21.11.2006 | 22:37
Fer Kristinn H. í framboð fyrir VG?

Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar. Það er mikið spjallað um það á spjallvefunum að Kristinn H. fari jafnvel í framboð fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí þar eins og ástatt er fyrir honum núna.
Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af. Það rann hægt og rólega undan því uns allt komst á kaldan klakann, eins og sagt er.
Tímarnir eru breyttir og mennirnir með, eins og máltækið segir. Nú árar ágætlega hjá Steingrími J. VG hefur verið á uppleið í skoðanakönnunum á kostnað Framsóknar og Samfylkingar sem hafa verið að tapa þónokkru fylgi í skoðanakönnunum frá þingkosningunum 2003 þegar að þessir tveir flokkar voru með þingmeirihluta saman, en kusu ekki að vinna saman. Þeir dagar eru liðnir og þeir eru orðnir fáir spekingarnir sem leggja peningana sína undir það að Framsókn og Samfylking nái þingmeirihluta að vori.
Það telst ekki beinlínis líklegt nú um stundir, með báða flokka undir kjörfylginu í Gallup-könnunum og VG á uppleið. Enda sést vel að Steingrímur J. er orðinn borubrattur með sig. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum eftir prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sumir fagna, aðrir harma skell Sleggjunnar. Það var þungt högg sem Sleggjan fékk þar eftir fimmtán ára þingmannsferil. Leiðtogatapið var honum þungt sleggjuhögg en það að verða undir Herdísi á Króknum sínu verra.
Mér finnst vinstri grænir vera einkum þeir sem harma hlut Sleggjunnar vestra nú um stundir. Það er spurning hvort Sleggjan horfir í heimahagana til Steingríms J. og sér þar blóm í haga sinnar gömlu pólitísku trúar. Kristinn H. var eins og fyrr sagði eitt sinn þingflokksformaður Framsóknarflokksins í þessu stjórnarsamstarfi um tíma. Nú blótar hann mjög því samstarfi, sem áður færði honum völd og áhrifin. Það er oft margt skrýtið í henni veröld.
Það verður mjög athyglisvert ef þessi fyrrum þingflokksformaður Framsóknar í þessu stjórnarsamstarfi endar svo núna í þessum þingkosningum sem þingframbjóðandi VG eftir dóm grasrótarinnar í gömlu högunum heima.
21.11.2006 | 21:00
Óttalega klúðurslegt

Það er mjög vont mál að skemmdir urðu á nokkrum fjölbýlishúsum við Keflavíkurflugvöll vegna röra sem sprungu í frosthörkunni í óveðrum nýlega. Í raun er þetta óttalega klúðurslegt að öllu leyti og hreint óverjandi mál. Þetta er á könnu utanríkisráðuneytisins og er því á verksviði Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Baðst hún afsökunar á því að svo fór sem fór í umræðum á Alþingi í dag.
Mér fannst afsökunarbeiðni hennar vegna málsins vera í senn bæði einlæg og heiðarleg. Þar var komið hreint fram og staða mála viðurkennd. Það ber að virða. Samt sem áður er þetta þó hið versta mál og ljóst að það er ekki viðunandi að þetta gerist. Það þarf að koma fram með skýrum hætti hvert tjónið er nákvæmlega og staðan þarf að liggja fyrir með óyggjandi hætti. Það er skiljanlegt að stjórnarandstaðan taki málið upp, en þó er þessi upphrópunarstíll engum til sóma að mínu mati.
Svæðið er á verksviði sýslumannsembættisins og það var þeirra að fylgjast með mannaferðum og kanna betur stöðu mála. Það er ljóst að betur hefði þurft að standa að málum þar og öðrum tengdum málum. En þetta verður auðvitað ekki aftur tekið og svo fór sem fór. Fara þarf yfir allar hliðar og gera kostnað og tengdar hliðar vel opinberar. En í heildina er þetta óttalega klúðurslegt, eins og fyrr segir, og engum til sóma. Það er alveg á tæru.
![]() |
Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 17:26
Robert Altman látinn

Það fór því miður aldrei svo að Robert Altman hlyti leikstjóraóskarinn, merkustu leikstjóraverðlaunin í kvikmyndabransanum, fyrir myndir sínar. Þar var hann í flokki með meisturunum Sir Alfred Hitchcock og Stanley Kubrick, svo aðeins nokkrir merkir snillingar séu nefndir. Fyrr á þessu ári hlaut Altman loksins verðskuldaðan heiður frá bandarísku kvikmyndaakademíunni; sjálfan heiðursóskarinn. Það var sigurstund þessa umdeilda en virta leikstjóra í Hollywood.
Við það tilefni flutti Altman flotta og snjalla þakkarræðu. Fáum hefði órað fyrir að það yrði lokakveðja leikstjórans til kvikmyndaheimsins. Nokkrum vikum síðar var kvikmyndin A Prairie Home Companion frumsýnd. Hún varð svanasöngur hans í kvikmyndabransanum.
Að baki er merkur ferill og allir unnendur meistaraverka kvikmyndasögunnar minnast Altmans með virðingu. Hann var einn meistaranna í kvikmyndabransanum.
Umfjöllun imbd.com um feril Altmans
Umfjöllun CNN um andlát Robert Altman
![]() |
Robert Altman látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 16:01
Avion verður Eimskip
Það er mikið gleðiefni að nafni Avion Group verði breytt í HF Eimskipafélag Íslands. Mun breytingin taka gildi á morgun og þá verður þetta gamalgróna og öfluga heiti aftur áberandi í íslensku viðskiptalífi. Saga íslensks viðskiptalífs á 20. öld verður aldrei rituð nema að nafn Eimskips verði þar áberandi. Eimskip var í marga áratugi eitt öflugasta og virtasta fyrirtæki landsins.
Eimskipafélag Íslands var stofnað 17. janúar 1914 í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík. Það varð eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins á 20. öld og oft nefnt óskabarn þjóðarinnar. Fyrsti stjórnarformaður þess var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands og eini ríkisstjóri landsins. Margir af öflugustu viðskiptamönnum þjóðarinnar síðustu áratugina voru ráðandi stjórnendur innan veggja Eimskips og þar réðust örlög íslensks viðskiptalífs í raun í áratugi.
Lykilbreyting varð hjá Eimskip árið 2003 þegar að Björgólfur Guðmundsson varð þar öflugur stjórnandi. Síðar kom Avion Group til sögunnar. Það var mun svipminna nafn og áherslur þar voru víðtækari en bara innan Eimskips, eins og flestir vita. En það er svo sannarlega ánægjulegt að nú verði Eimskip aftur aðalnafnið á þessum markaði og öflugt á sínum vettvangi.
![]() |
Nafni Avion Group breytt í HF Eimskipafélag Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 13:57
Anna Kristín þiggur þriðja sætið í Norðvestri

Anna Kristín féll með þessu í óöruggt sæti, sæti sem ekki er möguleiki á að vinnist miðað við skoðanakannanir í kjördæminu og sé miðað við þá staðreynd að þingmönnum kjördæmisins mun fækka um einn í væntanlegum alþingiskosningum. Staða mála var því skiljanlega ekki gleðiefni fyrir Önnu Kristínu, en hún tekur þann pólinn í hæðina að taka sætið og berjast fyrir því þó ekki sé það öruggt að neinu leyti.
Anna Kristín hefur ekki verið sýnileg sem þingmaður mikið í fjölmiðlum, en verið dugleg eftir því sem ég hef heyrt víða. Það er því skiljanlegt að hún hafi verið sár með þessa stöðu og að verða allt að því varaskeifa Guðbjarts Hannessonar, nýkjörins kjördæmaleiðtoga, og sr. Karls V. Matthíassonar, sem átti magnaða endurkomu með því að verða annar.
Anna Kristín hefur sagt að það hafi skaðað hana að vera úr Skagafirði og með litlar tengingar um allt kjördæmið. Þau ummæli vekja athygli í ljósi árangurs Herdísar Sæmundardóttur, varaþingmanns úr Skagafirðinum, sem skaust upp fyrir Kristinn H. Gunnarsson í prófkjöri Framsóknarflokksins og slengdi Sleggjunni sjálfri niður í þriðja sætið.
![]() |
Anna Kristín þiggur þriðja sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 12:03
Morðvopnið í Palme-málinu fundið?

Þetta var eftirminnileg atburðarás og hafði áhrif á alla sem fylgdust með fréttum og upplifðu þennan tíma. Sérstaklega stóð þetta okkur nærri, enda Svíþjóð nálæg okkur og fram að því hafði það aldrei gerst að norrænn þjóðarleiðtogi hlyti slík örlög. Sænska þjóðin var enda felmtri slegin. Tveim áratugum síðar er málið enn óupplýst. Olof Palme hafði við andlát sitt verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar í fjöldamörg ár, verið forsætisráðherra Svíþjóðar 1969-1976 og 1982-1986. Stórt skarð varð innan flokks hans og í sænskum stjórnmálum við sviplegan dauða hans. Ingvar Carlsson tók við pólitískum embættum hans, en arfleifð Palmes er enn áberandi í sænskum stjórnmálum.

Pettersson neitaði til fjölda ára að hafa banað forsætisráðherranum. Á dánarbeði árið 2004 viðurkenndi hann að hafa myrt Palme. Sekt hans hefur þó aldrei formlega verið staðfest svo öruggt sé, þó flest bendi til þess að augljósast sé að Pettersson hafi myrt Palme. Nú fyrir skömmu kom fram í nýrri heimildarmynd sem gerð var til að minnast morðsins haft eftir vini Petterssons að hann hefði séð hann skjóta Palme, en það hafi verið fyrir mistök. Ætlun hans hafi verið að ráða eiturlyfjasala af dögum en farið mannavillt.
Það eru stór tíðindi málsins að morðvopnið hafi verið fundið. Fannst byssan, Smith og Wesson 357, við köfun í vatni nærri Mockfjerd í Dölunum. Fram kemur í sænskum netmiðlum í dag að byssunni hafi verið stolið í innbroti í Haparanda árið 1983 og verið notuð við rán í Mockfjerd í Dölunum síðar það sama ár. Rannsóknir á kúlum úr byssunni þykja benda til þess að hún hafi verið notuð þegar Palme var myrtur.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi merki fundur varpar meira ljósi á þetta eitt athyglisverðasta morðmál síðustu áratuga á Norðurlöndum.
![]() |
Hugsanlegt morðvopn í Palme-málinu fundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)