11.4.2006 | 23:54
Valdaferli Ariel Sharon lýkur formlega

Fimm ára forsætisráðherraferli Ariel Sharon í Ísrael og hálfrar aldar litríkum stjórnmálaferli hans lauk formlega í dag. Þá samþykkti ríkisstjórn Ísraels einróma þá ákvörðun, að höfðu samráði við lækna á Hadassah-sjúkrahúsinu í Ísrael, að hann væri varanlega óhæfur til að gegna ráðherraembætti og stýra ríkisstjórn landsins vegna veikinda. Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan að Sharon féll í dá eftir alvarlegt heilablóðfall. Síðan hefur hinn 78 ára gamli forsætisráðherra legið í dái á sjöundu hæð sjúkrahússins og með hverjum deginum minnka líkurnar á því að hann vakni til meðvitundar að nýju. Þegar að Sharon hvarf af pólitísku sjónarsviði með svo snöggum hætti hafði hann snúið ísraelskum stjórnmálum á hvolf. Hann yfirgaf Likud-bandalagið, sem hann stofnaði ásamt fleirum árið 1973, og sagði af sér leiðtogaembætti flokksins og stofnaði nýjan flokk, Kadima (Áfram). Boðað var til kosninga og flest stefndi í að Sharon kæmi sem sigurvegari út úr þeim.
Löngum var góð heilsa og úrvalsúthald eitt af aðalsmerkjum Ariels Sharon. Hann var maður sem vann alla tíð langan vinnudag, helgaði sig vinnu og áhugamálum tengdum stjórnmálum. Seinni kona hans, Lily, lést úr krabbameini árið 2000, ári eftir að Sharon varð leiðtogi Likud. Var það honum mikið áfall og vann hann sig út úr því áfalli með meiri vinnu og álagi tengdu henni. Helgaði hann sig pólitískri baráttu og lagði sig allan fram í þingkosningunum í febrúar 2001, þar sem hann var forsætisráðherraefni Likud-bandalagsins. Hafði hann sigur á Ehud Barak þáv. forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins. Með því varð Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, 73 ára að aldri. Sharon hafði tekist það sem flestum hafði þótt óhugsandi jafnvel nokkrum árum áður - að komast til valda í Ísrael. Í þingkosningunum 28. janúar 2003 fékk Likud flest atkvæði og Sharon hélt yfirburðastöðu sinni í ísraelskum stjórnmálum.
Stórsigur Sharons í kosningunum 2003 var sögulegur, enda var þetta í fyrsta skipti frá árinu 1980 sem sitjandi forsætisráðherra Ísraela vann endurkjör. Eftir nokkra stjórnarkreppu myndaði hann stjórn hægri- og trúarflokka. Entist hún ekki til loka kjörtímabilsins - vík varð milli vina í Likud. Deilt var um leiðir í M-Austurlöndum. Á gamals aldri varð hinn herskái Sharon allt í einu friðelskandi maður innan Likud og deilurnar vegna stefnu hans í friðarmálum leiddu til klofnings flokksins. Hann hafði eftir lát Yasser Arafat í árslok 2004 breytt um tón og stefnu í friðarmálum og varð allt í einu maður friðarboðskapar í M-Austurlöndum. Hefði fáum órað fyrir því að það myndi gerast fyrir aðeins tveim til þrem árum, t.d. miðað við boðskap hans í þingkosningunum 2003. Sharon ákvað að sverfa til stáls og reyna á stöðu sína með stofnun eigin flokks, eins og fyrr var nefnt.
Flestir vissu að myndi fyrrnefnd leikflétta Sharons sem hann hannaði eftir heppnast myndi blasa við gjörbreytt pólitískt landslag á komandi árum - pólitískt landslag skapað og stjórnað af Ariel Sharon. Það sem gerðist var það sem ekki einu sinni hinn sterki vinnuþjarkur og stjórnsami Sharon gaft haft nokkra stjórn á. Er stefndi í líflega kosningabaráttu og næg verkefni til úrlausnar hjá Sharon kom að því að úthald hans brást. Þess sáust merki laust fyrir jólin að heilsa Sharons væri tekin að dala. Þann 18. desember sl. var hann fluttur með hraði á sjúkrahús í Jerúsalem eftir að hafa fengið vægt heilablóðfall og misst meðvitund. Sharon sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Sharon var útskrifaður af sjúkrahúsinu tveim dögum síðar. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða. Fréttir bárust þó af því að læknar hefðu fyrirskipað honum að leggja af, en hann hefur til fjölda ára verið of þungur og barist við offituvandamál.
Ákveðið var að hann tæki blóðþynningarlyf til að ná sér eftir veikindin og ákveðið var að hann færi í aðgerð í upphafi nýs árs til að laga meðfæddan hjartagalla sem komið hafði í ljós og talinn þáttur í veikindunum. Síðdegis þann 4. janúar sl. fékk Sharon annað heilablóðfall. Var hann fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að það væri mun alvarlegra en hið fyrra - staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma. Að því loknu var heili Sharons kannaður að nýju í sneiðmyndatækinu. Kom önnur blæðing í ljós og önnur aðgerð tók við, að þessu sinni í rúma fjóra tíma. Sólarhring síðar tók við þriðja aðgerðin. Umheiminum varð ljóst að veikindi Sharons væru lífshættuleg. Síðan hefur ekkert gerst. Hann er enn í dái og batahorfur minnka með degi hverjum.
100 dögum eftir valdatöku Ehud Olmert var komið að þeim tímapunkti að meta hvort Sharon gæti snúið aftur. Það getur ekki gerst. Kadima vann kosningarnar undir lok mars og flokkurinn varð ráðandi í ísraelskum stjórnmálum og mun leiða stjórnmálin þar. Sá sigur vannst í skugga veikindanna og var sigurinn helgaður þeim sem tók áhættuna og þorði í hita átakanna. Nú er það ljóst að valdaferli Sharons er lokið. Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram án jarðýtunnar, eins og hann var svo eftirminnilega kallaður. Stjórnmálaferill hans er á enda en við blasir að mesta barátta hins aldna leiðtoga verði að berjast fyrir lífi sínu. Það sem átti að verða sigurferð hins aldna höfðingja á vettvangi stjórnmálanna rann út í sandinn en eftirmennirnir taka við völdum í skugga þeirrar áhættu sem leiðtoginn Sharon tók fyrir nokkrum mánuðum.
Þó að ekki séu allir stjórnmálaáhugamenn sammála um aðferðir í ísraelskum stjórnmálum er þó samdóma álit flestra að sjónarsviptir sé af Ariel Sharon úr stjórnmálum með þessum hætti. Nú er það eftirmanna hans að taka við valdataumunum með trúverðugum hætti og mynda stjórn - halda áfram á eigin vegum en byggðum á verkum og forystu Ariel Sharon. Hvort að Ehud Olmert tekst að leiða Ísrael með sama öfluga hættinum og Sharon tókst á fimm ára forsætisráðherraferli sínum skal ósagt látið nú.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 22:30
Þrátefli í ítölskum stjórnmálum

Það stefnir í þrátefli í ítölskum stjórnmálum. Þjóðin er skipt í tvennt eftir fylkingum og í raun enginn afgerandi meirihluti til staðar eftir þingkosningarnar í landinu. Samkvæmt úrslitum náði Olífubandalagið, vinstriarmur leiddur af Romano Prodi fyrrum forsætisráðherra og forseta ESB, naumum meirihluta í báðum þingdeildum ítalska þingsins. Sigurinn er þó svo naumur að aðeins er um að ræða 1-2 sæta meirihluta. Silvio Berlusconi forsætisráðherra, neitar með öllu að staðfesta þessa stöðu mála og hefur sagst krefjast endurtalningar á vafaatkvæðum en athygli vakti hversu mörg atkvæði voru dæmd ógild. Munurinn er svo lítill í atkvæðum að aðeins er um að ræða um 20.000 af um 40.000.000 atkvæða. Forsætisráðherra telur mörg mistök hafa verið gerð og telur óhugsandi að láta þetta við kyrrt liggja og hefur krafist endurtalningar og yfirferðar á atkvæðunum sem úrslitum ráða.
Niðurstaðan er mjög einföld: það er vængbrotin staða. Það sjá allir að engin trúverðug stjórn situr í þessu þingi með 1 eða 2 sæta meirihluta. Menn á Ítalíu hafa talað um þjóðstjórn en það verður ekki auðvitað, enda geta Berlusconi eða Prodi ekki unnið saman. Það gæti farið svo að það yrði að kjósa einfaldlega aftur. Í öllu falli getur Prodi ekki ríkt einn allt tímabilið í skjóli svo naums meirihluta. Það er enda svo eftir þessar kosningar að hvorug fylkingin hefur afgerandi afl til að stjórna. Það verður allavega seint sagt að Ólífubandalagið hafi hlotið eitthvað lykilumboð til verka eða til að gera mál sín af krafti í gegn. Bandalagið eru alls níu flokkar með mjög ólíka eigin stefnu og það sjá allir sem vit hafa á að það verður erfitt að halda því í svona naumum meirihluta. Á það ber svo að benda að Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherraefni bandalagsins beint.
Þetta minnir mig í fljótu bragði á bandarísku forsetakosningarnar fyrir sex árum. Munurinn er enda svo lítill að nú fer endurtalning væntanlega af stað með öllum þeim lagaflækjum og óvissu sem því fylgir. Þeir sem voru andstæðingar George W. Bush í þeim kosningum um allan heim hljóta að telja nauðsyn á að endurtelja öll atkvæði og fara yfir öll vafaatkvæði. Munurinn er enda það naumur að fara verður yfir alla þætti. Það hefur hægrabandalagið nú þegar gert og það gætu tekið við vikur eða mánuðir í allsherjaróvissu og kaosi. Það er allavega ljóst að engin afgerandi stjórn kemur út úr þessum kosningum. Hvort sem fer að hægrið eða vinstrið tekur við völdum er ljóst að menn fá mjög vængbrotna stjórn.
Það blasir því við þrátefli um völd á Ítalíu. Það er svo einfalt. Hvort að annaðhvort Berlusconi eða Prodi getur myndað stjórn í því umhverfi skal ósagt látið en takist það getur það aðeins orðið stjórn sem situr til bráðabirgða. Taflið er enda svo jafnt og óskýrt að ekkert afgerandi kemur út úr því.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2006 | 23:55
Tvísýn staða í ítölsku þingkosningunum

Það er óhætt að segja að gríðarleg óvissa ríki í ítölskum stjórnmálum þessa stundina meðan að talning í þingkosningunum þar stendur yfir. Valdablokkirnar til hægri og vinstri eru svo jafnar á metum að erfitt er að spá um hvor þeirra muni ríkja í landinu næstu árin. Seinustu vikurnar hafa Silvio Berlusconi forsætisráðherra, og Romano Prodi fyrrum forsætisráðherra og forseti ESB, slegist um hylli kjósenda og beitt öllu til að vekja athygli á sér og málstað sínum. Það er vægt til orða tekið að Berlusconi og Prodi séu litlir mátar. Þeir hafa tekist á í ítölskum stjórnmálum í mjög langan tíma, bæði fyrir og eftir að Prodi varð forseti ESB. Þeir áttust við í þingkosningunum í mars 1996 en þá beið Berlusconi ósigur fyrir ólífubandalaginu leiddu af Prodi. Hann lét af embætti vegna valdaátaka innan bandalagsins árið 1998 og fór til ESB er Jacques Santer hætti þar. Hann kom svo aftur inn í ítalska pólitík er skipunartíma hans hjá ESB lauk árið 2004.
Ef marka má seinustu tölur frá Ítalíu blasir við að Berlusconi hafi unnið kosningarnar með naumum hætti og haldi völdum í landinu. Fyrr í dag benti allt til hins gagnstæða. Útgönguspár sýndu nokkuð afgerandi sigur Ólífubandalagsins og flest benti til þess að Prodi næði að komast til valda líkt og fyrir áratug er han sigraði Berlusconi. Báðir leiðtogarnir voru þó varkárir og vildu engar yfirlýsingar gefa fyrr en heilsteypt mynd kæmist á stöðuna með talninguna. Það var varla furða enda hefur það gerst í ítölskum þingkosningum að útgönguspárnar séu rangar og þær endurspegli ekki endilega stöðu mála með afgerandi hætti. Það gerðist svo er fyrstu tölur komu á sjöunda tímanum að staðan varð allt önnur. Skyndilega var enginn afgerandi sigurvegari og úrslitin virtust hanga á bláþræði og ekki vitað hvoru megin sigurinn myndi liggja. Er líða tók á kvöldið tók staða Berlusconis mjög að vænkast og bendir nú flest til þess að hann muni hafa sigur í kosningunum en mjög nauman þó.
Silvio Berlusconi hefur verið forsætisráðherra Ítalíu í fimm ár, eða allt frá því í júnímánuði 2001 er þingkosningar fóru þar síðast fram. Þá vann hægriblokkin nokkuð afgerandi sigur, miðað við útgönguspár sem sýndu jafna stöðu fylkinganna. Berlusconi er sá forsætisráðherra Ítalíu sem lengst hefur setið frá stríðslokum en lengst af þessu tímabili sátu stjórnir í aðeins örfáa mánuði og heyrði til undantekninga ef að stjórnir sátu lengur en ár. Samfellt hafði Bettino Craxi setið lengst á valdastóli þar til að Berlusconi sló það valdamet í árslok 2003. Fari svo sem flest bendir til getur hann setið væntanlega við völd allt til ársins 2011. Það ræðst þó auðvitað allt á stærð meirihlutans ef hann sigrar kosningarnar en vængbrotin staða í annarri deildinni getur leitt til vandræða fyrir þá stjórn sem mynduð verður eftir kosningarnar. Þó blasir við að forsetaskipti verði brátt í landinu en sjö ára kjörtímabil Carlo Azeglio Ciampi lýkur í næsta mánuði.
Það verður ekki hægt að mynda nýja starfhæfa stjórn fyrr en forsetaskipti hafa orðið og nýr forseti hefur falið sigurvegara kosninganna það umboð. Haldi Berlusconi völdum mun hann sitja áfram eins og ekkert hafi gerst og beðið verður forsetaskipta með uppstokkun á ríkisstjórn. Tapi hann kosningunum mun hann aðeins verða starfandi forsætisráðherra þar til valdaskipti hafa farið fram. En kosningarnar á Ítalíu eru þær tæpustu í marga áratugi og nú þegar langt er liðið á talningu er enginn afgerandi sigurvegari kominn. En ef marka má stöðuna og fyrri reynslu af lokasprettinum heldur hægristjórnin völdum. Það vekur athygli í ljósi þess að stjórnarflokkarnir voru alla kosningabaráttuna undir í skoðanakönnunum en hafði jafnt og þétt minnkað forskotið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2006 | 23:21
Sunnudagspistill - 9. apríl 2006

Tvö mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Það eru sjö vikur til sveitarstjórnarkosninga - þá ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa sína á sveitarstjórnarstiginu. Í aðdraganda kosninganna komum við sjálfstæðismenn saman hér á Akureyri um helgina og stilltum saman strengi okkar. Þessi fundur var sögulegur að mörgu leyti. Umfram allt vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í 77 ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem fundur af þessu tagi er haldinn utan Reykjavíkur og er svo sannarlega kominn tími til myndi einhver segja. Það var okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri sannur heiður og gleðiefni að fundinum skyldi valinn staður hér norðan heiða. Fundurinn gekk alveg ljómandi hreint fyrir sig og hingað mættu rúmlega 200 manns til fundahalda og skemmti sér konunglega.
- Á fimmtudag birtist fyrsta skoðanakönnunin á fylgi framboðanna á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Voru niðurstöðurnar athyglisverðar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 4 fulltrúa, vinstri grænir 3, Samfylking 2 og Framsóknarflokkur og Listi fólksins hafa 1. Samkvæmt þessu er því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn. Ástæðan er auðvitað fylgishrun Framsóknarflokksins. Greinilegt er að frægðarsól Framsóknarflokksins í þessu gamla höfuðvígi þeirra er eitthvað farin að síga. Þessi könnun er vísbending á stöðu mála en kosningabaráttan er rétt að hefjast og verður spennandi.
Viðbót
Að lokum vil ég benda á að ég hef ákveðið að hætta að birta ágrip sögu dagsins og snjallyrði eins og ég hef gert mjög lengi. Tel ég rétt að stokka upp umfjöllun á vefnum og munu færslurnar nú verða um eitt tiltekið efni og fleiri en ein færsla á hverjum degi. Það er eftirsjá af þessum gömlu fastaliðum en ég tel mig hafa staðið mig ágætlega við að benda á sögulega punkta og snjallyrði og tel ágætt að stokka þetta upp nú. Eftir sem áður mun ég reyna að blanda sögulegum punktum í skrifin á vefnum.
kv. SFS
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2006 | 23:14
Risastór gullaldarklassík kvikmyndabransans

Í dag er pálmasunnudagur. Ég eyddi þeim degi í mikla afslöppun eftir miklar annir seinustu daga og ákvað að horfa á gamla og góða stórmynd. Það hefur lengi verið svo með mig að ég tel svona helgidaga ágæta til að horfa á langar og veglegar myndir. Ég horfði á eðalmyndina Giant - stórfenglegt og ógleymanlegt meistaraverk frá miðjum sjötta áratugnum þar sem sagt er frá hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Hér segir frá nautgripabóndanum Jordan Benedict sem á stærsta búgarð Texasríkis, Reata, og rekur hann búið ásamt hinni kjarnmiklu systur sinni Luz Benedict í upphafi myndarinnar. Allt hans lífsmynstur tekur miklum breytingum er hann kynnist hinni auðugu Leslie Lynnton og giftist henni.
Er hann snýr aftur heim með eiginkonu sína breytist líf hans til muna er hún tekur til við að stjórna fjölskyldubúinu að sínum hætti og mislíkar systur hans ráðríki eiginkonunnar. Er hún fellur snögglega frá eftir að hafa dottið af baki á hesti eiginkonu bróður síns breytist lífsmynstrið á búgarðinum og tekur Leslie þá að fullu við húsmóðurhlutverkinu á staðnum. Er Luz Benedict fellur frá kemur í ljós að hún hefur ánafnað vinnumanninum á bænum, Jett Rink, stóran landskika af búgarði óðalseigandans. Reynir Jordan að borga honum jafnvirði skikans til að halda því innan fjölskyldunnar. Jett hafnar því og reynist skikinn luma á ofurgnótt olíulinda. Vinnumaðurinn rís úr öskustónni og reynir að ásælast völd og áhrif óðalsbóndans - upp hefst öflug valdabarátta þar sem öllum brögðum er beitt. Óviðjafnanleg kvikmynd sem lýsir hinum miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu í Texas um miðja 20. öldina á einstaklega góðan hátt.
Hér er allt til að skapa ógleymanlegt meistaraverk; handritið, myndatakan og tónlistin eru frábær, en aðall myndarinnar er leikstjórn meistarans George Stevens, sem hlaut óskarinn fyrir. Leikurinn er í klassaformi. Rock Hudson var aldrei betri og glæsilegri en í hlutverki óðalsbóndans Jordan Benedict. Mercedes McCambridge er stórfengleg í hinu litla en bitastæða hlutverki kjarnakonunnar Luz Benedict og hlaut hún óskarinn fyrir. Elizabeth Taylor er eftirminnileg í hlutverki ættmóðurinnar Leslie Lynnton Benedict og skapar eftirminnilega og heilsteypta persónu sem heldur reisn sinni og glæsileika til enda. Síðast en ekki síst er James Dean frábær í síðasta kvikmyndahlutverki sínu sem hinn áhrifagjarni og valdagráðugi Jett Rink sem fellur að lokum á eigin bragði. Hann lést í bílslysi hinn 30. september 1955, örfáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk. Dean var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, eftir andlát sitt (fyrstur allra).
Hafði ég ekki séð þessa mynd alllengi er ég setti hana í tækið - en ég hafði keypt myndina á DVD fyrir rúmu ári. Var ég satt best að segja búinn að gleyma hvað þessi mynd er ótrúlega góð og sterkbyggð lýsing á Texas, fyrir og eftir breytingarnar miklu í olíubissnessnum. Þetta þriggja tíma svipmikla meistaraverk hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Að mínu mati kunnu þeir sem gerðu myndir á fyrrihluta 20. aldarinnar betur þá miklu snilld að segja frá dramatískum stórátökum og skapa hina gullnu stórmynd en arftakar þeirra (með nokkrum undantekningum þó). Það er valinn maður á hverjum pósti í þessu epíska meistaraverki og hefur myndin jafnvel batnað með aldrinum, eins og hið allra besta rauðvín.
Semsagt: gullaldarklassík sem er nauðsynlegt öllum þeim sem hafa gaman af eðalmyndum kvikmyndasögunnar. Og ekki síst öllum þeim sem vilja verða vitni að seinustu töfrum hinnar gömlu kynslóðar sem gerði Hollywood að því stórveldi sem það er í dag. Ómótstæðilegt tímamótaverk - þessa verða allir að sjá (og upplifa með sínum hætti).
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2006 | 22:33
Reiðilestur Ingibjargar Sólrúnar

Sömu helgi og við sjálfstæðismenn héldum flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafund okkar hér á Akureyri hittust Samfylkingarmenn á flokksstjórnarfundi í Reykjavík. Þar hélt ræðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins og borgarfulltrúi. Þar flutti hún mikinn reiðilestur yfir flokksmönnum og skammaði allt og alla sem með einhverjum hætti tengjast Sjálfstæðisflokknum. Aðalfréttin eftir þennan fund var að hún veittist að flokknum og valdi honum vond orð. Ekki örlaði mikið á fréttum af stefnu Samfylkingarinnar eða tali formannsins um málefni væntanlegar kosningabaráttu í fréttum. Ég tel að allir hafi vitað um hug Ingibjargar Sólrúnar til Sjálfstæðisflokksins og þætti væntanlega ekki fréttnæmt þó að hún léti gremju sína í garð hans í ljós. Ingibjörg Sólrún virðist hafa mjög fátt fram að færa nema gremju í garð andstæðinga sinna. Það er ekki furða þó að pólitískir spekúlantar líti á Samfylkinguna sem furðulegt rekald í pólitík.
Ingibjörg Sólrún hefur þótt mistæk á formannsstóli Samfylkingarinnar. Flokkurinn átti í verulegri krísu fyrstu mánuði formannsferils hennar en hann hefur þó rétt örlítið úr kútnum seinustu vikur eftir dapurt gengi í könnunum. Hún átti í verulegum erfiðleikum með að fóta sig á sviðinu. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð Oddsson fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni tókst það aldrei í pólitískum slag við Davíð Oddsson og virkað vandræðaleg eftir brotthvarf hans. Ingibjörg Sólrún er nú að marka sér endanlega sess í landsmálum. Hún skipar heiðurssæti Samfylkingarinnar í borginni og það styttist því í að setu hennar í borgarstjórn ljúki.
Ingibjörg Sólrún birtist okkur sem fylgjumst með stjórnmálum sem mjög reið kona og reið út í andstæðinga sína. Það að einhverjum hafi þótt reiðilestur hennar yfir Sjálfstæðisflokknum efni í fyrstu frétt á forsíðum eða fréttatímum er stórundarlegt. Andstaða hennar við allt sem tengist Sjálfstæðisflokknum er fyrir löngu orðin landskunn og ergelsi hennar í garð Davíðs Oddssonar gleymist engum. Gamla platan virðist komin á nú þegar að styttist í kosningar. Það er kannski varla undarlegt með Sjálfstæðisflokkinn yfir í borginni og sterkan í könnunum í landsmálunum. Það stefnir allt í að Samfylkingin missi völdin í borginni og flokkurinn virðist ganga sneyptur í landsmálapælingum. Það er ekki undarlegt að Ingibjörg Sólrún sé reið. En það að reiði hennar sé aðalfréttin vekur athygli og um leið spurningar um hvort að þessi flokkur hafi engin málefni að keyra á í kosningabaráttunni nema stefnuleysi í varnarmálum og daður við einhverja óra um að Evrópuríkin taki að sér varnir landsins.
Það er því skiljanlegt að Ingibjörg Sólrún flytji reiðilestur yfir flokksmönnum sínum - þó telst það undarlegt að sá reiðilestur í garð Sjálfstæðisflokksins sé fréttnæmur. Það að formaður Samfylkingarinnar hafi ekkert fram að færa á slíkum fundi og var um helgina vekur mikla athygli, einkum á málefnastöðu flokksins.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2006 | 19:48
Að loknum flokksráðsfundi

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var um helgina hér á Akureyri lauk á fimmta tímanum í dag. Fundurinn var vel sóttur og mjög kraftmikill. 49 dagar, sjö vikur, eru nú til sveitarstjórnarkosninga. Flokksmenn, í forystu félaga og á framboðslistum flokksins um allt land, komu saman til fundar ásamt flokksráðsfulltrúum og ræddu kosningamál þeirrar kosningabaráttu sem framundan er. Í stjórnmálaályktun fundarins kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn vill færa verkefni á sviði öldrunarmála til sveitarfélaga og leggur áherslu á að áfram verði haldið varnarsamstarfi við Bandaríkin í ljósi breyttra aðstæðna. Á fundinum var farið yfir kosningamálin og flokksmenn lögðu línurnar í kosningabaráttunni með stjórnmálaályktuninni og vinnunni sem þar fór fram. Fundurinn var líflegur og hressandi og gaman að hitta góða félaga.
Yfirskrift fundarins var: "Aukinn árangur - vaxandi velferð". Við leggjum enda mikla áherslu á að kynna öfluga forystu okkar og verk í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu. Á þeim góða árangri byggjum við í starfi okkar og áherslum á næstu árum í aðdraganda tveggja kosninga. Fram kemur í stjórnmálaályktun okkar að við viljum breytta hugsun í málefnum aldraðra þar sem sjálfstæði, sjálfræði og aukið valfrelsi í eigin málum er lagt til grundvallar. Nú sem ávallt fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn ásýnd ferskleika og framsýni í stjórnmálum hérlendis. Í ályktuninni var orðum sérstaklega beint að R-listanum sáluga í Reykjavík. "Fjármálastjórn" vinstri manna þar er enda víti til varnaðar - R-listanum sáluga tókst jú á mesta hagsældarskeiði þjóðarinnar að stórhækka álögur á íbúana og margfalda skuldir stærsta sveitarfélags landsins. Á þessu verður breyting við valdaskipti í vor.
Fundurinn hófst síðdegis í gær með kraftmikilli ræðu formanns okkar, Geirs H. Haarde utanríkisráðherra. Þar fjallaði hann um stjórnmál dagsins í dag með sínum hætti. Fannst mér honum mælast vel og var góður rómur gerður að ræðu hans. Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi flutti öfluga og góða ræðu að lokinni ræðu formannsins. á Að því loknu kynnti Kristján Þór drög að stjórnmálaályktun fundarins. Eftir setningarathöfnina héldum við í móttöku í Háskólanum á Akureyri og þar kynnti Þorsteinn Gunnarsson rektor, sögu skólans og það mikilvæga starf sem þar fer fram. Hátíðarkvöldverður hófst á Hótel KEA um áttaleytið. Þar flutti Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs, hátíðarræðu og Gunnar Ragnars var veislustjóri og gerði það með glans eins og hans er von og vísa.
Mikil og góð stemmning var á Hótel KEA. Er líða tók á nóttu héldum við þau allra hörðustu skemmtanafíklarnir á skemmtistað úti í bæ og sungum og dönsuðum langt fram á nóttina. Þetta var svo sannarlega frábært kvöld. Fundur hélt áfram kl. 9:30. Áherslur fundarins voru á málefni aldraðra og fjölskyldunnar. Góð erindi voru þar flutt og við sem vinnum að kosningabaráttu flokksins um allt land fengum gott námskeið í þeirri vinnu sem framundan er. Í alla staði heppnaðist fundurinn vel og við förum öll glöð og hress heim til okkar að honum loknum - staðráðin í því að vinna öll af krafti. Lykilmarkmiðið er að tryggja Sjálfstæðisflokknum góðan og glæsilegan sigur í kosningunum eftir 49 daga.
Fram til sigurs!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2006 | 17:53
Snorri poppstjarna Íslands 2006
Snorri Snorrason var í gærkvöldi kjörinn poppstjarna Íslands árið 2006 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hann um sigurinn í keppninni við Ínu Valgerði Pétursdóttur. Alls bárust rúm 115.000 atkvæði og hlaut Snorri 63.800 atkvæði eða 55%. Ína hlaut 52.200 atkvæði eða 45% atkvæða. Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Snorri og Ína sig alveg frábærlega í þessum úrslitaþætti. Fóru þau bæði algjörlega á kostum og fluttu hvor um sig þrjú stórfengleg lög.
Snorri söng He ain't heavy, he's my brother (með Hollies) og Feel (með Robbie Williams) á meðan að Ína söng Piece of my heart (með Janis Joplin) og Because you loved me (Celine Dion). Bæði sungu þau svo lagið Allt sem ég á, eftir John Reid, heimskunnan lagahöfund sem samið hefur lög fyrir Rod Stewart, Westlife, Tinu Turner og Kelly Clarkson, bandarísku poppstjörnuna 2002. Textinn við lagið var saminn af Stefáni Hilmarssyni. Snorri gerði þetta lag algjörlega að sínu og brilleraði við að syngja það. Hiklaust var það hans besta frammistaða í keppninni.
Snorri er vel að sigrinum kominn í keppninni. Hann hefur notið mikillar hylli í keppninni allt frá upphafi og vakið athygli fyrir flott lagaval og að hafa sýnt bæði mjúku og hörðu hliðina. Snorri, sem kallaður er Hvíti kóngurinn, hefur verið hlédræga týpan og nokkuð til baka en hefur vaxið mikið í gegnum þátttöku sína í keppninni og vann hana enda með glans. Sama má segja um Ínu Valgerði, sem aðeins 18 ára gömul hefur komist lengst allra í keppninni undir tvítugu og hefur náð glæsilegum árangri.
Bæði voru þau þess verðug að komast svo langt og þau hafa rækilega stimplað sig á tónlistarkortið. Snorri er hin sanna stjarna og vonandi gengur honum vel á framabrautinni, sem og öllum öðrum þátttakendum keppninnar þetta árið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 13:39
Flokksráðsfundur á Akureyri

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundur Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar verður haldinn á Akureyri um helgina, 7. og 8. apríl. Hafa rúmlega 200 manns skráð sig til þátttöku á fundinum. Hann hefst með ávarpi formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde utanríkisráðherra, kl. 16.00 í dag í Brekkuskóla. Skólinn verður opinn frá kl. 15.00 og geta þátttakendur þá skráð sig og fengið afhent fundargögn. Að dagskrá lokinni býður Háskólinn á Akureyri til móttöku í Sólborg, stofu L201. Rútur aka fundarmönnum í háskólann og til baka á hótelin að móttöku lokinni.
Í kvöld verður snæddur hátíðarkvöldverður á Hótel Kea. Veislustjóri verður Gunnar Ragnars fyrrum formaður kjördæmisráðs í Norðausturkjördæmi og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hátíðarræðu flytur Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs í Norðausturkjördæmi. Fundi verður fram haldið kl. 9.30 á laugardagsmorgun. Umræðuefni verða málefni aldraðra. Eftir hádegi verður umræða um málefni fjölskyldunnar og samhliða verður boðið upp á kynningu á kosningastarfi fyrir kosningastjóra og aðra þá sem koma að kosningabaráttunni. Fundinum lýkur kl. 16.00 á laugardag með ávarpi formanns Sjálfstæðisflokksins.
Það er svo sannarlega okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins. Stefnir í góðan og öflugan fund. Hann mun án nokkurs vafa marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan um helgina.
Dagskrá flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundar á Akureyri
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 12:56
Úrslitin í Idol - stjörnuleit í kvöld
Úrslitastundin rennur upp í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind í kvöld. Þá keppa Ína Valgerður Pétursdóttir og Snorri Snorrason um titilinn poppstjarna Íslands 2006. Rúmt ár er nú liðið frá því að Hildur Vala Einarsdóttir söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna og vann titilinn poppstjarna Íslands. Árið áður hafði Karl Bjarni Guðmundsson unnið titilinn fyrstur allra. Fullyrða má að þau Ína og Snorri standi bæði vel að vígi við lok keppninnar. Þau eru enda óneitanlega frábærir tónlistarmenn. Þau hafa staðið sig vel alla keppnina og átt glæsilegar frammistöður í keppninni.
Að mínu mati stendur þó Ína óneitanlega sterkar að vígi fyrir lokakvöldið. Hún hefur glansað í gegnum alla keppnina, aldrei stigið feilspor og er eftirminnilegust þeirra sem keppt hafa nú að mínu mati. Ína og Snorri syngja þrjú lög í kvöld. Ína syngur lögin Piece of my heart (með Janis Joplin), Because you loved me (með Celine Dion) og nýtt frumsamið lag, Allt sem ég á, sem samið er fyrir sigurvegarann í keppninni þetta árið. Eftir keppnina verður lagið gefið út í flutningi þeirra beggja með flutningi sigurvegarans auðvitað á undan. Snorri syngur He ain't heavy, he's my brother (með Hollies), Feel (með Robbie Williams) og svo auðvitað lagið Allt sem ég á.
Ég verð staddur á hátíðarkvöldverði á Hótel KEA vegna flokksráðsfundarins hér á Akureyri í kvöld og get því ekki séð keppnina í beinni. En ég mun sjá upptöku seint í kvöld. Í mínum huga eru þó bæði Ína og Snorri sigurvegarar kvöldsins og þau munu bæði hafa mikil og góð tækifæri úr að spila eftir þessa keppni og flotta frammistöðu sína.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 00:44
Könnun á fylgi framboðanna á Akureyri

Nú hefur loksins birst skoðanakönnun um fylgi flokkanna í bæjarmálunum hér á Akureyri. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði könnunina meðal 500 Akureyringa á aldrinum 18 til 80 ára, og var svörun liðlega 60%. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar árlega hjá RHA allt frá árinu 2000 og birtist sú síðasta í nóvembermánuði 2004. Alls tilgreindu 59% þeirra sem svöruðu ákveðinn flokk, 38% voru óákveðnir eða neituðu að svara og 3% sögðust ekki ætla að kjósa. Fylgi flokka í könnuninni var með þessum hætti: Sjálfstæðisflokkur hefur 34%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur 22%, Samfylkingin er með 17%, Framsóknarflokkur nýtur stuðnings 12% og Listi fólksins hefur 9%. Eru þessar niðurstöður mjög athyglisverðar. Skv. þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 4 fulltrúa kjörna, vinstri grænir hafa 3, Samfylking hefur tvo og Framsóknarflokkur og Listi fólksins hafa 1. Samkvæmt þessu er því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn.
Kosningabaráttan hér á Akureyri er vart hafin enn af krafti. Mesti krafturinn í henni verður þá 40 daga sem verður eftir páskahátíðina. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem birtist á fylgi flokkanna hér eftir að framboðslistar framboðanna fimm sem buðu fram í síðustu kosningum, árið 2002, voru tilbúnir. Ennfremur er þetta fyrsta könnunin frá því í fyrrasumar. Það er því óhætt að segja það að mörgum hafi hlakkað til að sjá einhverja vísbendingu um stöðuna. Miklar breytingar hafa orðið á forystu þriggja af þessum fimm framboðum og því margt með öðrum brag en áður var. Jakob Björnsson, Valgerður H. Bjarnadóttir og Oktavía Jóhannesdóttir munu enda ekki verða í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili en Oktavía leiddi Samfylkinguna í kosningunum 2002 en skipar nú 13. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins (gekk í flokkinn í desember). Mikið hafði verið rætt um mögulega stöðu mála hvað varðar framboðin fimm og margir biðu niðurstöðu þessarar könnunar með þónokkurri eftirvæntingu.
Verði úrslit kosninganna eftir 50 daga eitthvað í líkingu við þessar tölur blasir við nýr meirihluti. Þó er greinilega mjög lítið sem þarf að gerast til að Framsóknarflokkurinn bæti við sig öðrum manninum, væntanlega á kostnað VG eða Lista fólksins. Slíkt myndi hafa það í för með sér að meirihlutinn héldi velli en hann hefur sjö bæjarfulltrúa nú af ellefu. Við í Sjálfstæðisflokknum getum þónokkuð vel við unað en skv. þessari könnun erum við nær með sama fylgi og í kosningunum 2002 og höldum okkar hlut. Það er ánægjulegt hversu sterk staða okkar er eftir átta ára forystu okkar í meirihluta bæjarstjórnar og átta ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs Júlíussonar. VG kemur sterkt til leiks á þessum tímapunkti undir forystu Baldvins H. Sigurðssonar á meðan að Framsóknarflokkurinn virðist í algjörri rúst. Það er reyndar merkilegt að sjá hversu illa leikinn Framsóknarflokkurinn er um allt land en hann virðist víðast um landið algjörlega sleikja botninn.
Einn félagi minn sem verulegan áhuga hefur á stjórnmálum var mjög hissa á stöðu VG í þessari könnun og velti fyrir sér ástæðum þess. Ég benti honum rólegur á brá á það að VG hafði nákvæmlega sama byr í kosningabaráttunni 2002. Hann mældist með þrjá menn inni þá og Framsókn var þá, eins og nú, að sleikja botninn með aðeins leiðtogann Jakob Björnsson öruggan inni. Niðurstaðan varð sú að Framsókn varð næststærst og hlaut þrjá bæjarfulltrúa en VG hlaut einn og munaði reyndar litlu að Valgerður Hjördís hefði ekki náð inn en VG var á mörkunum að missa hana út á kosninganótt og úrslitin urðu VG veruleg vonbrigði. Staða Framsóknarflokksins er þrátt fyrir allt tal um að flokkurinn mælist lægri í könnunum en kosningum verulegt áhyggjuefni fyrir forystu flokksins. Jóhannes G. Bjarnason var kjörinn nýr leiðtogi flokksins í prófkjöri í febrúar en virðist ekki vera að leiða flokkinn til öflugs fylgis og ráðandi stöðu í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.
Niðurstaða þessarar könnunar hlýtur ennfremur að vera verulegt áfall fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn sótti fram af krafti með prófkjöri strax í nóvemberbyrjun og kynnti lista sinn langfyrst allra, strax í janúarmánuði, en virðist ekki vera að sækja fram af þeim krafti sem að var stefnt. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hermann Tómasson og hans fólk að vera að mælast með minna fylgi en VG undir forystu flugvallarvertsins Baldvins H. Sigurðssonar. Ef marka má þetta kemst Kristín Sigfúsdóttir, systir Steingríms J. Sigfússonar, inn og ennfremur Dýrleif Skjóldal en ekki samfylkingarkonan Helena Karlsdóttir. Stór tíðindi þessarar könnunar er svo vissulega að Gerður Jónsdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar, er fallin úr bæjarstjórn. Ennfremur er Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna ekki inni en ef marka má tölur vantar varla mikið upp á að hann nái inn. Við erum með sama fylgi og 2002 og þá munaði litlu að við héldum fimmta manninum.
Þessi skoðanakönnun er auðvitað ekkert nema vísbending um stöðu mála þegar að 50 dagar eru til sveitarstjórnarkosninga. Aðalbaráttan er ekki hafin og enn eiga framboðin eftir að leggja fram málefnaskrár sínar og hefja lykilslaginn sinn. Það er því aðalhiti baráttunnar eftir og mjög erfitt að spá um hvernig fer að baráttunni lokinni. Það er þó ánægjuefni fyrir okkur að sjá hversu öruggur Hjalti Jón Sveinsson er skv. þessu og hversu litlu munar á að Þórarinn B. Jónsson haldi sínu sæti. En nú hefst aðalbaráttan og verður hún auðvitað spennandi. Þessi könnun sýnir okkur smámynd af stöðunni. Þó skal á það bent að tæpur helmingur aðspurðra hefur ekki myndað sér skoðun á því hvaða framboð það muni kjósa í kosningunum. Þessi stóri óákveðni hópur mun ráða úrslitum í kosningunum og því hverjir leiða bæinn á næstu árum.
Ef marka má þessa könnun eru Baldvin, Hermann og Oddur komnir með meirihluta. En það kemur þó vel fram í könnuninni að Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, hefur langmest fylgi er kemur að því að spurt er hvern fólk vilji að sé bæjarstjóri eftir kosningar. Kristján Þór mælist með 46% fylgi er þessi spurning er borin upp. Næstur kemur Jóhannes Bjarnason leiðtogi Framsóknarflokksins með 12%. Himinn og haf skilja því að leiðtoga meirihlutaflokkanna er kemur að spurningunni um bæjarstjórastólinn. Það er þó greinilegt að fáir nefna leiðtoga minnihlutaflokkanna sem er vart undarlegt. Það eru enda greinilegt að fáir bæjarbúar vilja fá leiðtoga þessara flokka í bæjarstjórastólinn sjálfan og til áhrifa.
Eins og allir bæjarbúar vita er aðeins ein leið til að tryggja að Kristján Þór verði bæjarstjóri að loknum kosningum og að haldið verði áfram af sama krafti og frá 1998 - það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 27. maí og tryggja honum sem glæsilegasta kosningu. Þessi könnun sýnir allavega sterka stöðu okkar sjálfstæðismanna - það er satt best að segja gott að finna fyrir því að bæjarbúar vilja Kristján Þór áfram sem bæjarstjóra og að flokkurinn haldi lykilstöðu sinni nú eftir átta ára valdaferil og farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins í forystu meirihluta bæjarstjórnar frá árinu 1998. Það kemur skýrt fram þó greinilega sjáist veik staða Framsóknarflokksins jafnt á landsvísu sem og í bæjarmálum.
Fólk hér vill greinilega sterkan Sjálfstæðisflokk og öflugan bæjarstjóra áfram við völd.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2006 | 21:54
MA sigrar í Gettu betur

Menntaskólinn á Akureyri sigraði í kvöld í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Ásgeir, Tryggvi og Magni unnu góðan, sannfærandi og umfram allt glæsilegan sigur. MA hlaut 34 stig en Verzlunarskóli Íslands hlaut 22 stig. MA tók þetta með miklu trompi og hlaut 24 stig í hraðaspurningunum. Sigur MA var því aldrei í raunverulegri hættu. Það er gleðiefni að sjá þennan góða árangur strákanna og þeir eiga sigurinn svo sannarlega skilið eftir að hafa tekið Verzló í gegn með svo afgerandi hætti. Útsendingin var vel heppnuð og sérstaklega gaman að sjá félaga minn, Júlla, sem er með mér í stjórn Varðar taka lagið með félaga sínum.
Þeir sem muna eftir gullaldartímanum er MA vann ógleymanlega sigra í keppninni fagna í kvöld. MA vann keppnina árin 1991 og 1992. Liðið var þá skipað af Pálma Óskarssyni (bróður Magna), Finni Friðrikssyni og Magnúsi Teitssyni. Þessi gullaldartími í byrjun tíunda áratugarins sem var kenndur við Akureyri var alveg ógleymanlegur og gengi skólanna okkar hér er mörgum ferskur í minni en árið 1992 kepptu MA og VMA til úrslita. Það var alveg frábær keppni og Íþróttahúsið alveg troðið. Var ég staddur þar er sú keppni fór fram - þá var sko stemmning! Síðan hefur gengi MA verið brokkgengt en í fyrra keppti MA til úrslita gegn Borgarholtsskóla en tapaði slagnum.
Innilega til hamingju Ásgeir, Tryggvi og Magni. Þið hafið mikið haft fyrir sigrinum og verðskuldið hann svo sannarlega. Það er leitt að hafa ekki getað verið staddur í Reykjavík og fylgst með keppninni þar en maður varð að gera sér áhorf í sjónvarpi sér að góðu og gleðst með MA-ingum hér norðan heiða í snjóbylnum sem hér geisar. Góða ferð með hljóðnemann verðmæta norður strákar! :)
Félagi minn, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, var í Gettu betur-liði MS (sem hefði átt að komast mun lengra en raunin varð). Hann fór yfir Gettu betur veturinn í flottri færslu á bloggvefnum sínum í kvöld.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2006 | 21:40
Snjóbylur á Akureyri

Mikið vetrarríki er heldur betur nú hér norður á Akureyri. Það snjóar og er mikið rok með og því mjög slæmur snjóbylur. Það er vonandi að þetta sé páskahretið sem nú er í gangi. Hanna systir lenti í slæmu umferðaróhappi í dag og var stálheppin miðað við allar aðstæður. Hún fékk nokkuð högg á sig við slysið, bíllinn er auðvitað ónýtur en hún slapp ótrúlega vel en þurfti að vera upp á spítala dágóða stund í dag. Það er Guðs mildi að hún slapp svo vel og að ekki hafi farið verr en þetta.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2006 | 19:56
Bautinn 35 ára

Að mínu mati er Bautinn besti veitingastaðurinn á Akureyri og sá veitingastaður hér sem minnir mig mest á höfuðeinkenni miðbæjarins. Bautinn er enda fyrir margt löngu búinn að setja sterk einkenni á miðbæinn okkar. Í dag eru 35 ár liðin frá því að Bautinn opnaði. Allt frá upphafi hefur hann verið einn vinsælasti veitingastaður bæjarins og margir lagt leið sína þangað. Í raun verður enginn maður með mönnum hér fyrr en hann venur komur sínar á Bautann og fær sér þar úrvalsmat. Í dag var frábært tilboð á réttum á staðnum í tilefni afmælisins. Dreginn var fram matseðill frá fyrstu árunum og valdir af honum vinsælustu réttirnir og þeir boðnir á sama verði og fyrir 25 árum.
Meðal þess sem var í boði var turnbauti á 300 kr, körfukjúklingur á 245 kr. og hamborgari á 85 kr - hvorki meira né minna. Ég fór eftir vinnu síðdegis á Bautann og fékk mér ásamt fleirum borgarann á þessu lygilega 35 ára gamla verði. Borgarinn er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur og rann ljúflega niður. Það var gaman að líta á Bautann og þar var svo sannarlega fjölmenni að borða, sem ekki undrun er miðað við prísinn á þessum afmælisdegi. Ég vil nota tækifærið og óska þeim á Bautanum innilega til hamingju með afmælið og þakka fyrir mig. Það er alltaf gaman að fara á Bautann, borða góðan mat og njóta góðrar þjónustu sem þar er veitt.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 23:53
To Be or Not to Be

Það var létt og notalegt sjónvarpskvöld hjá mér á þessu miðvikudagskvöldi. Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina ákvað ég að horfa á tvær eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Um er að ræða kvikmyndir sem hafa lengi verið meðal uppáhaldsmyndanna minna en það var orðið nokkuð um liðið er ég setti þær í tækið í kvöld frá því að ég sá þær síðast. Þessar tvær myndir eru frá gjörólíkum tímabilum í kvikmyndasögunni en segja hinsvegar nákvæmlega sömu söguna. Kvikmyndin To Be or Not to Be er ein besta svarthvíta gullaldargamanmynd fimmta áratugar síðustu aldar. Hún var gerð í miðjum klíðum stríðsátakanna í seinni heimsstyrjöldinni og lýsir lífinu í skugga átakanna og fléttast þar vel saman hárfín kómík og alvara stríðsins. Myndin var kvikmynduð á árinu 1941 en frumsýnd í ársbyrjun 1942. Hún hlaut miklar vinsældir og sló umsvifalaust í gegn. Í aðalhlutverkum voru Carole Lombard, eitt mesta kyntákn kvikmyndasögunnar, og gamanleikarinn Jack Benny, sem má án nokkurs vafa telja einn fremsta gamanleikara Bandaríkjanna á 20. öld.
Myndin gerist skömmu eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Stríðsátökin hófust þann 1. september 1939 með hernámi Þjóðverja í Póllandi. Með því markaðist upphaf stríðsins, sem stóð í hálft sjöunda ár og skók heimsbyggðina með áþreifanlegum hætti í marga áratugi eftir að því lauk. Í hersetnu Póllandi í seinna stríðinu er sögð saga af leikhóp í höfuðborginni. Í forystu hans eru hjónin Joseph og Maria Tura. Þau eins og allir eiga sér sitt líf og sína sögu og stríðið hefur áhrif á líf þeirra eins og allra annarra sem horfast í augu við að landið sitt sé hersetið. Það hefur marktæk áhrif á leikhúsið þeirra og daglegt líf. Andspyrnuhreyfingar spretta upp sem reyna að verjast áhrifum nasista í landinu og úr myndast hópar sem reyna að standa vörð um lífsgildi sín og landið sitt. Tura-hjónin komast að því að nasistarnir séu með öllum ráðum að reyna að grafa undan andspyrnuhreyfingunni og komast að því hverjir leiða hana.
Þau ákveða að grípa til sinna ráða þegar að þau komast að því fyrir tilviljun að Alexander Siletsky prófessor, ætli að afhenda yfirmönnum nasista í Póllandi lista með nöfnum forystumanna andspyrnuhreyfingarinnar. Með útsjónarsemi og snilld sinni á leiklistarsviðinu láta þau til skarar skríða og reyna að slá tvær flugur í einu höggi: ná listanum og bjarga með því lífi andspyrnuleiðtoganna. Úr verður kostuleg skemmtun og unaðsleg gamanmynd sem lifað hefur með kvikmyndaáhugamönnum og er enn jafnfersk og skemmtileg í dag og hún var er hún var frumsýnd fyrir rúmum sex áratugum. Lombard og Benny fara á kostum í hlutverkum hjónanna og sérstaklega toppar Benny sig í hlutverki Tura sem vinnur sinn stærsta leiksigur í raun í því að ná listanum úr höndum prófessorsins og að koma atburðarásinni heim og saman í því verkefni. Lombard býr svo yfir þeim þokka og æskufegurð sem fylgja þarf hlutverkinu sínu og er sem ferskur blær inn í heildarmyndina alla.
Rétt áður en myndin var frumsýnd í ársbyrjun 1942 fórst Carole Lombard í hörmulegu slysi er flugvél hennar fórst í Table Rock-fjallagarðinum í Nevada-fylki. Fráfall hennar í blóma lífsins var sorglegt. Eiginmaður hennar var Clark Gable, einn af frægustu kvikmyndaleikurum 20. aldarinnar (best þekktur sem Rhett Butler í Gone with the Wind). Hann syrgði Carole mjög og mun aldrei hafa verið samur maður á eftir. Eins og vel hefur komið fram í umfjöllun um ævi hans tók það hann fjöldamörg ár að halda áfram lífi sínu eftir flugslysið sem hann kenndi sér alltaf um, enda hafði hann krafist að Carole færi í flugferðina örlagaríku. Hlutverk Mariu Tura varð seinasta kvikmyndahlutverk hinnar glæsilegu Carole Lombard. Meðal annarra leikara í myndinni sem eru eftirminnilegir eru sérstaklega Robert Stack í hlutverki Stanislavs, Sig Ruman sem Ehrhardt og Stanley Ridges í hinu smáa en þýðingarmikla hlutverki Siletsky.
Fjórum áratugum eftir gerð myndarinnar ákvað leikstjórinn Alan Johnson að endurgera To Be or Not to Be. Til liðs við sig fékk hann góðan leikhóp. Í forystu hans voru hjónin Mel Brooks og Anne Bancroft. Úr verður stórfengleg gamanmynd sem uppfærir margt úr eldri myndinni og býður ennfremur upp á smábreytingu í söguþræði, en ekki það mikla að áhorfandinn taki eftir. Það sem helst blasir við þeim sem fyrst sér gömlu myndina er að aðalsöguhetjurnar heita öðrum nöfnum. Í stað Tura-hjónanna eru þau kennd við Bronski, Frederick og Anna Bronski. Handritið er að langstærstum hluta grunnurinn úr eldri myndinni en á stöku stað er kryddað við. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Mel Brooks, allt í senn sem leikara, handritshöfundar og leikstjóra. Hann túlkar Bronski með gamansömum brag og er auðvelt að hlæja dátt yfir túlkun hans. Anne Bancroft gæðir persónu Önnu mýkt og glæsileika sem er í fararbroddi myndarinnar.
Fyrir alla þá sem þekkja eldri myndina er sú nýlegri sem flott viðbót og skemmtileg ný sýn á myndina. Leikhópurinn gerir myndina mjög eftirminnilega. José Ferrer birtist í hlutverki Siletsky prófessors og stelur senunni þá skömmu stund sem hann er á skjánum. Senuþjófur myndarinnar er þó hiklaust Charles Durning sem með skemmtilega góðum ofleik gerir Ehrhardt ofursta að ógleymanlegum karakter. Það er allavega auðvelt að hlæja dátt yfir myndinni og njóta hennar til fulls. Fyrst og fremst er galdurinn við báðar þessar myndir sígildur húmor. Þær eru léttar og ferskar gamanmyndir sem hitta beint í mark. Það er einmitt þess vegna sem þær hafa lifað svo lengi í hugum kvikmyndaunnenda. Þær eru sem ferskur vindblær á köldu vetrarkvöldi. Allavega skemmti ég mér vel yfir þeim báðum í kvöld.
Ég hvet alla til að sjá myndirnar. Það er þó frekar erfitt að nálgast þá eldri, enda ekki víða til. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hana skulu endilega láta mig bara vita.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 16:15
Undarleg hæfnisröð í hæstarétti

Geir H. Haarde utanríkisráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, í stað Guðrúnar Erlendsdóttur, sem lætur af embætti um miðjan mánuðinn eftir tveggja áratuga setu í réttinum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ákvað að víkja sæti við skipan dómara og Geir því settur dómsmálaráðherra í málinu. Það eru viss tímamót í því fólgin að Guðrún Erlendsdóttir láti af embætti dómsmálaráðherra. Hún var fyrsta konan sem skipuð var í hæstarétt Íslands og er eina konan sem gegnt hefur embætti forseta hæstaréttar. Aðeins hafa tvær konur verið skipaðar til setu í hæstarétti, Guðrún og Ingibjörg Benediktsdóttir. Guðrún er sjötug á árinu og því komu starfslokin engum á óvart.
Fjórar umsóknir bárust um stöðu dómara við hæstarétt að þessu sinni: frá Hjördísi Hákonardóttur, dómsstjóra Héraðsdóms Suðurlands, Páli Hreinssyni, lagaprófessor og deildarforseta lagadeildar Háskóla Íslands, Sigríði Ingvarsdóttur, héraðsdómara við héraðsdóm Reykjavíkur og Þorgeiri Inga Njálssyni, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness. Í gær skiluðu dómarar í réttinum áliti sínu um mat á umsækjendur, en skv. fjórðu grein dómstólalaga ber dómurum að skila áliti um hvort umsækjendur séu hæfir til setu í réttinum. Telur rétturinn Pál vera hæfastan í embættið. Hjördís og Sigríður eru metnar næst og Þorgeiri Inga er raðað neðst í hópinn og greinilega tekið fram að hann sé skör neðar settur í matinu.
Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson skiluðu sératkvæði og Jón Steinar tók sérstaklega fram þá skoðun þeirra að ekki eigi að raða umsækjendum í hæfnisröð. Tek ég undir mat þeirra. Það er verulega undarlegt, svo ekki sé nú meira sagt, að dómarar við Hæstarétt Íslands taki sér það bessaleyfi að raða umsækjendum í hæfnisröð og stilli þeim upp að eigin hætti. Finnst mér vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda, eins og vel sást í tilfelli seinustu skipunar í réttinn haustið 2004.
Að mínu mati er það alveg ljóst að dómarar eigi aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í fjórðu grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum. Þessi hæfnisröð dómara við skipan í stöðuna vekur upp margar spurningar óneitanlega.
Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Það verður erfitt verkefni fyrir ráðherra að velja einn af umsækjendum til starfa. Um er að ræða mjög hæfa einstaklinga sem sækja um og reynda á sínu sviði. Það bætir hinsvegar ekki úr skák, hvorki fyrir umsækjendur né ráðherra sem hefur skipunarvaldið varðandi stöðu dómara, að dómarar við Hæstarétt taki upp á því að raða mönnum í röð eftir geðþótta sínum eða velji einhverja sérstaka úr með þessum hætti.
Það eru margar spurningar sem vakna varðandi þessa hæfnisröð og það mat sem sitjandi dómarar leggja áherslu á að þessu sinni, rétt eins og haustið 2004 er síðast var skipað í réttinn. Mikilvægt er því eins og fyrr segir að breyta lögum um réttinn og að aðrir en sitjandi dómarar felli úrskurð um hæfni umsækjenda um stöðu dómara við réttinn.
Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Það var þann 26. maí 1968 sem formlega var fært úr vinstri umferð yfir í þá hægri.
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965.
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari 20. aldarinnar.
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína.
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004.
Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 23:51
Umfjöllun um kosningarnar hafin á fullu

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Þær verða í lok næsta mánaðar, laugardaginn 27. maí - 53 dagar eru því til kosninga. Utankjörfundarkosning er þegar hafin, hófst formlega á mánudaginn. Lokaundirbúningsvinna kosningabaráttunnar á sér stað þessa dagana - framboðslistar eru á flestum stöðum þegar tilbúnir og helstu áherslur liggja fyrir á flestum stöðum. Þó er enn rúmur mánuður eftir af framboðsfrestinum og verður ekki ljóst endanlega fyrr en þann 6. maí hversu mörg framboð verði í framboði í sveitarfélögum landsins. Það blasir við auðvitað nú þegar að lykilbaráttan hefst vart fyrr en eftir páskahátíðina og því verði mesta púðrið í baráttunni seinustu 40 dagana, en þann 18. apríl eru 40 dagar til kosninga. Nú fer að styttast í að staða mála í kosningabaráttunni verði sýnilegri á stöðu mála utan Reykjavíkur, þar sem búist er við mestu átökunum um völdin og reyndar má segja að krafturinn hafi verið mestur fram að þessu í kosningaslagnum í borginni.
Það styttist ennfremur nú í að við fáum að sjá skoðanakannanir í sveitarfélögunum utan Reykjavíkur. Eins og við er að búast finnst mér sérstaklega fróðlegt að sjá kannanir á stöðu mála hér á Akureyri. Ég lenti nýlega í könnun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri á fylgi flokkanna hér í bæ og bíð því spenntur eftir að sjá könnunina. Væntanlega kemur hún á næstu dögum. Verður mjög athyglisvert að sjá þar helstu stöðu mála eins og hún er nú eftir prófkjörin en öll fimm framboðin sem náðu kjöri í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 hafa gengið frá framboðslistum sínum og stutt í að málefnaskrár allra framboða liggi fyrir og með því hefjist formleg kosningabarátta. Hefð er fyrir því hér og almennt á landsbyggðinni að kosningabaráttan sé stutt og snörp og taki fljótt af. Hefjist rétt rúmum mánuði fyrir kosningar og sé tekin með miklum krafti undir það síðasta. Það er reyndar fátt sem jafnast á við það að vinna undir álagi og vera í þessu brasi frá morgni fram á kvöld.
Í kvöld hófst formlega kosningaumfjöllun NFS með borgarafundi á Akranesi og kynningu á þeim framboðum sem þegar hafa gengið frá skipan á framboðslista sína. Fannst mér mjög áhugavert að kynna mér pólitíkina á Skaganum og ekki var verra að sjá skoðanakönnun á fylgi flokkanna en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur og mjög nærri hreinum meirihluta. Var fínt að heyra staðreyndir um stöðu mála í bænum og kynna sér kosningabaráttuna þar og væntanlega átakapunkta baráttunnar. Er greinilegt að mikill metnaður er lagður í kosningaumfjöllun NFS. Það er tekið á málefnum stærstu sveitarfélaganna og farið yfir lykilpunkta á hverjum stað. Jafnframt er svo kynnt ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun hefur gert í hverju sveitarfélagi. Mjög áhugaverður pakki og verður spennandi að fylgjast með þessu.
Hef heyrt í dag talað um óánægju víða með hversu snemma NFS fer af stað. Það er ekkert undrunarefni að þeir fari af stað. Það eru 50 dagar til kosninga og baráttan er komin á fullt og utankjörfundarkosning hafin. Flestir eru eins og fyrr segir komnir með lista og hafi þeir ekki komið fram eru menn að klára þetta fyrir páska. Það geta enda varla verið mörg framboð sem bíða með listaskipan fram yfir páskana. Seinustu 40 dagarnir verða aðalbaráttan eins og fyrr segir - dagarnir eftir páskahátíðina. Annars líst mér eins og fyrr segir vel á umfjöllun NFS og verður áhugavert að kynna sér pólitíkina í landsbyggðarsveitarfélögunum næstu vikurnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 20:40
Kvikmyndaskoðun ríkisins lögð niður

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur lagt fram á þingi frumvarp um að leggja niður Kvikmyndaskoðun ríkisins. Í kjölfar þess verður það í valdi útgefenda kvikmynda, tölvuleikja og sjónvarpsefnis að meta hvort efnið sé heppilegt fyrir börn undir 16 ára aldri. Það er svo sannarlega gleðiefni að þetta skref sé stigið. Er enda enginn vafi á því að núverandi fyrirkomulag beri öll einkenni ritskoðunar. Eins og flestir vita hafa tveir fyrrum menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins talað fyrir því að þetta skref yrði stigið en ekki náðist þá samstaða. Björn Bjarnason talaði fyrstur menntamálaráðherra flokksins fyrir málinu og vék að því í pistli á vef sínum árið 2001. Það kom í hlut eftirmanns Björns, Tómasar Inga Olrich, að fylgja málinu eftir í kjölfar ráðherraskipta í menntamálaráðuneytinu í marsbyrjun 2002. Lagði Tómas Ingi fram frumvarp þessa efnis skömmu eftir að hann tók til starfa sem ráðherra.
Í greinargerð með frumvarpi Tómasar Inga Olrich árið 2002 var vísað til þess að vernd skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis hefðu verið styrkt í sessi hér á landi með heildarendurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995. Þar sagði: "Samkvæmt viðurkenndri skýringu á 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, nær vernd tjáningarfrelsis nú til hvers konar tjáningar án tillits til efnis og þess forms, sem tjáning birtist í. Meðal annars nær vernd tjáningarfrelsis til kvikmynda." Þá kom ennfremur fram að önnur ástæða fyrir flutningi frumvarpsins hafi verið að sú almenna stefna sem mörkuð hafi verið að opinber eftirlitsstarfsemi sé ekki umfangsmeiri en þörf sé á. Með frumvarpinu fylgdu tveir samningar sem fylgiskjöl. Fyrri samningurinn var á milli Félags kvikmyndahúsaeigenda og SMÁÍS - samtaka myndbandarétthafa en sá síðarnefndi á milli fjölmiðlarisanna á ljósvakamarkaði, Ríkisútvarpsins og Norðurljósa. Var frumvarp Tómasar Inga mjög umfangsmikið og mikil vinna lögð í það.
En frumvarpið fór ekki í gegn fyrir lok ráðherraferils Tómasar Inga. Samstaða náðist ekki endanlega milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu þess og það dagaði því miður uppi. Í kjölfar þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við ráðherraembætti fór vinnan af stað aftur og hefur hún nú skilað því að frumvarp liggur fyrir og samstaða um að það verði að lögum með fljótvirkum hætti. Ætti að geta náðst þverpólitísk samstaða vonandi um þessa stöðu mála, enda vandséð hver vill halda lífinu í ritskoðunarbákni eins og Kvikmyndaskoðun ríkisins. Verður reyndar fróðlegt að fylgjast með tali stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hvort þar séu einhverjir þeir afturhaldssinnar til sem vilja hafa uppi óbreytt kerfi í þessum efnum. Enginn vafi er á því að þetta frumvarp er gleðiefni fyrir okkur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Við höfum til fjölda ára barist fyrir því að þessi breyting verði samþykkt og við höfum margoft ályktað um það.
Í dag sendi stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá sér eftirfarandi ályktun um málið: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fagnar framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um að leggja niður Kvikmyndaskoðun og aflétta þannig ritskoðun af hálfu hins opinbera á kvikmyndum. SUS fagnar sérstaklega því viðhorfi sem fram kemur í frumvarpinu að opinber eftirlitsstarfsemi skuli ekki vera umfangsmeiri en þörf er á. Með frumvarpinu er leitast við að minnka hið opinbera bákn, dregið er úr forræðishyggju, almenningi er gefið aukið frelsi í eigin málum og grundvallarmannréttindi einstaklingsins eru virt. Sambærilegt frumvarp var lagt fram af þáverandi menntamálaráðherra vorið 2002 en náði ekki fram að ganga. SUS skorar eindregið á þingmenn að veita frumvarpinu brautargengi að þessu sinni."
Þessi ályktun er mjög öflug og góð og tjáir vel skoðanir mínar á málinu. Hef ég lengi verið mjög afgerandi þeirrar skoðunar í starfinu innan SUS að þessi breyting verði gerð á. Við í SUS gleðjumst auðvitað yfir því að þessi áfangi hafi náðst og samkomulag liggi fyrir um afgreiðslu frumvarpsins á milli stjórnarflokkanna. Sjálfsagt er að hrósa Þorgerði Katrínu fyrir að leggja frumvarpið fram.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 02:04
Nixon

Ég var á löngum fundi í kvöld og er heim kom horfði ég á kvikmyndina Nixon. Þar fjallar óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone um feril Richard M. Nixon 37. forseta Bandaríkjanna. Jafnvel þótt hann hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stone er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna í júnímánuði 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér embætti í ágúst 1974, fyrstur bandarískra forseta.
En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Hann fer inn í karakterinn, við sjáum hvernig hann mótast úr smástrák í litlum bæ og til þess manns sem síðar varð valdamesti maður heims. Æska hans var blandin gleði en einnig sárum trega. Hann var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Nixon bar þess merki alla tíð að vera beiskur en eitilharður baráttumaður, hann lét ekki undan nema hann nauðsynlega þyrfti til. Við fylgjumst með honum í myndinni allt frá því er hann óx úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972.
Meginpartur myndarinnar er hneykslismálið sem kaldhæðnislega hófst helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu.
Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Anthony Hopkins túlkar Nixon af stakri snilld í þessari mynd. Þó hann sé hvergi nærri alveg eins og Nixon í öllum töktum eða fasi verður hann samt Nixon með merkilegum hætti. Mörgum þótti skotið hátt yfir markið þegar hinn breski leikari með sinn ekta breska hreim var valinn til að leika hinn hrjúfa forseta með áberandi suðurríkjaframburð sinn. En Hopkins er enginn venjulegur leikari og túlkar forsetann með mikilli snilld. Frábær leikur hjá ótrúlegum leikara. Joan Allen fer á kostum í lágstemmdri rullu en stórbrotinni engu að síður er hún túlkar Pat Nixon. Hún var alltaf hinn þögli félagi forsetans, hún var við hlið hans í blíðu og stríðu allt til loka. Þau leika hjónin með miklum bravúr. Þau passa vel saman og fúnkera þannig. Þó hjónaband þeirra hafi oft verið stormasamt var það alltaf ástríkt.
Það sést vel á myndinni að hún er verulega gloppótt sögulega séð. Sumum hlutum er sleppt í frásögninni af ævi Nixons eða hreinlega skáldað í eyðurnar. Því ber að taka sagnfræði Stone með mikilli varúð. Þrátt fyrir þennan stóra galla er myndin góð. Henni tekst umfram allt að lýsa persónu Nixons. Hún var margbrotin, svo vægt sé til orða tekið. Segja má að hann hafi verið hið minnsta þrjár persónur, eða svo segja þeir sem stóðu honum næst: sá blíði, sá íhuguli og sá veruleikafirrti. Sá þriðji hafi eyðilagt feril hans, sá annar hafi íhugað um framtíðina þegar ferillinn var orðinn það skaddaður að honum varð ekki bjargað og sá fyrsti hafi tekið stjórnina við að gera upp ferilinn við lokin. Undir lokin hafði Nixon tekist að endurheimta orðspor sitt, var orðinn fyrirlesari og virtur álitsgjafi á málunum. Forysta hans í utanríkismálum verður það sem hans verður minnst fyrir utan við Watergate og sá vettvangur var honum gjöfull undir lokin.
Öllu er þessu lýst vel í myndinni að mínu mati. Hún tekur vel á meginpunktum ævi Nixons. Stone er oft óvæginn, tekur Nixon og karakter hans og kafar algjörlega inn í rótina. Það er bæði honum og arfleifð hans mikilvægt. Þó skotið sé mjög glaðlega og oft glannalega er þessi mynd nauðsynleg viðbót í umfjöllun um ævi Nixons. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen og Paul Sorvino. Öll skila þau sínu vel og eftir stendur hin besta mynd. Allavega ómissandi mynd fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálasögu 20. aldarinnar og því hver var aðdragandinn að afsögn Nixons af forsetastóli og ekki síður hvernig hann varð stjórnmálamaður í fremstu röð en glutraði því frá sér með eigin afglöpum.
Er merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans og Watergate. En þessi mynd er mikilvægur þáttur í ævi þessa manns og hana verða allir að sjá. Umfram allt vegna þess að þetta er sýn pólitísks andstæðings Nixons á hann. Það sést umfram allt að hún er eftirminnileg þrátt fyrir að vera sagnfræðilega fjarri því rétt að öllu leyti. En þrátt fyrir það er hún ómissandi, allavega fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni og ekki síður forsetatíð þessa eina forseta Bandaríkjanna sem hefur sagt af sér þessu valdamesta embætti heims.
Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins.
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar.
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik.
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki og gegndi embættinu tvívegis.
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga.
Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2006 | 23:52
Flokksráðsfundur á Akureyri um helgina

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn hér á Akureyri um helgina. Þar koma saman flokksráðsfulltrúar, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðendur til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Ég er í flokksráðinu, kjörinn af hálfu SUS, og svo auðvitað formaður aðildarfélags, svo að ég sit auðvitað flokksráðsfundinn. Það er svo sannarlega okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins.
Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 60 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að flokksfélagar hittist um helgina til að bera saman sínar bækur um stöðu mála. Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, höfum unnið að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það hefur verið mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður.
Stefnir í að rúmlega 200 manns sitji fundinn svo að það er greinilegt að fundurinn verður vel sóttur. Hann mun án nokkurs vafa marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan um helgina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)