Kjördæmisþing um helgina

Sjálfstæðisflokkurinn

Um helgina verður kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi haldið að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar mun verða tekin ákvörðun um hvort efnt verði til prófkjörs til vals á frambjóðendum flokksins eða stillt upp á lista. Fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðsins um að fram muni fara prófkjör laugardaginn 25. nóvember nk. Á fundinum verður tekin nánari afstaða til þessara mála og gengið frá ákvörðun um alla hluti væntanlegs prófkjörs, enda má telja fullvíst að boðað verði til prófkjörs og sú afstaða njóti stuðnings meirihluta fundarmanna.

Gestir fundarins verða Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum verður rætt um allar hliðar væntanlegra kosninga og farið yfir stöðu mála. Þegar liggur fyrir að þrír einstaklingar; Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri, gefi kost á sér til forystu á framboðslista flokksins, en Halldór Blöndal, núv. leiðtogi flokksins í kjördæminu, gefur ekki kost á sér.

Þetta verður væntanlega góð og hressileg helgi í hópi góðra vina fyrir austan í Mývatnssveit og verður ánægjulegt að fara þangað, ræða um verkefnin framundan og fara yfir skoðanir fólks á frambjóðendum og stöðu mála á þessum kosningavetri.

Erfið byrjun fyrir sænsku stjórnina

Fredrik Reinfeldt

Í gær var vika liðin frá því að ríkisstjórn borgaraflokkanna undir forsæti Fredrik Reinfeldt tók við völdum í Svíþjóð. Það verður þó seint sagt að óskabyrjun marki fyrstu viku valdaferils flokkanna, en hvert vandræðamálið hefur rekið annað síðustu dagana og sér ekki fyrir endann á vandræðaganginum. Mest hljóta að teljast nokkur vandræði Mariu Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, en vist hennar í ráðuneytinu byrjaði fljótt á uppljóstrunum um að hún hefði greitt dagmæðrum laun á síðasta áratug án þess að gefa það upp til skatts. Baðst hún fyrirgefningar á því og sagðist forsætisráðherrann ætla að veita henni annað tækifæri til viðbótar við þetta.

Nú hefur að auki komist upp að viðskiptaráðherrann og Greger Larsson, eiginmaður hennar, eiga sveitasetur í Falsterbro í Svíþjóð sem skráð er á félag sem mun vera vistað í skattaskjólinu Jersey. Eins og það sé ekki nógu skaðlegt hefur að auki verið upplýst í sænskum fjölmiðlum í gær og í dag að þau hjón munu eiga íbúð í Cannes sem skráð er á mann að nafni Karl Larsson, en millinafn eiginmanns ráðherrans er Karl, greinilega til að fela eignir, eða látið er að því liggja í fjölmiðlum. Vandræðalegust varð þó uppákoman er Borelius sagðist ekki haft efni á öðru en greiða dagmæðrunum svart er upp komst að tekjur hjónanna voru þá um 16 milljónir sænskra króna.

Maria Borelius

Það má fullyrða að staða Mariu Borelius sé orðin svo veik að henni verði varla sætt mikið lengur, hneykslismálin séu orðin það mörg og erfið fyrir hana að hún standi þau ekki af sér. Forsætisráðherrann, sem sagðist veita henni eitt tækifæri, hefur sagt að nú muni lögmenn Hægriflokksins fara yfir mál ráðherrans og afla sér upplýsinga um þau og svo taka af skarið hvort henni sé sætt. Sænskir fjölmiðlar fjalla ekki um neitt annað en vandræðagang Borelius og fullyrða má að henni verði ekki sætt.

Að auki öllu þessu hefur verið upplýst að Cecilia Stegö Chilò, menntamálaráðherra, hafi ekki greitt afnotagjöld af sænska ríkisútvarpinu í heil 16 ár. Vart þarf að taka fram að Cecilia er æðsti yfirmaður sænska útvarpsins og því er þetta mjög pínlegt fyrir hana og stjórnina. Mun hún hafa leynt forsætisráðherranum þessu fyrir ráðherravalið. Einnig hefur komið í ljós að Maria Borelius hefur ekki greitt afnotagjöld eftir að hún flutti lögheimili sitt til Stokkhólms og annar ráðherra, Tobias Billström, hefur ekki greitt gjöldin heldur.

Fredrik Reinfeldt

Í ofanálag við allt fyrrnefnt hafa tveir ráðherrar viðurkennt að hafa reykt hass á árum áður og umhverfisráðherrann, Andreas Carlgren, er talinn ekki hafa greint rétt frá tekjum sínum til skattayfirvalda. Þetta er alveg ótrúleg staða og með ólíkindum hvernig þessir ráðherrar komust til forystustarfa. Ekki hefur mikil athugun allavega farið fram á þeim. Telja má fullvíst að Reinfeldt neyðist til að endurskoða tilvist nokkurra þeirra í ríkisstjórn.


mbl.is Fyrsta vikan var nýju sænsku ríkisstjórninni erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýrin

Mýrin

Síðustu daga hef ég verið að rifja upp kynnin af spennusögunni Mýrinni eftir Arnald Indriðason. Að mínu mati er þetta ein allra besta bók Arnaldar, virkilega vel skrifuð og inniheldur flotta spennufléttu. Nú á næstu vikum mun sagan Mýrin birtast okkur ljóslifandi í kvikmyndahúsunum, en kvikmynd Baltasars Kormáks eftir sögu Arnaldar verður brátt frumsýnd. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við.

Mýrin er vel rituð saga og það verður mjög áhugavert að sjá kvikmyndina. Þar munum við sjá rannsóknarlögreglumennina Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla ljóslifandi í fyrsta skipti. Öll höfum við sem lesið hafa bækurnar um þetta harðsnúna þríeyki í lögreglustörfunum séð þau fyrir okkur og gert okkur í hugarlund hvernig persónur þetta séu, utan við karakterlýsingarnar sem Arnaldur hefur fært okkur. Það verður merkilegt að sjá Ingvar E. Sigurðsson í hlutverk Erlendar Sveinssonar, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í hlutverki Elínborgar og Björn Hlyn Haraldsson sem Sigurð Óla. Hvort að þeim tekst að túlka persónur með þeim hætti sem ég ímynda mér þær verður spennandi að sjá.

Mér fannst valið á Ingvari E. í hlutverk Erlendar mjög merkilegt á sínum tíma, er Baltasar tilkynnti um leikaravalið. Í sannleika sagt hafði ég byggt mér upp tilhugsunina um Erlend sem annan karakter og nokkuð eldri en þetta. Ingvar er einn allra besti leikari landsins og hefur margoft sýnt okkur hvers hann er megnugur. Ég hef séð smá ljósmyndabrot úr kvikmyndinni og þar er Ingvar með skegg og gerður mun eldri en hann er. Væntanlega er óþarfi að efast um hvort honum gangi vel í hlutverkinu. En burðarhlutverk er þetta og það munu allir sem fara í bíó staldra við það hvernig Ingvar E. mun túlka Erlend, enda er hann með sess í huga okkar allra og mikils metinn sögupersóna.

Ég las Mýrina fyrst um jólin sem bókin kom út. Ég las hana algjörlega upp til agna þá þegar og las hana strax í gegn. Þetta er algjört meistaraverk, þó reyndar telji ég Grafarþögn og Kleifarvatn standa henni örlítið framar. En allar skapa þessar bækur magnaða heild og við munum vonandi sjá allar þessar bækur birtast okkur ljóslifandi á hvíta tjaldinu á næstu árum. Ég efast vart um að kvikmyndin Mýrin verður vel heppnuð og hlakka til að sjá hana.

Bloggfærslur 14. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband