Kveðja frá Völu

Valgerður Bjarnadóttir

Mér þótti vænt um að lesa góða kveðju frá Völu, Valgerði Bjarnadóttur, í gestabók minni hér á vefnum. Það er gott að finna það alltaf að gott fólk í stjórnmálum les það sem maður skrifar um daginn og veginn. Það er allavega svo að maður fær bæði komment á skrifin og finnur góðar óskir víða að og heyrir í öðrum með þeirra skoðanir á þeim skoðunum sem maður lætur flakka hér í gegnum dagsins annir.

Vala er mjög öflug kona. Kynntist henni í forsetakosningunum 1996 þegar að hún stýrði með röggsemi kosningabaráttu Péturs Kr. Hafsteins. Það var lífleg og spennandi barátta. Þó að hún hafi tapast á endanum var hún háð af krafti og efldum hug allra sem þar unnu til stuðnings þeim mikla sómamanni sem í frontinum var. Þar kynntist ég fyrst og fremst að Vala er kona krafts og einbeitni, en hún er komin af góðu fólki og verið öflug í sínum verkum.

Nú er hún í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, stefnir á öruggt þingsæti. Ég er ekki Samfylkingarmaður en ég ætla mér þó að skrifa það hér og nú á þessum vettvangi að ég vona að Vala nái sínum markmiðum. Þar fer röggsöm og öflug kona sem á heima í pólitík.

Hún hefur nú opnað góða bloggsíðu. Hvet lesendur til að líta þangað og lesa.

Framboðsfrestur liðinn - hugleiðingar mínar

falkinn1

Framboðsfrestur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi rann út nú síðdegis. Síðast þegar að ég vissi höfðu níu einstaklingar gefið kost á sér. Kjörnefnd mun, eftir því sem mér skilst, ekki hittast fyrr en á laugardag til að staðfesta endanlega öll framboð og ganga frá öllum málum tengdum þessu prófkjöri, enda er kjörnefndarfólk dreift um allt kjördæmið. Prófkjör mun verða haldið laugardaginn 25. nóvember, eftir sléttan mánuð og mun talning fara fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember. Það mun væntanlega verða mjög spennandi talning og áhugaverðar línur sem að verða að henni lokinni.

Ég tilkynnti hér á vefnum 15. október sl. að ég hefði ekki áhuga á að gefa kost á mér í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi. Það er langt síðan að ég tók þá ákvörðun. Ég hugleiddi málið með mér í sumar og komst að því að ég ætti að horfa í aðrar áttir. Það er mjög dýrt að fara í svona slag, að ég tel í prófkjöri með þeim hætti sem útlistað er í prófkjörsreglum okkar, með almennilegum hætti svo vel eigi að vera og kostar gríðarlegan tíma, bæði til ferðalaga og annarra hluta. Þetta er að mjög mörgu leyti nokkuð harður heimur og þarf gríðarlegan áhuga og kraft til að halda í allar hliðar þess heims.

Á þessum tímapunkti finn ég ekki þörfina og áhugann til slíks framboðs og tel því óraunhæft að halda í þetta. Auk þess finnst mér mun vænna um þann heim sem ég hef byggt mér hérna með því að vanrækja hann og tel mig mun betur kominn sem beittan stjórnmálaskýranda inn í eigin flokk og í aðrar áttir. Það á betur við mig. Ég fór í prófkjör fyrr á þessu ári og bauð mig fram sem valkost hér. Þær hugmyndir og hugleiðingar sem ég bauð þá fram hittu ekki í mark. Það sem ég bauð upp á var valkostur af því tagi sem persóna mín hefur einkennst af. Þannig að ég tel framboð nú ekki vænlegan kost og var fljótur að afskrifa það.

En það er mín ákvörðun. Ég hef nú frelsi til að greina stöðu mála innan eigin flokks og annarsstaðar með öðrum hætti og það er valkostur sem ég hef valið sjálfum mér og tek fagnandi. Heimsmynd mín er með þessum hætti og ég ætla mér að nota hana af miklum krafti. Þar á hugur minn heima þessa stundina. Ég geri meira gagn með því að standa utan beinnar stjórnmálaþátttöku og stunda pólitík frá mínum eigin grunni, en ekki annarra.

Málað yfir fallegt listaverk

Íþróttahúsið við Laugargötu

Á árunum þegar að ég var að alast upp bjó fjölskyldan mín við Norðurbyggð hér á Akureyri. Þaðan var nokkuð gott útsýni yfir að íþróttahúsinu við Laugargötu. Þá, og síðar, vakti athygli mína fallegt veggmálverk á íþróttahúsinu. Það var frumlegt og fallegt, eitt fallegu táknanna á svæðinu. Það var málað á árinu 1979, tveim árum eftir að ég fæddist og alla tíð síðan vakið athygli. Um var að ræða vinningstillögu úr samkeppni meðal nemenda í framhaldsflokki í málum við Myndlistaskólann á Akureyri.

Það hefur vakið nokkra athygli mína og fleiri sem búa hér á Brekkunni að nú hefur verið málað yfir þetta listaverk á vegg íþróttahússins. Í stað litafegurðar og fallegs verks er nú ósköp einfaldlega orðinn hvítmálaður ljótur veggur. Þetta er að mínu mati algjörlega til skammar fyrir alla hlutaðeigandi sem komu að því að mála yfir þetta. Í góðum pistli á Íslendingi, vef flokksins hér í bæ fer Helgi Vilberg, ritstjóri og skólastjóri Myndlistaskólans, yfir þetta mál með góðum hætti.

Bendi lesendum á að líta á þá grein.


Flott prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna í Rvk

Guðfinna Ásta Möller Sigga Andersen Dögg Pálsdóttir

Það er ánægjulegt að fylgjast með prófkjörsátökunum sem eru í gangi um allt land úr hæfilegri fjarlægð. Það er notalegt að geta sagt það sem manni finnst af krafti. Hef fylgst mjög með prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar eru kjördagar á föstudag og laugardag, úrslitastundin nálgast því óðfluga. Í prófkjörinu í nóvember 2002 var mikið talað um að sjálfstæðiskonur hafi fengið skell. Það er ekki óeðlileg ályktun á málum, enda komust aðeins Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller inn á topp tíu listann og í kosningunum um vorið komst aðeins Sólveig inn á þing, þó vissulega hafi Ásta komist svo á þing að nýju við brotthvarf Davíðs Oddssonar haustið 2005.

Mér finnst prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna að þessu sinni hafa verið litrík og fersk. Það eru viss tímamót að Sólveig Pétursdóttir er að hætta, hún er ekki í prófkjörinu og það eru því vissulega sóknarfæri fyrir nýjar konur að sækja fram og Ásta Möller fer sem sitjandi þingmaður fram til forystu. Allar konurnar sem fara fram núna eru frambærilegar og öflugar, hver á sinn hátt. Mér finnst prófkjörsbarátta þeirra og krafturinn sem sést í henni mjög fínn. Sérstaklega eru þær allar á réttri leið í vefmálum, en eins og allir alvöru stjórnmálaáhugamenn vita er vefsíða essential lykilatriði í svona kosningaslag, vilji frambjóðandi yfir höfuð ná að koma boðskap á framfæri.

Sérstaklega finnst mér mikill ferskleiki yfir prófkjörsbaráttu Sigríðar Á. Andersen og Guðfinnu S. Bjarnadóttur, sem eru báðar með prófkjörsskrifstofu í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Sigga hefur verið litrík og fersk með flotta litatóna í baráttunni og hressandi kraft sem skilar sér alla leið til þess sem með fylgist. Það er altént mitt mat. Hennar barátta er björt og hress, slær flotta lykiltóna sem skipta máli. Guðfinna fer fram að hætti menntakonunnar sem sækist eftir áhrifum á vettvangi stjórnmála, kemur með reynslu og sóknarfæri sem valkost fyrir flokkinn sinn. Hún er líka með tóna valfrelsi og skapandi umhverfis í baráttunni, tóna sem láta vel í eyrum okkar allra.

Ásta Möller býður reynslu fyrir kjósendur. Hún er sitjandi þingmaður, með mikla þekkingu á stöðu mála og virðist vera með góðan stuðning lykilfólks, t.d. er Ragnhildur Helgadóttir, annar kvenráðherra landsmanna og þekkt forystukona innan Sjálfstæðisflokksins um árabil, stuðningskona hennar og talar hennar máli af krafti. Það er styrkleiki fyrir Ástu að hafa Ragnhildi í sínum röðum, enda Ragnhildur virt forystukona frá fyrri tíð. Ekki finnst mér hafa komið nægilega vel fram hverja Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, styðji til forystu af hálfu kvennaarmsins. Sólveig hefur verið forystukona á listanum frá tímum Ragnhildar - hennar afstaða skiptir máli.

Dögg Pálsdóttir hefur verið með flottan vef og hressileg í prófkjörsslagnum. Dagbókin hennar er vel uppfærð á vefnum og hún veit vel hvaða áherslur eru réttar. Það voru margir hissa þegar að hún gaf kost á sér, enda er hún virtur lögfræðingur og þekkt fyrir verk sín á því sviði. Nú vill hún verða stjórnmálamaður í fremstu röð innan Sjálfstæðisflokksins og það verður fróðlegt að sjá hvort henni tekst að byggja sig upp með þeim krafti sem til þess þarf.

Altént stefnir í spennandi helgi. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig þessum konum muni ganga og með því verður fylgst þegar að tölurnar taka að berast síðdegis á laugardag. Ég vona að þeim gangi vel, enda eru þetta allt kjarnakonur sem verðskulda gott gengi í prófkjöri og verður fengur að í þingkosningum að vori fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Spenna í bandarísku þingkosningunum

Kosningar í USA

Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir hálfan mánuð. Staða repúblikana virðist vera mjög erfið og við blasa töpuð staða í fulltrúadeildinni og jafnt standi jafnvel í öldungadeildinni. Skoðanakannanir sem birtust um helgina lofa ekki góðu fyrir repúblikana altént og stefnir í erfiðan lokasprett, með þeim erfiðari fyrir flokksmenn til fjölda ára í kosningabaráttu vestan hafs. Í ljósi alls þessa kemur ekki að óvörum að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, boði til blaðamannafundar í Hvíta húsinu í dag til að fara yfir stöðu mála og svara spurningum fjölmiðlamanna um þau málefni sem hæst bera nú.

Það verður seint sagt að Bush forseti hafi haldið marga blaðamannafundi á tæplega sex ára forsetaferli sínum. Það hefur verið sjaldgæfur viðburður og jafnan þótt boða mikilvægi þess að forsetinn léti meira á sér bera til þess að efla flokk sinn með einum eða öðrum hætti. Það er öllum ljóst að Bush hefur látið mikið á sjá sem stjórnmálamaður. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Hann getur ekki haldið í aðrar kosningar og er því á lokaspretti sem stjórnmálamaður að mestu leyti. Það er oft hlutverk forseta í Bandaríkjunum í svona stöðu; hefur unnið tvær forsetakosningar og er með lamaða stöðu í almenningsálitinu eða þingið á móti sér.

Ósjálfrátt hallar undan fæti í svona stöðu. Þess vegna er æ mikilvægara fyrir forsetann að ná að halda inngripi inn í þingsalina, flokkur hans haldi þinginu. Ef marka má kannanir er staðan skelfileg sé litið á fulltrúadeildina og fátt virðist geta komið í veg fyrir valdaskipti þar nema hreint kraftaverk. Foley-málið hefur verið lamandi fyrir repúblikana ofan á margt annað og veikt stoðir þeirra sem máttu ekki við áfalli, trúaða hægrimenn sem þola ekki beint siðferðisbresti á borð það sem kom fram í því máli. Öldungadeildin virðist standa í járnum eins og nú horfir. Ef Bush missir völd í þingdeildunum syrtir verulega í álinn með stöðu hans lokasprett valdaferilsins.

Það eru því nokkrir örlagatímar í bandarískum stjórnmálum þessa dagana. Kosningabaráttan er að líða undir lok og þar kemur mæling á stöðunni núna. Það skiptir máli í forsetakosningunum 2008 þegar að eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sum átök kosninganna nú eru meira í fréttum en annað. Það verður mest horft væntanlega til Connecticut, þar sem að Joe Lieberman heyr baráttu ferilsins sem óháður við manninn sem felldi hann í forkosningu meðal demókrata í fylkinu í ágúst, Ned Lamont. Allar kannanir benda til sigurs Lieberman. Arnold Schwarzenegger og Hillary Rodham Clinton þurfa svo væntanlega ekki mikið að hafa fyrir endurkjöri.

Þetta verða kosningar sem fylgst verður með. Nú ræðst hvort Bush snýr vörn í sókn eður ei. Nái hann því ekki verða næstu tvö árin, endaspretturinn á stormasömum stjórnmálaferli, frekar vandræðalegar og erfiðar fyrir þennan sextuga harðjaxl frá Texas, sem heldur heim innan skamms en á þó nokkur mikilvæg misseri enn eftir sem húsbóndi í Pennsylvaníu-stræti 1600.


mbl.is Bush boðar til blaðamannafundar í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syrtir í álinn fyrir Verkamannaflokkinn

Tony Blair

Ný skoðanakönnun breska dagblaðsins The Guardian sýnir forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn nú hið mesta í tvo áratugi. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn er með 29% og frjálslyndir hafa 22%. Þetta er mjög merkileg niðurstaða og sýnir vel þann vanda sem nú blasir við Verkamannaflokknum eftir áratug við völd undir forystu Tony Blair, forsætisráðherra, sem þegar hefur tilkynnt að hann láti af embætti fyrir flokksþing næsta haust. Í maí hefur Verkamannaflokkurinn leitt ríkisstjórn samfellt í nákvæmlega tíu ár og má búast við þáttaskilum fyrir flokkinn að því loknu þegar að formleg leiðtogaskipti verða.

Það hafa orðið straumhvörf í breskum stjórnmálum. Það hefur sést mjög vel seinustu vikurnar. Gullnu dagar Tony Blair og Verkamannaflokksins eru löngu liðnir - það hefur syrt í álinn. Staða mála er mjög augljós þessa dagana. Það hefur sést vel allt þetta ár að staða forsætisráðherrans og flokksins hefur veikst gríðarlega. Kjósendur vilja uppstokkun - nýja sýn og breytta tíma við stjórn landsins. Það sér fulltrúa þessara nýju tíma í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Cameron hefur eflt flokkinn gríðarlega á því tæpa ári sem hann hefur leitt íhaldsmenn. Meginstefnubreytingar hafa orðið, skipt var um merki flokksins og ásýnd. Nýir tímar eru komnir þar.

Enn stefnir flest í að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verði eftirmaður Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins á næsta ári. Þó verður einhver samkeppni um það. Við hefur blasað lengi að stór hluti Blair-armsins vill ekki færa honum leiðtogahlutverkið á silfurfati, vissir um að hann geti ekki sigrað næstu þingkosningar. Það sem hefur breyst er að landsmenn telja það líka að stóru leyti. Cameron er enda vinsælli nú en bæði Blair og Brown. Það hefðu eitt sinn þótt tíðindi, en ekki lengur að mörgu leyti. Brown er í huga margra maður sömu tíma og kynslóðar og Tony Blair.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað framtíð næstu mánaða ber í skauti sér, þegar að formlega líður að lokum langs valdaferils Tony Blair. Þá fyrst verður vissara hvernig vindar blása í þingkosningunum árið 2009. Nú þegar má altént finna vinda breytinga blása um bresk stjórnmál. Þessi könnun og margar hinar fyrri staðfesta það mjög vel að straumhvörf hafa orðið.

Vetrarstemmning á Akureyri

Vetrarstemmning

Snjóað hefur nokkuð hér á Akureyri síðustu dagana. Ég fór út í gærkvöldi og það kyngdi niður snjó á meðan af krafti. Það er því orðið allnokkuð vetrarlegt hér. Skíðamenn og aðrir vetraríþróttamenn ættu því að gleðjast mjög. Ég vona hinsvegar að létti til fljótlega yfir. Ég vil ekki fá jólasnjóinn alveg strax. :)

mbl.is Vetrarlegt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formleg tilnefning Halldórs Ásgrímssonar

Halldór Ásgrímsson

Fram kom í kvöldfréttum ljósvakamiðlanna það sem ég sagði hér fyrr í dag að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, muni verða tilnefndur af Íslands hálfu sem framkvæmdastjóraefni í Norrænu ráðherranefndinni. Í fyrrnefndum skrifum mínum fór ég yfir víðtæka stjórnmálareynslu Halldórs, sem var ráðherra samfellt í tæpa tvo áratugi, flokksleiðtogi í rúman áratug og þingmaður í þrjá áratugi, áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum.

Það er mjög eðlilegt að íslensk stjórnvöld tilnefni fyrrum forsætisráðherra til þessa embættis og ég vona að Halldór fái hnossið eftir langan stjórnmálaferil sinn og víðtæka reynslu á mörgum sviðum. Það verður styrkleiki fyrir okkur að fá Íslending til starfans.

mbl.is Lagt til að Halldór Ásgrímsson verði næsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband