Sigrún Björk væntanlega næsti bæjarstjóri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, verður væntanlega næsti bæjarstjóri á Akureyri í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, nýkjörins leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem verið hefur bæjarstjóri í tæpan áratug. Ákvörðun um eftirmann Kristjáns Þórs og tímasetningu starfsloka hans í embætti mun liggja fyrir síðar í þessari viku. Kristján Þór hefur sagt, sem eðlilegt er, að bæjarstjóraskipti verði nú og hann einbeiti sér nú alfarið að nýju verkefni sínu, sem er að leiða flokkinn til sigurs hér á kjördæmavísu.

Það má telja nær öruggt að Sigrún Björk verði bæjarstjóri og taki við embættinu innan skamms. Fari það svo verður hún fyrsta konan til að gegna embætti bæjarstjóra hér á Akureyri. Sigrún Björk hefur verið hér bæjarfulltrúi frá árinu 2002, leitt menningarmálanefnd og stjórn Akureyrarstofu og verið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Hún er því okkur öllum kunn hér. Hún er reyndasti sitjandi bæjarfulltrúi flokksins utan Kristjáns Þórs, fráfarandi bæjarstjóra, og stendur þessu því næst að mínu mati. Það liggur því beinast við að hún taki við bæjarstjórastarfinu.

Í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi embætti bæjarstjóra árin 2006-2009 en Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, gegni embættinu síðustu tólf mánuði kjörtímabilsins, 2009-2010. Það er því ljóst að þrír bæjarstjórar verða á Akureyri á kjörtímabilinu. Það er nú ljóst að leiðtogaskipti verða í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Það er því hið eina rétta að röð manna færist upp, eins og ég sagði hér fyrr í dag. Sigrún Björk verði bæjarstjóri og Elín Margrét, sem var þriðja á listanum í vor, verði forseti bæjarstjórnar. Um þetta er að ég tel góð samstaða heilt yfir.

Það verða miklar breytingar hér nú þegar að Kristján Þór lætur senn af embætti bæjarstjóra og heldur í önnur verkefni. Það tryggir uppstokkun í bæjarkerfi flokksins og spennandi tíma. Það er ekkert vandamál fyrir okkur að skipa málum nú með öðrum hætti, enda höfum við hæft og gott fólk í flokksstarfinu og í ábyrgðarmiklum embættum í okkar umboði.

Valla Sverris heldur í heimshornaflakk

Valgerður Sverrisdóttir Það er heldur betur heimsreisan sem að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, er flogin af stað í. Hún er nú farin til Lettlands á leiðtogafund NATO og mun að því loknu halda til Litháens, Sviss, Kína og Japans. Hún mun verða á þessu ferðalagi allt til 10. desember nk. Hún kemur því væntanlega mátulega í jólaundirbúninginn.

Valgerður varð í júní fyrst kvenna á utanríkisráðherrastóli hér. Það var vissulega stór áfangi fyrir konur og vakti athygli. Hún hefur þó verið umdeild sem utanríkisráðherra, þó vissulega ekki nándar nærri eins mikið og sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það verður þó seint sagt að utanríkisráðherraferill hennar hafi markast af beinum og breiðum vegi.

Mér fannst eiginlega átakanlegt þegar að Valgerður fór á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og ávarpaði þar að hún var varla fær til ræðuhalda á ensku. Spaugstofan gerði gott grín af þessu. Það er því alveg ljóst að Valgerður þarf að slípa sig betur til ræðuhalda á ensku. Hún hefur þó alltaf verið dugleg og vinnusöm og það hjálpar henni eitthvað.

Það verður fróðlegt að sjá stöðu Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi að vori. Landsbyggðarþingmaður hefur ekki verið utanríkisráðherra frá því að Halldór Ásgrímsson sat á þeim stóli. Það munaði litlu að hann fengi skell í Austurlandskjördæmi hinu forna í kosningabaráttunni 1999 og hann fór um firðina á Cherokee-jeppanum sínum síðustu vikuna til að bjarga því sem bjargað yrði. Honum tókst það naumlega.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort að fjarvera Valgerðar veiki Framsóknarflokkinn hér líkt og var fyrir austan í tilfelli Halldórs áður.

mbl.is Valgerður á faraldsfæti næstu vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraskipti framundan á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Eftir leiðtogakjör Kristjáns Þórs Júlíussonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi um helgina blasir við öllum að hann muni bráðlega hætta sem bæjarstjóri hér á Akureyri. Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri hér á Akureyri frá því í júní 1998 og leitt okkur sjálfstæðismenn í þrennum kosningum. Nú verða skil þarna á, enda hefur Kristján Þór verið kjörinn kjördæmaleiðtogi okkar hér. Nú heldur hann í landsmálin til annarra verkefna. Með því verða kaflaskil fyrir okkur hér.

Um fátt er meira talað nú en hver eigi að verða næsti bæjarstjóri á Akureyri. Kristján Þór hefur tilkynnt með afgerandi hætti að hann ætli að hætta fyrir upphaf kosningabaráttunnar í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 og hádegisviðtalinu á Stöð 2. Þau starfslok hljóta að verða nú um mánðarmótin eða við áramót. Mikið er spurt um hver eigi að taka við embættinu. Áðan var ég í viðtali hjá Andrési Jónssyni á Útvarpi Sögu og þar fórum við yfir þessi mál og fleiri í góðu pólitísku spjalli. Ég er reyndar með kveflumbru en það komst vonandi allt vel til skila hjá mér.

Mér finnst að Sigrún Björk Jakobsdóttir eigi að verða næsti bæjarstjóri hér á Akureyri. Hún hefur setið lengst sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, utan Kristjáns Þórs, og verið formaður nefnda og virk í pólitísku starfi. Í prófkjörinu í febrúar var hún eini frambjóðandinn utan Kristjáns sem hlaut bindandi kosningu í sitt sæti. Hún hefur verið forseti bæjarstjórnar frá kosningunum í vor og tók við af Þóru Ákadóttur.

Það er því hið eina rétta að Sigrún Björk verði bæjarstjóri og Elín Margrét Hallgrímsdóttir verði forseti bæjarstjórnar. Það er glæsilegt fyrir okkur að hafa tvær öflugar konur í forystusveit í bæjarmálunum nú þegar að Kristján Þór hættir sem bæjarstjóri og heldur til verka á öðrum vettvangi. Það eru spennandi tímar hér framundan.

mbl.is Ummæli Þorgerðar voru „afar óheppilegt inngrip"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband