26.10.2006 | 23:31
Sápuópera ríka fólksins

Kostulegt að lesa þessar fréttir um ættleiðingu Madonnu á þessu blessaða barni. Einn fjölmiðlasirkus í heild sinni öll þessi umfjöllun. Það gildir reyndar um flestar fréttir af ríka fólkinu. Fyndnast af öllu er væntanlega að lesa um leðjuslag McCartney-hjónanna sem láta orðið eins og Rose-hjónin í kvikmyndinni The War of the Roses (hafiði ekki séð þá eðalræmu annars?). Þvílíkur skilnaður. Það vissu reyndar flestir að fröken Mills var flagð undir fögru skinni en Paul blessaður komst ekki að því fyrr en hún reyndi að hrifsa af honum helminginn af ævistarfinu. Skondinn sápuóperuheimur hinna ríku, ekki satt?
![]() |
Faðir drengsins sem Madonna ættleiddi styður nú ættleiðinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2006 | 21:17
Lieberman á sigurbraut í Connecticut
Flest bendir nú til þess að öldungadeildarþingmaðurinn Joe Lieberman muni hljóta öruggt endurkjör í Connecticut í þingkosningunum sem fram fara eftir tólf daga. Hefur hann haft forskot nær alla kosningabaráttuna og hefur það aukist nú hina síðustu daga. Lieberman hefur verið öldungadeildarþingmaður fylkisins allt frá árinu 1989 og nær allan þann tíma alveg óumdeildur sem slíkur og hlotið endurkjör í tveim kosningum, árin 1994 og 2000. Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans meðal íbúa í fylkinu og staða hans varð ótrygg.
Svo fór að lítt kunnur viðskiptamaður að nafni Ned Lamont ákvað að gefa kost á sér gegn honum. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu. Á nokkrum mánuðum breyttist staðan. Svo fór að Lamont tókst að fella Lieberman í forkosningunum og ná útnefningu flokksins í þessu örugga vígi hans. Flestir töldu eftir tapið að Lieberman myndi lamast sem stjórnmálamaður. Allar stjörnur demókrata sem studdu hann snerust yfir til Lamont og flokksmaskínan sem malaði gegn Lamont varð að vinna fyrir hann. Lieberman hélt ótrauður sínu striki og boðaði óháð framboð á eigin vegum.
Lamont hefur aldrei náð alvöru forskoti á Lieberman síðan og nú stefnir í að hann tapi sjálfum kosningunum, þó formlegur flokksframbjóðandi demókrata sé. Tap Lieberman voru mikil tíðindi, enda var hann einn af helstu forystumönnum flokksins á landsvísu. Hann var útnefndur af Al Gore sem varaforsetaefni hans í forsetakosningunum 2000. Með því komst hann á spjöld sögunnar, enda fyrsti gyðingurinn í forystu forsetaframboðs annars af stóru flokkunum. Kosningabaráttan var jöfn og æsispennandi. Að lokum fór það svo að Gore og Lieberman urðu að gefast upp. Þar munaði aðeins hársbreidd að Lieberman yrði fyrsti gyðingurinn á varaforsetastól landsins.
Það verður gríðarlegt áfall fyrir Demókrataflokkinn og Ned Lamont ef flokkurinn tapar í Connecticut. Fátt virðist hafa gengið Lamont í hag í átökunum sjálfum, handan forkosninganna meðal flokksmanna. Hann hefur ekki komist út úr talinu um Íraksstríðið og varð bensínlaus á miðri leið, þrátt fyrir áfangasigurinn. Honum hefur mistekist að fókusera sig á aðra málaflokka og öðlast tiltrú kjósenda sem breiður stjórnmálamaður ólíkra hópa. Því fer sem fer væntanlega. Lieberman mun vinna.
26.10.2006 | 18:38
Þjóðskjalasafnið birtir öll gögn um símhleranir

Nú hefur Þjóðskjalasafn Íslands birt öll gögn um símhleranir stjórnvalda á heimasíðu sinni. Þetta eru vissulega nokkur tíðindi. Tel ég þetta hið eina rétta í málinu. Það verður að afhjúpa öll gögn frá þessum tíma og opna málið upp á gátt. Með þessu er úrskurður menntamálaráðherra vegna stjórnsýsluákæru Kjartans Ólafssonar, fyrrum ritstjóra og alþingismanns, að fullu uppfylltur og öll gögn liggja að fullu fyrir.
![]() |
Þjóðskjalasafnið birtir öll gögn um símhleranir á vefsíðu sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2006 | 16:32
Pétri Árna bætt í prófkjörsslaginn í kraganum
Framboðsfrestur vegna prófkjörs í Suðvesturkjördæmi rann út 18. október sl. 10 einstaklingar gáfu kost á sér, 6 konur og 4 karlmenn. Nú hefur kjörnefnd ákveðið að bæta Pétri Árna Jónssyni, formanni Baldurs, f.u.s. á Seltjarnarnesi og fyrrum stjórnarmanni í SUS, við hóp frambjóðendanna tíu og rétta þar með við kynjaslagsíðuna sem augljós var. Þau sem taka þátt verða því: Ármann Kr. Ólafsson, Árni Þór Helgason, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Pétur Árni Jónsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Steinunn Guðnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Það stefnir í áhugavert prófkjör í kraganum. Þorgerður Katrín og Bjarni Ben eru þó nær óumdeild í fyrsta og annað sæti framboðslistans. Bæði hafa þau mikinn og afgerandi stuðning um allt kjördæmið, enda eru þau hin einu sem sækjast eftir endurkjöri af þeim alþingismönnum sem flokkurinn hlaut kjörinn í kraganum í kosningunum 2003. Auk þeirra er Sigurrós á þingi, en hún tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Um þriðja sætið takast Ragnheiður Ríkharðs og Ármann Kr. og hörkubarátta er svo framundan um fjórða sætið. Það verður því tekist á um neðri sætin af nokkurri hörku.
Tveir ungliðar eru í kjörinu; Bryndís og Pétur Árni. Þekki þau bæði mjög vel, enda sátum við öll saman í stjórn SUS árin 2003-2005. Þau hafa verið formenn f.u.s. í Mosó og á Nesinu. Ég hef mjög lengi metið Bryndísi mikils í ungliðastarfinu, enda er hún kraftmikil og öflug. Við höfum átt góða vináttu og unnið saman í ungliðadæminu. Leitaði hún til mín með stuðningskveðju til að birta á heimasíðu sinni og var það sjálfgefið af minni hálfu. Ég vona svo sannarlega að henni muni ganga vel og vil endilega leggja henni lið í þennan prófkjörsslag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.10.2006 | 16:08
Lagt til að Karl verði bæjarritari

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja til við bæjarstjórn að Karl Guðmundsson, sviðsstjóri félagssviðs, yrði ráðinn í embætti bæjarritara. Þær breytingar verða bráðlega hjá Akureyrarkaupstað að embætti sviðsstjóra verða lögð niður og embætti bæjarritara stofnað að nýju, en það var lagt niður skömmu eftir valdatöku Sjálfstæðisflokks og Akureyrarlista (vinstriflokkaframboð) árið 1998.
Það vekur vissulega athygli að ráðið er í starf bæjarritara án auglýsingar. Það verður þó vissulega ekki sagt að Karl sé reynslulaus. Hann var bæjarritari hjá Dalvíkurbæ, sveitarstjóri í Hveragerði, framkvæmdastjóri Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Suðurnesja, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar og fjármálastjóri FMN og Samskip Norge. Hann varð sviðsstjóri félagsmálasviðs Akureyrarbæjar árið 1999.
Þrátt fyrir að Karl Guðmundsson sé mjög reyndur og hæfileikaríkur maður finnst mér óeðlilegt að staðan sé ekki auglýst. Það á að vera grunnkrafa í þessum efnum að staðan sé auglýst. Það er altént mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2006 | 14:41
Æviminningar Gerhards Schröder
Um þessar mundir er ár liðið frá því að Gerhard Schröder missti stöðu sína sem einn valdamesti stjórnmálamaður heims eftir tap í þýsku þingkosningunum, sem mörkuðu valdaskipti í þýskri pólitík. Schröder var í sjö ár einn valdamesti maður heims, lykilforystumaður í alþjóðastjórnmálum. Hann var kanslari Þýskalands árin 1998-2005 og stýrði þýskum jafnaðarmönnum af miklum krafti. Litlu munaði að honum tækist að snúa vörn í sókn fyrir vinstrimenn í þingkosningunum í Þýskalandi í september 2005 en svo fór að tap varð ekki umflúið og að endalokum valdaferilsins kom formlega þann 22. nóvember 2005 þegar að Angela Merkel, leiðtogi CDU, varð kanslari í hans stað.
Nú hefur Schröder gefið út æviminningar sínar og fer þar að mestu yfir stormasaman stjórnmálaferil sinn, sem héraðshöfðingi í Neðra-Saxlandi og sem kanslari Þýskalands. Einn af lykiltímum valdaferils hans í Berlín var aðdragandi og lykiltími Íraksstríðsins. Hann deildi af hörku við George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og samskipti stórveldanna riðuðu til falls. Svo fór að lokum að þeir töluðust vart við og Bush virti Schröder og ríkisstjórn hans vart viðlits. Sömdu þeir þó frið nokkrum mánuðum áður en Schröder missti kanslaraembættið á sögulegum fundi í Þýskalandsheimsókn George W. Bush árið 2005. Þrátt fyrir kuldaleg samskipti náðu þeir að milda tengslin.
Í æviminningum sínum fer Schröder yfir þessi mál vel. Gagnrýnir hann Bush forseta og stjórn hans harkalega fyrir fyrir endalausar vísanir í Guð í aðdraganda stríðsins og grimmd hans sem markaðist af ísköldum samskiptum þjóðanna nær allan valdaferil Bush, eftir að hann vogaði sér að gagnrýna forsetann og forystu hans opinberlega. Schröder fer með áberandi hætti yfir sjö ár valdaferilsins og sérstaka athygli vekur að hann talar af hörku og stingandi kulda um dr. Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem nú ríkir í stóru samsteypu hægrimanna og krata. Kallar Schröder hana veikburða og litlausan leiðtoga í bókinni.
Merkel og Schröder tókust harkalega á í kosningaslagnum í fyrra, sem varð upphafið að endalokum stjórnmálaferils Schröders. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning voru þar helsti kostur hans. Angela þótti hafa mun minni útgeislun - en hún talaði hreint út um málin, var með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það var þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Sjarmi Schröders var hans stærsti kostur í stjórnmálum og litlu munaði að hann ynni kosningarnar 2005 á þeim sjarma sínum. Markaðist það af því að hann vildi fleiri sjónvarpskappræður. Allir vita að Schröder þolir ekki Merkel og varla undur að hann ráðist að henni nú.
Gaman að lesa um þessa bók, það verður svo sannarlega áhugavert að fá sér hana og lesa. Þó að ég hafi jafnan ekki haft áhuga á Gerhard Schröder sem stjórnmálamanni var hann mikill áhrifamaður og hefur merka sögu að segja. Stefni ég að því að lesa þessa hlið hans á málum. Það væri hinsvegar gaman að heyra skoðun Angelu Merkel á þessum pólitísku æviminningum forverans á kanslarastólnum í Berlín.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2006 | 01:30
Uppstokkun Stjórnarráðsins

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú lýst því yfir formlega að tímabært sé að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands eftir næstu alþingiskosningar, að vori, og sækist eftir því að mynda samstöðu milli forystumanna allra flokka um slíkar meginbreytingar. Lög um Stjórnarráð Íslands hafa verið nær alveg óbreytt frá árinu 1970.
Gleðiefni er að Geir láti þessi ummæli falli og ljái máls á alvöru breytingum á ráðuneytaskipan og öðrum hlutum sem þeim fylgja, enda opna þau á nauðsynlega uppstokkun, sem lengi hafa verið ræddar en lítið gerst í þeim efnum.
Í ítarlegum pistli mínum sem birtist á vef SUS í gær fjallaði ég um þessi mál og bendi á þau skrif hér með. Fer ég þar yfir stöðuna og jafnframt þær tillögur sem mest hefur verið um rætt sem vænlegar til breytinga á ráðuneytaskipan.
26.10.2006 | 00:00
Fríblöð ekki móðins í Danmörku?

Merkilegt að sjá þessa Moggafrétt um fríblöðin í kóngsins Köben. Virðast ekki falla í kramið þessi fríblöð, enda nokkuð pappírsflóð vissulega sem fylgir þrem fríblöðum. Ekki beint móðins þessar vikurnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ágætt að fá Fréttablaðið hér heima í lúguna og lesa, en pappírsflóðið sem fylgir er vissulega nokkuð mikið. Flestum þykir það fínn fórnarkostnaður að þurfa að henda meiru í ruslið en ég skil Danina nokkuð vel miðað við stöðu mála. Það verður gaman að sjá hvernig þessi tilraun íslenskra bissness-manna með Nyhedsavisen mun ganga er á hólminn kemur.
![]() |
Mikill fjöldi Kaupmannahafnarbúa vill ekki fá fríblöð í sín hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)