Guðmundur og Róbert í þingframboð

Guðmundur Steingrímsson Róbert Marshall

Fjölmiðlamennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hafa nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi. Guðmundur, sem er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, var til fjölda ára virkur í stúdentapólitíkinni en lítið sinnt pólitík síðan. Stefnir hann nú á öruggt sæti í kraganum. Það stefnir í spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í kraganum, en þegar hafa 14 gefið kost á sér og stefnir í að hið minnsta 15 muni fara fram, ef marka má þá frétt að Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, fari fram þar ennfremur, en hann er nú varaþingmaður Samfylkingarinnar í borginni.

Róbert Marshall, sem stýrði fréttastöð 365-miðla NFS fram í andlátið, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og gefur kost á sér í 1. - 2. sætið í Suðurkjördæmi. Róbert er þó enginn nýgræðingur í pólitík, enda var hann formaður ungra alþýðubandalagsmanna hér fyrir áratug og var formaður ungliðahreyfingarinnar sem mynduð var úr flokksbrotunum í sameiningarferlinu sem síðar varð Ungir jafnaðarmenn. Róbert er því öllu vanur og heldur ótrauður í slaginn við þá þingmenn Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Bergvinsson. Hann heldur þarna til pólitískra átaka við fjölda reyndra stjórnmálamanna sem lengi hafa verið í stjórnmálum.

Sá sem fagnar minnst leiðtogaframboði Róberts er væntanlega Eyjamaðurinn Lúðvík, en heldur má telja ólíklegt eftir þetta að hann muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi við þetta. Má telja mjög líklegt nú að sá sem gleðjist mest við framboð Róberts sé Árnesingurinn Björgvin G. sem mun hafa fullan stuðning Margrétar Frímannsdóttur í væntanlegum leiðtogaslag, en Björgvin hefur starfað í pólitík undir hennar forystu lengi og verið fóstraður til verka þar í hennar leiðtogatíð innan Alþýðubandalagsins í gamla daga.

En þarna verður hörkuslagur og má telja líklegt að naumt verði milli manna og líklegt að gríðarleg uppstokkun verði á forystusveit Samfylkingarinnar. Ofan á allt annað er merkilegt að sjá Guðmund kominn í slaginn, afkomanda framsóknarhöfðingjanna Steingríms og Hermanns, í framboði fyrir jafnaðarmannaflokk. Annars hafa rætur Guðmundar í stjórnmálum alltaf verið til vinstri og allir þekkja vinskap hans og Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa, sem börðust saman fyrir Röskvu í stúdentapólitíkinni.

Verður Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar?

Carl Bildt

Eins og fram kom hér fyrr í kvöld hefur Fredrik Reinfeldt verið kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar og hann mun tilkynna ráðherralista sinn á morgun. Nú berast fregnir af því á sænskum fréttavefum að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, muni verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna. Teljast þetta vissulega mikil tíðindi. Bildt var forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991-1994 og því síðasti forsætisráðherra hægrimanna í Svíþjóð á undan Reinfeldt. Mun hann hafa þegið utanríkisráðherrastólinn eftir miklar samningaviðræður. Bildt var eins og kunnugt er sáttasemjari við Balkanskaga eftir forsætisráðherraferilinn og þekktur fyrir sín diplómatastörf.

Fari svo að orðrómurinn sé réttur mun Carl Bildt taka við embættinu af Jan Eliasson, fyrrum forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Eliasson var skipaður utanríkisráðherra í apríl af Göran Persson, fráfarandi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann vék Lailu Freivalds úr embættinu. Eliasson þótti standa sig vel sem utanríkisráðherra, en fékk vissulega ekki langan tíma til verka. Eliasson var þekktur fyrir verk sín í alþjóðastjórnmálum og maður reynslu og þekkingar. Hann vann í utanríkisþjónustunni frá 1965 og var til fjölda ára ráðgjafi Olof Palme í forsætisráðherratíð hans. Hann var til fjölda ára sendiherra Svíþjóðar hjá SÞ og leiddi undir lokin allsherjarþingið.

Eliasson þótti standa sig mun betur en Freivalds sem þótti vera mistækur ráðherra og aldrei ná að höndla embættið, en hún tók við utanríkisráðuneytinu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh haustið 2003. Greinilegt var að Persson valdi Eliasson til að reyna að snúa vörn í sókn fyrir jafnaðarmannaflokkinn í aðdraganda kosninganna. Hann var líka að veita utanríkispólitík flokksins meiri vigt en verið hafði allt frá því að hin vinsæla Anna Lindh hvarf af pólitísku sjónarsviði fyrir þrem árum. En það dugði ekki til. Ef marka má fréttir á sænsku fréttavefunum mun diplómatinn Jan Eliasson nú ætla sér að kenna við háskólann í Uppsölum í kjölfar þess að hann lætur af ráðherraembættinu.

Fari svo að Carl Bildt verði á morgun utanríkisráðherra Svíþjóðar verður fróðlegt að sjá hann aftur í fremstu víglínu sænskra stjórnmála. Hann var einn valdamesti stjórnmálamaður Svía um nokkurra ára skeið og leiddi ríkisstjórn landsins fyrir rúmum áratug. Endurkoma hans í forystu sænskra stjórnmála, nú sem forystumaður hins öfluga sænska utanríkisráðuneytis mun verða mjög athyglisverð og tryggja nýrri ríkisstjórn meiri þunga og vigt í alþjóðastjórnmálum vegna reynslu og þekkingar Carls Bildt.


mbl.is Carl Bildt sagður verða næsti utanríkisráðherra Svía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fredrik Reinfeldt tekur við völdum í Svíþjóð

Fredrik Reinfeldt

Fredrik Reinfeldt var í dag kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar á sænska þinginu. 175 þingmenn kusu Reinfeldt en 169 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn honum. Reinfeldt mun á morgun kynna ráðherralista sinn og flytja stefnuræðu sína í þinginu. Hann verður fjórði forsætisráðherra borgaralegra afla í sænskum stjórnmálum síðustu áratugina. Við embættistöku Reindeldts lýkur valdaferli Göran Persson, sem verið hefur forsætisráðherra í áratug, frá árinu 1996. Valdaferill sænskra jafnaðarmanna hefur staðið í áratugi, að undanskildum tveim tímabilum, 1976-1982 og 1991-1994.

Síðasti hægrimaðurinn sem var forsætisráðherra í Svíþjóð var Carl Bildt á árunum 1991-1994. Thorbjorn Fälldin og Ola Ullsten sátu við völd á árunum 1976-1982. Mikil þáttaskil verða með þessum valdaskiptum. Sænskir jafnaðarmenn hafa haft gríðarleg áhrif og lykilleiðtogar valdaskeiðs þeirra hafa verið gríðarlega valdamiklir. Tage Erlander var t.d. forsætisráðherra Svíþjóðar í 23 ár, 1946-1969 og Olof Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og 1982-1986, er hann féll fyrir morðingjahendi í miðborg Stokkhólmar. Kratar voru lengi að fylla skarð hans. Eftirmenn Palmes, Ingvar Carlsson og Göran Persson, voru þó vissulega öflugir leiðtogar.

Sænsk pólitík hefur því lengi verið mjög vinstrilituð og áherslurnar vinstritengdar. Nú breytist það og aftur hefst valdaskeið borgaralegra afla í landinu. Þessar breytingar marka krossgötur fyrir sænska jafnaðarmannaflokkinn. Göran Persson mun hætta sem leiðtogi jafnaðarmanna í marsmánuði. Þar er enginn afdráttarlaus eftirmaður á leiðtogastóli til staðar. Mikið var talað eftir ósigurinn meðal jafnaðarmanna um að Margot Wallström yrði eftirmaður hans. Hún hefur nú með öllu aftekið að hún verði í kjöri. Helst er talað um Thomas Bodström, Carin Jämtin, Wönju Lundby-Wedin, Monu Sahlin, Leif Pagrotsky, og Pär Nuder sem leiðtogaefni nú.

En já, Reinfeldt er tekinn við. Valdaskeiði sænskra krata er lokið í bili og nú geta borgaralegu öflin tekið til við að efna sín kosningaloforð og stýra af krafti. Nú reynir á þau öfl hvernig að þeim muni ganga að vinna saman af þeim krafti sem lofað var.

mbl.is Reinfeldt kjörinn í embætti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg fréttamennska

Alþingi

Það var mjög undarleg fréttamennska sem blasti við okkur áhorfendum kvöldfrétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um varnarumræðurnar á þingi. Það eina sem vísað var til í þessari frétt voru einhliða ummæli þriggja þingmanna Samfylkingarinnar. Glefsur komu úr ræðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, og Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Annað var það nú ekki. Það vekur mikla athygli að ekkert kom úr ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, né heldur Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Um var að ræða eitt sjónarhorn á öryggis- og varnarmálin.

Spurning vaknar við þetta við stöðu fréttastofu NFS þegar að svo einhliða og undarlegt sjónarhorn er sett á stöðu mála. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að skoðun Samfylkingarinnar komi fram en það er stórundarlegt að ekki sé víðara sjónarhorn á hinar löngu og ítarlegu umræður í þinginu. Það vekur mikla athygli að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sé enn þingfréttamaður Stöðvar 2. Móðir hennar, Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar, er í prófkjörsframboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi. Undarlegt var að Þóra Kristín skyldi fjalla um framboðsmál sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi um síðustu helgi.

Mér finnst svona einhliða sjónarhorn vart boðlegt og það kastar rýrð á fréttastofuna sem trúverðuga. Það á að vera markmið þeirra sem segja fréttir að báðar hliðar komi fram og þeim sé gert jafnt skil og ekki hallað í aðra áttina. Það sem sást í fyrrnefndri frétt telst ekki eðlileg fréttamennska og vekur margar spurningar að mínu mati.

Prófkjör eða uppstilling í Norðvestri?

Norðvesturkjördæmi

Það stefnir í spennandi kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á Ísafirði um helgina. Stjórn kjördæmisráðs leggur ekki til eina tillögu um hvernig valið verði á lista. Það verður kosið á milli þess hvort fram fari prófkjör eða stillt verði upp á lista af kjörnefnd. Þetta verður því væntanlega átakaþing, enda eru kjörnir fulltrúar varla sammála um það hvora leiðina eigi að fara. Lengi hafði verið rætt um það að nær öruggt væri að stillt væri upp en eitthvað virðist það hafa breyst og stjórnin leggur ekki fram neina afgerandi tillögu. Fundarmenn fá því valdið í hendurnar. Það má telja að þetta verði því spennandi þinghald.

Þegar liggur fyrir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fara fram. Í kosningunum 2003 hlutu Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson. Í næstu sætum á eftir urðu Guðjón Guðmundsson, Adolf H. Berndsen, Jóhanna Pálmadóttir og Birna Lárusdóttir. Í aðdraganda kosninganna var haldið umdeilt prófkjör í kjördæminu. Þar munaði rétt rúmlega 40 atkvæðum að sveiflur yrðu með þeim hætti að Sturla yrði undir fyrir Vilhjálmi Egilssyni, sem varð fimmti, og þeir hefðu sætaskipti. Vilhjálmur tók ekki sætið og umræða varð um brot á prófkjörsreglum vegna utankjörfundarkosningar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig verður með stöðu mála. Það er ljóst að flokkurinn á tvo ráðherra í kjördæminu. Sturla hefur verið samgönguráðherra frá 1999 og Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra frá haustinu 2005. Báðir hljóta þeir að vilja leiða listann. Einar Oddur fer svo aftur fram. Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, Bergþór Ólason, aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, og Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður, tilkynnt um áhuga sinn á framboði. Það má því búast við spennandi prófkjöri verði sú ákvörðun ofan á. Það eru skýrar fylkingar þarna og spennan um hvaða leið verður ofan á við að velja listann.

Í kosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn góða útkomu í Norðvesturkjördæmi. Það var eina kjördæmið þar sem flokkurinn annaðhvort hélt sinni stöðu nokkurnveginn og bætti örlitlu við sig. Það gerðist þrátt fyrir umdeilt og harðvítugt prófkjör sem skilaði fylkingamyndun og illindum. Nú er spennan enn í Norðvestri og verður fróðlegt að sjá hvaða leið verður ofan á um helgina.

mbl.is Kosið á milli tveggja kosta við uppstillingu á lista í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisstefna í felulitunum

ISG

Fyrir nokkrum vikum kynntu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og félagar hennar svokallaða umhverfisstefnu, sem gerði ekki ráð fyrir nýjum stóriðjukostum næstu fimm árin. Þar var Kristján L. Möller reyndar með kökkinn í hálsinum við að tala sér þvert um geð, en hvað með það. Vandræðin voru ekki fullnumin þar, fjarri því. Kynningunni hafði varla lokið á blaðamannafundinum þegar að flokksfélagar Ingibjargar Sólrúnar sem eru í forystusveit Samfylkingarinnar um allt land voru komnir í fjölmiðla með grátstafinn í kverkarnar lafmóðir við að tilkynna nú kjósendum sínum að auðvitað yrði stóriðjukosturinn heima í héraði fyrstur á dagskrá. Þetta ætti ekki við það.

