30.10.2006 | 23:49
Eðalræmur í bíó
Það var mjög notalegt að fara í bíó og sjá tvær úrvalsmyndir í síðustu viku. The Departed og Mýrin eru mjög ólíkar kvikmyndir en algjörar perlur, sem vert er að mæla með. Skrifaði um The Departed hér á laugardag en sú umfjöllun nokkurn veginn hvarf hér í skuggann af skrifum um prófkjör og pælingar almennt um stjórnmál. Ég bendi því hér á tengla á umfjallanir mínar á The Departed og Mýrinni.
Mýrin
The Departed
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er mikill kvikmyndaáhugamaður. Það er mjög ánægjulegt að sjá skrif hans um The Departed á vef hans nú í dag, en hann fór væntanlega á hana nú í dag. Það er alltaf gaman að lesa skrif Björns en sérstaklega áhugavert að sjá hann skrifa um kvikmyndir. Við erum greinilega sammála um myndina. The Departed er besta mynd Scorsese í um tvo áratugi, eða síðan að Goodfellas var gerð árið 1990.
Hvet því alla til að skella sér í bíó og sjá þessa úrvalsmynd.
30.10.2006 | 21:56
Augusto Pinochet dæmdur í stofufangelsi

Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile. Sérstaklega var hin svokallaða Kondór-áætlun illræmd en henni var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita/elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum.
Pinochet hefur áður verið formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 manna sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet hefur hingað til tekist að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999.
Frægt varð er Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann hinsvegar niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var allt ótrúlega kómískt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. En væntanlega kemur brátt að því. Tíðindi dagsins eru þó stór og mikil, þeim ber að fagna.
![]() |
Pinochet dæmdur í stofufangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 18:37
Hvalveiðar Íslendinga studdar hjá UNR
Mikið gleðiefni er að Norðurlandaráðsþing æskunnar, Ungdommens Nordiske Råd (UNR), sem stendur þessa dagana í Kaupmannahöfn, hafi í atkvæðagreiðslu lýst yfir stuðningi við hvalveiðar. Ég var áðan að hringja í Pál Heimisson, fulltrúa okkar á fundinum af hálfu SUS, um þessi mál og rabba við hann um þingið. Þetta er mikill sigur fyrir okkur. Palli lagði fram tillöguna á þinginu og hún fékk samþykki fundarmanna.
Á móti kemur að finnskir græningjar lögðu fram tillögu sem gerði ráð fyrir því að banna hvalveiðar og allt að því að fordæma okkar veiðar. Hún var felld en okkar tillaga samþykkt, svo að það er ekki hægt annað en túlka stöðu mála á þinginu en sem afgerandi sigur okkar. Það er mikilvægt að Palli skyldi tala fyrir hvalveiðunum á þinginu og greinilegt að okkar afstaða hitti í mark. Ég tel að þessi atkvæðagreiðsla segi allt sem segja þarf. Sérstaklega finnst mér þetta gott veganesti fyrir okkur hér heima.
Norðurlandaráðsþing æskunnar er haldið á hverju ári í aðdraganda Norðurlandaráðsþings, en það hefst í Kaupmannahöfn á morgun. Á þessum þingum eru lagðar fram ályktanir og staða helstu mála rædd og farið yfir stjórnmálin á Norðurlandasvæðinu. Það er greinilega eitthvað í gangi milli okkar Finna, meira en þetta, enda bítast nú Halldór Ásgrímsson og Jan-Eric Enestam um framkvæmdastjórastöðu í Norrænu ráðherranefndinni. Eins og fyrr segir er nær öruggt að Halldór fær stöðuna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 17:41
Flest stefnir í að Halldór hljóti hnossið

Formlega hefur ekki verið gefin út yfirlýsing um framboð Halldórs af hálfu stjórnvalda, en greinilega er unnið í því á bakvið tjöldin. Hávær orðrómur um tilnefningu Halldórs í embættið hefur verið mjög áberandi síðustu vikuna, og fréttir bárust formlega af þessari stöðu mála í fréttatímum ljósvakamiðla hérlendis á þriðjudag. Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hafa ekki neitað því allavega í fjölmiðlum.
Væntanlega mun verða úr því skorið endanlega á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í vikunni hver muni hljóta framkvæmdastjórastöðuna. Norðmenn styðja Halldór mjög áberandi og greinilegt að Danir og Svíar ljá máls á því að hann hljóti starfið. Það má því telja möguleika hans mjög góða og nær öruggt að hann verði næsti framkvæmdastjóri, fyrstur Íslendinga. Greinilegt er að unnið er nú að sáttum í málinu og menn geti sæst á að Halldór fái starfið.
Möguleikar hans eru auðvitað miklir, bæði er hann fyrrum forsætisráðherra og auk þess reyndur ráðherra eftir tæplega tveggja áratuga setu í ríkisstjórn Íslands. Hann er því öllum þekktur í norrænum stjórnmálum og ekki er mikil andstaða, nema í Finnlandi, við að hann hljóti embættið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 15:52
Hvalveiðarnar ganga vel
Hvalveiðarnar virðast ganga vel. Nú hefur fimmta langreyðin verið veidd, en alls er kvóti upp á að veiða til manneldis níu slíkar, en hinsvegar 30 hrefnur. Það voru mikil tímamót þegar að veiðarnar hófust fyrr í þessum mánuði, en þá voru tveir áratugir liðnir frá því að hvalur var veiddur í atvinnuskyni hér við land. Langreyður var síðast veidd hér við land árið 1989, þá í vísindaskyni, en síðast í atvinnuskyni á árinu 1985.
Það vakti mikla athygli að Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, skyldi er fyrsti hvalurinn kom í hvalstöðina í Hvalfirði skera hann. Halldór gerði það með mjög fagmannlegum hætti, en hann vann á fimmtán vertíðum í hvalstöðinni, áður en hann varð þingmaður, á áttunda áratugnum og er því öllu vanur í þessum efnum. Mér fannst þetta vel gert hjá Halldóri og hef víða heyrt fólk tala um að þetta hafi verið vel til fundið.
Spaugstofan gerði nokkuð grín af þessu með sínum skemmtilega hætti um helgina. Þar var Pálmi Gestsson í hlutverki Halldórs og þetta sett allt í fyndið samhengi. Þar flutti Pálmi í gervi Halldórs kostulega fyndna "stöku". Alveg frábærir félagarnir í Spaugstofunni eins og venjulega.
![]() |
Fimmti hvalurinn á leið í land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 14:10
Rætt um að kvikmynda Gladiator 2

Gladiator er ein öflugasta kvikmynd síðustu ára og hlaut fimm óskarsverðlaun árið 2001, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2000 og fyrir leik Russell Crowe á hershöfðingjanum og skylmingaþrælnum Maximus. Þetta mikla epíska stórvirki endurvakti aftur gerð kvikmynda sem gerast á tímum Rómarveldis, en þessi gerð kvikmynda var í mikilli tísku fyrir nokkrum áratugum og voru í raun táknmynd gullaldarára kvikmyndasögu Hollywood. Nægir þar að nefna óskarsverðlaunamyndina Ben-Hur, Spartacus, The Ten Commandments, Cleopötru og The Robe.
Þessi mynd setti nokkurn tón, en þegar að hún hlaut óskarinn hafði mynd af þessum toga ekki hlotið meiri upphefð frá tímum Ben-Hur, sem fékk ellefu óskara árið 1960. Ridley Scott tókst vel upp í gerð myndarinnar, sérstaklega var tæknihliðin stórfengleg, sviðsetningin af hinu forna Colosseum tókst meistaralega vel; það er ótrúlegt hvað þeir komust nálægt hinu glæsta útliti Rómar og Colosseum til forna. Þeir unnu mikið afrek sem stóðu að listrænni leikstjórn myndarinnar og skylmingaratriðin voru gríðarlega vel gerð. Í heildina var myndin veisla fyrir augað.
Allir sem sáu myndina verða væntanlega nokkuð hissa að sjá fréttir af því núna að Russell Crowe vilji endurvekja óskarsverðlaunarulluna sína (Maximus) einkum í ljósi þess að söguhetjan lést í fyrrnefndri mynd. Það er því rétt sem sagt er í þessari frétt að varla verður það gert nema að hann snúi aftur sem afturganga eftir sögulok myndarinnar eða lýst verði aðdraganda þess sem gerðist í Gladiator. Skil ég reyndar Crowe vel að vilja leika Maximus aftur, enda er þetta það hlutverk sem færði honum eftirsóttustu leikaraverðlaun heims.
En svo á móti kemur hvort það sé hægt að gera raunhæfa framhaldsmynd um Maximus. Það hefur oft verið gríðarlega áhættusamt að feta á þessa braut. Sumar sögur verða ekki sagðar nema einu sinni. Reyndar tókst Anthony Hopkins að endurvekja dr. Hannibal Lecter (óskarshlutverk sitt) áratug eftir hina vel heppnuðu The Silence of the Lambs, en oftast nær er þetta frekar tvíeggjað sverð. Verður fróðlegt að sjá hvort framhaldsmynd verði í raun gerð.
![]() |
Russell Crowe langar til að gera Gladiator 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 12:39
Áfall fyrir Önnu Kristínu og konur í Samfó

Að sama skapi er ekki hægt að segja annað en að árangur sr. Karls V. Matthíassonar sé glæsilegur. Honum var allt að því bolað burt í uppstillingu í aðdraganda þingkosninganna 2003 og missti þingsæti sitt. Hann fær nokkra uppreisn æru að þessu sinni, kemst væntanlega aftur á þing, en það verður hinsvegar á kostnað þingkonunnar Önnu Kristínar. Það er mjög merkilegt að sjá úrslitin, enda verða þau varla túlkuð öðruvísi en sem ákall um breytingar í kjördæmastarfi flokksins heilt yfir litið.
Anna Kristín hefur ekki verið sýnileg sem þingmaður mikið í fjölmiðlum, en verið dugleg eftir því sem ég hef heyrt. Það er því skiljanlegt að hún sé sár með þessa stöðu og að hún sé nú orðin varaskeifa Guðbjarts Hannessonar og sr. Karls V. Matthíassonar. Það gæti verið að það hafi skaðað hana að vera úr Skagafirði og með litlar tengingar um allt kjördæmið, og þó veit ég það ekki. Allavega eru þessi úrslit vonbrigði fyrir hana en hún getur varla annað en tekið sætið til að tryggja þó hlut kvenna.
Annars verð ég að viðurkenna að ég þekki Guðbjart Hannesson ekki vel sem stjórnmálamann. Hann er víst gamall allaballi úr sveitastjórnarpólitíkinni á Skaganum en að mörgu leyti óskrifað blað, en væntanlega mun hann nú verða meira í fjölmiðlum, enda nú tekinn við sem kjördæmaleiðtogi flokksins af Jóhanni Ársælssyni.
Það verður fróðlegt að sjá svo um næstu helgi hver sigrar í prófkjörum Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi um næstu helgi, en nýir kjördæmaleiðtogar verða ennfremur kjörnir þar.
![]() |
Anna Kristín óttast um stöðu kvenna í kjördæminu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)