Hagnaður Google eykst til muna

Google

Eitt mesta þarfaþing hversdagsins er leitarvélin Google. Flest okkar förum varla orðið í gegnum daginn nema að leita á náðir Google, t.d. að gúggla upplýsingum, myndum eða öðru því sem við viljum kynna okkur. Það er merkilegt að sjá nú fréttir af hagnaði Google. Hann nærri því þrefaldaðist á þriðja ársfjórðungi ársins 2006 og nemur 733 Bandaríkjadölum, eða rúmum fimmtíu milljörðum króna íslenskra. Á þriðja ársfjórðungi var hagnaðurinn nærri því 381 milljón dala. Þetta er því 92% aukning milli ára.

Þetta er ekkert smábatterí orðið semsagt. Þegar að Google var stofnað í september 1998 var það smotterísbissness nokkurra manna, lítið einkafyrirtæki. Höfuðstöðvar þess eru í Mountain View í Kaliforníu og þar vinna yfir 8000 starfsmenn. Google hefur þroskast hratt á þessum tíu árum, bara seinustu fjórum, ef út í það er farið, og eflst við hverja uppbyggingu tölvuiðnaðarins og styrkleika hans. Þessar tölur um stöðuna milli ársins 2005 og 2006 segir allt sem segja þarf um stöðuna nú. Þeir sem vilja kynna sér sögu Google geta litið á þessa vefslóð.

mbl.is Hagnaður Google eykst um 92% á þriðja ársfjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný útgáfa IE vafrans

IE-vafrinn

Heldur betur breyting á Internet Explorer-vafranum sem kynntar voru í dag. Fyrstu breytingarnar á honum að ráði í heil fimm ár. Öryggismál og útlit verið bætt til mikilla muna og margt gert með hætti Firefox, t.d. hægt núna að skoða síður í flipum í stað nýrra glugga. Það er svo sannarlega mjög til bóta. Í heildina því góð breyting og til batnaðar að nær öllu leyti.

mbl.is Ný útgáfa Internet Explorer vafrans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oasis heiðruð

Oasis

Jæja, þá á að fara að heiðra Oasis á næstu Brit-verðlaunum. Kemur ekki á óvart, enda ein besta hljómsveit Breta síðustu áratugina. Man vel þegar að hún varð fyrst fræg að ráði fyrir rúmum áratug. Þá voru fylkingar okkar Íslendinga, jafnt og Breta, í hvort að við fíluðum Oasis eða Blur. Svona svipað og áratug enn þar áður þegar að bitist var um hvor væri flottari Duran Duran eða Wham. Vilja þeir sem fíluðu Wham þá enn merkja sig því klístraða bandi? Ég var alltaf Oasis-maður, þoldi enda aldrei Blur í hreinskilni sagt. Oasis á mörg flott lög, ætli Don´t Look Back in Anger og Wonderwall standi ekki efst í mínum huga. Eðalband.


mbl.is Oasis verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleggjan reiðir til höggs

Kristinn H.

Það kemur fáum að óvörum að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, a.k.a. Sleggjan, tilkynni nú um leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Fram fer póstkosning allra flokksmanna á svæðinu. Það var mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar.

Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á því kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.

Auk þeirra tveggja hefur Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 1. sætið, en hún nefnir hið annað með í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á póstkosningunni verður væntanlega Kristinn H. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.

Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs varð algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.

mbl.is Sækist eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmaður neytenda í þingframboð

Gísli Tryggvason

Nú hefur Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, tilkynnt um framboð sitt í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í kraganum. Það verður væntanlega nokkur slagur um það sæti, en listinn verður kjörinn á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins, eins og í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, virðist óumdeild sem leiðtogi listans. Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, skipaði annað sætið í síðustu kosningum en ætlar ekki í framboð nú, enda orðinn embættismaður í Kópavogi og ætlar að helga sig því.

Ég er handviss um að Gísli Tryggvason er heiðursmaður, eins og hann á ættir til. Hann er vel ættaður inn í Framsókn. Faðir hans, Tryggvi Gíslason, var skólameistari MA í áratugi og föðurbróðir hans, Ingvar Gíslason, var þingmaður Framsóknarflokksins hér á Norðurlandi um árabil og menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-1983. Það er nú svo að ég skil ekki algjörlega til fulls þennan titil talsmaður neytenda.

Er þetta talsmaður minn og þinn, lesandi góður, á neytendamarkaði? Botna ekki í þessu fimbulfambi. Er þetta ekki bara enn ein staðan sem er sett fram til að dekka framsóknarmenn hjá hinu opinbera. Kannski harkalegt mat, en hvað með það. En getur talsmaður neytenda farið í þingframboð og verið talsmaður á meðan? Þegar að stórt er spurt verður oft skelfilega fátt um svör.

mbl.is Gísli Tryggvason í framboð fyrir Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið

Ágúst Ólafur

Á sama klukkutímanum og ég skrifaði hér og undraðist að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefði ekki enn tilkynnt framboð sendi hann frá sér tilkynningu um framboð í fjórða sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Með því tekur hann slaginn við Mörð Árnason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Helga Hjörvar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Það verður mikill hörkuslagur um þetta sæti greinilega og verður spennandi að sjá hver hreppir það og hvernig næstu menn raðast. Þetta verður greinilega spennuþrungið prófkjör sem áhugavert verður að fylgjast með.

mbl.is Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilkynning Marðar - beðið eftir Stefáni og Ágústi

Mörður

Nú styttist í að framboðsfrestur renni út í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer þann 11. nóvember nk. Nú hefur Mörður Árnason, alþingismaður, tilkynnt um framboð sitt í 4. - 6. sætið. Það er varla undrunarefni að þingmaður er hefur setið eitt tímabil vilji vera lengur, en Merði hafði mistekist naumlega bæði í kosningunum 1995 og 1999 að komast á þing. Það verður fróðlegt að sjá honum að muni ganga. Mikill fjöldi hefur gefið sig upp og orðinn þröngt setinn bekkurinn um 4.-6. sætið. Sú fyrsta til að gefa sig upp var Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi, og margir bæst svo við. Nýlega tilkynnti þó Gylfi Arnbjörnsson að hann hefði hætt við.

Stefán Jón Hafstein Ágúst Ólafur

Beðið er eftir ákvörðun Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, um framboð. Mikla athygli vekur að varaformaðurinn Ágúst Ólafur hafi ekki enn gefið upp á hvaða sæti hann stefnir í væntanlegu prófkjöri, en það er öllum ljóst að fylgismenn Ingibjargar Sólrúnar flykkjast um sætin neðan við fjórða og fáir líta svo á að þeir eigi að bakka frá fyrir varaformanninn. Staða hans virðist vera mjög viðkvæm á þessu stigi.

Talað hefur verið um væntanlegt þingframboð Stefáns Jóns allt frá prófkjöri Samfylkingarinnar í febrúar. Þar missti Stefán Jón leiðtogastöðu sína hjá flokknum í borgarmálunum og hefur síðan horft í aðrar áttir, og það mjög skiljanlega. Þegar er Steinunn Valdís, sem var borgarstjóri síðustu misseri R-listans við völd, komin í þingframboð og vill halda í landsmálin, enda ekki áhugavert fyrir hana að vera í minnihlutaflokki undir forystu Dags B. Eggertssonar. Sama virðist vera með Stefán Jón. Talið er ansi líklegt að hann fari fram og tilkynni það í dag eða á morgun.

mbl.is Mörður sækist eftir 4.-6. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innanlandsflug hjá Iceland Express

Iceland Express

Mjög góð tíðindi að Iceland Express stefni að því að halda í innanlandsflugið. Ætlað er að fljúga sex sinnum á dag til Akureyrar og fjórum sinnum á dag til Egilsstaða. Stefnt er að því að bjóða upp á 30-40% lægri fargjöld en okkur er boðið upp á hjá Flugfélagi Íslands. Ekki veitir af að lækka flugfargjöld á innanlandsmarkaði, en það er rándýrt að fljúga innanlands og telst hreinn og klár munaður. Ekkert nema gleðiefni að þetta verði svona og altént fagna ég innkomu Iceland Express á þennan markað.

mbl.is Innanlandsflug hjá Iceland Express næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður morgunþáttur

Hrafnhildur og Gestur Einar

Það er alltaf notalegt að vakna snemma á morgnana með Morgunútvarpi Rásar 2, þar sem þau Gestur Einar Jónasson og Hrafnhildur Halldórsdóttir ráða ríkjum. Fínt morgunspjall þar, góð viðtöl og lög spiluð. Gestur Einar er auðvitað staðsettur hér á Akureyri en Hrafnhildur sunnan heiða. Það er vissulega gott að Gestur Einar er kominn aftur á góðan stað í dagskránni. Hann var tekinn af dagskrá fyrir um ári og falinn einhversstaðar á Morgunvakt Rásar 1 og heyrðist mjög lítið í honum. En nú er kominn með sinn sess. Einhver gárunginn sagði eitt sinn að hann gæti ekkert annað en talað um veðrið á Akureyri og eldgömul lög, en hann er nú betri en það held ég.

Ég veit það mjög vel að gott er að fara í viðtal til Gests Einars. Sjálfur fór ég í nokkuð eftirminnilegt viðtal við hann í febrúar. Þar ræddum við mál, sem sennilega telst það stærsta á minni ævi á þessu ári, og við fórum yfir allar hliðar þess. Sjaldan eða aldrei hef ég heyrt meiri viðbrögð á einu né neinu, en þetta viðtal tókst mjög vel. Það var ánægjulegt að fara yfir sína hlið á því máli með Gesti Einari. Leist vel á útkomuna úr viðtalinu, enda heyrði ég ekkert annað en að viðtalið hefði tekist vel og þar hefði verið farið mjög vel yfir stöðu mála. Gestur Einar kom einhvernveginn með réttu spurningarnar og þetta varð áhugavert viðtal, að mínu mati allavega.

En já, það er fátt betra á góðum morgni en hlusta á þennan þátt og ég hlusta ekki á annað fyrst á morgnana. Mjög gott yfir kaffibollanum og kornflögum á kafi í mjólk.

Bloggfærslur 19. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband