Stefnir í góð bókajól

BækurÉg er mikill bókamaður - les mikið og hef virkilega gaman af því. Er einn af þeim sem er ástríðumaður á góðar bækur. Það eru góðir tímar framundan hjá okkur bókafólkinu þessar vikurnar sem framundan eru, enda er jólabókaflóðið að skella á okkur af miklum krafti. Þetta er gósentíð fyrir fólk eins og mig, enda margt vel þess virði að lesa og rýna í. Ég ætla mér svo sannarlega að lesa mikið á aðventunni og njóta góðra bókmennta.

Þegar að ég var formaður flokksfélags hér í bæ og í flokksstarfinu almennt af meiri þunga en nú er voru miklar annir í aðdraganda jólanna af ýmsu tagi. Það er sérlega gott að vera laus við þessar skyldur þessar vikurnar, alla kvöldfundina og tengd stúss, sérstaklega í aðdraganda prófkjörs og geta eytt meiri tíma frekar í blogg, bókalestur og kvikmyndagláp. Þetta eru ástríður í mínum augum, enda hef ég gaman af að skrifa, sjá góðar myndir og lesa áhugaverðar bækur.

Nú þessa dagana er ég að lesa að nýju Röddina eftir Arnald Indriðason, en ég hef ekki lesið hana í nokkur ár. Þetta er meistaralega rituð bók. Svo er ég að stefna að því að rifja upp í rólegheitum Kleifarvatn aftur, eina mest seldu bók Íslandssögunnar, annað meistaraverk Arnaldar. Svo fer maður að rýna í meira. Ég er fastagestur á bókasafninu, svo að alltaf er eitthvað skemmtilegt þar að finna til að lesa. Svo er eiginlega kominn tími á að lesa aftur nokkrar bækur fyrri ára, t.d. hef ég áhuga á að lesa aftur ævisögur Laxness eftir Hannes Hólmstein.

Það er alltaf nóg til að lesa - áhugaverðir tímar svo sannarlega framundan í jólabókaflóðinu.


mbl.is Fleiri bækur í boði fyrir þessi jól en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan vex í bandarísku þingkosningunum

George W. Bush Það stefnir í öflugan lokasprett í bandarísku þingkosningunum, sem verða eftir viku. Skoðanakannanir sýna forskot demókrata og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er farinn í kosningaferðalag um landið á lykilstaðina til að reyna að snúa hlutunum við. Nú nýtur Bush reyndar sjálfur ekki nema um 40% fylgis landsmanna skv. skoðanakönnunum, svo að ferðalagið getur orðið tvíeggjað sverð - en á það hætta repúblikanar nú í baráttunni.

Í þingkosningunum 2002 var það Bush, eiginkona hans, Laura Welch Bush, og varaforsetinn Dick Cheney sem fóru um landið og héldu kosningafundi með miklum þunga og tryggðu lykilsigra, bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni - sigra sem skiptu forsetann máli til að byggja sig upp fyrir forsetakosningarnar 2004. Nú er stjórnmálaferli forsetans að ljúka, hann getur ekki farið aftur í kosningar og framtíð mála í valdatíð hans veltur á úrslitunum eftir viku. Mikið er svo sannarlega í húfi.

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, er nú í fréttatímum og á fréttavefum vestan hafs og segja að uppreisnarmenn í Írak hafi hert árásir sínar í landinu í því skyni að hafa áhrif á komandi þingkosningar í Bandaríkjunum. Eflaust er það rétt. En mun það styrkja stöðu repúblikana að beina kastljósinu til Íraks. Það gæti heppnast út frá varnarlegri umræðu, en gæti líka orðið hált vopn sem snýst gegn þeim í hita lokadaganna. Orð dagsins hjá Bush og Cheney í fréttum og kosningasamkomum er að demókrata skorti vilja til sigurs í Írak og hafi enga stefnu í málum þeim tengdum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig lokaspretturinn stefnir fyrir flokkana. Mikið er í húfi. Kosið er um alla fulltrúadeildina og hluta öldungadeildarsæta. Úrslitin í fulltrúadeildinni munu því auðvitað hafa meiri yfirsýn að segja um stöðuna fyrir forsetakosningarnar 2008. Bush fer ekki fram þá, svo litlu skiptir fyrir hann hvernig sá slagur æxlast. Það sem skiptir hann máli nú eru næstu tvö ár, hann vill halda yfirráðum flokksins yfir þinginu og tryggja völd sín. Án þeirra verður hann valdaminni og einangraðri fyrir vikið.

Þetta verða spennandi kosningar og verður með þeim víða fylgst. Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um bandarísk stjórnmál, svo ég mun skrifa reglulega um stöðu mála þar til yfir lýkur að viku liðinni og úrslitin taka að streyma inn.

mbl.is Aukin ofbeldisverk í Írak sögð tengjast kosningunum í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór og Þorvaldur opna heimasíður

Kristján Þór Júlíusson Það styttist í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Leiðtogaslagurinn er að hefjast af miklum krafti og nú eru Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorvaldur Ingvarsson, læknir, að opna heimasíður sínar og kosningaskrifstofu á næstu dögum. Nú hefur Kristján Þór lagt drög að heimasíðu sinni á vefslóðinni stjaniblai.is og hann opnar kosningaskrifstofu í Hafnarstræti um helgina. Mikill frumleiki er yfir nafngift vefsins, að flestra mati og þetta er kraftmikið og öflugt heiti óneitanlega.

Mikill kraftur mun vera á Kristjáni Þór og stuðningsmönnum hans og er mikil maskína að myndast utan um framboð hans, að því er manni skilst þessa dagana. Það er ljóst að sótt verður fram af krafti af hans hálfu. Hann er auðvitað bæjarstjóri með langan feril að baki og býður fram þá reynslu. Mikið er talað um framboð hans meðal bæjarbúa og sitt sýnist væntanlega hverjum, eins og venjulega. Kristján Þór hefur greinilega lagt vel drög að framboði sínu og þar á greinilega ekki að stíga nein feilspor.

Þorvaldur Ingvarsson Þorvaldur Ingvarsson hefur ennfremur ákveðið opnun heimasíðu og kosningaskrifstofu. Mun hann vera með kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti, við hliðina á Café Karólínu. Ætlar hann að vera með vef sinn á slóðinni valdi.is. Þorvaldur virðist leggja mikla elju og kraft í verkefnið. Er greinilegt að bæði leiðtogaefnin ætla að leggja mikla peninga í verkefnið og allan kraft sinn, enda eftir miklu að sækjast. Þetta er eðlilegur metnaður hjá öflugum mönnum.

Flestir bíða nú eftir því hvað Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, hyggst fyrir og hvernig hún mun kynna leiðtogaframboð sitt. Arnbjörg ætti að hafa mikið forskot á þessa menn, enda er hún þingflokksformaður og var alþingismaður 1995-2003 fyrir Austurlandið og frá 2004 fyrir Norðausturkjördæmi. Fyrirfram ætti hún því að hafa gríðarlegt start í prófkjörsbaráttunni sinni.

Væntanlega stefnir Arnbjörg að opnun heimasíðu og kosningaskrifstofu, en ég hef ekki mikið heyrt af því allavega. En greinilegt er að þetta verður mikill Akureyrarslagur milli Kristjáns Þórs og Þorvaldar - það stefnir altént mjög í það og það verður fróðlegt með að fylgjast, segi ég og skrifa.

Margir áhugasamir í Norðvestrinu

Sjálfstæðisflokkurinn Það eru greinilega margir áhugasamir um framboð hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi. 16 lýstu yfir framboði við kjörnefnd þar, til framboðs á lista flokksins í væntanlegum þingkosningum að vori. Eins og flestir vita verður ekki prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu, en stillt upp á lista en auglýst eftir formlegum framboðum á listann.

Þeir sem vilja fara fram eru: Adolf H. Berndsen, Ásdís Guðmundsdóttir, Bergþór Ólason, Birna Lárusdóttir, Borgar Þór Einarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Eygló Kristjánsdóttir, Herdís Þórðardóttir, Hjörtur Árnason, Jakob Falur Garðarsson, Óðinn Gestsson, Sturla Böðvarsson, Sunna Gestsdóttir, Örvar Már Marteinsson og Þórvör Embla Guðmundsdóttir.

Þetta er meiri áhugi til framboðs en sást allavega hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi, en þar höfðu aðeins níu einstaklingar áhuga.

mbl.is Sextán áhugasamir um framboð hjá Sjálfstæðisflokknum í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór kjörinn í norræna toppstöðu

Halldór Ásgrímsson Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, hefur verið kjörinn framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn. Hann tekur við starfinu þann 1. janúar nk. og mun starfa sem framkvæmdastjóri í Kaupmannahöfn frá þeim tíma. Það kemur varla að óvörum að Halldór fái þetta embætti, en hann hefur mikla reynslu sem stjórnmálamaður að baki, enda verið forsætisráðherra Íslands og auk þess forystumaður í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára.

Halldór var kjörinn á Alþingi fyrst sumarið 1974, þá 26 ára að aldri. Hann féll í þingkosningunum 1978, en náði kjöri að nýju í desemberkosningunum 1979 og sat á þingi eftir það allt til haustsins 2006. Hann varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Tólf ára formannsferill Halldórs varð bæði öflugur tími og stormasamur fyrir Framsóknarflokkinn.

Halldór sat í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006. Aðeins Bjarni Benediktsson hefur setið lengur í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson. Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum. Hann var ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995.

Það er gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að reyndur stjórnmálaleiðtogi okkar skuli taka við þessari miklu stöðu, fyrstur allra íslenskra stjórnmálamanna. Óska ég Halldóri Ásgrímssyni til hamingju og óska honum allra heilla á nýjum vettvangi í Kaupmannahöfn.

mbl.is Halldór kjörinn framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband