6.10.2006 | 19:06
19 gefa kost á sér í prófkjöri í Reykjavík

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. 19 gáfu kost á sér í prófkjörinu, sem mun fara fram 27. og 28. október nk. Í síðasta prófkjöri fyrir þingkosningarnar 2003 gáfu kost á sér 17 einstaklingar.
Í kjöri í prófkjörinu verða:
Ásta Möller, alþingismaður
Birgir Ármannsson, alþingismaður
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra
Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Grazyna M. Okuniewska, hjúkrunarfræðingur
Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður
Illugi Gunnarsson, hagfræðingur
Jóhann Páll Símonarson, sjómaður
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
Marvin Ívarsson, byggingafræðingur
Pétur H. Blöndal, alþingismaður
Sigríður Andersen, lögfræðingur
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður
Steinn Kárason, umhverfishagfræðingur
Vilborg G. Hansen, landfræðingur
Vernharð Guðnason, slökkviliðsmaður
Þorbergur Aðalsteinsson, sölu- og markaðsstjóri
Ljóst er að um verður að ræða spennandi átök og fróðlegt að sjá hvernig niðurstaðan verður að kl. 18:00 að kvöldi 28. október þegar að fyrstu tölur verða birtar.
![]() |
Alls hafa 19 gefið kost á sér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2006 | 15:10
Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þingframboð

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Stefnir hún á þriðja sætið í prófkjörinu. Ákvörðun Ragnheiðar um framboð kemur ekki að óvörum eftir að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum ráðherra, lýsti því yfir á miðvikudagskvöldið að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Sigríður Anna og Ragnheiður hafa verið í stjórnmálum í Mosfellsbæ og greinilegt að Ragnheiður vill fylla skarð Sigríðar Önnu. Ragnheiður verður ekki eini Mosfellingurinn í framboði því að Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, hefur tilkynnt um framboð sitt í 4. - 5. sætið.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið lengi í pólitísku starfi. Hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ til glæsilegs sigurs vorið 2002 þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega að halda meirihlutanum í kosningunum í vor, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu.
Það stefnir í spennandi prófkjör í Suðvesturkjördæmi um neðri sætin. Greinilegt er að góð samstaða mun verða um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í fyrsta sætið og Bjarna Benediktsson í annað sætið, en þau eru einu kjörnu þingmenn flokksins í kraganum vorið 2003 sem fara fram aftur. Baráttan verður um þriðja til sjötta sætið. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 49% fylgi í kraganum sem myndi færa honum sex þingsæti, en þingsætum kragans fjölgar úr 11 í 12 í kosningunum í vor.
![]() |
Ragnheiður Ríkharðsdóttir stefnir á 3ja sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2006 | 14:44
Ungir framsóknarmenn minnast Alfreðs
Nú hafa ungir framsóknarmenn í Reykjavík suður skírt félagið sitt í höfuðið á Alfreð Þorsteinssyni, sem var í áraraðir borgarfulltrúi framsóknarmanna í Reykjavík. Finnst þetta svolítið fyndin persónudýrkun sem felst í því að nefna ungliða- og flokksfélög eftir mönnum innan flokksins. Hvað yrði t.d. sagt ef að ungliðafélag sjálfstæðismanna einhversstaðar úti á landi myndi skíra sig Davíð í höfuðið á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra. Ansi er ég nú hræddur um að viðkomandi ungliðar fengju það í hausinn einhversstaðar frá að um væri að ræða hlægilega persónudýrkun á einum stjórnmálamanni.
Blessunarlega erum við ungir sjálfstæðismenn þannig gerðir að við veljum sígild og góð nöfn af ýmsu tagi, utan stjórnmála, til að velja á félögin okkar. Það má alltaf heiðra fyrrum stjórnmálamenn með ýmsum hætti en að nefna félögin eftir þeim er ekki góðráð, tel ég. Ég geri mér fulla grein fyrir að Alfreð er framsóknarmönnum í Reykjavík eftirminnilegur. Hann sat þó ekki í borgarstjórn í tólf ár bara í nafni framsóknarmanna, heldur í samtryggðu umboði krata, komma og rauðsokka. Hann hafði víðtækt umboð í þessu samkrulli sem R-listinn var. Satt best að segja er Alfreð eftirminnilegur fyrir að tryggja Framsókn mikil völd og hans verður eflaust minnst þannig.
En þessi nafngift vekur vissulega athygli, enda þekkist það ekki í flokkum að þar séu félög nefnd eftir leiðtogum hvað þá borgarleiðtogum. Enda eru svo margar aðrar leiðir til að nefna félög. Mér finnst þetta frekar hallærislegt og undrast nafngiftina. En ungir framsóknarmenn ráða sínum leiðum til að ná athygli. Það verður fyndið að fylgjast með verkum "Alfreðs" á vettvangi stjórnmála í vetur meðan að fyrirmyndin vinnur við hátæknisjúkrahúsið. Allir vita hversu vel honum gekk með Orkuveituna og hallargarðurinn er "gott" dæmi um það.
![]() |
Alfreð fagnar frumvarpi um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2006 | 09:17
Skattar lækka í Svíþjóð - ráðherraval kynnt

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, var rétt í þessu að kynna skipan nýrrar ríkisstjórnar borgaralegu flokkanna í Svíþjóð, sem tekur við völdum nú fyrir hádegið, og helstu stefnuatriði hennar. Helstu tíðindi ráðherravalsins eru auðvitað þau að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, verður utanríkisráðherra Svíþjóðar. Það eru mjög mikil tíðindi og stórpólitísk að Bildt komi aftur í forystu sænskra stjórnmála og taki við utanríkisráðuneytinu af Jan Eliasson. Bildt var einn forvera Reinfeldt á leiðtogastóli Moderaterna, leiddi flokkinn 1986-1999 og var forsætisráðherra 1991-1994. Enginn vafi er á að endurkoma Bildt eflir stjórnina.
Carl Bildt varð að loknum forsætisráðherraferlinum farsæll diplómat og var t.d. sáttasemjari í deilunum við Balkanskaga. Flestir höfðu talið að Bildt myndi ekki taka sæti í stjórninni og það vakti því athygli er það spurðist út síðdegis í gær að hann yrði utanríkisráðherra í stjórn Reinfeldts. Allir leiðtogar borgaralegra fá valdamikil embætti í ríkisstjórninni. Lars Leijonborg, leiðtogi Þjóðarflokksins, mun verða menntamálaráðherra, Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, tekur við atvinnumálaráðuneytinu og Göran Hägglund, leiðtogi Kristilegra, verður félagsmálaráðherra. Anders Borg tekur við sem fjármálaráðherra.
Stærstu stefnutíðindi stjórnarinnar er vitaskuld að hún ætlar sér að lækka tekjuskatta í Svíþjóð um tæpa 40 milljarða sænskra króna á næsta ári. Það er í takt við stærsta kosningaloforð borgaralegu flokkanna og gleðiefni að sjá þessa áherslu verða að veruleika. Mér líst vel á ráðherraskipan stjórnarinnar og tel sérstaklega mikinn feng fyrir Reinfeldt að Carl Bildt verði utanríkisráðherra, enda mjög reyndur og traustur stjórnmálamaður sem á mikla pólitíska sögu í sænskum stjórnmálum.
Allar nýjustu sænsku fréttirnar eru á fréttavef Aftonbladet.
![]() |
Sænska stjórnin ætlar að lækka tekjuskatta; Bildt utanríkisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook
6.10.2006 | 08:10
Áfellisdómur yfir valdatíð R-listans

Það er ekki hægt að segja annað en að úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í tólf ára valdatíð R-listans sé áfellisdómur yfir þessum valdabræðingi félagshyggjuaflanna. Þetta er frekar svört skýrsla og sýnir vel stöðu mála. Til fjölda ára deildu meirihluti R-listans og minnihlutinn um stöðu borgarinnar og reyndi R-listinn að verjast fimlega með allskonar kúnstum sem minntu helst á sirkusbrögð töframanna frekar en skynsamlega og ábyrga forystu meirihlutaafls í sveitarstjórn. En staðan er mjög skýr í þessari úttekt og þar sést án nokkurs vafa hvernig hlutirnir eru. Það sést svo best á tali minnihlutaflokkanna nú að þau eiga ekkert svar við þessari úttekt.
Það verður ekki betur séð en að mikið verkefni sé fyrir framan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við að laga stöðuna sem uppi er. Eru greinilega framundan stórtækar aðgerðir til að fara yfir alla fjármálastjórn borgarinnar og stokka hana upp. Það er þarfaverk eigi ekki illa að fara. Greinilegt er að R-listinn hefur velt vandanum á undan sér ár frá ári. Það er fátt gott sem ver þá stöðu eins og vel sést af tali fyrrum borgarstjóra og núverandi prófkjörsframbjóðanda Samfylkingarinnar í fréttum í gær. En vandinn liggur fyrir og hann dylst engum lengur. Það verður verkefni ábyrgra og traustra forystumanna í borginni að leysa þann vanda.
Fyrst og fremst blasir við að málflutningur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn undanfarinn áratug hefur verið á rökum reistur. Stór hluti þeirrar gagnrýni var rétt eins og vel sést við lestur þessarar úttektar. En það er svosem enginn bættur með að benda á hvorn annan. Staðan liggur fyrir og hana þarf að leysa. En þetta er áfellisdómur yfir R-listanum sáluga og þeim sem ríktu á valdatíma hans. Þessi fortíðarvandi liggur nú fyrir. Það er mikilvægt til að geta horfst í augu við framtíðina.
![]() |
Brýnt að fara yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook
6.10.2006 | 00:33
Björn Bjarnason í 2. sætið
Það stefnir í spennandi prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ég tel mjög mikilvægt að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verði leiðtogi flokksins í öðru kjördæminu og verði því í 2. sæti í þessu prófkjöri. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk. Það er mikilvægt að hans framlag verði áfram til staðar í forystusveit flokksins í Reykjavík.
Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum.
Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég tel eins og fyrr segir mikilvægt að hann fái kjör í annað sæti framboðslistans í Reykjavík og styð hann til þess. Hann mun um helgina opna kosningaskrifstofu sína og hefja baráttuna. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils og önnur tengsl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook