Örlög John Bolton hjá SÞ ráðin

John Bolton Valdahlutföllin í Washington eru breytt eftir þingkosningarnar á þriðjudag og demókratar taka brátt við völdum í deildum Bandaríkjaþings. Mikið er nú spáð í framtíð John Bolton, sendiherra USA hjá Sameinuðu þjóðunum. Bendir nú flest til þess að hann missi embættið vegna valdaskiptanna. Hefur verið við því búist það eina og hálfa ár sem Bolton hefur verið í embættinu að til þessa kæmi. Allt frá því að Bush tilkynnti um útnefningu Boltons í embættið þann 7. mars 2005 hefur verið deilt harkalega um hann og ágæti hans.

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman.

Nú er sú skipan mála að renna út og benti Bush forseti á það með mildilegum hætti í gær til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Verður utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það getur farið fyrir þingdeildina. Virðist sú von vera byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum á þriðjudag í Rhode Island sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell.

Örlög Boltons virðast því ráðin. Repúblikanar eru ekki samstíga um Bolton úr þessu og borin von er, svo vægt sé til orða tekið, að demókratar samþykki hann. Málið er því fast í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og fer ekki þaðan áður en valdaskiptin verða, enda er málið fallið á jöfnu í deildinni með afstöðu Chafee. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.

Hannes Hólmsteinn sýknaður

Laxness (þriðja bindi HHG) Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, var í dag sýknaður af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur Laxness, ekkju Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, en hún og dætur hennar hafa margoft talið að Halldór hefði brotið gegn höfundarrétti við ritun fyrsta bindis af þrem, sem kom út árið 2003, í röð ævisagna Hannesar um Laxness. Þetta er merkilegur dómur, sem vekur svo sannarlega athygli, en bækur Hannesar um Laxness hafa vakið mikla athygli, sérstaklega annað bindið sem var þeirra allra best.

Fannst mjög merkilegt að lesa dóminn í heild sinni er ég leit á mbl.is, en ég var að koma úr hressilegri fjögurra kílómetra göngu í Kjarnaskógi og gaf mér góðan tíma til að fara yfir þetta. Mér fannst bækur Hannesar um Laxness virkilega vel ritaðar og vandaðar. Mér fannst annað bindið algjört hnossgæti og las það með gríðarlegum áhuga jólin 2004. Á ég öll bindin svo að ég stefni að því að draga þær fram aftur fljótlega og lesa.

mbl.is Hannes Hólmsteinn sýknaður af bóta- og refsikröfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnaður húmor hjá Árna Johnsen

Árni Johnsen Það er öflug prófkjörshelgi framundan - þrjú sterk prófkjör. Þar munu örlög frambjóðenda ráðast. Fjöldi þingmanna gæti fallið um helgina og ný þingmannsefni komið til sögunnar. Mikið er skiljanlega reynt í slíkum slag. Verð þó að viðurkenna að mér brá nokkuð þegar að ég las Morgunblaðið í morgun og sá þar auglýsingu frá Árna Johnsen þar sem að nýsjálenski óskarsverðlaunaleikarinn Russell Crowe var auglýstur meðal stuðningsmanna.

Nú þyki ég nú hafa ágætis húmor en ég verð að viðurkenna að ég undrast svona framsetningu í kosningabaráttu. Hvað yrði sagt t.d. ef að ábyrgur stjórnmálamaður hér birti mynd af heimsþekktum stjórnmálamönnum og leikurum öðrum en þessum tiltekna leikara í auglýsingum sínum án heimildar þeirra? Það er ekkert vandamál að skreyta sig með fólki til stuðnings og það er vissulega eðlilegt fylgi þar hugur máli og almennilegur stuðningur sem vigtar þungt í baráttu í stjórnmálum. En þetta er eitthvað sem varla nokkur heilvita maður skilur í.

Þetta telst því misheppnaður húmor í mínum augum allavega, enda liggur hann gjörsamlega steinflatur. Það er ekki flóknara en það.

mbl.is Russel Crowe á meðal stuðningsmanna Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlát Gylfa Gröndal

Gylfi GröndalGylfi Gröndal, rithöfundur, var jarðsunginn í gær, en hann lést þann 29. október sl. Með Gylfa er fallinn í valinn góður fræðimaður, maður sem ritaði fjölda áhugaverðra bóka sem eftir munu standa til vitnis um vönduð vinnubrögð hans og yfirburðarþekkingu. Gylfi ritaði fjöldann allan af ævisögum. Í huga mér standa þar fremst gríðarlega góðar og fágaðar ævisögur þriggja fyrstu forseta lýðveldisins. Þar var skrifað með hárfínum og nákvæmum hætti um ævi þjóðhöfðingjanna.

Önnur ævisaga Gylfa sem ég met mikils og hef oft lesið er ævisaga hans um Robert F. Kennedy, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, stjórnmálamann sem ég hef alltaf metið mikils. Gylfi skrifaði um hann skömmu eftir morðið á honum fágaða og notalega ævisögu sem stendur eftir með lesandanum lengi eftir lesturinn. Einnig ritaði hann vandaða bók um Lincoln sem ég met mikils. Annað stórvirki má nefna eitt af hans síðustu verkum, ævisöguna um Stein Steinarr. Það var alveg einstaklega gott verk og vandað, skrifað af næmleika og þekkingu um Stein, sem var eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar.

Einnig má nefna ævisöguna um alþýðuhetjuna Jóhönnu Egilsdóttur (ömmu Jóhönnu Sigurðardóttur), Sigurjónu Jakobsdóttur (ekkju Þorsteins M. Jónssonar), Tómasar Þorvaldssonar, Eiríks Kristóferssonar skipherra, Björns Pálssonar á Löngumýri, Valdimars Jóhannssonar, dr. Kristins Guðmundssonar, Þorvalds í Síld og Fisk, Huldu Jakobsdóttur í Kópavogi, Kristjáns Sveinssonar augnlæknis, Helgu M. Níelsdóttur og svo síðast en ekki síst Katrínu Hrefnu (dóttur Einars Ben).

Allt eru þetta stórfenglegar bækur, en Gylfi var einn af umfangsmestu höfundum ævisagna og afkastamikill höfundur. Hans ævistarf er mikið og hefur verið farsælt. Ég á megnið af þessum bókum, en ég erfði þær þegar að Lína amma dó, en hún var mikil bókakona og átti þessar bækur. Hún treysti mér fyrir þeim, sem ég mat alltaf mikils. Sennilega vegna þess að ég hef ábyggilega mest gaman af þeim.

En leiðarlok hafa nú orðið hjá Gylfa. Það var sorglegt að honum gáfust ekki fleiri ár til fræðistarfa. En ævistarf hans ber vitni vönduðu verklagi og næmu auga öflugs rithöfundar sem markaði skref í íslenska bókamenningu okkar tíma. Blessuð sé minning hans.


Spennandi prófkjör í Suðurkjördæmi

SjálfstæðisflokkurinnÞað stefnir í æsispennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi á morgun. Þar verður nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu kjörinn og þingmannsefni valin. Það stefnir í mikla spennu, enda eru í kjöri sjö einstaklingar sem annaðhvort eru núverandi eða fyrrum alþingismenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta verður því vettvangur mikilla átaka milli reyndra stjórnmálamanna með bæði langa pólitíska sögu og merkilega. Fylgst verður með úrslitunum af áhuga.

Það vakti mikla athygli þegar að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fráfarandi leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, ákvað að gefa kost á sér í Suðurkjördæmi. Það er ljóst að leiðtogaslagurinn verður slagur Árnanna Johnsen og Mathiesen. Það hefur vakið verulega athygli að Árni Johnsen gefi upp boltann með leiðtogaframboð eftir það sem á undan hefur gerst. Árni Matt er reyndur stjórnmálamaður og leggur mikið undir með því að færa sig um kjördæmi. Þetta verður því mjög harður slagur þarna milli manna. Það stefnir þó flest í að Árni M. muni hljóta leiðtogastólinn.

Það markar prófkjörið mjög að enginn afgerandi leiðtogi er á svæðinu. Árni Ragnar Árnason sem leiddi framboðslista flokksins árið 2003 lést ári síðar eftir erfið veikindi. Drífa Hjartardóttir tók við þeim skyldum eftir fráfall Árna Ragnars og í raun nær algjörlega sinnt því á tímabilinu. Greinilegt er að Árni M. og Drífa virðast í nokkru bandalagi, en Drífa tilkynnti sama dag og Árni gaf upp boltann með leiðtogaframboð og tilfærslu úr kraganum þar yfir að hún vildi annað sætið og styddi Árna. Hún berst við Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson um annað sætið. Þeir tveir síðarnefndu vildu auk Drífu leiða listann árið 2003 en urðu undir fyrir Árna Ragnari í uppstillingu.

Um næstu sæti fyrir neðan berjast Gunnar Örlygsson, alþingismaður, Kári Sölmundarson, sölustjóri, Helga Þorbergsdóttir, varaþingmaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþingi eystra. Gunnar kemur inn nýr á svæðið, en hann er þó vissulega frá Njarðvík upphaflega og af frægri körfuboltaætt þar, en bróðir hans Teitur Örlygsson er landsfrægur körfuboltakappi í Njarðvíkunum. Gunnar leiddi Frjálslynda flokkinn í kraganum í kosningunum 2003 en sinnaðist við menn þar og skipti um flokk með miklum hvelli fyrir einu og hálfu ári. Nú mun koma vel í ljós hver staða hans er innan síns nýja flokks, er hann sækir umboð til nú.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða kona nær sterkri stöðu. Þarna berjast mjög sterkar konur um að komast ofarlega á lista. Sérstaklega fagna ég framboði Unnar Brár, vinkonu minnar, en ég ætla rétt að vona að hún nái markmiði sínu með fimmta sætinu, enda þar um að ræða mikla kjarnakonu. En þetta er allavega nokkur kvennaslagur á svipuð sæti og spurning hvaða áhrif það hefur á stöðu kvenna varðandi að hljóta þessi sæti í slag við karlana, en það vekur athygli að þær sækja allar sem ein neðar en karlarnir öflugustu, utan Drífu auðvitað, sem hefur vissulega mun sterkari stöðu sem þingmaður allt frá árinu 1999 og kjördæmaleiðtogi stóran hluta þess tíma.

En þetta verður mest spennandi vegna slagsins um fyrsta sætið. Staða Árna M. Mathiesen hlýtur að teljast fyrirfram sterkari, en það verður hart barist og allt lagt í sölurnar. Það eitt að Árni Johnsen taki fram möguleikann á fyrsta sætinu skapar líflega kosningu og alvöru átök, en lengi vel stefndi í að Árni færi einn fram í fyrsta sætið. En þetta er mikill þingmannaslagur. Þarna eru sjö núverandi og fyrrverandi þingmenn að gefa kost á sér, þar af tveir sem færa sig úr Suðvesturkjördæmi. Ekki fá allir það sem þeir vilja og spennan verður um hverjir hellast úr lestinni og verða undir.


mbl.is 13 í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í jólin

Jól Það styttist óðum í jólin, notalegasta tíma ársins. Það er kominn nokkur jólafílingur í mig, eins og ávallt þegar að nóvember hefst. Hef alltaf verið mikill áhugamaður um jólin og ég byrja að plana þau snemma ávallt á hverju ári. Til dæmis er það ævinlega þannig hjá mér að ég skrifa öll jólakort í nóvember, þá kaupi ég þær jólagjafir sem ég gef, ef nokkrar eru undanskildar og ég skipulegg allt.

Desember er mánuður rólegheita hjá mér. Það hefur nær alltaf verið þannig. Ég vil nota aðventuna til að slappa af og hafa það rólegt, njóta góðra laga og stemmningarinnar sem fylgir þessari miklu hátíð. Ég nenni ekki að eyða mánuðinum í því geðveikislega stressi sem fylgir búðunum í desember, því miður. Ég nenni ekki að taka þátt í því og nota því nóvember til að klára það sem mikilvægast er. Það er langbest, trúið mér bara. Annars er ég varla einn um þetta. Ég mun skrifa á öll jólakort sem ég sendi, sem er allnokkur slatti, í næstu viku og allar gjafir nema tvær hafa þegar verið keyptar.

Ég á afmæli í desember, tveim dögum fyrir jól, svo ég kannast við stressið sem fylgir því að eiga afmæli svo til í aðdraganda jólanna. Það vandist skemmtilega vel, en ég hef alltaf vanið mig á það að geta slappað af á þessum afmælisdegi og liggja ekki í búðarrandi. Á ekki við mig. Því er svo gott að geta klárað allt í nóvember og notað desember til hugleiðingar um gildi jólanna, en ekki standandi ergelsis í verslunum Baugsfeðga.

Þessi tími er mun meira virði en það, að mínu mati. Mjög einfalt mál í mínum huga. Vonandi eigum við öll notalegan og ergelsislausan fyrripart desember framundan. Ég ætla allavega ekki að ergja mig í búðum á aðventunni og sérstaklega ekki eyða þorláksmessu hlaupandi í örvæntingu milli verslana eða morgni aðfangadags. Það á að nota nóvember í að klára svona hluti, að mestu.

Óvissa um framtíð Íslendingabókar á netinu

Íslendingabók

Óvissa er nú uppi um framtíð Íslendingabók, ættfræðigagnagrunns Íslenskrar erfðagreiningar og Friðriks Skúlasonar ehf, en þar eru upplýsingar um ættir allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Vefurinn var opnaður í mars 2003 af Tómasi Inga Olrich, þáv. menntamálaráðherra, og hefur verið gríðarlega vinsæll.

Skv. fréttum í Mogganum er alls óvíst hvað verður um vefinn. Deilur munu vera uppi um framtíð vefsins og hvernig hann sé rekinn og haldið á málum. Þetta er afar leitt finnst mér. Ég hef notað Íslendingabók talsvert, enda er það virkilega vandaður og notalegur vefur sem skiptir okkur máli. Ég held að ég hafi öðlast áhuga á ættfræði í gegnum vefinn, en hann er jú eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Við getum því rekið tengsl okkar á milli með auðveldum hætti.

ÍE setti grunninn saman í samstarfi við Friðrik Skúlason, með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir fyrirtækisins og hefur ÍE staðið straum af meginkostnaði. Íslendingabók hefur nafn sitt frá merku fornriti, Íslendingabók Ara Fróða, en þar er saga Íslands rakin allt frá landnámi og fram á 12. öld. Fallegt heiti svo sannarlega. Ég vona að vefurinn haldi áfram, enda skiptir hann miklu máli.


mbl.is Óvissa um framtíð Íslendingabókar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband