Köld slóð

Köld slóð

Það eru spennandi íslenskar bíóvikur framundan. Í vikunni verður Mýrin, kvikmyndaútgáfa Baltasars Kormáks á samnefndri sögu Arnaldar Indriðasonar, frumsýnd í bíó. Búast má við áhugaverðri kvikmynd, enda sagan alveg mögnuð. Í síðustu viku sá ég trailerinn úr annarri íslenskri sakamálamynd sem verður frumsýnd fyrir árslok, Kaldri slóð. Það virðist vera mjög spennandi mynd, virkar mjög fagmannlega og vel gerð. Trailerinn var æsispennandi og greinilegt að þar er sögð mjög kröftug saga sem byggir upp spennuna stig af stigi.

Það er gleðiefni að við eigum völ á tveim svona frábærum íslenskum kvikmyndum á næstunni. Hef hlakkað mjög til þess að sjá Mýrina á hvíta tjaldinu eftir að ég vissi að hún yrði kvikmynduð, og vonandi er þetta bara sú fyrsta af fjölda kvikmynda eftir sögum Arnaldar um Erlend og samstarfsfólk hans. Trailerinn að Kaldri slóð vakti svo mikla spennu eftir henni, enda held ég að þessi gerð kvikmynda hérlendis sé að blómstra.

Fyrr á árinu var svo t.d. flott sjónvarpssakamálamynd Önnu Rögnvaldsdóttur, Allir litir hafsins eru kaldir, sýnd í Ríkissjónvarpinu. Hún var mjög fagmannlega og vel gerð í alla staði og flottur leikur var einn helsti aðall hennar. Gleymir enginn t.d. kaldrifjuðum leik Helgu E. Jónsdóttur í hlutverki morðingjans í spennufléttunni og flott að sjá þessa leikkonu blómstra í krefjandi og góðu hlutverki.

En þetta verða spennandi vikur fyrir okkur bíófíklana sem eru framundan. Þessar tvær væntanlegu spennumyndir lofa allavega mjög góðu.

Undarleg viðbrögð ráðherrans

Guðni Ágústsson

Það vekur mikla athygli en þó varla undrun almennings að Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, telji óþarft að fara að ráðleggingum Samkeppniseftirlitsins um að mjólkuriðnaðurinn eigi ekki að vera undanskilinn samkeppnislögum. Skv. fréttaumfjöllun í dag ætlar hann ekki að beita sér fyrir lagabreytingu þrátt fyrir ábendingar Samkeppniseftirlitsins. Mér fannst svar ráðherrans sem ég heyrði í fréttum í kvöld vera þess eðlis að undarlegt telst. Það vekur athygli að ráðherrann virði að vettugi svo afgerandi álit Samkeppniseftirlitsins og horfi algjörlega með öllu framhjá því.

Ég skil vel að Mjólka undrist ummæli og viðbrögð landbúnaðarráðherrans. Það var gleðilegt fyrir Mjólku að hafa sigur gegn Osta- og smjörsölunni vegna máls um verð á undanrennudufti. Þrátt fyrir afgerandi álit virðist landbúnaðarráðherrann alveg horfa framhjá meginniðurstöðum málsins og ábendingum Samkeppniseftirlitsins, þó mjög afgerandi sé. Þar kemur fram að lengra sé gengið í þessum málum hérlendis en er í Bandaríkjunum og Evrópu. Þó er ekki ætlað að breyta þessu með einfaldri lagasetningu. Það er leitt að ráðherrann horfi æ ofan í æ framhjá lykilstöðu mála.


mbl.is Mjólka undrast viðbrögð landbúnaðarráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli skekja sænsku stjórnina

Maria Borelius

Það er óhætt að segja að fáir urðu undrandi þegar að Maria Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í gær. Eins og ég skrifaði um í gærmorgun var hún flækt í hneykslismál sem voru bæði vandræðaleg og óverjandi fyrir sænsku ríkisstjórnina. Það var því óumflýjanlegt að hún myndi hrökklast frá völdum. Vandræði sænsku stjórnarinnar eru þó mun umfangsmeiri. Menningarmálaráðherrann sem er yfirmaður sænska ríkisútvarpsins hefur orðið uppvís að því að hafa ekki greitt afnotagjöld í 16 ár og má telja líklegt að staða hennar sé slæm líka. Eins og ég taldi upp í gær eru önnur hneykslismál í umræðunni, sem eru eiginlega með ólíkindum alveg.

Maria Borelius var aðeins viðskiptaráðherra í átta daga, sem hlýtur að teljast skemmsta ráðherraseta í sænskum stjórnmálum og þó víðar væri leitað. Það vekur bæði hneykslan og undrun að hún gæti fengið allt að eina milljón sænskra króna (rúmar 10 milljónir íslenskra) frá sænska ríkinu í bætur. Oftast nær hefur þessi regla ekki verið umdeild, en er það auðvitað í þessu tilfelli, enda var ráðherratíð Borelius engin rósaganga og ekki beint löng. Fræðilega séð er þetta möguleiki. Um fátt er nú meira talað í Svíþjóð en hvað muni gerast í þessu tilfelli, en svo mikið er víst að stjórn borgaralegu flokkanna má ekki alveg við fleiri hneykslum eftir brösuga upphafsviku.

Það mun hafa verið vinstrisinnaður bloggari sem kom upp um Borelius, gróf upp málin sem hún hafði í pokahorninu og opinberaði þau á vef sínum. Það er alveg ljóst að af öllum vandræðunum fyrstu viku þessarar ríkisstjórnar eru hneyksli Borelius alvarlegust, enda gjörsamlega óverjandi að öllu leyti fyrir borgaraflokkana og kom á viðkvæmasta mögulega tíma. Það má ræða mikið um pólitískt siðferði. Það er mjög merkilegt hversu mikið hefur verið um afsagnir sænskra ráðherra t.d. í gegnum tíðina. Það má kannski telja að pólitískt siðferði sé þar meira og eftirlit jafnframt strangara með því sem er rétt og rangt. Endalaust má ræða um þau mál.

En máttur bloggsins er orðinn óumdeilanlega mikill. Það leikur enginn vafi á því að krafturinn í bloggskrifum er mikill og ég held að þetta sé fyrsta alvöru dæmi þess að stjórnmálamaður hrökklast frá valdamiklu embætti vegna bloggskrifa um pólitískt hneyksli. Annars vitum við öll að bloggskrif eru máttug og þau skipta máli, það er mjög einfalt.

mbl.is Viðskiptaráðherra Svíþjóðar segir af sér eftir aðeins eina viku í starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Norðausturkjördæmi í nóvember

Sjálfstæðisflokkurinn

Samþykkt var á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið var um helgina að Skjólbrekku í Mývatnssveit, að halda prófkjör til að velja frambjóðendur á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar að vori. Ákveðið er að prófkjör fari fram laugardaginn 25. nóvember og talning fari fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember, enda tekur tíma að flytja öll kjörgögn til Akureyrar til talningar. Á fundinum var kjörin kjörnefnd til að halda utan um allt prófkjörsferlið, en mikil vinna er framundan í þeim efnum, og var Anna Þóra Baldursdóttir, lektor á Akureyri, kjörin formaður kjörnefndarinnar.

Á fundinum tilkynntu níu um framboð í væntanlegu prófkjöri. Frambjóðendur eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Björn Jónasson, Kristinn Pétursson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Steinþór Þorsteinsson og Þorvaldur Ingvarsson. Arnbjörg, Kristján Þór og Þorvaldur gefa öll kost á sér í leiðtogasætið, en hinir stefna á neðri sæti. Samkomulag er um að binda allt að sex sæti í prófkjörinu. Búast má við að fleiri framboð gætu jafnvel borist en framboðsfrestur mun renna út þann 25. október nk, eða eftir tíu daga. Það stefnir því í spennandi prófkjör, en fólk frá öllum svæðum hefur tilkynnt um framboð.

Það eru viss tímamót fólgin í ákvörðun um prófkjör. Ekki hefur farið fram prófkjör við þingkosningar í norðurhluta Norðausturkjördæmis frá árinu 1987. Prófkjör fór fram í Austurlandskjördæmi árið 1999. Í aðdraganda kosninganna 2003 var rætt um valkostina og ákveðið þá að stilla upp, en þá voru fjórir þingmenn í kjördæmahlutunum gömlu og voru þeir í efstu sætum listans. Nú eru aðrir tímar. Halldór Blöndal, leiðtogi okkar, hefur ákveðið að hætta á þingi og við eigum bara einn þingmann sem ætlar í prófkjörið, en hún tók sæti á kjörtímabilinu, enda féll hún í kosningunum 2003. Það er eðlilegt og hið eina rétta að nú fái allir flokksmenn að velja listann. Það er gleðiefni. 

Á fundinum fór fram kjör í trúnaðarstöður. Var Guðmundur Skarphéðinsson endurkjörinn sem formaður kjördæmisráðsins. Var ég endurkjörinn til trúnaðarstarfa hjá kjördæmisráði flokksins í Norðausturkjördæmi og þakka ég það traust sem mér var sýnt með kjöri þriðja kjördæmisþingið í röð. Það eru spennandi tímar framundan og verður ánægjulegt að fylgjast með því sem gerist á næstu vikum í spennandi prófkjöri.

Ég verð ekki í kjöri í prófkjörinu svo að ég hef mjög frjálsar hendur á að skrifa um menn og málefni okkar hér á vefnum. Ég mun tjá skoðanir mínar mjög vel á því sem fram fer í þeim efnum á næstunni hér á vef mínum. Þetta verður lifandi vettvangur skrifa, eins og ávallt.

Bloggfærslur 15. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband