8.10.2006 | 21:39
Lokaorrusta Ómars austur í Hjalladal

Í kvöld horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Hann var að þessu sinni algjörlega lagður undir Ómar Ragnarsson sem þessar vikurnar er á lokastigi síðustu orrustu sinnar til varnar Hjalladal austur á fjörðum. Þetta var vissulega nokkuð merkilegur þáttur, sem ég horfði á með nokkrum áhuga. Alla mína ævi hefur Ómar Ragnarsson spilað þar nokkuð merkilegan sess. Ég var smábarn þegar að ég átti eina mína fyrstu bernskuminningu. Það var er Hanna amma og Anton afi gáfu mér í jólagjöf plötu með barnalögum Ómars. Á fyrstu árum mínum spilaði platan stóran sess í huga mér og ég á hana reyndar enn, hún er þó niðri í kjallara núna, slitin og mjög úr sér gengin.
Ómar er á háum stalli í huga okkar flestra. Hann er vissulega goðsögn í lifanda lífi. Hann hefur með gríðarlega mikilli elju fært okkur minningar um landið okkar, minningar sem við metum mikils. Persónulega á ég gríðarlega mikið myndefni með Ómari. Við vorum minnt á fjársjóðinn sem hann hefur fært okkur öllum er um hann var gerður einn þáttur í röð þátta um sögu Sjónvarpsins nú í september. Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða.
Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla Gíslasyni á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði sem á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldarinnar. Það var stór stund í íslensku sjónvarpi, að mínu mati sú stærsta. Hann færði okkur þennan mann heim í stofu og kynnti okkur fyrir honum, þó með nærgætni og tilfinningu. Ég horfði einmitt á þetta viðtal aftur um daginn, en ég á Stiklusafnið hér heima allt saman. Ég virði framlag Ómars í þessum efnum mikils og tel hann eiga heiður okkar allra skilið fyrir þau verk sín. Enginn hefur betur kynnt okkur fyrir svæðum, fjarlægum og fallegum.
Þrátt fyrir að ég beri virðingu fyrir Ómari fullyrði ég enn og aftur að barátta hans fyrir austan þessar vikurnar er vonlaus. Hún er töpuð. Lokaorrustan sem nú stendur, með Hálslón í myndun, er sár og erfið fyrir hann, enda ann hann landinu. Það hefur verið mín skoðun allt frá fyrsta degi að Ómar ætti að há þá baráttu með heiðarlegum og öflugum hætti. Það hafa allir vitað frá fyrsta degi að hann sýndi okkur myndefni úr Hjalladal að hann vildi ekki að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika né heldur Fljótsdalsvirkjun. En það er hans réttur að hafa þá skoðun. Það voru hans stærstu mistök að segja sig ekki frá málinu sem fréttamaður í upphafi. Baráttuandi hans átti að njóta sín.
Þó að ég sé ósammála Ómari Ragnarssyni virði ég mikils framlag hans í skemmtana- og sjónvarpssögu landsins. Hún er okkur öllum ofarlega í huga. Það var mér lærdómur að kynnast hversu rík og sterk barátta hans er, hún kemur frá hjartanu hans. Þetta er barátta sem hann leggur allt í, peninga sína, vinnuþrek og allar stundir einkalífsins. Það er sárt að skynja að komið er að leiðarlokum. Þetta er töpuð lokaorrusta í erfiðum bardaga. En þrátt fyrir allt er Ómar eins og hann er. Hann er og verður eins og hann er. Þessi þáttur var vel gerður. Ég ætla ekki að amast út í einhliða frásögn eða það að Ómar og ég séum ósammála.
En þetta er bara svona. Eitt tap í einum bardaga þarf ekki að þýða endavík milli fólks, né heldur endatafl fyrir einstakling. Ómar rís yfir ágreininginn að svo mörgu leyti. Í mínum huga er Ómar maður hugsjóna sem berst sinni baráttu fyrir sínar skoðanir. Það er hans réttur og það ber að virða. Þó að skoðanir fari ekki saman er rétt að virða fólk hafi það skoðanir að láta þær í ljósi. Það átti Ómar Ragnarsson að gera frá fyrsta degi en ekki mæta í lokaorrustuna eina. Það voru hans mistök, sem enginn erfir held ég við hann í raun og veru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 18:24
Álver á Reyðarfirði mannað Íslendingum
Það var gleðiefni að sjá frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um álverið á Reyðarfirði. Það er mikil ásókn í störfin í álverinu og munu rúmlega 1500 umsóknir, langflestar frá Íslendingum, hafa borist nú þegar í um rúmlega 400 störf. Er það vilji Alcoa að þar verði náð jöfnum kynjahlutföllum í starfsmannahaldinu og hafa nú þegar þriðjungur sem þegar hafa verið ráðnir verið konur. Til að undirstrika viljann á að fá konur til starfa var Alcoa í dag með kvennadag á vegum fyrirtækisins. Mikill fjöldi kvenna þáði boðið. Fóru þær í skoðanaferðir á vinnusvæðið og boðið síðan í fyrirtækjakynningu í veitingasal starfsmannaþorpsins. Flott framtak þetta.
Það er ánægjulegt að svo margir Íslendingar sæki austur til starfa í álverið. Í fréttunum í gær var rætt við fólk frá t.d. Vestmannaeyjum og Húsavík sem hafa flust austur í Fjarðabyggð til starfa við þetta verkefni. Það er gott að sjá þessa þróun og einkum það að álverið verður mannað Íslendingum. Þær fortöluraddir höfðu heyrst hjá andstæðingum álversins fyrir upphaf framkvæmda að þar yrðu útlendingar við störf, fólk fyrir austan myndi ekki vilja vinna þar og fólk myndi ekki vilja flytja austur til starfa þar. Annað er komið á daginn og þessi frétt staðfestir vel stöðu mála og það að Íslendingar vilja sækja þangað til verka í vel launuð og góð störf.
Það er gaman að sjá hversu mikill kraftur er í fólki fyrir austan og það er gott hversu mjög byggðakjarnarnir í Fjarðabyggð hafa eflst eftir upphaf þessara framkvæmda. Þetta sést auðvitað best á Reyðarfirði, sem er nú svo sannarlega orðinn miðpunktur Austurlands.
![]() |
Konur fjölmenntu á kvennadegi Alcoa Fjarðaáls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 17:20
Vandræði Ingibjargar Sólrúnar

Það var mjög athyglisvert að sjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Silfri Egils nú eftir hádegið. Það er greinilegt að hún á í verulegum erfiðleikum með svokallaða umhverfisstefnu flokksins. Það er varla við öðru að búast með fulltrúa flokksins vælandi um að álver komi í þeirra byggðir á meðan að fyrir liggur stefna flokksforystunnar um að engin stóriðja komi til sögunnar á næstu fimm árum. Vandræðin á sér greinilega engin takmörk. Þetta er erfitt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og hún virðist varla vita hverju hún eigi að svara í þessum efnum. Þessi stefna fæddist andvana, hver tekur annars mark á svona umhverfisstefnu með lykilmenn um allt að minna á að nú vilji þeir fá álver til sín?
Það var greinileg fýla á bakvið brosin á sumum leiðtogum flokkanna í stjórnarandstöðunni þegar að samkomulag þeirra um samstarf var kynnt í vikunni. Stuðningur vinstri grænna við Halldór Halldórsson í formannskjöri á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga tryggði honum sigur í spennandi slag við Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð. Greinilegt er að vinstri grænum hugnaðist ekki að stóriðjusinnaður vinstrimaður innan úr Samfylkingunni yrði hafinn upp til vegs og virðingar með atkvæðum þeirra til öndvegis í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það blasir við öllum að mikil fýla er meðal landsbyggðarmanna í Samfylkingunni með vinnubrögð vinstri grænna.
Það er frekar skondið að fullyrða að Samfylkingin sé heilt yfir andstæðingur stóriðju. Það er enda ekki þannig og því er þessi svokallaða umhverfisstefna hjómið eitt, að mínu mati. Mér fannst Kristrún Heimisdóttir, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar í borginni, frekar vandræðaleg við að verja stöðuna innan flokksins í Silfrinu áðan. Það er ekki undrunarefni. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Umhverfisstefnan hélt ekki vatni heila nótt, heldur varð úrvinda eins og skot. Tilraunir hennar við að verja afstöðu Samfylkingarinnar varðandi Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma og önnur verkefni á vettvangi R-listans í borgarstjórn voru frekar máttlitlar, eins og við var að búast.
Það er alveg rétt sem að Egill Helgason sagði í Silfrinu áðan að Ingibjörg Sólrún hefur dalað mikið frá síðustu þingkosningum. Þá var hún vonarstjarna vinstrimanna eftir níu ára borgarstjóraferil og þrjá kosningasigra í Reykjavík. Staða hennar er allt önnur nú í upphafi þessa kosningavetrar. Það reynir nú á hvernig henni gengur. Hún stendur frammi fyrir erfiðu verkefni. Samfylkingin er að auki undarleg regnhlíf ólíks fólks í stjórnmálum. Umhverfisstefnan í felulitunum sýndi okkur vel þessar meginlínur á milli hægrikrata og verkalýðskomma sem þar eru saman komnir en eiga í grunninn ekki samleið. Það verður fróðlegt hvernig gengur með þennan hóp.
Meginlínur í því ráðast í prófkjörunum og hvernig listar flokksins raðast. Sérstaklega verður spennandi í borginni. Annars er mikið talað um að Ingibjörg Sólrún sé að sækja "sitt" fólk til framboðs og forystu og vilji skófla heilum slatta út af fólki, jafnvel þingmönnum sem eiga öflugt umboð að baki. Meðal þeirra er víst varaformaðurinn Ágúst Ólafur. Annars er það reyndar stórmerkilegt að sjálfur varaformaður Samfylkingarinnar hefur ekki sett markið enn á sæti og ekki virðast þeir sem koma inn úr armi Ingibjargar Sólrúnar, er sækja að þingmönnunum, ætla að hliðra til fyrir varaformanninum. Staða hans er varla alltof góð.
En þetta verður örlagavetur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Nái hún ekki að halda Samfylkingunni hið minnsta í kjörfylginu 2003 og halda 20 þingmönnum er einsýnt hvernig fer. Þess vegna brosir hún vandræðalega til vinstri þessar vikurnar. Það er eini valkostur hennar til stjórnarforystu. Þetta blasir við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 15:21
Uppstilling í Norðvesturkjördæmi
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi samþykkti í dag á fundi sínum á Ísafirði uppstillingu á framboðslista sinn fyrir komandi þingkosningar. Það stefnir í að Norðvesturkjördæmi verði eina kjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn stillir upp á lista, en enn á eftir að taka formlega ákvörðun í Norðausturkjördæmi, en þar verður kjördæmisþing um næstu helgi. Allir þingmenn flokksins í Norðvestri: Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson hafa lýst yfir framboði sínu.
Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, Bergþór Ólason og Birna Lárusdóttir lýst yfir framboði sínu. Það verður því nú verkefni uppstillingarnefndar að leggja fyrir kjördæmisþing tillögu sína að framboðslista. Í nóvember 2002 var haldið umdeilt prófkjör meðal sjálfstæðismanna í kjördæminu og kom til átaka vegna þess er Vilhjálmur Egilsson féll úr öruggu þingsæti. Bar hann við víðtækum brotum á prófkjörsreglum flokksins er beint hafði verið gegn sér. Það voru mikil átök sem fóru meðal annars fyrir miðstjórn með sögulegum hætti á sínum tíma.
![]() |
Stillt verður upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 11:58
Gönguferð í laufvindunum

Var að koma heim úr gönguferð. Nú er haustið endanlega að taka yfir allt hér á Akureyri. Það var notalegt að skella sér út í göngu og fylgjast með veðrinu á þessum sunnudagsmorgni. Amma mín kallaði alltaf haustvindana sem eru svo áberandi á þessum tíma ársins því fallega nafni, Laufvinda. Skammt undan er veturinn, en ég ætla þó að vona að hann verði ekki áberandi mjög með sinni kuldatíð fyrr en þá bara skömmu fyrir jólin.
Nú taka við hefðbundin sunnudagsverk en fyrst af öllu ætla ég þó að horfa á Silfur Egils. Nú er Egill kominn aftur á sinn stað í hádeginu og ég ætla mér að fylgjast með þjóðmálaumræðunni hjá honum. Nú eru prófkjörin framundan og mikil spenna er í stjórnmálunum þessar vikurnar og aðalslagurinn er jú enn eftir. Því nóg um að tala. Treysti Agli til að vera með líflega og góða umfjöllun á þessum spennutíma stjórnmálanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)