Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sótt að landsbyggðinni

Ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðar er í takt við skoðanir mjög margra á landsbyggðinni með stöðuna sem blasir við nú. Sótt er að landsbyggðinni þegar þrengir að, svæði sem aldrei sáu neitt góðæri sitja uppi með að taka á sig skellinn stóra þegar á reynir. Þrengt er að hinum dreifðu byggðum landsins alveg miskunnarlaust.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa að mörgu leyti sérstaklega slæmar afleiðingar fyrir fólk á landsbyggðinni. Greinilega á að láta niðurskurðarhnífinn ganga þar alveg miskunnarlaust. Ekki er þessi ríkisstjórn heldur að tala upp nýjar framkvæmdir sem skipta lykilmáli til að rífa okkur upp úr lægðinni.

Þar er ekki horft til framtíðar... heldur mun frekar fortíðar... reyna að rífa niður frekar en byggja upp. Það er sorgleg framtíðarsýn.

mbl.is Telja vegið að landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að halda bréfum forsetans leyndum í 30 ár?

Í dag heyrði ég að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vilji halda leynd á bréfum sem hann skrifaði erlendum þjóðhöfðingjum til að tala máli útrásarvíkinganna í heil 30 ár. Er þetta rétt? Heldur maðurinn virkilega að það verði hægt að gleyma því að forseti Íslands hafi verið í bréfaskriftum til að skjalla útrásarvíkingana og reyna að fá aðra til að taka þátt í ómerkilegri maskínu þeirra?

Af hverju þarf að fela þessi bréfaskipti í þrjá áratugi? Hvað er þarna sem þarf að fela? Á borðið með þetta allt saman! Þetta á að birta, sem allra fyrst.


mbl.is 49 mál í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð vísbending - áhættan enn til staðar

Samkomulag um uppgjör á eignum og skuldum Landsbankans er góðs viti hvað varðar Icesave-málið og gefur góða vísbendingu um framtíðina, þó vissulega sé ljóst að áhættan sé enn til staðar í þessu stóra máli. Í þessu máli eru enn miklar efasemdir um hvað verður og áhættan af matinu enn nokkur sé litið til framtíðar.

Því ber að fagna að meiri vissa sé um stöðuna, því verður ekki neitað. Icesave-málið hefur verið sem mara yfir íslensku samfélagi. Vonandi fara örlög þess máls að ráðast. Þau sliga stjórnarsamstarfið og hafa haft mikil áhrif á íslensku þjóðina.

En framtíðin er óljóst. Þetta mat gefur væntingar en jafnframt má öllum vera ljóst að óvissan um framtíðina er til staðar. Áhættan er öllum ljós.


mbl.is 90% upp í forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin mikla

Hvað svo sem segja má um Sigurjón Árnason og myrkraverk þeirra í Landsbankanum með Icesave er alveg ljóst að orð hans um ríkisábyrgðina og afleitan samning við Breta og Hollendinga eru allrar athygli verðar. Augljóst var að íslensk stjórnvöld sömdu herfilega af sér og gerðu mikil mistök, fyrst og fremst með því að setja viðvaninga í forystu samninganefndar sem hélt utan um eitt mikilvægasta mál lýðveldissögunnar.

Auðvitað er það líka rétt að ríkisábyrgðin varð ekki endanleg fyrr en þingið skrifaði upp á hana. Svo má auðvitað deila um það hvort við áttum að taka á okkur þessar skuldbindingar eða viðurkenna að skuldir óreiðumanna hafi verið þjóðarskuldir. Slíkt voru mikil mistök, ég er viss um að dómur sögunnar verður þungur yfir þeim þingmönnum sem samþykktu slíkt.

Hitt er svo annað mál að Sigurjón ber mikla ábyrgð - ég er viss um að hann mun þurfa að axla hana fljótlega.

mbl.is Sigurjón: Ekki ríkisábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna kallaði eftir staðfestingu á fyrra svari

Ég tek undir með Höskuldi að bréfaskrif Jóhönnu kölluðu á staðfestingu Stoltenbergs á fyrri samskiptum en ekki nýrri áherslu á lánveitingu. Vekur eiginlega enn meiri spurningar um fyrri samskipti milli kratanna. Framsókn hefur verið djörf í orðavali og farið fram af nokkrum krafti. Ég ætla ekki að nefna ferð þeirra til Noregs sneypuför.

Eðlilegt var að fara og kanna þennan valkost alla leið, enda borist meldingar um að það væri glufa í þessu ferli. En enn augljósara er hver afstaða norrænu vinaþjóðanna er til Íslands... þar er í besta falli vilji til að Ísland beygi sig undir vald stóru ríkjanna og taki á sig þungar byrðar en hreint út sagt er þetta meðvirkni með handrukkaranum.

mbl.is Kallaði á neikvæð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna birtir loks tölvupóstana

Gott er að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi loks birt bréfaskipti sín og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Þau varpa ljósi á samskiptin og hver staða málsins er milli þjóðanna. Reyndar finnst mér orðalagið hjá Jóhönnu þess eðlis að eðlilegt er að velta fyrir sér hvaða svari hún óskaði eftir. Tónninn kallar frekar á staðfestingu um að veita ekki lánið en ella.

En það er reyndar fyrir löngu ljóst að Samfylkingin hefur tekið þá afstöðu að semja við Breta og Hollendinga, breyta fyrirvörunum sem voru lögfestir og sætta okkur við það sem rétt er að Íslendingum. Tónninn er markaður af undirgefni.

mbl.is Birtir bréf Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Jóhanna ekki að birta tölvupóstinn?

Ef Jóhönnu er svona illa við orðróm framsóknarmanna og talið um skilaboð hennar til Stoltenbergs ætti hún að birta tölvupóstinn strax... í raun um leið og hún gaf út þessa yfirlýsingu sem svar við ummælum Höskuldar.

Ekki er eftir neinu að bíða... nú þegar líður á daginn er eðlilegt að spurt sé hvort þetta verði ekki birt í dag. Hvers vegna þarf að fabúlera um tölvupóst sem auðvelt er að birta svo allir viti hvað kom þar fram?

mbl.is Mun ekki biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagðist Jóhanna gegn norskri lánveitingu?

Sé það rétt sem Höskuldur Þórhallsson bendir á varðandi samskipti Jóhönnu við Stoltenberg er það alvarlegt mál. Í þessum efnum duga engar kjaftasögur og hálfkveðnar vísur. Jóhanna birtir vonandi öll gögn svo allt sé á borðinu, eins og ég sagði reyndar strax eftir miðnættið áður en Höskuldur kom fram með þessar ásakanir í garð íslenska forsætisráðherrans.

Jóhanna hlýtur að leggja spilin á borðið ef allt er í lagi.

mbl.is Jóhanna beitti sér gegn láninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Jóhanna ekki birta tölvupóstinn til Noregs?

Þá er norska nei-ið staðreynd. Þetta var svosem orðið augljóst, enda hafði Kristin Halvorsen ekkert gert fyrir Steingrím J. né höfðu norskir kratar viljað leggja okkur lið. Mér finnst eðlilegt að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, birti samt tölvupóstinn sem hún sendi til flokksbróður síns í Noregi, Jens Stoltenberg.

Hvernig er svona orðað.... hvernig bar Jóhanna erindið upp og hvernig var svar forsætisráðherrans. Ágætt fyrir okkur að sjá orðalagið... sérstaklega hvernig erindið var borið upp... enda ekkert smámál.

Hvernig er það annars... er þetta ekki í fyrsta skipti sem sagt er frá því í fjölmiðlum að íslenski forsætisráðherrann hafi haft bein samskipti við aðra en ráðherra sína og starfsmenn ráðuneytisins?


mbl.is Hærra lán ekki í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einleikur Jóhönnu - pólitískar hótanir

Einleikur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í dag túlkast ekki öðruvísi en sem úrslitakostir til VG: annað hvort sameinist þeir um Icesave eða samstarfinu sé lokið. Þau vinnubrögð að leka vinnugögnum, sem voru trúnaðarmál, til fjölmiðla án þess að tala við fjármálaráðherrann (leiðtoga hins stjórnarflokksins), viðskiptaráðherrann og seðlabankastjórann er til vitnis um pólitískar hótanir og undirstaða stjórnarsamstarfsins sé orðin veik.

Jóhanna er auðvitað sérfræðingur í pólitískum hótunum, enda algjörlega ófær um að sinna verkstjórahlutverki í ríkisstjórninni, miðla málum og leiða viðkvæm mál til lykta með diplómatískum hætti. Þetta eru skilaboð Samfylkingarinnar um að við eigum að sætta okkur við Icesave með breytingum, í raun verið að búa okkur undir það að við sættum okkur við það sem okkur er rétt. Spuninn er: Sorrí, en við verðum að gefast upp.

Eftir rúma átta mánuði við völd er vinstristjórnin í raun enn á upphafsreit. Jóhanna virðist illa áttuð og þreytt, er bæði orðin óvinsæl og rúin trausti meðal þjóðarinnar. Er komin á pólitíska endastöð hvernig sem fer. Þessir einleikir hennar er til vitnis um að traustið er að þverra og þá standa aðeins hótanirnar eftir. Svona eru vinnubrögðin... kemur kannski ekki á óvart, enda hefur á þeim bænum verið til siðs að vinna svona.

Stóra spurningin er sú hvort einleikur Jóhönnu breyti stöðu mála.... í og með liggur í loftinu að verið sé að undirbúa okkur fyrir stór tíðindi. Örlagadagar þessa máls nálgast og svara verður af eða á, auk þess liggur brátt fyrir hvort hægt sé að starfa áfram með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Svo verður að ráðast hvert límið er eftir í þessari lélegu vinstristjórn sem virðist ráðalaus og sundruð á vaktinni - sennilega að falla í valinn í þeirri pólitísku kreppu sem hefur staðið meira og minna frá hruninu. Frekar líklegt er að forsætisráðherrann sé að gufa upp, hennar kapítal er búið.

Forsætisráðherra sem kemur svona fram og spilar svona sóló án þess að tala við nokkurn mann er ekki í jafnvægi til að taka á málum. Hennar tími er liðinn, hafi hann svosem einhvern tímann komið, sem ég efast orðið um. Hún veldur ekki þessu embætti. Burt með þig Jóhanna.


mbl.is Funduðu í Karphúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband