27.10.2006 | 23:00
Góð kjörsókn í prófkjöri í Reykjavík

Hátt í þrjú þúsund manns greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á fyrri kjördegi. Kosning fór aðeins fram í Valhöll í dag, en á morgun verður kosið á sjö stöðum í átta kjördeildum. Þetta er þó mun minni kjörsókn en var á fyrri kjördegi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, sem haldið var dagana 4. og 5. nóvember 2005. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kjörsókn gengur á morgun, en væntanlega munu fleiri kjósa þá, rétt eins og bæði í prófkjörinu vegna þingkosninganna í nóvember 2002 og fyrrnefnds prófkjörs. Prófkjör flokksins í nóvember í fyrra er fjölmennasta prófkjör sem haldið hefur verið hérlendis.
Nokkur spenna verður væntanlega í Valhöll kl. 18:00 annaðkvöld þegar að Þórunn Guðmundsdóttir, lögfræðingur og formaður kjörnefndar, mun lesa fyrstu tölur í prófkjörinu. Eftir það verða tölur lesnar á hálftímafresti þar til að úrslit verða ljós væntanlega um eða eftir 22:00 annaðkvöld. Þetta er mjög spennandi prófkjör, einkum vegna þess að óvissan er mikil. Sjö þingmenn taka þar þátt, en þrír af þeim sem voru í tíu efstu sætum hafa tekið ákvörðun um að hætta í stjórnmálum. Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum fyrir rúmu ári og þau Sólveig Pétursdóttir og Guðmundur Hallvarðsson hafa ákveðið að fara ekki fram í kosningunum að vori og hætta þá þingmennsku.
Alls taka 19 þátt í prófkjörinu og má búast við spennandi talningu á morgun, enda öllum ljóst að nokkrir frambjóðanda hafa verið áberandi í prófkjörsbaráttunni og stefna hátt, þegar í fyrstu atrennu. Það verður því bæði fróðlegt að sjá hvernig þingmönnunum mun ganga og ekki síður nýliðunum. Það má altént fullyrða að þetta verði eitt af mest spennandi prófkjörum hérlendis síðustu árin, enda hefur baráttan verið nokkuð hörð og litrík.
![]() |
2.734 hafa greitt atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2006 | 16:20
Hörð leiðtogabarátta að hefjast
Prófkjörsslagur sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi er að hefjast þessa dagana af greinilegum krafti. Það er mjög notalegt að standa temmilega utan við mesta hasarinn og geta skrifað af krafti hér frá öllum hliðum um þann hasar og skemmtilegheit sem framundan er í þessu. Flest eigum við von á kraftmiklum slag með hæfilegum hasar og átökum. Búast má við að leiðtogaframbjóðendurnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson þurfi að vinna með miklum krafti fyrir leiðtogastöðunni í kjördæminu og allt verði lagt í sölurnar, enda eftir miklu að sækjast þegar að leiðtogastóll Halldórs Blöndals er annars vegar, forystusæti í flokksstarfinu.
Við blasir að allir frambjóðendurnir þurfi að kynna persónu sína, stefnumál og áherslur sínar vel fyrir kjósendum í prófkjörinu. Ennfremur má búast við verulegri smölun inn í flokkinn. Ekki hefur verið prófkjör í landsmálum hér í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 og í austurhlutanum frá árinu 1999, svo að það verður tekist á af hörku, mikið smalað og barist grimmt um atkvæðin. Væntanlega munu allir leiðtogaframbjóðendurnir opna heimasíður, eða annað getur varla verið í svona harðri baráttu en að þar séu heimasíður um að ræða, þar sem frambjóðendur geta milliliðalaust skrifað til kjósenda og flokksmanna. Það er hin eina sanna miðstöð baráttu á okkar tímum.
Það blasir við að flestir prófkjörsframbjóðendur stefna að því að opna kosningaskrifstofu. Þegar hafa Kristján Þór og Þorvaldur lagt drögin að opnun á skrifstofum og heyrst hefur að Ólöf Nordal, prófkjörsframbjóðandi frá Fljótsdalshéraði, hafi fest sér pláss á góðum stað í miðbænum. Greinilegt er að Ólöf kemur fram í baráttuna af krafti, ákveðin og einbeitt, stefnir hiklaust að öruggu þingsæti. Mikið er rætt um það hvort að Austfirðingar séu samstíga um stuðning við Arnbjörgu, sem verið hefur þingmaður þeirra frá árinu 1995. Af framgöngu og ákveðni Ólafar að dæma virðist hún ekki mikið hugsa um hag Arnbjargar heldur vinnur af krafti á eigin vegum við að tryggja sig í sessi.
Kristján Þór hefur fest sér pláss á mjög sterkum stað í bænum þar sem stórt verslunarhúsnæði var áður til húsa og er kominn á fullt í hönnunar- og markaðsvinnu framboðs síns. Sama gildir um Þorvald sem stefnir á opnun heimasíðu og kosningaskrifstofu á allra næstu dögum. Ekki veit ég um stöðu Arnbjargar, en væntanlega hlýtur hún að stefna á að opna einhverja kosningamiðstöð og opna heimasíðu. Það virðist vera að flestir frambjóðendur ætli í slaginn af mikilli alvöru, enda eftir miklu að sækjast. Það blasir enda við að fólk fer vart í svona slag nema að eyða í það miklum peningum og leggja alla sína vinnu og kraft sinn til verksins. Þetta er mikil vinna.
Það stefnir í spennandi átök hér á næstu vikum. Á morgun ræðst endanlega hverjir eru í kjöri, þegar að kjörnefnd hittist til að ganga frá öllum hliðum mála. Jafnframt ræðst hvort frambjóðendum verði bætt í hópinn eður ei. Við sjáum allavega við Akureyringar hér að okkar frambjóðendur hér leggja mikla peninga og kraft í verkefnið og stefna hátt, enda ekki óeðlilegt að við viljum okkar fulltrúa á þing og til áhrifa. Það er algjörlega ótækt ástand að enginn Akureyringur sé á þingi og mikilvægt að tryggja að það breytist með þessu prófkjöri.
27.10.2006 | 15:09
Hörð barátta framundan hjá Halldóri
Það blasir við að hörð kosningabarátta mun verða um embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa tilnefnt Halldór Ásgrímsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, til starfans af okkar hálfu. Fyrirséð er að hörð barátta verði milli hans og Jan-Erik Enestam, umhverfisráðherra Finnlands, um embættið, en hann hefur verið ráðherra um árabil og var t.d. varnarmálaráðherra á árunum 1999-2003. Það er ljóst að ekki getur Enestam og Finnarnir einvörðungu bent á reynslu hans úr þeirri átt, enda hefur Halldór mun lengri ráðherraferil að baki og verið mjög áberandi í norrænni pólitík.
Það ræðst á Norðurlandaráðsþingi í næstu viku hvor fær hnossið. Halldór hefur þegar fengið mikilvægan stuðning Norðmanna til embættisins og ekki er óvarlegt að ætla að hann hafi stuðning Dana, enda er miðjuflokkurinn Venstre, systurflokkur Framsóknarflokksins, þar við völd. Spurning er hvernig Svíar líti á stöðu mála. Það verður því að teljast að staða Halldórs er góð í þessum efnum og gæti það hjálpað honum að miðjumenn standa sterkt á Norðurlöndum um þessar mundir. Altént mun stuðningur Norðmanna við hann fara langt með að tryggja honum embættið.
Fari svo að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar mun hann verða staðsettur í Kaupmannahöfn og flytja því þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessum efnum. Víðtæk reynsla og þekking Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum mun skipta máli, auk þess að aldrei hefur Íslendingur gegnt embættinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2006 | 13:40
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafið

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hófst á hádegi. Kosið verður bæði í dag og á morgun, en í dag verður kjörstaður aðeins í Valhöll. Það stefnir í spennandi kosningu og verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur, en þær munu liggja fyrir nákvæmlega kl. 18:00 er kjörstaðir loka. Þá mun Þórunn Guðmundsdóttir, formaður kjörnefndar, lesa fyrstu tölur og munu tölur liggja svo fyrir á hálftímafresti allt þar til að yfir lýkur og úrslitin verða formlega ljós. Það er jafnan gaman að fylgjast með svona talningu en mikil spenna og stemmning var yfir prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, bæði vegna þingkosninga haustið 2002 og borgarstjórnarkosninga í nóvember í fyrra.
Í kjöri í prófkjörinu eru: Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Björn Bjarnason, Dögg Pálsdóttir, Geir H. Haarde, Grazyna M. Okuniewska, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Jóhann Páll Símonarson, Kolbrún Baldursdóttir, Marvin Ívarsson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Andersen, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinn Kárason, Vilborg G. Hansen, Vernharð Guðnason og Þorbergur Aðalsteinsson. 19 eru því í kjöri. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2002 vegna þingkosninga þá voru 17 í kjöri, en t.d. voru 24 í prófkjöri flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í fyrra. Kjósendur geta valið 10 úr þessum 19 manna hópi.
Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sækist einn eftir fyrsta sætinu og því ekki spenna um það, enda hefur formaðurinn ekki háð kosningabaráttu. Fyrirfram er mesta spennan milli Björns Bjarnasonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um annað sætið, sem er leiðtogastóll í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Auk þeirra er Pétur Blöndal í kjöri um það sæti, en flestir telja þó slaginn standa milli fyrrnefndra. Tekist er á af krafti ennfremur um þriðja sætið, en þar eru í kjöri Ásta, Birgir, Guðfinna, Illugi og Pétur. Um fjórða sætið takast svo þau Dögg og Sigurður Kári. Fyrirfram má telja mestu spennuna um þessi sæti.
Annars er nær ómögulegt að spá um hvernig staðan verður í dagslok á morgun. Fyrirfram má þó telja þingmennina sjö standa vel að vígi en þó er öllum ljóst að nýliðar geta komist í hóp þingmannanna. Vonandi fer það svo að góðir nýliðar komast ofarlega í bland við reynslumikla þingmenn. Þarna er öflugt og gott fólk í kjöri og erfitt val fyrir margan flokksmanninn þegar að hann heldur til að kjósa í dag og á morgun.
Vonandi munu góðir listar myndast með þessu prófkjöri og Sjálfstæðisflokkurinn styrkjast til muna í borginni í kosningunum. Nú hefur flokkurinn níu þingmenn í kjördæmunum tveim í Reykjavík, en á ekki að sætta sig við neitt minna en 10-11 að vori. Vonandi verða sóknarfæri til þess með góðum framboðslistum.
![]() |
Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer vel af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2006 | 12:32
Stefnir í góða bíóhelgi

Það stefnir í flotta og góða bíóhelgi, eins og svo oft áður. Seinustu helgar hafa verið annasamar, með kjördæmisþingi og málefnaþingi SUS, sem var skemmtun og málefnavinna í flottu blandi. En nú verða rólegheitin. Stefni að því að fylgjast vel með úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer í dag og á morgun. Það verða fróðleg úrslit, sem beðið er eftir með þónokkurri spennu. Það verður áhugavert að skrifa um og greina þau úrslit, þegar að þau taka að streyma inn af krafti er rökkvar annaðkvöld.
Stefni á að fara já í bíó í kvöld. Nú er The Departed, nýjasta mynd meistara Martin Scorsese, loksins komin í bíó og ég ætla svo sannarlega ekki að missa af henni. Hún hefur fengið rosalega flotta dóma og greinilega vel þess virði að skella sér í kvöld, fá sér svo auðvitað allt hið ekta bíófóður; popp, kók og Nóa kropp. Þarna eru þeir saman; Jack Nicholson, Leonardo DiCaprio og Matt Damon. Hefur verið mikið talað um þessa eðalmynd og orðrómurinn um slatta af óskarstilnefningum þegar kominn af stað.
Þakka annars þeim lesendum sem sendu mér komment á umfjöllun mína um kvikmyndina Mýrina. Hafði gaman af að skrifa um hana og naut hennar mjög í bíói á mánudaginn, enda er þetta stórfengleg og ekta íslensk úrvalsmynd sem vert er að mæla með. Hver veit nema að maður skelli sér hreinlega bara aftur um helgina og horfi á hana. Hún er svo sannarlega vel þess virði.
27.10.2006 | 11:39
Eiður leiðréttir Ólaf Ragnar í Kastljósi

Eiður Guðnason, fyrrum umhverfisráðherra, var gestur í Kastljósi í gærkvöldi og fór þar yfir ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í afmælisþætti Ríkissjónvarpsins þann 30. september sl. þess efnis að Ríkissjónvarpið hefði í árdaga verið nokkurs konar þjónustustofnun fyrir valdhafa og sjálfstæði fréttamanna verið lítið.
Eiður Guðnason var mjög ósáttur við þessi ummæli og virtist ekki vera mjög sammála forsetanum og gerði mjög lítið úr tali hans. Eiður var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og einn þeirra þekktustu í árdaga íslensks sjónvarps. Hann starfaði þar á árunum 1967-1978 og þekktur fyrir störf sín á þeim vettvangi.
Eiður varð síðar stjórnmálamaður sjálfur, en hann var alþingismaður árin 1978-1993 og umhverfisráðherra 1991-1993. Hann var sendiherra á árunum 1993-2006, en hefur nú nýlega látið af störfum. Eiður var mjög afdráttarlaus í sínu tali í viðtalinu. Hann sagði forsetann hafa farið með rangt mál og sagðist sjálfur telja mikilvægt að hafa þessi mál rétt.
Sjálfur hefði hann starfað hjá Sjónvarpinu nær allan byrjunartíma stofnunarinnar og aldrei fundið þann anda sem forsetinn lýsti. Í viðtalinu við Ólaf Ragnar kom fram það mat hans að hann sjálfur hefði breytt þessum anda með byltingarkenndum hætti. Ekki var að heyra á Eið að hann væri sammála því.
Þetta var fróðlegt og gott viðtal og vert að benda á það hér með.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)