Það var með ólíkindum að horfa á þennan vandræðagang Samfylkingarinnar. Þau komu í fjölmiðla eitt af öðru: Örlygur Hnefill Jónsson, varaþingmaður á Húsavík, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs á Akureyri, Jón Gunnarsson, alþingismaður í Reykjanesbæ, Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður í Skagafirði, og svona mætti lengi telja. Ekki fyrr hafði heldur kynningunni lokið en farið var að rifja upp afrek Samfylkingarinnar innan R-listans, t.d. í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var yfir fjölda virkjunarkosta og verkefna á vegum fyrirtækisins. Þessi umhverfisstefna fuðraði því hratt upp eins og flugeldur á hinu fallegasta gamlárskvöldi.

Í dag berast fréttir af því t.d. að skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að í aðalskipulagi verði gert ráð fyrir og sýnd möguleg svæði til virkjunar Héraðsvatna, einkum við Villinganes og Skatastaði. Hverjir fara nú annars með völd í Skagafirði? Jú, það eru Samfylking og Framsóknarflokkur. Samfylking mun t.d. stýra fyrrnefndri bæjarnefnd sem samþykkti þetta. Það fer því ekki saman tal og ákvarðanir innan Samfylkingarinnar. Annars er þessi stefna greinilega vandræðabarn flokksins og virðist hvorki falla í kramið né vera sett fram að vilja og með áhuga flokksmanna. Það sést altént vel af öllum vinnubrögðunum.

Er annars rétt sem sagt er að umhverfisstefnan brjóstumkennanlega hafi verið samin af einum manni í starfi á flokkskontórnum? Heyrast hafa sögusagnir um að Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi verið settur beinlínis í þetta verk að búa til stefnu um málið. Hann virðist hafa verið kallaður til verka til að reyna að muna hversu margir stóriðju- og virkjunarsinnar væru í Samfylkingunni. Þar sem ég starfa í flokki er fyrirbæri sem heitir landsfundur þar sem starfa málefnanefndir sem móta drög að ályktunum sem fara svo fyrir landsfundinn. Það er hið sanna lýðræði, ekki það að skipa einvald við alla stefnumótun.

Vandræði Samfylkingarinnar virðast sér fá mörk eiga þessar vikurnar. Þessi umhverfisstefna í felulitunum er eitt klúðrið. Á meðan að andstæðingar hlæja að henni eru forystumenn flokksins um hinar dreifðu byggðir að sverja hana af sér eins og erfðasyndina. Þessi fagurgalastefna flokkast því sem hver önnur mistök höfuðborgarmiðuðu forystunnar sem er að reyna að vera hip og kúl á kostnað landsbyggðarforystunnar. Skondið fyrirbæri þessi stefna í felulitunum.

Feilskot Frjálslyndra

Guðfinna Bjarnadóttir

Það er með ólíkindum að fylgjast með árás Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslyndra, að Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar var vitnað í skrif á heimasíðu þingmannsins þar sem hann fordæmir að Guðfinna hefði sent út tölvubréf til starfsmanna og nemenda skólans þar sem að hún tilkynnti um þingframboð sitt, áður en það var gert opinbert á blaðamannafundi um síðustu helgi. Mér finnst þetta í einu orði sagt feilskot hjá þingmanninum og í takt við allt annað sem frá frjálslyndum kemur þessar vikurnar. Þar virðist hvorki standa steinn yfir steini og ef marka má kannanir er flokkurinn á góðri leið með að þurrkast út.

Að mínu mati var algjörlega hárrétt hjá Guðfinnu að senda nemendum þetta tölvubréf og tilkynna þessa ákvörðun sína, enda sést með þessu að hún telur nemendurna samstarfsfólk sitt í skólanum og virðir þau það mikið að láta þau vita hvernig staða hennar er. Mér finnst þetta óttaleg lágkúra hjá þingmönnum frjálslyndra og kannski afhjúpar þetta allra mest vandræði þessa örflokks. Allavega fannst mér Guðfinna bregðast rétt við og gera þetta rétt og heiðarlega. Hún er að fjalla um framtíð sína í starfi, það kemur skólanum við og öll staða málsins á þessum tímapunkti er mál sem henni bar að kynna þeim sem í skólanum eru.

En annars kemur þessi lágkúra frjálslyndra mér ekki á óvart. Allir sem þekkja til vinnubragða og talsmáta þingmanna flokksins eru varla hissa. Það er svosem varla undrunarefni að liðsmenn stjórnarandstöðunnar fari á taugum við framboð Guðfinnu Bjarnadóttur, en þetta er slíkur fellibylur í vatnsglasi að annað eins hefur vart sést lengi.

Bloggfærslur 5. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband