Guðjón Arnar öskrar á Erlu Ósk

Guðjón Arnar Kristjánsson Mér var í dag bent á af vini mínum að horfa á viðtal í morgunþættinum Ísland í bítið, sem var á dagskrá í síðustu viku. Þar voru þau Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og Amal Tamimi, fræðslufulltrúi og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gestir Sigríðar Arnardóttur og Heimis Karlssonar. Þar var rætt mál málanna í síðustu viku; innflytjendamálin og ýmsar hliðar þeirra mála.

Þar fór Guðjón Arnar yfir sína hlið mála eftir ummæli varaformanns flokksins, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, og sjálfskipaðs postula flokksins, Jóns Magnússonar, sem þó gegnir engum trúnaðarstörfum þar. Erla Ósk var fulltrúi ungliða sem sendu frá sér þverpólitíska ályktun vegna skoðana "Frjálslyndra" og Amal var þarna sem innflytjandi auðvitað. Guðjón Arnar var greinilega mjög önugur yfir skoðunum ungliðanna og lítil gleði á hans brá yfir því að ungliðar allra flokka nema hans sendu frá sér ályktunina og minntu á skoðanir sínar.

Erla Ósk var hin rólegasta og talaði yfirvegað og af stillingu og Amal var greinilega ekki ánægð með Frjálslynda flokkinn vegna bakgrunns síns og talsmáta félaga Guðjóns Arnars um málaflokkinn. Greinilegt var að Guðjón var hinn versti í garð Erlu Óskar og sýndi ekki beint gleðisvip og stillingu yfir tali hennar um innflytjendamál.Erla Ósk  Steininn tók úr þegar að Erla Ósk vék tali sínu að erlendum flokkum sem talað hafa fyrir rasisma og verið afgerandi í þeim efnum. Þá öskraði hann og barði í borðið: "Við erum ekki aðskilnaðarflokkur!".

Mátti sjá þær stöllur og þáttastjórnendur allt að því titrast til yfir þessu skaplagi og látum. Undraðist ég það að formaður stjórnmálaflokks geti ekki talað yfirvegað og af stillingu um þessi mál. Það er ekki alveg hægt að skilja þessa framkomu.  

Þakka ég góðum vini í ungliðastarfinu fyrir að benda mér á þetta, enda hafði ég ekki séð viðtalið. Mér fannst það alveg kostulegt. Áhugavert að sjá það og sérstaklega hvernig Guðjón Arnar kom fram í viðræðum með formanni Heimdallar.

Ein spurning (svari sá sem vill) er ekki virk ungliðahreyfing í Frjálslynda flokknum?

Guðrún Ögmundsdóttir hættir í stjórnmálum

Guðrún Ögmundsdóttir Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður, hefur ákveðið að hætta þátttöku í stjórnmálum eftir prófkjör Samfylkingarinnar um helgina. Þar féll hún niður í ellefta sætið, sem er auðvitað ekki öruggt sæti í alþingiskosningum. Ætlar hún sér ekki að taka sæti á framboðslistum flokksins í Reykjavík að vori og klárar sitt kjörtímabil. Guðrún hefur verið á þingi frá árinu 1999 en var áður borgarfulltrúi 1992-1998; fyrir Kvennalistann 1992-1994 og síðar fulltrúi Kvennalistans innan R-listans eitt kjörtímabil 1994-1998.

Guðrún hefur á Alþingi verið talsmaður margra málaflokka og vakið athygli á sér fyrir að þora að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka. Það er að mínu mati talsverð tíðindi að henni hafi ekki verið veitt brautargengi lengur í stjórnmálastörfum fyrir Samfylkinguna. Hafði mig lengi grunað að hún gæti orðið sá þingmaður flokksins sem færi verst úr prófkjörinu, en taldi þó að hún hlyti að sleppa frá falli, enda verið lengi með sterkan stuðningsmannahóp, hóp ólíks fólks. Eitthvað hefur staðan breyst í þeim efnum og því er komið að leiðarlokum hjá þessari kjarnakonu í stjórnmálum eftir litríkan feril.

Mér fannst áhugavert að heyra hádegisviðtalið við hana á Stöð 2 í dag. Þar var hún t.d. að undrast að aðeins ein kona muni leiða lista af hálfu flokksins í vor. Einhverjir eru eflaust leiðir með pólitísku leiðarlokin hennar. Mér finnst Samfylkingin verða litlausari á þingi þegar að Guðrún Ögmundsdóttir stígur af hinu pólitíska sviði eftir að flokksmenn ákváðu að skipta henni út úr þingflokknum með þessum hætti í kosningu um hverjir skipi forystusveit Samfylkingarinnar að vori.

mbl.is Guðrún hættir afskiptum af stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorsteinn Pálsson minnist ekkert á Suðrið

Þorsteinn Pálsson

Í leiðara í Fréttablaðinu í morgun fer Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrum forsætisráðherra, yfir úrslitin í prófkjörum helgarinnar. Mikla athygli vekur að Þorsteinn skrifi ekkert um úrslitin í Suðurkjördæmi. Í 16 ár var Þorsteinn Pálsson kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi og leiddi flokkinn þar af krafti. Í ljósi þeirrar stöðu varð Þorsteinn ráðherra til fjölda ára og ennfremur formaður Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn víkur í engu orðum að stöðu mála á sínu gamla svæði. Að sumu leyti er það vissulega skiljanlegt.

Árni Johnsen var í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 kjörinn eftirmaður Þorsteins á leiðtogastóli og var í þeim stóli í tvö ár, eða þar til honum varð alvarlega á í messunni og hrökklaðist úr pólitík með skömm. Nú rúmum fimm árum síðar er Árni kominn aftur með sterkt umboð flokksmanna á svæðinu og hlaut t.d. 1877 atkvæði í fyrsta sætið, innan við þúsund færri en Árni M. Mathiesen, nýr kjördæmaleiðtogi í Suðrinu. Það er ljóst að pólitísk tíðindi helgarinnar er að finna að mestu í Suðrinu, þó margt athyglisvert hafi gerst hjá Samfylkingunni í Reykjavík.

Í kosningunum var eftirmanni Árna Johnsen á leiðtogastóli í gamla Suðurlandskjördæmi, Drífu Hjartardóttur, sem tók þingsæti Þorsteins eftir kosningarnar 1999, hafnað með athyglisverðum hætti. Það er mjög eftirtektarvert að ritstjóri Fréttablaðsins fer yfir prófkjörsúrslit helgarinnar og þar er ekki stafkrókur um stöðuna í hans gamla kjördæmavígi á árum áður. Sennilega telur hann það ekki rétt að spá í spilin þar, en þá hefði hreinlegast og best verið að skrifa um eitthvað annað. Svona yfirferð um kjördæmaspilin eftir prófkjörin án umfjöllunar um pólitíska upprisu Árna Johnsen, leiðtogakjör Árna M. Mathiesen og fall Drífu Hjartardóttur er varla trúverðugt.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur fundist í senn fróðlegt og áhugavert að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum Fréttablaðsins við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála.

En ég rakst fljótt á að ekkert var skrifað um Suðrið er ég las Fréttablaðið í morgun og sú þögn er hrópandi í hausi mér enn þegar að liðið er að kvöldi dags, satt best að segja.


Utankjörfundarkosning hafin í prófkjörinu

Sjálfstæðisflokkurinn Utankjörfundarkosning hefst í dag í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Mun ég verða í þeim verkefnum að fylgjast með utankjörfundarkosningunni ásamt fleiru. Á talningardaginn, sunnudaginn 26. nóvember, mun ég verða í Kaupangi og þar munum við telja og fara yfir öll atriði tengd þessu. Það eru spennandi tímar framundan og innan hálfs mánaðar hefur nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu, eftirmaður Halldórs Blöndals, verið kjörinn.

Mér finnst kosningabaráttan vegna þessa prófkjörs fara vel af stað. Fjórir frambjóðendur hafa nú opnað kosningaskrifstofu hér á Akureyri. Virðist mér því vera mjög vel tekið. Með þessu er brotið blað í prófkjörssögunni hérna hjá okkur en kosningaskrifstofur af þessu tagi er nýtt fyrirbæri á þessum slóðum. Við Akureyringar fögnum því vel að fólk fókuseri sig á okkar málefni og málefnaáherslur. Því er aðeins fagnað og það vel á þessum slóðum. En það líður að lokum baráttunnar og kjördagur er í sjónmáli.

Það hafa verið sviptingar í prófkjörum víða að undanförnu og fróðlegt að sjá hvernig þetta verður hjá okkur undir lok mánaðarins.

Frábær skrif Egils Helgasonar um prófkjör

Egill Helgason Ég hef alla tíð haft lúmskt gaman af skrifum og pælingum Egils Helgasonar um stjórnmál. Í þætti sínum í gær flutti hann viðeigandi hugvekju um prófkjör. Dagarnir líða varla núna án þess að við fáum fréttir af því að þingmenn fái skell í prófkjörum og að menn eða konur komist í mjúka stóla (í öruggu sætunum) í steingráu húsi við Austurvöll.

Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími, þrátt fyrir allt. En eru prófkjörin að stefna í rétta átt? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Peningahyggja prófkjöranna eru að verða ansi áberandi. Það fer enginn standandi orðið í gegnum prófkjör nema að vera þekkt andlit, hafa standandi veitingar á rándýrri kosningaskrifstofu allan daginn og vera með colgate-tannkremsbros.

Egill fjallar vel um þetta í hugvekju sinni. Þar segir m.a.

Allt hefur þetta yfirbragð lýðræðis, en er kannski ekkert sérlega lýðræðislegt. Og kemur að vissu leyti í staðinn fyrir að flokkar hafi stefnu. Prófkjörið er kannski eina alvöru lífsmarkið í flokknum. Þetta tekur líka óskaplegan tíma. Þingmaður er varla kominn í sæti sitt fyrr en hann er farinn að hugsa um prófkjör. Þar etur hann kappi við ætlaða samherja sína - fátt skapar meira hatur innan flokka en prófkjör.

Geir Haarde segir Árna Johnsen njóta trausts

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var á Rás 1 í morgun og fór þar yfir úrslitin í prófkjörum helgarinnar. Mest var þar auðvitað rætt um pólitíska endurkomu Árna Johnsen, fyrrum alþingismanns, sem aftur er á leið á þing að vori, innan við áratug eftir að hann varð að segja af sér vegna umdeilds hneykslismáls, sem leiddi til þess að hann varð að sitja í fangelsi. Sigur Árna í Suðurkjördæmi er svo sannarlega staðreynd og vekur athygli eftir allt sem á undan er gengið.

Í viðtalinu sagði Geir að Árni nyti trausts forystu Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru skýr skilaboð sem þarna koma fram. Ég er ekki viss um að allir sjálfstæðismenn um allt land séu sammála Geir. Þetta er mjög umdeilt og flestir þeir sem ég hef rætt við undrast þessa útkomu. Auðvitað má segja að þetta sé niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Þetta er val fólksins á þessu svæði. Það er ekki flóknara en það. Ég ætla ekki að falla í þann fúla pytt að segja að fullorðið fólk sé fífl með sínu vali. Það var ákveðið að boða til prófkjörs meðal flokksmanna og þetta er mat þeirra á frambjóðendunum. Einfalt mál.

Fólk í Suðurkjördæmi verður auðvitað að eiga við sig hverja það kýs sem fulltrúa sína með fúsum og frjálsum vilja. En valið er umdeilt. Ég verð að vera ósammála formanninum í þessu máli, enda tel ég það ekki Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu að Árni sé svo ofarlega á lista eftir allt sem gerst hefur. Oft hefur verið sagt að hinum iðrandi syndurum skuli fyrirgefa og við eigum að hafa mildilegt hjartalag til að fyrirgefa og horfa í gegnum allt sem gerst hefur. Það er gott og blessað en iðrandi syndurum er ekki hægt að fyrirgefa nema að iðrun sé til staðar. Það er erfitt annars.

Eftirmál þessa prófkjörs eru mikið í fréttum nú. Það er eðlilegt. Ég ætla að vona að þessi útkoma verði ekki það dýrkeypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stofnun að hún kosti ekki flokkinn atkvæði um allt land í þingkosningunum í maí. En ég óttast það, í sannleika sagt.

mbl.is Gleymdist að telja 87 atkvæði í prófkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma Árna Johnsen - fall Drífu og Guðjóns

Árni Johnsen Um fátt hefur verið rætt meira meðal trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins á þessum sunnudegi en úrslit prófkjörsins í Suðurkjördæmi þar sem Árni Johnsen sneri aftur með dramatískum hætti í forystusveit íslenskra stjórnmála og reyndum þingmönnum, sem unnið hafa fyrir flokkinn til fjölda ára, var hent út á guð og gaddinn með athyglisverðum hætti. Það eru grimmileg örlög sem blasa við flestum þingmönnum í kjörinu.

Ég fór víða í dag og um fátt var meira rætt en það að Árni er á leið aftur á þann stað sem hann var á er honum varð svo eftirminnilega á í messunni fyrir aðeins örfáum árum. Sitt sýnist hverjum auðvitað, en mér fannst viðbrögðin vera víðast á sömu lund. Ég verð að taka fram að ég hef ekkert nema gott um Árna sem slíkan að segja, en ég tel að það boði ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann fari beint í annað sætið í þessari lotu. Það er of skammt liðið frá atburðunum sem deilt var um tengt persónu Árna.

En þetta er vilji sjálfstæðismanna í kjördæminu og við það verður svo sannarlega að una. Ákveðið var að boða til prófkjörs og þetta er það sem úr því kom. Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega valið í fjölmennu prófkjöri sína frambjóðendur og það er hinn sanni lokadómur alls í þessu máli. Árni Johnsen hefur langa þingreynslu að baki og hefur notið stuðnings sjálfstæðismanna á Suðurlandi til þingmennsku í mörgum prófkjörum og var t.d. kjörinn leiðtogi flokksins á Suðurlandi í kosningunum 1999 þegar að Þorsteinn Pálsson, núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, hætti þátttöku í stjórnmálum.

Drífa Hjartardóttir Það eru mikil tíðindi að sitjandi þingmenn í forystusveit flokksins fái skell. Í kosningunum 2003 skipuðu Drífa Hjartardóttir og Guðjón Hjörleifsson annað og þriðja sæti listans. Rúmu ári eftir kosningar lést leiðtoginn Árni Ragnar Árnason eftir erfið veikindi. Þá tók Drífa við leiðtogahlutverkinu, í annað sinn á svæðinu en hún varð kjördæmaleiðtogi á Suðurlandi við afsögn Árna Johnsen árið 2001. Drífa fær mikinn skell í þessu prófkjöri. Er það óverðskuldað að mínu mati, enda hefur hún unnið vel fyrir kjósendur í kjördæminu.

Stærstu tíðindi þessa prófkjörs fyrir utan pólitíska endurkomu Árna Johnsen er ekki kjör leiðtogans heldur pólitísk endalok Drífu á þingi, sem húrrar niður listann í prófkjörinu og festir sig í sjötta sætinu, en í besta falli fá sjálfstæðismenn fjóra menn væntanlega að vori þarna. Það hlýtur að teljast afar ólíklegt að Drífa taki sjötta sætið við þessar aðstæður og meti sinn pólitíska feril kominn á ís. Það eru bitur skilaboð sem henni eru rétt. Ég skynjaði það núna að Drífa hefði ekki stuðning Vestmannaeyja og Suðurnesja að öllu leyti og svo fór sem fór. Það er enda verulega erfitt að fljúga hátt þarna án stuðnings úr þeim áttum.

Ég hef kynnst Drífu í flokksstarfinu og tel hana heiðarlegan og heilsteyptan stjórnmálamann með hjarta úr gulli. Sérstaklega var ánægjulegt að kynnast henni á málefnaþingi SUS á Hellu árið 2002. Ekki hefði mér órað fyrir á þeirri stund að innan fimm ára hefðu sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi vísað Drífu Hjartardóttur á dyr með svona köldum hætti. En svona er pólitíkin oft grimm og hörð. Það voru mér nokkur vonbrigði að hún skyldi lenda svo neðarlega og það eru ekki góð skilaboð sem send eru með því að henda þingkonu, sem hefur notið virðingar og trausts til trúnaðarstarfa, út með þessum hætti. Þetta eru þó greinilega skýr skilaboð kjósenda í prófkjörinu, sem þarna koma fram.

Guðjón Hjörleifsson Ekki er skellur Guðjóns Hjörleifssonar minni, en hann varð sjöundi í prófkjörinu og er jafnmikið úti í óvissunni og Drífa Hjartardóttir. Gaui bæjó, eins og hann er ávallt kallaður út í Eyjum, var farsæll bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í tólf ár, á árunum 1990-2002, og hefur verið alþingismaður frá kosningunum 2003, en hann kom inn sem fulltrúi Eyjanna eftir afsögn Árna. Hann hefur á kjörtímabilinu t.d. verið formaður sjávarútvegsnefndar þingsins.

Gaui er öflugur maður sem hefur sinn kraft og hefur verið áberandi í starfi flokksins, sérstaklega verið öflugur í flokksstarfinu í Eyjum. Það er greinilegt að framboð Árna og Gríms Gíslasonar gerði út af við möguleika Gaua sem hefði annars náð góðu sæti. Hann náði um tíma undir lok talningar þriðja sætinu, fór svo í fjórða en húrraði svo út í óvissuna er yfir lauk. Það hlýtur að vera kurr í Eyjum í mörgum með stöðu Gaua, ef ég þekki hans nánustu stuðningsmenn rétt.

Gunnar Örlygsson, sitjandi þingmaður kjörinn af lista Frjálslyndra, fór nú í fyrsta skipti í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hlaut nokkuð skýr skilaboð í raun út úr því. Ekki er hægt að segja að staða Kristjáns Pálssonar sé beysin miðað við aðstæður og verður að teljast afar ólíklegt að hann sjái hag sínum borgið í framboð á næstunni. En svona er þetta bara. Þessi úrslit eru stingandi grimm í ljósi örlaga nokkurra þingmanna flokksins, einkum Drífu og Guðjóns, sem hafa unnið fyrir flokkinn mjög lengi og unnið honum gagn.

En dómur flokksmanna virðist skýr. Það verður fróðlegt að fylgjast með eftirmálum prófkjörsins, enda er varla hoppandi gleði á Hellu og í Eyjum með örlög þingmannanna tveggja sem eru nú efst af hálfu flokksins á þingi.

Bloggfærslur 13. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband