2.10.2006 | 23:59
Góð staða í Norðaustri

Var að fara yfir greiningu á nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Mikið gleðiefni að sjá þá könnun. Staðan í Norðausturkjördæmi er góð fyrir okkur sjálfstæðismenn. Þar mælumst við með 32%, Samfylking og VG með 23%, Framsókn með 20% og Frjálslyndir með 1%. Gott mál. Þetta myndi færa okkur fjóra menn væntanlega hér í Norðaustri að vori. Framsókn fékk fjóra árið 2003 með 32% fylgi. Við erum allavega langstærst í mælingu hér og gleðiefni að Samfylking er á pari við VG og aðeins örlitlu stærri en Framsókn á svæðinu. Það er greinilegt að Samfylkingin er í einhverri krísu hér, enda hafa þeir eflaust talið sig vera stærri en þetta samanborið við Framsókn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2006 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 17:29
Þingeyingar slá niður hugmyndir Ómars

Þegar að Ómar Ragnarsson kynnti hugmyndir sínar á blaðamannafundi fyrir nokkrum vikum um þjóðarsátt í málefnum Kárahnjúkavirkjunar talaði hann um að orku í álver á Reyðarfirði mætti fá með öðrum hætti en með virkjuninni við Kárahnjúka. Allt í einu var hann orðinn talsmaður þess að finna álverinu aðra möguleika til að fá orku. Það var eflaust eitt af síðustu hálmstráunum, enda getur hann varla verið trúverðugur nema tala um álverið sem veruleika. Meginandstaða hans liggur við virkjunina og þar hefur barátta hans legið að mestu. Nefndi hann aðspurður um málið með þessum hætti að orku í álverið mætti fá frá Norðausturlandi og talaði þar um Þeistareykja sem dæmi.
Ég sagði í skrifum hér þegar í síðustu viku þegar að Ómar nefndi þetta að um væri að ræða óraunveruleika. Þingeyingar vildu ekki að orka á sínu svæði færi í álver staðsett við Eyjafjörð og þaðan af síður vildu þeir orkuna alla leið austur til Reyðarfjarðar til að létta á stöðu mála þar. Enda verður það ekki svo. Þingeyingar biðu ekki lengi boðanna og slógu niður hugmyndir Ómars Ragnarssonar með afgerandi hætti nú um helgina. Stjórn og trúnaðarmannaráð Verkalýðsfélags Húsavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að vandi eins byggðarlags verði ekki leystur með því að velta honum yfir á annað landssvæði.
Þetta er eins kristalskýrt og það getur best orðið: orka Þingeyinga mun verða nýtt til atvinnuuppbyggingar þar. Í fréttum RÚV um helgina sagði stjórnarformaður Þeistareykja, sem er orkufyrirtæki Þingeyinganna, að háspennumannvirki austur á land yrði verulegt umhverfisslys og náttúruverndarsinnar á höfuðborgarsvæðinu ættu að líta sér nær. Þetta var nett skot til Ómars Ragnarssonar og allra þeirra sem gengu með honum í síðustu viku.
En já, ég vissi að Þingeyingar myndu ekki bíða lengi boðanna með að láta í sér heyra og minna á að afstaða þeirra er skýr hvað það varðar að orkan verður nýtt til uppbyggingar á því svæði. Svo mikið þekki ég Þingeyinga að ég veit að þetta er afstaða þeirra til málsins og hún er skiljanleg. Verð þó að segja eins og er að ég varð hissa á Ómari Ragnarssyni að halda að þessi tillaga hans félli í kramið meðal Norðanmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 14:41
Reffileg Jóhanna stýrir þingfundi
Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrði því fyrsta þingfundi við setningu 133. löggjafarþings löggjafarsamkundunnar. Jóhanna stýrði fundi með reffilegum og flottum hætti áðan, en ég fylgist með öðru auganu með þingsetningu sem nú stendur yfir í Alþingishúsinu. Jóhanna hefur verið, rétt eins og Halldór Ásgrímsson var áður og svo margir fleiri sem lengi hafa verið, reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978 og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim.
Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.
Jóhanna stóð sig mjög vel við stjórn fundarins og var reffileg sem ávallt. Hún flutti hugljúf minningarorð um Magnús H. Magnússon, fyrrum ráðherra, varaformann Alþýðuflokksins og bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem lést í sumar. Magnús, sem var faðir Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, var einn hinna litríku höfðingja Alþýðuflokksins og það var því táknrænt og flott að það skyldi verða Jóhanna, sem varð eftirmaður hans á varaformannsstóli Alþýðuflokksins árið 1984, sem flutti þessi minningarorð.
Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu með sínum hætti við þingsetningu. Fannst ummæli hans um utanríkismál athyglisverð í ljósi þess úr hverju hann er gerður í stjórnmálum og þær skoðanir sem hann lét í veðri vaka á þingmannsárum sínum. Ég hef aldrei metið forseta Íslands utanríkispostula og ekki breytti þessi ræða þeim skoðunum. Mér fannst hann þó tala mjög virðulega um Halldór Ásgrímsson sem stjórnmálamann. Eins og Ólafur Ragnar og Jóhanna sögðu réttilega er Halldór einn risanna í stjórnmálasögu landsins, eftir langan ráðherraferil sinn, og hann mun hljóta þann sess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 12:48
Alþingi Íslendinga sett í dag

Alþingi Íslendinga verður sett nú eftir hádegið. Jóhanna Sigurðardóttir, starfsaldursforseti Alþingis, mun stýra fundi fram að kjöri forseta Alþingis. Sólveig Pétursdóttir mun þá taka kjöri sem þingforseti, en þetta verður síðasti þingvetur Sólveigar, en hún hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Síðdegis í dag verður svo fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar formlega kynnt, en Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flytur svo stefnuræðu sína annaðkvöld og í kjölfarið verða umræður um hana í þingsal.
Þetta verður átakaþing, prófkjör flokkanna standa fyrir dyrum nú á næstu vikum. Öruggt má teljast að fjöldi þingmanna muni annaðhvort þurfa að berjast harðri baráttu fyrir sætum sínum við öfluga nýliða eða jafnvel falla í prófkjörunum. Það má allavega fullyrða að harðir prófkjörsslagir setji mark sitt á þingstörfin, en flest prófkjör flokkanna verða búin fyrir lok nóvembermánaðar. Þessi mánuður og sá næsti verða því mjög beittir í pólitík flokkanna, sérstaklega þeirra tveggja stærstu. Það má altént fullyrða að tíminn fram að jólum verði snarpur og spennandi.
2.10.2006 | 11:37
Guðmundur Hallvarðsson gefur ekki kost á sér
Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður, sendi í morgun út fréttatilkynningu þar sem fram kemur sú ákvörðun hans að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Guðmundur hefur setið á þingi frá árinu 1991, og því verið á Alþingi í fjögur kjörtímabil. Guðmundur hefur verið formaður samgöngunefndar Alþingis frá afsögn Árna Johnsen af þingi fyrir fimm árum. Guðmundur hefur allan sinn þingferil verið fulltrúi verkalýðsarms flokksins á þingi, en hann hefur í áratugi verið forystumaður innan Sjómannahreyfingarinnar og verið málsvari þeirra, t.d. innan Hrafnistu og í raun tók hann við af Pétri Sigurðssyni sem fulltrúi þeirra á lista flokksins í borginni.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að á framboðslista flokksins í borgarkjördæmunum komi fulltrúi úr þeim kjarna til framboðs. Það stefnir í spennandi prófkjör, nú þegar hafa margir nýir frambjóðendur gefið kost á sér. Fyrir liggur að tveir af níu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í borginni hætta: Guðmundur og Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis. Það verður því eflaust uppstokkun og telja má öruggt að mikil breyting verði. Ekki er langt í prófkjörið, en það verður eftir innan við fjórar vikur og framboðsfrestur rennur út í vikunni.
![]() |
Guðmundur Hallvarðsson hættir á þingi í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |