Spenna hjá Framsókn í kraganum

Siv Friðleifsdóttir Á morgun verða efstu sæti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi ákveðin á tvöföldu kjördæmisþingi. Verður þar kosið milli fjögurra einstaklinga um annað sætið og stefnir því í spennandi kosningu um sætið. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans. Siv, sem setið hefur á Alþingi frá árinu 1995, hefur sterka stöðu að því er virðist í kjördæminu og nýtur mikils stuðnings flokksmanna greinilega.

Þrátt fyrir að Siv hefði orðið undir í formannsslag við Jón Sigurðsson og ákveðið í kjölfarið að sækjast ekki áfram eftir ritarastöðunni í flokknum, sem er æðsta embætti innra starfs flokkskjarnans, (hún var ritari 2001-2006) hefur hún sterka stöðu og flestir telja hana hafa styrkst frekar en hitt. Siv leiddi lista flokksins í Reykjaneskjördæmi þegar árið 1995 og unnust tvö þingsæti á listanum þar undir hennar forystu bæði þá og 1999. Í kosningunum 2003 var hún ein kjörin á þing af hálfu flokksins í hinu nýja kragakjördæmi. Hún var umhverfisráðherra 1999-2004 og hefur verið heilbrigðisráðherra síðan í marsmánuði á þessu ári.

Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í viðskiptaráðherratíð hennar 1999-2006, var í öðru sætinu í kosningunum 2003 og munaði litlu að hann kæmist inn á þing. Hann gefur ekki kost á sér nú og helgar sig störfum fyrir Kópavogsbæ. Um annað sætið takast á þau Gísli Tryggvason, Samúel Örn Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson. Verður fróðlegt að sjá hvert þeirra fái sætið. Samúel Örn og Una María tókust á í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um leiðtogasætið að Sigurði Geirdal gengnum en urðu undir í þeim slag fyrir Ómari Stefánssyni. Una María var í þriðja sæti flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003.

Gísli Tryggvason varð talsmaður neytenda fyrir rúmu ári og þykir hafa staðið sig með ágætum í því starfi. Hann er sonur Tryggva Gíslasonar, sem var skólameistari Menntaskólans á Akureyri með miklum krafti um árabil, og því bróðursonur Ingvars Gíslasonar, sem var alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra um árabil og um skeið leiðtogi flokksins í kjördæminu og var menntamálaráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens. Þórarinn E. Sveinsson er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins nú hér í Norðausturkjördæmi. Hann hefur nú flutt sig um set og reynir við annað sætið í kraganum nú. Það er erfitt að spá hver muni ná öðru sætinu og munu allavega margir fylgjast með úrslitunum og hver nái settu marki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessu kjöri og jafnframt hvernig raðast í sætin fyrir neðan. Auk fyrrnefndra sem berjast um annað sætið og Sivjar sækjast Gunnleifur Kjartansson og Hlini Melsteð Jóngeirsson, sem báðir eru úr Hafnarfirði um neðri sætin. Eins og staða mála er í nýjustu könnun Gallups er Framsókn ekki með þingsæti í kraganum. Það er því hörð barátta framundan fyrir Framsókn í þessu kjördæmi, sem og mörgum fleiri. Staða flokksins er ekki beysin á landsvísu og hörð barátta, mikill lífróður, framundan fyrir Framsókn.

Prófkjörsskrifstofur opna á Akureyri

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorvaldur Ingvarsson, læknir, sem báðir sækjast eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að vori opnuðu í dag prófkjörsskrifstofur sínar í miðbænum á sama tíma, kl. 17:00. Fór ég við opnun beggja kosningaskrifstofanna og hitti þar gott fólk og ræddi pólitík og stöðu mála við fólk og frambjóðendurna. Það var ánægjulegt og gott spjall

Ég fagna þeim mikla krafti sem Kristján Þór og Þorvaldur leggja í baráttu sína. Þetta eru öflugir menn sem hafa metnað til verkanna og sýna það og sanna með því að opna heimasíður og kosningaskrifstofu. Ég hef ekki farið leynt með það að ég vil að Akureyringar fái öfluga málsvara á þing í komandi kosningum og ég mun styðja Akureyringa til þingmennsku og forystu á framboðslistanum að vori. Við öll hér hljótum að vilja okkar fulltrúa til verka og við vinnum að því að krafti. Við þurfum að koma okkar málum vel á dagskrá. Það er lykilatriði, tel ég allavega.

Þorvaldur Það stefnir í líflegar og spennandi kosningar. Skv. nýjustu könnunum er ljóst að við höfum stöðu til að geta fengið fjóra þingmenn og þar með leiðtogastól kjördæmisins. Það er ekki efi í huga mér að við munum berjast til sigurs í maí og til þess að nýr leiðtogi okkar sem kjörinn verður í prófkjörinu í lok mánaðarins verði fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Kannanir sýna okkur að það er staða mála í dag - við berjumst að því öll sem eitt að það vinnist í maí af miklum krafti. Ég mun því í prófkjörinu eftir þrjár vikur horfa til allra svæða og finna frambjóðendum á þeim svæðum stað á mínum lista. En ég mun styðja Akureyring til forystu á framboðslistanum. Það er einfalt mál í mínum huga og afgerandi alveg.

Á morgun mun kosningaskrifstofa Ólafar Nordal svo opna hér á Akureyri. Hún hefur ráðið Ragnar Sigurðsson, eftirmann minn á formannsstóli Varðar, sem kosningastjóra sinn hér á Akureyri og ég mun líta til þeirra á morgun. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig henni gengur í sínum slag.

Ég fagna því allavega fyrst og fremst að frambjóðendur opna hér skrifstofu og kynni með því sjálft sig og stefnumál sín af krafti fyrir okkur. Það er vel.

Hasar á Lækjartorgi - bjórsala stöðvuð

CarlsbergHasar var á Lækjartorgi í dag þegar að bjórsala Frjálshyggjufélagsins var stöðvuð þar. Voru liðsmenn félagsins handteknir þegar þeir reyndu að selja bjórinn á svæðinu. Vildu þeir með þessu mótmæla einkasölu ríkisins á áfengi. Þeir vilja að hver sem er geti flutt inn og selt áfengi og selt í almennar verslanir, ef svo ber undir fyrir einkaaðila. Mótmælin fengu því frekar drastískan endi.

Mun Sölvi Tryggvason, fréttamaður NFS, hafa keypt fyrsta bjórinn af frjálshyggjumönnum. Var sá bjór gerður upptækur og lögregla gerði Sölva grein fyrir því að hann yrði kallaður sem vitni í málinu. Þetta eru harkaleg viðbrögð. Svosem eitthvað sem búist var við, en samt ansi drastískt. Fyrir nokkrum árum reyndu Heimdellingar að selja bjór á Ingólfstorgi og fékk það svipaðan endi en þetta virðist mun harkalegra en það var.

Ég styð málstað frjálshyggjumanna og tel rétt að stokka hlutina upp. Hvort rétt hafi verið að reyna að selja bjór með þessum hætti má eflaust deila víða um. Ég vil allavega að sala ríkisins á áfengi verði afnumin og einkaaðilar fái rétt til að selja áfengi. Þetta er partur af liðnum tímum og með ólíkindum að því hafi ekki enn verið breytt.


mbl.is Komið í veg fyrir sölu á áfengi á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

James Bond snýr aftur á hvíta tjaldið

Daniel Craig007 - njósnari hennar hátignar, snýr bráðlega aftur í 21. myndinni - Casino Royale. Nú er Pierce Brosnan horfinn á braut og nýr leikari, Daniel Craig, verður bráðlega kynntur til sögunnar í hlutverkinu. Mér skilst að einhverjar breytingar séu í farvatninu í þessari mynd en margt haldi sér. Mikið hefur verið deilt um Daniel Craig sem James Bond og sitt sýnist hverjum, eins og ávallt. Mörgum finnst hann stílbrot í hlutverkið í langri sögu Bond-myndanna, en hann mun væntanlega koma með sinn stíl og eðlilegt er að breytt sé um nú.

Ég hef alla tíð verið gríðarlegur Bond-aðdáandi. Ég á allar myndirnar 20 sem gerðar hafa verið og er fíkill í spennu og hasar myndanna. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og við viljum auðvitað engar drastískar breytingar frá þessum höfuðreglum. James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni.

Það jafnast sjaldan neitt á við það að fá sér popp og kók og hverfa inn í hugarheim sagnanna. Uppáhaldið mitt í þessum myndaflokki er og hefur alla tíð verið Goldfinger frá árinu 1964. Þvílík dúndurmynd, alveg klassi. Sean Connery er og hefur alla tíð verið minn uppáhaldsBond og sá sem bæði skapaði hlutverkið á hvíta tjaldinu og markaði fyrstu og mikilvægustu sporin í hlutverkinu. Annars hlakka ég svo sannarlega til að sjá nýjustu myndina. Ég held að fullyrða megi að ég verði einn af þeim fyrstu sem skelli sér á hana hér. Enda held ég að þessi skothelda blanda af spennu, hasar og gríni klikki aldrei.

Annars gæti svo sannarlega vel verið að maður rifji upp Bond-taktana í kvöld og skelli góðri Bond-mynd í tækið. Það er alltof langt síðan að ég hef einmitt horft á uppáhaldsmyndirnar mínar í seríunni; Goldfinger og The Spy Who Loved Me (með Roger Moore). Þessar myndir klikka svo sannarlega aldrei. Hver er annars uppáhaldsmyndin þín? Hafirðu skoðun á því, láttu endilega í þér heyra hér!

mbl.is Craig sár og reiður vegna persónulegra aðdróttana í sinn garð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni

Samfylkingin Það stefnir í spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni. Um helgina verða kjörnir tveir nýjir kjördæmaleiðtogar hjá flokknum í prófkjörum í Suðvestur- og Suðurkjördæmi, í stað Rannveigar Guðmundsdóttur og Margrétar Frímannsdóttur, sem hætta á þingi í kosningunum að vori, eftir langan stjórnmálaferil. Telja má öruggt að mikil spenna verði í báðum prófkjörum og hefur verið hörð barátta um leiðtogastólana í báðum kjördæmum.

Í Suðurkjördæmi hefur verið hörð barátta á milli Björgvins G. Sigurðssonar, Jóns Gunnarssonar, Lúðvíks Bergvinssonar og Róberts Marshall um leiðtogastól Margrétar Frímannsdóttur, sem hefur leitt lista á Suðurlandinu síðan 1987, en Róbert nefnir reyndar annað sætið líka inn í það á hvað hann stefnir. Er ljóst að ekki munu allir verða sáttir við úrslit helgarinnar, enda er tryggt að ein kona muni komast upp á milli þeirra og virðast flestir reikna með að Ragnheiður Hergeirsdóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Árborg, verði sú kona sem nái að komast ofarlega.

Virðist í fljótu bragði vera mesti hasarinn á milli Björgvins og Lúðvíks, enda er það visst uppgjör sömu hópa og síðast, en Lúðvík gaf kost á sér gegn Margréti Frímannsdóttur í prófkjöri flokksins í Suðrinu í nóvember 2002, en Margrét vann nokkuð nauman sigur, þó að henni væri sótt af krafti. Nú er Lúðvík með aðra stöðu, enda er Róbert Marshall ættaður úr Eyjum og sækir á sömu mið og hann. Það er víst að Björgvin G. Sigurðsson virðist hagnast mest á þessari stöðu. Það yrði mikið áfall fyrir Lúðvík, næði hann ekki að sigra prófkjörið og jafnvel verða illa úti tapi hann leiðtogaslag og falli niður listann. Þetta verður hörkubarátta milli þeirra.

Í Suðvesturkjördæmi takast Árni Páll Árnason, Gunnar Svavarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir um leiðtogastól Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er hörkubarátta sem gæti farið á hvern veginn sem er, þó ekki sé óvarlegt að reikna með því að Gunnar stórgræði á því að vera kandidat Hafnfirðinga til forystu, en Samfylkingin hefur eins og flestir vita hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og bærinn er mesta jafnaðarmannavígi kjördæmisins. Árni Páll er úr Kópavoginum og gæti grætt á því og svo er Þórunn með mesta þingreynslu allra frambjóðenda í prófkjörinu, og er orðin efst í kjördæminu utan Rannveigar og ætti sú reynsla að skila henni einhverju.

Um sætin fyrir neðan takast á t.d. Katrín Júlíusdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Axel Axelsson, Jakob Frímann Magnússon, Jens Sigurðsson, Kristín Á. Guðmundsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Magnús M. Norðdahl, Sandra Franks, Tryggvi Harðarson og Valdimar Leó Friðriksson. Það er ekki beinlínis auðvelt að spá eitthvað í stöðu mála, þó auðvitað sé Katrín með mjög sterka stöðu ofarlega á listann, verandi þingmaður og hafa hlotið góða kosningu í prófkjörinu í nóvember 2002. Það eru margir sem gefa kost á sér í prófkjörinu, alls 19 manns, og ekki munu allir fá það sem þeir vilja. Það verður fróðlegt að sjá röð efstu manna er yfir lýkur.

Þetta verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni og sérstaklega fróðlegt að sjá hverjir hljóta leiðtogastólana í þessum kjördæmum og taki við af kjarnakonunum Rannveigu og Margréti. Auk þessa alls munu úrslit liggja fyrir á morgun í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun munu því línur liggja fyrir í öllum kjördæmum innan Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar, utan Reykjavíkur, en þar fer prófkjör fram laugardaginn 11. nóvember nk. En meira að því síðar.

Mikil samstaða um nýtt fjölmiðlafrumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Um fá mál hefur verið deilt meira í seinni tíð í íslenskum stjórnmálum en löggjöf um fjölmiðla og beitti forseti Íslands í fyrsta skipti 26. greininni gegn slíkri lagasetningu sumarið 2004. Það var mikið átakaár og tekist á af gríðarlegum krafti milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Síðan hefur forystumönnum stjórnmálaflokkanna tekist að færa málið allt upp á hærra plan og náðist góð samstaga um meginhluta nýrrar löggjafar um málið í nefnd menntamálaráðherra (skýrsla nefndarinnar).

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, mælti í gær á þingi formlega fyrir nýjum fjölmiðlalögum og var lífleg umræða á þingi eftir framsögu hennar. Virðist góð samstaða einkenna tal stjórnmálamanna um fjölmiðlafrumvarp nú - það er gleðiefni svo sannarlega. Um fjölmiðlamálið hið fyrra var rætt í yfir 100 klukkustundir, aðeins EES var rætt lengur á þingi en það. Var enda mjög líflegt að fylgjast með umræðum um fyrra frumvarpið fyrir tveim árum. Sérstaklega misstu menn húmorinn yfir annarri umræðu er stjórnarandstæðingar lásu upp úr ljóðabókum og fleiri ritum fjarlægum málinu sem slíku.

Samkvæmt nýja frumvarpinu er eignarhald á fjölmiðli takmarkað við 25% ef markaðshlutdeild er meira en þriðjungur. Þetta er því í meginmáli það sem kom fram í nefndinni og er ánægjulegt að hægt sé að fara í þingið og ræða þetta á þeim grunni að menn séu meira og minna sáttir við undirstöður málsins og halda með það út úr skotgröfunum, sem einkenndu deilurnar fyrir tveim árum. Það var til marks um samstöðuna sem yfir málinu er að fyrsta umræða stóð ekki mjög lengi. Eina sem virtist vera greinanlegt af gagnrýni í málflutningi stjórnarandstöðunnar var að ekki skyldi málið rætt um leið og frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.

Fjölmiðlamálið árið 2004 var eins og fyrr segir mikið hitamál. Öll hljótum við að fagna því að ekki sé annar eins hasar í uppsiglingu. Í haust skrifaði ég ítarlegan sögupistil um fjölmiðlamálið anno 2004 og bendi að sjálfsögðu á hann hér með.

Heilsu Ariels Sharons hrakar

Ariel Sharon Nær allt þetta ár hefur Ariel Sharon, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, verið í dauðadái og barist fyrir lífi sínu af miklum krafti. Það stefnir nú væntanlega í endalokin, en ástandi hans hefur hrakað mjög seinustu daga. Heilablóðfallið sem hann fékk í ársbyrjun var svo mikið högg að flestir áttu ekki von á að hann gæti lifað lengi eftir það. Síðan er að verða liðið eitt ár. Það er varla undur að Sharon skyldi vera kölluð jarðýtan, sé tekið mið af því harður og einbeittur hann var, þó á efri árum væri.

Löngum var góð heilsa og úrvalsúthald eitt af aðalsmerkjum Ariels Sharon. Hann var maður sem vann alla tíð langan vinnudag, helgaði sig vinnu og áhugamálum tengdum stjórnmálum. Seinni kona hans, Lily, lést úr krabbameini árið 2000, ári eftir að Sharon varð leiðtogi Likud-bandalagsins. Var það honum mikið áfall og vann hann sig út úr því áfalli með meiri vinnu og álagi tengdu henni. Helgaði hann sig pólitískri baráttu og lagði sig allan fram í þingkosningunum í febrúar 2001, þar sem hann var forsætisráðherraefni Likud-bandalagsins.

Þegar að Sharon fékk höggið mikla stefndi í enn einn kosningasigurinn. Hann hafði slitið á bönd sín við Likud, sem hann átti stóran þátt í að stofna árið 1973, og stofnaði eigin flokk, Kadima (Áfram). Er stefndi í líflega kosningabaráttu og næg verkefni til úrlausnar hjá hinum 77 ára gamla forsætisráðherra kom að því að úthald hans brást. Þess sáust merki laust fyrir síðustu jól að heilsa Sharons væri tekin að dala. Þann 18. desember sl. fekk hann vægt heilablóðfall. Hann sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða.

Ákveðið var að hann tæki blóðþynningarlyf til að ná sér eftir veikindin og ákveðið var að hann færi í aðgerð í upphafi nýs árs til að laga meðfæddan hjartagalla sem komið hafði í ljós og talinn þáttur í veikindunum. Síðdegis þann 4. janúar sl. fékk Sharon annað heilablóðfall. Var hann fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að það væri mun alvarlegra en hið fyrra - staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma og við tók óviðráðanleg staða.

Samkvæmt fréttum nú hefur heilsu hans hrakað mjög hina síðustu daga. Það kemur væntanlega brátt að leiðarlokum fyrir Ariel Sharon. Eins og fram kom í kosningunum í mars átti Kadima sér líf án Ariels Sharons. En flokkur hans var stofnaður á krafti hans og stuðningi meðal þjóðarinnar og fékk sín völd þá byggt á því. Síðan hefur hallað undan fæti fyrir Kadima og nýjan leiðtoga, Ehud Olmert, sem tók við völdum á viðkvæmu tímabili fyrir ísraelsku þjóðina. En það stefnir í önnur kaflaskil. Lífsbaráttan ein stendur nú eftir fyrir skriðdreka ísraelskra stjórnmála.

mbl.is Sharon fluttur á gjörgæsludeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband