Framboðsfundur á Akureyri í kvöld

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram á laugardag. Þar verður eftirmaður Halldórs Blöndals á leiðtogastóli flokksins kjörinn. Hér á skrifstofu flokksins í Kaupangi á Akureyri hefur verið góð kjörsókn undanfarna daga, en ég hef verið þar á fullu við að sjá um utankjörfundarkosninguna, sem stendur til morgundags. Það stefnir í gott veður um helgina svo að allt ætti að ganga vel um helgina.

Í kvöld munum við í stjórn Sleipnis, málfundafélags Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, standa fyrir framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Þar gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur og ræða málin. Mun fundaform verða með þeim hætti að frambjóðendur flytja framsögu og svo munu þeir frá sérvaldar spurningar frá okkur í stjórninni og að lokum gefst fundargestum færi á að spyrja þá.

Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, mun verða fundarstjóri á þessum fundi. Þar sem þetta er eini framboðsfundurinn vegna prófkjörsins sem haldinn verður hér á Akureyri hvet ég að sjálfsögðu alla Akureyringa til að mæta á fundinn í kvöld og heyra í frambjóðendunum níu.

Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna

Álit nefndar kynnt Í gær kynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, álit nefndar um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi, sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði á síðasta ári og var stýrð af Sigurði Eyþórssyni og Kjartani Gunnarssyni. Það er athyglisvert mjög að kynna sér skýrslu nefndarinnar. Þar er að finna mikil tíðindi og nýtt landslag í þessum efnum. 

Meðal grunnniðurstaðna í skýrslunni er að fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í prófkjörum innan flokkanna mega að hámarki vera 300.000 krónur. Heildarkostnaður frambjóðanda í prófkjöri má ekki vera meira en 1 milljón að viðbættu álagi sem fer eftir fjölda þeirra sem skráður er á kjörskrá, mest auðvitað á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess munu flokkarnir fá 130 milljónir króna á fjárlögum í viðbót við tæpar 300 milljónir sem þeir höfðu áður, til að standa straum af útgjöldum á kosningaári.

Auk þessa sýnist mér að þingflokkar stjórnarandstöðunnar fái hærri framlög en stjórnarflokkarnir til að jafna vissan aðstöðumun fylkinganna. Nú hefur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið í samræmi við þetta verið dreift á Alþingi. Athyglisvert er að Kjartan Gunnarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að þótt þetta hafi ekki verið talið brýnt áður fyrr, þá hafi aðstæður gjörbreyst og þörfin fyrir þetta sé orðin ótvíræð. Bendir hann einkum á líkurnar á því að fjársterkir aðilar geti keypt sér áhrif inn í stjórnmálin séu ríkari nú. Vissulega er meiri hætta á því, en hafa peningaöfl ekki alltaf haft færi á því bakvið tjöldin hingað til? Er hættan meiri nú en áður? Varla.

Mér fannst Sigríður Ásthildur Andersen, vonandi verðandi alþingismaður með vorinu, orða þetta bæði skynsamlega og vel í Kastljósviðtali í gærkvöldi. Ég er sammála henni í þessu máli. Mér finnst þetta óttaleg ríkisvæðing stjórnmálaflokka og flokksstofnana sem þarna er í uppsiglingu. Vissulega er gott að hafa skýran regluramma utan um stöðu mála, en mér finnst ekki alveg nógu gott að dæla meiru inn til flokkanna af almannafé en nú er. Ég hef t.d. afskaplega lítinn áhuga á að fjármagna kostnað við rekstur Samfylkingarinnar og Framsóknarflokkins, svo dæmi séu tekin og sennilega eru fylgismenn þeirra sama sinnis varðandi Sjálfstæðisflokkinn.

En svona er þetta bara. Eflaust er þetta umdeilt víða, enda hef ég heyrt líflegar umræður um þetta í gær og í dag. Það verður fróðlegt að heyra umræður um þetta í þinginu og samfélaginu á næstunni.

mbl.is Takmörk sett á kostnað frambjóðenda í prófkjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af umdeilda kynlífsmyndbandinu

K-Fed og Britney Það er alveg kostulegt að lesa um dramað um kynlífsmyndbandið svokallaða, sem kom í umræðuna eftir skilnað glamúrgellunnar Britney og Federline. Showið er búið þar heldur betur og engin bros eftir framan í myndavélarnar. Vart var um tíma annað rætt en þetta merkilega myndband og sögusagnir um að K-Fed ætlaði að selja sig dýrt fyrir þetta myndband. Nú segir hann að það hafi aldrei verið til. Another day - another dollar, segir máltækið.

Á meðan heldur sápuóperan í skilnaðarmáli Paul McCartney áfram, en hann á núí harðri baráttu við Heather sína, sem reyndist hið mesta skass er á hólminn kom, og vill hún nú fá vænar fúlgur Bítlafjár. Jafnast þessi erja sem vel sést á vefsíðum bresku slúðurblaðanna á við átök hjónanna í The War of the Roses þessi deilanna Macca við Mucca (eins og bresku slúðurblöðin kalla Heather). Mucca segist nú frekar vilja missa útlimi heldur en að ganga aftur í gegnum skilnað. Fyndið.

Hlægilegt. Fyndin tilvera. Það er oft mesta feikið í brosum stjarnanna, ekki satt?

mbl.is Federline segir ekkert kynlífsmyndband til með honum og Spears
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband