Kona ársins

Ásta Lovísa Ég, eins og allir aðrir, varð snortinn af lífsreynslusögu Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur, er hún lýsti alvarlegum veikindum sínum í Kastljósi í nóvember. Mér finnst aðdáunarvert að sjá þann styrk sem hún býr yfir í veikindum sínum og hefur sést t.d. vel á bloggsíðu hennar. Þar skrifar sannkölluð hvunndagshetja af styrk og krafti um erfiða baráttu sína. Ég ber mikla virðingu fyrir styrk hennar í þessum veikindum og hef oft verið snortinn af skrifum hennar.

Það er viðeigandi að hún sé valin Íslendingur ársins. Í huga mér er Ásta Lovísa kona ársins. Þvílíkur karakterstyrkur og einbeitni sem skín í gegn í baráttu hennar og framkomu við erfiðar aðstæður. Hún á virðingu okkar allra skilið. Í huga mér er hún maður ársins og ég mun velja hana í væntanlegri kosningu á Rás 2 á manni ársins í vikunni og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.

mbl.is Ísafold velur Ástu Lovísu Íslending ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubbi er alveg magnaður

Bubbi Morthens Þeir eru ekki margir sem halda upp á fimmtugsafmælið sitt með þriggja tíma tónleikahaldi og hoppa um risasvið hylltir af þúsundum gesta. Þetta gerði Bubbi Morthens á fimmtugsafmælinu þann 6. júní sl. Útkoman voru ógleymanlegir tónleikar sem lengi verða í minnum hafðir. Það var alveg magnað, satt best að segja, að setja DVD-disk með tónleikunum í tækið í gærkvöldi. Það var vel hækkað og notið tónlistarinnar til fulls. Tónleikarnir voru gefnir út í veglegri mynddiskaútgáfu og er þegar orðinn einn mest seldi tónleikadiskur hérlendis.

Tónleikarnir sem haldnir voru á þeirri merku dagsetningu 060606 eru með þeim bestu hérlendis síðustu árin. Þar var farið yfir tæplega þriggja áratuga tónlistarferil Bubba, allar hljómsveitirnar sem hann hefur sungið með og öll ógleymanlegu lögin sem eftir standa á þessum glæsilega ferli sem Bubbi hefur átt. Þessir tónleikar eru merkileg upplifun, sérstaklega fyrir okkur sem höfum verið aðdáendur Bubba alla tíð. Hann hefur oft verið gríðarlega pólitískur og gengið langt, ég persónulega hef ekki alltaf verið sammála honum en met framlag hans til tónlistarinnar.

Það er auðvitað bara hreint og klárt afrek sem Bubbi skilar á þessum tónleikum. Þriggja tíma þéttur pakki og öflugt prógramm sem coverar feril Bubba. Ég horfði á tónleikana í beinni útsendingu á sínum tíma og fannst þeir flottir þá, þeir urðu enn flottari í DVD-pakkanum er ég sá þá í gærkvöldi. Þar er hægt að stilla betra hljóð og finna betri vinkla sem ekki voru til staðar í útsendingu Stöðvar 2 á 060606. Útkoman er tónlistarviðburður sem allir njóta sem meta tónlist Bubba. Það er erfitt að velja uppáhaldskafla tónleikanna en mér fannst þó standa upp úr kaflinn með Utangarðsmönnum og Egó.

Það er ekki laust við að ég hafi saknað eins besta lags Bubba í seinni tíð, lagið Fallegur dagur, en kaflinn með Bubba einum þar sem hann tekur nýjasta smellinn, Grafir og bein, og Rómeó og Júlíu er gríðarlega góður. En í heildina eru þetta auðvitað frábærir tónleikar með mörgum hápunktum sem vert er að njóta í alvöru myndgæðum og klassaumbúnaði sem er á þessari DVD-útgáfu sem er ómissandi í safnið fyrir alla unnendur tónlistar þessa fimmtuga alþýðupoppara.

Ford jarðsunginn 2. janúar - viðhafnarútför í DC

Gerald FordGerald Ford, 38. forseti Bandaríkjanna, sem lést í gærkvöldi, verður jarðsunginn í Washington þann 2. janúar nk. Hann verður kvaddur hinstu kveðju með formlegri viðhafnarjarðarför af sama tagi og Ronald Reagan fékk er hann lést í júní 2004. Mun hann hljóta heiðursvörð og kveðjustund með sama táknræna hættinum og var í tilfelli Reagans árið 2004 og Lyndon B. Johnson árið 1973. Kveðjuathöfn fer fram í Kaliforníu áður en kista hans verður flutt til höfuðborgarinnar á laugardag.

Lík Fords forseta mun liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu bandaríska þinghússins í höfuðborginni, um áramótin, frá laugardegi til þriðjudagsmorguns. Að athöfn lokinni í dómkirkjunni í Washington verður líkkista Fords flutt til Michigan þar sem hann verður jarðsettur á forsetabókasafni sínu síðla þriðjudags. Ford var þingmaður Michigan í fulltrúadeildinni allan sinn þingmannsferil á árunum 1948-1973 og ákvað að þar skyldi hann hvíla. Forsetabókasafn hans var reist í Grand Rapids á níunda áratugnum.

Það er ákvörðun viðkomandi forseta hvort hann þiggur viðhafnarútför, en öllum þeim sem nokkru sinni taka við forsetaembættinu eða hljóta kjörna stöðu sem forseti hafa rétt á slíku. Ford ákvað fyrir þónokkru að hann vildi slíkt, ólíkt forvera hans á forsetastóli, Richard Nixon, sem ákvað frekar lágstemmda útför á forsetabókasafni sínu í Kaliforníu. Ólíkt er þó komið með útför sitjandi forseta, ef hann fellur frá meðan hann gegnir embættinu. Falli sitjandi forseti frá liggur líkkistan á viðhafnarbörum í Hvíta húsinu og hann fær þá heiðursvörð með mun meiri glæsibrag en aðrir forsetar. Það varð auðvitað síðast er John F. Kennedy var myrtur á forsetastóli árið 1963.

Eins og fram hefur komið hér í dag hafði Gerald Ford þá sérstöðu meðal forseta Bandaríkjanna að hljóta forsetaembættið ekki í kosningum meðal landsmanna og hann tapaði einu forsetakosningunum sem hann fór í sem formlegt forsetaefni. Hann sat þó á forsetastóli í tvö og hálft ár og kláraði kjörtímabil Richards M. Nixon, sem varð að segja af sér vegna Watergate-málsins í ágúst 1974.

Hann var staðfestur sem varaforseti af öldungadeildinni í desember 1973 í kjölfar afsagnar Spiro Agnew og varð fyrstur varaforseta Bandaríkjanna sem tilnefndur var handan forsetakosninga í samræmi við 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna. Ford varð elstur allra forseta Bandaríkjanna í 220 ára sögu landsins.


Völva Vikunnar spáir Geir forsæti í ríkisstjórn

Spákona Mikil eftirvænting er jafnan á hverju ári eftir Völvu Vikunnar. Fróðlegt er að kynna sér nýjustu spána. Það verða alþingiskosningar næsta vor og því auðvitað fróðlegast að heyra mat Völvunnar á stjórnmálum. Kemur fram það mat hennar að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði áfram forsætisráðherra í tveggja flokka rikisstjórn á næsta kjörtímabili. Spáir Völvan mörgum nýjum ráðherrum í stjórn Geirs en nefnir ekki hver samstarfsflokkurinn verð.

Völvan spáir Margréti Sverrisdóttur áhrifum og lykilstöðu innan Frjálslynda flokksins og því að Kristinn H. Gunnarsson, núverandi alþingismaður Framsóknarflokksins, gangi til liðs við flokkinn. Þá er talað um að rysjótt veður verði á árinu og að Íslendingar þokist ekki nær inngöngu í Evrópusambandið, svo og að hvalveiðar breyti ekki því að fjöldi ferðamanna komi hingað.

Fróðlegir spádómar hjá Völvu Vikunnar, sérstaklega hvað varðar stjórnmálin. Alþingiskosningar eftir rúma fjóra mánuði og spennan magnast mjög vegna þess. Fróðlegt að sjá hvort Völvan verði sannspá.

Gerald Ford fær viðhafnarútför - pólitísk arfleifð

Gerald Ford Andlát Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna, er helsta fréttin af erlendum vettvangi á þessum degi. Ford varð forseti Bandaríkjanna á umbrotatímum vestanhafs og það varð hans hlutskipti að hefja veg forsetaembættisins til vegs og virðingar að nýju eftir hið umdeilda Watergate-hneyksli sem lagði forsetaferil Richard Nixon í rúst, þrátt fyrir mörg farsæl verk á erlendum vettvangi, og skaðaði Repúblikanaflokkinn gríðarlega um langt skeið. Ákvörðun Fords um að náða Nixon varð sennilega til að koma svo í veg fyrir að hann næði endurkjöri.

Það er vissulega rétt að Ford var aldrei kjörinn af Bandaríkjamönnum, kjósendum sjálfum, til forsetasetu. Hann varð varaforseti í umboði þingsins eftir að Nixon valdi hann og tók svo við forsetaembættinu sjálfu í skugga harkalegra átaka forverans við hæstarétt og þingið í baráttu fyrir að halda völdum. Það er heill kapítuli að fjalla um Watergate-málið, en það verður ekki rakið hér enda tilheyrir það ekki Ford. Þessi merkilegu valdaskipti gera hann sögulega séð mjög merkilegan í ljósi þess að hann vann aldrei forsetakosningar. En hann var áberandi stjórnmálamaður í áratugi.

Ég hef farið yfir meginpunkta stjórnmálaferils Ford hér fyrr á þessum degi. Ég held að merkilegasta arfleifð Fords verði einmitt hversu vel honum tókst að endurreisa veg og virðingu forsetaembættisins eftir Watergate og græða sárin sem voru í þjóðarsálinni. Þegar að Ford varð forseti hafði öll pólitísk umræða verið orðin gegnumsýrð af Watergate, sem var í senn pólitískur örlagavaldur og mesta pólitíska hneyksli seinni tíma. Nixon hafði verið nær fastur í viðjum þess máls, allt annað féll í skuggann. Honum varð ekki sætt og forsetaembættið var undirlagt af átakalínum sem veiktu undirstöður þess. Ford vann merkilegt verk við að snúa vörn í sókn. En það blasir við öllum að hann tók við völdum við erfiðar aðstæður.

Eins og fyrr segir hér á vefnum fær Ford viðhafnarútför, að eigin ósk, en forsetum í sögu Bandaríkjanna býðst það. Oftast nær ákveður viðkomandi forseti þá tilhögun mála áður en hann deyr. Það verður í þriðja skiptið í tæp 34 ár sem slík athöfn fer fram. Lyndon B. Johnson, forseti, var kvaddur með viðhöfn í Washington er hann lést í janúar 1973 og 31 ári síðar var Ronald Reagan, forseti, kvaddur með sama hætti. Richard Nixon afþakkaði viðhafnarútför á sínum tíma og var kvaddur með athöfn á forsetabókasafni sínu í Kaliforníu þegar að hann lést árið 1994. Það verður nú fróðlegt að sjá hversu mikill umbúnaður verður utan um útför Fords, en útför Reagans var með öllum þeim glæsibrag sem mögulegt var.

Lík Fords mun liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda væntanlega fyrir vikulok, rétt eins og Reagan áður. Það eru nú rúm tvö ár síðan að ég fór í bandaríska þinghúsið og í hvelfinguna fyrrnefndu í för minni til Bandaríkjanna. Það var vissulega mikil upplifun að fara í bandaríska þinghúsið og skoða þennan merka stað. Þar angaði allt af sögu, en þinghúsið er stórglæsileg bygging, svo vægt sé til orða tekið og þar er hver hlutur táknmynd sögunnar.

mbl.is Bush segir Ford hafa verið mikilhæfan Bandaríkjamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt pólitísk hlutverk Kristjáns Þórs

Kristján Þór Júlíusson Á afmælisdegi mínum fyrir ári, 22. desember 2005, gaf Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, út yfirlýsingu um leiðtogaframboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 11. febrúar 2006. Með þeirri yfirlýsingu lauk orðrómi um að Kristján Þór hyggðist jafnvel gefa kost á sér í sæti neðar á listanum en hið fyrsta og jafnframt ljóst að Kristján Þór sæktist eftir að verja leiðtogasætið sem hann hafði haft í tvennum kosningum af hálfu flokksins. Í bæði skiptin var listanum stillt upp með hann sem leiðtoga og bæjarstjóraefni. Nú vildi hann umboð til leiðtogastarfa í prófkjöri.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í febrúar á þessu ári varð nokkuð sögulegt í huga margra sjálfstæðismanna hér. Ég hafði hugsað mér að fara frekar yfir það áður en árinu lýkur og vík betur að því sem þar gerðist þá. Í þessu prófkjöri nefndu tveir frambjóðendur; Elín Margrét Hallgrímsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson, fyrsta sætið sem möguleika, en þau höfðu gefið út framboðsyfirlýsingu fyrir tilkynningu Kristjáns Þórs tveim dögum fyrir jól. Í prófkjörinu hlaut Kristján Þór fyrsta sætið með afgerandi hætti og hlaut bindandi kosningu auk Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur. Í kosningunum í maí tókst flokknum naumlega að verja sína fjóra bæjarfulltrúa.

Nú ári eftir þessa yfirlýsingu Kristjáns Þórs um að leiða Sjálfstæðisflokkinn blasa við starfslok hans í embætti bæjarstjóra og pólitísk vistaskipti. Hann mun láta af embætti bæjarstjóra á bæjarstjórnarfundi eftir þrettán daga og þá tekur Sigrún Björk við embættinu og Kristján Þór verður forseti bæjarstjórnar. Við blasa því þáttaskil í bæjarmálunum eftir níu ár Kristjáns Þórs á bæjarstjórastóli. Það er enginn vafi á því að bæjarstjórnarkosningarnar hér í vor voru erfiðar fyrir okkur sjálfstæðismenn. Við rétt mörðum að halda okkar hlut og munaði mjög litlu að fjórði maðurinn færi fyrir borð. Meirihlutinn féll og öllum ljóst að ekki yrði myndaður meirihluti án aðkomu annars vinstriflokkanna. Um tíma benti flest til hreins vinstrimeirihluta, en það varð sem betur fer ekki.

Það er öllum ljóst að hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki barist af krafti síðustu dagana fyrir kosningarnar hefði fjórði maðurinn farið fyrir borð og enginn hefði við okkur talað um meirihlutamyndun. Það er bara þannig. Þetta var varnarsigur miðað við skoðanakönnun örfáum dögum fyrir kosningar, en það var líka unnið hörðum höndum síðustu sólarhringana. Ég hef aldrei farið leynt með að listinn sem við buðum upp á í vor höfðaði ekki til allra hópa með þeim hætti sem þurft hefði, ef vel hefði átt að vera. Sú útkoma að hafna öllum ungliðum til framboðs í öruggt sæti varð okkur erfið og kostaði okkur mörg atkvæði ungs fólks sem fór á aðra flokka í meira mæli. Efsti ungliðinn var í áttunda sæti, sem er fjórða varasæti okkar nú.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að við hefðum náð betri árangri með ferskari fulltrúa ofar, í fjórða eða fimmta sætinu. Þetta var þungur listi í kynningu og það sást betur eftir því sem á leið. En það er eins og það er bara. Menn tóku þennan valkostinn að þessu sinni og ekki fiskaðist betur þarna. En það leiddi líka til veikari stöðu flokksins og við misstum frá okkur oddastöðu okkar og höfðum ekki góða samningsstöðu. Við gáfum eftir með allt kjörtímabilið, enda ekki við það semjandi við Samfylkinguna að bæjarstjórastóllinn væri okkar til ársins 2010. Við það voru örlög Kristjáns Þórs í bæjarmálum í raun og sann ráðin. Það var þannig.

Kristján Þór er að halda á vettvang landsmálanna og leiðir listann þar í vor. Það verður fylgst vel með frammistöðu okkar þar og jafnframt hvernig að Sigrúnu Björk gengur sem bæjarstjóra. Það eru viss þáttaskil framundan fyrir okkur sjálfstæðismenn sem verður fróðlegt með að fylgjast næstu vikur og mánuði.

Gerald Ford látinn

Gerald Ford Gerald Ford, 38. forseti Bandaríkjanna, er látinn. Hann lést í gær, á öðrum degi jóla, 93 ára að aldri, á heimili sínu að Rancho Mirage í Kaliforníu. Gerald Ford var elstur allra forseta í sögu Bandaríkjanna. Þann 12. nóvember sl. sló hann aldursmet Ronald Reagan, forseta, sem var 93 ára er hann lést í júní 2004. Ford lifði 44 dögum lengur en Ronald Reagan. Gerald Ford hefur þá merkilegu sérstöðu meðal 43 forseta í sögu Bandaríkjanna að hafa aldrei verið kjörinn til forsetaembættisins af kjósendum.

Gerald Ford á að baki stormasaman pólitískan feril og tók við forsetaembættinu á erfiðum tímum, bæði fyrir þjóðina og Repúblikanaflokkinn. Hann var þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni fyrir Michigan á árunum 1949-1973. Nær allan feril sinn þar voru repúblikanar í minnihluta, þeir náðu ekki meirihluta að nýju fyrr en árið 1994, og það með sögulegum hætti, en misstu hann aftur í nóvember 2006. Ford var leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni á árunum 1965-1973. Árið 1973 sagði Spiro Agnew, varaforseti í stjórn Richard M. Nixon, forseta, af sér embættinu vegna hneykslismála. Nixon ákvað að tilnefna Ford sem nýjan varaforseta (sá fyrsti tilnefndur í ljósi 25. greinar stjórnarskrár) og var hann staðfestur af öldungadeildinni í desember 1973.

Á þeim tíma sem Ford tók við varaforsetaembættinu var um fátt meira talað um Watergate-hneykslið, mál sem tengdist inn í helstu innviði stjórnkerfisins. Skref fyrir skref veikti málið sífellt stöðu Nixons forseta og lykilsamherja hans. Að því kom að sannanir sýndu svo ekki var um villst að Nixon vissi af málinu áður en hann hafði sagt áður. Honum varð ekki sætt eftir að þingið ákvað að stefna honum fyrir embættisafglöp og flest benti til að hann yrði rekinn frá embætti með skömm. Hann sagði af sér þann 9. ágúst 1974 og með því varð Ford fyrsti forseti Bandaríkjanna sem aldrei hafði verið kjörinn af landsmönnum sem forseta- eða varaforsetaefni. Hann tók við erfiðu búi. Stjórnkerfið var lamað vegna hneykslismála og erfiðleika.

Ford ákvað að náða Nixon skömmu eftir afsögn hans. Það olli miklum deilum og leiddi til óvinsælda forsetans sem náði aldrei að hrista skuggann af sér. Ford þótti vandvirkur stjórnmálamaður og standa sig vel miðað við flóknar aðstæður í forsetaembættinu, en hans biðu miklir erfiðleikar og lömuð ríkisstjórn hvað almenningsálitið varðaði, enda höfðu bæði forsetinn og varaforsetinn sem kjörnir voru í kosningunum 1972 hrökklast frá vegna alvarlegra hneykslismála. Staðan var breytt og forsendur mála við forsetakjörið 1972 hafði algjörlega breyst, enda hvorugur þeirra sem þá hlutu kjör eftir í embættum sínum. Tvisvar var reynt að ráða hann af dögum á forsetaferlinum.

Ford gaf kost á sér í forsetakosningunum 1976. Það gekk þó ekki auðveldlega fyrir hann að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans, en hann tókst á við Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóra í Kaliforníu, um útnefninguna og hafði betur eftir harðan slag. Forsetatign Fords réði þar úrslitum. Reagan átti síðar eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum forsetakosningum árið 1980, elstur forseta við völd og sat í átta ár. Ford valdi Bob Dole (sem varð forsetaefni repúblikana árið 1996) sem varaforsetaefni sitt. Tókst Ford á við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, um embættið. Vann Carter nauman sigur á forsetanum eftir tvísýna og spennandi atkvæðatalningu.

Gerald Ford vék úr sviðsljósi stjórnmálanna, eftir tapið í forsetakosningunum 1976, er hann lét af embætti þann 20. janúar 1977, er kjörtímabili Richards M. Nixon lauk formlega. Til greina kom þó við forsetakosningarnar 1980 að Ronald Reagan myndi velja Ford sem varaforsetaefni sitt. Svo fór ekki og Reagan valdi George H. W. Bush í staðinn. Það er sennilega kaldhæðni örlaganna að eftir að Carter lét af embætti árið 1981, eftir að hafa tapað fyrir Reagan, urðu þau Gerald og Betty Ford perluvinir Jimmy og Rosalynn Carter.

Heilsa Ford var jafnan upp á hið allra besta. Hann fékk vægt heilablóðfall á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Philadelphiu í Pennsylvaníu-fylki í ágúst 2000 og heilsu hans hrakaði jafnt og þétt eftir það. Þrátt fyrir að hann næði fullri fótavist eftir þau veikindi varð hann aldrei samur á eftir. Ford forseti kom ekki fram opinberlega síðustu mánuði ævi sinnar og var oft lagður inn á sjúkrahús síðasta hálfa árið með ýmis heilsufarsleg vandamál. Síðast kom hann fram opinberlega er Bush forseti heimsótti hann í vor á heimili sitt.

Ford forseti kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Betty Ford, í október 1948. Þau eignuðust fjögur börn. Hún tilkynnti formlega um lát eiginmanns síns í yfirlýsingu frá heimili þeirra, en þar lést Ford í faðmi fjölskyldu sinnar í gær. Laust eftir miðnættið sendi George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, út yfirlýsingu vegna andláts Fords forseta og hann mun ávarpa þjóðina frá Hvíta húsinu nú í morgunsárið.

Gerald Ford fór fram á viðhafnarútför þónokkru fyrir lát sitt og mun hann því liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda í þinghúsinu í Washington, líkt og Reagan í júní 2004, síðar í þessari viku væntanlega og verða jarðsunginn í dómkirkjunni í Washington. Gerald Ford hafði farið fram á að hann yrði jarðsettur við forsetabókasafn sitt í Grand Rapids í Michigan-fylki, heimafylki sínu, löngu fyrir lát sitt.

Gera má ráð fyrir að útför Ford forseta verði gerð frá Washington á laugardag eða strax eftir áramótin, en væntanlega verður hún fyrir 3. janúar, er þing á að koma aftur saman.

Æviágrip Gerald Ford á vef Hvíta hússins

mbl.is Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband