Dramatík í Hádegismóum

Sigurjón M. Egilsson Það hefði verið fróðlegt að vera fluga á vegg á ritstjórnarskrifstofum Blaðsins í Hádegismóum í morgun þegar að yfirstjórnin rak Sigurjón M. Egilsson, ritstjóra, á dyr og tilkynnti honum að lögbanns yrði krafist á hann og verk hans á vettvangi fjölmiðla færi hann að starfa fyrir aðra slíka næstu sjö mánuðina. Þetta eru harkalegar aðgerðir. Brigsl ganga á báða bóga um svik á samningum og kuldalegt viðmót blasir við Sigurjóni þegar að hann yfirgefur Blaðið, sem hann var ráðinn til ritstjórastarfa fyrir í sumar.

Er búið að vera fróðlegt að taka netrúntinn í dag og skoða umfjöllun um þetta. Fjölmiðlaspekúlantarnir á netvellinum voru ekki lengi að skúbba þessu og koma með sína sýn á stöðu mála eftir dramatík morgunsins í Hádegismóum. Sigurjón sjálfur, sem er bloggari hér í samfélaginu okkar, hefur sagt sína hlið mála og kemur þar með það innlegg að leiðaraskrif hans í dag hafi getað verið ástæða uppsagnarinnar með þessum hætti. Mun líklegra er þó að þar hafi ráðið orðrómur um að Sigurjón horfði í aðrar áttir starfslega séð við fjölmiðla.

Uppsagnarbréfið er mjög kuldalegt, svo ekki sé nú meira sagt, og greinilegt að milli aðila var algjör trúnaðarbrestur orðinn. Það er varla undrunarefni að Blaðið horfi í smáa letur samnings síns við Sigurjón og vilji taka hann úr umferð meðan samningsmörkin ganga yfir. Það er alþekkt að fólk á t.d. ljósvakafjölmiðlum getur ekki labbað milli stöðva einn, tveir og þrír. Gott dæmi hafa verið Sirrý, Helgi og Svansí sem voru neydd til að bíða af sér uppsagnarfrestinn og eða voru sett í hrein skítverk á bakvið tjöldin meðan að mörk samnings kláruðust eða hreinlega neydd til að bíða utan sviðsljóssins eftir því.

Það er greinilegt að bitur og beitt deila er framundan milli Sigurjóns og Blaðsins til að reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007. Fróðlegt verður að fylgjast með því og ekki síður frekari kjaftasögum af Sigurjóni og því hvað hann hyggst gera nú við þessi kuldalegu útgöngu hans í Hádegismóum á þessum föstudegi.

mbl.is Sigurjóni M. Egilssyni hótað lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóðmæli Helga

Helgi SeljanMóðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, gaf nýlega út ljóðabók sína þar sem eru ýmisleg ljóð úr öllum áttum eftir hann, en hann hefur alla tíð verið mjög hagmæltur og ort talsvert í gegnum tíðina, bæði fyrir og eftir að hann sat á þingi á áttunda og níunda áratugnum fyrir Austurlandskjördæmi.

Hafði virkilega gaman að lesa bókina og fara yfir ljóðin, enda mörg þeirra virkilega falleg og bera vel vitni ást hans til Austfjarða og sum bera vel vitni stjórnmálaskoðunum hans, en hann var snemma vinstrimaður og hefur í áratugi unnið í stjórnmálum, bæði fyrir Alþýðubandalagið og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Finnst eitt ljóð sérstaklega fallegt og læt það fylgja hér með:

Friðarbæn

Helgnýr heiminn skekur,
herlúðrarnir gjalla.
Feigðarvofu vekur
vítt um heima alla.
Harm ber fólk í hljóði,
hugsjónirnar víkja.
Vargöld, vígaslóði,
vá og skelfing ríkja.

Hatrið grimma gellur,
geigvænt fylgir stríðum.
Sprengjufjöldi fellur,
feigðarboði lýðum.
Ríkir grimmdin gráa,
gjafi illra verka.
Vei þeim veika og smáa,
valdið er hins sterka.

Máttvana fólk mænir
í myrkrið ógnarsvarta.
Hljóðar bærast bænir
bljúgar innst frá hjarta.
Stríðsins hopi helsi,
hatrið burtu víkir.
Gefist friður, frelsi,
fagurt kærleiksríki.


Hjálmar gefur kost á sér gegn Guðna

Hjálmar Árnason Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið á lista flokksins í prófkjöri þann 20. janúar nk. Þar með gefur hann kost á sér gegn Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, sem er sitjandi leiðtogi flokksins í kjördæminu og hefur leitt framboðslista á Suðurlandi frá árinu 1995 en setið á þingi frá árinu 1987. Þetta hljóta að teljast mikil tíðindi og fróðlegt verður að sjá hvernig prófkjörið fari.

Hjálmar hefur verið alþingismaður Framsóknarflokksins frá árinu 1995, 1995-2003 fyrir Reykjaneskjördæmi og síðan fyrir Suðurkjördæmi. Hann skipaði annað sætið á lista flokksins síðast. Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Það hlýtur að vera ekki beint sunnlenskum bændahöfðingjum að skapi að Guðni fái mótframboð og sunnlendingar hljóta að passa upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín.

Það má eiga von á spennandi leiðtogarimmu milli þeirra Guðna og Hjálmars. Nú stefnir reyndar í spennandi prófkjör heilt yfir. Ísólfur Gylfi Pálmason, bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrum heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 1995-2003 en féll af þingi í kosningunum árið 2003 hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér að þessu sinni og helga sig sveitarstjórnarmálum, en hann er sveitarstjóri í Hrunamannahreppi. Það losnar því um varaþingsæti sem nú er og verður spennandi rimma um næstu sæti, en meðal þeirra sem gefið hafa kost á sér eru þjóðfélagsrýnirinn Bjarni Harðarson og Eygló Harðardóttir í Eyjum.

Guðni Ágústsson En menn munu fyrst og fremst fylgjast með leiðtogaslagnum sem verður líflegur. Allir sjá að Guðni mun sækja fram af hörku, enda miklu fyrir hann að tapa missi hann leiðtogastólinn. Heldur verður það nú að teljast ólíklegt að Guðni tapi slagnum en Hjálmar tekur mikla áhættu með sínu leiðtogaframboði, enda hætt við að sunnlendingar kjósi annan en hann í annað sætið.

Það var áfall fyrir Hjálmar að verða ekki ráðherra í vor, enda sitjandi þingflokksformaður en vissulega ekki kjördæmaleiðtogi. Hann hafði reyndar fengið alvarlegt hjartaáfall nokkrum mánuðum fyrr og verið utanþings nokkurn tíma vegna þess. Hjálmar virðist hafa náð sér að fullu og reynir nú að marka sér stöðu sem kjördæmaleiðtogi framsóknarmanna. Það er merkileg ákvörðun í stöðunni.

Aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar er Eysteinn Jónsson, sonarsonur Eysteins Jónssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins. Eysteinn yngri er nú leiðtogi Framsóknarflokksins innan A-listans sem er sameiginlegt framboð Framsóknar og Samfylkingar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hann er því héraðshöfðingi í sveitarfélagi Hjálmars Árnasonar. Fróðlegt er að vita hvorn hann styður. Væntanlega styður hann Guðna, enda aðstoðarmaður en þetta er fróðleg staða sem Eysteinn er í núna fyrir þetta prófkjör.

En þetta verður líflegt prófkjör. Held annars að það sé rétt hjá mér að þetta er í fyrsta skiptið sem Guðni Ágústsson fer í prófkjör á sínum langa stjórnmálaferli.

mbl.is Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband