Davíð undrast ummæli Jóns Baldvins

Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, staðfesti í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hafði enga vitneskju um það fyrr en nú að sími Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðuneytinu eigi að hafa verið hleraður. Fátt hefur meira verið rætt í gær og í dag en utanríkisráðherrann hleraði og síminn og ummæli hans um að hann hefði komist að því að hann væri hleraður snemma á tíunda áratugnum, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs. Áður hefur Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er var þá dómsmálaráðherra, sagst ekki hafa vitað af þessu fyrr en eftir útvarpsviðtalið.

Eins og ég sagði í skrifum mínum hér fyrr í dag vekur verulega mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki ræða þessi mál við samstarfsmenn sína í ríkisstjórn. Það að Jón Baldvin hafi talið þetta eðlilegt og viljað halda því fyrir sig kemur ekki heim og saman, hreint út sagt. Það vekur líka mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki fyrr gera þetta opinbert, heldur tala um þetta á árinu 2006. Honum hefði verið í lófa lagið að gera eitthvað í málinu í utanríkisráðherratíð sinni, þegar að hann var einn valdamesti maður landsins. Mér finnst það alvarlegt mál að Jón Baldvin hafi þagað yfir þessu öll þessi ár og það hlýtur að vekja spurningar um hvort öll sagan sé sögð.

Mér finnst vanta verulega stóran bita í þetta púsluspil Jóns Baldvins satt best að segja. Þetta einhvernveginn kemur ekki heim og saman. Það er allavega enginn vafi lengur á því að Jón Baldvin tjáði sig ekki um þessi mál við samstarfsmenn sína í Sjálfstæðisflokknum innan Viðeyjarstjórnarinnar né heldur gerði hann þetta að umræðuefni í alþingiskosningunum 1995 þar sem að hann barðist fyrir pólitísku lífi sínu, eftir klofninginn innan Alþýðuflokksins, er Jóhanna Sigurðardóttir sótti af krafti gegn sínum gamla flokki og Jóni Baldvin. Uppljóstrun þessa hefði gerbreytt kosningabaráttunni þá. Þetta virðist fyrst nú vera rætt milli manna. Það er stórundarlegt hreint út sagt.

Spurning vaknar um það hvort að Jón Baldvin tjáði samstarfsmönnum sínum innan Alþýðuflokksins á ríkisstjórnarárunum um þessa vitneskju sína. Ég trúi því varla að Jón Baldvin hafi einn byrgt þetta innra með sér öll þessi ár. Hafi þetta fyrst verið rætt manna á milli á vinstrivængnum nú á síðustu dögum vekur það verulega stórar spurningar, mun stærri en nú blasa við. Undarlegt þykir mér að fjölmiðlamenn gangi ekki á eftir Jóni Baldvini með þær vangaveltur hvort Rússarnir hafi kannski hlerað hann, í ljósi þess að hann lagði frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna mikið lið. Hann fór reyndar til Litháen á þeim tíma og lagði líf sitt í hættu fyrir málstaðinn.

Enn merkilegra er það að Davíð Oddsson segir að símar ráðamanna hafi verið skoðaðir með hugsanlegar hleranir í huga árlega og það af NATO og norsku öryggislögreglunni. Það vekur stórar spurningar. Ekkert nema spurningar vakna í þessum efnum eftir þessa uppljóstrun Jóns Baldvins. Það að hann hafi beðið með að tala um þetta í heil 13 ár er með hreinum ólíkindum. Enn verra er svo að Jón Baldvin ýjar að því að lögreglan hafi hlerað símann. Það eru frekar undarlegar dylgjur í sannleika sagt. En allar hliðar þessara mála verða að fara upp á borðið. Það er svo einfalt.


Mikhail Gorbachev kominn til landsins

Mikhail Gorbachev

Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, er nú kominn til landsins til að minnast tveggja áratuga afmælis leiðtogafundar stórveldanna sem haldinn var í Höfða í Reykjavík, 11. og 12. október 1986. Það er stórviðburður að Sovétleiðtoginn fyrrverandi komi til landsins og verður fróðlegt að heyra fyrirlestur hans á morgun í Háskólabíói, þar sem hann fer yfir áhrif fundarins á alþjóðastjórnmál. Það var athyglisvert að sjá viðtal Þóris Guðmundssonar, varafréttastjóra Stöðvar 2 við hann í kvöldfréttum fyrir stundu. Þar ítrekaði hann fyrri ummæli sín um að fundurinn hafi markað þáttaskil í viðræðum um takmörkun kjarnorkuvopna og við endalok kalda stríðsins.

Sagðist Gorbachev að þar hafi komið fram í fyrsta skipti í viðræðum sínum með Ronald Reagan að þeir gæti samið og rætt saman málin með sáttatóni. Þó ekki hafi verið undirritaðir samningar um alheimsfrið eða takmörku kjarnavopna hafi þessi fundur grundvöllur alls sem síðar gerðist í alþjóðastjórnmál, er mörkuðu þáttaskil í heimsmálunum. Kom fram það mat hans að þeir hefðu á fundinum sýnt hugrekki, visku og ábyrgð. Það var fróðlegt að heyra skoðun hans á alþjóðastjórnmálum, einkum í ljósi kjarnorkutilrauna stjórnvalda í Norður-Kóreu hina síðustu daga sem mikið hafa verið í fréttum. Það er greinilegt að hann telur blikur á lofti í þeim efnum.

Leiðtogafundurinn í Höfða haustið 1986 spilar veigamikinn sess í Íslandssögunni og er okkur öllum í minnum hafður sem upplifðu þessa tíma. Persónulega gleymi ég aldrei biðinni á sunnudeginum 12. október 1986, þegar að myndavél Sjónvarps einblíndi í nokkra klukkutíma á hurðarhúninn á Höfða. Fundinum seinkaði og flestir töldu heimssögulegan atburð framundan hér á Íslandi. Það voru vonbrigði þegar að fundinum lauk án samkomulags og margir dæmdu hann misheppnaðan. Þetta voru sögulegir tímar og mjög eftirminnilegir. Útsending Sjónvarpsins á þessum tíma var mjög vönduð, en Ingvi Hrafn Jónsson stóð vaktina með sínu liði á fréttastofu Sjónvarpsins alla helgina.

Í gær var góð umfjöllun um leiðtogafundinn í Kastljósi. Þar fórum við um Höfða undir leiðsögn Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, en hann var borgarstjóri í Reykjavík þegar að fundurinn fór fram. Fundarstaðurinn var eins og fyrr segir Höfði, sem er móttökuhús Reykjavíkurborgar. Það var margt fróðlegt sem fram kom í spjallinu og áhugavert að heyra hlið Davíðs Oddssonar á þessum sögufræga leiðtogafundi Reagans og Gorbachevs, sem fram fór í litlu húsi í Reykjavík, er varð miðpunktur heimsins helgi eina fyrir tveim áratugum.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov kominn til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraembættið á Akureyri

Kristján Þór Júlíusson

Ég hef fengið margar spurningar síðustu daga hvernig verði með bæjarstjóraembættið hér á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson sigri væntanlegt prófkjör flokksins í kjördæminu. Það er erfitt að fullyrða eitthvað um það, fyrr en að loknu prófkjöri. Mér finnst þó felast í yfirlýsingu Kristjáns Þórs að sigri hann prófkjörið muni hann hætta sem bæjarstjóri og halda algjörlega í þingframboðið. Í raun liggur með þessu öllu fyrir endanlega að hann fer ekki aftur í bæjarmálaframboð og hefur sagt skilið við bæjarmálin í raun og veru. Það vissu það í raun allir bæjarbúar þegar í vor að hann yrði ekki bæjarstjóri allt kjörtímabilið og skil væru komin á hans langa bæjarstjóraferil.

Það er vissulega nokkur óvissa í loftinu með stöðuna eins og hún er nú. Mikilvægt er að henni verði eytt sem allra fyrst eða í síðasta lagi eftir prófkjörið, sem verður væntanlega fyrir lok næsta mánaðar. Það hefur aldrei farið okkur vel að ekki sé stöðugleiki yfir. Það hefur þó í mínum huga blasað við um langt skeið að hér yrðu þrír bæjarstjórar á kjörtímabilinu. Þegar er ljóst að Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, verður bæjarstjóri sumarið 2009 og verður bæjarstjóri því síðasta ár kjörtímabilsins. Það hefur varla þurft skynsaman stjórnmálaspekúlant til að sjá að Kristján Þór yrði vart formaður bæjarráðs eftir þá breytingu.

Við sjálfstæðismenn eigum samkvæmt meirihlutasamningi embætti bæjarstjórans í tæp þrjú ár enn. Það er okkar að taka ákvörðun um nýjan bæjarstjóra á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson verði leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að loknu prófkjöri. Það liggur fyrir eftir viðtal Ríkisútvarpsins við bæjarstjórann að hann muni ekki vera í forystu Akureyrarkaupstaðar áfram liggi fyrir að hann taki sæti á Alþingi. Það hlýtur því að vera með þeim hætti að hann hætti sem bæjarstjóri að loknu prófkjörinu sigri hann það, enda liggur þá fyrir að hann taki sæti á Alþingi.

Í öllu falli munum við skipa embætti bæjarstjórans á næstu þrem árum. Fari svo að pólitísk þáttaskil blasi við Kristjáni Þór á næstu vikum, sem reyndar þegar hafa gerst með þessu þingframboði, mun það verða leyst fljótlega. Við eigum nóg af hæfileikaríku og öflugu fólki sem getur tekið við bæjarstjóraembættinu á Akureyri í okkar umboði. Allt mun þetta því ráðast fljótlega, að mínu mati.


Sigrún Björk, Helgi Vilberg og ég

Læt hérmeð fylgja með mynd frá fulltrúaráðsfundinum á mánudag, sem kemur úr tíufréttum Sjónvarps á mánudagskvöldið. Þarna erum við; Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, og ég.

Svimandi verðmunur milli Íslands og Danmerkur

Mjólkurvörur

Það var sláandi að sjá verðmuninn milli verslunar í Danmörku og hér í Hagkaupsverslun heima á fróni sem fram kom í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Sérstaklega er með ólíkindum að sjá muninn t.d. á landbúnaðarafurðum, t.d. kjöt- og mjólkurvörum. Þeir Sölvi Tryggvason og Sighvatur Jónsson eiga hrós skilið fyrir vandaða og góða umfjöllun, sem eflaust fékk marga til að hugsa málið verulega. Þetta var vel gert hjá þeim og umfjöllunin vakti vissulega athygli þeirra sem fara í verslun á hverjum degi og kaupa nauðsynjavörur sínar sláandi hærra verði en gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Framundan eru tímamót með lækkun matarskattsins, sem er mikið gleðiefni, en betur má þó ef duga skal. Lít á þetta sem fyrsta stóra skrefið á nokkurra þrepa vegferð til að laga matarverð til þess sem eðlilegt á að teljast. Það er þörf á að ganga lengra, en öll metum við það skref sem nú hefur verið stigið.

Jón Baldvin og hleraði síminn

Jón Baldvin

Um fátt er nú meira talað en utanríkisráðherrann hleraða og símann hans. Eins og fram kom í skrifum mínum hér í gær tel ég þetta stóralvarlegt mál og mikilvægt að það verði kannað nánar. Það er mjög undarlegt mál að svo virðist vera að forsætis- og dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson komst að því að skrifstofusími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður hafi fyrst vitað af því í gær, rétt eins og aðrir landsmenn. Það er stóralvarlegt mál að Jón Baldvin hafi fyrst í gær talið nauðsynlegt að deila þessum upplýsingum með okkur öllum. Þetta er eitthvað sem hann átti að opinbera vitneskju sína um þá þegar og hann komst að þessu.

Ég verð að taka undir skoðanir vinar míns, Halldórs Blöndals, fyrrum forseta Alþingis og ráðherra, sem fram komu í góðu viðtali við hann og Steingrím J. Sigfússon, formann VG, í Kastljósi í gærkvöldi. Það er nú orðið ljóst að hvorugur af valdamestu mönnum sem áttu að vita um þetta mál frá upphafi vissu ekki af því fyrr en í gær. Ég botna því ekki í þessu fjölmiðlaútspili Jóns Baldvins og þessa tímasetningu nákvæmlega. Hefði hann ekki átt að tilkynna meðráðherrum um þessa stöðu mála og eða einfaldlega að gera stöðuna opinbera á blaðamannafundi á árinu 1993, ef honum hefði verið full alvara með að opna allar hliðar málsins. Það er greinilegt að ekki er öll sagan sögð nú, tel ég.

Allir vita að Jón Baldvin Hannibalsson var ekki í hávegum hafður hjá Rússum eftir að hann spilaði sögulegt hlutverk í því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991. Það varð upphafið að endalokum Sovétríkjanna táknrænt séð, enda vildu allar þjóðirnar standa á eigin fótum eftir að Eystrasaltsríkin komu undir sig fótunum. Voru það Rússarnir sem voru að hlera Jón Baldvin og fylgjast með honum? Stór spurning, en vart óeðlileg í stöðunni sem uppi er. Mér finnst margt vanta enn í þessa sögu eftir að hafa kynnt mér hana betur. Af hverju tilkynnir Jón Baldvin fyrst nú um hleraðan síma fyrir 15 árum? Hví gerði hann ekki samstarfsmönnum í ríkisstjórn grein fyrir þessu?

Fannst líka merkileg saga Halldórs Blöndals í Kastljósinu í gær um að samtal hans og Þorsteins Pálssonar, í forsætisráðherratíð Þorsteins, hafi verið hlerað og Magnús Skarphéðinsson hafi takið samtalið upp og það verið spilað. Þetta er eitt þessara mála sem virka með hreinum ólíkindum og vekja mann til umhugsunar um að opna allt upp á gátt. Það virðist fjarstæða að tala um aðeins eina hlið hlerana og leynistarfsemi sé þessi frásögn og öll hlið hennar rétt er meira þeim megin en bara þetta. Svo leiðist mér mjög einhliða blaður Steingríms J. um að sjálfstæðismenn vilji þegja málið í hel. Veit ekki betur en að Halldór hafi flutt ræðu um daginn og hvatt til þess að allt yrði t.d. opnað.

Finnst þetta undarlegt mál og það væri gott að heyra söguna alla af þessu máli. Mér finnst þetta hálfsögð saga sem heyrist frá utanríkisráðherranum hleraða. Hversvegna í ósköpunum varð þetta ekki að umfjöllunarefni á æðstu stöðum meðan að Jón Baldvin Hannibalsson var einn valdamesti stjórnmálamaður landsins fyrir rúmum áratug. Hví gerir hann þetta að fjölmiðlamáli nú þegar að hann er orðinn rólegheitamaður úti í sveit. Þetta er mjög undarlegt mál og mikil þörf á að allir þættir fari upp á borðið og það rannsakað til fulls. Það hefði átt að gera fyrir þessum 13 árum eiginlega þegar að Jón komst að því að hann var hleraður.

Mjög tvísýnar kosningar í Bandaríkjunum

Dennis Hastert

Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir mánuð. Staðan er slæm fyrir repúblikana. Það stefnir í að fulltrúadeildin sé töpuð nú, jafnvel öldungadeildin líka. Þetta verður harður slagur seinustu vikurnar. Foley-hneykslið hefur skaddað Repúblikanaflokkinn verulega. Flokkurinn sem hefur viljað telja landsmönnum trú um síðustu árin að hann sé táknmynd heiðarleika og virðingar í bandarískum stjórnmálum er skaddaður vegna siðferðishneykslismála og vandræðagangs. Fyrir ári hefði sá sem spáð hefði um að repúblikanar myndu missa yfirráðin í báðum þingdeildunum væntanlega verið talinn verulega galinn. Svo er ekki nú um stundir.

Það er ekki hægt að segja annað en að staða Dennis Hastert, forseta fulltrúadeildarinnar, sé verulega slæm. Hann svaf alltof lengi á verðinum í Foley-málinu og hlýtur að vera í verulega vandræðalegri stöðu gagnvart umbjóðendum sínum í Illinois þessar vikurnar. Pressan var mikil á hann um að segja af sér, en hann gerði það ekki og sneri vörn í sókn með stuðningi forsetans og lykilráðgjafa hans. Það blasir við öllum að titringur er á valdamestu stöðum í Washington þessar vikurnar með stöðuna eins og hún er. Bush, Bandaríkjaforseti, mun missa nær allt pólitískt vald sitt í raun og veru innanlands fari svo að önnur, eða jafnvel báðar þingdeildirnar tapist flokknum.

Ný skoðanakönnun sem birtist í dag sýnir vaxandi fylgi demókrata á nær öllum vígstöðvum. Fulltrúadeildin er töpuð í þeirri könnun fyrir repúblikana og öldungadeildin á ystu nöf. Meirihluti flokksins í báðum deildunum er veglegur nú. Til dæmis þurfa demókratar að bæta við sig rúmum 15 sætum í fulltrúadeildinni og 6 í öldungadeildinni til að snúa þeim við. Það virðist nú geta gerst, fari allt á versta veg. Enn er þó mánuður til stefnu og væntanlega mun Bush reyna að gera allt til að varna því að missa yfirráð þingsins. Fari svo verða seinustu tvö ár forsetaferilsins sem martröð fyrir hann, án valdsins sem fylgir yfirráðum þingdeildanna syrtir verulega í álinn.

Ég fylgdist fyrst af alvöru með þingkosningum vestanhafs árið 1994. Það voru sögulegar kosningar. Repúblikanar náðu þá yfirráðum í fulltrúadeildinni eftir áratuga minnihlutasetu þar og náði öldungadeildinni ennfremur á sitt vald. Það var á þeim árum sem að Clinton var veikastur á stormasömum valdaferli. Síðan hefur flokkurinn ráðið fulltrúadeildinni en öldungadeildin hefur rokkast á milli flokkanna, en repúblikanar hafa samfellt ráðið henni nú frá janúarmánuði 2003.

Það verður óneitanlega mjög spennandi að fylgjast með þessari pólitísku stöðu næstu vikurnar vestan hafs og hvort að repúblikanar ná að snúa vörn í sókn í þessari erfiðu stöðu. Það hlýtur að vera svo að repúblikanar búast við hinu versta en vona hið besta þessar vikur í kosningabaráttunni sem er hin erfiðasta sem þeir hafa háð til fjölda ára.

mbl.is Demókratar auka forskot sitt í aðdraganda þingkosninganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband