Óvinir ríkisins

Óvinir ríkisins Í dag kom út bókin Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Þar er vikið að ógnum og innra öryggi í kalda stríðinu hérlendis. Veigamikill þáttur þessa eru auðvitað hlerunarmálin á því tímabili. Skipuð hefur verið rannsóknarnefnd til að fara yfir þetta tímabil og gögn því tengdu. Um fátt hefur verið meira rætt í íslensku samfélagi á árinu en þessi mál í kalda stríðinu og þar blandast inn í uppljóstranir um jafnvel hleranir eftir lok kalda stríðsins.

Í bókinni kemur fram að úrskurðað hafi verið um hleranir hjá fjölda einstaklinga hér á landi sem ekki hafi verið nefndir á nafn til þessa í umfjöllunum um hleranir á tímum kalda stríðsins. Eru þar nefnd til sögunnar leikarahjónin Arnar Jónsson og Þórhildi Þorleifsdóttur, fyrrum alþingismann, Pál Bergþórsson, fyrrum veðurstofustjóra og veðurfræðing, Margréti Indriðadóttur, fyrrum fréttastjóra Ríkisútvarpsins, og Úlf Hjörvar, rithöfund. Ef marka má lýsingar á þetta fólk að hafa verið metið ógn við öryggi ríkisins og sent inn beiðnir fyrir hlerunum í sex skipti á árunum 1949-1968.

Útgáfa bókarinnar kemur nokkrum dögum eftir að upplýst var að sími Hannibals Valdimarssonar, fyrrum ráðherra og forseta ASÍ, var væntanlega hleraður og veitt til þess leyfi. Hefur verið um fátt talað meira síðustu dagana en þá uppljóstrun. Gerðist þetta á árinu 1961, en á þeim tíma sat Hannibal á Alþingi og var forseti Alþýðusambandsins. Nokkrum árum áður hafði Hannibal verið ráðherra og áður verið formaður Alþýðuflokksins og sat á þessum árum á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Síðar varð hann ráðherra aftur og var áhrifamikill forystumaður á vinstrivængnum, allt til loka stjórnmálaferilsins árið 1974.

Það er alveg greinilegt að þessa bók verð ég að lesa fljótlega og ég stefni að því að kaupa mér hana. Ég stefni að því að lesa hana er ég hef lokið við lestur á ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, siðasta formanns Alþýðubandalagsins, en hún er þessa dagana í lestri hjá mér. Mér hefur fundist skrif Guðna Th. bæði áhugaverð og fróðleg. Í fyrra gaf hann út vandaða bók, Völundarhús valdsins. Byggðist hún á ítarlegum minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980.

Birtust þar áður óbirtar heimildir úr einkasafni Kristjáns. Var í bókinni sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Keypti ég mér þá bók um leið og hún kom út og las hana með miklum áhuga og ritaði þennan pistil á svipuðum tíma. Var Völundarhús valdsins að mínu mati ein af best heppnuðu bókum um stjórnmál á seinustu árum og væntanlega er Óvinir ríkisins ekki síður vel heppnuð.


mbl.is Leyfi veitt fyrir símhlerunum hjá fjölda þekktra einstaklinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðbúin afsökunarbeiðni á tæknilegum mistökum

Árni Johnsen Um síðustu helgi birtist grein eftir Árna Johnsen í Morgunblaðinu. Þar baðst hann afsökunar á afbrotum sínum fyrir fimm árum og að nota orðin: tæknileg mistök, um þau alvarlegu afbrot sem leiddu til þess að hann hrökklaðist af þingi með skömm. Ég las þessa grein með áhuga fyrst í kaffipásu í Oddeyrarskóla hér á Akureyri á laugardagsmorgun þar sem fram fór kjörfundur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í kjördæminu. Þetta var athyglisverð og eftirtektarverð grein, svo mikið er alveg víst.

Ég hef á þessum vef talað hreint út um málefni Árna Johnsen. Það hefur ekki verið nein tæpitunga, eins og allir vita sem lesið hafa. Mér blöskraði afleitt orðalag Árna í fjölmiðlum eftir að hann fékk annað tækifæri til framboðs fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir lögbrot hans á sínum tíma, sem leiddi til þess að hann varð að sitja í fangelsi fyrir. Með orðum sínum mélaði Árni Johnsen þetta gullna tækifæri og gerði að engu þá góðvild sem hann mætti meðal fjölda fólks og gerði forystumönnum Sjálfstæðisflokksins mjög erfitt fyrir. Þetta var alveg skelfilegt klúður hjá þessum manni, svo hreint út sé talað.

Mér fannst þessi grein merkileg í ljósi þess hve langt var liðið frá ummælum Árna um tæknilegu mistökin. Þá voru um tvær vikur liðnar frá þessum dæmalausu ummælum og ekkert heyrst í Árna áður nema máttlaust yfirblaður í Fréttablaðinu nokkrum dögum áður. Ég er einn þeirra sem hefði alveg getað hugsað mér að taka Árna í sátt hefði hann beðist afsökunar á réttum tímapunkti og unnið málið með eðlilegum hætti. Það kaus hann að gera ekki. Ég get því ekki litið á þessa grein með öðrum augum en að þarna komi fram þvinguð afsökunarbeiðni í ljósa hita umræðunnar sem kviknaði vegna orðavals Árna.

Mér fannst merkilegast við að lesa greinina að ég trúði ekki orði af því sem þessi maður var að skrifa. Ég sá aðeins fyrir mér sama mann muldra orðin tæknileg mistök um lögbrot sín, þar sem reynt var að gera lítið úr alvarlegum afbrotum, sem enn eru í minni landsmanna. Mér finnst gríðarleg reiði almennra flokksmanna innan Sjálfstæðisflokksins vegna þessara ummæla hafa komið vel fram í ályktunum Sambands ungra sjálfstæðismanna og Landssambands sjálfstæðiskvenna. Það eru skoðanir forystufólks í stórum landssamböndum innan flokksins. Það er rödd sem skiptir máli, á því leikur enginn vafi í huga fólks. Úrsagnir úr flokknum tala líka sínu máli.

Það er erfitt að snúa úr þessari stöðu. Ég er enn sama sinnis nú og ég var í skrifum hér á föstudagskvöldið. Mér fannst þessi grein skilja lítið eftir sig. Hefði hún komið viku fyrr hefði ég jafnvel getað hugsað mér að segja að þessi maður ætti skilið einhvern séns á því að vera fyrirgefið. Mér varð enda að orði við sessunaut minn í kaffipásunni í Oddeyrarskóla þennan laugardagsmorgun þegar að við ræddum um þetta: Too little - too late. Fá orð en þau segja allt sem ég hef að segja um þessi skrif.


Styttist í jólin

Akureyrarkirkja Það er innan við mánuður til jóla. Jólaundirbúningurinn er því að fara af stað hjá flestum af krafti. Skammdegið er skollið á með sínu tilheyrandi myrkri, snjórinn sem fallið hefur seinustu daga hefur lýst upp myrkrið. Á stöku stöðum er fólk farið að setja upp jólaljós og bærinn er óðum að verða jólalegri. Starfsmenn Akureyrarbæjar eru nú í óða önn að koma bænum í jólabúninginn.

Jólaljósin eru komin upp í miðbænum og jólastjarnan er komin upp á sinn stað í Kaupvangsstræti. Aðventa hefst á sunnudag - á laugardag verður kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti. Flestir telja óhætt að hefja helsta undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund.

Hefð er fyrir því að bæjarstjórinn á Akureyri tendri ljósin á jólatrénu. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, mun í síðasta skipti tendra ljósin á jólatrénu á laugardaginn, enda mun hann láta af störfum sem bæjarstjóri þann 9. janúar nk. Ávörp við þetta tilefni munu flytja þeir Kristján Þór og Helgi Jóhannesson, konsúll Dana á Akureyri. Óskar Pétursson mun syngja nokkur lög við þetta tilefni auk þess sem Lúðrasveit Akureyrar og stúlknakór Akureyrarkirkju verða með atriði.

Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.

Bloggfærslur 30. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband