Nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Ban Ki-Moon

Ban Ki-Moon, fyrrum utanríkisráðherra Suður-Kóreu, var í dag kjörinn framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann mun taka við embættinu af Kofi Annan þann 1. janúar nk. Annan hefur gegnt embættinu í tíu ár, um áramótin, en það er hámarkstími sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna getur setið. Afríka hefur átt seturétt í embættinu samtals í 15 ár, en forveri Annans, Boutros-Boutros Ghali sat 1992-1997 en hlaut ekki stuðning til að sitja lengur í embætti, en Bandaríkjastórn beitti neitunarvaldi til að stöðva tilnefningu hans til endurkjörs haustið 1996, svo að hann gat ekki náð endurkjöri. Það var í fyrsta skipti fram að því sem sitjandi yfirmaður fékk ekki endurkjör.

Það blasir við öllum að mikil breyting verður er Ban Ki-Moon tekur við embætti framkvæmdastjórans. Kofi Annan hefur verið einn af mest áberandi framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, lykil friðarpostuli og holdgervingur fjölmiðlaathygli og fréttaumfjöllunar fyrir framkvæmdastjóraferilinn og á meðan honum stóð. Valið á Ban Ki-Moon markar þau þáttaskil að nú er valinn yfirmaður í Sameinuðu þjóðirnar, yfirmaður sem ekki er fjölmiðlastjarna og er diplómat sem lítið mun bera á miðað við hinn vinsæla Kofi Annan, sem hefur verið öflugur friðarpostuli og alheimsmálsvari friðar, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir fimm árum, árið 2001.

Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við yfirmannsskiptin um áramótin. Jafnframt verður mikið fylgst með því hvert hlutskipti Kofi Annans verður er hann hættir störfum; hvort að hann verði áfram sama fjölmiðlastjarnan og var á tíu ára framkvæmdastjóraferli eða muni draga sig mjög í hlé úr sviðsljósinu.

mbl.is Allsherjarþing SÞ kýs Ban Ki-Moon formlega næsta framkvæmdastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegt yfir stjórnarskrárnefndinni

Skjaldarmerki

Það styttist nú mjög í alþingiskosningar. Brátt mun ráðast hvort stjórnarskrárbreytingar verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins. Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, skipaði nefndina. Henni var sett það verkefni einkum að endurskoða fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrár. Í nefndinni eru; Jón Kristjánsson, formaður, Þorsteinn Pálsson, Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Jónína Bjartmarz, Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Kristrún Heimisdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í nefndinni við skipun hennar en sögðu sig úr henni árið 2005.

Það mun væntanlega ráðast fyrir lok þessa mánaðar hvort að fram komi frumvarp á þessu þingi um að breyta stjórnarskrá. Það var markmiðið, enda var sagt í skipunarbréfi að nefndin ætti að skila tillögum sínum fyrir árslok 2006, frumvarp liggja fyrir í ársbyrjun svo að það mætti verða að lögum fyrir kosningar, en stjórnarskrá er aðeins hægt að breyta með kosningum og staðfest af þingi fyrir og eftir kosningar. Það verður ekki annað sagt en að rólegt hafi verið yfir þessari stjórnarskrárnefnd. Það virðist lítil samstaða um hversu miklar breytingar eigi að verða og þá á hvaða þáttum. Mikið hefur verið deilt t.d. um 26. greinina, hvað varðar málskotsrétt forsetans.

Það er mikill skaði ef ekki næst samkomulag eða lagt verður fram frumvarp um einhverjar breytingar á stjórnarskránni á þessum þingvetri. Fyrir nokkrum vikum sagði Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, að um gæti orðið að ræða litlar breytingar og nefndi í þeim efnum vissar tillögur. Þótti mér það frekar rýr breyting. Ég held að það liggi fyrir að engar megináherslubreytingar verða með samstöðu, það er frekar leitt að segja það, en svo er það. Æskilegast er vissulega að samstaða geti náðst um breytingar, en meginátök í stjórnmálum mega þó alls ekki koma í veg fyrir að fram komi einhverjar áþreifanlegar breytingar á stöðu mála.

Mér finnst það viss vonbrigði hversu rólegt hefur verið yfir þessari nefnd. Hún hefur haft tvö ár til verka og það virðast hverfandi líkur á að samkomulag náist um breytingar, í takt við það sem rætt var er nefndin var skipuð. Væntanlega verða næstu dagar örlagaríkir í þessari vinnu. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða breytingar muni koma fram við vinnulok nefndarinnar fyrir áramótin, enda blasir við að eigi tillögur að verða að veruleika verði þær brátt að koma fram, enda tíminn að verða af skornum skammti til verka.


Fundaherferð Péturs í prófkjörsslagnum

Pétur H. Blöndal

Á meðan að flestir prófkjörsframbjóðendur í Reykjavík eru að opna heimasíður og kosningaskrifstofur sínar til að kynna sig beitir Pétur H. Blöndal, alþingismaður, allt öðrum aðferðum. Í stað hins hefðbundna er Pétur með opna málefnafundi, fundaröð um frelsi og velferð í samfélaginu, til kynningar á sér og sínum stefnumálum í kosningabaráttunni. Mun Pétur stefna að sex fundum og þar verði tekið fyrir eitt mál á hverjum þeirra. Mun Pétur hafa valið sér fundarstjóra sem allir eiga það sameiginlegt að hafa gjörólíkar skoðanir á málum og hann. Meðal þeirra sem verða fundarstjórar eru m.a. Andri Snær Magnason, Guðrún Helgadóttir og Sigursteinn Másson.

Stefnt er að fundum um umhverfismál, málefni aldraðra, stöðu öryrkja, skattamál, Evrópumál og fjármagnskerfið. Munu fundirnir allir verða í Odda í Háskóla Íslands og sá fyrsti mun verða á morgun. Pétur beitti svipaðri taktík í prófkjörsslagnum árið 2002 og hélt þá fjóra fundi í Odda til að kynna sig og var þar frummælandi með einstaklingi á hverjum fundinum fyrir sig sem voru allir vinstrimenn. Þetta mæltist vel fyrir og Pétur náði góðum árangri í því prófkjöri. Ég var einmitt að hugsa um daginn hvernig Pétur myndi hafa baráttuna nú, enda hvergi séð hann vera með vef né skrifstofu.

Þetta verður fróðlegt með að fylgjast. Annars var Pétur með heimasíðu eitt sinn, en það var ekkert annað en prófkjörsvefur svosem fyrir síðustu kosningar, og merkilegt að sjá hvort hann opnar ekki vefinn aftur á lokavikum baráttunnar. Ef marka má auglýsingar síðustu daga stefnir Árni Johnsen að svipaðri fundaherferð í Suðurkjördæmi og hefur þar auglýst fjölda funda um allt kjördæmið fram að prófkjöri, en þeir verða þó ekki eins uppbyggðir og fundir Péturs í Odda.

Það er allavega ekki hægt að segja annað en að þetta sé barátta mjög frábrugðin því sem flestir aðrir gera á þessum tíma þegar að styttist í prófkjörsdaginn.


Óvæntur friðarverðlaunahafi Nóbels

Muhammad Yunus

Það kom skemmtilega á óvart að Muhammad Yunus og Grameen Bank skyldu hljóta friðarverðlaun Nóbels þetta árið. Fyrirfram hafði ég þó talið að það yrði Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, sem myndi verða fyrir valinu fyrir mikilvægt framlag sitt í þágu alheimsfriðar. Yunus hefur unnið merkilegt starf við Grameen Bank og vissulega við hæfi að verðlauna það. Um Yunus og Grameen Bank er fjallað um ítarlega og vel á þessari vefsíðu.

mbl.is Grameen Bank og stofnandi hans fá friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautlegt hlerunarmál

Jón Baldvin

Sífellt skrautlegra verður hlerunarmálið sem kennt er við Jón Baldvin Hannibalsson. Í gærkvöldi var Jón Baldvin gestur Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi. Þar var rætt um hlerunarmálið og tengdar hliðar þess. Þar fannst mér ráðherrann fyrrverandi tala um þessi mál enn merkilegar en áður, enda virðist manni þetta vera orðið svo kostulegt að líkist í raun ótrúverðugum reifara. Mér finnst sífellt vera að verða æsilegri atburðarásin öll. Mér finnst persónulega mjög ótrúlegt að einhver maður hafi setið og hlerað daginn út og inn þennan síma. Sé þetta rétt er það þó auðvitað mjög stórt mál og enn og aftur undrast maður af hverju þetta var ekki almenningi ljóst fyrr en nú.

Þögn Jóns Baldvins Hannibalssonar í þessum efnum í heil þrettán ár er æpandi í þessu máli. Það kemur engan veginn heim og saman að einn allra valdamesti maður landsins hafi ekki getað skýrt þjóðinni frá þessu máli, hafi það gerst á þeim tíma. Mér fannst Jón Baldvin alveg kostulegur er hann reyndi eiginlega mun frekar að lýsa Rúmeníu hins alræmda Ceausescu-tíma frekar en því Íslandi sem ég upplifði í upphafi tíunda áratugarins. Það er mjög undarlegt hafi maður sem hafði örlög ríkisstjórnarinnar í hendi, áður slitið tveim ríkisstjórnum, ekki bein í nefinu til að segja þjóðinni stöðu mála hafi hleranirnar gerst og hann komist að einhverju slíku. Hann hafði öll tækifæri til að segja frá þessu, en notaði þau ekki. Mér finnst það mjög alvarlegt mál og hlýtur að kasta rýrð á frásögn hans.

Fannst merkilegt að heyra viðtalið í Kastljósi við Magnús Skarphéðinsson, bróður Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Hann sagðist fyrir tilviljun hafa "dottið inn í" símtal milli Þorsteins Pálssonar, þáv. forsætisráðherra, og Halldórs Blöndals, alþingismanns. Þetta er merkileg uppgötvun. Það væri fróðlegt að heyra meira um það hvernig að Magnús datt inn í símtal milli forsætisráðherra og stjórnarþingmanns. Finnst margt undarlegt í þessum efnum. Fyrst og fremst þarf að færa öll mál upp á borðið, rannsaka þau og fara yfir. Þetta er að verða eins og einn stór reifari sem maður hefur lesið í jólabókaflóðinu.

Það merkilegasta er að þetta eru raunverulegir valdamenn sem segja frá og eiga að hafa lent í svona atburðarás. Það merkilegasta er að enginn sagði frá neinu og allt er hulið á bakvið þagnargler fortíðarinnar. Mér finnst það mjög ámælisvert, í sannleika sagt.


mbl.is Fullyrðir að Jón Baldvin hafi sætt hlerunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband