Sagnasjóður Össurar

Össur Skarphéðinsson Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur verið einn líflegasti bloggari landsins síðan að hann missti formennsku flokksins til svilkonu sinnar - hann hefur notað bloggið til að endurbyggja sig pólitískt eftir mikið áfall á sínum stjórnmálaferli. Hann hefur eflst við það og treyst stöðu sína með líflegum skrifum. Það er alltaf gaman að öflugir og vel ritfærir menn notfæri sér þennan vettvang. Össur er ættaður að hluta að vestan og hefur sagnagáfu þaðan, sem sést vel í tali og riti af hans hálfu.

Síðustu vikur hefur Össur skrifað af nokkrum krafti um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum með kostulegum hætti. Þar hefur hann sett sig í stellingar sagnakappa fortíðar og eiginlega komið með nútímaútgáfu af vígaferlum og átökum. Virðist hann heimfæra slíkan sögustíl yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit vel að Össur er skemmtilegur og hress kall, en finnst mjög merkilegt að lesa þessi skrif, hafandi starfað nokkuð lengi innan Sjálfstæðisflokksins. Öllum er frjálst að skrifa og hafa skoðanir á málum en þessi sagnastíll vekur athygli svo sannarlega. Ekkert nema gott um það að segja svosem. En þetta er kómísk vígaferlissaga.

Einkum vekur hann athygli vegna þess að Össur fjallar lítið orðið um pólitísk baráttumál sín og stöðu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Ekki hef ég enn séð t.d. greiningu hans á prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi, né heldur á nýrri skoðanakönnun Gallups sem sýnir Samfylkinguna með 16 þingsæti, verandi með 20 á þessum tímapunkti á þingi. Það hentar greinilega ekki að skrifa um stöðu flokksins eða útkomu eina sitjandi þingmanns Samfylkingarinnar í prófkjöri í Norðvestri. Það er svosem skiljanlegt, við áttum okkur öll á því hversvegna það hentar ekki sagnaskáldinu góða þessar vikurnar. En öll hljótum við að fagna áhuga hans á Sjálfstæðisflokknum.

Er ég einn um það að vera á þeirri skoðun að Össur hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum? Flokknum sem mælist með 43% fylgi landsmanna þessar vikurnar, í nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Það gerðist á sama tíma og gamall kjördæmahöfðingi Össurar innan Samfylkingarinnar upplýsti um að hann hefði verið hleraður eftir þrettán ára þögn sína um það og allt að því ásakanir fjölda vinstrimanna um að hér hefði verið rekin einhverntímann leyniþjónusta á vegum Sjálfstæðisflokksins. Sú tugga heyrðist á sömu stund og þetta hlerunartal sumra manna. Það má vel vera að þeir hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. En líti hver maður sér nær, segi ég.

Samfylkingin er ekki að lifa í neinni gósentíð þessar vikurnar - það sýna kannanir. Það er merkilegt að þingmaður í prófkjörsbaráttu hefur fátt þarfara um að skrifa en fabúleringar um aðra flokka og ástandið innan þeirra. Össuri hefur orðið mjög tíðrætt um Björn Bjarnason og talar um pólitískt áfall hans, eftir að hann lenti í sama sæti og hann fékk í síðasta prófkjöri. Hvernig mun annars Össur Skarphéðinsson skrifa um sig með sagnasnilld ef hann nær ekki leiðtogastól í prófkjöri flokksins um aðra helgi, hafandi leitt lista flokksins og verið í fyrsta sæti í síðasta prófkjöri flokksins? Hvernig skrifar hann um eigin ófarir tapi hann fyrir aldursforsetanum Jóhönnu Sigurðardóttur?

Ég hef gaman af Össuri og skrifum hans. Það er alltaf nauðsynlegt að menn séu virkir að skrifa. Ég bíð samt eftir að hann skrifi eitthvað um stöðu Samfylkingarinnar, eftir könnunina og fleiri þætti. Hvernig sturlungulýsingu á vígaferlum mun hann annars skrifa um sjálfan sig missi hann annars leiðtogatign í prófkjöri og formennsku flokksins allt á sama kjörtímabilinu? Þegar stórt er spurt verður annars oft fátt um svör. En haltu áfram að skrifa Össur, ég les þig meðan að í mér rennur pólitískt blóð í æðum.

Borgar Þór hættir við framboð í fjórða sætið í NV

Borgar1Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, hefur nú ákveðið að hætta við framboð í fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Herdís Þórðardóttir á Akranesi, móðursystir Borgars Þórs, systir Ingu Jónu Þórðardóttur, fyrrum borgarfulltrúa og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, hefur ennfremur tilkynnt um framboð í sætið og bendir nú flest til þess að hún muni skipa sætið sem fulltrúi Skagamanna.

Uppstillingarnefnd vinnur nú að því að velja framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, en 16 manns hafa lagt fram nafn sitt í vinnuferlið við mótun listans. Allir þingmenn flokksins í kjördæminu; Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Einar Kristinn Guðfinsson, sjávarútvegsráðherra, og Einar Oddur Kristjánsson sækjast eftir endurkjöri og bendir flest til þess að þeir skipi þessi efstu sæti áfram.

Öllum er ljóst að konu þarf ofarlega á listann og hlýtur Herdís að standa þar vel að vígi, enda er mikilvægt að fulltrúi Akraness og þess svæðis sé ofarlega á lista. Þetta er drengileg ákvörðun hjá Borgari Þór, en hann sagði í kvöldfréttum útvarps að hann myndi hinsvegar taka því sæti sem kjörnefnd myndi velja hann til að skipa.

Það verður fróðlegt að sjá skipan framboðslistans í Norðvesturkjördæmi, en væntanlega mun listinn þar liggja fyrir vel fyrir jólin.


Styttist í prófkjörsúrslit Samfó í Norðaustri

Samfylkingin Kosningu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lauk í vikunni, en þriðjudagurinn var síðasti skiladagur kjörgagna í póstkosningu flokksmanna. Baráttunni er því lokið og aðeins beðið nú úrslitanna í prófkjörinu. Þau verða ljós á laugardag, en talning fer þá fram á Akureyri. Níu frambjóðendur voru í kjöri og er kosið um þrjú efstu sæti framboðslistans.

Benedikt Sigurðarson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson sækjast öll eftir leiðtogasætinu, en þeir Benedikt og Kristján sækjast aðeins eftir fyrsta sætinu en hin tvö nefna 1. - 3. sætið. Auk þeirra voru í kjöri Einar Már Sigurðarson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján Ægir Vilhjálmsson, Lára Stefánsdóttir og Sveinn Arnarsson. Einar Már og Lára berjast um annað sætið, en þau skipuðu annað og þriðja sætið í síðustu kosningum. Allt er þetta frambærilegt fólk, en með mismikla möguleika eins og gengur.

Svenni bloggvinur og Kristján Ægir takast á um þriðja sætið við Austfirðinginn Jónínu Rós og verður fróðlegt að sjá hvernig að ungliðunum gengur í slagnum, en báðir eru þeir héðan frá Akureyri. Mesta spennan verður yfir slagnum um fyrsta og annað sætið tel ég. Bensi og Kristján hafa tekist á af krafti um forystuna og minnt vel á sig með auglýsingum, heimasíðu og almennri kynningu á opinberum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvor vinnur kjörið, varla eiga hin möguleika á leiðtogastólnum. Ég tel Kristján standa mun sterkar.

Jafnframt er öllum ljóst að prófkjörsreglurnar tryggja að fulltrúi annars kynsins á öruggt sæti í topp þremur. Það geta því ekki verið þrír karlar eða þrjár konur í efstu sætunum, svo dæmi sé tekið. Fyrirfram má telja Láru sterkasta kvennanna í eitt af þrem efstu sætunum og það væru stórtíðindi næði hún ekki öruggri kosningu svo ofarlega. Austfirðingar munu vera orðnir uggandi um hag Einars Más, en varla á Jónína Rós séns á þessu. Það verður verulegt áfall fyrir austfirska samfylkingarmenn verði aðeins norðanmenn í efstu sætum.

Það vakti mikla athygli mína að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Akureyri, Hermann Jón og Sigrún, skyldu styðja Kristján Möller með svo áberandi hætti, en bæði hafa þau birst í auglýsingum hans og á heimasíðunni. Við Akureyringar höfum ekki beinlínis séð mikið af verkum hans hér í bæ og teljum hann varla mikinn fulltrúa Akureyrar á Alþingi. Það er greinilega eitthvað þungt á milli forystu Samfylkingarinnar hér í bæ og Bensa, sé tekið mið af þessu öllu. Bensi gat ekki leynt vonbrigðum sínum og veittist á vef sínum að bæjarfulltrúunum fyrir að vinna með okkur sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn.

En þetta verða fróðleg úrslit um helgina og við stjórnmálaspekúlantar hér við fjörðinn fagra fylgjumst öll vel með því. Einn spekingur sem ég hitti á kaffihúsi í gær vildi fá spá hjá mér um topp þrjú. Sagði ég kalt mat mitt verða að röðin yrði: Kristján - Lára - Bensi. Veit ekkert hvort staðan sé með þeim hætti, en ég efast ekki um að Kristján mun vinna þetta og að Lára verði "konan" í topp þremur. Óvissan hin mesta er um hver verði með þeim. Ég tel að Einar Már muni ekki ná í topp þrjú, ef svo er verður það óvænt.

Verður allavega áhugavert að sjá stöðuna við lok talningar og hvernig listi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu verður.

Tilnefningar til Edduverðlaunanna kynntar

Edduverðlaunin Tilnefningar til Edduverðlaunanna, íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunanna, voru kynntar formlega í dag. Ég er mikill kvikmyndaáhugamaður og hef því sérstaklega gaman alltaf af kvikmyndaverðlaunum. Ég er einn þeirra sem bíð ár hvert eftir Óskarnum, tilnefningum og pælingum um þær með miklum áhuga, og met mikils allt andrúmsloftið í kringum spádóma um góðar kvikmyndir, leikframmistöður og tæknilegar hliðar hinnar flottu kvikmyndar. Ég bíð allavega spenntur eftir Óskarnum þann 5. mars.

Ég mun því fylgjast með Eddunni af áhuga. Sýnist stefnu í óvenju spennandi kapphlaup um ýmis verðlaun þetta árið. Tilnefndar sem bestu myndir eru t.d. Blóðbönd, Börn og Mýrin, allt toppkvikmyndir að mínu mati. Best þeirra er þó hiklaust Mýrin, eins og ég hef farið yfir hér á vefnum var það mynd sem algjörlega heillaði mig, gríðarlega vel gerð, leikin og með brill heildarramma. Fannst merkilegt að hvorki Theódór né Þórunn Magnea voru tilnefnd fyrir leik sinn í Mýrinni, svo var greinilega ekki munað eftir Ágústu Evu.

Finnst reyndar verulega hallærislegt hjá þeim sem sjá um verðlaunin að hafa saman frammistöður karla og kvenna í leikaraflokkunum í aðal- og aukahlutverki. Það er svona frekar dapurt að mínu mati og vert mikillar umhugsunar. En ég tel að þetta geti verið óvenjuspennandi núna. Sérstaklega finnst mér gleðiefni að Jón Ársæll er tilnefndur enn eitt árið fyrir Sjálfstætt fólk, en mér finnst sá þáttur bera af í íslensku sjónvarpi og hann fær væntanlega verðlaunin enn eitt árið, ef allt eðlilegt er.

Bendi annars á tilnefningarnar hér með.

mbl.is Börn með átta tilnefningar til Edduverðlaunanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn Það var ánægjulegt að sjá skoðanakönnun Gallups í gær. Þar sést vel sterk staða Sjálfstæðisflokksins, nú nokkrum mánuðum fyrir alþingiskosningar. Það er öllum ljóst að kannanir sýna Sjálfstæðisflokkinn í uppsveiflu, meðan að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin mega muna fífil sinn fegurri, enda missa þeir báðir mikið fylgi í könnunum síðustu mánaða, miðað við úrslit í þingkosningunum 2003.

Eftir síðustu kosningar höfðu Framsóknarflokkur og Samfylking 32 þingsæti og hefðu getað myndað saman ríkisstjórn. Össur Skarphéðinsson bauð Halldóri Ásgrímssyni forsæti í ríkisstjórn flokkanna, örskömmu eftir að fyrir lá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svokallað forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, hafði ekki náð inn á þing. Þrátt fyrir aftengingu hennar sem slíkrar kom ekki til samstarfs flokkanna. Nú mælast þessir flokkar samtals með 22 þingsæti. Mikið fall það.

Sjálfstæðisflokkurinn má vel við una, nú þegar að hann mælist með 27 þingsæti í könnun Gallups. Hann hefur minnst nú 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi, en fer hæst í helmingsfylgi í Suðvesturkjördæmi. Þetta er sterk staða og ánægjuleg fyrir okkur - eftir langa og farsæla stjórnarforystu vilja landsmenn sterkan Sjálfstæðisflokk áfram við völd. Það eru mörg tækifæri fólgin fyrir okkur í þessari stöðu. Við verðum að nýta þau.

Hér í Norðausturkjördæmi mælumst við t.d. með yfir 35% fylgi. Við verðum nú að sækja þetta fylgi og tryggja að nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörinn í prófkjörinu eftir þrjár vikur, verði fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis að morgni 13. maí 2007. Það er markmið okkar allra hér nú í kjördæminu. Að því mun ég altént vinna eftir því sem mér er unnt.

George W. Bush horfir til loka valdaferilsins

Cheney, Bush og Rumsfeld Í dag eru tvö ár liðin frá því að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Seinna kjörtímabil forsetans er því hálfnað og rúm tvö ár í það að hann yfirgefi Hvíta húsið og haldi til Texas. Í næstu viku ræðst það hvernig völd hans verða í Washington lokamisseri valdaferilsins, þegar að Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa alla fulltrúadeildina og hluta öldungadeildarinnar. Tap í kosningunum yrði meiriháttar áfall fyrir forsetann.

Tveim árum eftir kosningarnar hefur George W. Bush nú ákveðið að Dick Cheney, varaforseti, og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, verði í sínum embættum út kjörtímabilið með honum og yfirgefi valdastóla samhliða því er hann yfirgefur Hvíta húsið og flýgur inn í sólarlag ævinnar í Texas. Þessi yfirlýsing er að mínu mati mjög voguð og hugrökk í framsetningu á þessu viðkvæma tímabili repúblikana, en skiljanleg vissulega. Þó að báðir séu umdeildir eru þeir límið í ríkisstjórninni. Fyrirfram taldi ég ólíklegt að Rumsfeld yrði til loka í sínu embætti, en hann verður orðinn 77 ára í janúar 2009 er tímabilinu lýkur.

Það er merkileg staðreynd að John Kerry er búinn að missa allan trúverðugleika sem stjórnmálamaður eftir ummæli sín í vikunni, aðeins tveim árum eftir að hann var naumlega orðinn forseti Bandaríkjanna í jöfnum átökum við forsetann. Vandræðagangur hans er með ólíkindum og niðurlæging hans algjör. Ummæli hans eru áfall fyrir demókrata á viðkvæmum tímapunkti. Þrátt fyrir allt það virðist forskot demókrata nokkuð mikið. Staðan ræðst best í fulltrúadeildinni, þar sem öll sæti eru undir. Þar fáum við beint í æð hvernig Bandaríkjamönnum líður pólitískt fyrir forsetakosningarnar 2008.

Um fátt er meira rætt vestanhafs en hverjir takist á um forsetaembættið þegar að Bush hættir. Línur í þeim efnum skýrast verulega eftir kosningarnar á þriðjudag. Fyrirfram má telja Hillary Rodham Clinton og Barack Obama sterkust demókratamegin og þá John McCain og Rudolph Giuliani repúblikanamegin. Það verða nýjar áherslur því eftir tvö ár, sama hver verður ofan á. Það verða umskipti.

Ég hef aldrei farið leynt með að ég er ekki hrifinn af Donald Rumsfeld á þeim stað sem hann er nú. Mér finnst það bera vott um hugaðan stjórnmálamann að halda í hann og tilkynna það nú. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni eftir þriðjudaginn - þá ræðst hvernig síðasta misseri valdaferils Bush forseta mun ganga fyrir sig.

mbl.is Bush: Rumsfeld og Cheney munu starfa áfram í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn og álitsgjafarnir

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur síðustu daga fjallað mikið um álitsgjafana á blogginu sínu. Það hafa verið áhugaverð og lífleg skrif að mínu mati. Sérstaklega er ég sammála honum varðandi Birgi Guðmundsson, álitsgjafa hér á Akureyri. Sú var nú tíðin þegar að hasarinn var sem mestur um Framsóknarflokkinn í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar að Birgir virtist jafnhelgaður flokknum í stúdíu og Hildur Helga Sigurðardóttir er bresku konungsfjölskyldunni.

Varla mátti framsóknarmaður hreyfa sig nema að Birgir væri beðinn um að greina þá hina minnstu breytingu. Þess vegna fannst mér merkilegt þegar að Birgir var kallaður til um daginn og settur í það verkefni að greina stöðu mála í Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjörið í Reykjavík. Ég veit ekki hvaða þekkingu Birgir hefur á innri málum Sjálfstæðisflokksins umfram Jón Jónsson, verkamann í Breiðholtinu, svo ég tali hreint út. Þetta var mjög kostulegt álitstal um málefni okkar flokks sem fram komu.

Ég tek undir þá skoðun Björns að ég veit ekki hvaða forsendur Birgir hefur til að fara yfir mál okkar flokks og stöðuna sem þar er innbyrðis, frekar en hver annar maður úti á götu. Nú ætla ég að taka fram að mér finnst Birgir Guðmundsson ekki leiðinlegur stjórnmálaáhugamaður en ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir þetta álitsgjafahlutverk hans hafa farið nokkuð úr böndunum. Oftar en ekki hafa spádómar Birgis reynst skjóta yfir markið. Gott dæmi var þegar að hann spáði eftir að Halldór Ásgrímsson hætti að nú myndi sennilega Valgerður hætta bráðlega í stjórnmálum. Nokkrum dögum síðar varð Valgerður utanríkisráðherra, fyrst kvenna.

Nokkru síðar lýsti Valgerður yfir að hún ætlaði ekki í formannsframboð í flokknum og aftur kom sami spádómur Birgis. Reyndar var það skondið enda fylgdi það með yfirlýsingu Valgerðar að hún væri einmitt að ákveða að fara ekki í formannsframboð til að sinna betur kjördæmi sínu samhliða ábyrgðarmiklu ráðuneyti.

Það er gömul saga að álitsgjafar í stjórnmálum koma og fara. En það að telja Birgi Guðmundsson sérstakan álitsgjafa um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum er skemmtilega fjarstæðukennt að mínu mati. Getur hann ekkert sagt lengur um Framsókn?

Bloggfærslur 2. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband