt að allir níu dómarar réttarins verði við störf er hann kemur saman að loknu sumarleyfi í október. Það er auðvitað að því gefnu að öldungadeildin muni staðfesta skipan Roberts sem forseta. Sandra Day O'Connor mun gegna störfum sínum þar til eftirmaður hennar hefur tekið sæti í réttinum. Eru allar líkur á því að staðfestingarferli vegna þessara tveggja lausu sæta í réttinum fari fyrir þingið á sama tíma. Mun Roberts koma fyrir þingnefnd fyrir vikulok og svara þar spurningum um lögfræðileg álitaefni og tengd málefni. Nefndin mun í kjölfarið kjósa um tilnefninguna og fer málið svo fyrir öldungadeildina í heild sinni. Hljóti Roberts meirihluta atkvæða (fleiri en 50 atkvæði) er hann réttkjörinn til setu.

Bendir allt til þess að Roberts muni hljóta fljótvirka afgreiðslu og verði tekinn við starfinu fyrir mánaðarlok. Val forsetans á honum sem forseta réttarins kemur engum á óvart. Það var ljóst að hann hafði traust forsetans til setu í réttinum og hann var fyrsta dómaraefni hans. Enginn vafi lék á því að hann var sá sem Bush treysti best fyrir embættinu. Rætt var um það eftir lát Rehnquist að möguleiki væri á því að Bush forseti myndi skipa einn af núverandi dómurum við réttinn til forsetasetu en flestir töldu það ólíklegt, enda myndi Bush vilja skipa forseta beint til setu í réttinn fyrst tækifærið gafst við andlát William Rehnquist. Að mati sérfræðinga vestanhafs þótti ljóst að best færi á því að Roberts yrði skipaður í embættið, enda hefði hann hlotið góða kynningu frá því tilkynnt var um skipun hans í réttinn í júlí og verið kynntur ennfremur fyrir þingmönnum og þeim áhrifamönnum sem munu leiða staðfestingarferlið og sitja í öldungadeildinni sem greiða mun að lokum atkvæði um skipun hans. Telja flestir hinsvegar að nú muni Bush forseti skipa konu í stað Söndru og viðhalda með því kynjahlutfallinu sem verið hefur í réttinum, en eins og flestir vita er þar aðeins ein önnur kona fyrir - Ruth Bader Ginsburg sem skipuð var af Clinton árið 1993.

John Roberts og George W. Bush

John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Er hann enda almennt talinn lærisveinn hans. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og verður seint hægt að finna að fræðimannsferli hans og starfsferli sem dómara og lagasérfræðings. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist. Búast má við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu, en við blasir að hann muni samt sem áður hljóta afgerandi staðfestingu þingsins. Segja má að viðbrögðin við tilnefningu Roberts í forsetaembætti hæstaréttar hafi verið mjög flokkaskipt, rétt eins og var í júlí. Repúblikanar fögnuðu mjög tilnefningu hans og hrósuðu forsetanum fyrir valið. Demókratar voru sumir jákvæðir en flestir þeirra frekar neikvæðir og sögðu harðvítugt staðfestingarferli framundan. Roberts þykir vera íhaldssamur og því hætt við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu.

Þetta hefur oft gerst en ekki alltaf tekist. Besta dæmið um misheppnaðar skipanir í réttinn var þegar að Lewis Powell tilkynnti um starfslok sín sumarið 1987. Reagan forseti tilnefndi Robert Bork til embættisins en öldungadeildin hafnaði honum, 58-42. Þá tilnefndi Reagan í staðinn Douglas H. Ginsburg en hann varð að draga sig til baka vegna orðróms um dópneyslu hans fyrr á árum. Þá var í þriðju tilraun tilnefndur Anthony Kennedy og tók hann loks við embætti, nokkru eftir formleg starfslok Powell. Hvað varðar Roberts nú má búast við mikilli hörku frá báðum hliðum ef út í átök fer. Frjálslyndir telja hann ekki viðeigandi forsetaefni, hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann. Þó hefur Roberts ekki sagst telja rétt að gera það. En nú tekur við merkilegt ferli málsins. Staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík. Alveg einfalt!

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Eins og fyrr segir blasa fleiri breytingar við. Skipa þarf eftirmann Söndru Day O'Connor í réttinum, nú er Roberts hefur verið skipaður í stað Rehnquist. Er mest rætt um að í stað Söndru komi til greina þær konur sem mest voru í umræðunni í sumar er hún baðst lausnar. Þá var mikið rætt um að alríkisdómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Flestir telja að Edith Clement standi vel að vígi, en fullyrt var í júlí að Clement hefði orðið fyrir valinu, en það var svo auðvitað dregið til baka. Það blasir svo við að aldursforseti réttarins, John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Er hann nú í raun starfandi forseti réttarins, enda sá sem lengst hefur setið. Bush forseti, skipaði fljótt nýjan forseta, enda vildi hann ekki að Stevens, sem þykir frekar liberal, stjórni ákvörðunum réttarins eða leiði vinnuferli hans. Því hefur hann nú afstýrt með skipun Roberts. Það er ljóst að með skipun John G. Roberts í forsetastól hæstaréttar Bandaríkjanna hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni, enda er nýskipaður forseti aðeins fimmtugur og gæti setið í marga áratugi og mun hann leiða réttinn í stórum og vandasömum málum á komandi árum.

Saga dagsins
1942 Þýskar sprengjuflugvélar gerðu loftárás á Seyðisfjörð - nokkrar skemmdir urðu á húsum þar.
1972 Varðskip beitti togvíraklippum á breskan togara í fyrsta skipti - það varð mjög árangursríkt.
1979 Mountbatten lávarður, jarðsunginn í Westminster Abbey í London - lést í sprengjuárás IRA.
1987 Háskólinn á Akureyri var settur formlega í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju.
1997 Móðir Teresa handhafi friðarverðlauna Nóbels, sem eyddi ævi sinni í að sinna hinum þurfandi, einkum sjúkum og fátækum, deyr í Kalkútta á Indlandi. Móðir Teresa var 87 ára gömul er hún lést.

Snjallyrðið
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sjá dagar koma)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband