13.9.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

Ánægjulegt hefur verið að heyra í fréttum undanfarna daga að fasteignaverð í bænum hafi hækkað nokkuð að undanförnu. Munu t.d. einbýlishús í bænum hafa hækkað í verði um nærri 6% á seinustu 12 mánuðum. Jafnframt kom fram að mun fleiri hús hafa skipt um eigendur í ár en í fyrra. Fjölbýlishús hafa hinsvegar hækkað í verði um 3% á einu ári. Eins og nærri má geta hafa þessar fréttir glatt bæjarbúa og stjórnvöld bæjarins og hefur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tjáð sig mikið um þessi mál og sagt þróunina ánægjulega. Mikið hefur verið byggt á Akureyri á undanförnum árum, enda hefur íbúum fjölgað nokkuð hin seinustu ár. Rétt er að líta á þróunina hér þennan tíma. Fyrstu átta mánuði síðasta árs var meðalverðið á hvern fermetra í fjölbýlishúsum tæplega 103.400 kr, en á þessu ári var meðalverðið þrjú þúsund krónum hærra, eða 106.400 krónur. Hækkunin er semsagt 3.000 krónur, eða sem nemur rúmum þrem prósentum. Sé litið á fjölda kaupsamninga sést að hreyfingin í fyrra og í ár er mjög svipuð. Öðru máli gegnir hinsvegar um einbýlishús. Mun fleiri kaupsamningar hafa verið gerðir á þessu ári en í fyrra. Meðalverðið á hvern fermetra í einbýli var fyrstu átta mánuði síðasta árs 91.700 krónur, en á sama tíma á þessu ári er meðalverðið á hvern fermetra rúmlega 97.000 krónur. Hækkunin er því rúmar 5.000 krónur eða rúmlega fimm og hálft prósent. Það er því ljóst að hækkunin er meiri en verðbólgan mælist. Greinilegt er því að mikið líf er á fasteignamarkaðnum og viðbúið að svo verði áfram á næstu mánuðum. Mjög ánægjuleg þróun, svo ekki sé meira sagt.


Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, mun láta af embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á miðvikudag, eftir 13 ára samfellda setu í forystu ríkisstjórnarinnar, og tekur jafnframt við embætti utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar. Í tilefni þess fjalla ég um þessar breytingar og væntanleg verkefni hans í utanríkisráðuneytinu í ítarlegum pistli sem birtist í dag á frelsi.is. Á málefnaþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna á Selfossi, sem haldið var helgina 3. - 5. september sl. var kraftmikil umræða um utanríkismálin, þessi mál eru okkur mjög hugleikin nú, loks þegar flokkurinn tekur við ráðuneytinu, en það eru liðin 17 ár síðan við höfðum síðast utanríkisráðuneytið, en Geir Hallgrímsson og Matthías Á. Mathiesen sinntu málaflokknum kjörtímabilið 1983-1987. Á þessum 17 árum hafa utanríkismálin verið undir forystu Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Skoraði málefnaþing SUS á Davíð Oddsson sem nýjan utanríkisráðherra að beita sér eindregið fyrir einkum þrem atriðum sem ég minni á í pistlinum. Nefni ég það helsta sem blasi við að gera þurfi, t.d. að stokka upp utanríkisþjónustuna, beita sér í varnarmálunum og fjalla um umsókn Íslands um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Tjái ég stefnu SUS í þessum málum og fer yfir okkar sýn á þessi mál sem verða á borði Davíðs eftir að hann tekur við þessu embætti. Það er mikilvægt að til starfa í utanríkisráðuneytið veljist af hálfu flokksins, sterkur og traustur forystumaður sem hefur mikla þekkingu á málaflokknum og er sköruglegur talsmaður fyrir málaflokkinn. Fáir efast um hæfni Davíðs til að leiða þennan málaflokk, hann hefur sem forsætisráðherra leitt landsstjórnina með farsælum hætti og það er enginn vafi á því að forysta hans í utanríkismálum verður traust. Við blasir að tækifærið fyrir okkur sjálfstæðismenn til að hafa áhrif á gang mála í þessu ráðuneyti er framundan.
Dagurinn í dag
1948 Margaret Chase Smith kjörin fyrst kvenna á bandaríska þingið - Margaret varð fyrsta konan í sögu landsins sem kjörin var bæði í fulltrúadeild og öldungadeild bandaríska þingsins
1981 Borgarfjarðarbrúin vígð - með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness talsvert
1982 Málaferli hefjast gegn foreldrum barns sem sökuð eru um að hafa myrt barn sitt, en þau segja að hafi verið drepið af villidýri - umdeilt mál sem gerð var kvikmynd um. Foreldrarnir unnu málið
1993 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat leiðtogi Palestínuaraba, skrifa undir samning um frið í Mið-austurlöndum. Samningurinn var virtur að mestu í upphafi og friður komst á, en friðarferlið fór út af sporinu eftir morðið á Rabin árið 1995 og ríkisstjórnarskipti í Ísrael árið eftir
2001 Iain Duncan Smith, lítt þekktur þingmaður Íhaldsflokksins, kjörinn leiðtogi flokksins - hann var mjög umdeildur innan flokksins meðan hann leiddi hann og var felldur af leiðtogastóli árið 2003
Snjallyrði dagsins
Civilization is the progress toward a society of privacy. The savage's whole existence is public, ruled by the laws of his tribe. Civilization is the process of setting man free from men.
Ayn Rand rithöfundur (1905-1982)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2004 | 22:09
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um Evrópumálin og umræðu um sjávarútvegsstefnu ESB í kjölfar athyglisverðrar ræðu Halldórs Ásgrímssonar á sjávarútvegsráðstefnu hér á Akureyri í vikunni. Ummæli hans hafa leitt til athyglisverðrar túlkunar á því hvort afstaða hans til ESB-aðildar hafi breyst, að mínu mati er raunsæi í ræðu hans og harkaleg viðbrögð stjórnarandstæðinga lýsandi um stöðu mála og þess að ESB-aðild er nú sem fyrr óhagstæður kostur. Davíð Oddsson lætur af forsætisráðherraembætti eftir 13 ára samfellda setu á miðvikudag. Ánægjulegt er að lesa viðtal Egils Ólafssonar blaðamanns, við Davíð í Morgunblaðinu í dag. Þar tjáir hann sig einkum um glæsilegan forsætisráðherraferil sinn og þau verkefni sem blasa við honum, eftir veikindin sem hann varð fyrir í sumar og það hvað taki við honum persónulega. Lýsir hann því yfir að hann muni ótrauður halda áfram þáttöku í stjórnmálum og stefni að því að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans sem haldinn verður á næsta ári. Það er gleðiefni að Davíð treysti sér til áframhaldandi starfa fyrir flokkinn og þjóðina, í forystusveit íslenskra stjórnmála. Hann hefur flokkinn að baki sér og nýtur mikilla vinsælda meðal almennra flokksmanna sem hafa veitt honum ótvírætt umboð á landsfundum til að leiða flokkinn í þeim málum sem skipta okkur mestu máli. Andstæðingar Davíðs í stjórnmálum höfðu sagt ótrúlegt að hann yrði áfram ráðherra, í ríkisstjórn undir forsæti annars. Við blasir nú að hann starfar áfram af krafti. Það er mikilvægt að Davíð hafi nú tekið endanlega af skarið með pólitíska framtíð sína, innan ríkisstjórnar og flokksins. Eftirsjá er þó að honum úr forsætisráðuneytinu, en verkin bera þess vitni að vel hefur verið unnið undir hans forystu. Verður mjög athyglisvert að fylgjast með verkum hans í utanríkisráðuneytinu á næstunni, en þar er nóg af verkefnum framundan. Ítreka ég að lokum þá skoðun mína að Síminn verði seldur og undrast skyndileg skilyrði framsóknarmanna fyrir sölu fyrirtækisins.

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, heldur enn 10% forskoti á John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata, í skoðanakönnunum, nú þegar 50 dagar eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Bush náði forskotinu samhliða flokksþingi repúblikana í lok ágúst og gríðarlega góðu stökki sem hefur ekki enn hjaðnað. Það er þó merkileg staðreynd að nú þegar hin fræga tímaviðmiðun við Labor Day, 6. september, rennur upp (oft talið að sá sem leiði þá vinni slaginn) er allur vindur úr demókrötum og forsetaefni þeirra, og forsetinn stendur með pálmann í höndunum. Hefur ekki gerst frá 1988 að frambjóðandi með svo mikið forskot í könnunum missi það niður og tapi slagnum 50 dögum síðar, Michael Dukakis leiddi lengst af forsetaslaginn 1988 en tapaði kosningunum fyrir Bush eldri. Í gömlum demókratavígum eins og t.d. Minnesota er forskot Kerrys að hverfa, sem er demókrötum mikið áhyggjuefni. Án sigurs í jafnsterku vígi og því er tap augljóslega framundan, enda forsetinn gríðarlega sterkur í suðrinu. Mikið forskot Bush er því verulegt áhyggjuefni fyrir demókrata, sem eru farnir að örvænta, eins og sást best af starfsmannatilfærslum í herbúðum Kerrys. Svo virðist sem eitt helsta tromp Kerrys í upphafi, herþjónusta hans og afrek í Víetnam, sé orðið honum fjötur um fót og hann reyni sem mest nú að beina talinu í aðrar áttir, t.d. efnahags- og heilbrigðismálum. Flokksþingið í Boston snerist að mestu um öryggis- og varnarmálin, en þar sem kannanir sýna með afgerandi hætti að Bush hefur ótvírætt forskot í þeim málaflokki verði horft annað. Demókratar eru semsagt komnir á flótta með helstu stefnumál sín og áherslur í gervallri kosningabaráttu. Ber þetta þess vitni að demókratar skynji að Bush sé of sterkur til að ræða varnarmálin, hann hafi náð of miklu forskoti þar. Framundan eru kappræður frambjóðenda eftir tæpan mánuð og má búast við að þar verði tekist verulega á.
Dagurinn í dag
1974 Haile Selassie keisara Eþíópíu, steypt af stóli í valdaráni hersins. Keisaradæmið aflagt með því
1977 Steve Biko, sem leiddi baráttu blökkumanna gegn valdhöfum í S-Afríku, deyr í varðhaldi
1997 Skotar samþykkja með yfirgnæfandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að koma upp heimastjórn í Edinborg - Donald Dewar verður fyrsti forystumaður heimastjórnarinnar - lést snögglega árið 2000
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stríði gegn hryðjuverkum, eftir árásirnar á USA
2003 Sveitasöngvarinn Johnny Cash, ein helsta goðsögn sveitatónlistarinnar, deyr, 71 árs að aldri
Snjallyrði dagsins
The only real prison is fear, and the only real freedom is freedom from fear.
Aung San Suu Kyi
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2004 | 14:35
Engin fyrirsögn

Í dag, 11. september, er þess minnst að þrjú ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Á þessum þrem árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Ætlun hryðjuverkamannanna var að sundra þjóðarsál Bandaríkjanna og vega að henni. Árásirnar þjöppuðu hinsvegar landsmönnum saman og efldi þjóðerniskennd þeirra. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú í landinu, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag. Árásirnar reyndu mikið á ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og hann persónulega. Þær settu gríðarmikið mark á kjörtímabil hans og stefnu ríkisstjórnarinnar og öll áhersluatriði. Árásin á New York og Washington, 11. september 2001, var ekki bara aðför að Bandaríkjunum heldur vestrænu samfélagi almennt. Með þeim hætti var þeim voðaverkum svarað og stuðningur mikill um allan heim við þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfar þessa sorgardags þegar hryðjuverkasamtök réðust á ógeðfelldan hátt að vestrænum háttum. Enginn vafi er á því að þessi atburður hefur breytt algjörlega gangi heimsmála og leitt til atburða sem kannski sér ekki fyrir endann á. Atburðir 11. september 2001 og eftirmáli, urðu áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku.

Dagurinn í dag
1945 Fyrstu hermenn Bandamanna komast inn í Þýskaland. Veldi nasista hrundi loks í apríl 1945
1964 Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, lést, 71 árs. Hún var forsetafrú í 12 ár, frá 1952 til dánardags
1973 Salvador Allende forseta Chile, steypt af stóli í blóðugri uppreisn hersins. Allende lést í átökum í forsetahöllinni. Augusto Pinochet hershöfðingi, varð leiðtogi Chile og ríkti allt til 1990
2001 Hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum - hryðjuverkamenn ráðast á New York og Washington með því að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á valin skotmörk. Tvær vélar fljúga á World Trade Center og ein á Pentagon. Tvíburaturnarnir hrynja til jarðar og Pentagon verður fyrir skemmdum
2003 Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, deyr á sjúkrahúsi af völdum sára sem hún hlaut er vitfirringur réðist að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í miðborg Stokkhólms, daginn áður.
Snjallyrði dagsins
This is a day when all Americans from every walk of life unite in our resolve for justice and peace. America has stood down enemies before, and we will do so this time. None of us will ever forget this day. Yet, we go forward to defend freedom and all that is good and just in our world.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (ræða - 11. september 2001)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2004 | 20:10
Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, fór hörðum orðum um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu Íslandsbanka um fjárfestingar í sjávarútvegi hér á Akureyri í gær. Hann sagði í ræðunni að öðruvísi sé hugsað um sjávarútveginn en auðlindir annarra þjóða innan Evrópusambandsins. Að hans mati væri fiskveiðistefna Evrópusambandsins í kreppu og að hún byggði á úreltum sjónarmiðum. Kom fram í máli Halldórs að Evrópusambandið aðhylltist nýlendustefnu gagnvart fiskveiðiþjóðum Norður-Evrópu. Hann teldi að afleiðingar stefnunnar væru offjárfestingar, of stór og dýr floti og mikið brottkast á afla. Allt myndi þetta leiða til þess að ómögulegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að sambandinu við núverandi aðstæður. Hugsanlega mætti semja um annað, en enginn vafi væri á að Evrópusambandið yrði að stíga einhver skref í því og sýna fram á að þeir vilji hafa þetta öðruvísi ef það á ætti að ná endanlegri pólitískri niðurstöðu. Kom fram í ræðunni að utanríkisráðherra telji engin merki fyrirsjáanleg í þá átt að Evrópusambandið hafi áhuga á að taka tillit til óska Íslendinga. Þessi ræða markar viss þáttaskil, enda gengur Halldór þar mun lengra í afstöðu til ESB en áður og í fyrsta skipti í lengri tíma tjáir raunverulega andstöðu gegn aðild og tjáir með markvissum hætti þann raunveruleika sem blasir við. Viðstaddir á fundinum, sem margir hverjir stjórna stórum sjávarútvegsfyrirtækjum, voru ánægðir með ræðuna og sögðu ráðherrann tala hreint út og tjá raunveruleikann og sjaldgæft væri að stjórnmálamaður talaði með svo skýrum hætti um sjávarútvegsstefnu ESB. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður flokksins, og Jóhann Ársælsson þingmaður flokksins, hafa öll tjáð undrun sína á ræðu ráðherrans og segja afstöðu hans helgast af væntanlegum breytingum innan ríkisstjórnarinnar í næstu viku. Í viðtali við RÚV hefur Ingibjörg sagt ekki teljast til tíðinda að stefna Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum væri gölluð. Það þurfi að leita leiða framhjá henni. Það eru tíðindi að forystumenn aðildar viðurkenni að sjávarútvegsstefnan sé í reynd gölluð og fagnaðarefni ef tekið er loks undir það með skýrum hætti. Fagna ber ræðu utanríkisráðherra og tjáningu hans á því raunsæi sem blasir við.


Seinustu mánuði hefur eitt helsta umræðuefni í bæjarmálum hér á Akureyri verið umræðan um tillögur að háhýsi á lóð Baldurshaga við Þórunnarstræti. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni en verktakinn hefur í hyggju að reisa þar 12 hæða hús. Í kvöld kl. 20:00 mun verða haldinn í Ketilhúsinu, almennur kynningarfundur um skipulag á lóð Baldurshaga. Umhverfisdeild bæjarins boðar til fundarins samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar til að kynna málið og heyra afstöðu almennings til þess. Talsverðar umræður hafa spunnist meðal bæjarbúa vegna þessa máls og því verður eflaust um að ræða fjölmennan, gagnlegan og góðan fund. Þekki ég málið vel enda bý ég rétt fyrir ofan umrædda lóð og hef kynnt mér vel flesta þætti málsins. Vissulega er við því að búast að deilur verði um svo stórhuga framkvæmd á viðkomandi staðsetningu. Hef ég ekki viljað loka á þetta mál og viljað vinna það frekar og tel mikilvægt að leita álits almennings á stöðu mála, heyra mat þess. Verður því fundurinn í kvöld mikilvægur vettvangur fyrir tjáningu um afstöðu bæjarbúa til framkvæmdarinnar og hvað gera eigi í málinu þegar nákvæmar teikningar og deiliskipulag svæðisins liggur fyrir.
Dagurinn í dag
1208 Víðinesbardagi háður í Hjaltadal í Skagafirði - í honum féllu 12 manns, t.d. Kolbeinn ungi
1877 Þingeyrarkirkja vígð - var talin eitt veglegasta hús sem reist var á Íslandi á sínum tíma
1926 Sjónvarpsstöðin NBC, The National Broadcasting Company, stofnuð í New York
1976 Mao Zedong formaður, leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína, deyr í Peking, 82 ára að aldri
2001 Ahmed Shah Massoud leiðtogi Norðurbandalagsins, myrtur í Afganistan, 48 ára að aldri
Snjallyrði dagsins
If you pick up a starving dog and make him prosperous, he will not bite you. This is the principal difference between a dog and a man.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2004 | 16:51
Engin fyrirsögn

Karl Gústaf XVI Svíakonungur, kom til landsins í gær ásamt eiginkonu sinni, Silvíu drottningu, og dóttur sinni, Viktoríu krónprinsessu. Mun heimsókn þeirra standa næstu daga og fara þau vítt og breitt um landið, t.d. hingað til Akureyrar á morgun. Með konungshjónunum í för er Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar. Er tæpt ár síðan hún tók við embætti eftir hið skelfilega morð á Önnu Lindh utanríkisráðherra, sem var stungin með hnífi í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi og lést af sárum sínum, að morgni 11. september 2003. Skipan Lailu í embætti utanríkisráðherra í fyrra, kom mörgum á óvart. Hún hafði verið umdeildur stjórnmálamaður og ekki allir á eitt sáttir um ágæti hennar innan Jafnaðarmannaflokksins. Hún varð t.d. að segja af sér embætti dómsmálaráðherra árið 2000 vegna fasteignahneykslis. Það þótti því til marks um ákveðni forsætisráðherrans að skipa hana til starfans í stað hinnar vinsælu Önnu Lindh, sem hafði verið sameiningartákn vinsælda innan flokks og meðal þjóðarinnar. Í för sinni til landsins mun Freivalds flytja tvö erindi um utanríkismál. Annað flutti hún í gær í Háskólanum og hitt mun hún flytja í Oddfellow húsinu hér á Akureyri á morgun. Mun ég fara þangað og hlusta á erindi hennar og fræðast um skoðanir hennar á utanríkismálum. Athygli mína vöktu í gær fréttir af fyrra erindi hennar. Þar kom fram sú skoðun hennar að það yrði til hagræðis ef öll Norðurlöndin gengju í Evrópusambandið. Eins og flestir vita standa Íslendingar og Norðmenn utan þess. Það myndi styrkja "norrænu víddina" í Evrópusambandinu að hennar mati. Boðskapur Lailu er stórundarlegur. Hvað ætli yrði sagt ef utanríkisráðherrar Íslands og Noregs færu með þann boðskap í opinbera heimsókn til Stokkhólms að það yrði til að styrkja EES samninginn að Svíþjóð gengi úr Evrópusambandinu og gerðist aðili að EES? Spyr sá sem ekki veit. Ég tel þó frekar ólíklegt að sænsk stjórnvöld myndu líta á slíkar ráðleggingar sem góðráð og telja það gróflega íhlutun í þeirra málefni. Okkur yrði einfaldlega sagt, tel ég, að þetta kæmi okkur ekki við og forystumenn landsins væru til þess kjörnir að stjórna landinu. Það sama á að segja við Lailu Freivalds, að mínu mati. Henni kemur þetta einfaldlega ekki við og ætti frekar að tjá sig um reynslu sína af ESB, heldur en skipa okkur fyrir verkum. Fagna ber hinsvegar afdráttarlausum yfirlýsingum utanríkisráðherra okkar um ESB.


Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, flutti athyglisverða ræðu við upphaf málefnaþings Sambands ungra sjálfstæðismanna á Selfossi á föstudagskvöld. Þar var honum tíðrætt um frelsið og mikilvægi þess að standa vörð um það. Orðrétt sagði hann í ræðu sinni: "Þegar ég hugsa um eftirsóknarvert umhverfi fyrir alþjóðleg fyrirtæki finnast mér fjögur atriði skipta mestu máli: Í fyrsta lagi að menntakerfið sé öflugt og að á hverju ári komi hópar af ungu, hæfileikaríku og vel menntuðu fólki fram á vinnumarkaðinn. Í öðru lagi að menningarlíf sé lifandi því fátt örvar betur frjóa og skapandi og skemmtilega hugsun. Öflug menning og kraftmikil sköpun eykur lífsgæðin almennt og nýtist jafnframt vel í nútíma fyrirtækjum þar sem hugvitið gefur forskot í harðri samkeppni. Í þriðja lagi þarf rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi að vera hagstætt í samanburði við nágranna okkar og keppinauta. Gjöld, leyfi, skattar, takmarkanir, boð og bönn og þess háttar mega ekki hefta eða íþyngja fyrirtækjum meira en keppinautum þeirra í öðrum löndum. Í fjórða lagi skipta reglur um skatta miklu máli. Við búum við frjálst flæði fjármagns og það er staðreynd að það leitar þangað sem beinir skattar eru lágir. Það er sama hvort í hlut eiga fyrirtæki eða einstaklingar. Því skiptir máli að skattar séu í lægri kantinum, annars fer fjármagnað annað. Óvíst er hvort samfélagið í heild hagnist á háum sköttum því þar sem beinir skattar eru lágir nýtur samfélagið góðs af auknu fjármagni í umferð, bæði í gegnum auknar fjárfestingar og veltuskatta. Ávinningurinn af lágum sköttum skilar sér því til allra. Ég minni á að flest burðarfyrirtæki í íslensku atvinnulífi eru alþjóðleg og hafa val um hvar þau skrá sig og greiða skatta. Við eigum að gera þeim valið auðvelt. Og þegar rætt er um skattamál er gott að hafa orð Abrahams Lincolns í huga en hann benti á að þú styrkir ekki þann veika með því að veikja þann sterka. Í framhaldi af ofansögðu tel ég það afar dýrmætt fyrir stjórnmálaflokk að eiga foringja með skýr markmið og tæra framtíðarsýn. Fyrir okkur í atvinnulífinu er sambýlið erfiðast við stjórnmálamenn sem skortir stefnufestu - stjórnmálamenn sem vilja semja um alla hluti í stað þess að fylgja skýrum markmiðum og standa fast á settum leikreglum."
Dagurinn í dag
1779 Bjarni Pálsson landlæknir, lést, sextugur að aldri. Bjarni var landlæknir frá 1760 til æviloka
1891 Ölfusárbrú vígð - fyrsta hengibrú landsmanna og ein mesta verklega framkvæmd landsins
1943 Bandamenn ná formlega völdum á Ítalíu - veldi Benito Mussolini hafði hrunið fyrr um árið
1975 Dagblaðið "frjálst, óháð dagblað" kom út fyrsta sinni - sameinaðist með Vísi í DV árið 1981
1987 50 króna mynt kom til sögunnar - samhliða því var formlega hætt útgáfu 50 krónu seðils
Snjallyrði dagsins
Blend with my blue
those colours of you.
Please help me
see it through.
This journey I must
take alone.
So just blend your
colours with my blue.
Magnús Þór Sigmundsson (Heaven)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2004 | 17:20
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur 11-13% forskot á John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata, í skoðanakönnunum sem gerðar voru eftir flokksþing Repúblikanaflokksins, sem haldið var í New York í seinustu viku. Fylgissveiflan til forsetans er ein sú mesta sem komið hefur eftir flokksþing hin seinni ár og jafnast í reynd á við þá uppsveiflu sem sást í fylgi Bill Clinton eftir flokksþing demókrata í New York árið 1992. Hann hélt því forskoti allt fram til kosninganna og vann sannfærandi sigur í þeim kosningum. Auðvitað bera kannanirnar þess merki að repúblikanar hafa verið í sviðsljósinu vegna flokksþingsins. Það er þó merkileg staðreynd að nú þegar hin fræga tímaviðmiðun við Labor Day, 6. september, rennur upp (oft talið að sá sem leiði þá vinni slaginn) er allur vindur úr demókrötum og forsetaefni þeirra, og forsetinn stendur með pálmann í höndunum. Á sama tímapunkti árið 2000 voru Gore og Bush með svo til jafnmikið fylgi sem hélst allt til kosninga. Mikið forskot Bush er því verulegt áhyggjuefni fyrir demókrata. Er hræðsla komin í herbúðir Kerrys, enda er þar stokkað upp forystusveitinni og sérfræðingum sem leiða slaginn af hans hálfu. Hafa margir forystumenn flokksins, t.d. Bob Graham öldungadeildarþingmaður í Flórída, sagt óhikað að Kerry verði að bæta sig, barátta hans hafi frá flokksþinginu í júlí verið fremur litlaus og kraftlítil. Í viðtölum hafa leiðandi demókratar, þar á meðal ríkisstjórar, öldungadeildarþingmenn, fjáröflunaraðilar og fleiri, sagt að þeir hvetji skipuleggjendur kosningabaráttu flokksins nú til þess að beina sjónum næstum eingöngu að því að gagnrýna stefnu Bush í málum innan Bandaríkjanna. Vilja þeir semsagt taka u-beygju frá flokksþinginu sem snerist að mestu um öryggis- og varnarmálin. Ber þetta þess vitni að demókratar skynji að Bush sé of sterkur í þessum málaflokki til að hafa hann undir í honum. Er Kerry nú að mestu farinn að fókusera sig á efnahagsmálin. Framundan eru kappræður frambjóðenda og má samkvæmt stöðunni nú telja það seinasta möguleika Kerrys að snúa taflinu sér í vil.


Samband ungra sjálfstæðismanna leggur áherslu á einstaklingsfrelsi og frjálst framtak. Fólk á sig sjálft og er ekki til fyrir ríkið. Aðeins með litlum ríkisafskiptum og hófsamri skattheimtu verður velferð fólksins hámörkuð.
Samband ungra sjálfstæðismanna telur það eitt brýnasta verkefni Sjálfstæðisflokksins á næstu misserum að beita sér fyrir lækkun ríkisútgjalda og búa þar með í haginn fyrir umtalsverðar skattalækkanir, enda fara einstaklingar betur með eigin peninga en ríkisvaldið. Flatur 7% skattur ætti að vera markmiðið til lengri tíma hvað varðar bæði einstaklinga og fyrirtæki. Fjármagnstekjuskatt ber að afnema. Ungir Sjálfstæðismenn telja að stefna beri að almennri lækkun virðisaukaskatts í 7%. Þá leggst SUS gegn hugmyndum um skatta sem ætlað er að hafa áhrif á neysluvenjur fólks, s.s. sykurskatt. Jafnframt skyldu tollar og aðrar viðskipahindranir verða afnumdar. Samhliða skattalækkunum telur SUS rétt að skorið sé niður í ríkiskerfinu og stofnanir lagðar niður eða einkavæddar eftir því sem við á, svo sem Ríkisútvarpið, Byggðarstofnun, Hafrannsóknarstofnun, Þjóðleikhúsið, Ferðamálaráð, Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit ríkisins.
Hugmyndafræði skiptir máli á vettvangi sveitarstjórna ólíkt því sem stundum er haldið fram og hugmyndir ungra sjálfstæðismanna um einstaklingsframtak og hófsama skattheimtu eiga brýnt erindi á þessu sviði. Sveitarfélögum ber skylda til að færa ekki starfsemi sína út fyrir lögbundið verksvið sitt. Umsvifamikil sveitarfélög þrengja að athafnafrelsi íbúanna og stuðla að skuldasöfnun og þyngri álögum. Sveitarfélög eiga að draga sig út úr rekstri fyrirtækja og stofnana á samkeppnismarkaði að fullu. Ungir sjálfstæðismenn telja nauðsynlegt að leita nýrra leiða til þess að bæta þá þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að sinna og er ljóst að mörg þeirra verkefna sem nú eru í höndum sveitarfélaga yrðu betur leyst af einkaaðilum.
SUS leggur til að hið opinbera leggi aukna áherslu á einkaframkvæmd í heilbrigðis- og menntakerfinu. Fjármagnið mun áfram koma frá hinu opinbera þótt reksturinn sé færður í hendur einkaaðila. Með því má ná fram mikilli hagræðingu. SUS telur að hefja skuli undirbúning að einkarekstri Háskóla Íslands sem og annarra ríkisrekinna háskóla, ásamt því sem ungir sjálfstæðismenn hvetja ríki og sveitarfélög til þess að einkareka aðra þá skólaþjónustu sem boðið er upp á. Þannig má ekki aðeins draga úr kostnaði heldur einnig bæta nám. Heimila skal ríkisreknum háskólum að innheimta skólagjöld enda verði skólagjöld lánshæf. Námsgagnastofnun ber að leggja niður og rétt er að færa starfsemi LÍN til almennra útlánastofnanna. SUS telur jafnframt að fyrirsjáanlegt verkfall kennara sé engum til heilla. Börnin greiða ekki laun kennaranna heldur hið opinbera og er óþarft fyrir kennara að beita börnunum fyrir sig í kjarabaráttu sinni.
Meginhlutverk hins opinbera í umhverfismálum er að skera úr um og vernda eignarrétt einstaklinga og lögaðila yfir náttúruauðlindum. Tryggari eignaréttarvernd og yfirfærsla eignarréttarverndar til sviða þar sem hennar hefur ekki gætt er best til þess fallin að vernda náttúruna.
Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu að á Íslandi vaxi og dafni sem frjálst og opið samfélag. Íslendingar eiga að taka þátt í alþjóðlegum samskiptum ríkja sem málsvari viðskiptafrelsis og mannréttinda í samstarfi við lýðræðisríki. Samband ungra Sjálfstæðismanna ítrekar andstöðu sína við þær hugmyndir að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í ljósi mikillar útgjaldaaukningar í utanríkisþjónustunni undanfarin ár leggur SUS áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn skeri niður og hagræði við rekstur sendiráða. Mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að bera ábyrgð á því að öryggi og frelsi þeirra sem dvelja á Íslandi sé varið. Aðild Íslands að Norður Atlantshafsbandalaginu leikur sem fyrr lykilhlutverk í vörnum landsins ásamt því að vera mikilvægur samstarfsvettvangur í alþjóðamálum.
Dagurinn í dag
1943 Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, kom út - varð ein vinsælasta bók landsins á 20. öld
1948 Júlíana Hollandsdrottning, tekur við embætti - hún var drottning til 1980. Lést árið 2004
1972 Allir 9 gíslarnir sem haldið var föngnum á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, létust
1997 Díana prinsessa af Wales, jarðsungin í Westminster Abbey dómkirkjunni í London. Milljónir manna um allan heim fylgdust með afhöfninni, sem var mjög tilfinningamikil og hjartnæm. Díana prinsessa, var jarðsett á eyju á miðri landareign fjölskyldu sinnar, Althorp, í Northamptonskíri
1998 Japanski kvikmyndaleikstjórinn Akira Kurosawa lést í Tokyo í Japan, 88 ára að aldri
Snjallyrði dagsins
Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.
Megas (Tvær stjörnur)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldið var á Selfossi um helgina. Það var góð stemmning um helgina á þessu þingi og ungt hægrifólk mætti sameinað í þeim anda að vinna vel og ræða málin af krafti og staðráðið í að vinna í þágu flokksins og sjálfstæðisstefnunnar. Flokksþing Repúblikanaflokksins var haldið í New York í vikunni. Lokahnykkur kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum er hafinn og stefnir allt í gríðarlega hörð átök um persónur og málefni á þeim 60 dögum sem eru til kosninganna. Að lokum fjalla ég um undarlega ákvörðun Símans að kaupa hlut í Skjá einum. Hvet ég ríkisstjórnina og þingmenn stjórnarflokkanna til að klára einkavæðingu Símans hið fyrsta og minni á þá skoðun mína að einkavæða eigi Ríkisútvarpið og ríkið eigi að fullu að víkja af fjölmiðlamarkaði. Þessi undarlega og kolvitlausa fjárfesting Símans og innganga ríkisins í fyrirtæki í samkeppnisrekstri á fjölmiðlamarkaði kallar á tafarlausa sölu Símans, fyrir áramót. Stjórnarflokkarnir eru samstiga um að hefja einkavæðingarferli Símans fyrir lok ársins og stefnt er að því ríkið hafi selt öll hlutabréf sín í fyrirtækinu snemma á næsta ári. Ég hvorki get né vil með nokkrum hætti verja þessa vitleysu Símans og hvet forystumenn flokksins að klára einkavæðingu Símans sem fyrst. Ég blæs á fornaldarbrag vinstri grænna í þessum málum sem vilja halda í Símann bara til að halda lífi í gamaldags forræðishyggju og fornaldarvinnubrögðum. Einkavæðum Símann og RÚV hið allra fyrsta. Ríkið á að hverfa af fjölmiðlamarkaði og losa um ítök sín í Ríkisútvarpinu og Skjá einum!

Málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna fór fram á Selfossi um helgina. Á þinginu mótuðu ungliðar í Sjálfstæðisflokknum stjórnmálastefnu sína, sem stjórn SUS mun vinna eftir, fram að sambandsþingi sem verður fyrir lok septembermánaðar 2005. Málefnastarf fór fram í sex nefndum á þinginu: um skattamál, utanríkismál, sveitastjórnarmál, einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfinu og niðurskurð ríkisútgjalda. Nefnd um stjórnskipun sem SUS og Heimdallur stóðu saman að, skilaði tillögum sínum á þinginu. Þinghaldi lauk klukkan hálffimm í dag er stjórnmálaályktun þingsins var samþykkt. Hvet ég alla til að líta á vef okkar á næstu dögum og kynna sér vel ályktanirnar og niðurstöðu okkar á þinginu. Ástæða er til að hrósa stjórn Hersis, félags ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, einkum Grétari Magnússyni formanni félagsins, með framkvæmd þingsins og góða gestrisni þessa helgi og færi ég þeim góðar kveðjur. Þetta þing var sérstaklega skemmtilegt, vegna þess að málefnin voru rædd af krafti og ólíkar skoðanir ræddar á sama vettvangi. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg, að mínu mati efldi þetta málefnaþing mjög samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég þakka öllum samherjum mínum sem ég hitti á Selfossi um helgina, fyrir skemmtilega og góða helgi og góða skemmtun og notalegt spjall.
Dagurinn í dag
1942 Þýskar sprengjuflugvélar gerðu loftárás á Seyðisfjörð - nokkrar skemmdir urðu á húsum
1972 Varðskip beitti togvíraklippum á breskan togara í fyrsta skipti - varð mjög árangursríkt
1979 Mountbatten jarðsunginn í Westminster Abbey dómkirkjunni í London - lést í sprengjuárás IRA
1987 Háskólinn á Akureyri var settur í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju
1997 Móðir Teresa handhafi friðarverðlauna Nóbels, sem eyddi ævi sinni í að sinna hinum þurfandi, einkum sjúkum og fátækum, deyr í Kalkútta á Indlandi. Hún var 87 ára gömul er hún lést
Snjallyrði dagsins
Don't be economic girlie-men!
Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2004 | 06:12
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, þáði útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans í forsetakosningunum 2. nóvember nk. í klukkustundarlangri ræðu á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Madison Square Garden í New York í gærkvöldi. Var forsetanum vel fagnað er hann birtist á sviðinu og þurfti oft að gera hlé á ræðu sinni vegna fögnuðar þingfulltrúa með efni hennar. Í ræðunni lagði Bush fram framtíðarsýn þá sem hann telur blasa við sér og stjórn sinni verði honum falin áframhaldandi stjórn landsins í forsetakosningunum eftir tvo mánuði. Bush varð tíðrætt í ræðunni um utanríkis- og varnarmál og rakti atburðarásina í umdeildum málum tengdum stjórn sinni allt frá hryðjuverkaárásunum í New York og Washington, 11. september 2001 til innrásar herja Bandamanna í Afganistan og Írak á kjörtímabilinu. Sagði hann það hafa verið erfiða ákvörðun að ráðast inn í löndin en það hafi verið nauðsynlegt og hann sagði að heimsbyggðin væri öruggari nú en þá. Ógnin sem til staðar hafi verið sé að baki. Honum varð tíðrætt um skattastefnu sína og framtíðarsýnina sem blasi við í skóla- og heilbrigðismálum. Sagði hann að ekkert myndi halda aftur af Bandaríkjamönnum á næstu árum við að móta líf sitt og framtíð með tilliti til þess að takast á við ógnir vegna hryðjuverka. Bandaríkjamenn væru hugsjónasamir og ákveðnir og fullir stolti vegna bakgrunns síns, bandaríski draumurinn og frelsi einstaklingsins væri nú sem fyrr grunnur að hamingjusömu lífi. Taldi forsetinn upp 15 lykilstefnumál sín sem grunn að stefnu sinni haldi hann völdum eftir kosningarnar. Áfram verði haldið á sömu braut og framtíðin mótuð með tilliti til þess sem áunnist hefði á undanförnum árum undir stjórn sinni. Sagði forsetinn að hann væri bjartsýnn með tilliti til framtíðar landsins og heimsbyggðarinnar. Hann hefði örugga stefnu og vissi hvar hann stæði, á hvað hann tryði á og hvernig hann vildi leiða þjóðina og heiminn á næsta kjörtímabili. Að ræðunni lokinni voru forseta- og varaforsetahjónin hyllt ásamt fjölskyldum sínum á sviðinu. Fjögurra daga flokksþingi repúblikana er nú lokið og kosningabaráttan hefst á ný.


Málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið á Selfossi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, setur þingið og mun Grétar Magnússon formaður Hersis, flytja stutt ávarp að því loknu. Í kjölfarið mun Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. flytja framsögu um íslenskt atvinnulíf og svara að því loknu fyrirspurnum úr salnum. Hersir, félag ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, býður til móttöku í félagsheimili sjálfstæðismanna á Selfossi síðar um kvöldið. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í fjölbrautaskólanum og seinnipartinn mun Hægri sveiflan, golffélag ungra hægrimanna, standa fyrir golfmóti. Röraverksmiðjan Set verður sótt heim síðdegis og þar verður boðið upp á léttar veitingar. Um kvöldið verður glæsilegur hátíðarkvöldverður og dansleikur í kjölfarið. Heiðursgestur í kvöldverðinum verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Á sunnudeginum fara fram umræður og afgreiðsla á ályktunum þingsins. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg og efla samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund á Selfossi. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!
Dagurinn í dag
1939 Bretland og Frakkland lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum - heimsstyrjöldin stóð í tæp 6 ár
1943 Herir Bandamanna ráðast inn í Ítalíu - veldi Mussolinis þar hafði hrunið nokkrum mánuðum áður
1988 Ölfusárbrúin tekin formlega í notkun - leiðin milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar styttist mjög
1991 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Frank Capra lést í La Quinta í Kaliforníu, 94 ára að aldri
2000 Li Peng forseti kínverska þingsins, kom í heimsókn til landsins. Nokkrar deilur urðu vegna hennar og mótmæli á Austurvelli urðu til þess að Peng ákvað að hætta við heimsókn í þinghúsið
Morgundagurinn
1969 Björgvin Halldórsson kjörinn poppstjarna Íslands - hann varð einn helsti söngvari landsins
1973 Bókstafurinn z var felldur úr opinberu máli, m.a. úr embættisgögnum og kennslubókum
1985 Flak skipsins Titanic sem fórst árið 1912, er kvikmyndað af dr. Robert Ballard, í fyrsta skipti
1997 Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom til landsins til viðræðna við íslenska ráðamenn - Annan hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir umfangsmikil störf sín að friðarmálum árið 2001
1998 Háskólinn í Reykjavík formlega stofnaður og settur í fyrsta skipti - hét áður Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Með nýjum háskólalögum Björns Bjarnasonar ári áður hafði tilvera skólans verið tryggð
Snjallyrði dagsins
I believe this nation wants steady, consistent, principled leadership. And that is why, with your help, we will win this election. The story of America is the story of expanding liberty, an ever-widening circle, constantly growing to reach further and include more. Our nation's founding commitment is still our deepest commitment: In our world, and here at home, we will extend the frontiers of freedom.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2004 | 23:40
Engin fyrirsögn

Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, þáði útnefningu Repúblikanaflokksins sem varaforsetaefni hans í forsetakosningunum 2. nóvember í ítarlegri ræðu á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Madison Square Garden í New York í gærkvöldi. Fór Cheney hörðum orðum um John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata og réðist harkalega að honum og stefnu framboðs hans. Sagði hann að Kerry hefði á tveggja áratuga ferli sínum í öldungadeildinni hvað eftir annað aðhyllst misheppnaða stefnu í þjóðaröryggismálum og sagði að hann væri óákveðinn og skeikull. Sagði Cheney að forsetinn væri andstæða þessa, enda þurfti hann að taka erfiðustu ákvarðanir sem forseti gæti lent í að þurfa að taka. Cheney sagði að ógnin við frekari hryðjuverk gerðu kosningarnar í ár með þeim mikilvægustu í sögu landsins og ennfremur í sögu mannkynsins. Sagði hann að Kerry skildi ekki að heimurinn hefði breyst eftir 11. september. Ósamræmi væri í skoðunum Kerrys en það sæist þegar skoðað væri hvernig hann hefði notað atkvæði sín í öldungadeildinni. Sagði Cheney að hann hefði samþykkt að leyfa að afli yrði beitt gegn Saddam Hussein, en svo ákveðið að vera á móti stríðinu og kjósa gegn fjárframlögum til þeirra sem voru fulltrúar landsins á vígvellinum. Við þetta kölluðu þingfulltrúar háum rómi: Flip-flop-flip-flop... Fyrr um kvöldið ávarpaði Zell Miller öldungadeildarþingmaður demókrata í Georgíu, þingið og sagði að mikilvægt væri að forsetinn héldi völdum. Kerry væri með glataða stefnu í öryggis- og varnarmálum. Bush Bandaríkjaforseti mun ávarpa flokksþingið í nótt og flytur ræðuna á hringlaga sviði á miðju þingsvæðinu, sem er sérbyggt fyrir þá stund er forsetinn þiggur útnefningu flokksins.



Í ítarlegri grein í smáriti Sambands ungra sjálfstæðismanna um landbúnaðarmál fjalla ég um nefndafargan og ríkisafskipti í landbúnaði. Ég og Kristinn Már Ársælsson sömdum í upphafi ársins greinaflokk um nefndafargan ráðuneytanna. Var athyglisvert að kynna sér þessi mál í nærvígi og fjalla ég í þessari grein um þá hlið sem snýr að landbúnaðarráðuneytinu. Orðrétt segir í greininni: "Nefndakerfið hefur lengi verið mjög umdeilt og umfang þess ekki allt legið fyrir með áberandi hætti. Áhugi á að fjalla um þessi mál leiddi til þess að ég og Kristinn Már Ársælsson, ákváðum að skrifa greinaflokk um nefndakerfi ríkisins fyrir frelsi.is, í upphafi ársins. Tilgangurinn með þeim skrifum var að kortleggja nefndir allra ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands og sýna almenningi með því fram á mikið umfang þeirra. Við vinnu pistlanna komumst við fljótt að raun um að orðið nefndafargan er staðreynd, er talað er um nefndir ráðuneytanna. Ríkisvaldið starfrækir rúmlega 850 nefndir, ráð og starfshópa. Er spurst var fyrir um kostnað einstakra ráðuneyta vegna starfrækslu allra þessara nefnda kom í ljós að litlar sem engar upplýsingar liggja almennt fyrir um þann kostnað. Við vinnslu greinanna varð áberandi að ekki virðast liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um störf þessara nefnda, t.d. er ekki hægt að sjá með óyggjandi hætti hvort þær séu allar starfandi eður ei. Þessi ótrúlegi fjöldi nefnda er enn ein sönnunin fyrir því að ríkisvaldið og afskipti þess hafa sífellda tilhneigingu til þess að aukast meir en góðu hófi gegnir." Hvet ég alla til að lesa greinar mínar og Kristins sem skrifaðar voru í upphafi ársins og bendi ég á þær hérmeð.
Nefndafargan ríkisvaldsins - pistill 1
Nefndafargan ríkisvaldsins - pistill 2
Dagurinn í dag
1625 Gos hófst í Kötlu í Mýrdalsjökli með miklu vatnsflóði - Katla hefur ekki gosið frá árinu 1918
1666 Bruninn mikli í London - mikill eldur kviknar í London sem verður að stórbáli sem barist er við í þrjá sólarhringa. Eyðilagði um 10.000 byggingar, t.d. St. Páls dómkirkju, 16 manns fórust í eldinum
1945 Seinni heimsstyrjöldinni lýkur formlega er Japanar undirrita yfirlýsingu um fulla uppgjöf sína
1967 Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi vígð formlega - var önnur lengsta hengibrú landsins, 110 metra löng. Með því komust Öræfingar loksins í fullkomið akvegasamband við aðra landshluta
1973 J.R.R. Tolkien höfundur hinnar frægu Hringadróttinssögu, deyr í London, 81 árs að aldri
Snjallyrði dagsins
It is the story of this country that people have been able to dream big dreams with confidence they would come true, if not for themselves, then for their children and grandchildren. And that sense of boundless opportunity is a gift that we must pass on to all who come after us.
Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2004 | 18:50
Engin fyrirsögn

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, kynnti á blaðamannafundi í dag, skýrslu nefndar sem hún skipaði til að fjalla um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Leggur nefndin til að hluthöfum fyrirtækja verði auðveldað að fara fram á sérstaka rannsókn á starfsemi félags og að nægilegt sé að tillaga um rannsókn hljóti fylgi hluthafa sem ráða yfir 1/10 hlutafjárins. Sagði viðskiptaráðherra á blaðamannafundinum að það kæmi sífellt betur í ljós, að það væri þörf á skýrum reglum í viðskiptaumhverfinu. Þetta væri almennt viðhorf í hinum vestræna heimi og aukin upplýsingagjöf um þessi mál væri sjálfsögð. Sagðist hún vonast til að sýrslan fengi vandaða og málefnalega umfjöllun og mikilvægt væri að fá viðbrögð við henni. Nefndin kemur að mestu fram með tillögur sem lúta að þremur meginþáttum: reikningshaldi og vottun þess, stjórnháttum fyrirtækja og samkeppnismálum. Lagt er t.d. til að stjórnum félaga verði skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Þá segir í álitinu að meirihluti nefndarinnar telji að stjórnarformanni hlutafélags verði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Stjórn félagsins geti þó falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina. Segist nefndin ekki telja æskilegt að stjórnarformenn séu í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags enda sé eitt af hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti stjórnar með félaginu. Ekki liggur nákvæmlega fyrir á þessari stundu hvaða breytingar verða lagðar til á stjórnsýsluþáttum gagnvart Samkeppnisstofnun. Er fróðlegt að fara yfir niðurstöður skýrslunnar. Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands, var formaður nefndarinnar en auk hans voru í nefndinni Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl. og rekstrarhagfræðingur, Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra, Orri Hauksson framkvæmdastjóri, Páll Magnússon aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Stefán Svavarsson löggiltur endurskoðandi, og Þórdís J. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík.


Dagurinn í dag
1919 Jóhann Sigurjónsson skáld og rithöfundur, deyr í Kaupmannahöfn, 39 ára að aldri
1980 Silfursjóður fannst við Miðhús á Fljótsdalshéraði - verið deilt um aldur silfursins allt frá því
1980 Verkalýðssamtökin Samstaða stofnuð í Póllandi - leiddi uppreisn gegn kommúnistastjórninni
1994 Írski lýðveldisherinn lýsir yfir fullu vopnahléi, eftir 25 ára baráttu með sprengjuárásum
1997 Díana prinsessa af Wales, deyr, í bílslysi í París í Frakklandi. Díana var 36 ára er hún lést
Snjallyrði dagsins
A disingenuous filmmaker who would have us believe that Saddam's Iraq was an oasis of peace.
John McCain öldungadeildarþingmaður (sagt um Michael Moore - úr ræðu á flokksþingi repúblikana)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2004 | 21:37
Engin fyrirsögn

Flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í Madison Square Garden í New York í kvöld og stendur það í fjóra daga. Gríðarlegar öryggisráðstafanir, meiri en áður hafa sést, verða gerðar vegna flokksþingsins, en um er að ræða fyrstu stóru flokkssamkomuna í New York, frá hryðjuverkunum í borginni fyrir þrem árum, 11. september 2001. Mikil öryggisgæsla er við þingstaðinn. Götum við þingstaðinn hefur verið lokað og lögreglumenn íklæddir óeirðagalla með leitarhunda og sprengjuleitartæki gæta þeirra. Leitað er á öllum þingfulltrúum við komuna á þingstað en á bannlista eru t.d. hnífar, byssur, flugeldar og sprengiefni. Um er ennfremur að ræða fyrsta flokksþing repúblikana í borginni, en demókratar hafa fimm sinnum hist þar og haldið flokksþing sitt. Hefur New York lengi þótt eitt traustasta vígi demókrata, og því kemur staðsetningin á óvart út frá pólitískum forsendum. Hundruð þúsunda tóku þátt í mótmælum gegn Íraksstríðinu og stefnu Bush forseta, í borginni í gær og búist er við fleiri mótmælum þegar líður á vikuna. Rúmlega 60 ræðumenn munu taka til máls á flokksþinginu, t.d. þingmenn og forystumenn flokksins í stórborgum, eiginkonur og börn frambjóðenda flokksins nú og að lokum George W. Bush forseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi flokksins og Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, en þeir verða formlega útnefndir í lok þingsins á fimmtudag. Meðal þeirra sem taka til máls í dag, á fyrsta degi þingsins, eru Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg núverandi borgarstjóri, og John McCain öldungadeildarþingmaður og mótframbjóðandi forsetans um útnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2000. Stuðningsmenn Bush segja fundarstaðinn táknrænan þar sem hryðjuverkin í New York hafi komið af stað stríði Bush gegn hryðjuverkum. Demókratar segja að forsetinn ætli sér að notfæra harmleikinn í kosningabaráttunni. Skv. nýrri skoðanakönnun sem birt var í morgun hefur fylgi forsetans aukist undanfarna daga og mælist hann nú með marktækt forskot á keppinaut sinn, John Kerry.


Gunnar G. Schram lagaprófessor og fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er látinn, 73 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri 20. febrúar 1931, en foreldrar hans voru Gunnar Schram og Jónína Jónsdóttir Schram. Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1950 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1956. Hann stundaði framhaldsnám í þjóðarétti við Max Planck-stofnunina í Heidelberg í Þýskalandi og háskólanum þar 1957-1958 og við háskólann í Cambridge í Englandi, Sidney Sussex College 1958-60. Hann lauk doktorsprófi í þjóðarrétti við skólann árið 1961. Gunnar var blaðamaður á Morgunblaðinu á háskólaárunum og 1956-1957. Hann var ritstjóri Vísis 1961-1966. Gunnar réðst til starfa í utanríkisráðuneytinu 1966 þar sem hann var deildarstjóri ásamt því að vera ráðunautur í þjóðarétti. Gunnar var lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1970, en árið 1974 var hann skipaður prófessor við skólann. Því starfi gegndi hann til ársloka 2001. Hann var ráðunautur stjórnarskrárnefndar 1975-1983. Gunnar átti sæti í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 1953-1957 og var á þeim tíma bæði varaformaður og ritari sambandsins. Gunnar var til fjölda ára virkur í starfi flokksins. Hann var kjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi í alþingiskosningunum 1983 og sat á þingi til ársins 1987. Hann var varaþingmaður flokksins í kjördæminu, kjörtímabilið 1987-1991. Gunnar kvæntist Elísu Steinunni Jónsdóttur og eignuðust þau fjögur börn, en fyrir átti Gunnar eina dóttur. Með Gunnari er fallinn í valinn einn af fremstu lagasérfræðingum þjóðarinnar á 20. öld.
Áhugavert á Netinu
Gróska háskóla spor í rétta átt - pistill Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur
Batnandi staða og örvænting varaþingmanns - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Samkeppni og viðkvæmni sáttasemjarans - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Harkaleg kosningabarátta í Bandaríkjunum - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Sjö sóttu um stöðu dómara við Hæstarétt Íslands - Pétur hættir 1. október
Tekjuskattur lækkaður um 1% - veikluleg byrjun á efndum loforðanna
Cherie Booth Blair kom til landsins og flutti erindi og opnaði listsýningu
Rússnesku farþegaflugvélunum var grandað af téténskum múslímum
Flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í Madison Square Garden í NY í dag
Dætur forsetaframbjóðandanna bandarísku fá kraftmikil viðbrögð á MTV
George W. Bush forseti, mælist með meira fylgi nú í Flórída en John Kerry
Líflegt starf ungra sjálfstæðismanna á Bifröst - ályktun SUS um borgarmál
R-listinn loks reiðubúinn að selja borgarfyrirtæki í samkeppnisrekstri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir siglir gámaskipi í nýjum siglingahermi
Mjög umdeild skipan Ragnhildar Arnljótsdóttur sem ráðuneytisstjóra
Dularfullur samsöngur Bjarkar Guðmundsdóttur og Kelis á laginu Oceania
Darkness valdir besta hljómsveitin á Kerrang tónlistarverðlaunahátíðinni
Scarlett Johansson valin nýtt andlit Calvin Klein snyrtivörufyrirtækisins
Dagurinn í dag
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - var loks lagt niður árið 1796
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í tíu ár
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur þeldökkra manna
Snjallyrði dagsins
If only God would give me some clear sign! Like making a large deposit in my name in a Swiss bank.
Woody Allen leikari og leikstjóri
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2004 | 20:51
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um velheppnaðan hádegisverðarfund frjálshyggjudeildar Heimdallar sem haldinn var í Iðnó á fimmtudag þar sem minnt var hressilega á skoðanir ungra sjálfstæðismanna hvað varðar áfengismálin og t.d. bann við áfengisauglýsingum. Þriðjudaginn 10. ágúst sl. skrifaði ég pistil þar sem ég fjallaði um fund forsætisráðherra Norðurlandanna hér í Eyjafirði helgina áður og vakti máls á undarlegri ályktun sem þeir samþykktu á fundi sínum. Þótti mér nauðsynlegt að vekja máls á undarlegum sjónarmiðum ráðherranna á þessum fundi um áfengismál og sérstaklega að andmæla sameiginlegu áliti þeirra sem fram kom á blaðamannafundi eftir fundinn, þar sem fram kom að þeir væru sammála um að ekki skyldi líta á áfengi sem söluvöru. Urðu pistlaskrif mín í mánuðinum og undarleg afstaða t.d. íslenska ráðherrans á ráðherrafundinum til að vekja áhuga á að fjalla um málið og ákvað frjálshyggjudeildin að sækja nafngiftina frá fyrrnefndum pistli mínum. Undrast ég jafnframt ákvörðun stjórnar Heimdallar að leggja niður frjálshyggju- og jafnréttisdeildir Heimdallar sama dag án samráðs við formenn þeirra. Tel ég það gott mál að ný stjórn hafi kraftmiklar hugmyndir uppi um framtíðarstarf félagsins og hafi áhuga á að vinna af krafti. Það er hinsvegar að mínu mati spor í ranga átt að leggja niður þær deildir sem fyrir eru, sérstaklega þegar um er að ræða ákvörðun sem ekki er einu sinni kynnt fyrirfram og reynt að leita eftir samkomulagi um næstu skref og leysa málin með farsælum hætti. Ár er liðið síðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti yfir formannsframboði í Samfylkingunni árið 2005, framundan eru átök væntanlega um forystu flokksins milli hennar og núverandi formanns og átökin krauma undir. Að lokum fjalla ég um Akureyrarvöku, menningarhátíð Akureyrarbæjar, sem haldin var um helgina um allan bæ með glæsilegum hætti.

Cherie Booth Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, kom í gær hingað til Akureyrar og opnaði formlega sýningu Boyle fjölskyldunnar í Listasafninu, ásamt Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi. Boyle fjölskyldan skipar mikilvægan sess í listasögu Bretlands og raunar í sögu alþjóðlegrar myndlistar. Um þau og sýninguna segir á vef safnsins: "Mark og Joan eiga sér langan feril að baki og hafa t.d. unnið með listamönnum á borð við Jimi Hendrix og Dieter Roth. Með Hendrix bjuggu þau til eitt vinsælasta "skynvíkkunarljósashow" skemmtistaðanna, sem bregður fyrir í bíómyndum hippatöffarans Austin Power. Síðan á endurreisnartímanum hefur engin fjölskylda starfað að listinni sem ein heild. Það brýtur í bága við allar viðteknar venjur að framúrstefnulistamenn starfi sem eitthvert vísitöludæmi. Verk Boyle-fjölskyldunnar voru valin á sýninguna Úr næðingi í frost: Bresk list á 20. öld. Áhugi þeirra á tilviljun, viðleitni þeirra til að forðast stíl og setja verk sín fram á algjörlega hlutlægan hátt er einkennandi fyrir list á seinni hluta tuttugustu aldar. Mikilvægi verka þeirra er ekki öllum ljóst, aðallega vegna þess að Boyle-fjölskyldan hefur alltaf verið trú neðanjarðarmenningunni, sem einkennir viðhorf þeirra. Þau hafa aldrei haft umboðsmann og halda sig við jaðra listaheimsins, enda gerir hópvinnan það að verkum að list þeirra hefur engan persónulegan stíl eða sjálf, sem öll nútímahyggja - hvort heldur er um að ræða andlegt kukl eða harða markaðssetningu auðhringanna - grundvallast á." Meðal gesta við opnun sýningarinnar auk frú Blair og sendiherrans voru t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Tómas Ingi Olrich sendiherra og fyrrum menntamálaráðherra. Hvet ég alla sem eiga leið um bæinn eða eru hér staddir að líta á sýninguna.
Dagurinn í dag
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum alls um 16.000 manns
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur Íslendinga
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970
1982 Óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn
Snjallyrði dagsins
One person with a belief is equal to a force of 99 who have only interests.
John Stuart Mill hagfræðingur (1806-1873)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2004 | 12:26
Engin fyrirsögn

Sl. fimmtudag hélt frjálshyggjudeild Heimdallar vel heppnaðan hádegisverðarfund í Iðnó, sem fjallaði um áfengislöggjöfina, einkasölu ríkisins á áfengi og áfengisauglýsingar. Til fjölda ára hefur það verið yfirlýst stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna að berjast gegn banni á áfengisauglýsingum og tilveru ÁTVR. Frummælendur á fundinum voru Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, Friðrik Eysteinsson fyrrum formaður Samtaka auglýsenda, og Birgir Ármannsson alþingismaður. Mætti fjöldi fjölmiðlamanna á fundinn og nokkuð var um hann fjallað. Þótti mér ánægjulegt að þetta félag gæti starfað og tjáð sig með þessum hætti og haldið uppi virku starfi sem samtvinnaði ólíkar skoðanir. Það vakti vonbrigði mín og eflaust margra fleiri að síðar á fimmtudeginum tók ný stjórn Heimdallar þá ákvörðun að leggja niður fyrrnefnda deild í félaginu og ennfremur jafnréttisdeildina. Ákvörðunin var tekin án þess að nokkuð samráð væri fyrirfram haft við formenn deildanna og fréttu fulltrúar þeirra af áætlun stjórnarinnar þegar tillagan var borin upp á stjórnarfundi að kvöldi fimmtudags. Til þess að geta leyst upp deild innan Heimdallar þarf deildin að brjóta lög Heimdallar eða vinna almennt gegn stefnu félagsins. Ekki verður séð hvernig þessar deildir gera það. Nýrri stjórn Heimdallar má vera frjálst að móta starfið í félaginu að vild, en það er að mínu mati mjög ólýðræðislegt að leggja niður deildir innan félagsins án samráðs eða ræða málin við þá sem starfað hafa í félaginu og unnið þar að mínu mati óeigingjarnt starf til fjölda ára. Mitt hjarta slær og mun ávallt slá þannig að öllum sé frjálst að eiga sinn vettvang innan félaga og starfa þar með þeim hætti sem þeir kjósa sér. Allir sem vilja starfa eiga að hafa tilgang og vettvang til að vinna á og tjá skoðanir sínar. Það er ómögulegt að steypa alla í eitt mót: skoðanalega og hugsjónalega séð og því nauðsynlegt að fólk geti tjáð skoðanir sínar og hugsjónir í félaginu þar sem viðkomandi kjósa sér. Ákvörðun fimmtudagsins þótti mér slæm byrjun á starfi nýrrar stjórnar og ég vona að hún taki upp heilsteyptari vinnubrögð gagnvart þeim sem hafa starfað innan félagsins og hafa sýnt fullan hug til að starfa þar áfram og taka þátt. Það er að mínu mati afar illt afspurnar að dugmikið fólk sem hefur unnið ötullega og með miklum krafti að framgangi sjálfstæðisstefnunnar sé rekið fyrirvaralaust á dyr.

Dagurinn í dag
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem í Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á mótmælafundi í Washington - lesa ræðuna
1974 Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar tók við völdum á Bessastöðum - hún sat í rúm fjögur ár
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin eftir að einokun ríkisins lauk
Snjallyrði dagsins
My fellow citizens of the world: ask not what America will do for you, but what together we can do for the freedom of man.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)
Laugardagsfærslur á blogginu hafa verið í dvala í allt sumar, þær hefjast nú að nýju og munu birtast í vetur eftir því sem þarf og ég tel rétt að tjá mig um efni um helgar utan fastra skrifa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2004 | 16:15
Engin fyrirsögn

Kosningabaráttan vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þriðjudaginn 2. nóvember nk. hefur harðnað mjög seinustu daga og mun baráttan ná hámarki í næstu viku, er flokksþingin verða að baki og lokabaráttan fer formlega af stað. Flokksþing repúblikana verður haldið í næstu viku í Madison Square Garden í New York, sem er bæði eitt aðalvígi demókrata og vettvangur eins mesta hryðjuverks seinni tíma, en hryðjuverkin í borginni þann 11. september 2001 eru Bandaríkjamönnum og jarðarbúum öllum í fersku minni. Flokksþing hefur ekki verið haldið í borginni frá því demókratar funduðu þar í júlí 1992 og útnefndu Bill Clinton sem forsetaefni sitt. Flokksþingið í borginni varð Clinton stökkpallur á pólitíska sviðið, og með því náði hann forskoti á keppinauta sína sem þeim tókst aldrei að brúa. Flokksþingið hefst á mánudag og mun standa í fjóra daga. Þar munu forystumenn flokksins og trúnaðarmenn hans, ráða ráðum sínum, móta endanlega kosningastefnu sína og setja kosningavél sína endanlega á fullt. Að kvöldi fimmtudagsins 2. september lýkur flokksþinginu með því að George W. Bush forseti og frambjóðandi flokksins, þiggur útnefningu flokksþingsins og flytur stefnuræðu sína fyrir næstu fjögur ár. Daginn áður mun Dick Cheney varaforseti, þiggja útnefningu flokksþingsins sem varaforsetaefni flokksins með því að flytja ávarp. Öruggt má telja að flokksþing repúblikana verði markaðssett með þeim hætti að Bush sé sterkur forseti á tímum erfiðleika fyrir þjóðina og traustur leiðtogi til næstu fjögurra ára, til að klára stríðið gegn hryðjuverkum. Umfram allt mun baráttan snúast um traust: hvorum kjósendur treysti betur fyrir forystuhlutverki þjóðarinnar. Hvorum þeirra sé betur treystandi til að vinna farsællega og með traustvekjandi hætti að heill þjóðarinnar. Allar skoðanakannanir vestanhafs sýna að það stefnir í jafnar kosningar. Öruggt má telja að átökin milli Kerry og Bush verði ein af hatrömmustu kosningabaráttum seinni tíma.


Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra. Menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, verður þá haldin í Lystigarðinum. Hún hefst formlega í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Atriði verða frá Leikfélagi Akureyrar, Andy Brooks mun flytja kántrítónlist í anda Johnny Cash og Gustavo Peréz frá Kanaríeyjum verður með listrænan gjörning með þátttöku áhorfenda, ennfremur munu dúettinn Matriksur, Inga Eydal og Arna Vals syngja nokkur lög og talandi Lóa Hildigunnar leynist meðal blóma. Í fyrra var sérstaklega notaleg og rómantísk stemmning í Lystigarðinum á Akureyrarvöku í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Meðal þess sem verður þá um að vera er t.d. fjallahjólamót í Kjarnaskógi, sýning í Minjasafninu á munum ljósmyndum úr leiðöngrum að flaki flugvélarinnar Fairey Battle, heimildamyndahátíð í Hafnarstræti 92, 4. bindi Sögu Akureyrar verður kynnt, gilið málað í öllum regnbogans litum, söguganga á vegum Minjasafnsins, opið hús í Amtsbókasafninu og leikhúsinu, Cherie Blair opnar sýningu Boyle fjölskyldunnar í Listasafninu, mynd um sögu Akureyrar sýnd í Borgarbíói, heilgrillað naut á Ráðhústorginu og margt fleira. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera, óður til menningar í bænum.
Dagurinn í dag
1729 Gaus í Leirhnúksgígum, hraun rann í gegnum kirkjuna í Reykjahlíð og síðan út í Mývatn
1813 Napóleon keisari, sigraði Austurríkismenn, Rússa og Prússa í baráttunni við Dresden
1946 Fyrsti bíllinn komst yfir Siglufjarðarskarð, með því var einangrun Siglufjarðar rofin - fram að því hafði ekki verið hægt að fara þangað landleiðina. Strákagöng leysti Skarðsveginn af hólmi 1968
1967 Brian Epstein umboðsmaður Bítlanna, finnst látinn á heimili sínu í London, 32 ára gamall
1979 Mountbatten lávarður, myrtur í fríi á Írlandi, í sprengjutilræði Írska lýðveldishersins
Snjallyrði dagsins
I may disagree with what you have to say, but I shall defend to the death your right to say it.
Voltaire
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2004 | 18:00
Engin fyrirsögn
Þetta er 500. dagsfærslan sem rituð er á þennan bloggvef minn. Ég hef skrifað hér allt frá októbermánuði 2002 og styttist því í tveggja ára afmæli vefsins. Frá haustinu 2003 hafa skrif hér verið efnismeiri og ítarlegri en árið áður. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og greinar sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Þakka ég góðar viðtökur sem bloggið hefur hlotið og góðar kveðjur frá þeim sem lesa reglulega efnið. Áfram verður haldið af fullum krafti.
bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson

Eins og öllum er vel kunnugt er mikil ólga innan Framsóknarflokksins vegna ákvörðunar þingflokksins um ráðherraskipan hans í ríkisstjórn eftir ráðherrahrókeringarnar 15. september nk. og ekki fara þær minnkandi. Í ítarlegum pistli á vef sínum fjallar Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, um málið og fer yfir stjórnmálaferil sinn og fleiri þætti tengda ráðherravalinu. Orðrétt segir hún: "Vissulega er það bakslag í jafnréttisbaráttu flokksins að eftir að hafa verið með 3 konur í ríkisstjórn, þá verði eftir 15. september aðeins ein. Það gefur hins vegar ekki tilefni til þeirrar umfjöllunar, sem sumar konur í flokknum hafa staðið fyrir síðustu daga. Það er sjálfsagt að halda til haga samþykktum flokksins í jafnréttismálum, láta til sín heyra og skamma þingflokkinn og formanninn dálítið hressilega einu sinni en ekki í heila viku eða meira." Þetta eru merkileg orð, bakslag segir hún en það sé tímasóun að ræða það frekar og alls ekki meira en í viku. Merkileg orð og greinilegt að Valgerður og forystukonur framsóknarkvenna eiga ekki samleið í þessu máli. Þessu máli er greinilega ekki lokið, ef marka má fréttir en framsóknarkonur verða með fjölmennan fund í dag. Annað í þessum pistli Valgerðar vakti athygli mína. Hún segir: "Framsóknarflokkurinn hefur verið í fylkingarbrjósti þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og þá einkum og sérílagi á síðustu 9 árum eftir að samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hófst." Ekki get ég tekið undir þessi orð og spyr hvar Valgerður hafi dvalið, ja einkum seinustu mánuði, en mér vitanlega hefur flokkur hennar tafið hvað eftir annað að undanförnu efndir á kosningaloforðum um skattalækkanir. Hvar eru efndirnar á þeim loforðum, Valgerður mín? Eru framsóknarmenn kannski að vakna til lífsins í þeim málum? Spyr sá sem ekki veit, en vill fá svar við því hvort framsókn vilji efna loforðin um skattalækkanir. Eftir hverju á að bíða eiginlega?


Frjálshyggjudeild Heimdallar stendur á morgun fyrir opnum hádegisverðarfundi um áfengislöggjöfina, einkasölu ríkisins á áfengi og áfengisauglýsingar, í Iðnó undir yfirskriftinni: Er áfengi söluvara? Í tilkynningu um fundinn segir svo: "Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir breytingum á áfengislöggjöfinni, einkum fyrir því að sala áfengis verði færð úr höndum ríkisvaldsins til einkaaðila og fyrir því að bann við áfengisauglýsingum verði afnumið, auk þess sem eðlilegt hefur þótt að lækka áfengiskaupaaldur til samræmis við sjálfræðisaldur. Frumvörp sem gengu að hluta til í þessa átt voru lögð fram á síðasta þingi en náðu ekki fram að ganga. Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna, sem Halldór Ásgrímsson sat fyrir hönd Íslendinga, nú fyrr í mánuðinum kom hins vegar fram að ráðherrarnir væru sammála um að alls ekki mætti líta á áfengi sem hverja aðra söluvöru. Af þessu tilefni hefur Frjálshyggjudeild Heimdallar boðað til umræðufundar um málefnið undir yfirskriftinni "Er áfengi söluvara?" Frummælendur á fundinum verða Hafsteinn Þór Hauksson formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna sem flytur inngangserindi, Friðrik Eysteinsson fyrrum formaður Samtaka auglýsenda, og mun hann fjalla um bann við áfengisauglýsingum, og Birgir Ármannsson alþingismaður, sem fjallar um afnám einkasölu ríkisins á áfengi og frumvarp sem hann ásamt fleirum lagði fram á þingi á seinasta vetri. Fundarstjóri verður Ragnar Jónasson formaður Frjálshyggjudeildar Heimdallar og stjórnarmaður í SUS.
Árni Ragnar Árnason alþingismaður (1941-2004)
Áhugavert á Netinu
Ríkisstyrkt átak virkar nokkuð úrelt system - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Af jafnrétti og framsóknarfólki - pistill Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur
Tvær rússneskar flugvélar farast - óttast að um hryðjuverk sé að ræða
60 ár liðin frá því bandamenn frelsuðu París úr höndum þýskra hersveita
Pistill Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, til framsóknarkvenna
Umfjöllun um Íslandsheimsókn Bill Clinton fyrrv. forseta Bandaríkjanna
Bill Clinton segir að Íslandssagan hafi verið mikilvæg í þróun þingræðis
Clinton-hjónin heimsóttu Davíð og Ástríði á heimili þeirra við Fáfnisnes
Bill Clinton fyrrum forseti, fór víða á viðburðaríkum degi á Íslandi í gær
Fjölmiðlar fylgdu Clinton hvert skref - viðtal við Ingólf Bjarna Sigfússon
Bill Clinton hittir einhverfan strák á Bessastöðum, sannkallaðan aðdáanda
Stjórnarflokkarnir deila um skattalækkanir sem efna skal sem fyrst
Styttist í að bormenn klári að bora á milli í nýjum Austfjarðargöngum
Hillary Clinton segir að frumkvæði okkar í vetnismálum sé aðdáunarvert
John McCain vill að Bandaríkin haldi uppi vörnum áfram hér á Íslandi
Rætt við Jafet Ólafsson um þáttaskilin sem tengjast íbúðalánunum
Dick Cheney varaforseti, andsnúinn banni á giftingar samkynhneigða
Mark Thatcher handtekinn vegna orðróms um valdarán í litlu Afríkuríki
Norðurljós hefur stafrænar útsendingar - stórbætir útsendingarskilyrðin
Þórey Edda alsæl með fimmta sætið - Isinbajeva sigrar og setur heimsmet
Queen verður fyrsta rokkhljómsveitin sem fær plötu sína útgefna í Íran
Dagurinn í dag
1902 Sighvatur Árnason lét af þingmennsku, 78 ára gamall - varð elstur þeirra sem sat á þingi
1946 Gunnar Huseby varð Evrópumeistari í kúluvarpi - hann varð fyrsti Evrópumeistari Íslendinga
1944 París er frelsuð er bandamenn ná fullum yfirráðum í borginni, eftir 4 ára hernám Þjóðverja
1970 Stífla í Miðkvísl í Laxá var sprengd af bændum til að mótmæla stækkun Laxárvirkjunar
1997 Egon Krenz síðasti leiðtogi kommúnista í Þýskalandi, sakfelldur fyrir glæpi stjórnar sinnar
Snjallyrði dagsins
Management is nothing more than motivating other people.
Lee Iacocca kaupsýslumaður
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2004 | 18:17
Engin fyrirsögn

Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom til landsins kl. 9 í morgun. Er þetta fyrsta heimsókn núverandi eða fyrrum þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna í 18 ár, en Ronald Reagan þáverandi forseti Bandaríkjanna, kom á leiðtogafund stórveldanna í Reykjavík, í október 1986. Clinton hélt frá Reykjavíkurflugvelli ásamt fylgdarliði sínu í bandaríska sendiráðið við Laufásveg. Eftir að hafa staldrað þar við í tæpan hálftíma ræddi hann við fréttamenn fyrir utan sendiráðið. Kom þar fram að hann stoppaði hér í dag á leið sinni til Írlands, þar sem hann ætlaði að árita nýútkomna ævisögu sína. Lýsti hann ánægju með að fá tækifæri til að sækja landið heim, hann hefði aðeins komið hingað áður í millilendingum og aldrei getað skoðað sig um og hefði lýst sérstökum áhuga á að sjá Þingvelli. Nefndi forsetinn fyrrverandi að í fyrsta skiptið hefði hann komið til Íslands fyrir 35 árum er hann var námsmaður og fór með Loftleiðum milli Bandaríkjanna og Evrópu. Var Clinton spurður t.d. um forsetaslaginn í Bandaríkjunum og ávirðingarnar sem ganga á milli forsetaefnanna um herþjónustu Kerrys í Víetnam. Sagðist hann vona að kosningabaráttan yrði málefnaleg fram að kjördegi, á hann von á að Bush nái nokkru forskoti samhliða flokksþinginu í næstu viku en úrslitin muni ráðast af frammistöðu frambjóðendanna í kappræðum þeirra. Forsetinn, sem þekktur er fyrir alþýðleika, lét ráðleggingar lífvarða sinna lönd og leið er hann heilsaði konu við sendiráðið sem hafði heyrt af komu hans í sendiráðið og fór í fréttamannahópinn og heilsaði henni hlýlega, smellti á hana kossi og hlýjum kveðjum.


Áhugavert á Netinu
Kveðja frá Slóveníu - pistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Íbúðalánasjóður er tákn liðinna tíma - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Frjálshyggjudeild Heimdallar heldur fund um áfengislöggjöfina í Iðnó
Umfjöllun um Íslandsför Bill Clinton fyrrv. forseta Bandaríkjanna
Clinton-hjónin heimsóttu Davíð og Ástríði á heimili þeirra í Reykjavík
Davíð Oddsson forsætisráðherra, segir heimsókn Clintons ánægjulega
Bill Clinton segist hafa átt góðan dag á Íslandi - Clinton á Bessastöðum
Orku- og umhverfismál ofarlega á baugi í huga Clinton-hjónanna
Clinton segir að framlag Íslendinga í Afganistan sé mjög mikilvægt
John McCain vill hafa her áfram á Íslandi - McCain synti í Bláa lóninu
Ánægjuleg þáttaskil á fasteignamarkaði - bankar bjóða nú íbúðalán
Umdeildur pistill Guðjóns Ólafs Jónssonar um ráðherramál Framsóknar
Skrif varaþingmanns Framsóknar leiða til mikilla deilna og átaka
Halldór Ásgrímsson segir að ákvörðun um ráðherraskipan verði ekki breytt
Dr. Condoleezza Rice valin valdamesta konan af Forbes-tímaritinu
Vinna við drög að ályktunum málefnaþings SUS, á Selfossi, langt komnar
Karl Bretaprins sakaður um að beita starfsfólk sitt kynjamisrétti
Ný þýsk mynd sem fjallar um síðustu daga Hitlers vekur umtal og deilur
Dagurinn í dag
1903 Ríkið keypti jarðirnar Hallormsstað í S-Múlasýslu og Vaglir í S-Þingeyjarsýslu, til skógarfriðunar og skógargræðslu. Þar eru nú stærstu skógar landsins: Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur
1906 Símskeytasamband við útlönd hefst með formlegum hætti - fyrsti sæsíminn var 534 sjómílur
1968 Norræna húsið í Reykjavík var vígt formlega - arkitekt hússins var finninn Alvar Aalto
1993 Uppþot og uppreisn varð meðal fanga í fangelsinu að Litla Hrauni - stóð í tæpan sólarhring
2001 Helgi Símonarson frá Þverá í Svarfaðardal, lést, 105 ára að aldri - varð elstur allra manna
Snjallyrði dagsins
It only takes 20 years for a liberal to become a conservative without changing a single idea.
Robert Wilson heimspekingur
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2004 | 19:59
Engin fyrirsögn

Ólgan og óeiningin innan Framsóknarflokksins vegna þeirrar ákvörðunar þingflokksins að Siv Friðleifsdóttir missi ráðherrastól sinn við hrókeringarnar í september, fer stigvaxandi og virðist vera almenn meðal grasrótarinnar í flokknum, hjá kvennaarminum, ungliðahreyfingunni og í stærsta kjördæminu. Sú óánægja nær líka inn í forystu flokksins. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali í dag að þessi ákvörðun hefði valdið mikilli ólgu hjá undirstöðum flokksins og væri ekki sú sem hann persónulega hefði tekið í stöðunni. Það væru mistök að láta Siv víkja við þessar aðstæður. Guðni segir hin hörðu viðbrögð við það að Siv missi ráðherrastólinn hafi ekki komið á óvart vegna jafnréttisáætlunar flokksins. Eins og fram hefur komið bendir flest til þess að þessi ákvörðun eigi rætur að rekja til valdabaráttu innan flokksins, ráðuneyti Sivjar hafi verið samið burt til að koma henni burt til að efla framavonir Árna Magnússonar. Staða Guðna innan flokksins hefur veikst verulega eftir seinustu kosningar, eftir að formaðurinn náði að semja um forsæti í ríkisstjórn og þrátt fyrir vinsældir meðal almennra flokksmanna og landsmanna skv. skoðanakönnunum hefur Guðni veikst í forystuheildinni. Orðrómur er nú kominn upp, þess efnis að Árni stefni fljótlega á varaformannsstól Guðna og leiðtogasæti hans í Suðurkjördæmi og Guðni hætti í stjórnmálum. Í viðtölum í dag hefur Guðni vísað á bug að hann sé á útleið fyrir Árna og efast um að hann vilji leggja í "heilagt stríð við sig" eins og hann orðaði það. Það er greinilegt valdatafl innan flokksins og spurning hvort að ákvörðun um ráðherrakapal flokksins sé aðeins fyrsti anginn af því máli á næstunni.

Stefán Einar hættir að blogga
Félagi minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, hefur seinustu tvö ár haldið úti einkar skemmtilegri og góðri bloggsíðu, þar sem hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Í seinustu viku tók hann þá ákvörðun að hætta þessum netskrifum og snúa sér að öðru. Er það mín skoðun og eflaust flestra þeirra sem litu þangað reglulega, að mikil eftirsjá sé af vefnum og þessum skrifum Stefáns Einars. Ávallt var gaman að líta á skrif hans og beinskeyttan stíl og tjáningu. Vefsins verður sárt saknað. Ég sendi nafna mínum góða kveðju og vona að hann hefji netskrif að nýju fljótlega. Það er alltaf þörf á kraftmiklum hægripennum á netinu.
Áhugavert á Netinu
Ævintýraleg vitleysa með Orkuveituna - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Það að hafa skilning á mikilvægi íþrótta - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Aukið jafnrétti á vinnustöðum? - pistill Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur
Guðni Ágústsson vildi ekki að Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrastólinn
Orkuveita Reykjavíkur losar sig við Línu.net - þó fyrr hefði verið!
Ráðherraval Framsóknar áratugaskref til fortíðar - framsóknarkonur
Konur í Framsóknarflokknum munu grípa til sinna aðgerða í vikunni
Guðni Ágústsson segir útilokað annað en að Siv verði aftur ráðherra
Listaverkinu Ópið stolið í Osló - norska galleríið ver vinnubrögð sín
Bush forseti fordæmir auglýsingar þar sem ráðist er að herferli Kerrys
Bob Dole gagnrýnir harðlega John Kerry og vill að hann birti herskjöl sín
Viðræður um sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík
McGreevey ver ákvörðun sína um að vera ríkisstjóri fram í nóvembermánuð
Viðgerðum á Valhöll lýkur brátt - réttur litur að færast að nýju á húsið
Aldrei hafa fleiri verið samankomnir á menningarnótt í Reykjavíkurborg
Leonid Stadnyk er hæsti maður veraldar - er 2 metrar og 53 cm á hæð
Védís Hervör Árnadóttir sigraði í Ljósalagskeppninni í Reykjanesbæ
Ný mynd, sem á að vera forveri hinnar frægu Exorcist sögu, slær í gegn
Dagurinn í dag
1954 Steinkista Páls biskups Jónssonar, sem lést árið 1211, fannst við uppgröft í Skálholti
1967 Íslendingar töpuðu fyrir Dönum í landsleik í fótbolta í Kaupmannahöfn, úrslit voru 14:2
1990 Saddam Hussein birtist í íröksku sjónvarpi með gíslum - fordæmt um allan heim
1990 Tilkynnt um sameiningu V-Þýskalands og A-Þýskalands - tekur gildi 3. október 1990
2000 Airbus A320 flugvél frá Gulf Air Airbus ferst við Bahrain í Persaflóa - 143 láta lífið í slysinu
Snjallyrði dagsins
There are those who look at things the way they are, and ask why... I dream of things that never were, and ask why not?
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2004 | 18:01
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um valdabaráttuna innan Framsóknarflokksins sem komin er upp á yfirborðið eftir að þingflokkurinn samþykkti þá tillögu formanns flokksins að Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrasæti sitt við hrókeringarnar 15. september nk. Eins og ég bendi á er Framsóknarflokkurinn í krísu vegna innbyrðis valdaátaka, nú þegar hann tekur við forsæti ríkisstjórnarinnar. 24 dagar eru nú þar til uppstokkun verður í ríkisstjórninni og Halldór tekur við forystu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að fróðlegt verði að fylgjast með stjórnarsamstarfinu í vetur, við breyttar aðstæður. Ég hef persónulega gagnrýnt Framsóknarflokkinn óhikað í mörgum málum. Ég var mjög ósáttur við að flokkurinn skyldi tefja fyrirfram ákveðnar skattalækkanir í vor og hafi barist gegn öðrum framfaramálum. Nú reynir hinsvegar á hvernig Framsóknarflokkurinn höndlar það að leiða stjórnarsamstarfið og hvort formaður Framsóknarflokksins sé nógu sterkur til að standa undir byrðinni, samhliða óeiningu og valdabaráttu í eigin röðum. Rúmir 70 dagar eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum, baráttan verður sífellt harðari og óvægnari og tekist er harkalegar á en dæmi eru fyrir til fjölda ára í bandarískum stjórnmálum. Seinustu daga hafa frambjóðendurnir tekist harkalega á um sjónvarpsauglýsingar sem ganga á sjónvarpsstöðvum vestanhafs þar sem gert er lítið úr hermennskuafrekum John Kerry í Víetnamstríðinu. Segja má með sanni að baráttan nú sé harðari og óvægnari en var árið 2000 þegar Bush mætti Gore. Sú barátta lauk með dramatískum hætti. Verður athyglisvert að fylgjast með hvert þessi kosningabarátta stefnir, þá rúmu 70 daga sem hún mun standa. Að lokum fjalla ég um umdeilda mynd Michaels Moore, og minni á að hér er ekki um heimildarmynd að ræða, heldur mun frekar einhliða áróðursmynd í takt við pólitíska strauma tengda forsetakosningunum í nóvember.

Um helgina fór ég í bíó og horfði á hina umdeildu kvikmynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Þessi mynd hefur vakið mikið umtal um allan heim og var t.d. valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á þessu ári. Moore varð heimsþekktur fyrir mynd sína, Bowling for Columbine, árið 2002, og hlaut hún óskarinn sem besta heimildarmyndin á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars 2003. Þar vakti Moore á sér athygli með því að ráðast að George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í þakkarræðu sinni og vakti sterk viðbrögð og var púaður niður. Sú ræða var fyrirboði þess sem væntanlegt var frá honum. Í nýju myndinni fjallar hann á mjög einhliða máta um Bush-stjórnina og verk hennar og tekur staðreyndir úr samhengi og skeytir eigin mati og afstöðu til málanna inn á milli. Sumir aðilar hafa keppst að undanförnu við að kalla þetta heimildarmynd og telja hana unna með markvissum og merkilegum hætti. Ég get ómögulega tekið undir það. Ég hef fylgst með kvikmyndum og kvikmyndagerð með miklum hætti í tæpa tvo áratugi og get ekki með nokkru móti kallað þessa mynd annað en áróðursmynd gerða útfrá einni skoðun, einu hugarfari og samansafni neikvæðra hliða úr einni átt. Það er það jákvæða við heiminn í dag að öllum þeim sem lifa í lýðræðisríkjum er heimilt að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem viðkomandi telja henta sér best. En slíkt tekur maður bara sem pólitíska sýn á pólitískan forystumann. En seint kallast þetta heimildarmynd, heldur flokkast það best undir hatursfullt sjónarhorn pólitísks andstæðings á þjóðarleiðtoga. Útfrá því sjónarhorni er langbest að dæma myndina. En að mínu mati er mikilvægt að kynna sér ólíkar skoðanir og mat fólks á stjórnmálamönnum. Svo er hægt að meta hvernig til tókst og hvernig sú tjáning á skoðunum gekk upp og hvort hún sé vel unnin eður ei.
Dagurinn í dag
1809 Jörundur hundadagakonungur, Jörgen Jörgensen, hrakinn frá völdum á Íslandi
1972 Rhodesíu vísað úr Ólympíuleikunum, fimm dögum fyrir upphaf leikanna í Þýskalandi
1975 Lynette Fromme reynir að ráða Gerald Ford forseta Bandaríkjanna, af dögum
1978 Jomo Kenyatta forseti Kenýa og sjálfstæðishetja landsins, deyr, 89 ára að aldri
2004 Málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch var stolið af Munch safninu í Osló í Noregi
Snjallyrði dagsins
Don't gamble; take all your savings and buy some good stock and hold it till it goes up, then sell it. If it don't go up, don't buy it.
Will Rogers leikari (1879-1935) - snjallyrði Will Rogers
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2004 | 17:23
Engin fyrirsögn

Ákvörðun þingflokks Framsóknarflokksins í gær, þess efnis að Siv Friðleifsdóttir víki úr ríkisstjórn er flokkurinn tekur við forsæti stjórnarinnar þann 15. september, hefur fallið í grýttan jarðveg víða í Framsóknarflokknum, einkum í kvennahreyfingunni og í Suðvesturkjördæmi, eins og við var að búast. Ljóst var af fréttum Stöðvar 2 í gær að hópur þingmanna hafði bundist samtökum um það að þessi yrði niðurstaða mála, enda sáust 8 af þingmönnum flokksins sitja fyrir utan Thorvaldsen bar í miðborginni og fá sér hressingu saman eftir fundinn og voru mjög glöð með lífið og tilveruna. Voru þar allir nema formaðurinn, Siv, Kristinn H. og Jónína. Enginn vafi er á því að allir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi hafa slegið skjaldborg um stöðu Jóns Kristjánssonar og saman hafa barist í því þingmennirnir í Suðurkjördæmi og Reykjavík norður og ennfremur Magnús Stefánsson. Öruggur meirihluti er þarmeð kominn að baki ákvörðuninni. Eins og ég benti á í gær er líklegast að uppstokkun síðar á kjörtímabilinu leiði af sér að Jón hætti í stjórnmálum og Siv komist þá aftur inn, ári fyrir næstu alþingiskosningar. Það er enginn vafi á aðrir ráðherrar flokksins séu öruggir með sæti sín í stjórninni: Árni er krónprins flokksins virðist vera, Guðni er varaformaðurinn og leiðtogi stórs landsbyggðarkjördæmis og Valgerður vann kosningasigur í Norðausturkjördæmi og hefur gríðarlega sterka stöðu og er mjög nátengd formanninum. Eftir stendur Jón, valið stóð greinilega nú á milli hans og Sivjar og brotthvarf hans síðar á tímabilinu því forsenda fyrir uppstokkun sem formaðurinn gefur nú í skyn. 26 dagar eru nú þar til uppstokkun verður í ríkisstjórninni og tel ég að fróðlegt verði að fylgjast með stjórnarsamstarfinu í vetur, við breyttar aðstæður.

Skemmtilegar skopmyndir tengdar kosningaslagnum í Bandaríkjunum

Eins og fram hefur komið oft á þessum vef verður málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna haldið á Selfossi, helgina 3. - 5. september. Dagskrá þingsins var kynnt formlega í vikunni. Þingið mun hefjast með setningu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, seinnipart föstudagsins 3. september. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, setur þá þingið og mun Grétar Magnússon formaður Hersis, flytja stutt ávarp. Að því loknu mun Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. flytja framsögu um íslenskt atvinnulíf og svara að því loknu fyrirspurnum frá gestum úr sal. Að því loknu mun Hersir, félag ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, bjóða til móttöku í félagsheimili sjálfstæðismanna á Selfossi. Að morgni laugardagsins 4. september hefst vinna í málefnanefndum og seinnipartinn mun Hægri sveiflan, golffélag ungra hægrimanna, standa fyrir golfmóti. Röraverksmiðjan Set verður sótt heim síðdegis og þar verður boðið upp á léttar veitingar. Um kvöldið verður glæsilegur hátíðarkvöldverður og dansleikur í kjölfarið. Heiðursgestur í kvöldverðinum verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og eiginmaður hennar, Kristján Arason. Á sunnudeginum fara fram umræður og afgreiðsla á ályktunum þingsins. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg og efla samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu þessa helgi, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund á Selfossi. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!
Áhugavert á Netinu
Umfjöllun um fæðingarorlofsmálin - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Ráðherrahrókeringarnar í Framsókn - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Siv Friðleifsdóttir missir ráðherrastól og verður óbreyttur þingmaður
Viðtal við Halldór Ásgrímsson um ráðherramál Framsóknarflokksins
Tímamót hjá Framsókn - dagblaðspistill Birgis Guðmundssonar
Nemendum fjölgar alls um 9% í Háskólanum á Akureyri í haust
Flugvallarstarfsmenn töldu Edward Kennedy vera hryðjuverkamann
Clinton-hjónin hitta íslenska ráðamenn í för sinni hingað til landsins
Pólitísk staða bæði Ariel Sharon og Yasser Arafat veikist sífellt
Bandarískir kjósendur telja að bæði Bush og Kerry séu sterkir leiðtogar
Viðtal við Bobby Fischer á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu í morgun
Jón Steinar Gunnlaugsson sækir um stöðu hæstaréttardómara
Vefritið Tíkin tveggja ára - þingmaðurinn Pétur Blöndal valinn 'tík' ársins
Guðrún Árný Karlsdóttir, frænka mín, syngur eitt hugljúft og gott lag
Fjölbreytt leikár framundan hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur - alls 8 sýningar
Ítalir á Íslandi skammast sín fyrir upprunann eftir landsleikinn í vikunni
Leikaraliðið í stórmyndinni Goodfellas kemur saman á ný og hittist
Dagurinn í dag
1898 Veitinga- og gistihúsið Valhöll á Þingvöllum, vígt - nafnið kemur frá búð Snorra Sturlusonar, sem stóð áður þar sem hótelið var fyrst staðsett, en húsið var svo flutt á núverandi staðsetningu 1930
1933 Farið var í fyrsta skipti á bíl yfir Sprengisand frá Landssveit - tók ferðin alls fimm sólarhringa
1940 Rússneski byltingarmaðurinn Leon Trotsky drepinn í Mexíkó af stalínistanum Ramón Mercader
1982 18 manna hópur kleif Eldey, þ.á.m. fyrsta konan, Halldóra Filippusdóttir, sem það gerði - Eldey var fyrst klifin svo vitað sé þann 30. maí 1894, svo var hún klifin aftur árið 1940 og loks árið 1971
1998 Clinton Bandaríkjaforseti svarar sprengjuárásum al-Qaeda á bandarísk sendiráð í Tansaníu og Kenýa þann 7. ágúst með fyrirskipun um loftárásir á æfingarbúðir al-Qaeda í Afganistan og Súdan
Morgundagurinn
1011 Njálsbrenna - Njáll Þorgeirsson og fjölskylda hans brennd inni á Bergþórshvoli í Landeyjum
1238 Örlygsstaðabardagi var háður í Blönduhlíð í Skagafirði - þar féll alls á sjötta tug manna, bardaginn er almennt talinn einn sá örlagaríkasti hérlendis en þar börðust þrjá voldugustu ættir landsins um áhrif og völd. Kolbeinn ungi Arnórsson vann fullan sigur í orrustunni með atbeina Gissurar Þorvaldssonar jarls. Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans féllu t.d. í bardaganum með liði sínu
1968 Tilraun stjórnvalda í Tékkóslavakíu til að færa stjórnarfar landsins til lýðræðisáttar er kaffærð með valdaráni kommúniskra afla í Sovétríkjunum í landinu - lýðræðisleg stjórn landsins steypt af stóli
1983 Benigno Aquino leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum, myrtur á flugvellinum í Manila við heimkomu til landsins, en hann hafði verið í útlegð í Bandaríkjunum í 3 ár. Morðið á honum efldi stjórnarandstöðuna í baráttunni gegn Marcos einræðisherra landsins og Corazon Aquino, ekkja Benignos, leiddi baráttuna og varð forseti landsins árið 1986 er stjórn Marcos var steypt af stóli
1991 Valdarán harðlínuaflanna í Moskvu mistekst og forystumenn valdaránsins eru handteknir - Gorbatsjov sleppt úr varðhaldi, snýr aftur til Moskvu þar sem blasir við gjörbreytt valdaumhverfi
Snjallyrði dagsins
Ég veit ég öfunda vorið,
sem vekur þig sérhvern dag,
sem syngur þér kvæði og kveður þig
með kossi hvert sólarlag.
Þó get ég ei annað en glaðst við
hvern geisla, er á veg þinn skín,
og óskað, að söngur, ástir og rósir
sé alla tíð saga þín.
Tómas Guðmundsson (Ég leitaði blárra blóma)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2004 | 17:03
Engin fyrirsögn

Ákveðið var á fundi þingflokks Framsóknarflokksins seinnipartinn í dag að Siv Friðleifsdóttir myndi láta af embætti ráðherra samhliða ráðherrahrókeringunum sem verða 15. september nk. Þá mun umhverfisráðuneytið sem Siv hefur sinnt undanfarin 5 ár færast til Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Anna Þórðardóttir verða umhverfisráðherra í stað Sivjar. Niðurstaðan er því þess eðlis að Siv missir ráðherrastól sinn við breytingarnar og verður ekki ráðherra áfram eftir það. Í tillögu sem Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, lagði fyrir þingflokkinn sem gerir ráð fyrir þessari niðurstöðu, er að auki opnað á þann möguleika að breytingar verði gerðar á ráðherraliði flokksins þegar líður á kjörtímabilið. Með því er að öllum líkindum opnað á þann möguleika að Jón Kristjánsson víki úr ríkisstjórninni og taki við öðrum verkefnum og Siv taki þá við ráðuneyti hans eða uppstokkun verði á ráðherraskipaninni í heildina. Óneitanlega er undarlegt að sá þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur flest atkvæði á bakvið sig, er leiðtogi flokksins í stærsta kjördæminu og ein af forystukonum flokksins í rúman áratug missi nú ráðherrastól sinn við þessar ráðherrahrókeringar. Sjálf hefur Siv sagst munu una þessari niðurstöðu formannsins sem var samþykkt á þingflokksfundinum en gagnrýnir hana hinsvegar harðlega og segir hana munu skaða flokkinn. Siv mun áfram sitja á þingi og sinna sínum störfum fyrir kjósendur sína í Suðvesturkjördæmi. Hætt er við að útkoma málsins muni skekja innviði flokksins nokkuð og hefur sést mjög vel undanfarna daga að mikil andstaða var innan vissra anga Framsóknarflokksins við að Siv missti stól sinn og kurr í ýmsum forystumönnum flokksins sem studdu það að Siv yrði áfram ráðherra, og vildu aðra útkomu í málinu. En nú liggur ráðherraskipan ríkisstjórnarinnar eftir ráðherrahrókeringarnar 15. september fyrir og öllum vafa hefur verið eytt. Er það vissulega mikið ánægjuefni.


Gylfi Þ. Gíslason fyrrum ráðherra og prófessor, er látinn, 87 ára að aldri. Gylfi fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1917. Hann nam rekstrarhagfræði við háskólann í Frankfurt am Main og lauk doktorsprófi frá skólanum. Gylfi varð dósent við Háskóla Íslands árið 1941 og prófessor við skólann frá 1946 og gegndi þeirri stöðu með hléum til ársins 1987. Árið 1946 var Gylfi kjörinn alþingismaður Alþýðuflokksins í Reykjavík og sat hann á þingi fyrir flokkinn í kjördæminu til ársins 1978. Gylfi gegndi embætti menntamálaráðherra, lengst allra sem setið hafa á þeim stóli, eða samfellt í 15 ár, 1956-1971. Hann var ennfremur iðnaðarráðherra á valdatíma vinstri stjórnarinnar 1956-1958. Gylfi var kjörinn formaður Alþýðuflokksins árið 1968 og gegndi embættinu til ársins 1974. Hann var forseti Alþingis á hátíðarfundi þingsins á Þingvöllum sumarið 1974, er fagnað var 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Gylfi ritaði mörg athyglisverð rit um hagfræði og stjórnmál, sérstaklega er eftirminnileg bók hans um viðreisnarárin, 1959-1971, sem kom út 1993, en Gylfi sat sem ráðherra viðreisnarstjórnarinnar allan valdaferil hennar. Þá merku bók hef ég oft lesið og er jafnan áhrifamikið að lesa lýsingar Gylfa á verkum stjórnarinnar. Jafnframt var hann höfundur margra þekktra sönglaga, t.d. Ég leitaði blárra blóma, sem Tómas Guðmundsson gerði ódauðlegt ljóð við. Árið 1939 kvæntist Gylfi, eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Vilmundardóttur. Saman eignuðust þau þrjá syni: Þorstein, Þorvald og Vilmund, sem varð þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins líkt og faðir hans. Vilmundur lést sumarið 1983. Með Gylfa er fallinn í valinn einn áhrifamesti og virtasti leiðtogi íslenskra jafnaðarmanna á 20. öld.
Áhugavert á Netinu
Gylfi Þ. Gíslason fyrrum ráðherra og prófessor, látinn, 87 ára að aldri
Siv Friðleifsdóttir mun víkja af ráðherrastóli 15. september nk.
Útleggingar á Hólaræðu - pistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Lögbann sett á umfjöllun siðanefndar HÍ um mál Hannesar Hólmsteins
Íslenska landsliðið í fótbolta leggur ítalska liðið í sögulegum landsleik
Clinton-hjónin væntanleg til landsins í næstu viku með þingnefnd
Kárahnjúkavirkjun miklu verðmætari en landið sem fer á kaf í lónið
Likud-flokkurinn hafnar samstarfi við Verkamannaflokkinn í Ísrael
Bush og Kerry taka því rólega heima - en orrahríðin heldur áfram af krafti
Siv sagði á fundi í janúar að ef hún missti stólinn yrði hún flokknum erfið
Höfuðfat Berlusconi vekur athygli - orðrómur á Ítalíu um hárígræðslu
Viðtal við Eið Smára Guðjohnsen fyrirliða landsliðsins, um landsleikinn
Bandaríska kvikmyndatónskáldið Elmer Bernstein látinn, 82 ára að aldri
Sverrir Bergmann syngur lagið, Að eilífu, úr söngleiknum sívinsæla, Hárinu
Lou Reed kominn til Íslands - tónleikar með söngvaranum á morgun
Uppselt á tónleika söngvarans Van Morrison, sem verða 2. október nk.
Rannsókn sannar að mótorhjólaslys spretthlauparanna hafi verið sviðsett
Dagurinn í dag
1871 Alþingismenn stofnuðu, Hið íslenska þjóðvinafélag, í þeim tilgangi að vekja og lífga meðvitund Íslendinga um að þeir væru sjálfstætt þjóðfélag. Félagið hefur frá 1875 gefið út árlegt almanak
1964 Bítlamyndin A Hard Day's Night frumsýnd í Tónabíói í Reykjavík - myndin sló sýningarmet um allan heim og markaði upphaf hinna gríðarlegu vinsælda bresku popphljómsveitarinnar The Beatles
1991 Mikhail Gorbatsjov forseta Sovétríkjanna, steypt af stóli og hnepptur í stofufangelsi í sumarleyfi sínu á Krímskaga, með valdaráni harðlínuaflanna í Moskvu - valdaránið fór út um þúfur tveim dögum síðar og Gorbatsjov var sleppt úr varðhaldinu og sneri aftur til Moskvu. Við heimkomuna blasti gjörbreytt pólitískt landslag við og Jeltsín forseti Rússlands, hafði fangað athygli heimsins og landsmanna með framgöngu sinni. Veldi Gorbatsjovs og Kommúnistaflokksins hrundi á nokkrum vikum og í lok ársins 1991 voru Sovétríkin leyst upp og Gorbatsjov missti öll sín pólitísku völd
1993 Shimon Peres utanríkisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til landsins. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síðar borgarstjóri, að sitja kvöldverðarboð forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi
1993 Íslenskir togarar hófu veiðar utan lögsögunnar, í Smugunni - upphaf mikilla milliríkjadeilna
Snjallyrði dagsins
There's nothing you can do that can't be done.
Nothing you can sing that can't be sung.
Nothing you can say but you can learn how to play the game.
It's easy.
Nothing you can make that can't be made.
No one you can save that can't be saved.
Nothing you can do but you can learn how to be you in time.
It's easy.
Nothing you can know that isn't known.
Nothing you can see that isn't shown.
Nowhere you can be that isn't where you're meant to be.
It's easy.
John Lennon - Sir Paul McCartney (All You Need is Love)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)