Dramatíkin um Tiger

Held að allir séu orðnir fullsaddir af dramatíkinni um golfarann Tiger Woods og líflegt einkalíf hans. Athygli fjölmiðla á því að rústa dýrlingsmynd Woods sem íþróttamanns hefur verið botnlaus og hann klúðraði sínum málum með því að aftengja ekki sprengjurnar þegar í upphafi.

Engu að síður hefur þessi fjölmiðlaumfjöllun farið yfir öll eðlileg mannleg mörk. Engu er líkara en þetta sé það merkilegasta sem gerist í Bandaríkjunum og kylfingurinn virðist undir meiri smásjá en Obama forseti.

Bandaríska pressan er óvægin og hefur sýnt það í þessu máli. Tiger virðist vera nýja eftirlæti þeirra eftir að Britney hætti að skandalísera.

mbl.is Tiger hættir keppni ótímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðisleg skylda útrásarvíkinganna

Mér finnst Bjarni Ármannsson sýna gott fordæmi með því að rjúfa þögnina: endurgreiða Glitni, bæði nú og þegar hann greiddi hluta af frægum starfslokasamningi sínum. Með því viðurkennir Bjarni ábyrgð sína, fyrstur hinna margfrægu útrásarvíkinga, og þátttöku í sukkinu sem hefur sett landið á hausinn. Þetta kalla ég að taka ábyrgð á fallinu og allavega sýna lit, eitthvað annað en blaður út í bláinn. Framkoma hans er óverjandi og mun fylgja honum eftir, þó þessi ákvörðun ein og sér hafi fært honum einhvern frið frá mestu umræðunni.

Útrásarvíkingarnir hafa verið á flótta eftir bankahrunið. Sumir hafa farið í upphafin viðtöl í sjónvarpi og reynt að snúa okkur enn einn hring í blekkingarhringekju sinni með misgóðum árangri, þeir hafi ekki vitað að þetta hafi verið svona skelfilega slæm staða og hafi reynt sitt besta. Aðrir hafa ritað blaðagreinar til að telja öllum trú um að þeir hafi nú ekki verið svo slæmir og hafi bara verið að sinna sínum störfum. Eftir stendur þó sú staðreynd að þessir menn komu þjóðinni á hausinn. Niðurlæging hennar er algjör.

Aðalmálið nú er þó ekki orðagjálfur eða pínlegar afsakanir heldur það að auðmennirnir sem fengu digra starfslokasamninga og settu þjóðina á kaldan klakann í orðsins fyllstu merkingu borgi til baka og leggi lið. Það er siðferðisleg skylda þessara manna. Bjarni hefur átt góðan leik en fjarri því er að hann sé laus úr þessu máli. Vörn hans var vandræðaleg þrátt fyrir þessi útspil.

Eftir alla samningana og sukkið er komið nóg og tími til kominn að þessir menn svari fyrir ævintýralega framgöngu sína, sem hefur skaðað þjóðina í heild sinni.

mbl.is Bjarni endurgreiðir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin vill eiga síðasta orðið um Icesave

Ég er ekki undrandi á því að stór hluti þjóðarinnar sé andvíg því að stjórnmálamenn eigi síðasta orðið í Icesave-málinu, allra síst veikburða ríkisstjórn með vart starfhæfan þingmeirihluta í málinu. Umboð stjórnmálamanna til að klára málið er vægast sagt veikt - þjóðin vill fá að tjá sig um málið, taka af skarið í þessari risavöxnu skuldbindingu fyrir komandi kynslóðir Íslendinga.

Skilaboðin eru skýr. Forseti Íslands á erfitt verkefni fyrir höndum - hann verður að taka afstöðu til þess hvort þjóðin eigi að eiga síðasta orðið eða stjórnmálamenn. Sú afstaða ætti því varla að vera svo erfið þegar hann horfir til eigin orða í fjölmiðlamálinu árið 2004. Þá talaði hann skýrt til þjóðarinnar í yfirlýsingu frá Bessastöðum.

Hann hlýtur að vera sjálfum sér samkvæmur og horfa til eigin orða á þeim umbrotatímum þegar hann virkjaði sjálfur 26. greinina. Hann mótaði þá leikreglur sem hann getur ekki gleymt í þessu máli, þegar rúmlega 30.000 Íslendingar hafa krafist þjóðaratkvæðis um Icesave.

Augljóst er að gjá er milli þings og þjóðar í þessu risavaxna máli. Valkostir forsetans virðast einfaldir: vísa málinu til þjóðarinnar eða segja af sér embætti sé hann maður orða sinna, standi við eigin leikreglur frá árinu 2004.

Hann er algjörlega ómarktækur og gerir forsetaembættið ómerkilegt og óþarft á sinni forsetavakt ætli hann að reyna að skjóta sér undan eigin orðum frá árinu 2004.

mbl.is Meirihluti vill kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráinn bjargar vinstristjórninni frá falli

Vinstristjórnin hefði lognast út af í gær hefði Þráinn Bertelsson ekki lagt henni lið. Örlög Icesave-málsins ráðast því á afstöðu Þráins þegar ljóst er að nokkrir þingmenn vinstri grænna hafa risið upp og kosið eftir sannfæringu sinni en ekki flokksaga af svipuðu tagi og í ESB-kosningunni í júlí og fyrri Icesave-kosningunni í ágúst.

Í raun má velta fyrir sér hversu sterkt umboð ríkisstjórnin hefur í Icesave-málinu eftir niðurstöðu gærdagsins þegar haldreipi hennar er óháður þingmaður framboðs sem lagðist gegn Icesave í kosningabaráttunni síðasta vor. Lífstrengur vinstristjórnarinnar er ekki sterkur þegar treysta þarf á minnihlutaþingmenn.

En þetta hefur svosem verið vitað mál mánuðum saman. Vinstristjórnin samdi um Icesave í júní án þess að hafa þingmeirihluta og hefur aldrei haft sterkt umboð í þinginu til verka. Atkvæðagreiðslur um málið þar sýna veikleikamerkin á verkstjórninni í málinu.

mbl.is Engin lokadagsetning í Icesave-málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur og Lilja fara gegn flokksaganum

Niðurstaðan í atkvæðagreiðslu var að mestu fyrirsjáanleg. Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir eiga þó heiður skilið fyrir að þora að fara gegn flokksaganum og þrýstingi frá Samfylkingunni í þessari kosningu.

Þau styrkjast pólitískt með því að standa í lappirnar meðan margir flokksfélagar þeirra þora því ekki. Þau fóru allavega ekki á hlýðninámskeiðið með Atla Gíslasyni, sem var sendur í frí til að þurfa ekki að kjósa um Icesave.

Lágkúrulegt.

mbl.is Meirihluti samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn stingur af frá Icesave

Samningur stjórnar og stjórnarandstöðu um málsmeðferð Icesave mun vonandi leiða til þess að svör fáist við áleitnum spurningum um málið. Flótti Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Ohio, svo hann þurfi ekki að taka við málinu er augljóst merki þess að hann getur ekki horfst í augu við þjóðina, sem hefur krafist þess að fá að eiga lokaorðið um Icesave.

Augljós þjóðarvilji er fyrir því að stjórnmálamenn eigi ekki síðasta orðið í þessu máli. Þessi forseti sagði forðum að gjá væri milli þings og þjóðar. Hún er sannarlega til staðar í þessu umdeilda máli, mun frekar en í því máli sem hann talaði um. Þessi forseti er óttalega lítill karl ef hann er ekki samkvæmur sjálfum sér og tekur sömu afstöðu og fyrir fimm árum.

En sennilega er hann flúinn, stingur af frá Icesave - til þess að þurfa ekki að standa við fyrri yfirlýsingar um gjána margfrægu. Kannski er málið einmitt það að forsetinn er fallinn í gjána sjálfur.

mbl.is Ágreiningurinn leystur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Atli Gíslason sendur á hlýðninámskeið?

Fregnir af fjarveru Atla Gíslason af þingi í miðri Icesave-þingumræðu er vandræðaleg viðbót fyrir vinstri græna, flokkinn sem ætlaði að vera svo gegnsær og traustur í ríkisstjórn en er orðin táknmynd pukurs og leynimakks í vinnubrögðum. 

Engu er líkara en Atli hafi verið sendur á hlýðninámskeið - svona til að hann færi nú ekki að gera einhverja vitleysu. Kannski er það líka eina leiðin til að greyið verði ráðherra eða fái einhverja bitlinga, en hann hefur hingað til setið hjá í þeim efnum.

Raunalegt fyrir alla hlutaðeigandi. Lítur út eins og karlgreyið hafi verið tekinn úr umferð meðan Icesave er rætt, er á viðkvæmum tímapunkti í þinginu.

mbl.is Atli í leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 slær af Kryddsíldina og fréttaannálinn

Ég heyrði það í dag að fréttastofa Stöðvar 2 hefði ákveðið að slá af Kryddsíldina, áramótaþáttinn með formönnum stjórnmálaflokkanna, og fréttaannálinn, á gamlársdegi, að þessu sinni. Kryddsíldin var vettvangur mikilla láta fyrir tæpu ári þegar mótmælendur, sem ansi margir nefndu skríl, réðust á Hótel Borg til að reyna að klippa á þáttinn og komast inn í salinn til formannanna.

Sigmundur Ernir, sem þá var svo áhyggjufullur stjórnandi yfir borðhaldi með síld og bjór, varð á árinu þingmaður Samfylkingarinnar, eins og flestir muna og fjarri góðu gamni, en hann var stjórnandi þáttarins í fjöldamörg ár.

Þó kryddsíldin hafi verið umdeild fyrir ári hefur hún þó verið fastur liður í áramótauppgjörinu - flestir horfðu á þáttinn. Ekkert áramótauppgjör verður því á Hótel Borg á þessum gamlársdegi af hálfu Stöðvar 2.

Væntanlega er þetta bara sparnaður hjá illa stöddu fyrirtæki. Undarlegt er þó að fréttastofa hafi ekki meiri metnað en svo að slá bæði af áramótaþátt sinn og fréttannál á áramótum.

Ekki mikill metnaður á þeim bænum.


Jólatöfrar



Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið um hvítu jólin eftir Irving Berlin. Enginn syngur það eins fallega og söngvarinn Bing Crosby, sem söng það fyrst í kvikmyndinni Holiday Inn árið 1942 og síðar í samnefndri mynd árið 1954 og gerði það heimsfrægt.

Enn í dag er það vinsælasta lag sögunnar, mest selda lagið. Eina lagið sem hefur komist nærri því er Candle in the Wind - 1997-útgáfan til minningar um Díönu prinsessu.

Vel við hæfi að hlusta á Bing syngja eitt sitt frægasta og goðsagnakenndasta lag. Þetta ætti að koma öllum í jólaskapið, þetta eina og sanna.

Sukkuð vinnubrögð - þarfar uppljóstranir

Þeir á WikiLeaks eiga hrós skilið fyrir að hafa birt mikilvæg gögn sem varpa ljósi á aðdraganda bankahrunsins og veruleikann sem hefur verið í gangi í íslensku viðskiptalífi. Lánabók Kaupþings, nú AraJóns, var plagg sem gott var að fá fram í dagsljósið og opna umræðuna um siðlaus vinnubrögð í bankakerfinu og sukkað andrúmsloft í kringum eigendurna.

SMS-skilaboðin á milli Þorsteins Ingasonar og Finns Ingólfssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra, eru merkilegt innlegg í umræðuna - gefa til kynna skjalafals á æðstu stöðum í Kaupþingi. Kannski ekki mesta uppljóstrun síðustu vikna, hvorki innan eða utan þessa vefs, en ágætis innsýn í vinnubrögðin bakvið tjöldin.

Efa ekki að brátt munu mikilvæg skjöl fara að leka. Öll bíðum við svo eftir rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem vonandi verður tappað af ólgunni og óánægjunni meðal landsmanna. Allir bíða eftir skýrslunni og vona að hún verði ekta uppgjör. Upphaf á nýjum tímum.

Án uppgjörs á fortíðinni verður erfitt að horfa til framtíðar og hugsa um nýja tíma í samfélaginu.

mbl.is SMS skilaboð til Finns birt á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkur veruleiki

Nett absúrd að fylgjast með manninum sem á ekkert nema skuldir skottast inn og út úr banka til að redda sér. Er með skuldir á við 58-faldan rekstrarhagnað á fjölmiðlaveldinu og allt heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ætli honum verði reddað?

Sjúkt.

mbl.is Hátt skuldahlutfall hjá 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvískinnungur Steingríms J. gagnvart lýðræðinu

Ekki hljómar Steingrímur J. sannfærandi þegar hann talar gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave - sem rúmlega 10% þjóðarinnar hefur nú farið fram á. Ekki hentar fyrir vinstristjórnina að láta kjósa um þetta mál, hver vill annars leggja pólitískt kapítal sitt undir í slíkri kosningu og verja þennan óskapnað?

Þennan afleita samning Svavars Gestssonar og vinstri grænna? Ekki virðist Steingrímur J. vilja leggja í þennan slag, kannski ekki undarlegt miðað við stöðuna þar sem málið er í sjálfheldu og engar líkur á að það komist í gegn nema með því að nauðga lýðræðinu.

Þetta er samt algjör tvískinnungur hjá Steingrími J. Sigfússyni. Hann hefur í þessu stjórnarsamstarfi breyst í pólitíska hryggðarmynd, stjórnmálamann sem hefur svikið öll sín loforð, allar sínar hugsjónir og pólitíska sannfæringu fyrir völdin - hann er orðinn valdagráðugt grey.

Sorglegt eintak af þeirri týpu sem hann gagnrýndi sjálfur áður. En það er svosem í takt við margt annað. En ein spurning: hvernig getur VG verið trúverðugt með leiðtoga sem er þegar farinn að vinna gegn sjálfkrafa kosningu um stórmál?

Væri ekki ágætt að þeir myndu sjálfir fara að standa við það sem þeir hafa gasprað um árum saman og sjálfir lagt á ráðin með? Þó ekki henti þeim pólitískt að láta reyna á lýðræðið.

En það er svona að andskotinn hittir stundum ömmu sína.

mbl.is Sum mál henta ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan stendur vaktina gegn Icesave

Stjórnarandstaðan á hrós skilið að vera ábyrg, standa vaktina gegn Icesave, og taka slaginn við stjórnarmeirihlutann þegar æ fleiri skrifa undir áskorun til forsetans til að senda málið í þjóðaratkvæði fari svo að það verði samþykkt í þinginu. Reyndar er það svo að sá stuðningur er að nálgast þau viðmið sem nefnd eru í lagafrumvarpi í þinginu til að sjálfkrafa fari fram þjóðaratkvæði um þýðingarmikil mál. Vilji þjóðarinnar er skýr - hún fái að segja sitt álit á Icesave.

Sumir tala um málþóf í þinginu. Ekki er óeðlilegt að stjórnarandstaðan standi vaktina sameinuð og taki slaginn. Enda eðlilegt að ræða málið fram og til baka, einkum þegar þingmenn stjórnarmeirihlutans vilja ekki eiga orðastað við stjórnarandstæðinga. Þá dugar ekkert annað en alvöru vinnubrögð í slíkri stöðu. Það gerist nú í þinginu. Enda á stjórnarandstaðan ekki að sitja og standa eins og stjórnarparið vill, þó það fari í taugarnar á Þorláki þreytta frá Gunnarsstöðum.

Reyndar er það skondið að þeir tali með hneykslan um málþóf sem staðið hafa í ræðustól klukkustundum saman og talað gegn stórum málum. Forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir á enn ræðumetið í þinginu, talaði klukkustundum saman gegn húsnæðislagafrumvarpi Páls Péturssonar fyrir rúmum áratug. Það met verður ekki slegið af þessari stjórnarandstöðu, enda komin ný þingsköp til sögunnar.

Vinstri grænir eru allt í einu orðnir settlegir og þægir - sú var tíðin að þeir börðust gegn núverandi þingsköpum því ekki mætti stytta ræðutíma stjórnarandstöðu, til að hún gæti veitt nauðsynlegt aðhald í þingumræðunni. Þau rök eru löngu gleymd, enda helstu kjaftaskarnir þar komnir með dúsu upp í sig á ráðherrabekkjunum eða eru orðnir eins og hundar nýsloppnir af tamninganámskeiði.

mbl.is Fundi frestað á sjötta tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að hreinsa út í bönkunum

Finnur Sveinbjörnsson tekur rétta ákvörðun með því að hætta sem bankastjóri AraJóns, áður Kaupþings. Mikilvægt er að hreinsa til í forystusveit allra bankanna, til að eiga nýtt upphaf. Ekki verður hægt að ná trúverðugleika aftur nema með nýjum stjórnendum og nýjum vinnubrögðum. Mikil vonbrigði hefur verið að sjá að undanförnu að ekkert hefur breyst í þessum bönkum.

Þrátt fyrir hrun, mótmæli og stjórnarskipti er eins og tíminn hafi staðið í stað í bönkunum. Sama spillingin og sukkið heldur áfram með nýjum yfirmönnum, eða oftar en ekki yfirmönnum sem voru millistjórnendur eða þátttakendur í gamla sukkinu. Hið nýja er ekki skárra, öðru nær.

Taka þarf til, trúverðugleikinn er löngu farinn og það þarf að gefa fólki trú og von um að nýjir tímar tákni ný vinnubrögð en ekki meira af gamla sukkinu.

mbl.is Finnur Sveinbjörnsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkileg aðför Steingríms að þingræðinu

Ekki var hátt risið á Steingrími J. Sigfússyni í kvöld þegar hann réðst að þingræðinu með ómaklegum og nauðaómerkilegum hætti. Svona orðaval er ekki til sóma ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Augljóst er að Steingrímur er hundfúll með að geta ekki stjórnað þinginu og tuktað það til. Hann talar þannig að handstýra eigi þinginu til verka, það eigi að vera framlengingarsnúra framkvæmdavaldsins.

Engu líkara er en Steingrímur hafi snúist í marga hringi hjá Samfylkingunni, hann er eins og umsnúningur - skuggi þess háværa manns sem forðum var í stjórnarandstöðu. Prinsippin eru löngu gleymd og hvað varð um hugsjónirnar?

En svona orðaval um Alþingi eru til skammar. Þeir eru ósköp litlir karlar sem svona tala. Nær væri hinsvegar að velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé vandanum vaxin. Hún er í tómu tjóni.

mbl.is Fjáraukalög rædd á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um gegnsæið Steingrímur?

Leynd og pukur eru að verða einkennismerki vinstristjórnarinnar við völd. Nú segir Steingrímur að klára verði Icesave af ótilgreindum ástæðum. Ekki eigi að segja þjóðinni allan sannleikann. Hvað hefði verið sagt ef forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu látið svona orð falla?

Þetta eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð. Þó Steingrímur hafi sætt sig við að vera barinn af Bretum og Hollendingum er óþarfi að dæma þau örlög yfir alla þjóðina.

Allt upp á borðið, strax! Er ekki kominn tími til að Jóhanna og Steingrímur leiti að gegnsæinu sem þau lofuðu þjóðinni þegar þau tóku við völdum fyrir tæpu ári.

mbl.is Verður að klára Icesave af ótilgreindum ástæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingjaskapur og hugleysi vinstristjórnarinnar

Æ fleiri nýjar upplýsingar bætast við sem vekja spurningar hvers vegna íslenska vinstristjórnin er að beygja sig undir ægivald Breta og Hollendinga. Hugleysið og aumingjaskapurinn er algjör. EKki er einu sinni reynt að berjast, taka slaginn við stjórnvöld sem hafa barið okkur í duftið. Undirlægjuhátturinn virðist til þess eins að reyna að halda dyrunum til Evrópusambandsins opnum.

Ummæli Wouter Bos og Alistair Darling eru þess eðlis að við verðum að taka málið upp aftur - fara aftur í viðræður eða einfaldlega segja nei við þessu boði. Íslendingar eiga ekki að sætta sig við hvað sem er þegar fjármálaráðherrar Breta og Hollendinga hafa sjálfir látið falla ummæli sem viðurkenna að réttur okkar er til staðar í málinu.

Og hvað gerir og segir fjármálaráðherra Íslands? Jú þetta er svo erfitt og við eigum ekki að láta á þetta reyna... aumt er það. Hann er að verða eins og hornkarl úr gömlum þjóðsögum. Raunalegur og mæddur karl. Ætli menn hafi ekki verið nefndir gunga og drusla af minna tilefni.

mbl.is Vill að ráðherrar ræði við Breta og Hollendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er umburðarlyndið og kærleikurinn?

Að mínu mati á umburðarlyndi og kærleikur að vera leiðarstef kristinnar trúar. Hana á að boða bæði í orði, og mun frekar þó, í verki. Hví er það óeðlilegt á árinu 2009 að samkynhneigðir söngvarar komi fram í jólaskemmtun? Í ljósi þess að fjölmörgum gestum hefur verið boðið til að syngja með kór Fíladelfíu er eðlilegt að velta fyrir sér hvort það skipti máli hver kynhneigð söngvarans er. Á þetta ekki að vera notaleg og hugljúf stemmning þar sem tónlistin leikur aðalhlutverkið?

Vissulega er hægt að hafa ólíkar skoðanir á einkalífi fólks - í þeim efnum gildir þó að hver og einn ræður sínu lífi. Við eigum að virða frelsi fólks til að hafa skoðanir og móta líf sitt sjálft. Forræðishyggja í þeim efnum boðar aldrei gott, heldur ekki öfgar og einstrengingsháttur.

Því finnst mér leitt að við séum ekki komin lengra en þetta - að tekist sé á um hvort söngvarinn sé gagn- eða samkynhneigður. Þetta rýrir aðeins þessa jólaskemmtun, enda hef ég talið hingað til að sú skemmtun sé kærleiksrík samkoma þar sem gleðin nýtur sín.

Svo má deila um hvort þessi mótmæli séu rétt skilaboð á móti þeirri ákvörðun að vísa Friðriki Ómari og öðrum vinsælum samkynhneigðum söngvurum á dyr. Hver og einn verður að hafa sína skoðun.

En það er leitt að trúin snúist ekki um umburðarlyndi og kærleika heldur öfgar - slíkt boðar aldrei gott.


mbl.is Samkynhneigðir kyssast í Fíladelfíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einar steypir Óskari af stóli hjá Framsókn

Ósigur Óskars Bergssonar í leiðtogakjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík eru mikil pólitísk tíðindi. Bæði er munurinn milli hans og Einars Skúlasonar talsverður og Óskari er steypt af stóli með frekar kuldalegum hætti. Krafan um breytingar er augljós - einnig að ný forysta flokksins á landsvísu hefur beitt sér fyrir því að steypa Óskari af stóli.

Skilaboðin eru skýr. Framsókn ætlar sér að koma með nýja ásýnd til leiks í kosningunum í vor - ætlar sér að sækja fylgi út á ný vinnubrögð og taka hressilega til. Út á við eru úrslitin á þá leið að spillingarstimpillinn sé á bak og burt.

Stóra spurningin er hvaða áhrif þetta hafi á meirihlutann í Reykjavík sem hefur staðið og fallið með traustu samstarfi Hönnu Birnu og Óskars. Meirihlutinn er í undarlegri stöðu með leiðtoga sem hefur verið sparkað með auðmýkjandi hætti.

Óskari er jú hent út úr forystu innan eigin flokks, en þarf að leiða mál næsta hálfa árið. Reyndar má benda á að Óskar hefur aldrei verið kjörinn leiðtogi - varð í þriðja sæti í prófkjöri 2006, en færðist upp þegar Anna Kristinsdóttir hætti.

En þetta breytir miklu í borgarmálunum. Kosningarnar í vor verða spennandi og áhugaverðar - löngu ljóst að þær verða uppgjör á þessu umbrotatímabili þar sem stöðugleikinn varð enginn þar til Hanna Birna varð borgarstjóri.

mbl.is Einar sigraði Óskar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Maríu - vönduð bók um slysið í Héðinsfirði

Oft er sagt að ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið. Saga Maríu Jóhannsdóttur, sem á líf sitt að þakka því að hafa ekki getað borgað flugferð norður í land fyrir 62 árum, er gott dæmi um það. Röð tilviljana björguðu henni frá því að farast í flugslysinu í Héðinsfirði. Þetta er merkileg saga og ég vissi ekki um hana fyrr en bókin um flugslysið kom út. Þetta er ein af þessum hvunndagssögum sem vekja alltaf athygli.

Ég vil hrósa Margréti Þóru Þórsdóttur fyrir góða bók um flugslysið í Héðinsfirði. Las hana með miklum áhuga fyrir nokkrum dögum. Eins og Margrétar er von og vísa er bókin vel rituð og yfirgripsmikil samantekt um þennan dapurlega atburð. Hvet alla til að kaupa sér bókina og lesa hana fyrir þessi jól.

Ennfremur er ástæða til að gleðjast yfir því að fréttirnar á N4 séu komnar inn í Moggafréttirnar og fréttaumfjöllun á Skjá einum. Allir fundu illilega fyrir því hér þegar N4 stoppaði í ársbyrjun - mikilvægt að það sé komið allt í fullan gang þar aftur. Megi stöðin eflast og dafna.


mbl.is Flaug yfir slysstaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband