Kristján Þór hætti vegna þrýstings frá Samfylkingu

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, upplýsir í kvöld á heimasíðu sinni að hann hafi ákveðið að láta af starfi bæjarstjóra í upphafi nýs árs vegna þrýstings frá Samfylkingu, samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar frá því í júní. Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá 9. júní 1998 og var þá gerður við hann ráðningarsamningur sem endurnýjaður var án teljandi breytinga eftir kosningarnar 2002 og 2006. Sú staða var þó breytt eftir kosningarnar í vor að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið.

Orðrétt segir Kristján Þór á vef sínum: "Það að ég hætti störfum sem bæjarstjóri fyrr en samningurinn um meirihlutasamstarfið kveður á um, er sameiginleg ákvörðun meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfsflokkur okkar sjálfstæðismanna gerði þá kröfu að ég léti af starfi bæjarstjóra Akureyrar í kjölfar þess að ég hefði sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Samfylkingunni fannst það ekki ásættanlegt að ég gegndi starfi bæjarstjóra á sama tíma og ég leiddi lista sjálfstæðismanna í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningarnar á komandi vori.

Ég varð með öðrum orðum að afsala mér starfinu sem fyrst í kjölfar prófkjörsins svo meirihlutinn héldi í stað þess að gegna starfinu lengur. Þegar ég nú hyggst láta af störfum, eftir 9 ár í embætti bæjarstjóra er rétt að árétta að samningur minn um kaup og kjör, og þar með talin biðlaun, byggir á samningi sem var undirritaður árið 1998 en framlengdur tvívegis, 2002 og 2006. Slíkur samningur var fyrst undirritaður á Akureyri fyrir meira en 20 árum og ég er síst að fá meira í minn hlut en forverar mínir í embætti eða aðrir einstaklingar sem gegnt hafa hliðstæðu embætti í öðrum lykilsveitarfélögum landsins.

Ég mun láta af embætti sem bæjarstjóri á Akureyri þann 9. janúar n.k. Ég hef uppfyllt öll ákvæði ráðningarsamnings míns og veit að vinnuveitandi minn Akureyrarbær mun gera slíkt hið sama gagnvart mér, eins og hann hefur undantekningalaust gert gagnvart forverum mínum í starfi  svo og öllum öðrum starfsmönnum sínum sem rétt hafa átt til biðlauna."

Skv. þessu má skilja sem svo að Kristján Þór muni þiggja þau sex mánaða biðlaun sem samningur hans segir til um. Í ljósi þess að Samfylkingin gerði kröfu um að hann hætti sem bæjarstjóri og hann gerði það til að tryggja að meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar gæti setið áfram með eðlilegum hætti er ekki óeðlilegt að hann þiggi þessi biðlaun að mínu mati.

Umræðan um biðlaun Kristjáns Þórs

Kristján Þór Um fátt hefur meira verið talað síðustu dagana hér en biðlaun Kristjáns Þórs Júlíussonar, fráfarandi bæjarstjóra. Hann lætur af embætti þann 9. janúar nk. eftir að hafa gegnt embættinu í tæp níu ár. Á hann inni sex mánaða biðlaun. Sitt sýnist hverjum um það. Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi Lista fólksins, hefur haft hátt um þessi starfslok og kallað þau siðleysi og allt þar fram eftir götunum, þó ekki sé einu sinni vitað hvort Kristján Þór þiggi þau.

Um er að ræða starfslok eftir ráðningarsamningi sem báðir meirihlutaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, standa að og kom til sögunnar samhliða samkomulagi þessara flokka um samstarf á kjörtímabilinu í júnímánuði að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hafa bæði Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, sagst samþykk samningnum, enda varla furða þar sem þau sömdu við Kristján Þór fyrir hönd meirihlutans og verða sjálf bæjarstjórar hér á kjörtímabilinu, af hálfu flokka sinna.

Mér finnst merkilegt að heyra minnihluta bæjarstjórnar reyna að tortryggja biðlaunasamning af þessu tagi. Akureyrarbær er ekkert einn um það að semja um biðlaun við sinn bæjarstjóra og við erum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Ég vil nú benda á að valdataka nýs vinstrimeirihluta í Árborg tryggir að þrír bæjarstjórar verða á launum í desember; bæjarstjóri síðasta vinstrimeirihluta, fráfarandi meirihluta og nýr bæjarstjóri vinstrimeirihlutans. Svo að þeir sem nöldra hér um stöðu mála við að bæjarstjóri í tæpan áratug hætti og eigi inni nokkurra mánaða biðlaun ættu að líta til Árborgar og eða annarra sveitarfélaga, enda er hugtakið biðlaun ekki fundið upp hér.

Mér finnst minnihlutafulltrúi á borð við Odd Helga vega með ómaklegum og ódrenglyndum hætti að Kristjáni Þór og persónu hans með orðavalinu sem hann valdi að koma fram með í viðtali við Björn Þorláksson um daginn á N4. Illvild Odds Helga í garð Kristjáns Þórs Júlíussonar er ekki ný af nálinni og þeir sem með bæjarmálum hér fylgjast kippa sér varla upp við það. Skemmst er að minnast að hann var eini bæjarfulltrúinn á Akureyri sem varð fúll með landsmálaframboð Kristjáns Þórs, enda athyglisvert enda hefur Kristján Þór aldrei sótt neitt pólitískt umboð til Lista fólksins né viljað starfa með þeim.

Svona tækifærismennska er ekki ný af nálinni frá Lista fólksins og fáir kippa sér upp við það, í raun, þó vissulega séu biðlaun almennt séð umdeild. En ég endurtek að biðlaun voru ekki fundin upp hér og varla finna menn upphaf þess að sitjandi bæjarstjóri njóti biðlaunaréttar hér á þessum stað, þó einstakur sé að flestu leyti.


Listi Sjálfstæðisflokksins í Kraganum samþykktur

Sjálfstæðisflokkurinn Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi var samþykktur á kjördæmisþingi flokksins í Valhöll fyrr í þessum mánuði. Stillt var upp á listann í kjölfar prófkjörs í kjördæminu sem fram fór 11. nóvember sl. Mikil endurnýjun er í efstu sætum frá síðustu þingkosningum, en aðeins tveir sitjandi þingmenn eru í öruggum þingsætum á framboðslistanum.

Í kosningunum 2003 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn fimm menn kjörna í Suðvesturkjördæmi og er stærstur flokka þar og því er Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fráfarandi leiðtogi flokksins, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Hann leiðir nú lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörin nýr leiðtogi í Kraganum í prófkjörinu.

Athygli vekur að Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður, sem hlaut sjöunda sætið í prófkjörinu er ekki í því sæti á framboðslistanum. Hún skipar 22. sætið, eitt heiðurssætanna, og er því á útleið af Alþingi að vori. Hún mun því helga sig bæjarmálum í Kópavogi. Í komandi kosningum fjölgar þingmönnum kjördæmisins um einn, úr 11 í 12, á kostnað Norðvesturkjördæmis.

Listinn er skipaður eftirtöldum:

1. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Hafnarfirði.
2. Bjarni Benediktsson, alþingismaður, Garðabæ.
3. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi, Kópavogi.
4. Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, Kópavogi.
5. Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Garðabæ.
6. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri, Mosfellsbæ.
7. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi, Hafnarfirði.
8. Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður, Mosfellsbæ.
9. Pétur Árni Jónsson, ráðgjafi, Seltjarnarnesi.
10. Sigríður Rósa Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi, Álftanesi.
11. Sjöfn Þórðardóttir, verkefnastjóri, Seltjarnarnesi.
12. Þorsteinn Þorsteinsson, skólameistari, Garðabæ.
13. Örn Tryggvi Johnsen, vélaverkfræðingur, Hafnarfirði.
14. Guðni Stefánsson, stálvirkjameistari, Kópavogi.
15. Gísli Gíslason, lífeðlisfræðingur, Álftanesi.
16. Stefanía Magnúsdóttir, varaformaður VR, Garðabæ.
17. Valgeir Guðjónsson, tónlistarmaður, Seltjarnarnesi.
18. Hilmar Stefánsson, nuddari, Mosfellsbæ.
19. Elín Ósk Óskarsdóttir, óperusöngkona, Hafnarfirði.
20. Guðrún Edda Haraldsdóttir, markaðsstjóri, Seltjarnarnesi.
21. Almar Grímsson, bæjarfulltrúi, Hafnarfirði.
22. Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður og bæjarfulltrúi, Kópavogi.
23. Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri, Kópavogi.
24. Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og fyrrverandi umhverfisráðherra, Mosfellsbæ.

mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn birtir framboðslista í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraskipti - breytingar hjá Akureyrarbæ

Kristján ÞórÞað er alveg óhætt að fullyrða það að nokkur þáttaskil fylgi því að Kristján Þór Júlíusson láti af embætti bæjarstjóra eftir mánuð, í upphafi nýs árs. Kristján Þór hefur verið áberandi í sveitarstjórnarmálum í tvo áratugi og leitt Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri í áratug. Eftir níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs er vissulega margs að minnast. Þetta hefur verið líflegt tímabil í sögu Akureyrarbæjar sem hefur markast af öflugum framkvæmdum og líflegum verkefnum.

Það verður seint sagt um bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs að þar hafi verið ládeyða og rólegheit, en framkvæmdir síðasta áratugar á valdaferli Sjálfstæðisflokksins, með samstarfsflokkum hans, tala alveg sínu máli. Það er og líka verðugt verkefni að líta á stöðu Akureyrarbæjar nú þessi níu árin og það sem var fyrir júnímánuð 1998, þar sem kyrrstaða var einkunnarmerki að mörgu leyti.

Kristján Þór heldur nú á vit nýrra verkefna – hann hefur verið kjörinn eftirmaður Halldórs Blöndals sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Það er að verða nokkuð ljóst nú að Kristján Þór verður eini Akureyringurinn sem leiðir framboðslista af hálfu stjórnmálaaflanna í kjördæminu í komandi þingkosningum. Það er styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa tryggt vægi Akureyringa á þingi á komandi kjörtímabili.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem verður undir forystu Kristjáns Þórs, verður að teljast mjög sigurstranglegur. Hann er leiddur af Akureyringi, tvær konur að austan skipa næstu tvö sæti og baráttusætið, það fjórða, skipar Þorvaldur Ingvarsson, læknir. Þetta er sterk og öflug blanda að mínu mati. Enda sannkölluð draumauppstilling, eins og varaformaður flokksins orðaði það svo vel.

Það verða nýjir tímar hjá Akureyrarbæ. Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri, er fyrsta konan á bæjarstjórastóli í sögu Akureyrarkaupstaðar. Það verður fróðlegt að sjá til verka Sigrúnar Bjarkar í embætti bæjarstjóra. Hún mun gegna embættinu í 30 mánuði, eða þar til að Hermann Jón Tómasson verður bæjarstjóri síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningar. Það er vissulega nokkuð merkileg staðreynd að þrír bæjarstjórar verði hér á kjörtímabilinu.

Það er að mínu mati ekki hollt fyrir bæinn, eftir að hafa lifað við þann stöðugleika sem fylgt hefur sama bæjarstjóranum í tæplega níu ár. Ég vil stöðugleika og uppbyggingu með verkum sem skilja eitthvað eftir sig. Það eru viss hættumerki á lofti að með svo tíðum skiptum komi upp andi óstöðugleika. Vona ég að sú staða komi ekki upp, þó að sporin hræði sé litið til tíðra borgarstjóraskipta í Reykjavík.

Þær sögusagnir höfðu heyrst eftir kosningarnar í vor að Kristján Þór myndi ganga á bak orða sinna og segja skilið við bæjarmálin með væntanlegu þingframboði. Þeim hinum sömu hefur væntanlega brugðið í brún að á sömu stund og starfslok Kristjáns Þórs voru kynnt var jafnframt opinberað að Kristján Þór yrði forseti bæjarstjórnar í stað Sigrúnar Bjarkar. Verður hann fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem jafnframt verður forseti bæjarstjórnar.

Það er líklegt að Kristján Þór verði mun áhrifameiri og meira sýnilegur sem forseti bæjarstjórnar heldur en forverar hans í því embætti, t.d. Þóra Ákadóttir og Sigrún Björk, enda er hann kjörinn leiðtogi annars samstarfsflokksins. Greinilegt er með þessu að Kristján Þór ætlar að vera áfram áberandi á vettvangi bæjarmálanna, þó auðvitað með öðrum hætti sé en áður var.

Það hefur ekki mikið reynt, enn sem komið er, á meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mitt mat strax á kosninganótt að þetta væri eina starfhæfa samstarfsmynstrið í kortunum. Sumt hefur gengið betur en annað hjá þessum meirihluta. Heilt yfir finnst mér losarabragur hafa einkennt þennan meirihluta og tel tíð bæjarstjóraskipti framundan á vegferðinni fram til næstu kosninga vorið 2010 visst áhyggjuefni.

Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra með tímamæli fyrir framan sig. Það er oft eflandi til verkefna, stundum mjög uppáþrengjandi. Sumt hjá þessum meirihluta hefur verið frekar lítt traustvekjandi. Þar vísa ég fyrst og fremst til þess að hann hefur ekki náð að slípa sig vel saman og virkar sundurlaus á tíðum, bæði í skoðunum og verklagi. Sum mál verða þar ofar á baugi en önnur.

Það er kannski eðlilegt að það taki tíma að marka þessum meirihluta grunn. Það skrifast að mörgu leyti á það að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans, fráfarandi og verðandi bæjarstjóri, höfðu setið í bæjarstjórn fyrir kosningarnar í vor. Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta flokkanna að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Þar komu vissir nýjir tímar fram.

Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd, auk tómstundamálum var skeytt saman í eina nefnd, samfélags- og mannréttindaráð, og menningarmálanefnd lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar var færð undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og heitir Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Samhliða þessu var embætti bæjarritara endurvakið og hann skipaður ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra voru lögð niður. Ég er einn þeirra sem hef verið svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið.

Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið.

Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum. Þetta er mín skoðun, sem vel hefur komið fram áður og rétt er að endurtaka á þessum vettvangi.

Sem flokksbundinn sjálfstæðismaður mun ég fylgjast með verkum þessa meirihluta af áhuga næstu 42 mánuðina, fram til kosninga vorið 2010. Þetta kjörtímabil er rétt að hefjast, en það markast nú þegar af miklum breytingum hjá Akureyrarbæ. Þeirra stærst eru auðvitað endalok bæjarstjóraferils Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Það verða einhverjir aðrir að skrifa sögu þess tíma, en ég tel að verkin og framkvæmdirnar á þessum árum tali sínu máli. Það er vonandi að þessum meirihluta gefist að vinna jafnvel og öflugt í þágu bæjarbúa allra undir forystu Sigrúnar Bjarkar og Hermanns Jóns á bæjarstjórastóli það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Farsæld þessa meirihluta og flokkanna sem skipa hann markast af verkunum og hvernig þessum flokkum gengur að vinna saman. Betur má ef duga skal eigi vel að fara, segi ég og skrifa.


Pistill eftir mig sem birtist á www.pollurinn.net í dag, 5. desember 2006.


Suðurlandsveg verður að tvöfalda

Suðurlandsvegur Mann setti alveg hljóðan við fregnir af banaslysinu á Suðurlandsvegi um helgina. Þar létust fimm ára stelpa og karlmaður á þrítugsaldri. 54 hafa nú látið lífið í umferðinni á Suðurlandsvegi frá árinu 1972. Öllum er ljóst að tvöfalda verður þessa miklu hraðbraut milli Reykjavíkur og Selfoss.

Ég hvet alla til að smella á sudurlandsvegur.is og skrifa þar undir áskorun til samgönguráðherra um að tvöfalda Suðurlandsveg, án tafar. Árið 2006 er sorglegt í umferðinni. 27 hafa látist í umferðarslysum á árinu. Þeir voru 19 í september er átakið "Nú segjum við stopp" hófst.

Þetta er sorgleg þróun, sem okkur öllum ber skylda til að reyna að snúa við.

mbl.is 2.000 undirskriftir frá laugardegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sápuóperan í Frjálslynda flokknum

Guðjón Arnar Kristjánsson Það er orðið alveg kostulegt að fylgjast með valdabaráttunni í Frjálslynda flokknum. Þetta er að verða eins og að horfa á dúndurskammt af bandarískri sápuóperu á prime time. Í kvöld var Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, í Kastljósviðtali og var að reyna að svara fyrir sig og þingmennina sem greinilega eru orðnir hundfúlir á Sverri og Margréti.

Merkilegustu tíðindi viðtalsins var óneitanlega þau ummæli formannsins að Margrét Sverrisdóttir hefði ekki verið rekin sem framkvæmdastjóri þingflokksins, heldur hefði henni bara verið sagt upp með tilhlýðilegum uppsagnarfresti. Ekki veit ég hverju Guðjón vandist á sjónum en síðast þegar ég vissi var uppsögn sama eðlis, hvort sem fólk vinnur uppsagnarfrest eður ei. Lítill munur þar á.

Í dag var Magnús Þór Hafsteinsson að spila sig gleiðan í hádegisviðtali fréttastofu Stöðvar 2. Mesta athyglina vakti þar að honum fannst það stórtíðindi að Margrét hefði vogað sér að tilkynna um áhuga eða metnað í þá átt að annaðhvort leiða flokkinn á kosningavetri eða sparka honum sem varaformanni og taka sess hans. Það teljast engin tíðindi.

Fyrir síðustu kosningar gerðu flestir ráð fyrir því að Margrét vildi leiða flokkinn og oftar en einu sinni hefur verið rætt um að Margrét færi í varaformannsframboð. Síðast tryggði hún Magnúsi Þór endurkjör í baráttu við Gunnar Örlygsson. Magnús Þór hefur alltaf verið í hálfgerðum ribbaldahasar í sinni pólitík, svo fáum er tekið að bregða við vinnubrögð hans við að snúa stöðunni á hvolf.

Margrét Sverrisdóttir Staðan í Frjálslynda flokknum er greinilega orðin gríðarlega flókin. Guðjón Arnar og skósveinar hans í þingflokknum hafa greinilega ekki séð fyrir þau viðbrögð sem urðu þegar að þeir ráku Margréti frá störfum fyrir þingflokkinn með kuldalegum hætti. Fjölmiðlaumfjöllun hefur verið Margréti í hag, enda varla furða miðað við alla stöðu mála.

Það að ætla að reyna telja fólki trú um að það að reka tryggan framkvæmdastjóra, og þar að auki dóttur stofnanda flokksins, frá störfum með hranalegum hætti og gegn hennar vilja sé góðverk í hennar þágu er enda eitthvað sem enginn skilur í raun. Það er varla furða. En valdabaráttan er að verða ansi beitt þarna og ýmsum ráðum beitt.

Þessi valdabarátta hefur grasserað greinilega mjög lengi undir niðri og er orðin verulega harðskeytt. Valdabaráttan í Framsóknarflokknum á þessari stundu verður einhvernveginn sem hin mildasta Disney-mynd miðað við þetta, enda eru þarna stofnandi flokksins og armur hans að berjast við þingflokkinn og félaga þeirra sem nýlega eru munstraðir á skipið.

Það er það merkilegasta við þetta allt að þetta fólk er á leið í kosningabaráttu og þarf að vinna saman og þá varla talast það við. Það er andi klofnings og valdaerja þarna í loftinu og varla er það efnilegt í byrjun kosningavetrar. Enda leggur enginn peningana sína undir það að þetta fólk geti unnið trúverðugt saman úr þessu.

mbl.is Sagði forseta þingsins leggja Frjálslynda flokkinn í einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband