Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil þakka fólki fyrir góð viðbrögð á bloggfærsluna og pælingar sem þar komu fram. Bloggið verður eins og fyrr segir í dag öðruvísi fram að prófkjöri. Þá sleppum við fastaliðunum en höldum okkur í pælingum um prófkjörið og pólitík - styttri færslur og snarpari. Þakka góð viðbrögð - vona að þið fylgist með næstu vikurnar.

Í dag fylgdist ég með blaðamannafundi forsætisráðherrans í Ráðherrabústaðnum á NFS. Kom svosem fátt nýtt fram þar. Þingið kemur jú saman á morgun - þar verður úrskurður kjaradóms tekinn fyrir og hækkunin felld úr gildi. Munu laun forsetans lækka til samræmis við þá prósentulækkun og aðrir verða fyrir. Líst vel á þetta. Það er alveg ljóst að sátt ætti að nást um þessar breytingar og væntanlega verður það fljótafgreitt að taka þetta fyrir. Er sammála mati forsætisráðherrans á málefnum RÚV. Það er mikilvægt að frumvarp þar um verði afgreitt sem fyrst og mál í stofnuninni færð til nútímans - þó fyrr hefði verið. Eftir sem áður er mikilvægt að nýtt fjölmiðlafrumvarp komi til sögunnar nú á vorþingi og verði að lögum fyrir lok þinghalds - er mikilvægt að frumvarp verði byggt á fjölmiðlaskýrslunni frá því í fyrra og samstaða náist um málið milli allra flokka. Þó að ég sé ekki alltaf sammála honum Halldóri má hann eiga það að hann stendur sig vel með þessa blaðamannafundi - þeir eru mjög af hinu góða.

Svo stendur auðvitað upp úr seinustu daga ákvörðun borgaryfirvalda um að draga sig út úr viðræðum um kaup ríkisins á eignarhluta borgarinnar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Er alveg greinilegt að ástæðan er sú að hinn steindauði R-listi hefur engan kraft í að klára málið og frestar því fram yfir kosningar. Greinilegt er að VG er þrándur í götu málsins - bæði Árni Þór og Björk Vilhelms hin brottflutta vinstri græna sem flúði í fang Samfylkingarinnar og kallar sig óháða í prófkjörinu. Kostulegt, ekki satt? R-listavofan hefur ekkert afl í að klára málið greinilega. Nú sé ég svo í dag að Valgerður iðnaðarráðherra er að senda R-listanum pillu í pistli á vef sínum - það er vel skiljanlegt. Borgin bað um viðræðurnar en hrökklast frá þessu. Mjög merkilegt. Annars á Akureyrarbær að halda sínu striki og selja hlut sinn. Þó að R-listinn hafi ekki pólitískan mátt til að feta í söluátt eigum við Akureyringar að halda ótrauð okkar stefnu og klára málið fyrir kosningar.

Sé svo í dag að menn eru að rífast um prófkjörsúrslitin í Garðabæ. Það er vel skiljanlegt - hlutur kvenna er afspyrnuslakur. Engin kona í vonarsætunum fjórum og Laufey Jóhannsdóttir, sem setið hefur í bæjarstjórn frá 1990, beið algjört afhroð. Þessi niðurstaða er dapurleg, enda eru margar efnilegar konur þarna, t.d. Ragnhildur Inga, Ingibjörg og Laufey. Er þegar farið að tala um að breyta röðun listans. Er það vissulega hægt í ákvörðun fulltrúaráðs - en umdeildanlegt. Enda varla líklegt að einhver vilji afsala sér öruggu bæjarfulltrúasæti sem vannst í prófkjöri. Þetta er jú einu sinni val prófkjörs og erfitt upp að stokka. En þeir í Garðabænum taka ákvörðunina. Hitt er svo annað mál að það er rétt hjá Jóni Guðmundssyni formanni fulltrúaráðs, að þetta er ekki seljanlegur listi. Ákvörðun um uppstokkun er því ekki ólíkleg, þykir mér - þó það gæti kostað einhver særindi.

Í kvöld verða Golden Globe-verðlaunin afhend í Los Angeles. GG er ein af þeim verðlaunaafhendingum sem eru ómissandi fyrir kvikmyndafíkla eins og mig - þau hafa enda oft haft mikið um að segja hverjir fá Óskarinn í mars. Það er pottþétt að ég reyni að vaka fram á nótt og horfa á þetta. Ekta popp og kók-kvöld framundan við að horfa á afhendingu Gullhnattarins. Góða skemmtun (sérstaklega aðrir bíófíklar). :)


Engin fyrirsögn

Oktavía

Framboðsfrestur í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna á Akureyri sem haldið verður laugardaginn 11. febrúar nk. rennur út klukkan 17:00 í dag. Má búast við góðri þátttöku - spennandi prófkjöri. Skilaði ég framboði mínu inn til formanns kjörnefndar í síðustu viku og var því vel tímanlega í þessu öllu. Líst mér vel á slaginn framundan - ég er til í slaginn allavega. Eins og fólk sér hefur bloggið tekið eilitlum breytingum og mun það til prófkjörs einkennast af stuttum punktum og pælingum. Heimasíðan mun taka stakkaskiptum í vikunni og verða miðstöð mín í baráttunni. Hvet ég alla sem vilja heyra í mér til að senda mér póst - mikilvægt að heyra í fólki og þeir sem vilja tjá sig um baráttuna eða málefni hennar eru eindregið hvattir til að hafa samband.

Um helgina fór ég sem oftar niður í miðbæ og fór þar á kaffihús. Þar hitti ég mætan mann sem tók mig tali og spurði mig með alvarlegum blæ hvort að allt væri að fyllast hjá okkur af landflótta krötum úr Samfylkingunni. Það er ekki nema von að fólk spyrji sig að því eins og staða mála er orðin. Oktavía hefur flúið Samfylkinguna sem hún var kjörin í bæjarstjórn fyrir árið 2002 og komin til okkar og í framboð núna ef marka má fréttir gærdagsins. Sigbjörn fyrrum krataþingmaður hefur svo bæst við ennfremur - kominn úr sveitasælunni við Mývatn þess albúinn að reyna fyrir sér eftir langa pólitíska útlegð. Fleiri kratar eða nýtt fólk er komið til okkar líka - fólk sem aldrei hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn en vill einhverra hluta vegna spreyta sig hjá okkur. Er sjálfsagt að fagna öllu því fólki sem flýr vinstrimennsku og gengur til fylgilags við sjálfstæðisstefnuna - gengur til liðs við stærsta flokk landsins.

Merkilegt var annars að sjá framboðstilkynningu Oktavíu Jóhannesdóttur sem mun takast á við mig og fleiri um þriðja sætið. Þar telur hún upp afrek sín fyrir Alþýðuflokkinn sáluga og Samfylkinguna. Það er óneitanlega skemmtilega skondið að frú Oktavía sleppir því algjörlega að geta þess að hún fór í framboð með Árna Steinari Dalvíkingi og fyrrum græningjaþingmanni með meiru í bæjarstjórnarkosningum árið 1990 og munaði litlu að hún fylkti liði með honum í þingframboð með glans árið 1991. Það er þó auðvitað af litlu að státa í verkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, enda hefur hún aðeins verið þar í tvær vikur, eða síðan að hún hélt frægan blaðamannafund með Kristjáni Þór í Hamborg. Svo er kominn til liðs við okkur hinn frægi smalari Sigbjörn Gunnarsson. Flestir muna annars hvernig fór fyrir honum eftir að hafa sigrað í samfylkingarprófkjörinu 1999 - vék þar til hliðar fyrir Svanfríði Jónasdóttur.

Sú saga hefur farið hátt og verður kannski rifjuð eitthvað upp í þessu prófkjöri - hver veit? Fleiri vinstrimenn eru komnir til liðs við okkur og ætlast til að verða lyft upp til skýjanna af flokksfólki sem hér hefur haldið starfinu uppi með þeim þunga sem fylgir. Verður fróðlegt hvort það fari svo. Sjáum til hvernig þeim gengur. Eflaust munu margir í baráttunni á næstu vikum rifja upp ummæli og takta Oktavíu gegn okkur sjálfstæðisfólki. Fagna ég öllum þeim sem rifja upp tal hennar og pælingar innan Samfylkingarinnar gegn þeim sem hún er nú að koma sér í mjúkinn hjá. Það er annars engin furða að fólk sem er orðið landlaust í pólitík reyni fyrir sér - reyni að koma sér burt af pólitískri eyðieyju. Þó það nú væri. Það er sennilega betra að reyna fyrir sér þarna en í eymdinni á vinstrivængnum.

Ég hlakka til baráttunnar við landlausa krata og fleiri. Næstu daga heyrum við listann yfir prófkjörskandidata og þá getum við haldið í baráttuna af krafti. Þetta verður spennandi.


Bloggfærslur 16. janúar 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband