17.11.2006 | 23:39
Magnús og Herdís í forystu í talningu

Talningin fer fram að Borðeyri í Hrútafirði. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Ef úrslitin verða með þessum hætti og staðan segir til um nú telst það væntanlega stórtíðindi og með því hefði Kristni H. Gunnarssyni verið úthýst úr öruggu þingsæti. Kristinn hefur verið áberandi innan flokksins um nokkuð skeið, allt frá því að hann gekk til liðs við flokkinn í Vestfjarðakjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna árið 1999.
Greinilegt er að Magnús og Herdís hafa myndað bandalag gegn Kristni H. Hvort það heldur til loka talningarinnar verður merkilegt að fylgjast með, en væntanlega munu úrslitin liggja fyrir kl. 2:00 í nótt.
![]() |
Magnús Stefánsson í fyrsta sæti Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi eftir að fyrstu tölur voru birtar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 19:46
Talning í póstkosningu Framsóknar í Norðvestri

Kosið er í fimm efstu sæti listans. Baráttan um efsta sætið er á milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, er sú eina sem sækist eingöngu eftir öðru sætinu. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Magnús leiddi listann í síðustu alþingiskosningum og vann átakakosningu milli þeirra um leiðtogastólinn á kjördæmisþingi í nóvember 2002. Síðan hefur allt að því ríkt kalt stríð þeirra á milli.
Það þótti mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi, eins og lagt var upp með. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar á kjördæmisþingi í september. Með þessu er auðvitað ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003, en þó er skilyrt að kona þurfi að vera í þrem efstu sætum.
Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð, eins og fyrr segir. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn. Fyrst og fremst hefur vakið mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er ekki alveg upp á sitt besta. Þar eru átök bakvið tjöldin.
Spenna verður því á Borðeyri í kvöld þar sem talningin fer fram og úrslitanna er beðið með miklum áhuga innan Framsóknarflokksins. Þar ráðast pólitísk örlög þingmannanna tveggja og innri átök í þeim þráðum sem þeim tengjast innan flokkins. Mikla athygli vekur svo sannarlega að talið sé á svo fjarlægum stað og á þessum tíma sérstaklega. Það er engu líkara en verið sé að reyna að fela sem mest innri átökin sem fylgja kjörinu. En já, þetta verður sannkallað spennukvöld innan Framsóknarflokksins.
![]() |
Fyrstu tölur hjá framsókn í NV-kjördæmi birtar um kl. 22 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2006 | 16:27
Útlit fyrir hörkufrost á morgun
Mér finnst snjórinn og vetrartíðin núna minna mig einna helst á byrjun vetrar árið 1995. Þá snjóaði og snjóaði snemma að vetrinum og þetta var einn snjóþyngsti vetur í seinni tíð hér fyrir norðan. Það hefur allavega ekki gerst síðan að þetta byrji af jafnmiklum þunga og jafnsnemma og raun ber vitni nú. Þá horfðum við á stanslausa kuldatíð vikum saman og mikinn þunga í snjó. Ætla að vona að svo slæmt verði þetta ekki núna.
Það er ekki laust við að jólatilfinningin vaxi þó í manni við allan þennan snjó og kulda. Það eru nú aðeins fimm vikur til jóla og það styttist óðum í jólamánuðinn, aðventan hefst af krafti eftir hálfan mánuð. Þó að úti snjói og kuldagarrinn minni á sig nú boðar hann þó besta tíma ársins, sjálf jólin. Það verður nú gaman þegar að jólaljósin fara að kvikna á næstu tíu til tólf dögum og jólaljósin lýsa upp skammdegið, sem nú er búið að taka allt yfir.
![]() |
Kuldabolinn ekki á förum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 14:06
Endurkoma Sykurmolanna

Sykurmolarnir var stofnuð árið 1986 í framhaldi af stofnun Smekkleysu. Stofnendur Sykurmolanna voru Bragi Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar Melax, Friðrik Erlingsson og Sigtryggur Baldursson. Síðar bættust við þau Þór Eldon og Margrét Örnólfsdóttir. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var smáskífa með lögunum Ammæli og Köttur. Varð Ammæli gríðarlega vinsælt um allan heim og markaði það sem við tók. Varð Ammæli eitt vinsælasta lag níunda áratugarins og er hiklaust þekktasta lag hljómsveitarinnar.
Fyrsta stóra plata Sykurmolanna hét Life´s Too Good og kom út árið 1988 og naut mikilla vinsælda um allan heim. Erlendis urðu Sykurmolarnir auðvitað þekktir sem The Sugarcubes. Aðrar plötur Sykurmolanna voru Here Today, Tomorrow, Next Week! og kom út árið 1989 og svo hin stórfenglega Stick Around for Joy, á árinu 1991. Safnplötur Sykurmolanna voru Its It og The Great Crossover Potential. Hljómsveitin hætti störfum árið 1992. Lokatónleikar hljómsveitarinnar voru 17. nóvember 1992, á þessum degi því fyrir fjórtán árum.
Ég hef alltaf verið mikill unnandi tónlistar Sykurmolanna. Hún markaði skref í tónlistarsöguna og eftir standa eftirminnileg lög og lífleg augnablik. Það er ánægjulegt að hún komi aftur saman nú. Ekki eru gefnar neinar vonir með frekari hljómleika, svo að þetta gæti orðið einstök upplifun fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar.
![]() |
Þúsund tónleikagestir til landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 12:14
Óveður í nóvember - frambjóðendur í háska

Spáin fyrir næstu viku lofar ekki góðu. Það mun vonandi ekki fara svo að veðrið hafi áhrif á kjördaginn 25. nóvember. Ef svo verður mun tefjast að fá úrslit og þetta taka lengri tíma en ella. Við erum í mjög stóru kjördæmi, sem nær yfir Siglufjörð í norðri til Djúpavogs í austri. Veður hefur því úrslitaáhrif um það hvernig að prófkjörið gengur fyrir sig. Við verðum með 20 kjörstaði þann 25. nóvember, svo að allt stendur og fellur með veðrinu. Eins og fyrr segir hafa frambjóðendurnir verið einstaklega óheppnir með veðrið og fundir fallið niður. Þetta hefur því gengið brösuglega og verið einstaklega erfitt að lenda í svona aðstæðum.
Einnig hafa frambjóðendur lent í háska. Ólöf Nordal lenti í bílslysi við Reyðarfjörð í gær og var stórheppin að sleppa lítið sem ekkert slösuð í mjög vondu slysi. Ég vil senda Ólöfu mínar bestu kveðjur og vona að hún nái sér sem allra fyrst. Kristján Þór og fleiri frambjóðendur eru veðurtepptir á Egilsstöðum, eins og fram kemur í dagbókarfærslu á vef hans. Fundarhöldum þar var auðvitað aflýst og greinilegt að ekki mun ganga að funda á öllum stöðum eins og lagt var upp með í upphafi. Veðrið gerir alveg út af við þá hlið mála.
En vonandi fer veðrið að skána og þetta geti gengið vel fyrir sig. Ef marka má þó veðurspár stefnir ekki í að svo muni fara.
17.11.2006 | 11:19
Segolene Royal forsetaefni franskra sósíalista

Segolene Royal hlaut yfir 60% atkvæða í forvali franskra sósíalista. Það hefur blasað við nú um mjög langt skeið að hún væri langlíklegasti frambjóðandi sósíalista. Sigur hennar á Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra, og Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, var því heldur betur afgerandi. Þeir voru fulltrúar hins gamla valdatíma franskra sósíalista á valdatíma Francois Mitterrand sem forseta 1981-1995 og Lionel Jospin sem forsætisráðherra 1997-2002. Sá tími er greinilega liðinn og niðurlægjandi ósigur þessara lykilmanna boðar nýja tíma meðal franskra sósíalista.
Segolene Royal er 53 ára og er í sambúð Francois Hollande, leiðtoga franska Sósíalistaflokksins. Orðrómur var lengi uppi um forsetaframboð hans, en hann ákvað að styðja frekar Segolene heldur en að gera út af við möguleika hennar. Royal vann í tæpan áratug sem ráðgjafi Francois Mitterrand, forseta Frakklands, í Elysée-höll á sviði félagsmála. Árið 1988 var hún kjörin á franska þingið. Hún var til skamms tíma umhverfisráðherra Frakklands og ennfremur aðstoðarráðherra á sviði menntamála og málefna fjölskyldu og barna. Hún var kjörin forseti héraðsstjórnarinnar í Poitou-Charentes í vesturhluta Frakklands í vinstribylgjunni í apríl 2004.
Bretar áttu Margaret Thatcher, þjóðverjar eiga Angelu Merkel og bæði Chile og Finnland hafa kjörið kvenforseta á síðustu tólf mánuðum. Það stefnir í sögulegar forsetakosningar í Frakklandi með vorinu. Í fyrsta skipti á kona raunhæfa möguleika á að verða húsbóndi í Elysée-höll. Það má búast við spennandi og líflegum átökum um forsetaembættið í þessum kosningum. Það bíða nú flestir eftir formlegri ákvörðun Jacques Chirac, forseta, um hvort hann fari fram eður ei.
![]() |
Segolene Royal valin forsetaefni franska Sósíalistaflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 02:25
Milton Friedman látinn

Friedman kom til Íslands í ágúst 1984 og flutti þar fyrirlestur undir heitinu "Í sjálfheldu sérhagsmunanna" (The Tyranny of the Status Quo), þar sem hann sagði, að einn meginvandinn af ríkisafskiptum væri, að gróðinn af þeim dreifðist á fáa, en tapið á marga, svo að hinir fáu, sem græddu á afskiptunum, berðust harðar en hinir mörgu, sem töpuðu, og sigruðu því ósjaldan.
Friedman hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands í valdatíð Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Um hann hefur mikið verið ritað og áhrif hans ná víða yfir. Í ferð minni til Washington í október 2004 heimsótti ég Cato-stofnunina í borginni. Það var eftirminnileg ferð og gagnleg. Þar fengum við að gjöf merk rit og kynnisefni um þennan mikla hagfræðimeistara, sem markaði skref í heimssöguna með verkum sínum og hugmyndafræði.
Friedman vakti athygli fyrir eftirminnileg ummæli sín og snjallyrði. Hann sagði eitt sinn að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis, með eftirminnilegum hætti, og í Íslandsförinni fyrir rúmum tveim áratugum sagði hann að frelsið væri lausnarorðið fyrir Íslendinga, aðspurður af Boga Ágústssyni, fréttamanni, í ógleymanlegu viðtali. Að leiðarlokum minnumst við Milton Friedman með mikilli virðingu. Blessuð sé minning hans.
Ítarleg umfjöllun um Milton Friedman
![]() |
Milton Friedman látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |