Kærar þakkir fyrir vináttuna

Stefán Friðrik

Síminn hefur varla stoppað hjá mér síðan á ellefta tímanum í gærkvöldi. Vinir mínir, allsstaðar af um landið og jafnvel utan úr heimi, hafa hringt í mig til að ræða stöðu mála. Ungliðar (vinir mínir) um allt land eru að leita einhverra skýringa á því af hverju sjálfstæðismenn á Akureyri hafna mér og mínum verkum - umfram allt hafna ungliðum í þessu prófkjöri. Hvað hafi gerst í prófkjörsslagnum hér undanfarnar vikur - hversvegna forystu flokksins hér í bæ hafi ekki borið gæfa til að styðja okkur. Spurningar eru mjög margar - en ég hef engin svör.

Yfir mig hefur rignt tölvupósti og SMS-skeytum. Ég á greinilega góða vini - vini sem þykja vænt um mig. Ég vildi bara skrifa og segja: takk fyrir allt! Ég veit núna hverjir eru vinir í raun! Sorglegt að segja að þá veit ég líka enn betur eftir þennan prófkjörsslag hverjir eru viðhlæjendur manns. Ég lærði margt á þessum prófkjörsslag - við skulum orða það þannig bara. Fyrst og fremst þekki ég orðið vinátta betur núna. Sannir vinir eru ómetanlegir! Þeir sem hafa haft samband munu alltaf verða hátt skrifaðir í mínum huga.

Stebbi


stebbifr@simnet.is


Ungliðum hafnað í prófkjöri á Akureyri

Stefán Friðrik

Úrslit eru nú ljós í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa haft samband við mig í kvöld í kjölfar þeirra úrslita - það met ég mjög mikils. Vinátta sannra vina er einstök og engin orð eru mér nógu góð held ég til að lýsa henni vel á þessari stundu. Eftir stendur að ungliðastarfinu sem ég hef leitt í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var hafnað í dag í þessu prófkjöri - niðurstaðan er pent orðuð þannig að ungliðum í Sjálfstæðisflokknum var hafnað hér á Akureyri í dag. Eiginlega er það dapurlegra en orð fá lýst. Vegna þess að ég og annar ungliði slógumst um sömu sæti föllum við báðir niður og hröpum listann á enda. Ég verð greinilega verr úti.

Ég tek þessum úrslitum eins og þau eru. Ég vil þakka þeim sem studdu mig til verka hér. Ég stefndi hátt því að ég vildi að ungt fólk kæmist hér til forystu. Okkur var hér hafnað og ekkert sem hægt er að gera í því nema taka því af karlmennsku. Ég hefði getað stefnt á neðri sætin af þeim sem kosið var um og náð með því betri árangri. En þetta er eins og það er og þessi áhætta varð mér dýrkeypt. Verst af öllu er að eldra fólkið í flokknum studdi ekki okkur ungliðana. Það sést eiginlega allra best á því að í 13 efstu sætunum er yngsti aðilinn 36 ára gömul. Þetta er sannkallað kjaftshögg fyrir okkur ungliðana - okkur er alveg hafnað af þeim eldri.

Hinsvegar mun ég íhuga stöðu mína vel í kjölfarið. Tek ég mér nú gott hlé frá skrifum og huga að sjálfum mér næstu dagana. Satt best að segja er margt skemmtilegra en pólitík.

Stefán Friðrik Stefánsson


stebbifr@simnet.is


Bloggfærslur 12. febrúar 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband