Sigríður Ingvarsdóttir gefur kost á sér

Sigríður Ingvarsdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í 2. - 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Sigríður sat á þingi 2001-2003, kom á þing við afsögn sr. Hjálmars Jónssonar, og var þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Hún skipaði fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2003 og féll af þingi, enda hlaut flokkurinn aðeins tvo menn kjörna í kosningunum. Sigríður hefur verið fyrsti varamaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá afsögn Tómasar Inga Olrich af þingi við lok ársins 2003 og tekið nokkrum sinnum sæti á kjörtímabilinu.

Það er varla undrunarefni að Sigga vilji reyna á framboð og það áttu langflestir hér von á þessu framboði. Skiljanlegt er að hún vilji láta reyna á stöðu sína, verandi í þeirri stöðu sem hún hefur sem varaþingmaður og fyrrum þingmaður af hálfu flokksins. Nú styttist óðum í kjördæmisþing flokksins í Norðausturkjördæmi, en það verður haldið að Skjólbrekku helgina 14. - 15. október nk. Þar verður tekin afstaða til þess hvort prófkjör eða uppstilling fari fram við val á framboðslistanum. Fyrir liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að fram fari prófkjör fyrir lok nóvembermánaðar.

Telja má fullvíst að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, tilkynni um leiðtogaframboð sitt í kjördæminu eigi síðar en á aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri að kvöldi mánudagsins 9. október. Mikið er ennfremur spáð um á hvaða sæti Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sem skipaði sjötta sæti framboðslistans árið 2003, muni stefna, en lengi hefur hann talað um framboð sitt víðsvegar innan flokksins. 

Það er alveg ljóst að margir bíða ákvörðunar þeirra tveggja um framboð. Það ræðst enda margt af því hvernig Akureyringar skipa sér í fylkingar, svo einfalt er nú það bara. Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hér að mínu mati. Það verða mjög mikil átök um efstu sæti.


Slæm staða Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson

Það vekur mikla athygli að sjá nýjustu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna. Staða Framsóknarflokksins batnar ekki í henni, svo vægt sé til orða tekið. Fylgi flokksins mælist nú 9% á landsvísu. Fylgi flokksins mælist mest hér í Norðausturkjördæmi. Þar er það 20%. Næstmest er það í Norðvesturkjördæmi en þar er mælingin upp á 16%. Í Suðurkjördæmi mælist Framsóknarflokkurinn með 14%. Það er því greinilegt að stærst mælist flokkurinn á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu myndi flokkurinn einfaldlega þurrkast út. Í Reykjavíkurkjördæmunum báðum er fylgið 5%. Verulega athygli vekur að minnst er fylgið í Suðvesturkjördæmi, aðeins 4%.

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa á að sjá að fylgi Framsóknarflokksins er minnst í kjördæmi heilbrigðisráðherrans Sivjar Friðleifsdóttur, sem gaf kost á sér til formennsku flokksins í ágúst. Ekki er hægt að segja að staða formanns flokksins sé sterk þrátt fyrir það. Í Reykjavík norður, þar sem flest bendir til að hann fari fram að vori er flokkurinn prósentustigi stærri en í kraganum. Merkilegt er svo að sjá að í könnun um mælingu á ráðherrum styðja fleiri framsóknarmenn Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins en formann sinn. Þetta hlýtur að vera vandræðaleg útkoma.

Framsóknarflokkurinn á erfiðan vetur fyrir höndum. Þar munu örlög þessa aldna flokks ráðast. Staða hans virðist heilt yfir verulega döpur, en þó sterkust í landsbyggðarkjördæmunum. Í Norðaustri t.d. missir hann töluvert fylgi en heldur þó meiru en margir áttu von á. Í þéttbýlinu er aðeins sviðin jörð sem blasir við flokksforystunni. Í Suðurkjördæmi er staðan líka ekki beysin fyrir Guðna Ágústsson. Þetta verður vetur örlaganna fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mun reyna á ráðherra flokksins og formanninn, sem flytur í dag jómfrúrræðu sína á Alþingi.

Aðalfundur kjördæmasamtaka ungliða í NA

Sjálfstæðisflokkurinn

Aðalfundur kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fór fram sl. laugardag í Kaupangi. Þar hittumst við og ræddum málefni kjördæmisins í aðdraganda kosninga og gengum endanlega frá öllum hliðum varðandi kjördæmasamtökin sem formlega var stofnað til á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi að Skjólbrekku í september 2005. Með ræðu sem ég flutti þá kynnti ég stofnun samtakanna og jafnframt að það væri vilji okkar allra að vinna meira og betur saman, formenn allra félaga, stjórnarmenn í SUS og trúnaðarmenn ungliða í kjördæminu. Er þetta mikilvægt skref og nú höldum við í verkefnin, enda er kosningaveturinn hafinn.

Ég stýrði fundinum á laugardag og var í pontu nær samfellt í um tvo klukkutíma. Fyrir fundinum lágu lagatillögur sem voru unnar fyrir fundinn, en eftir var það verkefni að setja sambandinu lög. Var á fundinum kynnt tillaga stjórnarinnar og fór ég lið yfir lið yfir þau. Var það notaleg yfirferð og voru góðar umræður meðal fundarmanna um þessi mál. Finnst mér vera notalegur andi í þessum hópi. Við viljum vinna sameinuð að okkar málum og það er mikilvægt að efla samstöðuna vel. Þetta er besta leiðin til þess að okkar mati. Á fundinum voru umræður um starfið síðasta árið, hvað megi bæta og hvað sé framundan. Ekkert nema verkefni eru framundan og við erum tilbúin til verka.

Að fundi loknum fórum við og fengum okkur góðan kvöldverð og enduðum kvöldið með því að kynna okkur menningarlífið í bænum. Þetta var því virkilega góður dagur og okkur líst vel á verkefnin framundan. Líst mér vel á að stýra þessu verkefni með öðrum góðum félögum.

Kjartan Gunnarsson hættir sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins

Kjartan Gunnarsson

Kjartan Gunnarsson tilkynnti á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu að hann hefði ákveðið að láta af embætti framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Kjartan hefur verið framkvæmdastjóri flokksins frá árinu 1980 og verið framkvæmdastjóri í tíð fjögurra formanna Sjálfstæðisflokksins: Geirs Hallgrímssonar, Þorsteins Pálssonar, Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Við starfi hans mun taka Andri Óttarsson, lögfræðingur.

Þetta eru mikil þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Persónulega vil ég þakka Kjartani Gunnarssyni fyrir óeigingjarnt og drenglynt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum árin. Hann hefur verið öflugur forystumaður innra starfs flokksins og lagt mikið af mörkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðustu áratugina. Um leið vil ég óska Andra til hamingju með starfið og vona að honum gangi vel.


Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hafnar

Héðinsfjarðargöng

Það var mikill gleðidagur á Siglufirði á laugardaginn. Þá tendraði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrstu sprenginguna við Héðinsfjarðargöng. Það er löng barátta að baki hjá okkur Norðlendingum fyrir þessum göngum. Sú barátta var í senn mörkuð bæði af vonbrigðum og áfangasigrum, sem færðu okkur þó sífellt nær lokatakmarkinu. Nú er málið í höfn. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur þessa athöfn á Siglufirði , en ég á að hluta ættir mínar að rekja þangað og hef því alla tíð haft taugar þangað, en það er mikil gleði hér með að þetta mál sé nú tryggt og framkvæmdir hafnar.

Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild. Nú þegar hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinast í eitt sveitarfélag. Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri meðferð strax í kjölfar kosninga, þar sem sömu ráðherrar og stöðvuðu málið höfðu lofað því í kosningunum.

Það er alkunn staðreynd að til er fjöldi fólks sem er andsnúið því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Það er eitthvað sem er óþarfi að fara yfir. Það er þó gæfa málsins að fulltrúar allra flokka hafa stutt hana, sem er gleðiefni. Það er mikilvægt að við höfum nú náð þessum áfanga og með því komi góð samgöngutenging til Siglufjarðar, enda má ekki gleymast að stór þáttur þess að Siglufjörður verði afgerandi þáttur kjördæmisins sé að þeim séu tryggðar mannsæmandi samgöngur til Eyjafjarðar.

Að mínu mati eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi. Það styrkir allt svæðið hér. Því gleðjumst við öll hér að baráttunni sé lokið og framkvæmdir hafnar.


Valgerður Bjarnadóttir í framboð

Valgerður Bjarnadóttir

Valgerður Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.- 5. sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík eftir rúman mánuð. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, og eiginkonu hans Sigríðar Björnsdóttur, og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Valgerður kvæntist árið 1970, Vilmundi Gylfasyni, sem varð einn af litríkustu stjórnmálamönnum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála á seinni hluta 20. aldar. Valgerður fylgdi Vilmundi í hans pólitísku verkefnum með gríðarlegum krafti allt þar til yfir lauk með stofnun Bandalags jafnaðarmanna. Vilmundur lést í júní 1983, langt um aldur fram.

Vala er svo sannarlega öflug kjarnakona, það efast fáir um það. Ég kynntist henni fyrst sumarið 1996, þegar að hún var einn kosningastjóra forsetaframboðs Péturs Kr. Hafsteins. Ég studdi framboðið hér fyrir norðan og var að vinna fyrir það. Þá var Vala nýlega flutt aftur heim eftir áratugs vist erlendis, en hún flutti til Brussel eftir að Vilmundur dó. Vala er skarpgreind og öflug kona sem hefur alltaf verið í bakgrunni í stjórnmálaumræðunni. Hún er þó fædd og uppalin inn í íslensk stjórnmál, dóttir eins öflugasta stjórnmálahöfðingja okkar og var gift einum litríkasta leiðtoga stjórnmálanna, miklum hugsjóna- og baráttumanni í áraraðir.

Það eru að mínu mati gríðarlega mikil tíðindi að Vala ákveði sjálf að fara í framboð. Það er alveg ljóst að prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík verður spennandi. Þar eru margir að berjast um svipuð sæti og stefnir í hörkuátök. Innkoma Valgerðar Bjarnadóttur í beina stjórnmálaþátttöku eru stórtíðindi, enda hefur hún í raun verið í stjórnmálum alla tíð en með óbeinum hætti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að henni muni ganga í þessum prófkjörsslag.

Bloggfærslur 3. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband