24.10.2006 | 13:49
Meistaraverkið Mýrin
Í gærkvöldi fór ég í bíó og horfði á Mýrina, kvikmynd Baltasars Kormáks, byggða á þekktri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar. Mýrin, sem kom út árið 2000, er ein víðlesnasta íslenska skáldsaga hérlendis á síðustu árum og mikil eftirvænting verið eftir myndinni. Það er óhætt að segja að Baltasar Kormákur og hans fólk valdi unnendum bókarinnar um Erlend Sveinsson, lögreglumann, og aðstoðarfólk hans, þau Sigurð Óla og Elínborgu, ekki vonbrigðum. Vart er feiltónn í myndinni og allur umbúnaður hennar er með því besta sem þekkist. Aðall hennar er svo stórfenglegur leikur þeirra frábæru leikara sem þar fara svo sannarlega á kostum.
Á ósköp venjulegum degi í Reykjavík finnst lík tæplega sjötugs karlmanns á heimili hans í Norðurmýrinni. Morð hefur verið framið og þau Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli byrja að fara yfir fortíð mannsins lið fyrir lið. Það sem virðist vera ósköp venjulegt morðmál, ekki merkilegri en flest sakamál, vindur hægt og rólega upp á sig. Brátt koma í ljós slitrur úr stærri heildarmynd, upp rifjast gömul og gleymd saga sem enn sér ekki fyrir endann á og vísar hægt og rólega í áttinni að því hversvegna maðurinn var myrtur og hver fortíð hans var. Erlendi verður fljótlega ljóst að maðurinn var enginn engill og átti að baki sögu sem er engan veginn einföld og augljós.
Mýrin heillaði mig allt frá fyrstu stund, þegar að ég las bókina fyrir nokkrum árum. Ég las hana í gegn á einni kvöldstundu og langt fram á nóttina. Þetta var bók sem heillaði lesandann. Það hafa öll verk Arnaldar Indriðasonar gert. Þetta eru snilldarlega ritaðar sakamálasögur sem færa okkur raunsanna og heiðarlega sýn á íslenskan veruleika og mannlíf í sinni bestu og jafnframt dekkstu mynd. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig hægt og rólega, svo úr verður mósaík áhugaverðrar atburðarásar.
Kvikmyndatakan í Mýrinni er með því allra besta sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Gríðarlega vel gerðar senur og eftirminnilegustu augnablikin verða stórbrotin. Þarna er fagmannlega haldið á málum og úr verður mjög glæsilegur heildarrammi utan um meistaraverk. Tónlistin er glæsileg. Aldrei fyrr hefur karlakórsmenningu landans verið gert hærra undir höfði. Karlakórssöngur ber myndina uppi. Mér fannst það heillandi og vel til fundið að fá þennan þjóðlega og flotta ramma utan um þennan hluta myndarinnar. Sérstaklega er notalegt að heyra gömul íslensk lög í þessum búningi og lokaatriði myndarinnar er stórfenglegt. Vel gert hjá Mugison.
Leikurinn er stórfenglegur. Ingvar E. Sigurðsson glæðir persónu Erlendar Sveinssonar lífi. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Fyrirfram hafði ég séð Erlend fyrir mér eldri en tel túlkun Ingvars svo vel gerða að vart verður betur gert. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af slíkri snilld að hér eftir verður ekki annar í hugskoti lesandans en Ingvar E. í hlutverki Erlendar. Meistaralega gert. Þessi glæsilega frammistaða færir Ingvar E. Sigurðsson endanlega í flokk allra bestu leikara landsins.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson standa sig mjög vel í túlkun sinni á Elínborgu og Sigurði Óla. Þau birtast ljóslifandi úr sögubókunum og marka sig í hlutverkunum mjög vel. Björn Hlynur er meira áberandi í myndinni og er skondið að sjá hvernig hann túlkar viðkvæmu strengina í Sigurði Óla, sem er ekki beint sami harðjaxlinn og yfirmaður hans, Erlendur. Þórunn Magnea Magnúsdóttir er alveg stórfengleg í túlkun sinni á Elínu, sem stendur mörgum áratugum eftir sorglegt fráfall systur sinnar og dóttur hennar, Auðar, enn vörð um minningu þeirra og er mjög beisk vegna örlaga þeirra. Svipmikil túlkun Þórunnar Magneu er glæsileg.
Ágústa Eva Erlendsdóttir vinnur sannkallaðan leiksigur í hlutverki nöfnu sinnar Evu Lindar Erlendsdóttur, sem er langt leidd í heim eiturlyfja og óreglu. Hún túlkar örvæntingu hennar og angist með glæsibrag. Ágústa Eva fer langt út úr heimi glæsidömunnar Silvíu Nætur og færir okkur glæsilega sorglegan heim Evu Lindar. Virkilega flott túlkun og gaman að sjá hana blómstra í krefjandi og góðu hlutverki. Söngkonan gamalreynda Guðmunda Elíasdóttir, sem lítið sem ekkert hefur sést af síðustu árin, birtist okkur glæsilega í hlutverki skagfirsku gömlu konunnar, móður Grétars. Flott sena með henni, því miður sú eina. Flott túlkun á gamalli kjarnakonu.
Theódór Júlíusson færir okkur misyndismanninn Elliða með svipmiklum hætti. Það er merkilegt að sjá Theódór sem hefur jafnan leikið dagfarsprúða og rólega menn leika þennan útúrlifaða og stórhættulega glæpamann með öllu sem til þarf. Theódór var flottur í hlutverki föðurins í Englum alheimsins en er enn flottari í þessu hlutverki, úr gagnstæðri átt. Flott túlkun, Theódór er einn af senuþjófum myndarinnar. Kristbjörg Kjeld á lágstemmd en flott augnablik í sinni túlkun. Hæst ber það í lokaatriðinu sem hún birtist í. Þorsteinn Gunnarsson birtist okkur eitt augnablik í hlutverki hins myrta og úr verður eftirminnileg sena og virkilega vel leikin af hans hálfu.
Atli Rafn Sigurðarson er dimmur og eftirminnilegur í harmrænu hlutverki Einars. Flott túlkun á manni sem er í örvilnan eftir að hafa komist að fortíð sinni, móður sinnar og síðast en ekki síst uppgötva hvers vegna dóttir hennar féll frá langt um aldur fram. Auk fyrrnefndra standa Eyvindur Erlendsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þór Tulinius og Jón Sigurbjörnsson sig vel í litlum en þó þýðingarmiklum hlutverkum. Sérstaklega var gaman að sjá Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, eina örskotsstund að leika sjálfan sig í viðtali en hluti myndarinnar er auðvitað tekinn í húsnæði fyrirtækisins í Reykjavík.
Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það er ekki hægt annað en að hrósa Baltasar Kormáki fyrir flotta kvikmynd, sem hefur einfaldlega allt sem spennumynd þarf að prýða. Spenna myndarinnar snýst ekki allan tímann um lausn morðgátunnar sem slíkrar, heldur flókinnar atburðarásar sem fær sorglegan endi er yfir lýkur. Það er ekki hægt annað en hvetja landsmenn alla til að fara í bíó og sjá myndina. Virðist þjóðin öll vilja sjá söguna birtast sér ljóslifandi og má búast við að hún slái öll áhorfsmet í kvikmyndahúsum síðustu ára og gæti alveg farið að hún muni að lokum fara nærri áhorfsmeti myndarinnar Með allt á hreinu.
Mýrin er ein allra besta íslenska kvikmyndin sem ég hef séð. Ég var altént mjög ánægður og vonast svo sannarlega eftir því að framhald verði á, enda viljum við landsmenn sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þessi mynd lofar allavega mjög góðu. Þetta er einn af mestu hápunktum stormasamrar íslenskrar kvikmyndasögu.
![]() |
Hátt í 16 þúsund manns hafa séð Mýrina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 11:44
Halldór tilnefndur í norræna toppstöðu

Flest bendir nú til þess að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, verði tilnefndur af Íslands hálfu í embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Mikið hefur verið hugleitt eftir að Halldór hætti þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn hvað hann myndi takast á hendur og virðist svarið við því vera að koma í ljós. Það hefur aldrei gerst áður að Íslendingur gegni þessu embætti og virðist stefna í átök milli Íslendinga og Finna um hnossið. Halldór, sem var forsætisráðherra í tvö ár, utanríkisráðherra í rúm níu ár (lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður), og að auki sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra, hlýtur að teljast hafa sterka stöðu í þessum efnum.
Halldór Ásgrímsson var það lengi í stjórnmálum að víða ná þræðir hans í samskiptum við forystumenn norrænna stjórnmála. Það bendir nú allt til þess að Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda hafi í hyggju að tilnefna Halldór til þessa embættis og hann verði valkostur okkar. Fyrir liggur nú þegar að íslensk stjórnvöld vilji fá sinn fulltrúa í embættið og má telja Halldór með mjög sterka stöðu í þeim efnum eftir langan pólitískan feril. Virðist grunnvinna þessa alls vera komin nokkuð langt á leið, en fyrirhugað er að valið fari fram eigi síðar en á Norðurlandaráðsþingi innan skamms.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu og hvort að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Fari svo yrði hann sem slíkur staðsettur í Kaupmannahöfn og þyrfti því að huga að búferlaflutningum yfir hafið í borgina við sundin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 10:20
Slobodan Milosevic enn með kosningarétt?
Það vekur nokkra athygli að heyra af því að Slobodan Milosevic, fyrrum forseta Serbíu, skyldi hafa verið sent bréf þar sem hann eigi að hafa verið boðaður til kjörstaðar í óbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Kosovo. Það hefur varla farið framhjá neinum að Milosevic lést í varðhaldi í Haag 11. mars sl. Það má því fullyrða með nokkuð mikilli vissu að ekki reyni mikið á þessa áminningu til látins manns um kosningarétt hans. Þetta eru allavega fréttir sem eftir er tekið, það er ekki hægt að segja annað.
![]() |
Milosevic boðið að kjósa um framtíð Kosovo |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 00:44
Umræður frambjóðenda í Reykjavík



Það stefnir í spennandi lokasprett í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Örfáir dagar til stefnu og flestir flokksmenn bíða spenntir eftir úrslitunum, hvernig listar flokksins verði skipaðir í borgarkjördæmunum í kosningunum að vori. Í kvöld ræddu þeir frambjóðendur sem bjóða sig fram í annað sæti framboðslistans, til forystu í öðru kjördæmi borgarinnar, stöðu mála og prófkjörsbaráttuna almennt í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2. Það var fróðlegt að sjá Björn Bjarnason, Guðlaug Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal í þessu viðtali.
Ég hef margoft sagt það hér að ég vona að Björn Bjarnason fái umboð til forystuverka. Hann á að baki langan feril í stjórnmálum og farsæl verk á mörgum sviðum sem vert er að minnast í vali á borð við þetta. Ég hef lengi þekkt Björn Bjarnason og metið hann mikils. Það er hið eina rétta að hann fái góða kosningu í leiðtogasæti eftir öll sín góðu verk fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áranna rás. Allir eru þessir frambjóðendur þingmenn sem hafa unnið lengi fyrir flokkinn og njóta stuðnings flokksmanna fyrir þau verk til þingstarfa áfram og eiga það skilið.
Mestu skiptir þó reynsla og þekking Björns til forystu. Ég vona að hann fái gott umboð í þessu prófkjöri og tek í sjálfu sér undir það sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í Valhöll á laugardag um pólitísk verk Björns Bjarnasonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)