Færsluflokkur: Menning og listir

Fjölskylduvörn Ingimundar Kjarval

Jóhannes KjarvalÞað blandaðist engum hugur um það sem sáu Kastljós og sjónvarpsfréttir í kvöld að Ingimundur Kjarval og fjölskylda hans er allt annað en sátt við dóm Héraðsdóms Reykjavikur í dag. Þar tapaði fjölskyldan baráttu sinni við Reykjavíkurborg fyrir því að fá málverk ættarföðurins Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals aftur í sína vörslu. Nær allt ævistarf Jóhannesar hefur verið eign Reykjavíkurborgar frá árinu 1968.

Stór deila milli aðstandenda Jóhannesar og Reykjavíkurborgar hefur verið hvort Jóhannes hafi gefið safnið með löglegum hætti og allt standist í þeim efnum. Fullyrðir fjölskylda listmálarans að andlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki verið með réttu ráði á þessum tíma sem um ræðir. Stór hluti niðurstöðunnar í dómnum í dag virðist vera byggð á orðum og ummælum Geirs Hallgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem var borgarstjóri í Reykjavík árið 1968 er samningurinn kom til sögunnar.

Eins og flestir vita er meginhluti verkanna geymdur á Kjarvalsstöðum, en safn borgarinnar var nefnt eftir Jóhannesi og er á Klambratúni í Reykjavík. Barátta Ingimundar og fjölskyldu hans er orðin mjög löng. Hef ég fylgst með henni nokkurn tíma, en á síðustu árum hefur Ingimundur verið virkur við að skrifa á spjallvefnum Málefnin, en þar var ég mjög virkur við að skrifa á sínum tíma en er nær hættur skrifum þar nú. Ingimundur hefur greinilega lítinn áhuga á að beygja sig undir þennan úrskurð og stefnir í áfrýjun þessa dóms og farið verði jafnvel fyrir erlenda dómstóla staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. Krafturinn virðist hvergi nærri farinn úr Ingimundi ef marka má orð hans, en hann sagði sérstaklega fjölmiðlum til syndanna í viðtölum í dag. Það voru hörð og áberandi orð. Greinilegt er að hann telur þetta vörn sína fyrir hönd fjölskyldunnar og greinilegt að hann er ekki á þeim slóðum að gefa eftir í átökum við borgina, sem hann hefur verið í átökum við nú í áratugi.


mbl.is Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr menningarsamningur undirritaður á Akureyri

Kristján Þór og Þorgerður KatrínKristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, undirrituðu nýjan menningarsamning ríkis og bæjar í Davíðshúsi í dag. Um er að ræða eitt af síðustu embættisverkum Kristjáns Þórs á bæjarstjórastóli, en hann lætur af embætti bæjarstjóra á þriðjudag eftir níu ára starfsferil.

Samningurinn er endurnýjuð uppfærsla á þeim samningi sem hefur verið til staðar milli samningsaðila frá árinu 1996, en var síðast endurnýjaður fyrir þrem árum. Hann hljóðar upp á samtals 360 milljóna króna hlut ríkisins og gildir til ársloka 2009. Meginmarkmið samningsins er að efla enn frekar hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. Stærsti hluti samningsins er að lokið verður byggingu menningarhúss í Strandgötu á samningstímanum, en það verkefni hefur verið á döfinni í tæpan áratug og löngu kominn tími til að ljúka því.

Menningarhús verður orðin staðreynd fyrir lok næsta árs. Jafnframt er samstaða um að önnur meginmarkmið séu að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, styrkja starf Listasafnsins á Akureyri sem meginstoðar myndlistar utan höfuðborgarsvæðisins og að renna enn styrkari stoðum undir starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri. Auk þess er minnst á að Amtsbókasafnið geti gegnt hlutverki sínu sem eitt af skylduskilasöfnum í landinu, og að kynna fornleifaverkefnið að Gásum og miðla þeirri þekkingu sem til hefur orðið.

Í heildina er þetta góður og gagnlegur samningur og gott að niðurstaða hafi náðst í þessi mál á þessum tímapunkti og þessi mál séu öll örugg og frágengin í upphafi ársins.


mbl.is Ríkið og Akureyri gera samstarfssamning um menningarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur íslenskrar tungu

Jónas Hallgrímsson Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í ellefta skipti. Það var fyrir áratug, árið 1996, sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn af mestu meisturum íslenskrar bókmenntasögu.

Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land.

Í dag var deginum fagnað sérstaklega með hátíðarathöfn síðdegis í Hjallaskóla í Kópavogi. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Nirði P. Njarðvík, rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2006. Fær Njörður verðlaunin m.a. fyrir að hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum og kennslu, og þar með stuðlað að eflingu hennar, framgangi og miðlun til nýrrar kynslóðar. Njörður er vel að verðlaununum kominn. Fyrr í dag opnaði menntamálaráðherra formlega Íslenska réttritunarvefinn, sem kennir stafsetningu og vélritun með gagnvirkum æfingum. Vandaður og góður svo sannarlega.

Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.

Eitt fallegasta ljóð Jónasar Hallgrímssonar er Íslands minni:

Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

mbl.is Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málað yfir fallegt listaverk

Íþróttahúsið við Laugargötu

Á árunum þegar að ég var að alast upp bjó fjölskyldan mín við Norðurbyggð hér á Akureyri. Þaðan var nokkuð gott útsýni yfir að íþróttahúsinu við Laugargötu. Þá, og síðar, vakti athygli mína fallegt veggmálverk á íþróttahúsinu. Það var frumlegt og fallegt, eitt fallegu táknanna á svæðinu. Það var málað á árinu 1979, tveim árum eftir að ég fæddist og alla tíð síðan vakið athygli. Um var að ræða vinningstillögu úr samkeppni meðal nemenda í framhaldsflokki í málum við Myndlistaskólann á Akureyri.

Það hefur vakið nokkra athygli mína og fleiri sem búa hér á Brekkunni að nú hefur verið málað yfir þetta listaverk á vegg íþróttahússins. Í stað litafegurðar og fallegs verks er nú ósköp einfaldlega orðinn hvítmálaður ljótur veggur. Þetta er að mínu mati algjörlega til skammar fyrir alla hlutaðeigandi sem komu að því að mála yfir þetta. Í góðum pistli á Íslendingi, vef flokksins hér í bæ fer Helgi Vilberg, ritstjóri og skólastjóri Myndlistaskólans, yfir þetta mál með góðum hætti.

Bendi lesendum á að líta á þá grein.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband