Notaleg og góð helgi í Reykjanesbæ

Var að koma heim til Akureyrar eftir notalega og góða helgi með samherjum í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, en þar var haldið málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þingið tókst mjög vel, góður andi í liðinu meðan á þinghaldi stóð og mikið skemmt sér, eins og ungliða er von og vísa. Það er alltaf gott að koma heim, en helgin gekk vel og mikið spjallað og farið yfir stjórnmálin þessa helgina. Það eru miklir spennutímar í stjórnmálunum og mikið framundan næstu vikurnar.

Þinghaldi lauk síðdegis. Áður en ég hélt heim með kvöldflugi til Akureyrar leit ég við á kosningaskrifstofu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í Skúlagötu og átti gott spjall við Björn um fjölda mála, en mikið er um að vera í stjórnmálum og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður um næstu helgi. Var ánægjulegt að ræða við Björn og Óskar Friðriksson, sem þar var staddur, en hann hefur alla tíð verið Sjálfstæðisflokknum mikilvægur í innra starfinu.

Vil þakka öllum þeim sem voru á þinginu fyrir góða helgi og mikla skemmtun. Var virkilega gaman og við sem fórum höfðum gagn og ánægju af vinnu helgarinnar, stefnumótun og samhentri vinnu sem þar fór fram. Kosningabarátta ungra sjálfstæðismanna er hafin af krafti. Bendi hérmeð á umfjöllun um stjórnmálaályktun málefnaþingsins.

Bloggfærslur 22. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband